Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2003 Sólheimakot

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2003, kæra eiganda landspildu í landi Sólheimakots í Mosfellsbæ á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2003 um að hafna umsókn um leyfi til að endurbyggja sumarbústað á landspildunni.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. október 2003, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni sama dag, kærir Einar Jónsson hdl., f.h. Ó, Vesturbrún 3, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 26. ágúst 2003 um að hafna umsókn hans um leyfi til að endurbyggja sumarbústað á landspildunni.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 3. september 2003. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar að taka umsóknina til afgreiðslu að nýju og ljúka málinu með útgáfu byggingarleyfis í samræmi við umsókn kæranda.

Málavextir:  Með afsali, dags. 26. október 1973, eignaðist kærandi máls þessa 1,5 ha spildu úr eignarlandi Sólheimakots í Mosfellssbæ.  Á landinu stendur sumarhús í hans eigu sem var byggt á árunum 1979 og 1980 samkvæmt byggingarleyfi Mosfellshrepps frá 25. júní 1979. 

Með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, óskaði kærandi eftir heimild til að fjarlægja núverandi hús og byggja nýtt, nánast á grunni þess gamla.  Erindinu var synjað á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar 26. ágúst 2003 með svohljóðandi bókun:  „Sumarhúsið er á svæði sem er almennt opið svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi og því getur nefndin ekki fallist á erindið“.  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi hinn 3. september 2003.

Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að um sé að ræða lítið sumarhús sem þarfnist nú verulegrar og kostnaðarsamrar endurnýjunar.  Af þeirri ástæðu hafi hann sótt um leyfi til að fjarlægja núverandi hús og byggja nýtt nánast á grunni þess gamla.  Þeirri beiðni hans hafi verið synjað.  Rök skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar fyrir synjuninni hafi verið þau að ,,Sumarhúsið er á svæði sem er almennt opið svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi…”.

Kærandi bendir á að á umræddu svæði séu fjórar sumarhúsalóðir, merktar 1-4 á uppdrætti.  Reitur kæranda sé nr. 1 en á reit nr. 2 standi nýlegt sumarhús.  Reitir nr. 3 og 4 hafi ekki verið seldir.  Í nágrenninu séu nokkur eldri hús og fjölmörg sumarhús, enda skipulögð sumarhúsabyggð skammt frá.

Kærandi heldur því fram að með þeirri ákvörðun að synja um leyfi til að endurbyggja sumarbústaðinn á grunni þess gamla sé vegið að ráðstöfunarrétti hans sem eiganda landsins til réttmætrar og eðlilegrar nýtingar þess.  Í þrjá áratugi hafi kærandi átt land það sem um ræði og notað undir sumarbústað í rúm 20 ár.  Nýting landsins undir sumarhús hafi frá byggingu hússins verið samkvæmt heimild skipulagsyfirvalda og í samræmi við útgefið byggingarleyfi.  Ef kæranda sé nú meinað að endurnýja bygginguna, sé brostinn grundvöllur fyrir notum hans á eigninni.  Slík skerðing á nýtingu eignar í einkaeigu verði ekki gerð án samþykkis eiganda sem ekki þurfi að þola slíka skerðingu bótalaust, skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995.  Þegar af þeirri ástæðu sé synjunin um byggingarleyfið ólögmæt.

Kærandi bendir á að eiganda mannvirkis beri að halda við eign sinni og þegar kostnaður við endurnýjun sé orðinn meiri en bygging nýs húss mæli sanngirnisrök með því að bygging hússins verði heimiluð.  Þá liggi fyrir að það hús sem ætlunin sé að reisa muni falla betur að landslaginu og sé vandaðri bygging en sú sem nú standi á spildunni.  Kærandi hafi alla tíð talið að um sumarbústaðasvæði væri að ræða, enda standi yfir bygging sumarhúsa í nágrenninu og nýlegt sumarhús standi á aðliggjandi sumarhúsalandi, reit nr. 2.  Þannig sé um að ræða sumarhúsabyggð og ekki verði synjað um áframhaldandi landnotkun á sumarhúsalandi í einkaeigu þar sem mannvirki standi einungis með vísan til þess að landnotkun hafi verið breytt í almennt opið svæði, án samráðs við eignarréttarhafa.

Af rökstuðningi fyrir synjun byggingarleyfisins verði ráðið að einungis vegna þess að svæðið hafi verið skipulagt sem almennt opið svæði verði þar ekki veitt leyfi til byggingar hússins.  Þannig sé eignarlóð kæranda í skipulagi svæðisins skilgreind sem almennt opið svæði en ekki frístundabyggð, þrátt fyrir að teljast sumarbústaðasvæði samkvæmt áratuganotkun og yfirliti eignar hjá byggingareftirliti.  Þá sé svonefnd frístundabyggð rétt utan við umrætt land, eða um 200 metrum frá.  Því virðist sem mörk frístundabyggðar í aðalskipulagi frá árinu 2003 hafi verið dregin rétt handan við land kæranda, án samráðs við hann.  Á þeim grunni virðist synjun um byggingarleyfi vera reist.

Kærandi telur orsök synjunarinnar vera mistök við gerð aðalskipulagsins, þar sem tvær sumarhúsalóðir hafi af einhverjum ástæðum orðið útundan og láðst hafi að tilkynna eigendum þeirra þá breytingu sem varð á skipulaginu sem varði verulega hagsmuni þeirra. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Krafa skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar er að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála staðfesti hina kærðu ákvörðun.

Af hálfu Mosfellsbæjar er á það bent að fyrsta aðalskipulag sem gert hafi verið fyrir Mosfellsbæ hafi verið samþykkt á árinu 1983.  Samkvæmt því hafi land það sem sumarbústaður kæranda standi á verið utan skipulagðrar frístundabyggðar og hafi verið það ávallt síðan.  Það sé því misskilningur að nýsamþykkt aðalskipulag hafi breytt þessu. 

Samkvæmt 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé allt land skipulagsskylt.  Í skipulagsáætlunum skuli mörkuð stefna um landnotkun og þróun byggðar.  Samkvæmt 16. gr. laganna beri sveitarstjórn ábyrgð á því að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.  Þar skuli sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu.  Í greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 til 2024 komi fram að ákveðin svæði séu skipulögð fyrir frístundabyggð.  Þar segi að sumarhús megi einungis reisa innan svæða sem afmörkuð séu fyrir frístundabyggð og í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Innan slíkra svæða verði einungis hús sem hvorki séu ætluð né notuð til heilsársbúsetu.  Þá komi þar fram að ekki verði heimilt að byggja við, endurbyggja eða byggja ný sumarhús utan svæða fyrir frístundabyggð.  Einungis verði um að ræða eðlilegt og nauðsynlegt viðhald slíkra eigna.  Þegar slík hús hafi lokið hlutverki sínu, gengið úr sér eða verið fjarlægð, sé gert ráð fyrir því að skipulögð landnotkun samkvæmt aðalskipulagi taki við.  Sumarhús kæranda sé utan skipulagðs frístundabyggðarsvæðis.  Sveitarfélagið sé bundið af því skipulagi sem það hafi samþykkt og Mosfellsbæ því óheimilt að gefa út byggingarleyfi til kæranda fyrir byggingu nýs og stærra sumarhúss.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar um að hafna umsókn kæranda um leyfi til að endurbyggja sumarhús á landspildu í landi Sólheimakots, Mosfellsbæ.  Skipulags- og byggingarnefnd hafnaði beiðni kæranda með vísan til þess að sumarhúsið sé samkvæmt aðalskipulagi innan almenns opins svæðis.

Gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003, afgreitt af Skipulagsstofnun hinn 15. maí 2003 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrættinum er spilda kæranda sem er úr landi Sólheimakots innan opins óbyggðs svæðis og er ekki gert ráð fyrir sumarhúsi kæranda á spildunni.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu framkvæmdir sem byggingarleyfi heimilar vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Fallist er á þau rök bæjarstjórnar fyrir hinni kærðu ákvörðun að umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda samrýmist ekki gildandi aðalskipulagi og verður því hinni kærðu ákvörðun bæjarstjórnar ekki hnekkt.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu  hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadótti

20/2004 Brekkuás

Með

Ár 2004, föstdaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2004, kæra eigenda húseignanna að Brúnási 16, 18 og 20 í Garðabæ á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 28. janúar 2004 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brekkuási 11 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. apríl 2004, sem barst nefndinni 7. s.m., kæra S og S, Brúnási 16, B og R, Brúnási 18 og E og S, Brúnási 20, Garðabæ, ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 28. janúar 2004 um að veita leyfi til byggingar 372,6 m² einbýlishúss að Brekkuási 11 í Garðabæ.  Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi byggingarnefndar Garðabæjar hinn 6. febrúar 2004 og staðfest af bæjarstjórn þann 19. febrúar s.á.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá kröfðust kærendur þess að úrskurðað yrði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda sem hafnar væru með stoð í hinni kærðu ákvörðun og féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum hinn 10. maí 2004.

Gagnaöflun í málinu er lokið og er það nú tekið til efnisúrlausnar.  Hafa nefndinni m.a. borist frekari greinargerð Garðabæjar, dags. 21. júní 2004, og gögn sem bæjaryfirvöld í Garðabæ og byggingarleyfishafi óskuðu í sameiningu eftir að koma að í málinu.  Hafa tafir við þessa gagnaöflun valdið nokkrum drætti á að málið yrði tækt til úrskurðar.

Málavextir:  Hinn 28. janúar 2004 veitti byggingarfulltrúinn í Garðabæ leyfi fyrir byggingu einbýlishúss að Brekkuási 11 og var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn Garðabæjar hinn 19. febrúar 2004.  Hófust framkvæmdir við byggingu hússins í framhaldi af afgreiðslu leyfisins.

Þegar sjá mátti af framkvæmdum hver yrði hæðarsetning nýbyggingarinnar töldu kærendur ástæðu til að kynna sér frekar fyrirhugaða byggingu.  Fengu þeir, að eigin sögn, afrit af teikningum að nýbyggingunni hinn 23. mars 2004.  Töldu þeir bygginguna ekki samræmast skipulagsskilmálum og að grenndaráhrif hennar yrðu óviðunandi.  Skutu þeir ákvörðun byggingaryfirvalda í Garðabæ um leyfi fyrir byggingunni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. apríl 2004, svo sem að framan greinir.

Með úrskurði, uppkveðnum hinn 10. maí 2004, féllst úrskurðarnefndin á kröfu kærenda um að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni.  Hafa framkvæmdir legið niðri frá þeim tíma.

Hin umdeilda nýbygging að Brekkuási 11 er á nýbyggingarsvæði á Hraunsholti í Garðabæ.  Á svæðinu gildir deiliskipulag fyrir Hraunsholt frá árinu 1997 með áorðnum breytingum.  Í skipulagi þessu er gert ráð fyrir fjöbreyttri íbúðarbyggð á svæðinu en í skilmálum er m.a. nánar kveðið á um mannvirkjagerð á einstökum lóðum.  Er á lóðinni að Brekkuási 11 heimiluð bygging einbýlishúss af gerð E-2, en sú húsgerð er samkvæmt skilmálum einnar og hálfrar hæðar og eru á skýringarmyndum í sérskilmálum sýnd dæmi um útfærslur slíkra húsa.

Lóðin að Brekkuási 11 liggur á vesturmörkum að lóðum kærenda að Brúnási nr. 16 og 18.  Norð-vestur af lóðinni er lóð kærenda að Brúnási 20.  Er verulegur hæðarmunur á lóðunum og liggja lóðir kærenda til muna lægra en lóðin að Brekkuási 11. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að umdeild nýbygging fari með ýmsum hætti gegn skipulagsskilmálum svæðisins.  Þannig hafi þess ekki verið gætt að laga mannvirkið að landinu, samræmis sé ekki gætt í þakformi og hæðarsetning sé röng.  Raski byggingin grenndarhagsmunum kærenda enda fylgi henni skuggavarp og skerðing á friðhelgi.  Nefna kærendur sem dæmi mikla vegghæð og nálægð nýbyggingarinnar og að sjá megi af svölum hennar niður í gegnum þakglugga að Brúnási 18.  Þá séu aðstæður þannig að ekki séu skilyrði til að heimila að svalir nái að hluta til út fyrir byggingarreit eins og gert hafi verið.

Í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. apríl 2004, árétta kærendur sjónarmið sín um að hið umdeilda byggingarleyfi sé andstætt skipulagsskilmálum, en í bréfi þessu andmæla kærendur sjónarmiðum byggingarleyfishafa í málinu.  Telja þeir bygginguna fara í bága við ákvæði skipulagsskilmála um hæðarsetningu gólfplötu, um heimild til að byggja svalir út fyrir byggingarreit, um lögun byggingar að landi og um landmótun og að byggingarleyfishafi rangtúlki ákvæði skilmálanna um þessi atriði.  Þá árétta kærendur að þeir telji bygginguna skerða friðhelgi eigna sinna og lóða.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er kröfum og málsástæðum kærenda hafnað.  Fullyrðingar kærenda um ranga hæðarsetningu fái ekki staðist, enda beri að miða við uppgefinn hæðarkóta gólfplötu þess hluta hússins er snúi að götu eins og ráða megi af skýringarmyndum.  Sé þessi skilningur í samræmi við það sem lagt hafi verið til grundvallar við afgreiðslu á byggingarleyfum vegna allra annarra húsa í hverfinu og einnig í öðrum hverfum bæjarins.  Sú verklagsregla hafi almennt gilt í nýjum hverfum í Garðabæ að plötuhæð húsa sé um 30 cm hærri en götukóti og sé með því verið að tryggja að vatn frá götu renni ekki óhindrað inn á aðalhæð húsa.

Í kæru sé ekki haldið fram að önnur atriði, er varði hæð eða umfang hússins, brjóti gegn beinum ákvæðum skilmála, heldur sé vísað til þess að húsgerðin sé andstæð meginmarkmiðum skipulagsins, falli ekki að landinu og sé þess eðlis að hún valdi skerðingu á nýtingu lóða kærenda og skerði verðmæti eigna þeirra.  Þá sé í kæru gerð athugasemd við réttmæti þeirrar ákvörðunar að heimila að svalir gangi út fyrir byggingarreit.

Ekkert af þessu fái staðist þegar litið sé til markmiða og framkvæmdar skipulagsins og heimilda þess.  Meginatriði þessa máls sé að byggingarleyfi hússins að Brekkuási 11 sé í samræmi við heimildir samkvæmt skipulagsskilmálum hverfisins og því ekki ógildanlegt. 

Í viðbótargreinargerð Garðabæjar í málinu, dags. 21. júní 2004, er sérstaklega að því vikið að í bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 10. maí 2004 um stöðvun framkvæmda sé því haldið fram að skipulagsskilmálar séu um margt óljósir og í því sambandi sérstaklega vísað til skilgreiningar á húsgerðinni E-2, sem sé einbýlishús á 1½ hæð.  Slík húsgerð sé skilgreind á skýringarmyndum þannig að hús neðan við götu, eins og eigi við um væntanlega nýbyggingu að Brekkuási 11, sé einnar hæðar hús við götu en tveggja hæða hús séð frá baklóðarmörkum.  Samkvæmt skýringarmyndum geti slík hús ýmist verið aðalhæð og neðri hæð eða pallahús eins og Brekkuás 11.  Í skilmálum séu engar kvaðir um stærðir einstakra hæða, en eðlilegri hönnun sé líklegt að neðri hæð hússins verði minni en aðalhæð, hvort heldur sé á pöllum eða á einni hæð.  Í umræðu um skilgreiningar á húsgerðinni E-2 hafi komið fram að líta eigi svo á að neðri hæð hússins megi aldrei vera stærri en sem nemi 50% af efri hæð.  Af hálfu Garðabæjar hafi, við framkvæmd á skipulagsskilmálum, ekki verið beitt svo þröngri skýringu, enda verði ekki séð nein skynsamleg rök fyrir slíkri takmörkun.  Þá sé það ekki í samræmi við helstu markmið skilmálanna sem séu þau að á Hraunsholti rísi fjölbreytt byggð þar sem fólk eigi þess kost að velja milli mismunandi húsgerða og fá húsnæði við sitt hæfi.  Jafnframt megi benda á að útfærsla á mismunandi stærð hæða sé fyrst og fremst atriði sem lúti að innra skipulagi húsa og hafi þar af leiðandi ekki í för með sér röskun á hagmunum gagnvart næstu nágrönnum.  Garðabær líti svo á að skilmálar og önnur gögn séu skýr hvað varði takmarkanir við útfærslu og hönnun húsa af gerðinni E-2.  Í skilmálum og á skýringarmyndum sé skýrt kveðið á um hæð slíkra húsa og nýtingarhlutfall og einnig komi fram hvernig þakform megi nota.  Sérstök ástæða sé til að vekja athygli á því frelsi sem skýringarmyndir veiti við hönnun á þakformi, þannig geti þakform ýmist verið tvíhalla, einhalla eða flatt.  Í þeim tilvikum sem þakform sé flatt eða einhalla komi skýrt fram að hámarkshæð hússins miðist við þakbrún þess.  Á lóðarblöðum sé síðan tilgreindur gólfkóti sem hæð hússins miðist við og byggingarreitur sem takmarki stærð hússins.

Þegar litið sé til þeirrar framkvæmdar sem viðhöfð hafi verið við afgreiðslu á byggingarleyfum húsa á Hraunsholti sé augljóst að hönnuðir sem unnið hafi eftir skilmálunum hafi ekki talið að í þeim fælist sú takmörkun á stærðum neðri hæða að þær mættu aldrei vera stærri en sem næmi 50% af stærð aðalhæðar.  Slík skýring fæli í sér takmarkanir við hönnun húsa sem engin skynsamleg sjónarmið mæli með í einbýlishúsahverfi þar sem lóðir séu að öllu jöfnu nokkuð stórar og gefi þannig kost á mismunandi hönnun með fjölbreytileika, sem skapi hverfum jákvæða ímynd. 

Í úrskurði úrskurðarnefndar um stöðvun framkvæmda sé og vikið að því hvort til skoðunar eigi að koma ákvæði 74. og 75. gr. byggingarreglugerðar um vegghæðir og því haldið fram að ekki sé hægt að fallast á að skipulagsskilmálar Hraunsholts hafi að geyma ákvæði um vegghæðir þótt þar sé kveðið á um mestu leyfilegu hæð hinna ýmsu húsgerða.

Af hálfu Garðabæjar sé að sjálfsögðu talið eðlilegt að þær greinar komi til skoðunar sem og aðrar greinar byggingarreglugerðar, eftir atvikum.  Þá sé því ekki mótmælt að í skilmálum sé ekki með beinum hætti fjallað um vegghæðir einstakra hæða.  Það sé hins vegar skoðun Garðabæjar að slík tilgreining í skilmálum sé ekki nauðsynleg, enda viðmiðanir greinarinnar frávíkjanlegar.  Óumdeilt sé að í skilmálum sé kveðið á um hámarkshæðir húsa og hafi í framkvæmd verið litið svo á að hönnuðir hefðu frelsi við ákvarðanir á vegghæðum innan þeirra marka og hafi þannig á fullnægjandi hátt verið vikið frá frávíkjanlegu ákvæði fyrrnefndrar greinar byggingarreglugerðar.  Á Hraunsholti séu öll hús, að undanskildum fjölbýlishúsum, annað hvort einnar hæðar eða tveggja og því ekki ástæða til að tilgreina vegghæðir sérstaklega fyrir tveggja hæða hús umfram það sem gert sé með hámarkshæð húsa á skýringarmyndum í skilmálum. Önnur niðurstaða fæli í sér verulegt misræmi gagnvart einnar hæðar húsum, en hámarkshæð slíkra húsa sé 5,4 m eins og fram komi á skýringarmyndum.  Í því tilviki sé augljóslega verið að víkja frá þeim  viðmiðunum um vegghæðir sem nefndar séu í ákvæði 74. gr.  Eðlilegt sé að gætt sé samræmis við skýringu á hámarkshæðum húsa að þessu leyti. 

Af hálfu Garðabæjar er á það bent að við skoðun á húsgerðum tveggja hæða húsa á Hraunsholti megi sjá staðfestingu þess að í framkvæmd hafi ákvæðið verið skýrt með þessum hætti.  Eru tilgreind, þessu til stuðnings, dæmi um fjögur hús, þar á meðal Brúnás 20, en eigendur þess eru meðal kærenda.  Flest standi þessi hús við opin svæði og valdi því ekki hugsanlegri röskun gagnvart nágrönnum.  Húsin séu öll sérstök í hönnun, hvert á sinn hátt og hafi verið talin falla vel að skipulagi hverfisins og vera í samræmi við skilmála. 

Í tilviki Brekkuáss 11 séu aðstæður aðrar, þar sem lóðin sé ekki við opið svæði heldur liggi samsíða öðrum lóðum þ.e. lóðum kærenda í máli þessu að Brúnási 16 og 18.  Þær aðstæður geti á engan hátt skert rétt lóðarhafa Brekkuáss 11 frá því sem skilmálar segi fyrir um.  Sé þá horft til þess hvernig þeir hafi verið skýrðir og framkvæmdir í hverfinu, m.a. í tilvikum kærenda.  Nýbygging að Brekkuási 11 nýti byggingarreit að verulegu leyti og einnig skilmála um hámarkshæð og nýtingarhlutfall.  Slík nýting skilmála gagnvart nágrönnum verði að teljast falla að því sem í úrskurði úrskurðarnefndar sé nefnt réttmætar væntingar lóðarhafa og annarra rétthafa á skipulagssvæðinu.  Kærendur í máli þessu hafi því alltaf mátt vænta þess að á lóðum aftan við lóðir þeirra, sem þeir virðist hafa litið á sem opið svæði, kæmu byggingar sem gætu verið með þeim hætti sem lóðarhafi við Brekkuás 11 hafi sótt um að fá að reisa.  Fráleitt sé að réttur þeirra til verndar gegn hugsanlegri röskun geti gengið framar rétti lóðarhafa Brekkuáss 11 samkvæmt skilmálum hverfisins.

Aðstæðum á lóðamörkum Brekkuáss 11 og Brúnáss 16 og 18 sé ágætlega lýst í úrskurði úrskurðarnefndar um stöðvun framkvæmda, en þar komi fram að verulegur hæðarmunur sé á lóðunum og að lóðir kærenda liggi til muna lægra en lóðin að Brekkuási 11.  Aðstæður sem þessar sé víða að finna í hverfinu og þar gerist það að byggingar á viðkomandi lóðum leiði af sér skuggavarp og önnur áhrif á þær lóðir sem lægra liggi.  Megi í því sambandi nefna lóðir við Eikarás og Greniás.  Horfa verði til þess að hér sé um nábýli í íbúðahverfi að ræða og þar geti enginn átt takmarkalausan rétt á að tryggt sé algjört afskiptaleysi nágranna.  Slíkt sé eðlilega ómögulegt í íbúðahverfi þar sem um 1500 manns búi.

Varðandi túlkun á skilmálum um hámarkshæðir og vegghæðir hafi byggingarleyfishafi leitað eftir áliti lögfræðings á skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar.  Í tölvubréfi hans komi fram að í Reykjavík hafi verið litið svo á, þegar hámarkshæð húss í metrum sé tilgreind í deiliskipulagi og tekið fram að þakform sé frjálst, megi vegghæð húss ná upp í hámarkshæð þá sem gefin sé upp í metrum. 

Á vegum skipulagsfulltrúa Garðabæjar hafi verið leitað eftir upplýsingum frá Hafnarfirði og Kópavogi og hafi komið fram að þar séu mál meðhöndluð með sama hætti og í Garðabæ og Reykjavík.  Slík framkvæmd um áraraðir á nánast öllu höfuðborgarsvæðinu hljóti að vega þungt í málinu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum og sjónarmiðum kærenda mótmælt.  Hefur byggingarleyfishafi svarað málsástæðum kærenda lið fyrir lið og telur þær ýmist byggðar á misskilningi eða rangtúlkun á skipulagsskilmálum svæðisins og öðrum réttarheimildum sem við eigi í málinu.  Hafa verði í huga að skipulag umrædds svæðis geri ráð fyrir þéttri og fjölbreytilegri byggð og geti kærendur ekki gert tilkall til þess rólega yfirbragðs og sveitasælu sem þeir geri í kærunni.  Enginn réttur hafi því verið brotinn á kærendum með útgáfu byggingarleyfis vegna hússins sem verið sé að byggja á lóðinni að Brekkuási 11.

Sé það eindregin afstaða byggingarleyfishafa, að þar sem byggingarleyfi vegna húsbyggingar hans að Brekkuási 11 sé ekki haldið neinum ágöllum er ógildingu varð,i sé sjálfgefið að hafna beri kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfisins.

Með bréfi, dags. 4. maí 2004, kom byggingarleyfishafi á framfæri ítarlegum frekari athugasemdum sem einkum lúta að túlkun skipulags um vegghæðir með hliðsjón af frávíkjanlegum ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um það efni.  Segir þar m.a. að í þessu sambandi komi einkum þrír þættir til skoðunar sem séu, eftir atvikum, tengdir eða óskyldir.  Sé hér um að ræða hámarkshæð húss, lofthæð í húsi og vegghæð húss.

Hvað varði hámarkshæð húss, sé áréttað það sem fram komi í upphaflegum athugasemdum byggingarleyfishafa um hámarkshæð húss og grunnlínu hennar, þ.e. að hámarkshæð húss á lóðinni Brekkuási 11 sé 5,8 m og að miða skuli við hæðartölu gólfplötu þess hluta húss er snúi að götu.  Verði ekki frekar fjallað um hámarkshæð hér nema í umfjöllun um vegghæð húss.

Hvað varði lofthæð í húsi og vegghæð húss sé mikilvægt að gera grein fyrir því hvað felist í viðkomandi hugtökum og grunnrökunum á bak við þau.  Lofthæð í húsi fjalli um lofthæð í einstökum rýmum húss.  Um lofthæð í húsum fjalli 78. gr. byggingarreglugerðar og geymi hún lágmarksákvæði um lofthæð.  Markmiðið á bakvið ákvæði um lofthæð sé skýrlega að tryggja ákveðin lágmarksgæði rýma fyrir þá sem í húsunum búi og þá sem kaupi hús.  Reglugerðargjafinn horfi hér inn á við, þ.e.a.s. til þeirra sem noti rými innan útveggja húss.  Allt framangreint greini ákvæði um lofthæð með skýrum og áþreifanlegum hætti frá reglum um vegghæð húss.  Reglur um vegghæð fjalli um hæð útveggja húss, algerlega óháð því hvernig húsi sé skipt í hæðir eða innra rými þess skipulagt yfirleitt.  Fjallað sé um vegghæð húss í 74. gr. byggingarreglugerðar og séu ákvæði greinarinnar frávíkjanleg, þ.e.a.s. þau eigi aðeins við ef ekki sé kveðið á um vegghæð húss í metrum í deiliskipulagi.  Kveði greinin á um það hvernig vegghæð skuli reiknuð ef ákvæðum þar um sé ekki til að dreifa í deiliskipulagi, en aðeins tilgreint hversu margar hæðir megi byggja.  Reglugerðargjafinn horfi hér út á við, þ.e.a.s. til ytra útlits húss eins og það kunni að hafa áhrif á umhverfi þess og nábýlinga.

Ekki sé um það deilt að ákvæði 78. gr. byggingarreglugerðar um lágmarkslofthæð séu uppfyllt í tilfelli þess húss sem verið sé að byggja að Brekkuási 11.  Verði því ekki frekar fjallað um lofthæð í þessum athugasemdum, nema í sambandi við umfjöllun um vegghæð.

Í tilviki hússins að Brekkuási 11 komi ekki til kasta 74. gr. byggingarreglugerðar, þar sem vegghæð húss sé ákveðin í deiliskipulagi Hraunsholtshverfis með ótvíræðum hætti í lið 2.1.2 í deiliskipulaginu.  Ákvæði nefndrar greinar byggingarreglugerðar verði ekki skýrð svo að þau áskilji að vegghæð sé skilgreind með einum hætti fremur en öðrum í deiliskipulagi og því verði að telja að vegghæð sem skilgreind sé með tilgreiningu hæðarpunkta á uppdráttum eins og þeim sem liður 2.1.2 í deiliskipulaginu geymi, verði að öllu leyti jafnað til slíkrar tilgreiningar í orðum.  Reyndar sé engin ákvæði að finna um það í settum rétti með hvaða hætti vegghæð húss skuli ákveðin.

Eins og komið hafi fram hér að framan sé markmiðið með reglum um vegghæð húss að tryggja hagsmuni annarra en þeirra sem búi í eða kaupi það hús sem um sé að ræða.  Markmiðið sé að vernda nábýlinga og nágrenni almennt fyrir því að vegghæð húss gangi á tiltekna hagsmuni þeirra.  Sé því ljóst að um hámarksákvæði sé að ræða, enda hagsmunir þeirra sem verið sé að vernda almennt í því fólgnir að vegghæð húss sé ekki meiri en eðlilegt megi teljast og þeir megi gera ráð fyrir.  Langsótt verði að telja að hagsmunir nábýlinga og nágrennis felist í því að vegghæðir séu ekki of litlar.  Þá verði að árétta að óbeint séu fyrir hendi ákvæði um lágmarksvegghæðir í 78. gr. byggingarreglugerðar um lofthæðir, enda verði vegghæðir aldrei lægri en svo að þær samræmist ófrávíkjanlegum ákvæðum þeirrar greinar.  Séu hagsmunir hlutaðeigandi þannig rækilega tryggðir að þessu leyti.

Samspil ákvæða um hámarkshæð húss og vegghæð þess geti verið með ýmsu móti.  Þannig geti verið að um sé að ræða ólíka hæð, þ.e.a.s. að hámarkshæð húss sé hærri en vegghæð þess.  Eigi þetta skýrlega við ef gerðar séu ákveðnar kröfur um frágang og gerð þaks sem leiði til þess að mesta vegghæð geti aldrei náð hámarkshæð húss, t.a.m. þegar gerð sé krafa um valmaþak.  Sé í slíkum tilvikum ljóst að hámarksvegghæð húss geti aldrei orðið sú sama og hámarkshæð húss vegna ákvæða byggingarreglugerðar um þakhalla.  Hámarksvegghæð húss sé hins vegar sú sama og hámarkshæð í öðrum tilvikum og eigi það skýrlega við þegar sú krafa sé gerð til þakgerðar að um sé að ræða „flatt“ þak.  Sama eigi við þegar húsgerð, og þar með gerð og frágangur þaks, sé frjáls.  Verði þá að ganga út frá rétti húsbyggjanda til að byggja „flatt“ þak og að hámarksvegghæð falli því saman við hámarkshæð húss.

Í tilviki hússins að Brekkuási 11 sé ljóst að þar sé á ferð síðastnefnda tilvikið.  Í lið 1.1.8 í skipulagi Hraunsholts komi berum orðum fram að húsgerðir séu frjálsar.  Felist í því orðalagi að þakgerð sé frjáls og heimild húsbyggjanda til að byggja hús með „flötu“ þaki.  Sé þannig ljóst að í þessu tilviki falli hámarksvegghæð og hámarkshæð húss saman.  Ráðist því leyfileg vegghæð hússins að Brekkuási 11 af hámarkshæð þess eins og hún sé tilgreind á skýringarmynd í lið 2.1.2 í skipulaginu.

Í bréfi byggingarleyfishafa frá 4. maí 2004, er auk framanritaðs, gerð ítarleg grein fyrir því hvernig hann telji að túlka beri skýringarmyndir skipulagsins og annað því tengt en ekki þykir þörf á að rekja hér frekar efni bréfsins.  Úrskurðarnefndin hefur hins vegar haft það allt til hliðsjónar við úrlausn málsins, svo og allar frekari röksemdir sem málsaðilar hafa fært fram fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.

Vettvangskönnun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 28. apríl 2004 að viðstöddum fulltrúum kærenda, byggingarleyfishafa og bæjaryfirvalda.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 28. janúar 2004 um að veita leyfi til að byggja 372,6 m² einbýlishús að Brekkuási 11 í Garðabæ.  Ber úrskurðarnefndinni, með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, að taka til úrlausnar þau atriði er varða lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og takamarkast úrlausnarefnið ekki við þær málsástæður sem kærendur tefla fram.  Kemur einkum til skoðunar hvort hið umdeilda byggingarleyfi samræmist skipulagsskilmálum byggingarsvæðisins, svo og hvort fylgt hafi verið viðeigandi ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998 við hönnun byggingarinnar.

Lóðin að Brekkuási 11 er brött og hallar henni niður frá götu í átt að lóðum kærenda að Brúnási 16 og 18.  Heimilt er að byggja á lóðinni hús af gerðinni E-2, en þeirri húsgerð er í sérákvæðum skipulagsskilmála lýst sem einbýlishúsi á 1½ hæð án þess að slík húsgerð sé skilgreind umfram það sem ráða má af skýringarmyndum.  Samkvæmt skýringarmyndum þessum getur hús af nefndri gerð, á lóð sem hallar niður frá götu, annaðhvort verið á einni hæð séð frá götu, og þá með neðri hæð undir þeim hluta húss sem er fjær götu, eða stallað að hluta og er þá hluti hússins, fjær götu, á tveimur hæðum, þar sem neðri gólfplatan er um það bil ½ hæð lægri en gólfplata þess húshluta sem veit að götunni.  Hefur fyrirhugað hús að Brekkuási 11 verið hannað með síðargreinda útfærslu í huga.

Hin umdeilda nýbygging er með flötu þaki en þó í hámarkshæð eins og hún virðist ákvörðuð af bæjaryfirvöldum.  Er salarhæð í húsinu og vegghæðir meiri en verið hefði ef húsið hefði verið hannað með annari þakgerð og eykur þetta byggingarlag grenndaráhrif hússins.  Á skýringarmyndum í skipulagsskilmálum er efsti hluti húsa sýndur með brotnum línum og hjálparlínum, sem augljóslega tákna svigrúm til mismunandi þakgerða, en ekki verður ráðið af þessum gögnum að í skipulaginu felist heimild til þess að hækka útveggi húss upp í tilgreinda hámarkshæð þegar hús er hannað með flötu þaki eins og í hinu umdeilda tilviki.  Þykir slík hönnun ekki samræmast skýringarmyndunum, en að auki leiðir hún í hinu umdeilda tilviki til þess að vegghæðir fara í bága við ákvæði 74. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. 3. gr. ÍST 21 um hæðarmál í byggingum og ákvæði gr. 3.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Ákvæði 74. gr. byggingarreglugerðar fjallar um vegghæð húsa og kveður m.a. á um að sé vegghæð ekki ákveðin í metrum, heldur tiltekið hve margar hæðir megi byggja, skuli miða við að í íbúðarhúsi sé hver hæð af gólfi á annað 2,70 – 2,80 m, þó þannig að lofthæð verði aldrei minni en 2,50 m.  Í tilviki því sem hér er til úrlausnar hefur verið vísað til þess að á skýringarmyndum sé að finna ákvarðanir um hámarkshæð húsa og að í þeim ákvörðunum felist jafnframt ákvörðun um hámarksvegghæðir.  Hafi, með þessu móti, verið vikið frá ákvæði 74. gr. byggingarreglugerðar um vegghæðir, svo sem heimilt sé í skipulagi, sbr. 73. gr. reglugerðarinnar.

Úrskurðarnefndin hafnar þessum röksemdum, enda er á skýringarmyndunum engin afstaða tekin til þess hvernig heildarhæð húss skiptist milli veggja og þakrýmis eða einstakra hæða.  Verður því ekki á það fallist að í skipulagsskilmálum fyrir Hraunsholt séu ákvæði um vegghæðir sem víki frá ákvæðinu í 74. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Verður ekki heldur á það fallist að víkja beri ákvæði þessu til hliðar með þeim rökum að það hafi í ríkum mæli verið virt að vettugi, enda bæði ósannað að svo sé og óljóst að hvaða marki skipulagsskilmálar eru sambærilegir í þessu efni.  Þá verður ekki séð að það sé á færi sveitarstjórna að víkja til hliðar ákvæðum byggingarreglugerðar umfram það sem leiða má af heimildum frávíkjanlegra ákvæða.

Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin umdeilda bygging samræmist ekki ákvæðum byggingarreglugerðar í þessu tilliti.

Í almennu ákvæði sérákvæða skipulagsskilmála svæðisins, gr. 2.1.0, er tekið fram að bratti sé allmismunandi á lóðum og að lögð sé áhersla á að tillit sé tekið til þess við hönnun.  Skýringarmyndir, sem fylgi skilmálunum, sýni í meginatriðum afstöðu byggingar til götu og lóðar við mismunandi aðstæður, með fyrirvara um að húsgerð falli eðlilega að landi á hverri lóð. 

Fyrirvari þessi er í samræmi við helstu markmið í grein 1.1.2 í skipulagsskilmálunum, þar sem m.a. er tekið fram að öll mannvirki á svæðinu séu hönnuð þannig að þau falli sem best að landi.  Verður að telja fyrirvarann meðal bindandi fyrirmæla skipulagsins um hönnun húsa á svæðinu. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hæðarsetning gólfplötu þess hluta hins umdeilda húss sem snýr að götu um 55 cm yfir götuhæð fyrir miðju húsi.  Ráðast aðrar hæðarsetningar í húsinu af hæð þessarar gólfplötu. Telur úrskurðarnefndin aðfinnsluvert að  hæðarsetningar þessar skuli fyrst hafa verið ákvarðaðar á hæðarblaði eftir samþykkt skipulagsins auk þess sem þær samræmist illa áskilnaði skipulagsins um að mannvirki skuli falla sem best að landi.  Með hliðsjón af því að skipulag svæðisins er að stofni til samþykkt fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og fyrir gildistöku núgildandi ákvæða skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um framsetningu skipulagsáætlana, sbr. gr. 5.4, þykja þessir annmarkar þó ekki koma til álita við mat á lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin tekur fram að hún telur á skorta að fullnægjandi grein sé gerð fyrir því í skipulagsskilmálum hvað átt sé við þegar talað er um hús á 1½ hæð.  Telur nefndin eðlilegast að skýra ákvæði skipulagsins um þessa húsgerð á þann veg að því séu settar skorður hve stór hluti húss geti verið tveggja hæða, a.m.k. þegar um sé að ræða stallað hús eins og í hinu umdeilda tilviki.  Hins vegar er það niðurstaða nefndarinnar að hlutföll í hinni umdeildu byggingu séu innan eðlilegra marka í þessu tilliti, en þess mátti vænta að byggingar á lóðum í hverfinu yrðu fyrirferðarmeiri eftir að nýtingarhlutfall var hækkað við breytingu sem gerð var á skipulagi þess í ársbyrjun 2003.  Einnig telur nefndin að heimild hafi verið í skipulagi fyrir því að leyfa byggingu svala að hluta til lítillega út fyrir byggingarreit og koma þessar ástæður ekki til álita við mat á lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin umdeilda bygging samræmist ekki ákvæði 74. gr. byggingarreglugerðar um vegghæðir.  Er og fallist á að kærendur hafi ekki mátt vænta svo mikilla vegghæða byggingar á lóðinni miðað við eðlilega skýringu á skipulagsskilmálum svæðisins.  Þykja þessar ástæður eiga að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 28. janúar 2004, sem staðfest var af bæjarstjórn þann 19. febrúar s.á., um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Brekkuási 11 í Garðabæ, er felld úr gildi.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

_____________________________               ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

39/2002 Austurgata

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2002, kærur eigenda hússins að Hverfisgötu 32 og eigenda neðri hæðar hússins að Hverfisgötu 38, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 12. júlí 2002 um útgáfu byggingarleyfis fyrir stækkun húss að Austurgötu 29b, Hafnarfirði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. júlí 2002, sem barst nefndinni hinn 1. ágúst s.á., kæra G og G, til heimilis að Hverfisgötu 38, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 12. júlí 2002 að veita byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Austurgötu 29b, Hafnarfirði.  Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. júlí 2002, sem barst nefndinni hinn 1. ágúst s.á., kæra I og J, til heimilis að Hverfisgötu 32, Hafnarfirði sömu ákvörðun.  Kærur þessar taka til sömu ákvörðunar og eru hagsmunir kærenda sambærilegir og hafa málin því verið sameinuð sem mál nr. 39/2002.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 30. júlí 2002 og staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 20. ágúst 2002.  

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá settu kærendur búsettir að Hverfisgötu 38 einnig fram kröfu um stöðvun framkvæmda en þeirri kröfu var ekki fylgt eftir, enda var framkvæmdum við að reisa hina umdeildu byggingu að mestu lokið er kæran barst úrskurðarnefndarinnar.  Er kæumálið nú tekið til efnisúrlausnar.

Málavextir:  Árið 2001 fór eigandi einlyfts einbýlishúss að Austugötu 29b, Hafnarfirði þess á leit við byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að honum yrði veitt heimild til stækkunar þess.  Nánar tiltekið fól ósk húseigandans í sér beiðni um að stækka neðri hæð hússins, byggja rishæð úr timbri ofan á eldri byggingu ásamt því að samræma útlit hússins.  Húsið var að flatarmáli 122,9 m², sem skiptist þannig að kjallari var 36,5 m² og íbúð 86,4 m².  Beiðni húseigendans um stækkun fól í sér að íbúð á 1. hæð yrði stækkuð í 104,8 m² og að við bættist rishæð, 97,4 m² að stærð.  Kjallarinn yrði óbreyttur. 

Húsið stendur í miðbæ Hafnarfjarðar og er í gildi deiliskipulag svæðisins frá árinu 1983.  Í þeim gögnum er bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ og ætla má að séu greinargerð skipulagsins segir m.a. að nýtingarhlutfall einstakra lóða megi mest vera 0,45, leyfð sé stækkun húsa á reit innan nýtingarmarka og að grunnflötur húss megi ekki fara yfir 80 m². 

Erindi byggingarleyfishafans var lagt fram á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 20. nóvember 2001 og var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 5. nóv. 2001 vegna umsóknar um leyfi til að byggja við húsið nr. 29B við Austurgötu.  Af því sem séð verður af gögnum, er breytingin til bóta.  Þegar fyrir liggur fullnægjandi byggingarleyfisumsókn og gögn til kynningar, er skipulagsstjóra heimilt að kynna tillöguna í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1997.  Áður en grenndarkynning fer fram skal liggja fyrir betri afstöðumynd með fyrirkomulagi lóðar ásamt útlitsmyndum þar sem nýbyggingin er sýnd í afstöðu til næstu íbúðarhúsa.“ 

Á fundi byggingarnefndar hinn 21. nóvember 2001 var eftirfarandi fært til bókar:  „Sótt er um leyfi til að stækka 1. hæð og byggja rishæð.  Byggingarnefnd tekur jákvætt í erindið og óskar eftir fullnaðarteikningum til grenndarkynningar.  Umsækjanda er bent á að kynna sér umfjöllun skipulagsnefndar um málið.“ 

Á fundi skipulags og umferðarnefndar hinn 4. desember 2001 var erindið enn til umfjöllunar og var eftirfarandi fært til bókar:  „Austurgata 29B, leiðr. bókun.  Á 1141. fundi skipulags- og umferðarnefndar var til umfjöllunar breyting á húsi nr. 29B við Austurgötu.  Fyrri hluti bókunarinnar er orðuð eins og deiliskipulag liggi ekki fyrir eins og talið var, fyrir fundinn.  Síðari hluti bókunarinnar er orðuð sem breyting á deiliskipulagi en í ljós kom á fundinum að deiliskipulag miðbæjarins frá 1983 nær yfir lóðina.  Eftirfarandi er tillaga að nýrri bókun svo hún sé rétt miðað við efnislega afgreiðslu málsins.  Af því sem séð verður af gögnum, er breytingin til bóta. Skipulagsstjóra er heimilt að kynna tillöguna í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1997.  Áður en breytingin er kynnt, skal liggja fyrir betri afstöðumynd af fyrirkomulagi lóðar og bílastæðum, ásamt útlitsmyndum þar sem nýbyggingin er sýnd í afstöðu til næstu íbúðarhúsa.“  Þessi bókun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. desember 2001. 

Á deiliskipulagsuppdráttinn vegna hússins að Austurgötu 29b er ritað að deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt í skipulags- og umferðarnefnd hinn 20. nóvember 2001, en á þeim fundi var, eins og áður segir, aðeins veitt heimild til handa skipulagsstjóra að grenndarkynna tillöguna.  Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari upplýsingum vegna framangreinds hjá Hafnarfjarðarbæ og fengust þau svör að dagsetning uppdráttarins væri röng, hefði átt að vera 4. desember 2001 eða þann dag sem bókun skipulags- og umferðarnefndar var leiðrétt. 

Grenndarkynning stóð yfir frá 22. apríl 2002 til og með 21. maí sama ár og náði til íbúa að Austurgötu 27, 27b, 29, 31, 33 og 35, Hverfisgötu 34, 36 og 38B og Mjósundi 13 en ekki til kærenda sem búa að Hverfisgötu 32 og Hverfisgötu 38.  Á skipulagsuppdrættinum sem var grenndarkynntur kemur fram að eina breyting deiliskipulagsins sé sú að byggingarflötur hússins stækki um 8 m².  Í engu er getið um breytt nýtingarhlutfall lóðarinnar eða frekari stækkun grunnflatar hússins.  Engar athugasemdir bárust. 

Skipulagsstofnun yfirfór gögn málsins og í bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 10. júní 2002, gerir stofnunin ekki athugasemdir við að birt verði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Auglýsing um breytingu deiliskipulags miðbæjar vegna Austurgötu 29b, birtist í Stjórnartíðindum hinn 28. júní 2002.  Þar segir að deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 11. desember 2001 og taki bæði til stækkaðs byggingarreits og heimildar til hækkunar hússins. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 30. júlí 2002 var eftirfarandi fært til bókar:  „Sótt er um leyfi til að byggja viðbyggingu úr timbri með bárujárnsklæðningu.  Grenndarkynning hefur farið fram.  Jákvæð umsögn bæjarskipulags liggur fyrir.  12/7 2002.  Samþykkt af byggingarfulltrúa.  Umsóknin samræmist lögum nr. 73/1997 og nr. 82/1994.“

Framangreindri ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar skutu kærendur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærur kærenda lúta að því að grenndarkynning hafi farið fram á byggingarleyfisumsókn vegna Austugötu 29b en sú grenndarkynning hafi ekki náð til þeirra og hafi þeim verið alls ókunnugt um framkvæmdirnar fyrr en nýtt og mjög stórt þak hafi verið reist á húsinu á nokkrum dögum.  Kærendur halda því fram að þak það sem hér um ræði sé miklum mun stærra heldur en almennt sé á svæðinu auk þess sem það skerði útsýni. 

Kærendur sem búsettir eru í húsinu nr. 32 við Hverfisgötu halda því fram að lóðamörk þeirra hafi verið rangt tilgreind í gögnum er fylgdu grenndarkynningunni því lóð þeirra liggi að lóðinni nr. 29b við Austurgötu og samkvæmt því hefði átt að grenndarkynna þeim erindið.  Þessir sömu kærendur benda á að þeir hafi endurnýjað hús sitt með tilliti til útsýnis sem nú sé ekki lengur til staðar og því hafi söluverð þess lækkað. 

Kærendur sem búsettir eru að Hverfisgötu 38 halda því fram að með hinu umdeilda byggingarleyfi hafi verið tekið af þeim útsýni sem þeir hafi haft yfir höfnina og Hvaleyrina. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála óskaði erftir viðhorfum skipulags- og byggingarsviðs til kærunnar og barst nefndinni svarbréf, dags. 16. október 2002, þar sem segir:  „Skipulags- og byggingarráð lítur svo á að rétt hafi verið staðið að grenndarkynningunni og bæjarskipulag hafi kynnt málið þeim sem talið var að hefðu hagsmuna að gæta í samræmi við gildandi miðbæjarskipulag frá 1981“ (sic). 

Með bréfi, dags. 26. janúar 2004, veitti úrskurðarnefndin Hafnarfjarðarbæ færi á því að tjá sig frekar um meðferð málsins og koma að skýringum.  Hinn 24. mars 2004 barst úrskurðarnefndinni bréf frá umhverfis- og tæknisviði, þar sem fram kemur að bæjaryfirvöld hafi ákveðið að endurtaka grenndarkynngu skipulagsbreytingar vegna Austurgötu 29b, en upplýsingar þar um þykja ekki hafa þýðingu við úrlausn máls þessa og verða því ekki raktar hér frekar.

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi segir í greinargerð að hann hafi keypt húsið árið 1996, m.a. með það í huga að það hentaði vel til breytinga.  Verðið hafi verið hagstætt enda húsið óaðlaðandi á ýmsa vegu, innra skipulag þess hafi verið afar óhentugt þar sem það hafði verið tvær íbúðir lengi framan af og eðlileg endurnýjun innandyra hafi ekki átt sér stað.  Þá hafi húsið, utan frá séð, verið tvö ólík hús, misgömul, hvort í sínum byggingarstílnum. 

Byggingarleyfishafinn bendir á að húsið standi mun lægra í landi en þau hús sem fyrir aftan það séu, og hafi hann því talið að líkur væru á því að leyfi fengist fyrir stækkun af einhverju tagi.  Grunnflötur hússins hafi aðeins verið 86 m² og því hafi verið nokkuð þröngt um þegar fjölskyldan hafi verið orðin sex manna.  Við hönnun viðbyggingarinnar hafi verið leitast við að fella húsið að umhverfinu sem samanstandi af nokkuð fjölbreyttum húsum frá mismunandi tímum, en eldri stíll, þ.e. brött þök og kvistir, sé nokkuð ráðandi.

Byggingarleyfishafi mótmælir því að kærendur búsettir að Hverfisgötu 32 hafi orðið fyrir útsýnisskerðingu, enda sé útsýni þeirra þegar skert af hraunklettum, trjám og nýlega byggðum húsum við Fjarðargötu.  Byggingarleyfishafinn mótmælir því að á Hverfisgötu 32 hafi, áður en hann hafi byrjað framkvæmdir, átt sér stað einhver hönnun utandyra m.t.t. útsýnis, það hafi einfaldlega verið skipt um bárujárn á húsinu eftir því sem best verði séð.  Byggingarleyfishafinn mótmælir því og að húseign þessara kærenda hafi lækkað í verði við það að önnur hús í nágrenninu hafi verið gerð upp og að þeim hlúð.  Þvert á móti telji hann jákvætt að endurbætur og fegrun eigi sér stað í gömlum hverfum.

Þá er því mótmælt að kærendum, búsettum að Hverfisgötu 38, hafi verið ókunnugt um framkvæmdina, enda hafi byggingarleyfishafi sýnt kæranda þar búsettum teikningar að breytingu hússins. 

Loks er því haldið fram að útsýnistap kærenda að Hverfisgötu 38 hafi verið bilið milli turnanna á Fjarðargötu 13 – 15, og þaðan hafi höfnin ekki sést, heldur hluti af sjónum, og ræma miðsvæðis úr Hvaleyrinni, og þar með hluti golfvallarins.  Að öðru leyti hafi þetta útsýni þegar verið byrgt af háum trjám og nýbyggingum við Fjarðargötu, rétt eins og hjá hinum kærendunum. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur óformlega kynnt sér staðhætti við Hverfisgötu og Austurgötu vegna undirbúnings úrskurðar þessa. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er til úrlausnar hvort útgáfa byggingarleyfis sem fól í sér heimild til stækkunar hússins að Austurgötu 29b, Hafnarfirði hafi verið lögmæt.  Húsið stendur í miðbæ Hafnarfjarðar og er í gildi deiliskipulag svæðisins frá árinu 1983.  Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum má nýtingarhlutfall einstakra lóða á svæðinu vera mest 0,45.  Leyfð er stækkun húsa á reit innan nýtingarmarka en grunnflötur húsa má þó ekki fara yfir 80 m².  Á árinu 2001 var gerð breyting á deiliskipulaginu í þá veru að heimilt var að stækka grunnflöt hússins að Austurgötu 29b um 8 m², en auglýsing um gildistöku breytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júní 2002.  Verður að skilja umrætt skipulag þannig að eftir breytinguna hafi grunnflötur hússins að Austurgötu 29b mátt vera 94,4 m² en húsið var fyrir breytinguna 86,4 m² að gunnflatarmáli. 

Hið kærða byggingarleyfi felur í sér heimild til verulegrar stækkunar hússins að Austurgötu 29b, eða úr 122,9 m² í 238,7 m².  Grunnflötur þess verður 104,8 m² með stækkuninni og fer því nokkuð fram úr heimildum gildandi deiliskipulags.  Að auki er nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir breytingu hússins samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi nokkru hærra en skipulag heimilar.  Fullnægir hið umdeilda byggingarleyfi því ekki skilyrðun 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um samræmi við skipulag og verður það því fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 12. júlí 2002, um útgáfu byggingarleyfis vegna Austurgötu 29b, er felld úr gildi. 

____________________________
Ásgeir Magnússon

____________________________     __________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Ingibjörg Ingvadóttir 

42/2003 Miðhraun

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2003, kæra eiganda Miðhrauns I, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, á samþykkt hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps frá 24. mars 2003 á deiliskipulagi fyrir vatnsaflsvirkjun í fjallinu fyrir ofan Miðhraun í nefndum hreppi og eftirfarandi staðfestingu Skipulagsstofnunar á því deiliskipulagi og atriðum það varðandi frá 30. maí og 3. júlí s.á.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. júlí 2003, er barst nefndinni hinn 16. júlí sama ár, kærir Ólafur Sigurgeirsson hrl., fyrir hönd Miðhrauns I ehf., kt. 500101-3340, eiganda Miðhrauns I, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, þá ákvörðun hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps frá 24. mars 2003 að samþykkja deiliskipulag fyrir vatnsaflsvirkjun í fjallinu fyrir ofan Miðhraun í nefndum hreppi og staðfestingu Skipulagsstofnunar á því deiliskipulagi og atriðum það varðandi frá 30. maí og 3. júlí s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 12. október 2002, fór hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps þess á leit við Skipulagsstofnun, með vísan til 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að hún heimilaði auglýsingu til kynningar á deiliskipulagstillögu um heimilisrafstöð í landi Miðhrauns.  Ástæða erindisins var sú að ekki hafði verið gert aðalskipulag fyrir hreppinn.  Var þess jafnframt óskað í greindu bréfi að stofnunin tæki afstöðu til þess hvort ráðgerðar framkvæmdir samkvæmt skipulagstillögunni væru háðar mati á umhverfisáhrifum.

Umrædd deiliskipulagstillaga laut að því að heimila allt að 500 kw vatnsaflvirkjun til heimanota í Grímsá í landi Miðhrauns.  Í tillögunni var gert ráð fyrir um 30 metra langri stíflu  ásamt allt að 80 fermetra stöðvarhúsi auk stofnlagnar og vegar frá stíflu að stöðvarhúsi.

Með bréfi, dags. 24. október 2002, heimilaði Skipulagsstofnun á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga að fyrrnefnd deiliskipulagstillaga yrði auglýst til kynningar.  Mun tillagan hafa verið auglýst í Lögbirtingablaði og Skessuhorni til kynningar frá 14. nóvember til 11. desember 2002 með fresti til athugasemda til 25. desember s.á.  Athugasemdir bárust frá fimm aðilum, m.a. af hálfu kæranda í bréfi, dags. 17. desember 2002, þar sem bent var á að fyrirhuguð virkjun yrði í óskiptu landi jarðanna Miðhrauns I og II og að ekki væri fært að auglýsa tillöguna án samþykkis allra landeigenda.

Skipulags- og byggingarnefnd hreppsins tók málið fyrir á fundi hinn 24. febrúar 2003 og lagði til við hreppsnefnd að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt óbreytt.  Hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps staðfesti síðan skipulagstillöguna á fundi sínum hinn 24. mars 2003 ásamt umsögnum skipulags- og byggingarnefndar um framkomnar athugasemdir.  Var lögmanni kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 22. maí 2003.  Deiliskipulagið var að því búnu sent til umsagnar Skipulagsstofnunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 30. maí s.á., að ekki væru gerðar athugasemdir við að birting auglýsingar um gildistöku skipulagsins færi fram í B-deild Stjórnartíðinda.

Aðili að hinum umræddu virkjunarframkvæmdum, eigandi Miðhrauns II, tilkynnti Skipulagsstofnun fyrirhugaðar framkvæmdir með bréfi, dags. 14. apríl 2003, og tilkynnti stofnunin í bréfi til framkvæmdaraðila, dags. 3. júlí 2003, að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi hefur nú skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt deiliskipulagsins og afstöðu Skipulagsstofnunar til birtingar þess í B-deild Stjórnartíðinda og ákvörðun stofnunarinnar um að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt skipulaginu skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til þess að land það sem umdeilt deiliskipulag taki til sé í óskiptri sameign kæranda og eiganda Miðhrauns II svo sem ráða megi af landamerkjabréfum Miðhrauns I og II.  Umdeild virkjun sé í fjallinu fyrir ofan Miðhraun og í báðum landamerkjabréfum komi fram að fjallland jarðarinnar Miðhrauns sé í óskiptri sameign hinna uppskiptu jarðarhluta.  Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda við skipulagsgerðina og telji hann það andstætt eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar að heimila tilteknar framkvæmdir með deiliskipulagningu lands án vilja eigenda. 

Málsrök Eyja- og Miklaholtshrepps:  Bent er á að aldrei hafi komið fram efnisleg rök fyrir því að hafna umræddu deiliskipulagi og framkvæmdum þeim sem þar séu heimilaðar á þessu stigi málsins.  Kæranda hafi verið kunnugt um skipulagsgerðina og Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að deiliskipulagið yrði auglýst til kynningar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Þar sem kæra í máli þessu snýr m.a. að atbeina Skipulagsstofnunar að hinu kærða deiliskipulagi var stofnuninni gefinn kostur á að lýsa viðhorfum sínum til kæruefnisins og barst umsögn frá stofnuninni, dags. 10. maí 2004.

Skipulagsstofnun telur að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Sveitarstjórnir annist gerð skipulagsáætlana samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og sé meginreglan sú að einstaklingar eða lögaðilar geti ekki takmarkað skipulagsvald þeirra.  Við leyfisveitingar sveitarstjórna til framkvæmda með byggingar- eða framkvæmdaleyfum þurfi hins vegar að liggja fyrir heimildir landeigenda eða eftir atvikum heimild til eignarnáms til þess að hrinda skipulagsáætlunum í framkvæmd.

Niðurstaða:  Auk kröfu um ógildingu samþykktar hreppsnefndar á hinu umdeilda deiliskipulagi gerir kærandi kröfu um ógildingu á afstöðu Skipulagsstofnunar til auglýsingar um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda frá 30. maí 2003 og afstöðu stofnunarinnar frá 3. júlí s.á. til þess hvort heimilaðar framkvæmdir samkvæmt deiliskipulaginu væru háðar mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn.  Telji stofnunin að form- eða efnisgallar séu á skipulagi sem henni hefur verið sent skal hún koma athugasemdum sínum þar að lútandi til sveitarstjórnar.  Umsögn Skipulagsstofnunar í þessu efni ræður ekki úrslitum um hvort deiliskipulag taki gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og telst því ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kröfu kæranda um ógildingu á afstöðu Skipulagsstofnunar til birtingar umrædds deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Þá verður kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu heimilaðra framkvæmda samkvæmt deiliskipulaginu jafnframt vísað frá úrskurðarnefndinni, en málskot þeirrar ákvörðunar á undir umhverfisráðherra skv. lokamálsgrein 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Með hinni kærðu ákvörðun hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps var samþykkt deiliskipulag fyrir vatnsaflsvirkjun í landi Miðhrauns.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að ólík sjónarmið séu uppi milli kæranda og eiganda Miðhrauns II um eignarhald á landi því sem ætlað er undir virkjunarmannvirkin.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga annast sveitarstjórn og ber ábyrgð á gerð deiliskipulags.  Í téðu ákvæði er tekið fram að landeiganda eða framkvæmdaraðila sé þó heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á gildandi deiliskipulagi á sinn kostnað.  Ákvæði þetta eða önnur ákvæði skipulags- og byggingarlaga gefa ekki tilefni til þeirrar ályktunar að skipulagsvaldi sveitarstjórna sé takmörk sett vegna eignarhalds á landi.  Hins vegar ber sveitarstjórnum skv. 4. mgr. 9. gr. laganna eftir föngum að leita eftir sjónarmiðum og tillögum þeirra er hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið við skipulagsgerð og á ákvæði þetta ekki síst við um þá sem ætla má að eigi land það sem skipulag tekur til.  Ekki liggur fyrir að slíkt samráð hafi verið haft við kæranda við umrædda deiliskipulagsgerð og verður að telja það annmarka á málsmeðferð skipulagsins eins og á stóð.

Eins og hér stendur sérstaklega á þykir þó þessi annmarki ekki eiga að ráða úrslitum um gildi umdeildrar skipulagsákvörðunar enda eru framkvæmdir í skjóli skipulagsins háðar samþykki kæranda, eigi staðhæfingar hans um eignarhald á hinu skipulagða svæði við rök að styðjast, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Að þessu virtu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu á afstöðu Skipulagsstofnunar til auglýsingar um gildistöku hins kærða deiliskipulags, frá 24. mars 2003 fyrir vatnsaflsvirkjun í fjallinu fyrir ofan Miðhraun í Eyja- og Miklaholtshreppi, í B-deild Stjórnartíðinda frá 30. maí 2003 og á afstöðu stofnunarinnar frá 3. júlí 2003 til þess hvort heimilaðar framkvæmdir samkvæmt deiliskipulaginu væru háðar mati á umhverfisáhrifum er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu um ógildingu á ákvörðun hreppsnefndar í nefndum hreppi um að samþykkja framangreint deiliskipulag er hafnað.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________      _____________________________
             Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir                   

25/2004 Múlakot

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2004, kæra eigenda og ábúenda jarðarinnar Múlakots II, Rangárþingi eystra, á samþykkt sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 14. ágúst 2003, um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Múlakots I. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 15. apríl 2004, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir Atli Björn Þorbjörnsson hdl., f.h. G og S, eigenda og ábúenda Múlakots II, Rangárþingi eystra, samþykkt sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 14. ágúst 2003, um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Múlakots I. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra hinn 14. ágúst 2003 var samþykkt deiliskipulag frístundabyggðar í landi jarðarinnar Múlakots.  Tillaga að skipulaginu hafði verið auglýst og kynnt að fenginni heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða laga nr. 73/1997.  Kærendur settu á kynningartímanum fram athugasemdir við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað.  Í kjölfar samþykktar á hinu kærða deiliskipulagi sendi sveitarstjórnin það til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.  Var ákvörðunin loks birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. janúar 2004. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að þeir hafi lítið frétt af afdrifum deiliskipulagsins fyrr en hinn 25. mars 2004, en þann dag hafi þeim orðið kunnugt um að sveitarfélagið hafi látið samþykktina frá 14. ágúst 2003 standa og auglýst staðfestingu deiliskipulagsins í Stjórnartíðindum hinn 30. janúar 2004.  Telja kærendur að athugasemdir þær sem þeir hafi sett fram hafi ekki fengið þá umfjöllun sem tilefni hafi verið til og að þær athugasemdir og skilyrði sem sveitarstjórnin hafi sett fyrir samþykkt tillögunnar komi í raun ekki fram í deiliskipulaginu eins og það hafi verið auglýst. 

Kærendur telja að ekki hafi verið forsendur til að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið vegna þess að enn sé ekki til staðar aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.  Telja kærendur það ófært, m.a. vegna þess hve viðurhlutamikla breytingu á svæðinu deiliskipulagið feli í sér.

Kærendur telja einnig að ekki hafi verið forsendur til að samþykkja hið kærða deiliskipulag vegna frárennslis- og veitumála og að skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki hugað nægjanlega vel að því hvernig leysa ætti þau mál í ljósi þess gríðarlega fjölda bygginga sem fyrirhugað sé að reisa á svæðinu og þess mannfjölda sem fyrirsjáanlegt sé að muni koma þar saman.

Kærendur halda því og fram að deiliskipulagið hafi í för með sér skipulags slys, því með því að setja niður u.þ.b. 1000 manna frístundabyggð í hjarta sveitarinnar sé hið fallega yfirbragð Fljótshlíðarinnar eyðilagt.  Telja kærendur það til þess fallið að rýra eignir þeirra og annarra nágranna, sem felist í minni möguleikum kærenda og eigenda annarra jarða á svæðinu til landbúnaðarafnota jarðanna eða skipulagningar hófsamrar orlofsbyggðar á þeim.

Kærendur styðja kröfur sínar í þessu máli m.a. við þau rök að með umræddu deiliskipulagi hafi réttur einstaklinga og hagur heildarinnar verið fyrir borð borinn, sem sé andstætt 1. gr. laga nr. 73/1997.  Þá telja kærendur að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til ábendinga þeirra og sé það einnig andstætt markmiði áðurnefndra laga um áhrif íbúa á skipulag umhverfis síns.

Kærendur ítreka að þeim hafi ekki verið kunnugt um að deiliskipulagið hafi hlotið staðfestingu og verið auglýst fyrr en þann 25. mars 2004.  Telja kærendur sig því vera innan fresta skv. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 og benda einnig í því sambandi á 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sérstaklega 2. mgr., sem og 2. mgr. 28. gr. sömu laga.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til skoðunar hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 16. apríl 2004.  Um kærufrest í málinu gildir ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, sbr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því aðila er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á þeirri samþykkt, sem hann hyggst kæra. 

Í tilviki því er hér um ræðir sætti hin kærða ákvörðun birtingu í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Um slíkar birtingar gilda ákvæði laga nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, en í 2. málsl. 7. gr. þeirra laga segir: „Birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með 1. degi þess mánaðar, er liðnir eru 3 almanaksmánuðir hið skemmsta frá útgáfudegi þess blaðs Stjórnartíðinda, er fyrirmælin voru birt, nema þau geymi aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.“

Í auglýsingu þeirri er birt var hinn 30. janúar 2004 um gildistöku hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar var kveðið á um að deiliskipulagið öðlaðist þegar gildi.  Samkvæmt 7. gr. laga nr. 64/1943 miðast réttaráhrif ákvörðunarinnar við það tímamark og markar það m.a. upphaf  kærufrests, sbr. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af því ákvæði verður ráðið að upphaf kærufrests skuli miða við opinbera birtingu sé mælt fyrir um hana að lögum.  Var kærufrestur því löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og ber því, samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa kærunni frá, enda verður ekki fallist á að afsakanlegt hafi verið að kæran barst of seint þegar til þess er litið að kærendur höfðu látið hina umdeildu skipulagsákvörðun til sín taka og var í lófa lagið að fylgjast með framvindu málsins.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

 

 

28/2004 Sunnuhvoll

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 3. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2004, kæra eiganda sumarhússins Víðilundar, Miðengi, Grímsnes- og Grafningshreppi, á ákvörðun byggingarnefndar frá 27. janúar um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til stækkunar nýbyggingar á lóð Sunnuhvols.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með stjórnsýslukæru, dags. 29. apríl 2004, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Birgir Már Ragnarsson, hdl., f.h. H, eiganda sumarhússins Víðilundar í landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi, ákvörðun byggingarnefndar frá 27. janúar 2004 um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til stækkunar sumarhúss á lóð Sunnuhvols í landi Miðengis.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. febrúar 2004

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og útgefið byggingarleyfi, sem veitt hafi verið á grundvelli hennar, verði ógilt.  Þá er þess krafist að úrskurðað verði þegar í stað að framkvæmdir, sem hafnar séu á grundvelli fyrrgreinds byggingarleyfis, verði stöðvaðar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og 5. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina.

Úrskurðarnefndin gerði byggingarleyfishöfum þegar viðvart um kæru í máli þessu og kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Bárust nefndinni stuttar athugasemdir lögmanns þeirra í bréfi, dags. 6. maí 2004, þar sem m.a. kemur fram að steypuframkvæmdum við þann hluta byggingarinnar, sem hin kærða ákvörðun taki til, sé fyrir löngu lokið.   

Með bréfi, dags. 12. maí 2004, féll umboðsmaður kæranda frá kröfu um stöðvun framkvæmda.  Verður því ekki frekar um hana fjallað, en málið að öðru leyti tekið til úrlausnar.

Málavextir:  Kærandi og byggingarleyfishafar eiga saman liðlega tveggja hektara spildu úr landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Á landspildu þessari standa tveir sumarbústaðir, Sunnuhvoll og Víðilundur, og er hinn síðarnefndi í eigu kæranda.  Umrædd landspilda er í sameign eigenda sumarbústaðanna tveggja en afnotum er skipt samkvæmt samningi þannig að hvorum bústað fylgja afnot af sérgreindri lóð, en ágreiningur er með aðilum um skýringu á ákvæðum samnings þessa um rétt og skyldur eigendanna.

Snemma árs 2003 fengu eigendur Sunnuhvols leyfi til byggingar nýs tvískipts sumarhúss, 115,4 m² að stærð, í stað eldra húss sem yrði rifið.  Af hálfu kæranda var fyrirhugaðri bygginu mótmælt og átti hann samskipti við byggingaryfirvöld og byggingarleyfishafa um málið vorið og sumarið 2003.  Ekki náðist samkomulag með aðilum og skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. október 2003, en þá höfðu byggingarleyfishafar þegar lokið við að rífa eldra hús og ganga frá sökkli nýbyggingar að mestu.

Úrskurðarnefndin tók framangreint kærumál til úrskurðar hinn 22. desember 2003 og var málinu vísað frá nefndinni með þeim rökum að kærufrestur hefði verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni. 

Af hálfu kæranda er upplýst að hann hafi höfðað mál um gildi hins umdeilda byggingarleyfis og að það mál sé til meðfeðar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Eftir að byggingarleyfishafar hófu framkvæmdir við nýbygginguna sóttu þeir um leyfi til breytingar á áður veittu byggingarleyfi þannig að í stað uppfyllts sökkuls yrði leyft að hafa geymslu- og lagnakjallara í sökkulrýminu, en jarðvegsdýpt mun hafa verið meiri en gert hafði verið ráð fyrir og sökkullinn því hærri en búist hafði verið við.  Umrætt leyfi til breytingar var samþykkt í byggingarnefnd 27. janúar 2004 og staðfest af sveitarstjórn 4. febrúar s.á. og er það þessi ákvörðun sem kærð eru í málinu. 

Kærandi telur að ummerki bendi til að nota eigi umrætt sökkulrými sem íbúð og sé því verið að bæta einni hæð við húsið.  Skort hafi á að samþykkis kæranda, sem sameiganda að óskipu sameignarlandi, væri aflað eða að öðrum kosti að umrædd breyting á fyrra byggingarleyfi væri grenndarkynnt.  Þá hafi málsmeðferð við afgreiðslu málsins verið áfátt.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarnefndar um að heimila breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa í bréfi, dags. 13. maí 2004, hefur breytingin ekki í för með sér breytingar á hæðarsetningu hússins eða útliti þess, en kjallari sem leyfður var með hinni kærðu ákvörðun er undir verönd og er ástæðulaust að ætla að hann verði notaður sem íverurými, enda stendur byggingarleyfið ekki til þess.  Verður ekki séð að hin umdeilda breyting á byggingarleyfi hússins snerti hagsmuni kæranda á þann veg að rétti hans sé hallað með þeim hætti sem áskilið er í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en af ákvæðinu verður ráðið að lögvarðir hagsmunir séu skilyrði aðildar að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.

Með vísan til þess að kærandi telst ekki eiga einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að fá sérstaklega skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar um breytingu á byggingarleyfi nýbyggingarinnar að Sunnuhvoli ber að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________            _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

40/2003 Tröllagil

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2003, kæra eiganda hússins að Tröllagili 23, Akureyri á samþykkt umhverfisráðs Akureyrar frá 14. maí 2003, um breytingu á aðalskipulagi Akureyrar vegna lóðarinnar nr. 29 við Tröllagil, Akureyri og samhljóða samþykkt um breytingu á deiliskipulagi fyrir sama svæði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 7. júlí 2003, kærir E, Tröllagili 23, Akureyri, samþykkt umhverfisráðs Akureyrar frá 14. maí 2003 um breytingu á aðalskipulagi Akureyrar vegna lóðarinnar nr. 29 við Tröllagil, Akureyri og deiliskipulagi fyrir sama svæði.  Hinar kærðu ákvarðanir voru staðfestar á fundi bæjarstjórnar Akureyrar hinn 20. maí 2003. Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir:  Með hinum kærðu skipulagsákvörðunum bæjaryfirvalda á Akureyri var íbúðarhúsalóðinni nr. 29 við Tröllagil breytt á þann veg að hún var stækkuð til norðurs, með því að tekið var undir hana opið óbyggt svæði við gatnamót Borgar- og Hlíðarbrautar.  Samkvæmt eldra deiliskipulagi frá árinu 1989 var gert ráð fyrir átta hæða íbúðarhúsi með þremur íbúðum á hæð, en hinar kærðu ákvarðanir lúta að því að á lóðinni rísi níu hæða hús með fimm íbúðum á hæð, ásamt leikskóla á tveimur neðstu hæðum hússins.  Með breytingunni er grunnflötur hússins stækkaður úr 300 m² í 440 m² og ráðgerð bílageymsla felld brott.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar er áætlað allt að 0,8.

Auglýsing um tillögu að breyttu aðal- og deiliskipulagi birtist í Vikudegi hinn 20. mars 2003, á Akureyrarsíðu Morgunblaðsins og í Lögbirtingablaðinu hinn 21. mars s.á.  Jafnframt birtist auglýsingin á heimasíðu Akureyrarbæjar.  Tillögurnar og önnur gögn lágu frammi í sex vikur frá birtingu auglýsingarinnar eða til 2. maí 2003 og rann frestur til að skila inn athugasemdum út sama dag.

Fjórar athugasemdir voru gerðar við tillögurnar.  Að kynningu lokinni voru skipulagstillögurnar ásamt framkomnum athugasemdum teknar fyrir á fundi í umhverfisráði hinn 14. maí 2003 og þær samþykktar óbreyttar ásamt svörum við framkomnum athugasemdum.  Afgreiðsla ráðsins var staðfest af bæjarstjórn Akureyrar hinn 20. maí 2003.

Skipulagsstofnun yfirfór aðalskipulagsbreytinguna og mælti með að hún yrði staðfest af umhverfisráðherra skv. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga og hinn 4. júlí 2003 var breytingin staðfest af ráðherra og hún síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. s.m. 

Deiliskipulagsbreytingin var einnig send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda þegar fyrrgreind aðalskipulagsbreyting fyrir sama svæði hefði tekið gildi.  Auglýsing þessa efnis birtist hinn 20. ágúst 2003.

Málsrök kæranda:  Kærandi mótmælir því hvernig staðið hafi verið að kynningu á tillögum að hinum umdeildu skipulagsbreytingum.  Kærandi kveðst hafa verið fjarverandi á þeim tíma er tillögurnar hafi verið auglýstar.  Hafi sér því verið alls ókunnugt um að til stæði að gera breytingar á skipulagi lóðarinnar.  Kærandi gerir athugasemd við að auglýsingar varðandi skipulagsbreytinguna hafi ekki birst í Fréttablaðinu eða Dagskránni sem berist inn á hvert heimili á Akureyri. 

Samkvæmt eldra skipulagi hafi aðeins verið gert ráð fyrir átta hæða íbúðarhúsi með þremur íbúðum á hæð, en samkvæmt hinu nýja skipulagi sé gert ráð fyrir níu hæða húsi með fimm íbúðum á hæð ásamt leikskóla á tveimur neðstu hæðunum.  Hér sé verið að breyta íbúðarlóð í stofnanalóð og hafi því nauðsyn borið til að grenndarkynna breytinguna.  Þá gerir og kærandi athugasemd við nálægð leikskólans við næstu íbúðarhúsalóðir.

Málsrök Akureyrarbæjar:  Akureyrarbær bendir á að í því tilviki sem hér um ræði verði að telja að um verulegar breytingar á aðal- og deiliskipulagi lóðarinnar nr. 29 við Tröllagil sé að ræða og beri því að auglýsa hana með áberandi hætti skv. 21. og 25. gr., sbr. 17. og 18. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.  Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga sé aðeins heimilt að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. 18. gr., sem kveði á um auglýsingu tillagna til breytinga á skipulagi, ef um óverulegar breytingar sé að ræða.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi haft slíkra hagsmuna að gæta vegna breytinga á deiliskipulaginu, sbr. 2. mgr. 26. gr., að nauðsyn hafi borið til grenndarkynningar af þeim sökum.  Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við framkvæmd eða við efni skipulagsbreytingarinnar og mælt með því við umhverfisráðherra að aðalskipulagsbreytingin yrði staðfest. 

Skipulagstillögurnar hafi verið auglýstar í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga og frestur gefinn í sex vikur til að koma að athugasemdum.  Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við tillögurnar innan þess frests sem gefinn hafi verið.  Akureyrarbær hafi uppfyllt skyldur sínar skv. 18. gr. laganna og auglýst tillögurnar með áberandi hætti í dagblöðum og á heimasíðu bæjarins og upplýsingar og auglýsing hafi legið frammi í þjónustuanddyri Akureyrarbæjar.  Auglýsingar þessar hafi ekki farið framhjá öðrum íbúum Giljahverfis þar sem fjórar athugasemdir hafi borist, m.a. frá hverfisnefnd Giljahverfis.  Það sé harmað að auglýsing um breytingar á aðal- og deiliskipulagi á Tröllagili og Kiðagili hafi ekki vakið athygli kæranda, en sá háttur sem hafður hafi verið á við auglýsingar vegna breytinga á skipulagi Akureyrarbæjar hafi tíðkast athugasemdalaust um árabil. 

Vegna umfangs greindra skipulagsbreytinga hafi ekki verið heimilt samkvæmt skipulags- og byggingarlögum að viðhafa einungis grenndarkynningu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi breytinga sem gerðar voru á aðal- og deiliskipulagi lóðarinnar nr. 29 við Tröllagil á Akureyri.  Breytingar þessar fólu í sér að lóðin var stækkuð og opið óbyggt svæði tekið undir hana.  Jafnframt var byggingarreitur stækkaður og húsið, sem samkvæmt upphaflegu skipulagi skyldi vera átta hæðir með 20 íbúðum, hækkað um eina hæð og íbúðum fjölgað í 35.  Ennfremur fólu breytingar þessar í sér heimild til reksturs leikskóla á tveimur neðstu hæðum hússins.  Teflir kærandi fram þeim rökum að skipulagstillögurnar hafi ekki verið nægjanlega kynntar og fyrirhuguð bygging og notkun hennar raski grenndarhagsmunum hans.

Breyting á aðalskipulagi sætir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar þar sem hún er stjórnvaldsákvörðun sem staðfest er af ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Hefur úrskurðarnefndin áður skorið úr um hliðstæð álitaefni, t.d. í úrskurði í máli nr. 22/2003, uppkveðnum hinn 20. nóvember 2003.  Verður kröfu kæranda um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Akureyrar á umdeildri breytingu á aðalskipulagi vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ekki verður fallist á að undirbúningur hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafi verið með þeim hætti að ógildingu varði.  Þegar deiliskipulagstillagan var fullmótuð var hún auglýst og hlaut þá málsmeðferð sem áskilin er í 1. mgr. 26. gr., sbr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verður ekki fallist á að tillagan hefði átt að fá meðferð grenndarkynningar eftir 2. mgr. 26. gr. nefndra laga, enda er þar kveðið á um óvandaðri meðferð óverulegra breytinga á deiliskipulagi.  Aftur á móti var ákvæðis 4. mgr. 9. gr. laganna um samráð við hagsmunaaðila ekki gætt.  Þykir það, eins og hér stendur á, ekki leiða til ógildingar en hefur það aftur á móti í för með sér að kærandi telst eiga kærurétt um deiliskipulagsákvörðunina þrátt fyrir að ekki hafi verið af hans hálfu gerð athugasemd við kynningu tillögunnar. 

Umhverfisráð Akureyrarbæjar auglýsti skipulagstillögurnar samtímis og afgreiddi þær á fundi ráðsins hinn 14. maí 2003.  Staðfesti bæjarstjórn samþykktir ráðsins á fundi sínum hinn 20. maí 2003.  Aðalskipulagsbreytingin hlaut staðfestingu umhverfisráðherra og var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. júlí 2003.  Deiliskipulagsbreytingin var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. ágúst 2003.

Í 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er sett sú meginregla að um breytingar á deiliskipulagi skuli fara eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.  Tillögu að breytingu á deiliskipulagi ber því að auglýsa til kynningar í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 73/1997 en jafnframt skal við undirbúning slíkrar tillögu gæta ákvæða 9. gr. laganna um samráð við hagmunaaðila og önnur atriði er þar greinir.  Deiliskipulag skal, skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997, gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 23. gr., sem bætt var inn í greinina með ákvæði 5. gr. laga nr. 170/2000 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, getur sveitarstjórn þó auglýst tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.

Með hinu nýja ákvæði var fallið frá því skilyrði að tillaga að deiliskipulagi þyrfti að vera í samræmi við gildandi aðalskipulag, enda væri samhliða auglýst tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Var ákvæði þetta sett í því skyni að stytta þann tíma sem það tæki að afgreiða tillögu að deiliskipulagi, sem ekki yrði gert nema jafnframt væri gerð breyting á aðalskipulagi með því að gera skipulagsyfirvöldum kleift að nýta sama tíma til kynningar á deiliskipulagstillögu og tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi og stytta þannig afgreiðslutíma málsins.  Verður að telja, með hliðsjón af 1. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, að heimilt sé að neyta þessarar heimildar við meðferð tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem farið er með eftir tilvitnuðu ákvæði.

Í máli því sem hér er til meðferðar liggur fyrir að hin umdeilda deiliskipulagstillaga hlaut samþykki sveitarstjórnar í skilningi 25. gr. laga nr. 73/1997 samtímis og nýtt samsvarandi aðalskipulag, sem vera átti grundvöllur deiliskipulagsákvörðunarinnar.  Áttu bæjaryfirvöld þá eftir að afla lögbundinnar staðfestingar ráðherra á hinu nýja aðalskipulagi og auglýsa það áður en það gat orðið grundvöllur ákvörðunar um samþykkt deiliskipulags.  Úrskurðarnefndin telur að ekki hafi nægt að bíða með auglýsingu deiliskipulagsákvörðunarinnar þar til nýtt aðalskipulag hafði tekið gildi svo sem gert var í máli þessu.  Telur úrskurðarnefndin að heimildin í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 verði ekki skýrð svo rúmt að með ákvæðinu hafi verið vikið frá því skilyrði að deiliskipulag þurfi að vera í samræmi við aðalskipulag þegar til samþykktar þess komi, heldur hafi einungis verið ætlan löggjafans að heimila að undirbúningur ákvarðana um deiliskipulag og samsvarandi breytingu aðalskipulags gæti átt sér stað á sama tíma.  Verða engar svo víðtækar ályktanir dregnar af þeim ummælum í greinagerð með frumvarpi til umrædds lagaákvæðis þar sem segir að „eftir sem áður verði þó óheimilt að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en auglýst hefur verið í Stjórnartíðindum gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi“, enda verður að ætla að löggjafinn hafi lagt til grundvallar að ákvarðanir þær sem koma eigi til auglýsingar hafi verið teknar með lögformlegum hætti.  Hafi svo ekki verið verður ekki úr því bætt með auglýsingu, enda er auglýsing sem slík ekki stjórnvaldsákvörðun heldur er hún birtingarmáti slíkra ákvarðana.

Með vísan til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ógilda beri ákvörðun umhverfisráðs Akureyrar frá 14. maí 2003 um deiliskipulag lóðarinnar nr. 29 við Tröllagil. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, um að felld verði úr gildi breyting á aðalskipulagi Akureyrar sem samþykkt var í bæjarstjórn hinn 20. maí 2003 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 4. júlí 2003, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ákvörðun umhverfisráðs Akureyrar frá 14. maí 2003 um að samþykkja deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 29 við Tröllagil á Akureyri er felld úr gildi. 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________         _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ingibjörg Ingvadóttir

20/2002 Skipasund

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2002, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 24. apríl 2002 um niðurrif óleyfisbyggingar að Skipasundi 9, að viðlögðum dagsektum.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. maí 2002, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Einar Þór Sverrisson, lögfræðingur, f.h. O, eiganda hluta fasteignarinnar að Skipasundi 9, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 24. apríl 2002, að honum sé gert skylt að rífa óleyfisbyggingu að Skipasundi 9, Reykjavík, innan 90 daga, að viðlögðum dagsektum.  Hin kærða ákvörðun var samþykkt í borgarráði hinn 30. apríl 2002. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, að staðfest verði að ekki sé heimilt að fjarlægja umrædda byggingu og að veita beri leyfi fyrir henni.  Þá er þess krafist að frestur til niðurrifs telji ekki meðan málið sé til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni.

Málavextir:  Á lóðinni að Skipasundi 9 stendur tvílyft íbúðarhús.  Efri hæð hússins fylgir bílgeymsla ásamt viðbyggingu við hana.  Byggingarleyfi mun aldrei hafa verið gefið út vegna viðbyggingarinnar og ekki liggur fyrir hvenær hún var reist.  Í gögnum málsins kemur fram að upprunaleg bílgeymsla hafi verið notuð til íbúðar þegar kæran var lögð fram hjá úrskurðarnefndinni og að vinnustofa kæranda sé í hinni umdeildu viðbyggingu.  Eignarhluti sá sem hér um ræðir mun hafa verið eigu sama eiganda allar götur frá árinu 1946 fram til ársins 1995 en þá urðu eigendaskipti á honum.  Árið 1999 urðu aftur eigendaskipti og enn á ný árið 2001 en þá eignaðist kærandi máls þessa hinn umrædda eignarhluta. 

Í maí árið 1996 stöðvaði embætti byggingarfulltrúa breytingar á innra fyrirkomulagi bílgeymslu og viðbyggingar framan við hana að Skipasundi 9.  Í kjölfar stöðvunarinnar var þáverandi eigandi hússins krafinn skriflegra skýringa á málinu.  Í svarbréfi hans, dags. 20. maí 1996, kom fram að fyrri eigandi hússins hefði byggt viðbygginguna við bílgeymsluna í kringum árið 1961 en aðeins væri verið að innrétta bílgeymsluna og viðbygginguna og væri sú vinna langt komin.  Samhliða svarbréfinu lagði þáverandi eigandi fram umsókn þar sem sótt var um leyfi fyrir viðbyggingunni og þeim breytingum sem þá þegar höfðu verið gerðar.  Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 30. maí 1996 og var þá frestað.  Málið kom fyrir nefndina að nýju hinn 13. júní s.á. og var umsókninni synjað.  Í kjölfar þessa lagði þáverandi eigandi fram tvær fyrirspurnir til byggingarnefndar, sem byggðu á því að þak hússins yrði hækkað til stækkunar íbúðarrýmis og umrædd óleyfisbygging fjarlægð.  Erindi hans voru tekin fyrir á fundum byggingarnefndar hinn 11. júlí 1996 og 25. s.m. og frestað og vísað til skipulagsnefndar.  Ekki virðist hafa verið aðhafst frekar af hálfu borgaryfirvalda vegna óleyfisbyggingarinnar eða notkunar bílgeymslunnar og ekki liggur fyrir að nefnd erindi þáverandi eiganda umrædds eignarhluta hafi verið afgreidd í byggingarnefnd.

Í aprílmánuði árið 2000 var efri hæð hússins að Skipasundi 9, ásamt bílgeymslu og viðbyggingu, auglýst til sölu og var tekið fram að eigninni fylgdi 100 m² bílskúr sem að hluta væri innréttaður sem tveggja herbergja íbúð. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 31. janúar 2001 lagði byggingarfulltrúi til við skipulags- og byggingarnefnd að þáverandi eiganda viðbyggingarinnar yrði, með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, gefinn 180 daga frestur til þess að rífa viðbygginguna og láta af búsetu í bílgeymslu hússins að viðlögðum dagsektum.  Í bréfi byggingarfulltrúa til nefndarinnar vegna málsins kom fram að eigendur kjallaraíbúðar hússins teldu sig hafa orðið fyrir verulegu ónæði þar sem inngangur í íbúðina í bílskúrnum væri þétt við svefnherbergisglugga þeirra og hefðu þeir af þeim sökum orðið að láta af notkun herbergisins.  Samþykkti nefndin að gefa þáverandi eiganda 14 daga frest frá birtingu bréfs um framangreinda tillögu til að tjá sig um málið.  Mótmælti hann tillögunni en á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. maí 2001 var honum veittur 60 daga frestur til að gera breytingu á uppdráttum vegna nýtingar eignarinnar. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. desember 2001 var lögð fram fyrirspurn frá kæranda, sem þá var orðinn eigandi efri hæðar hússins og bílgeymslunnar ásamt viðbyggingunni við hana, um hvort samþykkt yrði áður gerð stækkun bílgeymslu í samræmi við fyrirliggjandi uppdrætti og að eldri hluti bílgeymslu yrði nýttur sem vinnustofa.  Skilyrt samþykki meðeiganda ásamt samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða fylgdi erindinu.  Bókun nefndarinnar var eftirfarandi:  „Neikvætt m.t.t. byggingar og fordæmisgildis.”

Í umsögn byggingarfulltrúa, dags. 10. desember 2001, sem gerð var eftir skoðun á óleyfisbyggingunni, kom m.a. fram að burður í þaki væri of lítill og eldvörnum ábótavant.  Þannig væru útveggir t.d. klæddir með svokallaðri lamella klæðningu úr plasti, sem uppfyllti ekki ákvæði byggingarreglugerðar um eldvarnir á lóðarmörkum.  Hinn 16. janúar 2002 var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar tillaga byggingarfulltrúa, dags. 15. janúar 2002, þess efnis að kæranda yrði, með vísan til gr. 209.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, gefinn 90 daga frestur til að rífa óleyfisstækkunina.  Jafnframt lagði byggingarfulltrúi til að kæranda yrði heimilað, að uppfylltum skilyrðum, að nýta samþykkta bílgeymslu sem vinnustofu, enda yrði um það sótt, sbr. 11. og 12. gr. byggingarreglugerðar.  Skipulags- og byggingarnefnd frestaði afgreiðslu tillögunnar og ákvað að kynna hana fyrir eiganda með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002 var, með vísan til ákvæða í 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 209. og 210. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998, samþykkt að kæranda yrði gefinn 90 daga frestur til þess að rífa ósamþykkta viðbyggingu við bílskúrinn.  Ef tímafrestur yrði ekki virtur yrði beitt dagsektum, kr. 30.000 fyrir hvern dag sem drægist að vinna verkið og þær innheimtar samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Borgarráð samþykkti tillöguna á fundi sínum hinn 30. apríl 2002 og hefur kærandi kært samþykktina til úrskurðarnefndar eins og að framan er getið. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að Reykjavíkurborg hafi sýnt af sér stórfellt tómlæti og að niðurrif viðbyggingarinnar sé ástæðulaus og gangi verulega gegn hagsmunum hans.  Kærandi hafi talið sig hafa samþykki allra nágranna fyrir viðbyggingu bílgeymslunnar, þ.m.t. eigenda kjallaraíbúðar í húsinu, enda hafi þeir skrifað upp á teikningu þar að lútandi.  Hann hafi keypt íbúðina að Skipasundi 9 sumarið 2001 í þeirri trú að leyfi fengist fyrir viðbyggingunni.  Henni hafi nú verið breytt í vinnustofu og komið þar fyrir klakastyttugalleríi, því eina sinnar tegundar hér á landi.  Í því skyni geymi kærandi þar tæki og tól og sé verðmæti þeirra á þriðju milljón króna.  Slíkt myndi hann ekki gera væri um að ræða óhæfa og ónýta byggingu.  Þá sé úttekt byggingarfulltrúa á burðarvirki byggingarinnar og því hvort hún standist kröfur byggingarreglugerðar talsvert sérstakur málsgrundvöllur.  Reyndar byggi borgaryfirvöld ákvörðun sína ekki á þeirri ástæðu, enda hafi byggingin staðið þarna í fjöldamörg ár.  Í stað þess sé byggt á því að hún eigi að víkja vegna umfangs og fordæmisgildis en aldrei hafi verið agnúast út í hana vegna þess, heldur vísað til þess að byggingin hafi ekki tilskilin leyfi og hafi að auki verið nýtt til íbúðar.

Kærandi heldur því fram að svo virðist sem byggingin hafi fullnægt byggingarreglugerð á þeim tíma sem hún hafi verið reist.  Íbúðin sé ekki lengur til staðar og samþykki allra nágranna liggi fyrir.  Það verði að teljast full viðurhlutamikið að ganga í að rífa bygginguna í dag eftir það sem á undan sé gengið, einkum þar sem byggingin hafi staðið í öll þessi ár.  Reykjavíkurborg hafi sýnt af sér gríðarlegt tómlæti í málinu, þar sem ekkert hafi verið aðhafst í málinu á árunum 1996 til 2001, auk þess sem allar líkur séu á því að byggingin hafi verið reist fyrir 1980.  Þá hafi rök Reykjavíkurborgar fyrir því að byggingin eigi að víkja einnig verið á reiki.  Úr því sem komið sé þjóni niðurrif ekki öðrum tilgangi en að valda kæranda verulegu tjóni.  Í dómaframkvæmd hafi almennt verið miðað við að ekki sé unnt að rífa mannvirki, sem þegar hafi verið reist, þó leyfa hafi ekki verið aflað í öndverðu, ef það myndi hafa í för með sér sóun verðmæta og aðrir og ríkari hagsmunir réttlættu ekki niðurrif.  Ljóst sé að í þessu máli séu slíkir hagsmunir ekki til staðar.  Að halda kröfunni um niðurrif til streitu væri því brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi greinir frá því að þrátt fyrir nýtingu eignarinnar í dag hafi hann alls ekki fallið frá þeirri nýtingu sem gert hafi verið ráð fyrir árið 2001.  Aftur á móti verði að hafa í huga að hann sé nýlega fluttur í húsið og ekki enn búinn að koma öllu í það ástand sem það eigi að vera í til frambúðar.  Einnig hafi deilur um bygginguna og óráðinn endir þeirra sett talsvert strik í reikninginn. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.  Viðbyggingin hafi verið reist í óleyfi og hafi fyrrverandi eigandi haldið áfram breytingum á henni þrátt fyrir formlega stöðvun byggingarfulltrúa og notað sem íbúð.  Núverandi eiganda hafi verið kunnugt um að ekki hafi verið leyfi fyrir viðbyggingunni og hafi hann keypt íbúðina þrátt fyrir að vita að breytingar sem gerðar hafi verið á henni hafi verið án leyfis byggingaryfirvalda.

Reykjavíkurborg vísar til 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og heldur því fram að skipulags- og byggingarnefnd hafi verið heimilt að mæla fyrir um að viðbyggingin yrði fjarlægð á kostnað eiganda, enda hafi ekki verið sýnt fram á að hún hafi nokkru sinni verið leyfð eða réttur fyrir henni hafi með einhverjum hætti stofnast.  Skipulags- og byggingarnefnd byggir ákvörðun um dagsektir á 1. mgr. 57. gr. sömu laga.

Þá heldur Reykjavíkurborg því fram að hvorki í 3. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga né í öðrum ákvæðum laganna sé heimild sveitarstjórnar til að láta fjarlægja mannvirki sett tímamörk.  Tilvitnað ákvæði fjalli ekki um tímamörk sveitarstjórnar heldur veiti það Skipulagsstofnun sjálfstæða heimild til að láta fjarlægja mannvirki.  Umrætt ákvæði sé öryggisákvæði og nýmæli í lögum, sett í þeim tilgangi að ýta eftir því að sveitarstjórnir láti fjarlægja ólögleg mannvirki, sbr. ummæli í greinargerð.

Sjónarmið eigenda neðri hæðar Skipasunds 9:  Áður en málinu var endanlega lokið af hálfu skipulags- og byggingarnefndar var eigendum neðri hæðar Skipasunds 9 veitt færi á að tjá sig um viðbygginguna.  Þar kemur fram að þeir séu því alls ekki andsnúir að vinnustofa sé í viðbyggingunni og bílgeymslan nýtt sem slík, enda hafi þeir gefið samþykki sitt fyrir þess háttar nýtingu rýmisins með áritun sinni á teikningu hinn 23. september 2001.  Aftur á móti setji þeir sig verulega upp á móti því að þar sé búið.  Núverandi óvissuástand skaði hagsmuni þeirra og brjóti á rétti þeirra þar sem það hamli fyrirhugaðri sölu íbúðar þeirra.
 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um niðurrif óleyfisbyggingar að Skipasundi 9, sem ekki er með öllu ljóst hvenær hafi verið reist en líkur benda til að staðið hafi á umræddri lóð um áratuga skeið.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir við innréttingu bílskúrs og umdeildrar viðbyggingar á árinu 1996 og var byggingaryfirvöldum því kunnugt um óleyfisbygginguna á þeim tíma. 

Í 1. mgr. 31. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 var heimild til handa byggingarfulltrúa að fyrirskipa tafarlausa stöðvun leyfislausra framkvæmda og brottnám slíkra bygginga eða byggingarhluta og var lögreglu skylt að aðstoða við þær aðgerðir ef þörf var á.  Skyldi byggingarfulltrúi, svo fljótt sem auðið var, gera byggingarnefnd grein fyrir slíkum málum.  Í 2. mgr. ákvæðisins var kveðið á um að ef byggingaraðili sinnti ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa eða lögreglu um stöðvun eða brottnám framkvæmda skyldi fara með málið að hætti opinberra mála.  Þá var sveitarstjórn heimilað í 1. mgr. 36. gr. laganna að leggja á dagsektir til að knýja fram úrbætur í slíkum tilvikum og byggingarnefnd gat skv. 2. mgr. ákvæðisins látið vinna verk á kostnað þess sem fyrir var lagt að vinna það.  Umrædd lagaákvæði voru heimildarákvæði og var það því háð mati byggingaryfirvalda hverju sinni hvort til þeirra yrði gripið eða mál leyst með öðrum og vægari hætti.

Byggingaryfirvöld beittu ekki nefndum úrræðum sem þeim voru tiltæk lögum samkvæmt til þess að knýja á um niðurrif umdeildrar viðbyggingar í framhaldi af stöðvun framkvæmda á árinu 1996.  Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að tekin sé afstaða til þess án ástæðulauss dráttar hvort beitt verði slíkum íþyngjandi úrræðum sem hér um ræðir því að öðrum kosti má búast við að þeir er hagsmuna eiga að gæta standi í þeirri trú að úrræðunum verði ekki beitt.  Það var ekki fyrr en í lok janúar 2001, eða um fjórum og hálfu ári eftir að tilefni gafst til, að byggingaryfirvöld gerðu kröfu gagnvart nýjum eiganda eignarhlutans um niðurrif viðbyggingarinnar á grundvelli 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákváðu beitingu dagsekta skv. 57. gr. laganna. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður að telja að dráttur sá á kröfu byggingaryfirvalda um niðurrif umdeildrar viðbyggingar girði fyrir það að slíku úrræði skv. eldri byggingarlögum verði beitt í máli þessu og verður núgildandi ákvæðum 56. gr. skipulags- og byggingarlaga um niðurrif ekki beitt afturvirkt um tilvik sem tilefni var til að taka afstöðu til fyrir gildistöku þeirra. 

Til þess ber og að líta að byggingaryfirvöld eiga þess kost, ef mannvirki er áfátt eða af því stafar hætta, að knýja á um úrbætur, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem hægt er að fylgja eftir með úrræðum 57. gr. laganna. 

Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins verður fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Í kæru er þess krafist að úrskurðarnefndin staðfesti að skipulags- og byggingarnefnd beri að veita leyfi fyrir umræddri byggingu.  Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga að úrskurða um ákvarðanir um skipulags- og byggingarmál en er ekki ætlað að lögum að taka stjórnvaldsákvarðanir á því sviði.  Verður kröfu kæranda að þessu leyti því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002, er borgarráð staðfesti hinn 30. apríl s.á., er felld úr gildi. 

Kröfu kæranda um að skipulags- og byggingarnefnd beri að veita byggingarleyfi vegna viðbyggingar við bílskúr að Skipasundi 9, Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 
_____________________________
Ásgeir Magnússon

_____________________________    ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                             Ingibjörg Ingvadóttir    

5/2004 Laufás

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2004, kæra J á ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. janúar 2004, sem barst nefndinni 28. s.m., kærir J, eigandi sumarhúss að Selási 4 í landi Laufáss í Borgarbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærandi á sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið var við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústað kæranda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess og rekstur á svæðinu sem kærandi setur fyrir sig. 

Niðurstaða:  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni höfðu aðrir hagsmunaaðilar þegar kært hina umdeildu ákvörðun, mál nr. 75/2003.  Með tilliti til þess að kærufrestur var liðinn er kæran barst þótti ekki rétt að sameina hana fyrra máli um sömu ákvörðun.  Úrskurðarnefndin hefur nú, með úrskurði fyrr í dag, tekið fyrra kærumál um hina kærðu ákvörðun til efnisúrlausnar og hafnað kröfu kærenda í því máli um ógildingu ákvörðunarinnar.  Á kærandi, að gengum nefndum úrskurði, ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar eða um rétt sinn til að fá kæru sína tekna fyrir hjá úrskurðarnefndinni og verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

11/2004 Laufás

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2004, kæra G á ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. janúar 2004, sem barst nefndinni 28. s.m., kærir G, eigandi sumarhúss að Selási 7 í landi Laufáss í Borgarbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærandi á sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið var við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústað kæranda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess og rekstur á svæðinu sem kærandi setur fyrir sig.  Einnig byggir kærandi á því að ekki hafi verið gætt andmælaréttar eigenda sumarhúsa á umræddu svæði við skipulagsgerðina.

Niðurstaða:  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni höfðu aðrir hagsmunaaðilar þegar kært hina umdeildu ákvörðun, mál nr. 75/2003.  Með tilliti til þess að kærufrestur var liðinn er kæran barst þótti ekki rétt að sameina hana fyrra máli um sömu ákvörðun.  Úrskurðarnefndin hefur nú, með úrskurði fyrr í dag, tekið fyrra kærumál um hina kærðu ákvörðun til efnisúrlausnar og hafnað kröfu kærenda í því máli um ógildingu ákvörðunarinnar.  Á kærandi, að gengnum nefndum úrskurði, ekki lengur lögvarða hagsmun af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar eða um rétt sinn til að fá kæru sína tekna fyrir hjá úrskurðarnefndinni og verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir