Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2012 Ákvörðun um hæfi

Árið 2012, föstudaginn 25. maí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 32/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um hæfi bæjarstjórnarfulltrúa við afgreiðslu deiliskipulagstillögu fyrir Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis og nágrenni.

Í málinu var kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 17. apríl 2012 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem barst nefndinni 20. s.m., var framsend kæra Ó bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar til ráðuneytisins dags. 7. mars 2012, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um vanhæfi  kæranda við afgreiðslu deiliskipulagstillögu fyrir Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis og nágrenni.  Skilja verður málskot kæranda svo að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ólögmæt.  Tekur ráðuneytið fram að ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt deiliskipulagstillögu hafi verið tekin á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2012 en samkvæmt 1. mgr. 52. gr. þeirra laga sæti ákvarðanir sem reknar séu á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsatvik og rök:  Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar hinn 6. desember 2011 var á dagskrá skipulagstillaga að deiliskipulagi Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis og nágrennis.  Í upphafi fundar gerði kærandi grein fyrir afstöðu sinni vegna framkominna athugasemda um hæfi hans til að taka þátt í afgreiðslu málsins.  Skar bæjarstjórn úr um hæfi hans með atkvæðagreiðsla sem fór á þann veg að átta af ellefu bæjarfulltrúum töldu kæranda vanhæfan við afgreiðslu málsins og vék hann af fundi í kjölfar þess.

Kærandi andmælir því að hann sé vanhæfur í umræddu máli og að meint vanhæfi hans sé á veikum grunni byggt.  Almennar athugasemdir eiginkonu hans á frumstigi máls hafi hvorki lotið að fjárhagslegum hagsmunum hennar sjálfrar né kæranda.  Ekki sé hægt að bera honum á brýn að afstaða hans til málefnisins litist af meintum breytingum á verðmati eignar þeirrar sem hann búi í og sé á umræddu skipulagssvæði.

Akureyrarbær krefst þess aðallega að kærumálinu verði vísað frá en til vara að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar um hæfi kæranda verði hafnað.  Kæra í máli þessu sé of seint fram komin og að auki sé ákvörðun skv. 1. og 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 ekki kæranleg.  Hvað varði efnishlið máls komi til skoðunar tvenns konar ástæður sem leitt geti til vanhæfis kæranda, annars vegar búseta hans og hins vegar að eiginkona hans hafi sent inn athugasemdir við umrædda deiliskipulagstillögu.  Vegna staðsetningar fasteingar kæranda hafi hann mikla grenndarhagsmuni í málinu en samkvæmt deiliskipulaginu muni Dalsbraut liggja í nágrenni fasteignarinnar þar sem áður hafi verið opið óbyggt grænt svæði.  Þá sé vísað til 1. mgr. 19. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga vegna athugasemda maka kæranda við kynningu skipulagstillögunnar.  Af greindum ástæðum hafi sveitarstjórn metið það svo að kærandi væri vanhæfur við afgreiðslu málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun um hæfi sveitarstjórnarmanns við afgreiðslu  skipulagstillögu en slík ákvörðun við meðferð máls er ekki tekin í skjóli ákvæða skipulagslaga heldur er hún reist á reglum sveitarstjórnarlaga um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna.  Er slík ákvörðun liður í meðferð máls en bindur ekki á það endi  og sætir því ekki kæru til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hvorki verður ráðið af erindi kæranda til innanríkisráðuneytisins, sem framsent var til úrskurðarnefndarinnar, né af öðrum málsgögnum, að vakað hafi fyrir honum að skjóta ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 6. desember 2011 um deiliskipulag Dalsbrautar og nágrennis til æðra stjórnvalds, enda var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar liðinn þegar hann vísaði málinu til ráðuneytisins.  Fól erindi hans því ekki í sér neina kæranlega ákvörðun sem bera mátti undir úrskurðarnefndina og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson