Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2022 Vellir

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 25. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 89/2022, kæra á ákvörðun byggðaráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir dánarbú A eigandi 60% eignarhlutar í jörðinni Bakkavelli, þá ákvörðun byggðaráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti til skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra hinn 9. júní 2022 var fyrir hönd eigenda jarðarinnar Bakkavallar athygli vakin á því hafin væri vegalagning í landi þeirra. Óskað var eftir upplýsingum um hvort gefið hefði verið út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum og þess krafist að þær yrðu stöðvaðar tafarlaust. Skipulags- og byggingarfulltrúi svaraði erindinu 10. s.m. og upplýsti að lögð hefði verið fram umsókn um framkvæmdaleyfi. Á fundi skipulagsnefndar 20. s.m. var tekin fyrir umsókn eigenda jarðarinnar Vallar 1 um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundahúsabyggð jarðarinnar, en afgreiðslu málsins var frestað. Staðfesti byggðaráð þá afgreiðslu á fundi sínum 23. s.m. en á fundi ráðsins 7. júlí s.á. var umsóknin samþykkt með vísan til fyrirliggjandi gagna.

Kærandi telur ljóst að hið kærða framkvæmdaleyfi feli í sér lagningu vega í þinglýstu landi hans og því beri að stöðva framkvæmdir, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Framkvæmdirnar hafi hafist áður en leyfi hafi verið gefið út, standi yfir á þeim tímapunkti sem kæra sé lögð fram og séu langt komnar. Brýnt sé að stöðva þær áður en frekari skaði verði unnin á landi kæranda með afleiddu fjártjóni.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ágreiningur málsins eigi fyrst og fremst rót sína að rekja til deilna um eignarhald á landi. Tæpast sé um það ágreiningur að það sé ekki á valdi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að skera úr deilum um eignarrétt að landi heldur eigi slíkar deilur undir dómstóla.  Þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að taka til greina kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Hitt skipti þó enn meira máli að hin kærða framkvæmd mun vera yfirstaðin og yrði stöðvun framkvæmda því marklaus.

Leyfishafi bendir á að framkvæmdum sé lokið og hafi verkið verið unnið samkvæmt framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1, en kærandi telur að hluti framkvæmdanna fari fram á landi hans. Í kæru kemur fram að framkvæmdir séu langt á veg komnar og í athugasemdum leyfishafa er upplýst að þeim sé lokið. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna ákvörðunar byggðaráðs Rangárþings eystra frá 7. júlí 2022 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vega í nýrri frístundabyggð á jörðinni Velli 1.

90/2022 Arctic Sea Farm

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 25. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 90/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 14. júlí 2022 um að breyta starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða, hvíldartíma og heimild til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 12. ágúst 2022, kærir eigandi Efri-Tungu II og eigandi helmings hlutar í Efri-Tungu, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 14. júlí 2022 að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða, hvíldartíma og heimild til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að synja umsókn leyfishafa um breytingu á starfsleyfi. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða þeirrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 23. ágúst 2022.

Málavextir: Skipulagsstofnun barst tilkynning 16. október 2020 frá Arctic Sea Farm ehf. og Fjarðalax ehf. um fyrirhugaða breytingu á eldissvæðum þeirra í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í breytingunni fólst tilfærsla á þremur eldissvæðum auk nýs eldissvæðis er nefnt var Háanes og mun liggja beint út af Örlygshöfn. Sömu félög sendu svo tilkynningu til Skipulagsstofnunar 11. maí 2021 um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma á eldissvæðum þeirra til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. áðurnefnda 6. gr. laga nr. 106/2000.  Þá tilkynnti Arctic Sea Farm hinn 16. september 2021 um breytt fyrirkomulag á eldissvæðum þess í Patreksfirði. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindra tilkynntra breytinga lá fyrir 8. nóvember s.á. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hinn 12. desember s.á. kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. kærumál nr. 180/2021, en ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður í því máli. Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 vegna fyrirhugaðrar notkun ásætuvarna í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 31. mars 2022 en niðurstaða stofnunarinnar var sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 1. maí 2022, sbr. kærumál nr. 41/2021, en úrskurður hefur ekki verið kveðinn upp í því máli. Hinn 14. júlí 2022 gerði Umhverfisstofnun breytingu á starfsleyfi Arctic Sea Farm fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða, hvíldartíma og heimild til notkunar ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar brjóti gegn almennum óskráðum efnisreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Ákvörðunin brjóti gegn lögmætisreglu og reglunni um bann við misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls. Brotin leiði til efnisannmarka á ákvörðuninni og sé hún því ógildanleg. Nánar tilgreint hafi Umhverfisstofnun ekki verið heimilt að gefa út starfsleyfi á breyttu svæði þar sem heimild til notkunar svæðisins hafi ekki fylgt umsókn leyfishafa. Þá hafi breyting eldissvæðisins í raun og veru falið í sér úthlutun nýs eldissvæðis sem aðskilið sé frá hinu upphaflega. Jafnframt hafi breyting rekstrarleyfisins hvílt á bersýnilega ólögmætum ákvörðunum Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærandi geti krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi en sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar að kröfu kæranda. Í athugasemdum að baki að baki ákvæðinu sé sú forsenda þessarar heimilda áréttuð að í málum sem varði framkvæmdir sem áhrif hafi á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus hafi úrskurðarnefndin ekki heimild til frestunar réttaráhrifa. Þar sem kæruheimild sé opin öllum sé við beitingu heimildarinnar sérstaklega mikilvægt að gæta þess að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Samkvæmt því velti ákvörðun um frestun réttaráhrifa einkum á annars vegar mikilvægi stöðvunar fyrir hagsmuni kæranda og hins vegar þeim efnislegu forsendum sem liggi að baki kæru, þ.e. hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Kærandi hafi í kærumálum nr. 180/2021 og 41/2022 og athugasemdum við tillögu Umhverfisstofnunar að breyttu starfsleyfi reifað ítarlega þá hagsmuni sem kröfur þessa máls byggi á. Varðandi mikilvægi stöðvunar fyrir hagsmuni kæranda sé vísað til þeirra sjónarmiða sem þar komi fram. Þá séu efnislegar forsendur kæru þessa máls svo afgerandi að óhjákvæmilegt sé að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Skilyrði um mikilvægi stöðvunar vegna hagsmuna og skýrleika efnislegra forsendna séu því bæði uppfyllt.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls. Um sé að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar beri að skýra umrædda heimild þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að heimild til stöðvunar framkvæmda feli í sér þrönga undantekningu frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar og réttarfars að kæra fresti ekki réttaráhrifum úrskurðar. Heimildinni verði þá og því aðeins beitt að kæruheimildin teljist þýðingarlaus verði framkvæmdir ekki stöðvaðar, sbr. athugasemdir við 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í frumvarpi því er varð að lögunum. Til viðbótar sé það skilyrði fyrir því að fallast á stöðvun framkvæmda að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Með öðrum orðum þurfi að líta til þess hversu líklegt sé að kröfur kæranda nái fram að ganga í málinu. Hvorugt skilyrðið sé uppfyllt í málinu.

Þær breytingar sem heimilaðar hafi verið með starfsleyfinu séu allar óverulegar og afturkræfar með einföldum og skjótum hætti. Komi til þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt verði eldiskvíar, sem kunni að vera þá staðsettar innan þess hafsvæðis sem breytingin taki til, einfaldlegar færðar þaðan. Til viðbótar séu að minnsta kosti tvö ár þar til áætlað sé að taka hafsvæðið, sem breytingin taki til, í notkun en þá verði málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni löngu lokið. Þó ásætuvarnir verði notaðar á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir feli slík notkun ekki með neinum hætti í sér óafturkræfar breytingar á umhverfinu, en vert sé að taka fram að sams konar ásætuvarnir séu nú þegar notaðar í rekstri fiskeldisfyrirtækja á Íslandi og hafi verið um árabil. Þá sé ákvörðun um breyttan hvíldartíma afturkræf stjórnvaldsákvörðun.

Andstætt óljósum og óverulegum hagsmunum kæranda af stöðvun framkvæmda hafi leyfishafi verulega hagsmuni af því ekki verði gripið til stöðvunar. Nú þegar hafi leyfishafi hafist handa við að aðlaga starfsemi sína að hinu breytta starfsleyfi og varið til þess verulegum fjárhæðum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta, en sem fyrr greinir mælir slíkt gegn því að fallist verði á stöðvunarkröfu kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá leyfishafa verður hið umdeilda eldissvæði ekki tekið í notkun fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2024 þegar núverandi fiskeldislotu í Patreksfirði lýkur með slátrun eldisfisks og að loknum hvíldartíma, en úrskurðar í máli þessu er að vænta fyrir þann tíma. Með þessu verður ekki séð að kæra verði þýðingarlaus fyrir kæranda þótt hafnað verði kröfu hans um frestun réttaráhrifa á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni eða að af því hljótist tjón fyrir hann sem erfitt verði að ráða bót á. Hins vegar er mögulegt að frestunin yrði verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa. Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber alla áhættu af úrslitum kærumálsins verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 14. júlí 2022 um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða, hvíldartíma og heimild til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð.

80/2022 Arctic Sea Farm

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 25. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 80/2022, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. júlí 2022, kærir eigandi Efri-Tungu II og eigandi helmings hlutar í Efri-Tungu, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að synja umsókn leyfishafa um breytingu á rekstrarleyfi. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, þá einkum uppsetning eldiskvía á nýju eldissvæði og notkun ásætuvarna á net eldiskvía sem innihaldi koparoxíð. Verður nú tekin afstaða þeirrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 26. júlí 2022.

Málavextir: Skipulagsstofnun barst tilkynning 16. október 2020 frá Arctic Sea Farm ehf. og Fjarðalax ehf. um fyrirhugaða breytingu á eldissvæðum þeirra í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í breytingunni fólst tilfærsla á þremur eldissvæðum auk nýs eldissvæðis er nefnt var Háanes og mun liggja beint út af Örlygshöfn. Sömu félög sendu svo tilkynningu til Skipulagsstofnunar 11. maí 2021 um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma á eldissvæðum þeirra til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. áðurnefnda 6. gr. laga nr. 106/2000.  Þá tilkynnti Arctic Sea Farm hinn 16. september 2021 um breytt fyrirkomulag á eldissvæðum þess í Patreksfirði. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindra tilkynntra breytinga lá fyrir 8. nóvember s.á. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hinn 12. desember s.á. kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. kærumál nr. 180/2021, en ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður í því máli. Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 vegna fyrirhugaðrar notkun ásætuvarna í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 31. mars 2022 en niðurstaða stofnunarinnar var sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 1. maí 2022, sbr. kærumál nr. 41/2021, en úrskurður hefur ekki verið kveðinn upp í því máli. Hinn 15. júlí 2022 gerði Matvælastofnun breytingu á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar brjóti gegn almennum óskráðum efnisreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Ákvörðunin brjóti gegn lögmætisreglu og reglunni um bann við misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls. Brotin leiði til efnisannmarka á ákvörðuninni og sé hún því ógildanleg. Nánar tilgreint hafi Matvælastofnun ekki verið heimilt að gefa út rekstrarleyfi á breyttu svæði þar sem heimild til notkunar svæðisins hafi ekki fylgt umsókn leyfishafa. Þá hafi breyting eldissvæðisins í raun og veru falið í sér úthlutun nýs eldissvæðis sem aðskilið sé frá hinu upphaflega. Jafnframt hafi breyting rekstrarleyfisins hvílt á bersýnilega ólögmætum ákvörðunum Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er vísað til þess að skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fresti kæra ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Nefndin geti þó úrskurðað um að stöðva skuli framkvæmdir til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Í athugasemdum með lögunum segi að ákvæðið byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ef litið sé til skýringarsjónarmið þeirrar lagagreinar þá sé almennt talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Þá verði að leggja heildstætt mat á þau sjónarmið sem fjallað sé um við útgáfu leyfisins, réttmætra hagsmuna aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Matvælastofnun telji að við útgáfu hins kærða rekstrarleyfis hafi stofnunin fylgt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og sé því ekki tilefni til að fallast á kröfu um ógildingu þess. Af þeim sökum og með hliðsjón af réttmætum væntingum leyfishafa verði ekki séð að tilefni sé til að fresta réttaráhrifum í máli þessu.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að heimild til stöðvunar framkvæmda feli í sér þrönga undantekningu frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar og réttarfars að kæra fresti ekki réttaráhrifum úrskurðar. Heimildinni verði þá og því aðeins beitt að kæruheimildin teljist þýðingarlaus verði framkvæmdir ekki stöðvaðar, sbr. athugasemdir við 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í frumvarpi því er varð að lögunum. Til viðbótar sé það skilyrði fyrir því að fallast á stöðvun framkvæmda að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Með öðrum orðum þurfi að líta til þess hversu líklegt sé að kröfur kæranda nái fram að ganga í málinu. Hvorugt skilyrðið sé uppfyllt í málinu.

Þær breytingar sem heimilaðar hafi verið með rekstrarleyfinu séu allar óverulegar og afturkræfar með einföldum og skjótum hætti. Komi til þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt verði eldiskvíar, sem kunni að vera þá staðsettar innan þess hafsvæðis sem breytingin taki til, einfaldlegar færðar þaðan. Til viðbótar séu að minnsta kosti tvö ár þar til áætlað sé að taka hafsvæðið, sem breytingin taki til, í notkun en þá verði málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni löngu lokið. Þó ásætuvarnir verði notaðar á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir feli slík notkun ekki með neinum hætti í sér óafturkræfar breytingar á umhverfinu, en vert sé að taka fram að sams konar ásætuvarnir séu nú þegar notaðar í rekstri fiskeldisfyrirtækja á Íslandi og hafi verið um árabil. Þá sé ákvörðun um breyttan hvíldartíma afturkræf stjórnvaldsákvörðun.

Andstætt óljósum og óverulegum hagsmunum kæranda af stöðvun framkvæmda hafi leyfishafi verulega hagsmuni af því ekki verði gripið til stöðvunar. Nú þegar hafi leyfishafi hafist handa við að aðlaga starfsemi sína að hinu breytta rekstrarleyfi og varið til þess verulegum fjárhæðum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta, en sem fyrr greinir mælir slíkt gegn því að fallist verði á stöðvunarkröfu kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá leyfishafa verður hið umdeilda eldissvæði ekki tekið í notkun fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2024 þegar núverandi fiskeldislotu í Patreksfirði lýkur með slátrun eldisfisks og að loknum hvíldartíma, en úrskurðar í máli þessu er að vænta fyrir þann tíma. Með þessu verður ekki séð að kæra verði þýðingarlaus fyrir kæranda þótt hafnað verði kröfu hans um stöðvun yfirvofandi framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni eða að af því hljótist tjón fyrir hann sem erfitt verði að ráða bót á. Hins vegar er mögulegt að slík stöðvun yrði verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa. Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um stöðvun yfirvofandi framkvæmda hafnað.

Vegna sjónarmiða kæranda um heimild til notkunar ásætuvarna telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að hin kærða ákvörðun felur ekki í sér slíka heimild heldur varðar hún einvörðungu breytingu á staðsetningu eldiskvía og hvíldartíma. Er það enda ekki á valdi Matvælastofnunar að kveða á um slíkt í rekstrarleyfi heldur kemur það í hlut Umhverfisstofnunar við útgáfu starfsleyfis, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber alla áhættu af úrslitum kærumálsins verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun yfirvofandi framkvæmda vegna ákvörðunar Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm hf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma.

85/2022 Andakílsárvirkjun

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 11. ágúst, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 85/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1.  júlí 2022 um að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. júlí 2022, er barst nefndinni 1. ágúst s.á., kærir landeigandi Fitja í Skorradal, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2022 að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til virkjunarleyfi Andakílsárvirkjunar verði gefið út. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 8. ágúst 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 20. desember 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Orku Náttúrunnar um framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Fyrirhuguð framkvæmd felst í byggingu varnarstíflu í lóni virkjunar til að mögulegt verði að tæma nyrðri hluta lóns virkjunarinnar af vatni, viðhaldi og endurnýjun stíflumannvirkja á meðan ekki er vatn í nyrðri hluta lónsins, mokstri á uppsöfnuðu seti úr lóni virkjunar, flutningi og haugsetningu á seti og efni sem mokað verður úr lóni og niðurrifi á varnarstíflu að viðhaldi og mokstri loknum. Skipulagsstofnun ákvað hinn 1. júlí 2022  að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Af hálfu kæranda er bent á að ekki sé fyrir hendi gilt virkjanaleyfi og sé starfsemi Andakílsárvirkjunar því ólögmæt að virtum ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003, vatnalaga nr. 15/1923, laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Af hálfu Skipulagsstofnunar er farið fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Framkvæmdaaðili fer fram á að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa verði hafnað.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að kæra til æðri stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þá er tekið fram að almennt mæli það gegn frestun réttaráhrifa ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef mikilvægir almannahagsmunir búi að baki ákvörðun.  Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðunin íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóni enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Kærandi í máli þessu fer fram á að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til virkjunarleyfi Andakílsárvirkjunar hefur verið gefið út. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða verður að túlka þau sem svo að úrskurðarnefndin hafi einungis heimild til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar á meðan mál eru til meðferðar hjá nefndinni. Úrskurðarnefndin getur því ekki frestað réttaráhrifum kærðar ákvörðunar um óákveðinn tíma eða umfram málsmeðferðartíma kærumáls. Verður því við það miðað að krafa kæranda á þessu stigi málsins sé að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun felur í sér þá niðurstöðu að umdeildar framkvæmdir séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Slík matsskylduákvörðun felur ekki í sér leyfi til framkvæmda heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða matsskylduákvarðanir.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis matsskylduákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé til að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.

77/2022 Geirsgata

Með

Árið 2022, föstudaginn 5. ágúst, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 77/2022, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 28. júní 2022 að veita tímabundið starfsleyfi til reksturs á krá með lágmarksmatargerð að Geirsgötu 2-4.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Geirsgötu 2-4, eigendur 18 íbúða að Kolagötu 1 (áður Geirsgötu 2) og eigendur 19 íbúða að Kolagötu 3 (áður Geirsgötu 4), Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 28. júní 2022 að veita tímabundið starfsleyfi til reksturs á krá með lágmarksmatargerð að Geirsgötu 2-4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 28. júlí 2022.

Málsástæður og rök: Leyfishafi sótti um bráðabirgðarekstrarleyfi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 9. nóvember 2021 fyrir veitingastað í flokki II, veitingahús fyrir 140 gesti að Geirsgötu 2-4. Sýslumaður gaf út bráðabirgðarekstrarleyfi með gildistímann 15. desember 2021 til 15. janúar 2022. Kom þar fram að veitingatími væri til kl. 23 virka daga og til kl. 01 aðfaranætur frídaga. Hámarksfjöldi gesta væri 30. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf síðan út tímabundið starfsleyfi til að stafrækja veitingastað að Geirsgötu 2-4 með gildistímann 25. mars 2022 til 25. júní s.á. Leyfishafi sótti að nýju um starfsleyfi fyrir veitingastaðnum 16. maí s.á. Heilbrigðiseftirlitið upplýsti leyfishafa í framhaldinu um að fyrirhugað væri að takmarka opnunartíma veitingastaðarins vegna ónæðis sem af honum hlytist. Tekið var fram að leyfishafi hefði ekki skilað inn fullnægjandi gögnum um hljóðvist staðarins og að mælingar leyfishafa hafi sýnt fram á að hávaði á staðnum hafi ítrekað farið yfir leyfileg mörk skv. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Bent var á að framangreind brot yrðu höfð til hliðsjónar við afgreiðslu umsóknar um áframhaldandi starfsleyfi fyrir veitingastaðinn. Leyfishafi lagði fram hljóðvistarskýrslu 20. júní 2022 sem sýndi fram á að hljóðeinangrun væri ófullnægjandi. Jafnframt var lögð fram úrbótaáætlun þar sem gert var ráð fyrir að úrbótum yrði lokið í júlí s.á. Leyfishafi var upplýstur um að starfsleyfi til 12 ára yrði ekki gefið út fyrr en úrbótum á hljóðvist væri lokið. Leyfishafi sendi inn umsókn um tímabundið starfsleyfi til eins mánaðar hinn 12. júní 2022 á meðan unnið væri að úrbótum. Heilbrigðiseftirlitið sendi leyfishafa bréf dags. 27. s.m. þar sem fram kom að tímabundið starfsleyfi yrði gefið út til eins mánaðar eða til 28. júlí s.á. Jafnframt kom fram að opununartími veitingastaðarins yrði takmarkaður við kl. 23 alla daga og að gestir yrðu að hafa yfirgefið staðinn kl. 23 og að frekari frestir yrðu ekki veittir. Tímabundið starfsleyfi var gefið út 28. júní s.á. og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Af hálfu kærenda er bent á að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi verið óheimilt að veita hið tímabundna starfsleyfi vegna krárinnar að Geirsgötu 2-4. Vegna reynslu af rekstri staðarins sl. mánuði liggi fyrir að leyfishafi hafi ítrekað brotið gegn starfsleyfisskilyrðum hins eldra tímabundna starfsleyfis auk þess sem hann hafi enn ekki skilað inn fullnægjandi gögnum varðandi hljóðvist í rýminu sem sýni fram á að reksturinn valdi ekki og muni ekki valda hávaða og ónæði. Reksturinn uppfylli ekki reglur um hljóðvist, hávaða og ónæði, sem lög geri að skilyrði svo heimilt sé að veita rekstrarleyfi. Um sé að ræða rekstur veitingahúss í flokki III (skemmtistaður) sem óheimilt sé að stafrækja á því svæði sem um ræði skv. aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá brjóti reksturinn gegn þinglýstri kvöð, sérstakri húsfélagssamþykkt, sem hvíli á eigninni. Umdeildur rekstur sé og hafi verið íþyngjandi fyrir kærendur sökum hávaða, lyktarmengunar og ónæðis og sé til þess fallinn að hafa áhrif á verðmæti fasteigna þeirra. Ákvörðun um veitingu áframhaldandi leyfis, jafnvel þó um bráðabirgðaleyfi sé að ræða, sé stjórnvaldsákvörðun sem verði að uppfylla þær lögbundnu kröfur sem lög og reglur geri til slíkra ákvarðana, þar sem ákvörðunin hafi áhrif á stjórnarskrárvarin eignarréttindi íbúðareigenda. Verði því að horfa vandlega til meginreglna stjórnsýsluréttarins um meðalhóf, lögmæti og jafnræði þegar ákvörðun sé tekin, enda séu gerðar ríkari kröfur til stjórnvalda í tilvikum þar sem mögulega sé brotið gegn stjórnarskrárvörðum hagsmunum.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að ákveðið hafi verið að veita tímabundið starfsleyfi á meðan rekstraraðilar veitingarstaðarins ynnu að nauðsynlegum úrbótum á hljóðvist samkvæmt úrbótaáætlun. Með hliðsjón af kvörtunum um ónæði og hávaða frá staðnum hafi einnig verið tekin ákvörðun um að takmarka opnunartíma við kl. 23 alla daga. Með þessum ákvörðunum hafi verið gætt bæði jafnræðis og meðalhófs. Rekstraraðili hafi skilað gögnum um hljóðvist, m.a. eigin hljóðmælingum. Þessi gögn hafi sýnt að hljóðvist hafi verið ófullnægjandi og að tilefni væri til úrbóta. Almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræði og þar megi heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, að skemmtistöðum undanskildum og opnunartími megi lengst vera til kl. 03:00 um helgar. Þá séu útiveitingar heimilar til kl. 23:00. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefi út starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli. Veitingastaðir séu á lista í viðauka IV við lög nr. 7/1998 og þeir séu matvælafyrirtæki skv. 16. tl. 4. gr. laga nr. 93/1995. Starfsleyfi sé gefið út uppfylli viðkomandi starfsemi þau skilyrði sem sett séu í lögum og í reglugerðum. Leyfi sé ótímabundið sé það einungis gefið út skv. lögum nr. 93/1995 en tímabundið ef starfsemi falli undir bæði lög nr. 93/1995 og lög nr. 7/1998 eða einungis þau síðarnefndu. Kærendur hafi hverfandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Hið kærða leyfi hafi runnið úr gildi 28. júlí 2022. Ekki hafi verið tekin afstaða til útgáfu nýs starfsleyfis. Sé framkomin kæra tilraun til að hafa áhrif á afgreiðslu nýrrar starfsleyfisumsóknar sé vert að benda á að skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri ákvörðun skotið henni til úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er starfsleyfi kært sem rann út 28. júlí 2022 og hefur leyfið því ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá umdeildri ákvörðun hnekkt svo sem krafist er í máli þessu. Verður kærumáli þessu því vísað frá þar sem á skortir að skilyrði nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 fyrir kæruaðild er ekki lengur fyrir hendi.

Rétt þykir að taka fram að ef nýtt starfsleyfi verður veitt er eftir atvikum hægt að kæra ákvörðun um veitingu þess til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

57/2022 Vesturgata

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 2. ágúst, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Kristín Benediktsdóttir dósent og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. september 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu. Jafnframt er kærð útgáfa byggingar­leyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2022, er bárust nefndinni 9. s.m., kæra eigendur, Vesturgötu 65; eigendur, Vesturgötu 65a; eigendur, Vesturgötu 69; eigendur, Vesturgötu 73; eigendur, Seljavegi 10, öll í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs frá 3. september 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Selja­vegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu.

Einnig er kærð útgáfa byggingarleyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn Félagsbústaða hf. um greint leyfi. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Kærendur gera jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til með­ferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. júní 2022.

Málavextir: Lóðin Vesturgata 67 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag milli Seljavegar og Ánanausta, staðgreinireitur 1.133.1, sem samþykkt var í borgarráði 24. janúar 1984 og tók gildi 18. apríl s.á. Með skipulaginu var gert ráð fyrir að reist yrði tveggja og hálfs hæðar íbúðarhús á lóðinni. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 15. apríl 2020 var lögð fram umsókn Félags­bústaða hf. um breytingu á deiliskipulaginu vegna umræddrar lóðar. Í breytingunni fólst m.a. stækkun lóðarinnar og að á henni yrði heimilt að reisa fjögurra hæða hús með sex íbúðum ásamt sameiginlegum rýmum á jarðhæð. Byggingarmagn færi úr 349 í 606 m². Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningartíma, m.a. frá hluta af kærendum þessa máls, og á fundi skipulags- og samgönguráðs 26. ágúst 2020 var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá sama degi. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 3. september s.á. og var auglýsing um gildistöku breytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2020.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. október 2020 var samþykkt að stækka umrædda lóð um 94 m² þannig að hún yrði 309 m². Umsókn um leyfi fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis „sem [yrði] „léttur“ búsetukjarni í notkunarflokki 5“ var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. nóvember s.á. Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda, en málinu var einnig frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 10. og 24. s.m. og 1. og 8. desember 2020. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 15. desember s.á. Var umsóknin samþykkt og hún talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hinn 27. janúar 2022 gaf byggingarfulltrúi út leyfi fyrir byggingu hússins og munu framkvæmdir hafa byrjað í upphafi marsmánaðar.

Hinn 31. mars 2022 sendi einn af kærendum þessa máls tölvupóst til Reykjavíkurborgar og vakti athygli á því að útlit fyrirhugaðrar byggingar að Vesturgötu 67 virtist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags auk þess sem óskað var athugasemda og upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi. Fyrirspurnin var ítrekuð 29. apríl s.á. og í svarpósti byggingarfulltrúa frá 3. maí s.á. kom fram að samþykkt byggingarinnar væri í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar. Jafnframt var upplýst að samþykktin væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að íbúar að Vesturgötu 65, 65a og 69 hafi gert marg­víslegar athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna Vesturgötu 67, m.a. um þakhæð, skuggavarp, útsýnisskerðingu, útlit götuhliðar sem og áhrif á götumynd. Í svari skipulags- og byggingarsviðs við þeim athugasemdum hafi m.a. komið fram að götuhlið hússins skyldi taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur væri, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Í svari við ábendingum um skuggavarp á nærliggjandi hús og útsýnisskerðingu hafi komið fram að tillagan sýndi aðeins byggingarreit og að bæði skuggavarp og útsýnisskerðing væri háð útfærslu á þak­formi. Ekki alls fyrir löngu hafi íbúar í nágrenninu orðið þess áskynja að á Vesturgötu 67 væri fyrirhugað að reisa byggingu sem tæki ekki tillit til ofangreindra skilmála. Öll aðliggjandi hús og öll hús í nærliggjandi götum séu með mænisþaki, en á Vesturgötu 67 eigi að reisa hús sem sé kassalaga með flötu þaki. Það passi alls ekki inn í götumyndina.

Send hafi verið fyrirspurn til Reykjavíkurborgar um hvað stæði til og beðið um gögn og skýringar. Ófullnægjandi svar hafi borist um fjórum vikum síðar og því hafi fyrirspurnin verið ítrekuð. Hinn 27. maí 2022 hafi borist svohljóðandi svar frá byggingarfulltrúa: „Í viðhengi er samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar að Vesturgötu 67 og tillaga að húsi sem fylgdi með umsókn um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Samþykkt byggingarleyfi er í samræmi við þessi gögn. Álitamál getur verið hvað fer vel í götumynd hverju sinni og er ekki talin ástæða til að ræða það frekar hér.“ Umrædd tillaga að húsi við Vesturgötu 67 sé hvað varði gluggagerð, form og útlit götuhliðar engan veginn í samræmi við það sem búið hafi verið að fullvissa íbúa í nærliggjandi húsum um. Þau atriði séu heldur ekki í samræmi við gögn frá borgaryfirvöldum eða auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þá sé gerð sérstök athugasemd við síðustu setninguna í fyrrnefndu svari byggingarfulltrúa en með fullyrðingu hans séu orð gerð merkingarlaus. Einnig hafi kvöð um að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé enga þýðingu.

Íbúar í nágrenni við Vesturgötu 67 hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að framlagðar teikningar yrðu í samræmi við það sem búið hafi verið að ákveða í skipulagsferlinu. Annað hafi komið á daginn og hafi málið verið endanlega upplýst af hálfu borgarinnar 27. maí 2022. Líti kærendur svo á að kærufrestur teljist frá þeim degi. Jafnframt hafi byggingarfulltrúi bent á í nýlegu svari að samþykkt nýbyggingarinnar væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og verði það ekki túlkað öðruvísi en svo að borgin sé samþykk því að nefndin taki málið til meðferðar.

Kærendur að Seljavegi 10 benda á að vegna hinnar umdeildu byggingar muni þau missa útsýni yfir sjóinn, um Akurey og upp á Akranes. Þá sé nú þegar grimmileg barátta um bílastæði í hverfinu og nú skuli enn kreppt að. Hafi þeim aldrei verið kynnt fyrirhugaðar framkvæmdir af borgaryfirvöldum en afar stutt sé á milli lóðar þeirra og Vesturgötu 67.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði vísað frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kröfum verði hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lúti að. Sé um að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur vera frá birtingu ákvörðunar. Þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðar­nefndinni hafi verið liðnir meira en 18 mánuðir frá upphafi kærufrests deiliskipulags­breytingarinnar og frestur til að kæra þá ákvörðun löngu liðinn. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 1. mgr. 28. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en einnig sé vísað til 27. gr. laganna í þessu sambandi. Þá sé skv. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.

Ekki sé fallist á að samþykktir uppdrættir séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, enda um huglægt mat kærenda að ræða. Þvert á móti taki götuhliðar tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Þar sem samþykkt byggingar­leyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag beri að hafna kröfu um ógildingu leyfisins enda ekkert komið fram sem valdið geti ógildingu þess.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn vegna beggja hinna kærðu ákvarðana. Þá hafi skipulagsfulltrúi svarað athugasemdum íbúa við kynningu á breyttu deiliskipulagi skilmerkilega.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs frá 3. september 2020 að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu. Einnig er deilt um útgáfu byggingarleyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklega lögvarða hags­muni tengda ákvörðun sem kærð er. Við mat á því hvort kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Almennt ber því að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Í máli þessu eru kærendur m.a. eigendur íbúða að Vesturgötu 65, 65a, 69 og 73 en fyrirhuguð bygging að Vesturgötu 65 mun, ásamt Vesturgötu 71 og 75, verða hluti af húsasamstæðu greindra fasteigna. Verður að telja að sú aðstaða og grennd, eins og hér háttar, geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni greindra kærenda. Verður þeim því játuð kæruaðild að máli þessu. Að sama skapi verður kærendum að Seljavegi 10 játuð aðild vegna áhrifa byggingarinnar á útsýni frá lóð þeirra.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga, sem gilda um málsmeðferð Reykjavíkurborgar þegar lögum nr. 130/2011 sleppir, er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

 Ákvörðun borgarráðs um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2020. Kærufrestur var því löngu liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 9. júní 2022. Að því virtu og með vísan til sjónarmiða 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður þeim þætti málsins er lýtur að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Sem fyrr greinir telst upphaf hins eins mánaðar kærufrests 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, vegna annarra ákvarðana en þeirra sem sæta opinberri birtingu, vera frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Framkvæmdir við Vestur­götu 67 munu hafa byrjað í upphafi marsmánaðar 2022 og verður því að líta svo á að stuttu eftir það tíma­mark hafi kærendum öllum mátt vera kunnugt um að leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu á umræddri lóð. Var því eins mánaðar kærufrestur vegna hins kærða byggingarleyfis liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 9. júní 2022.

Líkt og áður greinir skal skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum við 28. gr. í frum­varpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar málsins séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé um slíkt að ræða sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kæru­fresti í algjörum undantekningartilvikum. Þá er tekið fram í athugasemdum við 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðar­nefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki en eðli málsins samkvæmt hefur byggingar­leyfishafi allajafna ríkra hagsmuna að gæta í kærumálum sem varða leyfi hans.

Svo sem greinir í málavöxtum sendi einn af kærendum þessa máls hinn 31. mars 2022 tölvupóst til Reykjavíkurborgar og vakti athygli á því að útlit fyrirhugaðrar byggingar að Vesturgötu 67 virtist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags auk þess sem óskað var athugasemda og upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi. Fyrirspurnin var ítrekuð 29. apríl s.á. og í svarpósti byggingarfulltrúa frá 3. maí 2022 kom m.a. fram að samþykktin væri í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar. Jafnframt var upplýst að samþykkt byggingarinnar væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og aðsetur og netfang nefndarinnar tilgreint. Með tölvupóstum fyrrnefnds kæranda til byggingarfulltrúa 18. og 25. maí 2022 var enn farið fram á frekari skýringar á því hvers vegna samþykkt hefði verið leyfi fyrir byggingu sem væri í engu samræmi við það sem búið hefði verið að kynna og samþykkja varðandi útlit hennar. Svaraði byggingar­fulltrúi erindinu 27. maí 2022 og áréttaði að samþykkt byggingarleyfi væri í samræmi við deili­skipulag. Með svarinu fylgdi í viðhengi samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar og tillaga að húsi sem fylgdi með umsókn um breytingu skipulagsins.

Á Reykjavíkurborg hvílir rík leiðbeiningarskylda samkvæmt stjórnsýslulögum gagnvart þeim sem ákvörðun um byggingarleyfi beinist að sem og nágrönnum og öðrum sem hafa hagsmuna að gæta og leita til stjórnvaldsins vegna þess. Samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga skal leiðbeina þeim sem eiga beina aðild að málum um kæruheimild og kærufresti. Þegar því ákvæði sleppir ber að leiðbeina öðrum um sömu atriði á grundvelli 7. gr. laganna þegar slíkt á við. Við mat á því hvort skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga, um að taka kæru til meðferðar að liðnum kærufresti, séu uppfyllt verður að líta til þess að Reykjavíkurborg sinnti ekki leiðbeiningar­skyldu sinni í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga þegar áðurgreindur tölvupóstur frá 31. mars 2022 var móttekinn. Í ljósi þess að óskað var upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi og að framkvæmdir stóðu þá yfir bar borgar­yfirvöldum að bregðast skjótt við og leiðbeina um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar vegna hins kærða byggingarleyfis og um kærufrest. Fyrir liggur að svar barst frá byggingarfulltrúa meira en fjórum vikum síðar eða 3. maí 2022. Þrátt fyrir að þar hafi verið að finna leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar var aftur á móti ekki upplýst um kærufrest skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sem er töluvert styttri en almennur kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga. Í ljósi þess að borgaryfirvöld brugðust seint við að leiðbeina um kæruheimild og upplýstu ekki um kærufrest verður að telja afsakanlegt í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Að framangreindu virtu verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulags­áætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ágreiningsefni þessa máls lýtur að því hvort greind lagaskilyrði séu uppfyllt, en kærendur telja að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki skilmálum deiliskipulags milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu um að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur er, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Benda þeir á að öll aðliggjandi hús og hús í hverfinu séu með mænisþaki en á Vesturgötu 67 verði reist hús með flötu þaki. Telja kærendur húsið ekki samræmast götumynd.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi lóðar Vesturgötu 67 er gert ráð fyrir að á lóðinni verði heimilt að reisa fjögurra hæða hús. Segir að hámarksvegghæð miðist við vegghæð bakhliðar Vesturgötu 65a ofan á steyptan kant, en þak megi fara upp í sömu hæð og þak Vesturgötu 65a ef húsið að Vesturgötu 67 hafi mænisþak. Á skipulagsuppdrættinum er með myndrænum hætti sýnt hvernig þak Vesturgötu 67 muni líta út miðað við mænisþak annars vegar og flatt þak hins vegar. Er því ljóst að umrætt deiliskipulag gerir ráð fyrir að þak fyrirhugaðrar byggingar geti verið flatt. Hins vegar segir einnig í skipulagsskilmálum lóðarinnar að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Samkvæmt samþykktum byggingaráformun mun hin umþrætta bygging hafa flatt þak og óreglubundna gluggasetningu. Af gögnum þeim sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. útlitsmynd og tölvuteiknuð mynd af Vesturgötu séð frá gatnamótum Ánanausta frá arkitektastofu þeirri sem kom að undirbúningi deiliskipulagsbreytingarinnar, verður að telja að götuhlið Vesturgötu 67 muni stinga verulega í stúf við aðliggjandi hús sem öll eru með mænisþaki og reglubundna gluggasetningu. Verður því ekki séð að við hönnun götuhliðar hússins hafi verið tekið tillit til aðliggjandi húsa eins og kveðið er á um í skilmálum skipulagsins með skýrum hætti, en hvorki Reykjavíkurborg né leyfishafi hafa fært fram rök fyrir því hvort og þá með hvaða hætti það hafi verið gert. Enda þótt játa verði stjórnvöldum svigrúm til mats við útgáfu byggingarleyfis þegar fyrir liggja matskenndir skipulagsskilmálar hvílir sú skylda á þeim að taka afstöðu til þeirra atriða sem þar koma fram og geta sýnt fram á að svo hafi verið gert. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 3. september 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fellt er úr gildi byggingarleyfi Vesturgötu 67, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.

 

78/2022 Hlíðarendi reitir G H og I

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 2. ágúst, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 78/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2022, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur íbúða í Haukahlíð 5, Smyrilshlíð 2-10, Fálkahlíð 6 og Hlíðarfæti 11-17, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. febrúar 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Með umsókn dags. 1. júlí 2021 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda, reita G og H. Umsóknin fól m.a. í sér að atvinnulóðum yrði breytt í íbúðalóðir, fjölga íbúðum og breyta bílastæðakröfum til samræmis við bíla- og hjólreiðastefnu Reykjavíkurborgar. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 9. júlí 2021 og var vísað til meðferðar verkefnisstjóra. Erindið var tekið fyrir að nýju 22. september s.á. og var vísað til skipulags- og samgönguráðs. Ráðið tók málið fyrir á fundi 6. október s.á. og samþykkti að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum að einnig ætti að breyta opnu svæði til bráðabirgða á reit I í íbúðalóð. Tillagan var auglýst til kynningar frá 1. desember 2021 til og með 12. janúar 2022. Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 14. s.m. og var vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Málið var síðan á dagskrá á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 21. s.m. og var vísað til skipulags- og samgönguráðs. Hluti kærenda sendi inn athugasemdir á kynningartíma og var þeim svarað með bréfi skipulagsfulltrúa dags. 21. janúar 2022 þar sem lagt var til að lóð fyrir spennistöð yrði komið fyrir á borgarlandi austan við núverandi reit G og að skuggavarp yrði unnið sem fylgigagn deiliskipulagsbreytingarinnar. Skipulags- og samgönguráð tók erindið fyrir á fundi 9. febrúar s.á. og samþykkti deiliskipulagsbreytinguna með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu á fundi 24. febrúar 2022.

Af hálfu kærenda er bent á að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér fækkun bílastæða, aukið skuggavarp, skert útsýni og aukningu umferðar. Málið hafi ekki verið fyllilega rannsakað áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, t.a.m. hafi skuggavarpsgreiningar, hávaða- og vindmælingar ekki legið fyrir. Þá hafi ekki verið leitað eftir sjónarmiðum íbúa í samræmi við lög. Engin heimild hafi verið til að bæta I reit við hina innsendu deiliskipulagstillögu.

Borgaryfirvöld benda á að mál þetta snúist um deiliskipulagsákvörðun sem veiti ekki sjálfstæðan rétt til að hefja framkvæmdir, heldur þurfi frekari leyfi til. Sé því ekki tilefni til að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé til að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

71/2022 Stafafellsfjöll

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 26. júlí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 71/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 20222 um að breyta deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll, frístundasvæði, vegna lóðar nr. 8.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar nr. 7 við Stafafellsfjöll, Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 2022 að breyta deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll, frístundasvæði, vegna lóðar nr. 8. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 20. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 16. ágúst 2021 fékk byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar ábendingu um að framkvæmdir hefðu hafist við byggingu húss á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum. Í kjölfarið stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdirnar á grundvelli heimilda í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Hornafjarðar 1. september 2021 var tekin fyrir beiðni eiganda lóðarinnar Stafafellsfjalla 8 um heimild til að vikið yrði frá kröfu um breytingu deiliskipulags Stafafellsfjalla, frístundasvæðis, frá árinu 2014 vegna byggingar frístundahúss á lóðinni hvað varðaði skilmála deiliskipulags um stærð aukahúss og mænisstefnu. Var samþykkt að fela starfsmanni að vinna málið áfram. Hinn 2. september 2021 sendi byggingarfulltrúi tölvupóst á lóðarhafa aðliggjandi lóða þar sem óskað var eftir afstöðu þeirra til framkvæmdanna. Kærandi skilaði inn athugasemd þar sem lagst var gegn fyrirhugaðri stefnu aðalmænis og hæð hússins. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 5. október s.á. var bókað að nefndarmönnum yrði falið að skoða aðstæður á lóðinni. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar 3. nóvember s.á. þar sem samþykkt var að heimild yrði veitt til að víkja frá kröfu um breytingu á skipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á grundvelli 3. mgr. sama ákvæðis. Var jafnframt bókað um að heimuð breyting væri ekki líkleg til að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Var sú afgreiðsla samþykkt af bæjarstjórn sveitarfélagsins á fundi hennar 11. s.m. Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi hina kærðu ákvörðun úr gildi með úrskurði uppkveðnum 18. febrúar 2022 í máli nr. 176/2021, m.a. með vísan til þess að ákvörðun sveitarstjórnar myndi hafa áhrif á hagsmuni kæranda hvað útsýni varðar.

Umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins samþykkti á fundi sínum 3. mars 2022 að unnin yrði óveruleg breyting skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga á deiliskipulagi frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum. Breytingin er efnislega samhljóða fyrri deiliskipulagsbreytingu sem felld var úr gildi með úrskurði nr. 176/2021. Breytingin var grenndarkynnt frá 15. mars 2022 til 10. maí s.á. Þrjár athugasemdir bárust við grenndarkynningu. Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 19. s.m., með þeirri breytingu að gert er ráð fyrir gróðursvæði á milli húsanna á lóðum nr. 7 og 8 í þeim tilgangi að takmarka innsýn á milli húsanna. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Hvað stöðvun framkvæmda varðar er af hálfu kæranda vísað til þess að framkvæmdir séu þegar hafnar án þess að tilskilin leyfi séu til staðar. Af hálfu Sveitarfélagsins Hornafjarðar er bent á að engir þeir form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem réttlæti ógildingu hennar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Í ljósi þess að kærandi ber því við að umdeildar framkvæmdir séu hafnar er rétt að benda á að unnt er að leita til byggingarfulltrúa af slíku tilefni sem getur stöðvað framkvæmdir sem hafnar eru án byggingarleyfis skv. 55. gr. laga nr. 160/2010.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

68/2022 Fornuströnd

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 12. júlí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Mál nr. 68/2022, kæra á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 3. júlí 2022 kæra eigendur Látrastrandar 9 og Fornustrandar 10, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 5. apríl 2022, var sótt um leyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 5. maí s.á. Erindinu var frestað á þeim fundi og skipulagsfulltrúa var falið að óska eftir áliti skipulagshönnuðar. Umsóknin var tekin fyrir að nýju í skipulags- og umferðarnefnd 21. júní s.á. og var þá samþykkt. Fundargerð þess fundar var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi 22. júní 2022.

Kærendur benda á að fyrirhuguð nýbygging verði utan byggingarreits, að hæð ofan á bílskúr muni verða mun hærri en tíðkist í hverfinu, að þakgarðar séu ekki leyfilegir og byggingarmagn sé meira en heimilað byggingarmagn samkvæmt deiliskipulagi. Hverfið sé fullbyggt hverfi og kærendur telji sig ekki þurfa að þola útsýnisskerðingu, aukið skuggavarp og mikla innsýn.

Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að byggingarleyfi fyrir hinni kærðu framkvæmd hafi ekki verið gefið út og að byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar 21. júní 2022.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa hin umdeildu byggingaráform ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa.

Hið kærða samþykki skipulags- og umferðarráðs á umdeildum byggingaráformum felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur en hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Fornustrandar 8. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í máli þessu sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 59. gr. laga um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2022 Tryggvagata

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 7. júlí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfunda­búnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 um að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins á lóð Tryggvagötu 32, Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur hluta hússins að Tryggvagötu 32, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins á lóð Tryggvagötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 31. mars 2022.

Málavextir: Annar kærenda sótti um starfsleyfi til Heilbrigðiseftir­lits Suðurlands 8. janúar 2020 vegna reksturs sólbaðsstofu. Heilbrigðiseftirlitið kallaði eftir upplýsingum frá byggingar­fulltrúa um hvort starfsemin uppfyllti skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, þ.e. hvort húsnæðið hefði hlotið staðfestingu frá leyfisveitanda byggingar­leyfis á því að starfsemin væri í samræmi við samþykkta notkun þess. Málið var í kjölfarið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. janúar 2020 og var þar frestað á meðan kallað var eftir samþykki meðeigenda. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 6. janúar 2021 þar sem byggingarfulltrúi lagðist gegn útgáfu starfsleyfis með vísan til þess að starfsemin samræmdist ekki skipulagi, samþykki meðeigenda lægi ekki fyrir og önnur fyrirliggjandi gögn væru ófullnægjandi.

Fyrri hluta ársins 2021 bárust sveitarfélaginu athugasemdir við aðstæður að Tryggvagötu 32 og fór byggingarfulltrúi í kjölfarið í eftirlitsferð á staðinn 16. apríl s.á. Annar kærenda fékk sendar athugasemdir byggingarfulltrúa, dags. 27. maí s.á., þar sem greint var frá þeim athugasemdum sem gerðar voru við fasteignina og notkun hennar. Þar var m.a. tekið fram að vaknað hefði grunur um að nýting hluta mannvirkis á lóðinni, þ.e. efri hæð fasteignarinnar, væri ekki í samræmi við skráða notkun, þar sem grunur hefði vaknað um að þar væri rekin sól­baðsstofa. Var tekið fram að slík nýting mannvirkisins væri óheimil og var kærendum gert að láta af þeirri notkun. Í bréfinu var jafnframt að finna athugasemdir um byggingarleyfis-skyldar framkvæmdir sem fram hefðu farið á lóðinni án þess að leyfi hefðu verið fengið fyrir þeim. Fulltrúi kærenda sendi sveitarfélaginu svar þar sem fram kom að sólbaðsstofa í húsnæðinu væri hugsuð og yrði notuð sem minni háttar atvinnustarfsemi í eigu annars kærenda. Notaður væri sérinngangur fyrir efri hæð til að komast inn á sólbaðsstofuna, en þar væru fjórir bekkir með mismunandi stillingum. Hugmyndin væri sú að tveir gestir gætu sótt stofuna í einu. Sólbaðsstofan væri skilin frá íbúðarhúsnæðinu og staðsett ofan á bílskúr, þar sem áður hefði verið geymsla. Þar væri öryggiskassi sem stjórni rafmagni, slökkvitæki og góð loftræsing. Þá fylgi sér bað­herbergi fyrir viðskiptavini með klósetti, vaski og sturtu.

Hinn 13. desember 2021 barst umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi frá kærendum, þar sem óskað var eftir leyfi fyrir breytingum innanhúss á annarri hæð hússins að Tryggvagötu 32 vegna innréttingar á sólbaðsstofu í rými ofan á bílskúr, en það er nú skráð sem geymsla. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. s.m. og málinu var vísað til meðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd þar sem ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið. Málið var í framhaldinu tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd 29. s.m. þar sem samþykkt var að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum. Grenndarkynning fór fram á tíma­bilinu 29. desember 2021 til 26. janúar 2022 og bárust tvær athugasemdir á kynningartíma. Í þeim kom m.a. fram að ekki væri um atvinnuhúsnæði að ræða, að bílastæði við húsið anni ekki rekstrinum, að sólbaðsstofan væri nú þegar starfrækt í húsinu og af henni hefði hlotist mikið ónæði. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. janúar 2022 þar sem farið var yfir framkomnar athugasemdir og með vísan til þeirra var umsókn um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins hafnað. Kærendum var tilkynnt um þá afgreiðslu sama dag. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. febrúar s.á. og var umsókninni hafnað. Kærendum var sendur tölvupóstur sama dag þar sem þeir voru upplýstir um að mögulega væri unnt að samþykkja breytingar á hluta hússins sem slíkar „þó ekki sé samþykkt að vera með rekstur í húsnæðinu.“

Lögmaður kærenda óskaði frekari rökstuðnings og upplýsinga um afgreiðslu málsins með tölvupósti, dags. 24. febrúar 2022. Hinn 25. s.m. svaraði lögmaður sveitarfélagsins fyrir­spurnum lögmanns kærenda, en þar kom m.a. fram að fyrir mistök hefði láðst að geta um kærufrest og kæruleiðir. Þá var vísað til þess að þar sem í hinni kærðu ákvörðun kæmi fram á hvaða forsendum umsókninni hefði verið hafnað væri litið svo á að kærendur ættu ekki rétt á frekari rökstuðningi.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt skilyrði V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um birtingu ákvörðunar og rökstuðning. Í tilkynningu til kærenda um ákvörðun byggingarfulltrúa hafi hvergi komið fram heimild kærenda til þess að fá ákvörðunina nánar rökstudda, hvert bæri að kæra ákvörðunina eða hver kærufrestur væri, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þegar innt hafi verið eftir frekari upplýsingum um ákvörðun byggingarfulltrúa um fyrrgreint hafi lögfræðingur sveitarfélagsins tekið fram að fyrir mistök hafi láðst að geta um kærufrest og kæruleiðir. Af þeim sökum myndi sveitarfélagið ekki bera fyrir sig að kærufrestur hefði tekið að líða fyrir þann dag, þ.e. 25. febrúar 2022. Sé því kæru­frestur ekki liðinn og renni ekki út fyrr en 25. mars s.á.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsækjanda um byggingarleyfi sé stjórnvalds­ákvörðun og beri honum því að fara eftir meginreglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnsýslu­laga við ákvarðanatöku og málsmeðferð. Brotið hafi verið gegn leiðbeiningar­skyldu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, þegar kærendum hafi verið kynnt ákvörðun byggingar­fulltrúa, en tilkynningin hafi ekki innihaldið leiðbeiningar um að heimilt væri að kæra ákvörðun byggingar­fulltrúa, hvert skyldi kæra ákvörðunina eða upplýsingar um kærufrest vegna ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. sömu laga. Rannsóknarreglan, sbr. 10. gr. laganna, hafi verið brotin í ljósi þess að málið virðist ekki hafa verið skoðað umfram það að lesa yfir þær athugasemdir sem hafi borist við grenndarkynningu. Einkum sé ljóst að rannsóknarreglan hafi verið brotin þegar litið sé til þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafi farið fram að morgni sama dags og frestur til athugasemda hafi runnið út. Bent sé á að málshraði megi ekki vera á kostnað vandaðra stjórnsýsluhátta. Þá hafi kærendur ekki fengið frekari tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri eftir að athugasemdir hafi borist nefndinni. Feli það ekki einungis í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar heldur einnig brot á andmælarétti kærenda, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt svari skipulags- og byggingarfulltrúa hafi megingrundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar verið sá að ekki hafi legið fyrir samþykki eiganda hins hluta hússins að Tryggva­götu 32. Hefðu kærendur því þurft að komast að samkomulagi við eiganda þess hluta til að fá umsókn sína samþykkta, sbr. c-lið 2. mgr. gr. 2.4.1. byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki verði séð að einstaklingsbundið mat hafi farið fram, enda hafi umsókninni verið hafnað án þess að kærendur hafi fengið leiðbeiningar um að afla samþykkis eða tækifæri til að andmæla því að slíkt samþykki þyrfti.

Því sé andmælt að ekki hafi verið þörf á frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun í ljósi þess að kærendum hafi verið tjáð að hún hafi verið grundvölluð á innsendum athugasemdum. Slíkt teljist ekki vera fullnægjandi rökstuðningur heldur hefði átt að tilgreina hvað í umræddum athugasemdum hafi valdið því að litið hafi verið svo sterklega til þeirra.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að öll máls­meðferðin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og vandaða stjórnsýsluhætti. Birting ákvörðunar og rökstuðningur fyrir henni hafi verið fullnægjandi þrátt fyrir annmarka á til­greiningu á rétti til nánari rökstuðnings og kæruleiðum. Úr þeim annmörkum hafi verið bætt í samskiptum við lögmann kærenda.

Því sé hafnað að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin. Málefni er varði rekstur sólbaðsstofu kærenda hafi verið vandlega rannsökuð af hálfu sveitarfélagsins í gegnum tíðina, bæði í tengslum við umsókn kærenda og fyrri erindi er snúi að sama rekstri. Þá hafi rannsóknar­reglan verið virt að fullu við yfirferð athugasemda, enda hafi athugasemdir borist snemma á grenndarkynningartímanum, þ.e. í byrjun janúar 2022. Ekkert hafi því verið að vanbúnaði að taka málið fyrir á fundi hinn 26. s.m. Hefðu frekari athugasemdir borist í lok kynningar­tímans hefði málinu verið frestað til frekari úrvinnslu og rannsóknar en nægur tími hafi gefist frá 7. janúar til 26. s.m. til að leggja mat á framkomnar athugasemdir.

Afgreiðsla athugasemda við grenndarkynningu hafi verið í samræmi við hefðbundið og venju­helgað verklag þar um. Þannig hafi skipulags- og byggingarnefnd tekið afstöðu til athugasemda í umsögn sinni og skipulags- og byggingarfulltrúi synjað beiðni kærenda í framhaldinu. Ekki sé hefðbundið að umsækjendum gefist færi á að svara athugasemdum úr grenndarkynningu eða koma að frekari sjónarmiðum að þeim framkomnum. Lög og verklag geri ekki ráð fyrir að umsækjendur komi sjónarmiðum sínum frekar á framfæri á þeim tímapunkti. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar liggi þó jafnframt fyrir að frekari andmæli kærenda hefðu með öllu verið þýðingarlaus, enda hefði krafa sveitarfélagsins um samþykki meðeigenda byggt á afdráttar­lausu ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þar sem kveðið sé á um að breytingar á hagnýtingu séreignar sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur en áður hafi verið, og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Af athugasemdum megi ráða að slíkt samþykki liggi ekki fyrir og að sú breyting að hefja rekstur í húsinu myndi hafa í för með sér ónæði, röskun og óþægindi, m.a. að teknu tilliti til bílastæða, eins og fram hafi komið í báðum innsendum athugasemdum.

Þegar kærendur hafi óskað eftir frekari rökstuðningi hafi lögmaður kærenda þegar fengið afhentar þær athugasemdir og afgreiðslur málsins sem fyrir hafi legið hjá sveitarfélaginu. Árborg geti fallist á að mögulega hafi verið tilefni til að upplýsa frekar um þau lagaákvæði sem synjun hafi byggst á, s.s. um ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994. Hins vegar hafi ákvörðunin ekki verið byggð á mati heldur á því að lögbundin skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og mátt hafi ráða af efni framkominna athugasemda og afgreiðslu málsins. Þessi yfirsjón hafi þó ekki þau áhrif að fallast beri á kröfur kærenda um að ákvörðunin skuli felld úr gildi, enda séu annmarkarnir ekki verulegir.

Veigamikil rök mæli með því að ákvörðunin verði ekki ógilt, enda sé ljóst að kærendur hafi um nokkurra ára skeið freistað þess að hefja rekstur í húsnæðinu án samþykkis nágranna sinna, sem þó sé lögbundið skilyrði fyrir breytingu á afnotum hluta hússins. Fyrir liggi að nágrannar hafi ekki hugsað sér að samþykkja slíka breytingu og myndi ógilding stjórnvalds­ákvörðunarinnar því ekki verða til þess að málið færi í neinn annan farveg en þann sem málið hafi verið í. Ekki komi til breytinga á afnotum fasteignarinnar nema að samþykki annarra eigenda ­hússins liggi fyrir og ekkert bendi til þess að það samþykki liggi nú fyrir. Væri það því eingöngu til þess að tefja endanlega niðurstöðu málsins að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús beri að afla samþykkis allra eigenda hússins ef breyting á hagnýtingu séreignar hafi í för með sér verulega meiri ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Kærendur fallist ekki á að breytt notkun húsnæðisins í samræmi við áætlanir þeirra feli í sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur. Þvert á móti geti kærendur ekki séð hvaða lögmætu hagsmunir eiganda hins hluta húsnæðisins sé raskað, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994.

Eignarhlutarnir tveir hafi báðir sérinngang og muni umgangur í og úr fyrirhugaðri sólbaðsstofu einungis fara í gegnum inngang kærenda. Sólbaðsstofan yrði þó aðskilin frá íbúð kærenda þar sem stofan yrði ofan á bílskúr hússins sem fylgi eignarhluta þeirra. Þá vísi kærendur því á bug sem komi fram í innsendum athugasemdum við grenndarkynningu að brunahætta stafi af rekstri sólbaðsstofunnar sem og að rekstur hennar myndi valda ónæði við húsið vegna skorts á bílastæðum. Teikningar þær sem fylgt hafi umsókn kærenda sýni þær breytingar sem til hafi staðið að ráðast í en þar sé gert ráð fyrir brunahólfandi veggjum. Þannig yrði verulega dregið úr brunahættu auk þess sem kærendur myndu gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar yrðu til þess að fullnægja kröfum um brunavarnir vegna hinnar breyttu notkunar húsnæðisins. Varðandi bílastæðamál þá bendi kærendur á að bílastæði það sem fylgi fasteign þeirra, fyrir framan bílskúr þeirra, rúmi vel tvo bíla. Þá sé einnig nóg um önnur bílastæði í nærumhverfinu sem séu opin almenningi. Viðskiptavinir sólbaðsstofunnar myndu því hvorki þurfa að hamla aðgengi annarra íbúa húsnæðisins né valda öðrum ónæði er þau nýti þjónustu kærenda. Geti því annar eigandi húsnæðisins ekki sett sig á móti þeirri breytingu sem um ræði.

Þrátt fyrir að 27. gr. fjöleignarhúsalaga feli í sér lögbundin skilyrði um að afla verði samþykki annarra eigenda í ákveðnum tilvikum verði það að teljast matskennt hvað feli í sér verulega meiri óhagræði, röskun eða óþægindi fyrir aðra. stjórnvöldum sé ekki heimilt að afnema það mat með því að vísa til verklagsreglna og þess að athugasemdir hafi borist við grenndarkynningu. Ekki sé endilega samasemmerki milli þess að nágrannar setji sig upp á móti áformum um breytingar og að þær breytingar feli í sér verulega meira óhagræði.

Kærendur telji í ljósi framangreinds að Árborg hefði átt að upplýsa kærendur um að nauðsynlegt væri að afla samþykkis meðeiganda áður en umsókn þeirra hefði verið hafnað. Slíkt hefði veitt kærendum tækifæri til þess að greiða úr þeim annmarka eða að mótmæla því að slíkt samþykki þyrfti. Hefðu kærendur þannig getað komið sjónarmiðum sínum að og varpað frekara ljósi á málið. Að mati kærenda hafi með þessu verið brotið gegn 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sem og andmælarétti og rannsóknarreglu, sbr. 13. og 10. gr. sömu laga.

Þá mótmæli kærendur þeirri fullyrðingu Árborgar að ekkert hafi verið að vanbúnaði að taka málið fyrir á fundi að morgni 26. janúar 2022 þar sem athugasemdir þær sem borist hafi í málinu hafi verið sendar til nefndarinnar í byrjun mánaðarins. Í ljósi þess að frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið til 26. janúar geti kærendur ekki séð að það hafi verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að mat á athugasemdum hafi farið fram áður en fresturinn hafi runnið út.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins Tryggvagötu 32, Selfossi.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra á. Hin kærða ákvörðun var tekin 2. febrúar 2022 og var kærendum tilkynnt um hana samdægurs. Máttu þeir því vita af hinni kærðu ákvörðun þá þegar þann dag. Kæra í máli þessu er dagsett og barst úrskurðarnefndinni 3. mars s.á. og er því utan hins lögbundna eins mánaðar frests fyrrnefndrar 2. mgr. 4. gr.

Fjallað er um réttaráhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. 20. gr. sömu laga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til að fá ákvörðun rökstudda og kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti svo og hvert skuli beina kæru. Í máli þessu var kærendum ekki leiðbeint um framangreind atriði. Í ljósi þess, sem og að kæra í málinu barst innan hins almenna þriggja mánaða frests stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra, verður talið afsakanlegt að kæra hafi borist utan hins lögbundna kærufrests.

Lóðin Tryggvagata 32 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 er heimilt að veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er umrædd lóð á íbúðarsvæði. Fjallað er um stefnu um landnotkun í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir að stefna um landnotkun skuli sýnd með einum landnotkunar­flokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn landnotkunar­flokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Íbúðarbyggð er skilgreind í a-lið nefndrar greinar sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minni háttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Í Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er ekki að finna heimild til að vera með minni háttar atvinnustarfsemi á svæðinu. Samræmist hið umsótta leyfi um breytta notkun því ekki landnotkun svæðisins og hefði því með réttu ekki átt að grenndarkynna leyfisumsóknina, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er samþykkt byggingaráforma háð því skilyrði að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Líkt og rakið er að framan er ekki heimilt að vera með atvinnustarfsemi í þeirri íbúðar­byggð sem hér um ræðir samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030. Þá er í 10. gr. laga um mannvirki kveðið á um að samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skuli fylgja umsókn um byggingarleyfi. Fjallað er um breytingar á hagnýtingu séreignar í 27. gr. síðastnefndu laga en þar er að finna mismunandi reglur um breytingu á hagnýtingu séreignar eftir því hvort um verulega breytingu er að ræða eða ekki. Í 1. mgr. nefndrar greinar er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem áður hafi verið eða ráð hafi verið gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Í 3. mgr. greinarinnar segir að sé um að ræða breytingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir. Fasteignin Tryggvagata 32 skiptist í tvo eignarhluta, 0101 og 0201. Hvorki liggur fyrir í máli þessu samþykki allra eigenda né meirihluta eigenda miðað við eignarhluta og var byggingarfulltrúa Árborgar því rétt að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins að Tryggvagötu 32. Þá verður ekki talið að byggingarfulltrúa hafi borið að gefa kærendum kost á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðun var tekin, enda lá ekki fyrir fyrrgreint skilyrði um samþykki meðeigenda. Var því augljóslega óþarft að leyfa kærendum að tjá sig frekar um efni málsins, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 um að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins að Tryggvagötu 32, Selfossi.