Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2009 Álftanesvegur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. maí 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir C, Hraunási 6, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af ráðherra árið 1998, var gert ráð fyrir lagningu Álftanesvegar yfir Garðahraun nokkru norðar en nú er áformað samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Mat á umhverfisáhrifum vegarins hófst á árinu 2000 í samræmi við legu hans samkvæmt þágildandi aðalskipulag Garðabæjar og Bessastaðahrepps og samþykkti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum á því ári tvær tillögur að legu vegarins.  Síðar ákvað stofnunin að fram skyldi fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir áformaðan Álftanesveg og fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg.  Með úrskurði hinn 22. maí 2002 féllst Skipulagsstofnun á þrjá valkosti á legu Álftanesvegar.  Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt var í bæjarstjórn á árinu 2006, var veglínu Álftanesvegar breytt til samræmis við einn þeirra valkosta er Skipulagsstofnun hafði fallist á.  Sama ár var samþykkt nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness þar sem Álftanesvegur fylgir núverandi legu frá sveitarfélagamörkum við Garðabæ að vegamótum Bessastaðavegar og Norður- og Suðurnesvegar. 

Í apríl 2008 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar breyting á aðalskipulagi sem fól í sér færslu á legu hins nýja Álftanesvegar til suðurs á 1,5 km löngum kafla um Garðaholt og vestasta hluta Garðahrauns í Garðabæ.  Var breytingin staðfest af ráðherra 2. febrúar 2009.  Umrædd breyting á aðalskipulagi var tilkynnt Skipulagsstofnun og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar til matsskyldu breytingarinnar í samræmi við 6. gr. og 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Með ákvörðun, dags. 18. febrúar 2009, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í kjölfar þessa veitti Sveitarfélagið Álftanes Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar Álftanesvegar fyrir sitt leyti og sama gerði bæjarstjórn Garðabæjar með samþykkt þar um hinn 5. mars 2009 með tilteknum skilyrðum.  Framkvæmdaleyfi Garðabæjar var síðan gefið út hinn 7. apríl 2009.  Var veiting þess auglýst í dagblöðum og birtist auglýsing sama efnis í Lögbirtingablaðinu hinn 20. maí s.á. 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að forsendur að baki heimilaðri vegarlagningu samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi séu brostnar.  Nýr Álftanesvegur hafi verið ætlaður fyrir átta þúsund manna byggð í Garðaholti og íbúafjölgun á Álftanesi, en fyrir liggi að í náinni framtíð eða jafnvel næstu áratugi verði ekki markaður fyrir áformað húsnæði.  Vegurinn eigi að liggja um friðlýst svæði og með því sé verið að eyðileggja mikil menningarverðmæti allt frá landnámsöld og einstaklega fallega náttúru með miklu og fjölbreyttu lífríki.  Sérkennilegt sé að Skipulagsstofnun skuli leggja blessun sína yfir framkvæmdina á árinu 2002, áður en ný byggð var sett út í hraunið að ástæðulausu.  Ef það hefði ekki verið gert mætti auðveldlega flytja núverandi veg aðeins til. 

Garðahraun og Gálgahraun séu einstakar náttúruperlur á höfuðborgarsvæðinu sem fólk hafi kunnað að meta í áratugi.  Huga verði að útivistarsvæðum samhliða fjölgun íbúa.  Það séu ósnertu svæðin sem gefi byggðinni gildi og geri hana eftirsóknarverða.  Á dýrustu svæðum í heimsborgum séu útivistarsvæði sem engum detti í hug að hrófla við.  Í úrskurði Skipulagsstofnunar séu rakin atriði um sögu og náttúru svæðisins og talið að framkvæmdin hefði neikvæð áhrif á allan hátt en síðan sé fallist á hana.  Telja verði þetta undarlega stjórnsýslu enda hafi aðrir kostir á legu vegarins verið til staðar. 

Byggja eigi mislæg gatnamót mjög nálægt húsum við Eyktarás sem hljóti að teljast sérkennileg ráðstöfun í ljósi þess að notast sé við hringtorg og umferðarljós á mörgum helstu umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins. 

Þessi framkvæmd muni rýra gæði margra fasteigna í Ásahverfi í Garðabæ með hljóð- og sjónmengun.  Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að rýra lífsgæði að nauðsynjalausu og án haldbærra ástæðna. 

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er gerð krafa um frávísun kærumálsins en að öðrum kosti að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geti þeir einir skotið ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Kærandi sé búsettur að Hraunási 6, Garðabæ og ekki liggi fyrir að hann hafi sérstök tengsl eða eigi sérgreinda hagsmuni umfram aðra íbúa Garðabæjar sem tengist umræddri framkvæmd.  Kærandi haldi því fram að með lagningu vegarins um Gálgahraun sé gengið á almennan rétt íbúa til útivistar á svæðinu sem sé einstök náttúruperla.  Þótt kærandi búi í grennd við fyrirhugaðan veg og beri fyrir sig að framkvæmdin muni hafa í för með sér sjónmengun og rýrnun á verðmæti fasteigna í hverfinu, verði ekki séð að hann eigi sérstaka og einstaklega hagsmuni tengda vegstæðinu umfram aðra íbúa.  Af þessum ástæðum beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kæranda. 

Hvað efnishlið málsins varði sé á það bent að vegstæði Álftanesvegar yfir Garðahraun hafi fyrst verið kynnt í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 og í framhaldi af því hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum vegarins.  Fallist hafi verið á vegarlagninguna í úrskurði Skipulagsstofnunar samkvæmt þremur fyrirliggjandi valkostum og hafi ráðherra staðfest þá niðurstöðu.

Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á samþykktu Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 sem sé í samræmi við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins.  Breyting á aðalskipulaginu vegna færslu vegarins hafi verið tilkynnt Skipulagsstofnun lögum samkvæmt og hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu hinn 18. febrúar 2009 að breytingin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Þeirri niðurstöðu hafi ekki verið skotið til ráðherra. 

Ljóst megi því vera að sú ákvörðun að leggja nýjan Álftanesveg, eins og sýnt sé í samþykktu aðalskipulagi Garðabæjar, sæti ekki frekari kæru á stjórnsýslustigi.  Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á niðurstöðu fyrrgreinds úrskurðar og skipulagsáætlunum bæjarins.  Sjónarmið einstaklinga um verndun hrauns, sem þegar hafi fengið skoðun og umfjöllun við gerð skipulagsáætlana, geti ekki hróflað við gildi framkvæmdaleyfisins.  Það sé á misskilningi byggt að umdeilt vegstæði liggi um friðlýst land en í aðalskipulagi sé hluti Gálgahrauns, norðan fyrirhugaðs Álftanesvegar, skilgreindur sem hverfisverndað svæði. 

Að öðru leyti fullnægi framkvæmdaleyfið skilyrðum 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir auk þess sem fyrir liggi matsskýrslur sem bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til við útgáfu leyfisins eins og áskilið sé. 

Andmæli framkvæmdaleyfishafa:  Framkvæmdaleyfishafi gerir þá kröfu að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu kæranda um ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis verði hafnað. 

Kveðið sé á um í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 að þeir einir geti skotið ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Ekki liggi fyrir að kærandi hafi sérstök tengsl eða eigi sérgreinda hagsmuni umfram aðra íbúa sveitarfélagsins sem tengist umræddri framkvæmd.  Athugasemdir kærandi varði skipulag svæðisins almennt og samspil vegar og íbúðarbyggðar.  Jafnframt lúti þær að vernd forn- og menningarminja en ekki sé teflt fram sérstökum og einstaklegum hagsmunum kæranda tengdum vegstæðinu.  Af þessum ástæðum beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kæranda. 

Um efnishlið máls byggi leyfishafi á því að hið kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, ákvörðun um matsskyldu og skipulagsáætlanir Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar.  Ekkert tilefni sé því til að ógilda leyfið.  Málið hafi fengið lögboðna umfjöllun af þar til bærum aðilum, þ.á m. fornleifa- og náttúruverndaryfirvöldum.  Almenningur hafi haft greiðan aðgang að ferli málsins og getað komið að athugasemdum lögum samkvæmt. 

Loks sé vakin athygli á að vegna ábendinga um mögulegar minjar í fyrirhuguðu vegstæði Álftanesvegar hafi verið leitað umsagnar fornleifafræðings.  Skýrsla hans bendi eindregið til þess að niðurstöður fyrri athugana að baki heimild fyrir framkvæmdunum hafi verið réttar og ekki hafi verið efni til að leggjast gegn framkvæmdunum vegna röskunnar á fornminjum. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð frávísunarkrafa með þeim rökum að kærandi eigi ekki málsaðild þar sem á skorti að hann eigi einstaklegra, lögvarinna hagsmuna að gæta vegna efnis hinnar kærðu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta einungis þeir einstaklingar skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. 

Kærandi er íbúi í Ásahverfi í Garðabæ og mun fyrirhugaður Álftanesvegur og umferðarmannvirki honum tengd verða í nágrenni hverfisins.  Ekki er unnt að útiloka að umræddar framkvæmdir geti haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda sem fasteignareiganda.  Verður hann því talinn eiga einstaklegra, lögvarinna hagsmuna að gæta í kærumáli þessu og verður málinu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kæranda. 

Hin umdeilda lega fyrirhugaðs Álftanesvegar hefur verið mörkuð í aðalskipulagi Garðabæjar sem umhverfisráðherra hefur staðfest lögum samkvæmt.  Vegarlagningin fór á sínum tíma í mat á umhverfisáhrifum og kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð hinn 22. maí 2002 samkvæmt þágildandi ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, þar sem fallist var á þrjá kosti á legu Álftanesvegar.  Sá úrskurður sætti kæru til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.  Síðari breyting á legu vegarins í aðalskipulagi var ekki talin kalla á nýtt mat á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun skipulagsstofnunar.  Þeirri ákvörðun hefði verið unnt að skjóta til umhverfisráðherra en það var ekki gert. 

Samkvæmt framansögðu hefur mat á umhverfisáhrifum vegarins og ákvörðun í aðalskipulagi um legu hans sætt lögmætisathugun og staðfestingu ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Er úrskurðarnefndin bundin af þeim niðurstöðum sem fyrir liggja í þessum efnum og koma þær því ekki til endurskoðunar í málinu.

Ekki liggur annað fyrir en að fyrirhuguð lagning nýs Álftanesvegar samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Garðabæjar og staðfestan úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegarins, eftir því sem við á, en heimilt var að leggja þann úrskurð til grundvallar, sbr. lokamálsgrein 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 74/2005, sbr. og 1. mgr. 12. gr. laganna með áorðnum breytingum. 

Hið kærða framkvæmdaleyfi var auglýst lögum samkvæmt og verður ekki séð að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þess er leitt gætu til ógildingar þess og verður kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________        ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

33/2009 Álftanesvegur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 33/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. maí 2009, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir H, formaður hagsmunasamtaka íbúa í Garðahrauni, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Kæran til úrskurðarnefndarinnar er undirrituð af kæranda f.h. hagsmunasamtaka íbúa í Garðahrauni.  Þrátt fyrir eftirgrennslan liggur ekki fyrir að téð hagsmunasamtök uppfylli skilyrði 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um félagafjölda og tilgang og verður því litið svo á að kærandi standi persónulega að kærumáli þessu.  Kærandi hefur sett fram kröfu um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki hefur verið tekin afstaða til kröfu kæranda þar sem engar framkvæmdir hafa enn átt sér stað á grundvelli hins umdeilda leyfis.  Þykir kærumálið nú nægilega upplýst og verður það því tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir:  Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af ráðherra árið 1998, var gert ráð fyrir lagningu Álftanesvegar yfir Garðahraun nokkru norðar en nú er áformað samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Mat á umhverfisáhrifum vegarins hófst á árinu 2000 í samræmi við legu hans samkvæmt þágildandi aðalskipulag Garðabæjar og Bessastaðahrepps og samþykkti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum á því ári tvær tillögur að legu vegarins.  Síðar ákvað stofnunin að fram skyldi fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir áformaðan Álftanesveg og fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg.  Með úrskurði hinn 22. maí 2002 féllst Skipulagsstofnun á þrjá valkosti á legu Álftanesvegar.  Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt var í bæjarstjórn á árinu 2006, var veglínu Álftanesvegar breytt til samræmis við einn þeirra valkosta er Skipulagsstofnun hafði fallist á.  Sama ár var samþykkt nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness þar sem Álftanesvegur fylgir núverandi legu frá sveitarfélagamörkum við Garðabæ að vegamótum Bessastaðavegar og Norður- og Suðurnesvegar. 

