Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2009 Skipulagsgjald

Ár 2010, fimmtudaginn 14. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 72/2009, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna húseigna á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. október 2009, er barst nefndinni 22. sama mánaðar, kærir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. álagningu skipulagsgjalds vegna húseigna á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, samtals að fjárhæð kr. 82.649.481.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kærandi, sem er einkahlutafélag í eigu íslenska ríkisins, var sett á laggirnar á árinu 2006 og er markmið og tilgangur þess að leiða þróun og umbreytingu á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers við Keflavíkurflugvöll.  Yfirtók félagið á annað hundrað fasteignir á svæðinu sem flestar munu vera byggðar fyrir árið 2000. 

Bendir kærandi á að hann hafi komið mörgum fasteignum á umræddu svæði í borgaraleg not með sölu og útleigu á grundvelli þjónustusamnings við fjármálaráðuneytið.  Við það að fasteignirnar hafi verið skráðar í Fasteignaskrá Íslands lögum samkvæmt hafi kæranda verið gert að standa straum af háu skipulagsgjaldi sem lagt hafi verið á í tengslum við skráninguna.  Félagið hafi gert athugasemdir  við greiðslu umræddra gjalda og hafi farið fram á rökstuðning Skipulagsstofnunar, sem vörsluaðila skipulagssjóðs, fyrir álagningunni með bréfi, dags. 30. október 2008, en umbeðinn rökstuðningur hafi ekki borist.  Skipulagsstofnun hafi hins vegar framsent erindi kæranda til embættis sýslumannsins í Keflavík, en engin formleg viðbrögð við erindinu hafi borist þaðan. 

Að mati kæranda eigi hin kærða álagning ekki lagastoð enda komi skýrt fram í 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að gjaldið skuli lagt á nýreist hús eða viðbyggingar við eldri hús, en umræddar fasteignir hafi verið reistar á síðustu áratugum liðinnar aldar.  Gjaldið skuli lagt á við virðingu nýbyggingar til brunabóta og telji kærandi að skipulagsgjald vegna fasteigna félagsins sem byggðar hafi verið fyrir mörgum áratugum kunni að vera fyrnt.  Þá beri að líta til þess að fasteignirnar hafi verið byggðar af Bandaríkjaher á sínum tíma og geti álagt skipulagsgjald því ekki átt að standa undir umsýslukosnaði við þær framkvæmdir hersins.  Vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 17/2009 varðandi túlkun á hugtakinu nýreist hús í skilningu 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Í bréfi Fasteignarskrár Íslands til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins er tekið fram að kærandi hafi ekki beint kvörtun um álagningu og innheimtu skipulagsgjaldsins vegna umræddra fasteigna til stofnunarinnar.  Af þeim sökum hafi málið ekki komið til athugunar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti frá kæranda hafa umdeild gjöld verið lögð á og innheimt frá lokum árs 2007 og fram í mars 2009.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulag- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kæra á.  Samkvæmt því var kærufrestur vegna umdeildrar gjaldtöku liðinn þegar kæra barst í máli þessu hinn 22. október 2009. 

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Kæru verður þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila skv. 2. mgr. ákvæðisins. 

Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um málskotsrétt sinn til úrskurðarnefndarinnar skv. 7. gr. reglugerðar um skipulagsgjald eða um kærufrest svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Þá virðist krafa hans um rökstuðning ekki hafa verið framsend Fasteignaskrá Íslands, í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, en sú stofnun gefur fyrirmæli um álagningu og innheimtu skipulagsgjalds skv. 3. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Með hliðsjón af þessum atvikum þykir afsakanlegt að kæran hafi borist svo seint sem raun ber vitni og verður því ágreiningur um álögð og innheimt skipulagsgjöld síðasta árið fyrir móttöku kæru í máli þessu tekinn til efnismeðferðar en ágreiningi um eldri álagningu skipulagsgjalda verður vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrrnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Álögð skipulagsgjöld, sem féllu til innan árs fram að því að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni, eru þessi:  Frá 22. desember 2008 vegna Flugvallabrautar 941 að fjárhæð kr. 131.238 og Flugvallabrautar 752 að fjárhæð kr. 848.034 og frá 6. mars 2009 vegna Fjörubrautar 1229 að fjárhæð kr. 1.237.698, Keilisbrautar 755 að fjárhæð kr. 480.513, Suðurbrautar 758 að fjárhæð kr. 456.936, Valhallarbrautar 743 að fjárhæð kr. 558.234 og Keilisbrautar 749 að fjárhæð kr. 512.178 eða samtals kr. 4.224.831.  Eru nefndar fasteignir byggðar á árunum 1953 til 1992 nema Flugvallarbraut 941 sem reist var árið 2005. 

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs. 

Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 737/1997 fellur skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hefur farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignaskrá Íslands hefur tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.  Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á. 

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún fari að jafnaði fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á allnokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið.  Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar.  Verður ekki á það fallist að umræddar fasteignir, sem reistar hafa verið fyrir árum og áratugum, verði talin nýreist hús í skilningi 35. gr. skipulags- og byggingarlaga er umdeild álagning fór fram.  Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við, þegar litið er til orðalags þess.  Verður og að líta til þess að um er að ræða eldri fasteignir á svæði sem löngu hafði verið byggt upp og skipulagt á kostnað framkvæmdaaðila er álagning skipulagsgjaldsins fór fram. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á tilgreindar fasteignir kæranda eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds, dags. 22. desember 2008 vegna Flugvallabrautar 941 að fjárhæð kr. 131.238 og Flugvallabrautar 752 að fjárhæð kr. 848.034, og álagning dags. 6. mars 2009 vegna Fjörubrautar 1229 að fjárhæð kr. 1.237.698, Keilisbrautar 755 að fjárhæð kr. 480.513, Suðurbrautar 758 að fjárhæð kr. 456.936, Valhallarbrautar 743 að fjárhæð kr. 558.234 og Keilisbrautar 749 að fjárhæð kr. 512.178. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson