Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

29, 30 og 31/2018 Dunhagi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 29/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 um að veita byggingarleyfi  til að byggja eina hæð ofan á og viðbyggingu við núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, Reykjavík, ásamt  fleiru.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Tómasarhaga 32 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 að veita byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er móttekið var sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Hjarðarhaga 27 áðurnefnda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. febrúar 2018, sem barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hjarðarhaga 44, framangreinda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Þar sem framangreind mál varða öll sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða síðargreind kærumál, sem eru nr. 30/2018 og 31/2018, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. janúar 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja inndregna  hæð ofan á núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, byggja viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á því og sorpgerði fyrir verslunarrými innan í rými 0106. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018.

Kærendur benda á að hin kærða ákvörðun varði grenndarhagsmuni þeirra miklu. Útsýni skerðist og umferð, sem og skuggavarp aukist.  Lagaskilyrði hafi ekki verið til að fara með umsókn um hið kærða byggingarleyfi í grenndarkynningu. Framkvæmdin sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 eða skilgreinda landnotkun, auk þess sem hún sé ekki í samræmi við byggðamynstur.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er m.a. bent á að byggingarleyfi í málinu hafi verið samþykkt að nýju á afgreiðslufundi 20. mars 2018 og að þar með hafi hið kærða byggingarleyfi frá 9. janúar s.á. fallið úr gildi.

Niðurstaða:
Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 fór fram frekari málsmeðferð. Var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. mars 2018 að veita byggingarleyfið að nýju á grundvelli sömu byggingarleyfisumsóknar. Í tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 10. apríl s.á., er og vakin athygli á að byggingarleyfisumsókn hafi verið endursamþykkt vegna nýrrar málsmeðferðar umhverfis- og skipulagsráðs á henni. Bent er á að nýr kærufrestur hafi tekið að líða við þá samþykkt og hygðust kærendur nýta sér kærurétt sinn væri nauðsynlegt að þyrfti að kæra að nýju til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum. Hafa kærendur nýtt sér þann málsskotsrétt með kærum til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 69, 70 og 71/2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti að veita nýtt byggingarleyfi 20. mars 2018 hefur hin kærða ákvörðun ekki réttarverkan að lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

65/2018 Miðstræti

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 65/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 20. apríl 2018 um að krefjast lagfæringar á skemmdri frárennslislögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. apríl 2018, sem barst nefndinni sama dag, kæra húsfélögin Miðstræti 8a og Miðstræti 8b þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að gefa kærendum frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn. Gera kærendur kröfu um að ákveðið verði með úrskurði að þvingunarúrræðum verði ekki beitt gagnvart þeim. Jafnframt gera kærendur kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 7. maí 2018.

Málavextir:
Kærendur eru húsfélög fasteignanna Miðstrætis 8a og Miðstrætis 8b. Liggur frárennslislögn frá húsinu undir lóð Laufásvegar 7 áður en hún tengist stofnlögn. Í mars 2018 stíflaðist sá hluti lagnarinnar sem liggur undir lóðina að Laufásvegi 7 en kærendum hefur verið neitað um aðgengi að lögninni til að fá gert við hana, bæði af eigendum Laufásvegar 7 og 9. Afleiðing stíflunnar var sú að skolpblandað vatn lak inn í húsnæði að Laufásvegi 9. Með bréfi, dags. 20. mars 2018, fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn tafarlaust og skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 3. apríl s.á. Eftir bréfleg samskipti var ákveðið að framlengja umræddan frest og með bréfi, dags. 20. s.m., ítrekaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrri kröfu um að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn. Skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 30. s.m. Var í bréfinu jafnframt vakin athygli á því að yrði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins gæti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Kærendur lögðu fram kæru sína 27. apríl 2018 og hafði þá viðgerð ekki verið framkvæmd og þvingunaraðgerðum ekki beitt.

Málsrök kærenda:
Kærendur kveðast ekki geta unað því að eigendur Laufásvegar 7 og 9 stöðvi nauðsynlegar viðgerðir á frárennslislögnum kærenda. Aldrei hafi staðið á kærendum að gera við lagnirnar. Erfitt sé að samþykkja að vera knúnir með kúgun til að samþykkja afarkosti um m.a. óskyld mál eða vera neyddir til að leysa frárennslismálin með sértækum lausnum sem kosti margfalt á við hina gömlu og hefðbundnu leið frárennslisins, sem auk þess sé styst og hagkvæmust. Kærendur hafni jafnframt hvers kyns ábyrgð á skemmdum vegna lagnanna, enda verið meinað að grípa til eðlilegra og fyrirbyggjandi ráðstafana til viðgerða í haust er leið og nú aftur, til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er krafist frávísunar kærunnar. Kærendur hafi fengið frest til 30. apríl 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn á lóðinni nr. 8 við Miðstræti. Hafi jafnframt verið tekið fram að ef ekki yrði orðið við kröfunni gæti heilbrigðiseftirlitið látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað lóðarhafa. Umræddur frestur sé liðinn og engin ný ákvörðun hafi verið tekin. Hafi kærendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr gildi ákvörðunarinnar skorið og beri því að vísa kærunni frá.

Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr. kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt ákvæðum þessum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laganna.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kærenda, dags. 20. apríl 2018, þar sem skorað er á þá að lagfæra skólplögn sem liggur frá húsi þeirra. Er tekið fram að verkinu skuli lokið eigi síðar en 30. s.m. Í bréfinu segir jafnframt að verði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins geti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað kærenda. Er til stuðnings þessa vísað ranglega til 27. gr. laga nr. 7/1998 en ekki núgildandi 61. gr. laganna. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998, nánar tiltekið 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna, verði kærendur ekki við áskorun um að vinna ákveðið verk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

149/2016 Fiskþurrkun í Þorlákshöfn

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 30. september 2016 um að veita Fiskmarki ehf. starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Fiskmark ehf., Hafnarskeiði 21, Þorlákshöfn, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 30. september 2016 að veita kæranda starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra. Er þess krafist að úrskurðarnefndin endurskoði hina kærðu ákvörðun eða eftir atvikum feli heilbrigðisnefndinni að breyta ákvörðun sinni þannig að endurnýjað starfsleyfi kæranda gildi í fjögur ár frá útgáfu þess.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 7. desember 2016.

Málavextir: Kærandi rekur heitloftsþurrkun fiskafurða samkvæmt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Suðurlands. Með umsókn, dags. 22. ágúst 2016, óskaði hann eftir því að starfsleyfið yrði endurnýjað. Auglýsing um að drög að starfsleyfisskilyrðum væru til kynningar hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og á skrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss birtist í Dagskránni-fréttablaði Suðurlands 8. september 2016. Drögin lágu frammi til kynningar í fjórar vikur, frá 8. september til og með 6. október 2016, og var þar gert ráð fyrir fjögurra ára gildistíma starfsleyfisins.

Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 29. september s.á. var eftirfarandi bókað: „Í ljósi þeirra markmiða bæjaryfirvalda að flytja fiskþurrkunarstarfsemi út fyrir þéttbýli Þorlákshafnar geta bæjaryfirvöld með engu móti samþykkt að veitt verði starfsleyfi til næstu fjögurra ára og bæjarstjóra falið að koma á framfæri athugasemdum bæjarstjórnar í samræmi við umræður á fundinum.“ Sendi bæjarstjóri Heilbrigðiseftirliti Suðurlands tölvupóst þar sem framangreint kom fram ásamt frekari útskýringum varðandi það að skipulagt hefði verið svæði vestan við bæinn, sem m.a. væri ætlað fyrir starfsemi sem hefði mikil og truflandi lyktaráhrif á næsta umhverfi. Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands, dags. 30. september 2016, var eftirfarandi bókað: „Starfsleyfisskilyrði fyrir [kæranda] vegna heitloftsþurrkunar fiskafurða er í lögbundnu auglýsinga- og kynningarferli með viðeigandi fresti til athugasemda sbr. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Fresti til að gera athugasemdir við ofangreind skilyrði lýkur þann 6. október nk. Athugasemd hefur borist varðandi gildistíma starfsleyfis fyrir [kæranda], verður leyfið gefið út til tveggja ára í samræmi við markmið sveitarfélagsins um að lyktarsterk starfsemi eigi að víkja og sbr. bókun bæjarstjórnar Ölfuss dags. 29. september sl., er starfsmönnum falið að sjá um starfsleyfisútgáfu að kynningar- og auglýsingarferli loknu.“ Var kæranda kynnt ákvörðunin með bréfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 10. október s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa fengið bréf frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, dags. 10. október 2016, þar sem honum hafi verið kynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um að veita kæranda starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra, líkt og almennt eigi við um veitingu starfsleyfa fyrir sömu starfsemi og kærandi stundi, sbr. ákvæði 1. mgr. 20 gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Rök fyrir styttingu starfsleyfis séu ekki til staðar í málinu. Fyrirhuguð veiting leyfisins hafi verið auglýst og engin athugasemd hafi borist sem studd sé rökum. Eina athugasemdin sem hafi borist hafi verið frá bæjarstjóra Ölfuss í umboði bæjarstjórnar Ölfuss, en í athugasemdinni sé almennt fjallað um lyktarmengun í Þorlákshöfn.

Lyktarmengun í Þorlákshöfn, sem vísað sé til, sé útilokað að rekja til starfsemi kæranda en hann þekki til kvartana íbúa vegna lyktarmengunar frá öðru fiskþurrkunarfyrirtæki í bænum. Að því er best sé vitað hafi engin kvörtun borist Heilbrigðiseftirliti Suðurlands vegna starfsemi kæranda. Eigandi lóðar sem vinnsluhúsnæði kæranda standi á sé hafnarsjóður Þorlákshafnar og í lóðarleigusamningi komi fram að starfsemin sem eigi að fara fram á lóðinni sé fiskverkun. Þá sé fiskvinnsla í samræmi við deiliskipulag hafnarsvæðis Þorlákshafnar, sem samþykkt hafi verið af bæjarstjórn Ölfuss.

Kærandi fái ekki séð hvernig það samrýmist sjálfstæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og stjórnarmanna þess að þeir aðilar er skipi nefndarmenn í þá stofnun lýsi afstöðu sinni til þess hvernig hún eigi að starfa, líkt og bæjarstjóri geri í umboði bæjarstjórnar í bréfi sínu til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Í bréfinu sé tekið fram að ekki komi til álita að heilbrigðiseftirlitið framlengi starfsleyfi kæranda að tveimur árum liðnum. Hljóti  úrskurðarnefndin að fjalla um það í úrskurði sínum hvort bæjarstjórn hafi farið út fyrir heimildir sínar með óbeinum fyrirmælum til nefndar sem skipuð sé af bæjarstjórn.

Í reglugerð nr. 785/1999 segi í 1. mgr. 21. gr. að skylt sé útgefanda starfsleyfis að endurskoða það ef mengun af völdum atvinnurekstrar sé meiri en búast hafi mátt við þegar leyfið hafi verið gefið út og ef breytingar verði á bestu fáanlegu tækni sem geri það kleift að draga umtalsvert úr losun án óhóflegs kostnaðar. Jafnframt skuli endurskoða starfsleyfið ef öryggi við rekstur eða vinnslu krefjist þess að önnur tækni sé notuð en upphaflega hafi verið miðað við, ef breytingar verði á atvinnurekstri eða ef nýjar reglur um mengunarvarnir taki gildi. Kærandi gæti sætt sig við skertan gildistíma starfsleyfis ef einhver þau atvik sem tilgreind séu í framangreindu ákvæði ættu við. Rangfærslur í bréfi bæjarstjóra Ölfuss breyti ekki þeirri staðreynd að ekki hafi verið kvartað yfir lyktarmengun frá starfsemi kæranda.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands sé bundið af stjórnsýslulögum, þar á meðal meðalhófsreglu og rannsóknarreglu. Að mati kæranda séu ekki til staðar nein atvik er réttlætt geti þá ákvörðun að stytta starfsleyfistíma kæranda frá því sem almennt tíðkist. Mengun hafi ekki verið meiri frá starfsemi kæranda en búast hafi mátt við þegar starfsleyfið hafi upphaflega verið veitt. Þá notist kærandi við bestu fáanlegu tækni við starfsemi sína og séu stærstu fiskhausarnir, sem taki lengstan tíma að þurrka, þurrkaðir á fiskhjöllum utan byggðar. Loks sé þess að geta að það magn sem framleitt sé úr sé óverulegt miðað við aðrar sambærilegar fiskverksmiðjur, en starfsleyfið heimili framleiðslu úr 10 tonnum af hráefni á sólarhring eða 50 tonnum á viku.

Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurlands: Heilbrigðisnefnd bendir á að starfsleyfi til handa kæranda hafi verið endurnýjað skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Nefndin telji að farið hafi verið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við útgáfu leyfisins til tveggja ára og að meðalhófs- og rannsóknarreglu hafi verið fylgt.

Fyrir liggi að umsókn vegna annarrar starfsemi, sem sambærileg sé við starfsemi kæranda, hafi á sama ári verið afgreidd með sama hætti, þ.e. leyfi veitt til tveggja ára. Heilbrigðisnefnd geti fallist á með kæranda að líklegt sé að mun meiri lykt stafi frá annarri og mun afkastameiri fiskþurrkun í bænum en frá starfsemi kæranda, en hins vegar sé ekki hægt að útiloka að hluti þeirrar lyktarmengunar sem kvartað hafi verið yfir sé þaðan komin.

Kærandi geri sjálfstæði heilbrigðisnefndar Suðurlands að umtalsefni, þar sem komi fram í bréfi bæjarstjóra Ölfuss að ekki komi til álita að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands framlengi starfsleyfi. Bæjarstjórn sé frjálst að setja fram álit varðandi málið. Slíkt álit sé hins vegar ekki það sama og álit heilbrigðisnefndar, enda sé nefndin sjálfstæð í sínum ákvörðunum, eins og áralangur málarekstur vegna lyktarsterkrar starfsemi í Þorlákshöfn beri vitni um. Hafi mál þessu tengd m.a. komið áður á borð úrskurðarnefndarinnar og þá hafi heilbrigðisnefnd ekki dregið taum sveitarstjórnarinnar öðrum fremur. Vangaveltum um að heilbrigðisnefndin sé ekki sjálfstæð í sínum ákvörðunum gagnvart sveitarfélögum á Suðurlandi vísi nefndin alfarið á bug. Vissulega séu það sveitarfélögin á Suðurlandi sem skipi nefndarmenn heilbrigðisnefndar til fjögurra ára í senn, en það sé lýðræðislegt val 14 sveitarfélaga en ekki einungis bæjarstjórnar Ölfuss, eins og skilja megi af orðalagi kæranda.

Niðurstaða: Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar.

Samkvæmt þágildandi 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skyldi allur atvinnurekstur sem haft gæti í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Starfsleyfi eru háð skilyrðum reglugerðar nr. 785/1999 um atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum slíks atvinnurekstrar, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir, þ. á m. heitloftsþurrkun fiskafurða, sbr. lið 5.7. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um endurnýjun á gildandi starfsleyfi sínu og voru drög að starfsleyfisskilyrðum auglýst í fjórar vikur, frá 8. september til og með 6. október 2016. Á auglýsingatímanum barst athugasemd frá Sveitarfélaginu Ölfusi, þar sem lagst var gegn því að leyfið yrði veitt til fjögurra ára og farið fram á að starfsleyfistíminn yrði ekki lengri en tvö ár. Var vísað til þeirra markmiða sveitarfélagsins að lyktarsterk starfsemi eins og heitloftsþurrkun fiskafurða ætti að víkja úr þéttbýli Þorlákshafnar. Ákvað heilbrigðisnefnd Suðurlands á fundi sínum 30. september 2016 að starfsleyfið yrði gefið út til tveggja ára að kynningartíma loknum og var vísað til athugasemdar sveitarfélagsins í því sambandi. Starfsleyfið var gefið út 10. október 2016 og gildir til 10. október 2018.

Í XI. kafla reglugerðar nr. 785/1999 er kveðið á um hvernig staðið skuli að undirbúningi og  auglýsingu útgáfu starfsleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. skal útgefandi auglýsa á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði ef við á, að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis hún sé og hvar hún liggi frammi. Einnig skal tilgreina frest til þess að gera skriflegar athugasemdir við tillöguna. Frestur til að gera skriflegar athugasemdir vegna starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali 2 í reglugerðinni skal vera fjórar vikur frá auglýsingu. Framangreint á að tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að umsóknum um starfsleyfi fyrir rekstur sem haft getur áhrif á umhverfið og að aðilar eigi þess kost að gera athugasemdir við starfsleyfisdrög. Er ljóst að athugasemdir geta leitt til breytinga á starfsleyfi, enda felst það í orðanna hljóðan að tillaga er ekki endanleg. Um útgáfu starfsleyfis segir í 26. gr. reglugerðar nr. 785/1999 að útgefandi skuli innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi rennur út taka ákvörðun um útgáfu þess.

Eins og lýst er í málavöxtum var starfsleyfistillagan auglýst í samræmi við framangreint og gerði einn aðili athugasemd á auglýsingartíma. Sá galli var þó á málsmeðferðinni að ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins til tveggja ára var tekin á fundi heilbrigðisnefndar 30. september 2016, eða sex dögum áður en auglýstum kynningartíma lauk og frestur til að gera athugasemdir rann út. Sú athugasemd sem gerð var á auglýsingatíma var þá fram komin og var tekið fram í ákvörðuninni að ekki skyldi gefa leyfið út fyrr en að kynningar- og auglýsingatíma liðnum, eða eftir 6. október s.á. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila og samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laganna getur stjórnvald breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls. Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út 10. október 2016 og kæranda tilkynnt um ákvörðunina með bréfi dagsettu sama dag. Hafði heilbrigðisnefnd því þann möguleika að breyta ákvörðun sinni um útgáfu leyfisins allt til þess dags er lögbundinn athugasemdafrestur rann út og var samkvæmt því ekki hætta á réttarspjöllum þótt fram hefði komið athugasemd eftir fund heilbrigðisnefndar 30. september. Verður ákvörðunin því ekki ógilt af þeim sökum.

Eins og áður hefur komið fram er markmið reglugerðar nr. 785/1999 að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun. Í 10. mgr. 3. gr. í reglugerðinni segir að mengun sé þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valdi óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Ber heilbrigðisnefnd að líta til þess við ákvörðun um starfsleyfi að áhrif framangreindra þátta á umhverfið verði sem minnst. Í 12. gr. reglugerðarinnar er fjallað um almenn skilyrði starfsleyfis og segir þar í 1. mgr. að starfsleyfi skuli gefa út til tiltekins tíma. Ekkert segir þar annað um gildistíma starfsleyfa en að sé leyfið gefið út án þess að fyrir liggi deiliskipulag skuli það ekki gefið út til lengri tíma en fjögurra ára og í 1. mgr. 20. gr. segir að starfsleyfi skuli endurskoða að jafnaði á fjögurra ára fresti. Leyfishafi á því samkvæmt framangreindu ekki lögvarða kröfu til þess að leyfi sé gefið út honum til handa í tiltekinn lágmarkstíma. Í athugasemd sinni vísaði sveitarstjórn til þeirrar stefnu sinnar að færa lyktarsterka starfsemi fjær byggð í Þorlákshöfn. Kemur sú stefna skýrlega fram í gildandi Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022, sbr. aðalskipulagsbreytingu þess efnis sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 25. maí 2016. Í samræmi við það ákvað heilbrigðisnefndin að veita starfsleyfið til tveggja ára í stað fjögurra og verður að telja það lögmætt markmið miðað við framangreint, sbr. og markmið reglugerðar nr. 785/1999. Þá verður sú ákvörðun talin byggjast á meðalhófi í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Loks verður ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir heilbrigðisnefnd við töku hinnar kærðu ákvörðunar og að málsmeðferð nefndarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við lög. Verður kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 30. september 2016 um að veita Fiskmarki ehf. starfsleyfi til tveggja ára í stað fjögurra.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

 
 

59/2018 Urðunarsvæði á Bakkafirði

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2018 um að veita starfsleyfi fyrir urðunarsvæði við Bakkafjörð.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Halldór fiskvinnsla ehf., Hafnargötu 8, B, Kötlunesvegi 1, og A, Vík, Bakkafirði, Langanesbyggð, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2018 að veita starfsleyfi til reksturs urðunarsvæðis við Bakkafjörð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 7. maí 2018.

Málsatvik og rök:
Hinn 21. mars 2018 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til Langanesbyggðar fyrir urðun úrgangs á urðunarstað í Slökkum, norðaustan við Bakkafjörð, Langanesbyggð. Með leyfinu er heimilað að taka á móti og urða allt að 200 tonn af úrgangi á ári. Drög að starfsleyfinu voru auglýst á tímabilinu 7. nóvember til 7. desember 2017 og bárust þrjár athugasemdir við tillöguna á auglýsingartíma. Var útgefið starfsleyfi birt á vefsvæði Umhverfisstofnunar 28. mars 2018, í samræmi við ákvæði 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærendur vísa um stöðvunarkröfu sína til 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir starfseminni í samræmi við ákvæði 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að öðru leyti sé málsmeðferð að baki útgáfu hins kærða starfsleyfis háð ágöllum og ekki hafi verið efnisleg skilyrði til útgáfu þess. Starfsleyfið hafi jafnframt verið í ósamræmi við réttarheimildir og ákvarðanir sem Umhverfisstofnun hafi verið bundin af við ákvörðun sína.

Umhverfisstofnun kveðst leggjast gegn frestun réttaráhrifa á ákvörðun um veitingu starfsleyfis, sem stofnunin telji að gefið hafi verið út með réttum hætti. Verði að líta til þess, við mat á því hvort aðstæður mæli með frestun réttaráhrifa, að sýnt hafi verið fram á að án frestunar myndi gæta röskunar sem væri óafturkræf eða hefði með öðrum hætti þungbærar afleiðingar. Það liggi ekki fyrir í þessu máli. Um sé að ræða eldri urðunarstað sem hafi áður verið í notkun og ákvæði starfsleyfisins taki á þeim kröfum sem gera verði til rekstursins, m.a. vegna hugsanlegs foks og lyktaráhrifa á umhverfi.

Leyfishafa var gefinn kostur á að gera athugasemdir en kaus að nýta ekki þann rétt sinn.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en jafnframt er kærendum þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda komi fram krafa um það af hálfu kærenda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. Er greint heimildarákvæði undantekning og ber að skýra þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Eins og fram hefur komið virðast kærendur helst byggja kröfu sína um frestun réttaráhrifa á því að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út. Það leyfi er einnig kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar og geta kærendur eftir atvikum komið að kröfu um stöðvun framkvæmda í slíku kærumáli. Starfsleyfi veitir hins vegar ekki heimild til framkvæmda heldur til atvinnurekstrar sem sjálfhætt er verði viðkomandi leyfi fellt úr gildi. Um gamalt urðunarsvæði er að ræða sem hefur verið í notkun í a.m.k. tuttugu ár. Verður ekki séð að áframhaldandi rekstur sé líklegur til að hafa í för með sér þau óafturkræfu áhrif á umhverfið, á meðan á meðferð kærumáls þessa stendur, að forsendur séu til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis. Er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2018 um að veita starfsleyfi fyrir urðunarsvæði við Bakkafjörð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Ásgeir Magnússon

41/2018 Þjóðhildarstígur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. mars 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Grænlandsleið 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6. Verður að skilja málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. apríl 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 22. maí 2017, óskuðu eigendur Þjóðhildarstígs 2-6 eftir endurnýjun á byggingarleyfi, sem samþykkt hafði verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júní 2015. Fól umsóknin í sér að byggð yrði létt viðbygging fyrir geymslu ofan á bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 var framangreind umsókn samþykkt.

Með tölvupósti, dags. 10. júlí 2017, fór annar kærenda fram á að fá upplýsingar um þau byggingaráform sem samþykkt hefðu verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júní s.á. Einnig var óskað upplýsinga um hvort ekki ætti fyrir útgáfu byggingarleyfis að ganga frá lóð í samræmi við deiliskipulag og meðfylgjandi umsögn skipulagsfulltrúa frá 31. mars 2016 vegna umsóknar leyfishafa um samþykki reyndarteikninga, þar sem fram kom að frágangur á lóð væri ekki í samræmi við skipulag, og enn fremur hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út. Svar barst 12. s.m. og var á þá leið að erindið um viðbyggingu sem spurt væri um hefði verið samþykkt á afgreiðslufundi 6. júní 2017. Ekkert byggingarleyfi hefði verið gefið út, en áformin væru gild í tvö ár eftir samþykkt þeirra. Hinn 21. nóvember 2017 var byggingarleyfi svo gefið út.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda kemur fram að hvorki hafi verið staðið við lóðarfrágang né gengið frá gróðurþekju sem eigi að vera á þaki bílageymslu og á þaki 1. hæðar. Ekki hafi verið gengið frá lóðinni eftir síðustu viðbyggingu sem hafi verið samþykkt 10. janúar 2006.

Veitingastaður hafi verið rekinn í umræddu húsi frá árinu 2004. Enn eigi eftir að fylla að bílageymslu. Grjót og möl ásamt illgresi blasi við út um glugga á húsi kærenda. Einnig hafi lóðin ítrekað verið notuð til aksturs, vöruflutninga, sem og lagningar bíla, allt gegn gildandi deiliskipulagi. Væntingar til leyfisveitanda um að gengið yrði frá lóðinni áður en byggingarleyfi yrði útgefið hefðu ekki staðist.

Óskað sé eftir því að gengið verði frá lóðinni samkvæmt deiliskipulagi og framkvæmdir við viðbygginguna stöðvaðar á meðan. Reynslan sýni að þegar umræddur eigandi hafi fengið að byggja viðbyggingu sé lóðarfrágangi samkvæmt teikningum og deiliskipulagi ekki sinnt. Einnig sé skjólveggur á lóðinni sem sé óleyfisframkvæmd og komi í veg fyrir að lóð falli að landi samkvæmt upprunalegum teikningum og gildandi deiliskipulagi.

Það margt sé óljóst varðandi lóðarfrágang að tilefni sé til að stöðva framkvæmd viðbyggingar og að úrbætur séu gerðar strax í þeim efnum. Reynslan sýni að eigandi hafi ekki haft hug á að sinna lóðarfrágangi eins og eigi að gera samkvæmt þeim teikningum sem kynntar hafi verið.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda kemur fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 hafi umsókn um leyfi til að byggja létta viðbyggingu fyrir geymslu ofan á þak bílageymslu, auk skyggnis framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg verið samþykkt. Byggingarleyfið hafi svo verið gefið út 21. nóvember 2017.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kærendur hafi um langt árabil átt í reglulegum samskiptum við byggingarfulltrúa vegna ástands lóðarinnar Þjóðarhildarstígs 2-6, en þeir hafi verið ósáttir við notkun lóðarinnar sunnan megin við húsið fyrir akandi umferð. Reglulega hafi kærendur sent ábendingu til byggingarfulltrúa um alla umferð á lóðinni, meintar óleyfisframkvæmdir o.s.frv. Með tölvupósti til embættis byggingarfulltrúa 11. júlí 2017 hafi kærendur óskað eftir upplýsingum um hvort búið hafi verið að gefa út byggingarleyfi vegna málsins. Kærendum hafi verið svarað samdægurs af starfsmanni byggingarfulltrúa og efnislegt svar hafi borist daginn eftir.

Af framansögðu megi vera ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um samþykktina í síðasta lagi hinn 11. júlí 2017, en kæra hafi ekki borist fyrr en átta mánuðum eftir að þeim hafi verið orðin ljós afgreiðsla hennar. Hafi þá verið liðnir tæpir fimm mánuðir frá útgáfu byggingarleyfis, en rúmir níu frá samþykkt byggingaráforma. Hafi því verið liðinn sá mánaðarfrestur sem tiltekinn sé í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 til þess að kæra ákvörðun þeirra stjórnvalda sem sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinu kærða byggingarleyfi verður að líta til þess að hús kærenda stendur í rúmlega 30 m fjarlægð frá því húsi sem fyrirhuguð viðbygging mun standa á og liggur ofar í landi, en á milli er nokkur landhalli. Kjarrlendi og göngustígur er á milli húsanna. Fyrirhuguð 120 m2 viðbygging er þó í sjónlínu frá húsi kærenda. Hins vegar verður ekki séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Útsýni kærenda mun sömuleiðis ekki skerðast, þó svo að ásýnd húss leyfishafa muni breytast með tilkomu viðbyggingarinnar. Í ljósi staðhátta verður ekki séð að sú útlitsbreyting muni í neinu skerða áhrif kærenda. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Af gögnum kærumálsins, og kröfum kærenda í því, má ráða að meginástæða framkominnar kæru og ágreiningur þessa máls sé fyrst og fremst skortur á frágangi á lóð leyfishafa og notkun hennar. Að mati kærenda er ekki farið að deiliskipulagi eða útgefnum byggingarleyfum. Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Getur og komið til kasta Mannvirkjastofnunar á grundvelli sömu heimilda, sbr. 18. gr. laganna. Ákvarðanir þessara aðila um að beita, eða synja um að beita, framangreindum úrræðum geta eftir atvikum verið kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

18/2018 Efra-Sel

Með

Árið 2018, föstudaginn 11. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 18/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2018, er barst nefndinni 9. febrúar s.á., kærir umráðamaður Lækjarsels, þá ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 12. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 25. október 2017, óskuðu eigendur Efra-Sels 3e eftir heimild til að deiliskipuleggja land fyrir byggingu íbúðarhúss, ásamt skemmu og gistiskálum tengdum ferðaþjónustu. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 6. nóvember s.á. var umsóknin samþykkt og var lagt til að deiliskipulagstillagan yrði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún og auglýst með athugasemdafresti frá 15. nóvember til 28. desember 2017. Einnig var óskað umsagnar Minjastofnunar, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og gerðu þær stofnanir engar athugasemdir við tillöguna. Hins vegar bárust athugasemdir innan frestsins frá aðilum á svæðinu, þ. á m. frá kærendum. Var þeim svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 8. janúar 2018 og staðfest á fundi sveitarstjórnar 10. s.m. með fyrirvara um breytta aðkomu að lóðinni. 

Kærandi bendir á að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við aðalskipulag Rangárþings ytra, en samkvæmt 12. gr. skipulagslaga sé það skilyrði að gildandi skipulagsáætlanir séu í innbyrðis samræmi. Þá hafi sveitarfélagið ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, en við afgreiðslu málsins sé hvergi dregin athygli að aðalskipulagi. Einnig liggi fyrir umsókn um lögbýli fyrir Efra-Sel 3e sem sveitarfélagið hafi veitt jákvæða umsögn, en deiliskipulagstillagan beri ekki merki um fyrirhugaða starfsemi samkvæmt nefndri umsókn. Telja verði að vegur muni ekki þola þá umferð sem ferðaþjónusta hafi í för með sér allt árið um kring. Undarlag hans sé ekki frostfrítt og muni hann því skemmast með slíkri atvinnustarfsemi.

Af hálfu Rangárþings ytra er bent á að ekki sé búið að auglýsa gildistöku hins kærða deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda. Beðið sé eftir viðbrögðum eigenda Efra-Sels 3e um leiðréttingu eða lagfæringu á atriði sem athugasemdir hafi m.a. lotið að.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Hin kærða deiliskipulagstillaga var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. janúar 2018 og í kjölfarið send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun þá hefur hún ekki lokið yfirferð sinni vegna hinnar kærðu deiliskipulagstillögu. Eðli máls samkvæmt hefur auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar því ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að Skipulagsstofnun geri athugasemdir um form- eða efnisgalla á deiliskipulagstillögunni, tillagan taki breytingum eða að hætt verði við gildistöku hennar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

63/2016 Siglingar á Mývatni

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 18. maí 2016 um að synja umsókn kærenda um leyfi til skoðunarferða með farþega á Mývatni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júní 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur  á  Geiteyjarströnd 1, og  Geiteyjarströnd 1a, Skútustaðahreppi, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 18. maí 2016 að synja umsókn kærenda um leyfi til náttúruskoðunarferða með farþega á Mývatni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 18. maí 2016.

Málavextir:
Með bréfi, dags. 21. febrúar 2016, sóttu kærendur um leyfi til Umhverfisstofnunar fyrir siglingum um Mývatn með ferðamenn gegn gjaldi. Hugðust kærendur sigla á 20 manna trébáti með rafmagnsvél og væri stefnt að því að fara eina til þrjár ferðir á dag. Átti tímabil siglinganna að vera frá 15. maí og út september, eða eins og veður leyfði. Samkvæmt umsókn kærenda var áætlað að hver ferð yrði um tvær klukkustundir með viðkomu í Háey. Annar kærandinn er þinglýstur eigandi jarðarinnar Geiteyjarstrandar 1, sem á land að Mývatni.

Áður en ákvörðun var tekin um umsókn kærenda leitaði Umhverfisstofnun álits Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Umsögn Náttúrufræðistofnunar er frá 2. maí 2016 og er niðurstaða hennar að ekki sé mælt með því að gefin verði út leyfi til siglinga fyrir ferðamenn á Mývatni. Er á meðal forsendna nefnt að útgáfa slíks leyfis sé ekki í samræmi við meginsjónarmið um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og virka náttúruvernd í lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem leyfið yrði líklegt til að hafa neikvæð áhrif á lífríki vatnsins og að þar með væri grundvöllurinn fyrir félagslegum ávinningi einnig brostinn. Í áliti Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, dags. 18. s.m., er einnig lagst gegn því að veitt verði leyfi til siglinga með ferðamenn. Kemur fram að samkvæmt rannsóknum fælist vatnafuglar bátaumferð. Kafendur og flórgoði fælist báta í um 1,5 km fjarlægð en álftir og rauðhöfðaönd í um 700 m fjarlægð. Kemur fram í niðurlagi álits rannsóknarstöðvarinnar að við töku ákvörðunar þurfi að hafa í huga að slíkar siglingar séu viðbótarálag á vistkerfi sem þegar sé undir álagi. Kúluskítur sé að hverfa, líklega vegna minnkandi birtu, silungsveiði sé nánast engin og viðkomubrestur hjá fuglum sé tíður, svo dæmi séu tekin.

Umhverfisstofnun synjaði umsókn kærenda á þeim forsendum að í ljósi þeirra gagna og umsagna sem fyrir lægju í málinu væri talið að starfsemi sú sem sótt væri um leyfi fyrir væri talin geta haft truflandi áhrif á fuglalíf. Svæðið væri einnig á rauðum lista Umhverfisstofnunar, m.a. vegna ágangs ferðamanna, sem reyndi á vistkerfi þess, og ljóst væri að það væri undir miklu álagi. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur kveða náttúruskoðun á Mývatni eiga sér afar langa hefð, en heimildir séu fyrir því að Mývetningar hafi haft nytjar af því að sýna ferðamönnum vatnið undir leiðsögn í a.m.k. eina öld. Siglingar um vatnið hafi verið mjög vinsælar en nú á dögum sé ýmis konar náttúruskoðun stunduð á vatninu og við vatnið. Um 1930 hafi orðið tímamót þegar bílvegur hafi verið opnaður yfir Mývatnsheiði og í Álftagerði. Þá hafi verið keypt lítil trilla sem hafi verið notuð til fólks- og vöruflutninga um Mývatn. Um svipað leyti hafi verið keyptur lítill mótorbátur að Syðri-Neslöndum og hafi hann verið notaður á vatninu fram undir 1970. Eftir því sem gestum hafi fjölgað á svæðinu hafi þörf fyrir þjónustu á vatninu aukist. Um 1960 hafi hótel í Reykjahlíð fest kaup á kraftmiklum hraðbát fyrir sex til átta farþega, sem hafi verið nýttur til skemmtisiglinga vítt um vatnið. Árið 1969 hafi ferðaþjónustufyrirtæki keypt fjórar litlar skektur til útleigu á vatninu fyrir ferðamenn. Sú þjónusta sé enn til staðar og hafi verið látin óáreitt alla tíð. Árin 1991-1994 hafi verið hafnar siglingar með ferðamenn á slöngubát með 20 hestafla mótor, sem hafi tekið mest sex farþega. Hafi Náttúruverndarráð gefið út formlegt leyfi til starfseminnar að fengnum umsögnum frá sveitarstjórn og veiðifélagi Mývatns. Mikil eftirspurn hafi verið eftir þjónustunni.

Kærendur telji að brotið sé á eignarrétti þess kæranda sem sé þinglýstur eigandi Geiteyjarstrandar, en sá réttur sé verndaður af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hefðbundnar nytjar, líkt og kærendur óski eftir, rúmist innan eignarréttinda þeirra og því beri Umhverfisstofnun að heimila þeim að starfrækja náttúruskoðunarferðir.

Í 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu segi að notkun farartækja á Mývatni og Laxá og öðrum stöðuvötnum á verndarsvæðum sé einungis heimil vegna hefðbundinna nytja og fleiri atriða, en reglugerðin sé sett með stoð í 3. og 4. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Umsókn um náttúruskoðunarferðir um Mývatn falli undir skilgreininguna á hefðbundnum nytjum á Mývatni. Byggi kærendur á því að siglingar með farþega gegn gjaldi hafi verið stundaðar á vatninu í að verða heila öld.

Í 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 komi fram að leita skuli leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmd og hvers konar starfsemi á verndarsvæðinu sem geti haft áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag svæðisins. Kærendur bendi á að fyrirhugaðar skoðunarferðir kunni að hafa áhrif á fuglalíf. Það sé þó mat kærenda að áhrifin séu hverfandi og jafnvel jákvæð, enda hafi reynslan sýnt að fuglar venjist umferð, sem þeim stafi engin ógn af, mjög fljótt og leiti jafnvel skjóls fyrir vargi með því að fylgja slíkri umferð. Vert sé að nefna að víða sé farið í náttúruskoðunarferðir um friðlýst svæði og varplönd á forræði Umhverfisstofnunar, en boðið sé upp á þessar náttúruskoðunarferðir gegn greiðslu. Það sama eigi að gilda um kærendur og bendi þeir jafnframt á að enginn hávaði verði frá rafmagnsvél bátsins, hann verði lágreistur og muni fara hægt um. Einnig verði þess gætt sérstaklega á varptíma að forðast návígi við varpstöðvar, enda séu þær vel þekktar.

Í verndaráætlun Mývatns og Laxár sé fjallað um, í kafla 4.7.3, að notkun vélknúinna báta sé heimil í þágu atvinnurekstrar eða annarrar starfsemi sem nauðsynleg teljist. Ekki sé sérstaklega fjallað um notkun báta sem kærendur hyggist nota, enda hafi jafn vistvænt far aldrei siglt með reglubundnum hætti um Mývatn.

Í II. kafla laga nr. 60/2013 um náttúruvernd komi fram meginreglur sem stjórnvöld skuli taka mið af við töku ákvarðana sem áhrif hafi á náttúruna. Í 9. gr. laganna sé svokölluð varúðarregla, en samkvæmt henni skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Þá segi jafnframt að ef hætta sé á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skuli skorti á vísindalegum rökum ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða eða sem geti komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim. Náttúrufræðistofnun Íslands vísi til þessarar greinar í umsögn sinni, dags. 2. maí 2016, en taki um leið fram að ekki verði fullyrt hversu alvarleg áhrif siglinga á vatninu geti orðið, en þau séu að öllum líkindum afturkræf ef þær yrðu leyfðar. Þetta sé hluti af ástæðu þess að kærendur óski eftir tilraunaleyfi til fimm ára, þar sem fylgst yrði með áhrifum verkefnisins á þá þætti sem Umhverfisstofnun telji að gætu orðið fyrir áhrifum, en að þeim tíma liðnum yrði hægt að leggja mat á framhaldið. Komi engar afleiðingar í ljós verði það jákvætt fyrir alla, en komi einhverjar óæskilegar afleiðingar í ljós af skoðunarferðunum séu þær líklega afturkræfar að fullu.

Vísist einnig til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur telji málið ekki hafa verið nægilega rannsakað áður en ákvörðun hafi verið tekin í því. Ekkert hafi verið kannað hver áhrif þess séu að báturinn verði mjög hljóðlítill og knúinn rafmagni. Jafnframt vísi kærendur til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en kærendur telji að í ljósi reglunnar sé hægt að veita þeim tímabundið leyfi til náttúruskoðunarferða um vatnið og kanna svo hver staðan verði að þeim tíma liðnum. Loks vísi kærendur til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga og reglunnar um réttmætar væntingar. Það sé ljóst að farþegaflutningar séu stundaðir á vatninu. Því telji kærendur með hliðsjón af jafnræðisreglu að þeirra mál eigi að meðhöndla á sambærilegan hátt og önnur samskonar mál. Þeir telji sig því mátt hafa réttmætar væntingar til þess að fá að stunda náttúruskoðunarferðir á vatninu með farþega gegn greiðslu.

Þá sé ljóst að náttúruskoðunarferðir séu stundaðar í friðlandinu gegn greiðslu þó svo að þær séu ekki farnar út á vatnið. Kærendur telji að þeim eigi einnig að vera heimilt að bjóða upp á náttúruskoðunarferðir í friðlandinu gegn greiðslu á grundvelli sjónarmiða um jafnræði.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun kveður Mývatn vera verndað skv. lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Markmið laganna sé að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá eigi lögin að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vatnasviði Mývatns, sbr. 2. mgr. 1. gr. Óheimilt sé að valda spjöllum eða raski á lífríki Mývatns og á því svæði sem njóti verndar skv. lögunum, sbr. 1. mgr. 3. gr.

Mývatn hafi upphaflega verið verndað með lögum nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Í lögunum hafi ekki verið fjallað sérstaklega um bótarétt vegna verndunar Mývatns en í 9. gr. hafi komið fram að um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins færi að öðru leyti eftir reglum í lögum um náttúruvernd. Í lögum nr. 97/2004 sé heldur ekki fjallað um bótarétt. Hins vegar sé kveðið á um tiltekinn bótarétt í 42. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, þar sem fram komi tímafrestir og skilyrði, sbr. áður 59. gr. eldri náttúruverndarlaga nr. 44/1999. Lög nr. 97/2004 og reglugerð nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, sem sett sé með stoð í lögunum, veiti Umhverfisstofnun heimildir til ákvarðana sem kunni að takmarka eignarráð landeigenda við Mývatn. Skoða verði hvort takmörkun sú sem hér um ræði, þ.e. að synja kærendum um leyfi til siglinga á Mývatni, sé almenn takmörkun á eignarréttindum, sem löggjafinn heimili og talið hafi verið að menn þurfi að þola bótalaust, eða sérstök takmörkun á eignarrétti, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Almennt sé viðurkennt í íslenskum rétti að löggjafanum sé heimilt að mæla fyrir um almennar takmarkanir eignaréttar sem ekki hafi í för með sér bótaskyldu ríkisins.

Umhverfisstofnun telji að þær takmarkanir sem um ræði í þessu máli séu í samræmi við markmið friðunar svæðisins og ekki umfangsmeiri en búast hafi mátt við í aðdraganda friðunar. Byggi stofnunin mat sitt á því að takmörkun þessi nái til allra þeirra sem hafi í hyggju að sigla með ferðamenn á Mývatni. Öðrum sé ekki veittur réttur til siglinga. Stofnunin bendi í þessu sambandi á dóm Hæstaréttar í máli nr. 456/1996, en í honum hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að skýra yrði bótaákvæði þágildandi laga um náttúruvernd nr. 47/1971 þannig að þau tækju aðeins til eignatakmarkana sem væru svo umfangsmiklar að þær jafngiltu eignarnámi í skilningi 72. gr. stjórnarskrár.

Notkun farartækja á Mývatni á tímabilinu 15. apríl til 20. ágúst sé aðeins heimil vegna hefðbundinna nytja og veiða, náttúrurannsókna og umsjónar með svæðinu, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 665/2012. Sé takmörkun þessi sett til verndar lífríki vatnsins. Kærendur byggi á því að siglingar með farþega gegn gjaldi hafi verið stundaðar á vatninu í að verða heila öld og því séu skoðunarferðir um vatnið hefðbundnar nytjar. Umhverfisstofnun telji ekki forsendur til að líta svo á að ferðaþjónusta af því umfangi sem kæran lúti að geti flokkast til hefðbundinna nytja. Kærendur hafi heldur ekki sýnt fram á að ferðamennska eins og þeir hafi lýst hafi verið stunduð af þeim eða öðrum á vatninu og geti þannig talist til hefðbundinna nytja.

Umhverfisstofnun telji ljóst að náttúra Mývatns og Laxár sé einstök á heimsvísu en lífríki Mývatns sé einstætt m.a. vegna þess að talið sé að þar haldi sig fleiri andategundir en nokkurs staðar á jörðinni. Á Mývatni sé að finna stærstu flórgoðabyggð landsins og geri hann sér flothreiður í gróðri við bakkana. Húsönd, sem sé einkennisfugl Mývatns, byggi tilvist sína á vatnakerfi Mývatns og Laxár, en að auki sé þar að finna fugla sem sé að finna óvíða annarsstaðar hér á landi, s.s. hrafnsönd og gargönd. Allar íslenskar andategundir, fyrir utan brandönd, verpi við Mývatn og Laxá.

Umhverfisstofnun hafi hafnað umsókn kærenda á þeim grundvelli að siglingar á Mývatni með ferðamenn trufli fuglalíf. Í umsögn Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ), dags. 14. apríl 2016, sé bent á að hvers konar bátar hafi fælandi áhrif á vatnafugla, mun meiri en fólk almennt geri sér grein fyrir. Þá minni RAMÝ á að vatnalíf á og í Mývatni sé enn í mjög þröngri stöðu hvað fæðuskilyrði varði. Þegar á heildina sé litið sé viðvarandi fæðuskortur, sem lýsi sér sem langtíma viðkomubrestur hjá fiski og fugli. Bátaumferð auki álagið, a.m.k. hjá vatnafugli. Þá bendi RAMÝ jafnframt á það fordæmi sem leyfisveiting myndi skapa.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 2. maí 2016, hafi verið vísað í greinargerð Árna Einarssonar frá árinu 2012, þar sem fjallað sé um niðurstöður rannsóknar á áhrifum siglinga á fuglalíf á Mývatni. Náttúrufræðistofnun bendi á að engin ástæða sé til að taka áhættu og leyfa siglingar upp á von og óvon, þegar gögn bendi til þess að þær valdi truflun á fuglalífi á viðkvæmu tímaskeiði í lífsferli fuglanna. Jafnframt telji stofnunin að líta beri til þess að vistkerfi Mývatns hafi verið undir miklu álagi síðustu ár og sé enn. Enn fremur sé bent á að það að leyfa afþreyingarsiglingar fyrir ferðamenn um vatnið undir þessum kringumstæðum sé að öllum líkindum eingöngu viðbótarálag á vistkerfi Mývatns, sérstaklega á vatnafugla. Þá telji Náttúrufræðistofnun að útgáfa leyfis til siglinga á vatninu sé ekki í samræmi við meginsjónarmið um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og virka náttúruvernd í lögum nr. 97/2004, þar sem leyfið sé líklegt til að hafa neikvæð áhrif á lífríki vatnsins og að þar með væri grundvöllur fyrir félagslegum ávinningi einnig brostinn.

Umhverfisstofnun bendi á að verndarsvæði Mývatns og Laxár hafi verið á rauðum lista stofnunarinnar frá árinu 2012 yfir svæði sem séu í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu eða hafi tapað því að hluta. Verndarsvæðið sé á rauðum lista þar sem svæðið sé undir miklu álagi, m.a. vegna fjölda ferðamanna sem komi að Mývatni, en mikill ferðamannastraumur valdi aukaálagi á vistkerfi svæðisins, bæði hvað varði fráveitu og ágang á náttúruverndarsvæði.

Umhverfisstofnun hafni staðhæfingum kærenda um að hafa ekki virt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Fyrir liggi að skv. 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 665/2012 skuli Umhverfisstofnun afla umsagna RAMÝ og Náttúrufræðistofnunar Íslands um leyfisumsókn. Umhverfisstofnun hafi óskað eftir umsögnum áðurnefndra stofnana í samræmi við ákvæðið og hafi það verið mat þeirra að siglingar á Mývatni hefðu truflandi áhrif á fuglalíf. Enn fremur hafi Umhverfisstofnun óskað eftir viðbótargögnum frá kærendum varðandi bátinn sem til hafi staðið að smíða og þann hávaða sem bærist frá honum. Kærendur hafi ekki getað lagt fram gögn sem sýndu fram á hversu mikið hljóð bærist frá bátnum.

Umhverfisstofnun bendi á að við töku ákvarðana sem áhrif hafi á náttúruna skuli taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram komi í 8.-11. gr. laga nr. 60/2013, m.a. um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku, varúð og mat á heildarálagi. Eins og fram komi í gögnum málsins bendi vísindaleg gögn og rannsóknir til þess að starfsemin hafi í för með sér neikvæð áhrif. Álag á svæðið vegna ferðamennsku sé það sama á fyrsta ári hvort sem leyfi sé veitt til eins eða fimm ára í senn. Stofnunin telji starfsemina geta farið í bága við verndarmarkmið laga nr. 97/2004 og náttúruverndarlaga.

Umhverfisstofnun hafni því að hafa ekki virt jafnræðisreglu. Stofnunin hafi ekki veitt öðrum ferðaþjónustuaðila leyfi til þess að stunda siglingar með ferðamenn á Mývatni og hafi raunar tvisvar sinnum synjað öðru fyrirtæki um leyfi til siglinga með ferðamenn. Annars vegar í júlí 2012 og hins vegar í janúar 2013 þar sem starfsemin hafi verið talin geta haft truflandi áhrif á fuglalíf Mývatns.

Niðurstaða: Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu eru nr. 97/2004. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er markmið þeirra að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. taka ákvæði laganna til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Óheimilt er skv. 1. mgr. 3. gr. að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Umhverfisstofnun hefur umsjón með náttúruvernd á landsvæði því sem um getur í lögunum, sbr. 5. gr. þeirra, og skal leita leyfis stofnunarinnar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geta áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á umræddu svæði, sbr. 2. mgr. 3. gr. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna setur ráðherra, að fenginni umsögn sveitarfélaga á svæðinu og Umhverfisstofnunar, reglugerð þar sem kveðið skal nánar á um verndun Mývatns og Laxár, þar á meðal takmarkanir á framkvæmdum á svæðinu og umferð og umferðarrétt almennings. Reglugerð nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. júlí 2012. Eru markmið hennar og gildissvið, sem tilgreind eru í 1. og 2. gr. reglugerðarinnar, þau sömu og laga nr. 97/2004.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. nefndrar reglugerðar nr. 665/2012 er notkun farartækja á Mývatni og Laxá og öðrum vötnum á verndarsvæðinu á tímabilinu 15. apríl til 20. ágúst einungis heimil vegna hefðbundinna nytja og veiða, náttúrurannsókna og umsjónar með svæðinu. Umhverfisstofnun getur einnig takmarkað frekar notkun tiltekinna farartækja á þessu tímabili að höfðu samráði við Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn og umráðamenn viðkomandi landareigna sem ekki eru í ríkiseigu. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. er notkun hraðbáta með 25 hestafla eða öflugri vél alfarið bönnuð á verndarsvæðinu og getur Umhverfisstofnun ef nauðsyn krefur takmarkað notkun annarra vélknúinna báta, m.a. með því að ákvarða tiltekin hraða- og hávaðamörk eða tiltekið hámark vélarafls báta.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu leitaði Umhverfisstofnun álits sérfræðistofnana áður en ákvörðun var tekin í málinu, þ.e. Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, sem starfar í samræmi við ákvæði IV. kafla laga nr. 97/2004. Voru niðurstöður álitsgerða nefndra stofnana samhljóða, en þær lögðust gegn því að veitt yrði leyfi til siglinga með ferðamenn á vatninu með vísan til hinna miklu verndarhagsmuna sem í húfi væru, sérstaklega fyrir fuglalíf. Fylgja gögn um rannsóknir áliti Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, en greinilegt er að mikil þekking liggur fyrir á fuglalífi á verndarsvæðinu, enda nefndri rannsóknarstöð eingöngu ætlað að starfa að rannsóknum á svæðinu. Ásamt framangreindu kemur fram í ákvörðun Umhverfisstofnunar að verndarsvæðið sé á rauðum lista stofnunarinnar yfir þau svæði sem eigi á hættu að tapa verndargildi sínu, m.a. vegna ágangs ferðamanna. Þetta reyni á vistkerfi svæðisins, en ljóst sé að svæðið sé undir miklu álagi.

Mývatn er afar viðkvæmt verndarsvæði. Þar, líkt og annarsstaðar á landinu, hefur orðið gríðarleg fjölgun ferðamanna á síðari árum. Eigendum jarða á verndarsvæðinu eru settar skorður hvað varðar nýtingu á eignum sínum með ákvæðum laga nr. 97/2004. Þær takmarkanir eru hins vegar ákvarðaðar af löggjafanum að loknu hagsmunamati og verða ekki endurskoðaðar af úrskurðarnefndinni.

Kærendur vísa til þess að vélknúnir bátar hafi verið notaðir til lengri tíma á vatninu, m.a. til að flytja ferðamenn. Almennir fólks- og vöruflutningar munu nú vera aflagðir og þau dæmi sem kærendur vísa til um flutning ferðamanna eru komin til ára sinna, auk þess sem um var að ræða báta sem flutt gátu færri farþega en kærendur fyrirhuga. Er því ekki saman að jafna.

Eins og fram kemur í tilvitnuðum ákvæðum reglugerðar nr. 665/2012 er meginreglan sú að notkun farartækja á Mývatni er óheimil á tímabilinu 15. apríl til 20. ágúst, en kærendur hugðust starfrækja rekstur sinn á tímabilinu 15. maí og út september. Undantekning frá banni við framangreindu er gerð vegna hefðbundinna nytja og veiða, náttúrurannsókna og umsjónar með svæðinu. Þrátt fyrir að að eitthvað hafi verið um siglingar á vatninu á síðustu öld, einkum áður en ákveðið var að vernda Mývatn með lögum árið 1974, verður ekki talið, með hliðsjón af hinum miklu náttúruverndarhagsmunum sem ákvæðum laga nr. 97/2004 og reglugerðar nr. 665/2012 er ætlað að vernda, að siglingar á 20 manna báti með ferðamenn einu sinni til þrisvar á dag verði taldar hefðbundnar nytjar í skilningi 15. gr. reglugerðar nr. 665/2012. Þá niðurstöðu styður jafnframt varúðarregla umhverfisréttar, sem lögfest hefur verið í náttúruverndarlögum nr. 60/2013. Var niðurstaða Umhverfisstofnunar málefnaleg og fullnægjandi rannsókn lá henni til grundvallar. Var kærendum og boðið að koma að frekari upplýsingum, m.a. um hljóðstyrk vélar báts þess sem nota ætti og hversu djúpt hann myndi rista. Þá verður ekki annað séð en jafnræðis hafi verið gætt við hina kærðu ákvörðun, sbr. það sem áður er rakið.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Telji kærendur sig hins vegar hafa orðið fyrir bótaskyldri skerðingu eignarréttinda með hinni kærðu ákvörðun liggur það utan valdsviðs úrskurðanefndarinnar að taka afstöðu til slíkrar kröfu. Á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils umfangs og fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 18. maí 2016 um að synja umsókn þeirra um leyfi til skoðunarferða með farþega á Mývatni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

86/2016 Langholt 2

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2016, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Flóahrepps frá 11. maí 2016 um deiliskipulag Langholts 2, landnúmer 166249.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júlí 2016, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi, Langholti 1, Flóahreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 11. maí s.á. að samþykkja deiliskipulag Langholts 2, landnúmer 166249. Líta verður svo á að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Flóahreppi 23. ágúst 2016.

Málavextir: Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum hinn 17. desember 2015 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir um 1 ha spildu úr landi Langholts 2 með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst 7. janúar 2016 með fresti til að gera athugasemdir til 19. febrúar s.á. Athugasemdir bárust frá nokkrum aðilum, þ. á m. kæranda. Tillagan var tekin fyrir í sveitarstjórn 2. mars s.á. með þeirri breytingu að byggingarreitur skipulagstillögunnar hafði verið minnkaður svo hann yrði í 50 m fjarlægð frá Hallandavegi til samræmis við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Var skipulagstillagan samþykkt svo breytt. Skipulagsstofnun var tilkynnt um samþykktina með bréfi, dags. 14. mars 2016, í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Jafnframt var þeim aðilum sem gert höfðu athugasemdir við tillöguna send svör við framkomnum athugasemdum og tilkynnt um afgreiðslu sveitarstjórnar með bréfi, dags. sama dag.
 
Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við samþykkt sveitastjórnar með bréfi dags. 5. apríl 2016. Sneru þær að því að á skorti að sveitastjórn hefði tekið afstöðu til hluta þeirra athugasemda sem fram komu á kynningartíma, skipulagssvæðið undanskildi íbúðarhús og bílskúr sem rökrétt væri að féllu innan þess, rökstuðning fyrir samræmi við aðalskipulag skorti og að tiltekin stærðarmörk fyrirhugaðs húss væru óskýr. Sveitarstjórn tók málið fyrir að nýju hinn 11. maí s.á. og var þá lögð fram breytt tillaga sem ætlað var að koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar og var hún samþykkt. Í breytingunum fólst að byggingarreitur skipulagsins var markaður 10 m frá landamerkjum í norðri, gert var ráð fyrir einu húsi í stað tveggja, sem jafnframt var stækkað úr 50 m2 í 85 m2. Gerð var grein fyrir samræmi deiliskipulags við aðalskipulag og mörkum skipulagssvæðisins breytt þannig að það næði yfir þegar reist íbúðarhús og bílskúr. Skipulagsstofnun yfirfór skipulagið að nýju og kunngerði með bréfi dags. 1. júní 2016 að ekki væru gerðar athugasemdir við að auglýsing um samþykkt þess yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2016.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er hinni kærðu ákvörðun mótmælt og á það bent að sveitarstjórn hafi aldrei rætt þær athugasemdir sem bárust og að Skipulagsstofnun hafi ekki fengið lagfærða tillögu til skoðunar. Gerð sé athugasemd við að fjarlægð byggingarreits frá vegi sé mæld frá miðlínu vegar. Slík mæliaðferð eigi sér ekki í lögum.

Málsrök sveitarstjórnar Flóahrepps: Sveitarstjórn tók kæruna fyrir á fundi sínum hinn 10. ágúst 2016 og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar frá 8. s.m. þar sem skipulagsfulltrúa var falið að framsenda gögn vegna málsins til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar Flóahrepps á deiliskipulagi fyrir spildu úr landi Langholts 2. Að meginstefnu staðfestir skipulagið eldra fyrirkomulag húsakosts, en að auki er gert ráð fyrir nýjum byggingarreit fyrir frístundahúsi á 1-2 hæðum, sem megi vera allt að 85 m2 að stærð. Kærandi er eigandi landspildu sem liggur að hluta að skipulagssvæðinu.

Í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.7.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, skal sveitarstjórn, að loknum auglýstum athugasemdafresti deiliskipulagstillögu, taka tillöguna til umræðu að nýju og m.a. taka afstöðu til framkominna athugasemda og þess hvort breyta skuli tillögunni. Hið kærða skipulag var tekið til umræðu í sveitarstjórn Flóahrepps 2. mars 2016, en hafði þá auglýstri tillögu verið breytt, m.a. vegna athugasemda sem borist höfðu um staðsetningu byggingarreits með tilliti til Hallandavegar. Að lokinni þeirri umfjöllun fengu þeir aðilar sem gert höfðu athugasemdir við auglýsta tillögu bréf þar sem gerð var grein fyrir afgreiðslu sveitarstjórnar auk þess sem athugasemdum var svarað. Frekari breytingar voru síðan gerðar á deiliskipulaginu í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar. Meðal annars lutu breytingarnar að atriðum sem gerðar höfðu verið athugasemdir við á kynningartíma tillögunnar, s.s. varðandi rökstuðning fyrir samræmi deiliskipulagsins við aðalskipulag og fjarlægð byggingarreits frá lóðamörkum. Var hið kærða deiliskipulag samþykkt að nýju hinn 11. maí 2016.

Með þeim breytingum sem gerðar voru á auglýstri tillögu í meðförum sveitarstjórnar að loknum auglýsingafresti fólst að tekin var afstaða til þeirra athugasemda sem fram komu. Að stórum hluta var fallist á þau atriði sem athugasemdir voru gerðar við og skipulaginu breytt til samræmis við þær. Að auki var athugasemdum svarað skriflega með bréfi, dags. 14. mars 2016. Með hliðsjón af framgreindu telst sveitarstjórn Flóahrepps hafa tekið afstöðu til framkominna athugasemda í skilningi 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til bréfs Skipulagsstofnunar, dags. 1. júní 2016, telst það yfir allan vafa hafið að Skipulagsstofnun hafi fjallað efnislega um endanlega samþykkt deiliskipulag í samræmi við áskilnað 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Í gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar segir að utan þéttbýlis skuli í aðalskipulagi ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær skilgreindum stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m. Samkvæmt greinargerð gildandi aðalskipulags flokkast Hallandavegur ekki sem stofn- eða tengivegur og gilda því síðarnefndu mörkin um fjarlægð íbúða og frístundahúsa. Ekki er tilgreint í skipulagsreglugerð við hvað skuli nákvæmlega miða þegar greind fjarlægðarmörk eru ákveðin. Í 8. tl. 1. mgr. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er hugtakið vegur skilgreint sem svo að það nái yfir akbraut, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri séu nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not. Í 32. gr. vegalaga er fjallað um lágmarksfjarlægð ýmissa mannvirkja frá vegum og tilgreint hvernig skuli með nákvæmni afmarka slíka fjarlægð. Þar er lagt til grundvallar að fjarlægð skuli að jafnaði reikna frá miðlínu vegar og var þeirri mæliaðferð beitt við afmörkun byggingarreits í hinu kærða deiliskipulagi. Þykir rétt að við túlkun gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar sé tekið mið af ákvæðum vegalaga um mæliaðferð í þessu tilviki, sbr. 32. gr. laganna. Byggingarreitur hinnar kærðu ákvörðunar telst því rétt afmarkaður með tilliti til áskilnaðar skipulagsreglugerðar um fjarlægð frá Hallandavegi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Flóahrepps frá 11. maí 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Langholt 2, landnúmer 166249.

_________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                            Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

19/2018 Efra-Sel

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 19/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2018, er barst nefndinni 9. febrúar s.á., kæra tilgreindir eigendur Lækjarsels 1, þá ákvörðun bæjarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. janúar 2018 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Efra-Sel 3e. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 12. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 25. október 2017, óskuðu eigendur Efra-Sels 3e eftir heimild til að deiliskipuleggja land fyrir byggingu íbúðarhúss, ásamt skemmu og gistiskálum tengdum ferðaþjónustu. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 6. nóvember s.á. var umsóknin samþykkt og var lagt til að deiliskipulagstillagan yrði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún og auglýst með athugasemdafresti frá 15. nóvember til 28. desember 2017. Þá var einnig óskað umsagnar Minjastofnunar, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og gerðu þær stofnanir engar athugasemdir við tillöguna. Hins vegar bárust athugasemdir innan frestsins frá aðilum á svæðinu, þ. á m. frá kærendum. Var þeim svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi skipulagsnefndar 8. janúar 2018 og staðfest á fundi sveitarstjórnar 10. s.m. með fyrirvara um breytta aðkomu að lóðinni. 

Kærendur benda á að á undanförnum árum hafi verið skipulögð frístundabyggð í landi Efra-Sels og hafi flest hús verið byggð eins langt frá þjóðvegi og hægt hafi verið. Margar lóðir séu komnar með samþykkta frístundabyggð og aðrar séu í umsóknarferli. Aðeins hluti svæðisins sé óskipulagt land sem sé enn í kerfinu skráð landbúnaðarland eftir margar eignaskiptingar. Bent sé á að hvergi í landi Efra-Sels sé land skilgreint sem íbúðabyggð í dreifbýli, sbr. aðalskipulag Rangárþings ytra. Sé hvorki farið að gildandi reglum aðalskipulags né athugasemdum flestra eigenda á svæðinu.

Af hálfu Rangárþings ytra er bent á að ekki sé búið að auglýsa gildistöku hins kærða deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda. Beðið sé eftir viðbrögðum eigenda Efra-Sels 3e um leiðréttingu eða lagfæringu á atriði sem athugasemdir hafi m.a. lotið að.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingar um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda.

Hin kærða deiliskipulagstillaga var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. janúar 2018 og í kjölfarið send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun þá hefur hún ekki lokið yfirferð sinni vegna hinnar kærðu deiliskipulagstillögu. Eðli máls samkvæmt hefur auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar því ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að Skipulagsstofnun geri athugasemdir um form- eða efnisgalla á deiliskipulagstillögunni, tillagan taki breytingum eða að hætt verði við gildistöku hennar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

52/2018 Brúarvirkjun

Með

 

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 52/2018, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
 
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2018, er barst nefndinni 27. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. febrúar 2018 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun, 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í Tungufljóti. Tilkynnt var um veitingu framkvæmdaleyfisins með auglýsingu, m.a. í Lögbirtingablaði, 2. mars 2018. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 13. apríl 2018.

Málavextir: Fyrirhuguð framkvæmd er vatnsaflsvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum, Bláskógabyggð, og er um rennslisvirkjun að ræða sem mun verða með uppsett afl allt að 9,9 MW. Mat á umhverfisáhrifum vegna Brúarvirkjunar lá fyrir í júní 2016 og álit Skipulagsstofnunar um það mat lá fyrir 20. september s.á.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 4. maí 2017 var tekin fyrir umsókn HS Orku hf., dags. 27. apríl 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum vegna Brúarvirkjunar. Sótt var um leyfi fyrir efnistöku á um 18.000 m³ efnis úr námu E, sunnan Biskupstungnabrautar, veglagningu frá stöðvarhúsi að inntaki, plani undir vinnubúðir verktaka, lagningu rafstrengs og ljósleiðara milli stöðvarhúss og inntaks, tengingu við dreifikerfi Rarik, lagningu vatnsveitu og uppsetningu girðinga. Samþykkti sveitarstjórn umsóknina og var skipulagsfulltrúa falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar. Hefur þessi ákvörðun sveitarstjórnar ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Umsókn HS Orku hf., dags. 11. september 2017, um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun var lögð fyrir á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 28. september 2017. Gerði nefndin ekki athugasemd við að sveitarstjórn samþykkti umsóknina sem hún gerði á fundi sínum 12. október s.á. og fól skipulagsfulltrúa að auglýsa þá niðurstöðu sína. Úrskurðarnefndinni bárust kærur, m.a. frá kærendum, vegna framangreindrar ákvörðunar sveitarstjórnar.

Með umsókn sinni, dags. 17. janúar 2018, sótti HS Orka að nýju um framkvæmdaleyfi vegna Brúarvirkjunar. Umsókninni fylgdu frekari gögn og var þess óskað að afgreiðsla sveitarstjórnar frá 12. október 2017 yrði endurupptekin með hliðsjón af þeim gögnum, umsóknin afgreidd og samþykkt og fyrri afgreiðsla afturkölluð samtímis. Á fundi sínum 1. febrúar 2018 tók sveitarstjórn erindi HS Orku fyrir og féllst á að skilyrði til endurupptöku væru uppfyllt og bókaði jafnframt að fyrri samþykkt um málið frá 12. október 2017 væri felld úr gildi. Með úrskurði í kærumáli nr. 138/2017, uppkveðnum 19. febrúar 2018, var áðurnefndum kærum vegna ákvörðunar sveitarstjórnar frá 12. október 2017 vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ákvörðunin hefði ekki lengur réttarverkan að lögum.

Umsókn HS Orku um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 25. janúar 2018 og var eftirfarandi m.a. bókað um afgreiðslu málsins: „Að mati skipulagsnefndar eru lagaskilyrði til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis. Fyrirhuguð umsókn er í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins ásamt skilyrðum sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsókn HS Orku hf. vegna Brúarvirkjunar verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við umsókn og framlögð gögn, reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og auglýsa framkvæmdaleyfið.“ Þá var bókað um skilyrði leyfisveitingarinnar og tekið fram að samþykktin ætti ekki við um framkvæmdir sem háðar væru byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 1. febrúar 2018 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og var samþykkt að veita framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun með nánar tilgreindum skilyrðum. Jafnframt var lagt fyrir skipulagsfulltrúa að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og gefa út nýtt framkvæmdaleyfi að undangengnum framangreindum skilyrðum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að í fréttum hafi komið fram að athöfn hafi farið fram til þess að hefja framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi, en kærendum hefði ekki verið kunnugt um að verk hefðu verið boðin út. Framkvæmdir muni vera að hefjast og sé áætlaður verktími sagður vera tuttugu mánuðir. Verði því að telja að uppfyllt séu skilyrði 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um fyrirhugaðar eða hafnar framkvæmdir. Kæra samtakanna yrði þýðingarlaus miðað við þetta verði ekki orðið við stöðvunarkröfunni. Mikil óvissa sé um afleiðingar framkvæmdanna, enda hafi rannsóknir verið mjög af skornum skammti auk þess sem almannahagsmunir séu í húfi.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 komi fram sú meginregla að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Með sama hætti sé kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttarahrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta þeim meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði beri með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar sé þ.a.l. takmörkuð undantekningarregla sem skýra beri þröngt. Ríkar ástæður eða veigamikil rök verði því að liggja að baki slíkri ákvörðun og verði að gera þá lágmarkskröfu að sá sem fari fram á slíka frestun rökstyðji þörfina að baki þeirri kröfu hverju sinni. Sé vísað til framkvæmdar úrskurðarnefndarinnar, en hún hafi, sbr. nánar tilgreinda úrskurði, hafnað því að stöðva framkvæmdir með vísan til þess að hagsmunir kæranda séu ekki slíkir að knýjandi nauðsyn sé til að fallast á slíka kröfu.

Kærendur geti því ekki byggt kröfu um stöðvun framkvæmda á þeirri málsástæðu einni að framkvæmdir séu hafnar eða yfirvofandi. Þeir verði jafnframt að sýna fram á að knýjandi nauðsyn sé til að fallast á slíka kröfu. Kærendur hafi í máli þessu engin rök fært um knýjandi nauðsyn að baki frestunar réttaráhrifa. Því fari fjarri að þeir hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á þeim hvíli vegna kröfunnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir stöðvunarkröfu kærenda sem tilefnislausri. Það sé meginregla að kæra til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því sem varð að nefndum lögum komi fram að úrskurðarnefndinni beri að gæta að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Sé litið til úrskurða nefndarinnar beiti hún þessu valdi af mikilli varfærni. Mörg umkvörtunarefni kærenda séu fjarstæðukennd og eigi jafnvel ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar auk þess sem sum atriði kærunnar byggi á misskilningi.

Stöðvun framkvæmda byggist á undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri einungis að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Kærendur hafi hvorki fært fram neinar málsástæður eða rök fyrir að einhverjar þær aðstæður séu uppi sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis né sýnt fram á að þeir verið fyrir tjóni vegna framkvæmdanna. Augljóst sé hins vegar að stöðvun framkvæmda hefði í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa og viðsemjendur hans og með beinum og óbeinum afleiðingum fyrir nærsamfélagið sem muni njóta orkunnar þegar framleiðsla hefjist.

Leyfishafi geri kröfu um frávísun og bendi á að nauðsyn beri til að kanna hvort kærendur uppfylli skilyrði undantekningarákvæðis 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild án þess að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Einnig sé bent á að kærendur hafi ekki áður gert athugasemdir við framkvæmd þá sem nú sé kærð. Þeir hafi ekki kært framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum og hvorki komið að athugasemdum við breytingu aðalskipulags og deiliskipulagsgerð né í matsferlinu sjálfu. Geti kærendur ekki fyrst á kærustigi hreyft andmælum gegn framkvæmd sem byggi á staðfestu skipulagi, enda gangi slíkt beinlínis gegn grunnsjónarmiðum um kynningu og samráð, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumáli nr. 6/2007.

Niðurstaða:
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í tilvitnuðu lagaákvæði er þó gerð sú undantekning að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært nánar tilgreindar ákvarðanir, svo sem ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Skulu samtökin vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um að kærendur, sem eru umhverfisverndarsamtök, uppfylli nefnd skilyrði framangreindra laga. Þá er framangreind kæruheimild ekki bundin því skilyrði að kærendur hafi áður komið að athugasemdum vegna þeirrar framkvæmdar sem heimiluð er með hinni kærðu ákvörðun. Verður máli þessu því ekki vísað frá af þeim sökum.

Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin til þess sjálfstæða heimild, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ekki er um það deilt að framkvæmdir eru yfirvofandi. Skírskota kærendur og til þess að kæra þeirra yrði þýðingarlaus verði ekki orðið við kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar, þó sé mikilvægt að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru, þ.e. að horft sé til þess hversu líklegt sé að kæra breyti efni ákvörðunar.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að framkvæmdir verði ekki stöðvaðar á þeim grundvelli einum að umhverfi verði raskað, jafnvel þótt það rask verði umtalsvert, enda myndu flestar þær framkvæmdir sem sætt hafa mati á umhverfisáhrifum þá stöðvaðar án þess að frekari skoðunar þyrfti við. Verður annað og meira að liggja fyrir til að heimild 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 verði beitt, svo sem að umhverfi það sem raskað verður njóti sérstakrar verndar og eftir atvikum að áhrifin á það séu óafturkræf.

Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að helstu neikvæðu áhrif hennar felist í breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess. Benti stofnunin á að fyrirhugað framkvæmdasvæði einkenndist af gróskumiklu votlendi og skóglendi sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd og sem forðast skuli að raska nema brýna nauðsyn beri til, en nær allt framkvæmdasvæðið sé vel gróið. Stofnunin taldi óvissu um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á fugla og þá einkum á straumendur þar sem rannsóknir hefðu ekki farið fram á lónstæðinu. Áhrif á aðra umhverfisþætti, s.s. landnotkun, hljóðstig og ónæði, jarðmyndanir og vatnalíf, yrðu minni. Nánar er rakið í áliti stofnunarinnar að bein áhrif fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar á gróður séu þau að mannvirki og inntakslón virkjunarinnar komi til með að raska birkikjarr- og skóglendi auk votlendis á tæplega 7 ha svæði. Liggur þannig fyrir að áhrif verða á umhverfisþætti sem njóta sérstakrar verndar lögum samkvæmt. Kemur og fram í áliti Skipulagsstofnunar að framkvæmdin feli í sér byggingu ýmissa mannvirkja, s.s. um 600 m langrar og allt að 12 m hárrar stíflu, um 10 m hás stöðvarhúss og um 8 ha lóns auk nýs vegar á svæði sem sé að mestu ósnortið. Enn fremur muni verða rask á svæðinu vegna efnistöku, haugsetningar og skurða.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu voru undirbúningsframkvæmdir heimilaðar með framkvæmdaleyfi sem ekki var kært til úrskurðarnefndarinnar. Mun þeim að mestu vera lokið. Svæðinu hefur því verið raskað nú þegar á grundvelli leyfis sem stendur óhaggað. Samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum og öðrum gögnum málsins munu framkvæmdir þessa árs einkum lúta að vatnsvörnum með gerð varnarstíflu ofan inntaks, gerð skurða, m.a. til að veita Tungufljóti yfir í Stóru-Grjótá og öfugt á byggingartíma, gerð grunns fyrir stöðvarhús, sem og framkvæmdum vegna fallpípu. Áætlað er að hefja framkvæmdir við aðalstíflu 1. apríl 2019 og ljúka þeim 10. október s.á. Eðli máls samkvæmt verður uppistöðulónið, sem mun verða 8 ha að stærð, ekki fyllt fyrr en að þeirri framkvæmd lokinni. Kæra í máli þessu barst 12. apríl 2018 og verður að gera ráð fyrir því að efnislegri meðferð þess verði lokið áður en framkvæmdir hefjast við aðalstíflu, en það er ekki fyrr en að þeim framkvæmdum loknum sem þau neikvæðu umhverfisáhrif sem um ræðir koma fram að fullu. Verður með hliðsjón af framangreindu, því raski sem þegar er orðið, sem og því að votlendi verður endurheimt og birki ræktað, að telja litlar líkur á að þau óafturkræfu áhrif komi fram á umhverfið meðan á meðferð málsins stendur sem leiði til þess að kæruheimild verði þýðingarlaus. Að sama skapi er ljóst að stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér mikið tjón fyrir leyfishafa.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hafnað kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þó þykir rétt að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              _____________________

Aðalheiður Jóhannsdóttir                  Þorsteinn Þorsteinsson