Í apríl 2008 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar breyting á aðalskipulagi sem fól í sér færslu á legu hins nýja Álftanesvegar til suðurs á 1,5 km löngum kafla um Garðaholt og vestasta hluta Garðahrauns í Garðabæ.  Var breytingin staðfest af ráðherra 2. febrúar 2009.  Umrædd breyting á aðalskipulagi var tilkynnt Skipulagsstofnun og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar til matsskyldu breytingarinnar í samræmi við 6. gr. og 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Með ákvörðun, dags. 18. febrúar 2009, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í kjölfar þessa veitti Sveitarfélagið Álftanes Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar Álftanesvegar fyrir sitt leyti og sama gerði bæjarstjórn Garðabæjar með samþykkt þar um hinn 5. mars 2009 með tilteknum skilyrðum.  Framkvæmdaleyfi Garðabæjar var síðan gefið út hinn 7. apríl 2009.  Var veiting þess auglýst í dagblöðum og birtist auglýsing sama efnis í Lögbirtingablaðinu hinn 20. maí s.á

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að umdeildur vegur muni liggja um 70m frá íbúðarhverfi í Garðahrauni og muni hann hafa áhrif á nánasta umhverfi íbúa.

Umfjöllun og skráning fornminja á svæðinu við fyrirhugað vegstæði hafi verið verulega ábótavant í umhverfismati.  Matið sé því ófullnægjandi og geti ekki verið forsenda þess að veita hið kærða framkvæmdaleyfi fyrr en í ljós hafi verið leitt að vegarlagningin standist lög.  Þá hafi umfjöllun um mótun byggðar svo nálægt umræddum vegi verið áfátt á öllum sigum málsins og ekki tekið tillit til íbúðarbyggðarinnar við skipulag vegarins.  Ekki hafi verið gerð úttekt á hljóðmengun í hverfinu vegna hans og kanna þurfi frekar hvort lega vegarins samræmist núverandi íbúðarbyggð áður en framkvæmdir hefjist.  Kanna þurfi hvort forsendur séu brostnar fyrir gerð vegarins.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er gerð krafa um frávísun kærumálsins frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kosti að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 geti þeir einir skotið ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Fasteignaeigendur í Garðahrauni hafi sótt um og fengið úthlutað lóðum eftir að deiliskipulag svæðisins hafi legið fyrir, en það hafi tekið gildi á árinu 2003 og þá hafi einnig legið fyrir ákvörðun um legu fyrirhugaðs Álftanesvegar.  Í samningum um úthlutun lóðanna hafi sérstaklega verið tekið fram að lóðarhafar hefðu kynnt sér skipulagsskilmála fyrir Garðahraun og fyrirliggjandi uppdrætti.  Á gildandi deiliskipulagsuppdrætti sé Álftanesvegur sýndur sem fjögurra akreina vegur en með hinni kærðu ákvörðun sé nú einungis veitt leyfi fyrir tveggja akreina vegi.  Í ljósi þessa verði kærandi ekki talinn eiga sérgreinda hagsmuni tengda umdeildri framkvæmd umfram aðra íbúa Garðabæjar þrátt fyrir ákveðna nálægð við fyrirhugaðan veg.

Um efnishlið máls sé vísað til þess að vegstæði Álftanesvegar yfir Garðahraun hafi fyrst verið kynnt í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 frá árinu 1997 og í framhaldi af því hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum vegarins.  Fallist hafi verið á vegarlagninguna í úrskurði Skipulagsstofnunar samkvæmt þremur fyrirliggjandi valkostum og hafi ráðherra staðfest þá niðurstöðu. 

Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á samþykktu Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 sem sé í samræmi við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins.  Breyting á aðalskipulaginu vegna færslu vegarins hafi verið tilkynnt Skipulagsstofnun lögum samkvæmt og hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu hinn 18. febrúar 2009 að breytingin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Þeirri niðurstöðu hafi ekki verið skotið til ráðherra.

Ljóst megi því vera að sú ákvörðun, að leggja nýjan Álftanesveg eins og sýnt sé í samþykktu aðalskipulagi Garðabæjar, sæti ekki frekari kæru á stjórnsýslustigi.  Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á niðurstöðu fyrrgreinds úrskurðar og skipulagsáætlunum bæjarins.  Sjónarmið einstaklinga um verndun hrauns, sem þegar hafi fengið skoðun og umfjöllun við gerð skipulagsáætlana, geti ekki hróflað við gildi framkvæmdaleyfisins. 

Af hálfu Fornleifanefndar ríkisins sé nú unnið að frekari skráningu fornminja á svæðinu og geti ákvæði þjóðminjalaga eftir atvikum leitt til hliðrunar á fyrirhuguðu vegstæði.  Vegna ummæla kæranda um hljóðvist sé á það bent að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar hinn 18. febrúar 2009 um matsskyldu framkvæmdarinnar komi fram að athugasemdir hefðu verið gerðar vegna áhrifa vegarins á hljóðvist gagnvart íbúðarbyggð beggja vegna hans.  Framkvæmdaraðili hafi lagt fram nýja útreikninga á hljóðvist og hafi þeir verið metnir fullnægjandi af Umhverfisstofnun.

Að öðru leyti fullnægi framkvæmdaleyfið skilyrðum 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir auk þess sem fyrir liggi matsskýrslur sem bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til við útgáfu leyfisins eins og áskilið sé.

Andmæli framkvæmdaleyfishafa:  Framkvæmdaleyfishafi gerir þá kröfu að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu kæranda um ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis verði hafnað.

Kveðið sé á um í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að þeir einir geti skotið ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Ekki liggi fyrir að kærandi hafi sérstök tengsl eða eigi sérgreinda verulega hagsmuni umfram aðra íbúa sveitarfélagsins sem tengist umræddri framkvæmd.  Athugasemdir kæranda séu almenns eðlis og tengist m.a. fornminjum, en varsla slíkra hagsmuna geti ekki veitt kæranda kæruaðild.  Ennfremur byggi málatilbúnaður kæranda á athugasemdum við skipulag vegarins og við athuganir á fyrri stigum fremur en á formi og efni hins kærða leyfis.  Af þessum ástæðum beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kæranda.

Um efnishlið máls byggi leyfishafi á því að hið kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, ákvörðun um matsskyldu og skipulagsáætlanir Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar.  Ekkert tilefni sé því til að ógilda leyfið.  Málið hafi fengið lögboðna umfjöllun af þar til bærum aðilum, þ.á m. fornleifa- og náttúruverndaryfirvöldum.  Almenningur hafi haft greiðan aðgang að ferli málsins og getað komið að athugasemdum lögum samkvæmt.

Loks sé vakin athygli á að vegna ábendinga um mögulegar minjar í fyrirhuguðu vegstæði Álftanesvegar hafi verið leitað umsagnar fornleifafræðings.  Skýrsla hans bendi eindregið til þess að niðurstöður fyrri athugana að baki heimild fyrir framkvæmdunum hafi verið réttar og ekki hafi verið efni til að leggjast gegn framkvæmdunum vegna röskunnar á fornminjum.  Þá sé á það bent að með færslu umrædds vegar út í Garðahraun, sé hann færður fjær íbúðarbyggð sem nú hafi risið en núverandi vegur sé of nálægt henni.

—————

Aðilar hafa gert frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum þótt það verði ekki rakið hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð frávísunarkrafa með þeim rökum að kærandi eigi ekki málsaðild þar sem á skorti að hann eigi einstaklegra, lögvarinna hagsmuna að gæta vegna efnis hinnar kærðu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta einungis þeir einstaklingar skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. 

Kærandi er eigandi fasteignar í íbúðarbyggð sem er að rísa í Garðahrauni í Garðabæ og mun fyrirhugaður Álftanesvegur liggja í nágrenni hverfisins.  Ekki er unnt að útiloka að vegurinn geti haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda sem fasteignareiganda.  Verður hann því talinn eiga einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta í kærumáli þessu og verður málinu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kæranda.

Hin umdeilda lega fyrirhugaðs Álftanesvegar hefur verið mörkuð í aðalskipulagi Garðabæjar sem umhverfisráðherra hefur staðfest lögum samkvæmt.  Vegarlagningin fór á sínum tíma í mat á umhverfisáhrifum og kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð hinn 22. maí 2002 samkvæmt þágildandi ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, þar sem fallist var á þrjá kosti á legu Álftanesvegar.  Sá úrskurður sætti kæru til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.  Síðari breyting á legu vegarins í aðalskipulagi var ekki talin kalla á nýtt mat á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun skipulagsstofnunar.  Þeirri ákvörðun hefði verið unnt að skjóta til umhverfisráðherra en það var ekki gert. 

Samkvæmt framansögðu hefur mat á umhverfisáhrifum vegarins og ákvörðun í aðalskipulagi um legu hans sætt lögmætisathugun og staðfestingu ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Er úrskurðarnefndin bundin af þeim niðurstöðum sem fyrir liggja í þessum efnum og koma þær því ekki til endurskoðunar í málinu.

Ekki liggur annað fyrir en að fyrrihuguð lagning nýs Álftanesvegar samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Garðabæjar og staðfestan úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegarins, eftir því sem við á, en heimilt var að leggja þann úrskurð til grundvallar, sbr. lokamálsgrein 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 74/2005, sbr. og 1. mgr. 12. gr. laganna með áorðnum breytingum. 

Hið kærða framkvæmdaleyfi var auglýst lögum samkvæmt og verður ekki séð að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þess er til gætu ógildingar og verður kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________         _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

32/2009 Álftanesvegur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 32/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. maí 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, f.h. samtakanna, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af ráðherra árið 1998, var gert ráð fyrir lagningu Álftanesvegar yfir Garðahraun nokkru norðar en nú er áformað samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Mat á umhverfisáhrifum vegarins hófst á árinu 2000 í samræmi við legu hans samkvæmt þágildandi aðalskipulag Garðabæjar og Bessastaðahrepps og samþykkti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum á því ári tvær tillögur að legu vegarins.  Síðar ákvað stofnunin að fram skyldi fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir áformaðan Álftanesveg og fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg.  Með úrskurði hinn 22. maí 2002 féllst Skipulagsstofnun á þrjá valkosti á legu Álftanesvegar.  Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt var í bæjarstjórn á árinu 2006, var veglínu Álftanesvegar breytt til samræmis við einn þeirra valkosta er Skipulagsstofnun hafði fallist á.  Sama ár var samþykkt nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness þar sem Álftanesvegur fylgir núverandi legu frá sveitarfélagamörkum við Garðabæ að vegamótum Bessastaðavegar og Norður- og Suðurnesvegar.

Í apríl 2008 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar breyting á aðalskipulagi sem fól í sér færslu á legu hins nýja Álftanesvegar til suðurs á 1,5 km löngum kafla um Garðaholt og vestasta hluta Garðahrauns í Garðbæ.  Breytingin var staðfest af ráðherra 2. febrúar 2009.  Breytingin var tilkynnt Skipulagsstofnun og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar til matsskyldu breytingarinnar í samræmi við 6. gr. og 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Með ákvörðun, dags. 18. febrúar 2009, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í kjölfar þessa veitti Sveitarfélagið Álftanes Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar Álftanesvegar fyrir sitt leyti og sama gerði bæjarstjórn Garðabæjar með samþykkt þar um hinn 5. mars 2009 með tilteknum skilyrðum.  Framkvæmdaleyfi Garðabæjar var síðan gefið út hinn 7. apríl 2009.  Var veiting framkvæmdaleyfisins auglýst í dagblöðum og birtist auglýsing sama efnis í Lögbirtingablaðinu hinn 20. maí 2009.

Málsrök kæranda:  Af hálfu Náttúruverndarsamtaka Íslands er bent á að í umsögn skipulagsnefndar komi fram að tillagan sé í samræmi við Aðalskipulag Garðabæjar 2004-2016 og aðalskipulagsbreytingu sem nýverið hafi verið staðfest af umhverfisráðherra.  Þá segi:  „Tillagan er ennfremur í samræmi við niðurstöðu umhverfismats og úrskurð Skipulagsstofnunar á því árið 2002. Skipulagsstofnun hefur ennfremur komist að þeirri niðurstöðu að breyting á legu vegarins samkvæmt aðalskipulagsbreytingunni hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif og sé því ekki háð mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.“

Þau gögn sem Vegagerðin leggi til grundvallar séu byggð á röngum forsendum.  Nýr Álftanesvegur hafi verið ætlaður átta þúsund manna byggð í Garðaholti og álíka mikilli byggð á Álftanesi.  Í upphaflegri áætlun Vegagerðarinnar frá árinu 2002 hafi verið gert ráð fyrir að 24 þúsund bílar færu um veginn á sólarhring.  Þeir séu nú um 5200.  Í gögnum sem Vegagerðin hafi lagt fyrir skipulagsnefnd Garðabæjar 4. apríl 2008 sé ekki minnst á umferðarþunga enda sé ekki lengur gert ráð fyrir byggð á Garðaholti.  Það sé einnig yfirlýst stefna bæjaryfirvalda á Álftanesi að íbúum muni ekki fjölga mikið frá því sem nú sé.  Skipulagsnefnd Garðabæjar hafi samþykkt framkvæmdina þrátt fyrir að Vegagerðin hafi ekki gert sér grein fyrir gjörbreyttum forsendum.  Engin þörf sé fyrir nýjan veg yfir hraunið.  Mjög sjaldgæft sé að finna svo svipmikið og lítt raskað hraun í þéttbýli sem á norðanverðu Álftanesi.  Hraunmyndanirnar séu svo hrikalegar og stórbrotnar að meistari Kjarval hafi leitaði þangað margsinnis að mála myndir.  Hraunin á Álftanesi séu vinsælt útivistarsvæði og þangað fari félagsmenn oft til útvistar eða til berja á haustin.  Í hrauninu vaxi á þriðja hundrað plöntutegundir og fuglalíf sé fjölbreytt.  Svæðið sé vinsælt til fræðslu nemenda á öllum skólastigum, allt frá leikskóla upp í háskóla.  Einstakar sjávarfitjar séu meðfram ströndinni auk þess sem í hrauninu felist merkar menningarminjar á borð við fornar gönguleiðir sem minni á glæsta sögu Bessastaða.  Gengið sé á rétt félagsmanna til útivistar með því að leggja veg þvert yfir óspillt hraunið.

Ekki sé gætt meðalhófs með framkvæmdinni eins og stjórnvöldum beri að gera.  Í stað þess að fara sem minnst yfir hraunið sé gert ráð fyrir að nýr Álftanesvegur fari þvert yfir það frá austri til vesturs.

Ekki sé tekið tillit til fornminja á svæðinu.  Álfakletturinn Ófeigskirkja sé í miðju vegstæði og hoggið sé nærri rústum á Grænhól.  Greinilegt sé að umhverfismat hafi verið ófullnægjandi og því ekki grundvöllur fyrir að veita framkvæmdaleyfið.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar frá 18. febrúar 2009 sé ítarlega fjallað um fyrirhugaða framkvæmd og fallist á hana.  Þar gleymist þó eitt grundvallaratriði. Hvergi sé sagt af hverju nýr Álftanesvegur skuli lagður.  Ef engin slík rök séu lögð fram megi þá samþykkja framkvæmdina?  Náttúruverndarsamtökin átelji að skipulagsnefnd Garðabæjar skuli hafa byggt samþykkt sína á óvönduðum vinnubrögðum framkvæmdaraðila.  Ljóst sé að ákvörðun Skipulagsstofnunar byggi ekki á neinum rökum sem réttlæti framkvæmdina.

Í mati Vegagerðarinnar frá 2002 segi að framkvæmdin muni rýra verndargildi hraunsins sem svæðis á náttúruminjaskrá auk þess sem eldhraun njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.  Framkvæmdirnar raski búsvæðum fugla, mest við Lambhúsatjörn, (vegurinn hafi nú verið færður frá tjörninni), en hún sé á náttúruminjaskrá og hafi alþjóðlegt verndargildi.  Nýjum vegi muni fylgja hljóðmengun sem fari yfir viðmiðunarmörk gagnvart nýrri byggð í Garðaholti en úr því megi bæta með hljóðmönum.  Loftmengun sé hins vegar ekki sögð vera vandamál eins og það er orðað án frekari skýringa.  Engar rannsóknir liggi fyrir um loftmengun á svæðinu.  Þrátt fyrir að rýra augljóslega lífsgæði íbúa á svæðinu sé nýr Álftanesvegur talinn þörf framkvæmd.  Í skýrslu Vegagerðarinnar, dags. 4. apríl 2008, sé dregið úr öllum þessum umhverfisþáttum og þeim því leynt fyrir þeim sem tekið hafi ákvörðun í málinu.  Það hljóti að orka tvímælis að veita framkvæmdaleyfi þegar rannsóknir séu jafn óvandaðar og raun beri vitni.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er vísað til þess að ákvörðun um framkvæmdaleyfi byggi á samþykktu Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt hafi verið á árinu 2006 og staðfest af ráðherra 12. júlí s.á.  Þá hafi bæjarstjórn samþykkt breytingu þess vegna færslu vegarins sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra 2. febrúar 2009.  Breytingin sé í samræmi við gildandi svæðisskipulag eins og því hafi verið breytt, sbr. samþykkt bæjarstjórnar frá 4. september 2008, staðfest af umhverfisráðherra 21. október s.á., sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1017/2008.

Breytingin á aðalskipulagi vegna færslu vegarins hafi verið tilkynnt Skipulagsstofnun í samræmi við 6. gr. og liði 10c og 13a í viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum með síðari breytingum, en áður hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum vegna vegarins.

Með ákvörðun hinn 18. febrúar 2009 hafi Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að breyting á legu Álftanesvegar samkvæmt breyttu aðalskipulagi væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi ekki verið kærð til ráðherra.

Lega Álftanesvegar um Garðahraun hafi fyrst verið kynnt í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 sem samþykkt hafi verið á árinu 1997 og í framhaldi af því hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum vegarins.  Með úrskurði, dags. 22. maí 2002, hafi verið fallist á fyrirhugaða lengingu Vífilsstaðavegar og lagningu Álftanesvegar samkvæmt leiðum B, D og A eins og þeim hafi verið lýst í gögnum málsins.  Úrskurður Skipulagsstofnunar hafi verið kærður til umhverfisráðherra sem staðfest hafi hann, sbr. úrskurð, dags. 3. febrúar 2003.  Það megi því vera full ljóst að sú ákvörðun að leggja nýjan Álftanesveg eins og sýnt sé í samþykktu aðalskipulagi Garðabæjar sæti ekki frekari kæru á stjórnsýslustigi.

Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á niðurstöðu úrskurðarins og skipulagsáætlunum bæjarins.  Ávallt hafi legið fyrir að vegurinn fari yfir hraun og með lagningu hans sé nauðsynlegt að fórna stórbrotnum hraunmyndunum með sama hætti og gert hafi verið þegar ákveðið hafi verið að hefja uppbyggingu íbúðarbyggðar í Garðahrauni.  Sjónarmið um verndun hrauns, sem þegar hafi fengið umfjöllun og skoðun við gerð skipulagsáætlana, geti á engan hátt valdið því að ógilda eigi framkvæmdaleyfið. 

Í kærunni sé reynt að halda því fram að ákvörðun um nýtt vegstæði Álftanesvegar byggi á röngum forsendum þar sem ekki sé lengur gert ráð fyrir byggð á Garðaholti.  Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 sé gert ráð fyrir 2.400-3.000 íbúðum á Garðaholti og að íbúafjöldi þar geti verið á bilinu 4.860-8.100.  Í aðalskipulaginu sé lýst stefnu bæjaryfirvalda um uppbyggingu þó það greini ekki nánar frá því hvort eða hvenær á skipulagstímabilinu frekari uppbygging hefjist. 

Hvað varði gildi Gálgahrauns sem útivistarsvæði sé á það bent að í aðalskipulagi Garðabæjar njóti hraunið að stórum hluta til hverfisverndar og í því felist yfirlýsing bæjaryfirvalda um gildi svæðisins sem útivistarsvæði.

Hið kærða framkvæmdaleyfi fullnægi að öllu leyti þeim skilyrðum sem sett séu í 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Framkvæmdaleyfið sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og fyrir liggi matsskýrslur sem bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til við útgáfu leyfisins eins og áskilið sé.

Andmæli framkvæmdaleyfishafa:  Vegagerðin mótmælir fullyrðingum kæranda um óvönduð vinnubrögð við undirbúning málsins. Undirbúningur hins umdeilda leyfis hafi verið óvenju ítarlegur og eigi sér langan aðdraganda.  Framkvæmdaleyfið byggi á málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og skipulags- og byggingalögum nr. 73/1997 og sé í fullu samræmi við þau lög.  Engar forsendur séu til þess að ógilda framkvæmdaleyfið.

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Hin umdeilda lega fyrirhugaðs Álftanesvegar hefur verið mörkuð í aðalskipulagi Garðabæjar sem umhverfisráðherra hefur staðfest lögum samkvæmt.  Vegarlagningin fór á sínum tíma í mat á umhverfisáhrifum og kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð hinn 22. maí 2002 samkvæmt þágildandi ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, þar sem fallist var á þrjá kosti á legu Álftanesvegar.  Sá úrskurður sætti kæru til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.  Síðari breyting á legu vegarins í aðalskipulagi var ekki talin kalla á nýtt mat á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar.  Þeirri ákvörðun hefði verið unnt að skjóta til umhverfisráðherra en það var ekki gert. 

Samkvæmt framansögðu hefur mat á umhverfisáhrifum vegarins og ákvörðun í aðalskipulagi um legu hans sætt lögmætisathugun og staðfestingu ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Er úrskurðarnefndin bundin af þeim niðurstöðum sem fyrir liggja í þessum efnum og koma þær því ekki til endurskoðunar í málinu.

Ekki liggur annað fyrir en að fyrirhuguð lagning nýs Álftanesvegar samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Garðabæjar og staðfestan úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegarins, eftir því sem við á, en heimilt var að leggja þann úrskurð til grundvallar, sbr. lokamálsgreina 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 74/2005, sbr. og 1. mgr. 12. gr. laganna með áorðnum breytingum. 

Hið kærða framkvæmdaleyfi var auglýst lögum samkvæmt og verður ekki séð að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þess er leitt gætu til ógildingar og verður kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

28/2009 Álftanesvegur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kæra J og B, eigendur jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki hefur verið tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda þar sem engar framkvæmdir hafa enn átt sér stað á grundvelli hins umdeilda leyfis.  Þykir kærumálið nú nægilega upplýst og verður það því tekið til endanlegs úrskurðar. 
 
Málavextir:  Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af ráðherra árið 1998, var gert ráð fyrir lagningu Álftanesvegar yfir Garðahraun nokkru norðar en nú er áformað samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Mat á umhverfisáhrifum vegarins hófst á árinu 2000 í samræmi við legu hans samkvæmt þágildandi aðalskipulag Garðabæjar og Bessastaðahrepps og samþykkti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum á því ári tvær tillögur að legu vegarins.  Síðar ákvað stofnunin að fram skyldi fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir áformaðan Álftanesveg og fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg.  Með úrskurði hinn 22. maí 2002 féllst Skipulagsstofnun á þrjá valkosti á legu Álftanesvegar.  Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt var í bæjarstjórn á árinu 2006, var veglínu Álftanesvegar breytt til samræmis við einn þeirra valkosta er Skipulagsstofnun hafði fallist á.  Sama ár var samþykkt nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness þar sem Álftanesvegur fylgir núverandi legu frá sveitarfélagamörkum við Garðabæ að vegamótum Bessastaðavegar og Norður- og Suðurnesvegar.

Í apríl 2008 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar breyting á aðalskipulagi sem fól í sér færslu á legu hins nýja Álftanesvegar til suðurs á 1,5 km löngum kafla um Garðaholt og vestasta hluta Garðahrauns í Garðbæ.  Breytingin var staðfest af ráðherra 2. febrúar 2009.  Breytingin var tilkynnt Skipulagsstofnun og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar til matsskyldu breytingarinnar í samræmi við 6. gr. og 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Með ákvörðun, dags. 18. febrúar 2009, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í kjölfar þessa veitti Sveitarfélagið Álftanes Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar Álftanesvegar fyrir sitt leyti og sama gerði bæjarstjórn Garðabæjar með samþykkt þar um hinn 5. mars 2009 með tilteknum skilyrðum.  Framkvæmdaleyfi Garðabæjar var síðan gefið út hinn 7. apríl 2009.  Var veiting framkvæmdaleyfisins auglýst í dagblöðum og birtist auglýsing sama efnis í Lögbirtingablaðinu hinn 20. maí 2009.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekkert samráð hafi verið við þá haft um fyrirhugaða staðsetningu Álftanesvegar um jörðina Selskarð.  Þegar framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út hafi hvorki Garðabær né Vegagerðin keypt, leigt eða aflað sér á annan hátt réttinda á svæðinu í samræmi við gr. 9.1 í skipulagsreglugerð.  Framkvæmdir muni því brjóta í bága við rétt kærenda sem eigenda jarðarinnar.      

Allt frá því að kærendur hafi eignast jörðina Selskarð árið 1964 hafi það verið áform þeirra að nýta heimaland jarðarinnar undir íbúðabyggð, með vitund fulltrúa Garðarbæjar og samgönguyfirvalda.  Vísað sé til samninga frá árinu 1972 milli eigenda jarðarinnar og Vegagerðarinnar þess efnis að Vegagerðinni sé heimilt að leggja veg í landi Selskarðs miðað við 15 metra heildarbreidd þar sem breyting hafi verið gerð á vegstæði á um 500 metra kafla.  Heildarlengd vegarins sé á tæplega 1.400 metra löngu svæði á heimalandinu.  Stefnt hafi verið að því að gera eins samning um land bæði suðaustan og norðvestan þessa vegarkafla en sá samningur hafi ekki enn verið gerður.  Í yfirlýsingu Vegagerðarinnar segi að með samningi þessum sé fallist á það að breidd þessi teljist endanleg fullnaðarbreidd.  Vegagerðin muni ekki gera frekari kröfur um land undir vegi í landi Selskarðs.  Hér sé um samninga að ræða sem samkvæmt meginreglum laga skuli halda.  Ljóst sé að Vegagerðin geri kröfu um land undir áformaðan Álftanesveg, innan jarðarinnar, utan núverandi vegstæðis og utan umráðasvæðis Vegagerðarinnar samkvæmt samningum.  Garðabær og Vegagerðin sýni á uppdrætti 30 metra breitt veghelgunarsvæði beggja vegna vegarins og tilheyri það svæði kærendum.

Áformum um legu vegarins hafi margsinnis verið breytt.  Í fyrri áformum hafi verið gert ráð fyrir undirgöngum milli jarðarhluta Selskarðs.  Þessi áform séu ekki lengur á framkvæmdaáætlun og því ekki tekið tillit til tengingar milli jarðarhluta.  Kærendur hafi a.m.k. frá árinu 1985 gert athugasemdir við skipulag og vegstæði Álftanesvegar sem skemmi og ónýti heimaland jarðarinnar.  Þeir hafi einnig bent á fyrrgreinda samninga.  Kærendur hafi löglega skipulagt landareign sína.  Því skipulagi hafi verið þinglýst og hafi skipulagsyfirvöldum í Garðabæ og samgöngustjórnvöldum verið kynnt það skipulag og óskað hefur verið eftir því að það verði sett inn á skipulags- og framkvæmdauppdrætti vegna vegarins þannig að ekki sé leynt áformum kærenda.  Vegagerðin hafni því að skipulag eigenda verði til upplýsinga sett á uppdrátt hennar um fyrirhugaðar framkvæmdir. 

Kærendur hafi margsinnis bent á önnur vegstæði fyrir Álftanesveg á eigninni sem uppfylli kröfur um bætt vegasamband, öryggi og greiðar samgöngur þar sem notagildi landsins rýrni sem minnst.  Til að mynda gæti vegstæði hugsanlega verið í fjöru Lambhúsatjarnar.  Slík tillaga hafi verið kynnt hinum ýmsu aðilum og fengið mjög jákvæðar undirtektir.  Benda megi á bréf Hafnarfjarðarbæjar, dags. 10. september 2002, þar sem mælt hafi verið með því að vegurinn yrði færður í fjöruna til að hlífa góðu byggingarlandi.  Skipulags- og framkvæmdaaðilum sé vel kunnugt um að þeim standi ekki til boða að fara þessa leið yfir jörðina í algjörri andstöðu við áform kærenda.  Vísað sé til greinargerðar Birgis Jónssonar, jarðfræðings og dr. Sigurðar Erlingssonar verkfræðings hjá Háskóla Íslands þar sem niðurstaðan sé sú að tæknilega sé auðvelt að leggja Álftanesveg á leirunum norðaustan Selskarðs og ekki annað að sjá en að vegur þar geti uppfyllt allar tæknilegar kröfur sem gerðar séu til þjóðvegar.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er vísað til þess að sveitarfélagið fari með forræði á gerð skipulags innan þess og við afgreiðslu áætlana hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga varðandi málsmeðferð.  Kærendur hafi þannig komið sjónarmiðum sínum á framfæri og þau verið til umfjöllunar hjá bæjaryfirvöldum.  Aðalskipulag sem gildi fyrir svæðið hafi verið til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun og staðfest af ráðherra.  Hvað varði ráðstöfun lands undir veginn liggi fyrir yfirlýsing Vegagerðarinnar í málinu að ekki verði hafnar framkvæmdir í landi Selskarðs fyrr en náðst hafi samningar við kærendur eða land tekið eignarnámi.

Lega Álftanesvegar í núverandi vegstæði yfir Garðahraun hafi fyrst verið kynnt í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995–2015 sem samþykkt hafi verið á árinu 1997 og í framhaldi af því hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum vegarins.  Með úrskurði, dags. 22. maí 2002, hafi verið fallist á fyrirhugaða lengingu Vífilsstaðavegar og lagningu Álftanesvegar samkvæmt leiðum B, D og A eins og þeim hafi verið lýst í gögnum málsins.  Úrskurður Skipulagsstofnunar hafi verið kærður til umhverfisráðherra sem hafi staðfest hann, sbr. úrskurð, dags. 3. febrúar 2003.  Það megi því vera fullljóst að sú ákvörðun að leggja nýjan Álftanesveg eins og sýnt sé í samþykktu aðalskipulagi Garðabæjar sæti ekki frekari kæru á stjórnsýslustigi.

Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á niðurstöðu úrskurðarins og skipulagsáætlunum bæjarins.  Ávallt hafi legið fyrir að vegurinn færi í gegnum land kærenda með sama hætti og hann geri nú.  Ábendingar kærenda um að færa vegstæðið í fjöruborð hafa verið teknar til umfjöllunar við meðferð málsins og sé niðurstaðan sú að slíkt geti ekki talist heppilegt, m.a. með tilliti til sjónarmiða um verndun strandlengju.  Sjónarmið kærenda um landnýtingu á eigin landi sem ekki hafa fengið hljómgrunn skipulagsyfirvalda við gerð skipulagsáætlana geti á engan hátt valdið því að ógilda eigi hið kærða framkvæmdaleyfi. 

Framkvæmdaleyfið fullnægi að öllu leyti þeim skilyrðum sem sett séu í 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Leyfið sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og fyrir liggi matsskýrslur sem bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til við útgáfu leyfisins eins og áskilið sé.

Andmæli framkvæmdaleyfishafa:  Af hálfu Vegargerðarinnar er byggt á því að hið kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, ákvörðun um matsskyldu og skipulagsáætlanir Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar og því sé ekkert tilefni til að ógilda það.  Málið hafi fengið lögboðna umfjöllun af þar til bærum aðilum.  Almenningur, þar með taldir kærendur, hafi haft greiðan aðgang að ferli málsins og getað komið að athugasemdum lögum samkvæmt.  Hafi andmæli kærenda gegn legu vegarins í skipulagi þegar fengið umfjöllun í samræmi við gildandi lagafyrirmæli. 

Vegagerðin veki sérstaka athygli á því að tvívegis hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum þess að leggja umræddan veg.  Skipulagsstofnun hafi fallist á að lagning vegar samkvæmt veglínu D hafi ekki umtalsverð áhrif á umhverfið.  Skipulagsstofnun hafi einnig fallist á að ekki sé þörf mats á umhverfisáhrifum vegna þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á veglínu D með breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness.  Sú veglína sem framkvæmdaleyfi sé gefið fyrir hafi samkvæmt þessu hlotið lögboðna meðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Byggt sé á því að hið kærða framkvæmdaleyfi feli í sér nánast óbreytta legu Álftanesvegar um land Selskarðs.  Sú lega sé ákveðin á staðfestu aðalskipulagi Garðabæjar eins og því hafi verið nýlega breytt.  Byggt sé á því að lega vega skuli ákveðin í skipulagsáætlunum í samræmi við ákvæði laga, sbr. 28. gr. vegalaga nr. 80/2007, ákvæði skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Hugmyndir kærenda um legu vegarins séu ekki í samræmi við tilvitnaðar heimildir.  Sérstaklega sé bent á að hugmyndir kærenda um lagningu vegarins um fjörur Lambhúsatjarnar fælu í sér verulegt umhverfisrask.

Kærendur bendi á að Vegagerðin hafi á sínum tíma fengið heimild til að breikka veginn í 15 m heildarbreidd, sem yrði endanleg fullnaðarbreidd og ekki yrðu gerðar frekari kröfur um land undir vegi í landi Selskarðs.  Af hálfu Vegagerðarinnar sé byggt á því að umrædd yfirlýsing feli ekki í sér slík höft á framþróun samgangna við Álftanes eins og kærendur virðist ætla.  Um sé að ræða tæplega 40 ára gamla yfirlýsingu sem hafi miðast við aðstæður á þeim tíma er hún hafi verið gefin og þær þarfir sem þá hafi verið uppi.  Með breyttu skipulagi, fjölgun íbúa, aukinni umferð og uppbyggingu ásamt auknum kröfum um umferðaröryggi og gæði vega hafi allar forsendur breyst.  Ljóst sé að slík yfirlýsing geti ekki hamlað öllum framförum í samgöngum um ókomna tíð og því síður sé hún skuldbindandi fyrir skipulagsyfirvöld við gerð skipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfis.  Það sé afstaða Vegagerðarinnar að þessi yfirlýsing geti engin áhrif haft á gildi hins kærða framkvæmdaleyfis.

Hafnað sé þeirri röksemd kærenda að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi skeri jörðina Selskarð í sundur og að finna beri aðra leið sem sé minna íþyngjandi fyrir kærendur.  Bent sé á að framkvæmdaleyfið geri ráð fyrir nær óbreyttri legu vegarins, með lítilsháttar lagfæringum til að auka umferðaröryggi og auðvelda akstur.  Óhjákvæmilegt sé að breikka veginn í samræmi við vegtæknilegar kröfur en að öðru leyti sé forðast að breyta legu vegarins og þar með gætt meðalhófs gagnvart kærendum.  Á fyrri stigum málsins hafi verið fjallað um athugasemdir kærenda er varði legu vegarins.  Ljóst sé að ekki verði hafnar framkvæmdir í landi Selskarðs fyrr en Vegagerðin hafi náð samningum við kærendur eða tekið land eignarnámi vegna framkvæmdarinnar.

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Hin umdeilda lega fyrirhugaðs Álftanesvegar hefur verið mörkuð í gildandi  aðalskipulagi Garðabæjar sem umhverfisráðherra hefur staðfest lögum samkvæmt.  Vegarlagningin fór á sínum tíma í mat á umhverfisáhrifum og kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð hinn 22. maí 2002 samkvæmt þágildandi ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, þar sem fallist var á þrjá kosti á legu Álftanesvegar.  Sá úrskurður sætti kæru til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003.  Síðari breyting á legu vegarins í aðalskipulagi var ekki talin kalla á nýtt mat á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar.  Þeirri ákvörðun hefði verið unnt að skjóta til umhverfisráðherra en það var ekki gert. 

Samkvæmt framansögðu hefur mat á umhverfisáhrifum vegarins og ákvörðun í aðalskipulagi um legu hans sætt lögmætisathugun og staðfestingu ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Er úrskurðarnefndin bundin af þeim niðurstöðum sem fyrir liggja í þessum efnum og koma þær því ekki til endurskoðunar í málinu.

Ekki liggur annað fyrir en að fyrirhuguð lagning nýs Álftanesvegar samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Garðabæjar og staðfestan úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegarins eftir því sem við á en heimilt var að leggja þann úrskurð til grundvallar, sbr. lokamálsgrein 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 74/2005, sbr. og 1. mgr. 12. gr. laganna með áorðnum breytingum. 

Hið kærða framkvæmdaleyfi var auglýst lögum samkvæmt og verður ekki séð að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þess.  Verður ekki ráðið af ákvæði 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að sveitarstjórn hafi við leyfisveitinguna borið að staðreyna hvort Vegagerðin hefði aflað sér tilskilinna heimilda til umráða lands samkvæmd vegalögum nr. 80/2007, enda er það ekki meðal þeirra skilyrða sem sett eru um veitingu framkvæmdaleyfa í tilvitnuðu ákvæði.  Verður því ekki fallist á með kærendum að það hafi staðið í vegi fyrir útgáfu hins umdeilda leyfis að ekki hafi legið fyrir umráðaheimild Vegagerðarinnar að nauðsynlegu landi, en við framkvæmd verksins ber Vegagerðinni hins vegar að gæta ákvæða vegalaga í þessu efni, sbr. og lokamálsgrein gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Með vísan til framanritaðs verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Álftanesvegi frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Aðalheiður Jóhannsdóttir

19/2009 Álftanesvegur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. apríl 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Sjávargötu 19, Álftanesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes. 

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, gerði kærandi jafnframt kröfu um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki hefur verið tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda þar sem engar framkvæmdir hafa enn átt sér stað á grundvelli hins umdeilda leyfis.  Þykir kærumálið nú nægilega upplýst og verður það því tekið til endanlegs úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af ráðherra árið 1998, var gert ráð fyrir lagningu Álftanesvegar yfir Garðahraun nokkru norðar en nú er áformað samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Mat á umhverfisáhrifum vegarins hófst á árinu 2000 í samræmi við legu hans samkvæmt þágildandi aðalskipulag Garðabæjar og Bessastaðahrepps og samþykkti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum á því ári tvær tillögur að legu vegarins.  Síðar ákvað stofnunin að fram skyldi fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir áformaðan Álftanesveg og fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg.  Með úrskurði hinn 22. maí 2002 féllst Skipulagsstofnun á þrjá valkosti á legu Álftanesvegar.  Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003. 

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt var í bæjarstjórn á árinu 2006, var veglínu Álftanesvegar breytt til samræmis við einn þeirra valkosta er Skipulagsstofnun hafði fallist á.  Sama ár var samþykkt nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness þar sem Álftanesvegur fylgir núverandi legu frá sveitarfélagamörkum við Garðabæ að vegamótum Bessastaðavegar og Norður- og Suðurnesvegar. 

Í apríl 2008 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar breyting á aðalskipulagi sem fól í sér færslu á legu hins nýja Álftanesvegar til suðurs á 1,5 km löngum kafla um Garðaholt og vestasta hluta Garðahrauns í Garðabæ.  Var breytingin staðfest af ráðherra 2. febrúar 2009.  Umrædd breyting á aðalskipulagi var tilkynnt Skipulagsstofnun og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar til matsskyldu breytingarinnar í samræmi við 6. gr. og 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Með ákvörðun, dags. 18. febrúar 2009, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í kjölfar þessa veitti Sveitarfélagið Álftanes Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar Álftanesvegar fyrir sitt leyti og sama gerði bæjarstjórn Garðabæjar með samþykkt þar um hinn 5. mars 2009 með tilteknum skilyrðum.  Framkvæmdaleyfi Garðabæjar var síðan gefið út hinn 7. apríl 2009.  Var veiting þess auglýst í dagblöðum og birtist auglýsing sama efnis í Lögbirtingablaðinu hinn 20. maí s.á. 

Kærandi telur að rangar forsendur séu að baki umsóknar Vegagerðarinnar fyrir hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Nýr Álftanesvegur hafi verið ætlaður fyrir átta þúsund manna byggð í Garðaholti og álíka mikla byggð á Álftanesi en fyrir liggi að þessar áætlanir gangi ekki eftir.  Því sé ekki þörf fyrir nýjan veg um friðlýst land.  Um sé að ræða sjaldgæft lítt snortið hraun í þéttbýli sem sé vinsælt útivistarsvæði sem kærandi nýti sér og fari þar til berja á haustin.  Á svæðinu vaxi á þriðja hundrað plöntutegundir, fuglalíf sé fjölbreytt, einstakar sjávarfitjar séu með ströndinni auk þess sem í hrauninu megi finna merkar menningarminjar á borð við fornar gönguleiðir.  Svæðið sé vinsælt til fræðslu nemenda á öllum skólastigum. 

Unnt hefði verið að finna veginum annan stað sem hefði minni röskun í för með sér og gangi hin kærða ákvörðun því gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Auk þess komi ekki fram í úrskurði Skipulagstofnunar vegna umdeildrar framkvæmdar hvers vegna hún sé nauðsynleg og sé úrskurðurinn því vafasamur grunnur fyrir veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis.  Vegagerðin hafi á sínum tíma tíundað margvíslega röskun á umhverfisþáttum er vegalagningunni fylgdi en í skýrslu hennar frá árinu 2008 sé dregið úr þeim umhverfisþáttum og þeim því leynt fyrir aðilum að ákvarðanatöku í málinu.  Loks hafi ekki verið sýnt fram á að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá árinu 2002 á friðlýstu svæði standist eftir svo langan tíma. 

Framkvæmdaleyfishafi gerir þá kröfu að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu kæranda um ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis verði hafnað. 

Kveðið sé á um í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 að þeir einir geti skotið ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Kærandi sé búsettur á Álftanesi og ekki liggi fyrir að hann hafi sérstök tengsl eða eigi sérgreinda hagsmuni umfram aðra íbúa Álftaness sem tengist umræddri framkvæmd.  Kærandi haldi því fram að með lagningu vegarins um Garðahraun sé gengið á almennan rétt hans sem og annarra borgara til útivistar á svæðinu en ekki sé teflt fram sérstökum og einstaklegum hagsmuni kæranda tengda vegarstæðinu.  Af þessum ástæðum beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kæranda. 

Um efnishlið máls byggi leyfishafi á því að hið kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, ákvörðun um matsskyldu og skipulagsáætlanir Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar.  Ekkert tilefni sé því til að ógilda leyfið.  Málið hafi fengið lögboðna umfjöllun af þar til bærum aðilum, þ.á m. fornleifa- og náttúruverndaryfirvöldum.  Almenningur hafi haft greiðan aðgang að ferli málsins og getað komið að athugasemdum lögum samkvæmt. 

Af hálfu Garðabæjar er gerð krafa um frávísun kærumálsins frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kosti að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Ekki verði séð að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og beri að vísa því frá sökum aðildarskorts.  Eru rökin að baki þeirri ályktun á sömu lund og sett eru fram af hálfu framkvæmdaleyfishafa. 

Varðandi efnishlið máls benda bæjaryfirvöld á að vegstæði Álftanesvegar yfir Garðahraun hafi fyrst verið kynnt í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 frá árinu 1997 og í framhaldi af því hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum vegarins.  Fallist hafi verið á vegarlagninguna í úrskurði Skipulagsstofnunar samkæmt þremur fyrirliggjandi valkostum og hafi ráðherra staðfest þá niðurstöðu.  Ljóst megi því vera að sú ákvörðun, að leggja nýjan Álftanesveg eins og sýnt sé í samþykktu aðalskipulagi Garðabæjar, sæti ekki frekari kæru á stjórnsýslustigi.  Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á niðurstöðu úrskurðarins og skipulagsáætlunum bæjarins.  Sjónarmið einstaklinga um verndun hrauns, sem þegar hafi fengið skoðun og umfjöllun við gerð skipulagsáætlana, geti ekki hróflað við gildi framkvæmdaleyfisins.  Að öðru leyti fullnægi leyfið skilyrðum 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir auk þess sem fyrir liggi matsskýrslur sem bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til við útgáfu leyfisins eins og áskilið sé. 

Niðurstaða: Í máli þessu er gerð frávísunarkrafa með þeim rökum að kærandi eigi ekki málsaðild þar sem á skorti að hann eigi einstaklegra, lögvarinna hagsmuna að gæta vegna efnis hinnar kærðu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eiga á Íslandi, jafnframt sama rétt enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er aðild slíkra samtaka, eðli máls samkvæmt, ekki bundin því skilyrði að þau eigi einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta. 

Kærandi máls þessa er búsettur í talsverðri fjarlægð frá fyrirhuguðu vegstæði samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Í kæru er vísað til atriða er lúta að almannahagmunum, t.d. útivistarmöguleikum almennings.  Hins vegar liggur ekki fyrir að umdeild ákvörðun snerti lögvarða einstaklingsbundna hagsmuni kæranda svo sem með röskun á grenndarhagsmunum hans sem fasteignareiganda.  Verður kærandi því ekki talinn eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Aðalheiður Jóhannsdóttir

103/2008 Neshagi

Með

Ár 2009, föstudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. október 2008 um að veita leyfi til byggingar svalaskýlis og svala yfir þaki annarrar hæðar hússins nr. 14 við Neshaga.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. nóvember 2008, er barst nefndinni samdægurs, kæra H og D, Neshaga 12, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. október 2008 um að veita leyfi til byggingar svalaskýlis og svala yfir þaki annarrar hæðar  hússins nr. 14 við Neshaga.  

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Síðar, eða með bréfi, dags. 17. apríl 2009,  kröfðust kærendur þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.  Fyrir liggur að hinar umdeildu framkvæmdir eru ekki hafnar.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
 
Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júní 2008 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja svalaskýli úr gluggapóstakerfi með tvöföldu gleri og léttar svalir ofan á þak á þriðju hæð fjölbýlishússins nr. 14 við Neshaga.  Eftir samþykki umsóknarinnar kom í ljós að meðferð málsins hafði verið ábótavant og byggingarleyfisumsókn ekki verið grenndarkynnt hagmunaaðilum.  Var  málið því tekið upp að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. júlí 2008 og samþykkt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina, m.a. fyrir kærendum, sem komu að athugasemdum sínum vegna umsóknarinnar.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. ágúst 2008 sem vísaði því til umsagnar vesturteymis arkitekta skipulagsstjóra.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 22. s.m. var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa og málinu vísað til skipulagsráðs, sem á fundi 24. september 2008 samþykkti byggingarleyfisumsóknina með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsstjóra og með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. október 2008 var samþykkt endurnýjuð umsókn um leyfi fyrir svalaskýli úr stálstyrktu gluggakerfi með tvöföldu gleri yfir svalir ásamt svölum yfir þaki annarrar hæðar við íbúð 0301 á þriðju hæð hússins að Neshaga 14.  Staðfesti borgarráð samþykktina á fundi 30. október 2008. 

Hafa kærendur skotið samþykkt byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan er getið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að aðalútsýni úr íbúð þeirra sé til sjávar, út um tvo glugga í vesturátt út á Faxaflóann, þar sem þau njóti sólarlagsins á vissum árstímum.  Þetta útsýni myndi skerðast verulega ef hin kærða framkvæmd næði fram að ganga.  Útsýnið sé stór hluti af kostum íbúðarinnar, sem sé risíbúð, og ein af ástæðum þess að kærendur hafi á sínum tíma fest kaup á henni.  Ljóst sé að skerðing á útsýni muni lækka söluverð íbúðarinnar verulega.  Þó svo að hið kærða svalaskýli verði úr gleri telji kærendur ekki að það muni minnka skerðingu útsýnisins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að komið hafi verið til móts við athugasemdir kærenda eftir að byggingarleyfisumsókn hafi verið grenndarkynnt.  Þannig hafi glerhýsið verið lækkað í tvo metra fremst og það dregið inn fyrir innri brún útveggjar, þannig að útveggir hússins/svalahandriðsins muni standa um 20 cm utar en glerveggirnir.  Einnig hafi verið tekið fram að vanda þyrfti frágang nýrra svala þannig að þær myndu falla vel að byggingarstíl hússins og að frágangur glerhýsis yrði fínlegur og færi húsinu vel.  Fallast megi á að svalaskýlið hafi áhrif á útsýni frá íbúð kærenda að Neshaga 12 að hluta, en þó sé ljóst af myndum að eftir sem áður sé mjög fallegt útsýni úr íbúðinni.

Það sé hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja heildarhagsmuni og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun verði að ræða vegna framkvæmda á annarri eign.  Útsýni sé ekki sjálfgefið og taki breytingum eftir því sem borgin þróist.  Því megi alltaf búast við því að einhver skerðing verði á útsýni þegar byggð séu ný hús eða þegar byggt sé við hús sem fyrir séu.  Telja verði að hagsmunir byggingarleyfishafa af því að byggja ofan á svalir sínar á þann hátt sem samþykkt hafi verið séu mun meiri en hagsmunir kærenda vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.  Þá sé minnt á að réttur íbúa til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög. 

Sú málsástæða að svalaskýlið muni rýra verðmæti eignar kærenda sé órökstudd og vandséð hvernig verðgildi eignar þeirra rýrni vegna svalaskýlisins.

Kröfu um ógildingu sé því mótmælt enda ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að byggingarleyfið sé háð annmörkum. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að íbúar að Neshaga 14 hafi glímt við lekavandamál í meira en áratug sem reynt hafi verið að koma í veg fyrir en ekki tekist.  Fjölmargir fagmenn hafi komið að framkvæmdum og telji þeir ljóst að lekinn stafi af svölum á íbúð byggingarleyfishafa sem verði ekki stöðvaður nema með byggingu yfir svalirnar.  Því hafi verið ákveðið að sækja um leyfi til svalabyggingarinnar sem auk þess myndi nýtast byggingarleyfishafa og fjölskyldu hans vel.  Benda megi á fasteignina að Neshaga 16 en þar hafi verið byggt yfir svalir fyrir nokkrum árum.

Byggingarleyfishafi lýsi undrun og óánægju vegna kröfu kærenda þar sem því sé haldið fram að hin umdeilda bygging muni valda þeim útsýnisskerðingu og fjártjóni.  Tilgreini kærendur sérstaklega að byggingin muni spilla útsýni út Faxaflóann úr tveimur gluggum til vesturs.  Því sé til að svara að í íbúð þeirra sé einungis einn gluggi sem snúi til vesturs, hinn tilheyri gangi milli hæða og sé byggingarleyfishafa til efs að þau noti þann glugga til þess að njóta sólarlagsins.  Þessi eini gluggi íbúðar þeirra er snúi í vestur sé á herbergi barna þeirra og því ekki mikið notaður til að njóta sólarlagsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 29. maí 2009 og hitti fyrir kærendur máls þessa, byggingarleyfishafa og fulltrúa byggingaryfirvalda.  

Niðurstaða:  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og kusu byggingaryfirvöld að neyta undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Verður að telja að það hafi verið heimilt eins og þarna stóð á, enda verður ekki talið að byggðarmynstur eða yfirbragð byggðar breytist til mikilla muna við tilkomu hinnar umdeildu framkvæmdar.  Má af þessum sökum fallast á að ekki hafi verið skylt að ráðast í gerð deiliskipulags vegna hennar.

Kærendur halda því fram að með hinu kærða byggingarleyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra vegna útsýnis- og birtuskerðingar.  Þegar litið er til þess að grenndaráhrif framkvæmdarinnar hafa hvorki áhrif af svölum né úr stofu kærenda, heldur eingöngu lítillega í svefnherbergjum, verður ekki fallist á að umdeild bygging hafi slík grenndaráhrif að leiða eigi til ógildingar hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. október 2008 um að veita leyfi til byggingar svalaskýlis og svala yfir þaki annarrar hæðar hússins nr. 14 við Neshaga.  

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

67/2007 Frostaþing

Með

Ár 2009, föstudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing í Kópavogi og til vara á afturköllun byggingarfulltrúans, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. G og G, lóðarhafa Frostaþings 10 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 að veita leyfi til að reisa einbýlishús á lóðinni nr. 12 við Frostaþing.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. febrúar 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi verði ógilt.  Jafnframt gerðu kærendur þá kröfu að kveðinn yrði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda en þar sem þeim framkvæmdum sem einkum er um deilt í málinu var að mestu lokið er kæra barst nefndinni þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu.

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. maí 2006 var tekið fyrir erindi lóðarhafa að Frostaþingi 12 um leyfi til að byggja hús út fyrir byggingarreit til norðurs, austurs og suðurs, um 1,0-1,7 m, aðkomuhæð hússins yrði hækkuð um 0,18 m og að heimilt yrði að hækka húsið um 9 cm, þ.e. húsið færi 9 cm upp fyrir mestu leyfilegu hæð samkvæmt skipulagsskilmálum.  Var ákveðið að senda málið í kynningu til lóðarhafa Frostaþings 10, 11, 13 og 15, Fróðaþings 24 og Dalaþings 15.  Málið var kynnt sem útfærsla deiliskipulags og var á skýringarmynd m.a. sýndur stoðveggur er lægi þvert á lóðarmörk.  Engar athugasemdir bárust við tillöguna og á fundi skipulagsnefndar hinn 4. júlí 2006 var hún samþykkt sem og á fundi bæjarráðs hinn 13. júlí s.á.  Mun auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags ekki hafa verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Á fundi byggingarfulltrúans í Kópavogi hinn 25. janúar 2007 var veitt leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 12 við Frostaþing og staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun á fundi sínum hinn 13. febrúar s.á.

Með umsókn, dags. 18. maí 2007, sótti lóðarhafi Frostaþings 12 um leyfi til að reisa veggi á norður- og austurmörkum lóðar sinnar auk breytinga á útitröppum og var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 31. maí 2007.  Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. júní s.á., var fyrrgreindum lóðarhafa tilkynnt að við afgreiðslu málsins hefði láðst að leggja fram samþykki lóðarhafa Frostaþings 10 og í ljósi þessara mistaka væri samþykkt leyfisins frá 31. maí 2007 felld úr gildi.  Nokkru síðar, eða með bréfi, dags. 9. júlí 2007, tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhafa Frostaþings 12 að komið hefði í ljós að framangreind afgreiðsla hefði verið á misskilningi byggð og væri hún af þeim sökum afturkölluð með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Jafnframt sagði svo í bréfinu:  „Vakin er athygli yðar á því hér með að lóðarhafi að Frostaþingi 10 telur að á rétti sínum hafi verið hallað við samþykkt byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að Frostaþingi 12.  Af hans hálfu er því haldið fram að ekki hafi komið fram við grenndarkynningu að stoðveggur yrði á lóðarmörkum, en slíkir veggir eru háðir samþykki annarra lóðarhafa.  Í umsókn um byggingarleyfi kom ekki fram að sótt væri um stoðvegg á lóðarmörkum, en slíkir veggir koma ekki fram á deiliskipulagi.“

Hafa kærendur kært áðurgreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja á því að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem umræddur veggur sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Í skipulagsskilmálum skuli, sbr. ákvæði 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, kveða m.a. á um byggingarmagn á lóð og frágang lóða og lóðamarka en í skipulagi sé hvergi minnst á umræddan stoðvegg á lóðamörkum.  Nái byggingarleyfið til hans beri að fella það úr gildi þar sem veggurinn sé ekki í samræmi við deiliskipulag.

Jafnframt sé á því byggt að byggingarteikningar stangist á við ákvæði 20. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem téður stoðveggur sé ekki málsettur og hafi því ekki verið möguleiki fyrir kærendur að átta sig á stærð hans og umfangi.  Hafi byggingarfulltrúa borið að synja um útgáfu leyfisins þar sem teikningar hafi ekki verið í samræmi við tilvitnuð ákvæði.

Byggingarleyfið sé ennfremur í andstöðu við 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar.  Um sé að ræða stoðvegg sem rísi á lóðarmörkum, um þriggja metra háan mælt frá yfirborði lóðar kærenda.  Hann sé aðeins í um þriggja metra fjarlægð frá stofuglugga kærenda og rísi hærra en gólfflötur í stofu á efri hæð.  Því sé um verulega skerðingu á gæðum húseignar kærenda að ræða.  Girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa og ekki verði gerðar minni kröfur til stoðveggja.  Hafi kærendur aldrei samþykkt slík mannvirki á lóðamörkum.  Byggingarfulltrúa hafi borið að synja um útgáfu leyfis þar sem samþykki hafi ekki legið fyrir.

Um kærufrest sé byggt á því að kærendum hafi ekki verið ljóst að leyfi fyrir slíkum vegg hefði verið veitt fyrr en hann hafi verið reistur, síðustu vikuna í júní og í byrjun júlí 2007.

Krafa um að felld verði úr gildi afturköllun byggingarfulltrúa á fyrri ákvörðun sé á því byggð að afturköllunin sé ekki í samræmi við ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga en ekki hafi verið haldið fram að um ógildanlega ákvörðun sé að ræða.  Hafi umrædd ákvörðun verulega íþyngjandi áhrif fyrir kærendur.  Verði að telja kærendur aðila máls í samræmi við meginreglu stjórnsýslulaga, enda hafi þeir lögmætra hagsmuna að gæta þar sem umrætt byggingarleyfi snúi m.a. að mannvirki á mörkum lóðar þeirra.

Ekki hafi verið sýnt fram á að fyrri ákvörðun hafi verið byggð á röngum gögnum.  Að auki hafi málið ekki verið nægilega upplýst, sbr. ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga, svo taka mætti ákvörðunina.  Þá hafi verið brotinn andmælaréttur á kærendum en þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um meintan „misskilning“.  Sé vísað til ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.  Samræmist umþrætt ákvörðun hvorki ákvæðum stjórnsýslulaga né ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur taka fram að samkvæmt teikningum muni yfirborð lóðar þeirra hækka um ca. 90 cm frá núverandi ástandi.  Á móti sé gert ráð fyrir álíka háu handriði á umræddan vegg.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess aðallega krafist að kröfum kærenda verði vísað frá nefndinni.  Til vara er þess krafist að kröfum verði hafnað og til þrautavara að kröfum kærenda verði hafnað að hluta.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfi hafi verið samþykkt í janúar 2007 og nýtt deiliskipulag ári áður.  Kæra sé því of seint fram komin og í ljósi þess beri að vísa málinu frá nefndinni.

Þess sé krafist að kröfu um að byggingarleyfið verði fellt úr gildi verði hafnað en til vara að leyfið verði aðeins ógilt að því er varðar umdeildan stoðvegg á lóðamörkum.  Bent sé á að með kynningargögnum við grenndarkynningu hafi fylgt uppdráttur af fyrirhuguðu mannvirki að Frostaþingi 12.  Þar hafi mannvirkið verið sýnt og gerð grein fyrir hvað fælist í breytingunni.  Á uppdrættinum sé jafnframt gert grein fyrir frágangi á lóðamörkum en sérstaklega sé tilgreindur og sýndur stoðveggur við lóðamörk.  Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum við kynninguna né hafi samþykkt deiliskipulagsins verið kærð.  Málsmeðferð við töku ákvörðunar hafi að öllu leyti verið í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997.  Byggingarleyfið hafi verið gefið út í samræmi við hið breytta deiliskipulag og sé því í fullu gildi samkvæmt 2. mgr. 43. gr. sömu laga.

Krafa kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúa að afturkalla byggingarleyfi frá því í maí 2007 sé á misskilningi byggð auk þess sem þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna þeirrar ákvörðunar.  Hinn 21. maí 2007 (sic) hafi byggingarfulltrúi gefið út leyfi fyrir stoðveggjum á austur- og norðurmörkum lóðarinnar Frostaþing 12.  Í framhaldi af kvörtun kærenda hafi útgáfa leyfisins verið afturkölluð en um mistök hafi verið að ræða þar sem byggingarleyfið frá 21. maí 2007 (sic) hafi ekki tekið til þess stoðveggjar sem kvörtun kærenda hafi beinst að, þ.e. á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12, heldur að stoðveggjum á austur- og norðurmörkum lóðarinnar, sem ekki snúi að lóð kærenda.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að leyfi það er afturkallað hafi verið af hálfu byggingarfulltrúi varði stoðveggi á lóðarmörkum að opnum svæðum er tilheyri Kópavogsbæ, en ekki stoðvegg á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12. Stoðveggur á lóðarmörkum hafi verið reistur í maí og júní og verið fullbúinn í byrjun júlí 2007.

Teikningar hafi verið lagðar fram til skipulagsnefndar 5. mars 2006.  Þá hafi hæðarkóti fyrir neðri hæð Frostaþings 10 verið 100,20 skv. hæðarblaði tæknideildar Kópavogsbæjar.  Umræddur stoðveggur sé í kóta 100,90 og hæðarmismunur því 70 cm.  Í mars 2007 hafi lóðarhafi Frostaþings 10 fengið samþykktar teikningar þar sem hæðarkóti neðri hæðar sé 98,80, þ.e. 140 cm neðar en skilmálar segi til um, og hæðarmismunur því orðinn 210 cm.  Efri brún stoðveggjarins sé því 210 cm fyrir ofan gólfflöt neðri hæðar Frostaþings 10 og standi 10 cm inn á lóð Frostaþings 12. 

Þá sé bent á að kærendum hafi allan tímann verið fullkunnugt um stoðvegginn á lóðamörkunum og hafi þeir m.a. nefnt við arkitekt hússins að Frostaþingi 12 í apríl 2007 að veggurinn væri fyrirferðarmikill.  Hafi lóðarhöfum Frostaþings 10 staðið til boða að skoða aðra mögulega útfærslu.  Telji byggingarleyfishafi sig hafa öll tilskilin leyfi fyrir framkvæmdunum, teikningar hafi verið grenndarkynntar og engar athugasemdir borist.

Andsvör kærenda vegna málsraka byggingarleyfishafa:  Kærendur taka fram að húsið að Frostaþingi 10 fari ekki upp fyrir leyfilega hæð.  Hins vegar sé byggt niður fyrir hæðarlínu, en það sé ekki í andstöðu við byggingarreglugerð.  Aldrei hafi verið samþykkt að reisa mætti vegg á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12.  Í greinargerð með skipulagsbreytingu hafi einungis verið fjallað um að byggt væri út fyrir byggingarreit en hvergi minnst á umræddan stoðvegg.  Vísað sé til ákvæða gr. 5.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þar sem ekki sé getið um téðan stoðvegg í greinargerð með tillögunni geti samþykki á skipulagstillögunni ekki falið í sér samþykki á byggingu hans. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing.  Snýr ágreiningsefnið fyrst og fremst að stoðvegg er liggur við norðurmörk lóðar kærenda, þ.e. á mörkum lóðanna nr. 10 og 12 við Frostaþing.

Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni.  Þá hefur byggingarleyfishafi haldið því fram að kærendum máls þessa hafi verið kunnugt um fyrirhugaða framkvæmd í apríl 2007. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Ekki nýtur við gagna í málinu um það hvenær kærendum mátti fyrst vera kunnugt um hæð og umfang stoðveggjar við mörk lóðanna.  Þykir rétt, m.a. vegna óvissu um það hvenær gengið var frá skjólvegg á brún stoðveggjarins og með hliðsjón af efni bréfs byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa frá 9. júlí 2007, að fallast á að kærufrestur hafi ekki verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.  Verður kröfu um frávísun því hafnað og málið tekið til efnislegar úrlausnar.

Á svæðinu Vatnsendi-Þing í Kópavogi er í gildi deiliskipulag frá árinu 2005.  Samkvæmt því er heimilt á lóðinni að Frostaþingi 12 að byggja einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Í almennum ákvæðum fyrir einbýlishús, raðhús og parhús á reit 1, er gilda m.a. fyrir lóðirnar að Frostaþingi 10 og 12, segir í lið 3c um frágang lóða að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna nema annað sé tekið fram eða um annað semjist við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Komi upp ágreiningur um frágang á sameiginlegum lóðamörkum skuli hlíta úrskurði byggingarnefndar um lausn málsins.  Flái við lóðamörk skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:2.  Þá segir enn fremur í lið 3d að stoðveggir og skábrautir í bílakjallara skuli vera í samræmi við skilmála skipulagsins (sérákvæði) og skuli sýna á byggingarnefndarteikningum.  Stoðveggir séu hluti af hönnun húsa og skuli efni og yfirbragð vera í samræmi við þau. 

Úrskurðarnefndin telur með vísan til ofangreinds að túlka beri skilmála skipulagins á þann veg að þar sé gert ráð fyrir stoðveggjum á lóðamörkum.  Er þar ekki gerð krafa um að stoðveggir séu sýndir á skipulagsuppdráttum en slíka veggi þarf hins vegar að sýna á byggingarnefndarteikningum.  Bar því ekki nauðsyn til að sýna eða geta sérstaklega um hinn umdeilda stoðvegg í skipulagi eða að grenndarkynna áform um byggingu hans og verður ekki fallist á að veggurinn hafi verið reistur í andstöðu við gildandi deiliskipulag. 

Fyrir liggur að hæðarmunur lóðanna að Frostaþingi 10 og 12 er meiri en orðið hefði að óbreyttu skipulagi en bæði kærendur og eigandi Frostaþings 12 fengu samþykktar breytingar á hæðarkótum á lóðum sínum.  Var samþykkt breyting á hæðarkóta neðri hæðar húss kærenda að Frostaþingi 10 þannig að hann yrði 98,80 í stað 100,20.  Að auki var samþykkt hækkun á aðkomuhæð Frostaþings 12 um 18 cm, en þeirri hækkun mótmæltu kærendur ekki.  Þótt fallast megi á að umdeildur veggur sé hár þá er hann í samræmi við skipulag með áorðnum breytingum.  Veggurinn stendur allur innan marka lóðarinnar nr. 12 og er hann sýndur og málsettur á samþykktum byggingarnefndarteikningum líkt og almennir skilmálar skipulagsins gera ráð fyrir.  Verður því ekki fallist á að byggingarleyfi hússins að Frostaþingi 12 fari gegn skilmálum deiliskipulags hvað umræddan vegg varðar og verður það því ekki fellt úr gildi af þeim sökum.

Kærendur telja ennfremur að byggingarleyfið sé í andstöðu við ákvæði 67. gr. byggingarreglugerðar og að ekki skuli gera vægari kröfur til stoðveggja en til girðinga á lóðamörkum.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Umrætt ákvæði tekur til girðinga en ekki stoðveggja.  Auk þess er beinlínis gert ráð fyrir því í 2. lið tilvitnaðs ákvæðis að kveðið sé á um það í skipulagi að girt sé með tilteknum hætti og verður að skilja ákvæðið svo að víkja megi frá skilyrðum þess í skipulagi.  Er áður rakið hvernig gerð er grein fyrir stöllun lóða, stoðveggjum o.fl. í gildandi skipulagi og ganga þau ákvæði framar ákvæðinu í 1. lið gr. 76 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.     

Þá hafa kærendur krafist þess til vara að afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi verði ógilt.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að umrætt byggingarleyfi varði stoðveggi á norður- og austurmörkum lóðarinnar að Frostaþingi 12, sem ekki snúi að lóð kærenda.  Verður ekki séð að gerð þeirra raski svo lögvörðum hagsmunum kærenda að þeir eigi rétt á að fá úrlausn um lögmæti umræddrar afturköllunar, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Tekur úrskurðarnefndin því ekki afstöðu til þess hvort hin kærða afturköllun á fyrri afturköllun hafi verið lögmæt heldur verður þessum kröfulið vísað frá.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 13. febrúar 2007, um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing í Kópavogi.

Vísað er frá varakröfu kærenda um ógildingu á afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi.

__________________________
 Hjalti Steinþórsson

_____________________________    ____________________________
       Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson 

77/2008 Lambhóll við Starhaga

Með

Ár 2009, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls við Starhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar í húsinu Lambhól við Starhaga í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málvextir og rök:  Í nokkur ár virðist sem deilur hafi staðið milli eigenda fasteignarinnar Lambhóls við Starhaga m.a. um endurgerð glugga í eldri hluta hússins.  Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2006, var óskað eftir því að byggingarfulltrúi skæri úr deilum eigenda hússins varðandi glugga.  Var erindi þessu svarað með bréfi, dags. 15. janúar 2007, þar sem sagði m.a:  „Í fyrrnefndu bréfi yðar er óskað eftir úrskurði á því hvert skuli vera útlit glugga í eldra húsi, þeirri beiðni er hér með hafnað þar sem ekki er á valdsviði embættisins að kveða upp dóma.  Er yður leiðbeint um að leita til dómstóla vegna þessa ágreiningsefnis.“ 

Á fundi skipulagsráðs hinn 18. júní 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 16. s.m., þar sem rakin voru deiluefni eigenda hússins.  Varðandi ágreining um endurgerð glugga í eldri hluta þess sagði m.a. eftirfarandi:  „Jafnframt hefur byggingarfulltrúi leiðbeint málsaðilum að leita til dómstóla með deilumálið, þar sem ekki er á valdsviði embættisins að dæma í málinu.  Er afskiptum embættisins af þeim þætti málsins lokið.“  

Hefur kærandi kært þessa ákvörðun byggingarfulltrúa svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er bent á að kærunefnd fjöleignarhúsamála hafi í áliti sínu komist að þeirri niðurstöðu að leggja beri til grundvallar teikningar hússins frá árinu 1951 hvað gluggagerð þess varði.  Hafi byggingarfulltrúi verið beðinn um að aðhafast í málinu.  Hann hafi neitað því en samkvæmt byggingarreglugerð beri byggingarfulltrúa að bregðast við ef útliti húss er breytt án byggingarleyfis. 

Af hálfu borgaryfrvalda er krafist frávísunar málsins með þeim rökum að ekki sé um endanlega ákvörðun að ræða sem bindi enda á mál heldur fyrirspurn sem ekki sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi kom á framfæri mótmælum sínum vegna kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun málsins og heldur því fram að hann kæri þá ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekkert í málinu en ekki svar hans, dags. 15. janúar 2007. 

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda máls þessa, dags. 15. janúar 2007, kemur fram að hann telji það ekki vera á valdsviði embættis síns að kveða upp dóma og er þar vísað til deilna eigenda hússins um breytingar á gluggum.  Framangreinda afstöðu sína kynnti byggingarfulltrúi síðar í bréfi til skipulagsráðs, dags. 16. júní 2008, þar sem reifaðar eru deilur eigenda hússins Lambhóls við Starhaga.

Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Gildir þá einu þótt fyrir hendi kunni að hafa verið ástæður sem réttlætt hafi drátt á því að mál væri kært.  Verður að líta svo á að með bréfi byggingarfulltrúa 15. janúar 2007 hafi kæranda verið tilkynnt um þá niðurstöðu byggingarfulltrúa að það væri ekki á valdsviði hans að skera úr ágreiningi eigenda um breytingar á gluggum umrædds húss og að kæranda hafi þá þegar mátt vera ljóst að byggingarfulltrúi myndi ekkert aðhafast í tilefni af erindi hans.  Þar sem meira en ár var liðið frá dagsetningu bréfs byggingarfulltrúa þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ber samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.       

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson   

84/2008 Lambhóll við Starhaga

Með

Ár 2009, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2008, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) hússins Lambhóls við Starhaga innan 42 daga að viðlögðum dagsektum og að láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóðinni innan 60 daga að viðlögðum dagsektum.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. ágúst 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar í húsinu Lambhól við Starhaga og bílskúrs á lóðinni, þá samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) Lambhóls innan 42 daga að viðlögðum dagsektum og að láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóðinni innan 60 daga að viðlögðum dagsektum.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Í nokkur ár virðast hafa staðið deilur milli eigenda hússins Lambhóls við Starhaga í Reykjavík um endurgerð glugga, svalir á rishæð og þakglugga í risi.  Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2006, var óskað eftir því að byggingarfulltrúi kvæði upp úrskurð um hver væri lögleg gluggagerð í húsinu og athugasemdir gerðar við óleyfisframkvæmdir.    

Með bréfi embættis byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 19. júlí 2006, var honum tilkynnt að meirihluti hússtjórnar hússins hefði sent embættinu erindi þar sem fram kæmi að kærandi hefði í hyggju að setja þakglugga á geymsluherbergi og nýta það sem íbúðarherbergi.  Var í bréfinu bent á að slíkar framkvæmdir væru byggingarleyfisskyldar og vísað til ákvæða fjöleignarhúsalaga varðandi samþykki meðeigenda.

Hinn 13. mars 2008 fór fulltrúi embættis byggingarfulltrúa á vettvang, í tilefni kvörtunar íbúa hússins, vegna framkvæmda við það.  Í skýrslu um vettvangsskoðunina kemur fram að engar framkvæmdir hafi verið sjáanlegar á staðnum.  Hins vegar hafi komið í ljós við nánari eftirgrennslan að hafist hafi verið handa við að setja þakglugga á geymsluloft ásamt því skúr á lóðinni væri nýtur til íbúðar. 

Af þessu tilefni ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 14. mars 2008, þar sem framkvæmdir við gerð þakglugga á húsinu voru stöðvaðar og þess krafist að gengið yrði frá rofi sem gert hefði verið í þakið.  Var kæranda veittur frestur til að tjá sig um málið.  Með bréfum kæranda til embættis byggingarfulltrúa, dags. 22. og 24. mars 2008, var bent á að eigendur neðri hæðar hefðu sett þakglugga á sitt herbergi.  Vitnaði kærandi til samkomulags sem hefði verið gert á milli eigenda hússins þess efnis að þakgluggi yrði einnig settur á herbergi efri hæðar.  Taldi kærandi það augljóst að hann hefði ekki samþykkt þakglugga hjá öðrum nema hann fengi að einnig að setja glugga á þakið sín megin.  Taldi kærandi sig með framkvæmdinni uppfylla ákvæði gr. 79.1  byggingarreglugerðar þar sem segði m.a. að á hverju íbúðarherbergi skuli vera gluggi.

Með bréfi byggingarfulltrúa til skipulagsráðs, dags. 16. júní 2008, voru deilur eigenda hússins raktar sem m.a. lúta að þakgluggum og breyttri notkun bílgeymslu.  Var í bréfinu lagt til að kæranda yrði veittur 42 daga frestur til að fjarlægja þakglugga sem hann hefði sett á þakið í óleyfi þrátt fyrir stöðvun byggingarfulltrúa.  Yrði tímafrestur ekki virtur yrði beitt dagsektum kr. 15.000 fyrir hvern dag sem það kynni að dragast að vinna verkið.  Var einnig lagt til að kæranda yrði veittur 60 daga frestur til að láta af ólögmætri notkun bílgeymslu, að viðlögðum dagsektum kr. 20.000 fyrir hvern dag sem það kynni að dragast að láta af hinni ólögmætu notkun.  Að lokum var lagt til að kæranda yrði veittur 14 daga frestur til að tjá sig um framangreint.  Á fundi skipulagsráðs hinn 18. júní 2008 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 16. júní 2008 vegna óleyfisframkvæmda við Lambhól við Starhaga.  Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.“  Kom kærandi á framfæri sjónarmiðum sínum vegna framangreinds.  Á fundi skipulagsráðs hinn 16. júlí sama ár var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram að nýju bréf byggingarfulltrúa, dags. 16. júní 2008, vegna óleyfisframkvæmda við Lambhól við Starhaga. Lagt fram bréf Kristjáns Kristjánssonar til byggingarfulltrúa, dags. 2. júlí 2008.  Lagt fram minnisblað lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 8. júlí 2008, vegna óleyfisframkvæmda við Lambhól við Starhaga.  Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.“  Á fundi borgarráðs hinn 17. júlí 2008 var framangreint til umfjöllunar og eftirfarandi bókað:   „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 16. þ.m. sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d. um beitingu dagsekta vegna Lambhóls við Starhaga til að knýja á um framkvæmdir. R08070072.  Samþykkt.“

Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. júlí 2008, sagði eftirfarandi:  „Á fundi borgarráðs Reykjavíkur þann 17. þ.m. var staðfest samþykkt skipulagsráðs frá 16. þ.m. um að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að:  1.  Fjarlæga óleyfisglugga á þakhæð (risi) eldri húshluta Lambhóls.  Tímafrestur til framkvæmda er gefinn 42 dagar frá móttöku bréfs þessa og verði tímafrestur ekki virtur verði beitt dagsektum kr. 15.000 á hvern dag sem það kann að dragast að ljúka verki.  2.  Láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu.  Tímafrestur til þess er gefinn 60 dagar frá móttöku bréfs þessa og verði hann ekki virtur verður beitt dagsektum kr. 20.000 á hvern dag sem það kann að dragast að láta af búsetunni.  Komi til dagsekta verða þær innheimtar sbr. ákvæði gr. 210.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Berist ekki tilkynning frá yður um verklok verða dagsektir sendar lögfræðistofu án frekari viðvörunnar.

Hefur kærandi kært ákvörðun þessa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Með innheimtubréfi Gjaldheimtunnar ehf. til kæranda, dags. 27. apríl 2009, var hann áminntur um greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 8.001.685. 
 
Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því aðallega haldið fram að hann hafi ítrekað bent byggingarfulltrúa á þakglugga á húsinu sem aldrei hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir.  Hafi kærandi farið fram á að byggingarfulltrúi hlutaðist til um að þakið yrði fært til fyrri vegar.  Erindið hafi kærandi margítrekað.  Byggingarfulltrúi hafi ekki aðhafst neitt í málinu.  Ákvörðun borgaryfirvalda um að krefjast þess að kærandi fjarlægi þakglugga, á meðan látið sé undir höfuð leggjast að krefjast þess sama af meðlóðarhafa hans, sé brot á jafnræðisreglu.  Meðhöndla verði alla á sama hátt.

Samkvæmt gr. 79.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé skylt að hafa glugga á íbúðarherbergjum og því hafi byggingarfulltrúa borið, í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, að benda kæranda á að sækja um leyfi til ísetningar glugga sem hugsanlega fengist án samþykkis annarra eigenda.  

Engin tilraun sé gerð til að sanna að um óleyfisbúsetu sé að ræða í bílskúr kæranda og sé fullyrðingum þess efnis mótmælt.  Ekki sé búið í skúrnum og hafi hann ekki verið tekinn til íbúðar.  Bent sé á að aldrei hafi verið kvartað vegna notkunar skúrsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun varði staðfest en til vara er gerð sú krafa að sá hluti ákvörðunarinnar er lýtur að beitingu dagsekta vegna óleyfisþakglugga verði staðfestur telji úrskurðarnefndin að dagsektir vegna óleyfisbúsetu hafi ekki sætt réttri málsmeðferð eða sé ósönnuð. 

Vísað sé til þess að byggingarnefnd hafi samþykkt árið 1951 teikningar að íbúðarhúsinu  Lambhóli.  Á þeim teikningum hafi verið gert ráð fyrir tveimur þakgluggum til suðurs.  Í dag séu sex aðrir þakgluggar á húsinu, einn til norðurs, tveir til vesturs og þrír til austurs, þar af tveir nýlegir.  

Hvað jafnræðisreglu varði komi fram í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Þó stjórnsýslulög kveði á um skýra jafnræðisreglu borgaranum í hag geti hann ekki vænst þess að öðlast rétt á grundvelli óréttar annars með vísan til jafnræðis.  Tilefni bréfs byggingarfulltrúa til kæranda hafi verið óleyfisframkvæmdir á hans vegum.  Einnig sé bent á að í bréfi kæranda, dags. 2. mars 2008, hafi hann vitnað til samkomulags sem gert hefði verið milli eigenda hússins þess efnis að þakgluggi yrði síðar einnig settur á herbergi (geymslu) í hans eigu.  Hafi kærandi talið augljóst að hann hefði ekki samþykkt þakglugga hjá öðrum nema hann fengi einnig að setja upp glugga.  Framangreint bendi til þess að kærandi hafi þannig með einhverjum hætti samþykkt þakglugga hjá eigendum risíbúðar í húsinu.  Muni byggingarfulltrúi við fyrsta hentugleika kanna málið og gera þær ráðstafanir sem þurfa þyki.

Skilmálafulltrúi embættis byggingarfulltrúa hafi með skýrslu sinni, dags. 13. mars 2008, upplýst að um búsetu væri að ræða í bílskúr á lóðinni.  Hafi kæranda verið veittur 60 daga frestur til að láta af óleyfisbúsetu og tilkynna embættinu þar um.  Kærandi hafi svaraði embættinu með bréfi, dags. 18. ágúst 2008, þar sem fram hafi komið að notkuninni á bílskúrnum hefði aldrei verið mótmælt af húsfélagi Lambhóls.  Jafnframt hafi kærandi bent á fjöldann allan af bílskúrum í borginni sem breytt hefði verið í íbúðir og krafist jafnræðis sér til handa.  Þurfi því vart að velkjast í vafa um að um óleyfisbúsetu sé að ræða.

Reykjavíkurborg minni á þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, í þessu tilfelli álagningar dagsekta skipulags- og byggingaryfirvalda Reykjavíkurborgar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema veigamiklar ástæður mæli með því, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.  Þegar ákvörðun sé tekin um hvort fresta eigi réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem mætist.  Í þessu tilviki séu annars vegar sjónarmið meirihluta hússtjórnar að Lambhóli sem sé ósamþykkur framkvæmdinni og hins vegar sjónarmið kæranda sem ráðist hafi í framkvæmd án byggingarleyfis, þrátt fyrir skýr fyrirmæli byggingarfulltrúa um stöðvun þeirra framkvæmda.  Verði að telja að kærandi hafi þannig fyrirgert öllum rétti til afsláttar af dagsektum og séu engar veigamiklar ástæður fyrir hendi er réttlæti slíka frestun á réttaráhrifum.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 þess efnis að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) hússins Lambhóls við Starhaga innan 42 daga að viðlögðum dagsektum og að láta af óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóðinni innan 60 daga að viðlögðum dagsektum.  

Umdeildar breytingar kæranda á þaki fasteignarinnar Lambhóls við Starhaga eru byggingarleyfisskyldar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og liggur fyrir að kærandi aflaði ekki byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum.  Ákvörðun borgarráðs um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdirnar að viðlögðum dagsektum var því í samræmi við heimildir 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga og ekki liggur fyrir í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þeirrar ákvörðunar.  Verður því ekki fallist á ógildingu ákvörðunarinnar hvað þennan þátt varðar.  Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt kærandi hafi bent á að sambærilegri ákvörðun sem beindist að meðlóðarhafa hafi ekki verið fylgt eftir með innheimtu, enda liggur ekki fyrir að frá því hafi verið fallið.

Fullyrðingar byggingaryfirvalda þess efnis að búseta sé viðhöfð í bílgeymslu á lóðinni eru lítt rökstuddar og engin gögn eru lögð fram um hana í málinu önnur en staðhæfing starfsmanns byggingarfulltrúa.  Verður að telja að rannsókn þessa þáttar málsins sé alls ófullnægjandi.  Verður ákvörðun borgarráðs, með vísan til framanritaðs, felld úr gildi hvað varðar ætluð íbúðarnot bílskúrs.

Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar án ástæðulauss dráttar og hefur málið síðan verið til meðferðar hjá nefndinni.  Að þessu virtu, og þegar litið er til þess að gögn Reykjavíkurborgar er málið vörðuðu bárust ekki úrskurðarnefndinni fyrr en 13. maí 2009, þykir rétt, með hliðsjón af 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fresta réttaráhrifum ákvörðunar borgarráðs, er varðar þakglugga, frá móttöku kæru í máli þessu til úrskurðardags. 

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun.   

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisglugga á þakhæð (risi) hússins Lambhóls við Starhaga innan 42 daga að viðlögðum dagsektum, en réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar er frestað frá móttöku kæru hinn 28. ágúst 2008 til uppkvaðningar úrskurðar þessa.

Samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008, um að krefjast þess að látið verði af meintri óleyfisbúsetu í bílgeymslu á lóð að viðlögðum dagsektum, er felld úr gildi.  

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

 

 

 

162/2007 Gulaþing

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 162/2007, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 um synjun á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Gunnar Guðmundsson hdl., f.h. Efrihlíðar ehf., lóðarhafa Gulaþings 25 í Kópavogi, þá afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 að synja beiðni um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulagsnefndar 29. maí 2007 var lögð fram beiðni lóðarhafa Gulaþings 25 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar þannig að henni yrði skipt í tvær lóðir.  Var erindinu frestað.  Í gildi er deiliskipulag á svæðinu, Vatnsendi-Þing, sem samþykkt var árið 2005.  Samkvæmt því er lóðin nr. 25 við Gulaþing 1.845 m² að stærð og heimilt að byggja þar 400 m² einbýlishús á tveimur hæðum.  Á fundi nefndarinnar hinn 3. júlí sama ár var samþykkt að tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar yrði auglýst og bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir frá næstu nágrönnum.  Var erindi kæranda til umfjöllunar á fundum skipulagsnefndar hinn 4. september 2007 og 18. sama mánaðar, en á fundi nefndarinnar hinn 6. nóvember sama ár var erindinu hafnað með vísan til innsendra athugasemda og umsagnar bæjarlögmanns.  Var kæranda tilkynnt um þessi málalok með bréfi, dags. 8. nóvember 2007, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Á fundi bæjarráðs 8. nóvember 2007 var fundargerð skipulagsnefndar frá 6. sama mánaðar til umfjöllunar, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar, án þess að hin umdeilda afgreiðsla skipulagsnefndar væri sérstaklega rædd.     

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á framangreindu og vísar hann m.a. til þess að hagsmunir nágranna hvað varði útsýni yfir Elliðavatn og umferð um götuna muni ekki skerðast þótt fallist yrði á beiðni hans um skiptingu lóðarinnar.

Af hálfu skipulagsyfirvalda er krafist frávísunar málsins og því haldið fram að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé bent á að deiliskipulag svæðisins, Vatnsendi-Þing, sé nýlega samþykkt og ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður eða skipulagsleg rök sem réttlæti breytingar á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing synjað á fundi skipulagsnefndar hinn 6. nóvember 2007.  Var fundargerðin til umfjöllunar á fundum bæjarráðs hinn 8. sama mánaðar og bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar án þess þó að erindi kæranda fengi þar sérstaka afgreiðslu.

Í 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram sú meginregla að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags og hið sama gildir um breytingu þess, sbr. 26. gr. laganna.  Þá segir í gr. 2.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Ennfremur segir þar m.a. að meginverksvið skipulagsnefnda sé að fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum, hafa forgöngu um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og fjalla um skipulagstillögur.  Þá fjalli nefndirnar um athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur, geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna og veiti umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun.  Loks segir í gr. 2.5 að ákvarðanir skipulagnefnda skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skilja verður framangreind ákvæði á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags sé ekki falin fullnaðarafgreiðsla erinda er varða nýtt eða breytt deiliskipulag, hvort sem er til samþykkis eða synjunar.  Það er sveitarstjórnar einnar að taka slíkar ákvarðanir, nema fyrir hendi sé sérstök samþykkt sveitarfélagsins um annað fyrirkomulag, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en slík samþykkt er ekki fyrir hendi í hinu kærða tilviki. 

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda var nefndin aðeins bær til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu málsins.  Engin ákvörðun liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar í málinu og gildir einu þótt fundargerð skipulagsnefndar hafi verið afgreidd í heild án umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn enda var ekki með því tekin afstaða til þess erindis sem um ræðir í máli þessu.  Skorti því á að tekin væri kæranleg lokaákvörðun í málinu og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________     _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir