Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2006 Fellabrekka

Ár 2006, þriðjudaginn 11. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2006, kæra vegna framkvæmda við Fellabrekku, Grundarfjarðarbæ, þannig að götunni er breytt í botnlanga, hún  færð til suðurs og hækkuð í landinu. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra Þ og A, Fellasneið 2, P og A, Fellasneið 4, F og S, Fellasneið 10, G og K, Fellasneið 14, og G, Hellnafelli 2, Grundarfirði, framkvæmdir við Fellabrekku, Grundarfjarðarbæ, þannig að götunni er breytt í botnlanga, hún  færð til suðurs og hækkuð í landinu. 

Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að heimild fyrir hinum kærðu framkvæmdum verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var á fundi umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar hinn 19. september 2005 kynnt hönnun nýrrar botlangagötu fyrir Fellabrekku 7-19 og var á fundinum gerð svofelld bókun:  „…umhverfisnefnd líst mjög vel á þau hönnunargögn sem byggingarfulltrúi kynnti og óskar eftir að verkið verði fullhannað og auglýst til útboðs. Byggingarfulltrúi sagði frá því að til stæði að halda kynningarfund með íbúum Grundargötu 65 ,67 og 69 í næstu viku.“  Var fundargerðin staðfest í bæjarstjórn hinn 29. september 2005.

Fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar á fundum með íbúum að Grundargötu hinn 11. nóvember 2005 og með íbúum að Fellasneið og Hellnafelli 17. nóvember s.á.  Einn kærenda kom á framfæri fyrirspurnum og athugasemdum við fyrirhugaða gatnaframkvæmd og var þeim athugasemdum svarað með bréfum skipulags- og byggingarfulltrúa og á fundum kærandans og fulltrúa bæjaryfirvalda í febrúarmánuði 2006, en þau samskipti leiddu ekki til breytinga á umdeildri götuframkvæmd og kærðu kærendur framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Kærendur byggja málskot sitt á því að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér að Fellabrekka verði hækkuð um 1,5 metra við austurenda nýs botlanga og um 0,8 metra þar sem hann endi til vesturs.  Lóðarhafar við Fellasneið og Hellnafell hafi samkvæmt gildandi skipulagi mátt treysta því að tveggja hæða hús sem ráðgerð hafi verið við Fellabrekku, neðan við Fellasneið, gætu ekki skert útsýni frá þeirra eignum svo nokkru næmi en helstu gæði lóða þeirra vegna staðsetningar sé mikilfenglegt útsýni.  Fyrirhuguð hækkun umræddrar götu, sem leiði til samsvarandi hækkunar fyrirhugaðra húsa, muni skerða verulega útsýni frá fasteignum kærenda.  Ákvörðun um framkvæmdina sé ekki í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Sveitarstjórn ákveði nú að breyta götu frá gildandi deiliskipulagi í botnlangagötu og færa hana um breidd sína til suðurs og hækka um 0,8-1,5 metra og með því skerða útsýni íbúa sem hafi fengið lóðir skv. öðrum skilmálum en nú standi til.  Grenndarkynning framkvæmda hafi verið í skötulíki og upplýsingar ekki fengist nema með eftirgangsmunum og eftir útboð verksins sem synjað hafi verið um að fresta og nú sé hafið.  Hafi öll meðferð málsins verið löglaus og þeir sem hagsmuna hafi átt að gæta aldrei fengið að koma að nýrri hönnun götunnar, kynningargögn hafi ekki fylgt fundarboði sem borist hafi degi fyrir kynningarfund sem haldinn hafi verið á vinnutíma. 

Af hálfu bæjarfélagsins hefur verið lögð fram greinargerð, dags. 10. apríl sl., þar sem þess er krafist að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað.  Því sé  haldið fram að í kæru íbúanna til úrskurðarnefndarinnar séu ekki nægjanlega sterk rök færð fyrir málinu, sem réttlæti að stöðva beri framkvæmdir við verkið.  Ljóst sé að stöðvun framkvæmda þýði fjárhagslegt tjón fyrir verktaka verksins og þar með einnig fyrir bæjarfélagið.  Með útboði á verkinu, gerð nýs botnlanga í Fellabrekku, hafi bæjarfélagið skuldbundið sig til þess að greiða verktakanum fyrir ákveðna verkþætti, allt til fullbúins verks.  Verktakinn komi auk þess frá Súðavík á Vestfjörðum og því sé ljóst að hann eigi þess ekki kost að taka sér frí frá verkinu um óákveðinn tíma.  Verkið sé á lokastigi, verklok verði 19. þessa mánaðar.  Engar óafturkræfar framkvæmdir, s.s. húsbyggingar, séu hafnar við þennan íbúðarbotnlanga því eingöngu sé verið að vinna jarðvinnu og jarðlagnir í þessu verki.  Til að mynda ekki fyrirhugað að leggja malbik á götuna fyrr en á næsta ári.

Um forsögu málsins sé bent á að árið 1985 hafi Skipulag ríkisins, félagsmálaráðuneytið og hreppsnefnd Eyrarsveitar samþykkt nýtt aðalskipulag fyrir Grundarfjörð sem hlaut nafnið „Aðalskipulag Grundarfjarðar 1984 – 2004“.  Það skipulag hafi átt að gilda til ársins 2004.  Gatan sem hér um ræði hafi verið á því skipulagi, en ekki sem botnlangagata heldur hafi hún náð alla leið að vestustu byggð við Grundargötuna, þ.e.a.s. mun lengra en núverandi botnlangi geri ráð fyrir og hafi tengst Grundargötunni í vestri, en hún liggi neðan (norðan) umræddrar götu.  Í framhaldinu hafi orðið til deiliskipulag fyrir Hjaltalínsholt, þar sem gatnakerfið sé áfram í svipaðri mynd og gert hafi verið ráð fyrir á aðalskipulaginu, en lóðaskipan hafi breyst töluvert í Hjaltalínsholti.  Deiliskipulagið heimili byggingu tveggja hæða húsa þar sem landhalli lóða bjóði upp á slíkt, sbr. skipulags- og byggingarskilmála hverfisins. 

Það hafi verið í kringum árið 1990 að fyrsta húsið byggðist í hverfinu eða Hellnafell 2, og samhliða hafi verið unnið að gatnagerð hverfisins.  Ákvörðun um framlengingu götunnar Fellabrekku hafi ekki verið tekin í þessum gatnaáfanga árið 1990.  Þess beri að geta að hverfið Hjaltalínsholt hafi allt til dagsins í dag verið byggt upp eftir þessu eina skipulagi frá árinu 1985, bæði lóðir og gatnakerfi.  Við heildarendurskoðun aðalskipulagsins árið 2003 hafi áfram gert ráð fyrir framlengingu Fellabrekku, en henni breytt í botnlanga í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2003 – 2015.  Botnlangagatan sé því í samræmi við gildandi aðalskipulag Grundarfjarðar.

Á vinnslustigi gatnahönnunarinnar eða í nóvember á sl. ári hafi verið haldnir tveir kynningarfundir um framkvæmdina fyrir íbúum beggja vegna við götuna, þ.e.a.s. íbúa við Grundargötu og íbúa við Fellasneið og Hellnafell.

Síðan þá sé búið að halda einn kynningarfund um framkvæmdina til viðbótar fyrir íbúana sem að kærunni standa, en sá fundur hafi verið haldinn hinn 20. mars sl.  Einnig hafi umhverfisnefnd samþykkt að gera breytingar á kvöðum fyrirhugaðra húsa við botnlangann og þannig komið til móts við sjónarmið íbúanna.

Eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni héldu bæjaryfirvöld fund með kærendum í því skyni að leita ásættanlegrar lausnar í málinu og í kjölfar hans var haldinn fundur í skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins hinn 30. mars sl., þar sem fallist var á tilteknar breytingar á hönnun fyrirhugaðra húsa við margnefndan botnlanga við Fellabrekku gegn því að kærendur féllu frá kæru sinni í máli þessu.  Einn kærenda hafði samband við úrskurðarnefndina eftir greindan fund og tilkynnti að hann myndi ekki falla frá kæru. 

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir úrskurðarnefndinni verður á þessu stigi ekki tekin afstaða til frávísunar þess en það mun verða gert í endanlegum úrskurði nefndarinnar. 

Umdeild framkvæmd felur í sér að Fellabrekku er breytt í botnlanga,  gatan færð til suðurs og hún hækkuð í landinu.  Er vinna verksins vel á veg komin.  Þegar litið er til þess að ætla má að stöðvun verksins nú muni hafa í för með sér umtalsverða röskun og fjártjón með hliðsjón af þegar gerðum samningum við verktaka og að um er að ræða afturtæka framkvæmd, þykir ekki nauðsyn knýja á um að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Frekari framkvæmdir eru þó á ábyrgð og áhættu sveitarfélagsins.

Úrskurðarorð:
 
Kröfu kærenda, um stöðvun framkvæmda við breytingu Fellabrekku í Grundarfirði, er hafnað.
 

 

      ___________________________________         
Ásgeir Magnússon

 

_____________________________       _____________________________                
Þorsteinn Þorsteinsson                                Geirharður Þorsteinsson