Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2008 Lækjarhvammur

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2008, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 um deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Lækjarhvamms í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. janúar 2008, er barst nefndinni hinn 3. s.m., kærir G, f.h. rekstrarfélags Seljalands í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Lækjarhvamms.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi, dags. 3. janúar 2008, er nefndinni barst hinn 4. s.m., kærir J, eigandi sumarhúss í landi Lækjarhvamms, áðurgreinda deiliskipulagsákvörðun og krefst ógildingar hennar.  Þar sem hagsmunir kærenda í nefndum málum standa því ekki í vegi verður greint kærumál, sem er nr. 3/2008, sameinað kærumáli þessu. 

Málavextir:  Hinn 31. ágúst 2006 var auglýst tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 er snerti land Lækjarhvamms ásamt tillögu að deiliskipulagi er snertir hluta þess svæðis.  Í aðalskipulagsbreytingunni fólst að um 90 ha landsvæði úr landi Lækjarhvamms, milli Urriðalækjar og Grafarár, yrði að svæði fyrir frístundabyggð í stað landbúnaðarsvæðis en í deiliskipulagstillögunni var gert ráð fyrir 60 frístundalóðum, 4.800 til 11.200 m² að stærð, á um 57 ha svæði.  Við kynningu tillagnanna bárust athugasemdir m.a. frá kærendum, en frestur til athugasemda var til 12. október 2006.  Aðalskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn 22. maí 2007 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí s.á., að undangengnum meðmælum Skipulagsstofnunar og staðfestingu ráðherra.  Hinn 2. október 2007 staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkt skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu frá 23. ágúst s.á. um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Lækjarhvamms með svofelldri bókun: 

„Lögð fram endurskoðuð tillaga að deiliskipulag frístundabyggðar í landi Lækjarhvamms í Laugardal. Tillagan var í kynningu ásamt breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins frá 31. ágúst til 28. september 2006 með fresti til athugasemda til 12. október 2006. Fjögur athugasemdabréf bárust auk þess sem fyrir liggja umsagnir Umhverfisstofnunar, Fornleifaverndar ríkisins og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Aðalskipulagsbreytingin hefur verið staðfest. Til að koma til móts við athugasemdir og umsagnir er tillagan nú lögð fram með eftirfarandi breytingum: Lóðum fækkar úr 60 í 46. Vegir innan svæðisins breytast og ekki er lengur gert ráð fyrir að nýta núverandi veg við sunnanvert svæðið. Gert er ráð fyrir sameiginlegum rotþróm. Ekki er lengur gert ráð fyrir framræsluskurðum meðfram vegum. Umfjöllun um neysluvatn er ítarlegri auk þess sem afmarkað er vatnsverndarsvæði umhverfis fyrirhugað vatnsból.“ 

Deiliskipulagið tók síðan gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 4. desember 2007 og skutu kærendur deiliskipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til efnislegra athugasemda sem borist hafi á kynningartíma skipulagsins, en þær hafi í meginatriðum snúið að því að aðkomuvegur og lega aðkomuleiða að hinu nýja frístundasvæði væru óásættanleg og að verðmæti eigna þeirra myndi rýrna.  Byggingarmagn á nefndu svæði væri mun meira en almennt væri í þeirri frístundabyggð er fyrir væri og því væri jafnræðis ekki gætt.  Þá hafi athugasemdir snúið að nýtingu vatnsbóla og annarra réttinda auk þess sem vísað hafi verið til yfirbragðs og þéttleika byggðar. 

Í gögnum sem notuð hafi verið til kynningar við gerð aðalskipulagsbreytingarinnar og tillögu að deiliskipulagi hafi uppdráttur hluta gildandi skipulags verið rangur.  Þar hafi verið gerð grein fyrir að við núverandi frístundabyggð væri að vænta frístundabyggðar á um 52 ha landsvæði en breyting á landnotkun tæki til um 90 ha.  Auk þess hafi ekki verið gerð grein fyrir því að landeigendur mættu eiga von á enn frekari frístundabyggð í næsta nágrenni. 

Í umdeildu deiliskipulagi sé ekki gerð grein fyrir því að ekið skuli fram hjá núverandi frístundabyggð, m.a. í Seljalandi, að hinu nýja skipulagssvæði.  Sú aðkoma sé skilgreind sem tengivegur.  Samkvæmt vegalögum frá 1994 þurfi slíkur vegur að hafa miðlínu sem sé í það minnsta 20 m frá mannvirki, nema til komi undanþága Vegagerðar sem ekki liggi fyrir í málinu.  Ekki sé brugðist við athugasemdum um að núverandi vegur sé ekki talinn bera aukna umferð, sem yrði íþyngjandi fyrir landeigendur í Seljalandi og hefði í för með sér rýrnun á verðmæti fasteigna.  Þessu til viðbótar sé í greinargerð deiliskipulagsins ekki gerð grein fyrir malar- og efnistöku vegna uppbyggingar gatnakerfis og annarra framkvæmda á nýja skipulagssvæðinu, eins og lög geri ráð fyrir.  Loks sé á  það bent að þeim aðilum sem athugasemdir gerðu hafi ekki borist bréf um samþykkt umrædds skipulags. 

Aðrir þættir er lúti að hollustu, s.s. neysluvatni og frárennsli frá umræddri byggð, séu ófullnægjandi.  Ekki hafi verið gerð grein fyrir 5 ha vatnsverndarsvæði því sem kynnt hafi verið á síðari stigum við vinnslu deiliskipulagstillögunnar.  Þá liggi ekki heldur fyrir samningar um vatnsveitu fyrir núverandi byggð og sé ekki fjallað um það efni í greinargerð skipulagsins þrátt fyrir ábendingar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands þar um.  Mörgum atriðum varðandi skipulagið sé enn ósvarað auk þess sem kynnt gögn hafi verið röng og málsmeðferð sveitarstjórnar í ýmsu ábótavant. 

Annar kærenda vísar sérstaklega til vatnsréttinda sem hann eigi á hinu deiliskipulagða landi.  Í fundargerð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. nóvember 2006 komi fram ábending til landeiganda um að kanna hvort hægt væri að koma til móts við fram komnar athugasemdir við skipulagstillöguna áður en hún yrði tekin fyrir.  Enginn samningur liggi hins vegar fyrir um bætur fyrir vatnsréttindi þau sem kærandi muni tapa, standi deiliskipulagið óhaggað.  Þá hafi legið fyrir munnlegur samningur milli seljanda lóða í Lækjarhvammi og lóðareigenda á svæði, sem markist af Urriðalæk í suðri og austri og Grafará í norðri, um að ekki yrðu seldar fleiri lóðir á svæðinu en ráðstafað hafi verið fram til ársins 1992.  Kærandi hafi því í góðri trú farið í framkvæmd við vatnsveitu fyrir sína lóð sem standi í jaðri umrædds skipulagsvæðis.  Starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu hafi sagt að vatnsveita kæranda væri væntanlega ónýt kæmi byggð á svæði það sem verið sé að skipuleggja. 

Þótt fram komi í umdeildu skipulagi að framkvæmdaraðili skuli bæta þá skerðingu eða röskun á vatnsveitu sem verði hjá aðilum á svæðinu, allt að Urriðalæk í austri, sé  réttarstaða kæranda að þessu leyti ekki tryggð.  Ekki sé tilgreint hver sé framkvæmdaraðili og því engin vissa fyrir hvort hugsanleg krafa á þann aðila fengist greidd.  Af þeim sökum geri kærandi þá kröfu að Bláskógabyggð bæti það tjón sem kunni að verða vegna glataðra vatnsréttinda.  Loks sé það óásættanlegt fyrir kæranda að búa við þá stöðugu hættu að neysluvatn muni spillast og valda heilsutjóni í framtíðinni vegna væntanlegrar byggðar á svæðinu.  Með því væru forsendur fyrir nýtingu sumarhúss kæranda brostnar. 

Óásættanlegt sé að vegur, sem ótvírætt sé innan lóða eldri frístundabyggðar, samkvæmt texta skipulagsuppdráttar, dags. 7. maí 1996, og mælingu á lóðum, sé nýttur sem aðkoma að 46 sumarhúsum til viðbótar með tilheyrandi slysahættu.  Núverandi tenging þjóni vel hagsmunum þeirrar byggðar sem fyrir sé en geti ekki þjónað 46 sumarhúsum til viðbótar. 

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er gerð sú krafa að kæru rekstrarfélags Seljalands verði vísað frá úrskurðarnefndinni og að kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. 

Rekstarfélagið hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinu kærða deiliskipulagi skv. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga nr. 160/2010 og 5. mgr. 52. gr. laga nr. 123/2010.  Í kæru sé hvorki gerð grein fyrir því hvaða lögvörðu hagsmuni kærandi, sem sé félag, hafi vegna hins kærða deiliskipulags né fylgi upplýsingar um tilgang félagsins eða samþykktir þess.  Þó að um félagsskap sé að ræða, sem hugsanlega annist rekstur tiltekinnar sameignar, geti það ekki heimilað félaginu rekstur kærumála vegna skipulags- og byggingarmála nema til staðar sé sérstök heimild fyrir slíku. 

Hið kærða deiliskipulag hafi verið lögmætt og í samræmi við 23. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kynning og auglýsing þess hafi verið í samræmi við fyrirmæli greindra laga og Skipulagsstofnun hafi samþykkt fyrir sitt leyti birtingu auglýsingar um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda.  Skipulagsskilmálar fyrir svæðið séu hófsamir og komið hafi verið til móts við athugasemdir með því að draga úr byggingarmagni.  Byggðin umhverfis umrætt svæði sé frá þeim tíma þegar óheimilt hafi verið samkvæmt byggingarreglugerð að reisa stærri frístundahús en 60 m², en slík stærðarmörk sé ekki að finna í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Bent sé á að þegar bæði sé verið að fjalla um deiliskipulags- og aðalskipulagsbreytingu sé óþarft að óska sérstaklega eftir umsögn Umhverfisstofnunar eða annarra um aðalskipulagsbreytingu enda séu gögn deiliskipulags mun nákvæmari.  Í umræddu deiliskipulagi séu gerðar meiri kröfur til neysluvatns- og fráveitumála en víðast hvar annars staðar í skipulögðum frístundabyggðum.  Sveitarstjórn hafi við afgreiðslu deiliskipulagsins svarað innsendum athugasemdum og aðilum hafi verið send umsögn sveitarstjórnar um leið og málið hafi verið sent Skipulagsstofnun. 

Sveitarstjórn verði við afgreiðslu á skipulagi að byggja á fyrirmælum, tilgangi og markmiðum skipulags- og byggingarlaga.  Núverandi eigandi landsins hafi keypt landið með það að markmiði að nýta það undir frístundabyggð og það sé á valdi sveitarstjórnar hvernig þeirri nýtingu sé háttað.  Í þessu tilviki hafi verið komið til móts við innkomnar athugasemdir því lóðum hafi verið fækkað um fjórðung frá auglýstri tillögu.  Vatnsveita kæranda, sem komi úr borholu sem boruð hefðu verið án þess að skipulagsyfirvöld hefðu vitneskju þar um, geti ekki sett þær kvaðir á nærliggjandi land að þar megi ekki byggja.  Telji kærandi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna deiliskipulagsins geti hann haft uppi kröfur þar að lútandi á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en kærandi geti ekki hindrað gildistöku skipulagsins sjálfs. 

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 4. ágúst 2011. 

Niðurstaða:  Annar kærenda er rekstrarfélag sem sumarbústaðareigendur í Seljalandi hafa stofnað með sér um hagsmunamál sín.  Er félagið skráð í fyrirtækjaskrá og telst lögaðili.  Verður að telja að félagið geti komið fram fyrir hönd félagsmanna fyrir úrskurðarnefndinni vegna vörslu hagsmuna þeirra sem eigenda fasteigna í næsta nágrenni hinnar nýju frístundabyggðar.  Í öllu falli verður ekki fallist á að vísa umræddri kæru frá enda er hún undirrituð af einum eiganda sumarhúss í nágrenni umdeilds deiliskipulagssvæðis sem á hagsmuna að gæta um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. 

Samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var gerð breyting á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 þar sem landsvæði það sem deiliskipulagið tekur til var gert að frístundasvæði, brunnsvæði afmarkað og aðkoma að frístundabyggðinni sýnd.  Sætir málsmeðferð og efni þeirrar aðalskipulagsbreytingar ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar enda hefur breytingin fengið lögmætisathugun og staðfestingu ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds. 

Umrædd deiliskipulagstillaga var auglýst til kynningar lögum samkvæmt, framkomnar athugasemdir teknar til umfjöllunar og þeim svarað, auk þess sem fundað var með hagsmunaaðilum eftir kynninguna.  Aðilum sem gert höfðu athugasemdir við tillöguna var síðan tilkynnt um afgreiðslu hennar og þær breytingar sem gerðar höfðu verið á henni. 

Að efni til er hið kærða deiliskipulag í samræmi við gildandi aðalskipulag hvað varðar landnotkun og aðkomu að heimilaðri frístundabyggð.  Lóðir á svæðinu eru frá 6.300-10.600 m² að stærð og á þeim má byggja allt að 120 m² sumarhús og 30 m² útihús.  Heimilað nýtingarhlutfall lóðanna er því á bilinu 0,014-0,024 sem telja má hóflegt fyrir sumarhúsalóðir.  Þótt sumarhús á hinu nýja skipulagssvæði séu heimiluð stærri en í eldri sumarhúsabyggð á svæðinu felur það ekki í sér ólögmæta mismunun enda giltu ólíkar reglur um stærðir sumarhúsa hvað varðar hámarksstærð þeirra.  Skýrlega kemur fram í greinargerð umrædds deiliskipulags að skipulagssvæðið tengist Laugavatnsvegi um heimreið að Lækjarhvammi og að horfið hafi verið frá því að nota veg við suður- og austurmörk skipulagssvæðisins vegna framkominna andmæla við kynningu skipulagsins.  Þar kemur og fram að ný vatnsveita, sem kostuð skuli af framkvæmdaraðila, geti þjónað núverandi frístundabyggð, allt að Urriðalæk í austri.  Gert er ráð fyrir að tenging vatnsveitunnar til þeirra sem verði fyrir skerðingu eða röskun á sinni vatnsveitu við framkvæmd skipulagsins skuli vera þeim að kostnaðarlausu. 

Þess ber að geta að þeim sem sýnt geta fram á að framkvæmd deiliskipulags valdi þeim fjártjóni er tryggður bótaréttur, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem hér eiga við, en úrskurðarnefndin fjallar ekki um þann bótarétt samkvæmt nefndu lagaákvæði.  Þá verður og að hafa í huga að hönnun nýrra vega, vatns- og fráveitu á svæðinu á sér stað við upphaf framkvæmda, að gættum lögum og reglum er um slík mannvirki gilda. 

Að öllu framangreindu virtu, og að gættum rétti landeiganda til eðlilegrar nýtingar lands, verður hið kærða deiliskipulag ekki talið haldið form- eða efnisgöllum sem raskað geti gildi þess. Verður því ekki fallist á ógildingarkröfu kærenda. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Lækjarhvamms í Bláskógabyggð. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

94/2011 Þorláksbúð

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2011, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Bláskógabyggðar um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja yfir Þorláksbúð í Skálholti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. nóvember 2011, er barst nefndinni sama dag, kæra H, Hæðarseli 11, Reykjavík, og Á, Látraströnd 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarnefndar Bláskógabyggðar að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja yfir Þorláksbúð í Skálholti.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Ekki verður ráðið af kærunni hvort hin kærða ákvörðun sé talin samþykkt sveitarstjórnar frá 23. apríl 2010 eða leyfi byggingarfulltrúa frá 4. nóvember 2011, en unnt þykir að leysa úr málinu þrátt fyrir þennan annmarka á kærunni.  Er gagnaöflun nú lokið og verður málið tekið til endanlegrar úrlausnar.   Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda með sérstökum úrskurði.

Málsatvik:  Hinn 11. mars 2010 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu umsókn kirkjumálasjóðs um byggingarleyfi fyrir atvinnuhúsnæði á lóðinni Skálholt 167166.  Segir í lýsingu umsóknar að sótt sé um að byggja yfir svokallaða Þorláksbúð norðaustan við Skálholtsdómkirkju.  Sé gert ráð fyrir að byggja ofan á vegghleðslur sem þar séu fyrir.  Var umsókninni vísað til skipulags- og byggingarnefndar Bláskógabyggðar og óskað eftir umsögn Fornleifaverndar ríkisins.  Var umsögn Fornleifaverndar send sveitarfélaginu hinn 14. apríl 2010 og ber hún með sér að Skipulagsstofnun hafi verið sent afrit af henni.  Kemur þar fram að leyfi hafi verið veitt til að byggja ofan í tóft Þorláksbúðar en jafnframt eru í umsögninni settir skilmálar um framkvæmd verksins.

Hinn 20. apríl 2010 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Bláskógabyggðar uppbyggingu Þorláksbúðar. Var eftirfarandi bókun gerð á fundi nefndarinnar:

„Uppbygging á Þorláksbúð er í samræmi við greinargerð deiliskipulags frá 1996. Greinargerð Fornleifaverndar ríkisins liggur fyrir þar sem stofnunin samþykkir framkvæmdina fyrir sitt leyti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Gera þarf betur grein fyrir uppbyggingu og notkun hússins m.t.t. brunavarna o.fl. Nefndin samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og vísar endanlegri afgreiðslu hennar til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“

Staðfesti sveitarstjórn samþykkt nefndarinnar á fundi sínum hinn 23. apríl 2010.

Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa hófust framkvæmdir við að hlaða upp veggi Þorláksbúðar sumarið 2010.  Kveðst byggingarfulltrúi hafa heimilað framkvæmdir við hleðslu veggjanna og fylgst með því að rétt væri staðið að verkinu.  Hafi hann m.a. gert úttekt á því hvort gengið hefði verið frá skilum milli eldri og nýrri hluta í samræmi við lýsingu og hvort gert hefði verið ráð fyrir flóttaleið í samræmi við kröfur þar að lútandi.  Mun vegghleðslum hafa verið lokið haustið 2010.  Byggingarfulltrúi gaf loks út formlegt byggingarleyfi til Kirkjumálasjóðs fyrir umræddum framkvæmdum hinn 4. nóvember 2011 í samræmi við bókun skipulags- og byggingarnefndar frá 20. apríl 2010.

Með bréfi til Bláskógabyggðar, dags. 8. nóvember 2011, óskaði Skipulagsstofnun eftir upplýsingum frá sveitarstjórn um hvort sveitarstjórn hefði veitt framkvæmda- eða byggingarleyfi fyrir framkvæmdum við Þorláksbúð og ef svo væri, á hvaða skipulagsgrundvelli sú leyfisveiting hefði verið reist.  Með bréfi, dags. 14. nóvember 2011, undirrituðu af skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, var téðri fyrirspurn Skipulagsstofnunar svarað.  Kemur þar m.a. fram að umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd 20. apríl 2010 og staðfest í sveitarstjórn 23. sama mánaðar.  Til grundvallar hafi legið deiliskipulag, samþykkt af sveitarstjórn Biskupstungnahrepps 14. maí 1996.  Þá hafi og legið fyrir jákvæð umsögn Fornleifaverndar ríkisins.  Í bréfinu er gerð nánari grein fyrir meðferð málsins.  Bréfi þessu svaraði Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 16. nóvember 2011.  Kemur þar fram það álit stofnunarinnar að umrætt deiliskipulag geti ekki talist í gildi þar sem það hafi verið samþykkt áður en samhliða breyting á staðfestu aðalskipulagi hafi verið staðfest af umhverfisráðherra.  Komi í ljós að fyrir liggi samþykki hreppsnefndar á deiliskipulaginu eftir gildistöku aðalskipulagsbreytingarinnar þá telji stofnunin samt sem áður að deiliskipulagið sé ekki nægjanlegur grundvöllur fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir Þorláksbúð.  Eru í bréfinu færð fram frekari rök fyrir niðurstöðu stofnunarinnar.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, tilkynnti húsafriðunarnefnd byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu að nefndin hefði ákveðið að grípa til skyndifriðunar Skálholtskirkju og Skálholtsskóla og nánasta umhverfis.  Voru framkvæmdir við Þorláksbúð stöðvaðar í kjölfar þeirrar ákvörðunar.  Með ákvörðun sinni hinn 22. nóvember 2011 komst mennta- og menningarmálaráðherra að þeirri niðurstöðu að lagaskilyrði skorti til að mæla fyrir um skyndifriðun og var stöðvun framkvæmda á grundvelli hennar aflétt í kjölfarið.

Málsrök kærenda: Kærendur eru erfingjar Harðar Bjarnsonar arkitekts Skálholtsdómkirkju og handhafar höfundarréttar að kirkjunni.  Telja þeir að ekki sé gert ráð fyrir endurbyggingu Þorláksbúðar í deiliskipulagi fyrir Skálholt en auk þess sé nýbygging torfbæjar, í fárra metra fjarlægð frá útvegg kirkjunnar, umtalsvert stílbrot sem skaði ásýnd hennar verulega.  Einnig sé vísað til álits og aðgerða húsafriðunarnefndar. 

Varðandi þá málsástæðu framkvæmdaaðila að vísa beri málinu frá, þar sem staða kærenda sem handhafa höfundarréttar veiti þeim ekki aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni, taka kærendur fram að ekki sé óskað eftir úrskurði um höfundarréttarlega stöðu þeirra heldur sé þess krafist að úrskurðarnefndin ógildi útgefið byggingarleyfi fyrir Þorláksbúð þar sem útgáfa þess feli í sér brot á skipulags- og byggingarlöggjöf eins og fram komi í kæru og í bréfi Skipulagstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 12. nóvember 2011, sem fjalli um sama efni.

Málsrök byggingarleyfishafa. Af hálfu Þorláksbúðarfélagsins, sem annast framkvæmdir í umboði byggingarleyfishafa, er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði staðfest.  Aðalkröfu sína um frávísun málsins byggir framkvæmdaaðilinn á því að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda kröfu sinni í skilningi skipulagslaga nr. 123/2010.  Kærendur komi fram sem erfingjar og handhafar höfundarréttar Harðar Bjarnasonar, arkitekts Skálholtskirkju.  Telji þeir sig geta sett fram kröfu um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar eða útgefins byggingarleyfis með vísan til þess að þeir telji að Þorláksbúð skaði ásýnd kirkjunnar. Athugasemdir þeirra lúti því fyrst og fremst að meintu broti gegn höfundarrétti Harðar Bjarnasonar arkitekts.

Byggingarleyfishafi sé þeirrar skoðunar að byggingarleyfi verði ekki fellt úr gildi á grundvelli deilna um höfundarrétt sem ekki hafi verið leyst úr.  Telji rétthafi höfundarréttar mannvirkis að leyfisveiting á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 brjóti í bága við rétt hans samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 verði að telja að úrræði hlutaðeigandi séu einkum þau að krefjast bóta samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaganna.  Um þetta vísist einkum til dóms Hæstaréttar frá 19. janúar 2006 í máli nr. 375/2005, sem m.a. hafi varðað kröfu um að byggingarleyfi yrði ógilt vegna brota á meintum höfundarrétti, en á það hafi ekki verið fallist. 

Það sé ljóst að byggingarlist og byggingarverk falli undir höfundalög nr. 73/1972, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.  Samkvæmt 3. gr. nefndra laga eigi höfundar einkarétt til að gera eintök af verki sínu og breyting á verki höfundar geti skert höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 13. gr. laganna segi svo:  „Nú nýtur mannvirki verndar eftir reglum um byggingarlist, og er eiganda þó allt að einu heimilt að breyta því án samþykkis höfundar, að því leyti sem það verður talið nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum.“
 
Þannig séu með ákvæðinu heimilaðar breytingar á mannvirki án samþykkis höfundar ef þær séu taldar nauðsynlegar vegna afnota mannvirkis eða af tæknilegum ástæðum.  Samkvæmt frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 73/1972, sbr. einkum athugasemdir í greinargerð með 13. gr. laganna, sé sérstaklega áréttað að vernd höfundarréttar í þessum tilvikum nái aðeins til „hins listræna forms verksins“ og sé talið að ýmsar aðgerðir á mannvirkinu séu því óháðar.  Megi þar t.d. nefna að almennt teljist breytingar á herbergjaskipan mannvirkis ekki falla undir vernd höfundarréttarins.  Þegar breytingin hafi áhrif á hið listræna form verði hins vegar að meta hverju sinni hvort meira megi sín tillit til hagsmuna höfundar varðandi hið listræna form eða tillit til hagsmuna eigenda, sem oft séu fjárhagslegs eðlis.
 
Í þessu máli hátti svo til að ráðist hafi verið í endurbyggingu Þorláksbúðar, sem standi fyrir utan kirkjuna, en engar breytingar hafi hins vegar verið gerðar á kirkjunni sjálfri. Listrænum eiginleikum kirkjunnar sé ekki ógnað með því að lítið hús sé reist í næsta nágrenni við verkið sjálft, þ.e. kirkjuna.  Í framkvæmdunum felist enda engin breyting á ,,hinu listræna formi“ hins höfundarréttarverndaða verks.  Raunar verði að telja að vernd höfundarréttar vegna kirkjunnar geti aldrei náð til annarra mannvirkja en kirkjunnar sjálfrar, enda skorti á að uppfyllt sé það grundvallarskilyrði að verið sé að breyta listrænu formi verksins.  Þá skuli á það bent að jafnvel þótt talið yrði að höfundarréttinum væri með einhverjum hætti ógnað vegna framkvæmda við Þorláksbúð sé ljóst að þær séu engu að síður heimilar skv. 13. gr. laganna, svo sem að framan greini.

Kærendur geti samkvæmt framansögðu ekki átt lögvarða hagsmuni í skilningi skipulagslaga og beri því að vísa kæru þeirra frá með vísan til alls framangreinds.

Hvað efni máls varði sé áréttað að framkvæmdir séu í samræmi við aðal- og deiliskipulag.  Deiliskipulag hafi verið samþykkt af sveitarstjórn Biskupstungnahrepps 14. maí 1996 og sé það í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Það sé í gildi í samræmi við 5. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010.  Samkvæmt samþykktum deiliskipulagsuppdrætti sé skýrlega gerð grein fyrir staðsetningu Þorláksbúðar og í greinargerð með deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir endurbyggingu hennar.  Aflað hafi verið samþykkis Fornleifaverndar ríkisins og byggingarleyfi veitt í kjölfarið.  Framkvæmdir séu á lokastigi og séu ekki efni til að fella hina umdeildu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar hefur ekki verið skilað greinargerð í máli þessu en sveitarfélagið hefur lagt fram þau gögn er málið varða og áréttar að rétt hafi verið staðið að gerð og undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið veitti sveitarstjórn byggingarleyfi til að hlaða upp og byggja yfir Þorláksbúð 23. apríl 2010.  Var sú afgreiðsla reist á ákvæði 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt því ákvæði var það verkefni sveitarstjórna að veita byggingarleyfi samkvæmt lögunum.  Samkvæmt 44. gr. laganna var gert ráð fyrir því að byggingarfulltrúi gæfi út formlegt byggingarleyfi á grundvelli samþykktar sveitarstjórnar, að uppfylltum nánari skilyrðum, en mjög mun hafa verið á reiki hvort skriflegt leyfi eða leyfisbréf hafi í slíkum tilvikum verið gefið út.

Í lokamálsgrein tilvitnaðrar 44. gr. var kveðið á um að samþykkt sveitarstjórnar félli úr gildi hefði byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða, en í 1. mgr. 45. gr. laganna var kveðið á um að byggingarleyfi félli úr gildi hefðu framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Sagði þar jafnframt að í reglugerð skyldi kveðið nánar á um hvenær talið væri að byggingarframkvæmdir væru hafnar.  Segir í 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 að byggingarframkvæmdir teljist hafnar þegar undirstöður hafi verið steyptar eða úttekt farið fram á úttektarskyldum verkþætti.  Loks sagði í 2. mgr. 45. gr. laganna að ef byggingarframkvæmdir stöðvuðust í eitt ár eða lengur gæti sveitarstjórn fellt byggingarleyfið úr gildi.

Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður að telja að framkvæmdir sem unnið hefur verið að við uppbyggingu Þorláksbúðar hafi átt fullnægjandi stoð í samþykkt sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 23. apríl 2010, en við mat á því hvort telja beri að framkvæmdir hafi verið hafnar innan tímamarka skv. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 73/1997 verður að líta til þeirrar sérstöðu sem framkvæmdin hefur.  Byggingarleyfi það sem byggingarfulltrúi gaf út hinn 4. nóvember 2011, með tilvísun í ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 20. apríl 2010, fól því einungis í sér afgreiðslu í samræmi við áður gerða samþykkt og sætir ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Kemur sú ákvörðun því ekki til frekari álita í máli þessu. 

Skilja má erindi kærenda svo að það taki til ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 23. apríl 2010, sem var kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.  Kemur þá til skoðunar hvort kæra hafi borist innan kærufrests, en skv. 5. mgr. 8. gr. þágildandi laga nr. 73/1997 var kærufrestur einn mánuðir frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra skal, en sambærilegt ákvæði er nú í 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Telur úrskurðarnefndin að þegar litið sé til þess að talsverðar framkvæmdir áttu sér stað við vegghleðslur sumarið 2010, og að opinber umfjöllun var um málið þá um haustið, verði að telja að kærendum hafi þegar á árinu 2010 mátt vera kunnugt um að leyfi til framkvæmda hefði verið veitt.  Var kærufrestur vegna ákvörðunar sveitarstjórnar frá 23. apríl 2010 því liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.
 
Ef talið væri, þrátt fyrir framanritað, að taka bæri kæruna til efnisúrlausnar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, hefur verið krafist frávísunar á þeim grundvelli að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni í skilningi skipulags- og byggingarlaga tengda hinni kærðu ákvörðun.  Byggja kærendur aðild sína á þeim grundvelli að þeir, sem handhafar höfundarréttar að Skálholtsdómkirkju, eigi slíka lögvarða hagsmuni.  Í 2. mgr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972 eru talin réttarúrræði sem erfingjar látins höfundar eða aðrir þargreindir aðilar geta gripið til vegna ætlaðra brota á höfundarrétti hins látna.  Verður ekki annað ráðið af þessum ákvæðum en að réttarágreiningur um höfundarrétt af þeim toga sem hér um ræðir verði aðeins borinn undir dómstóla og er það því ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til réttar kærenda í þessu efni.  Þegar litið er til þess að kærendur hafa ekki sýnt fram á að þeir eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, aðra en þá er varða kunni höfundarrétt, leiðir þessi niðurstaða einnig til frávísunar málsins, enda geta þeir einir skotið máli til úrskurðnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun, sbr. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

69/2010 Versalir

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 69/2010, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 6. október 2010 um að hafna því að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögu fyrir landspilduna Versali sem liggur við Langholtsveg í Flóahreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2010, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Guðmundur Jónsson hdl., f.h. S og J, Heiðarvegi 9, Selfossi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 6. október 2010 að hafna því að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögu fyrir Versali. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sveitarstjórn Flóahrepps verði gert að taka endanlega afstöðu til fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 20. apríl 2010 var lögð fram tillaga kærenda að deiliskipulagi fyrir 9,6 ha spildu, svokallaða Versali, við Langholtsveg, með landnúmer 190822, þar sem gert var ráð fyrir að reist yrði minkabú.  Nefndin benti á að líta yrði til þess að skv. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti væri óheimilt að reisa íbúðarhús innan við 500 m frá minkahúsum, nema íbúðarhús sem tilheyri lögbýlinu sjálfu.  Af því leiddi að yrði deiliskipulagið samþykkt legðist kvöð á aðliggjandi land sem takmarkaði nýtingarrétt eiganda en hluti þess væri skilgreindur sem blandað svæði íbúðarbyggðar og landbúnaðarnota.  Í ljósi þessa var skipulagsfulltrúa falið að kynna fyrirliggjandi tillögu fyrir eiganda þessa lands.  Eftir þá kynningu gerði eigandinn athugasemdir við tillöguna og mótmælti henni. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. júní 2010 var því hafnað að auglýsa umrædda tillögu að deiliskipulagi nema að fyrir lægi samþykki eiganda aðliggjandi lands.  Afgreiðslan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps hinn 7. júlí 2010. 

Með bréfi, dags. 18. ágúst 2010, óskaði lögmaður kærenda eftir því að tillagan yrði auglýst og taldi ekkert standa í vegi fyrir auglýsingu eða samþykkt deiliskipulagstillögunnar.  Sveitarstjórnin tók erindið fyrir á fundi 6. október 2010 og taldi ekki ástæðu til að endurskoða ákvörðunina frá 7. júlí 2010.  Var sú ákvörðun tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 7. október s.á.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að árið 2007 hafi þeir sótt um til landbúnaðarráðuneytisins að land þeirra yrði gert að lögbýli.  Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 17. mars 2010 hafi verið samþykkt tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins um að spildan yrði skilgreind sem landbúnaðarsvæði í stað frístundabyggðar.  Auglýsing um þessa breytingu hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. maí 2010.  Engar athugasemdir hafi borist vegna breytingarinnar en þó hafi legið fyrir að loðdýrarækt yrði stunduð á lögbýlinu.  Hafi kærendur því haft lögmætar væntingar um að deiliskipulagstillaga þeirra yrði samþykkt.

Kærendur telji að með því að hafna erindi þeirra um að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögunnar sé sveitarstjórn Flóahrepps og embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að koma sér undan að taka endanlega ákvörðun í málinu þar sem ljóst sé að sveitarfélagið yrði þá hugsanlega skaðabótaskylt, hvort sem tillögunni yrði hafnað eða ekki. 

Málsrök Flóahrepps:  Flóahreppur krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kærenda verði hafnað.  Aðalkröfu sína um frávísun byggi Flóahreppur á því að kæran sé svo óljós og vanreifuð, sem og kröfugerð kærenda, að ekki sé unnt að taka hana til efnislegrar meðferðar.  Einnig telji Flóahreppur að kæran sé of seint fram komin. 

Skipulags- og byggingarnefnd hafi tekið ákvörðun, á lögmætum og málefnalegum grundvelli, um deiliskipulagstillögu kærenda á fundi sínum 25. júní 2010, sem staðfest hafi verið af hálfu sveitarstjórnar 7. júlí s.á.  Hafi sú ákvörðun verið tekin á grundvelli þeirra gagna sem kærendur hafi afhent.  Hafi sú ákvörðun verið endanleg á stjórnsýslustigi enda ekki kærð til úrskurðarnefndar.  Deiliskipulagstillagan hafi falið í sér að kvaðir myndu leggjast á aðliggjandi land og þar með leitt til bótaskyldu sveitarsjóðs samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, hefði hún verið samþykkt.  Af hálfu kærenda sé ekki gerð krafa um ógildingu tiltekinnar ákvörðunar sveitarstjórnar Flóahrepps heldur einungis að embætti skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu ásamt sveitarstjórn verði gert „…að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögu“ kærenda.  Krafa um ,,endanlega afstöðu“ sé óskiljanleg og ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn málsins.  Málatilbúnaður af þessu tagi sé ekki tækur til efnislegrar meðferðar hjá úrskurðarnefnd og beri að vísa málinu frá. 

Kærufrestur skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið liðinn við móttöku kærunnar, hvort heldur litið sé til ákvörðunar frá 25. júní 2010, sem staðfest hafi verið 7. júlí 2010, eða ákvörðunar frá 6. október s.á.  Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Undanþáguákvæði 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga geti hvorki komið til álita, þar sem kærendur njóti lögmannsaðstoðar við málarekstur sinn, né 2. tl. sömu greinar, sbr. fyrri fordæmi úrskurðarnefndar. 

Þá hafi ekki verið grundvöllur fyrir endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 25. júní 2010.  Ekkert nýtt hafi komið fram í erindi lögmanns kærenda til skipulags- og byggingarfulltrúa 18. ágúst 2010 sem hafi gefið tilefni til að endurskoða fyrri ákvörðun.  Skilyrði 1. og 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku fyrri ákvörðunar hafi því ekki verið fyrir hendi.  Af þeim sökum hafi sveitarstjórn ekki séð ástæðu til þess á fundi sínum 6. október 2010 að endurskoða ákvörðun um að synja auglýsingu á deiliskipulagstillögu kærenda. 

Niðurstaða:  Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er við eiga í máli þessu, var kveðið á um eins mánaðar kærufrest vegna ákvarðana sem kæranlegar væru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögunum.  Það færi gegn markmiðum þessa ákvæðis og ákvæðum annarra laga um kærufresti, og gerði þau í raun þýðingarlaus, ef aðilar máls gætu endurtekið umsóknir sem afgreiddar hefðu verið og með því myndað nýjan kærufrest.  Sé ákvörðun talið ábótavant, s.s. vegna ófullnægjandi upplýsinga við ákvarðanatöku, á aðili mál hins vegar rétt á því að beiðast endurupptöku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Erindi kærenda frá 18. ágúst 2010 gat ekki falið annað í sér en beiðni um endurupptöku ákvörðunar sveitarstjórnar Flóahrepps frá 7. júlí s.á. sem telja verður að hafi verið lokaákvörðun í málinu.  Sveitarstjórnin hafnaði þeirri beiðni á fundi 6. október 2010 og tilkynnti hana með bréfi, dags. 7. október s.á.  Með hliðsjón af þessari framvindu málsins þykir rétt að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á synjun sveitarstjórnar þann 6. október 2010 á beiðni um endurupptöku ákvörðunar hennar frá 7. júlí s.á. 

Kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Tilkynning sveitarstjórnarinnar um hina kærðu synjun var dagsett 7. október 2010, sem var fimmtudagur, og verður að telja líklegt að hún hafi ekki borist kærendum fyrr en mánudaginn 11. október.  Var kærufrestur því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 10. nóvember 2010.  Þar við bætist að ekki var getið kæruheimildar og kærufrests í tilkynningunni og voru því skilyrði til að taka kæruna til meðferðar skv. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga jafnvel þótt kærufrestur hefði verið liðinn.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar. 

Miðað við þær forsendur er bjuggu að baki umræddri synjun skipulags- og byggingarnefndar verður ekki séð að rökstuðningur kærenda fyrir tillögu þeirra í bréfi, dags. 18. ágúst 2010, hafi getað breytt umdeildri ákvörðun.  Með vísan til þessa, og þar sem ekki liggja fyrir aðrar ástæður er knýja á um endurupptöku ákvörðunar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga eða ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins, verður ekki fallist á að efni séu til að ógilda ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps um að synja um endurupptöku umdeildrar ákvörðunar.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á synjun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 6. október 2010 á beiðni um endurupptöku fyrri ákvörðunar frá 7. júlí 2010 um að hafna tillögu kærenda um nýtt deiliskipulag fyrir lögbýlið Versali. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

49/2011 Leirutangi

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2011, kæra vegna kröfu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. júní 2011 um úrbætur á frágangi og viðhaldi húss, lóðar og bílastæða að Leirutanga 29 í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2011, er barst nefndinni 1. júlí s.á., framsendi umhverfisráðuneytið til úrskurðarnefndarinnar erindi G, Krosshömrum 29, Reykjavík, þar sem hann kærir kröfu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar, dags. 24. júní 2011, um úrbætur, m.a. varðandi frágang bílastæða, lóðar og húss að Leirutanga 29 í Mosfellsbæ. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi að fasteigninni að Leirutanga 29, Mosfellsbæ.  Hinn 24. júní 2011 ritaði byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar bréf til kæranda í framhaldi af skoðun hans á ástandi og frágangi húss og lóðar að Leirutanga 29.  Kom þar fram að úrbóta væri þörf varðandi frágang og viðhald hússins, frágang bílastæða á lóð og að nauðsynlegt væri að fjarlægja trjágróður eða minnka verulega umfang hans.  Var til þess vísað í bréfinu að í gr. 61.5-61.7 og 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 væri kveðið á um byggingareftirlit sem og skyldur húseigenda varðandi gróður á lóðum og frágang húsa og lóða.  Í grein 2.8 í gildandi skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leirutanga frá 19. maí 1981 hafi verið mælt fyrir um að frágangi húss, lóðar og bílastæða skyldi vera lokið eigi síðar en fjórum árum eftir veitingu byggingarleyfis.  Í 11. gr. gildandi lóðarleigusamnings fyrir Leirutanga 29, undirrituðum af kæranda, séu ákvæði sem kveði á um að frágangi húss og lóðar skuli vera lokið.  Var kæranda gefinn frestur til 15. ágúst 2011 til að lagfæra frágang bílastæða, lóðar og húss og  fjarlægja eða minnka umfang trjágróðurs á lóðinni.  Yrði kröfum um úrbætur ekki sinnt mætti kærandi, að þeim tíma liðnum, búast við að gripið yrði til aðgerða til að knýja fram úrbætur í samræmi við 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. 

Kærandi mótmælti framangreindum kröfum byggingarfulltrúa með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 28. júní 2011, sem framsent var samdægurs til úrskurðarnefndarinnar.  Kemur þar fram að kærandi telji sig ofsóttan af nágrönnum sínum sem og af byggingarfulltrúa, m.a. með hótunum um háar dagsektir.  Þá sé rökstuðningur byggingarfulltrúans byggður á reglum sem lögfestar hafi verið löngu eftir gróðursetningu trjánna sem um ræði, en þau hafi verið gróðursett í kringum 1980 án nokkurra athugasemda byggingarfulltrúa eða nágranna á þeim tíma. 

Af hálfu Mosfellsbæjar er farið fram á að kröfum kæranda er varði skrif byggingarfulltrúa eftir vettvangsskoðun hans verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 líkt og 59. gr. mannvirkjalaga kveði á um.  Til vara gerir Mosfellsbær þá kröfu að skrif byggingarfulltrúa verði talin réttmæt sem hluti af eðlilegu eftirliti hans með málaflokknum enda hafi skrifin fyrst og fremst miðað að því að gefa kæranda kost á að bregðast við og neyta andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, áður en hugsanlega yrði tekin stjórnvaldsákvörðun af hálfu sveitarstjórnar, sbr. 56. gr. mannvirkjalaga.  Í bréfinu hafi hins vegar láðst að inna kæranda formlega eftir andmælum sínum. 

Heimildir byggingarfulltrúa til að skrifa kæranda bréf, líkt og hann hafi gert með bréfi sínu, dags. 24. júní 2011, byggi á almennum heimildum hans sem eftirlitsmanns með gildandi reglum og lögum í þeim málaflokki sem honum sé ætlað að hafa umsjón með.  Geti umrædd skrif ekki talist formleg stjórnvaldsákvörðun um réttindi og skyldur kæranda heldur einungis ábendingar um atriði sem talin séu vera á skjön við þær skyldur sem kærandi hafi tekið á sig með vísan til gildandi lóðarleigusamnings, skipulagsskilmála, byggingarreglugerðar og 56. gr. mannvirkjalaga.  Til að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða verði að fara með hina kærðu ákvörðun samkvæmt 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. 210. gr. byggingarreglugerðar, þ.e. stjórnvaldsákvörðun verði að vera tekin af sveitarstjórn Mosfellsbæjar. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.  Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 krónum til að knýja menn til þeirra verka sem þau skuli hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum.  Er þar ekki gerður áskilnaður um samþykki sveitarstjórnar líkt og gert var í tíð eldri laga. 

Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.  Í máli þessu var um að ræða áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur innan tiltekins frests og mælt fyrir um að yrði úrbótum ekki lokið að þeim tíma liðnum mætti kærandi búast við að gripið yrði til aðgerða til að knýja þær fram skv. 56. gr. mannvirkjalaga.  Var því aðeins um að ræða tilkynningu byggingarfulltrúa um að hann kynni að beita dagsektum að ákveðnum tíma liðnum en ekki ákvörðun um álagningu slíkra sekta eða upphæð þeirra.  Verður þessi tilkynning byggingarfulltrúa ekki talin fela í sér lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

76/2011 Laufhagi

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2011, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Árborgar frá 23. ágúst 2011 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Laufhaga á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. október 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Laufhaga 15, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Árborgar frá 23. ágúst 2011 að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Laufhaga.  Hin kærða samþykkt var staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar hinn 21. september 2011.  Gerir kærandi þá kröfu að afgreiðsla nefndarinnar verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi þess að framkvæmdir sem hafnar séu með stoð í hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar hinn 23. ágúst 2011 var samþykkt umsókn lóðarhafa að Laufhaga 17 á Selfossi um leyfi til að byggja einbýlishús með innbyggðum bílskúr á lóðinni.  Áður mun þó hafa verið rifið þar hús og bílskúr sem sambyggður var bílskúr kæranda við lóðamörk. 

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag en byggingarleyfishafi hafði aflað samþykkis nágranna, þar á meðal kæranda, fyrir byggingu hússins.  Mun þetta samþykki m.a. hafa verið lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi og fór ekki fram grenndarkynning vegna umsóknarinnar. 

Kærandi kveðst hafa bundið vonir við að samhliða byggingu húss að Laufhaga 17 yrðu gerðar ráðstafanir til að bæta tjón er orðið hafi á bílskúr sínum vegna niðurrifs skúrsins að Laufhaga 17, en engin svör hafi fengist frá bæjaryfirvöldum þar að lútandi.  Hafi kærandi því afturkallað samþykki sitt og vísað málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Byggi kærandi aðallega á því að hið umdeilda byggingarleyfi sé ólögmætt þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning svo sem áskilið sé að lögum. 

Af hálfu sveitarfélagsins Árborgar er þess krafist að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Kæranda hafi fljótlega verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun og þær framkvæmdir sem átt hafi sér stað á grundvelli hennar.  Hafi eins mánaðar kærufrestur því verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.  Ekki séu fyrir hendi neinar þær aðstæður er réttlæti að kæran verði tekin fyrir að liðnum kærufresti og beri því að vísa málinu frá.  Þá séu ekki efni til að stöðva framkvæmdir við hina umdeildu byggingu, enda hafi kærandi samþykkt hana, auk þess sem ekki verði séð að hún valdi kæranda neinu tjóni. 

Af hálfu byggingarfulltrúa hefur verið upplýst að 21. nóvember 2011 hafi enn ekki verið gefið út skriflegt byggingarleyfi þar sem öll skilyrði fyrir því hafi þá ekki verið uppfyllt.  Byggingarfulltrúi hafi hins vegar gefið munnlegt leyfi fyrir þeim framkvæmdum sem lokið hefði verið við og hafi það leyfi takmarkast við samþykkt hönnunargögn. 

Af hálfu byggingaleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt.  Vísa eigi málinu frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar málinu hafi verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.  Þá sé einsýnt af málatilbúnaði kæranda að ágreiningur hans sé við sveitarfélagið Árborg, vegna bílskúrs sem rifinn hafi verið eftir jarðskjálfta árið 2008.  Tengist sá ágreiningur ekki á beinan hátt framkvæmdum þeim er hafnar séu og hafi verið samþykktar og sé ekki réttmætt að hann bitni á hagsmunum byggingarleyfishafa. 

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir verður ekki með vissu ráðið á hvaða grundvelli hin kærða ákvörðun var reist.  Verður ekki séð að byggingarfulltrúi hafi fjallað um málið samkvæmt 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, en fyrir liggur að framkvæmdir hafa stuðst við munnlegt takmarkað byggingarleyfi.  Er sú tilhögun í andstöðu við ákv. 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga.  Þá liggur ekki fyrir að gerð hafi verið sérstök samþykkt um störf skipulags- og byggingarnefndar í sveitarfélaginu Árborg, sbr. 7. gr. mannvirkjalaga, en til er samþykkt um afgreiðslur byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, staðfest af umhverfisráðherra 30. maí 2000.  Verði talið að þrátt fyrir þetta megi leggja hina kærðu samþykkt skipulags- og byggingarnefndar til grundvallar í málinu yrði það gert með vísan til framkvæmdar samkvæmt eldri lögum og yrði þá litið svo á að hún hefði verið háð staðfestingu sveitarstjórnar.  Yrði þá að miða upphaf kærufrests við staðfestingu sveitarstjórnar hinn 21. september 2011 sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að kæran hafi borist innan kærufrests.  Þykir rétt, með tilliti til þess vafa sem uppi er um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar, að fallast á kröfu kæranda um að framkvæmdir samkvæmt henni skuli stöðvaðar. 

Úrskurðarorð: 

Framkvæmdir sem hafnar eru við byggingu einbýlishúss að Laufhaga 17, Selfossi, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

36/2009 Klausturvegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a, Kirkjubæjarklaustri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, mótt. 22. maí 2009, kærir S, sem eigandi risíbúðar að Klausturvegi 3, Kirkjubæjarklaustri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a.  Sveitarstjórn staðfesti ákvörðunina hinn 9. febrúar sama ár. 

Með ódagsettu bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, sem móttekið var hinn 6. júlí 2009, er ennfremur kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 29. júní 2009, sem sveitarstjórn staðfesti 2. júlí s.á., um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi fyrrgreinds eignarhluta í húsinu að Klausturvegi 3-3a.  Þar sem sami aðili stendur að báðum kærumálunum sem snúast um byggingarleyfi fyrir breytingum á sama eignarhluta í nefndu fjöleignahúsi verður seinna kærumálið, sem er nr. 48/2009, sameinað máli þessu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 2. febrúar 2009 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi og nýtingu séreignarhluta á fyrstu hæð Klausturvegar 3-3a, auk efri hæðar Klausturvegar 3a, í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Sú afgreiðsla var staðfest í sveitarstjórn 9. s.m.  Vegna deilna kæranda og byggingarleyfishafa um eignarhald og umráð á stiga frá annarri hæð í risíbúð kæranda var veiting byggingarleyfisins afturkölluð og nýtt leyfi veitt 29. júní s.á. og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn eins og að framan greinir. 

Byggir kærandi á því að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi verið gengið á rétt hans til áðurnefnds stiga.  Hafi aðgangur hans að nefndri risíbúð verið hindraður auk þess sem hann hafi ekki samþykkt þá breyttu notkun sem hinar kærðu ákvarðanir heimiluðu.  Byggingarleyfishafi skírskotar hins vegar til þess að hann hafi keypt eignarhluta á 2. hæð að Klausturvegi 3-3a og hafi umræddur stigi verið í séreignarhluta hans.  Skaftárhreppur telur að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi engin afstaða verið tekin til staðsetningar umdeilds stiga eða umráðaréttar yfir honum. 

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna umdeilds byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda að eignarhluta í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Fyrir liggur að hið kærða byggingarleyfi, sem skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps samþykkti hinn 2. febrúar 2009, var afturkallað með samþykkt nefndarinnar hinn 29. júní s.á., þegar veitt var nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum.  Einnig liggur fyrir afrit af afsali kæranda til byggingarleyfishafa fyrir eignarhluta hans í umræddu húsi dags. 2. júní 2010 og þinglýst 4. s.m.  Frá þeim tíma hefur kærandi ekki hagsmuna að gæta vegna breytinga á nýtingu eða innra fyrirkomulagi eignarhluta í nefndri fasteign eða íhlutunarrétt í þeim efnum samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994. 

Með hliðsjón af greindum atvikum hefur kærandi nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinna kærðu ákvarðana og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

31/2010 Þverklettar

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 17. febrúar 2010 um deiliskipulag fyrir Fagradalsbraut á Egilsstöðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. maí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Brávöllum 16, Egilsstöðum, deiliskipulag fyrir Fagradalsbraut á Egilsstöðum. 

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn  17. október 2009 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Fagradalsbraut, Egilsstöðum.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. október 2009 til 11. nóvember s.á. og var veittur frestur til athugasemda til 25. nóvember s.á.  Bárust tvær athugasemdir við tillöguna og laut önnur m.a. að fjarskiptamastri sem fyrir var á lóðinni nr. 3 við Þverkletta.  Gerð var athugasemd við að hvergi væri minnst á mastrið í skipulags- og byggingarskilmálum með hinni auglýstu tillögu.  Mastrið væri um 20-25 metra hátt og og væri það of hátt til að falla undir byggingarskilmála fyrir umrædda lóð.  Þá sagði svo í athugasemdinni:  „Hægt væri að skilja deiliskipulagstillöguna á þann veg að farsímamastrið eigi að hverfa og þá óskað eftir staðfestingu á því að sá skilningur sé réttur.“  Í svari skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 8. desember 2009, kom fram að farsímamastrið hefði verið samþykkt í skipulags- og byggingarráði 2. mars 1995 og hefði sú samþykkt verið staðfest í bæjarstjórn 21. mars s.á.  Hefði mastrið verið sett upp sumarið 1996.  Samkvæmt upplýsingum frá eiganda þess hefði það ekki verið hækkað og engar athugasemdir hefðu borist vegna þess fyrr en nú.  Að lokum sagði í svarinu:  „Mastrið var ekki sett inn á deiliskipulagsuppdráttinn þar sem álitið var að það stæði utan lóðarinnar Þverklettar 3.  Þetta verður leiðrétt.“  Sama dag samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs deiliskipulagið á fundi sínum með svohljóðandi bókun: „… Loftnetsmastur að Þverklettum 3 verði fært inn á deiliskipulagið. … Jafnframt eru samþykkt framlögð svör við athugasemdum dags. 08.12.2009.  Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt þegar gögn hafa verið lagfærð til samræmis við samþykkt þessa og send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Málsmeðferð verði í samræmi við 3. og 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.“  Samþykkti bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs tilgreinda bókun 16. desember s.á.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 9. febrúar 2010 var lagt til við bæjarstjórn að leiðrétt tillaga að deiliskipulagi fyrir Fagradalsbraut yrði samþykkt þegar orðalag í umhverfisskýrslu hefði verið lagfært og hún send Skipulagsstofnun.  Samþykkti bæjarstjórn framlagða tillögu á fundi hinn 17. febrúar s.á. og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. apríl 2010.

Skaut kærandi framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að fjarskiptamastrið sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag Fljótsdalshéraðs.  Mastrið sé annað hvort á skilgreindu verslunar- og þjónustusvæði eða grænu svæði samkvæmt aðalskipulagi og hafi það staðið þar sem það sé nú frá því fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga.  Telja verði að eðlilegt væri að fjarskiptamastrið stæði á svæði er skilgreint hefði verið sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi.  Því til stuðnings megi benda á að fjarskiptamastur langbylgjustöðvarinnar á Eiðum sé á svæði sem skilgreint sé sem athafnasvæði.  Það megi því álykta af aðalskipulagi sveitarfélagsins sem nýlega hafi tekið gildi að ekki hafi verið gert ráð fyrir að umrætt mastur að Þverklettum 3 stæði þar til frambúðar.  Jafnframt verði að telja að sú ákvörðun bæjarstjórnar að færa mastrið inn á deiliskipulagið eftir að fresti til athugasemda hafi verið lokið sé ólögmæt þar sem það hafi verið gert án undangenginnar breytingar á aðalskipulagi.  Þá sé vísað til 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveði á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu að deiliskipulagi í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.  Megi líta svo á að um grundvallarbreytingu á deiliskipulagi sé að ræða þegar staðfest sé tilvist mannvirkis sem hafi veruleg sjónræn áhrif um allt þéttbýlið á Egilsstöðum og hafi að auki veruleg óþægindi í för með sér vegna rafmengunar, m.a. á nærliggjandi íbúðarbyggð. 

Ennfremur sé bent á að mastrið hafi þegar verið reist en skv. 4. mgr. 56. gr. fyrrnefndra laga sé óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hafi verið fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Af þeirri ástæðu verði að telja deiliskipulagið ólögmætt.  Þá sé vísað til þeirra grenndaráhrifa sem mastrið hafi, en samkvæmt mælingum sem gerðar hafi verið um áramót 2009/2010 hafi ellefu geislar stafað frá mastrinu og sökum staðsetningar þess, þ.e. inni í miðri byggð, fari allir geislarnir í gegnum hús af einhverju tagi.  Meðal annars fari geisli í gegnum framhluta hússins að Miðvangi 1-3 en þar eigi kærandi eignarhluta.    

Málsrök Fljótsdalshéraðs:  Byggingaryfirvöldum Fljótsdalshéraðs var tilkynnt um framkomna kæru.  Hefur ekki borist greinargerð í máli þessu frá sveitarfélaginu en umbeðin gögn og upplýsingar bárust nefndinni frá byggingarfulltrúa.

Niðurstaða:  Kærandi er eigandi að hluta hússins að Miðvangi 1-3, sem er ekki fjarri umræddu fjarskiptamastri.  Er ekki unnt að útiloka að mastrið geti haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda sem eiganda eignarhluta í nefndu húsi.  Verður því að játa honum kæruaðild um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 er svæði það sem hér um ræðir auðkennt sem verslunar- og þjónustusvæði og stendur fjarskiptamastið í jaðri þess.  Í greinargerð aðalskipulags er í kafla 8.2.3 fjallað um framfylgd stefnu sveitarfélagsins um fjarskipti.  Þar er tekið fram að það teljist eðlileg landnotkun á landbúnaðarsvæðum og óbyggðum svæðum að þar sé komið fyrir mannvirkjum í þágu fjarskipta almennings, þó með þeim takmörkunum að slík mannvirki rúmist innan 300 m² lóðar og að möstur séu innan við 30 m að hæð.  Jafnframt er áskilið að rökstyðja skuli í deiliskipulagi að staðsetning og fyrirkomulag slíkra mannvirkja verði ekki til að rýra verulega umhverfisgæði. 

Nefnt fjarskiptamastur er sýnt á uppdrætti hins kærða deiliskipulags, en hvorki er að því vikið í greinargerð skipulagsins né í umhverfisskýrslu er því fylgdi, þrátt fyrir þann áskilnað sem gerður er í aðalskipulagi um rökstuðning, sem fyrr var lýst.  Verður að telja að framsetning deiliskipulagsins hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við skilmála aðalskipulags, en á skorti að gerð væri athugun á grenndaráhrifum mastursins og að þeim væri lýst í deiliskipulaginu.

Með tilliti til þess að leyfi var veitt fyrir mastrinu á árinu 1995 og það reist ári síðar, fyrir gildistöku núgildandi aðalskipulags og í tíð eldri laga, og einnig með hliðsjón af því að ekkert liggur fyrir um að leyfi fyrir mastrinu hafi ekki fullnægt þágildandi lagaskilyrðum, verður ekki fallist á að framangreindir annmarkar eigi að leiða til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.  Af sömu ástæðu verður ekki litið svo á að það að setja mastrið inn á skipulagsuppdrátt eftir á hafi falið í sér breytingu í grundvallaratriðum þannig að skylt hefði verið að  auglýsa skipulagstillöguna að nýju. 

Ekki verður séð að ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem kærandi vitnar til, eigi við í hinu kærða tilviki, enda var mastur það sem um ræðir reist fyrir gildistöku tilvitnaðra laga auk þess sem ekki liggur fyrir að bygging þess hafi verið í andstöðu við gildandi skipulag þegar það var reist.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 17. febrúar 2010 um deiliskipulag fyrir Fagradalsbraut, Egilsstöðum. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

59/2009 Dugguvogur

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 59/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2009 um að synja umsókn um breytta notkun tiltekinna eignarhluta í húsinu nr. 10 við Dugguvog í Reykjavík og dyr á austurhlið fyrstu hæðar hússins. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. september 2009, er barst nefndinni 7. s.m., kærir S, f.h. R S ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst s.á. að hafna umsókn kæranda um að breyta notkun eignarhluta á annarri hæð og koma fyrir dyrum á austurhlið fyrstu hæðar hússins að Dugguvogi 10.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði 20. s.m.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 30. júní 2009 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að innrétta níu íbúðir með vinnustofum á annarri hæð og koma fyrir dyrum á austurhlið fyrstu hæðar hússins nr. 10 við Dugguvog.  Málinu var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og vísað til umsagnar skipulagsstjóra er tók umsóknina fyrir á fundi hinn 7. s.m. og bókaði svo:  „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.“  Hinn 11. s.m. tók byggingarfulltrúi umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi sínum og synjaði henni með vísan til fyrrnefndrar umsagnar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að fjöldi dæma sé um að samþykktar hafi verið á svæðinu íbúðir með eða án vinnustofa.  Verði ekki séð að það skilyrði hafi verið sett fyrir umræddum leyfisveitingum að um húsvarðaríbúðir væri að ræða.  Vísað sé til þess að hluti umræddra íbúða í vesturálmu annarrar hæðar hússins að Dugguvogi 10 sé nýttur af húsverði og öðrum starfsmönnum fyrirtækis sem sé á fyrstu hæð.  Þá sjái eigandi annars fyrirtækis, sem staðsett sé að Dugguvogi 8, sér hag í að nýta íbúðarnálægðina í tengslum við starfsemi sína.  Stöku íbúar gangi eða hjóli til vinnu innan svæðisins.  Kærandi efist um að jafnræðis sé gætt við afgreiðslu mála á þessu svæði.  Telji hann að borgarar geti ef til vill ekki heldur vænst þess að þeir öðlist rétt á grundvelli jafnræðis með vísan til tuga „… tilfella sem kunna að stafa af mistökum eða misskilningi“ embættismanna Reykjavíkurborgar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé lóðin að Dugguvogi 10 á skilgreindu athafnasvæði.  Tilgreint sé í greinargerð aðalskipulags hvaða starfsemi sé heimil á svæðinu en fyrst og fremst sé heimilað að vera með léttan iðnað.  Skrifstofur og vinnustofur séu leyfðar að öllu jöfnu og íbúðarhúsnæði í tengslum við starfsemi á svæðinu.  Jafnframt sé vísað til gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 en þar sé m.a. tekið fram að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum.  Þó sé unnt að gera ráð fyrir íbúðum tengdum starfsemi fyrirtækja, svo sem fyrir húsverði.  Ljóst þyki að íbúðir þær sem um sé sótt séu ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag né tilvitnað ákvæði reglugerðarinnar.  Túlka beri fyrrgreint ákvæði reglugerðar þröngt en um undantekningu sé að ræða frá meginreglunni.  Ekki sé um að ræða almenna heimild til að leyfa margar íbúðir í hverju húsi.  Hafi synjun byggingarfulltrúa því verið byggð á lagalegum og málefnalegum sjónarmiðum.  Þá skuli á það bent að samþykktar hafi verið íbúðir sem tengdar séu starfsemi á svæðinu, svo sem við vinnustofur.  Verði ekki séð að umsókn kæranda uppfylli skilyrði aðalskipulags að þessu leyti.  Ennfremur skuli á það bent að um sé að ræða þegar gerðar óleyfisframkvæmdir.  Borist hafi kvartanir þess efnis að rekið sé gistiheimili á annarri hæð hússins en kæranda hafi verið synjað um leyfi til þeirrar starfsemi árið 2007.  Sé því ekki fallist á sjónarmið kæranda varðandi brot á jafnræðisreglu.  

Niðurstaða:  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæði það sem fasteignin að Dugguvogi 10 tilheyrir skilgreint sem athafnasvæði en ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu.  Er tekið fram í greinargerð aðalskipulagsins að þar skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir léttum iðnaði, skrifstofum, vinnustofum og íbúðarhúsnæði í tengslum við starfsemi á svæðinu.  Í gr. 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er athafnasvæði skilgreint svo að þar skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir atvinnustarfsemi, svo sem léttum iðnaði, vörugeymslum, hreinlegum verkstæðum og umboðs- og heildverslunum.  Þar er og tekið fram að almennt skuli ekki gera ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum þótt unnt sé að heimila íbúðir tengdar starfsemi fyrirtækja, svo sem fyrir húsverði. 

Telja verður að skilgreind landnotkun í gildandi aðalskipulagi, sem túlka ber til samræmis við áðurnefnda skilgreiningu skipulagsreglugerðar á athafnasvæðum, heimili einungis þar íbúðir er fortakslaust tengist starfsemi fyrirtækja sem starfrækt séu í sama húsnæði.  Verður og að álykta á þann veg að um undanþágu sé að ræða sem skýra beri þröngt og að sveitafélögin eigi frjálst mat um það hvenær undanþága verði veitt, enda sé við þá ákvörðun gætt málefnalegra sjónarmiða.  Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að umsókn kæranda hafi ekki fallið að skilgreindri landnotkun svæðisins og að borgaryfirvöldum hafi því verið rétt, með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að synja umsókn hans um að nýta hluta fasteignarinnar að Dugguvogi 10 fyrir níu íbúðir með vinnuaðstöðu.  Þykja ekki efni til að endurskoða þá matskenndu ákvörðun þótt þess kunni að finnast dæmi á umræddu svæði að leyfi hafi verið veitt til landnotkunar sem ekki samræmist skipulagi eða ákvæðum skipulagsreglugerðar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2009 um að synja umsókn kæranda um breytta notkun tiltekinna eignarhluta í húsinu nr. 10 við Dugguvog í Reykjavík og dyr á austurhlið fyrstu hæðar hússins. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

73/2011 Friðarstaðir

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2011, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði og á afgreiðslu skipulagsuppdráttar að nefndri jörð.  Þá er kærð auglýsing um gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði, í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009, sem staðfest hafði verið í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 18. júní 2002.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. september 2011, er barst nefndinni 27. s.m., framsendi innanríkisráðuneytið stjórnsýslukæru D, Friðarstöðum í Hveragerði, dags. 5. september 2011, þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða og á afgreiðslu skipulagsuppdráttar að nefndri jörð.  Þá er kærð auglýsing um gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði, í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009, sem staðfest hafði verið í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 18. júní 2002.

Gerir kærandi þá kröfu að lagt verði fyrir sveitastjórn að taka fyrrgreint erindi til efnislegrar afgreiðslu og að úrskurðarnefndin felli nefnt deiliskipulag úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Forsaga máls þessa er sú að hinn 3. nóvember 2008 sótti kærandi um byggingarleyfi til að breyta gróðurhúsi í landi umrædds býlis í hesthús fyrir allt að 24 hesta.  Skipulags- og byggingarnefnd bæjarins samþykkti hinn 2. desember s.á. að grenndarkynna umsóknina og bárust athugasemdir frá nágrönnum er lutu að því að hesthúsið yrði staðsett allt of nálægt íbúðarbyggð. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. janúar 2009.  Urðu lyktir þess þær að nefndin hafnaði staðsetningu umrædds hesthúss samkvæmt fyrirliggjandi afstöðumynd með vísan til framkominna athugasemda.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 15. s.m.  Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum hinn 24. júní 2011. 

Greindur úrskurður og byggingarleyfisumsókn kæranda var til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. júlí 2011 þar sem ákveðið var að leggja til við bæjarstjórn að taka deiliskipulag Friðarstaða til endurskoðunar í samráði við ábúendur jarðarinnar.  Bæjarráð samþykkti þá afgreiðslu í umboði bæjarstjórnar á fundi 21. júlí s.á. 

Kærandi bendir á að í stað þess að afgreiða fyrirliggjandi umsókn hans um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða eftir nefndan úrskurð sé málinu drepið á dreif með tilvísan til áforma um nýtt deiliskipulag fyrir jörð hans.  Fyrir liggi uppdráttur kæranda frá árinu 2009 sem feli í sér tillögu að breytingum á skipulagi jarðarinnar.  Sá uppdráttur hafi verið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2010 án þess að fá efnislega afgreiðslu og málið hafi ekki heldur fengið umfjöllun eftir að áðurgreindur úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi fallið.  Gildandi deiliskipulag fyrir Friðarstaði frá árinu 2002 hafi ekki öðlast gildi fyrr en með auglýsingu þar um í apríl 2009 en þá hafi deiliskipulagið ekki verið í samræmi við aðalskipulag vegna breytinga sem gerðar hefðu verið á aðalskipulaginu á árinu 2006.  Af þeim sökum beri að ógilda deiliskipulagið.  Þá gerir kærandi athugasemdir við stjórnsýslu- og samskiptahætti byggingarfulltrúa við meðferð byggingarleyfisumsóknar hans.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er vísað til þess að umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd í kjölfar fyrrnefnds úrskurðar úrskurðarnefndarinnar, eða hinn 5. júlí 2011, og hafi bæjarráð samþykkt tillögu um endurskoðun deiliskipulags fyrir Friðarstaði 21. s.m.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi síðan hinn 7. september 2011 lagt til við bæjarstjórn að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu hesthúss með vísan til afgreiðslu á fundi nefndarinnar 5. júlí s.á. og hafi bæjarstjórn samþykkt þá synjun 8. september 2011.  Málsmeðferð tillögu, sem hafi falið í sér hugmyndir kæranda að skipulagi Friðarstaða, hafi verið frestað, m.a. þar sem beðið hafi verið úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um áðurnefnda byggingarleyfisumsókn.  Þegar úrskurðurinn hafi legið fyrir hafi verið ákveðið að vinna að endurskoðun á deiliskipulagi Friðarstaða og sé sú vinna þegar hafin.  Sé þar m.a. höfð hliðsjón af hugmyndum kæranda.  Núgildandi deiliskipulag Friðarstaða frá árinu 2002 hafi á sínum tíma verið sett til þess að koma til móts við óskir kæranda um nýtt íbúðarhús og endurnýjun gróðurhúsa.  Fyrir mistök hafi gildistaka skipulagsins ekki verið auglýst fyrr en 17. apríl 2009.  Með fyrrnefndri endurskoðun skipulagsins verði eldra deiliskipulag fellt úr gildi eins og kærandi krefjist nú.  Önnur atriði í kæru máls þessa snúist um tölvupóstsamskipti byggingarfulltrúa og starfsmanns verkfræðistofu sem unnið hafi fyrir kæranda og feli þau ekki í sér stjórnvaldsákvarðanir. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Á þessi heimild við um þau kæruatriði í máli þessu sem lúta að meðferð á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði frá 3. nóvember 2008 og meðferð tillögu hans að nýju deiliskipulagi fyrir nefnt lögbýli, sem tekin var fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar 11. maí 2010.

Umsókn kæranda um fyrrgreint byggingarleyfi var hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. janúar 2009 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 15. s.m.  Úrskurðarnefndin felldi þá ákvörðun úr gildi með úrskurði uppkveðnum 24. júní 2011.  Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar og liggur nú fyrir að henni var hafnað á fundi bæjarstjórnar 8. september s.á.  Verður því ekki tekin afstaða til dráttar á afgreiðslu þeirrar umsóknar í máli þessu. 

Umfjöllun um tillögu kæranda að skipulagi Friðarstaða var frestað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2010 en þá var beðið úrskurðar í kærumálinu vegna synjunar á fyrrnefndri umsókn kæranda um byggingarleyfi.  Eftir að niðurstaða málsins lá fyrir var hinn 5. júlí 2011 tekin ákvörðun um að endurskoða deiliskipulag Friðarstaða og mun vinna við þá endurskoðun þegar vera hafin.  Í ljósi málsatvika, og þess að undirbúningur og meðferð skipulagstillagna getur tekið nokkurn tíma, verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi verið orðinn á afgreiðslu umræddrar tillögu þegar kæra barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Upphaf kærufrests miðast við lögmælta opinbera birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. laganna nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Hin kærða ákvörðun um að auglýsa gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009 var tekin rúmum tveimur árum og fjórum mánuðum áður en kæra barst í máli þessu og leiðir af tilvitnuðum ákvæðum að málið verður ekki tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Einn liður máls þessa snýst um málsmeðferð byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar við undirbúning afgreiðslu fyrrgreindrar byggingarleyfisumsóknar kæranda.  Er þar um að ræða tölvupóstssamskipti byggingarfulltrúa við starfsmann verkfræðistofu, sem vann í þágu kæranda í tengslum við umrædda umsókn.  Verður ekki talið að í þeim felist stjórnvaldsákvarðanir sem bera megi undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað í heild sinni frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

22/2010 Laugavegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010 um að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. apríl 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, f.h. stjórnar húsfélagsins að Laugavegi 86-94, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010 að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 9. mars 2010 var tekin fyrir umsókn húsfélagsins að Laugavegi 86-94 þar sem sótt var um leyfi til að loka bílastæðum á baklóð greindrar lóðar með slám.  Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Hinn 12. mars s.á. var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi hans og eftirfarandi bókað:  „Neikvætt. Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. s.m. var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað. Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að þegar leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu hússins að Laugavegi 86-94 hafi á samþykktum teikningum verið sýndar slár bæði í innkeyrslu að baklóð hússins sem og bílakjallara í eigu Reykjavíkurborgar.  Hafi þetta fyrirkomulag meðal annars verið hugsað til þess að vernda aðgengi að einkabílastæðum íbúða á lóðinni.  Af hálfu bílastæðasjóðs hafi slárnar síðar verið færðar niður í kjallara.  Hafi þetta verið gert án þess að gerðar væru ráðstafanir til að einkabílastæði íbúða í húsinu yrðu vernduð.  Hvorki hafi verið sótt um þessa breytingu til byggingarnefndar né teikningum skilað inn svo sem skylt hafi verið.  Verið sé að rýra eign þeirra sem bílastæðin eigi, en almenningur og einkum nágrannar leggi bílum sínum í stæðin og hindri eigendur þeirra í að nota þau.  Hafi íbúar í nágrenninu ekki notkunarrétt á bílastæðum á lóðinni en benda megi á að engin bílastæði séu samþykkt á baklóðum húsa að Grettisgötu og Barónsstíg sem aðlæg séu lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg.  Hindri slárnar í engu gönguleið að þeim lóðum og megi frekar telja að umrædd breyting auðveldi aðgengi íbúanna að lóðum sínum.  Þá bendi kærandi ennfremur á að slárnar hafi verið færðar án samþykkis meðeigenda bílastæðasjóðs að lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg.  Slárnar hafi þegar verið settar upp í góðri trú.  Hafi það aðeins verið gert til að eigendur íbúða að Laugavegur 86-94 kæmust að bílastæðum sínum.  Gera verði þá kröfu að slárnar fái að vera þannig að eigendurnir verði ekki fyrir óþægindum þegar þeir ætli að leggja bílum sínum. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld krefjast þess að kröfu kæranda verði hafnað.  Sé á því byggt að ekki hafi verið gert ráð fyrir því á samþykktum aðaluppdráttum lóðarinnar að aðkomu að baklóð Laugavegar 86-94 yrði lokað með slám, líkt og haldið hafi verið fram.  Fram komi á greindum uppdráttum að bílaplan á lóðinni skuli vera aðgengilegt fyrir slökkvilið og sorpbíla og sé kvöð um aðgengi að baklóðinni á uppdráttum. 

Ekki sé heldur heimild fyrir hliðlokunum í samþykktu deiliskipulagi fyrir skipulagsreitinn.  Í umræddu skipulagi, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 30. apríl 2002, hafi fyrra ástandi á „opnu svæði“ í engu verið breytt gagnvart lóðarhöfum og aðgengi að baklóðum þeirra á engan hátt verið skert.  Hafi byggingarfulltrúa verið heimilt að synja umsókn um byggingarleyfi þar sem uppsetning slánna sé ekki í samræmi við deiliskipulag. 

Bent sé á að þegar hafi verið settar upp slár sem loki aðgengi að baklóðinni, en mannvirki af þessu tagi sé byggingarleyfisskylt samkvæmt ákvæðum 11. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Ekki verði heldur fallist á þau rök að íbúum Laugavegar 86-94 sé nauðsyn að loka aðgengi að baklóðinni til að verja bílastæði sín umfram aðrar lóðir í Reykjavík. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um réttmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að synja umsókn kæranda um að setja upp slár er loka fyrir umferð ökutækja annarra en íbúðareigenda Laugavegar 86-94 að bílastæðum á baklóð. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.174.3.  Deiliskipulagið er að stofni til frá árinu 2002 en samþykktar hafa verið nokkrar breytingar á því.  Var m.a. sú breyting gerð á skipulaginu á árinu 2003 að heimilað var að byggja fjögurra hæða nýbyggingu á lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg, auk bílgeymslu neðanjarðar á allt að fjórum hæðum undir nýbyggingunni og undir baklóð (bílastæði) Reykjavíkurborgar.  Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins frá 2002 er kvöð á greindri lóð þess efnis að göngustígur og akstursleið skuli vera að bílastæði á baklóð.  Segir þar einnig að gert sé ráð fyrir að bílastæðið verði endurgert og allt útlit þess bætt og verður ekki annað ráðið af skipulaginu en að umrætt bílastæði sé á sérgreindri lóð í eigu Reykjavíkurborgar.  Samræmist það ekki gildandi skipulagi að stýra aðkomu ökutækja að umræddu bílastæði á baklóð með slám og var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn um leyfi til að loka henni með slám, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010, sem borgarráð staðfesti hinn 18. s.m., um að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________                   ________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson