Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2016 Laugavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2016, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 á umsókn um leyfi til að breyta skráningu húshluta úr íbúð í atvinnuhúsnæði að Laugavegi 58, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra L&E ehf. og Stórval ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 að synja umsókn þeirra um leyfi til að breyta skráningu eignarhluta 0201 úr íbúð í atvinnuhúsnæði að Laugavegi 58. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 5. september 2016.

Málavextir:
Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 29. janúar 2016 var lögð fram fyrirspurn varðandi breytingu á notkun 2. hæðar hússins að Laugavegi 58 úr íbúð í atvinnu- og verslunarhúsnæði. Jafnframt lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. sama dag, þar sem tekið var jákvætt í erindið. Samþykkti skipulagsfulltrúi umsögnina.

Hinn 31. maí 2016 tók byggingarfulltrúi fyrir á afgreiðslufundi sínum umsókn um leyfi til að breyta skráningu umræddrar íbúðar í atvinnuhúsnæði og innrétta veitingastað í flokki II. Var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem vísaði því til umsagnar verkefnisstjóra. Málið var lagt fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. júní s.á. og því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Afgreiddi ráðið erindið 6. júlí 2016 með svohljóðandi hætti: „Neikvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 24. júní 2016.“ Í umsögninni lagði skipulagsfulltrúi til að umsókninni yrði hafnað með vísan til stefnumótunar Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Var m.a. tekið fram að ekki væri sjálfgefið að heimila sjálfkrafa breytingu íbúðarhúsnæðis í veitingastað innan miðborgarinnar, enda samræmdist slíkt ekki markmiðum aðalskipulags fyrir fjölbreytileika í miðborginni. Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi 12. júlí s.á. og synjaði erindinu með vísan til fyrrnefndrar umsagnar.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að í svari við fyrirspurn hafi komið fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við fyrirspurnina. Vinnu við að innrétta umrætt rými sé lokið og hægt sé að hefja þar starfsemi. Sé hin kærða ákvörðun verulega íþyngjandi fyrir kærendur í ljósi þess kostnaðar sem þeir hafi haft og verði fyrir af því að breyta húsnæðinu að nýju.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málið sé ekki þannig vaxið að ógildingu varði. Vísað sé til umsagnar skipulagsfulltrúa í málinu um það sem fram komi í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um Miðborgarkjarna M1a, en Laugavegur 58 sé á því svæði. Þar segi m.a. „Áhersla er lögð á fjölbreytni og gæði almennings- og göturýma, frjótt samspil þeirra við byggingar svæðisins og gott aðgengi að starfsemi þeirra fyrir gangandi vegfarendur. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga-, menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi en á efri hæðum eru einnig heimildir fyrir skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, sem og gistiþjónustu.“ Jafnframt sé skírskotað til þeirra skilmála sem í gildi séu samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Geri það ráð fyrir því að á skipulagsreitnum sé blönduð byggð verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis, en ekki sé sérstaklega gerð grein fyrir starfsemi innan umrædds húss. Sé húsið friðað lögum samkvæmt. Njóti byggingar á skipulagsreitnum, að undanskildum þremur húsum, verndunar vegna byggðamynsturs.

Þá komi fram í umsögninni að þegar unnið sé með mál sem þetta í gróinni þéttri byggð þurfi að horfa til hagsmuna heildarinnar og þess hvaða stefnu eigi að leggja fyrir þróun svæðisins alls til framtíðar. Fjallað sé um nauðsyn þess að viðhalda fjölbreytilegri starfsemi í miðborg Reykjavíkur í kaflanum „miðborg fyrir alla“ í aðalskipulaginu og sé stefnunni fylgt eftir með stefnumótuninni „Hverfismiðborgin“. Styðja þurfi við íbúðarbyggð í miðborg Reykjavíkur samkvæmt stefnu aðalskipulagsins og því sé ekki sjálfgefið að heimila sjálfkrafa breytingu íbúðarhúsnæðis í veitingastað innan miðborgarinnar, enda samræmist slíkar breytingar ekki markmiðum aðalskipulags fyrir fjölbreytileika í miðborginni. Sú stefnumótun sé í samræmi við 1. gr. markmiða skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem fram komi að markmið laganna sé að þróun byggðar og landnotkunar sé í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir íbúa séu hafðar að leiðarljósi. Jafnframt að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Þá bendi Reykjavíkurborg á að svar við fyrirspurn feli ekki í sér heimild til framkvæmda. Framkvæmdir sem ráðist hafi verið í séu alfarið á ábyrgð og áhættu kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt landnotkunarkafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 eru miðborg og miðsvæði skilgreind með sama hætti og miðsvæði í gr. 6.2.b. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, eða sem: „Svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“ Jafnframt er tekið fram í skipulaginu að á miðsvæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, stjórnsýslu og skrifstofum, en einnig íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Á miðsvæðum fari almennt fram fjölbreyttari starfsemi en rúmist á verslunar- og þjónustusvæðum. Þá er í kaflanum tekið fram að í aðalskipulaginu séu miðsvæði borgarinnar flokkuð. Nokkur miðsvæði séu skilgreind sem meginkjarni og svæði innan meginkjarnans nefnd M1 og M2. Á svæði M1, miðborgin, fari fram starfsemi sem þjóni landinu í heild, en einnig myndi miðborgin meginkjarna smásöluverslunar, sértækrar þjónustu, afþreyingar og ferðaþjónustu. Loks er tekið fram að efla skuli miðborgina sem kjarna stjórnsýslu, menningar, ferðaþjónustu, verslunar og þjónustu auk fjölbreyttrar íbúðarbyggðar.

Miðborginni er skipt í undirsvæði, þ. á m. M1a, miðborgarkjarna, en lóðin að Laugavegi 58 er á því svæði. Um það svæði segir í fyrrgreindum kafla um landnotkun m.a. að sérstök áhersla sé „á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu.“ Þá er fjallað um miðborgina í sérstökum kafla í aðalskipulaginu. Er tekið fram að mikilvægt sé að stuðla að því að miðborgin haldi áfram að vera ákjósanlegur vettvangur fyrir sem fjölbreyttasta þjónustu fyrir íbúa og gesti miðborgarinnar. Til að viðhalda fjölbreytileikanum sé mikilvægt að stuðla að blandaðri starfsemi sem falli vel saman og hafi heppileg áhrif á miðborgarbraginn.

Um svonefnda veitingamiðborg er sérstaklega tilgreint í aðalskipulagi að markviss stjórn á staðsetningu veitingastaða og á lokunartíma, sérstaklega með tilliti til íbúa miðborgarinnar, sé því mikilvægt tæki til að stuðla að því að ólík starfsemi geti þrifist í sátt og samlyndi. Um svæði M1a er m.a. tekið fram að sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana í stjórnsýslu, menningu og menntun. Á jarðhæðum séu verslunar-, veitinga-, menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum séu einnig heimildir fyrir skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, sem og gistiþjónustu. Gildi almennar veitingaheimildir í miðborgarkjarnanum. Í aðalskipulaginu er enn fremur að finna sérstök ákvæði um vínveitingahús. Er þar tekið fram að á svæði með almennar miðborgarheimildir megi heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III að skemmtistöðum undanskyldum. Koma þær heimildir jafnframt fram í töflu 2 og svæðin sem þær heimildir gilda um eru sýnd á mynd 5.

Með hinni kærðu ákvörðun í máli þessu var kærendum synjað um leyfi til að breyta íbúðarhúsnæði á annarri hæð í atvinnuhúsnæði og innrétta þar veitingastað í flokki II á lóð á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er skilgreint sem miðborg og miðsvæði, nánar tiltekið miðborgarkjarni M1a. Þar er, svo sem áður greinir, m.a. gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, svo sem verslunum, hótelum, veitinga- og gistihúsum, og tekið fram um svæði M1a að sérstök áhersla sé á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu. Er um bindandi skilmála að ræða samkvæmt aðalskipulaginu. Um lóðina gildir enn fremur deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.173.1, sem afmarkast af Grettisgötu, Frakkastíg, Laugavegi og Vitastíg. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir því að á reitnum sé blönduð byggð verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis, en ekki er sérstaklega gerð grein fyrir ákveðinni starfsemi innan umrædds húss að Laugavegi 58.

Í kafla aðalskipulags um miðborgina er fjallað um margþætt hlutverk hennar sem höfuðmiðborgar, menningarmiðborgar, hverfismiðborgar, verslunarmiðborgar, veitingamiðborgar, ferðamannamiðborgar, hafnarmiðborgar og mannlífsmiðborgar. Var vísað til þessa í umsögn skipulagsfulltrúa, sem hin kærða ákvörðun byggði á, og þá einkum til umfjöllunar um hverfismiðborgina, þar sem fram kemur með almennum hætti að dregið sé úr gæðum hennar með þeirri þróun að íbúar hverfi á braut og ferðamenn taki yfir. Tilvísun þessi sýnist einkum tengd því „þegar íbúðir breytast frá því að vera heilsárshúsnæði íbúa í að vera tímabundið athvarf fyrir ferðarmenn“ og eru lagðar til aðgerðir til að stemma stigu við ótakmarkaðri gistirýmauppbyggingu og til að takmarka heimildir til skammtímaleigu íbúða. Eftir atvikum geta slík sjónarmið talist málefnaleg þegar um er að ræða veitingastarfsemi. Þó verður að telja röksemdir með svo almennri skírskotun veigalitlar þegar litið er til þess að um starfsemi er að ræða sem er heimiluð með skýrum hætti samkvæmt gildandi skipulagsáætlunum. Verður í því sambandi ekki fram hjá því litið að Reykjavíkurborg hefur hvorki breytt aðalskipulaginu né takmarkað landnotkun frekar í deiliskipulagi, svo sem heimilt er að gera skv. ákvæðum gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð. Hefur borgin þannig ekki nýtt sér það víðtæka skipulagsvald sem sveitarstjórnir hafa, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til að þróa byggð innan sveitarfélagsins með bindandi og fyrirsjáanlegum hætti fyrir borgarana.

Þrátt fyrir að íbúum sveitarfélaga sé almennt ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram leyfisveitingu er ljóst af öllu framangreindu að hvorki ákvæði aðalskipulags né deiliskipulags stóðu því í vegi að fallist yrði á umsókn kærenda. Þar sem haldbær rök hafa ekki verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi sökum ófullnægjandi rökstuðnings.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 á umsókn um leyfi til að breyta skráningu húshluta 0201 úr íbúð í atvinnuhúsnæði að Laugavegi 58, Reykjavík.

140/2016 Bræðraborgarstígur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2016, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Bræðraborgarstíg 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 að synja umsókn um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar kærenda í húsinu að Bræðraborgarstíg 30. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 19. desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2016 var lögð fram umsókn kærenda um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar þeirra í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 23. s.m. og það afgreitt með svohljóðandi hætti: „Neikvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2016“, en í umsögninni var talið að erindið samræmdist ekki markmiðum deiliskipulags fyrir umrætt svæði.

Í nefndri umsögn kom m.a. eftirfarandi fram: „Þann 06.05.2016 var samþykkt hjá byggingarfulltrúa umsögn þar sem að samskonar erindi var ávarpað. Þar kemur m.a. fram: „Vegna forsögu málsins, að óánægja var meðal nágranna um bygginguna og ekki síst vegna þéttleika hverfisins, var talið mikilvægt að húsin sem byggð yrðu, myndu hafa létt yfirbragð. Meðal þess var að byggingarnar að Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Nýtingarhlutfall er nokkuð hátt á lóðinni og var ekki talin ástæða til að auka byggingarmagnið. Því var á fundi skipulagsstjóra 15.5.2009 ekki fallist á að byggja yfir svalirnar.“ Þó svo að þetta erindi fjalli um gustlokun og eigi því ekki að hreyfa við nýtingarhlutfalli deiliskipulagsins, þá er það hinsvegar markmið deiliskipulagsins að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.“

Tók byggingarfulltrúi málið fyrir að nýju 27. september 2016 og synjaði umsókninni með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrri eigendur íbúðar þeirra hafi óskað eftir því að fá að reisa steinsteypta byggingu yfir svalir sem tilheyri íbúðinni. Þeim áformum hafi verið synjað á þeirri forsendu að nágrannar hússins að Bræðraborgarstíg 32 væru mótfallnir slíkri byggingu og að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði of hátt. Kærendur hafi hins vegar óskað eftir því að fá leyfi til að setja upp létta svalalokun á milli húsanna nr. 30 og 32. Hafi byggingarfulltrúi tilkynnt þeim að málinu væri lokið þar sem verið væri að sækja um það sama og áður. Þar sem niðurstaða byggingarfulltrúa hafi fjallað um allt aðra og eldri beiðni hafi kærendur farið fram á að mál þeirra fengi efnislega meðhöndlun. Við synjun byggingarfulltrúa á umsókn kærenda hafi verið byggt á umsögn sem ekki varði beiðni þeirra, heldur sé vísað til þéttleika, nýtingarhlutfalls og óánægju nágranna frá árinu 2009.

Á teikningum komi fram að fyrirhuguð svalalokun nái ekki að gafli húss nr. 32. Komi hún því ekki til með að hindra aðgengi að gaflinum fremur en nú sé. Af þessu leiði að lokunin varði ekki íbúa hússins að Bræðraborgarstíg 32 og sé hvorki um að ræða aukið nýtingarhlutfall lóðarinnar né þéttingu hverfisins. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi teikningar verið ranglega túlkaðar. Sé gustlokunin opnanleg endanna á milli þar sem hún liggi meðfram gafli Bræðraborgarstígs 32, í a.m.k. 40 cm fjarlægð. Svalalokunin sé úr gleri og því með létt yfirbragð. Hún muni ekki sjást frá götunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa falli umsóknin ekki að markmiðum deiliskipulags Holtsgötureits um að yfirbragð byggðarinnar sé létt og að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) séu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Teikning sem sýni gustlokun meðfram húsvegg aðliggjandi húss og tengi saman nánast alla hlið hússins geti ekki uppfyllt markmið um aðgreindan húskropp né slitið frá. Breyti engu í þessu samhengi þó svalalokunin sé úr gleri. Ekki verði annað af teikningu ráðið en að um sé að ræða lokaðan skála, þótt talað sé um gustlokun, en í umsögn skipulagsfulltrúa sé lokunin þó ávörpuð sem gustlokun. Þótt hún væri opnanleg væri það á hendi kærenda hvort opnað væri á milli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa er taldi að hin umsótta breyting væri ekki í samræmi við markmið deiliskipulags fyrir umrætt svæði um að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.

Húsið að Bræðraborgarstíg 30 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Holtsgötureits. Þar sem húsið stendur gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir nýbyggingum á sameinaðri lóð. Í skipulagsskilmálum er tekið fram að byggingarreitum á lóðinni sé skipt í einingar og að byggingarlína við götu sé bindandi. Þá er gerður áskilnaður um að í útliti húsanna skuli koma fram mismunandi sérkenni sem undirstriki takt götumyndar og skilji á milli reitanna. Um nánari útlistun á útliti húsanna er vísað til greinargerðar deiliskipulagsins. Þar segir eftirfarandi: „Gerð er krafa um að hvert húsnúmer hafi sérkenni í útliti sem skilur það frá húsum til beggja hliða. Þannig skal hver eining/húsnúmer undirstrika takt í götumynd með því að götuvegg sé skipt upp í lóðréttar einingar. Hver lóðrétt eining er eitt húsnúmer. Mismunandi einkenni geta falist í gluggasetningu, efnisvali, stöllun o.fl. Æskilegt er að höfð sé hliðsjón af frágangi nærliggjandi húsa svo sem dýpt glugga í vegg, hlutfalla í gluggum og þakköntum.“

Þá er að því vikið í almennum atriðum deiliskipulagstillögunnar að markmið hennar sé að gera skilmála fyrir óbyggðar lóðir á skipulagsreitnum og fyrir þau hús sem byggja má við eða breyta þannig að við frekari uppbyggingu á reitnum sé til skýr heildarstefna sem leiði til rökrænnar heildarmyndar á byggðamynstri reitsins. Markmiðið sé að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum en um leið hlúa að því sem fyrir sé og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar standi. Tryggja skuli að nýbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir sé. Leitast skuli við að aðlaga nýbyggingar og viðbyggingar við eldri hús að götumynd og mynda fallega heild. Einnig skuli taka tillit til sérkenna svo sem dýptar glugga í veggjum og hlutfalla í þakköntum.

Er þannig m.a. tekið fram í skipulagsskilmálum sameinaðrar lóðar Holtsgötu 1-3 og Bræðraborgarstígs 32a að „í útlitum húsa skulu koma fram mismunandi sérkenni sem undirstrika takt götumyndar og skilji á milli reitanna.“ Húsið að Bræðraborgarstíg 30 liggur að húsinu nr. 32 við Bræðraborgarstíg, utan fjórðu hæðar hússins nr. 30, sem nýtir einungis hluta þakflatar þriðju hæðar þess. Segir svo á framlögðum byggingarteikningum að gustlokunin sé mynduð með álrömmum með öryggisgleri sem liggi á brautum og sé opnuð með því að renna römmunum til hliðar. Rúmmál sé 45 m³.

Að mati úrskurðarnefndarinnar myndi hin umsótta framkvæmd ekki hafa þau áhrif á götumynd að á svig yrði farið við greind skilyrði deiliskipulagsins. Þá verður hvorki séð að í deiliskipulaginu sé gerður sérstakur áskilnaður um að yfirbragð byggðarinnar sé létt né að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 skuli vera aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32, líkt og segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Erindi kærenda var því synjað með rökum sem byggðust á túlkun skipulagsskilmála á þann veg sem úrskurðarnefndin telur að ekki fái staðist.

Að framangreindu virtu byggði hin kærða ákvörðun á röngum forsendum og verður hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.

64/2016 Sætún

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2016, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 á breytingu deiliskipulags Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla vegna Sætúns I, Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2016, er barst nefndinni 16. s.m., kæra fyrirsvarsmenn félaganna Skurns ehf. og Stjörnueggs ehf., sem skráð eru til heimilis að Vallá á Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla vegna Sætúns I. Breytingin var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. maí s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 6. september 2016.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1975, sem gert var í tilefni þess að skipulagðar voru nokkrar landspildur úr landi Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla. Á hverri spildu var gert ráð fyrir íbúðarhúsi og útihúsi. Skipulaginu hefur verið breytt nokkrum sinnum, þ. á m. var skipulagi spildunnar Sætúns I breytt á árinu 2007. Með þeirri breytingu var spildunni skipt upp í nokkur svæði sem auðkennd voru með bókstöfum á stafrófsbilinu A til F. Á svæðum B og C, sem voru samliggjandi, voru skilgreindir byggingarreitir fyrir atvinnuhúsnæði og þess getið að á svæði B stæði þegar hús sem notað væri fyrir kjúklingarækt.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa  20. nóvember 2015 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi landspildunnar Sætúns I. Í umsókninni fólst að áðurgreind svæði B og C yrðu sameinuð í eina byggingarlóð og að byggingarreitir á henni yrði einn byggingar-reitur. Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundi sínum 25. nóvember s.á. að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi, með vísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og var sú samþykkt síðar staðfest af borgarráði. Tillagan var auglýst til kynningar 8. janúar 2016 með athugasemdafresti til 19. febrúar s.á. Komu kærendur á framfæri athugasemdum auk þess sem hverfisráð Kjalarness bókaði um málið á fundi sínum hinn 11. febrúar s.á.

Tillagan var tekin fyrir að loknum auglýsingafresti í umhverfis- og skipulagsráði hinn 30. mars 2016 og samþykkt þar, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 18. mars s.á. Í umsögn skipulagsfulltrúa kom fram að eingöngu væri um sameiningu lóða að ræða sem ekki hefði áhrif á gildi þáverandi deiliskipulags. Væri því lagt til að tillagan yrði samþykkt óbreytt. Borgarráð staðfesti síðan þessa afgreiðslu og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að með breyttu deiliskipulagi skapist óviðunandi hætta á tjóni fyrir atvinnurekstur sem annar kærenda stundi á aðliggjandi landspildu, þ.e. á Sætúni II, sem sé í eigu hins kærandans. Á spildunni séu tvö uppeldishús fyrir varpfugla sem standi á mörkum þess svæðis þar sem breytt deiliskipulag geri ráð fyrir ný-byggingum. Kærendur telji að með breyttu deiliskipulagi, sem skilja verði sem svo að heimili hús til kjúklingaræktunar, skapist óviðunandi smithætta sem raskað geti hagsmunum þeirra.

Vísað sé til laga nr. 55/2013 um velferð dýra, laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem hafi að geyma reglur sem hafi það að markmiði að koma í veg fyrir smithættu milli dýra annars vegar og milli dýra og manna hins vegar. Um smithættu alifugla gildi síðan sérstakar reglur, sem finna megi í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína, og í reglugerð nr. 135/2015 um velferð alifugla. Um staðsetningu nýrra alifuglabúa og fjarlægðir á milli eldishúsa gildi m.a. 20. gr. reglugerðar um velferð alifugla og 6. gr. reglugerðar um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Telja verði að við gerð tillagna að breyttu deiliskipulagi Sætúns I hafi framangreindra reglna ekki verið gætt.

Ætla megi að deiliskipulagsbreytingin leiði til mikillar stækkunar þess bústofns sem fyrir sé að Sætúni I. Ekki liggi fyrir hver umhverfisáhrifin af slíkri stækkun yrðu, en líkur séu á að þau yrðu veruleg. Þá sé umrætt svæði skilgreint sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi og því séu tillögur um íbúðarbyggð að Sætúni I ekki í samræmi við stefnu þess.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að umrædd deili-skipulagsbreyting feli í sér að tvær lóðir fyrir atvinnuhúsnæði verði sameinaðar í eina, auk þess sem hámarksbyggingarmagn sé skilgreint með nákvæmari hætti en áður hafi verið. Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði að hámarki 0,42. Að öðru leyti sé skipulagið óbreytt. Ekki sé talið að deiliskipulagsbreytingin hafi í för með sér aukna smithættu. Fari svo að núverandi búrekstur verði stækkaður þurfi af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að vinna nýtt starfsleyfi. Komi þá umhverfisáhrif stækkunar til skoðunar í samræmi við gildandi lög og reglu-gerðir. Við vinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur verið aflað og hafi þar komið fram að engin fjarlægðarmörk væru sett á milli búa af þeirri stærðargráðu sem tillagan geri ráð fyrir, enda verði fjöldi fugla á lóðinni að hámarki 38.500. Með tilliti til aðstæðna hafi skipulagsfulltrúi engu að síður gert kröfu um að fjarlægð milli atvinnuhúsa á skipulagsvæðinu og íbúðarhúsa yrði ekki undir 50 m.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi með tilliti til ákvæða laga og reglugerða sem gilda um starfsemi alifuglabúa. Kærendur telja að þau uppbyggingar-áform sem felist í hinu breytta skipulagi muni auka hættu á smiti í alifuglarækt sem þeir stundi á mörkum þess svæðis sem breytingin tekur til.

Á skipulagsvæðinu er fyrir 726 m2 bygging, sem reist var á árunum 1975-79. Heimilað er að stækka hana um 320 m2. Að auki er heimiluð bygging þriggja samliggjandi húsa, sem hvert um sig yrði 640 m2 að stærð. Sú bygging sem þegar hefur verið reist stendur 10 m frá mörkum lóðar kærenda, en við lóðarmörkin stendur alifuglahús þeirra, sem byggt var á árunum 1985-86. Hinar fyrirhuguðu nýbyggingar munu allar standa fjær húsum kærenda en sú bygging sem þar er þegar fyrir. Í skilmálum hins breytta skipulags er kveðið á um að byggingarreitir nýrra atvinnuhúsa skuli standa a.m.k. 50 m frá byggingarreitum íbúðarhúsa, en af skýringarmyndum á skipulagsuppdrætti má ráða að fyrirhugaðar byggingar muni að hluta standa nær alifuglahúsi kærenda en 50 m, en það er ekki breyting frá því sem fyrra skipulag gerði ráð fyrir.

Reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er sett með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en markmið þeirra laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt er markmið laganna að koma í veg fyrir eða að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið. Með reglugerðinni er kveðið á um að skipulagsyfirvöld skuli hafa ákvæði hennar til hliðsjónar við töku skipulagsákvarðana um staðsetningu eldishúsa, þ. á m. eldishúsa fyrir alifugla. Í gögnum málsins kemur fram að leitað hafi verið umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur við skipulagsgerðina og að á grundvelli þeirrar umsagnar hafi m.a. verið gerð sú krafa að eldishúsin yrðu ekki nær byggingarreitum íbúðarhúsa en 50 m. Einnig kemur fram í gögnum málsins að fyrirhuguð starfsemi næði ekki þeim stærðarmörkum sem virkja ákvæði reglugerðarinnar um lágmarksfjarlægð slíkra húsa frá mannabústöðum, útivistarsvæðum og vinnustöðum. Að því er varðar staðsetningu með tilliti til annarra eldishúsa kemur fram í 6. gr. reglugerðarinnar að sveitarstjórn sé eftirlátið að ákveða þá fjarlægð. Með tilliti til markmiða laganna sem reglugerðin byggir á verða ákvæði hennar ekki skilin sem svo að henni sé ætlað að stuðla að vörnum gegn mögulegri útbreiðslu dýrasjúkdóma á milli mismunandi eldishúsa. Verður því ekki byggt á ákvæðum hennar með þeim hætti sem kærendur gera kröfu um varðandi nálægð við eldishús þeirra.

Í 20. gr. reglugerðar nr. 135/2015 um velferð alifugla er kveðið á um að við ákvörðun um staðsetningu nýrra alifuglabúa skuli m.a. taka mið af öðrum alifuglabúum, en þess ekki getið hvaða nánari skilyrði geti falist í þeim áskilnaði. Matvælastofnun fer með framkvæmd reglugerðarinnar og verður ný starfsemi alifuglabúa ekki hafin fyrr en stofnunin hefur staðfest að m.a. húsakostur uppfylli skilyrði reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. hennar. Verður hvorki af reglugerðinni ráðið né þeim þeim lögum er hún hvílir á, sbr. lög nr. 55/2013 um velferð dýra og lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, að lagðar séu sérstakar skyldur á skipulagsyfirvöld við skipulag svæða undir þá starfsemi sem lögin og reglugerðin taka til. Verður krafa kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því ekki byggð á tilvitnuðu ákvæði reglugerðar um velferð alifugla.

Lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana gilda m.a. um skipulagsáætlanir og breytingar á þeim, sem marka stefnu varðandi leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 3. gr. laganna. Í viðauka 1 við síðarnefndu lögin falla framkvæmdir vegna þauleldis alifugla af þeirri stæðar sem hér um ræðir í flokk B, en meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort slíkar framkvæmdir skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Í 3. gr. laga um umhverfismat áætlana kemur enn fremur fram að óverulegar breytingar á skipulagsáætlunum séu ekki háðar ákvæðum laganna, enda séu þær ekki taldar líklegar til að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið. Til þess ber að líta að hin kærða ákvörðun fólst einkum í sameiningu tveggja lóða innan skipulagssvæðisins en hafði hvorki í för með sér breytingu á heimilaðri landnotkun lóðanna né verulegar breytingar á uppbyggingarheimildum. Með vísan til 3. gr. laga um umhverfismat áætlana var því ekki skylt að meta umhverfisáhrif hinnar kærðu ákvörðunar, enda verður breytingin ekki talin hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið umfram það sem þegar var heimilað með eldra skipulagi.

Í greinargerð gildandi aðalskipulags er kveðið á um að íbúðarbyggingar á landbúnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst tengjast búrekstri á viðkomandi landi, en að einnig megi gera ráð fyrir stökum íbúðarhúsum í tengslum við tómstundabúskap. Innan þess skipulagssvæðis sem hin kærða ákvörðun nær til, sem flokkað er sem landbúnaðarsvæði, er gert ráð fyrir tveimur byggingarreitum fyrir íbúðarhús, en á öðrum þeirra stendur nú þegar slíkt hús. Reitirnir eru í 50 og 57 m fjarlægð frá hinum umdeilda byggingarreit þar sem áform eru uppi um að reisa nýtt alifuglahús. Með hliðsjón af þessum aðstæðum og gögnum málsins verður ekki annað séð en að umræddir byggingarreitir fyrir íbúðarhús séu í samræmi við landnotkunarheimildum aðalskipulags.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. apríl 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla vegna Sætúns I á Kjalarnesi.

50/2016 Melgerði

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Melgerði 32, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. júní 2016.

Málavextir: Lóðin sem um ræðir er á ódeiliskipulögðu svæði í vesturbæ Kópavogs. Á lóðinni sem er 800 m2 að flatarmáli, stendur einnar hæðar einbýlishús, 127,3 m2 að stærð, þar af er bílskúr 28,5 m2. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, 29. október 2015, var lögð fram umsókn um byggingarleyfi til breytinga á fasteigninni að Melgerði 34, Kópavogi. Var henni vísað til skipulagsnefndar með skírskotun til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fól umsóknin í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð yrði sólstofa við suðurhlið hússins. Ný íbúð yrði á efri hæð og húsið því tvíbýli eftir breytingu. Heildargólfflatarmál hússins með bílskúr yrði 248,6 m2, eftir breytingu sem væri aukning um 121,3 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31.

Á fundi skipulagsnefndar 9. nóvember 2015 var umsóknin lögð fram og samþykkt að grenndarkynna tillöguna samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til athugasemda var frá 23. nóvember 2015 til 21. desember s.á. Athugasemdir bárust frá tveimur aðilum, þ. á m. öðrum kærenda. Sneru þær að skuggavarpi sem kæmi til vegna hækkunar hússins að Melgerði 34 og af því tilefni var þeim sem athugasemdir höfðu gert sendar teikningar með tölvupósti 5. janúar 2016 sem sýndu skuggavarp af breyttu húsi. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var tillagan lögð fram að nýju, ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um þær, og hún samþykkt. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 12. apríl 2016 og var hin kynnta umsókn um byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. september s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur benda á að gerð hafi verið athugasemd af þeirra hálfu þar sem þeir hafi farið fram á skuggamælingu vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í ljósi þeirrar mælingar hafi kærendur gert athugasemd þar sem mælingin hafi sýnt fram á að framkvæmdin myndi valda miklu skuggavarpi á vesturhlið fasteignar þeirra og fyrirhugaður sólpallur á lóð þeirra yrði í skugga vegna hækkunar húss leyfishafa. Telji kærendur það óásættanlegt að rýra verðgildi eignar þeirra með aukinni skuggamyndun í garði þeirra, auk þess sem áætlanir kærenda varðandi sólpall væu í uppnámi. Um sé að ræða gamalt og rótgróið hverfi sem kærendum finnist að eigi að halda ásýnd sinni í grófum dráttum. Að bæta heilli hæð ofan á hús telji kærendur valda mikilli röskun á þeirri ásýnd. Því sé borið við að nýting umrædds húss sé ekki í samræmi við önnur hús í hverfinu þar sem það sé aðeins á einni hæð. Í götunni séu þrettán hús á einni hæð og/eða með lítið ris, líkt og húsið að Melgerði 34. Telji kærendur óþarft að rýra eignir annarra til að ná þessari stækkun, enda sé lóðin Melgerði 34 það stór að vel ætti að vera hægt að stækka húsið á annan veg en að bæta við hæð.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að umrædd breyting hafi falið í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð sólstofa við suðurhlið hússins að Melgerði 34. Húsinu yrði breytt í tvíbýli með heildarbyggingarmagni 220,1 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31. Þar sem um sé að ræða ódeiliskipulagt svæði hafi byggingarfulltrúi vísað erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi erindið verið grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju og samþykkt á fundi skipulagsnefndar 21. mars 2016, hafi sú afgreiðsla verið staðfest af bæjarráði 31. s.m og á fundi bæjarstjórnar 12. apríl s.á.

Á umræddu svæði sé nær eingöngu að finna hús á tveimur til þremur hæðum. Húsið sem standi á lóðinni Melgerði 34 sé eitt af örfáum sem eftir séu á einni hæð. Á svæðinu sé að finna lóðir með hærra nýtingarhlutfall, en meðalnýtingarhlutfall á götureitnum sé 0,28. Eftir breytingu verði byggingarmagn á lóð nr. 34 við Melgerði því ekki umtalsvert meira en það sem sé í götureitnum í dag. Umrædd breyting samrýmist að öllu leyti götumynd og yfirbragði svæðisins. Breytingin muni þó hafa í för með sér einhverja aukningu skuggavarps. Ítarleg könnun á því hafi leitt í ljós að aukið skuggavarp hefði ekki verulega íþyngjandi áhrif á nærliggjandi lóðir.

Kærendur hafi bent á að hækkun hússins muni setja áætlanir þeirra um sólpall sem eigi að ná að mörkum lóðanna nr. 32 og 34 við Melgerði í uppnám. Sé á það bent að samkvæmt f. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þurfi samþykki aðliggjandi lóðarhafa ef skjólveggur eða girðing sé nær lóðarmörkum en 1,8 m. Að auki segi í e. lið sömu greinar að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Samkvæmt framangreindu sé því ekki heimilt að reisa sólpall sem nái alveg að lóðarmörkum lóðar en auk þess þurfi samþykki lóðarhafa Melgerðis 34 ef skjólgirðingu sé ætlað að vera nær lóðarmörkum en 1,8 m. Umrædd breyting muni því ekki hafa veruleg áhrif á grenndarhagsmuni kærenda.

Athugasemdir leyfishafa: Fyrir liggi að mótmæli kærenda við fyrirhugaðar breytingar að Melgerði 34 lúti aðeins að mögulegu skuggavarpi vegna hækkun hússins gagnvart palli sem leyfishafa skiljist að eigi að vera með heitum potti sem ekki sé til staðar og ekkert samþykki sé fyrir.

Tekið sé undir sjónarmið þau sem fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogs, dags. 21. mars 2016, en í 4. lið umsagnarinnar sé á það sé bent að við Melgerði og Borgarholtsbraut séu nær eingöngu hús á tveimur til þremur hæðum. Hús leyfishafa sé eitt örfárra sem aðeins sé á einni hæð. Meðalnýtingarhlutfall í götureitnum sé 0,28, lægst 0,13 að Borgarholtsbraut 47 og hæst 0,39 að Borgarholtsbraut 45, en nýtingarhlutfall á Melgerði 34 sé aðeins 0,16 og verði 0,31 eftir breytingu. Hækkun hússins um eina hæð sé í takt við byggðarmynstur hverfisins, byggingarstíl og hæð húsa. Það að þurfa að þola lítilsháttar skuggavarp kl. 18:00 þegar sólin sé hæst á lofti í júní ár hvert á hluta norðvesturhluta lóðarinnar nr. 32 við Melgerði geti seint talist mjög íþyngjandi og því sé fullyrðingu kærenda mótmælt sem órökstuddri að framkvæmdin muni valda miklu skuggavarpi á vesturhlið lóðar kærenda og að aukið skuggavarp muni rýra verðgildi fasteignar þeirra. Andmæli kærenda við hækkun húss leyfishafa um eina hæð sé óskiljanlegt þegar horft sé til þess að hús kærenda sé kjallari, hæð, ris og þar yfir manngengt ris, en það ris sé ekki í skráðum fermetrafjölda hússins. Nýtingarhlutfall þess húss sé 0,29. Sé á það bent að húsið nr. 28 við Melgerði sé eins og hús nr. 34 en það sé á tveimur hæðum. Steyptur stigi sé í dag í húsi leyfishafa upp á geymsluloft með steyptri plötu, en þar sé ekki ris eins og ranglega sé fullyrt í kæru. Hæsta lofthæð geymsluloftsins sé undir 1,50 m og alveg niður í 0,10 m. Af þessum frágangi verði ráðið að upphaflegur húsbyggjandi hafi í öndverðu ætlað að hafa húsið tveggja hæða eins og húsið við Melgerði 28 en hann af einhverjum ástæðum, e.t.v. vegna fjárskorts, horfið frá því. Þau 13 hús sem nefnd séu í kæru séu flest öll með risi sem í séu svefnherbergi en ekki geymslulofti eins og sé í húsi leyfishafa. Hús í grennd við hús leyfishafa séu flest tveggja hæða eða meira.

Niðurstaða:
Svæði það sem fasteignin Melgerði 34 í Kópavogi tilheyrir hefur ekki verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Svæðið sem um ræðir er fullbyggt og gamalgróið hverfi. Hús sem standa norðan megin við Melgerði, þ. á m. hús leyfishafa, eru á einni til tveimur hæðum og mörg hver með rishæð að auki. Er þau ýmist einbýlishús eða tvíbýlishús. Nýtingarhlutfall á næstu lóðum er allt frá 0,13 til 0,39 og verður nýtingarhlutfall lóðar leyfishafa 0,31 eftir breytingu. Mænishæð hússins verður einnig sambærileg mænishæð húsa á næstu lóðum. Með hliðsjón af því verður húsið eftir breytingu í samræmi við gildandi landnotkun svæðisins, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Má því ætla skuggavarp frá húsinu á næstu lóðir eftir breytinguna verði ekki annað og meira en gerist og gengur í hverfinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggja fyrir þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.

56/2016 Skipulagsgjald Straumsvík

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2016, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna kerskála 1, steypuskála, kerskála 2 og kerskála 3 við Straumsvík, Hafnarfirði, að fjárhæð kr. 49.133.484.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Rio Tinto Alkan á Íslandi álagningu skipulagsgjalds vegna kerskála 1, steypuskála, kerskála 2 og kerskála 3 á lóð kæranda við Straumsvík, Hafnarfirði, að fjárhæð kr. 49.133.484 samkvæmt álagningarseðli dags. 1. apríl 2016. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi en til vara að upphæð skipulagsgjaldsins verði lækkuð.

Málsatvik og rök: Með bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 2. mars 2016, var kæranda tilkynnt um brunabótamat mannvirkja á lóð hans við Straumsvík, Hafnarfirði, landnúmer 123154. Í kjölfar þess var lagt á skipulagsgjald á grundvelli brunabótavirðingarinnar vegna kerskála 1, steypuskála, kerskála 2 og kerskála 3 sem standa á nefndri lóð. Barst kæranda greiðsluseðill frá Tollstjóra, dags. 1. apríl 2016, vegna skipulagsgjaldsins, samtals að upphæð kr. 49.133.484.

Kærandi bendir á að á greiðsluseðli umrædds skipulagsgjalds sé ekki að finna leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest vegna álagningarinnar svo sem kveðið er á um í 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beri því að taka kærumál þetta til efnismeðferðar þótt eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar hafi verið liðinn er kæran barst nefndinni, sbr. 1. og 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Á árinu 1966 hafi tekið gildi samningur milli þáverandi eiganda álversins við Straumsvík og ríkisstjórnar Íslands sem öðlast hafi lagagildi með 1. gr. laga nr. 76/1966 um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík. Með breytingu á þeim samningi, á árinu 2007, hafi kærandi gengist undir almennar skattareglur hérlendis og í samningnum hafi verið gert ráð fyrir að unnið yrði fasteignamat fyrir verksmiðjuna en af ókunnum ástæðum hafi brunabótamat ekki verið fullgert á sama tíma. Þetta hafi skapað kæranda vandræði vegna ýmissa gjalda sem leggist á tryggingar sem byggi á brunabótamati og hafi því verið óskað eftir því að fasteignin yrði virt til brunabóta. Brunabótamatið hafi hljóðað upp á 24.618.660.000 krónur en til samanburðar sé fasteignamat fasteignarinnar 13.158.650.000 krónur. Kerskáli 1 og steypuskáli hafi verið byggðir árið 1967, kerskáli 2 árið 1970 og kerskáli 3 hafi verið reistur árið 1997. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli greiða skipulagsgjald í eitt skipti af nýbyggingum sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Í ákvæðinu sé og tekið fram að nýbygging teljist vera hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta svo og tilteknar viðbyggingar við eldri hús. Gjaldið falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og hún tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs, sbr. 3. mgr. nefndrar 17. gr. Byggingar þær sem mál þetta snúist um hafi verið reistar fyrir 19-49 árum og geti ekki talist nýbyggingar í skilningi 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga með hliðsjón af úrskurðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þar sem reynt hafi á lögmæti álagningar skipulagsgjalds. Áréttað sé að kærandi beri enga ábyrgð á þeim drætti sem orðið hafi á álagningu skipulagsgjalds á fasteign hans. Þegar litið sé til tilgangs skipulagsgjaldsins séu ekki rök til þess að leggja það á byggingar sem löngu séu byggðar á skipulögðu svæði. Varakrafa kæranda sé á því byggð að brunabótamat fasteignar hans sé rangt þar sem ekki hafi verið tekið tillit til afskrifta vegna aldurs umræddra bygginga.

Af hálfu Þjóðskrár Íslands er á það bent að samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir og skuli húseign metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar lauk eða eftir að hún er tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Þjóðskrá annist brunabótamat samkvæmt 2. gr. laganna og sé markmið matsins að finna vátryggingarverðmæti húseignar á þeim tíma sem virðing fari fram. Ágreiningi um brunabótamat sé unnt að vísa til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 6. mgr. 2. gr. nefndra laga. Álagning skipulagsgjalds samkvæmt 17. gr. skipulagslaga sé byggt á brunabótamati hverrar eignar og verði að skýra ákvæðið með tilliti til orðalags 3. mgr. 1. gr. laga um brunatryggingar hvað gjalddaga varðar, en þar sé vísað til skyldu húseiganda að láta meta húseign brunabótamati innan tilskilins frests. Kærandi hafi ekki farið fram á rökstuðning Þjóðskrár Íslands vegna matsins, ekki óskað eftir endurupptöku eða nýtt sér lögbundna kæruleið.

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Var kærufrestur því liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 30. maí 2017 vegna álagningar umdeilds skipulagsgjalds með gjalddaga 1. apríl s.á.

Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 verða bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. laganna. Álagning skipulagsgjalds með stoð í 17. gr. skipulagslaga telst stjórnvaldsákvörðun enda er með henni lagðar skyldur á greiðanda í skjóli opinbers valds. Í 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald kemur og fram að ágreiningur vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalda verði borinn undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók við hlutverki hennar með gildistöku laga nr. 130/2011 hinn 1. janúar 2012.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um málskotsrétt sinn og kærufrest svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Eins og atvikum er háttað þykir afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Verður ágreiningur um lögmæti umdeilds skipulagsgjalds því tekinn til efnismeðferðar en ekki verður hér tekin afstaða til framkvæmdar og niðurstöðu brunabótamats umræddra mannvirkja á lóð kæranda enda verður slíkur ágreiningur einungis borinn undir yfirfasteignamatsnefnd, sbr. 6. mgr. 2. gr.  laga nr. 48/1994 um brunatryggingar eins og fram er komið.

Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar skipulagsgjalds sem lagt var á vegna tiltekinna mannvirkja er tengjast álbræðslu kæranda við Straumsvík. Heimild fyrir álagningu skipulagsgjalds er í 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta í eitt skipti sem nemur 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Þar er og tekið fram að nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Ákvæði 1. gr. reglugerðar um skipulagsgjald er á sömu lund að öðru leyti en því að þar er enn fremur tekið fram að skipulagsgjald af mannvirkjum, sem ekki eru virt til brunabóta, skuli vera 0,3% af stofnverði þeirra. Í 3. mgr. 17. gr. skipulagslaga er svo kveðið á um að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hefur farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, tilkynnt hana til innheimtumanns ríkisins. Tilgangur gjaldtökunnar er að standa straum af kostnaði við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu, gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana, þróunarverkefna og rannsókna á sviði skipulagsmála.

Upplýst hefur verið að þær fjórar byggingar sem hin kærða álagning skipulagsgjalds nær til voru reistar á árunum 1967, 1970 og 1997 eða um 19 til 49 árum áður en umdeild álagning fór fram. Þó að eftir atvikum geti nokkur tími liðið frá því að byggingu húss er lokið og það tekið í notkun þar til brunabótamat þess liggur fyrir, sem álagning skipulagsgjalds byggir á, verður ekki fram hjá því litið að álagningarheimild gjaldsins í 17. gr. skipulagslaga er bundin við nýreist hús og tilteknar viðbyggingar samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins. Verða nefndar byggingar engan vegin taldar hafa fallið undir hugtakið nýreist hús í 17. gr. skipulagslaga þegar hin kærða álagning fór fram. Engin lögskýringargögn eða efnisrök liggja fyrir sem leiða til svo rúmrar lögskýringar lagaákvæðisins sem umdeild álagning styðst við.

Með lögum nr. 76/1966 öðlaðist lagagildi samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., dags. 28. mars 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu við Straumsvík. Samkvæmt 31.01 gr. staflið k í samningnum skyldi ISAL, íslenska álfélagið, greiða skipulagsgjald skv. skipulagslögum nr. 19/1964 af öllum byggingum sem skilgreindar eru sem „hús“ í 31.05 gr. samningsins. Einnig er þar tekið fram að ISAL skuli vátryggja byggingar sem reistar eru á bræðslulóðinni gegn bruna í samræmi við ákvæði laga nr. 9/1955 um Brunabótafélag Íslands, þó þannig að bræðslukerjasalir, steypuhús, geymsluturnar og geymar bræðslunnar teljist ekki „hús“ í skilningi laganna. Voru því byggingar þær sem eru grundvöllur álagðs skipulagsgjalds í máli þessu undanþegnar því gjaldi þegar þær voru reistar og teknar í notkun.

Með lögum nr. 112/2007 um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alkan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík var m.a. 15. gr. aðalsamningsins breytt á þann veg að í stað ákvæða samningsins um gjaldskyldu vegna ýmissa leyfa, færi gjaldskyldan eftir gildandi íslenskum lögum og reglum á hverjum tíma. Í viðaukasamningnum er ekki að finna að ákvæði aðalsamningsins um undanþágu frá greiðslu skipulagsgjalds af tilgreindum mannvirkjum hefði verið breytt með afturvirkum hætti.

Þá ber að geta þess að í máli nr. 30/2002 tók úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála afstöðu til lögmætis álagðs skipulagsgjalds á grundvelli fyrirliggjandi brunabótavirðingar vegna kerskála 3 á lóð kæranda við Straumsvík, sbr. úrskurð sem kveðinn var upp 3. júlí 2003. Var hin kærða álagning felld úr gildi með svofelldum rökum: „Með lögum nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Sraumsvík, er staðfestur samningur sömu aðila, dags. 28. mars 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu við Straumsvík. Í k) lið gr. 31.01 samningsins segir að kærandi skuli greiða skipulagsgjald af öllum byggingum sem skilgreindar séu sem „hús“ í gr. 31.05, en í þeirri grein segir að kærandi skuli vátryggja byggingar sem reistar verði á bræðslulóðinni gegn bruna, þó þannig að bræðslukerjasalir o.fl. teljist ekki „hús“ í skilningi laganna. Að áliti úrskurðarnefndar var því óþarft að virða mannvirkið til brunabóta enda er kærandi ótvírætt undanþeginn, skv. samningsákvæðinu, skyldu til að vátryggja það og þar af leiðir að hann er á sama hátt undanþeginn skipulagsgjaldi vegna kerskála.“

Með vísan til þess sem að framan er rakið skortir á að hin kærða álagning skipulagsgjalds eigi fullnægjandi lagastoð og verður hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds vegna kerskála 1, steypuskála, kerskála 2 og kerskála 3 á lóð kæranda við Straumsvík, Hafnarfirði, að upphæð kr. 49.133.484 samkvæmt álagningarseðli Tollstjóra, dags. 1. apríl 2016.

115/2017 Vegamótastígur

Með

Árið 2018 miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi á nefndum lóðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra eigendur, Grettisgötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. nóvember 2017, er barst nefndinni 23. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi með gististað í flokki IV á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Verður kærumál þetta, sem er nr. 137/2017, sameinað þessu máli þar sem hinar kærðu ákvarðanir lúta að sömu byggingarframkvæmd og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2017 og 25. janúar 2018.

Málavextir:
Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði. Á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða fyrir sambærilega starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á Vegamótastíg 7 og 9 auk kjallara á tveimur hæðum.

Með úrskurði, uppkveðnum 31. mars 2017, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess, í nefndum úrskurði, að eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu, sem ekki var sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi viðkomandi byggingar, uppfyllti ekki kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Gert var ráð fyrir gististað í flokki V á efri hæðum og veitingasal fyrir allt að 130 gesti á fyrstu hæð og í efri kjallara og tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara hússins ásamt geymslurými.

Með úrskurði, uppkveðnum 6. september s.á., felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess í nefndum úrskurði að tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar, ásamt því að þinglýst kvöð á lóð nr. 7 við Vegamótastíg afmarkaði byggingarreit lóðarinnar vegna brunastiga og flóttaleiðar frá Laugavegi 18b og rýmis fyrir sorptunnur.

Í kjölfarið var sótt um takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum í grunni fyrirhugaðs húss 13. september 2017 sem var samþykkt samdægurs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. október 2017 var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi með hóteli á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð á fyrrgreindum lóðum. Á fundi borgarráðs hinn 2. nóvember s.á. var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eftir að nýtt byggingarleyfi hafi verið gefið út hafi fleygun haldið stanslaust áfram með öllum þeim óþægindum sem því fylgi. Enn sé haldið áfram að bora undir hús þeirra án þeirra samþykkis. Þá muni fyrirhugaður veitingastaður á jarðhæð hótelsins valda kærendum miklu ónæði vegna hávaða. Þá sé mikill hæðarmunur á hinu leyfða hóteli og Grettisgötu 3 og 5 sem þýði að slík bygging verði mun hærri en áætlað hafi verið í byrjun.

Einnig sé gerð athugasemd við málsmeðferð Reykjavíkurborgar og vanvirðingu við íbúa og næstu nágranna. Aldrei hafi verið rætt við eða hlustað á kærendur og í þau skipti sem þeim hafi verið svarað hafi það verið með útúrsnúningi. Hvorki hafi verið vilji til að koma á staðinn og mæla hávaða vegna fleygunar, sem kærendur hafi þurft að búa við í sex mánuði, né að athuga skemmdir sem hafi orðið á eign kærenda.

Þá vísi kærendur til ástæðna sem raktar hafi verið í fyrri kærum þeirra vegna fyrirhugaðs hótels í málum nr. 16/2016, 17/2017 og 70/2017.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að athugasemdir kærenda snúist m.a. um hæð húsa, skuggavarp og nýtingarhlutfall, en þau atriði ráðist af ákvæðum gildandi deiliskipulags. Kærufrestur vegna þess skipulags sé löngu liðinn. Deiliskipulagið heimili fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði og hótel eða sambærilega starfsemi. Engin rök séu sett fram af kærendum um að verið sé að brjóta ákvæði deiliskipulags og skilmála fyrir umræddar lóðir.

Í skilmálum deiliskipulagsins segi í liðum a) og b): „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls fimm hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum. Hæð bygginga er til samræmis við hæð hússins við Laugaveg 18, inndregin efsta hæð Vegamótastígs 7 og 9 er í sömu hæð og inndregin efsta hæð Laugavegs 18, í kóta 38,62.“ Þá komi fram í lið k) að heimilt sé að lyftur og stigahús nái upp fyrir hámarkshæðir, þó að hámarki 3,5 m. Byggingarnefndarteikningar sýni að ekki sé farið yfir kóta deiliskipulagsskilmála. Bílastæðaþörf bygginganna sé uppfyllt en samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skuli vera kjallari undir húsunum sem notaður verði fyrir bílastæði. Á byggingarnefndarteikningu séu sýnd fjögur bílastæði, þ. á m. tvö sérmerkt fyrir hreyfihamlaða. Í skilmálum deiliskipulagsins komi fram að ef ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur í kjallara sé heimilt að borga sig frá þeim. Á fyrstu hæð beggja húsa sé samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins gert ráð fyrir millihæð á hluta hæðarinnar. Teikningar séu í samræmi við þennan áskilnað deiliskipulagsins.

Eins og fram komi í deiliskipulaginu sé það á svæði sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 skilgreini sem Miðsvæði M1A. Í aðalskipulaginu, sem og í breytingu á því frá ágúst 2017, segi um tillögu að landnotkun á svæði M1A sem samþykkt hafi verið: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, auk gistiþjónustu.“

Í aðalskipulagsbreytingunni frá því í ágúst 2017 komi fram að gera þurfi grein fyrir hótelum/gististöðum í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi fyrir Vegamótastíg, Grettisgötu, Klapparstíg og Laugaveg segi um Vegamótastíg 7-9 að gert sé ráð fyrir verslunum og þjónustu á 1. hæð en íbúðum og/eða ferðatengdri þjónustu/hóteli á efri hæðum.

Í kæru sé því haldið fram að í nýju byggingarleyfi komi fram heimild til að reka veitingastað í flokki III. Byggingarfulltrúi veiti ekki veitingaleyfi, hann samþykki einvörðungu uppdrætti sem geti sýnt veitingastað. Sýslumenn gefi úti rekstrarleyfi fyrir veitingarekstur að uppfylltum þeim skilyrðum sem talin séu upp í 25. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Engar ákvarðanir hafi verið teknar um veitingastað með næturopnun eins og kærendur gefi í skyn. Um starfsemi veitingastaða gildi sérstakar reglur sem borgaryfirvöld framfylgi. Aðalskipulag heimili þrenns konar opnunartíma veitingastaða á skilgreindu miðsvæði M1A og verði rekstraraðili veitingastaðar að Vegamótastíg 7-9 að hlíta skilmálum og ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma.

——–

Reykjavíkurborg var gefinn kostur á að koma að athugasemdum í kærumáli þessu en hún hefur ekki nýtt sér þann rétt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum við Vegamótastíg 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu hóteli ásamt veitingastað á jarðhæð á framangreindum lóðum. Varða bæði byggingarleyfin sömu byggingarframkvæmdina.

Í kjallara byggingarinnar er gert ráð fyrir fjórum bílastæðum, þar af tveimur fyrir hreyfihamlaða. Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“ Samkvæmt nefndri töflu er því lágmarkskrafa fyrir heimilað hótelrými að gert verði ráð fyrir einu bílastæði á lóð. Í töflu 6.02 í sömu grein kemur fram að við veitingastaði með 1-100 sæti skuli vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða að lágmarki en samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir veitingasal með sætum fyrir allt að 100 manns. Þarf því eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða vegna fyrirhugaðs veitingahúss.

Lóðirnar sem um ræðir eru staðsettar á reit M1A samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Er þar m.a. gert ráð fyrir veitingastarfsemi á jarðhæð og gististarfsemi á efri hæðum. Deiliskipulag svæðisins, eftir breytingu árið 2015, gerir ráð fyrir 5 hæða byggingu sem nær yfir báðar lóðirnar með bílakjallara. Á fyrstu hæð, sem er með millilofti, er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og á efri hæðum verði íbúðir og/eða ferðatengd þjónusta/hótel. Fer hámarkshæð húss ekki yfir uppgefinn kóta í deiliskipulagi. Verður því ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og ákvæði byggingarreglugerðar og hafi því ekki meiri grenndaráhrif en vænta mátti samkvæmt skilmálum skipulagsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna lóðanna Vegamótastígs 7 og 9.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var í borgarráði 2. nóvember s.á, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.

129/2016 Lundur

Með

Árið 2018, föstudaginn 16. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 129/2016, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. ágúst 2016 um breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2016, sem barst nefndinni sama dag, kæra eigendur og ábúendur á lögbýlinu Minna-Mosfelli í Mosfellsdal, afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. ágúst 2016 um breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal. Skilja verður kröfu kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 18. maí 2017 og 8. mars 2018.

Málsatvik og rök: Hinn 27. maí 2016 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal. Kom fram í greinargerð tillögunnar að skipulagssvæðið afmarkaðist af Þingvallavegi að sunnan, Köldukvísl að norðan, kirkjujörðinni Mosfelli að vestan og óskipulögðu landbúnaðarsvæði að austan. Fælu umræddar breytingar m.a. í sér að aðkomuvegur væri færður nær austurmörkum og sýndur möguleiki á tengingu við golfvöll norðan lóðar. Komu kærendur að athugasemdum við tillöguna varðandi umferðarrétt frá Þingvallavegi að Minna-Mosfelli. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. ágúst 2016 og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Nefndin felur skipulagsfulltrúa að svara framkominni athugasemd í samræmi við umræður á fundinum og annast gildistökuferlið.“ Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 31. s.m.

Kærendur andmæla því að loka eigi varanlega um 60 m löngum hluta gömlu heimreiðarinnar að Minna-Mosfelli, næst Þingvallavegi. Í stað þess muni þeir öðlast umferðarrétt um áformaðan 300 m langan krákustíg á mýrartúni. Sé brotið gegn lögvörðum eignarrétti þeirra og í engu gætt grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins, m.a. varðandi rannsókn máls og andmælarétt.

Af hálfu Mosfellsbæjar er skírskotað til þess að umrædd breyting hafi ekki tekið gildi þar sem hún hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé lögboðinni meðferð málsins enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði til að vísa málinu til kærunefndar ekki uppfyllt. Verði því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Þá sé bent á að réttur kærenda til aðkomu að Minna-Mosfelli sé í engu skertur með breytingunni, þótt fara þurfi aðeins lengri leið en áður.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal.

Leitt hefur verið í ljós að umrætt deiliskipulag var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum ekki réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

84/2017 Lyklafellslína, Hafnarfirði

Með

Árið 2018, mánudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2017, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 21. júní 2017 um veitingu framkvæmdaleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 21. júní 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 15. september 2017.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til hennar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á.

Helstu niðurstöður í áliti Skipulagsstofnunar voru þær að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrðu sjónræn áhrif og áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu. Taldi stofnunin að heildaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda m.t.t. þessara umhverfisþátta yrðu óhjákvæmilega verulega neikvæð. Fyrirhugaðar háspennulínur yrðu lagðar um mosagróin nútímahraun, sem nytu sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, á meirihluta línuleiðarinnar frá Hellisheiði út á Reykjanes. Þegar litið væri til heildaráhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður yrðu áhrifin talsvert neikvæð. Þannig myndu nútímahraun raskast á óafturkræfan hátt, en nútímahraun, eins og um væri að ræða á áhrifasvæði framkvæmdanna, þekti lítinn hluta jarðar og sá gróður sem þar yxi því frekar fátíður. Nýlagning lína gæti haft talsverð neikvæð áhrif á fugla á löngum köflum fyrirhugaðrar línuleiðar vegna áflugshættu og búsvæðaröskunar, auk þess sem línuleið myndi á kafla liggja í nálægð við gamlan varpstað hafarna. Á móti kæmu jákvæð áhrif vegna fyrirhugaðs niðurrifs núverandi lína um Heiðmerkursvæðið. Það væri því niðurstaða Skipulagsstofnunar að heildaráhrif á fuglalíf yrðu nokkuð neikvæð vegna lagningar Suðvesturlína. Lagði stofnunin til skilyrði um vöktun á áflugshættu fugla á raflínur við Fóelluvötn, Snorrastaðatjarnir og í nágrenni Reykjanesvirkjunar.

Með bréfi, dags. 29. desember 2016, óskaði Landsnet eftir því að fá útgefið framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar vegna lagningar Sandskeiðslínu 1 (nú Lyklafellslínu 1), sem yrði 220/400 kV háspennulína á milli tengivirkja við Sandskeið og í Hafnarfirði. Vísað var til fyrrnefnds mats á umhverfisáhrifum Suðvesturlína, sem enn væri í gildi og tæki meðal annars til lagningar nefndrar línu. Gert væri ráð fyrir línunni í Kerfisáætlun Landsnets 2015-2024, sbr. framkvæmdaáætlun 2016-2018, sem metin hefði verið í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat áætlana. Kerfisáætlunin hefði verið samþykkt af hálfu Orkustofnunar 25. apríl 2016. Innan staðarmarka Hafnarfjarðar færi línuleiðin um land sveitarfélagsins og Skógræktar ríkisins, en samkomulag hefði náðst við báða aðila um leiðina.

Með umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fylgdi greinargerð verkfræðistofu titluð „Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis – desember 2016“. Þar kemur fram að hvatinn að línulagningunni sé ósk sveitarfélaga á svæðinu um að Hamraneslínur 1 og 2 verði fjarlægðar, en þær liggi frá Geithálsi ofan Reykjavíkur að Hamranesi í Hafnarfirði um brunnsvæði Gvenndarbrunna, Jaðars og Myllulæks, sem séu á meðal vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins. Þessar línur séu hluti 220 kV orkuflutningskerfis frá Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og spennistöð á Brennimel í Hvalfirði. Forsenda þess að unnt sé að fjarlægja Hamraneslínur sé lagning Lyklafellslínu í þeirra stað, en hún muni liggja fjær byggð. Við leiðarval hafi verið höfð í huga áhersla sveitarfélaganna á að losa um háspennulínur í upplandinu næst byggð, en erfitt sé, og í raun ómögulegt, að finna línuleiðir sem fari ekki um vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar. Sá kostur hafi verið valinn að fylgja núverandi Búrfellslínu 3 og halda með því línumannvirkjum saman í einu belti, sem lágmarki jarðrask, enda sé mögulegt að nýta eldri línuslóðir við lagninguna. Línan verði hönnuð þannig að mögulegt verði að breyta henni í 400 kV línu í framtíðinni ef þörf krefji.

Því var lýst í greinargerðinni að línuleiðin frá Sandskeiði að Hrauntungum í Hafnarfirði liggi að mestu um Húsafellsbruna, sem sé örnefni yfir nokkur nútímahraun, að hluta frá sögulegum tíma, en einnig um mela og mólendi á holtum. Áætlað rask á nútímahrauni sé 9,6 ha, en með vísan til 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd njóti það sérstakrar verndar og beri að forðast rask nema brýna nauðsyn beri til. Orkuflutningskerfið sé nauðsynleg stoð samfélagsins. Það liggi um mannvirkjabelti Búrfellslínu 3, sem tekin hafi verið ákvörðun um að nýta til frekari uppbyggingar orkuflutningskerfisins, sbr. skipulagsáætlanir og mat á umhverfisáhrifum. Ekki sé talin þörf á að leita umsagnar Umhverfisstofnunar á grundvelli 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga þar sem umsögn hennar hafi legið fyrir bæði um matsskýrslu og um skipulagsáætlanir, sbr. 1. og 2. mgr. 68. gr. sömu laga.

Á uppdrætti Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 er gert ráð fyrir þremur háspennulínum frá fyrirhuguðu tengivirki í Hrauntungum eftir línuleið núverandi Búrfellslínu 3. Frá Hrauntungum liggja tvær háspennulínur að álverinu í Straumsvík og tveir jarðstrengir að núverandi tengivirki í Hamranesi. Í skilmálum aðalskipulagsins er nánar fjallað um þá framkvæmd sem hér um ræðir. Meðal annars er því þar lýst að núverandi Hamraneslínur verði rifnar samkvæmt samkomulagi við Landsnet fyrir árið 2020 og að Ísallínur, sem liggi frá Hamranesi, verði fluttar í nýtt línustæði frá fyrirhuguðu tengivirki í Hrauntungum. Einnig segir að Landsnet fyrirhugi að leggja til viðbótar tvær 400 kV línur til að tengja Hamranes við Brennimel og Kolviðarhól vegna virkjana á Hellisheiði. Með þessu sé stefnt að því að auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu og styrkja orkuflutningskerfið til að anna framtíðarflutningsþörf vegna aukinnar orkuframleiðslu, atvinnuuppbyggingar og þjónustu við dreifiveitur. Þessar línur verði lagðar í nýtt línustæði að tengivirkinu í Hrauntungum. Í rammaskipulagi Upplands Hafnarfjarðar frá 2015 er gert ráð fyrir þremur loftlínum á sama veg og lýst er í aðalskipulagi.

Deiliskipulag Undirhlíða frá 2007, eins og því var breytt með samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 15. febrúar 2017, gerir jafnframt ráð fyrir þremur háspennulínum að því leyti sem línuleiðin fellur innan deiliskipulagssvæðisins. Lögum samkvæmt fékk Skipulagstofnun deiliskipulagsbreytinguna til yfirferðar. Með bréfi, dags. 12. apríl 2017, tilkynnti Skipulagsstofnun Hafnarfjarðarbæ að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um breytinguna í B-deild Stjórnartíðinda, en jafnframt væri athygli sveitarfélagsins vakin á dómi Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016. Í honum kæmi fram að umhverfisáhrifum jarðstrengs samanborið við aðra valkosti hefði ekki verið nægilega lýst og að mati Hæstaréttar uppfyllti matsferli vegna Suðvesturlína ekki áskilnað laga um mat á umhverfisáhrifum þess efnis að gera yrði grein fyrir mögulegum valkostum. Stofnunin benti á að matsferli vegna Suðvesturlína hefði ekki aðeins tekið til Suðurnesjalínu, heldur einnig til þeirra lína sem samþykkt deiliskipulagsbreyting tæki til, þ.e. Lyklafellslínu og Búrfellslínu 3.

Erindi Landsnets var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 19. júní 2017. Var þar lögð fram skýrsla af hálfu Landsnets, sem unnin var af sömu verkfræðistofu og áður, um „Breytingar á Flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið: fyrirhugaðar framkvæmdir 2017-2019“ frá febrúar 2017. Í bókun við afgreiðslu ráðsins á erindinu er sérstaklega vísað til þessarar skýrslu um frekari skýringar og lýsingu á framkvæmdinni.

Í inngangi skýrslunnar kemur fram að Landsnet undirbúi nú framkvæmdir við þann hluta Suðvesturlína sem feli í sér færslu á 220 kV raflínum sem liggi næst höfuðborgarsvæðinu. Markmið skýrslunnar sé m.a. að draga fram þau atriði í mati á umhverfisáhrifum Suðvesturlína sem snúi að þessum framkvæmdum, gera grein fyrir kerfislægum áhrifum framkvæmdanna og fjalla um framkvæmdir innan vatnsverndarsvæða. Þá sé fjallað um jarðstrengskosti. Enda þótt fjallað hafi verið um jarðstrengi í gildandi mati á umhverfisáhrifum hafi undanfarið verið kallað eftir ríkari umfjöllun um möguleika þess að leggja raflínur sem jarðstrengi í stað loftlína, auk þess sem stjórnvöld hafi nýlega mótað stefnu um hvenær þeir komi til álita. Í skýrslunni er forsaga framkvæmdanna stuttlega rakin og þess getið að upphafleg áform um Suðvesturlínur hafi gert ráð fyrir umfangsmikilli og hraðri uppbyggingu stórnotenda á svæðinu, sem flutningskerfið þyrfti að anna. Sú aukning í flutningsþörf hafi vaxið hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir, en það breyti ekki í megindráttum þeirri framtíðarsýn sem lagt hafi verið upp með við mat á umhverfisáhrifum sem hlotið hafi samþykki á árinu 2009. Við mat á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir tveimur 400 kV línum og einni 220 kV á núverandi línuleið Búrfellslínu 3. Aðstæður nú kalli ekki á 400 kV flutningsgetu og því sé ráðgert að byggja Lyklafellslínu í upphafi sem 220 kV mannvirki, en eiga kost á að breyta því í 400 kV með einföldum og hagkvæmum hætti síðar.

Í umfjöllun í skýrslunni um kerfislegar forsendur Lyklafellslínu kemur fram að flutningsgeta hennar á 220 kV verði í upphafi 800 MVA, sem sé mikil geta og til þess gerð að hafa sveigjanleika í kerfinu til samræmis við áætlanir á suðvesturhorninu. Þegar hafi aðrar línur á suðvesturhorninu verið byggðar með 400 kV spennuhækkun í huga, en gengið verði skemur með Lyklafellslínu þar sem breyta verði möstrum til að hækka spennu. Forsendur mats á álagsþróun flutningskerfisins, sem liggi til grundvallar framkvæmdinni, byggi m.a. á tillögum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar um 400 MW afl í nýjum virkjunum á Suðurnesjum, auk stækkunar Reykjanesvirkjunar um 30-80 MW. Þá sé gert ráð fyrir nýjum notendum sem auka muni álag um allt að 300 MW, auk þess sem stór gagnaver kunni að bætast við. Með hliðsjón af mögulegri álagsaukningu á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum sé því skynsamlegast að byggja Lyklafellslínu með að lágmarki 600 MVA flutningsgetu á 220 kV spennu, sem síðar megi spennuhækka upp í 400 kV með flutningsgetu upp á rúmlega 1000 MVA.

Í skýrslunni er það metið sem svo frá kerfislegu sjónarhorni að lagning jarðstrengs frá Sandskeiði að Hrauntungum í Hafnarfirði, sem uppfylli kröfur um 600 MVA flutningsgetu og lagður sé sem tvö sett af álstrengjum, sé tæknilega möguleg, enda sé um að ræða einn sterkasta hluta kerfisins. Slík lögn myndi þó kalla á breytta útfærslu í Hafnarfirði þar sem ekki sé forsvaranlegt að tengja jarðstreng beint í álverið í Straumsvík. Þyrfti því annað hvort að flýta fyrirhugaðri byggingu nýs tengivirkis í Hrauntungum eða tengja jarðstrenginn í núverandi tengivirki í Hamranesi.

Sérstaklega er fjallað um jarðstrengjakosti í skýrslunni með þeim fyrirvara þó að með hliðsjón af þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sem samþykkt hafi verið af Alþingi 28. maí 2015, sé Landsneti ekki skylt, sbr. 1. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, að fjalla um jarðstrengjakosti þar sem Lyklafellslína falli ekki undir viðmið stjórnvalda um aðstæður sem réttlæti að dýrari kostur sé valinn. Hún sé að litlu leyti innan skilgreinds þéttbýlis, hindri ekki aðflug að flugvelli og sé ekki innan þjóðgarðs eða friðlands. Umfjöllun um jarðstrengjakosti sé því sett fram til upplýsingar. Við lagningu jarðstrengs séu tvær leiðir helst taldar koma til greina. Annars vegar að fylgja fyrirhugaðri loftlínuleið meðfram núverandi Búrfellslínu 3, en sá valkostur hefði í för með sér mikið óafturkræft jarðrask á yfirborði hrauna. Hins vegar væri mögulegt að fylgja Bláfjallavegi frá Sandskeiði að Hrauntungum, líkt og stýrihópur um vatnsvernd á höfðborgarsvæðinu hefði lagt til að kannað yrði í greinargerð sinni um heildarendurskoðun vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu frá febrúar 2015. Í greinargerðinni á bls. 74 sé boðuð framkvæmd talin ógn við neysluvatnsöryggi og þar talið að gera þurfi þá kröfu til Landsnets að kanna ítarlega hvort verðlags- og tæknibreytingar gefi ekki möguleika á að leggja áformaða línu í jörð meðfram Bláfjallavegi. Í ljósi áhættumats vegna vatnsverndar og þeirra skilyrða sem framkvæmdinni séu sett af þeim sökum sé fyrri kosturinn ekki talinn mögulegur og því sé einungis seinni kosturinn, meðfram Bláfjallavegi, tekinn til nánari skoðunar. Kostnaðarhlutfall þess valkostar á móti loftlínu sé metið 3,99/1. Flutningsgeta jarðstrengjanna yrði 650 MVA og loftlínu 800 MVA, sem í báðum tilvikum væri yfir þeim 600 MVA sem talin væri þörf á. Fjölga þyrfti strengjasettum til að auka flutningsgetu jarðstrengjanna, á meðan hægt væri með einföldum hætti að auka flutningsgetu loftlínu um 73% með hækkun á spennu upp í 400 kV. Jarðstrengir eftir Bláfjallavegi liggi að mestu á fjarsvæði vatnsverndar á meðan loftlína liggi að miklu leyti á grannsvæði vatnsverndar. Rask á hraunum sé töluvert meira vegna jarðstrengja samanborið við loftlínu.

Á fyrrnefndum fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 19. júní 2017 var framkvæmdaleyfisumsóknin afgreidd. Bókað var m.a. að ráðið teldi fyrirhugaða framkvæmd í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag Undirhlíða, eins og því hefði verið breytt 19. apríl 2017. Ráðið hefði kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína frá 2009, auk fyrrnefndrar skýrslu um breytingar á flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið 2017-2019 frá febrúar 2017.

Í bókun ráðsins kemur og fram að dómur Hæstaréttar um annan hluta Suðvesturlínu, sem hvíli á sama mati á umhverfisáhrifum og hér um ræði, eigi ekki við vegna ólíkra aðstæðna. Ekki sé um eignarréttarspursmál að ræða, enda eigi bærinn það land sem framkvæmdin taki til. Þá séu gríðarlegir almannahagsmunir fólgnir í því að losna við núverandi háspennulínur úr íbúðabyggð í Vallahverfi og af svæðum sem skipuleggja eigi undir ný hverfi, auk þess sem farið sé ítarlega yfir jarðstrengjakosti í samanburði við fyrirhugaða framkvæmd í fyrirliggjandi skýrslu frá febrúar 2017. Hæstiréttur hafi hvorki ógilt fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum né álit Skipulagsstofnunar heldur þvert á móti gefið til kynna að úr ágöllum væri unnt að bæta.

Framkvæmdin varði háspennulínur sem falli undir 9. gr. raforkulaga. Í því felist að á sveitarfélaginu hvíli skylda til að láta ekki skipulagsákvarðanir hindra framgang verkefna sem staðfest hafi verið í þriggja ára kerfisáætlun, en umrædd framkvæmd sé á slíkri áætlun. Kerfisáætlun hvíli jafnframt á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína frá 28. maí 2015. Annmarka á áliti Skipulagsstofnunar verði að skoða með tilliti til þess hvort þeir geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Slíkt sé vandséð þar sem það kalli á nýjar skipulagsáætlanir sem leiði til hindrana á framgangi framkvæmdar sem sé á kerfisáætlun.

Fjöldi gagna hafi verið rýndur vegna meðferðar umsóknarinnar af hálfu ráðsins í samræmi við áskilnað 10. gr. stjórnsýslulaga. Fyrirliggjandi gögn lýsi meðal annars umhverfisáhrifum jarðstrengs og beri saman við aðra kosti, sbr. fyrrnefnda skýrslu frá febrúar 2017. Þar komi fram að talsverður hluti línuleiðar liggi um eldhraun, sem njóti verndar skv. 61. gr. náttúrverndarlaga, og að með lagningu jarðstrengs yrði mikið óafturkræft rask á yfirborði þess sem væri margfalt að umfangi miðað við núverandi slóð. Þá sé bent á að í fyrirliggjandi áliti Skipulagsstofnunar komi fram að lagning jarðstrengja hafi almennt neikvæðari áhrif á jarðmyndanir en lagning loftlína. Í skýrslunni komi enn fremur fram að lagning jarðstrengs eftir loftlínuleiðinni hafi í för með sé umtalsvert meiri áhættu með tilliti til vatnsbóla vegna meiri vélavinnu.

Með vísan til fyrirliggjandi gagna virðist ráðinu sem lagning jarðstrengs feli í sér meiri óafturkræf umhverfisáhrif á jarðmyndanir en loftlína ef litið sé til verndargildis eldhrauna. Sjónræn áhrif séu ólík, þar sem rask vegna jarðstrengs sé samfelldara og breiðara. Hins vegar sjáist loftlínur úr meiri fjarlægð. Þrátt fyrir almennan áhuga sveitarstjórna á notkun jarðstrengja til raforkuflutninga telji ráðið gögn málsins sýna fram á að lagning jarðstrengs á hluta línuleiðar sé ekki vænlegur kostur. Ekki verði séð að í gögnunum skorti samanburð á framkvæmdakostum.

Gætt hafi verið að ákvæðum laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Framkvæmdin fari um hraun sem njóti verndar skv. 61. gr. laganna, og við skipulagsgerð hafi verið leitað eftir áliti Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 68. gr. þeirra. Jafnframt hafi verið óskað eftir umsögn Minjastofnunar, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Reynt hafi verið að haga skipulagsvinnu á þann veg að sem minnst rask yrði á hinu verndaða hrauni, en þó sé ljóst að hjá því verði ekki komist vegna markmiða framkvæmdarinnar og jarðfræðilegra staðhátta. Leitt hafi verið fram það rask á eldhraunum og tengdum jarðmyndunum sem brýna nauðsyn beri til í ljósi markmiða framkvæmdarinnar. Í því tilliti sé séstaklega horft til hagsmuna þeirra íbúa sem búi nærri núverandi háspennulínum og tengivirki.

Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar telji öll lagaskilyrði fyrir hendi til útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ráðið samþykki því fyrir sitt leyti umsókn Landsnets vegna Lyklafellslínu 1 og leggi til við bæjarstjórn að hún geri slíkt hið sama og að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tók síðan málið fyrir á fundi sínum hinn 21. júní 2017 og samþykkti samhljóða umsókn Landsnets frá 29. desember 2016 um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 með vísan til ofangreindrar bókunar skipulags- og byggingarráðs. Var skipulagsfulltrúa falið að gefa út leyfið, sem hann og gerði 22. s.m. Auglýsing um veitingu þess var birt í Lögbirtingablaðinu 3. júlí 2017.

Málsrök kærenda: Kærendur krefjast þess að ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1 verði felld úr gildi. Byggi krafan á nokkrum málsástæðum sem hver um sig sé til þess fallin að ógilda beri hina kærðu ákvörðun.

Matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur geti ekki talist lögmætur grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Sé þar sérstaklega vísað til þess að Hæstiréttur hafi talið á það hafa skort að umhverfisáhrifum jarðstrengs væri nægilega lýst í samanburði við aðra framkvæmdarkosti og hafi matsferlið og matsskýrslan því ekki uppfyllt lagaáskilnað um mat á umhverfisáhrifum. Hafi því matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar á henni ekki getað talist lögmætur grundvöllur undir ákvörðun sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfis í því máli. Úr þeim galla hafi ekki verið bætt, enda geti valkostaskýrsla Landsnets frá október 2016 hvorki samkvæmt grundvelli sínum, efni, né tilgangi bætt þar úr. Skipulagsstofnun hafi í bréfi til Hraunavina, dags. 15. maí 2017, gefið álit sitt á þýðingu þessa dóms fyrir aðra hluta Suðvesturlína og talið að hann ætti við um það mat á umhverfisáhrifum sem lægi þeim til grundvallar og hefði því þýðingu þar sem jarðstrengur yrði talinn raunhæfur valkostur í heild eða að hluta.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í málum nr. 109/2015, 42/2015 og 75/2014, frá 28. mars 2017, fellt úr gildi framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 með vísan til fyrrgreindrar niðurstöðu Hæstaréttar um að mat á umhverfisáhrifum vegna Suðvesturlína og álit Skipulagsstofnunar á því geti ekki talist lögmætur grundvöllur útgáfu framkvæmdaleyfis. Í bókun sem fylgdi hinu kærða framkvæmdaleyfi sé vísað til þess að nefndur dómur Hæstaréttar og úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndarinnar hafi ekki þýðingu fyrir Lyklafellslínu 1, þar sem dómurinn grundvallist á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Kærendur benda á að mál nr. 109/2015 fyrir úrskurðarnefndinni hafi snúið að framkvæmdaleyfi á línuleið sem hafi legið að mestu á landi í eigu Hafnarfjarðarbæjar, líkt og Lyklafellslína 1. Í bókuninni sé jafnframt vísað til fyrrnefndrar valkostaskýrslu og skýrslu um breytingar á flutningskerfi höfuðborgarsvæðisins frá febrúar 2017, sem hluta af rannsókn sveitarfélagsins, en á það sé bent að Hæstiréttur hafi þegar kveðið upp úr um að valkostaskýrslan geti ekki bætt úr ágöllum matsskýrslunnar og hið sama megi ætla um aðrar skýrslur sem gerðar séu einhliða af eða fyrir Landsnet, án aðkomu almennings og hagsmunaaðila í athugasemdaferli.

Landsnet og Hafnarfjarðarbær hafi haft með sér ólögmætt samráð í ágúst 2009 um línuleið Sandskeiðslínu 1 og þar með útilokað að um aðra valkosti væri fjallað með raunhæfum hætti í matsskýrslu. Samkomulagið hafi hindrað þátttöku almennings í athugasemdaferlinu þar sem allir valkostir hefðu ekki verið uppi á borðinu m.a. við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Samkomulagið hafi þar með verið ólöglegt, sem leiði til þess að matið sé einnig ólöglegt, enda hafi verið búið að semja um ákveðna kosti fyrirfram. Hið sama eigi við um viðauka við samkomulagið frá 25. október 2012, sem hindrað hafi aðkomu almennings að umsagnarferli aðalskipulags Hafnarfjarðar. Vísað sé til dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-1121/2015, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2016, þessari málsástæðu til stuðnings.

Framkvæmdin sé ekki heimil innan grannsvæðis vatnsverndar höfuðborgarsvæðisins með vísan til 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Ljóst sé að fyrirhuguð lína muni á 16 km kafla liggja innan grannsvæðis vatnsverndar og þar á meðal alveg við brunnsvæðin í Mygludölum. Framkvæmdir við lagningu línunnar, viðhald á líftíma hennar og eftirlit með henni muni hafa í för með sér hættu á olíu- og öðrum efnaslysum. Þá sé hætta á sinkmengun af möstrunum. Öll mengandi efni sem berist í grunnvatn sunnan brunnsvæða muni berast í vatnsbólin fyrr eða síðar. Vatnsbólin séu á meðal mikilvægustu auðlinda þjóðarinnar og því beri áform um stórframkvæmdir og rekstur háspennulínu innan grannsvæða vatnsverndar vott um fádæma skammsýni. Framkvæmdin sé ekki heimil samkvæmt reglugerð um varnir gegn mengun vatns.

Fyrirhuguð framkvæmd sé ekki sú sama og sætt hafi mati á umhverfisáhrifum Suðvesturlína eða sú framkvæmd sem fengið hafi samþykki Orkustofnunar í Kerfisáætlun Landsnets. Í matsskýrslu sé fjallað um Sandskeiðslínu 1 sem 24 km, 400 kV háspennulínu, á V-möstrum með 1630 MVA flutningsgetu. Jafnframt sé áætlað að reisa aðra línu af sömu stærð og flutningsgetu, sem sett sé sem skilyrði fyrir niðurrifi Hamraneslína. Áætluð Lyklafellslína sé hins vegar 27,2/27,3 km, 220 kV háspennulína, á M-möstrum með >800 MVA flutningsgetu. Upplýsingar í Kerfisáætlun Landsnets um framkvæmdina séu auk þess ekki í samræmi við þau áform sem uppi séu, en í bókun Hafnarfjarðarbæjar við samþykkt framkvæmdaleyfisins hafi þess verið getið að gert væri ráð fyrir framkvæmdinni í Kerfisáætlun Landsnets, sem hlotið hefði samþykki Orkustofnunar.

Verulegar breytingar hafi orðið á forsendum matsskýrslu Landsnets um Suðvesturlínur frá árinu 2009. Í forsendukafla skýrslunnar hafi verið getið ýmissa fyrirhugaðra virkjunarkosta sem ekki hafi komið til framkvæmda og/eða séu ekki lengur á dagskrá. Þar megi nefna Hverahlíðarvirkjun, Bitruvirkjun, stækkun Reykjanesvirkjunar og virkjun í Eldvörpum. Í forsendum skýrslunnar sé einnig getið fyrirhugaðrar uppbyggingar orkufrekrar iðnaðarstarfsemi, m.a. byggingar álbræðslu í Helguvík með 435 MW aflþörf, og aukinnar orkuþarfar Straumsvíkur um 75-95 MW. Þá séu nefnd netþjónabú með allt að 250 MW aflþörf og kísilmálmverksmiðja í Helguvík með allt að 100 MW aflþörf. Samtals séu þetta 880 MW. Álbræðslan í Helguvík virðist nú endanlega úr sögunni, ekki hafi orðið af stækkun í Straumsvík og fyrri kísilmálmverksmiðjan í Helguvík glími við ómælda byrjunarörðugleika. Ljóst sé að framkvæmd Lyklafellslínu 1 sé ekki hugsuð til styrkingar kerfisins vegna aukinnar flutningsþarfar, heldur einungis til þess að leysa af hólmi línur sem í dag flytji einungis 30% af því rafmagni sem flutningsgeta þeirra leyfi.

Þá sé Lyklafellslína 1 óheimil með hliðsjón af lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd nema um brýna nauðsyn sé að ræða. Húsafellsbruna hafi verið spillt nokkuð með lagningu Búrfellslínu 3B árið 1991. Samkvæmt mati Landsnets á umhverfisáhrifum og samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar þyki nánast sjálfsagt að raska þessu hraunsvæði enn frekar. Könnun kærenda hafi leitt í ljós óafturkræft rask vegna lagningar Búrfellslínu 3B á 13,6 ha svæði og megi ætla að það muni aukast um 9,3 ha verði af áformum um tvær nýjar línur samhliða henni. Þá hafi gróðurskemmdir vegna sinkmengunar mælst á 10,3 ha svæði við Búrfellslínu 3B og því megi gera ráð fyrir gróðurskemmdum á 20,6 ha svæði í viðbót verði af áformum um tvær nýjar línur.

Loks hafi skort á að leyfisveitandi sinnti rannsóknarskyldu sinni, enda hafi hann ekki einu sinni gengið úr skugga um hvort um væri að ræða sömu framkvæmd og lýst væri í matsskýrslunni. Verulega hafi skort á að sveitarfélagið legði mat á fyrirliggjandi gögn og hefði hin kærða ákvörðun því ekki verið byggð á traustum grunni. Þetta sé verulegur annmarki á málsmeðferðinni, sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Málsatvik séu önnur en þau sem fjallað sé um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2016. Hið kærða framkvæmdaleyfi taki til framkvæmdar sem að öllu leyti muni fara fram á landi í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Hafi sveitarfélagið samþykkt skipulag fyrir svæðið sem um ræði og muni framkvæmdin samræmast því. Komi því ekki til álita eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Gríðarlegir almannahagsmunir liggi framkvæmdinni til grundvallar vegna legu núverandi lína nærri íbúðabyggð. Hæstiréttur hafi hvorki ógilt umrædda matsskýrslu né álit Skipulagsstofnunar á henni og hafi auk þess gefið til kynna að unnt væri að bæta úr ágöllum á matinu. Tilvísun kærenda til ágalla á matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar hafi takmarkaða þýðingu við mat á hinu kærða framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin sé í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi sætt umhverfismati. Þá beri sveitarstjórn að tryggja að skipulagsáætlanir hindri ekki framgang kerfisáætlunar, sem jafnframt hvíli á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína frá 2015. Þýðingu annmarka á áliti Skipulagsstofnunar verði að skoða í ljósi þess hvort þeir geti haft efnisleg áhrif á niðurstöðu málsins. Hafnarfjarðarbær hafi uppfyllt skilyrði laga nr. 106/2000 um lágmarksrökstuðning og efnisinnihald til þess að réttar forsendur væru til þess að sveitarstjórn gæti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi, sbr. bókun skipulags- og byggingarráðs við afgreiðslu málsins.

Ekki sé hægt að draga þær ályktanir af dóma- og úrskurðaframkvæmd um Suðurnesjalínu 2 að hún hafi fordæmisgildi fyrir fyrirliggjandi framkvæmd þótt báðar framkvæmdirnar hvíli á sama umhverfismatinu. Samningar liggi fyrir við alla landeigendur vegna Lyklafellslínu 1 og engar athugasemdir hafi komið fram við mat á umhverfisáhrifum um að skoða þyrfti lagningu jarðstrengja, enda sé lagning þeirra á línuleið Lyklafellslínu 1 útilokuð vegna legu um grannsvæði vatnsverndar.

Óhjákvæmilegt verði að telja að framkvæmdaraðilar og skipulagsyfirvöld hafi samráð um framkvæmdir af því tagi sem hið kærða leyfi snúi að, enda hafi lega slíkra mannvirkja mikil áhrif á möguleika sveitarfélagsins til skipulagningar nýrra hverfa.

Því sé mótmælt að óheimilt sé að leggja háspennulínur um vatnsverndarsvæði, sbr. 70. gr. samþykktar nr. 555/2015 um verndunarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í samræmi við tilvitnað ákvæði hafi verið gefið út starfsleyfi vegna lagningar Lyklafellslínu 1, sem hafi legið fyrir við afgreiðslu framkvæmdaleyfisins. Til þess bær yfirvöld hafi fjallað um starfsleyfi vegna framkvæmda á vatnsverndarsvæðum og komi þær ekki til endurskoðunar í þessu máli.

Verði ekki annað séð en að umsóknin um framkvæmdaleyfi hafi verið að öllu leyti í samræmi við umfjöllun í matsskýrslu um línuleiðina „Sandskeið-Hrauntungur“. Þótt umsóknin sé um eina háspennulínu á 220 kV spennu séu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar rækilega tíunduð í matsskýrslunni. Ekki verði séð að minna umfang línunnar hafi áhrif að því leyti. Líta verði því svo á að framkvæmdin sé sú sama og hafi verið metin í matsskýrslu. Öll skilyrði hafi því verið uppfyllt til útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Forsendur matsskýrslu um niðurrif Hamraneslína og þess að Lyklafellslína 1 komi í þeirra stað hafi ekki breyst.

Farið hafi fram ítarlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda, t.d. við töku ýmissa skipulagsákvarðana sem varði línuleiðina. Í ljósi þess að fyrirhugað línustæði fylgi þegar byggðri línu og að þegar gerður línuvegur geti því nýst við framkvæmdina valdi fyrirhuguð framkvæmd umtalsvert minna raski á landi og umhverfi heldur en flutningur raforku um jarðstreng. Með vísan til þessa hafi umræddar skipulagsákvarðanir verið teknar. Því sé mótmælt að ákvæði náttúruverndarlaga standi í vegi fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins.

Meðferð sveitarfélagsins á umsókn Landsnets hafi verið ítarleg og vönduð. Frá upphafi hafi fjöldi gagna og upplýsinga um málið legið fyrir. Aflað hafi verið viðbótargagna á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga til að tryggja að ákvörðunin yrði byggð á fullnægjandi grundvelli. Öll fyrirliggjandi gögn hafi verið rýnd og sjálfstætt mat lagt á efni þeirra, sbr. ítarlega bókun skipulags- og byggingarráðs við afgreiðslu umsóknar Landsnets. Telja verði hina kærðu ákvörðun nægilega rökstudda með vísan til 2. mgr. 14. gr. skipulagsslaga og 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Athugasemdir leyfishafa:
Af hálfu leyfishafa er kröfum kærenda mótmælt. Sé á það bent að í dómi Hæstaréttar, í máli nr. 575/2016, hafi m.a. verið byggt á því að landeigendur hafi frá upphafi gert ítrekaðar athugasemdir við valkosti fyrirhugaðra framkvæmda við Suðurnesjalínu 2 og að því hafi ekki verið hnekkt, sem haldið hafi verið fram frá upphafi undirbúnings, að jarðstrengur í stað loftlínu væri raunhæfur valkostur sem kanna þyrfti til þrautar. Það hafi hins vegar ekki verið gert að öðru leyti en því að vísað hafi verið til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja. Með vísan til þessa telji leyfishafi að ekki sé unnt að draga þá algildu ályktun af dómi Hæstaréttar að matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar séu ekki lögmætur grundvöllur undir þær fjölmörgu framkvæmdir sem falli undir Suðvesturlínuverkefnið. Af bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 15. maí 2017, megi enda skilja að meta verði í hvert skipti fyrir sig hvort jarðstrengur verði talinn raunhæfur kostur í heild eða að hluta.

Engar athugasemdir hafi komið fram í matsferlinu sem hafi gefið tilefni til að kanna kosti jarðstrengs á þeirri leið sem hér sé fjallað um. Þá sé bent á dóm Hæstaréttar í máli nr. 193/2017 um eignarnámsákvörðun vegna Kröflulínu 4 og 5. Þar hafi verið gerð sérstök skoðun að tilhlutan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á möguleika á notkun jarðstrengs áður en stjórnsýsluákvörðun var tekin í málinu. Í dóminum hafi verið bent á að með réttu hefði slík könnun átt að eiga sér stað við samanburð valkosta á fyrri stigum málsins. Með rannsókninni hefði hins vegar verið bætt með fullnægjandi hætti úr þessum annmarka á málsmeðferðinni.

Þær upplýsingar og skýrslur sem Landsnet hafi lagt fram með hinu kærða framkvæmdaleyfi verði því að meta sérstaklega með tilliti til fyrirliggjandi framkvæmdar. Þær skýrslur verði ekki lagðar að jöfnu við þá skýrslu sem gerð hafi verið um valkosti vegna Suðurnesjalínu 2, sem ekkert stjórnvald hefði fjallað um né heldur héraðsdómur. Skýrslan hafi eingöngu legið fyrir Hæstarétti. Fallist sé á að sú skýrsla hafi ekki getað komið í stað ferlis á grundvelli laga nr. 106/2000 og veitt svör við spurningum sem fram hefðu komið við kynningu á frummatsskýrslu á árinu 2009. Engar slíkar spurningar hafi hins vegar komið fram í matsferli Lyklafellslínu 1 og gögnin þar af leiðandi ólík. Með hliðsjón af þessu sé því hafnað að allar skýrslur sem gerðar séu af Landsneti séu settar undir sama hatt og nefnd valkostaskýrsla.

Enn fremur sé bent á niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 148/2016, þar sem kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfis vegna Kröflulínu 4 hafi verið hafnað með vísan til sömu viðbótarupplýsinga og fjallað hafi verið um í dómi héraðsdóms og Hæstaréttar um sömu háspennulínu. Þá gefi úrskurður úrskurðarnefndarinnar, í máli nr. 46/2016, mikilsverðar leiðbeiningar, sem styðji þá niðurstöðu að hafna beri kröfu kærenda í fyrirliggjandi máli, enda þótt að í því máli hafi framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4 verið fellt úr gildi.

Lyklafellslína sé hönnuð fyrir meiri raforkuflutning heldur en Suðurnesjalína 2, með spennuhækkun í 400 kV. Þá sé ljóst að jarðstrengur muni ekki verða lagður á þessari línuleið, m.a. vegna vatnsverndarsjónarmiða. Fyrir liggi athuganir vegna legu jarðstrengja meðfram Bláfjallavegi sem styðji þá niðurstöðu að jarðstrengur sé ekki raunhæfur kostur við þessa framkvæmd. Jarðstrengir séu takmarkaðir við 220 kV spennu til frambúðar.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 109/2015, 42/2015 og 75/2014 hafi verið rökrétt með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2016, enda hafi þau framkvæmdarleyfi sem þar hafi verið til skoðunar snúið að sömu framkvæmd, þ.e. Suðurnesjalínu 2. Þau sjónarmið sem þar hafi verið uppi eigi hins vegar ekki við um Lyklafellslínu 1, enda aðstæður ólíkar.

Samkomulag Hafnarfjarðarbæjar og Landsnets hafi verið undirritað 25. ágúst 2009, en framkvæmdin og frummatsskýrslan hins vegar verið auglýst opinberlega 20. maí 2009 og legið frammi til kynningar til 2. júlí s.á. Óhjákvæmilegt sé að framkvæmdaraðilar og skipulagsyfirvöld hafi samráð sín á milli um stórar framkvæmdir sem þessa sem nái yfir mörg sveitarfélög. Því til stuðnings megi benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 579/2010, sem fjalli um gerð aðalskipulags í Flóahreppi. Almenningur og þar með kærendur hafi haft ýmis tækifæri á liðnum árum til að gera athugasemdir við framkvæmdina. Þrátt fyrir samkomulagið hefði Hafnarfjarðarbæ verið kleift að taka aðra ákvörðun um línulögn innan sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafi ekki skuldbundið sig með samkomulaginu heldur náð fram þeim markmiðum sem það hafi stefnt að í skipulagsáætlunum sínum. Einnig hafi verið gert samkomulag við Voga vegna Suðurnesjalínu 2, en forsendur dóms Héraðsdóms Reykjaness hafi ekki gildi um það þar sem Hæstiréttur hafi ekki vísað til þessara forsendna þegar framkvæmdaleyfið vegna línunnar hafi verið fellt úr gildi. Öll málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar um umsókn Landsnets sýni enda að ekki hafi verið sjálfgefið að framkvæmdaleyfið vegna loftlínu yrði veitt.

Þá verði 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns ekki skilin sem svo að lagning háspennulína um vatnsverndarsvæði sé útilokuð, enda geri 70. gr. samþykktar nr. 555/2015 ráð fyrir því að bygging háspennulínu innan vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins sé starfsleyfisskyld. Slíkt starfsleyfi vegna framkvæmdarinnar hafi verið gefið út 9. júní 2017 og sæti ekki endurskoðun í fyrirliggjandi máli fyrir úrskurðarnefndinni.

Umsókn um framkvæmdaleyfið hafi að öllu leyti verið í samræmi við umfjöllun í matsskýrslu um línuleiðina „Sandskeið-Hrauntungur“. Þrátt fyrir að einvörðungu sé gert ráð fyrir einni háspennulínu í þessum áfanga séu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar rækilega tíunduð. Minna umfang hafi ekki áhrif að því er varði breytta framkvæmd í skilningi laga nr. 106/2000. Til hliðsjónar sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 46/2016. Í matsskýrslunni komi fram að samræmis skuli gætt við val á möstrum og sýnd sé mynd af valkostum vegna 400 kV mastra, sem geti bæði verið V- og M-möstur. Þar sem Búrfellslína 3 sé með M-möstrum hafi Lyklafellslínu verið valin slík möstur.

Með Suðvesturlínum sé mörkuð stefna um framtíðarlegu orkuflutningskerfisins við höfuðborgarsvæðið, sem unnið sé að í áföngum. Enn sé afhendingaröryggi á Reykjanesi óviðunandi að mati Landsnets og því þörf á uppbyggingu Suðurnesjalínu 2. Að sama skapi eigi að taka Hamraneslínur úr rekstri, en Lyklafellslína komi í þeirra stað. Þessar forsendur hafi ekki breyst frá því framkvæmdin hafi sætt mati á umhverfisáhrifum. Því sé ekki um verulegan forsendubrest að ræða líkt og kærendur haldi fram.

Fjallað hafi verið um áhrif framkvæmdarinnar með tilliti til 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 og sú ákvörðun tekin að Lyklafellslína skyldi fara um núverandi mannvirkjabelti Búrfellslínu 3.

Því sé mótmælt að skort hafi á að sveitarfélagið legði mat á fyrirliggjandi gögn og hefði þar af leiðandi ekki byggt ákvörðun sína á traustum grunni. Hafi skilyrðum 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verið fullnægt að öllu leyti.

Niðurstaða: Fyrirhugað er að leggja háspennulínu frá Sandskeiði að Hrauntungum í Hafnarfirði og þaðan að álverinu í Straumsvík. Mun línan liggja um Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog og Mosfellsbæ. Framkvæmdin mun hafa staðið fyrir dyrum um langt skeið, en mati á umhverfisáhrifum lauk með áliti Skipulagsstofnunar 17. september 2009 á umhverfisáhrifum Suðvesturlína. Hluti af því mati tók til Sandskeiðslínu 1, en hún gengur nú undir nafninu Lyklafellslína 1. Lýtur hin kærða ákvörðun að samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 21. júní 2017 um að veita framkvæmdaleyfi vegna lagningar línunnar, en það var veitt á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010. Halda kærendur því m.a. fram að skilyrði þeirra laga hafi ekki verið uppfyllt og að mat það sem fram hafi farið á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar geti ekki verið grundvöllur leyfisveitingarinnar þar sem það hafi verið haldið ágöllum, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og dómaframkvæmd Hæstaréttar. Auk þess skírskota kærendur til laga um náttúruvernd nr. 60/2013, rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. og stjórnsýslulög nr. 37/1993, sem og sjónarmiða um vatnsvernd, sbr. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

—–

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila um Suðvesturlínur er því lýst að auk núverandi 220 kV flutningskerfis frá Þjórsár–Tungnaársvæðinu sé uppbygging fyrirhuguð á 400 kV kerfi frá Hellisheiði að nýju tengivirki við Hrauntungur í Hafnarfirði, auk 220 kV flutningskerfis um Reykjanesskaga. Samhliða sé gert ráð fyrir niðurrifi eldri lína, en í sumum tilvikum kalli slíkt niðurrif á aukna flutningsgetu annarsstaðar, t.d. þurfi að auka flutningsgetu á milli Sandskeiðs og Hafnarfjarðar í kjölfar niðurrifs Hamraneslína á milli Geitháls og Hafnarfjarðar. Stefnt sé að því að 400 kV kerfi tengi virkjanir á Þjórsársvæðinu, annars vegar við Brennimel í Hvalfirði og hins vegar við tengivirki sunnan Hafnarfjarðar. Gert sé ráð fyrir tveimur 400 kV línum frá Sandskeiði til Hafnarfjarðar. Önnur sé lúkning Búrfellslínu 3 og sé hin Sandsskeiðslína 1, en hún sé jafnframt forsenda þess að hægt sé að fjarlægja Hamraneslínur. Þá er því lýst að til hagræðis sé fyrirhuguðum línuleiðum skipt í tíu svæði frá austri til vesturs og sé framkvæmdum og umhverfisáhrifum lýst innan hvers svæðis. Meðal þeirra eru svæðin Sandskeið að Hrauntungum og Hrauntungur að Hamranesi og Straumsvík. Algengustu möstrin verði tvenns konar eftir stærð lína. Annars vegar V-möstur fyrir 400 kV línur og hins vegar M möstur fyrir 220 kV línur. Markmiðið sé að hafa sem mest samræmi í útliti mastra á sérhverju svæði. Í töflu 2.4 er að finna einkennistölur flutningslína og kemur þar fram að Sandskeiðslína 1 liggi um svæðið Sandskeið-Hrauntungur og verði 23,7 km að lengd. Einnig að Ísallínur 3 og 4 liggi um svæðið Hraunhella-Straumsvík og séu 1,7/3,6 km að lengd. Kemur og fram í skýrslunni að Sandskeiðslína verði byggð sem 400 kV lína en Ísallínur sem 220 kV línur. Um kerfislausnir segir að við uppbyggingu flutningskerfis raforku á síðasta áratug hafi Landsneti orðið ljóst að sífellt erfiðara yrði að fá leyfi til línulagna og væri því horft til kerfis með færri en öflugri línum í stað kerfis með fleiri línum og lægri flutningsgetu. Ákveðnar línur muni verða hluti af 400 kV kerfi, en 220 og 132 kV línur muni tengjast inn í hnútapunkta 400 kV kerfisins. Ákvörðun um hvenær hefja eigi rekstur 400 kV spennu sé háð mörgum þáttum, þ. á m. stærð og staðsetningu virkjana og orkufreks iðnaðar eða þjónustu. Kemur og fram í kafla um framkvæmdatíma og áfangaskiptingu að í 3.-4. áfanga felist m.a. bygging 220/400kV Sandskeiðslínu 1.

Með hinu umdeilda framkvæmdaleyfi er veitt leyfi fyrir umsóttri línu og vísað til umsóknar framkvæmdaraðila fyrir 220/400 kV háspennulínu, sem reist verði á milli tengivirkja við Sandskeið og í Hafnarfirði. Í umsókninni kemur fram að nauðsynlegt sé að reisa nýja 220 kV háspennulínu sem annað geti orkuflutningum til Hafnarfjarðar í stað Hamranesslína 1 og 2, sem teknar verði úr notkun þegar framkvæmdum við hina umsóttu framkvæmd verði lokið. Í umsókninni var vísað sérstaklega til greinargerðarinnar „Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis“ hvað varðaði skýringar og lýsingar á framkvæmdinni. Þar kemur fram að frá Sandskeiði sé reiknað með að leggja loftlínu meðfram Búrfellslínu 3 að Stórhöfða í Hafnarfirði. Þaðan muni línan víkja frá Búrfellslínu og liggja um Hrauntungur að álverinu í Straumsvík. Reist verði stálgrindarmöstur frá Sandskeiði að Hrauntungum, og er þar um að ræða M-möstur, en þaðan að álverinu verði reist frístandandi röramöstur. Jarðvírar verði á möstrum á um 1,5 km kafla næst Sandskeiði og frá Stórhöfða í Hafnarfirði að álverinu í Straumsvík á um 5,5 km kafla. Helstu einkennistölur eru birtar í töflu 1 og þar kemur fram að Sandskeiðslína 1 um svæðið Sandskeið-Hrauntungur muni verða alls 24 km, þar af 10 km innan Hafnarfjarðar. Sandskeiðslína 1 um svæðið Hrauntungur-Straumsvík sé alls 3,5 km, að öllu leyti innan Hafnarfjarðar. Í umsókninni, sbr. og greinargerðina, kemur fram að umsótt framkvæmd sé 220/400 kV háspennulína, sem lögð verði sem 220 kV í upphafi með þeim möguleika að breyta henni í 400 kV línu ef þörf krefji. Í skýrslunni „Breytingar á flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið“ er að finna töflu yfir helstu einkennistölur nýrra og fjarlægðra raflína og kemur þar fram að nýbygging Sandskeiðslínu 1 feli í sér 27,2 km langa raflínu og er tiltekið að í mati á umhverfisáhrifum hafi verið um tvær háspennulínur að ræða, þ.e. Sandskeiðslínu 1 frá Sandskeiði að Hrauntungum og Ísallínu 4 frá Hrauntungum að Straumsvík. Í Kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 er línuleið Sandskeiðslínu 1 tiltekin Sandskeið að Hrauntungum, Hrauntungur að Hamranesi og Straumsvík, án nánari tilgreiningar á lengd línunnar.

Vissrar ónákvæmni gætir í því sem að framan er rakið um raunverulega lengd umræddrar háspennulínu. Er hún ýmist sögð 27,2 km, 27,3 km eða 27,5 km að lengd. Ósamræmið er þó ekki slíkt að vafi leiki á um það hvort hin leyfða framkvæmd sé hin sama og fjallað var um ásamt öðrum framkvæmdum í mati á Suðvesturlínum heldur verður að telja hana þá hina sömu með hliðsjón af öðru því sem að framan greinir og gögnum málsins að öðru leyti. Var þar enda gert ráð fyrir niðurrifi Hamraneslína og frekari uppbyggingu innan mannvirkjabeltis Búrfellslínu 3, auk þess sem nefnt var sérstaklega að auka þyrfti flutningsgetu á milli Sandskeiðs og Hafnarfjarðar með byggingu Sandskeiðslínu 1 kæmi til niðurrifs Hamraneslína. Um sömu framkvæmd var því að ræða í skilningi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

—–

Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins „Höfuðborgarsvæðið 2040“ er vikið að því að þar sé svæði fyrir orkufrekan iðnað sem tengist grunnneti flutningslína raforku. Stefnt sé að því að háspennulínum innan höfuðborgarsvæðisins verði ekki fjölgað og frekar horft til þess að leggja jarðstrengi eða auka flutningsgetu þeirra háspennulína sem fyrir séu. Raflínur eru sýndar á korti 6 og er þar m.a. sýnd sú línuleið sem fyrirhugað er að Lyklafellslína 1 liggi um. Breyting á þágildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 vegna Suðvesturlína var kynnt á árinu 2010 og samþykkt af bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Breytingin var afgreidd af Skipulagsstofnun á árinu 2011 og staðfesti umhverfisráðherra hana á árinu 2013. Með breytingunni var m.a. bætt við 400 kV Sandskeiðslínu 1 í lofti og 220 kV loftlínum, Ísallínum 3 og 4, og þær sýndar á breyttum aðalskipulagsuppdrætti. Er lega línanna sú sama og hér um ræðir. Enn er gert ráð fyrir sömu línuleið í gildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, sem tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. júlí 2014. Deiliskipulag Undirhlíða, svo sem því var breytt fyrri hluta ársins 2017 sýnir jafnframt hluta línuleiðarinnar. Var áskilnaði 4. mgr. 13. skipulagslaga, um að framkvæmd skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir, fullnægt samkvæmt framangreindu, sem og því skilyrði að sveitarstjórn skuli fjalla um og taka afstöðu til þess atriðis, enda var staðfest í bæjarstjórn bókun skipulags- og byggingarráðs þar sem m.a. kom fram að það teldi fyrirhugaða framkvæmd í samræmi við gildandi aðalskipulag, sem og deiliskipulag Undirhlíða.

Greindar skipulagsáætlanir sættu allar umhverfismati áætlana í samræmi við lög þess efnis nr. 105/2006. Það gerði og Kerfisáætlun Landsnets 2015-2024, sem samþykkt var 25. apríl 2016 af Orkustofnun. Hluti hennar er framkvæmdaáætlun 2016-2018 þar sem m.a. er fjallað um Sandskeiðslínu 1 og hún sýnd á mynd 5-13. Meðfylgjandi umhverfisskýrsla ásamt viðaukum dregur fram umhverfisáhrif línunnar og byggir sú umfjöllun á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Framkvæmdaleyfið á sér því stoð í áætlunum sem sætt hafa umhverfismati áætlana.

—–

Meginágreiningur kærumáls þessa lýtur hins vegar að því hvort að hin umdeilda leyfisveiting geti byggst á mati á umhverfisáhrifum, er kærendur halda fram að sé haldið annmörkum hvað varði umfjöllun um valkosti framkvæmdarinnar, einkum jarðstrengi.

Um útgáfu framkvæmdaleyfa vegna matskyldra framkvæmda á borð við þá sem hér um ræðir fer eftir 13. og 14. gr. skipulagslaga. Á meðal frumskilyrða fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis er að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar eða að öðrum kosti ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld, sbr. 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Svo sem bókað var við meðferð málsins hjá Hafnarfjarðarbæ er álit Skipulagsstofnunar lögbundið en ekki bindandi. Það þarf lögum samkvæmt að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfisveitingu að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Skyldur leyfisveitanda ná því einnig til þess að kanna hvort einhverjir þeir efnisannmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar, eða svo verulegir annmarkar á málsmeðferð, að bæta verði úr eða að á álitinu verði ekki byggt. Lýtur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti.

Lög nr. 106/2000 lýsa málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaraðili leggur fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar þar sem m.a. skal lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma, sbr. 2. málslið 1. mgr. 8. gr. laganna. Fallist Skipulagsstofnun á matsáætlun skal framkvæmdaraðili vinna frummatsskýrslu skv. 9. gr. í samræmi við áætlunina þar sem tilgreina skal umhverfisáhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem kunni að fylgja fyrirhugaðri framkvæmd og starfsemi. Skal og ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Að fengnum umsögnum og athugasemdum skal framkvæmdaraðili skv. 6. mgr. 10. gr. vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu. Skipulagsstofnun gefur svo rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerða settum samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna.

Á þeim tíma sem mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína fór fram gilti reglugerð nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Þar sagði í h-lið 1. tölul. 2. mgr. 18. gr. að í frummatsskýrslu skyldi, eftir því sem við ætti, koma fram yfirlit yfir valkosti sem grein væri gerð fyrir í frummatsskýrslu, svo sem aðra kosti varðandi tæknilega útfærslu framkvæmdar eða starfsemi, aðra staðarvalkosti eða núllkost, sem fæli það í sér að aðhafast ekkert. Loks sagði í e-lið 3. tölul. 2. mgr. 18. gr. að í mati á umhverfisáhrifum skyldi, eftir því sem við ætti, koma fram samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir væru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Fram kemur í skýringum við áðurnefnda 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum, að helstu breytingar frá gildandi lögum felist í því að lagt sé til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 97/11/EB að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þá er tekið fram: „Nýmæli þetta hefur mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin.“

Af því sem rakið hefur verið er ljóst að samanburður umhverfisáhrifa raunhæfra valkosta er lykilatriði í mati á umhverfisáhrifum.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 575/2016 er fjallað um lögmæti framkvæmdaleyfis vegna annars hluta Suðvesturlína. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að því hefði ekki verið hnekkt að jarðstrengur í stað loftlínu væri raunhæfur kostur og jarðstrengur hefði því, í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, verið möguleiki um framkvæmdarkost sem til greina hefði getað komið. Það væri ágalli á matinu að jarðstrengskosti hefði ekki verið lýst í matsskýrslu með öðrum hætti en svo að vísað hefði verið til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja og teldist sá valkostur því ekki hafa verið borinn saman við annan eða aðra framkvæmdarkosti. Gæti nefnd matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar á henni því ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis, enda hefði ekki verið úr þeim ágalla bætt á síðari stigum.

Í því máli sem hér um ræðir liggur fyrir sama mat á umhverfisáhrifum og sama álit Skipulagsstofnunar og talinn var ólögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis vegna annars hluta Suðvesturlína. Umfjöllun um jarðstrengi er því sama marki brennd og talin var ófullnægjandi í greindum dómi. Atvik kærumáls þessa eru hins vegar ekki fyllilega sambærileg við þau atvik sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar og verður því að skoða sérstaklega hvort þau atvik séu uppi sem leiða til þess að bera hefði átt saman umhverfisáhrif þess að leggja Lyklafellslínu 1 sem jarðstreng og sem loftlínu.

Það er frumskylda framkvæmdaraðila að meta umhverfisáhrif þeirra valkosta sem til greina koma og bera þau saman. Skiptir því ekki höfuðmáli hvort að athugasemdir hafi komið fram við mat á umhverfisáhrifum um að meta eigi aðra þá kosti en framkvæmdaraðili leggur fram til mats heldur ber framkvæmdaraðila ótvíræð skylda til að framkvæma víðtæka könnun á þeim möguleikum sem til greina koma. Hlýtur það að eiga sérstaklega við á svæðum þar sem mikillar aðgæslu er þörf. Staðhættir eru þannig að illmögulegt er að flytja rafmagn á svæðinu, hvort sem er um loftlínu eða jarðstreng, án þess að raska svæði sem einhvers konar verndar nýtur að lögum. Er val framkvæmdaraðila á flutningi rafmagns um loftlínu sem liggur um svæði sem þegar hefur verið raskað vegna byggingar annarrar loftlínu í sjálfu sér málefnalegt og til þess fallið að ná markmiðum framkvæmdarinnar. Sú leið liggur hins vegar um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og er um það fjallað í matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar. Var það niðurstaða stofnunarinnar varðandi áhrif Suðvesturlína á neysluvatn og vatnsverndarsvæði að stofnunin teldi að þrátt fyrir boðaðar öryggisráðstafanir og mótvægisaðgerðir Landsnets væri sú hætta óhjákvæmilega fyrir hendi að fyrirhugaðar framkvæmdir gætu haft neikvæð áhrif á vatnsverndarsvæði og um leið neysluvatn ef mengunarslys ætti sér stað. Taldi stofnunin að eðli málsins samkvæmt væri líklegt að afleiðingar slíks slyss yrðu neikvæðastar þar sem farið væri um grann- og brunnsvæði, m.a. á línuleiðinni frá Sandskeiði að Hrauntungum, en það er sú línuleið sem hér um ræðir. Við mat á umhverfisáhrifum lýstu hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvöld, sem og Orkuveita Reykjavíkur, jafnframt yfir áhyggjum af mögulegum áhrifum framkvæmdarinnar og lögðu ríka áherslu á mótvægisaðgerðir. Að mati úrskurðarnefndarinnar var því allt tilefni fyrir framkvæmdaraðila til að rannsaka til hlítar þá kosti aðra sem kæmu til greina, enda um verndun vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins til frambúðar að ræða sem í felast gríðarleg verðmæti og að sama skapi mjög ríkir almannahagsmunir. Á þetta enn við þrátt fyrir að framkvæmdin fari ekki lengur um brunnsvæði eftir breytingar á vatnsverndarmörkum, sbr. t.a.m. gildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar, enda fer fyrirhuguð lína enn um grannsvæði að miklum hluta.

Af framangreindu leiðir að ef önnur línuleið var á annað borð mögulegur valkostur, hvort sem er sem loftlína eða jarðstrengur, í stað framkvæmdarinnar sem leyfisveitingin snýr að bar bæjarstjórn Hafnarfjarðar, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga, að kanna hvort þeim kosti eða kostum hefði verið lýst með fullnægjandi hætti í matsskýrslu þeirri sem lá til grundvallar áliti Skipulagsstofnunar.

—–

Kemur þá til skoðunar hvort sá kostur að leggja raflínuna eftir annari leið, t.a.m. sem jarðstreng, geti hafa talist raunhæfur, hvaða gögn hafi legið fyrir við ákvörðunartökuna, rannsókn sveitarstjórnar og rökstuðningur.

Matsáætlun er í 3. gr. laga nr. 106/2000 skilgreind sem áætlun framkvæmdaraðila, byggð á tillögu hans um hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu á í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð skýrslunnar. Kemur þannig fram ákveðið forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar, en af dómaframkvæmd verður ráðið að það forræði framkvæmdaraðila takmarkist af því að mat hans sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Í tillögu Landsnets að matsáætlun, matsskýrslu og gögnum málsins almennt kemur glöggt í ljós það markmið Landsnets með Suðvesturlínum, og þ. á m. hinni umdeildu Lyklafellslínu 1, að byggja upp og styrkja raforkuflutningskerfið á Suðvesturlandi til framtíðar. Í tilllögu að matsáætlun segir nánar að mikilvægt sé að geta annað aukinni flutningsþörf í framtíðinni með færri línum og stærri. Flutningskerfi með loftlínum skapi grundvöll fyrir þess háttar uppbyggingu því kerfið hafi þá nauðsynlegan sveigjanleika til aukningar eða aðlögunar án meiriháttar aðgerða með tilheyrandi umhverfisáhrifum og kostnaði. Markmið framkvæmdanna sé að anna aukinni flutningsþörf auk þess að auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Flutningskerfi raforku sé byggt upp með langtímasjónarmið í huga, með möguleika á áfangaskiptingu og að hægt sé að aðlaga framkvæmdir breyttum forsendum um markað og virkjanir. Hvernig þetta spili saman í framtíðinni og á hvaða tímapunkti öllum framkvæmdum sé lokið sé ekki að fullu ljóst. Er og ljóst af gögnum málsins að sú lína sem hér um ræðir á til framtíðar að vera hluti af 400 kV flutningskerfi raforku, sem komi í stað þess 220 kV orkuflutningskerfis sem er til staðar frá virkjunum á Þjórsár–Tungnaársvæðinu að tengivirkjum, m.a. við Hamranes í Hafnarfirði. Kemur og sú framtíðarspennuhækkun, ef flutningsþörf krefst, fram í samþykktri Kerfisáætlun Landsnets 2015-2024.

Í skýrslunni „Breytingar á Flutningskerfinu við Höfuðborgarsvæðið“, sem framkvæmdaraðili lagði fram við meðferð framkvæmdaleyfisumsóknarinnar, kemur m.a. fram að umrædd lína þurfi að uppfylla kröfu um 600 MVA flutningsgetu miðað við þær forsendur sem liggi fyrir, s.s. virkjanir sem fyrir séu og séu fyrirhugaðar samkvæmt rammaáætlun, raforkuspá fram til ársins 2050, sem og ráðgerðum nýjum notendum. Mikilvægt sé að framtíðarlausn meginflutningskerfisins við höfuðborgarsvæðið bjóði upp á sveigjanleika með framtíðarálagsaukningu í huga, enda séu flutningsmannvirki hönnuð og byggð til að endast áratugum saman. Uppfyllt yrði krafa um 600 MVA flutningsgetu með 220 kV háspennulínu með ríflega 800 MVA flutningsgetu, sem og með 220 kV jarðstreng með 650 MVA flutningsgetu. Ekki sé kerfisleg fyrirstaða við notkun jarðstrengs á þeim flutningskafla sem um ræði, enda sé um einn sterkasta hluta kerfisins að ræða. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni kalla aðstæður nú ekki á 400 kV flutningsgetu, en ljóst er að það er fyrirætlan Landsnets að hafa þann möguleika til framtíðar, miðað við það sem áður hefur verið rakið um markmið framkvæmda við Suðvesturlínur, sem Lyklafellslína 1 er hluti af. Þá kemur fram í skýrslunni að sveigjanleiki jarðstrengja sé takmarkaður og sé ekki unnt að auka flutningsgetu þeirra að neinu marki nema með fjölgun strengjasetta. Loftlínan sé hönnuð þannig að unnt verði að breyta henni fyrir 400 kV rekstur á einfaldan hátt og auka flutningsgetuna þá um 73%. Af þessari umfjöllun verður ekki glöggt ráðið að jarðstrengur sé ekki raunhæfur kostur. Þvert á móti virðist geta verið raunhæft að leggja 220 kV jarðstrengi og þá eftir atvikum að bæta við strengjasettum til að auka flutningsgetuna. Um það er þó ekki hægt að fullyrða af þeim gögnum sem fyrir liggja, en nefnd skýrsla var t.a.m. ekki rýnd af óháðum aðilum. Er því ekki loku fyrir það skotið að sá valkostur geti verið talinn svo tæknilega erfiður að óraunhæft væri að telja hann mögulegan í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 106/2000.

Svo sem áður greinir, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 575/2016, var jarðstrengjakosti ekki lýst sérstaklega sem valkosti í mati á umhverfisáhrifum Suðvesturlína frá árinu 2009, en svo bar að gera ef hann á annað borð kom til greina. Álit Skipulagsstofnunar um það mat er þannig haldið ágalla, en eins og áður greinir er slíkt álit forsenda útgáfu framkvæmdaleyfis. Er það athugunarefni hvort unnt hefði verið við meðferð umsóknar um framkvæmdaleyfi að bæta úr nefndum ágalla.

Rökstuðningur skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, sem lá til grundvallar þeirri afgreiðslu þess sem staðfest var af bæjarstjórn, tók ekki til þess atriðis hvort raunhæft væri að leggja jarðstreng í stað loftlínu heldur einkum til umhverfisáhrifa hans. Var tiltekið í bókun ráðsins að þau gögn sem aflað hefði verið eftir að mat á umhverfisáhrifum fór fram fjölluðu ítarlega um jarðstrengskostinn, hann hefði verið borinn saman við aðra kosti og að metnar hefðu verið mismunandi leiðir sem til greina kæmu ef lagður yrði jarðstrengur. Er þar einkum vísað til skýrslunnar „Breytingar á Flutningskerfinu við Höfuðborgarsvæðið“ þar sem m.a. er gerð grein fyrir möguleikum á lagningu jarðstrengs í vegstæði Bláfjallavegar eða eftir fyrirhugaðri loftlínuleið.

Ekki er útilokað að viðbótarupplýsingar sem þessar um áður ómetna valkosti geti bætt úr annmörkum á matsskýrslu framkvæmdar, enda séu umhverfisáhrif hinna viðbættu valkosta metin og þau borin saman við umhverfisáhrif annarra fyrirliggjandi valkosta á grundvelli ákvæða laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af því að um þátt í rannsókn máls er að ræða og frávik frá þeirri málsmeðferð sem fram kemur í lögum nr. 106/2000 verður þó að gera ríkar kröfur til þeirra rannsókna sem fram fara og áreiðanleika þeirra. Þá liggur ekki fyrir álit Skipulagsstofnunar á nefndum viðbótarupplýsingum og þar með á samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, en málsmeðferð á grundvelli laga nr. 106/2000 miðar einmitt við að mat á umhverfisáhrifum sé rýnt með slíku áliti stofnunarinnar. Er því og við að bæta að eftir atvikum ber að lagfæra annmarka á umsögn með því að leita eftir nýrri umsögn. Verður því að telja að hygðist Hafnarfjarðarbær hafna þeim kosti að leggja jarðstreng með vísan til umhverfisáhrifa hans umfram loftlínu hefði sú fagstofnun átt að koma að málinu sem lagt er upp með í lögum nr. 106/2000, þ.e. Skipulagsstofnun. Var það sérstaklega mikilvægt í ljósi upplýsinga í umhverfisskýrslu og viðaukum ósamþykktrar Kerfisáætlunar 2016-2025, sem bent var á í bókun skipulags- og byggingarráðs að væri í stjórnsýslulegri meðferð. Þar kemur fram yfirlit yfir umhverfisáhrif framkvæmda, þ. á m. er sýnt lauslegt mat á valkosti um jarðstrengslausn í vegstæði Bláfjallavegar, sbr. töflu 10.1. Kemur þar fram að minni neikvæð umhverfisáhrif yrðu af þeim framkvæmdarkosti, m.a. á jarðminjar, en af Lyklafellslínu 1 sem loftlínu um fyrirhugað línustæði.

Þrátt fyrir viðleitni framkvæmdaraðila til að bæta úr ófullnægjandi valkostamati og -lýsingu í upphaflegri skýrslu um mat á umhverfisáhrifum skortir á að Skipulagsstofnun hafi gefið álit sitt á umhverfisáhrifum þess valkosts. Slíkt álit er lögbundinn þáttur í rannsókn máls við útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og verður að telja þennan skort verulegan annmarka á rannsókn máls í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skorti því grundvöll fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga 106/2000 og 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Leiðir þetta óhjákvæmilega til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Þá er rétt að taka fram að þótt almenningi hafi gefist kostur á að koma að athugasemdum sínum við áætlanagerð vegna fyrirhugaðrar línulagnar þá er það á meðal markmiða laga nr. 106/2000 að gefa almenningi kost á að kynna sér umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda og gefa honum kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum hennar liggur fyrir. Eðli máls samkvæmt hefur almenningur ekki haft þá aðkomu að þeim viðbótargögnum sem lágu fyrir við hina kærðu ákvörðun.

—–

Úrskurðarnefndin hefur að framan komist að þeirri niðurstöðu að ógilda beri hina kærðu ákvörðun þar sem ekki sé sýnt fram á að jarðstrengskostir séu ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosts framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.

Því til viðbótar skal á það bent að sú skylda hvílir á sveitarstjórn skv. 2. málslið 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga að ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða náttúruverndarlaga og annarra þeirra laga og reglugerða sem við eiga, þ. á m. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, með síðari breytingum, sem sett er með stoð í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Einnig gildir samþykkt nr. 555/2015 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar og Hafnarfjarðarkaupstaðar. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun veitir leyfi til lagningar háspennulínu um nútímaeldhraun í landi Hafnarfjarðarbæjar, sem nýtur verndar samkvæmt 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, og um vatnsverndarsvæði, en ráða má af ákvæðum reglugerðar nr. 796/1999 og samþykktar nr. 555/2015 að framkvæmdir á grannsvæðum vatnsbóla séu undantekning frá meginreglu um bann við framkvæmdum. Bar sveitarstjórn að taka tillit og afstöðu til nefndra ákvæða við ákvörðunartöku sína.

Í rökstuðningi leyfisveitanda er almennt vísað til óafturkræfra umhverfisáhrifa jarðstrengja í eldhraunum, en ekki vísað til þess með skýrum hætti hvort þau rök eigi einnig við um lagningu jarðstrengs í vegstæði Bláfjallavegar. Ályktun leyfisveitanda er dregin af þeim gögnum sem fyrr hefur verið lýst og talin hafa verið ófullnægjandi við rannsókn málsins. Telst rökstuðningur leyfisveitanda um brýna nauðsyn þess að raska vernduðum eldhraunum með sama hætti ófullnægjandi, enda byggir hann á sömu gögnum. Hefur áskilnaði 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga því ekki heldur verið fullnægt. Af ófullnægjandi samanburði valkosta framkvæmdarinnar leiðir enn fremur að, jafnvel þótt tímabundið starfsleyfi vegna hennar, útgefið á grundvelli samþykktar nr. 555/2015, hafi legið fyrir sveitarstjórn við ákvörðunartökuna, sbr. 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, hafði sveitarstjórn ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að geta borið saman ávinning af framkvæmdinni við þá áhættu sem hún hefði í för með sér fyrir vatnsvernd yrði aðalvalkostur framkvæmdaraðila um lagningu loftlínunnar að veruleika.

Loks er rétt að árétta að lagaákvæði um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga, sem finna má í 9. gr. c í raforkulögum, hafa ekki þá þýðingu að mat á umhverfisáhrifum skuli ekki fara fram eða sé þýðingarlaust.

—–

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun þeim annmörkum háð að ógildingu hennar varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnafjarðarbæjar frá 21. júní 2017 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1.

105/2016 Legsteinasafnið

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2016 kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja „nýtt deiliskipulag við Húsafell 2“ og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kærði landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn. Var þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 23. september 2016 var hafnað kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells, en að öðru leyti var kærumálinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með tölvupósti 24. október 2017 fór kærandi fram á endurupptöku málsins og féllst úrskurðarnefndin á þá beiðni í ljósi álits setts umboðsmanns Alþingis frá 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016. Var aðilum málsins tilkynnt um endurupptöku málsins með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2018.

Með bréfi kæranda, dags. 13. mars 2018, gerir hann þá kröfu að nýju að hið umdeilda deiliskipulag og byggingarleyfi verði felld úr gildi. Einnig að byggingarleyfi vegna svokallaðs Pakkhúss, sem gefið hefði verið út í ágúst 2015 verði fellt úr gildi. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir á grundvelli deiliskipulagsins verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um síðastnefnda kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 24. og 26. ágúst og 6. og 12. september 2016, svo og 14. mars 2018.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu en í byrjun árs 2014 hófst vinna við gerð nýs deiliskipulags fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells. Tók skipulagið til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss sem m.a. var ætlað að hýsa steinhörpur ásamt því að gert var ráð fyrir uppbyggingu á legsteinasafni fyrir Húsafellslegsteina frá 19. öld. Að lokinni málsmeðferð skipulagstillögunnar var hún samþykkt á fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2015 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. Byggingarfulltrúi mun hafa veitt byggingarleyfi fyrir svonefndu Pakkhúsi í ágúst 2015 og fyrir húsi undir legsteinasafn 12. janúar 2016. Skaut kærandi greindri ákvörðun um deiliskipulag og ákvörðun um byggingarleyfi vegna legsteinasafns til úrskurðarnefndarinnar og fór fram á ógildingu ákvarðanna. Hinn 23. september 2016 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu þar sem vísað var frá kröfu kæranda hvað deiliskipulagið varðaði en hafnaði kröfu hans um ógildingu byggingarleyfisins.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, fór kærandi fram á endurupptöku málsins en því var synjað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október s.á. Kvartaði kærandi yfir nefndum úrskurði og synjun á endurupptöku til umboðsmanns Alþingis. Lá álit setts umboðsmanns vegna framkominnar kvörtunar fyrir 23. október 2017, í máli nr. 9116/2016. Beindi settur umboðsmaður því til að nefndarinnar að taka mál kæranda upp að nýju kæmi fram beiðni þess efnis frá honum. Með tölvupósti 24. október 2017 var af hálfu kæranda óskað eftir endurupptöku kærumálsins með vísan til framangreinds álits setts umboðsmanns og 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 8. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var þess m.a. óskað að meðferð málsins yrði hraðað og áskildi  kærandi sér rétt til að krefjast stöðvunar á framkvæmdum, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011, yrði fallist á endurupptöku málsins. Ákvað úrskurðarnefndin á fundi sínum 4. desember 2017 að leita sjónarmiða aðila um endurupptökubeiðnina og bárust nefndinni athugasemdir af hálfu Borgarbyggðar og leyfishafa. Beiðni kæranda um endurupptöku var tekin fyrir á fundi úrskurðarnefndarinnar 28. febrúar 2018. Með hliðsjón af því áliti setts umboðsmanns Alþingis að rökstuðningur úrskurðarnefndarinnar hefði ekki uppfyllt skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga um efni hans og form og efni úrskurðarins hefði þar með verið áfátt, sbr. 4. tl. 31. gr. sömu laga, var það ákvörðun úrskurðarnefndarinnar að málið skyldi endurupptekið og úrskurður kveðinn upp í því að nýju. Var aðilum málsins tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 6. mars 2018, og þeim veittur frestur til að gera athugasemdir. Verður nú kveðinn upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í upphaflegri kæru til nefndarinnar hafi verið krafist stöðvunar framkvæmda. Hafi framkvæmdir á hinu deiliskipulagða svæði ekki hafist fyrr en eftir kæru til nefndarinnar. Séu fyrir hendi skilyrði til að taka til greina framangreinda kröfu. Framkvæmdir við gerð grunns fyrir svokallað Pakkhús hafi hafist í ágúst 2016 á grundvelli byggingarleyfis frá ágúst 2015. Hafi húsið þá verið fært í einu lagi á grunninn síðar í sama mánuði, en enn eigi þó eftir að setja torfþak á það. Í ágúst 2016 hafi hafist framkvæmdir við gerð grunns á lóðarmörkum vegna legsteinasafnsins. Með tölvupósti til nefndarinnar 19. febrúar 2018 hafi nefndin verið upplýst um að búið væri að steypa botnplötu undir safnið og slá upp fyrir hluta veggja en ekki væri búið að steypa þá. Eftir að nefndin hafi fallist á endurupptöku málsins hafi verið frekari framkvæmdir við legsteinasafnið. Í marsmánuði hafi veggir safnsins verið steyptir og vinna við að rífa utan af veggjum hafi farið fram. Veki hinar nýhöfnu framkvæmdir athygli í ljósi þess að ekkert hafi verið framkvæmt við legsteinasafnið í um 4-5 mánuði. Sé því afar brýnt að fallast á stöðvunarkröfu kæranda.

Málsrök sveitarfélagsins: Borgarbyggð bendir á að samkvæmt upprunalegri kæru til úrskurðarnefndarinnar hafi byggingarleyfi vegna Pakkhússins ekki verið kært. Ekki hafi verið vísað í téð leyfi í kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og því sé ekki fjallað um það í áliti umboðsmanns nr. 9116/2016 sem liggi ákvörðun nefndarinnar um endurupptöku til grundvallar. Telji sveitarfélagið að í því ljósi skuli ekki fjalla um umrætt leyfi sem gefið hafi verið út í ágúst 2015 og framkvæmdir hafist á því ári. Séu athugasemdir kæranda við Pakkhúsið og framkvæmdir við það allt of seint fram komnar bæði hvað varði stöðvun framkvæmda og efnislega umfjöllun fyrir nefndinni.

Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 118/2014 og nr. 101/2014 en þar komi m.a. fram að nefndin telji að ríkar ástæður eða veigamikil rök verði að vera fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda. Hafi kærandi ekki lýst því með fullnægjandi hætti hvaða hagsmuni hann hafi af því að framkvæmdir verði stöðvaðar eða sýnt fram á hvaða ríku ástæður, veigamiklu rök eða knýjandi nauðsyn standi til þess. Aðeins sé vísað til þess að framkvæmdir séu í gangi en ekki hvaða ríku ástæður eða veigamiklu rök  styðji stöðvunarkröfu hans.

Rétt sé að síðla árs 2015, eða löngu áður en kæran hafi komið fram, hafi framkvæmdir á svæðinu hafist en útilokað sé að framkvæmdir við grunn undir Pakkhúsið hafi getað farið framhjá kæranda þar sem húsið blasi við frá eign hans. Í athugasemdum kæranda sé gerð grein fyrir þeim lögvörðu hagsmunum sem kærandi telji að framkvæmdir að Bæjargili á grundvelli hins kærða deiliskipulags hafi áhrif á. Sé þar vísað til breyttrar landnotkunar Bæjargils, þéttleika byggðar og áhrifa á útsýni auk þess sem fyrirhuguð starfsemi muni hafa í för með sér aukna umferð um land kæranda. Séu framkvæmdir svo langt komnar að stöðvun þeirra muni ekki breyta neinu fyrir kæranda hvað umrædd atriði varði. Þá sé breyting á landnotkun, þéttleika byggðar og áhrif á útsýni atriði sem eðlilegra sé að hafa í huga þegar fjallað sé um stöðvunarkröfu við upphaf framkvæmda. Kærandi hafi því enga hagsmuni, tengda framangreindum atriðum af því að framkvæmdir séu nú stöðvaðar. Séu því ekki fyrir hendi ríkar ástæður, veigamikil rök eða knýjandi nauðsyn fyrir því að á stöðvunarkröfuna verði fallist. Muni stöðvun framkvæmda að svo komu máli án efa valda leyfishafa tjóni í ljósi þess hve framkvæmdir á svæðinu séu langt komnar. Vegna þessa þurfi að gera afar ríkar kröfur til málatilbúnaðar kæranda hvað varði framkomna stöðvunarkröfu, en hann uppfylli ekki slíkar kröfur.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að uppbygging hafi staðið yfir allt frá því að heimild hafi fengist til að hefja framkvæmdir. Séu framkvæmdir við legsteinasafnið langt komnar. Búið sé að steypa legsteinasafnið upp og verið sé að undirbúa flutning á steypumótum og byggingarefni af svæðinu. Jafnframt sé búið að kaupa sperrur og þakklæðningu í þak safnsins. Smíði á gluggum og útihurðum sé að verða lokið og vörurnar tilbúnar til afhendingar. Uppsláttur steypumóta hafi farið fram í október 2017 en ekki hafi verið unnt að steypa fyrr vegna erfiðs tíðarfars í Húsafelli. Loks hafi verið hægt að steypa 20. febrúar 2018 og hafi nýlega verið unnið að því að rífa mótin utan af útveggjum. Fullyrðingum um að framkvæmdir og ferill málsins haldist í hendur sé alfarið mótmælt sem röngum. Sýnilegar framkvæmdir hafi staðið yfir á svæðinu allt frá miðju ári 2015.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að kærandi geti krafist stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Fari framkvæmdum á svæðinu senn að ljúka og væri það í andstöðu við tilvísað ákvæði að stöðva þær á þessum tímapunkti í uppbyggingunni. Byggist það einkum á því að hagsmunir kæranda af því að stöðva framkvæmdir strax við upphaf þeirra séu mun ríkari og komi í veg fyrir varanlegt rask á umræddu svæði. Hagsmunirnir færist síðan yfir á leyfishafa eftir því sem líði á framkvæmdina. Af sýnilegum framkvæmdum sé einungis eftir að ganga frá utanhússklæðingu og leggja þak á legsteinahúsið. Inntak stöðvunarákvæðisins sé að koma í veg fyrir framkvæmdir eða stöðva þær strax í upphafi. Verði því ekki séð hvaða tilgangi það þjóni að stöðva framkvæmdir nú eða hvaða hagsmuni kærandi ætti að hafa af slíkri aðgerð, enda raski áframhaldandi framkvæmdir í engu hagsmunum kæranda. Þær framkvæmdir sem eftir séu, séu einungis til þess fallnar að bæta ásýnd svæðisins. Þá sé húsið a.m.k. 10 m frá lóðarmörkum, eða vel ríflega hæð sína. Reynt hafi verið að halda raski á svæðinu í algeru lágmarki og fullt tillit verið tekið til reksturs kæranda hvað það varði. Verið sé að flytja byggingarefni af svæðinu til að unnt sé að fara í lóðarfrágang og fegra umhverfið. Þá sé fjarlægð legsteinahússins frá gistiheimili kæranda það mikil að ekki verði séð að framkvæmdir við safnið hafi áhrif á starfsemi kæranda. Sýni yfirlitsmyndir af svæðinu þetta glögglega. Staða uppbyggingar eða endurbóta annarra bygginga innan skipulagsreitsins sé að Pakkhúsið sé að mestu tilbúið með gluggum, hurðum og kyndingu. Lóð sé frágengin við Pakkhúsið og gamla fjósið. Sýningarhúsið sé fullbúið sem og turninn. Vinnustofan hafi verið gerð upp. Höggmyndagarður sé frágenginn að mestu með hleðsluveggjum og listaverk að hluta til komin í garðinn.

Séu hagsmunir byggingarleyfishafa mun ríkari að fá stöðvunarkröfu hafnað en kæranda að fá hana samþykkta. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á hagsmuni sína að því að fá framkvæmdir stöðvaðar.

Niðurstaða:
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. Er greint heimildarákvæði undantekning og ber að skýra þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Í áðurgreindu áliti setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016 komst hann m.a. að þeirri niðurstöðu að sá annmarki væri á úrskurði úrskurðarnefndarinnar að ekki yrði af honum séð hvort nefndin hefði tekið afstöðu til réttaráhrifa annmarka á birtingu auglýsingar vegna hins kærða deiliskipulags. Enn fremur „að þegar sveitarfélag, eða eftir atvikum úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, hefur til meðferðar athugasemdir við byggingarleyfi, sem lúta öðrum þræði að deiliskipulagi því sem er grundvöllur leyfisins, ber viðkomandi stjórnvald að hafa í huga hvort svo verulegir annmarkar séu á skipulaginu að það geti ekki með réttu verið grundvöllur byggingarleyfis. […] leyfisumsókn verður að sækja stoð í gildan réttargrundvöll, í umræddu tilviki gilt deiliskipulag.“ Eru því uppi álitaefni sem raskað geta gildi hinna kærðu ákvarðana.

Í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar. Eins og rakið hefur verið eru framkvæmdir við legsteinasafn og aðrar byggingar á skipulagssvæðinu þegar hafnar og eru þær alllangt komnar samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í málinu. Framkvæmdirnar eru heimilaðar með tveimur byggingarleyfum, en Borgarbyggð hefur farið fram á að vísað verði frá kröfu kæranda um leyfi það er heimilaði byggingu svonefnds Pakkhúss. Á því álitaefni verður ekki tekið í bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar en af gögnum málsins verður ráðið að allar þær framkvæmdir hafi þegar átt sér stað sem mest áhrif geta haft. Það sem eftir stendur mun meira og minna felast í frágangi mannvirkja. Að teknu tillit til markmiðs lagaheimildar þeirrar sem úrskurðarnefndin hefur til stöðvunar framkvæmda, sem og takmarkaðra áhrifa þeirra framkvæmda sem eftir standa, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun þeirra. Verður kröfu hans þar að lútandi hafnað en bent er á að áframhaldandi framkvæmdir eru á ábyrgð og áhættu leyfishafa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun hinna kærðu framkvæmda.

22/2016 Egilsgata, Borgarbyggð

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2016, kæra á álagningu fráveitugjalds á fasteignina Egilsgötu 4, Borgarnesi, fyrir árið 2016.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2016, er barst nefndinni 25. s.m., kærir eigandi, Egilsgötu 4, Borgarnesi, ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur frá janúar 2016 um álagningu fráveitugjalds á fasteignina Egilsgötu 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist að lagt verði á eignina fráveitugjald sem er í samræmi við gildandi ákvæði laga og reglugerðar um gjaldskrár og rekstrarafkomu Orkuveitu Reykjavíkur undanfarin ár.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 11. mars 2016 og frá Orkuveitu Reykjavíkur 29. apríl 2016.

Málavextir: Með samningi, dags. 15. desember 2005, var Fráveita Borgarfjarðarsveitar sameinuð Orkuveitu Reykjavíkur. Með álagningarseðli orkuveitunnar í janúar 2016 var lagt á fráveitugjald þess árs vegna fasteignarinnar Egilsgötu 4, Borgarnesi, kr. 61.500. Gjaldið var lagt á samkvæmt gjaldskrá nr. 1136/2015 fyrir fráveitu á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu, Borgarbyggð, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður fráveitugjald viðkomandi fasteignar fyrir árið 2015 hafa verið kr. 47.282 en fyrir árið 2016 sé það kr. 61.500. Hækkun milli ára nemi því um 30%. Samkvæmt samningi Orkuveitu Reykjavíkur og sveitastjórnar Borgarbyggðar um kaup og rekstur orkuveitunnar á fráveitu í Borgarnesi frá 15. desember 2005 hafi fast gjald á hverja matseiningu verið kr. 4.270,20 og breytilegt gjald á m² kr. 164,80. Gjaldið skyldi taka breytingum í samræmi við stöðu byggingarvísitölu í desember ár hvert. Ef sveitarstjórn Borgarbyggðar hefði ekki fallið frá framangreindum samningi frá 2005 og samþykkt 45% hækkun gjalda væri fast gjald á matseiningu í Borgarbyggð kr. 8.655 og gjald á m² kr. 334,0.

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna skuli semja gjaldskrá, sem kveði nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda. Í gjaldskrá skuli miða við að fráveitugjald, ásamt öðrum tekjum fráveitu, standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum, vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Ákveða megi hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna eða með föstu gjaldi auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Samkvæmt lögunum sé heimilt að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði.

Rekstrarafkoma fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2006-2010, sérstök hækkun fráveitugjalds um 45% árið 2010 og hagstæð þróun gengis síðustu ár fyrir erlend lán fráveitunnar, staðfesti að orkuveitan hafi tekið sér arð af starfsemi fráveitu sem brjóti gegn 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 og almennum sjónarmiðum um álagningu þjónustugjalda.

Orkuveitan hafi ekki farið að ákvæðum laga og reglugerðar þegar gjaldskrá fráveitu hafi verið ákveðin og henni skipt í gjaldsvæði. Gjaldskrá í Borgarbyggð byggi á samningi á milli aðila um að hluti fráveitugjaldsins sé ætlaður til að halda óbreyttum eignarhlut Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur. Þegar horft sé til þess arðs sem orkuveitan hafi árum saman reiknað sér af fráveitustarfsemi, hvernig gjaldskrármálum sé háttað og að eigandi fasteignar í Borgarbyggð þurfi að greiða sérstakt álag á fráveitugjald svo sveitarfélagið Borgarbyggð geti haldið óbreyttum eignarhlut sínum í orkuveitunni, sé gerð krafa um ógildingu ákvörðunar fyrirtækisins um álagningu fráveitugjalds á fasteign kæranda. Jafnframt sé þess krafist að lagt verði á eignina fráveitugjald sem sé í samræmi við gildandi ákvæði laga og reglugerðar um gjaldskrár og rekstrarafkomu fráveitu orkuveitunnar undanfarin ár.

Málsrök Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu: Orkuveitan tekur fram að gjaldskrá sú er hin kærða álagning byggi á hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2015 og öðlast gildi 1. janúar 2016. Gjaldskráin sé nr. 1136/2015 og taki til veitusvæðis Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu, Borgarbyggð. Í 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé fjallað um gjaldskrá fráveitu. Í 2. mgr. nefndrar lagagreinar sé kveðið á um  að miða skuli við að fráveitugjald, ásamt öðrum tekjum fráveitu, standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði  samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Heimilt sé að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði með sérstaka gjaldskrá, sbr. 3. mgr. 15. gr. laganna, og hafi sú heimild verið nýtt til að skilgreina Borgarbyggð sem sérstakt veitusvæði.

Fyrir liggi að fráveita í Borgarbyggð sé að jafnaði rekin með neikvæðri arðsemi (EBIT/bókfært verð) ef litið sé til tímabilsins 2006-2020. Gert sé ráð fyrir að arðsemi fyrir árið 2016 sé -0,9% og til ársins 2020 sé gert ráð fyrir að hún versni lítillega. Eftir árið 2010 hafi hún alltaf verið neikvæð og meðal arðsemi tímabilsins sé -0,3%. Sá fyrirvari sé gerður við framangreindar upplýsingar að í þeim sé ekki tekið tillit til fjármagnskostnaðar, en væri það gert sé ljóst að arðsemin yrði neikvæðari en raun beri vitni.

Samkvæmt framangreindu fari álögð fráveitugjöld í Borgarbyggð ekki fram úr þeim kostnaði við rekstur og uppbyggingu fráveitunnar sem heimilt sé að taka tillit til samkvæmt lögum nr. 9/2009. Af því leiði að gjaldskrá fyrir fráveitu á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu í Borgarbyggð sé lögmæt.

Athugasemdir Borgarbyggðar:
Af hálfu Borgarbyggðar er bent á að við samningagerð um sameiningu fráveitna í desember 2005 hafi sveitarfélögin átt eignarhlut í orkuveitunni og hafi verið að því stefnt við sameininguna að sá eignarhluti breyttist ekki. Sett hafi verið upp líkan fyrir rekstur, efnahag og sjóðsstreymi áranna 2006-2050 og hafi verið miðað við að sjóðsstreymisgreiningin leiddi í ljós hvert virði sjóðsstreymis þyrfti að vera í fráveitum eigenda til að halda óbreyttum eignarhlutföllum. Samkvæmt þeim forsendum sem gefnar hafi verið við útreikningana hefði gjaldskrá fráveitugjalda þurft að vera 32,5% hærri í Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit heldur en á öðrum svæðum orkuveitunnar en Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit hefðu sameinast á árinu 2006 í Borgarbyggð.

Í mars 2011 hefði stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkt breytingu á gjaldskrá fráveitu. Hafi hún verið gerð í samræmi við niðurstöðu samstarfs orkuveitunnar og eigenda og aðgerðaáætlun vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins. Jafnframt hafi verið samþykkt að hækkun gjaldskrár í Borgarbyggð yrði minni en á öðrum stöðum vegna frestana á framkvæmdum í sveitarfélaginu og skyldi sama gjaldskrá vera á öllu veitusvæðinu til ársloka 2015.

Forsvarsmenn Borgarbyggðar hafi bent á að ef framkvæmdir í einhverjum hluta svæðisins réttlæti breytingu á gjaldskrá á því svæði þurfi slíkt að gilda um allt veitusvæðið. Ráðist hafi verið í dýrar fráveituframkvæmdir innan annarra sveitarfélaga en Borgarbyggðar án þess að það hafi haft áhrif á gjaldskrá þess svæðis. Það sé því álit Borgarbyggðar að líta skuli á allt veitusvæðið sem eina heild og því eigi sama gjaldskrá að gilda á því öllu.

Niðurstaða: Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 22. gr. laganna, svo sem henni var breytt með 28. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 er heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. skal stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjaldanna. Um fráveitugjöld gilda reglur um þjónustugjöld og í 2. mgr. 15. gr. nefndra laga segir að miðað skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Þá er skv. 3. mgr. 15. gr. heimilt að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði. Slíka skiptingu skal auglýsa með gjaldskránni.

Orkuveita Reykjavíkur – vatns- og fráveita hefur nýtt sér framangreinda heimild til skiptingar og hefur skipt starfssvæði sínu í þrjá hluta, Reykjavík (veitusvæði I), Akraneskaupstað (veitusvæði II) og Borgarbyggð (veitusvæði III). Í máli þessu er kærð álagning fráveitugjalds samkvæmt gjaldskrá nr. 1136/2015 fyrir fráveitu á veitusvæði III, Borgarbyggð. Gjaldskráin var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2015 og tók gildi 1. janúar 2016, en gjaldskrár fyrir Reykjavíkurborg og Akraneskaupstað voru birtar sama dag og eru nr. 1134 og 1135/2015. Samkvæmt gjaldskrá fyrir Borgarbyggð er fast gjald á matseiningu kr. 13.177,93 og breytilegt gjald á m² kr. 508,58. Fyrir fasteign sína var kærandi krafinn um kr. 61.500 í fráveitugjald samkvæmt gjaldskránni fyrir árið 2016. Á veitusvæði I og II er fast gjald kr. 9.945,62 og breytilegt gjald á m² kr. 383,90.

Af heimild til skiptingar starfssvæðis í veitusvæði og til þess að gefa út sérstaka gjaldskrá fyrir hvert svæði leiðir að líta verður á hvert veitusvæði sem sérstaka einingu með eigin kostnað og tekjur samkvæmt ákvæðum laga nr. 9/2009. Eðli máls samkvæmt verður álagning fráveitugjalda vegna fasteigna þannig mismunandi á milli veitusvæða. Er það fyrirkomulag ákveðið með lögum og verður ekki hróflað við því af úrskurðarnefndinni. Samkvæmt áður tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 15. gr. laganna gilda reglur um þjónustugjöld um gjöld sem heimilt er að innheimta vegna fráveitu og er talið upp í ákvæðinu hvaða kostnaði gjöldunum er ætlað að standa undir. Samkvæmt gögnum frá Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu hafa tekjur af veitusvæði III, þ.e. fráveitu Borgarbyggðar, ekki staðið undir bókfærðum kostnaði við fráveituna frá árinu 2011 og munu ekki gera það fyrir árið 2016. Samkvæmt framlögðum gögnum var afkoma á veitusvæði III, án þess að tekið væri tillit til vaxtagjalda og skatta, neikvæð um kr. 28.764.000. Forsendur fyrir þeirri niðurstöðutölu eru: Tekjur, kr. 102.385.000, gjöld kr. 60.945.000 og afskriftir kr. 70.204.000.  Samkvæmt spá fyrir árið 2016 verða tekjur kr.133.082.000, gjöld kr. 75.873.000 og afskriftir kr. 89.630.000, eða afkoma fyrir vaxtagjöld og skatta neikvæð um kr. 32.421.000. Verða þær tölur ekki vefengdar í kærumáli þessu, enda gilda reglur sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 m.a. um bókhald og reikningsskil orkuveitunnar, sbr. VII. kafla laganna.

Samkvæmt því sem að framan er rakið fara álögð gjöld ekki fram úr þeim kostnaði við rekstur og uppbyggingu veitunnar sem taka má tillit til lögum samkvæmt. Var hin kærða álagning fráveitugjalda í Borgarbyggð, gjaldsvæði III, því lögmæt og í  samræmi við 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009.

Með vísan til alls framangreinds verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun um álagningu fráveitugjalds á fasteignina Egilsgötu 4, Borgarnesi, fyrir árið 2016.