Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2008 Aspargrund

Með

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 114/2008, kæra eigenda fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð fyrir 1. desember 2008 og að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að fjárhæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2008, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kæra G og D, eigendur fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi, framangreinda ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008.  Krefjast kærendur þess að réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði frestað en jafnframt verður að skilja málatilbúnað þeirra svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 var samþykkt án umræðu á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008. 

Málavextir:  Á árinu 2007 var gerð breyting á deiliskipulagi er tók til umræddrar lóðar.  Var með henni heimiluð bygging bílskúrs og viðbygging við hús á lóðinni.  Skúr sá sem kærendum var gert að fjarlægja með hinni kærðu ákvörðun mun þá hafa staðið á lóðinni á öðrum stað en nú, en hvorki var við skipulagsbreytinguna tekin afstaða til þess hvað um hann yrði né heldur annan skúr á skipulagssvæðinu, sem stendur við húsið nr. 11 við Aspargund. 

Kærendur sóttu um byggingarleyfi fyrir skúrnum en þeirri umsókn var hafnað á fundi byggingarnefndar 20. ágúst 2008.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 8. október 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 29. september 2008, varðandi skúrinn.  Óskaði byggingarnefnd eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda um að skúrinn yrði fjarlægður af lóðinni eigi síðar en hinn 8. nóvember 2008. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 19. nóvember 2008 var málið tekið fyrir að nýju og eftirfarandi bókað:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi garðskúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund. 

Á fundi byggingarnefndar 8. október s.l. var lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 29. september s.l. varðandi skúr á lóðinni nr. 9 við Aspargrund.  Byggingarnefnd óskaði eftir því að byggingarfulltrúi sendi bréf til eigenda, um að skúr verði fjarlægður af lóðinni eigi síðar 8. nóvember 2008.  Skúrinn hefur ekki verið fjarlægður. 

Byggingarnefnd gefur eigendum frest til 1. desember 2008 til að fjarlægja skúrinn.  Verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir 1. desember 2008 leggur byggingarnefnd til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir að upphæð kr. 5.000,- á eigendur skúrsins er taki gildi 1. desember 2008.“ 

Byggingarfulltrúi ritaði kærendum bréf, dags. 19. nóvember 2008, og tilkynnti þeim um ákvörðun nefndarinnar.  Í bréfinu segir hins vegar að byggingarnefnd gefi eigendum frest til 1. janúar 2009 en verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann dag leggi nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt verði að leggja á dagsektir, kr. 5.000 á dag, er taki gildi 1. desember 2008.  Með bréfi til kærenda, dags. 12. desember 2008, kom byggingarfulltrúi því á framfæri við kærendur að í niðurlagi bréfs hans frá 19. nóvember hafi verið kveðið á um að mögulegar dagsektir tækju gildi 1. desember 2008 en hafi átt að vera 1. janúar 2009.  Væri beðist velvirðingar á þessum mistökum. 

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. nóvember 2008 voru teknar fyrir fundargerðir nefnda.  Þar á meðal var fundargerð byggingarnefndar frá 19. nóvember 2008 og var gerð um hana svofelld bókun:  „…c)  Byggingarnefndar 1298. fundar 19/11, ásamt fskj. nr. 21/2008.  Fundargerðin samþykkt án umræðu.“ 

Málsrök aðila:  Af hálfu kærenda er aðallega á því byggt að réttmæti hinnar kærðu ákvörðunar hljóti að ráðast af niðurstöðu kærumáls þeirra um byggingarleyfisumsóknina.  Af hálfu Kópavogsbæjar hefur ekki verið skilað greinargerð í málinu en bæjaryfirvöld hafa látið úrskurðarnefndinni í té umbeðin gögn. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar í máli þessu er tvíþætt.  Annars vegar er um að ræða ákvörðun um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð og hins vegar að leggja til við bæjarstjórn að dagsektum verði beitt. 

Hvað fyrri lið ákvörðunarinnar varðar verður að líta svo á að það hafi verið forsenda þess liðar að lokið væri með lögmætum hætti umfjöllun umsóknar kærenda um byggingarleyfi fyrir skúrnum.  Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag fellt úr gildi synjun byggingarnefndar á umsókn kærenda um byggingarleyfið og eru því brostnar forsendur fyrir hinni kærðu ákvörðun um að fjarlægja beri skúrinn af lóðinni.  Þykir rétt að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar um að skúrinn skuli fjarlægður meðan erindi kærenda um leyfi fyrir skúrnum hefur ekki hlotið lögmæta meðferð. 

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði sveitarstjórnar að ákveða dagsektir til að knýja fram fyrirmæli byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar.  Í málinu liggur aðeins fyrir tillaga byggingarnefndar til bæjarstjórnar um að beita dagsektum.  Hins vegar liggur ekki fyrir að bæjarstjórn hafi tekið ákvörðun um dagsektir í máli þessu og breytir engu þótt hún hafi samþykkt án umræðu fundargerð byggingarnefndar þar sem umrædd tillaga er gerð.  Var tillaga byggingarnefndar um dagsektir ekki lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður þeim þætti því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að gera kærendum að fjarlægja skúr af lóð þeirra að Aspargrund 9 fyrir 1. desember 2008.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á ákvörðun byggingarnefndar um að leggja til við bæjarstjórn að lagðar verði á dagsektir að upphæð kr. 5.000 á dag frá 1. desember 2008 verði skúrinn ekki fjarlægður fyrir þann tíma. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

88/2008 Aspargrund

Með

Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2008, kæra eigenda fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. september 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kæra G og D, eigendur fasteignarinnar að Aspargrund 9 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð.  Framangreind ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. ágúst 2008. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag við Birkigrund sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 22. október 1996.  Samkvæmt greinargerð með deiliskipulaginu er um að ræða fjórar lóðir við nýja húsagötu við Birkigrund í Kópavogi.  Fékk gatan heitið Aspargrund og eru umræddar lóðir nr. 1, 3, 5 og 7 við þá götu.  Samkvæmt skipulaginu var heimilt að reisa á lóðunum einbýlishús á tveimur hæðum en efri hæð skyldi vera portbyggð.  Enginn byggingarreitur er sýndur á umræddum lóðum á skipulagsuppdrættinum en byggingarlína markar á hverri lóð hversu langt til suðurs og austurs bygging má ná.  Hámarks grunnflötur er 180 m² og heildarflatarmál bygginga á lóð 280 m². 

Hinn 27. ágúst 2007 var unnin tillaga að breytingu á umræddu skipulagi sem þá var talið taka einnig til lóðarinnar nr. 9-11 við Aspargrund, en umrædd lóð er á skipulagsuppdrættinum merkt nr. 1a, væntanlega við Birkigrund.  Var gerð breyting á skipulaginu á árinu 2007 er tók til umræddrar lóðar.  Var með henni heimiluð bygging bílskúrs og viðbygging við hús á lóðinni og voru byggingarreitir afmarkaðir fyrir umræddar byggingar en ekki tekin afstaða til þess hvað verða ætti um tvo skúra sem þá munu hafa staðið á umræddri lóð.

Skipulagsbreytingu þessa kærðu íbúar og eigendur fasteigna að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 til úrskurðarnefndarinnar, en nefndin hafnaði kröfu þeirra um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 19. júní 2008.  

Umsókn um byggingarleyfi fyrir skúr á lóð kærenda barst byggingaryfirvöldum hinn 13. febrúar 2008.  Samkvæmt teikningu sem fylgdi umsókninni er um að ræða garðhús, byggt úr timbri, 13,4 m² að flatarmáli.  Mun skúrinn hafa staðið á lóð kærenda í nokkur ár en upphaflega á öðrum stað en nú er og um er sótt. 

Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar 5. mars 2008 og þá vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á fundi skipulagsnefndar 15. apríl 2008 var samþykkt að senda erindið í kynningu til lóðarhafa að Aspargrund 1, 3, 5, og 7 og Birkigrund 1, 3, 5, og 9a.  Voru nágrönnum send kynningargögn, en ekki er ljóst hvort kynnt var umsókn um byggingarleyfi eða breyting á deiliskipulagi, eða hvort tveggja, en af málsgögnum verður helst ráðið að bæði hafi fylgt kynningarbréfinu byggingarnefndarteikningar að skúrnum og tillöguuppdráttur að breyttu deiliskipulagi þar sem sýndur er byggingarreitur fyrir skúrinn.  Stóð kynningin frá 16. maí til 16. júní 2008.  Lóðarhafar við Aspargrund 1, 3, 5 og 7 skiluðu inn sameiginlegum athugasemdum þar sem því var meðal annars haldið fram að skúrinn væri stærri en fram kæmi í umsókninni og gerðar voru athugasemdir við að ekki hefði verið getið um skúrinn þegar sótt hefði verið um stækkun íbúðarhúss og byggingu bílskúrs nokkru áður.  Einnig töldu nágrannar það í andstöðu við byggingarreglugerð að byggja fyrst hús, flytja það til eftir þörfum og sækja um leyfi mörgum árum síðar. 

Í framhaldi af grenndarkynningu gerði bæjarskipulag Kópavogs umsögn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9 og var hún lögð fyrir fund skipulagsnefndar 1. júlí 2008. Niðurstaða umsagnarinnar er að:  „Á skilgreindum byggingarreitum skv. deiliskipulagi lóðarinnar er ekki gert ráð fyrir frekari byggingum en þegar hafa verið samþykktar. Komi fram ósk um það frá lóðarhöfum við Aspargrund að leyfi verði veitt til að staðsetja garðhús á lóðunum, sé fjallað um það sérstaklega og þá með samræmingu útfærslu allra lóða við Aspargrund.“  Á fundinum hafnaði nefndin erindinu fyrir sitt leyti á grundvelli fyrrnefndrar umsagnar.  Staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum hinn 10. júlí 2008. 

Málið var tekið fyrir að nýju í byggingarnefnd þann 16. júlí 2008.  Þar var byggingarfulltrúa falið að tilkynna kærendum að til skoðunar væri að hafna umsókn þeirra um byggingarleyfi á grundvelli afgreiðslu skipulagsnefndar og vegna innsendra athugasemda og gefa þeim kost á að gæta andmælaréttar. 

Andmæli kærenda bárust 18. ágúst 2008 og var málið tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar 20. ágúst 2008.  Þar var erindinu synjað og óskað eftir því að skúrinn yrði fluttur burt af lóðinni.  Kærendum var tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 6. ágúst 2008, en ráða má af fundargerð byggingarnefndar að ákvörðunin hafi ekki verið tekin fyrr en 20. ágúst 2008, eftir að andmæli kærenda höfðu borist.  Hafa bæjaryfirvöld upplýst að dagsetning bréfs þeirra til kærenda hafi verið misrituð og hafi bréfið ekki verið sent fyrr en eftir afgreiðslu byggingarnefndar hinn 20. ágúst 2008. 

Kærendur vildu ekki una framangreindri niðurstöðu og skutu því málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að eflaust hefði verið eðlilegt að fjalla um garðskúrinn um leið og fjallað var um byggingu bílskúrs og stækkun á íbúðarhúsnæði.  Skúrinn hafi staðið á lóðinni síðastliðin átta ár og hafi verið ómetanleg geymsla fyrir eigendur Aspargrundar 9.  Garðurinn að Aspargrund 9 sé fallegur og í mikilli rækt og séu garðáhöld og garðhúsgögn geymd í skúrnum.  Ef skúrinn væri ekki fyrir hendi þyrftu kærendur að nota bílskúrinn sem geymslu og yrði þá síður hægt að geyma þar bíl, en það væri nágrönnum til óhagræðis. 

Íbúar að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 virðist vera ósáttir við skilgreindan byggingarreit á lóð Aspargrundar 9.  Þeir hafi ekki eins stórar lóðir og kærendur og þar af leiðandi ekki sömu tækifæri til að gera breytingar.  Nægt lóðarrými sé fyrir garðskúrinn að Aspargrund 9.  Hann sé færanlegur og ef staðsetningin fari fyrir brjóstið á nágrönnum sé auðvelt að færa hann innar í lóðina. 

Á deiliskipulagsuppdrætti fyrir Aspargrund 1, 3, 5 og 7 séu skilgreind ytri mörk mögulegrar stækkunar kringum hús út frá stærð lóða.  Það þurfi því ekki grenndarkynningu ef stækkun sé innan þessara marka, sbr. nýlegar framkvæmdir að Aspargrund 7.  Hins vegar virðist gilda aðrar reglur fyrir eigendur Aspargrundar 9 og hljóti það að vera brot á jafnræðisreglu. 

Varla geti skipt máli hvort skúrinn sé einum fermetra stærri eða minni.  Byggingarfulltrúi hafi mælt hann og því liggi fyrir réttar upplýsingar um stærð hans.  Skúrinn varpi hvorki skugga á lóðir nágranna né skerði birtu eða útsýni.  Vegna girðingar og gróðurs á lóð sé skúrinn lítt áberandi. 

Því sé hafnað að ítrekað hafi verið óskað eftir því að skúrinn yrði fjarlægður.  Engin rök hafi komið fram um að aðrir íbúar við götuna verði fyrir einhverjum skaða af umræddum skúr. 

Í ljósi framanritaðs beri að ógilda hina kærðu ákvörðun. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær telur að rétt hafi verið að hafna umsókn kærenda og byggir það helst á því að staða garðskúrs á lóðinni sé í andstöðu við gildandi skipulag og að breyting á skipulagi til þess að heimila stöðu skúrsins væri í óþökk nágranna og í ósamræmi við skipulag lóða í nágrenninu.  Telja verði að skúr sem þessi þurfi byggingarleyfi og þurfi að vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda séu byggingar sem þessar ekki sérstaklega undanskyldar í lögunum. 

Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á ofangreindri umsókn um byggingarleyfi bæði formlega og efnislega rétta og geri þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni framkominni kæru og staðfesti ákvörðun bæjarins um synjun byggingarleyfis. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð.  Var umsókninni vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu á fundi byggingarnefndar hinn 5. mars 2008 og verður að ætla að sú ákvörðun hafi stuðst við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Bókanir skipulagsnefndar um erindið hafa yfirskriftina „Aspargrund 9, breytt deiliskipulag“.  Ákvað nefndin að senda erindið í grenndarkynningu og virðist m.a. hafa verið kynntur uppdráttur að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 9-11 við Aspargrund þar sem sýndur var byggingarreitur fyrir umræddan skúr.  Hafnaði skipulagsnefnd síðan erindinu með vísan til umsagnar bæjarskipulags.  Virðist málinu eftir það hafa verið vísað aftur til byggingarnefndar. 

Byggingarnefnd tilkynnti kærendum að til skoðunar væri að hafna umsókn þeirra á grundvelli afgreiðslu skipulagsnefndar og vegna innsendra athugasemda og var kærendum gefinn kostur á að neyta andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Synjaði nefndin síðan umsókn kærenda á fundi sínum hinn 20. ágúst 2008, en þá höfðu henni borist andmæli kærenda. 

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er byggingarnefnd skylt að rökstyðja afgreiðslur á erindum sem henni berast.  Leiðir af eðli máls að rökstuðningur þarf jafnframt að vera haldbær.  Í máli þessu færði byggingarnefnd ekki fram rök fyrir niðurstöðu sinni er hún tók hina kærðu ákvörðun og engin afstaða var heldur tekin til andmæla kærenda.  Hins vegar verður ráðið af fyrri tilkynningu nefndarinnar til kærenda að synjun hennar hafi verið byggð á afgreiðslu skipulagsnefndar og innsendum athugasemdum og verður að telja að með því hafi nefndin teflt fram rökum sínum í málinu. 

Afgreiðsla skipulagsnefndar, sem byggingarnefnd vísar til, var byggð á umsögn bæjarskipulags um innsendar athugasemdir.  Umræddri umsögn er hins vegar að því leyti áfátt að ekki fær staðist að hafna tillögu um nýjan byggingarreit fyrir skúr á lóð með þeim rökum að á skilgreindum byggingarreitum samkvæmt deiliskipulagi lóðarinnar sé ekki gert ráð fyrir frekari byggingum en þegar séu samþykktar.  Leiða slík rök til þess að almennt sé ekki hægt að breyta deiliskipulagi að þessu leyti þar sem byggingarreitir hafi verið afmarkaðir.  Á sú niðurstaða sér enga stoð í lögum.  Í umsögn bæjarskipulags er jafnframt tekið fram að komi fram ósk um það frá lóðarhöfum við Aspargrund að leyfi verði veitt fyrir garðhúsum á lóðum þurfi að fjalla um það sérstaklega og þá með samræmdri útfærslu fyrir allar lóðir við Aspargrund.  Við þessa staðhæfingu er það að athuga að vandséð er að ekki hafi verið unnt að taka afstöðu til erindis kærenda án þess að breytt skipulag tæki jafnframt til annarra lóða, enda eru aðstæður ólíkar, m.a. vegna þess að á lóðum nr. 1, 3, 5 og 7 við Aspargrund eru byggingarreitir opnir og byggingarheimildir skipulags ekki að fullu nýttar, svo og vegna þess að umtalverður munur er á nýtingarhlutfalli lóða á svæðinu.  Loks er þess að gæta að ekki var tekin afstaða til skúra sem fyrir voru á lóðinni nr. 9-11 við Aspargrund þegar unnið var deiliskipulag fyrir lóðina, svo sem rétt hefði verið, sbr. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hefði bæjaryfirvöldum verið rétt að taka mið af því við afgreiðslu á erindi kærenda. 

Auk þess að vísa til afgreiðslu skipulagsnefndar vísar byggingarnefnd einnig til innsendra athugasemda.  Um þær er það að segja að hvergi kemur fram af hálfu nágranna með hvaða hætti umræddur skúr skerði hagmuni þeirra.  Er ljóst að skúrinn varpar hvorki skugga á lóðir nágranna né skerðir útsýni enda lúta athugasemdir þeirra  fyrst og fremst að málsmeðferð.  Verður ekki séð að athugasemdirnar hafi átt að ráða úrslitum um niðurstöðu málsins enda var byggingarnefnd ekki bundin af þeim. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar hafi ekki verið studd haldbærum rökum og að því hafi ekki verið fullnægt skilyrði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga við afgreiðslu málsins.  Beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 20. ágúst 2008 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir þegar byggðum geymsluskúr á lóð nr. 9. við Aspargrund. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

37/2009 Undirhlíð

Með

Ár 2009, þriðjudaginn, 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2009, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2009, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. 30 tilgreindra íbúa við Miðholt, Stafholt, Langholt og Stórholt á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda. 

Málavextir:  Á fundi umhverfisráðs hinn 8. mars 2006 var lögð fram hugmynd að byggingu 60 íbúða fyrir eldra fólk í fjölbýlishúsum á svæði austan Langholts á Akureyri.  Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að skoða málið frekar.  Á fundi skipulagsnefndar 19. janúar 2007 var lögð fram umsókn um leyfi til að deiliskipuleggja svæði sem afmarkast af Langholti í vestri, Krossanesbraut í austri, Undirhlíð í suðri og Miðholti í norðri.  Svæði þetta hefur fram til þessa verið óbyggt en með Aðalskipulagi Aukureyrar 2005-2018 var því breytt úr óbyggðu svæði í íbúðasvæði.  Á fundinum heimilaði nefndin umsækjanda að gera tillögu að deiliskipulagi á grundvelli þeirra gagna sem viðkomandi lagði fram.  Var deiliskipulagstillaga hans kynnt á fundi nefndarinnar 22. ágúst 2007.  Samþykkti nefndin 12. mars 2008 að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gerði tillagan ráð fyrir fimm einbýlishúsum á einni hæð með aðkomu frá Miðholti og tveimur sjö hæða fjölbýlishúsum, auk bílakjallara, með aðkomu frá Undirhlíð.  Var tillagan samþykkt í bæjarstjórn 18. mars 2008.  Tillagan auglýst til kynningar frá 27. mars til 8. maí 2008 og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. 

Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2008 var gerð sú breyting á auglýstri tillögu að íbúðum var fækkað úr 60 í 57.  Á fundinum var jafnframt fjallað um framkomnar athugasemdir.  Að öðru leyti var tillagan samþykkt.  Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulagsnefndar 1. júlí 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. ágúst 2008, var óskað lagfæringa og skýringa á nokkrum atriðum.  Þannig þyrfti að skýra nánar í greinargerð ábyrgð lóðarhafa á hugsanlegum breytingum á vatnsborði, óskað var eftir nánari skýringum við skuggavarpsmyndir og staðsetningar byggingarreits og bílakjallara.  Á fundi skipulagsnefndar 13. ágúst 2008 voru bókuð svör við athugasemdum og fyrirspurnum Skipulagsstofnunar.  Afgreiðsla skipulagsnefndar og breytingar á greinargerð var samþykkt af meirihluta bæjarráðs 28. ágúst 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2008, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um deiliskipulagssamþykktina í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing þar að lútandi 23. september 2008.  Kærðu kærendur framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag hafnaði kröfu um ógildingu deiliskipulagsins. 

Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 29. apríl 2009 var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3 og var erindið samþykkt.  Á fundi skipulagsnefndar 13. maí s.á. var fundargerð skipulagsstjóra lögð fram og hún samþykkt og lagt til við bæjarstjórn að hún yrði staðfest.  Á fundi bæjarstjórnar 19. sama mánaðar var afgreiðsla skipulagsstjóra samþykkt. 

Hafa kærendur skotið greindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök aðila:  Til stuðnings kröfu sinni um ógildingu vísa kærendur til þess að hin kærða ákvörðun byggi á deiliskipulagi sem þeir telji ekki gilt að lögum og hafi þeir kært  til úrskurðarnefndarinnar.  Sé vísað til þeirra sjónarmiða er komi fram í því kærumáli. 

Af hálfu Akureyrarbæjar er bent á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í gildu deiliskipulagi sem hvorki sé haldið form- né efnisgöllum. 

Byggingarleyfishafa var veitt færi á að tjá sig í málinu en engin andsvör hafa borist frá honum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3.  Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar 19. maí 2009.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarstjórnar frá 1. júlí 2008 um deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var hafnað kröfu kærenda um ógildingu þess deiliskipulags. 

Af þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina verður ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi eigi sér stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá verður heldur ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið neinum þeim annmörkum öðrum er leiða ættu til ógildingar og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu þess. 

Það athugist að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er það á valdsviði byggingarnefnda að fjalla um byggingarleyfisumsóknir, en með staðfestri samþykkt um embættisafgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúans á Akureyri hefur honum verið falin afgreiðsla þeirra mála.  Hið kærða byggingarleyfi er samþykkt af skipulagsstjóra á afgreiðslufundi hans hinn 29. apríl 2009 og hefur fundargerð þess fundar yfirskriftina „afgreiðslur skipulagsstjóra“.  Er þessi framsetning ónákvæm og til þess fallin að valda misskilningi, en þegar litið er til þess að skipulagsstjóri gegnir jafnframt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa þykir þessi ágalli ekki eiga að hafa áhrif á gildi leyfisins. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Undirhlíð. 

___________________________
       Hjalti Steinþórsson

_____________________________          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

2/2008 Gvendargeisli

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkurborgar varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. janúar 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir S, Gvendargeisla 106, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs frá 19. desember 2007 varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 17. júlí 2007 var lögð fram fyrirspurn nokkurra íbúa við Gvendargeisla, þ.á m. kæranda, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við götuna.  Var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Lögð fram fyrirspurn, […] dags. 11. júlí 2007 ásamt undirskriftarlista 8 íbúa, dags. 6. júlí 2007, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við Gvendargeisla 88-116.  Lögð fram umsögn Framkvæmdasviðs, dags. 2. ágúst 2007.  Neikvætt með vísan til umsagnar Framkvæmdasviðs.“ 

Með bréfi kæranda til skipulagsráðs, dags. 1. október 2007, fór kærandi m.a. fram á leyfi til þess að nýta hluta lóðar sinnar sem bílastæði.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 5. október 2007 var eftirfarandi bókað:  „Gvendargeisli 106, bílastæði, málskot.  Lagt fram bréf […], dags. 1. október 2007, varðandi bílastæði á lóð nr. 106 við Gvendargeisla.  Farið er fram á þrjú bílastæði á lóðinni í stað tveggja.  Sambærilegu erindi fyrir lóðir nr. 88-116 við Gvendargeisla var synjað á afgreiðslufundi skipulagsstjóra þann 17. ágúst 2007.  Vísað til skipulagsráðs.“  Á fundi skipulagsráðs 19. desember 2007 var eftirfarandi bókað:  „Neikvætt með vísan til fyrri afgreiðslu og eldri umfjallana.“  Var fundargerð skipulagsráðs staðfest á fundi borgarráðs 10. janúar 2008. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að í erindi hans til skipulagsyfirvalda hafi falist beiðni um að nýta hluta lóðar hans að Gvendargeisla 106 sem bílastæði og að fjarlægðir verði fimm metrar af fimmtán metra langri merkingu sem sýni bílastæði úti í götu fyrir framan lóð hans.  Bendir kærandi á að víðs vegar í hverfinu séu fleiri en tvö bílastæði á lóðum án þess að við því hafi verið amast af hálfu borgaryfirvalda. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar kærumálsins þar sem skipulagsráð hafi aðeins afgreitt fyrirspurn frá kæranda og því liggi ekki fyrir í málinu lokaákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Erindi nokkurra íbúa við Gvendargeisla, dags. 6. júlí 2007, til skipulagsráðs var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn um fjölgun bílastæða inni á lóðum.  Þegar erindi kæranda sama efnis kom til umfjöllunar í skipulagsráði var tekið fram í bókun ráðsins að um málskot væri að ræða og ber bókunin það með sér að eingöngu hafi verið til umfjöllunar fyrirspurn um hvort tiltekin framkvæmd yrði heimiluð. 

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

97/2008 Undirhlíð

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 97/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 um að samþykkja deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. október 2008, er barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. 30 tiltekinna íbúa við Miðholt, Stafholt, Langholt og Stórholt á Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 að samþykkja deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi umhverfisráðs hinn 8. mars 2006 var lögð fram hugmynd að byggingu 60 íbúða fyrir eldra fólk í fjölbýlishúsum á svæði austan Langholts á Akureyri.  Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að skoða málið frekar.  Á fundi skipulagsnefndar 19. janúar 2007 var lögð fram umsókn um leyfi til að deiliskipuleggja svæði sem afmarkast af Langholti í vestri, Krossanesbraut í austri, Undirhlíð í suðri og Miðholti í norðri.  Svæði þetta hefur fram til þessa verið óbyggt en með Aðalskipulagi Aukureyrar 2005-2018 var því breytt úr óbyggðu svæði í íbúðasvæði.  Á fundinum heimilaði nefndin umsækjanda að gera tillögu að deiliskipulagi á grundvelli þeirra gagna sem viðkomandi lagði fram.  Var deiliskipulagstillaga hans kynnt á fundi nefndarinnar 22. ágúst 2007.  Samþykkti nefndin 12. mars 2008 að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gerði tillagan ráð fyrir fimm einbýlishúsum á einni hæð með aðkomu frá Miðholti og tveimur sjö hæða fjölbýlishúsum, auk bílakjallara, með aðkomu frá Undirhlíð.  Var tillagan samþykkt í bæjarstjórn 18. mars 2008.  Tillagan auglýst til kynningar frá 27. mars til 8. maí 2008 og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. 

Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2008 var gerð sú breyting á auglýstri tillögu að íbúðum var fækkað úr 60 í 57.  Á fundinum var jafnframt fjallað um framkomnar athugasemdir.  Að öðru leyti var tillagan samþykkt.  Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulagsnefndar 1. júlí 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. ágúst 2008, var óskað lagfæringa og skýringa á nokkrum atriðum.  Þannig þyrfti að skýra nánar í greinargerð ábyrgð lóðarhafa á hugsanlegum breytingum á vatnsborði, óskað var eftir nánari skýringum við skuggavarpsmyndir og staðsetningar byggingarreits og bílakjallara.  Á fundi skipulagsnefndar 13. ágúst 2008 voru bókuð svör við athugasemdum og fyrirspurnum Skipulagsstofnunar.  Afgreiðsla skipulagsnefndar og breytingar á greinargerð var samþykkt af meirihluta bæjarráðs 28. ágúst 2008.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2008, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um deiliskipulagssamþykktina í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing þar að lútandi 23. september 2008. 

Hafa kærendur skotið greindri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsákvörðun sé í ósamræmi við fyrirmæli í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018.  Í aðalskipulaginu sé lögð áhersla á að varðveita hverfaheild en ljóst sé að hverfaheild Holtahverfis skerðist við umrætt deiliskipulag.  Það geri ráð fyrir byggingu stórhýsa, auk þess sem hverfishlutar Holtahverfis séu aðskildir með þessari miklu hæð á reitnum og virki eins og hár veggur sem aðskilji hverfishlutana í stað þess að tengja þá saman í eina hverfisheild, sambærilega því sem fyrir sé, bæði hvað varði byggingarstíl og hæð.  Þá sé skýrt tekið fram í aðalskipulaginu að byggingar skuli falla vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem sé fyrir.  Um hæð húsa séu fyrirmæli í aðalskipulagi í gr. 5.3.  Þar segi m.a. að hæð nýbygginga skuli almennt taka mið af þeim stærðarhlutföllum, umhverfi og bæjarmynd sem fyrir sé á Akureyri.  Þá segi orðrétt:  „Í miðbæ er að jafnaði miðað við 4-5 hæða byggingar en að einstakar byggingar eða hlutar bygginga, sem mynda kennileyti í byggðinni, geti risið hærra, almennt í 6-7 hæðir.  Utan miðbæjar er gert ráð fyrir að ný byggð verði yfirleitt heldur lægri, í samræmi við hæð og hlutföll nærliggjandi byggðar.  Frávik frá almennri viðmiðun um húshæðir, sem skilgreind kann að verða í deiliskipulagi (5-10) hæðir skulu vera hófleg og rökstudd.“

Samkvæmt framangreindu sé deiliskipulagið ekki í samræmi við fyrirmæli í aðalskipulagi.  Utan miðbæjar eigi byggingar yfirleitt að vera lægri en í miðbæ og taka mið af nærliggjandi byggð, þ.e. ein til þrjár hæðir á þessu svæði.  Sjö hæða fjölbýlishús auk bílakjallara geti ekki talist hófleg frávik í þessum skilningi sé miðað við fyrrgreind fyrirmæli.  Þá sé ekki rökstutt, hvorki af hálfu skipulagsnefndar né bæjarráðs, sem tók endanlega ákvörðun, nauðsyn þess að hafa tvær sjö hæða blokkir á þessum stað. 

Með hliðsjón af þessari framsetningu í aðalskipulagi hafi kærendur ekki mátt vænta þess að slík breyting kynni að verða gerð, jafnvel þótt tekin yrði til skoðunar uppbygging á þessu svæði.  Íbúar eigi að geta treyst því að fyrirmæli í aðalskipulagi feli í sér endanlega ákvörðun um byggingarmál og að þeim fyrirmælum sé fylgt, nema ríkar málefnalegar ástæður standi til annars.  Fyrir liggi í þessu tilviki að deiliskipulagið sé unnið af verktaka þeim sem hyggist byggja háhýsin.  Því sé það unnið eftir forsögn hans og fyrirskrift.  Slíkt geti ekki talist málefnalegt.  Auk þess hafi enginn rökstuðningur fylgt því hvers vegna nauðsynlegt væri að víkja frá fyrirmælum í aðalskipulagi varðandi hæð húsa. 

Þá séu fyrirmæli í aðalskipulagi um íbúðabyggð á svæðinu mjög rúm, allt að 25 íb/ha, sem gefi mikil frávik.  Því ætti þessi mikla rýmd að kalla á vandað deiliskipulag sem unnið væri í fullu samráði við alla málsaðila enda segi í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að eitt helsta markmið laganna sé „…að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.“

Bent sé á að fyrir liggi að hætta sé á jarðvegssigi og skemmdum á nærliggjandi eignum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu.  Af þeim sökum sé í deiliskipulaginu settar  tilteknar kvaðir og m.a. tekið fram að lóðarhafi skuli leita allra leiða til að koma í veg fyrir lækkun vatnsborðs í jarðvegi og sé ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni.  Allar stjórnvaldsákvarðanir á borð við samþykkt deiliskipulags verði að vera skýrar og ótvírætt ljóst við hvað sé átt.  Hér séu kvaðirnar óskýrar, ekkert mælt fyrir um hvaða ráðstafanir skuli gerðar eða skýrt í hverju ábyrgð lóðarhafa sé fólgin og hvort hún taki til nærliggjandi eigna og tjóns utan deiliskipulagsreitsins.  Þá sé orðalag óljóst og bjóði upp á túlkun auk þess sem ekki séu skilgreindar viðeigandi framkvæmdir o.s.frv.

Í ljósi þessarar miklu hættu hefði þurft að afla upplýsinga um það hvernig götur í nágrenninu séu grundaðar og greina frá þeim upplýsingum í gögnunum sem fylgt hafi tillögunni, en grundun gatna skipti miklu máli um hversu miklar líkur séu á grunnvatnsleka sem geti valdið sigi á jarðvegi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lagnir og mannvirki í kring.  Rannsókn og undirbúningi hafi því verið verulega áfátt, sem leiða eigi til ógildingar.  Skýrsla verkfræðistofu hefði átt að leiða til frekari rannsókna á nærliggjandi eignum og grundun þeirra svæða.  Einnig hefði verið eðlilegt að gera bæja- og húsakönnun skv. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, þ.e. kanna ástand nærliggjandi húsa og hvort þau þurfi sérstakt aðhald vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Einungis hafi verið grafnar holur til að kanna grunnvatnsstöðu í og við reitinn en engin rannsókn hafi farið fram í og við lóðarmörk þeirra húsa, sem standi í næsta nágrenni og séu í mögulegri hættu. 

Þá sé á því byggt að við gerð hinnar umdeildu tillögu af hálfu byggingaverktakans sem og með ákvörðun bæjarráðs hafi greinilega ekki verið gætt meðalhófs með hliðsjón af núverandi þéttleika og hæð bygginga á svæðinu.  Fram komi í greinargerð  deiliskipulagsins að háhýsin verði sjö hæða auk kjallara, eða um 22 metra há.  Húsin verði því átta hæðir séð frá Miðholti.  Hér sé um að ræða t.d. helmingi hærri hús en hæstu hús í Hlíðahverfi, sem standi við Skarðshlíð og séu fjórar hæðir.  Flest hús í Holtahverfi séu einnar og tveggja hæða en örfá þriggja hæða hús séu í Lyngholti. 

Kærendur hafi sett fram athugasemdir, m.a. við hæð bygginganna, en ekki hafi nokkurt tillit verið tekið til þeirra við meðferð málsins.  Hófleg hæð bygginga á þessu svæði gæti verið ein til þrjár hæðir, eins og íbúar svæðisins hafi reyndar lagt til.  Sterk rök þurfi til ef heimila eigi hærri byggingar, einkum í ljósi fyrirliggjandi hættu á skemmdum á næstu eignum sem og fyrirmæla í aðalskipulagi. 

Verði ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsins hefði það í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri svæðisins og væri fordæmisgefandi fyrir önnur tilvik, þ.e. samþykkt nýs skipulags og/eða breytingar á gildandi deiliskipulagi til að þóknast tilteknum eigendum eða byggingarverktökum.  Slíkt myndi leiða til þess að byggð myndi ekki þróast í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags, sem grundvallast á fjölmörgum lögmæltum sjónarmiðum, auk þess sem íbúar hlutaðeigandi hverfis og almenningur væru sviptir lögboðnum rétti sínum til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og hafa þannig áhrif á gerð deiliskipulags.  Slík byggðaþróun verði að teljast í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga. 

Einnig sé á því byggt að engar veigamiklar ástæður réttlæti svo mikla breytingu frá þeirri byggð sem fyrir sé.  Þá sé auk þess ólögmætt og ómálefnalegt að láta hagsmuni eins aðila njóta forgangs á kostnað annarra.  Deiliskipulagið feli í sér róttækar breytingar í rótgrónu og lágreistu íbúðarhverfi með ákveðnu skipulagi, húsagerð og hverfamyndun. 

Hið kærða deiliskipulag taki ekki tillit til réttmætra hagsmuna kærenda og ekki sé þar gætt meðalhófs.  Með skipulaginu sé svo freklega brotið gegn grenndarrétti kærenda og lífsgæðum að það varði ógildingu þess.  Kærendur telji að brotið sé gegn gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem segi að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Skuggateikningar séu ekki réttar en fyrir liggi tölvumyndir í þrívídd en svo virðist sem þær sýni ekki rétt hæðarhlutföll.  Kærendur mótmæli þeirri fullyrðingu skipulagsnefndar að skuggavarp verði svo til ekkert af háhýsunum. 

Deiliskipulagið brjóti gegn lögmætum væntingum kærenda.  Þegar verið sé að heimila nýbyggingar í þegar byggðu hverfi beri að taka tillit til bygginga í hverfinu, hæðar húsa, byggingarstíls o.s.frv.  Því eigi íbúar að geta treyst og gengið út frá, enda hafa þeir byggt eða eftir atvikum keypt fasteignir sínar í trausti þess að byggingar, sem komi til með að rísa, verði í samræmi við þær byggingar og notkun lands, sem heimiluð hafi verið í gegnum árin.  Bygging á tveimur sjö hæða blokkum sé langt umfram það sem næstu nágrannar hafi mátt vænta er þeir hafi orðið eigendur fasteigna sinna.  Í hverfinu séu húsin lágreist, eins til tveggja hæða.  Hér sé hins vegar verið að tala um sjö hæða byggingar með tilheyrandi skuggavarpi, staðsettar í grónu íbúðahverfi. 

Lögð sé áhersla á að grenndarreglur eignarréttarins gildi um hina fyrirhuguðu framkvæmd á grundvelli hins umdeilda skipulags.  Vegna grenndarsjónarmiða sé ekki heimilt að koma fyrir svo miklum og varanlegum mannvirkjum, sem fylgi svo mikið og verulegt ónæði og röskun á réttindum íbúanna sem séu langt umfram það sem nágrannar hafi mátt vænta er þeir hafi orðið eigendur fasteigna sinna.  Svo sem kunnugt sé séu takmarkanir nábýlisréttar meiri og virkari í íbúðarhverfi en t.d. iðnaðar- og atvinnuhverfi.  Þá sé einnig öllum ljós sú mikla hætta sem fylgi framkvæmdum á þessu svæði fyrir nærliggjandi eignir. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, m.a. vegna skorts á lögvörðum hagsmunum.  Kærendur séu 30 eigendur og/eða íbúar við Miðholt, Stórholt, Stafholt og Langholt 10.  Hafi kærendur ekki sýnt fram á að kröfur sem þeir hafa uppi um deiliskipulagið varði lögmæta eða lögvarða hagsmuni þeirra sérstaklega eða hvernig það snerti hvern og einn þeirra, enda hljóti hagsmunir þeirra að vera mismunandi eftir því hvar þeir séu búsettir.  Þá vísi kærendur til sjónarmiða sem fremur lúti að almannahagsmunum en einkahagsmunum og hafi ekki sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti, sbr. úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 138/2007 og 65/2006. 

Verði ekki fallist á framangreint geri Akureyrarbær þá kröfu að hafnað verði kröfu kærenda.  Akureyrarbær hafi uppfyllt allar formkröfur sem gerðar séu til deiliskipulagsgerðar og deiliskipulagsferils skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og engar efnisreglur hafi verið brotnar við undirbúning og gerð deiliskipulagsins. 

Hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 og því til stuðnings sé vísað til kafla 2.5 þar sem fjallað sé um þéttingu byggðar.  Þar segi að stefnt sé að því að nýta óbyggð svæði innan núverandi byggðar undir íbúðabyggð en fyrst og fremst beri að líta til svæða sem ekki séu í notkun.  Ástæða þess sé m.a. sú að með því nýtist betur þjónustu- og gatnakerfi, bætt sé skörðótt og gisin bæjarmynd og gæði umhverfis séu aukin.  Í töflu í sama kafla sé umrætt svæði sérstaklega tilgreint (1.31.9) þar sem stefnt sé að eða sett sem viðmið ný íbúðabyggð með þéttleika a.m.k. 20 íbúðir/ha.

Aðalskipulag feli að jafnaði í sér viðmið og stefnu sem síðan sé útfært í deiliskipulagi.  Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir 57 íbúða hverfi á 2,36 ha svæði eða 24 íbúðum/ha, sem sé innan vikmarka og í samræmi við viðmið og stefnu aðalskipulags.  Nánar sé fjallað um nýtingarhlutfall reitsins í kafla 4 í aðalskipulaginu þar sem þéttleikinn sé tilgreindur 15-25 íbúðir/ha og að hann verði nánar ákvarðaður í deiliskipulagi.

Þá sé í kafla 5.3 í aðalskipulaginu m.a. fjallað um hæð nýbygginga.  Þar sé sömuleiðis mörkuð almenn stefna um hæð húsa innan hverfa.  Deiliskipulagið heimili fimm einnar hæðar einbýlishús og tvö sjö hæða fjölbýlishús.  Sú stefna sé í samræmi við önnur hverfi bæjarins þar sem nýtt deiliskipulag hafi verið gert með tilliti til þéttingar byggðar.  Miðað við fjarlægðir fjölbýlishúsanna á hinum deiliskipulagða reit, frá annarri íbúðabyggð í hverfunum í kring, geti hæð þeirra ekki talist íþyngjandi. 

Íbúar í grónum hverfum sem séu nálægt opnum/ónýttum svæðum megi ætíð búast við því að umhverfið taki breytingum.  Þannig hafi verslunarhúsnæði risið á hluta þessa svæðis fyrir nokkrum árum sem ekki sé óeðlilegt með vísan til nýrrar tækni við að byggja þar sem áður hafi verið talið óhagstætt. 

Áhrif jarðvegsframkvæmda við Undirhlíð og Miðholt eða nánasta umhverfi svæðis þess er hér um ræði hafi verið kannað af verkfræðistofu og lagt á þær sérstakt mat.  Á deiliskipulagsuppdrættinum séu tilgreindar kvaðir sem koma eigi í veg fyrir tjón.  Akureyrarbær telji að skýrt komi fram í kvöðum að lóðarhafi skuli leitast við að raska ekki vatnsborði í nágrenni deiliskipulagsreits, ellegar bæta hugsanlegt tjón sem kunni að verða vegna vatnsborðslækkunar.  Því sé það mat Akureyrarbæjar að jarðvegsskipti séu framkvæmanleg án teljandi grunnvatnslækkunar með sérstökum aðferðum sem fjallað sé um í skýrslu sem sé hluti deiliskipulagsgagna.  Þá skuli verktaki skila verklagslýsingu áður en framkvæmdir hefjist, sem séu háðar samþykki eftirlitsaðila.  Þá skuli bæði eftirlitsaðili og verktaki fylgjast með vatnsborðshæð og landhæð á framkvæmdatíma. 

Hið kærða deiliskipulag heimili fimm einnar hæðar einbýlishús og tvö sjö hæða fjölbýlishús og sé markmiðið að þétta byggð.  Þar að auki séu markmið deiliskipulagsins umhverfis- og félagsleg.  Þau séu lögmæt og í fullu samræmi við skipulags- og byggingarlög.  Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.  Einn þáttur meðalhófsreglunnar sé að efni ákvörðunar verði að vera til þess fallið að ná því markmiði sem að sé stefnt.  Með framangreindum markmiðum í deiliskipulagi sé Akureyrarbær að fara sömu leið og farin hafi verið í öðrum grónum hverfum þar sem byggð hafi verið fjölbýlishús.  Samkvæmt meðalhófsreglunni beri að velja vægasta úrræðið, ef fleiri en eitt úrræði standi til boða, sem þjónað geti því markmiði sem að sé stefnt og að gæta skuli hófs í beitingu þess úrræðis sem valið sé.  Þannig séu fimm einbýlishús staðsett þeim megin á hinu deiliskipulagða svæði sem standi næst Miðholti en fjölbýlishúsin staðsett á þeim stað sem minni hagsmunir séu í húfi m.t.t. grenndarréttar.  Aldrei verði þó komist hjá því með deiliskipulagningu í grónu hverfi að einhverjir hagsmunir verði fyrir borð bornir á móti þeim lögmætu hagsmunum sem að sé stefnt og verði að játa sveitarstjórn hér svigrúm með vísan til skipulagsvalds. 

Því sé mótmælt að deiliskipulagið brjóti gegn 4. mgr. 4.2.2 gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 þar sem kveðið sé á um að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Ákvæðið eigi fyrst og fremst við um væntanlega íbúa þess svæðis sem verið sé að deiliskipuleggja. 

Skuggateikningar séu miðaðar við þá daga árs þegar sól sé enn lágt á lofti, eða 21. mars og 21. apríl, þegar fyrst megi vænta þess að íbúar vilji fara að njóta sólar í görðum sínum.  Á sumrin þegar sól sé hátt á lofti sé skuggavarp þverrandi, sbr. skuggavarpsteikningar fyrir 21. júní.  Á umræddri teikningu komi fram að 21. mars kl. 12:00 á hádegi nái fjölbýlishúsin ekki að varpa skugga á aðliggjandi lóðir eða hús.  Á skuggavarpsmynd frá 21. mars kl. 08:00 varpi nyrðra fjölbýlishúsið skugga á eitt af einbýlishúsunum í Miðholti og á skuggavarpsmyndum sem sýni 21. apríl kl. 09:00 og kl. 12:00 sé ekkert skuggavarp á aðliggjandi lóðir og hús.  Á skuggavarpsmynd frá 21. apríl, kl. 18:00 liggi skuggi að Stórholtinu en nái ekki að mynda skugga á lóð.  Ekkert skuggavarp verði í hverfum vestan við fjölbýlishúsin.  Að öðru leyti liggi fyrir þrívíddarteikningar sem sýni afstöðu fjölbýlishúsanna gagnvart umhverfi þeirra. 

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 um deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri þar sem heimilað er að bygga tvö fjölbýlishús og fimm einbýlishús.  Afmarkast skipulagsreiturinn af Undirhlíð til suðurs, Langholti til vesturs, Miðholti til norðurs og Krossanesbraut til austurs.  Af hálfu Akureyrarbæjar er krafist frávísunar málsins sökum aðildarskorts kærenda.  Á það verður ekki fallist.  Fyrir liggur að kærendur eru búsettir við Miðholt, Stafholt, Langholt og Stórholt sem eru götur í næsta nágrenni við hið deiliskipulagða svæði og því ljóst að hið kærða deiliskipulag varðar einstaklega og lögvarða hagsmuni þeirra, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Með Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 var reitnum breytt úr óbyggðu svæði í íbúðarsvæði, þéttingarsvæði, þar sem heimilt er að byggja 15-25 íbúðir á hvern hektara lands.  Er deiliskipulagið innan heimildar aðalskipulags hvað þetta varðar og ljóst af framangreindum markmiðum að búast hefði mátt við þéttri byggð og háreistum húsum. 

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skipulagsákvarðanir eru tæki sveitarfélags til þess að móta byggð innan síns umdæmis, m.a. með ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar og húsagerðir.  Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulags- og byggingarlaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en þar er m.a. kveðið á um að réttur einstaklinga og lögaðila skuli ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Lögin gera þó ráð fyrir að með skipulagsákvörðun geti lögvörðum hagsmunum aðila verið raskað þar sem þeim er tryggður bótaréttur í 33. gr. laganna, valdi skipulagsákvörðun fjártjóni. 

Telja verður að með hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun sé stefnt að lögmætum skipulagsmarkmiðum, þ.m.t. um þéttingu byggðar.  Er landnotkun og fyrirhuguð byggð í samræmi við gildandi aðalskipulag sem breytt var á árinu 2006.  Skipulagshugmyndir fyrir svæðið voru kynntar á íbúafundum og skipulagstillagan auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Kærendur komu að athugasemdum sínum við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað af hálfu sveitarfélagsins auk þess sem sérstakur kynningarfundur var haldinn á kynningartíma. 

Í greinargerð hins kærða deiliskipulags er vakin athygli á hættu á jarðvegssigi sem valdið geti skemmdum í yfirborði gatna og á mannvirkjum sem liggi nálægt svæðinu.  Þá segir ennfremur að lóðarhafi sé ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni sem rekja megi til breytinga á vatnsyfirborði meðan á framkvæmdum standi eða þangað til að lokaúttekt hafi farið fram.  Halda kærendur því fram að ekki hafi átt sér stað nægilega ígrundaðar rannsóknir áður en svæðið hafi verið deiliskipulagt og ábyrgð sú sem lögð sé á lóðarhafa sé svo óskýr að leiða eigi til ógildingar deiliskipulagsins.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind sjónarmið kærenda enda ljóst að Akureyrarbær getur ekki með almennum ákvæðum í deiliskipulagi firrt sig ábyrgð skv. fyrrnefndri 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar.  Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 1. júlí 2008 um að samþykkja deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts á Akureyri. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________           ___________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

42/2009 Aratún

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 42/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 19. maí 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir bifreiðageymslu á lóðinni nr. 36 við Aratún í Garðabæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2009, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kæra S og M, Aratúni 34, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 19. maí 2009 að veita byggingarleyfi fyrir bifreiðageymslu á lóðinni nr. 36 við Aratún í Garðabæ.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í bæjarráði Garðabæjar í umboði bæjarstjórnar hinn 28. júlí 2009. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt gerðu kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Féllst nefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 19. júní 2009. 

Málavextir:  Samkvæmt skráningu í Fasteignaskrá Íslands er lóðin að Aratúni 36 í Garðabæ 809 m² og stendur á henni einbýlishús byggt árið 1960.  Ekki liggja fyrir önnur gögn um lóðina en ófullkominn uppdráttur er sýnir afmörkun lóðarinnar, lengd hennar og breidd og byggingarreit þar sem fram kemur fjarlægð húss frá lóðarmörkum á tvo vegu og staðsetning húss á lóðinni.  Hvorki liggja fyrir hæðartölur né byggingarskilmálar og ekkert kemur fram í lóðarleigusamningi um byggingar á lóðinni annað en það að um sé að ræða land undir íbúðarhús. 

Um nokkurt skeið hefur verið í undirbúningi að byggja bifreiðageymslu á lóðinni.  Var byggingarleyfi veitt fyrir bifreiðageymslu þar hinn 7. júní 2007 en það leyfi var síðar afturkallað þar sem ekki hafði verið staðið rétt að undirbúningi þess.  Hinn 6. nóvember 2008 var samþykkt í bæjarstjórn bókun skipulagsnefndar frá 15. október s.á., þar sem tillögu að byggingu bifreiðageymslu á lóðinni var vísað í grenndarkynningu í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði.  Stóð grenndarkynningin frá 10. nóvember til 8. desember 2008 og bárust athugasemdir frá nokkrum aðilum, þar á meðal frá kærendum. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 21. janúar 2009 var bókað um framkomnar athugasemdir og afstöðu nefndarinnar til málsins.  Síðan segir í lok bókunarinnar:  „Skipulagsnefnd mælir með því að byggingarfulltrúi samþykki grenndarkynnta tillögu óbreytta.“  Var umrædd bókun skipulagsnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 5. febrúar 2009.  Í kjölfar þessara samþykkta veitti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir bifreiðageymslunni hinn 19. maí 2009 og tilkynnti hann kærendum þá ákvörðun með bréfi, dags. 28. maí 2009, sem póstlagt var hinn 3. júní s.á.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar skömmu eftir viðtöku bréfsins. 

Eftir að málið barst úrskurðarnefndinni aflaði byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsagnar forvarnardeildar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um hinn umdeilda bílskúr.  Barst nefndinni umsögnin hinn 7. ágúst 2009.  Kemur þar fram að útveggur skúrsins á lóðamörkum sé langt frá því að uppfylla kröfur byggingarreglugerðar um brunamótstöðu. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja byggingu bílgeymslunnar ganga gegn hagmunum sínum.  Bifreiðageymslan sé með yfir 70 m² lagnakjallara, en sjálf sé hún yfir 60 m².  Vegghæð og mænishæð sé mikil og sé hæð byggingarinnar um 4,0 m mælt frá yfirborði lóðar kærenda, en byggingin eigi að rísa við mörk hennar.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er kröfum kærenda mótmælt.  Við afgreiðslu málsins hafi þess verið gætt að láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, áður en byggingarfulltrúi hafi samþykkt leyfi til framkvæmda.  Kærendur hafi gert athugasemdir við byggingu bifreiðageymslunnar og talið að svo miklu stærri bygging myndi þrengja að þeim, skerða útsýni og rýra verðmæti húss þeirra.  Í kæru sé vísað til bréfs er þau hafi sent skipulagsnefnd á athugasemdarfresti.  Að öðru leyti sé þar ekki gerð nein frekari grein fyrir sjónarmiðum kærenda. 

Með vísan til þess að bifreiðageymslur hafi verið byggðar á flestum lóðum við Aratún verði að telja málsmeðferðina eðlilega og að ekki hafi verið þörf á að samþykkja tillögu að deilskipulagi vegna umsóknarinnar. 

Að teknu tilliti til aðstæðna á lóðinni og við skoðun á skipulagi annarra lóða megi augljóst vera að gert sé ráð fyrir að heimilt sé að byggja bifreiðageymslu á lóðinni á þeim stað sem fyrirhugað sé.  Sé litið til lóðanna nr. 32 og 38 við Aratún megi sjá að þar hafi verið byggðar sambærilegar bifreiðageymslur.  Við skoðun lóðablaða komi í ljós að byggingarreitur sé opinn á baklóð og verði að líta svo á að það takmarki rétt kærenda til að gera athugasemdir við lengd bifreiðageymslunnar.  Hvað varði stærð hennar að öðru leyti verði að taka tillit til þess að meira en helmingur hennar sé byggður sem lagnakjallari neðanjarðar en bifreiðageymslan sjálf sé 60 m².  Í úrskurði um stöðvun framkvæmda sé látið að því liggja að ekki hafi verið fjallað um umsóknina á grundvelli ákvæðis gr. 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Þó að það komi ekki beinlínis fram í málgögnum verði að telja að bifreiðageymslan falli að því ákvæði sé litið til þess að það varði bifreiðageymslur minni en 100 m².  Hvað varði hæð bifreiðageymslunnar þá séu vegghæðir innan marka og hæð skúrsins að öðru leyti ekki til þess fallin að valda röskun á umhverfi, t.d. með tilliti til hæðar hússins á lóðinni. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt.  Rétt hafi verið staðið að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og hafi málsmeðferð verið vönduð í alla staði nema hvað hún hafi tekið langan tíma.  Komið hafi verið til móts við sjónarmið nágranna og hafi byggingin m.a. verið lækkuð um 0,33 m. 

Um þau áhrif sem fyrirhuguð bygging hafi á gæði eignarinnar að Aratúni 34 sé á það bent að áður en framkvæmdir hafi verið hafnar hafi verið u.þ.b. tveggja metra há trégirðing á steyptum fæti á lóðarmörkum. Ekki sé til þess vitað að íbúar að Aratúni 34 hafi amast við þeirri girðingu en hún hafi komið í veg fyrir að nokkurt útsýni væri að ráði úr garði kærenda.  Þær vistarverur sem hafi glugga sem vísi að umræddum bílskúr séu svefnherbergi og þvottahús eða bað.  Að auki byrgi trjágróður fyrir útsýni í þá átt er skúrinn eigi að rísa. 

Um sé að ræða bílskúr sem sé svipað hár og fimm metrum lengri en bílskúr sem áður hafi verið heimilað að byggja á lóðinni.  Hann sé innan við tveimur metrum hærri en girðing sem verið hafi á lóðarmörkunum.  Útsyni skerðist af tæplega 10 m² fleti umfram það sem fyrir hafi verið heimilað en á móti komi skjól, m.a. fyrir hávaða. 

Óviðunandi væri að byggingin stæði hálfbyggð meðan gert væri deiliskipulag að svæðinu enda sé það mat byggingarleyfishafa að þess gerist ekki þörf, en fyrir liggi byggingarleyfi sem hlotið hafi alla þá meðferð sem áskilin sé að lögum. 

—————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 19. maí 2009 að veita byggingarleyfi fyrir bifreiðageymslu á lóðinni nr. 36 við Aratún í Garðabæ.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag og kusu bæjaryfirvöld að grenndarkynna erindi byggingarleyfishafa.  Verður að ætla að slíkt hafi verið gert á grundvelli undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en í bréfi skipulagsstjóra um grenndarkynninguna er vísað til 7. mgr. 43. gr. laganna um framkvæmd grenndarkynningar. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingar séu óverulegar.  Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir og hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði. 

Í hinu umdeilda tilviki er um að ræða byggingu 60,4 m² bílskúrs á 71,4 m² lagnakjallara að Aratúni 36, en fyrir er á lóðinni einbýlishús, hæð og kjallari, 232,7 m² að flatarmáli.  Samkvæmt lóðarleigusamningi er lóðin 809 m² og er nýtingarhlutfall hennar fyrir byggingu umdeilds bílskúrs 0,29 en að bílskúrnum meðtöldum yrði það 0,45.  Er þá með talinn gólfflötur lagnakjallara enda engin heimild til að undanskilja hann við útreikning nýtingarhlutfalls, en lofthæð í honum er um 2 m.  Myndi bygging skúrs og lagnakjallara samkvæmt hinu umdeilda leyfi fela í sér um 55% aukningu byggingarmagns á lóðinni sem verður að teljast veruleg aukning.  Þegar litið er til vegg- og mænishæðar hinnar umdeildu byggingar, lengdar hennar og hæðarmunar lóða telur úrskurðarnefndin jafnframt að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda leyfi myndu hafa í för með sér talsverð grenndaráhrif.  Er það álit úrskurðarnefndarinnar að þegar litið sé til byggingarmagns og grenndaráhrifa geti framkvæmdir samkvæmt leyfinu ekki talist óverulegar og því hafi ekki verið unnt að veita byggingarleyfið á grundvelli undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Í gr. 113.1 byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er að finna ákvæði um hámarksstærð, vegg- og mænishæð á bílgeymslum fyrir einn bíl, en umdeildur bílskúr er ekki innan þeirra marka sem þar eru sett.  Frá ákvæðum þessum getur byggingarnefnd heimilað frávik þar sem það veldur ekki verulegri röskun og aðstæður leyfa að öðru leyti, en ekki liggur fyrir að byggingarnefnd hafi tekið afstöðu til málsins.  Hvorki er á teikningum né í byggingarlýsingu gerð grein fyrir því hvort bílskúrinn sé fyrir einn bíl eða tvo og telur úrskurðarnefndin að gæta hefði átt framangreindra ákvæða við meðferð málsins, en svo var ekki gert. 

Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið gætt ákvæðis gr. 113.4 í byggingarreglugerð, sbr. gr. 4.16 og 147.1a, en skilja verður ákvæði þessi svo að við þær aðstæður sem hér um ræðir hefði sá veggur hins umdeilda bílskúrs, sem veit að mörkum lóðar kærenda, þurft að vera eldvarnarveggur úr óbrennanlegu efni.  Er þessi niðurstaða í samræmi við umsögn forvarnardeildar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins þar sem fram kemur að útveggur bílskúrsins á lóðamörkum sé langt frá því að uppfylla viðeigandi eldvarnarkröfu.

Loks tekur úrskurðarnefndin fram að hún telji ágalla vera á staðfestri samþykkt nr. 249/2000 um afgreiðslu byggingarfulltrúans í Garðabæ á byggingarleyfisumsóknum.  Segir í 3. gr. hennar að mál, sem byggingarfulltrúi afgreiði samkvæmt samþykktinni, skuli lögð fram á næsta fundi í byggingarnefnd og síðan send bæjarstjórn Garðabæjar til staðfestingar, eins og aðrar samþykktir byggingarnefndar, án þess að það fresti afgreiðslu þeirra.  Samkvæmt 5. gr. samþykktarinnar er það skilyrði þess að afgreiðsla byggingarfulltrúa verði borin undir úrskurðarnefndina að hún hafi áður hlotið afgreiðslu sveitarstjórnar og hefur staðfestingin því verulega þýðingu að lögum.  Eins og starfsemi byggingarnefndar í Garðabæ er nú háttað líður þar langur tími milli funda.  Mun, svo dæmi sé tekið, síðast hafa verið fundur í nefndinni hinn 30. mars 2009 samkvæmt upplýsinum sem birtar eru á heimasíðu Garðabæjar 18. ágúst 2009.  Getur staðfesting á ákvörðunum byggingarfulltrúa því augljóslega dregist langt umfram það sem við verður unað.  Í hinu kærða tilviki leið nokkuð á þriðja mánuð frá því ákvörðunin var tekin og þar til hún var staðfest, en það var gert með því afbrigði að hún var ekki áður lögð fram í byggingarnefnd svo sem áskilið er í samþykktinni.  Eru þessi vinnubrögð aðfinnsluverð.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin svo verulegum ágöllum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi. 

Úrskurðarorð:  

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 19. maí 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir bifreiðageymslu á lóðinni nr. 36 við Aratún í Garðabæ. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________      ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

95/2008 Víghólastígur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 28. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 95/2008, kæra á synjun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. september 2008, er barst nefndinni hinn 1. október s.á., kærir Björn Daníelsson hdl., f.h. S, lóðarhafa Víghólastígs 19 í Kópavogi, synjun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19. 

Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkur aðdraganda en á árinu 2007 samþykkti skipulagsnefnd að kæranda væri heimilt að leggja fram deiliskipulagstillögu að lóðinni nr. 19 við Víghólastíg.  Var tillagan auglýst með vísan til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og bárust  athugasemdir við hana.  Eftir frekari vinnslu tillögunnar var hún auglýst að nýju og bárust þá einnig athugasemdir nágranna.  Var tillögunni synjað á fundi bæjarráðs hinn 19. mars 2008.  Var sú synjun kærð til úrskurðarnefndarinnar en síðar var kæran dregin til baka. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 16. apríl 2008, var lögð fram umsókn kæranda um byggingarleyfi til breytinga á húsi hans að Víghólastíg 19, sem er einbýlishús, hæð og ris, 142,3 m² að stærð auk 32,8 m² bílgeymslu.  Í umsókn hans fólst að byggt yrði við húsið sem yrði eftir stækkun þess 297,4 m  og yrði nýtingarhlutfall lóðar eftir breytingarnar 0,33.  Vísaði byggingarnefnd málinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu og stóð hún yfir frá 16. júní til 15. júlí 2008.  Athugasemdir bárust frá íbúum tveggja aðliggjandi lóða að Bjarnhólastíg 20 og 22.  Að grenndarkynningu lokinni vísaði skipulagsnefnd málinu að nýju til byggingarnefndar ásamt athugasemdum. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 17. september 2008 var umsókn kæranda synjað með vísan til greinargerðar byggingarnefndar þar sem segir svo:  „Þess er ekki getið í umsókn eða skýringum á teikningum að sótt sé um stækkun bílskúrs eða að sótt sé um að breyta húsinu úr einbýlishúsi í tvíbýlishús eins og teikningar gefa til kynna.  Stærðir og stækkunartölur á teikningum eru ekki réttar og þar er ekki gerð grein fyrir stækkun bílskúrs þótt teikningar gefi það til kynna.  Skráningartafla fylgir ekki málinu sem skýrt geti hvort sótt er um tvær íbúðir í húsinu.  Þess er ekki getið í grenndarkynningu að sótt sé um að breyta húsinu í tvíbýlishús eða að byggja við bílskúr.  Með tilvísun í athugasemdir nágranna er það mat byggingarnefndar að stærð og yfirbragð hússins, ásamt því að breyta húsinu í tvíbýlishús, falli ekki inn í byggðamunstur á svæðinu.  Byggingarnefnd telur að stækkun bílskúrs í norðurlóðarmörkum sé ekki ásættanleg fyrir eigendur að Bjarnhólastíg 20.“  Var synjun þessi staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 23. september 2008. 

Hefur kærandi kært synjun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans hafi ekki fengið rétta og sanngjarna málsmeðferð, til að mynda hafi ekki verið óskað frekari gagna á meðan málsmeðferð stóð til stuðnings umsókn hans um breytingar á húsinu að Víghólastíg 19.  Virðist umsókninni m.a. hafa verið hafnað þar sem hún hafi verið talin ófullnægjandi.  Hljóti það að vera brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, 10. gr. sömu laga um rannsóknarreglu og 13. gr. um andmælarétt. 

Þá sé einnig vísað til þess að ekki séu efnisrök til synjunar á umsókninni, einkum sökum þess að í hverfinu séu mörg einbýlishús sem breytt hafi verið í tvíbýli eða hús sem upphaflega hafi verið byggð sem slík.  Verði að gæta jafnræðis hvað þetta varði.  Ómálefnaleg sjónarmið virðist hafa ráðið niðurstöðu um synjun á umsóttum breytingum þegar vísað hafi verið til röklausra sjónarmiða nágranna.  Hvorki verði talið að útlit breytinga né breyting skuggavarps hafi áhrif á nágranna sem máli skipti.  Telja verði að þær breytingar sem óskað hafi verið eftir hvað varði stærð og yfirbragð falli vel að byggðamynstri á svæðinu.  Þá séu mörg tvíbýlishús i götunni og eitt þríbýli. 

Af hálfu kæranda sé einnig vísað til þess að umsótt breyting á húsi hans raski ekki skipulagi svæðisins.  Þá sé farið eftir byggingarlöggjöf hvað varði breytingarnar svo sem skipulags- og byggingarlögum sem og byggingarreglugerð.  Tekið sé fram að kærandi hafi víðtæka reynslu í mannvirkjagerð.  Því sé sérstaklega hafnað að stækkun bílskúrs í norðurlóðarmörkum sé ekki ásættanleg fyrir eigendur að Bjarnhólastig 20.  Loks sé vísað til þess að miklir hagsmunir séu í húfi fyrir kæranda að fá að gera umsóttar breytingar.  Allar takmarkanir á slíkum breytingum hljóti að þurfa að túlka þröngt.  Ekki sé talið að breytingarnar auki skuggavarp eða skerði útsýni svo máli skipti eða rýri á annan hátt rétt nágranna.  Nefnd stækkun og nýting lóðar verði heldur ekki meiri að umfangi en gangi og gerist á svæðinu, m.a. í götunni.  Sé þá horft til nýtingarhlutfalls lóðar og fjölda íbúða. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að athugasemdir hafi komið fram er umsókn kæranda hafi verið grenndarkynnt.  Þær hafi lotið að því að fyrirhuguð breyting myndi raska högum næstu nágranna, styttra yrði milli húsanna að Víghólastíg 19 og Bjarnhólastígs 20 en nokkurra annarra húsa í götureitnum, stækkun hússins myndi fara þvert fyrir stofuglugga hússins að Bjarnhólastíg 20, ekki hafi verið gerð úttekt á skuggavarpi vegna viðbyggingarinnar og að um væri að ræða mun meiri stækkun en vænta mætti miðað við nýtingu á götureitnum.  Þá hafi athugasemdir lotið að hæð hússins sem hafi verið talin of mikil og myndi skerða birtu og útsýni.  Stækkun væri of mikil og umfram það sem talist gæti eðlileg endurnýjun húseignar. 

Bent sé á að byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið synjað með vísan til greinargerðar byggingarnefndar þar sem lýst hafi verið ýmsum annmörkum á umsókninni.  Það sé hins vegar síðari málsgrein greinargerðarinnar sem feli í sér forsendur synjunarinnar, með tilvísun í athugasemdir nágranna, að það hafi verið mat nefndarinnar að stærð og yfirbragð húss ásamt því að breyta því í tvíbýli, félli ekki að byggðamynstri á svæðinu og að nefndin teldi að stækkun bílskúrs í norðurlóðamörkum væri ekki ásættanleg fyrir eigendur að Bjarnhólastíg 20. 

Því sé hafnað sem haldið sé fram í kæru að umsókn kæranda hafi ekki hlotið rétta og sanngjarna málsmeðferð.  Nægileg gögn hafi legið fyrir til þess að hægt væri að taka ákvörðun í málinu og afstaða umsækjanda hafi komið fram í umsókn hans og fylgigögnum.  Því hafi því ekki verið ástæða til að rannsaka málið frekar eða óska eftir frekari gögnum eða sjónarmiðum frá kæranda.  Ástæða synjunarinnar hafi ekki verið ágallar á umsóknargögnum heldur sú að efnislega hafi framkvæmdin sem sótt hafi verið um verið talin ganga gegn hagsmunum nágranna og ekki samrýmast því byggðamynstri sem ríkjandi sé á svæðinu.  Það hefði því ekki haft neinn tilgang að gefa kæranda kost á að bæta úr ágöllum á umsókn.  Af þessum sökum sé því hafnað að brotið hafi verið gegn upplýsinga-, rannsóknar- eða andmælareglu stjórnsýslulaga. 

Efnislega sé ákvörðun byggingarnefndar á rökum reist og eðlileg með tilliti til nærliggjandi byggðar og hagsmuna íbúa í næstu húsum.  Þrátt fyrir að kærandi telji upp nokkur hús í götunni þar sem tvær íbúðir séu til staðar sé ljóst að hverfið sé að meginstefnu einbýlishúsahverfi.  Mikill meirihluti húsa í götunni og nærliggjandi götum sé einbýli og fæst séu þau jafn mikil að umfangi og það hús sem kærandi óski eftir að byggja.  Þau tvíbýli sem séu í hverfinu séu mörg hver arfur frá liðinni tíð og ekki liggi fyrir að neitt þeirra hafi fengið afgreiðslu bæjarins á grundvelli núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Það sé því ekki um það að ræða að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með hinni kærðu ákvörðun. 

Því sé mótmælt sem kærandi haldi fram að byggt sé á röklausum sjónarmiðum nágranna.  Telja verði að þeir nágrannar sem hafi skilað inn athugasemdum hafi fært fram fullnægjandi rök fyrir sjónarmiðum sínum.  Það hafi verið mat nefndarinnar að taka bæri undir sjónarmið nágranna um að útlit og skuggavarp hússins hefðu áhrif sem skiptu verulegu máli. 

Andsvör kæranda við málsrökum Kópavogsbæjar:  Af hálfu kæranda er bent á að í byggingarleyfisumsókn hans hafi einungis verið krossað við einbýlishús en hins vegar hafi starfsmenn Kópavogsbæjar bætt því við umsóknina að um tvíbýlishús væri að ræða. 

Ekki sé rétt að styttra verði milli húss kæranda og Bjarnhólastígs 20 en nokkurra annarra húsa í götureitnum.  Fjarlægðin sé sú sama eftir sem áður, bæði gagnvart Bjarnhólastíg 20 og 22.  Sú fullyrðing að stækkunin fari þvert fyrir stofuglugga nágranna sé sömuleiðis haldlaus.  Skuggavarpsteikningar hafi verið afhentar skipulagsyfirvöldum.  Einnig sé mikilvægt að hafa í huga að nýtingarhlutfall lóðar kæranda eftir breytingu sé nánast það sama og á næstu lóðum. 

Kærandi bendir á, varðandi stækkun bílskúrs í norður á lóðarmörkum, að það geti varla snert íbúa Bjarnhólastígs 20 á nokkurn hátt, enda hafi þeir þegar reist skjólgirðingu á lóðamörkum sem sé jafnhá og bílskúr, og reyndar nái hún tveimur metrum lengra til vesturs heldur en fyrirhuguð bílskúrsstækkun.  Þar að auki hafi íbúar að Bjarnhólastíg 20 og 22 plantað risavöxnum trjám rétt við lóðamörk. 

Í greinagerð lögfræðings Kópavogsbæjar segi m.a:  „Nægileg gögn lágu fyrir til þess að hægt væri að taka ákvörðun í málinu.“  Þessu sé kærandi sammála en í greinagerð byggingarnefndar virðist samt reynt að hártoga gögnin, þ.e. að þau séu ekki fullnægjandi.  Þótt tvíbýlishús í götunni sé arfur fyrri tíma breyti það ekki því að byggingareglugerð hafi verið í gildi í áratugi hvað sem líði núgildandi reglugerð, allir hafi þurft leyfi yfirvalda til að skrá og breyta einbýli í tvíbýli.  Nágrannar hafi ekki andmælt því að þarna verði skráðar tvær íbúðir, enda ætti það ekki að breyta þá neinu. 

Undarlegt sé í öllu þessu ferli að ekki hafi komið ein einasta ábending frá byggingarfulltrúa um fyrirhugaðar endurbætur.  Engar ábendingar hafi þannig komið fram um lausnir. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi synjunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn kæranda máls þessa um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19 í Kópavogi.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag og kusu bæjaryfirvöld að grenndarkynna erindi kæranda.  Verður að ætla að slíkt hafi verið gert á grundvelli undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingar séu óverulegar.  Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir og hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði. 

Í hinu umdeilda tilviki er um að ræða byggingu við húsið að Víghólastíg 19 sem er einbýlishús, hæð og ris, 142,3 m² að stærð auk 32,8 m² bílgeymslu.  Í umsókn kæranda fólst að byggt yrði við húsið þannig að það yrði eftir stækkun 297,4 m².  Yrði nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun 0,33 í stað 0,19.  Þá bera og byggingarnefndarteikningar með sér að fyrirhugaðar hafi verið tvær íbúðir í húsinu.

Úrskurðarnefndin telur að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfisumsókn kæranda myndu hafa í för með sér talsverð grenndaráhrif og geti ekki talist vera óverulegar.  Því hafi ekki verið unnt að veita byggingarleyfi á grundvelli undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Ekki verður fallist á að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar við meðferð málsins hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum.  Verður ekki annað séð en að málið hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt og að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar hafi verið nægileg rökstudd.  Þá verður ekki heldur fallist á að byggingarnefnd hafi borið líta til uppbyggingar á einstökum lóðum á umræddu svæði við úrlausn málsins þegar til þess er litið að uppbygging á svæðinu hefur ekki stuðst við deiliskipulag og hefur að mestu leyti átt sér stað fyrir gildistöku laga nr. 73/1997.

Af málsgögnum verður ekki ráðið að skipulagsnefnd hafi ályktað um málið að lokinn grenndarkynningu áður en því var vísað til byggingarnefndar svo sem áskilið er í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Úrskurðarnefndin telur að hér sé um ágalla á málsmeðferð að ræða en að ólíklegt sé að hann hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins.  Þykir hann því einn og sér ekki geta varðað ógildingu.

Samkvæmt framansögðu var bæjaryfirvöldum rétt að synja umsókn kæranda svo sem gert var og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. september 2008 á umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Víghólastíg 19 í Kópavogi. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

________________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                        Þorsteinn Þorsteinsson

57/2007 Borgarbraut

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 28. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 57/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. júní 2007, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kærir A, Kveldúlfsgötu 2a, Borgarnesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Síðla árs 2005 lögðu lóðarhafar Borgarbrautar 59 fram deiliskipulagstillögu fyrir lóðina sem bæjarstjórn Borgarbyggðar samþykkti að auglýsa eftir að breytingar höfðu verið gerðar á henni sem umhverfis- og skipulagsnefnd lagði til.  Samhliða var samþykkt að breyta aðalskipulagi varðandi lóðirnar að Borgarbraut  55, 57 og 59.  Á árinu 2006 var gerð breyting á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 1997-2017, sem fól í sér breytta landnotkun fyrrgreindra lóða úr verslunar- og þjónustusvæði í blandaða byggð fyrir verslun, þjónustu, stofnanir og íbúðarbyggð.  Jafnframt var leyfilegt nýtingarhlutfall svæðisins hækkað úr 1,0 í 1,5.  Tók aðalskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. mars 2006. 

Eftir kynningu og samþykkt á deiliskipulagstillögu lóðarhafa Borgarbrautar 59 var ákveðið með hliðsjón af ábendingum Skipulagsstofnunar að auglýsa nýja skipulagstillögu er tók til lóðanna að Borgarbraut 55, 57 og 59.  Afmarkast reiturinn af Borgarbraut í austur, Kveldúlfsgötu í norður, Kjartansgötu í vestur og lóðarmörkum íbúðarhúss við Kjartansgötu og Klapparholt í suður.  Gerði tillagan m.a. ráð fyrir sameiningu lóðanna að Borgarbraut 55 og 57 sem yrði 3.882 m² að stærð en lóðin að Borgarbraut 59 yrði 3.050 m².  Hámarksnýtingarhlutfall lóðanna skyldi vera 1,15.  Að Borgarbraut 55-57 yrði heimilt að reisa fimm hæða hús með efstu hæð inndregna á allar hliðar.  Hámarksvegghæð væri 12,5 m og skyldi þak ekki vera hærra en einn metra yfir efri brún efstu hæðar.  Gert var ráð fyrir 30 íbúðum í húsinu af mismunandi stærðum.  Að Borgarbraut 59 var gert ráð fyrir sex hæða húsi með atvinnustarfsemi á fyrstu hæð en íbúðum á efri hæðum.  Hámarksvegghæð skyldi ekki fara yfir 18,5 m og þak ekki rísa hærra en einn metra frá efri brún efstu hæðar.  Gert var ráð fyrir 30 íbúðum í húsinu af mismunandi stærðum. 

Athugasemdir bárust við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá kæranda, en sveitarstjórn samþykkti hana hinn 8. mars 2007 með tilteknum breytingum.  Fólu þær m.a. í sér lækkun hámarksvegghæðar húss að Borgarbraut 59 úr 18,5 m í 17,9 m og hámarksvegghæð fyrstu fjögurra hæða húss að Borgarbraut 55-57 skyldi lækka úr 12,5 m í 11,9 m og hámarkshæð þess úr 15,5 m í 15,1 m.  Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. maí 2007 að undangenginni yfirferð tillögunnar af hálfu Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt. 

Skaut kærandi greindri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að málsmeðferð hins kærða skipulags hafi verið ábótavant.  Gögn um skuggavarp, vindálag, umferðartölur og snið- og rúmmyndir, sem sýndu hlutföll fyrirhugaðra bygginga við núverandi byggð, hafi ekki legið fyrir á kynningartíma tillögunnar.  Þá hafi ekkert samráð verið haft við eigendur og íbúa nærliggjandi húsa við skipulagsferlið.  Telji kærandi að við hina kærðu ákvörðun hafi því hvorki verið gætt markmiða 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttaröryggi borgaranna við skipulagsgerð né ákvæða 4. mgr. 9. gr. laganna um samráð. 

Engin rök hafi verið færð fram fyrir þrengingu hluta Kjartansgötu við Borgarbraut 59 en ætla megi að sú ráðstöfun sé einungis gerð í þeim tilgangi að stækka nefnda lóð svo hún rúmi fyrirhugaðra byggingu.  Þrengingin gæti valdið vandkvæðum til framtíðar litið í ljósi fyrirhugaðra blokkarbygginga við enda götunnar.  Þá stangist á rök fyrir þrengingu Borgarbrautar meðfram skipulagsreitnum þar sem annars vegar sé stefnt að lækkun umferðarhraða en hins vegar þess getið að Borgarbraut sé megin umferðaræð Borgarness. 

Ljóst sé að hæð fyrirhugaðra bygginga muni skerða útsýni frá nágrannafasteignum en jafnframt veita útsýni úr íbúðum bygginganna yfir nærliggjandi lóðir.  Þá sé hætt við að miklir sviptivindar geti verið kringum svo háar byggingar sem hér um ræði en engar tölur eða rannsóknir liggi fyrir um það atriði. 

Af framansögðu sé ljóst að hið kærða deiliskipulag feli í sér óþægindi fyrir íbúa nærliggjandi húsa og sé stílbrot við þá byggð sem fyrir sé. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er því haldið fram að hið kærða deiliskipulag hafi fengið lögmæta málsmeðferð og sé í samræmi við gildandi aðalskipulag. 

Í október 2005 hafi verið haldinn fjölmennur íbúafundur í Borgarnesi um skipulagsmál og hvert stefna skyldi í þeim efnum og hafi niðurstöður þess fundar verið kynntar á íbúafundi í desember sama ár.  Þá hafi verið haldinn kynningarfundur með íbúum í janúar 2006 um deiliskipulagstillögu varðandi lóðina að Borgarbraut 59 sem þá hafi legið fyrir.  Fleiri fundir hafi verið haldnir með íbúum um hugmyndir að skipulagi fyrir miðsvæði Borgarness þar sem lagðar hafi verið fram sniðmyndir með hliðsjón af áðurgreindri deiliskipulagstillögu sem og skuggavarpsteikningar vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Við útfærslu skipulagstillögunnar fyrir Borgarbraut 55-57 og 59 hafi verið komið til móts við athugasemdir íbúa, m.a. með færslu byggingarreita að Borgarbraut og með því að megin aðkoma lóðanna verði frá Borgarbraut ásamt því að bílageymsla að Borgarbraut 59 verði öll neðanjarðar.  Vegna framkominna athugasemda á kynningartíma hinnar umdeildu skipulagstillögu hafi verið aflað frekari gagna um ætlað skuggavarp og sniðmyndir og þau kynnt á íbúafundi hinn 29. janúar 2007.  Jafnframt hafi athugasemdafrestur vegna skipulagstillögunnar verið lengdur um sjö daga.  Deiliskipulagið sé í samræmi við markmið aðalskipulags um þéttingu byggðar og eflingu miðsvæðis Borgarness. 

Ekki sé fallist á að fyrirhugaðar byggingar séu í ósamræmi við nærliggjandi byggð en benda megi á að í nágrenni þeirra að Borgarbraut 65 sé 18,6 m hátt hús.  Útsýnisskerðing og sjónræn áhrif verði ekki meiri en búast megi við á miðsvæði í þéttbýli.  Um sé að ræða sex hæða byggingar með efstu hæð Borgarbrautar 55-57 inndregna og muni skuggavarp ekki hafa teljandi áhrif þegar litið sé til staðsetningar fyrirhugaðra bygginga.  Ekki sé tíðkað að meta vindálag sérstaklega vegna húsa af umræddri hæð sem séu fjölmörg á Íslandi.  Umferð verði ekki að marki meiri en fylgt hafi fyrri landnotkun umræddra lóða og leitast sé við að draga úr umhverfisáhrifum hennar með þrengingu gatna og lækkun umferðarhraða. 

Loks sé skírskotað til þess að sveitarstjórn hafi gert breytingar að lokinni kynningu skipulagstillögunnar til að koma til móts við framkomnar athugasemdir.  Þannig hafi hámarkshæð húsa verið lækkuð og dregið úr fyrirhugaðri þrengingu gatna við skipulagssvæðið. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var svæði við Borgarbraut deiliskipulagt að undangenginni breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar er tók til umrædds svæðis.  Í greinargerð deiliskipulagsins er þess getið að á svæðinu við Borgarbraut, þar sem þjóðvegur 1 tengist byggðinni, hafi myndast vísir að miðbæ og sé nýjum byggingum við Borgarbraut ætlað að vera þungamiðja í þeim miðbæ.  Þá sé með skipulaginu stefnt að þéttingu byggðar þar sem rými til athafna fari óðum minnkandi bænum. 

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. laganna.  Skipulagsákvarðanir eru tæki sveitarfélags til þess að móta byggð innan síns umdæmis, m.a. með ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar og húsagerðir.  Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulags- og byggingarlaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en þar er m.a. kveðið á um að réttur einstaklinga og lögaðila skuli ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Lögin gera þó ráð fyrir að með skipulagsákvörðun geti lögvörðum hagsmunum aðila verið raskað þar sem þeim er tryggður bótaréttur í 33. gr. laganna, valdi skipulagsákvörðun fjártjóni. 

Telja verður að með hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun sé stefnt að lögmætum skipulagsmarkmiðum.  Er landnotkun og fyrirhuguð byggð í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Skipulagshugmyndir fyrir svæðið voru kynntar á íbúafundum og skipulagstillagan auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Kærandi kom að athugasemdum sínum við tillöguna og var þeim athugasemdum svarað af hálfu sveitarfélagsins auk þess sem sérstakur kynningarfundur var haldinn á kynningartíma vegna ábendinga kæranda þar sem fyrir lágu skuggavarpsmyndir.  Loks liggur fyrir að komið var til móts við sjónarmið kæranda þar sem bæjaryfirvöld ákváðu m.a. að lækka hámarkshæð umræddra bygginga. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar.  Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 8. mars 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi, Borgarbyggð. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

46/2009 Bergþórugata

Með

Ár 2009, föstudaginn 10. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2009, kæra vegna byggingarleyfis fyrir þegar gerðum breytingum og á embættisfærslu byggingarfulltrúa varðandi framkvæmdir að Bergþórugötu 1 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. júní 2009, framsendir umhverfisráðuneytið úrskurðarnefndinni erindi A, Bergþórugötu 1, Reykjavík, dags. 13. maí 2009, en erindi þetta hafði umhverfisráðuneytinu borist framsent frá samgönguráðuneytinu með bréfi, dags. 29. maí 2009.  Í erindinu er sett fram kæra er lýtur að byggingarleyfi fyrir breytingum á innra skipulagi neðri hæðar hússins að Bergþórugötu 1 í Reykjavík er veitt var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. júní 2006.  Jafnfram tekur kæran til embættisfærslu byggingarfulltrúa varðandi framkvæmdir við umræddan eignarhluta. 

Í bréfi umhverfisráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ráðuneytið muni svara almennum fyrirspurnum um hlutverk byggingarfulltrúa o.fl. er fram komi í téðu erindi, en að rétt þyki að framsenda úrskurðarnefndinni það til afgreiðslu í ljósi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi íbúðar á efri hæð að Bergþórugötu 1.  Samkvæmt því sem fram kemur í kæru hóf eigandi neðri hæðar vinnu við breytingar á eignarhluta sínum í janúar 2006, en hann hafði þá nýlega fest kaup á honum.  Kærandi kveðst hafa gert byggingarfulltrúa grein fyrir þessum framkvæmdum í lok maí 2006 en þær hafi verið án leyfis og falið í sér röskun á hagsmunum kæranda.  Hafi þá komið fram að fyrir lægi umsókn um leyfi fyrir umræddum breytingum og að hún yrði tekin fyrir innan fárra daga. 

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. maí 2006.  Var málinu þá frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi hinn 6. júní 2006 og var byggingarleyfi þá veitt í samræmi við fyrirliggjandi umsókn. 

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi á árunum 2007 – 2009 ítrekað kvartað yfir framkvæmdum á neðri hæð og m.a. bent á að umrætt byggingarleyfi væri úr gildi fallið auk þess sem framkvæmdirnar snertu sameign og séreignarhluta kæranda og að ekkert samþykki væri fyrir þeim svo sem áskilið væri samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994.

Í óundirrituðu bréfi skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 27. febrúar 2009, kemur m.a. fram að ekki hafi verið talið að breytingar þær sem um var sótt í maí 2006 væru þess eðlis að samþykki meðeiganda þyrfti að liggja fyrir.  Þá sé það mat embættisins að ágreiningur kæranda og eiganda neðri hæðar sé einkaréttarlegs eðlis sem leysa verði á öðrum vettvangi á grundvelli almennra reglna um skaðabótarétt og eftir atvikum með atbeina dómstóla. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar kærð embættisfærsla byggingarfulltrúa vegna tiltekinna framkvæmda og hins vegar byggingarleyfi, sem veitt var hinn 6. júní 2006, vegna framkvæmdanna. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum. 

Ekki verður séð að fyrir liggi í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun um afskipti eða afskiptaleysi byggingarfulltrúa af hinum umdeildu framkvæmdum og koma ávirðingar kæranda er lúta að embættisfærslu hans því eigi til umfjöllunar við úrlausn málsins.  Hins vegar er byggingarleyfi það sem veitt var hinn 6. júní 2006 kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Verður ráðið af kærunni að kæranda hafi verið orðið kunnugt um hið umdeilda byggingarleyfi þegar á árinu 2007 og var kærufrestur því löngu liðinn er kærandi vísaði málinu til samgönguráðuneytisins hinn 13. maí 2009. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Í 2. mgr. 28. gr. segir síðan að kæru skuli þó ekki sinna ef meira en ár sé liðin frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt aðila. 

Leggja verður að jöfnu tilkynningu til aðila máls og vitneskju hans um hina umdeildu stjórnvaldsákvörðun.  Ber því, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa frá þeim hluta kærunnar er tekur til umrædds byggingarleyfis frá 6. júní 2006. 

Með vísan til framanritaðs verður kærumáli þessu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             ____________________________
        Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

121/2008 Uppsalir

Með

Ár 2009, föstudaginn 10. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2008, kæra vegna brota sveitarfélagsins Hornafjarðar á 29. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við skiptingu jarðarinnar Uppsala í Hornafirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags.  12. nóvember 2008, er barst nefndinni hinn 14. s.m., framsendi Skipulagsstofnun kæru S, Uppsalavegi 8, Sandgerði, f.h. P, meðeiganda að jörðinni Uppsölum 2 í Hornafirði, dags. 11. nóvember 2008, vegna brota sveitarfélagsins Hornafjarðar á 29. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við skiptingu jarðarinnar Uppsala í Hornafirði. 

Skilja verður málskot kæranda svo að farið sé fram á að skipting jarðarinnar Uppsala í Uppsali 1, Uppsali 2 og jörðina Sunnuhlíð verði hnekkt. 

Málsatvik og rök:  Kærandi vísar til þess að á sínum tíma hafi jörðin Uppsalir verið skráð sem óskipt eign í veðmálabókum með tveimur eignarhlutum, Uppsölum 1 og 2, sem tilgreindir hafi verið í hundruðum.  Eftir 1976 hafi þinglýsingarstjóri skráð í veðmálabækur jörðina Uppsali „sem sér eign og eignarhlutann Uppsalir 2 í Uppsalajörðinni sem sér eign.“  Hafi það verið gert án samþykkis eigenda Uppsala 2 og án atbeina sveitarstjórnar. 

Í apríl 2008 hafi kærandi fengið upplýsingar um að Uppsalajörðinni hefði verið skipt upp í þrjár jarðir, Uppsali 1, Uppsali 2 og Sunnuhlíð sem skipt hefði verið úr eignahlutanum Uppsölum 1.  Þessar jarðir hafi fengið skráningu í Landskrá fasteigna sem sjálfstæðar fasteignir þótt engin landamerki hafi verið gerð milli eignarhlutanna, samþykki sveitarfélags fyrir skiptingunni hafi ekki legið fyrir og hún verið án samþykkis allra eigenda Uppsalajarðarinnar.  Kærandi hafi bent sveitarstjórnaryfirvöldum í Hornafirði á meint lagabrot í þessu efni en engar skýringar fengið frá þeim og ekki hafi verið farið að óskum eigenda Uppsala 2 um að Uppsalajörðin yrði skráð í Landskrá fasteigna í samræmi við þinglýst landamerki jarðarinnar sem hafi verið óbreytt frá árinu 1922. 

Telur kærandi Sveitarfélagið Hornafjörð hafa vanrækt þá lagaskyldu sína að halda landeignaskrá eins og mælt sé fyrir um í 29. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og með áðurgreindri skiptingu Uppsalajarðarinnar hafi sveitarfélagið brotið gegn 30. gr. laganna.

—–

Embætti byggingarfulltrúa Hornafjarðar hefur veitt úrskurðarnefndinni þær upplýsingar að í öllu falli frá síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar liggi ekki fyrir ákvarðanir af hálfu sveitarfélagsins um skiptingu umræddrar jarðar. 

Þá hefur Fasteignaskrá Íslands upplýst að skráning áðurgreindra jarðahluta hafi þegar verið fyrir hendi árið 1970.  Skráning Sunnuhlíðar sem sérstakrar fasteignar hafi nú, á árinu 2009, verið felld brott. 

Loks hefur sýslumaðurinn á Höfn upplýst að skipuð hafi verið landskiptanefnd til þess að afmarka eignarhluta jarðarinnar Uppsala og sé störfum hennar ekki lokið.  Þá liggi fyrir að kærandi hafi látist eftir að kæra barst í málinu og sé einkaskiptum í búi hennar lokið. 

Fyrirsvarsmaður kæranda í málinu hlaut við skiptin eignarhlut í Uppsölum 2 og verður hann því nú talinn aðili kærumáls þessa í skjóli hagsmuna sinna sem eigandi nefnds eignarhlutar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum.  Í ákvæðinu er kveðið á um að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. 

Af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum, er aflað hefur verið, verður ekki séð að fyrir liggi í máli þessu stjórnvaldsákvörðun varðandi umdeilda skiptingu eða skráningu jarðarinnar Uppsala sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Í öllu falli liggur fyrir að möguleg stjórnvaldsákvörðun sem málið kann að varða hefur þá verið tekin fyrir mörgum áratugum og gæti af þeim sökum ekki fallið undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en nefndin var sett á laggirnar með skipulags- og byggingarlögum nr. 73 /1997 er tóku gildi hinn 1. janúar 1998.

Með vísan til framanritaðs verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________              ________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson