Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2001 Hamrahlíð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Hamrahlíð 8, Vopnafirði, vegna dráttar á afgreiðslu byggingarnefndar og sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps á erindi um byggingarleyfi fyrir breytingum á greindri fasteign. 

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. október 2001, er barst nefndinni 22. október sama ár, kærir Hilmar Gunnlaugsson hdl., fyrir hönd V hf., kt. 640179-0159, Lyngási 6-7 Egilsstöðum, drátt á afgreiðslu byggingarnefndar og sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps á erindi kæranda, dags. 17. júlí 2001, um byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra breytinga á fasteigninni að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.

Kærandi gerir þá kröfu að úrskurðarnefndin fallist á umbeðnar breytingar í samræmi við erindi hans til Vopnafjarðarhrepps.

Málavextir:  Með bréfi til byggingarfulltrúa Vopnafjarðarhrepps, dags. 17. júlí 2001, óskaði kærandi eftir heimild byggingaryfirvalda hreppsins fyrir breytingum á íbúðarhúsinu að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.  Í fyrirhuguðum framkvæmdum fólst að gluggum yrði fjölgað og breytt, svalir byggðar, bíleymsla stækkuð og bætt við göngudyrum á húsið.  Í bréfinu var tekið fram að fullnaðaruppdrættir samkvæmt byggingarreglugerð yrðu lagðir fram að fengnu samþykki byggingarnefndar fyrir breytingunum.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps hinn 13. september 2001 og afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Byggingarnefnd Vopnafjarðarhrepps getur fallist á útlit fyrirhugaðra breytinga en getur ekki tekið endanlega afstöðu til erindisins fyrr en endanlegar teikningar liggja fyrir með endanlegum málsetningum.  Sérstaklega þarf að gæta að skilyrðum um brunavarnir sé uppfyllt hvað fjarlægðarmörk snertir og einnig staðsetning framkvæmda innan lóðar.  Jafnframt er minnt á nauðsyn þess að fá samþykki nágranna fyrir breytingunum.”  Mun hafa láðst að tilkynna kæranda um þessa afgreiðslu málsins.

Kærandi kærði síðan drátt á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að honum sé ekki kunnugt um að efnisleg rök mæli gegn beiðni hans um greint byggingarleyfi.  Kæra til úrskurðarnefndarinnar byggi á ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimili að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.  Fer kærandi fram á að úrskurðarnefndin heimili umræddar breytingar í samræmi við erindi kæranda frá 17. júlí 2001 enda fullnægi erindið skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einkum 3. mgr. 43. gr. laganna.

Málsrök Vopnafjarðarhrepps:  Bent er á að erindi kæranda hafi verið afgreitt á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps hinn 13. september 2001.  Í bókun nefndarinnar hafi verið tekið jákvætt á erindinu  en bent á að ekki væri hægt að taka ákvörðun í málinu fyrr en fullnægjandi uppdrættir er uppfylltu skilyrði byggingarreglugerðar lægju fyrir.  Þau mistök virðist hafa átt sér stað að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um þessa afgreiðslu en það hafi verið gert jafnskjótt og mistökin hafi komið í ljós.

Hinn 14. mars 2002 barst úrskurðarnefndinni símbréf frá sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, þar sem fram kom að erindi kæranda hafi verið tekið fyrir hinn 13. september 2001 og afgreitt með bókun.  Var haft samband við lögmann kæranda og leitað eftir afstöðu kæranda til framhalds málsins í ljósi framkominna upplýsinga.  Kærandi telur mál sitt enn óafgreitt af hálfu byggingarnefndar þar sem svo hafi verið um samið að grenndarkynning yrði látin fara fram áður en endanlegar teikningar yrðu gerðar og þá að teknu tilliti til athugasemda nágranna ef einhverjar yrðu.

Niðurstaða:  Tilefni kærumáls þessa er ætlaður dráttur á afgreiðslu byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps á erindi kæranda frá 17. júlí 2001, þar sem leitað var eftir heimild til þar greindra breytinga á húsinu að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.

Umrætt erindi kæranda fól í sér beiðni um heimild til breytinga sem byggingarleyfi þarf til samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í bréfi kæranda er tekið fram að fullnaðaruppdrættir samkvæmt byggingarreglugerð verði lagðir fram að fengnu samþykki byggingarnefndar fyrir umbeðnum breytingum en erindinu munu hafa fylgt teikningadrög er sýndu breytingarnar.  Í 4. mgr. 43. gr. nefndra laga segir að byggingarleyfisumsókn skuli fylgja nauðsynleg hönnunargögn og skilríki sem nánar sé kveðið á um í byggingarreglugerð.  Í 46. gr. laganna og 15.-24. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um fylgigögn byggingarleyfisumsóknar og kröfur sem gerðar eru til uppdrátta og annarra hönnunargagna.

Fyrir liggur að umrætt erindi kæranda til byggingaryfirvalda Vopnafjarðarhrepps fullnægði ekki lögboðnum skilyrðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um fylgigögn enda tekið fram í erindinu að fullnaðaruppdrættir yrðu lagðir fram að lokinni afgreiðslu þess.   Bókun byggingarnefndar frá 13. september 2001 ber þess og vitni að réttilega hafi verið litið á erindi kæranda sem fyrirspurn um afstöðu nefndarinnar til erindisins áður en kærandi réðist í að láta gera fullnaðaruppdrætti, sbr. gr. 12.4 í byggingarreglugerð, en slíkt mun tíðkað til þess að komast hjá kostnaði við gerð aðal- og séruppdrátta reynist byggingaryfirvöld mótfallin umsókn. Verður að skýra 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga svo, með hliðsjón af 3. og 4. mgr. ákvæðisins, að byggingarleyfisumsókn verði að uppfylla lágmarkskröfur þess, um aðaluppdrátt og framkvæmdaáform, til þess að umsóknin verði grenndarkynnt með lögformlegum hætti.

Að þessu virtu telur úrskurðarnefndin að erindi kæranda frá 17. júlí 2001 hafi verið afgreitt með fullnægjandi hætti á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðar hinn 13. september sama ár eða áður en kæra um drátt á afgreiðslu barst úrskurðarnefndinni.  Kærandi hafði því ekki hagsmuni af því að fá afstöðu úrskurðarnefndarinnar til þess álitaefnis hvort óhæfilegur dráttur væri orðinn á afgreiðslu erindisins og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

______________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

___________________________                       _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                          Óðinn Elísson

 

50/2001 Hringbraut

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2001, kæra eigenda neðri hæðar fasteignarinnar að Hringbraut 41, Hafnarfirði, á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 24. október 2001 að samþykkja breytingar á innréttingu í geymslurisi íbúðar á annarri hæð hússins að Hringbraut 41, Hafnarfirði.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. nóvember 2001, er barst nefndinni sama dag, kæra G og H, eigendur íbúðar á fyrstu hæð hússins að Hringbraut 41, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 24. október 2001 að samþykkja byggingarleyfisumsókn eigenda íbúðar á annarri hæð hússins um breytingar á innréttingu í geymslurisi íbúðar hans er fól í sér uppsetningu milliveggja, eldhúsinnréttingar, snyrtingar, vinnuaðstöðu og geymslu.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 30. október 2001. 

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Af hálfu byggingarnefndar er gerð krafa um staðfestingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Byggingarleyfishafi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að hin kærða ákvörðun verði stafest.

Málavextir:  Fasteignin að Hringbraut 41, Hafnarfirði er tveggja hæða tvíbýlishús með risi sem fylgir íbúð á annarri hæð hússins.  Samkvæmt samþykktum aðalteikningum hússins frá árinu 1995 er risið óinnréttað geymslurými með fjórum þakgluggum og mynda þakfletir útveggi rýmisins.  Þakrýmið er 147,2 fermetrar og þar af 42,7 fermetrar með lofthæð 1,80 metra eða meiri.  Sérinngangur er í risið úr stigagangi hússins en ekki er innangengt úr íbúð annarrar hæðar í rýmið.

Kærendur sendu byggingarfulltrúa bréf, dags. 21. ágúst 2000, þar sem krafist var að framkvæmdir við þak hússins yrðu stöðvaðar þar sem ekkert samráð hafi verið haft við kærendur og þeim ekki kunnugt um að byggingarleyfi væri fyrir framkvæmdunum.  Í bréfinu var á það bent að breytingar hafi verið gerðar á þaksperrum, og burðargetu þaksins með því raskað, auk þess sem þakgluggar væru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 22. ágúst 2000, þar sem tilkynnt var að framkvæmdir við þakglugga yrðu ekki stöðvaðar fyrr en úttekt hefði farið fram og hún réttlætti slíka aðgerð.  Byggingarfulltrúi sendi húsasmíðameistara hússins bréf, dags. 23. ágúst 2000, þar sem fram kom að af hálfu embættisins hefði farið fram skoðun á fasteigninni að Hringbraut 41.  Við þá skoðun hefði m.a. komið í ljós að settir hefðu verið upp milliveggir í risi og hreinlætistæki tengd við lagnir án leyfis byggingaryfirvalda, glugga vanti á austurhlið rissins og einfaldur gluggi væri á norðurhlið þar sem ætti að vera tvöfaldur gluggi, auk þess sem járnfestingar á sperrum hafi ekki verið klæddar af og einangraðar.  Var húsasmíðameistara hússins bent á að koma þessum atriðum og öðrum sem greind voru í bréfinu í rétt horf.  Loks var á það bent að óheimilt væri að nýta þakrýmið til íveru þar sem ekki lægi fyrir samþykki byggingaryfirvalda til slíkra nota og ekki væri til að dreifa flóttaleiðum.  Afrit bréfs þessa var sent íbúðareigendum hússins.

Hinn 24. október 2001 veitti byggingarnefnd eigendum geymslurissins byggingarleyfi til að innrétta það með þeirri skírskotun að einungis væri um að ræða breytingu á innra skipulagi séreignar efri hæðar hússins.  Samkvæmt grunnmynd þakrýmisins, dags. 12. nóvember 2001, sem samþykkt var af byggingarfulltrúa hinn 22. nóvember 2001, er þar gert ráð fyrir alrými, snyrtingu, eldhúskrók, vinnurými og geymslu. 

Kærendur töldu á rétt sinn gengið með veitingu byggingarleyfisins og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur mótmæla framkominni frávísunarkröfu byggingarleyfishafa.  Kærendur séu enn eigendur neðri hæðar hússins að Hringbraut 41, Hafnarfirði og hafi afhending til nýrra kaupenda ekki farið fram.  Þá sé kæra þeirra til úrskurðarnefndarinnar nægjanlega skýr.

Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, 30. gr. laga um brunavarnir og brunamál nr. 41/1992, ákvæðum byggingarreglugerðar, 13., 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga og gegn ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.  Þá sé með ákvörðuninni brotið gegn lögum og reglum um leiguíbúðir og gengið á stjórnarskrárvarinn rétt kærenda til friðhelgi einkalífs.

Byggingarleyfishafi hafi þegar á árinu 2000 lokið umdeildri innréttingu rishæðarinnar án tilskilinna leyfa og án þess að uppdrættir lægju fyrir eins og bréf byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 23. ágúst 2000 beri með sér.  Jafnframt hafi verið settir þakgluggar á rishæðina, er breyti burðarvirki þaksins, án samþykkis kærenda og án þess að fyrir lægju hjá byggingarfulltrúa aðaluppdrættir er sýni þær breytingar.  Hið kærða byggingarleyfi fyrir innréttingu rishæðarinnar hafi verið veitt rúmu ári eftir að framkvæmdum hafi verið lokið og án þess að tilskildir uppdrættir, er sýni lagnir og brunavarnir rishæðarinnar, væru fyrir hendi.  Brjóti útgáfa byggingarleyfisins því gegn ákvæðum byggingarreglugerðar um framlagningu nauðsynlegra uppdrátta fyrir útgáfu byggingarleyfis og gegn reglum um brunavarnir.  Þá hafi ákvæði laga um fjöleignarhús um samþykki meðeigenda fyrir umdeildri breytingu verið virt að vettugi við hina kærðu ákvörðun.

Risið hafi verið nýtt sem leiguíbúð frá því að umræddar breytingar hafi verið gerðar og sé það í andstöðu við 97. gr. byggingarreglugerðar.  Þá séu ekki fyrir hendi flóttaleiðir úr bruna.  Tvisvar hafi lekið vatn úr lofti íbúðar kærenda niður á nýja eldhúsinnréttingu og skapast hafi óþolandi hávaði frá skólplögn risíbúðar og vegna leigjenda þeirra sem þar hafist við. 

Kærendur séu aðilar að hinni kærðu ákvörðun sem meðeigendur fasteignarinnar að Hringbraut 41, Hafnarfirði, og hafi byggingaryfirvöldum því borið að tilkynna þeim um fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn, veita þeim andmælarétt og aðgang að gögnum málsins áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Það hafi ekki verið gert.  Auk þess hafi ekki verið tilkynnt um kæruleið í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda þar sem samþykkt byggingarleyfisins var tilkynnt.  Málsmeðferðin brjóti að þessu leyti gegn ákvæðum stjórnsýslulaga.

Málsrök byggingarnefndar Hafnarfjarðar:  Í umsögn byggingarnefndar vegna kærumálsins er vísað til þeirra röksemda sem bókaðar voru á fundi nefndarinnar hinn 24. október 2001 er hin kærða ákvörðun var tekin.  Samþykki byggingarleyfisins hafi verið reist á því að það fól einungis í sér breytingar á innra skipulagi séreignar efri hæðar hússins og hafi breytingin ekki áhrif á skiptaprósentu eignarhluta þess.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar gera þá kröfu að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kærenda verði hafnað.

Bent er á að málatilbúnaður kærenda sé óskýr.  Ekki komi fram hvert sé úrlausnarefnið og hverjar kröfur kærenda séu.  Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skuli kæra til nefndarinnar vera skrifleg og í henni greint skilmerkilega hvert úrskurðarefnið sé, hverjar séu kröfur aðila og rökstuðningur fyrir þeim.  Fjarri lagi sé að fyrirliggjandi kæra í máli þessu uppfylli þessi skilyrði og geri byggingaleyfishafar sér ekki grein fyrir því hvert raunverulegt kæruefni sé.  Þá hafi kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrskurð í málinu þar sem þeir hafi þegar selt eign sína að Hringbraut 41.  Af þessum ástæðum beri að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni.

Um efnishlið málsins benda byggingarleyfishafar á að þeir og kærendur hafi keypt þær tvær íbúðir sem séu í húsinu að Hringbraut 41 um svipað leyti á árinu 1999 og hafi húsið þá ekki verið fullgert.  Efri hæðin hafi verið tilbúin til innréttingar og risið, sem skilgreint hafi verið sem geymsla, verið fokhelt og án allra glugga.

Haft hafi verið samband við kærendur á árinu 2000 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gerð þakglugga í samræmi við upphaflegar teikningar og hafi engum andmælum verið hreyft af þeirra hálfu.  Brýnt hafi verið að gera þakgluggana þar sem þakvirki hafi legið undir skemmdum og vegna hitataps gegnum þak.  Kærendur hafi mótmælt ísetningu þakglugganna eftir að framkvæmdir hófust og kært framkvæmdina til byggingarfulltrúa.  Byggingaraðilar hafi haft samband við húsasmíðameistara hússins sem hafi staðfest að þakglugga ætti að setja á húsið samkvæmt teikningum og ekki hafi átt að gefa út fokheldisvottorð fyrir húsið fyrr en að þeim framkvæmdum loknum.  Fokheldisvottorð hafi hins vegar verið gefið út á árinu 1999 og hafi byggingarfulltrúi þá krafist þess að gengið yrði frá þakgluggunum án tafar.  Vegna mótmæla kærenda hefðu lyktir orðið þær að fjórir gluggar hefðu verið settir á risið í stað fimm eins og gert hafi verið ráð fyrir á teikningum.  Hafi byggingaraðilar einir borið allan kostnað af þessum framkvæmdum.  Eftir að gengið hafi verið frá tveimur gluggum hafi byggingarfulltrúi krafist úttektar vegna kvartana kærenda um leka frá þeim en ekkert athugavert hafi komið fram við ísetningu glugganna og engar lekaskemmdir fundist í íbúð kærenda.  Eigi fullyrðingar þeirra í aðra átt því ekki við rök að styðjast.

Hið kærða byggingarleyfi snerti aðeins hluta af íbúð byggingarleyfishafa en veiti ekki heimild til sérstakrar íbúðar í húsinu.  Af þeirri ástæðu eigi tilvitnun kærenda til 97. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 ekki við.  Tilgangur greinds ákvæðis sé ekki að skerða réttindi eigenda til nýtingar þakrýmis sem hluta af annarri íbúð heldur sé tilgangur þess að sporna við að rishæðir, sem eingöngu hafi þakglugga, séu gerðar að sérstökum íbúðum.

Byggingarfulltrúi hafi gert úttekt á innréttingu rishæðarinnar og byggingarnefnd samþykkt hana hinn 24. október 2001. Vegna athugasemda byggingarfulltrúa í bréfi hans frá 23. ágúst 2000 taka byggingarleyfishafar fram að þeir hafi lagt fyrir úrskurðarnefndina lagnauppdrætti af risi frá 21. ágúst 1998, sem hafi þá legið fyrir og sé því fullyrðing um að þá uppdrætti hafi skort á misskilningi byggð.  Fallið hafi verið frá kröfum um klæðningu járnfestinga á sperrum og séu þær í lagi þar sem þær nái ekki upp úr einangrun og leiði ekki raka úr þaki. 

Kærendur byggi kæru sína að meginstefnu til á athugasemdum í greindu bréfi byggingarfulltrúa en byggingarleyfishafar hafi hér sýnt fram á að þær athugasemdir eigi nú ekki lengur við.  Á það er bent að ýmsar athugasemdir hafi verið gerðar við framkvæmdir kærenda í húsinu sem þeir hafi ekki bætt úr þrátt fyrir áskoranir byggingarfulltrúa.

Mótmælt er fullyrðingum um að ekki séu fyrir hendi uppdrættir af burðarvirki hússins með þakgluggum.  Byggingarleyfishafar hafi leitað eftir þeim teikningum hjá byggingarfulltrúa og fengið þau svör að teikningarnar væru geymdar úti í bæ.  Vegna ummæla í kæru um brunavarnir er tekið fram að risið sé ekki sérstök íbúð heldur hluti af eignarhluta byggingarleyfishafa, sem sé að öllu leyti í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar, og hafi byggingarfulltrúi gert úttekt ábrunavörnunum.  Loks er fullyrðingum kærenda um nýtingu rishæðarinnar mótmælt sem tilhæfulausum og órökstuddum og það sé ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að fjalla um hagnýtingu séreigna í fjölbýlishúsum en lögin um fjöleignarhús geri ráð fyrir að eigandi séreignar hafi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir henni.    

Niðurstaða:  Handhafar hins kærða byggingarleyfis gera kröfu um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni sökum óskýrleika kæru og þar sem kærendur hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð í málinu.

Úrskurðarnefndin er stjórnvald og gilda því reglur stjórnsýsluréttarins um meðferð mála fyrir nefndinni.  Samkvæmt 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir leiðbeiningar- og rannsóknarskylda á nefndinni við meðferð mála og verður máli þessu því ekki vísað frá vegna vanreifunar.  Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að þar sé verið að kæra umdeilt byggingarleyfi til ógildingar þótt önnur atriði varðandi fasteignina að Hringbraut 41, Hafnarfirði komi þar við sögu.  Fyrir liggur að kærendur hafa selt íbúð sína með kaupsamningi, dags. 4. nóvember 2002, en afhending eignarinnar til kaupanda samkvæmt samningnum er 15. febrúar 2003.  Með ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er hverjum þeim sem telur rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar heimilað að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.  Ákvæði þetta hefur verið túlkað svo að kæruaðild í slíkum tilvikum sé háð þeirri forsendu að hin kærða ákvörðun snerti hagsmuni eða réttindi kæranda með einhverjum hætti.  Kæruheimild er því ekki einskorðuð við eignarráð fasteignar heldur geta hagsmunir verið tengdir nýtingarrétti kæranda á fasteign.  Kærendur í máli þessu hafa umráð hinnar seldu eignar að afhendingardegi hennar og bera af henni skatta og skyldur fram að þeim tíma. Getur því hið kærða byggingarleyfi, er varðar nýtingu séreignar í sömu fasteign, raskað hagsmunum þeirra.  Af þessu leiðir að kröfu byggingarleyfishafa um frávísun málsins er hafnað.

Hið kærða byggingarleyfi veitti heimild til innréttingar geymsluriss að Hringbraut 41, Hafnarfirði í samræmi við aðaluppdrátt að þeim breytingum og mun úrskurðarnefndin einungis taka afstöðu til lögmætis þeirra breytinga í máli þessu.  Samanburður á samþykktum aðaluppdrætti geymslurissins frá 26. júlí 1995 og samþykktum aðaluppdrætti frá 22. nóvember 2001, svo og bókun byggingarnefndar við veitingu hins umdeilda byggingarleyfis, leiðir í ljós að ekki var veitt heimild til breytinga á þakgluggum og verður því ekki tekin afstaða til þess álitaefnis hvort nefndir gluggar séu í samræmi við samþykktar teikningar.  Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með því að heimilaðar framkvæmdir séu í samræmi við samþykktar teikningar samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og eru honum tiltæk úrræði til þess að knýja fram úrbætur samkvæmt 7. kafla laganna og gr. 61.5 og 61.6 í byggingarreglugerð ef út af er brugðið.

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 24. október 2001 og samþykkt aðaluppdráttar hinn 22. nóvember 2001 fól í sér heimild til handa eigendum íbúðar annarrar hæðar til að innrétta risið, sem er í séreign þeirra, á þann veg að þar væri sett upp snyrting með salerni og sturtu, geymsla, svonefnt alrými, eldhús með vaski og eldavél auk herbergis sem skilgreint er sem vinnuaðstaða.  Verður ekki annað ráðið en með þessu hafi byggingaryfirvöld heimilað breytingu á notkun rýmisins úr geymslu í húsnæði sem ætlað er til daglegrar dvalar fólks og sé til þess fallið að vera nýtt sem íbúð, en fyrir liggur að ekkert aðgengi er milli íbúðar annarrar hæðar og þakrýmis nema um sameiginlegan stigagang hússins.

Samkvæmt 97. gr. byggingarreglugerðar er bannar að innrétta íbúð í þakrými þar sem eingöngu eru þakgluggar.  Með hliðsjón af ákvæðum reglugerðarinnar um öryggis- og heilbrigðiskröfur til íbúðarhúsnæðis verður að túlka umrætt ákvæði svo að það einskorðist ekki við húsnæði sem sé sérstakur eignarhluti heldur ráðist gildissvið þess af notkun húsnæðis.  Breyting sú á notkun rishæðarinnar úr geymslu í dvalarstað fólks, sem hin kærða ákvörðun felur í sér, fer því í bága við 97. gr. byggingarreglugerðar.  Aðaluppdráttur gefur ekkert til kynna um brunavarnir og flóttaleiðir svo sem áskilið er í 2. mgr. 46. gr. skipulags- og byggingarlaga og í gr. 18.7 í byggingarreglugerð og ekki verður af öðrum gögnum séð að umrætt húsnæði uppfylli kröfur reglugerðarinnar í gr. 158.3 um fullnægjandi flóttaleiðir úr rýmum þar sem gera má ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt, t.d. um björgunarop er uppfylli skilyrði gr. 159.5.  Engu breytir hér þótt eignarhluti byggingarleyfishafa hafi áður uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar um brunavarnir, enda þá við það miðað að umrætt rými væri ekki notað til daglegrar dvalar.

Lagnauppdrættir þeir af risi hússins að Hringbraut 41, sem byggingarleyfishafi hefur lagt fyrir úrskurðarnefndina og samþykktir voru af byggingarfulltrúa hinn 21. ágúst 1998, bera með sér að vera upphaflegir séruppdrættir hússins en þeir sýna ekki þær breytingar sem fylgt hafa hinni umdeildu innréttingu rishæðarinnar.  Þá liggur ekki fyrir séruppdráttur raflagna.  Er aðfinnsluvert að ekki hafi verið kallað eftir nauðsynlegum séruppdráttum við útgáfu byggingarleyfisins og þá sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdum hafði verið lokið fyrir veitingu þess.

Að baki öryggisreglum og öðrum kröfum um gerð og umbúnað íbúðarhúsnæðis í skipulags- og byggingarlögum og byggingarreglugerð búa þeir mikilvægu hagsmunir að hindra svo sem kostur er að slys verði er hættuástand skapast og að sem best sé búið að heilbrigði fólks og velferð, sbr. gr. 77.1 í byggingarreglugerð.  Eins og rakið hefur verið uppfyllir umrætt geymsluris ekki lágmarksskilyrði um húsnæði til dvalar fólks eða íbúðar og fer í bága við bann 97. gr. byggingarreglugerðar við því að innrétta íbúð í þakrými þar sem eingöngu eru þakgluggar.  Að þessu virtu verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Að þessari niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort samþykki kærenda hafi verið skilyrði fyrir veitingu umþrætts byggingarleyfis eftir ákvæðum laga um fjöleignarhús enda umrædd breyting á notkun þakrýmisins ólögmæt að mati úrskurðarnefndarinnar.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur hafi verið í sambandi við byggingaryfirvöld í Hafnarfirði vegna breytinga á umræddu risi og þeim verið kunn afstaða kærenda til málsins.  Afriti bréfs byggingarfulltrúa frá 23. ágúst 2000 eftir skoðun geymslurissins, og afrit bréfs um veitingu hins kærða byggingarleyfis, var sent kærendum og liggur ekki fyrir að þeim hafi veið synjað um gögn er málið vörðuðu.  Verður ekki talið, með hliðsjón af atvikum máls, að andmæla- og upplýsingaréttur kærenda samkvæmt 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fyrir borð borinn eða að tilkynningaskyldu stjórnvalds samkvæmt 14. gr. laganna hafi ekki verið gætt.  Hins vegar var ekki gætt ákvæðis 20. gr. laganna um að tilkynna kærendum um kærurétt og kærufrest.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 24. október 2001, um að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu geymsluriss að Hringbraut 41, Hafnarfirði, er felld úr gildi.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Óðinn Elísson

4/2002 Rjúpnasalir

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í nefndinni.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2002, kærur íbúa og eigenda 42 íbúða í Seljahverfi í Reykjavík og Salahverfi í Kópavogi á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 30. október 2001 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Salahverfis vegna lóðanna nr. 10, 12 og 14 við Rjúpnasali í Kópavogi.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með 42 samhljóða bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. febrúar 2002, sem bárust nefndinni 11. sama mánaðar, kæra íbúar og eigendur 34 íbúða við Kambasel, Klyfjasel, Kögursel, Látrasel og Lækjarsel í Reykjavík, og 8 íbúða við Hlynsali, Jórsali, Logasali og Miðsali í Kópavogi, ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 30. október 2001 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Salahverfis vegna lóðanna nr. 10, 12 og 14 við Rjúpnasali í Kópavogi.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2002.  Voru kærur þessar sameinaðar í eitt mál, en hagsmunir kærenda eru í aðalatriðum hinir sömu og málatilbúnaður þeirra samhljóða.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt verður að skilja málatilbúnað kæranda á þann veg að einnig sé kærð fyrri ákvörðun bæjaryfirvalda í Kópavogi í deiliskipulagi frá árinu 1999 um að leyfa byggingu háhýsa á umræddum lóðum við Rjúpnasali og gera þeir kröfu til þess að byggingarleyfi fyrir húsunum verði felld úr gildi og þeim breytt þannig að húsin verði lækkuð verulega.

Við meðferð máls þessa hefur Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur, aðalmaður í úrskurðarnefndinni, vikið sæti af vanhæfisástæðum.  Hefur varamaður hennar, Óðinn Elísson hdl., tekið sæti í nefndinni við meðferð málsins.

Málavextir:  Salahverfi er stórt íbúðasvæði í Kópavogi sem liggur að sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Kópavogs, móts við Seljahverfi í Reykjavík.  Deiliskipulag hefur verið samþykkt í áföngum fyrir einstaka reiti hverfisins frá árinu 1997 og hefur byggð verið að rísa á umræddi svæði.  Var í forsögn að deiliskipulagi svæðisins við það miðaðað  á íbúðareitum innan þess yrðu reistar 926 íbúðir og að íbúafjöldi hverfisins í heild yrði um 3000.

Sumarið 1999 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi á reitum 9 og 11 í Salahverfi í eystri hluta Fífuhvammslands.  Var m.a. gert ráð fyrir því í deiliskipulagi þessu að á lóðum nr. 10, 12 og 14 við Rjúpnasali yrðu reist þrjú háhýsi, 7, 10 og 12 hæða auk jarðhæða, alls 113 íbúðir.  Ekki munu hafa komið fram athugasemdir við auglýsta tillögu að deiliskipulagi svæðisins frá eigendum fasteigna í nágrenni nefndra lóða við Rjúpnasali.

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 21. ágúst 2001 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi við Rjúpnasali 10, 12 og 14 og var skipulagsstjóra bæjarins falið að auglýsa hana í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í tillögunni fólst að heimilað yrði að hækka hvert framangreindra húsa um tvær hæðir auk rishæðar og að íbúðum yrði fjölgað um 9 í hverju húsi.  Jafnframt yrði bílastæðum fjölgað og fyrirkomulagi þeirra breytt.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 31. ágúst til 28. september 2001 með athugasemdafresti til 12. október 2001.  Athugasemdir, ábendingar og mótmæli bárust frá fjölda íbúa í Seljahverfi í Reykjavík og Salahverfi í Kópavogi.  Komu mótmæli m.a. fram á listum með 341 undirskrift.  Lutu athugasemdir þessar aðallega að sjónrænum áhrifum breytingarinnar, auknu skuggavarpi og aukinni umferð.  Tillagan var lögð fram að nýju í bæjarstjórn hinn 30. október 2001 ásamt þeim athugsemdum, ábendingum og mótmælum er borist höfðu og umsögn bæjarskipulags Kópavogs um þær.  Var tillagan samþykkt og eftir það send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar.  Gerði stofnunin ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.  Var sú auglýsing birt hinn 15. janúar 2002.

Þessari niðurstöðu vildu kærendur ekki una og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfum, dags. 9. febrúar 2002, svo sem að framan greinir.  Nokkrum mánuðum síðar, eða í september 2002, bárust úrskurðarnefndinni afrit af athugasemdum og mótmælum íbúa að Rjúpnasölum 6-8, sem þeir settu þá fram við skipulagsyfirvöld í Kópavogi vegna hinna umdeildu bygginga.  Eru athugasemdir þessar meðal gagna málsins en ekki verður litið svo á að með erindi sínu hafi umræddir íbúar gerst aðilar að kærumáli þessu, enda kærufrestur löngu liðinn þegar erindi þeirra barst úrskurðarnefndinni.

Málsrök kærenda:  Málsástæður kærenda koma annars vegar fram í athugasemdum sem gerðar voru á kynningartíma hinnar umdeildu skipulagstillögu og hins vegar í kærum þeirra til úrskurðarnefndarinnar.  Þeir taka fram að flestir þeirra er mótmælt hafi hinni umdeildu breytingu hafi verið mjög ósáttir við slaka kynningu Kópavogsbæjar almennt á fyrirhuguðum framkvæmdum og skipulagi í Salahverfinu.  Fáir hafi vitað af áformum um fyrirhugaða byggingu háhýsa við Rjúpnasali og enn færri um tillöguna um hækkun þeirra.  Flestir hefðu viljað lækka þessar blokkir þar sem þær stingi verulega í stúf við lágreista byggð sem sé í nágrenninu.

Kærendur gagnrýna að af hálfu Kópavogsbæjar hafi skuggvarp aðeins verið reiknað frá mars fram í september kl. 10 árdegis og 12 á hádegi.  Hvorki hafi verið gerð grein fyrir skuggavarpi síðdegis né yfir vetrarmánuðina.  Telja kærendur að skuggavarp á þeim tíma muni verða til baga fyrir íbúa í efri hluta Seljahverfis.

Þá telja kærendur sjónræn áhrif umræddra háhýsa allt of mikil.  Hafi þau veruleg áhrif á útsýni og muni gnæfa sem steinrunnin tröll á meðal annarra húsa á svæðinu.  Einnig hafi hækkun þeirra í för með sér aukna umferð bifreiða, sem þó sé ærin fyrir.  Þess utan hafi enn ekki fundist viðunandi lausn á vegtengingum út úr Salahverfi.

Íbúar að Hlynsölum 10 mótmæla harðlega fyrirhuguðum breytingum á fjölbýlishúsunum við Rjúpnasali.  Telja þeir of mikið um að bæjaryfirvöld í Kópavogi þjóni hagsmunum byggingaraðila og hafi fjölmargir verktakar fengið samþykktar hækkanir á fjölbýlishúsum í hverfinu, m.a. verktakar við Rjúpnasali.  Benda þessir kærendur á að þessu fylgi aukin umferð, þörf verði fyrir stærri skóla, og fleiri leikskóla og öflugri löggæslu.  Óþolandi sé að bæjarfélag skuli endalaust láta það viðgangast að leyfa stanslausar breytingar á skipulagi.

Málsrök bæjaryfirvalda:  Af hálfu bæjafyrirvalda er á það bent að aðeins 4,6% þeirra sem ritað hafi nöfn sín á undirskriftalista til að mótmæla hinni umdeildu skipulagsbreytingu séu búsettir í Kópavogi og því ekkert óeðlilegt við að svo lítið hlutfall aðspurðra hafi vitað um umrædda breytingu, enda megi sterklega reikna með að íbúar í Reykjavík séu síður að velta fyrir sér málefnum í Kópavogi en í Reykjavík.  Ætla megi að því sé eins farið hvað varði framkvæmdir í Salahverfinu.  Kynning tillögunnar hafi verið í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi auglýsing um breytinguna birst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2001 undir fyrirsögninni:  „Auglýsing um skipulag í Kópavogi.“

Það verklag hafi viðgengist hjá bæjaryfirvöldum í Kópavogi um árabil að taka til athugunar óskir lóðarhafa um breytingar á skipulagi.  Slíkt sé eðlilegt enda ekkert skipulag endanlegt eða óbreytanlegt.  Vandi bæjaryfirvalda felist þá í því að vega og meta eðli og áhrif breytinganna, m.a. á aðliggjandi byggð.

Hvað skuggavarp varði sé vísað til könnunar sem gerð hafi verið, en skuggavarp frá umræddum húsum hafi verið kannað 20. mars, 1. maí,  21. júní og 23. september kl. 10 og 12.  Af niðurstöðum könnunarinnar megi ráða að skugginn frá húsunum falli að stærstum hluta á bílastæðin norðan og austan við húsin.  Í umsögninni segi jafnframt að síðdegis falli skuggi af húsunum yfir opið svæði.  Athuganir sýni að skuggar af fyrirhuguðum húsum muni ekki falla á byggð í Reykjavík frá jafndægri að vori til jafndægurs á hausti.  Utan þess tíma séu mishæðir í landi líklegri til að varpa skugga á byggðina.

Ekki sé hægt að fallast á að umrædd hækkun húsanna við Rjúpnasali 10, 12 og 14 hafi umtalsverð áhrif á útsýni frá aðliggjandi byggð.  Verði þetta m.a. ráðið af framlögðum myndum er sýni umrædd hús og næsta nágrenni fyrir og eftir breytinguna.  Minnsta fjarlægð húsa við Lækjarsel að fyrirhugaðri byggð við Rjúpnasali sé um 180 m, við Látrasel um 200 m, við Kögursel um 260 m og 250-280 m við Klyfjasel.

Ekki verði heldur fallist á að breytingin hafi í för með sér óviðunandi aukningu á umferð.  Reiknað sé með að breytingin hafi í för með sér aukningu á umferð sem nemi 200-240 bílum á sólarhring.  Við Rjúpnasali sé fyrirhuguð hverfisverslun og leikskóli auk íbúðarhúsa.  Lauslega áætlað hafi verið gert ráð fyrir umferð 1600-1800 bíla á sólarhring um Rjúpnasali en hún sé eftir hækkun húsanna áætluð 1800-2000 bílar á sólarhring.  Sé aukningin því á milli 12 og 13 af hundraði.  Ekki sé ljóst hvað átt sé við með staðhæfingu kærenda um að enn hafi ekki fundist viðunandi lausn á vegamálum út úr Salahverfi, en þeim þætti séu gerð fullnægjandi skil í gildandi aðal- og deiliskipulagi fyrir eystri hluta Fífuhvammslands.

Telji bæjaryfirvöld að með vísan til framanritaðs séu engar forsendur fyrir því að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar frá 30. október 2001 um breytt deiliskipulag við Rjúpnasali 10, 12 og 14.
 
Andmæli lóðarhafa:  Úrskurðarnefndin aflaði að eigin frumkvæði upplýsinga um það hverjir væru handhafar lóðarréttar á lóðunum nr. 10, 12 og 14 við Rjúpnasali og var þeim gefinn kostur að koma sjónarmiðum sínum að í málinu.  Svar barst frá einum þessara aðila þar sem alfarið er vísað til þeirra sjónarmiða sem teflt er fram af hálfu Kópavogsbæjar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð nánari grein fyrir röksemdum aðila í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.  Þá hefur úrskurðarnefndin með óformlegum hætti kynnt sér aðstæður á umræddu svæði.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var samþykkt deiliskipulag fyrir reiti 9 og 11 í Salahverfi sumarið 1999.  Skipulagsákvörðun þessi hlaut lögboðna málsmeðferð og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði 4. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Í deiliskipulagi þessu er gert ráð fyrir að reist verði á lóðunum nr. 10, 12 og 14 við Rjúpnasali þrjú háhýsi, 7, 10 og 12 hæða, auk jarðhæða.  Skipulagsákvörðun þessi sætti ekki kæru og getur ekki nú komið til endurskoðunar úrskurðarnefndarinnar þar sem kærufrestur vegna umræddrar ákvörðunar er löngu liðinn.  Ber því að vísa frá kröfum kærenda er lúta að byggingu umræddra húsa í samræmi við greint skipulag og um að húsin verði lækkuð frá því sem þar er gert ráð fyrir, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hins vegar kemur til efnisúrlausnar krafa kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 30. október 2001 um breytingu á framangreindu deiliskipulagi, enda var sú ákvörðun kærð innan lögmælts kærufrests.

Af hálfu einstakra kærenda í Salahverfi er því haldið fram að íbúar þurfi ekki að sæta því að bæjaryfirvöld leyfi „stanslausar breytingar á skipulagi.“  Telur úrskurðanefndin það vera eitt af megin úrlausnarefnum máls þessa að skera úr um það hverjar skorður kunni að vera reistar við breytingum á deiliskipulagi nýrra eða nýlegra byggingasvæða með tilliti til hagsmuna íbúa og lóðarhafa á skipulagssvæðinu.

Kveðið er á um deiliskipulag í 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt  2. mgr. þeirrar greinar er skylt að gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 4. mgr. segir að deiliskipulag skuli setja fram í greinargerð og á uppdrætti.  Í greinargerð deiliskipulags sé forsendum skipulagsins lýst og einstök atriði þess skýrð, svo og skipulags- og byggingarskilmálar, sem kveði nánar á um skipulagskvaðir og önnur atriði sem skylt sé að hlíta samkvæmt skipulaginu.  Í deiliskipulagi skuli útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði.

Af tilvitnuðu ákvæði verður ráðið að deiliskipulag leggur grunn að byggð á tilgreindu svæði og afmarkar þar réttindi og skyldur lóðarhafa.  Er það þannig stjórntæki sveitarfélagsins til að stýra þróun og gerð byggðar á skipulagssvæðinu, en felur jafnframt í sér tryggingu lóðarhafa fyrir því að uppbyggingu svæðisins verði hagað eftir fyrirfram ákveðnum reglum, settum með stoð í forsendum skipulagsins.  Verður af þessum ástæðum að telja að heimild sveitarstjórnar til þess að breyta samþykktu deiliskipulagi sæti takmörkunum vegna þess réttar sem skipulagið skapar lóðarhöfum og öðrum rétthöfum á svæðinu.  

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 er hins vegar beinlínis gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti ákveðið að breyta deiliskipulagi, enda geta slíkar ákvarðanir verið bæði nauðsynlegar og réttlætanlegar.  Þarf að meta í hverju tilviki hvort breyting á deiliskipulagi gangi svo gegn rétti lóðarhafa að hún verði metin ólögmæt.  Verður við það mat m.a. að líta til þess hvort breytingin sé gerð í þágu einkahagsmuna eða í almannaþágu, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1997, og eftir atvikum hvort hún sé réttlætanleg en varði bótaskyldu eða eignarnámi.

Deiliskipulag Salahverfis var unnið og samþykkt í áföngum.  Hafði því fjölmörgum lóðum verið úthlutað í hverfinu áður en lokið var gerð deiliskipulags fyrir þann reit við Rjúpnasali sem hin umdeildu hús munu rísa á.  Samkvæmt gögnum frá Kópavogsbæ á þetta m.a. við um lóðir við Jórsali.  Geta kærendur, sem þannig er ástatt um, ekki vísað til þess að skipulag við Rjúpnasali hafi verið meðal ákvarðandi þátta við úthlutun lóða þeirra.  Verður af fyrirliggjandi gögnum ráðið að úr hópi kærenda gætu slík sjónarmið aðeins komið til álita um rétt tveggja lóðarhafa við Miðsali og Logasali auk eins lóðarhafa við Hlynsali og tveggja við Jórsali, sem keypt hafa eignir þar eftir gildistöku upphaflegs deiliskipulags við Rjúpnasali, en það öðlaðist gildi hinn 9. júlí 1999.
 
Í máli því sem hér er til úrlausnar eru aðstæður þær að hin umdeilda breyting virðist hafa verið gerð að ósk þeirra lóðarhafa sem njóta breytingarinnar í auknum byggingarrétti.  Jafnframt er ljóst að sveitarfélagið hefur hagsmuni af breytingunni þar sem hún felur í sér aukna nýtingu lands og er til þess fallin að færa sveitarsjóði nokkurn tekjuauka.  Breytingin felur ekki í sér að vikið sé í grundvallaratriðum frá fyrri skipulagsákvörðun þar sem gert var ráð fyrir háhýsum á umræddum lóðum, en byggingarmagn er aukið verulega.  Það verður þó eftir breytinguna vel innan þeirra marka um nýtingarhlutfall sem ákveðið er fyrir hús af þessari gerð í gildandi aðalskipulagi Kópavogs.  Er fjölgun íbúða og áætluð fjölgun íbúa vegna breytingarinnar innan við 3% miðað við Salahverfið í heild og verður sú breyting ekki talin veruleg. Þegar framanritað er virt, og með hliðsjón af staðsetningu eigna þeirra kærenda sem byggt geta með beinum hætti á forsendum deiliskipulagsins, verður ekki á það fallist að hin umdeilda skipulagsbreyting hafi verið bæjaryfirvöldum óheimil af ástæðum sem einungis verði leiddar af skipulaginu sjálfu.

Að öðru leyti byggja allir kærendur á sjónarmiðum grenndarréttar um aukin sjónræn áhrif  bygginganna, aukið skuggavarp og umferð.  Við mat á þessum áhrifum verður að líta til þess að fyrir var í gildi skipulagsákvörðun um að á umræddum lóðum yrðu reist háhýsi og hafði þeirri ákvörðun ekki verið hnekkt.  Liggur fyrir að háhýsi sem reist hefðu verið á grundvelli skipulags þess sem í gildi var fyrir hina umdeildu breytingu hefðu haft umtalsverð áhrif á næsta nágrenni, einkum sjónræn, enda hefði þau borið við himin séð frá ýmsum nærliggjandi svæðum.  Hefðu nágrannar, úr því sem komið var, orðið að sætta sig við byggingu þessara háhýsa með þeim grenndaráhrifum sem þau hefðu haft í för með sér.

Samkvæmt framansögðu kemur einungis til álita við úrlausn þessa þáttar málsins hvort sú aukning grenndaráhrifa, sem rekja má til hinnar umdeildu breytingar deiliskipulagsins, eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Telur nefndin að hækkun húsanna breyti litlu um sjónræn áhrif þeirra enda verður ekki séð að þau skerði útsýni til muna umfram það sem þau hefðu gert þó ekki hefði komið til hækkunar þeirra.  Vegna þess hversu mikið rými húsunum er ætlað og með hliðsjón af fjarlægð þeirra frá aðliggjandi byggð til norðurs, svo og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um skuggavarp fyrir og eftir hina umdeildu breytingu, verður ekki heldur fallist á það að aukið skuggavarp sé svo verulegt að það eitt eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Loks verður ekki á það fallist að breytingunni fylgi svo veruleg aukning umferðar að ógilda beri hina kærðu ákvörðun af þeirri ástæðu.

Taka má undir þá málsástæðu kærenda að vanda hefði mátt betur til undirbúnings og kynningar á tillögu að hinni umdeildu breytingu með vísan til 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hins vegar var tillagan auglýst svo sem áskilið er í 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr., laga nr. 73/1997 og hlaut hún lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar.  Þykja þeir annmarkar sem voru á undirbúningi og gerð hinnar kærðu ákvörðunar ekki svo verulegir að leiða eigi til ógildingar hennar.

Samkvæmt framansögðu verður kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 30. október 2001 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Salahverfis vegna lóðanna nr. 10, 12 og 14 við Rjúpnasali í Kópavogi.

_________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Óðinn Elísson

31/2001 Barðavogur

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2001, kæra eins eiganda fasteignarinnar að Barðavogi 21 í Reykjavík á ákvörðun setts byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 18. apríl 2001, að vísa frá beiðni hans um endurupptöku á umsókn um staðfestingu á skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júní 2001, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir Halldór Jónsson hdl., fyrir hönd M, eiganda hluta fasteignarinnar að Barðavogi 21, Reykjavík, þá ákvörðun setts byggingarfulltrúa í Reykjavík að vísa frá beiðni hennar um endurupptöku þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur að hafna umsókn eigenda Barðavogs 21 að fá samþykktar þrjár íbúðir í húsinu.  Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur staðfesti afgreiðsluna hinn 30. maí 2001 og borgarstjórn hinn 7. júní sama ár. 

Kærandi gerir þá kröfu að afgreiðsla umsóknar um skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir verði endurupptekin og tekin til greina.

Málavextir:  Deiliskipulagsuppdráttur fyrir staðgreinireit 1.433.0, er liggur norðan Barðavogs og austan Skeiðavogs, var samþykktur í ágúst 1966.  Á uppdrættinum er sýnt skipulag fyrir 11 lóðir og eru lóðamörk, byggingarreitir og bílastæði sýnd.  Skilmálar fyrir einbýlishúsalóðir við Barðavog voru samþykktir í skipulagsnefnd í nóvembermánuði 1966 og kemur þar fram að á lóðunum skuli reisa einnar hæðar einbýlishús og að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í hverju húsi.  Byggingarnefndarteikning af húsinu að Barðavogi 21 var samþykkt hinn 27. júlí 1967.  Þrír eigendur voru að húsinu frá byrjun og átti hver um sig þriðjung fasteignarinnar.  Hinn 15. maí 1970 var undirritað afsal um einn eignarhlutann er taldist vera tvö herbergi, eldhús og bað í suðvestur hluta hússins ásamt hlutdeild í sameign.  Með þinglýstum sameignarsamningi eigenda hússins frá 6. júní 1976 voru eignarhlutar þeirra í fasteigninni sérgreindir í þrjár íbúðir í suðaustur, suðvestur og norðaustur hluta hússins ásamt hlutdeild í sameiginlegu rými.  Taldist hver eignarhluti vera þriðjungur fasteignarinnar.  Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningum og afsölum hafa eignarhlutarnir gengið kaupum og sölum sem sérstakar íbúðir og skráðar sem slíkar hjá Fasteignamati ríkisins og í veðmálabókum sýslumannsembættisins í Reykjavík.  Kærandi eignaðist íbúðina í norðaustur hluta hússins með kaupsamningi, dags. 30. desember 1999, og er þar tilgreint að hluti kaupverðs skuli greiddur með fasteignaveðbréfi skiptanlegu í húsbréf og á það einnig við um kaupsamning um íbúð í suðaustur hluta hússins, dags. 15. júní 2000.  Afsal var gefið út til kæranda hinn 6. janúar 2000.

Hinn 18. október 2000 lagði kærandi, ásamt öðrum eigendum fasteignarinnar að Barðavogi 21, inn byggingarleyfisumsókn þar sem farið var fram á að staðfest yrði áður gerð breyting fasteignarinnar úr einbýlishúsi í þriggja íbúða hús.  Þeirri umsókn var hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 29. nóvember 2000 með þeim rökum að umsóknin færi í bága við gildandi skipulag og með hliðsjón af fordæmisgildi slíkrar ákvörðunar.  Var sú ákvörðun nefndarinnar staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur þann 7. desember sama ár.  Kærandi leitaði atbeina lögmanna um framhald málsins en synjunin var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.

Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 13. febrúar 2001, óskaði kærandi eftir því að fyrrgreind ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar yrði endurupptekin og að eignarhluti kæranda í húsinu yrði samþykktur sem íbúð.  Beiðninni fylgdu gögn er bentu til þess að umrædd fasteign hafi verið nýtt sem þrjár íbúðir frá byggingu hússins og opinber skráning fasteignarinnar endurspeglaði þá staðreynd.  Hinn 18. apríl 2001 komst settur byggingarfulltrúi að þeirri niðurstöðu, meðal annars með vísan til umsagnar skrifstofustjóra borgarverkfræðing, dags. 30. mars 2001, að vísa bæri málinu frá embættinu þar sem ný gögn hefðu ekki verið lögð fram er breyttu niðurstöðu nefndarinnar frá 29. nóvember 2000.

Með bréfi, dags. 10. maí 2001, kærði lögmaður kæranda greinda niðurstöðu setts byggingarfulltrúa til skipulags- og byggingarnefndar sem tók kæruna fyrir á fundi hinn 30. maí 2001.  Á fundinum lá fyrir umsögn Borgarskipulags frá 29. maí 2001 og var ákvörðun setts byggingarfulltrúa, um að vísa endurupptökubeiðninni frá, staðfest með vísan til greindrar umsagnar Borgarskipulags.  Borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti þá afgreiðslu hinn 7. júní 2001.

Kærandi undi ekki málalyktum og kærði synjun endurupptökubeiðninnar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Krafa um endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000 er studd þeim rökum að við ákvörðunina hafi ekki legið fyrir gögn er sýndu fram á að í húsinu að Barðavogi 21 hafi frá upphafi verið þrjár íbúðir og opinber skráning fasteignarinnar við það miðuð.

Gögn þau sem lögð hafi verið fram með beiðni um endurupptöku málsins sýni þá staðreynd að í húsinu séu og hafi verið þrjár íbúðir í yfir þrjátíu ár og hafi umsókn íbúðareigenda því ekki falið í sér breytingu á fasteigninni heldur hafi verið óskað eftir staðfestingu á skiptingu hússins í þrjár íbúðir sem gerð hafi verið fyrir áratugum.  Enginn hafi fett fingur út í þetta fyrirkomulag þótt umræddar íbúðir hafi gengið kaupum og sölum með tilstilli fasteignasala og Íbúðalánasjóður hafi veitt fasteignalán vegna þeirra.  Lóðarskrárritari Reykjavíkur hafi áritað yfirlýsingu um skiptingu fasteignarinnar án athugasemda hinn 7. desember 1968 og margsinnis áritað samþykki sitt á afsöl fyrir íbúðunum.  Eignaskiptasamningur um fasteignina frá 6. júní 1975 beri einnig með sér að um þrjár íbúðir hafi verið að ræða í húsinu.  Íbúar hússins hafi því mátt vænta þess að borgaryfirvöld gerðu ekki athugasemdir við skipan mála.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa byggi á því að samþykki umsóknar kæranda færi í bága við gildandi skipulag svæðisins og að áritanir lóðarskrárritara, eignaskiptasamningur og skráning Fasteignamats ríkisins breyti engu þar um.  Bendir kærandi í þessu sambandi á að mál kæranda sé sérstakt þar sem þrátt fyrir gildandi deiliskipulag virðist allir opinberir aðilar, sem hafi með skráningu fasteignarinnar að gera, hafa talið og staðfest að um hafi verið að ræða hús með þremur samþykktum íbúðum   Er á það bent að dæmi séu fyrir því að íbúðir hafi verið samþykktar í bága við gildandi skipulag.

Samþykki umsóknar kæranda yrði einungis staðfesting á ástandi sem ríkt hafi um áratuga skeið og hefði enga efnislega breytingu í för með sér.  Unnt sé að víkja frá kröfum um fjölda bílastæða og standi það því ekki í veginum fyrir samþykki umsóknarinnar.  Þá verði að hafa í huga við mat á fordæmisgildi slíkrar ákvörðunar að aðstæður sem raktar hafi verið geri mál Barðavogs 21 einstakt.  Loks skírskotar kærandi til væntingarsjónarmiða þar sem yfirvöld hafi gefið íbúum hússins ástæðu til að ætla að í því væru þrjár íbúðir.

Málsrök byggingarfulltrúa:   Borgaryfirvöld gera þá kröfu að ákvörðun setts byggingarfulltrúa frá 18. apríl 2001, um að vísa endurupptökubeiðni kæranda frá, standi óröskuð.

Bent er á að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fyrir endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar séu ekki fyrir hendi í máli þessu.

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000, sem farið sé fram á að verði endurupptekin, hafi verið byggð á því að umsókn kæranda um samþykki borgaryfirvalda fyrir þremur íbúðum í húsinu að Barðavogi 21 færi í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins.og með hliðsjón af fordæmisgildi gagnvart öðrum eigendum fasteigna við götuna.

Gögn þau er kærandi hafi lagt fram með endurupptökubeiðni sinni bendi til að þrjár íbúðir hafi verið í húsinu frá byggingu þess og sé því ekki mótmælt af hálfu borgaryfirvalda.  Hins vegar breyti skráning fasteignarinnar hjá Fasteignamati ríkisins, sýslumannsembætti eða áritanir lóðarskrárritara á afsöl og sameignarsamning eigenda fasteignarinnar ekki gildandi deiliskipulagi eða víki því til hliðar.  Það sé hlutverk skipulagsnefnda og sveitarstjórna að breyta skipulagi samkvæmt núgildandi og eldri lögum.  Með skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir á sínum tíma hafi skipulagsskilmálar verið brotnir og núverandi innréttingar hússins séu ekki í samræmi við samþykktar byggingarnefndarteikningar frá árinu 1967.  Þá hafi verið litið til fordæmisgildis þess að samþykkja þrjár íbúðir í  einbýlishúsi gagnvart öðrum einbýlishúsum á svæðinu við ákvarðanatökuna og hvaða afleiðingar slík breyting gæti haft með tilliti til bílastæða og byggðamynsturs.

Gögnin sem fylgdu endurupptökubeiðni kæranda breyti í engu um þær forsendur sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að umsókn eigenda fasteignarinnar að Barðavogi 21 um samþykki þriggja íbúða í húsinu hafi verið hafnað.  Umsóknin hafi farið í bága við gildandi skipulag og sé yfirvöldum óheimilt að veita byggingarleyfi sem samræmist ekki skipulagsáætlunum.  Telja borgaryfirvöld því að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fyrir hendi.
 
Borgaryfirvöld mótmæla, sem órökstuddum, fullyrðingum kæranda um að fordæmi séu fyrir því að íbúðir séu samþykktar í andstöðu við gildandi skipulag og að viðurkennt sé að formkröfur skipulags standi ekki alltaf í vegi fyrir samþykkt slíkra mála.

Afgreiðsla borgaryfirvalda á umræddu máli hafi ekki getað orðið önnur en hún varð með tilliti til gildandi skipulagsskilmála en kæranda hafi í bréfi setts byggingarfulltrúa frá 18. apríl 2001 m.a. verið bent á að sækja um breytingu á skipulagi svæðisins til þess að mögulegt væri að samþykkja þrjár íbúðir í húsinu.  Kærandi hafi hins vegar ekki látið á það reyna en skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki tekið afstöðu til slíks erindis.

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort skilyrði hafi verið til að endurupptaka þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000 að synja umsókn kæranda o.fl. að samþykktar yrðu þrjár íbúðir í húsinu nr. 21 við Barðavog.

Með endurupptökubeiðni kæranda fylgdu gögn er sýndu fram á að í húsinu hafi verið þrjár íbúðir um áratuga skeið og skráning fasteignamats og þinglýst skjöl hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík um fasteignina og áritanir lóðarskrárritarans í Reykjavík á afsöl og sameignarsamning um fasteignina bentu til hins sama.  Í málinu verður því að taka afstöðu til þess hvort þessar upplýsingar hafi getað haft þýðingu um efnislega niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar í málinu og kærandi eigi því rétt til að fá ákvörðunina endurupptekna samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sú ákvörðun skipulags og byggingarnefndar, að synja umsókn íbúa hússins að Barðavogi 21 um að samþykktar yrðu þrjár íbúðir í húsinu, var studd þeim rökum að slík tilhögun færi í bága við gildandi skipulag og samþykki umsóknarinnar hefði fordæmisgildi gagnvart öðrum lóðarhöfum á svæðinu. 

Skilmálar þeir, sem hér um ræðir, mæla fyrir um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsum á umræddu svæði og telja verður skilmála þessa gilda sem deiliskipulagsskilmála fyrir svæðið samkvæmt 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna er óheimilt að veita byggingarleyfi, m.a. fyrir breyttri notkun húss, nema leyfið sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir.  Fallast verður á það með borgaryfirvöldum að sú staðreynd, að í húsinu hafi verið þrjár íbúðir um áratuga skeið í andstöðu við skipulagsskilmála, hafi ekki getað breytt efnislegri niðurstöðu í málinu að óbreyttu skipulagi.  Skráning umræddrar fasteignar hjá fasteignarmati og sýslumannsembætti eða áritanir lóðarskrárritara á afsöl og sameignarsamning vegna fasteignarinnar skipta hér ekki sköpum enda ekki um ræða bær stjórnvöld til skipulagsákvarðana.  Þau gögn sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni gátu því ekki haft áhrif á greinda niðurstöðu sem byggir á ótvíræðum lagafyrirmælum.  Að þessu virtu verður synjun setts byggingarfulltrúa á beiðni um endurupptöku málsins ekki hrundið.  Kærandi á hins vegar þann kost að leita samþykkis borgaryfirvalda fyrir breytingu á umræddu deiliskipulagi, sem bent er á í bréfi setts byggingarfulltrúa, þar sem hin kærða ákvörðun var kynnt kæranda og í umsögn borgaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar í kærumáli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Synjun setts byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 18. apríl 2001, um endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 29. nóvember 2000 að hafna umsókn íbúa hússins að Barðavogi 21 í Reykjavík um staðfestingu á skiptingu fasteignarinnar í þrjár íbúðir, er staðfest.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

33/2002 Bergstaðastræti

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2002, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir inndreginni þakhæð að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júlí 2002, sem barst nefndinni 12. sama mánaðar, kæra E, R og Á, íbúar og eigendur íbúða að Óðinsgötu 6 í Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir inndreginni þakhæð á húsinu nr. 13 við Bergstaðastræti í Reykjavík.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt kröfðust kærendur þess að úrskurðarnefndin úrskurðaði um stöðvun framkvæmda við bygginguna þar til efnislegur úrskurður gengi í málinu.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 8. ágúst 2002 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, m.a. með vísan til þess hversu framkvæmdir við bygginguna væru langt á veg komnar.

Málavextir:  Umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi var fyrst samþykkt af byggingarfulltrúa þann 16. janúar 2002 og var afgreiðslan færð í fundargerð byggingarfulltrúa þann 22. janúar 2002.  Byggingarstjóri skráði sig á verkið og gengið var frá greiðslu tilskilinna gjalda.  Í bréfi embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. júlí 2002, segir að við nánari skoðun hafi komið í ljós að byggingarleyfið væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Hafi leyfishafa verið tilkynnt um stöðu málsins og jafnframt að byggingarleyfið væri fellt úr gildi og að stöðva skyldi allar framkvæmdir er á því byggðust.  Hafi honum jafnframt verið tilkynnt að sækja bæri um byggingarleyfi að nýju þegar deiliskipulagsbreyting, sem þá hafi verið unnið að, hefði hlotið lögformlegt gildi.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis var auglýst til kynningar frá 27. febrúar til 10. apríl 2002.  Bárust nokkrar athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kærendum.  Tillagan var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 8. maí 2002 og staðfest í borgarráði hinn 14. maí 2002. 

Með bréfi, dags. 14. júní 2002, vísuðu kærendur framangreindum ákvörðunum borgaryfirvalda um breytt deiliskipulag svæðisins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Kom í ljós við fyrstu athugun á því máli að lögboðin auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafði ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en auglýsing um gildistöku skipulagsins var fyrst birt hinn 8. júlí 2002.

Eftir að breytt deiliskipulag svæðisins hafði tekið gildi samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík að nýju byggingarleyfi fyrir umræddri þakhæð þann 10. júlí 2002 en í hinu breytta deiliskipulagi er gert ráð fyrir þakhæð þeirri sem byggingarleyfið tekur til.  Var ákvörðun byggingarfulltrúans um leyfið færð í gerðarbók embættisins hinn 16. júlí 2002, en hlaut fyrst staðfestingu borgarráðs í umboði borgarstjórnar hinn 30. júlí 2002.  Vísuðu kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu leyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi kært til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir borgaryfirvalda um deiliskipulag það sem sé grundvöllur hins umdeilda byggingarleyfis og byggingar þakhæðarinnar.  Meðan ekki hafi verið skorið úr ágreiningi þeim sem uppi sé um lögmæti þessara skipulagsákvarðana leiki vafi á um lögmæti byggingarleyfisins.  Þeir hafi í kæru sinni vegna skipulagsins sett fram rökstuddar ástæður sem þeir telji eiga að leiða til þess að skipulagsákvörðuninni verði hrundið.  Að auki hafi framkvæmdir við bygginguna meira og minna verið unnar í heimildarleysi. 

Málsrök byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarfulltrúa er á það bent að ekki séu gerðar neinar efnislegar athugasemdir við byggingarleyfið af hálfu kærenda og verði ekki séð að neitt nýtt komi fram í kærubréfi, sem breytt geti ákvörðun hans um að veita leyfi fyrir ofangreindum framkvæmdum.  Einungis sé um það að ræða að kærendur hafi borið skipulagsákvörðun um deiliskipulag umrædds svæðis undir úrskurðarnefndina en þeirri ákvörðun hafi ekki verið hnekkt.  Rétt sé að framkvæmdir við bygginguna hafi byrjað áður en hið umdeilda deiliskipulag hafi öðlast gildi, en heimilt hafi verið samkvæmt eldra skipulagi að byggja á lóðinni þriggja hæða hús og hafi framkvæmdir hafist á grundvelli þess.  Standi því ekki efni til þess að ógilda umrætt byggingarleyfi. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. júlí 2002, reifar Othar Örn Petersen hrl., sjónarmið byggingarleyfishafa er lúta að kröfu kærenda um að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar og byggingarleyfið ógilt.  Er kröfunni þar mótmælt.  Bendir hann á að ekki verði séð að fundið sé að því byggingarleyfi, sem nú hafi verið veitt, þó hnökrar hafi verið á því leyfi sem veitt hafi verið í janúar 2002.

Einu rök kærenda í kæru þeirra á deiliskipulagi svæðisins séu þau að framkvæmdirnar skyggi á útsýni frá Óðinsgötu og skerði þar með sólfar og að þeir hafi varið verulegum fjármunum við endurbyggingu svala en verðmæti þeirra verði nánast að engu.  Svalir á íbúðum að Óðinsgötu 6 snúi í norðvestur en einar í suð¬vestur.  Því sé ljóst að hin umdeilda þakhæð skyggi ekki á hús kærenda hvað birtu varði og skerði ekki sólfar nema ef vera kynni síðla kvölds um hásumar.  Fjarlægð milli húsa sé það mikil að nýbyggingin hafi ekki áhrif á birtu að neinu marki.  Taki byggingarleyfishafi undir þau sjónarmið sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. maí 2002, um að byggingin og áhrif hennar séu innan þeirra marka sem gera megi ráð fyrir í miðborg Reykjavíkur.  Það hafi löngum verið vitað að það væri vilji til að þétta byggð, einkum í miðborginni, og þétting byggðar leiði af sér skerðingu fyrir aðra.  Valdi slík skerðing sannanlegri rýrnun á verð- eða notagildi fasteignar sé eigendum fasteigna tryggður réttur til skaðabóta samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verði því að ætla að slíkar ákvarðanir séu skipulagsyfirvöldum heimilar.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að ógilda beri ákvörðun borgaryfirvalda um deiliskipulag það sem liggi til grundvallar leyfinu, en ákvörðun um deiliskipulagið hafi verið vísað til úrskurðarnefndarinnar.  Þá hafi framkvæmdir við bygginguna hafist áður en hið umdeilda skipulag hafi öðlast gildi.

Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags þess sem hið umdeilda byggingarleyfi á stoð í.  Af því leiðir að ekki eru efni til að ógilda byggingarleyfið af þeirri ástæðu að það samrýmist ekki lögformlega gildu skipulagi.  Þótt ámælisvert sé að byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu byggingu hafi upphaflega verið veitt áður en auglýsing var birt um gildistöku nýs deiliskipulags svæðisins verður ekki fallist á að það eigi að leiða til ógildingar, enda brugðust byggingaryfirvöld við mistökunum með því að afturkalla leyfið og stöðva framkvmædir um tíma eða þar til fullnægt var skilyrðum til útgáfu byggingarleyfis að nýju.  Verður kröfu kærenda um ógildingu umrædds byggingarleyfis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. júlí 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir inndreginni þakhæð að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík.

 

______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir.

 

39/2001 Reykjavíkurflugvöllur

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2001, kæra Samtaka um betri byggð á ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra frá 11. apríl 2001 að flýta framkvæmdum við byggingu flugvallar í Vatnsmýri um allt að eitt ár.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. ágúst 2001, kærir Ö, fyrir hönd stjórnar samtaka um betri byggð, ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra frá 11. apríl 2001 að flýta framkvæmdum við byggingu flugvallar í Vatnsmýri um allt að eitt ár.

Málavextir:  Vorið 1998 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar.  Á árinu 1999 var gert mat á umhverfisáhrifum framkvæmda við norður-suður braut flugvallarins og í framhaldi af því veitti Reykjavíkurborg framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum.  Áætlað var að framkvæmdum lyki í október 2002.  Hinn 11. apríl 2001 ákvað Flugmálastjórn að fengnu samþykki samgönguráðherra að flýta verkinu og ljúka því í júní-júlí 2002.  Kærandi sætti sig ekki við þá ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra að flýta umræddum framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll.

Kærandi bendir á að með hinni kærðu ákvörðun hafi framkvæmdum, sem vinna átti á árinu 2002 við norður-suður braut flugvallarins, verið flýtt og færðar fram á árið 2001.  Kærandi telur að flýting framkvæmda fari í bága við frummat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra á árinu 1999.  Auk þess sé ákvörðunin í ósamræmi við framkvæmdaleyfi Borgarskipulags frá sama ári sem byggi á umhverfismatinu.

Niðurstaða:  Kærumál þetta snýst um ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðuneytis um tilhögun verkframkvæmda við endurbætur á norður-suður braut Reykjavíkurflugvallar sem framkvæmdaleyfi var veitt fyrir á árinu 1999.

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sker úrskurðarnefndin úr ágreiningi um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Það fellur ekki undir verksvið úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úr um lögmæti ákvörðunar samgönguráðuneytisins um framvindu verks sem framkvæmdaleyfi er fyrir, enda hafa skipulags- og byggingarlög ekki að geyma ákvæði um það efni.  Þegar af þessari ástæðu er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni og þykir ekki efni til að taka afstöðu til annarra atriða er gætu varðað frávísun svo sem kærufrests og aðildar í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

29/2002 Bergstaðastræti

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2002, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 um að samþykkja deiliskipulag að reit 1.180.3 milli Skólavörðustígs, Óðinsgötu, Spítalastígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2002, sem barst nefndinni 15. sama mánaðar, kæra E, R og Á, íbúar og eigendur íbúða að Óðinsgötu 6 í Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 um að samþykkja deiliskipulag að reit 1.180.3 milli Skólavörðustígs, Óðinsgötu, Spítalastígs, og Bergstaðastrætis í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 14. maí 2002.

Kærendur gera eftirfarandi kröfur:

Aðallega:
1)  Að hafnað verði byggingu inndreginna 4. hæða ofan á Bergstaðastræti 11A og 13A.  
2)  Að hafnað verði áformum um byggingu á horni Spítalastígs og Bergstaðastrætis og   
     viðbyggingu við Óðinsgötu 8 þar til þau áform hafi verið kynnt betur.
3) Að gerð verði athugasemd við nýbyggingu á norðurhluta lóðarinnar nr. 13 við 
    Bergstaðastræti í trássi við gildandi deiliskipulag.

Til vara:
Að byggingu inndreginna 4. hæða að Bergstaðastræti 11A og 13A verði hafnað en frestað verði gildistöku skipulags varðandi byggingar á horni Spítalastígs og Bergstaðastrætis og viðbyggingu við Óðinsgötu nr. 8 þar til viðhlítandi kynning hafi farið fram.

Skilja verður kröfugerð kærenda á þann veg að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar í heild eða að hluta.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Málavextir:  Deiliskipulag það sem um er deilt í máli þessu tekur til götureits, sem afmarkast af Skólavörðustíg til norðurs, Óðinsgötu til austurs, Spítalastíg til suðurs og Bergstaðastræti til vesturs.  Fyrir var í gildi eldra deiliskipulag að reitnum sem samþykkt hafði verið í borgarráði hinn 19. október 1964.  Var í því skipulagi m.a. gert ráð fyrir þriggja hæða randbyggð á reitnum.  Drög að tillögu að nýju deiliskipulagi reitsins voru auglýst til kynningar í júní og júlí árið 2001 ásamt fleiri tillögum.  Engar athugasemdir munu þá hafa borist við tillöguna.

Í kjölfar þessa samþykkti skipulags- og byggingarnefnd á fundi sínum þann 24. október 2001 að auglýsa tillöguna.  Var tillagan auglýst til kynningar frá 27. febrúar  til 10. apríl 2002.  Athugasemdir bárust frá nokkrum nágrönnum, þar á meðal kærendum.  Tillagan var á ný lögð fyrir fund skipulags- og byggingarnefndar þann 19. apríl 2002 og framkomnar athugasemdir kynntar.  Var tillagan enn á ný lögð fyrir nefndina þann 8. maí 2002 og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum þann 14. maí 2002 og var þeim sem gert höfðu athugasemdir tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 16. maí 2002.  Málið var að því loknu sent til athugunar Skipulagsstofnunar sem féllst á að auglýsing um gildistöku skipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda að fengnum nánari skýringum og að undangengnum lagfæringum á skipulagsgögnunum.  Var auglýsing um gildistöku skipulagsins loks birt hinn 8. júlí 2002.

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja kröfur sínar þeim rökum að bygging ofan á húsið við Bergstaðastræti 11A og 13 muni skyggja verulega á útsýni af efri hæðum íbúðanna að Óðinsgötu 6, en þaðan sé m.a. einstakt útsýni yfir Kvosina og Faxaflóa, yfir í Vesturbæinn og norður til Snæfellsjökuls og Akraness.  Komi umrædd skipulagsákvörðun til framkvæmda muni allt þetta útsýni skerðast.

Hækkun húsanna nr. 11A og 13 við Bergstaðastræti munu og hafa í för með sér verulega skert sólfar í garðinum að Óðinsgötu 6 og á svalir beggja hæðanna, sem snúi í norðvestur.  Sólar njóti á lóðinni og svölunum eftir kl. 14-15 síðdegis, og síðdegis- og kvöldsól sé því íbúunum afar mikilvæg í þessu samhengi.  Ef umræddar hæðir bætist ofan á ofangreind hús við Bergstaðastræti muni sólfar á lóð kærenda nánast hverfa á öðrum árstíðum en yfir sumarmánuðina, en að auki skerðast verulega á þeim árstíma.  Sé þetta raunar staðfest af hálfu borgaryfirvalda en athugasemdum íbúa hafi verið svarað með órökstuddum fullyrðingum um að skerðingin sé innan þeirra marka sem vænta megi í þéttri byggð miðborgar.  Íbúar að Óðinsgötu 6 hafi fyrir nokkrum árum ráðist í kostnaðarsamar framkvæmda við endurgerð svala á 1. og 2. hæð, m.a. til að betur mætti njóta sólar síðdegis og að kvöldi.  Standi hin kærða deiliskipulagsákvörðun óröskuð muni ávinningur af þessum framkvæmdum verða að engu.

Loks gera kærendur athugasemdir við það að nýbygging að Bergstaðastræti 13 hafi verið heimiluð í trássi við gildandi skipulag, en byrjað hafi verið á framkvæmdum við hana áður en hið umdeilda skipulag hafi verið auglýst.  Þá hafi skort á að grenndarkynning hafi verið ítarleg.  Þannig hafi ekki mátt ráða af kynningargögnum um hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar við Spítalastíg, en þar að auki hafi gögn um skuggavarp ekki legið fyrir við kynninguna.  Rökstuðningi fyrir ákvörðun borgaryfirvalda í málinu hafi og verið áfátt auk þess sem skipulagið leiði til verðrýrnunar á eignum kærenda.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er tekið undir að bygging inndreginna fjórðu hæða á umræddum lóðum við Bergstaðastræti muni skerða útsýni og auka skuggavarp frá því sem ákveðið hafi verið í eldra skipulagi, en þar hafi verið gert ráð fyrir þriggja hæða byggingum við Bergstaðastræti.  Sú breyting sem hinar inndregnu fjórðu hæðir muni hafa í för með sér hafi þó verið talin innan þeirra marka sem vænta megi og eðlileg þyki í þéttri miðborgarbyggð.  Hvað útsýnisskerðingu varði þá sé ljóst að hún verði einhver.  Í því sambandi verði að hafa í huga að skipulagið frá 1964 hafi gert ráð fyrir þriggja hæða randbyggingu við Bergstaðastræti.  Skerðing á útsýni, sem hið umdeilda skipulag hafi í för með sér, sé því eingöngu vegna hinna inndregnu 4. hæða.  Þar sem þær séu ekki samfelldar sé hægt að horfa á milli þeirra og sé t.d. 7,5 m bil milli þeirra á móts við húsið nr. 6 við Óðinsgötu.

Hið sama megi segja um skuggavarpið.  Af skuggavarpskönnun sé ljóst að áhrif breytingarinnar séu ekki veruleg.  Breytingin muni ekki hafa mikil áhrif á skuggavarp á svalir húss kærenda síðdegis yfir sumarmánuðina, þegar gera megi ráð fyrir að svalirnar séu notaðar hvað mest.  Við mat á áhrifum skuggavarps verði að miða við skipulagið frá 1964 en ekki núverandi ástand og sé breytingin því í raun minni en samanburður á skuggavarpi fyrir og eftir breytingu gefi til kynna.

Jafnframt verði að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti því ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, aukna umferð eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Telji aðilar sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist eða þeir hafi mátt búast við eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Umfjöllun um bætur falli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.  Vert sé þó að árétta að umrædd hús nr. 11A og 13 verði, eftir breytinguna, ekki hærri en húsin við Bergstaðastræti sem nær standi Skólavörðustíg.  M.t.t. framangreinds og byggðamynstursins á svæðinu verði ekki séð að kærendur þurfi að sæta meiri takmörkunum hvað framangreinda þætti varði en íbúar svæðisins almennt.

Loks sé mótmælt órökstuddri fullyrðingu kærenda um að breytingin muni leiða til lækkunar á verði fasteigna þeirra.  Jafnframt sé tekið fram að þrátt fyrir að komist væri að þeirri niðurstöðu að breyting á skipulagi hefði í för með sér bótaskylt tjón leiði það eitt sér ekki til ógildingar skipulagsins.

Hvað varði viðbyggingu við Bergstaðastræti 13 á horni Spítalastígs sé því alfarið hafnað að ekki hafi mátt ráða af hinni kynntu skipulagstillögu hver hæð þeirrar nýbyggingar mætti vera enda sé á götumynd greinilega sýnd hæð þeirrar byggingar.

Vegna þeirra athugsemda er kærendur geri við viðbyggingu að Óðinsgötu 8 sé áréttað að samkvæmt greinargerð hins umdeilda deiliskipulags megi sú bygging vera tvær hæðir en á uppdrættinum sé hún sýnd sem ein hæð, kjallari og ris.  Misræmi sé því í gögnum málsins hvað þetta varði og sé uppdrátturinn rangur en muni verða leiðréttur.  Viðbyggingin, eins og greinargerðin heimili hana og til hafi staðið að veita leyfi fyrir á lóðinni, verði nokkru lægri en núverandi hús og standi auk þess norðan við það.  Hún mun því hafa mjög óveruleg áhrif á skuggavarp frá húsinu nr. 8 og ekki meiri en telja verði að eigendur þurfi almennt að sætta sig við á þessu svæði.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð nánari grein fyrir röksemdum aðila í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.  Þá hefur úrskurðarnefndin með óformlegum hætti kynnt sér aðstæður á umræddu svæði.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Sú meginregla gildir skv. 2. mgr. sömu greinar að gera skuli deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Heimilt er sveitarstjórn að gera breytingar á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 26. gr. nefndra laga, og skal þá fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.

Í máli því sem hér er til úrlausnar voru aðstæður þær að í gildi var deiliskipulag fyrir umrætt svæði, sett á árinu 1964.  Hafði skipulag þetta ekki komið til framkvæmda nema að litlu leyti og aðstæður á svæðinu í raun allt aðrar en þar hafði verið ákveðið. 

Fallast má á að nauðsyn hafi borið til að endurskoða deiliskipulag svæðisins áður en uppbyggingu þess yrði að fullu lokið, enda virðist vilji borgaryfirvalda ekki hafa staðið til þess að færa svæðið til þess horfs sem ákveðið hafði verið í fyrra deiliskipulagi.  Við endurskoðun skipulagsins bar einkum að líta til þeirrar stefnumörkunar sem mótuð er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 með áorðnum breytingum.  Er þar m.a. stefnt að einföldun og samræmingu í skipulagi miðborgarsvæðis og aðlögun þess að þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið með þróunaráætlun miðborgarinnar.

Götureitur sá er hið umdeilda deiliskipulag tekur til er á miðborgarsvæði og liggur að jaðri miðhverfis borgarinnar, sem sérstaklega er afmarkað í aðalskipulagi.  Er á þessu svæði gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall sé allhátt og byggð því með þéttara móti.  Verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að hið umdeilda deiliskipulag samræmist stefnu og skilmálum aðalskipulags, svo sem áskilið er að lögum.

Kærendur byggja kröfur sínar í meginatriðum á grenndarsjónarmiðum er lúta að skerðingu á útsýni og auknu skuggavarpi.  Liggur og fyrir að hið umdeilda skipulag hefur í för með sér að útsýn úr íbúðum kærenda skerðist nokkuð og skuggavarp eykst til muna umfram það sem verið hefði ef eldra skipulag hefði verið lagt til grundvallar við uppbyggingu svæðisins.  Á móti kemur að horfið er frá þeirri skerðingu á lóð kærenda sem eldra skipulag gerði ráð fyrir. 

Við mat á því hvort grenndarsjónarmið eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar verður að líta til þess að húseign kærenda er á miðborgarsvæði og við jaðar miðhverfis borgarinnar.  Verður að telja að á svæðinu hafi mátt gera ráð fyrir þéttingu byggðar og auknu byggingarmagni í þá veru sem í hinu umdeilda skipulagi felst og verður því ekki fallist á að ógilda beri hina kærðu ákvörðun vegna þess óhagræðis sem hún hefur í för með sér fyrir kærendur.  Þá verður ekki heldur fallist á að slíkir annmarkar hafi verið á kynningu og undirbúningi skipulagsákvörðunarinnar að leiða eigi til ógildingar hennar.  Verður kröfum kærenda í málinu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 um að samþykkja deiliskipulag að reit 1.180.3, sem staðfest var í borgarráði hinn 14. maí 2002.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir.

8/2002 Sultartangavirkjun

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2002, erindi Ríkisbókhalds, dags. 9. apríl 2002, og Landsvirkjunar, dags. 29. apríl 2002, um úrlausn ágreinings um álagningu skipulagsgjalds á stöðvarhús Sultartangavirkjunar að fjárhæð kr. 7.104.849,-  samkvæmt reikningi, dags. 27. 12. 2001. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 9. apríl 2002, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vísar Ríkisbókhald efnislegum ágreiningi um greiðslu á skipulagsgjaldi af stöðvarhúsi Sultartangavirkjunar til nefndarinnar til þóknanlegrar meðferðar.  Álagningu sama gjalds kærir Landsvirkjun með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. apríl 2002, og krefst þess að álagning gjaldsins verði felld niður og að réttaráhrifum álagningarinnar verði frestað meðan málið sé til meðferðar hjá nefndinni.  Voru erindi þessi sameinuð og tekin til meðferðar sem eitt mál.

Málavextir:  Skipulagsgjald var lagt á stöðvarhús Sultartangavirkjunar sem er í eigu Landsvirkjunar með reikningi dags. 27. desember 2001, að fjárhæð kr. 7.104.849,-.  Við álagninguna var lögð til grundvallar fyrirliggjandi brunabótavirðing mannvirkisins. 

Með bréfi, dags. 24. janúar 2002, til innheimtumanns gjaldsins, Sýslumannsins á Selfossi mótmælti Landsvirkjun kröfu um greiðslu gjaldsins með vísan til þess að mannvirki sem ekki  væru háð byggingarleyfi væru undanþegin skipulagsgjaldi samkvæmt 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Nánar væri kveðið á um þetta í 37. gr. laganna og væru virkjanir þar á meðal.  Stöðvarhúsið væri órjúfanlegur hluti virkjunarinnar og því undanþegið gjaldinu.

Erindi þetta framsendi innheimtumaður til Fasteignamats ríkisins sem aftur framsendi málið til Ríkisbókhalds.  Óskaði Ríkisbókhald úrlausnar úrskurðarnefndarinnar um þann ágreining sem gerður hafði verið um gjaldskyldu Landsvirkjunar með bréfi dags. 2. apríl 2002.  Síðar barst nefndinni kæra Landsvirkjunar um saman efni eins og að framan er rakið.

Ekki hefur komið til úrskurðar um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvöðunar.  Var þess vænst að innheimtuaðgerðum yrði frestað meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni með hliðsjón af því að upphaflega var úrlausn ágreinings aðila um gjaldið vísað til úrskurðarnefndarinnar af hálfu ríkisvaldsins.

Málsrök:  Af hálfu innheimtumanns er álagning og innheimta gjaldsins rökstudd með tilvísun til réttarheimilda, sem prentaðar eru á bakhlið reiknings fyrir gjaldinu.  Landsvirkjun hefur, svo sem að framan er rakið, mótmælt gjaldtökunni með vísan til ákvæða 35. og 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.  Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni.

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Er í 7. gr. þeirrar reglugerðar kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma um álagningu og innheimtu gjaldsins.  Verður erindi málshefjenda samkvæmt þessu tekið til efnisúrlausnar í nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum er skipulagsgjald sérstakt gjald af mannvirkjum sem innheimta skal í ríkissjóð og er því ætlað að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Heimild var til innheimtu sambærilegs gjalds í 35. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964 og var með stoð í því heimildarákvæði sett reglugerð um álagningu og innheimtu gjaldsins nr. 167/1980.  Var sú reglugerð við lýði allt til ársins 1994 er ný reglugerð um það var sett.  Nú er í gildi reglugerð nr. 737/1997 um sama efni.

Með lögum nr. 60/1981 um raforkuver m.s.br. sbr. l. nr. 48/1999 er  Landsvirkjun veitt heimild, að fengnu samþykki ríkistjórnarinnar, til þessa að virkja á ármótum Þjórsár og Tungnaár við Sultartanga (Sultartangavirkjun), sbr. 2. gr. laganna.   Í 5. gr. sömu laga, svo sem henni hefur verið breytt með lögum nr. 108/1988 og 48/1999 segir svo:  „Virkjunar- og rekstraraðili skv. 1. og 2. gr. er undanþeginn tekjuskatti, stimpilgjöldum, útsvari, aðstöðugjaldi og öðrum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga að því er varðar framkvæmdir skv. 1. og 2. gr.  Þó skal greiða sveitarfélögum þau gjöld sem rekstraraðila er gert að greiða vegna húseigna samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.“

Þar sem umdeilt skipulagsgjald rennur í ríkissjóð, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 73/1997 sbr. og 7. gr. l. nr. 170/2000, leiðir af tilvitnuðu ákvæði 5. gr. l. nr. 60/1981 að Landsvirkjun er, sem virkjunar- og rekstraraðili  Sultartangavirkjunar, undanþegin gjaldinu.  Ber því að fella niður hina umdeildu álagningu skipulagsgjalds af stöðvarhúsi virkjunarinnar. 

Af framangreindri niðurstöðu leiðir að óþarft er að taka afstöðu til kröfu Landsvirkjunar um frestun réttaráhrifa og upphafstíma dráttarvaxta.

 
Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds af stöðvarhúsi Sultartangavirkjunar samkvæmt reikningi, dags. 27. desember 2001, að fjárhæð kr. 7.104.849,-

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

74/2000 Iðnréttindi

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2000, kæra Ó, húsasmíðameistara á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 1. nóvember 2000 að synja umsókn hans um staðbundin réttindi sem húsasmíðameistari og byggingarstjóri í umdæmi Hafnarfjarðar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. desember 2000, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir Ó, húsasmíðameistari, Merkigerði 6, Akranesi, þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 1. nóvember 2000 að hafna umsókn hans um staðbundin réttindi í umdæmi Hafnarfjarðar til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi hinn 7. nóvember 2000.

Málavextir:  Kærandi lauk sveinsprófi í húsasmíði hinn 3. mars 1969. Hann hlaut meistararéttindi í iðn sinni með meistarabréfi, útgefnu af sýslumannsembættinu í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu hinn 20. febrúar 1973.  Hinn 8. október 2000 sótti kærandi um leyfi til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum í umdæmi Hafnarfjarðarbæjar og var umsóknin tekin fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 1. nóvember 2000 þar sem lá frammi bréf byggingarfulltrúa, dags. 20. október 2000, er mælti gegn samþykki umsóknarinnar.  Í bréfinu voru tíunduð ákvæði skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar er málið vörðuðu en þar kom ekki fram í hverju kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði.  Var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að hann uppfyllti ekki ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Kærandi undi ekki þeim málalokum og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann hafi öðlast fullgild meistararéttindi í iðn sinni og séu þau réttindi ekki staðbundin.  Slík réttindi sé ekki hægt að ógilda að ósekju.  Höfnun byggingaryfirvalda í Hafnarfirði á umsókn hans sé órökstudd og uppfylli ákvörðunin því ekki ákvæði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar:  Synjun byggingarnefndar Hafnarfjarðar á umsókn kæranda var rökstudd með eftirfarandi bókun á fundi nefndarinnar hinn 1. nóvember 2000:  „Byggingarnefnd gerir bréf byggingarfulltrúa að sínu og synjar þar með erindinu þar sem umsækjandi uppfyllir ekki ákvæði skipulags- og byggingarlaga.”  Í bókun skipulags- og byggingarráðs frá 19. nóvember 2002 vegna málskots kæranda til úrskurðarnefndarinnar segir svo:  „Ástæður synjunar er að umsækjandi uppfyllir ekki ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um staðbundin réttindi.  Má í því sambandi m.a. benda á gr. 37 í byggingarreglugerð en í henni segir m.a. að umsækjandi skuli leggja fram verkefnaskrá staðfesta af byggingarfulltrúa er sýni fram á að umsækjandi hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi byggingarnefndarumdæmi.  Yfirlýsing þessi liggur ekki fyrir.  Að framansögðu tekur skipulags- og byggingarráð undir bókun byggingarnefndar frá 1. nóv. 2000.”

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar fól í sér synjun á umsókn kæranda um staðbundna viðurkenningu til að bera ábyrgð á og stjórna byggingarframkvæmdum í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar.  Af kæru verður ráðið að kærandi telji að með þeirri ákvörðun hafi meistararéttindum hans verið vikið til hliðar auk þess sem synjun byggingarnefndar hafi verið órökstudd.

Réttindi til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum sem iðnmeistari eða byggingarstjóri eru ekki háð því eina skilyrði að umsækjandi hafi hlotið meistararéttindi.  Meginreglu núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttindi iðnmeistara er hér um ræðir er að finna í 2. mgr. 52. gr. laganna.  Þar er kveðið á um að einungis þeir iðnmeistarar sem lokið hafi námi í meistaraskóla geti fengið löggildingu ráðherra á landsvísu til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum.  Tímabundið ákvæði var sett í 10. tölulið ákvæðis laganna til bráðabirgða þar sem þeim iðnmeisturum, sem ekki höfðu lokið námi í meistaraskóla, var gefinn kostur á að öðlast umrædd réttindi með því að sækja sérstakt námskeið.

Í 5. tölulið bráðabirgðaákvæðis laganna er tekið fram að gildistaka þeirra hafi ekki áhrif á réttindi iðnmeistara og byggingarstjóra sem hlotið hafa viðurkenningu byggingaryfirvalda til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði.  Í lögunum er ekki nánar fjallað um veitingu staðbundinna réttinda til handa iðnmeisturum eða hvort og þá hvaða skilyrði skuli setja fyrir slíkum viðurkenningum eftir gildistöku þeirra.  

Núgildandi heimild til þess að veita iðnmeisturum staðbundna viðurkenningu til þess að bera ábyrgð á verkframkvæmdum gagnvart byggingarnefnd er hins vegar í gr. 37.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Kærandi er húsasmíðameistari og uppfyllir það skilyrði ákvæðisins að hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989.  Við hina kærðu ákvörðun lá hins vegar ekki fyrir hvort kærandi fullnægði því skilyrði ákvæðisins að hafa hlotið staðbundin réttindi til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum.  Verkefnaskrá staðfest af byggingarfulltrúa, er sýndi fram á að umsækjandi hefði að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi byggingarnefndarumdæmi eða umdæmum, fylgdi heldur ekki umsókn kæranda eins og áskilið er í ákvæðinu.

Þrátt fyrir þetta verður að fallast á það með kæranda að hin kærða ákvörðun uppfylli ekki ákvæði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um rökstuðning, enda verður ekki ráðið af bókun byggingarnefndar frá 1. nóvember 2000 hvaða lagaskilyrði kærandi uppfyllti ekki til þess að öðlast umrædd réttindi.  Hins vegar er í umsögn bæjaryfirvalda í kærumáli þessu vísað til þess að m.a. hafi skort verkefnaskrá  með umsókn kæranda.  Ekki liggur fyrir að bæjaryfirvöld hafi kallað eftir slíkri verkefnaskrá frá kæranda eða leitað með öðrum hætti upplýsinga um hvort kærandi uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar til þess að öðlast umsótt réttindi áður en ákvörðunin var tekin.  Þykir málsmeðferðin að þessu leyti fara í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af greindum annmörkum á hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda og snerti atvinnuréttindi hans, verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 1. nóvember 2000, að synja umsókn kæranda um leyfi til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

10/2002 Laufásvegur

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2002, kæra fimm eigenda íbúða að Laufásvegi 19, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóð nr. 21-23 við Laufásveg.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2002, sem barst nefndinni 7. sama mánaðar, kæra Á, S, G, R og G, sem eigendur íbúða að Laufásvegi 19 í Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóð nr. 21-23 við Laufásveg.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 2. maí 2002.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.  Með bréfi, sem úrskurðarnefndinni barst hinn 10. sama mánaðar, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir, sem þá voru hafnar við bygginguna, yrðu stöðvaðar.  Hafnaði úrskurðarnefndin þeirri kröfu með úrskurði uppkveðnum hinn 15. maí 2002.

Eftir uppkvaðningu bráðabirgðaúrskurðar hefur nefndin aflað frekari gagna í málinu og er það nú tekið til efnisúrlausnar. 

Málavextir:  Byggingarleyfishafi, sendiráð Bandaríkjanna, sótti um leyfi til þess að byggja tengigang úr stálgrindareiningum milli húsa sendiráðs Bandaríkjanna á lóðinni nr. 21-23 við Laufásveg og nr. 34 við Þingholtsstræti í Reykjavík samkvæmt framlögðum uppdráttum.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og var ákveðið að kynna umsóknina fyrir nágrönnum, m.a. kærendum.

Erindið var til kynningar frá 1. mars til 2. apríl 2002.  Athugasemdir bárust frá kærendum þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt á meðan enn væru óleyst mál vegna lóðarinnar að Laufásvegi 19, en vandamál munu hafa skapast í kjölfar þess að baklóð hússins hefur verið skilin frá eigninni og ráðstafað til sendiráðs Bandaríkjanna, ásamt bílskúrum sem þar standa.

Af hálfu byggingaryfirvalda þóttu athugasemdir kærenda ekki standa í vegi fyrir því að veita mætti leyfi það sem um var sótt og var leyfið veitt hinn 24. apríl 2002 en byrjað mun hafa verið á framkvæmdum við bygginguna hinn 6. maí 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið umdeilda byggingarleyfi sé andstætt lögvörðum hagsmunum þeirra.  Tilkoma fyrirhugaðrar tengibyggingar muni auka á umferð um baklóðina við hús þeirra, en lóðin að Laufásvegi 17-19 sé í fasteignamati skráð ein óskipt lóð og hafi eigendur greitt skatta og skyldur af allri lóðinni í hlutfalli við eignarhluti sína í húsunum.  Þá hafi arkitekt byggingarinnar verið viðstaddur afgreiðslu málsins í skipulags- og byggingarnefnd sem varamaður í nefndinni og ekki vikið sæti heldur einungis setið hjá við afgreiðslu málsins, en það hafi að mati kærenda verið ófullnægjandi.

Ragnar Halldór Hall hrl. hefur, f.h. kærenda, reifað sjónarmið þeirra frekar eftir að þeim hafði verið kynnt greinargerð byggingarleyfishafa í málinu þar sem m.a. er krafist frávísunar þess.  Hafna kærendur þeim röksemdum sem byggingarleyfishafi teflir fram til stuðnings frávísunarkröfu sinni.  Telja þeir það falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar að úrskurða um það hvort leyfi til byggingarinnar hafi verið réttilega veitt eða ekki.  Ef Reykjavíkurborg geti veitt slíkt leyfi, þá falli það undir verkefni úrskurðarnefndarinnar að úrskurða um hvort lagaskilyrði hafi verið til að veita það eða ekki.  Eigi úrlendisréttur að leiða til þess að ágreiningnum verði vísað frá úrskurðarnefndinni sé ljóst að Reykjavíkurborg hefði heldur ekki mátt synja um byggingarleyfið.  Röksemdafærsla af þessu tagi leiði til þeirrar niðurstöðu að sendiráð megi í krafti úrlendisréttar gera það sem því sýnist innan marka lóðar sinnar án tillits til íslenskra lagareglna.  Sá skýringarkostur sé augljóslega rangur, fyrir honum sé engin lagastoð, hvorki að íslenskum lögum né samkvæmt þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. 

Af hálfu kærenda er jafnframt mótmælt þeirri staðhæfingu byggingarleyfishafa að umrædd tengibygging sé ekki þess háttar að hún varði hagsmuni kærenda með þeim hætti að brjóti gegn lögvörðum réttindum þeirra.  Telja þeir annað hafa komið á daginn og að verulegt ónæði fylgi breyttri nýtingu byggingarleyfishafa á lóðinni.
 
Málsrök byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarfulltrúa er kröfu kærenda mótmælt og vísað til fyrirliggjandi gagna, m.a. umsagnar Ívars Pálssonar, lögfræðings, f.h. skipulags- og byggingarsviðs, um athugasemdir kærenda við grenndarkynningu málsins.  Telur embætti byggingarfulltrúa engin rök standa til þess að fallast beri á kröfu kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 19. júní 2002, reifar Ólafur Jóhannes Einarsson hdl. sjónarmið og kröfur byggingarleyfishafa í málinu.  Krefst hann þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum kærenda verði hafnað.

Til stuðnings frávísunarkröfunni sé byggt á sömu sjónarmiðum og fram komi í bráðbirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar í málinu frá 15. maí 2002 þar sem kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafi verið hafnað með vísan til þess að slík íhlutun íslenskra stjórnvalda væri andstæð þeim réttindum sem sendiráðinu séu tryggð með Vínarsamningnum um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961. 
 
Telji byggingarleyfishafi að á grundvelli sömu röksemda beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni, enda gæti efnisleg niðurstaða nefndarinnar, líkt og úrskurður um stöðvun framkvæmda, falið í sér réttarvörslu sem væri andstæð þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og yrði af þeim sökum ekki haldið uppi. 

Þessu til enn frekari stuðnings vísi byggingarleyfishafi til dóms Hæstaréttar H. 1995. 2023, en af dóminum sé ljóst að byggingarleyfishafa verði ekki stefnt fyrir dóm á Íslandi og væri af þeim sökum ekki unnt að bera efnislega niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar undir dómstóla svo sem almennt gildi þó um ákvarðanir stjórnvalda.  Undirstriki þetta frekar þau sjónarmið, sem færð hafa verið fram til stuðnings því að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Verði ekki fallist á að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli framangreindra röksemda sé þess krafist að því verði vísað frá þar sem kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Byggingarleyfishafa hafi verið veitt leyfi til að byggja tengigang úr stálgrindareiningum milli húsa á lóðinni nr. 21-23 við Laufásveg og 34 við Þingholtsstræti.  Telji hann að framkvæmd þessi varði ekki hagsmuni íbúa við Laufásveg 19 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Hafi kærendur ekki aðilastöðu og beri því að vísa málinu frá.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé þess krafist að nefndin hafni kröfum kærenda.  Eins og fram komi í kæru lúti athugasemdir kærenda fyrst og fremst að því að ekki hafi átt að veita hið umdeilda byggingarleyfi fyrr en óafgreidd mál hússins nr. 19 við Laufásveg hefðu verið leyst í heild sinni.  Byggingarleyfishafi leggi í þessu sambandi áherslu á það að til meðferðar sé einungis gildi tiltekins byggingarleyfis og komi önnur mál er varði hagsmuni íbúðareigenda að Laufásvegi nr. 19 því ekkert við.  Væri vitaskuld algerlega óheimilt að líta til sjónarmiða er varða önnur mál tengd íbúum að Laufásvegi 19 við ákvörðun um byggingarleyfið.  Telji byggingarleyfishafi því engin rök standa til þess að fallast beri á kröfur kærenda.

Niðurstaða:  Óumdeilt er að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi eru alfarið innan marka lóðar sendiráðs Bandaríkjanna.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. l. nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdarvaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu sótti sendiráð Bandaríkjanna um byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu tengibyggingu og var leyfið veitt.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttasamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Bandaríkjanna í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002, um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóðinni nr. 21-23 við Laufásveg, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir