Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

88/2006 Holtsgata

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2006 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötureits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. nóvember 2006, er barst nefndinni samdægurs, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. L ehf., Holtsgötu 7b, Reykjavík, þá samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2006 að synja um breytingu á deiliskipulagi svokallaðs Holtsgötusreits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist að ákvörðun skipulagsráðs verði breytt á þá leið að umsókn kæranda verið tekin til greina og til vara að skipulagsráði verði gert að taka umsóknina til lögmætrar afgreiðslu að nýju. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundum skipulagsstjóra 19. maí 2006 og 1. september sama ár var lögð fram, af hálfu lóðarhafa, tillaga að breyttu deiliskipulagi Holtsgötureits, frá árinu 2005.  Var fært til bókar að kynna ætti formanni skipulagsráðs tillöguna.  Fól hún í sér að byggt yrði við núverandi hús á lóðinni, þar sem rekinn hefur verið leikskóli, og því breytt í íbúðir.  Með stækkuninni yrðu íbúðir á lóðinni samtals fimm.  Skipulagsráð tók tillöguna fyrir á fundi sínum 6. september 2006 þar sem samþykkt var að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum á reitnum og í næsta nágrenni hans. 

Að lokinni kynningu, er stóð yfir frá 14. til 28. september 2006, var tillagan tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 29. september 2006.  Var þar fjallað um athugasemdir er borist höfðu vegna kynningarinnar þar sem m.a. var lýst andstöðu við frekari þéttingu byggðar á svæðinu og athugasemdir gerðar við það að til stæði að breyta nýlega samþykktu deiliskipulagi.  Var bókað á fundinum að kynna ætti málið formanni skipulagsráðs.  Á fundi skipulagsráðs 4. október 2006 var tillögunni synjaði með vísan til þeirra athugasemda sem borist hefðu. 

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að synjun skipulagsráðs á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötureits vegna lóðarinnar nr. 7b við Holtsgötu hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og reglugerða samkvæmt þeim lögum.  Málefnaleg rök styðji ekki hina kærðu ákvörðun.  Ekki verði séð að skipulagsráð hafi tekið efnislega afstöðu til athugasemda sem fram hafi komið í kjölfar kynningar.  Kærandi telji m.a. framkomnar athugasemdirnar þess eðlis að ekki hafi borið að taka tillit til þeirra við afgreiðslu málsins.  Málefnaleg rök standi ekki til synjunar á umsókn kæranda sem sé í samræmi við skipulagsskilmála og yfirlýsta stefnu borgaryfirvalda um þéttingu byggðar. 

Hafa beri í huga meginreglu eignarréttarins sem byggi m.a. á 72. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt henni hafi menn ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum.  Takmörkun á þeim rétti beri að byggja á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem takmarkanirnar beri að skýra þröngt. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því mótmælt að synjun skipulagsráðs hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, stjórnsýslulaga, skipulags- og byggingarlaga og reglugerða samkvæmt þeim lögum.  Sé sú fullyrðing með öllu órökstudd.  Ljóst sé að meðferð breytingartillögunnar hafi verið að öllu leyti í samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Bent sé á að skipulagsráð hafi samþykkt að kynna hagsmunaaðilum tillöguna en ekki hafi verið um lögformlega grenndarkynningu að ræða.  Þær athugasemdir sem fram hafi komið hafi verið kynntar skipulagsráði er tekið hafi afstöðu til þeirra og synjað tillögunni með vísan til þeirra.  Sú fullyrðing að skipulagsráð hafi ekki tekið efnislega afstöðu til tillögu kæranda sé með öllu röng.  Skipulagsráð hafi þekkt vel til Holtsgötureits vegna umtalsverðrar vinnu og mikilla samskipta við íbúa við gerð deiliskipulags svæðisins nokkru áður.  Í ljósi þeirrar vinnu og athugasemda nágranna í kjölfar kynningar meðal hagsmunaaðila hafi erindi kæranda verið synjað.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagsskilmálum fyrir Holtsgötu 7b sé lóðin fullbyggð.  Tilvísun kæranda til þess að umsóknin sé í samræmi við skipulagsskilmála fái því ekki staðist.  Vissulega sé það yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð og telji borgin umrætt deiliskipulag í samræmi við þá stefnu þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóð kæranda. 

Sú málsástæða að hin kærða synjun brjóti í bága við stjórnarskrá, og þá einkum 72. gr. hennar, sé háð þeim annmörkum að vera bæði óljós og órökstudd og því sé vísað á bug að umrædd synjun hafi falið í sér takmörkun á eignarrétti lóðarhafa.  Deiliskipulag Holtsgötureits hafi verið samþykkt í borgarráði hinn 17. febrúar 2005.  Samþykkt þess hafi kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 22/2005, frá 28. september 2006.  Hafi kærandi talið nýtingarhlutfall lóðar sinnar of lágt miðað við nærliggjandi lóðir og að jafnræðis hafi ekki verið gætt við setningu skipulagsins hvað nýtingarhlutfall lóðarinnar varði.  Fram hafi komið í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að uppbygging svæðisins sé svokölluð randbyggð og að lóðin við Holtsgötu 7b sé mjög stór baklóð sem ekki falli að randbyggð.  Leiði það til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé lægra en t.d. lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og skýrist það af fyrrgreindum ástæðum.  Einnig segi í úrskurðinum að þegar hafðar séu í huga þær aðstæður á skipulagssvæðinu sem framar greini í úrskurðinum sé ekki hægt að fallast á að lóðarhöfum hafi verið mismunað við ákvörðun um byggingarrétt á einstökum lóðum.  Það sé ljóst, sbr. nefndan úrskurð, að hin kærða synjun feli ekki í sér skerðingu eignarréttar eins og hann sé verndaður af stjórnarskrá nr. 33/1944. 

Auk þess sé vakin athygli á því að síðari liðir kæru eigi ekki undir úrskurðarnefndina en nefndin geti einungis fellt ákvarðanir skipulagsráðs úr gildi eða staðfest þær og eigi því krafan ekki undir nefndina, sbr. almennar reglur íslensks stjórnsýsluréttar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs að synja beiðni um breytt deiliskipulag Holtsgötureits.  Fól beiðnin í sér að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að heimilað yrði að byggja við núverandi hús á lóðinni nr. 7b við Holtsgötu, þar sem rekinn hefur verið leikskóli, og því breytt í íbúðir.  Með stækkuninni yrðu íbúðir á lóðinni samtals fimm.  Skipulagsráð ákvað að kynna beiðnina þeim er hagsmuna áttu að gæta á svæðinu en synjaði henni síðar með vísan til athugasemda er bárust. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir Holtsgötureit, samþykkt í borgarráði hinn 17. febrúar 2005.  Samkvæmt því er lóðin að Holtsgötu 7b 1.107 fermetrar að stærð, húsið á lóðinni 420,7 fermetrar og nýtingarhlutfall 0,38.  Er sérstaklega tekið fram að lóðin sé fullbyggð. 

Á svæðinu er svokölluð randbyggð, en lóðin að Holtsgötu 7b er stór baklóð og falla mannvirki á henni ekki að randbyggðinni.  Leiðir þetta til þess að nýtingarhlutfall hennar er lægra en annarra lóða á reitnum. 

Almennt geta einstakir lóðarhafar ekki vænst þess að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á svæði sem nýlega hefur verið deiliskipulagt.  Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því.  Verður því að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa og var skipulagsráði því rétt að hafna erindi kæranda.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður ekki fallist á kröfur kæranda í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 4. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötusreits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                      ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                          Þorsteinn Þorsteinsson

57/2008 Sparkvöllur

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2008, kæra vegna framkvæmda á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir I, Skildinganesi 37 í Reykjavík framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hinar kærðu framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar. 

Með bréfi, mótteknu 6. ágúst 2008, kærir P, Skildinganesi 37, sömu framkvæmd.  Með hliðsjón  af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verður seinna kærumálið, sem er nr. 71/2008, því sameinað hinu fyrra.  Kærendur hafa í kærum sínum gert kröfu um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem málið telst nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júlí 2004 tók gildi breyting á deiliskipulagi, er tekur m.a. til umrædds svæðis, þar sem það var skilgreint sem útivistar- og leiksvæði.  Hinn 3. júlí 2008 hófust framkvæmdir á svæðinu að tilhlutan umhverfis- og samgöngusviðs í umboði umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.  Fól framkvæmdin í sér að hluti svæðisins var sléttaður og útbúinn þar boltavöllur. 

Kærendur vísa til þess að við deiliskipulagsbreytinguna á árinu 2004 hafi komið fram að ekki yrði ráðist í frekari framkvæmdir og skipulagningu þess nema að undangenginni kynningu og samráði við íbúa en það hafi ekki verið gert.  Með framkvæmdinni hafi ósnortinn valllendismói verið eyðilagður.  Boltavöllur á umræddu svæði muni valda þeim er næst búi ónæði og óþægindum og hafi það komið í ljós á þeim stutta tíma sem leiksvæðið hafi verið nýtt til boltaleikja.  Jafnframt blasi við að boltavöllurinn, sem sé nánast í bakgarði húsa þeirra er næst standi, muni rýra verðgildi þeirra og jafnvel hindra sölu íbúða.  Íbúar hafi ekki mátt búast við umdeildum framkvæmdum miðað við gildandi deiliskipulag og engin ákvörðun virðist hafa verið tekin um þær af þar til bærum yfirvöldum.  Bent sé á að í um 200 metra fjarlægð sé sparkvöllur með mörkum. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að staðfest verði að umræddar framkvæmdir rúmist innan gildandi deiliskipulags fyrir Skildinganes.  Þar sé umrætt svæði skilgreint sem útivistar- og leiksvæði sem þarfnist úrbóta.  Umdeild framkvæmd feli í sér sléttun grassvæðis til leikja sem hafi til þessa verið notað sem sparksvæði.  Í miðju svæðisins sé gert ráð fyrir grasflöt en svæðið umhverfis verði ósnortið.  Ráðgert sé að setja niður stólpa sem gætu verið „óformleg“ mörk.  Svæðið muni nýtast yngri börnum í nágrenninu  fyrir boltaleiki og aðra hópleiki.  Beiðni um sparkvöll hafi komið til umhverfis- og samgöngusviðs frá formanni íbúasamtaka hverfisins og hafi því verið haldið fram að fullur stuðningur væri við málið meðal íbúa.  Tillaga um gerð sparksvæðis hafi því farið inn á framkvæmdaáætlun umhverfis- og samgönguráðs fyrir árið 2008 og hafi hún verið kynnt á samráðsfundi borgarstjóra með íbúum í vesturbæ síðastliðið vor.  Ekki hafi þurft að grenndarkynna framkvæmdirnar enda hafi þær verið í samræmi við skipulag.  Nánari útfærsla á slíkum svæðum sé á hendi umhverfis- og samgönguráðs. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Ekki liggur fyrir í máli þessu að önnur stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin varðandi umdeildar framkvæmdir eða útfærslu þeirra en fyrir liggur í áðurgreindri deiliskipulagsbreytingu er tók gildi hinn 13. júlí 2004. 

Þar sem kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn og engin ný stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin á grundvelli skipulags- og byggingarlaga um skipulag eða útfærslu umdeilds svæðis af þar til bærum stjórnvöldum, verður lögmæti umræddra framkvæmda ekki borið undir úrskurðarnefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

________________________________                  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson

3/2006 Hesthúsahverfi

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 um breytt deiliskipulag á svæði hestamanna á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra G, Grenigrund 46, H, Grenigrund 21 og I, Furugrund 34, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 að breyta deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Gera kærendur, sem kveðast eiga hesthús á umræddu svæði, þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 16. ágúst 2005 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Fól tillagan m.a. í sér sameiningu nokkurra lóða á svæðinu og áform um að stærri lóðir yrðu nýttar undir atvinnuhestamennsku.  Var tillagan auglýst til kynningar hinn 7. september 2005 og var frestur til að koma að athugasemdum til 19. október sama ár.  Bárust athugasemdir við skipulagstillöguna, m.a. frá kærendum.  Að loknum fyrrgreindum fresti tók skipulags- og byggingarnefnd hana fyrir hinn 8. nóvember 2005 og lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt sem og bæjarstjórn gerði á fundi sínum hinn 14. desember 2005.  Birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar hinn 18. apríl 2006. 

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á því að rökstuðningi hennar sé ábótavant, rannsóknarskyldu hafi ekki verið sinnt og að samþykktin brjóti gegn meginreglum stjórnsýslulaga.  Ekki hafi verið tekin sjálfstæð afstaða til framkominna athugasemda við tillöguna heldur hafi lögmönnum sveitarfélagsins verið falið það verk.  Þá felist í hinni kærðu samþykkt sameining lóða, í þeim tilgangi að koma þar fyrir reiðhöll, sem hafi í för með sér mun meiri umferð og átroðning á svæðinu sem og breytta landnotkun frá gildandi skipulagi. 

Niðurstaða:  Á fundi bæjarstjórnar Árborgar hinn 9. apríl 2008 var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi er fól í sér breytingu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Birtist auglýsing um gildistöku samþykktar þessarar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. júní 2008.  Hefur þeirri samþykkt ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar. 

Þar sem nýtt og breytt deiliskipulag gildir nú um skipulagssvæði það, er hin kærða ákvörðun tók til, eiga kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar enda hefur hún ekki lengur neina þýðingu að lögum.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

72/2008 Traðarkotssund

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2008, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. ágúst 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Laugavegi 5 í Reykjavík, framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kæranda. 

Málavextir og málsrök:  Lóðin Taðarkotssund 6 er óbyggð sem nýtt hefur verið sem bílastæði.  Fyrir skömmu hófust framkvæmdir á lóðinni sem að sögn borgaryfirvalda  miðuðu að fegrun hennar til bráðabirgða.   

Af hálfu kæranda er vísað til þess að umræddar framkvæmdir séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag svæðisins en samkvæmt því eigi að byggja hús á lóðinni.  Þá hafi kynning á framkvæmdunum verið öll hin undarlegasta, einhver arkitekt segist hafa farið til hagsmunaaðila á svæðinu, en hann hafi aldrei komið að máli við kæranda.  Farið sé fram á stöðvun framkvæmda og að formleg grenndarkynning fari fram.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umrædd framkvæmd sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi.   

Bent sé á að í vor og sumar hafi borgaryfirvöld unnið að fegrun miðborgarinnar, þ.á m. lóðarinnar að Traðarkotssundi 6, sem sé í eigu einkaaðila en ekki Reykjavíkurborgar.    Ákveðið hafi verið í samráði við eigendur að fegra lóðina til bráðabirgða þar sem ástand hennar hafi verið bágborið.  Samkvæmt skipulagi sé heimilt að byggja á lóðinni 660 fermetra hús en lóðarhöfum sé í sjálfsvald sett hvort þeir nýti þá heimild eða ekki.  Fram að þessu hafi bílum verið ólöglega lagt á lóðinni en ekki sé gert ráð fyrir að þar séu bílastæði.  

Ólögformleg hagsmunaaðilakynning hafi farið fram áður en framkvæmdir hafi hafist.  Kynningarbæklingur hafi verið borinn út til nágranna og harmi Reykjavíkurborg að sá bæklingur hafi ekki borist kæranda.  Hin umdeilda framkvæmd miði einungis að fegrun svæðisins og sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi og því ekki nauðsynlegt að fram fari hefðbundin grenndarkynning eins og kærandi fari fram á.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærðar framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.  Ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun borgaryfirvalda er byggir á skipulags- og byggingarlögum vegna hinna umdeildu framkvæmda og geti sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hinna umdeildu framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________                   ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

12/2006 Langabrekka

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2006, kæra á samþykkt skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. febrúar 2006, er barst nefndinni næsta dag, kæra E og J, Álfhólsvegi 61, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006 að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku.  Liggur lóð kærenda að umræddri lóð. 

Krefjast kærendur þess að ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar verði ógilt. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Í bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 20. júlí 2005, sagði m.a. svo:  „3. mars 2005 var samþykkt í byggingarnefnd stækkun á bílskúr að Löngubrekku 5…..Við skoðun á staðnum sést að undirstöður eru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Undirstöður hafa verið steyptar um 2,5 m lengra til suðurs að lóðarmörkum húss nr. 61 við Álfhólsveg og um einn metra fram með eldri bílskúr.“  Fyrirskipaði byggingarfulltrúi stöðvun allra frekari framkvæmda á lóðinni og lagði fyrir lóðarhafa að fjarlægja þær undirstöður sem steyptar hefðu verið umfram það sem samþykktar teikningar segðu til um. 

Lóðarhafi Löngubrekku 5 færði fram skýringar vegna framkvæmda á lóð sinni með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 26. júlí s.á., og taldi m.a. ekki allskostar rétt að undirstöður viðbyggingar væru ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Benti hann jafnframt á að hann hefði ákveðið að steypa vegg um 0,5 metra frá lóðarmörkum til að halda við jarðveg á lóðamörkum.  Var tekið fram að veggurinn væri ekki í beinu framhaldi af vegg væntanlegrar bílskúrsbyggingar heldur töluvert innar. 

Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 3. ágúst 2005 sem staðfesti stöðvun framkvæmda og tók undir kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja skyldi þá þegar, eða eigi síðar en 12. ágúst s.á., þær undirstöður og þá botnplötu að viðbyggingu bílskúrs, sem steyptar hefðu verið í óleyfi, ella yrði það sem væri umfram samþykktar teikningar fjarlægt án frekari fyrirvara. 

Í kjölfarið fór lóðarhafi Löngubrekku 5 fram á það í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 8. ágúst s.á., að ákvörðunin yrði endurskoðuð.  Tók hann jafnframt fram að „undirstöður og botnplata“ væru í raun veggur, sem steyptur hefði verið til að styðja við jarðveg frá lóðunum að Löngubrekku 3 og lóð kærenda, og stétt sem væri á milli veggjarins og væntanlegrar bílskúrsviðbyggingar og greinilega aðgreind frá þeirri byggingu þó þau tengdust henni á tveimur stöðum til að fá viðspyrnu.  Veggurinn væri jafnhár fyrrgreindum lóðum, staðsettur 2,5 metra frá væntanlegri bílskúrsbyggingu og 0,5 metra frá lóðamörkum tilgreindra lóða.  Var einnig á það bent að mörg dæmi væru um að sambærilegir veggir hefðu verið reistir í Kópavogi án sérstaks leyfis bæjaryfirvalda.  Þá var á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 17. ágúst 2005 lögð fram umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 þar sem sótt var um leyfi til að byggja við bílskúr, gera stoðvegg og stétt í austurhorni lóðarinnar og óskaði nefndin eftir umsögn lögmanns framkvæmda- og tæknisviðs um málið. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 7. september 2005 var ofangreind umsókn tekin fyrir og eftirfarandi bókað:  „Byggingarnefnd hefur þegar afgreitt umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr dags. 3. mars 2005.  Byggingarnefnd felur byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu málsins er varðar stækkun á viðbyggingu bílskúrs.  Umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir gerð stoðveggjar og stéttar í austurhorni lóðar er vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.“ 

Hinn 20. september 2005 var umsókn um gerð stoðveggjar lögð fram á fundi skipulagsnefndar og samþykkt að senda málið í kynningu til lóðarhafa Löngubrekku 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 15. nóvember 2005, ásamt athugasemdum er borist höfðu frá kærendum máls þessa.  Var málinu frestað og skipulagsstjóra falið að gera umsögn um framkomnar athugasemdir.  Erindið var tekið fyrir enn á ný í skipulagsnefnd hinn 17. janúar 2006 og það samþykkt ásamt umsögn bæjarskipulags og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs.  Á fundi bæjarráðs hinn 19. janúar 2006 var svohljóðandi bókað: „Langabrekka 5.  Stoðveggur.  Samþykkt.“ 

Hafa kærendur skotið áðurnefndri ákvörðun skipulagsnefndar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur gera athugasemdir við ýmis atriði er varða meðferð málsins.  Sérstaklega sé kærð sú niðurstaða skipulagsstjóra og skipulagsnefndar að taka ekki til greina þá athugasemd er kærendur hafi sett fram við grenndarkynningu að um væri að ræða botnplötu og undirstöður en ekki stoðvegg líkt og sagt sé að sótt hafi verið um.  Skipulagsnefnd hafi ekki fært fram nein rök fyrir þeirri niðurstöðu sinni nema með vísan til gagna umsækjanda, en þörf hafi verið á rökstuðningi í ljósi mats byggingarfulltrúa og byggingarnefndar Kópavogs sem hafi krafist þess að undirstöður og botnplötur yrðu fjarlægðar.  Hafi verulega verið hallað á rétt kærenda með því að afgreiða málið með þessum hætti.  Sé gerð sú krafa að erindið verði afgreitt sem umsókn um undirstöður og botnplötu eða að lágmarki vísað frá á þeirri forsendu að þau mannvirki sem sótt hafi verið um leyfi fyrir séu ekki í samræmi við það sem hafi verið framkvæmt. 

Því sé mótmælt að hægt sé að leyfa framkvæmdir á forsendum nafngiftar sem stangist á við almenna skynsemi, mat sérfróðra aðila, þ.e. byggingarfulltrúa, og ásetning umsækjanda.  Gera verði þá lágmarkskröfu að heiti mannvirkja sé í samræmi við hönnun, framkvæmd og fyrirhugaða nýtingu þeirra og ekki sé unnt að rangnefna mannvirki og fá þau þannig samþykkt.  Þá sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi ekki með faglegum hætti skorið úr því ósamræmi sem sé á milli nafngiftar hönnuðar, ásetnings umsækjanda og mats byggingarfulltrúa. 

Vakin sé athygli á að lóðarhafi Löngubrekku 5 hafi lagt fram viðbótargögn eða skýringar að lokinni grenndarkynningu.  Það sé óeðlileg stjórnsýsla að hægt sé að leggja fram viðbótargögn að lokinni grenndarkynningu og hefði átt að gefa kærendum færi á að bregðast við þeim.  Þá sé á það bent að við grenndarkynningu hafi ekkert komið fram um að verið væri að breyta deiliskipulagi svo sem haldið hafi verið fram að lokinni kynningu, en ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir umrædda lóð.  Sé mikilvægt, m.a. með vísan til gr. 7.5.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, að þessi skilningur, þ.e. að ekki hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi, verði staðfestur. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Bæjaryfirvöld krefjast þess aðallega að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum þeirra verði hafnað. 

Byggingarnefnd hafi vísað umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu sem hafi fallist á að grenndarkynna málið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli byggingarnefnd taka mál til afgreiðslu að lokinni grenndarkynningu og þegar umfjöllun skipulagsnefndar liggi fyrir.  Enn hafi byggingarnefnd ekki afgreitt umsókn lóðarhafa þar sem fullnægjandi hönnunargögn hafi ekki verið lögð fram af hans hálfu.  Hin kærða umfjöllun skipulagsnefndar feli ekki í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og bókun bæjarráðs þar sem umfjöllun og tillaga skipulagsnefndar sé samþykkt hafi enga þýðingu að lögum þar sem umfjöllun skipulagsnefndar skuli vísað til byggingarnefndar til afgreiðslu skv. fyrrgreindu ákvæði. 

Þau mistök hafi átt sér stað að í 4. kafla umsagnar bæjarskipulags vegna framkominna athugasemda hafi ranglega verið vísað til þess að málsmeðferð væri samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997, en rétt sé að um hafi verið að ræða málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga.  Hafi öll málsmeðferð við afgreiðslu málsins borið þess merki að vera byggð á grundvelli 7. mgr. 43. gr. laganna. 

Varakrafa bæjarins sé á því byggð að umfjöllun skipulagsnefndar við grenndarkynningu hafi verið í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Þá sé bent á að heiti framkvæmda séu í samræmi við umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5, dags. 9. ágúst 2005. 

Í kæru komi fram að á rétt kærenda sé hallað með vísan til fjarlægðar húsa frá lóðarmörkum skv. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Tekið skuli fram að umræddur stoðveggur teljist ekki húsveggur en falli fremur undir skilgreiningu girðinga.  Því beri að líta til 67. gr. byggingarreglugerðar fremur en 75. gr. sömu reglugerðar.  Sé á það bent að í umfjöllun skipulagsnefndar sé ekki kveðið á um að fjarlægð stoðveggjar frá lóðarmörkum brjóti í bága við tilvitnaða 67. gr. byggingarreglugerðar. 

Andmæli lóðarhafa Löngubrekku 5:  Lóðarhafi bendir á að í kæru sé hvergi tekið fram á hvern hátt umræddur stoðveggur valdi kærendum ama eða óþægindum.  Kærendum hafi fyrirfram verið gert ljóst að til stæði að byggja stoðvegg á umræddum stað og hafi þá engar athugasemdir verið gerðar.  Eftir að búið hafi verið að reisa vegginn hafi kærendur viljað að hann yrði fjarlægður án nokkurs rökstuðnings annars en að um sökkul sé að ræða en ekki stoðvegg.  Megi eins kalla vegginn húsvegg í hálfri hæð. 

Andmæli kærenda við greinargerð Kópavogsbæjar:  Kærendur mótmæla kröfu bæjaryfirvalda um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Bent sé á að í bréfi bæjarskipulags Kópavogs til kærenda, þar sem tilkynnt hafi verið um samþykkt skipulagsnefndar frá 17. janúar 2006 á erindi lóðarhafa Löngubrekku 5, sé vakin athygli á ákvæðum laga um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.  Jafnframt sé því andmælt að ákvörðun skipulagsnefndar og staðfesting bæjarskipulags sé ekki endanleg stjórnsýsluákvörðun og í því sambandi bent á 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þar segi m.a. að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, en engu orði sé minnst á að ákvarðanir skipulagsnefndar skuli hljóta samþykki byggingarnefnda. 

Sé litið til ákvæða 7. mgr. 43. gr. tilvitnaðra laga standi þar aðeins að byggingarnefnd skuli bíða eftir niðurstöðu skipulagsnefndar og grenndarkynningu áður en hún taki málið til afgreiðslu.  Ekki sé hægt að lesa úr ákvæðinu að ákvörðun skipulagsnefndar skuli vísa til byggingarnefndar til staðfestingar. 

—–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um byggingarleyfisumsóknir sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa að Löngubrekku 5 um byggingarleyfi til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún samþykkti umsóknina og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs.  Ber þegar af þessari ástæðu að ógilda hina kærðu ákvörðun skipulagsnefndar og staðfestingu bæjarráðs á henni hinn 19. janúar 2006.  Gildir einu þótt það hefði verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn enda bar nefndinni þá, að kynningu lokinni, að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin varð. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 17. janúar 2006, sem staðfest var í bæjarráði 19. janúar 2006, um að veita leyfi fyrir byggingu stoðveggjar á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi, er felld úr gildi.

 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

45/2008 Hvammur

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 6. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 um að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G, Staðarhvammi 3, H og S, Staðarhvammi 5, G og H, Staðarhvammi 7, A og M, Staðarhvammi 9, S, Staðarhvammi 11, J og J, Staðarhvammi 17, H og G, Staðarhvammi 19 og Þ, K og H, Staðarhvammi 21, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 3. júní 2008 að veita stöðuleyfi til eins árs fyrir tveimur færanlegum kennslustofum við leikskólann Hvamm í Hafnarfirði.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, gera 10 af ofangreindum kærendum þá kröfu að úrskurðarnefndin stöðvi umdeildar framkvæmdir til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá nefndinni.  Verður stöðvunarkrafan nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar 2. maí 2008 var tekið fyrir erindi vegna færanlegra húsa við leikskólann Hvamm við Jófríðarstaðatún í Hafnarfirði samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti.  Lagði ráðið fyrir að óskað yrði eftir samþykki skipulags- og byggingarráðs bæjarins fyrir stöðuleyfi vegna húsanna og umferðar- og bílastæðamál á svæðinu yrðu skoðuð sérstaklega. 

Haldinn var kynningarfundur með íbúum 14. maí 2008 og málið síðan tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði 20. sama mánaðar.  Féllst ráðið ekki á fyrirhugaða staðsetningu húsanna, þar sem þau yrðu innan hverfisverndaðs svæðis, en fallist var á staðsetningu þeirra norðar og austar, utan hverfisverndaða svæðisins.  Nýr uppdráttur, dags. 29. maí 2008, var lagður fyrir skipulags- og byggingarráð 3. júní sem samþykkti umbeðið stöðuleyfi til eins árs en að þeim tíma liðnum skyldu mannvirkin fjarlægð og svæðið fært í fyrra horf.  Munu framkvæmdir hafa hafist hinn 8. júlí 2008. 

Í kjölfar þess barst bæjaryfirvöldum bréf frá Fornleifavernd ríkisins, þar sem gerð var athugasemd við að raskað hefði verið fornleifum þegar umræddum bráðabirgðakennslustofum hefði verið komið fyrir.  Um væri að ræða traðir milli bæjarstæðis Jófríðarstaðabæjarins og tófta af útihúsum á Lambhúsahæð.  Var gerð krafa um stöðvun framkvæmda þar til rannsókn á málinu væri lokið. 

Fyrrgreint stöðuleyfi var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs bæjarins hinn 22. júlí sl. og var þar m.a. gerð eftirfarandi bókun: 

„Skipulags- og byggingarráð ítrekar bókun sína frá 03.06.2008 að stöðuleyfi er aðeins veitt til eins árs, og að þeim tíma liðnum skulu mannvirkin fjarlægð og gengið frá svæðinu í sama ástandi og nú er.  Skipulags- og byggingarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingarsviði og framkvæmdasviði að kynna fyrir íbúum minnisblað Línuhönnunar dags. 14.07.2008 um úrbætur umferðarmála í Staðarhvammi.  Skipulags- og byggingarráð felur skipulags- og byggingarsviði að ljúka máli varðandi fornleifar í samráði við Byggðasafn og Fornleifavernd ríkisins.  Þar til því máli er lokið og niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varðandi stöðvun framkvæmda liggur fyrir, leggur skipulags- og byggingarráð til að öllum framkvæmdum við færanlegar kennslustofur við leikskólann verði frestað.“

Kærendur benda á að þeir hafi mótmælt umdeildri stækkun leikskólans.  Aðkoma að leikskólanum sé erfið og um íbúðargötu þeirra, en búast megi við aukinni umferð, m.a. stærri bíla, vegna stækkunarinnar.  Umdeildar framkvæmdir, sem séu utan lóðar leikskólans, geti ekki stuðst við stöðuleyfi samkvæmt gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem um sé að ræða færanlegar kennslustofur en ekki gáma.  Til framkvæmdanna þurfi byggingarleyfi sem ekki liggi fyrir.  Samkvæmt byggingarreglugerð hefði átt að grenndarkynna hina breyttu tillögu að stækkun umrædds húsnæðis og breyta lóðaskipulagi með formlegum hætti með tilliti til staðsetningar húsanna.  Umdeildar framkvæmdir brjóti í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins og beri því að stöðva þær nú þegar. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að umræddar framkvæmdir, sem séu á vegum framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar, hafi verið á lokastigi um það leyti er stöðvunarkrafa barst úrskurðarnefndinni.  Húsin séu risin og verið sé að ljúka vinnu utanhúss.  Aðeins sé eftir að tengja skolplögn og rafmagn við húsin og vinna innanhúss.  Búið sé að innrita 40 börn og ráða 10 starfsmenn vegna hins nýja bráðabirgðahúsnæðis, sem áætlað sé að verði tekið í notkun um eða eftir miðjan ágúst nk. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnisatriða. 

Fyrir liggur að bráðabirgðahúsnæði það sem um er deilt í máli þessu er risið og frágangi þess að ljúka.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu leyfishafa meðan kærumál um lögmæti heimilaðra framkvæmda er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða stöðuleyfi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

31/2008 Hólmsheiði

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2008, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008 um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2008, er barst nefndinni næsta dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008 að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði hinn 15. nóvember 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember s.á. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú tækt til endanlegs úrskurðar og verður því ekki fjallað um stöðvun framkvæmda í sérstökum úrskurði. 

Málavextir:  Á árinu 2001 beindi gatnamálastjóri erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um nýtingu jarðvegs sem til félli í borgarlandinu til landmótunar á Hólmsheiði, skammt austan og sunnan við heitavatnsgeyma Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu.  Samþykkti borgarráð í kjölfar þessa deiliskipulag 20 ha landsvæðis á Hólmsheiði er heimilaði losun allt að 1,5 milljón m³ jarðvegs á fyrrgreindum stað. 

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar 8. mars 2001 var fært til bókar að nefndin féllist á fyrirhugaða landmótun á Hólmsheiði með þeim skilyrðum m.a. að jarðvegsefni sem fyrirhugað væri að nota væru hrein og ómenguð af mannavöldum og að uppgræðsla landmótunarsvæðisins hæfist eins fljótt og kostur væri.  Var fundargerðin lögð fram á fundi borgarráðs 20. mars 2001. 

Hinn 13. júní 2007 tók skipulagsráð fyrir tillögu að deiliskipulagi hluta Hólmsheiðar.  Var um að ræða 12 ha stækkun til suðurs á svæði því er áður hafði verði deiliskipulagt vegna jarðvegsfyllingar og yrði heimilað að urða svæðinu 2,5 milljónir m³ jarðvegs til viðbótar.  Var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda.  Á fundi ráðsins hinn 7. nóvember 2007, að lokinni auglýsingu, var tillagan lögð fram að nýju ásamt m.a. uppdrætti svæðisins og svörum við athugasemdum.  Var eftirfarandi fært til bókar:  ,,Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulags- og byggingarsviðs.  Vísað til borgarráðs.“ 

Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi borgarráðs hinn 15. nóvember 2007.  Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 22. nóvember 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þegar uppdráttur yrði leiðréttur.  Birtist auglýsing hinn 29. nóvember 2007.  Var samþykkt skipulagsráðs, um deiliskipulag fyrir Hólmsheiði, kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar hinn 16. apríl 2008 var lögð fram umsókn framkvæmdasviðs, dags. 15. apríl 2008, þar sem farið var fram á að veitt yrði framkvæmdaleyfi á grundvelli fyrrgreinds skipulags.  Var umsóknin samþykkt með vísan til c-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð. 

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsráðs frá 16. apríl 2008 til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að gefið hafi verið út framkvæmdaleyfi á grundvelli deiliskipulags sem sé ólögmætt og því beri að fella leyfið úr gildi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að afgreiðsla skipulagsráðs verði staðfest enda hafi ekkert fram komið í málinu sem leitt geti til ógildingar þeirrar ákvörðunar.  Vísar borgin í því sambandi til greinargerðar sinnar vegna framkominnar kæru á deiliskipulaginu þar sem þess sé krafist að ákvörðun borgarráðs frá 15. nóvember 2007 standi óhögguð. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kæranda um ógildingu hins umdeilda framkvæmdaleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem sé ólögmætt og hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag fallist á kröfu kæranda um ógildingu umrædds deiliskipulags.  Á leyfið því ekki stoð í skipulagi, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður það af þeim sökum fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 16. apríl 2008, um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði, er felld úr gildi. 

 

_________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

167/2007 Hólmsheiði

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 167/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. desember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007 að samþykkja deiliskipulag á hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á árinu 2001 beindi gatnamálastjóri erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um nýtingu jarðvegs, sem til félli í borgarlandinu, til landmótunar á Hólmsheiði, skammt austan og sunnan við heitavatnsgeyma Orkuveitu Reykjavíkur á svæðinu.  Samþykkti borgarráð í kjölfar þessa deiliskipulag 20 ha landsvæðis á Hólmsheiði er heimilaði losun allt að 1,5 milljón m³ jarðvegs á fyrrgreindum stað.  Á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar 8. mars 2001 var fært til bókar að nefndin féllist á fyrirhugaða landmótun á Hólmsheiði með þeim skilyrðum m.a. að jarðvegsefni sem fyrirhugað væri að nota væri hreint og ómengað af mannavöldum og að uppgræðsla landmótunarsvæðisins hæfist eins fljótt og kostur væri.  Var fundargerðin lögð fram á fundi borgarráðs 20. mars 2001.   

Hinn 13. júní 2007 tók skipulagsráð fyrir tillögu að deiliskipulagi hluta Hólmsheiðar.  Var um að ræða 12 ha stækkun til suðurs á svæði því er áður hafði verði deiliskipulagt vegna jarðvegsfyllingar og yrði heimilað að urða svæðinu 2,5 milljónir m³ jarðvegs til viðbótar.  Var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kæranda.  Á fundi ráðsins hinn 7. nóvember 2007, að lokinni auglýsingu, var tillagan lögð fram að nýju ásamt m.a. uppdrætti svæðisins og svörum vegna athugasemda.  Var eftirfarandi fært til bókar:  ,,Samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulags- og byggingarsviðs.  Vísað til borgarráðs.“   Breytingar þær sem fram koma í bókun skipulagsráðs eru eftirfarandi:  „Kröfur um uppruna efnis ofl.  Unnar verða verklagsreglur sem taki til skráningar á uppruna þess efnis sem losað er á svæðið.  Losun á svæðinu verði stýrt á fyrirfram ákveðna staði.  Lögð verður áhersla á að rykbinda jarðveg og ganga frá svæðinu um leið og losun er lokið á einstökum svæðum innan losunarsvæðisins og koma í veg fyrir rykmyndun sem framast er kostur.“  Á uppdrætti deiliskipulagsins segir m.a. eftirfarandi:  „Miðað við upphaflega áætlun fer að sjá fyrir endann á nýtingu svæðisins og því hefur verið kannað með aðra staði.  Niðurstaðan er hins vegar að álitlegasti kosturinn er að stækka svæðið og forma landið þannig að hann nýtist til næstu 10 ára.” 

Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi borgarráðs hinn 15. nóvember 2007. Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 22. nóvember 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þegar uppdráttur yrði leiðréttur.  Birtist auglýsing um gildistökuna hinn 29. nóvember 2007.

Hefur kærandi skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að losun jarðvegsefna á svæði því er um ræði sé ólögleg og yfirgengileg svo nálægt lóðarmörkum hans sem raunin sé.  Jarðvegi og úrgangi hafi verið mokað og ýtt í margra metra hæð rétt við lóðarmörkin þannig að útsýni sé skert og landslagi spillt, langt úr fyrir þau mörk sem losunarstaðnum hafi verið sett á sínum tíma.

Ljóst sé að stækkun losunarsvæðisins valdi umferðarónæði og umhverfisspjöllum langt umfram það sem landeigendur í nágrenninu þurfi að sætta sig við.  Afleiðingin sé sú að mörg sumarhús á svæðinu séu ill- og/eða ónothæf.  Þá hafi skilyrði um losunina verið þverbrotin og ekkert eftirlit með urðunarstaðnum, m.a. hvað varði umferð, magn og eftirlit með úrgangi.  Hafi kærandi m.a. orðið vitni að urðun plastíláta, rafmagnsvíra og olíubrúsa þvert á samþykki borgarráðs frá árinu 2001.  Þá sé vothey urðað á svæðinu og leggi fnyk yfir svæðið af þessum sökum.  

Aldrei hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi, sbr. m.a. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og hafi Skipulagsstofnun ekki komið að ferli málsins.  Engin gögn hafi verið lögð fyrir stofnunina og þar af leiðandi ekkert mat verið gert samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Komi þó skýrt fram í lögunum að þess þurfi.  Þá sé það álit kæranda að brotið sé gegn ákvæðum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs en þar séu settar reglur um urðunarstaði, leyfi og eftirlit og hvernig staðið skuli að urðun úrgangs.

Hvergi í gögnum er málið varði komi fram hve mikið magn sé áætlað að urða á svæðinu eða stærð þess.  Skipulagsskilmálum hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar, þess efnis að samþykki liggi fyrir um losun á jarðvegi fyrir 1,5 milljón m³ á 20 ha svæði, sé mótmælt enda slíkt samþykki ekki til staðar.  Forsendur hins nýja deiliskipulags séu því beinlínis rangar og í raun verið að sækja um leyfi fyrst núna fyrir 4,0 milljón m³ á 32 ha svæði en ekki 2,5 milljón m³. 

Skilyrði umhverfis- og heilbrigðisnefndar hafi ekki verið staðfest, enda hafi þau öll verið brotin.  Til dæmis hafi verið urðaðir þúsundir rúmmetra af olíumenguðum jarðvegi af mannavöldum.  Ruðst hafi verið yfir allan gróður og reiðleiðir hestamanna. 

Í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota, skógræktarsvæði og innan græna trefilsins svokallaða.  Sé því haldið fram að hin kærða deiliskipulagssamþykkt sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur hvað þetta varði. 

Ljóst sé að það svæði sem hér um ræði hafi aldrei verið deiliskipulagt og kynnt líkt og lög geri ráð fyrir. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kröfur og málsástæður er varði upphaflega staðsetningu og framkvæmd losunarstaðarins séu of seint fram komnar og hafi ekki verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar.  Ákvörðun um losunarstað á Hólmsheiði hafi verið tekin á grundvelli landnotkunarheimilda í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 þar sem gert hafi verið ráð fyrir almennu útivistarsvæði á því svæði sem nýtt hafi verið til jarðvegslosunar.  Hafi það verið afstaða Reykjavíkurborgar að framkvæmdirnar væru í samræmi við heimildir í þágildandi aðalskipulagi.  Bent sé á að einungis sé verið að kæra ákvörðun skipulagsráðs frá 7. nóvember 2007, sem staðfest hafi í borgarráði hinn 15. nóvember 2007, um stækkun á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.

Vísað sé til þess að á fundi borgarráðs 3. apríl 2001 hafi verið samþykkt skilyrði fyrir losun á svæðinu er feli í sér útfærslu losunar auk þess sem mörk hennar hafi verið ákvörðuð.  Þau skilyrði sem samþykkt hafi verið séu að jarðvegsefni sem fyrirhugað sé að nota séu hrein og ómenguð af mannavöldum og að tryggt verði að losun annarra efna eigi sér ekki stað.  Dreifing efnanna verði þar sem enginn eða lítill gróður sé fyrir og að áskilið sé að uppgræðsla landmótunarsvæðisins hefjist eins fljótt og kostur sé.  Ef fyrirhugað sé að nota önnur efni til dreifingar á svæðinu, svo sem lífrænan landbúnaðarúrgang (svína- eða hænsnaskít), verði fyrst leitað eftir samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.  Það sé mat Reykjavíkurborgar að umrædda losun sé innan þeirra marka sem henni hafi verið sett.

Reykjavíkurborg telji að losun jarðefna eins hún fari fram á Hólmsheiði falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. fylgiskjal, dags. 29. febrúar 2007, br. 29. maí 2007.  Ekki sé um að ræða umtalsverð umhverfisáhrif eins og lögin kveði á um heldur eðlilega landmótun enda verði landið grætt upp að losun lokinni.  Auk þess sé vakin athygli á því að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að Reykjavíkurborg birti auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins.   

Á fundi skipulagsráðs hinn 16. apríl 2008 hafi verið lögð fram umsókn framkvæmdasviðs um framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði á grundvelli deiliskipulagsins, sem samþykkt hafi verið í borgarráði hinn 15. nóvember 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember 2007.  Sú umsókn hafi verið samþykkt með vísan til c-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og framkvæmdaleyfi gefið út í samræmi við áðurgreinda samþykkt.

Reykjavíkurborg vísi því á bug að ekki hafi verið farið eftir lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.  Umrædd losun feli í sér losun jarðefna en ekki úrgangs og falli losunin því ekki undir þau lög, sbr. reglugerð nr. 184/2002 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.  Að sama skapi sé ítrekað að ekki sé fjallað um meðhöndlun úrgangs á skipulagsstigi.

Þau jarðefni sem losuð séu á svæðinu séu hrein og ómenguð af mannavöldum, en það sé eitt af skilyrðunum sem samþykkt hafi verið auk þess að tryggt sé að losun annarra efna eigi sér ekki stað á svæðinu.  Lífrænum landbúnaðarúrgagni hafi ekki verið dreift á svæðinu.  Einungis hafi verið dreift grasi og trjákurli á yfirborði til að auðvelda uppgræðslu og hefta moldrok.  Næst landspildu kæranda hafi verið fylgt þeim mörkum sem ákvörðuð hafi verið árið 2001.  Á hluta svæðisins hafi ekki verið farið út í jaðar þess og upphaflegum mörkum og skilmálum hlítt í hvívetna.

Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýrri aðkomu að jarðvegslosunarsvæðinu norðan frá, eftir tengibraut sem liggi upp frá Reynisvatnsvegi í átt að Langavatni.  Lega tengibrautarinnar sé í samræmi við heimildir í Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Í framhaldi af umræddri tengibraut sé gert ráð fyrir aðkomu að jarðvegsfyllingu eftir bráðabirgðavegi.  Meðfram þeim vegi sé gert ráð fyrir jarðvegsmön/hljóðmön næst sumarhúsum við Langavatn til að draga úr því ónæði sem verði af aukinni umferð um svæðið.  Sumarhúsin við Langavatn séu öll í meira en eins kílómetra fjarlægð frá umræddri jarðvegfyllingu.  Gagnvart þeim sumarhúsum sem standi næst jarðvegslosunarsvæðinu hafi þegar verið hafist handa við að rykbinda svæðið með því að sá grasfræjum á suðvesturhorn þess, þ.e. á það svæði er næst sé umræddum sumarhúsum.  Framtíðarstækkun jarðvegslosunarsvæðissins sé í suðaustur og austur í átt frá sumarhúsunum.  Einnig sé gert ráð fyrir því að vegir að og frá svæðinu verði rykbundnir.  Þessar aðgerðir séu gagngert framkvæmdar til þess að takmarka ónæði sem stafi af svæðinu og koma til móts við grenndarhagsmuni sumarhúsaeigenda þar.   

Ekki sé fallist á að kærð deiliskipulagstillaga feli í sér ólögmætar framkvæmdir eða að grenndarhagsmunum kæranda sé svo raskað að ólögmætt sé.  Fasteign kæranda sé í nokkurri fjarlægð frá losunarstaðnum.  Losun næst honum sé lokið og land tekið að jafna sig.  Umrædd losun hafi gert það að verkum að meira skjól hafi myndast við fasteign kæranda og þar með aukið verðmæti hennar.  Hagsmunir kæranda séu ekki umtalsverðir, bæði sé fasteign hans í nokkurri fjarlægð frá losunarstað og einungis sé um að ræða losun jarðefna sem ómenguð séu af mannavöldum.  Vert sé að taka fram að kæranda hafi mátt vera ljóst frá upphafi að losun ætti sér stað nálægt fasteign hans.

————————–

Aðilar hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki þykir þörf á að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 
 
Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 21. maí 2008 að viðstöddum kæranda ásamt lögmanni hans og fulltrúum Reykjavíkurborgar.  

Niðurstaða:   Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Jafnframt segir í 7. mgr. 9. gr. sömu laga að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi.

Í máli því sem hér er til meðferðar er kærð ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi.  Er það megin úrlausnarefni málsins hvort hið kærða deiliskipulag samræmist ákvæðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og gildandi aðalskipulags Reykjavíkur um landnotkun.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er umrætt svæði skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og segir þar að á slíkum svæðum sé gert ráð fyrir útivistariðkun af ýmsum toga og mannvirkjagerð í tengslum við útivistarnotkun á svæðinu.  Jafnframt er svæðið innan hins svonefnda græna trefils en í greinargerð með svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er græni trefillinn skilgreindur sem skipulagt útivistarsvæði þar sem skiptast á skógur og opin svæði.  Segir þar að litið sé á græna trefilinn sem frístundasvæði þar sem lögð sé áhersla á gott aðgengi.  Meginreglan sé að þar skuli ekki reisa frekari byggð nema í sérstökum tilgangi og á völdum stöðum. 

Nánari grein er gerð fyrir landnotkun umrædds svæðis, bæði í greinargerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulags Reykjavíkur, og er áhersla þar lögð á að svæðið sé til skógræktar og útivistar og þröngar skorður reistar við annars konar landnotkun.

Jarðvegslosun sú sem heimiluð er með hinni kærðu ákvörðun felur í sér umfangsmikla starfsemi sem ætlað er að vara næstu tíu ár.  Fylgir henni mikil umferð stórra flutningabifreiða, notkun vinnuvéla, breyting á ásýnd lands, fok jarðefna og hætta á mengun, svo talin séu helstu áhrif starfseminnar á umhverfið.  Hefur starfsemi þessi um margt lík umhverfisáhrif og efnisvinnsla og verður ekki fallist á að hún fái samrýmst ákvæðum svæðis- og aðalskipulags um landnotkun á umræddu svæði.  Verður ekki heldur fallist á að heimila beri starfsemina á svæðinu með þeim rökum að jarðvegslosun sé ekki tilgreind sem sérstakur landnotkunarflokkur í skipulagsreglugerð, enda breytir sá annmarki engu um eðli og áhrif starfseminnar. 

Samkvæmt framansögðu samrýmist hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki tilvitnuðum ákvæðum 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður hún því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007, um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á losunarsvæði fyrir jarðveg, ásamt framlengingu á Reynisvatnsvegi, er felld úr gildi.

 

_________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________     ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

27/2006 Heiðargerði

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. apríl 2006, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Marteinn Másson hrl., f.h. G, Heiðargerði 76, Reykjavík, þá samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006 að synja um breytingu á deiliskipulagi svokallaðs Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulagsráð að taka umsókn kæranda fyrir að nýju til löglegrar meðferðar og afgreiðslu.  Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin samþykki umsókn kæranda frá 18. janúar 2006 um breytingar á deiliskipulagi Heiðargerðisreits. 

Málavextir:  Mál þetta á sér langa forsögu.  Lóðinni nr. 76 við Heiðargerði í Reykjavík, sem er 480m² að flatarmáli, var úthlutað til byggingar smáíbúðar snemma árs 1952.  Sama ár veitti byggingarnefnd leyfi til að byggja á lóðinni 80m² einbýlishús með geymslurisi.  Ári síðar veitti byggingarnefnd leyfi fyrir kjallara undir húsinu og hækkun mænis um einn metra.  Jafnframt var þá veitt leyfi fyrir nokkurri hækkun aðalgólfplötu hússins.  Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur árið 1954 var samþykkt portbygging á risi ásamt kvisti á norðurþaki og íbúð samþykkt í rishæðinni.  Á árunum 1962 og 1963 var veitt leyfi til að byggja 40m² bílgeymslu við húsið og til þess að byggja við og stækka verulega aðalhæð og kjallara hússins.  Eftir þessar breytingar á húsinu var heildarflatarmál þess orðið 343,1m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,71. 

Á árinu 1989 sótti eigandi eignarinnar um leyfi til þess að byggja ofan á áður samþykkta viðbyggingu við húsið og hækka gamla risið að hluta.  Þessi áform sættu andmælum nágranna og synjaði byggingarnefnd umsókninni á fundi sínum í ágúst 1989.  Var sú ákvörðun sérstaklega rökstudd síðar eftir að húseigandi hafði bréflega óskað rökstuðnings.  Ítrekaðri umsókn húseiganda um leyfi til svipaðra breytinga á húsinu var synjað í byggingarnefnd í apríl 1992.  Þá lagðist skipulagsnefnd gegn áformum húseiganda um slíkar breytingar á fundi í júlí 1994 og var umsókn hans um breytingarnar þá enn synjað.  Allar höfði þessar umsóknir húseigandans verið kynntar nágrönnum og höfðu þeir ætíð lýst sig mótfallna fyrirhuguðum framkvæmdum. 

Á árinu 1999 sótti eigandi hússins enn um leyfi til að hækka þak og byggja við.  Var erindið fyrst tekið fyrir á fundi byggingarnefndar í júlí 1999 og þá vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Var málið eftir það til meðferðar hjá borgaryfirvöldum og fór grenndarkynning fram í febrúar og mars árið 2000.  Bárust allmargar athugasemdir frá nágrönnum á kynningartímanum.  Eftir að umsögn Borgarskipulags um framkomnar athugasemdir lá fyrir var málið tekið fyrir á ný á fundi skipulags- og umferðarnefndar og varð það niðurstaða nefndarinnar að hún gerði ekki athugasemd við að veitt yrði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga.  Með vísun til þessarar umsagnar samþykkti byggingarfulltrúi að veita umbeðið leyfi.  Var ákvörðun þessi staðfest á fundi borgarráðs.  Íbúar í næsta nágrenni vildu ekki una þessari niðurstöðu og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar sem felldi byggingarleyfið úr gildi með úrskurði, uppkveðnum hinn 10. nóvember árið 2000.  Málið kom til kasta dómstóla og var úrskurður úrskurðarnefndarinnar staðfestur með dómi Hæstaréttar hinn 20. september 2001. 

Á árinu 2003 var samþykkt deiliskipulag svokallaðs Heiðargerðisreits þar sem m.a. kemur fram að nýtingarhlutfall fyrir lóð kæranda sé 0,5.  Þó er tekið fram að miðað við samþykkt byggingarmagn, 343,1 m², sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,71 og verður skipulagið ekki skilið öðru vísi en svo að þær byggingar á lóðinni, sem skipulagið nær til, megi standa óraskaðar. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar 2006 var lögð fram umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits er varðaði lóðina að Heiðargerði 76.  Laut umsóknin að því að hækka hluta þaks og gera þrjá kvisti á eldra húsi.  Hefði þetta í för með sér stækkun um 6,6 m².  Á fundinum samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna tillögu vegna þessa sem óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Heiðargerði 72, 74, 78, 80, 88, 90, 92 og 94. Ráðið leggur þó sérstaka áherslu á að gerðir eru allir fyrirvarar um endalega afstöðu til tillögunnar þar til hagsmunaaðilar hafa kynnt sér hana.“  Á fundi ráðsins 15. mars 2006, að lokinni grenndarkynningu, var erindið lagt fram að nýju en athugasemdir bárust frá íbúum að Heiðargerði 90, 92 og 94.  Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 15. mars 2006.  Skipulagsráð synjaði umsókninni með eftirfarandi bókun:  „Synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Ráðið felur byggingarfulltrúa að hlutast til um að óleyfisbyggingarmagn umfram heimildir í samþykktu deiliskipulagi verði fjarlægt af húsinu.“ 

Skaut kærandi ofangreindri synjun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreitsins hafi verið í réttu og lögmætu formi og að umsókninni hafi fylgt fullnægjandi gögn til þess að hún hlyti lögmæta meðferð og afgreiðslu. 

Bent sé á þá sérstöðu sem lóðin að Heiðargerði 76 hafi, en í húsinu séu skráðar tvær samþykktar íbúðir.  Það sé því ekki einbýlishús heldur sambýlishús og hafi svo verið allt frá árinu 1954 þegar samþykkt hafi verið að tvær íbúðir yrðu í húsinu.  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 hafi verið lagðar línur með nýtingarhlutfall lóða eftir húsagerð á hverri lóð.  Að því er sambýlishús varði hafi nýtingarhlutfallið verið ákveðið 0,4-0,8.  Húsið að Heiðargerði 76 hafi því verið fyllilega innan ramma nýtingarhlutfallsins, hvort sem nýtingarhlutfallið á lóðinni væri 0,71, 0,73 eða 0,77. 

Kærandi telji að það hafa verið ólögmæt aðgerð og ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda að samþykkja og staðfesta deiliskipulagið fyrir Heiðargerðisreit árið 2003, þar sem nýtingarhlutfall hafi verið ákveðið 0,5 með vísun til þess að húsin á reitnum væru nær öll einbýlishús.  Hafi þannig verið gengið freklega gegn lögmætum réttindum og hagsmunum kæranda og annarra fasteignaeigenda þar sem nýtingarhlutfallið hafi allt í einu orðið of hátt vegna þess hvernig nýtingarhlutfallið hafi verið ákveðið í deiliskipulaginu.  Skyndilega hafi verið komið upp ólögmætt ástand, óþolandi fyrir skipulagsyfirvöld og fasteignaeigendur.  Kærandi telji að skipulagsyfirvöldum borgarinnar hafa verið skylt að leggja sitt af mörkum til að lagfæra ástandið að þessu leyti, að teknu tilliti til réttmætra hagsmuna hlutaðeigandi. 

Bent sé á að kærandi hafi áður sótt um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreitsins vegna lóðar sinnar.  Hinn 7. júlí 2004 hafi umsókn hans verið hafnað með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 24. júní 2004.  Í umsögninni hafi verið lagt til að umsókninni yrði synjað.  Annars vegar með vísan til andmæla nokkurra nágranna og hins vegar með vísan til þess að breytingin, ef samþykkt yrði, samræmdist ekki sjónarmiði um jafnræði borgaranna, þar sem hún hefði í för með sér hækkun á nýtingarhlutfalli lóðar, sem þegar væri með hærra nýtingarhlutfall en aðrar lóðir á reitnum.  Athyglisvert sé að breytingin hafi verið talin hafa óveruleg grenndaráhrif hvort sem litið væri til skuggavarps eða útsýnisskerðingar. 

Tekið sé fram að með umsókn um breytt deiliskipulag sé kærandi að leitast við að koma á lögmætu ástandi vegna lóðar sinnar, auk þess sem honum sé brýn nauðsyn á, vegna lekavandamála, að hafa þakið á húsinu með því lagi sem fylgigögn með umsókninni hafi gert ráð fyrir. 

Umsóknin frá 18. janúar 2006 hafi verið tekin til efnismeðferðar og grenndarkynnt.  Fyrir hafi legið að mjög margir íbúar á Heiðargerðisreitnum væru samþykkir breytingunum sem kærandi hafi sótt um, þar á meðal eigendur aðliggjandi lóða að Heiðargerði nr. 74 og 78.  Í grenndarkynningunni hafi aðeins komið fram athugasemdir frá eigendum þriggja lóða, sem allar liggi sunnan við Heiðargerði 76.  Á engri lóðanna gæti skuggavarps frá húsi kæranda og frá engri þeirra skerðist útsýni vegna breytinganna. 

Af tölvupósti fyrrverandi formanns skipulagsráðs, dags. 1. apríl 2006, megi ráða að skipulagsráð hefði samþykkt umsókn kæranda, hefðu engar athugasemdir borist frá nágrönnum.  Fái þetta stoð í þeirri ákvörðun ráðsins að senda umsóknina til grenndarkynningar.  Verði þessi orð formannsins ekki skilin á annan veg en þann að skipulagsráð hafi talið vera til staðar lagalegar og skipulagslegar forsendur fyrir samþykki umsóknarinnar.  Kærandi bendi á að kynning af því tagi, sem fram hafi farið í tilefni umsóknar hans, hafi ekki falið í sér einhvers konar neitunarvald eins eða fleiri nágranna gegn tillögu um deiliskipulagsbreytingu vegna Heiðargerðis 76, heldur einungis umsagnarrétt.  Af orðum fyrrverandi formanns skipulagsráðs verði þó ekki annað ráðið en að skipulagsráð hafi í raun ákveðið fyrirfram að einstaka fasteignaeigendur á Heiðargerðisreitnum hefðu neitunarvald að því er umsókn kæranda varði.  Slík ákvörðun eigi sér enga lagastoð og sé því með öllu ólögmæt. 

Bent sé á að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. mars 2006, sem skipulagsráð hafi vísað til við afgreiðslu málsins, sé m.a. greint frá því að við kynningu á umsókn kæranda hafi komið fram athugasemdir frá eigendum lóðanna Heiðargerðis 90, 92 og 94.  Skipulagsfulltrúi hafi mælt með því að erindið yrði ekki samþykkt, m.a. með vísan til þessara athugasemda:  „… auk þeirra athugasemda og raka sem fram komu við fyrri málsmeðferð …“  Athugasemdirnar hafi m.a. lotið að því að gerð væri krafa um að dómi Hæstaréttar frá 20. desember 2001 yrði framfylgt og hafi þeir er athugasemdir hafi gert lýst furðu sinni á því að tillagan skyldi kynnt í ljósi dómsins og lýst þeirri skoðun að með henni væri verið að vanvirða réttinn.  Misskilnings virðist hafa gætt hjá eigendum Heiðargerðis 90, 92 og 94, um þýðingu hæstaréttardómsins fyrir þá umsókn kæranda sem kynnt hefði verið.  Viðbrögð borgaryfirvalda við dóminum hafi auðvitað verið þau að deiliskipuleggja Heiðargerðisreitinn.  Á grundvelli deiliskipulags svæðisins yrði síðan hægt að taka afstöðu til byggingarleyfisumsókna, hvort sem þær kæmu frá kæranda eða öðrum íbúum á svæðinu.  Fullkomlega sé heimilt að sækja um breytingar á deiliskipulagi og hafi niðurstaðan í dómsmálinu þar engin áhrif.  Kærandi telji með ólíkindum ef þessar athugasemdir hafi ráðið einhverju um afstöðu  skipulagsráðs þegar umsókninni hafi verið synjað, enda eigi borgaryfirvöld að vita betur um það hvaða þýðingu hæstaréttardómurinn hafi eða hafi ekki í málinu. 

Kærandi haldi því fram að svo lítt upplýsandi sjónarmið og illa ígrunduð geti ekki verið fullnægjandi, lögmætur grundvöllur að stjórnvaldsákvörðun.  Ríkari kröfur verði að gera til borgaryfirvalda um undirbúning og rannsókn máls og rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðun.  Kærandi telji verulega hafa skort á þessi atriði í meðferð skipulagsráðs á umsókn hans og afgreiðslu. 

Kærandi telji jafnframt að vegna þess mikla vægis, sem umsagnir eigenda að Heiðargerði 90, 92 og 94 virðast hafa haft við ákvörðun skipulagsráðs um að synja umsókninni, bæði fyrirfram og eftir kynningu umsóknarinnar fyrir hagsmunaaðilum, hafi ráðinu borið að kynna honum þessar umsagnir og gefa kost á að gera við þær athugasemdir.  Kæranda hafi hvorki verið kunnugt um efni þessara umsagna né gefinn kostur á að andmæla þeim.  Þar sem hann hafi ekki fengið upplýsingar um mikilvæg gögn í málinu, og ekki fengið að tjá sig um þau áður en ákvörðun hafi verið tekin, beri að ógilda hina kærðu ákvörðun. 

Kærandi haldi því enn fremur fram að í hinni kærðu ákvörðun skipulagsráðs felist brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Regla þessi eigi sér m.a. stoð í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún hafi jafnframt mun víðtækara gildissvið en þar komi fram. 

Kærandi bendi á að hafi skipulagsráð talið vera fyrir hendi lagalegar og skipulagslegar forsendur fyrir því að samþykkja umsókn hans, eins og lesa megi úr orðum fyrrverandi formanns ráðsins, hafi því borið að samþykkja umsóknina nema veigamikil, málefnaleg rök stæðu því í vegi.  Engin slík rök hafi hins vegar komið fram í málinu, hvorki við grenndarkynningu né í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar.  Raunar megi segja að þau rök sem þar sé teflt fram, þ.e. að gæta þurfi jafnræðis að því er nýtingarhlutfall varði, eigi ekki við í þessu tilviki vegna sérstöðu lóðar kæranda sem sambýlishúsalóðar. 

Kærandi bendi einnig á að meginsjónarmiðin að baki meðalhófsreglunni séu þau að stjórnvaldi sé ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs, sem stefnt sé að heldur beri því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila, sem ákvarðanir stjórnvaldsins beinist að.  Hagsmunir kæranda í þessu samhengi séu augljósir.  Hagsmunir eigenda Heiðargerðis 90, 92 og 94 séu það hins vegar ekki.  Að minnsta kosti hafi engin grein verið gerð fyrir þeim.  Í þessu ljósi telji kærandi að skipulagsráð hafi ekki gætt að meðalhófsreglunni þegar ákvörðun hafi verið tekin um að synja umsókn hans.  Telji kærandi að af þeim sökum beri að ógilda ákvörðun ráðsins. 

Kærandi vísi, máli sínu til stuðnings, til grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins um rannsókn og undirbúning fyrir töku stjórnvaldsákvörðunar, upplýsinga- og andmælarétt málsaðila, jafnræði og meðalhóf, m.a. eins og þessar reglur birtist í stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Einnig sé vísað til eignarréttar og ráðstöfunarréttar kæranda á eign sinni, sem njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá landsins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að óumdeilt sé að umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits og fylgigögn með henni hafi verið í lögmætu horfi eins og kærandi haldi fram.  Þótt kærandi hafi uppfyllt formskilyrði varðandi uppsetningu og útlit uppdrátta og umsóknar hafi það að sjálfsögðu ekki sjálfkrafa í för með sér að sveitarfélaginu beri skylda til að samþykkja umsóknina.  Slík túlkun á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé í andstöðu við ákvæði sveitarstjórnarlaga um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. 

Því sé vísað á bug að skráningarreglur um fasteignir og ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 hafi nokkurt vægi í máli þessu, hvað þá yfirlýsing um að deiliskipulag Heiðargerðisreits sé ólögmætt.  Í skipulags- og byggingarlögum komi fram sú meginregla að allt landið sé deiliskipulagsskylt.  Í samræmi við þá meginreglu hafi Reykjavíkurborg ráðist í að vinna deiliskipulag reitsins, sem auglýst hafi verið og staðfest í samræmi við gildandi málsmeðferðarreglur, og hafi gildistaka þess verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Deiliskipulag Heiðargerðisreits hafi þar að auki verið kært á sínum tíma og hafi kærandi þá borið fyrir sig sömu röksemdir við meðferð þess máls og nú.  Í úrskurði í máli nr. 45/2003 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að skipulagsyfirvöldum hafi verið heimilt að ákveða nákvæmlega það nýtingarhlutfall innan reitsins sem talið hafi vera hæfilegt með hliðsjón af markmiðum skipulagsforsagnar og almennri stefnu nýs aðalskipulags Reykjavíkur um þéttleika byggðar.  Úrskurðarnefndin hafi einnig talið að ekki yrði annað ráðið en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðun borgaryfirvalda um nýtingarhlutfall í deiliskipulagi Heiðargerðisreits og að ákvarðanir skipulagsins fullnægðu lagaskilyrðum.  Úrskurðarnefndin hafi því ekki fallist á að ógilda bæri þá deiliskipulagsákvörðun og sé þess krafist af hálfu Reykjavíkurborgar að svo verði einnig nú. 

Ekki sé fallist á þær skýringar kæranda að skipulagsráð hafi ákveðið fyrirfram að nágrannar kæranda myndu hafa eins konar „neitunarvald“ eins og haldið sé fram.  Bent sé á að samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé það sveitarstjórn á hverjum stað sem fari með skipulagsvaldið.  Það hafi því verið réttur aðili samkvæmt lögum, skipulagsráð Reykjavíkur, sem tekið hafi við umsókn kæranda, ákveðið að um málsmeðferð skyldi fara samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og synjað umsókninni með vísan til framlagðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.  Yfirlýsingar fyrrverandi formanns skipulagsráðs í tölvupóstum til kæranda hafi enga þýðingu að því er varði málsmeðferðina auk þess sem því sé mótmælt nú sem órökstuddri fullyrðingu að synjunin hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum. 

Í ákvæðum skipulags- og byggingarlaga sé kveðið á um málsmeðferð eftir að sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa eða grenndarkynna tillögu að deiliskipulagi, eða breytingu á því.  Í lögunum komi m.a. fram að taka skuli afstöðu til þess hvort breyta skuli skipulagstillögu vegna framkominna athugasemda.  Ekki sé kveðið á um að sú umsögn skuli kynnt hagsmunaaðilum sérstaklega en senda skuli þeim sem athugasemdir hafi gert umsögn sveitarstjórnar um þær eftir að hún hafi afgreitt tillöguna.  Því sé mótmælt að efni umsagnarinnar eða framkominna athugasemda hafi verið þess eðlis að Reykavíkurborg hafi borið einhver umframskylda til að kynna kæranda umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir svo sem kærandi haldi fram, enda sé slík málmeðferð ekki áskilin að lögum. 

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök kröfum sínum til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið grenndarkynntu skipulagsyfirvöld tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi svonefnds Heiðargerðisreits.  Laut tillagan að því að hækka hluta þaks og gera þrjá kvisti á eldra húsi  á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði.  Fól tillagan í sér 6,6 m² stækkun húss, eða um tæp 2%, og samsvarandi hækkun nýtingarhlutfalls.  Verður að fallast á að breytingin hafi verið óveruleg. 

Skipulagsráð hafnaði tillögunni og synjaði umsókn kæranda um breytt skipulag með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Í umsögninni er greint frá því að fram hafi komið fjögur erindi með athugasemdum þar sem þeir er að þeim hafi staðið hafi lýst þeirri skoðun sinni að tillagan færi í bága við dóm Hæstaréttar í máli nr. 114/2001 frá 20. september 2001 og því væri ekki unnt að fallast á hana.  Hvergi er hins vegar vikið að því í þessum athugasemdum hvernig hin kynnta tillaga snerti einstaklega og lögvarða hagsmuni þeirra sem að þeim stóðu og ekki er í umsögn skipulagsfulltrúa tekin nein afstaða til réttmætis framkominna athugasemda en lagt til að erindinu verði synjað. 

Úrskurðarnefndin telur að ekki hafi verið rétt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins sjónarmið um réttarvörslu og gæslu almannahagmuna sem birtust í framkomnum athugasemdum, enda var það ekki hlutverk þeirra sem að þeim stóðu að leggja mat á réttaráhrif tilvitnaðs Hæstaréttardóms eða hvort hann stæði í vegi fyrir samþykkt hinnar umdeildu tillögu.  Verður því ekki talið að umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið reist á málefnalegum grundvelli en hvergi er að því vikið að umdeild breyting hefði raskað einstaklegum hagsmunum þeirra er athugasemdirnar gerðu.  Var skipulagsráði því ekki rétt að leggja umsögn skipulagsfulltrúa til grundvallar við úrlausn málsins og verður að telja að bæði hafi skort á viðhlítandi rannsókn máls og rökstuðning er hin kærða ákvörðun var tekin. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2006, um að synja um breytingu á deiliskipulagi Heiðargerðisreits vegna lóðarinnar að Heiðargerði 76, er felld úr gildi. 

 

_________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

44/2008 Urðarmói

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að endurnýja leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6, Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni næsta dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, lóðarhafa Urðarmóa 10 og A og B, lóðarhafa Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að endurnýja leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6.  Bæjarráð staðfesti greinda ákvörðun 27. sama mánaðar. 

Kærendur krefjast þess að byggingarframkvæmdir á lóðinni að Urðarmóa 6 verði stöðvaðar þar til efnisúrskurður hafi verið kveðinn upp um lögmæti byggingarleyfisins.  Þá er þess jafnframt krafist að leyfi, sem samþykkt hafi verið til byggingar á umræddri lóð, verði fellt úr gildi og að leyfishafa verði gert að afmá framkvæmdir á lóðinni. 

Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en hinn 6. maí 2008 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 14. febrúar 2008 um að heimila byggingu einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa.  Niðurstaða nefndarinnar var á því byggð að byggingarleyfið færi í bága við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis en veitt hafði verið heimild til byggingar einbýlishúss með 42° þakhalla en samkvæmt skipulagi svæðisins mátti þakhalli einungis vera 14° til 25°.  Hafði því eigi verið gætt lagaskilyrða 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu leyfisins og það þar að leiðandi fellt úr gildi. 

Í kjölfar úrskurðarins var hinn 8. maí 2008 birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um breytt deiliskipulag umræddrar lóðar í þá veru að heimilt væri að hafa á lóðinni hús með 42° þakhalla.  Lögð var fram umsókn um endurnýjun á byggingarleyfi á lóðinni að Urðarmóa 6 á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar hinn 12. júní 2008 og var hún samþykkt.  Staðfesti bæjarráð þá fundargerð á fundi sínum 27. júní s.á. 

Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi jafnframt kært til úrskurðarnefndarinnar breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Velti gildi byggingarleyfisins á gildi þeirrar breytingar og verði breytingin felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Húsið á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Hafi framkvæmdum verið haldið áfram þrátt fyrir úrskurð nefndarinnar frá 6. maí sl. og húsið ekki fjarlægt. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls. 

Í máli þessu liggur fyrir að einbýlishús það, sem hin kærða samþykkt heimilar, er risið og byggingu þess langt komið.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfisins er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6, Selfossi, skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                    ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson