Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2022 Eyravegur

Árið 2023, miðvikudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 7. september 2022, um að synja umsókn um leyfi fyrir byggingu við íbúðarhús að Eyravegi 22.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. september 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar að synja umsókn hans um leyfi fyrir byggingu á einni hæð við íbúðarhúsið að Eyravegi 22, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt umbeðið byggingarleyfi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 28. október 2022.

Málavextir: Með umsókn, dags. 8. ágúst 2022, sótti kærandi um byggingaráform og leyfi fyrir byggingu á einni hæð við íbúðarhúsið að Eyravegi 22. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. ágúst. s.á. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Framkvæmdin er í umfangsflokki 1, deiliskipulag liggur ekki fyrir. Fyrir liggur yfirlýsing meðeigenda um aðild að umsókninni og samþykki. Vísað til skipulagsnefndar.“ Kæranda var tilkynnt þessi ákvörðun með tölvupósti sama dag, auk þess sem byggingarfulltrúi átti í samskiptum við hönnunarstjóra varðandi athugasemdir við uppdrættina.

Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa á ný 7. september s.á. Á fundinum var bókað að skipulags- og byggingarnefnd teldi að áform um fjölgun íbúða á lóðinni væru ekki tímabær á meðan ekki hefði verið unnið rammaskipulag fyrir svæðið í heild, eins og endurskoðað Aðalskipulag Árborgar 2020–2036 gerði ráð fyrir, þar sem svæðið meðfram Eyravegi væri skilgreint sem miðsvæði/þróunarsvæði. Var kæranda tilkynnt með tölvupósti 8. september 2022 að með vísan til framangreindra sjónarmiða væri umsókn hans hafnað og hann jafnframt upplýstur um kæruleiðir og kærufresti.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur að jafnræðis hafi ekki verið gætt þegar umsókn hans um byggingarleyfi hafi verið hafnað á þeim forsendum að ekki hafi verið unnið rammaskipulag fyrir svæðið í heild, þar sem núverandi aðalskipulag sé í gildi til ársins 2036. Viðbyggingin sem sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir muni ekki skyggja á útsýni fyrir nágrönnum og komi ekki til með að sjást frá götu. Fordæmi séu fyrir því að veitt hafi verið leyfi til stækkunar húsa á Eyravegi. Bæði hafi staðið hótel við götuna sem síðar hafi verið breytt í íbúðir, ásamt því að gefin hafi verið út leyfi fyrir þremur viðbyggingum fyrir framan hótelið og þær síðar seldar sem íbúðir.

 Málsrök sveitarfélags: Sveitarfélagið áréttar að heimilt sé, að svo stöddu, að hafna fjölgun íbúða á svæðum sem skilgreind verði sem þróunarsvæði með nýju aðalskipulagi sem taki gildi von bráðar. Við höfnun á umþrættri umsókn hafi legið fyrir umsögn skipulags- og byggingar-nefndar, sbr. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Höfnun á umsókninni byggi einvörðungu á því að eins og sakir standi varðandi aðalskipulag og fyrirhugaða vinnu varðandi deiliskipulag á svæðinu telji sveitarfélagið ekki rétt að heimila viðbyggingar íbúðarhúsnæðis og fjölgun íbúða.

Þegar leitað hafi verið álits skipulags- og byggingarnefndar hafi ekki fengist staðfesting á að fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu eins og framangreind 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga kveði á um. Þvert á móti hafi verið bent á að ekki lægi fyrir deiliskipulag á svæðinu og að fyrirhugaðar væri frekari endurskoðun á svæðinu með skilgreiningu þess sem þróunarsvæðis og með frekari vinnu við rammaskipulag svæðisins.

Því sé hafnað að brotið sé gegn jafnræði íbúa með ákvörðun sveitarfélagsins. Þær viðbyggingar við hótelið á Eyrarvegi 26 sem kærandi vísi til að hafi verið seldar sem íbúðir, hafi upphaflega verið ætlaðar undir hótelstarfsemi, en síðar hafi verið samþykkt að breyta notkun húsnæðisins. Hafi skipulags- og byggingarnefnd afgreitt þá umsókn með því að vísa málinu í grenndarkynningu. Að henni lokinni hafi beiðnin verið samþykkt þar sem hún samrýmdist Aðalskipulagi Árborgar 2020–2036 og hafi forsendur í skipulagsáætlunum sveitarfélagsins á þeim tíma verið aðrar en þær séu nú.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 31. ágúst 2022 um að synja kæranda um leyfi fyrir byggingu við hús sitt að Eyravegi 22, Selfossi. Var synjun byggingarleyfis byggð á þeim rökum að áform um fjölgun íbúða á lóðinni séu ekki tímabær á meðan ekki hafi verið unnið rammaskipulag fyrir svæðið í heild, en í endurskoðuðu Aðalskipulagi Árborgar 2020–2036 væri gert ráð fyrir að svæðið meðfram Eyravegi yrði skilgreint sem miðsvæði/þróunarsvæði. Þá er ekki í gildi deiliskipulag fyrir svæðið.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er það í höndum sveitarstjórnar að annast gerð skipulagsáætlana innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður að líta til þess að um er að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda til að móta byggð einstakra svæða. Stjórnvöldum ber þó við töku stjórnvaldsákvarðana, svo sem útgáfu byggingarleyfis að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og þeim lagagrundvelli sem ákvörðun byggist á hverju sinni.

Á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar er meginreglan sú að gera skuli deili-skipulag, sbr. 2. mgr. 37. gr skipulagslaga. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir, svo sem hagaði til í máli þessu. Við þær aðstæður getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. skipulagslaga, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefði byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar verið rétt að leggja mat á það samkvæmt þessari lagagrein hvort um óverulega breytingu væri að ræða sem vert væri að grenndarkynna. Þessa var ekki gætt að því séð verði í málinu. Þá er til þess að líta að við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er stefna gildandi aðalskipulags bindandi, sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga. Því er óheimilt að leggja til grundvallar ákvæði í aðalskipulags-tillögu sem ekki hefur fengið þá afgreiðslu sem lög kveða á um.

Með þessu verður að telja að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi verið svo áfátt að ekki verði komist hjá því að fella hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu við Eyraveg 22 er felld úr gildi.