Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2018 Arctic Sea Farm

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 27. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2018, er barst nefndinni 17. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadal, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadal, Fluga og net ehf., rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og Veiðifélag Laxár á Ásum ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um veitingu rekstrarleyfis til handa Arctic Sea Farm hf. fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Við meðferð málsins var aflað upplýsinga um stöðu framkvæmda og lágu jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni upplýsingar um sjókvíaeldi það á laxi sem þegar var leyft á sama svæði. Að því virtu var ekki tekið sérstaklega á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 17. febrúar 2018.

Málavextir: Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 23. september 2016, að framkvæmdin og frummatsskýrslan hafi verið auglýst opinberlega 20. október 2015 í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Frummatsskýrslan lá frammi til kynningar frá 20. október til 2. desember 2015 á skrifstofum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, í Þjóðarbókhlöðu og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan var einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðilar héldu fund á Tálknafirði 9. nóvember 2015 til kynningar á framkvæmdinni og umhverfisáhrifum hennar.

Hinn 9. maí 2016 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar er frá 23. september 2016, eins og áður sagði.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar segir svo: „Í samræmi við 11. gr. laga og 24. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu [framkvæmdaraðila] sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.“

Jafnframt var eftirfarandi tekið fram: „Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis [framkvæmdaraðila] í Patreksfirði og Tálknafirði munu að mati Skipulagsstofnunar felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felast helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelur í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Þótt far strokulaxa úr eldi fyrir nokkrum árum virðist hafa takmarkast við Patreksfjörð, er líklegt að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa, með tilheyrandi hættu á að eldislax blandist villtum laxastofnum. Stofnunin telur mikilvægt að tryggt verði að eldisbúnaður sé í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur er úr þessari hættu. Einnig er mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum verði í samræmi við viðurkennda staðla og mat á burðarþoli verði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar.“

Í niðurstöðukafla í áliti sínu gerði Skipulagsstofnun tillögu um að eftirfarandi skilyrði yrðu sett við leyfisveitingar vegna fiskeldisins:

1.    Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska.
2.    Vöktun á laxalús á eldisfiski og sýnataka verði á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar.
3.    Niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar.
4.    Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna.
5.    Samræmda útsetningu seiða fyrirtækjanna til að lágmarka hættu á því að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
6.    Eldisbúnaður Fjarðalax og Arctic Sea Farm uppfylli sambærilegar kröfur og settar eru í staðlinum NS 9415:2009 varðandi útbúnað og       verklag.
7.    Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar.
8.    Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggt á staðlinum ISO 12878.
9.    Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hefur náð ásættanlegu ástandi, samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Arctic Sea Farm sótti um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar með umsókn, dags. 23. september 2016. Stofnunin gaf út rekstrarleyfi til handa leyfishafa 22. desember 2017. Útgáfa leyfisins var auglýst á fréttagátt vefsíðu stofnunarinnar 27. s.m., ásamt tenglum á rekstrarleyfið, álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Matvælastofnunar til álitsins. Útgáfan var einnig auglýst í Fréttablaðinu 28. desember 2017. Kæra barst úrskurðarnefndinni 17. janúar 2018, svo sem áður greinir.

Umhverfisstofnun hefur veitt Arctic Sea Farm starfsleyfi fyrir eldi því sem um ræðir, en auk þess hafa Matvælastofnun og Umhverfisstofnun veitt rekstrarleyfi og starfsleyfi vegna eldis Fjarðalax á 10.700 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði, á grundvelli sama mats á umhverfisáhrifum. Hafa þær leyfisveitingar einnig verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 4, 5, 6 og 12/2018.

Skömmu eftir veitingu hins kærða leyfis tilkynntu Arctic Sea Farm og Fjarðalax fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða fyrirtækjanna í Patreksfirði til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 11. apríl 2018. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 73/2018. Í júní 2018 lá fyrir ákvörðun Matvælastofnunar um breytingu á rekstrarleyfi Fjarðalax, þar sem hnitum einnar staðsetningar, Eyri í Patreksfirði, var breytt. Fyrirhugað er að breyta einnig rekstrarleyfi Arctic Sea Farm samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Í september 2018 lágu fyrir ákvarðanir Umhverfisstofnunar um breytingu á starfsleyfum fyrirtækjanna hvað varðaði staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði, annars vegar við Þúfnaeyri og hins vegar við Kvígindisdal.

Málsrök kærenda:
Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta, að ekki verði stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár á Barðaströnd, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum. Hættan sé fyrirsjáanleg fyrir hina villtu laxa- og silungastofna ánna, m.a. með lúsafári og mengun frá framandi, erlendum og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, að ekki sé minnst á lúsafár og sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldiskvíanna. Byggt sé á því að ýmis konar vanræksla Matvælastofnunar og annmarkar á rekstrarleyfinu og útgáfuferli þess valdi ógildingu leyfisins.

Útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi verið auglýst í Fréttablaðinu 28. desember 2017 og sé því kærufrestur til 28. janúar 2018.

Í 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi segi m.a. að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna og koma skuli í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Í athugasemdum við lagagreinina segi: „Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar [fiskeldis] má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu.“ Kærendur byggi á því að Matvælastofnun hafi ekki sýnt fram á hvernig útgáfa rekstrarleyfisins samrýmist ákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 og valdi það ógildingu rekstrarleyfisins.

Leyfishafi staðfesti í matsskýrslu sinni að ekki verði komist hjá strokulaxi í opnu sjókvíaeldi og sama niðurstaða sé í umsögn Fiskistofu. Þar segi jafnframt að hættan á því að erfðablöndun verði og geti valdið tjóni sé raunveruleg og hún aukist eftir því sem umfang eldisins verði meira. Vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar sé því mikilvægt að lagt sé mat á hættuna á erfðablöndun og afleiðingar hennar fyrir villta stofna, í stað þess að afgreiða áhrifin sem „óveruleg og afturkræf“. Miðað við almennt viðurkenndar viðmiðunartölur um strokulaxa, þ.e. einn lax fyrir hvert framleitt tonn, megi reikna með að meðaltali 6.800 strokulöxum úr fyrirhuguðu eldi leyfishafa og að 40-50% þeirra gangi í árvatn. Sé þá ekki miðað við hugsanlegt stórslys. Alkunna sé að líffræðingar og fleiri telji varasamt að leyfa notkun á laxi af norskum uppruna hérlendis vegna þess hve hann sé erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum og erfðamengun dragi m.a. úr hæfni villta laxins til að lifa af og fjölga sér og hafi einnig neikvæð áhrif á aðlögunarhæfni og ratvísi, enda sé bannað m.a. í Noregi, Bandaríkjunum og Kanada að nota framandi laxastofna í sjókvíaeldi.

Ljóst sé að Matvælastofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð stofnunarinnar á umsókn leyfishafa sé hluti af umhverfismatsferli og að meðferð umsóknarinnar skuli fara fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2011/92/ESB, svo sem henni hafi verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB, sbr. g-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sem sé hluti af EES-samningnum. Matvælastofnun hafi t.d. ekki tekið með beinum hætti afstöðu til stóru spurningarinnar í málinu, hvort rök hafi verið til þess að hafna leyfisumsókninni, a.m.k. að sinni. Stýring mengunar felist m.a. í því að afstýra mengun með því að hafna útgáfu rekstrarleyfis.

Við útgáfu rekstrarleyfisins hafi Matvælastofnun borið, skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Þá skuli leyfisveitandinn birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfisins og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig hafi leyfisveitanda borið að kanna og rökstyðja afstöðu sína sitt gagnvart því hvort fullnægjandi rannsókn og greining lægi fyrir í málinu, þannig að efni rökstuðnings uppfyllti áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi ekki verið gert. Loks hafi ekki verið vikið að því hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram. Af öllu framangreindu sé ljóst að Matvælastofnun hafi hvorki tekið afstöðu með ásættanlegum hætti til álits Skipulagsstofnunar né framkvæmdarinnar sem slíkrar.

Samkvæmt 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 geti stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins. Hvergi sé í lögum heimild stjórnsýsluhafa til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna yfir hafsvæðum umhverfis landið. Fyrirhugað athafnasvæði leyfishafa sé utan netlaga og innan landhelgi Íslands. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sé íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nái samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Samkvæmt lagaákvæðinu fylgi eignarrétti ríkisins eignarráð yfir hafinu á sama svæði. Leyfishafi hafi ekki lagt fram skilríki fyrir afnotum sín af hafinu, eins og lagaskylda sé skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008, sbr. 40. gr. stjórnarskrár. Í umsókn sinni um rekstrarleyfi segi leyfishafi um heimild til afnota lands, vatns og sjávar: „Eldissvæðið í sjó er meira en 200 m frá landi og því utan skipulagslaga.“

Hafrannsóknastofnun segi í umsögn sinni, dags. 27. nóvember 2017: „Stærðargráða fyrirhugaðs laxeldis gerir framkvæmdina fordæmalausa á Íslandi […] verður að telja að mikil áhætta sé tekin t.d. vegna laxalúsa og ekki öruggt að mótvægisaðgerðir gegn henni dugi.“ Þessu til viðbótar sé augljóst að samtals 17.500 tonna framleiðsla af erlendum og framandi laxastofni sé stórhættuleg viðbót, hvað erfðamengun varði, við þá framleiðslu sem þegar sé komin af stað á Vestfjörðum, m.a. vegna risavaxinna sammögnunaráhrifa. Varðandi umhverfisáhrif sé ekki aðeins um að ræða óviðráðanlega losun skolps í strandsjó, heldur einnig stórfjölgun strokulaxa, laxalúsar og sjúkdóma. Þetta komi fram í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 23. september 2016, þar sem m.a. sé vísað til staðfestingar og greinargerðar Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Um nefndar athugasemdir fjalli Matvælastofnun ekkert. Sé því ekki hægt að fallast á að hún hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Þá hafi Matvælastofnun ekki sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka, fjalla um og bera saman þá aðra valkosti sem til greina komi varðandi framkvæmdina, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll valkost, sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-lið 1. tl. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Eigi þetta við um undirbúning útgáfu rekstrarleyfis, sem sé á ábyrgð Matvælastofnunar. Stofnunin nefni ekki hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram með rannsókn, samanburði og umfjöllun. Um afleiðingar þess að vanrækja samanburð valkosta vísist t.d. til dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016.

Samkvæmt yfirliti leyfishafa um staðsetningu kvíaþyrpinga sé fjarlægð á milli eldissvæða annars vegar 2,0 km, á milli kvía Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði og kvía Fjarðalax við Þúfneyri í Patreksfirði, og hins vegar 2,0 km á milli kvía Arctic Sea Farm við Akravík í Tálknafirði og kvía Fjarðalax við Lágadal í Tálknafirði. Leyfishafi mæli fjarlægð á milli kvíaþyrpinga innan eldissvæðanna. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé lágmarksfjarlægð á milli eldissvæða ótengdra aðila 5 km og skuli mæla lágmarksfjarlægð frá útmörkum hvers eldissvæðis. Heimild til styttri vegalengda en 5 km sé háð samráði Matvælastofnunar við Hafrannsóknastofnun skv. 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Þar sem Hafrannsóknastofnun hafi ekki samþykkt styttingu vegalengda að ósk Matvælastofnunar séu greindar staðsetningar óheimilar. Valdi það óhjákvæmilega ógildingu rekstrarleyfisins.

Ljóst sé að verði leyft risaeldi með norskum, kynbættum eldisstofni í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði séu veiðiár allt í kringum landið í hættu vegna erfðamengunar frá strokufiski, en þó mest á Vestfjörðum og á nærliggjandi laxveiðisvæðum við Breiðafjörð, Faxaflóa og Húnaflóa. Í málsmeðferð Matvælastofnunar hafi lögvernduðum eignarréttindum annarra í engu verið sinnt, enda þótt fyrir liggi, einkum frá Noregi, vísindalegar upplýsingar um víðtæka skaðsemi starfsemi sem hér um ræði.

Ekkert sé í rekstrarleyfinu fjallað með raunhæfum hætti um gífurlegt magn úrgangs frá sjókvíaeldinu. Samkvæmt norskum heimildum sé úrgangur í sjó frá 6.800 tonna eldi áætlaður eins og skolpfrárennsli frá 110.000 manna byggð. Sjókvíaeldi séu einu matvælaframleiðslufyrirtækin hér á landi sem sé í framkvæmd leyft að demba óátalið öllum úrgangi óhreinsuðum í sjó.

Matvælastofnun hafi ekkert fjallað um áhrif risalaxeldis á búsvæði seiða nytjafiska í fjörðunum. Engar rannsóknir hafi verið gerðar á því atriði. Stofnuninni beri, ásamt Umhverfisstofnun, að fara með eftirlit með því að náttúru Íslands sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit sé ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. einnig rannsóknarreglu í 10. gr. stjórnsýslulaga. Stofnanirnar hafi því eftirlit með því að ekki sé brotið gegn 1. og 2. gr. laga um náttúruvernd, hinni mikilvægu varúðarreglu 9. gr. sem og ákvæði 63. gr. um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum. Matvælastofnun beri við gerð og útgáfu rekstrarleyfis ekki aðeins að skoða mengunarþátt sjókvíaeldis í skilningi laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga nr. 71/2008, heldur beri henni að rannsaka og meta sjálfstætt öll áhrif framkvæmdar á náttúruna. Það hafi ekki verið gert.

Ekkert sé í rekstrarleyfinu fjallað um upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila um óhöpp eða slysasleppingar. Vísist hér m.a. til ákvæða Árósarsamningsins, einkum 4. gr. um upplýsingaskyldu til almennings. Einnig vísist til ákvæðis í k-lið 14. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og ákvæða laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál.

Ljóst sé samkvæmt umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 27. nóvember 2017, að komin sé upp gjörbreytt staða varðandi neikvæð áhrif framkvæmdarinnar frá því að matsskýrslan, sem álit Skipulagsstofnunar frá 23. september 2016 hafi byggt á, hafi verið unnin. Þar hafi m.a. verið sagt að næðu blendingar fótfestu í viðkomandi laxastofni yrðu áhrifin varanleg og óafturkræf. Í áliti erfðanefndar landbúnaðarins frá 6. júní 2017 segi m.a.: „Að mati [nefndarinnar] er frekari útgáfa leyfa til eldis á frjóum laxi af erlendum uppruna í sjókvíum óforsvaranleg miðað við stöðu leyfisveitinga og skort á upplýsingum um áhrif eldisins á villta laxastofna í íslenskum ám. Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þ.m.t. þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli.“

Við útgáfu rekstrarleyfisins hafi Matvælastofnun ekki gætt ákvæða stjórnsýslulaga um andmælarétt, sem kærendur álíti að skuli valda ógildingu rekstrarleyfisins. Leyfið sé, eins og fleiri slík leyfi útgefin af stofnuninni, sérlega fátæklegt og nánast samhljóða öðrum rekstrarleyfum fyrir laxeldi. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi vanti í leyfið skilmerkileg ákvæði, t.d. um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings og ákvæði um viðbragðsáætlun til að endurheimta fisk sem sleppi. Í leyfinu segi aðeins að varúðarráðstafanir skuli vera skráðar og aðgengilegar hjá eldisaðila. Stofnunin láti sér síðan nægja að vísa til þess að leyfishafi skuli uppfylla allar þær kröfur sem gerðar séu til starfseminnar í lögum og reglugerðum.

Málsrök Matvælastofnunar:
Matvælastofnun krefst þess að kæru í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Er sú krafa byggð á því að kæran sé vanreifuð varðandi aðild og lögvarða hagsmuni kærenda. Að mati stofnunarinnar eigi kærendurnir Akurholt ehf., Geiteyri ehf., Ari P. Wendel, Víðir Hólm Guðbjartsson, Fluga og net ehf., Atli Árdal Ólafsson, Varpland ehf. og Veiðifélag Laxár á Ásum ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun Matvælastofnunar um að gefa út rekstrarleyfi til leyfishafa vegna laxeldis í Patreksfirði og Tálknafirði, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í úrskurði nefndarinnar nr. 97/2016, þar sem kærð hafi verið ákvörðun Matvælastofnunar um að gefa út rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að vísa ætti kærunni frá nefndinni með svohljóðandi hætti: „Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. […] Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, en þessir kærendur eru ekki slík samtök.“

Ljóst sé að framangreindir kærendur uppfylli ekki skilyrði undanþáguákvæðisins og þurfi því að sýna fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni tengda útgáfu rekstrarleyfisins. Þessir aðilar hafi hins vegar ekki sýnt fram á með neinum hætti hvaða lögvörðu hagsmuni hver og einn eða þeir í sameiningu hafi af úrlausn kærumálsins. Ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem gefi til kynna að nefndir kærendur verði fyrir áhrifum vegna útgáfu rekstrarleyfisins. Rétt sé að vekja athygli á mati Hafrannsóknastofnunar á burðarþoli eldissvæðisins og áhættumati vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Síðarnefnda matið hafi sýnt fram á að hægt væri að vera með 50.000 tonna laxeldi í sjó á Vestfjörðum án þess að slíkt ylli skaða á náttúrulegum laxastofnum, þar af 20.000 tonn í Patreksfirði og Tálknafirði. Hagsmunir áðurnefndra kærenda séu ekki umfram þá hagsmuni sem almenna megi telja, en úrskurðarnefndin hafi slegið því föstu í fyrrnefndum úrskurði að slíkir hagsmunir nægi ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir nefndinni. Þess beri að geta að kærendur í því máli hafi verið fyrrnefndir veiðiréttarhafar og eigendur Haffjarðarár í Hnappadal á Snæfellsnesi.

Tvenn samtök sem fallið geti undir undanþáguákvæði laganna séu á meðal kærenda. Matvælastofnun taki ekki afstöðu til þess hvort nefnd samtök uppfylli ákvæði laganna, þannig að úrskurðarnefndin geti tekið kæruna til meðferðar. Hins vegar sé ljóst að málið sé vanreifað varðandi aðkomu hvers og eins kæranda, þ.m.t. hinna tveggja síðastnefndu. Eins og áður sé getið sé ekki með neinum hætti reynt að aðskilja kærendur og rekja aðkomu hvers og eins að ákvörðun stofnunarinnar um útgáfu leyfisins. Málsástæður séu þannig þær sömu fyrir alla kærendur, burt séð frá hagsmunum og ólíkri aðstöðu þeirra. Af þessum ástæðum eigi Matvælastofnun erfitt með að átta sig á málatilbúnaðinum og telji að vísa beri málinu frá.

Þess sé krafist til vara að hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar verði staðfest. Fiskeldi hafi verið stundað á Íslandi um langt skeið. Þrátt fyrir að löggjafinn og stjórnvöld hafi verið meðvituð um að fiskeldi geti haft í för með sér ákveðna áhættu hafi verið tekin sú pólitíska ákvörðun að leyfa slíkt eldi. Til að takmarka áhættuna hafi stjórnvöld friðað tiltekin svæði sem séu í nágrenni mikilvægra svæða, til að vernda villta stofna laxfiska, sjá auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt. Vestfirðir og Austurland falli utan þessara friðunarsvæða skv. auglýsingunni, þ.m.t. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Stofnunin sé stjórnvald og starfi á grundvelli laga nr. 80/2005 um Matvælastofnun. Samkvæmt 2. gr. laganna sé lögbundið hlutverk stofnunarinnar að annast framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit með ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi, þ.m.t. að gefa út rekstrarleyfi vegna fiskeldis.

Á grundvelli 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi verið lögð fram tillaga að matsáætlun vegna sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Í tillögunni hafi hinu fyrirhugaða eldi verið lýst og eldissvæðið staðsett við Arkavík í norðanverðum Tálknafirði og Kvígindisdal í sunnanverðum Patreksfirði. Bæði eldissvæðin séu utan netlaga. Skipulagsstofnun hafi samþykkt tillögu að matsáætlun með tilteknum athugasemdum.

Leyfishafi hafi, ásamt Fjarðalaxi ehf., lagt sameiginlega fram matsskýrslu, dags. 6. maí 2016, um mat á umhverfisáhrifum framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – aukning um 14.500 tonn í kynslóðaskiptu eldi. Í skýrslunni sé í meginatriðum fjallað um áhrif framkvæmda sem felist í að koma fyrir sjókvíum og öðrum eldisbúnaði, flutningi eldisfisks og síðan áhrif af rekstri sjókvíaeldisins með tilliti til fóðrunar, losunar frá eldinu og framleiðsluferlis. Umhverfisþættir sem teknir hafi verið til skoðunar hafi verið ástand sjávar og strandsvæða, botndýralíf, annað sjávarlíf, fuglar, ásýnd, samfélag og sjávar- og strandnýting í Patreksfirði og Tálknafirði. Helstu mótvægisaðgerðir séu taldar felast í vel skilgreindu verklagi og góðum starfsvenjum, reglubundinni hvíld eldissvæða, kynslóðaskiptu eldi og góðri fóðurstýringu.

Þá komi fram í skýrslunni að leyfishafi stefni að því að nota sjókvíar í hæsta gæðaflokki til eldisins sem standist kröfur samkvæmt norska staðlinum NS9415 og kröfum sem komi fram í reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi. Í skýrslunni sé fjallað um valkosti, samlegðaráhrif vegna fiskeldis í firðinum á ástand sjávar og strandsvæða á rekstrartíma sjókvíaeldisins og sjúkdómahættu og mögulegrar erfðablöndunar milli eldisfisks og villtra stofna. Þá sé þar gerð grein fyrir helstu mótvægisaðgerðum.

Þegar skýrslan hafi verið lögð fram hafi legið fyrir greinargerð Hafrannsóknastofnunar um mat á burðarþoli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Matið geri ráð fyrir að vegna stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins, einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, að hægt sé að leyfa allt að 20.000 tonna eldi í fjörðunum. Matið hafi verið bundið við þær forsendur að heildarlífmassi yrði aldrei meiri en 20.000 tonn og að vöktun á áhrifum eldisins færi fram.

Í áliti sínu hafi Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, en sett fram ákveðin skilyrði í niðurstöðu sinni.

Hafrannsóknastofnun hafi gefið út áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi í júlí 2017. Í matinu sé kynnt gagnvirkt áhættumatslíkan og sé tilgangurinn að gefa rétta mynd af fjölda strokufiska sem gætu tekið þátt í klaki í hverri á. Höfundar segi að ef fjöldinn fari yfir þröskuldsmörk á hverju ári sé hætta á því að erfðablöndun safnist upp með tíma og hafi áhrif á stofngerð náttúrulegra stofna. Lagt hafi verið mat á svæði á Vestfjörðum og Austurlandi, þ.m.t. Patreksfjörð, Tálknafjörð og Patreksfjarðarflóa, Arnarfjörð, Dýrafjörð og Ísafjarðardjúp. Hámarkseldi samkvæmt erfðablöndunarmati á þessu svæði sé 50.000 tonn, þar af 20.000 tonn í Patreksfirði, Tálknafirði og Patreksfjarðarflóa. Líkanið hafi gert ráð fyrir litlum áhrifum á laxveiðiár landsins fyrir utan fjórar ár, en samkvæmt mati hafi orðið nokkur áhrif á Laugardalsá, Hvannadalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Þess sé getið að vakta þurfi þessar ár og til að koma til móts við neikvæð áhrif á árnar sé lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi.

Í samræmi við 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi Matvælastofnun kynnt sér skýrslu leyfishafa um mat á umhverfisáhrifum og hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um hana. Við útgáfu starfsleyfis Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfis Matvælastofnunar hafi þannig verið tekin afstaða til þeirra skilyrða sem Skipulagsstofnun hafi lagt til í áliti sínu. Matvælastofnun telji að búið sé að taka að fullu tillit til skilyrða vegna hættu á erfðablöndun og vegna burðarþols og botndýralífs. Rétt sé að vekja athygli á að í frumvarpi til laga sem kynnt hafi verið á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um breytingar á lögum nr. 71/2008 sé að finna ný ákvæði um m.a. innra eftirlit, en það skuli í sjókvíaeldi fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra og opinbera birtingu á slíkum gögnum. Þrátt fyrir að ekkert sé kveðið á um framangreint í útgefnu rekstrarleyfi til leyfishafa sé Matvælastofnun og leyfishafi bundin laga- og reglugerðarákvæðum um upplýsingaskyldu til almennings og ákvæðum um rétt almennings til að krefjast gagna.

Ákvörðun Matvælastofnunar um að veita rekstrarleyfi sé stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt almennum sjónarmiðum í stjórnsýslurétti séu skilyrði fyrir því að hægt sé að ógilda stjórnvaldsákvörðun að ákvörðunin sé haldin annmarka að lögum, en með því sé átt við að hún sé haldin form- eða efnisannmörkum, annmarkinn teljist verulegur og loks að veigamikil rök mæli ekki gegn því að hún sé ógilt. Kærendum hafi ekki tekist að sýna fram á neitt framangreindra atriða.

Matvælastofnun sé ósammála því að markmiðsákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 nái ekki fram að ganga með útgáfu rekstrarleyfisins. Þvert á móti verði að telja að með málsmeðferðarreglum laga nr. 106/2000 og 71/2008 hafi verið gætt að markmiðum laganna, þ.e. að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, sem og að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Þá sé rekstrarleyfið, sbr. ákvæði í reglugerð um fiskeldi nr. 1170/2015, bundið því að eldisbúnaður og framkvæmdin standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó, sbr. 1. gr. laga um fiskeldi. Jafnframt bendi engin gögn sem liggi fyrir í málinu til þess að markmið laganna náist ekki og sé þar hægt að vísa til gagna úr umhverfismatinu, burðarþolsmats og niðurstöðu áhættumats vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislax og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Það sé fráleitt að halda því fram að Matvælastofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð leyfisumsóknar væri hluti af umhverfismatsferli og að stofnunin hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti. Veitt hafi verið umsögn um frummatsskýrslu og að matsferli loknu hafi verið tekin afstaða til umsóknar leyfishafa um rekstrarleyfi. Áður en leyfið hafi verið gefið út hafi stofnunin kynnt sér matsskýrslu leyfishafa og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Rekstrarleyfið hafi verið auglýst í Fréttablaðinu og frétt um útgáfu þess birt á heimasíðu Matvælastofnunar, ásamt áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Matvælastofnunar til álitsins.

Matvælastofnun hafni því að ógilda beri rekstrarleyfið á þeim grunni að ekki sé lagaheimild til afnota af hafsvæðinu sem leyfishafi hyggist nota undir fiskeldið. Hann hyggist nota svæði utan netlaga fyrir fyrirhugaðar sjókvíar og byggi Matvælastofnun á því að leyfishafa hafi ekki borið að leggja fram sérstök skilríki fyrir notkun hafsvæðisins. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008 komi fram að umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja skilríki um heimild til afnota af landi, vatni og sjó. Um hafsvæði utan netlaga, hafalmenninga, gildi enn sú lögfesta regla 52. kap. Landsleigubálks Jónsbókar að svo skuli almenningar vera sem að fornu hafi verið, bæði hið efra og hið ytra. Með þeim síðargreindu sé átt við hafalmenninga. Í dómaframkvæmd hafi því verið slegið föstu að ríkið eigi ekki það sem aðrir geti ekki sannað eignarrétt sinn á. Hafalmenningar séu því ekki undirorpnir beinum eignarrétti þótt löggjafinn geti í skjóli fullveldisréttar leitt í lög ýmis ákvæði um nýtingu eða eignarhald þeirra. Rétturinn til fiskveiða og til hagnýtingar auðlinda hafsbotnsins í hafalmenningum sé meðal þess sem löggjafinn hafi undanskilið almannarétti.

Í mati vegna burðarþols Patreksfjarðar og Tálknafjarðar segi að mælingar hafi staðfest að svæðið sé að jafnaði vel blandað en yfir sumartímann verði lagskipting við botn og á yfirborði. Þá segi að með tilliti til stærðar svæðisins og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins, einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, sé hægt að leyfa allt að 20 þúsund tonna eldi á svæðinu. Hins vegar þurfi að vakta svæðið til að hægt sé að huga að hugsanlegu endurmati. Þá hafi Hafrannsóknastofnun gefið út áhættumat fyrir erfðablöndun eldislax við íslenska stofna. Matið sé byggt á áhættumatslíkani og sé tilgangur þess að gefa rétta mynd af fjölda strokufiska. Í skýrslu stofnunarinnar segi að forsendur líkansins verði endurskoðaðar eftir því sem tilefni sé til. Við vinnslu matsins hafi verið byggt á sértækri virkni reiknilíkans fyrir íslenskar aðstæður. Þegar litið sé til gagna úr mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar, skilyrða sem eldið sæti og framangreinds mats Hafrannsóknarstofnunar á burðarþoli og áhættu á erfðablöndun þá verði ekki talið að slík hætta stafi af stærð eldisins að fallast beri á kröfu kærenda um að ógilda ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Af sömu ástæðu sé því hafnað að ekki hafi verið litið til áhrifa eldisins á umhverfi, þ.m.t. búsvæði seiða nytjafiska á eldissvæðinu, eða að ekki hafi verið litið til náttúruverndarsjónarmiða við meðferð málsins.

Samanburður ólíkra valkosta við mat á umhverfisáhrifum feli í sér útfærslu á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Því hafi verið slegið föstu í dómaframkvæmd að framkvæmdaraðili hafi að vissu marki fullt forræði á þeim framkvæmdarkostum sem hann taki til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum, en útilokun framkvæmdarkosta þurfi að byggja á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Þá sé einnig viðurkennt að það falli í hlut þeirra sem telji að skoðun og vali framkvæmdaraðilans sé áfátt að sýna fram á að til staðar sé raunhæfur valkostur. Ákvörðun leyfishafa um að setja einungis fram einn valkost hafi byggst á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum.

Varðandi fjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva hafi Matvælastofnun leitað til Hafrannsóknastofnunar, sem og sveitarfélaganna Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, varðandi fjarlægðarmörkin. Þó sé álitaefni hvort slíkt hafi verið nauðsynlegt, enda hafi eldi Arctic Sea Farm og Fjarðalax farið í sameiginlegt umhverfismat og framkvæmdin því metin sem ein heild. Megi efast um hvort ákvæði um ótengda aðila eigi við.

Við mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar hafi verið fjallað um áhrif vegna úrgangs og fyrir hafi legið burðarþolsmat, sem ætlað sé að leggja mat á þol fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett séu fyrir það skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats sé að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 skuli í rekstrarleyfi vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar og hvort um sé að ræða seiðaeldi, strandeldi, skiptieldi eða heilsárseldi. Þá skuli í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna, leyfilegt framleiðslumagn og skyldu rekstrarleyfishafa til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Jafnframt skuli í leyfinu vera ákvæði um áætlun um aðgerðir til að endurheimta fiska sem sleppi. Þá skuli í rekstrarleyfi fyrir laxeldi kveðið á um skyldu til notkunar erfðavísa þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Ekki sé gert að skyldu að vísa sérstaklega til ákvæða Árósasamningsins, laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál eða reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, vegna réttar almennings að aðgangi að upplýsingum varðandi óhöpp eða slysasleppingar leyfishafa. Þrátt fyrir að ekkert sé kveðið á um framangreint í hinu kærða rekstrarleyfi séu Matvælastofnun og leyfishafi bundin laga- og reglugerðarákvæðum um upplýsingaskyldu til almennings og ákvæðum laga um rétt almennings til að krefjast gagna.

Því sé hafnað að brotið hafi verið gegn andmælarétti stjórnsýslulaga með því að fyrirhuguð leyfisveiting hafi ekki verið auglýst. Tilskipun ráðsins 85/337/EBE, um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunni að hafa á umhverfið, hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum. Frá þeim tíma hafi tilskipuninni verið breytt þrisvar sinnum. Tilskipun 85/337/EBE hafi nú fengið nýtt númer, 2011/92/ESB. Það ferli sem felist í henni hafi verið innleitt í lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Hvorki sé í þeim lögum né lögum nr. 71/2008 mælt fyrir um að auglýsa beri leyfisveitingu áður en leyfi sé veitt. Sú aðkoma sem almenningi sé tryggð með áðurnefndri tilskipun felist í aðkomu hans að málinu á fyrri stigum þess, þ.e. við matsferlið. Verði talið að mælt sé fyrir um slíka skyldu í tilskipun hafi Matvælastofnun ekki borið að byggja á henni, enda hafi hún ekki verið innleidd í íslensk lög.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi kveðst mótmæla öllum málatilbúnaði kærenda og kröfum á honum reistum. Um sé að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvarðanir sem hafi byggst á lögum og hafi verið teknar að undangengnu ítarlegu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hið kærða leyfi myndi grunn að atvinnuréttindum leyfishafa, sem séu stjórnarskrárvarin, sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Leyfin teljist því til eignarréttinda leyfishafa í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fyrirætlanir leyfishafa um framleiðsluaukningu á svæðinu hafi verið í lögbundnu ferli síðan 2013. Ferlið hafi verið opið og hagsmunaaðilar hafi á öllum stigum málsins haft tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum. Við meðferð umsókna leyfishafa um starfs- og rekstrarleyfi hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög kveði á um og vandað hafi verið til verka á öllum stigum málsins.

Því sé mótmælt að útgáfa rekstrarleyfis stríði gegn 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í 1. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um að markmið laganna sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skuli í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Til að ná því markmiði skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Að mati leyfishafa falli útgáfa hins kærða rekstrarleyfis vel að framangreindum markmiðum. Allt bendi til að vaxandi fiskeldi á svæðunum muni hafa verulega jákvæð áhrif á samfélagið. Aukin atvinna, verðmætasköpun og margfeldisáhrif af eldinu hafi nú þegar átt þátt í að snúa við neikvæðri íbúaþróun á svæðunum og búast megi við að frekari uppbygging leiði til enn jákvæðari þróunar. Vöktun, verklag og markvissar mótvægisaðgerðir muni draga verulega úr möguleikum á sleppingum og öðrum óæskilegum áhrifum frá starfseminni. Lögð sé áhersla á að 1. gr. laga nr. 71/2008 sé markmiðsákvæði. Slík ákvæði feli í sér yfirlýst markmið laga, sem ekki sé hægt að byggja á beinan efnislegan rétt. Áhrif markmiðsákvæða séu því óbein, þ.e. þau geti haft þýðingu við túlkun á inntaki annarra réttarheimilda, en á þeim verði ekki byggt einum og sér til ógildingar stjórnvaldsákvarðana.

Ljóst sé að Matvælastofnun hafi fylgt fyrirmælum 13. gr. laga nr. 106/2000, m.a. með því að taka skýra og rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í heild sinni. Gögn málsins beri með sér að málsmeðferð Matvælastofnunar hafi verið í samræmi við lög og að rannsóknarskylda hafi verið uppfyllt. Að sama skapi hafi verið sett þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin hafi verið þörf á, þ.m.t. til að draga úr mögulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Því sé mótmælt að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort rök hafi verið til að hafna umsókn leyfishafa.

Leyfishafi mótmæli því að ekki hafi verið tekið tillit til stærðar eldis og sammögnunaráhrifa við meðferð leyfisumsókna í Patreksfirði og Tálknafirði. Unnin hafi verið sameiginleg matsskýrsla vegna fyrirætlana leyfishafa og Fjarðalax um samanlagt 14.500 tonna framleiðsluaukningu, sem skiptist á milli fyrirtækjanna. Í matsskýrslu hafi fullt tillit verið tekið til samlegðaráhrifa fimm fyrirtækja sem hafi á þeim tíma haft áform um eldi á laxi og regnbogasilungi á Vestfjörðum. Þá sé sérstaklega tekið fram í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar framkvæmdir séu hluti af umfangsmiklu áformuðu og starfræktu fiskeldi í eldiskvíum á Vestfjörðum, allt frá Patreksfirði til Ísafjarðardjúps. Bæði matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um leyfið og því ljóst að upplýsingar um samlegðaráhrif hafi verið fyrirliggjandi.

Mótmælt sé staðhæfingu kærenda um að ekki hafi verið lagaheimild til ráðstöfunar hafsvæðis undir fiskeldi á þeim grundvelli að íslenska ríkið fari með eignarráð yfir hafinu svo langt sem fullveldisréttur Íslands nái. Ákvæði laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins séu skýr um að þau taki einungis til auðlinda hafsbotnsins og eigi ekki við um eignarrétt ríkisins yfir hafinu á sama svæði, sbr. m.a. 1. og 2. gr. laganna. Það sé því ljóst að gildissvið laganna nái ekki til nýtingar hafsvæðis undir fiskeldi og að þau eigi ekki við í máli þessu. Þá verði ekki séð að afmörkuð svæði utan netlaga geti flokkast sem fasteign. Hafsvæði utan netlaga teljist, ólíkt auðlindum hafsbotnsins, til hafalmenninga, sem enginn geti talið til beinna eignarréttinda yfir. Svæðið sem um ræði teljist þó til forráðasvæðis íslenska ríkisins, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn. Þar komi fram að innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar hafi íslenska ríkið fullveldisrétt að því er varði hagnýtingu auðlinda í hafinu, lífrænna og ólífrænna, svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins, sbr. 3. og 4. gr. laganna. Ríkið hafi því heimild til að setja lög og reglur sem gildi á svæðinu, þ.m.t. um nýtingu auðlinda.

Í 5. gr. laga nr. 71/2008 segi að ráðherra skuli, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæli með því, ákveða samkvæmt lögunum skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins. Hafi það verið gert með auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum sé óheimilt á tilteknum svæðum, en þar á meðal séu ekki Patreksfjörður og Tálknafjörður. Af því leiði að tekin hafi verið ákvörðun um að firðirnir séu á svæði þar sem fiskeldi sé heimilað.

Leyfishafi og Fjarðalax setji fram einn aðalvalkost vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði og sé sú afstaða rökstudd í matsskýrslu. Sá málatilbúnaður kærenda að skylt hafi verið að meta umhverfisáhrif annarra valkosta í umhverfismati standist ekki nánari skoðun, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 22. október 2009 í máli nr. 22/2009. Í málinu hafi verið skorið úr um að framkvæmdaraðili hafi forræði á því að meta hvaða valkostir komi til álita við mat á umhverfisáhrifum, enda sé það mat byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Af matsskýrslu verði glögglega ráðið hvers vegna leyfishafi hafi valið þann valkost sem tekinn hafi verið til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum og hafi ekki tekið aðra valkosti til nánari skoðunar. Það sé hlutverk framkvæmdaraðila að skilgreina hvaða valkostir séu tækir með hliðsjón af markmiðum framkvæmdarinnar. Yfirlýst markmið umræddrar framkvæmdar sé að styrkja núverandi starfsemi á Vestfjörðum og gera rekstur fyrirtækjanna arðbæran og samkeppnishæfan til lengri tíma og þar með efla atvinnulíf og byggð á svæðinu. Áform fyrirtækjanna byggi á því að framleiðslan og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og framleiddar í sátt við vistkerfi framleiðslusvæða.

Hvergi í lögum sé að finna heimild til að skylda framkvæmdaraðila til að meta umhverfisáhrif framkvæmdarkosta sem ekki séu til þess fallnir að ná þeim lögmætu markmiðum sem að sé stefnt með framkvæmd. Leyfishafi og Fjarðalax hafi byggt ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gögnum, sem styðji val leyfishafa á fyrirhugaðri framleiðsluaukningu í kynslóðaskiptu eldi með svokallaðan Saga-eldisstofn. Að mati leyfishafa hafi engir aðrir raunhæfir valkostir verið nefndir til sögunnar, sem náð geti yfirlýstum markmiðum. Gallinn við ófrjóan lax sé sá að hann þurfi sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukist og vansköpunartíðni geti verið há. Auk þess sé hætta á að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð. Það sé viðurkennt að notkun á ófrjóum laxi sé enn í þróun og því ekki raunhæfur kostur, a.m.k. ekki enn sem komið sé. Samskonar sjónarmið eigi við um eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Núllkostur gangi þvert gegn tilgangi og markmiðum framkvæmdar, en í honum felist óbreytt ástand. Það væri bæði óraunhæft og gífurlega íþyngjandi ef skylda væri talin hvíla á leyfishafa til að fjalla um annars konar fiskeldi en það sem hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við. Þá sé rétt að leggja áherslu á að Skipulagsstofnun hafi með áliti sínu fallist á að leyfishafi hafi metið umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda í samræmi við lög nr. 106/2000. Af hálfu stofnunarinnar hafi ekki verið gerðar athugasemdir við skoðun á möguleikum við framkvæmdina.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila skuli samkvæmt meginviðmiði vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Fram komi hins vegar að Matvælastofnun geti að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að Matvælastofnun hafi óskað eftir áliti Hafrannsóknastofnunar vegna fjarlægðarmarka milli eldisstöðva leyfishafa og Fjarðalax í Patreksfirði og Tálknafirði, en ekki hafi verið lagst gegn fyrirætlunum um fjarlægðarmörk. Þá komi sérstaklega fram í umsögnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, dags. 10. og 20. nóvember 2017, að sveitarstjórnir geri ekki athugasemdir við að fjarlægð milli rekstrarleyfissvæða sé skemmri en kveðið sé á um í 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015.

Leyfishafi hafni alfarið öllum málatilbúnaði kærenda um að veiðiár allt í kringum landið séu í hættu vegna erfðamengunar. Bent sé á að eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði séu í tæplega 100 km fjarlægð frá ám með villta laxastofna, sem hafi reglulega skráða veiði. Næstu ár í norðri séu innst inni í Ísafjarðardjúpi og í suðri sé Fjarðarhornsá á Barðaströnd næst. Veiðistofninn í þessum ám hafi verið styrktur með seiðasleppingum í mörg ár og í sumum tilfellum í áratugi. Minni laxveiðiár með óreglulega skráða veiði séu í 50-100 km fjarlægð. Samkvæmt rannsóknum skipti fjarlægð milli eldissvæða og laxáa miklu máli um hvort strokulax leiti upp í ár og líkur á því minnki því meiri sem fjarlægðin sé. Þetta sé ein lykilforsenda þess að til greina komi að heimila eldi á laxfiskum á þeim svæðum við landið sem tilgreind séu í auglýsingu nr. 460/2004. Á þeim grunni sé óheimilt að stunda fiskeldi í námunda við þau svæði þar sem helst finnist villtir stofnar laxa og séu stór svæði á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurlandi undanskilin af þeim sökum. Hins vegar falli Vestfirðir utan friðunarsvæða, þ. á m. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Það liggi því fyrir mat stjórnvalda á því hvaða svæði þurfi að vernda sérstaklega vegna villtra stofna og sé ljóst að starfsemi leyfishafa fari fram utan þeirra svæða. Lög geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi. Í þeim lögum sé ekki mælt fyrir um ráðstafanir varðandi einkaréttarlega hagsmuni, svo sem áhrif starfsemi á veiðiréttindi jarðeigenda eða nýtingu hlunninda við útgáfu leyfa til fiskeldis.

Því sé hafnað að við meðferð málsins hafi ekkert verið fjallað um magn úrgangs frá fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Í matsskýrslu sé fjallað um það magn úrgangs sem áætlað sé að komi frá eldinu miðað við gefna fóðurnýtingu, fóðurmagn og næringarefnainnihald, sbr. kafla 3.6. Jafnframt sé fjallað um förgun úrgangs í kafla 3.7. Skipulagsstofnun hafi talið að við leyfisveitingar þyrfti að setja skilyrði um m.a. vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf. Í rekstrarleyfi Matvælastofnunar sé gert að skilyrði að á gildistíma leyfisins skuli fara fram vöktun og rannsóknir af hálfu leyfishafa til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldisstöðvarinnar.

Leyfishafi mótmæli því að rekstrarleyfið uppfylli ekki lagaskilyrði um upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila. Í 5. gr. Árósasamningsins sé fjallað um skyldu aðildarríkja til að stuðla að söfnun og dreifingu upplýsinga um umhverfismál, m.a. í þeim tilgangi að þær séu fyrir hendi og að þær séu sem aðgengilegastar. Engin krafa sé gerð um að kveðið sé á um slíka skyldu í starfs- eða rekstrarleyfum.

Þá sé því hafnað að ekkert tillit hafi verið tekið til áhrifa laxeldis á búsvæði seiða og nytjafiska. Skylda hvíli á fiskeldisfyrirtækjum til að framkvæma umhverfisvöktun, þ.e. meta umhverfisáhrif fiskeldisins. Gera megi ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun muni í framtíðinni auka rannsóknir sínar varðandi búsvæði seiða í fjörðum landsins og leggja þá mat á áhrif fiskeldis fyrir þau búsvæði. Í matsskýrslu leyfishafa komi fram að sjúkdómasmit frá eldisfiski geti haft bein áhrif á villta laxfiskastofna. Komi til þess að villtur fiskur sýkist af völdum smits frá eldisfiski séu slík áhrif hins vegar talin afturkræf. Áhrifin verði óveruleg vegna þess að búsvæði villtra laxfiska séu fjarri eldissvæðum og stærð villtra laxfiskastofna sé áætluð lítil í Patreksfirði og Tálknafirði. Góð staða í sjúkdómamálum hérlendis og bólusetning eldisseiða styrki þessa niðurstöðu. Auk þess sé því hafnað að umfjöllun skorti um hættu sem stafi af laxalús, en um þann þátt sé fjallað í rekstrarleyfi Matvælastofnunar.

Það sé algengur misskilningur að í fiskeldi á Íslandi ríki lúsafár, sem villtum laxastofnum stafi hætta af. Staðreyndin sé sú að laxalús hafi aldrei valdið vandræðum í íslensku sjókvíaeldi. Ástæðan sé fyrst og fremst lágur sjávarhiti yfir vetrartímann, en laxalús berist með villtum fiski í kvíar að vori og þar nái hún að fjölga sér lítillega fram á haust. Með vetri lækki sjávarhitinn og lúsin hverfi úr kvíunum. Kærendur geri engan greinarmun á fiskilús og laxalús, sem séu mjög ólíkar. Vísað sé til fjölda fiskilúsa sem fundist hafi hjá leyfishafa, sem fyrst og fremst hafi áhrif á eldisfiskinn með því að streita aukist og erfiðara verði að fóðra fiskinn. Oftast sé um tímabundin áhrif að ræða.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar.

Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök, sem fallist er á að uppfylli framangreind skilyrði laga nr. 130/2011 um kæruaðild, og hins vegar einstakir eigendur veiðiréttar í ám, auk veiðifélaga. Þeir kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir eigi allir mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa og þar með hinum villtu lax- og silungstofnum þeirra, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg dæmi sýni.

Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Patreksfirði og Tálknafirði á sunnanverðum Vestfjörðum. Ár þær sem nefndar eru í kæru eru flestar á Vestfjörðum og verður að játa þeim kærendum kæruaðild sem fara með hagsmuni veiðiréttarhafa í þeim ám vegna nándar við fyrirhugað eldi. Laxveiðiáin Haffjarðará er í Hnappadal á Snæfellsnesi og rennur hún til sjávar á sunnanverðu nesinu. Þá er Laxá á Ásum laxveiðiá í Austur-Húnavatnssýslu sem rennur í Húnavatn og síðan um Húnaós í Húnaflóa. Tvær síðarnefndu árnar eru því í mikilli fjarlægð frá umræddu eldi og eru staðhættir þannig að ef til þess kæmi að lax slyppi úr eldiskvíum væru umtalsverðar hindranir því í vegi að hann leitaði í þær ár. Það sýnist þó ekki útilokað, sérstaklega þegar til þess er litið að fyrir liggur staðfesting Hafrannsóknastofnunar á því að veiðst hafi eldislax í Vatnsdalsá, sem fellur til sjávar á sama stað og Laxá á Ásum, en ekkert sjókvíaeldi er þar nærri.

Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eiga beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Með vísan til þessa telur nefndin ekki stætt á því að útiloka að þeir kærendur sem telja til réttar í Haffjarðará og Laxá á Ásum geti átt lögvarða hagsmuni af úrlausn kæruefnisins sem hér liggur fyrir, þrátt fyrir að veiðiréttindi þeirra séu fjarri laxeldi leyfishafa. Uppfylla þeir því skilyrði kæruaðildar skv. fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt framangreindu verða kröfur allra kærenda teknar til efnismeðferðar.

——-

Í máli þessu er deilt um gildi rekstrarleyfis sem veitt var af Matvælastofnun vegna laxeldis í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 23. september 2016.

Samkvæmt 4. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar til starfrækslu fiskeldisstöðva. Nánar er fjallað um rekstrarleyfi til fiskeldis í III. kafla laganna og kemur fram í 7. gr. þeirra að Matvælastofnun veiti slík leyfi. Í samræmi við 8. gr. nefndra laga skal umsókn um rekstrarleyfi m.a. fylgja afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Skal þess jafnframt gætt við útgáfu rekstrarleyfis að fullnægt sé ákvæðum þeirra laga og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008. Fellur rekstrarleyfi undir leyfi til framkvæmda í skilningi f-liðar 3. gr. laga nr. 106/2000. Auk laga nr. 71/2008, laga nr. 106/2000 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir bar Matvælastofnun við veitingu hins kærða leyfis að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fer eftir 13. gr. laga nr. 106/2000 og er meðal frumskilyrða fyrir útgáfu slíks leyfis að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. þess skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sem er lögbundið en ekki bindandi. Lögum samkvæmt þarf það álit að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfisveitingu að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Skyldur leyfisveitanda ná því einnig til þess að kanna hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti.

——-

Meginágreiningur kærumáls þessa lýtur að því hvort byggt verði á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum sem kærendur halda fram að sé haldið annmörkum þar sem ekki hafi verið fjallað um valkosti framkvæmdarinnar, s.s. notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum eða minna sjókvíaeldi.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann, vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða, sem og að kynna umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna framkvæmda fyrir almenningi og gefa honum kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Til að ná þessum markmiðum mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð.

Þannig skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga 106/2000. Skal m.a. lýsa framkvæmdinni og öðrum möguleikum sem til greina koma. Stofnunin skal síðan taka ákvörðun um tillöguna, skv. 2. mgr. sömu lagagreinar, og getur hún fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda eða synjað tillögunni. Að lokinni málsmeðferð skv. áðurnefndri 8. gr. vinnur framkvæmdaraðili frummatsskýrslu á grundvelli samþykktrar matsáætlunar, sbr. 9. gr. laganna. Skal þar m.a. tilgreina þau áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemin sem henni fylgir kunna að hafa á umhverfi og jafnframt skal ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera saman, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal Skipulagsstofnun meta hvort skýrslan uppfylli kröfur 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr., en verði niðurstaðan sú að svo sé ekki er stofnuninni heimilt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar. Frummatsskýrslan er kynnt samkvæmt nánari ákvæðum þar um í 10. gr. og er öllum heimilt að gera athugasemdir við hana, sbr. 4. mgr. lagagreinarinnar. Þá leitar Skipulagsstofnun umsagna skv. 5. mgr. ákvæðisins. Stofnunin skal því næst skv. 6. mgr. 10. gr. senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir og skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim og taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem hann vinnur á grundvelli frummatsskýrslu. Að málsmeðferð þessari lokinni skal Skipulagsstofnun skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrslan uppfylli skilyrði þeirra laga og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Skal jafnframt í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.

Eins og áður er rakið er kveðið á um það í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að í frummatsskýrslu skuli ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Kemur fram í skýringum við nefnt lagaákvæði í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 106/2000 að helstu breytingar frá gildandi lögum felist í því að lagt sé til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 97/11/EB að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þá er tekið fram: „Nýmæli þetta hefur mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin.“

Ný reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum tók gildi eftir að vinna við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hófst en áður en álit Skipulagsstofnunar lá fyrir. Féll þá brott eldri samnefnd reglugerð nr. 1123/2005, en í þeim atriðum sem hér verða rakin eru reglugerðirnar samhljóða. Segir í 15. gr. gildandi reglugerðar að í tillögu að matsáætlun skuli eftir því sem við á koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina komi, m.a. núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert, og greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta og staðsetningu þeirra, sbr. e-lið 2. tölul. 2. mgr. reglugerðarákvæðisins. Jafnframt er tekið fram í h-lið 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar að í frummatsskýrslu skuli, eftir því sem við á, koma fram yfirlit yfir valkosti sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu, svo sem aðra kosti varðandi tæknilega útfærslu framkvæmdar eða starfsemi, aðra staðarvalkosti eða núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert. Enn fremur skulu koma fram upplýsingar um framkvæmdasvæði, svo sem uppdráttur af fyrirhugaðri staðsetningu framkvæmdar og einnig uppdráttur af öðrum staðarvalskostum, sbr. a-lið 2. tölul. nefnds reglugerðarákvæðis. Loks segir í e-lið 3. tölul. 2. mgr. 20. gr. að í mati á umhverfisáhrifum skuli, eftir því sem við á, koma fram samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir eru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, ásamt athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum, er ljóst að samanburður umhverfisáhrifa þeirra valkosta sem til greina koma er lykilþáttur í mati á umhverfisáhrifum. Hefur verið staðfest í dóma- og úrskurðarframkvæmd að þegar á skorti að lagafyrirmælum þessum sé fylgt eða þau séu sniðgengin geti eftir atvikum verið um ógildingarannmarka að ræða, enda hafi það verulega þýðingu að slíkur samanburður hafi farið fram til að mat á umhverfisáhrifum þjóni markmiðum laga nr. 106/2000.

Í drögum framkvæmdaraðila að matsáætlun kemur fram að fyrirtækin hafi byggt upp lax- og silungseldi á Vestfjörðum og að áform fyrirtækjanna byggi á því að auka framleiðsluna og tryggja jafnframt umhverfisvænt og vistvænt framleiðsluferli. Er í áætluninni m.a. tilgreint hver staðsetning eldisins verði, framleiðsluaðferð tíunduð, tegundir sem aldar verði og af hvaða stofni, hönnun sjókvía, tilhögun flutninga á seiðum, hvaða fóður sé fyrirhugað að nota o.fl. Í kafla um umfang og áherslur umhverfismats segir jafnframt að umhverfisáhrif vegna fiskeldis séu að miklu leyti háð eldisbúnaði, notkun hans og verklagi við framkvæmd og taki framkvæmd og skipulag umhverfismats tillit til þessa. Þá kemur fram í kafla um gögn að í frummatsskýrslu verði lýsing á grunnástandi umhverfis og jafnframt mat og lýsing á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Verði stuðst við tiltæk rannsóknargögn og nýrra gagna aflað eftir þörfum. Er af lestri matsáætlunar ljóst að tilvitnuð gögn eiga við um þá einu tilhögun framkvæmdar sem framkvæmdaraðili leggur til.

Samkvæmt skilgreiningu 3. gr. laga nr. 106/2000 er matsskýrsla skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir og ber framkvæmdaraðili ábyrgð á gerð skýrslunnar. Fjallað er um kosti til framkvæmdar í 6. kafla matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þar segir svo: „Framkvæmdaraðilar setja aðeins fram einn valkost vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Sjókvíaeldi í Patreks- og Tálknafirði er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu sjókvíaeldis Fjarðalax og Arctic Sea Farm, eins og lýst var í kafla 1. Eini raunhæfi möguleikinn á uppbyggingu sjálfbærs og vistvæns sjókvíaeldis á Vestfjörðum er, að mati fyrirtækjanna, kynslóðaskipt eldi með hvíld svæða. Fyrirtækin hafa undanfarin misseri unnið greiningarvinnu sem miðar að því að finna heppileg eldissvæði sem uppfylla markmið um rekstraröryggi, umhverfisaðstæður, umhverfisáhrif og samfélagslega þætti. Þetta umhverfismat er hluti af þeirri vinnu.“ Enn fremur segir: „Eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði eru staðsett þannig að þau valdi sem minnstri röskun á annarri starfsemi eða athöfnum, svo sem siglingaleiðum. Jafnframt var staðsetning þeirra ákvörðuð út frá öldufari og hafstraumum til að tryggja bæði rekstraröryggi og tíð sjóskipti. Nú þegar er heimild fyrir 3.000 tonna laxeldi í Patreks- og Tálknafirði. Fyrirhuguð framleiðsluaukning leiðir af sér tilfærslu og stækkun á athafnasvæðum. Til að lágmarka staðbundin umhverfisáhrif er mikilvægt að eldissvæði séu nægjanlega stór til að rúma tilfærslu á staðsetningum eldiskvía innan þeirra.“ Loks er tiltekið: „Með núll kosti verður ekkert af þeim umtalsverða samfélagslega ávinningi sem áður hefur verið lýst. Á hinn bóginn verða ekki neikvæð áhrif á lífríkið og aðra náttúru með þeim valkosti. Ekki er fjallað sérstaklega um áhrif núllkosts í einstökum köflum í umhverfismatsgreiningunni hér að framan.“ Var þannig ekki fjallað um aðra valkosti en aðalvalkost framkvæmdaraðila í matsskýrslu fyrirtækjanna og fór því ekki fram neinn samanburður á umhverfisáhrifum mismunandi kosta.

Skipulagsstofnun samþykkti matsáætlun framkvæmdaraðila með athugasemdum, en þær athugasemdir lutu ekki að skorti á valkostum framkvæmdarinnar. Stofnunin nýtti ekki heldur þá heimild sem hún hefur skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 til að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar, en frá einum kærenda þessa máls kom fram krafa um að svo yrði gert vegna fyrirmæla í 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá var í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar en í engu um samanburð á þeim við umhverfisáhrif annarra valkosta, enda var slíkur samanburður ekki til staðar í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þó var í niðurstöðu álitsins, í umfjöllun um hættu á erfðablöndun, vikið að því að í umræðu í samfélaginu hefði verið bent á þann kost að nýta geldfisk í sjókvíaeldi í því skyni að koma í veg fyrir erfðablöndun. Teldi Skipulagsstofnun mikilvægt að leyfisveitendur og fiskeldisaðilar fylgdust vel með þróun þessarar tækni og beindi því til þessara aðila að skoða þennan kost við leyfisveitingar til fiskeldis í sjó við strendur Íslands. Tók stofnunin fram að ef slíkt eldi væri raunhæft myndi það leysa þann þátt sem helst ylli áhyggjum varðandi umhverfisáhrif laxeldis í sjókvíum hér við land.

Ljóst er að framkvæmdaraðili kaus að leggja einungis einn valkost framkvæmdar fram til mats á umhverfisáhrifum og að við það var ekki gerð athugasemd af hálfu Skipulagsstofnunar. Í trássi við lög var ekki á neinu stigi málsmeðferðarinnar gerð gangskör að því að greina frekari valkosti og bera umhverfisáhrif þeirra saman við umhverfisáhrif aðalvalkosts framkvæmdaraðila. Var því ekki fullnægt þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, eða þeirra annarra laga- og reglugerðarákvæða sem áður hafa verið rakin, að gerð væri grein fyrir helstu möguleikum sem til greina kæmu og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Kemur þá til skoðunar hverju það varði.

——-

Leyfishafi hefur í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar borið því við að engum öðrum raunhæfum valkostum hafi verið teflt fram sem ná myndu markmiðum framkvæmdarinnar, enda sé viðurkennt að enn sé í þróun notkun á ófrjóum laxi, eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Enn fremur að það væri óraunhæft og íþyngjandi ef hann yrði skyldaður til að fjalla um annars konar fiskeldi en hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við.

Matsáætlun er í 3. gr. laga nr. 106/2000 skilgreind sem áætlun framkvæmdaraðila, byggð á tillögu hans um hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu á í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð skýrslunnar. Er lögð áhersla á ákveðið forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar. Hefur það forræði verið viðurkennt í dómaframkvæmd, að því gefnu að mat framkvæmdaraðila sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Hins vegar verður ekki af þeim fordæmum ráðið að það forræði sé svo víðtækt að framkvæmdaraðili geti lagt einungis einn kost fram til mats á umhverfisáhrifum. Má í því sambandi vísa til málsatvika í dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 þar sem framkvæmdaraðili hafði lagt fram þrjá valkosti en deilt var um hvort fleiri valkostir teldust koma til greina. Orðalag laga nr. 106/2000 um að fjalla beri um þá kosti sem til greina komi verður ekki heldur skilið svo að framkvæmdaraðili geti einskorðað umfjöllun sína við þann kost sem honum hugnast best, heldur hvílir á honum sú ótvíræða skylda að kanna til hlítar þá möguleika sem almennt geta komið til greina, lýsa þeim og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Það að hann hafi ekki reynslu eða þekkingu á öðrum möguleikum en þeim sem hann leggur helst til leysir hann ekki undan þeirri lögbundnu skyldu þótt það kunni að reynast honum dýrt eða erfitt að uppfylla hana. Er í þessu sambandi rétt að benda á að leyfisveiting, líkt og sú sem hér um ræðir, er ívilnandi ákvörðun um að leyfa framkvæmd sem felur í sér ákveðna starfsemi eða nýtingu, sem getur eftir atvikum verið mengandi og gengið á eða takmarkað rétt annarra.

Samkvæmt 1. kafla 1 í matsskýrslu er það markmið framkvæmdaraðila að auka framleiðslu á eldislaxi. Byggja áform þeirra á því að framleiðsla og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og hafa framkvæmdaraðilar í því skyni lagt upp með ákveðna tilhögun framkvæmdar. Eru sjónarmið framkvæmdaraðila málefnaleg og tilhögun sú sem þeir leggja til er til þess fallin að ná markmiðum framkvæmdarinnar um framleiðsluaukningu. Það skal þó áréttað að greining valkosta þarf að fara fram af hálfu framkvæmdaraðila án þess að þeir séu útilokaðir of snemma í ferlinu, t.a.m. vegna fyrirfram gefinna forsendna eða hugmynda hans, enda færi það beinlínis gegn þeim lögfestu markmiðum mats á umhverfisáhrifum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvetja til breiðara samráðs um framkvæmd, sbr. ákvæði b- til d-liða 1. gr. laga nr. 106/2000. Þá sér þess ekki stað í matsáætlun, matsskýrslu eða áliti Skipulagsstofnunar að sérstakar rannsóknir hafi farið fram áður en aðrir valkostir voru slegnir út af borðinu og er í þessum gögnum ekki rökstutt sérstaklega af hverju það var gert. Þó má af áliti Skipulagsstofnunar ráða að hún taki undir með framkvæmdaraðila að enn sem komið er sé eldi með geldfiska ekki raunhæft.

Það er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir þeirra valkosta sem kærendur hafa nefnt komi ekki til greina í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem áður hafa verið rakin geta mismunandi valkostir t.d. falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. Er afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem hægt er að leggja fram til mats svo framarlega sem framkvæmdaraðili sinnir þeirri skyldu sinni að gera víðtæka könnun á þeim kostum sem til greina geta komið. Verður ekki við það unað í mati á umhverfisáhrifum að einungis séu metin umhverfisáhrif eins valkosts. Fer enda þá ekki fram sá nauðsynlegi samanburður umhverfisáhrifa fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að fullrannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdarkostur hafi getað komið til greina í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 verður að telja það verulegan ágalla á matinu að engum öðrum kosti var lýst að öðru leyti en vísað væri til þess að núllkostur hefði engin áhrif í för með sér.

Að teknu tilliti til nefnds ágalla og markmiða þeirra sem að er stefnt með mati á umhverfisáhrifum gat matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar á henni ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda, s.s. þess rekstrarleyfis sem hér er deilt um. Bar Matvælastofnun, sem því stjórnvaldi sem hið kærða leyfi veitti, skylda til að tryggja að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar. Hvílir og sú skylda á Matvælastofnun skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 að gæta þess við útgáfu rekstrarleyfis að fullnægt sé m.a. ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, eins og áður hefur komið fram.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu leyfisveitingu slíkum annmörkum háða að varði ógildingu rekstrarleyfisins.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita Arctic Sea Farm rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

5/2018 Fjarðalax

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2018, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2018, er barst nefndinni 19. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadal, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadal, Fluga og net ehf., rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og veiðifélag Laxár á Ásum ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi til handa Fjarðalax ehf. fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Við meðferð málsins var aflað upplýsinga um stöðu framkvæmda og lágu jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni upplýsingar um sjókvíaeldi það á laxi sem þegar var leyft á sama svæði. Að því virtu var ekki tekið sérstaklega á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2018, sem móttekið var með tölvupósti sama dag, barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beiðni leyfishafa um frestun m.a. þessa kærumáls. Var beiðnin á því reist að höfðað hefði verið dómsmál sem að mati leyfishafa væri svo samofið kærumálinu að ljóst væri að efnisleg niðurstaða í dómsmálinu gæti haft úrslitaáhrif um afdrif kærumálsins. Kærendum og leyfisveitendum var veittur kostur á að koma að athugasemdum vegna beiðninnar og nýttu kærendur sér það. Með bréfi, dags. 11. september 2018, synjaði úrskurðarnefndin beiðni um frestun kærumálsins með þeim rökum að niðurstaða í dómsmáli vegna leyfisveitinga fyrir öðru eldi en því sem sætt hefði kæru til úrskurðarnefndarinnar myndi ekki binda hendur nefndarinnar í kærumálinu, þótt niðurstaða dómstóla um lagatúlkun gæti haft áhrif á réttarþróun almennt í málum sem vörðuðu leyfisveitingar vegna fiskeldis í kjölfar mats á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 17. febrúar 2018.

Málavextir:
Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 23. september 2016, að framkvæmdin og frummatsskýrslan hafi verið auglýst opinberlega 20. október 2015 í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Frummatsskýrslan lá frammi til kynningar frá 20. október til 2. desember 2015 á skrifstofum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, í Þjóðarbókhlöðu og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan var einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðilar héldu fund á Tálknafirði 9. nóvember 2015 til kynningar á framkvæmdinni og umhverfisáhrifum hennar.

Hinn 9. maí 2016 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar er frá 23. september 2016, eins og áður sagði.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar segir svo: „Í samræmi við 11. gr. laga og 24. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu [framkvæmdaraðila] sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.“

Jafnframt var eftirfarandi tekið fram: „Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis [framkvæmdaraðila] í Patreksfirði og Tálknafirði munu að mati Skipulagsstofnunar felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felast helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelur í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Þótt far strokulaxa úr eldi fyrir nokkrum árum virðist hafa takmarkast við Patreksfjörð, er líklegt að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa, með tilheyrandi hættu á að eldislax blandist villtum laxastofnum. Stofnunin telur mikilvægt að tryggt verði að eldisbúnaður sé í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur er úr þessari hættu. Einnig er mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum verði í samræmi við viðurkennda staðla og mat á burðarþoli verði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar.“

Í niðurstöðukafla í áliti sínu gerði Skipulagsstofnun tillögu um að eftirfarandi skilyrði yrðu sett við leyfisveitingar vegna fiskeldisins:

1.    Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska.
2.    Vöktun á laxalús á eldisfiski og sýnataka verði á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar.
3.    Niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar.
4.    Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna.
5.    Samræmda útsetningu seiða fyrirtækjanna til að lágmarka hættu á því að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
6.    Eldisbúnaður Fjarðalax og Arctic Sea Farm uppfylli sambærilegar kröfur og settar eru í staðlinum NS 9415:2009 varðandi útbúnað og verklag.
7.    Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar.
8.    Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggt á staðlinum ISO 12878.
9.    Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hefur náð ásættanlegu ástandi, samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Fjarðalax sótti um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar með umsókn, dags. 26. júlí 2016. Stofnunin gaf út rekstrarleyfi til handa leyfishafa 22. desember 2017. Útgáfa leyfisins var auglýst á fréttagátt vefsíðu stofnunarinnar 27. s.m., ásamt tenglum á rekstrarleyfið, álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Matvælastofnunar til álitsins. Útgáfan var einnig auglýst í Fréttablaðinu 28. desember 2017. Kæra barst úrskurðarnefndinni 19. janúar 2018, svo sem áður greinir.

Umhverfisstofnun hefur veitt Fjarðarlaxi starfsleyfi fyrir eldi því sem um ræðir, en auk þess hafa Matvælastofnun og Umhverfisstofnun veitt rekstrarleyfi og starfsleyfi vegna eldis Arctic Sea Farm á 6.800 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði, á grundvelli sama mats á umhverfisáhrifum. Hafa þær leyfisveitingar einnig verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 3, 4, 6 og 12/2018.

Skömmu eftir veitingu hins kærða leyfis tilkynntu Arctic Sea Farm og Fjarðalax fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða fyrirtækjanna í Patreksfirði til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 11. apríl 2018. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 73/2018. Í júní 2018 lá fyrir ákvörðun Matvælastofnunar um breytingu á rekstrarleyfi Fjarðalax, þar sem hnitum einnar staðsetningar, Eyri í Patreksfirði, var breytt. Fyrirhugað er að breyta einnig rekstrarleyfi Arctic Sea Farm samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Í september 2018 lágu fyrir ákvarðanir Umhverfisstofnunar um breytingu á starfsleyfum fyrirtækjanna hvað varðaði staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði, annars vegar við Þúfnaeyri og hins vegar við Kvígindisdal.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta, að ekki verði stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár á Barðaströnd, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum. Hættan sé fyrirsjáanleg fyrir hina villtu laxa- og silungastofna ánna, m.a. með lúsafári og mengun frá framandi, erlendum og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Víst sé að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, að ekki sé minnst á lúsafár og sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleifamengun í nágrenni eldiskvíanna. Byggt sé á því að ýmis konar vanræksla Matvælastofnunar og annmarkar á rekstrarleyfinu og útgáfuferli þess valdi ógildingu leyfisins.

Útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi verið auglýst í Fréttablaðinu 28. desember 2017 og sé því kærufrestur til 28. janúar 2018.

Í 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi segi m.a. að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna og koma skuli í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Í athugasemdum við lagagreinina segi: „Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar [fiskeldis] má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu.“ Kærendur byggi á því að Matvælastofnun hafi ekki sýnt fram á hvernig útgáfa rekstrarleyfisins samrýmist ákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 og valdi það ógildingu rekstrarleyfisins.

Leyfishafi staðfesti í matsskýrslu sinni að ekki verði komist hjá strokulaxi í opnu sjókvíaeldi og sama niðurstaða sé í umsögn Fiskistofu. Þar segi jafnframt að hættan á því að erfðablöndun verði og geti valdið tjóni sé raunveruleg og hún aukist eftir því sem umfang eldisins verði meira. Vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar sé því mikilvægt að lagt sé mat á hættuna á erfðablöndun og afleiðingar hennar fyrir villta stofna, í stað þess að afgreiða áhrifin sem „óveruleg og afturkræf“. Miðað við almennt viðurkenndar viðmiðunartölur um strokulaxa, þ.e. einn lax fyrir hvert framleitt tonn, megi reikna með að meðaltali 6.800 strokulöxum úr fyrirhuguðu eldi leyfishafa og að 40-50% þeirra gangi í árvatn. Sé þá ekki miðað við hugsanlegt stórslys. Alkunna sé að líffræðingar og fleiri telji varasamt að leyfa notkun á laxi af norskum uppruna hérlendis vegna þess hve hann sé erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum og erfðamengun dragi m.a. úr hæfni villta laxins til að lifa af og fjölga sér og hafi einnig neikvæð áhrif á aðlögunarhæfni og ratvísi, enda sé bannað m.a. í Noregi, Bandaríkjunum og Kanada að nota framandi laxastofna í sjókvíaeldi.

Ljóst sé að Matvælastofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð stofnunarinnar á umsókn leyfishafa sé hluti af umhverfismatsferli og að meðferð umsóknarinnar skuli fara fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2011/92/ESB,  svo sem henni hafi verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB, sbr. g-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sem sé hluti af EES-samningnum. Matvælastofnun hafi t.d. ekki tekið með beinum hætti afstöðu til stóru spurningarinnar í málinu, hvort rök hafi verið til þess að hafna leyfisumsókninni, a.m.k. að sinni. Stýring mengunar felist m.a. í því að afstýra mengun með því að hafna útgáfu rekstrarleyfis.

Við útgáfu rekstrarleyfisins hafi Matvælastofnun borið, skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Þá skuli leyfisveitandinn birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfisins og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig hafi leyfisveitanda borið að kanna og rökstyðja afstöðu sína sitt gagnvart því hvort fullnægjandi rannsókn og greining lægi fyrir í málinu, þannig að efni rökstuðnings uppfyllti áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi ekki verið gert. Loks hafi ekki verið vikið að því hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram. Af öllu framangreindu sé ljóst að Matvælastofnun hafi hvorki tekið afstöðu með ásættanlegum hætti til álits Skipulagsstofnunar né framkvæmdarinnar sem slíkrar.

Samkvæmt 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 geti stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins. Hvergi sé í lögum heimild stjórnsýsluhafa til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna yfir hafsvæðum umhverfis landið. Fyrirhugað athafnasvæði leyfishafa sé utan netlaga og innan landhelgi Íslands. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sé íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nái samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Samkvæmt lagaákvæðinu fylgi eignarrétti ríkisins eignarráð yfir hafinu á sama svæði. Leyfishafi hafi ekki lagt fram skilríki fyrir afnotum sín af hafinu, eins og lagaskylda sé skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008, sbr. 40. gr. stjórnarskrár. Í umsókn sinni um rekstrarleyfi segi leyfishafi um heimild til afnota lands, vatns og sjávar: „Eldissvæðið í sjó er meira en 200 m frá landi og því utan skipulagslaga.“

Hafrannsóknastofnun segi í umsögn sinni, dags. 27. nóvember 2017: „Stærðargráða fyrirhugaðs laxeldis gerir framkvæmdina fordæmalausa á Íslandi […] verður að telja að mikil áhætta sé tekin t.d. vegna laxalúsa og ekki öruggt að mótvægisaðgerðir gegn henni dugi.“ Þessu til viðbótar sé augljóst að samtals 17.500 tonna framleiðsla af erlendum og framandi laxastofni sé stórhættuleg viðbót, hvað erfðamengun varði, við þá framleiðslu sem þegar sé komin af stað á Vestfjörðum, m.a. vegna risavaxinna sammögnunaráhrifa. Varðandi umhverfisáhrif sé ekki aðeins um að ræða óviðráðanlega losun skolps í strandsjó, heldur einnig stórfjölgun strokulaxa, laxalúsar og sjúkdóma. Þetta komi fram í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 23. september 2016, þar sem m.a. sé vísað til staðfestingar og greinargerðar Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Um nefndar athugasemdir fjalli Matvælastofnun ekkert. Sé því ekki hægt að fallast á að hún hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Þá hafi Matvælastofnun ekki sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka, fjalla um og bera saman þá aðra valkosti sem til greina komi varðandi framkvæmdina, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll valkost, sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-lið 1. tl. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Eigi þetta við um undirbúning útgáfu rekstrarleyfis, sem sé á ábyrgð Matvælastofnunar. Stofnunin nefni ekki hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram með rannsókn, samanburði og umfjöllun. Um afleiðingar þess að vanrækja samanburð valkosta vísist t.d. til dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016.

Samkvæmt yfirliti leyfishafa um staðsetningu kvíaþyrpinga sé fjarlægð á milli eldissvæða annars vegar 2,0 km, á milli kvía Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði og kvía Fjarðalax við Þúfneyri í Patreksfirði, og hins vegar 2,0 km á milli kvía Arctic Sea Farm við Akravík í Tálknafirði og kvía Fjarðalax við Lágadal í Tálknafirði. Leyfishafi mæli fjarlægð á milli kvíaþyrpinga innan eldissvæðanna. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé lágmarksfjarlægð á milli eldissvæða ótengdra aðila 5 km og skuli mæla lágmarksfjarlægð frá útmörkum hvers eldissvæðis. Heimild til styttri vegalengda en 5 km sé háð samráði Matvælastofnunar við Hafrannsóknastofnun skv. 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Þar sem Hafrannsóknastofnun hafi ekki samþykkt styttingu vegalengda að ósk Matvælastofnunar séu greindar staðsetningar óheimilar. Valdi það óhjákvæmilega ógildingu rekstrarleyfisins.

Ljóst sé að verði leyft risaeldi með norskum, kynbættum eldisstofni í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði séu veiðiár allt í kringum landið í hættu vegna erfðamengunar frá strokufiski, en þó mest á Vestfjörðum og á nærliggjandi laxveiðisvæðum við Breiðafjörð, Faxaflóa og Húnaflóa. Í málsmeðferð Matvælastofnunar hafi lögvernduðum eignarréttindum annarra í engu verið sinnt, enda þótt fyrir liggi, einkum frá Noregi, vísindalegar upplýsingar um víðtæka skaðsemi starfsemi sem hér um ræði.

Ekkert sé í rekstrarleyfinu fjallað með raunhæfum hætti um gífurlegt magn úrgangs frá sjókvíaeldinu. Samkvæmt norskum heimildum sé úrgangur í sjó frá 6.800 tonna eldi áætlaður eins og skolpfrárennsli frá 110.000 manna byggð. Sjókvíaeldi séu einu matvælaframleiðslufyrirtækin hér á landi sem sé í framkvæmd leyft að demba óátalið öllum úrgangi óhreinsuðum í sjó.

Matvælastofnun hafi ekkert fjallað um áhrif risalaxeldis á búsvæði seiða nytjafiska í fjörðunum. Engar rannsóknir hafi verið gerðar á því atriði. Stofnuninni beri, ásamt Umhverfisstofnun, að fara með eftirlit með því að náttúru Íslands sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit sé ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. einnig rannsóknarreglu í 10. gr. stjórnsýslulaga. Stofnanirnar hafi því eftirlit með því að ekki sé brotið gegn 1. og 2. gr. laga um náttúruvernd, hinni mikilvægu varúðarreglu 9. gr. sem og ákvæði 63. gr. um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum. Matvælastofnun beri við gerð og útgáfu rekstrarleyfis ekki aðeins að skoða mengunarþátt sjókvíaeldis í skilningi laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga nr. 71/2008, heldur beri henni að rannsaka og meta sjálfstætt öll áhrif framkvæmdar á náttúruna. Það hafi ekki verið gert.

Ekkert sé í rekstrarleyfinu fjallað um upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila um óhöpp eða slysasleppingar. Vísist hér m.a. til ákvæða Árósarsamningsins, einkum 4. gr. um upplýsingaskyldu til almennings. Einnig vísist til ákvæðis í k-lið 14. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og ákvæða laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál.

Ljóst sé samkvæmt umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 27. nóvember 2017, að komin sé upp gjörbreytt staða varðandi neikvæð áhrif framkvæmdarinnar frá því að matsskýrslan, sem álit Skipulagsstofnunar frá 23. september 2016 hafi byggt á, hafi verið unnin. Þar hafi m.a. verið sagt að næðu blendingar fótfestu í viðkomandi laxastofni yrðu áhrifin varanleg og óafturkræf. Í áliti erfðanefndar landbúnaðarins frá 6. júní 2017 segi m.a.: „Að mati [nefndarinnar] er frekari útgáfa leyfa til eldis á frjóum laxi af erlendum uppruna í sjókvíum óforsvaranleg miðað við stöðu leyfisveitinga og skort á upplýsingum um áhrif eldisins á villta laxastofna í íslenskum ám. Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þ.m.t. þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli.“

Við útgáfu rekstrarleyfisins hafi Matvælastofnun ekki gætt ákvæða stjórnsýslulaga um andmælarétt, sem kærendur álíti að skuli valda ógildingu rekstrarleyfisins. Leyfið sé, eins og fleiri slík leyfi útgefin af stofnuninni, sérlega fátæklegt og nánast samhljóða öðrum rekstrarleyfum fyrir laxeldi. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi vanti í leyfið skilmerkileg ákvæði, t.d. um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings og ákvæði um viðbragðsáætlun til að endurheimta fisk sem sleppi. Í leyfinu segi aðeins að varúðarráðstafanir skuli vera skráðar og aðgengilegar hjá eldisaðila. Stofnunin láti sér síðan nægja að vísa til þess að leyfishafi skuli uppfylla allar þær kröfur sem gerðar séu til starfseminnar í lögum og reglugerðum.

Málsrök Matvælastofnunar: Matvælastofnun krefst þess að kæru í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Er sú krafa byggð á því að kæran sé vanreifuð varðandi aðild og lögvarða hagsmuni kærenda. Að mati stofnunarinnar eigi kærendurnir Akurholt ehf., Geiteyri ehf., Ari P. Wendel, Víðir Hólm Guðbjartsson, Fluga og net ehf., Atli Árdal Ólafsson, Varpland ehf. og Veiðifélag Laxár á Ásum ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun Matvælastofnunar um að gefa út rekstrarleyfi til leyfishafa vegna laxeldis í Patreksfirði og Tálknafirði, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í úrskurði nefndarinnar nr. 97/2016, þar sem kærð hafi verið ákvörðun Matvælastofnunar um að gefa út rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að vísa ætti kærunni frá nefndinni með svohljóðandi hætti: „Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. […] Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, en þessir kærendur eru ekki slík samtök.“

Ljóst sé að framangreindir kærendur uppfylli ekki skilyrði undanþáguákvæðisins og þurfi því að sýna fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni tengda útgáfu rekstrarleyfisins. Þessir aðilar hafi hins vegar ekki sýnt fram á með neinum hætti hvaða lögvörðu hagsmuni hver og einn eða þeir í sameiningu hafi af úrlausn kærumálsins. Ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem gefi til kynna að nefndir kærendur verði fyrir áhrifum vegna útgáfu rekstrarleyfisins. Rétt sé að vekja athygli á mati Hafrannsóknastofnunar á burðarþoli eldissvæðisins og áhættumati vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Síðarnefnda matið hafi sýnt fram á að hægt væri að vera með 50.000 tonna laxeldi í sjó á Vestfjörðum án þess að slíkt ylli skaða á náttúrulegum laxastofnum, þar af 20.000 tonn í Patreksfirði og Tálknafirði. Hagsmunir áðurnefndra kærenda séu ekki umfram þá hagsmuni sem almenna megi telja, en úrskurðarnefndin hafi slegið því föstu í fyrrnefndum úrskurði að slíkir hagsmunir nægi ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir nefndinni. Þess beri að geta að kærendur í því máli hafi verið fyrrnefndir veiðiréttarhafar og eigendur Haffjarðarár í Hnappadal á Snæfellsnesi.

Tvenn samtök sem fallið geti undir undanþáguákvæði laganna séu á meðal kærenda. Matvælastofnun taki ekki afstöðu til þess hvort nefnd samtök uppfylli ákvæði laganna, þannig að úrskurðarnefndin geti tekið kæruna til meðferðar. Hins vegar sé ljóst að málið sé vanreifað varðandi aðkomu hvers og eins kæranda, þ.m.t. hinna tveggja síðastnefndu. Eins og áður sé getið sé ekki með neinum hætti reynt að aðskilja kærendur og rekja aðkomu hvers og eins að ákvörðun stofnunarinnar um útgáfu leyfisins. Málsástæður séu þannig þær sömu fyrir alla kærendur, burt séð frá hagsmunum og ólíkri aðstöðu þeirra. Af þessum ástæðum eigi Matvælastofnun erfitt með að átta sig á málatilbúnaðinum og telji að vísa beri málinu frá.

Þess sé krafist til vara að hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar verði staðfest. Fiskeldi hafi verið stundað á Íslandi um langt skeið. Þrátt fyrir að löggjafinn og stjórnvöld hafi verið meðvituð um að fiskeldi geti haft í för með sér ákveðna áhættu hafi verið tekin sú pólitíska ákvörðun að leyfa slíkt eldi. Til að takmarka áhættuna hafi stjórnvöld friðað tiltekin svæði sem séu í nágrenni mikilvægra svæða, til að vernda villta stofna laxfiska, sjá auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt. Vestfirðir og Austurland falli utan þessara friðunarsvæða skv. auglýsingunni, þ.m.t. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Stofnunin sé stjórnvald og starfi á grundvelli laga nr. 80/2005 um Matvælastofnun. Samkvæmt 2. gr. laganna sé lögbundið hlutverk stofnunarinnar að annast framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit með ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi, þ.m.t. að gefa út rekstrarleyfi vegna fiskeldis.

Á grundvelli 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi verið lögð fram tillaga að matsáætlun vegna sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Í tillögunni hafi hinu fyrirhugaða eldi verið lýst og eldissvæðið staðsett við Arkavík í norðanverðum Tálknafirði og Kvígindisdal í sunnanverðum Patreksfirði. Bæði eldissvæðin séu utan netlaga. Skipulagsstofnun hafi samþykkt tillögu að matsáætlun með tilteknum athugasemdum.

Leyfishafi hafi, ásamt Arctic Sea Farm, lagt sameiginlega fram matsskýrslu, dags. 6. maí 2016, um mat á umhverfisáhrifum framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – aukning um 14.500 tonn í kynslóðaskiptu eldi. Í skýrslunni sé í meginatriðum fjallað um áhrif framkvæmda sem felist í að koma fyrir sjókvíum og öðrum eldisbúnaði, flutningi eldisfisks og síðan áhrif af rekstri sjókvíaeldisins með tilliti til fóðrunar, losunar frá eldinu og framleiðsluferlis. Umhverfisþættir sem teknir hafi verið til skoðunar hafi verið ástand sjávar og strandsvæða, botndýralíf, annað sjávarlíf, fuglar, ásýnd, samfélag og sjávar- og strandnýting í Patreksfirði og Tálknafirði. Helstu mótvægisaðgerðir séu taldar felast í vel skilgreindu verklagi og góðum starfsvenjum, reglubundinni hvíld eldissvæða, kynslóðaskiptu eldi og góðri fóðurstýringu.

Þá komi fram í skýrslunni að leyfishafi stefni að því að nota sjókvíar í hæsta gæðaflokki til eldisins sem standist kröfur samkvæmt norska staðlinum NS9415 og kröfum sem komi fram í reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi. Í skýrslunni sé fjallað um valkosti, samlegðaráhrif vegna fiskeldis í firðinum á ástand sjávar og strandsvæða á rekstrartíma sjókvíaeldisins og sjúkdómahættu og  mögulegrar erfðablöndunar milli eldisfisks og villtra stofna. Þá sé þar gerð grein fyrir helstu mótvægisaðgerðum.

Þegar skýrslan hafi verið lögð fram hafi legið fyrir greinargerð Hafrannsóknastofnunar um mat á burðarþoli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Matið geri ráð fyrir að vegna stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins, einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, að hægt sé að leyfa allt að 20.000 tonna eldi í fjörðunum. Matið hafi verið bundið við þær forsendur að heildarlífmassi yrði aldrei meiri en 20.000 tonn og að vöktun á áhrifum eldisins færi fram.

Í áliti sínu hafi Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, en sett fram ákveðin skilyrði í niðurstöðu sinni.

Hafrannsóknastofnun hafi gefið út áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi í júlí 2017. Í matinu sé kynnt gagnvirkt áhættumatslíkan og sé tilgangurinn að gefa rétta mynd af fjölda strokufiska sem gætu tekið þátt í klaki í hverri á. Höfundar segi að ef fjöldinn fari yfir þröskuldsmörk á hverju ári sé hætta á því að erfðablöndun safnist upp með tíma og hafi áhrif á stofngerð náttúrulegra stofna. Lagt hafi verið mat á svæði á Vestfjörðum og Austurlandi, þ.m.t. Patreksfjörð, Tálknafjörð og Patreksfjarðarflóa, Arnarfjörð, Dýrafjörð og Ísafjarðardjúp. Hámarkseldi samkvæmt erfðablöndunarmati á þessu svæði sé 50.000 tonn, þar af  20.000 tonn í Patreksfirði, Tálknafirði og Patreksfjarðarflóa. Líkanið hafi gert ráð fyrir litlum áhrifum á laxveiðiár landsins fyrir utan fjórar ár, en samkvæmt mati hafi orðið nokkur áhrif á Laugardalsá, Hvannadalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Þess sé getið að vakta þurfi þessar ár og til að koma til móts við neikvæð áhrif á árnar sé lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi.

Í samræmi við 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi Matvælastofnun kynnt sér skýrslu leyfishafa um mat á umhverfisáhrifum og hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um hana. Við útgáfu starfsleyfis Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfis Matvælastofnunar hafi þannig verið tekin afstaða til þeirra skilyrða sem Skipulagsstofnun hafi lagt til í áliti sínu. Matvælastofnun telji að búið sé að taka að fullu tillit til skilyrða vegna hættu á erfðablöndun og vegna burðarþols og botndýralífs. Rétt sé að vekja athygli á að í frumvarpi til laga sem kynnt hafi verið á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um breytingar á lögum nr. 71/2008 sé að finna ný ákvæði um m.a. innra eftirlit, en það skuli í sjókvíaeldi fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra og opinbera birtingu á slíkum gögnum. Þrátt fyrir að ekkert sé kveðið á um framangreint í útgefnu rekstrarleyfi til leyfishafa sé Matvælastofnun og leyfishafi bundin laga- og reglugerðarákvæðum um upplýsingaskyldu til almennings og ákvæðum um rétt almennings til að krefjast gagna.

Ákvörðun Matvælastofnunar um að veita rekstrarleyfi sé stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt almennum sjónarmiðum í stjórnsýslurétti séu skilyrði fyrir því að hægt sé að ógilda stjórnvaldsákvörðun að ákvörðunin sé haldin annmarka að lögum, en með því sé átt við að hún sé haldin form- eða efnisannmörkum, annmarkinn teljist verulegur og loks að veigamikil rök mæli ekki gegn því að hún sé ógilt. Kærendum hafi ekki tekist að sýna fram á neitt framangreindra atriða.

Matvælastofnun sé ósammála því að markmiðsákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 nái ekki fram að ganga með útgáfu rekstrarleyfisins. Þvert á móti verði að telja að með málsmeðferðarreglum laga nr. 106/2000 og 71/2008 hafi verið gætt að markmiðum laganna, þ.e. að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, sem og að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Þá sé rekstrarleyfið, sbr. ákvæði í reglugerð um fiskeldi nr. 1170/2015, bundið því að eldisbúnaður og framkvæmdin standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó, sbr. 1. gr. laga um fiskeldi. Jafnframt bendi engin gögn sem liggi fyrir í málinu til þess að markmið laganna náist ekki og sé þar hægt að vísa til gagna úr umhverfismatinu, burðarþolsmats og niðurstöðu áhættumats vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislax og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Það sé fráleitt að halda því fram að Matvælastofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð leyfisumsóknar væri hluti af umhverfismatsferli og að stofnunin hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti. Veitt hafi verið umsögn um frummatsskýrslu og að matsferli loknu hafi verið tekin afstaða til umsóknar leyfishafa um rekstrarleyfi. Áður en leyfið hafi verið gefið út hafi stofnunin kynnt sér matsskýrslu leyfishafa og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000. Rekstrarleyfið hafi verið auglýst í Fréttablaðinu og frétt um útgáfu þess birt á heimasíðu Matvælastofnunar, ásamt áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Matvælastofnunar til álitsins.

Matvælastofnun hafni því að ógilda beri rekstrarleyfið á þeim grunni að ekki sé lagaheimild til afnota af hafsvæðinu sem leyfishafi hyggist nota undir fiskeldið. Hann hyggist nota svæði utan netlaga fyrir fyrirhugaðar sjókvíar og byggi Matvælastofnun á því að leyfishafa hafi ekki borið að leggja fram sérstök skilríki fyrir notkun hafsvæðisins. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008 komi fram að umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja skilríki um heimild til afnota af landi, vatni og sjó. Um hafsvæði utan netlaga, hafalmenninga, gildi enn sú lögfesta regla 52. kap. Landsleigubálks Jónsbókar að svo skuli almenningar vera sem að fornu hafi verið, bæði hið efra og hið ytra. Með þeim síðargreindu sé átt við hafalmenninga. Í dómaframkvæmd hafi því verið slegið föstu að ríkið eigi ekki það sem aðrir geti ekki sannað eignarrétt sinn á. Hafalmenningar séu því ekki undirorpnir beinum eignarrétti þótt löggjafinn geti í skjóli fullveldisréttar leitt í lög ýmis ákvæði um nýtingu eða eignarhald þeirra. Rétturinn til fiskveiða og til hagnýtingar auðlinda hafsbotnsins í hafalmenningum sé meðal þess sem löggjafinn hafi undanskilið almannarétti.

Í mati vegna burðarþols Patreksfjarðar og Tálknafjarðar segi að mælingar hafi staðfest að svæðið sé að jafnaði vel blandað en yfir sumartímann verði lagskipting við botn og á yfirborði. Þá segi að með tilliti til stærðar svæðisins og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins, einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, sé hægt að leyfa allt að 20 þúsund tonna eldi á svæðinu. Hins vegar þurfi að vakta svæðið til að hægt sé að huga að hugsanlegu endurmati. Þá hafi Hafrannsóknastofnun gefið út áhættumat fyrir erfðablöndun eldislax við íslenska stofna. Matið sé byggt á áhættumatslíkani og sé tilgangur þess að gefa rétta mynd af fjölda strokufiska. Í skýrslu stofnunarinnar segi að forsendur líkansins verði endurskoðaðar eftir því sem tilefni sé til. Við vinnslu matsins hafi verið byggt á sértækri virkni reiknilíkans fyrir íslenskar aðstæður. Þegar litið sé til gagna úr mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar, skilyrða sem eldið sæti og framangreinds mats Hafrannsóknarstofnunar á burðarþoli og áhættu á erfðablöndun þá verði ekki talið að slík hætta stafi af stærð eldisins að fallast beri á kröfu kærenda um að ógilda ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Af sömu ástæðu sé því hafnað að ekki hafi verið litið til áhrifa eldisins á umhverfi, þ.m.t. búsvæði seiða nytjafiska á eldissvæðinu, eða að ekki hafi verið litið til náttúruverndarsjónarmiða við meðferð málsins.

Samanburður ólíkra valkosta við mat á umhverfisáhrifum feli í sér útfærslu á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Því hafi verið slegið föstu í dómaframkvæmd að framkvæmdaraðili hafi að vissu marki fullt forræði á þeim framkvæmdarkostum sem hann taki til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum, en útilokun framkvæmdarkosta þurfi að byggja á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Þá sé einnig viðurkennt að það falli í hlut þeirra sem telji að skoðun og vali framkvæmdaraðilans sé áfátt að sýna fram á að til staðar sé raunhæfur valkostur. Ákvörðun leyfishafa um að setja einungis fram einn valkost hafi byggst á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum.

Varðandi fjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva hafi Matvælastofnun leitað til Hafrannsóknastofnunar, sem og sveitarfélaganna Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, varðandi fjarlægðarmörkin. Þó sé álitaefni hvort slíkt hafi verið nauðsynlegt, enda hafi eldi Arctic Sea Farm og Fjarðalax farið í sameiginlegt umhverfismat og framkvæmdin því metin sem ein heild. Megi efast um hvort ákvæði um ótengda aðila eigi við.

Við mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar hafi verið fjallað um áhrif vegna úrgangs og fyrir hafi legið burðarþolsmat, sem ætlað sé að leggja mat á þol fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett séu fyrir það skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats sé að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 skuli í rekstrarleyfi vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar og hvort um sé að ræða seiðaeldi, strandeldi, skiptieldi eða heilsárseldi. Þá skuli í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna, leyfilegt framleiðslumagn og skyldu rekstrarleyfishafa til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Jafnframt skuli í leyfinu vera ákvæði um áætlun um aðgerðir til að endurheimta fiska sem sleppi. Þá skuli í rekstrarleyfi fyrir laxeldi kveðið á um skyldu til notkunar erfðavísa þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Ekki sé gert að skyldu að vísa sérstaklega til ákvæða Árósasamningsins, laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál eða reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, vegna réttar almennings að aðgangi að upplýsingum varðandi óhöpp eða slysasleppingar leyfishafa. Þrátt fyrir að ekkert sé kveðið á um framangreint í hinu kærða rekstrarleyfi séu Matvælastofnun og leyfishafi bundin laga- og reglugerðarákvæðum um upplýsingaskyldu til almennings og ákvæðum laga um rétt almennings til að krefjast gagna.

Því sé hafnað að brotið hafi verið gegn andmælarétti stjórnsýslulaga með því að fyrirhuguð leyfisveiting hafi ekki verið auglýst. Tilskipun ráðsins 85/337/EBE, um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunni að hafa á umhverfið, hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum. Frá þeim tíma hafi tilskipuninni verið breytt þrisvar sinnum. Tilskipun 85/337/EBE hafi nú fengið nýtt númer, 2011/92/ESB. Það ferli sem felist í henni hafi verið innleitt í lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Hvorki sé í þeim lögum né lögum nr. 71/2008 mælt fyrir um að auglýsa beri leyfisveitingu áður en leyfi sé veitt. Sú aðkoma sem almenningi sé tryggð með áðurnefndri tilskipun felist í aðkomu hans að málinu á fyrri stigum þess, þ.e. við matsferlið. Verði talið að mælt sé fyrir um slíka skyldu í tilskipun hafi Matvælastofnun ekki borið að byggja á henni, enda hafi hún ekki verið innleidd í íslensk lög.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi kveðst mótmæla öllum málatilbúnaði kærenda og kröfum á honum reistum. Um sé að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvarðanir sem hafi byggst á lögum og hafi verið teknar að undangengnu ítarlegu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hið kærða leyfi myndi grunn að atvinnuréttindum leyfishafa, sem séu stjórnarskrárvarin, sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Leyfin teljist því til eignarréttinda leyfishafa í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fyrirætlanir leyfishafa um framleiðsluaukningu á svæðinu hafi verið í lögbundnu ferli síðan 2013. Ferlið hafi verið opið og hagsmunaaðilar hafi á öllum stigum málsins haft tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum. Við meðferð umsókna leyfishafa um starfs- og rekstrarleyfi hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög kveði á um og vandað hafi verið til verka á öllum stigum málsins.

Því sé mótmælt að útgáfa rekstrarleyfis stríði gegn 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í 1. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um að markmið laganna sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skuli í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Til að ná því markmiði skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Að mati leyfishafa falli útgáfa hins kærða rekstrarleyfis vel að framangreindum markmiðum. Allt bendi til að vaxandi fiskeldi á svæðunum muni hafa verulega jákvæð áhrif á samfélagið. Aukin atvinna, verðmætasköpun og margfeldisáhrif af eldinu hafi nú þegar átt þátt í að snúa við neikvæðri íbúaþróun á svæðunum og búast megi við að frekari uppbygging leiði til enn jákvæðari þróunar. Vöktun, verklag og markvissar mótvægisaðgerðir muni draga verulega úr möguleikum á sleppingum og öðrum óæskilegum áhrifum frá starfseminni. Lögð sé áhersla á að 1. gr. laga nr. 71/2008 sé markmiðsákvæði. Slík ákvæði feli í sér yfirlýst markmið laga, sem ekki sé hægt að byggja á beinan efnislegan rétt. Áhrif markmiðsákvæða séu því óbein, þ.e. þau geti haft þýðingu við túlkun á inntaki annarra réttarheimilda, en á þeim verði ekki byggt einum og sér til ógildingar stjórnvaldsákvarðana.

Ljóst sé að Matvælastofnun hafi fylgt fyrirmælum 13. gr. laga nr. 106/2000, m.a. með því að taka skýra og rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í heild sinni. Gögn málsins beri með sér að málsmeðferð Matvælastofnunar hafi verið í samræmi við lög og að rannsóknarskylda hafi verið uppfyllt. Að sama skapi hafi verið sett þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin hafi verið þörf á, þ.m.t. til að draga úr mögulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Því sé mótmælt að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort rök hafi verið til að hafna umsókn leyfishafa.

Leyfishafi mótmæli því að ekki hafi verið tekið tillit til stærðar eldis og sammögnunaráhrifa við meðferð leyfisumsókna í Patreksfirði og Tálknafirði. Unnin hafi verið sameiginleg matsskýrsla vegna fyrirætlana leyfishafa og Fjarðalax um samanlagt 14.500 tonna framleiðsluaukningu, sem skiptist á milli fyrirtækjanna. Í matsskýrslu hafi fullt tillit verið tekið til samlegðaráhrifa fimm fyrirtækja sem hafi á þeim tíma haft áform um eldi á laxi og regnbogasilungi á Vestfjörðum. Þá sé sérstaklega tekið fram í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar framkvæmdir séu hluti af umfangsmiklu áformuðu og starfræktu fiskeldi í eldiskvíum á Vestfjörðum, allt frá Patreksfirði til Ísafjarðardjúps. Bæði matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um leyfið og því ljóst að upplýsingar um samlegðaráhrif hafi verið fyrirliggjandi.

Mótmælt sé staðhæfingu kærenda um að ekki hafi verið lagaheimild til ráðstöfunar hafsvæðis undir fiskeldi á þeim grundvelli að íslenska ríkið fari með eignarráð yfir hafinu svo langt sem fullveldisréttur Íslands nái. Ákvæði laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins séu skýr um að þau taki einungis til auðlinda hafsbotnsins og eigi ekki við um eignarrétt ríkisins yfir hafinu á sama svæði, sbr. m.a. 1. og 2. gr. laganna. Það sé því ljóst að gildissvið laganna nái ekki til nýtingar hafsvæðis undir fiskeldi og að þau eigi ekki við í máli þessu. Þá verði ekki séð að afmörkuð svæði utan netlaga geti flokkast sem fasteign. Hafsvæði utan netlaga teljist, ólíkt auðlindum hafsbotnsins, til hafalmenninga, sem enginn geti talið til beinna eignarréttinda yfir. Svæðið sem um ræði teljist þó til forráðasvæðis íslenska ríkisins, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn. Þar komi fram að innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar hafi íslenska ríkið fullveldisrétt að því er varði hagnýtingu auðlinda í hafinu, lífrænna og ólífrænna, svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins, sbr. 3. og 4. gr. laganna. Ríkið hafi því heimild til að setja lög og reglur sem gildi á svæðinu, þ.m.t. um nýtingu auðlinda.

Í 5. gr. laga nr. 71/2008 segi að ráðherra skuli, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæli með því, ákveða samkvæmt lögunum skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins. Hafi það verið gert með auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum sé óheimilt á tilteknum svæðum, en þar á meðal séu ekki Patreksfjörður og Tálknafjörður. Af því leiði að tekin hafi verið ákvörðun um að firðirnir séu á svæði þar sem fiskeldi sé heimilað.

Leyfishafi og Arctic Sea Farm setji fram einn aðalvalkost vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði og sé sú afstaða rökstudd í matsskýrslu. Sá málatilbúnaður kærenda að skylt hafi verið að meta umhverfisáhrif annarra valkosta í umhverfismati standist ekki nánari skoðun, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 22. október 2009 í máli nr. 22/2009. Í málinu hafi verið skorið úr um að framkvæmdaraðili hafi forræði á því að meta hvaða valkostir komi til álita við mat á umhverfisáhrifum, enda sé það mat byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Af matsskýrslu verði glögglega ráðið hvers vegna leyfishafi hafi valið þann valkost sem tekinn hafi verið til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum og hafi ekki tekið aðra valkosti til nánari skoðunar. Það sé hlutverk framkvæmdaraðila að skilgreina hvaða valkostir séu tækir með hliðsjón af markmiðum framkvæmdarinnar. Yfirlýst markmið umræddrar framkvæmdar sé að styrkja núverandi starfsemi á Vestfjörðum og gera rekstur fyrirtækjanna arðbæran og samkeppnishæfan til lengri tíma og þar með efla atvinnulíf og byggð á svæðinu. Áform fyrirtækjanna byggi á því að framleiðslan og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og framleiddar í sátt við vistkerfi framleiðslusvæða.

Hvergi í lögum sé að finna heimild til að skylda framkvæmdaraðila til að meta umhverfisáhrif framkvæmdarkosta sem ekki séu til þess fallnir að ná þeim lögmætu markmiðum sem að sé stefnt með framkvæmd. Leyfishafi og Fjarðalax hafi byggt ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gögnum, sem styðji val leyfishafa á fyrirhugaðri framleiðsluaukningu í kynslóðaskiptu eldi með svokallaðan Saga-eldisstofn. Að mati leyfishafa hafi engir aðrir raunhæfir valkostir verið nefndir til sögunnar, sem náð geti yfirlýstum markmiðum. Gallinn við ófrjóan lax sé sá að hann þurfi sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukist og vansköpunartíðni geti verið há. Auk þess sé hætta á að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð. Það sé viðurkennt að notkun á ófrjóum laxi sé enn í þróun og því ekki raunhæfur kostur, a.m.k. ekki enn sem komið sé. Samskonar sjónarmið eigi við um eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Núllkostur gangi þvert gegn tilgangi og markmiðum framkvæmdar, en í honum felist óbreytt ástand. Það væri bæði óraunhæft og gífurlega íþyngjandi ef skylda væri talin hvíla á leyfishafa til að fjalla um annars konar fiskeldi en það sem hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við. Þá sé rétt að leggja áherslu á að Skipulagsstofnun hafi með áliti sínu fallist á að leyfishafi hafi metið umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda í samræmi við lög nr. 106/2000. Af hálfu stofnunarinnar hafi ekki verið gerðar athugasemdir við skoðun á möguleikum við framkvæmdina.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila skuli samkvæmt meginviðmiði vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Fram komi hins vegar að Matvælastofnun geti að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að Matvælastofnun hafi óskað eftir áliti Hafrannsóknastofnunar vegna fjarlægðarmarka milli eldisstöðva leyfishafa og Fjarðalax í Patreksfirði og Tálknafirði, en ekki hafi verið lagst gegn fyrirætlunum um fjarlægðarmörk. Þá komi sérstaklega fram í umsögnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, dags. 10. og 20. nóvember 2017, að sveitarstjórnir geri ekki athugasemdir við að fjarlægð milli rekstrarleyfissvæða sé skemmri en kveðið sé á um í 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015.

Leyfishafi hafni alfarið öllum málatilbúnaði kærenda um að veiðiár allt í kringum landið séu í hættu vegna erfðamengunar. Bent sé á að eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði séu í tæplega 100 km fjarlægð frá ám með villta laxastofna, sem hafi reglulega skráða veiði. Næstu ár í norðri séu innst inni í Ísafjarðardjúpi og í suðri sé Fjarðarhornsá á Barðaströnd næst. Veiðistofninn í þessum ám hafi verið styrktur með seiðasleppingum í mörg ár og í sumum tilfellum í áratugi. Minni laxveiðiár með óreglulega skráða veiði séu í 50-100 km fjarlægð. Samkvæmt rannsóknum skipti fjarlægð milli eldissvæða og laxáa miklu máli um hvort strokulax leiti upp í ár og líkur á því minnki því meiri sem fjarlægðin sé. Þetta sé ein lykilforsenda þess að til greina komi að heimila eldi á laxfiskum á þeim svæðum við landið sem tilgreind séu í auglýsingu nr. 460/2004. Á þeim grunni sé óheimilt að stunda fiskeldi í námunda við þau svæði þar sem helst finnist villtir stofnar laxa og séu stór svæði á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurlandi undanskilin af þeim sökum. Hins vegar falli Vestfirðir utan friðunarsvæða, þ. á m. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Það liggi því fyrir mat stjórnvalda á því hvaða svæði þurfi að vernda sérstaklega vegna villtra stofna og sé ljóst að starfsemi leyfishafa fari fram utan þeirra svæða. Lög geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi. Í þeim lögum sé ekki mælt fyrir um ráðstafanir varðandi einkaréttarlega hagsmuni, svo sem áhrif starfsemi á veiðiréttindi jarðeigenda eða nýtingu hlunninda við útgáfu leyfa til fiskeldis.

Því sé hafnað að við meðferð málsins hafi ekkert verið fjallað um magn úrgangs frá fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Í matsskýrslu sé fjallað um það magn úrgangs sem áætlað sé að komi frá eldinu miðað við gefna fóðurnýtingu, fóðurmagn og næringarefnainnihald, sbr. kafla 3.6. Jafnframt sé fjallað um förgun úrgangs í kafla 3.7. Skipulagsstofnun hafi talið að við leyfisveitingar þyrfti að setja skilyrði um m.a. vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf. Í rekstrarleyfi Matvælastofnunar sé gert að skilyrði að á gildistíma leyfisins skuli fara fram vöktun og rannsóknir af hálfu leyfishafa til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldisstöðvarinnar.

Leyfishafi mótmæli því að rekstrarleyfið uppfylli ekki lagaskilyrði um upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila. Í 5. gr. Árósasamningsins sé fjallað um skyldu aðildarríkja til að stuðla að söfnun og dreifingu upplýsinga um umhverfismál, m.a. í þeim tilgangi að þær séu fyrir hendi og að þær séu sem aðgengilegastar. Engin krafa sé gerð um að kveðið sé á um slíka skyldu í starfs- eða rekstrarleyfum.

Þá sé því hafnað að ekkert tillit hafi verið tekið til áhrifa laxeldis á búsvæði seiða og nytjafiska. Skylda hvíli á fiskeldisfyrirtækjum til að framkvæma umhverfisvöktun, þ.e. meta umhverfisáhrif fiskeldisins. Gera megi ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun muni í framtíðinni auka rannsóknir sínar varðandi búsvæði seiða í fjörðum landsins og leggja þá mat á áhrif fiskeldis fyrir þau búsvæði. Í matsskýrslu leyfishafa komi fram að sjúkdómasmit frá eldisfiski geti haft bein áhrif á villta laxfiskastofna. Komi til þess að villtur fiskur sýkist af völdum smits frá eldisfiski séu slík áhrif hins vegar talin afturkræf. Áhrifin verði óveruleg vegna þess að búsvæði villtra laxfiska séu fjarri eldissvæðum og stærð villtra laxfiskastofna sé áætluð lítil í Patreksfirði og Tálknafirði. Góð staða í sjúkdómamálum hérlendis og bólusetning eldisseiða styrki þessa niðurstöðu. Auk þess sé því hafnað að umfjöllun skorti um hættu sem stafi af laxalús, en um þann þátt sé fjallað í rekstrarleyfi Matvælastofnunar.

Það sé algengur misskilningur að í fiskeldi á Íslandi ríki lúsafár, sem villtum laxastofnum stafi hætta af. Staðreyndin sé sú að laxalús hafi aldrei valdið vandræðum í íslensku sjókvíaeldi. Ástæðan sé fyrst og fremst lágur sjávarhiti yfir vetrartímann, en laxalús berist með villtum fiski í kvíar að vori og þar nái hún að fjölga sér lítillega fram á haust. Með vetri lækki sjávarhitinn og lúsin hverfi úr kvíunum. Kærendur geri engan greinarmun á fiskilús og laxalús, sem séu mjög ólíkar. Vísað sé til fjölda fiskilúsa sem fundist hafi hjá leyfishafa, sem fyrst og fremst hafi áhrif á eldisfiskinn með því að streita aukist og erfiðara verði að fóðra fiskinn. Oftast sé um tímabundin áhrif að ræða.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar.

Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök, sem fallist er á að uppfylli framangreind skilyrði laga nr. 130/2011 um kæruaðild, og hins vegar einstakir eigendur veiðiréttar í ám, auk veiðifélaga. Þeir kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir eigi allir mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa og þar með hinum villtu lax- og silungstofnum þeirra, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg dæmi sýni.

Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Patreksfirði og Tálknafirði á sunnanverðum Vestfjörðum. Ár þær sem nefndar eru í kæru eru flestar á Vestfjörðum og verður að játa þeim kærendum kæruaðild sem fara með hagsmuni veiðiréttarhafa í þeim ám vegna nándar við fyrirhugað eldi. Laxveiðiáin Haffjarðará er í Hnappadal á Snæfellsnesi og rennur hún til sjávar á sunnanverðu nesinu. Þá er Laxá á Ásum laxveiðiá í Austur-Húnavatnssýslu sem rennur í Húnavatn og síðan um Húnaós í Húnaflóa. Tvær síðarnefndu árnar eru því í mikilli fjarlægð frá umræddu eldi og eru staðhættir þannig að ef til þess kæmi að lax slyppi úr eldiskvíum væru umtalsverðar hindranir því í vegi að hann leitaði í þær ár. Það sýnist þó ekki útilokað, sérstaklega þegar til þess er litið að fyrir liggur staðfesting Hafrannsóknastofnunar á því að veiðst hafi eldislax í Vatnsdalsá, sem fellur til sjávar á sama stað og Laxá á Ásum, en ekkert sjókvíaeldi er þar nærri.

Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eiga beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Með vísan til þessa telur nefndin ekki stætt á því að útiloka að þeir kærendur sem telja til réttar í Haffjarðará og Laxá á Ásum geti átt lögvarða hagsmuni af úrlausn kæruefnisins sem hér liggur fyrir, þrátt fyrir að veiðiréttindi þeirra séu fjarri laxeldi leyfishafa. Uppfylla þeir því skilyrði kæruaðildar skv. fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt framangreindu verða kröfur allra kærenda teknar til efnismeðferðar.

——-

Í máli þessu er deilt um gildi rekstrarleyfis sem veitt var af Matvælastofnun vegna laxeldis í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 23. september 2016.

Samkvæmt 4. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar til starfrækslu fiskeldisstöðva. Nánar er fjallað um rekstrarleyfi til fiskeldis í III. kafla laganna og kemur fram í 7. gr. þeirra að Matvælastofnun veiti slík leyfi. Í samræmi við 8. gr. nefndra laga skal umsókn um rekstrarleyfi m.a. fylgja afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Skal þess jafnframt gætt við útgáfu rekstrarleyfis að fullnægt sé ákvæðum þeirra laga og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008. Fellur rekstrarleyfi undir leyfi til framkvæmda í skilningi f-liðar 3. gr. laga nr. 106/2000. Auk laga nr. 71/2008, laga nr. 106/2000 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir bar Matvælastofnun við veitingu hins kærða leyfis að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fer eftir 13. gr. laga nr. 106/2000 og er meðal frumskilyrða fyrir útgáfu slíks leyfis að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. þess skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sem er lögbundið en ekki bindandi. Lögum samkvæmt þarf það álit að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfisveitingu að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Skyldur leyfisveitanda ná því einnig til þess að kanna hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti.

——-

Meginágreiningur kærumáls þessa lýtur að því hvort byggt verði á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum sem kærendur halda fram að sé haldið annmörkum þar sem ekki hafi verið fjallað um valkosti framkvæmdarinnar, s.s. notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum eða minna sjókvíaeldi.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann, vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða, sem og að kynna umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna framkvæmda fyrir almenningi og gefa honum kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Til að ná þessum markmiðum mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð.

Þannig skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga 106/2000. Skal m.a. lýsa framkvæmdinni og öðrum möguleikum sem til greina koma. Stofnunin skal síðan taka ákvörðun um tillöguna, skv. 2. mgr. sömu lagagreinar, og getur hún fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda eða synjað tillögunni. Að lokinni málsmeðferð skv. áðurnefndri 8. gr. vinnur framkvæmdaraðili frummatsskýrslu á grundvelli samþykktrar matsáætlunar, sbr. 9. gr. laganna. Skal þar m.a. tilgreina þau áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemin sem henni fylgir kunna að hafa á umhverfi og jafnframt skal ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera saman, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal Skipulagsstofnun meta hvort skýrslan uppfylli kröfur 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr., en verði niðurstaðan sú að svo sé ekki er stofnuninni heimilt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar. Frummatsskýrslan er kynnt samkvæmt nánari ákvæðum þar um í 10. gr. og er öllum heimilt að gera athugasemdir við hana, sbr. 4. mgr. lagagreinarinnar. Þá leitar Skipulagsstofnun umsagna skv. 5. mgr. ákvæðisins. Stofnunin skal því næst skv. 6. mgr. 10. gr. senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir og skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim og taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem hann vinnur á grundvelli frummatsskýrslu. Að málsmeðferð þessari lokinni skal Skipulagsstofnun skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrslan uppfylli skilyrði þeirra laga og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Skal jafnframt í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.

Eins og áður er rakið er kveðið á um það í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að í frummatsskýrslu skuli ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Kemur fram í skýringum við nefnt lagaákvæði í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 106/2000 að helstu breytingar frá gildandi lögum felist í því að lagt sé til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 97/11/EB að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þá er tekið fram: „Nýmæli þetta hefur mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin.“

Ný reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum tók gildi eftir að vinna við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hófst en áður en álit Skipulagsstofnunar lá fyrir. Féll þá brott eldri samnefnd reglugerð nr. 1123/2005, en í þeim atriðum sem hér verða rakin eru reglugerðirnar samhljóða. Segir í 15. gr. gildandi reglugerðar að í tillögu að matsáætlun skuli eftir því sem við á koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina komi, m.a. núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert, og greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta og staðsetningu þeirra, sbr. e-lið 2. tölul. 2. mgr. reglugerðarákvæðisins. Jafnframt er tekið fram í h-lið 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar að í frummatsskýrslu skuli, eftir því sem við á, koma fram yfirlit yfir valkosti sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu, svo sem aðra kosti varðandi tæknilega útfærslu framkvæmdar eða starfsemi, aðra staðarvalkosti eða núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert. Enn fremur skulu koma fram upplýsingar um framkvæmdasvæði, svo sem uppdráttur af fyrirhugaðri staðsetningu framkvæmdar og einnig uppdráttur af öðrum staðarvalskostum, sbr. a-lið 2. tölul. nefnds reglugerðarákvæðis. Loks segir í e-lið 3. tölul. 2. mgr. 20. gr. að í mati á umhverfisáhrifum skuli, eftir því sem við á, koma fram samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir eru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, ásamt athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum, er ljóst að samanburður umhverfisáhrifa þeirra valkosta sem til greina koma er lykilþáttur í mati á umhverfisáhrifum. Hefur verið staðfest í dóma- og úrskurðarframkvæmd að þegar á skorti að lagafyrirmælum þessum sé fylgt eða þau séu sniðgengin geti eftir atvikum verið um ógildingarannmarka að ræða, enda hafi það verulega þýðingu að slíkur samanburður hafi farið fram til að mat á umhverfisáhrifum þjóni markmiðum laga nr. 106/2000.

Í drögum framkvæmdaraðila að matsáætlun kemur fram að fyrirtækin hafi byggt upp lax- og silungseldi á Vestfjörðum og að áform fyrirtækjanna byggi á því að auka framleiðsluna og tryggja jafnframt umhverfisvænt og vistvænt framleiðsluferli. Er í áætluninni m.a. tilgreint hver staðsetning eldisins verði, framleiðsluaðferð tíunduð, tegundir sem aldar verði og af hvaða stofni, hönnun sjókvía, tilhögun flutninga á seiðum, hvaða fóður sé fyrirhugað að nota o.fl. Í kafla um umfang og áherslur umhverfismats segir jafnframt að umhverfisáhrif vegna fiskeldis séu að miklu leyti háð eldisbúnaði, notkun hans og verklagi við framkvæmd og taki framkvæmd og skipulag umhverfismats tillit til þessa. Þá kemur fram í kafla um gögn að í frummatsskýrslu verði lýsing á grunnástandi umhverfis og jafnframt mat og lýsing á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Verði stuðst við tiltæk rannsóknargögn og nýrra gagna aflað eftir þörfum. Er af lestri matsáætlunar ljóst að tilvitnuð gögn eiga við um þá einu tilhögun framkvæmdar sem framkvæmdaraðili leggur til.

Samkvæmt skilgreiningu 3. gr. laga nr. 106/2000 er matsskýrsla skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir og ber framkvæmdaraðili ábyrgð á gerð skýrslunnar. Fjallað er um kosti til framkvæmdar í 6. kafla matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þar segir svo: „Framkvæmdaraðilar setja aðeins fram einn valkost vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Sjókvíaeldi í Patreks- og Tálknafirði er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu sjókvíaeldis Fjarðalax og Arctic Sea Farm, eins og lýst var í kafla 1. Eini raunhæfi möguleikinn á uppbyggingu sjálfbærs og vistvæns sjókvíaeldis á Vestfjörðum er, að mati fyrirtækjanna, kynslóðaskipt eldi með hvíld svæða. Fyrirtækin hafa undanfarin misseri unnið greiningarvinnu sem miðar að því að finna heppileg eldissvæði sem uppfylla markmið um rekstraröryggi, umhverfisaðstæður, umhverfisáhrif og samfélagslega þætti. Þetta umhverfismat er hluti af þeirri vinnu.“ Enn fremur segir: „Eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði eru staðsett þannig að þau valdi sem minnstri röskun á annarri starfsemi eða athöfnum, svo sem siglingaleiðum. Jafnframt var staðsetning þeirra ákvörðuð út frá öldufari og hafstraumum til að tryggja bæði rekstraröryggi og tíð sjóskipti. Nú þegar er heimild fyrir 3.000 tonna laxeldi í Patreks- og Tálknafirði. Fyrirhuguð framleiðsluaukning leiðir af sér tilfærslu og stækkun á athafnasvæðum. Til að lágmarka staðbundin umhverfisáhrif er mikilvægt að eldissvæði séu nægjanlega stór til að rúma tilfærslu á staðsetningum eldiskvía innan þeirra.“ Loks er tiltekið: „Með núll kosti verður ekkert af þeim umtalsverða samfélagslega ávinningi sem áður hefur verið lýst. Á hinn bóginn verða ekki neikvæð áhrif á lífríkið og aðra náttúru með þeim valkosti. Ekki er fjallað sérstaklega um áhrif núllkosts í einstökum köflum í umhverfismatsgreiningunni hér að framan.“ Var þannig ekki fjallað um aðra valkosti en aðalvalkost framkvæmdaraðila í matsskýrslu fyrirtækjanna og fór því ekki fram neinn samanburður á umhverfisáhrifum mismunandi kosta.

Skipulagsstofnun samþykkti matsáætlun framkvæmdaraðila með athugasemdum, en þær athugasemdir lutu ekki að skorti á valkostum framkvæmdarinnar. Stofnunin nýtti ekki heldur þá heimild sem hún hefur skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 til að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar, en frá einum kærenda þessa máls kom fram krafa um að svo yrði gert vegna fyrirmæla í 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá var í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar en í engu um samanburð á þeim við umhverfisáhrif annarra valkosta, enda var slíkur samanburður ekki til staðar í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þó var í niðurstöðu álitsins, í umfjöllun um hættu á erfðablöndun, vikið að því að í umræðu í samfélaginu hefði verið bent á þann kost að nýta geldfisk í sjókvíaeldi í því skyni að koma í veg fyrir erfðablöndun. Teldi Skipulagsstofnun mikilvægt að leyfisveitendur og fiskeldisaðilar fylgdust vel með þróun þessarar tækni og beindi því til þessara aðila að skoða þennan kost við leyfisveitingar til fiskeldis í sjó við strendur Íslands. Tók stofnunin fram að ef slíkt eldi væri raunhæft myndi það leysa þann þátt sem helst ylli áhyggjum varðandi umhverfisáhrif laxeldis í sjókvíum hér við land.

Ljóst er að framkvæmdaraðili kaus að leggja einungis einn valkost framkvæmdar fram til mats á umhverfisáhrifum og að við það var ekki gerð athugasemd af hálfu Skipulagsstofnunar. Í trássi við lög var ekki á neinu stigi málsmeðferðarinnar gerð gangskör að því að greina frekari valkosti og bera umhverfisáhrif þeirra saman við umhverfisáhrif aðalvalkosts framkvæmdaraðila. Var því ekki fullnægt þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, eða þeirra annarra laga- og reglugerðarákvæða sem áður hafa verið rakin, að gerð væri grein fyrir helstu möguleikum sem til greina kæmu og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Kemur þá til skoðunar hverju það varði.

——-

Leyfishafi hefur í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar borið því við að engum öðrum raunhæfum valkostum hafi verið teflt fram sem ná myndu markmiðum framkvæmdarinnar, enda sé viðurkennt að enn sé í þróun notkun á ófrjóum laxi, eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Enn fremur að það væri óraunhæft og íþyngjandi ef hann yrði skyldaður til að fjalla um annars konar fiskeldi en hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við.

Matsáætlun er í 3. gr. laga nr. 106/2000 skilgreind sem áætlun framkvæmdaraðila, byggð á tillögu hans um hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu á í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð skýrslunnar. Er lögð áhersla á ákveðið forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar. Hefur það forræði verið viðurkennt í dómaframkvæmd, að því gefnu að mat framkvæmdaraðila sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Hins vegar verður ekki af þeim fordæmum ráðið að það forræði sé svo víðtækt að framkvæmdaraðili geti lagt einungis einn kost fram til mats á umhverfisáhrifum. Má í því sambandi vísa til málsatvika í dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 þar sem framkvæmdaraðili hafði lagt fram þrjá valkosti en deilt var um hvort fleiri valkostir teldust koma til greina. Orðalag laga nr. 106/2000 um að fjalla beri um þá kosti sem til greina komi verður ekki heldur skilið svo að framkvæmdaraðili geti einskorðað umfjöllun sína við þann kost sem honum hugnast best, heldur hvílir á honum sú ótvíræða skylda að kanna til hlítar þá möguleika sem almennt geta komið til greina, lýsa þeim og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Það að hann hafi ekki reynslu eða þekkingu á öðrum möguleikum en þeim sem hann leggur helst til leysir hann ekki undan þeirri lögbundnu skyldu þótt það kunni að reynast honum dýrt eða erfitt að uppfylla hana. Er í þessu sambandi rétt að benda á að leyfisveiting, líkt og sú sem hér um ræðir, er ívilnandi ákvörðun um að leyfa framkvæmd sem felur í sér ákveðna starfsemi eða nýtingu, sem getur eftir atvikum verið mengandi og gengið á eða takmarkað rétt annarra.

Samkvæmt 1. kafla 1 í matsskýrslu er það markmið framkvæmdaraðila að auka framleiðslu á eldislaxi. Byggja áform þeirra á því að framleiðsla og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og hafa framkvæmdaraðilar í því skyni lagt upp með ákveðna tilhögun framkvæmdar. Eru sjónarmið framkvæmdaraðila málefnaleg og tilhögun sú sem þeir leggja til er til þess fallin að ná markmiðum framkvæmdarinnar um framleiðsluaukningu. Það skal þó áréttað að greining valkosta þarf að fara fram af hálfu framkvæmdaraðila án þess að þeir séu útilokaðir of snemma í ferlinu, t.a.m. vegna fyrirfram gefinna forsendna eða hugmynda hans, enda færi það beinlínis gegn þeim lögfestu markmiðum mats á umhverfisáhrifum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvetja til breiðara samráðs um framkvæmd, sbr. ákvæði b- til d-liða 1. gr. laga nr. 106/2000. Þá sér þess ekki stað í matsáætlun, matsskýrslu eða áliti Skipulagsstofnunar að sérstakar rannsóknir hafi farið fram áður en aðrir valkostir voru slegnir út af borðinu og er í þessum gögnum ekki rökstutt sérstaklega af hverju það var gert. Þó má af áliti Skipulagsstofnunar ráða að hún taki undir með framkvæmdaraðila að enn sem komið er sé eldi með geldfiska ekki raunhæft.

Það er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir þeirra valkosta sem kærendur hafa nefnt komi ekki til greina í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem áður hafa verið rakin geta mismunandi valkostir t.d. falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. Er afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem hægt er að leggja fram til mats svo framarlega sem framkvæmdaraðili sinnir þeirri skyldu sinni að gera víðtæka könnun á þeim kostum sem til greina geta komið. Verður ekki við það unað í mati á umhverfisáhrifum að einungis séu metin umhverfisáhrif eins valkosts. Fer enda þá ekki fram sá nauðsynlegi samanburður umhverfisáhrifa fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að fullrannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdarkostur hafi getað komið til greina í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 verður að telja það verulegan ágalla á matinu að engum öðrum kosti var lýst að öðru leyti en vísað væri til þess að núllkostur hefði engin áhrif í för með sér.

Að teknu tilliti til nefnds ágalla og markmiða þeirra sem að er stefnt með mati á umhverfisáhrifum gat matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar á henni ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda, s.s. þess starfsleyfis sem hér er deilt um. Bar Matvælastofnun, sem því stjórnvaldi sem hið kærða leyfi veitti, skylda til að tryggja að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar. Hvílir og sú skylda á Matvælastofnun skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 að gæta þess við útgáfu rekstrarleyfis að fullnægt sé m.a. ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, eins og áður hefur komið fram.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu leyfisveitingu slíkum annmörkum háða að varði ógildingu rekstrarleyfisins.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita Fjarðarlax ehf. rekstrarleyfi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

158/2017 Egilsgata

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 20. desember 2018, sjá hér.

Árið 2018, föstudaginn 21. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 158/2017, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afhendingu gagna.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afhendingu gagna sem honum hefði verið kynnt með bréfi, dags. 4. desember 2017. Er þess krafist að úrskurðarnefndin taki málið til efnislegrar meðferðar og geri sveitarfélaginu að afhenda umbeðin gögn á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 21. febrúar 2018.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitinga Borgarbyggðar fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með uppkvaðningu úrskurðar 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæðinu á lóð nr. 6 við Egilsgötu og með úrskurði uppkveðnum 9. nóvember 2016 var vísað frá kröfum kæranda, sem einnig er kærandi þessa máls, en kröfur hans beindust að breyttri notkun úr íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um frávísun á því reist að ekki lægi fyrir lokaákvörðun sveitarfélagsins um breytta notkun, auk þess sem leyfi til rekstrar gistiheimilis væri ekki kæranlegt til nefndarinnar. Loks hefur kærandi kært ákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja endurnýjaða byggingarleyfisumsókn fyrir þremur stúdíóíbúðum á neðri hæð og breytingu á efri hæð hússins að Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Er það kærumál nr. 93/2017 og var úrskurður í því kveðinn upp fyrr í dag.

Með bréfi til Borgarbyggðar, dags. 6. nóvember 2016, vísaði kærandi til fyrri samskipta við sveitarfélagið vegna beiðna sinna um afhendingu gagna. Ítrekaði kærandi í bréfinu beiðni sína um aðgang að nánar tilgreindum gögnum sem talin voru upp í bréfi hans. Erindið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs 17. s.m. og var sveitarstjóra falið að svara því. Í svarbréfi sveitarstjóra, dags. 13. desember s.á., er vísað til beiðni kæranda um öll þau mál sem skráð hefðu verið hjá sveitarfélaginu frá 1. janúar 2010 til 1. nóvember 2016 vegna erinda kæranda. Í bréfi sveitarstjóra voru rakin svör við þeim liðum sem fram komu í erindi kæranda frá 6. nóvember 2016. Kom þar fram hvaða gögn hefðu þegar verið afhent og hvaða erindi væru í vinnslu hjá skipulags- og byggingarfulltrúa. Einnig kom fram að tilgreind erindi til skipulags- og byggingarfulltrúa, sem nú hefði látið af störfum, hefðu ekki verið skráð hjá sveitarfélaginu og væri því ekki hægt að bregðast við þeim, en kæranda væri bent á þann möguleika að endursenda erindin til sveitarfélagsins. Í bréfinu var enn fremur hafnað beiðni kæranda um afhendingu gagna um samskipti og samninga sveitarfélagsins við nánar tilgreinda lögmannsstofu og vísað til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Jafnframt var í bréfinu upplýst um bókun byggðarráðs um þjónustu lögmannsstofunnar. Loks var, með vísan til einkahagsmuna, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, svo og umfangs beiðnarinnar, sbr. 15. gr. sömu laga, hafnað beiðni kæranda um afrit af öllum tölvubréfum og bréflegum samskiptum frá 2013 til og með 2016 og þá sérstaklega frá 24. september 2015 til 1. nóvember 2016, á milli sveitarfélagsins og forráðamanna gistihúss þess sem rekið er í næsta húsi við kæranda. Leiðbeint var um að synjun um afhendingu gagna væri kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Kærandi brást við bréfi sveitarstjóra með bréfi til byggðarráðs, dags. 11. janúar 2017, þar sem fram kom „Kvörtun – endurupptaka“  og var þess m.a. beiðst að ráðið hlutaðist til um að umbeðin gögn yrðu afhent kæranda á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindið var tekið fyrir á fundi byggðarráðs 26. s.m. og var afgreiðslu þess frestað en sveitarstjóra falið að undirbúa svar. Formaður byggðarráðs svaraði svo með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, þar sem tekið var undir sjónarmið þau sem fram komu í bréfi sveitarstjóra frá 13. desember 2016. Með bréfi, dags. 18. apríl 2017, benti kærandi á að ekki væri að sjá af fundargerðum byggðarráðs að ráðið hefði samþykkt svör formannsins eða falið honum að svara kæranda og setti hann fram þá kröfu að byggðarráð afgreiddi erindi hans. Ítrekaði kærandi erindi sitt bréflega í júní og júlí s.á.

Með bréfi, dags. 10. október 2017, fór kærandi að nýju fram á afrit allra bréfa og tölvupósta, sem og upplýsingar um öll skráð samskipti sveitarfélagsins við eigendur áðurnefnds gistihúss, frá ársbyrjun 2013 til október 2017. Jafnframt var farið fram á afhendingu sambærilegra upplýsinga sem tengdust samskiptum sveitarfélagsins við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna kæru á rekstrarleyfi gistihússins.

Með bréfi sveitarstjóra, dags. 4. desember 2017, var kærandi upplýstur um að þegar bréf hans, dags. 11. janúar s.á., hefði borist hefði sveitarstjóra verið falið að útbúa svarbréf, sbr. bókun þar um í fundargerð byggðarráðs frá 26. janúar 2017. Það hefði verið gert og slíkt bréf lagt fyrir formann byggðarráðs til yfirferðar. Hann hafi síðan sent bréfið í samræmi við nefnda samþykkt. Til að taka af allan vafa hafi byggðarráð ákveðið að bóka sérstaklega um afgreiðsluna á fundi sínum 23. nóvember s.á. Hefði ráðið þá tekið fyrir erindi kæranda frá 11. janúar 2017 og verið bókað að byggðarráð tæki fram að gefnu tilefni að þau sjónarmið sem kæmu fram í bréfi formanns byggðarráðs frá 2. febrúar 2017 nytu stuðnings byggðarráðs. Kom og fram í bréfi sveitarstjóra 4. desember 2017 að bréf hans væri ritað í framhaldi af og til staðfestingar á nefndri afgreiðslu ráðsins. Væru fyrri svör til kæranda ítrekuð.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi ítrekað beðið um aðgang að gögnum, m.a. ljósritum af tölvusamskiptum sveitarfélagsins við eiganda gistihúss í næsta húsi við kæranda, á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi kærandi rökstutt að um stjórnsýslumál væri að ræða en því hafi verið hafnað og honum verið tilkynnt að málsmeðferð beiðnar hans færi að ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012.

Kærandi hafi farið fram á umrædd gögn þar sem þau séu hluti af stjórnsýslumáli og hafi m.a. verið fyrirhugað að senda þau með kærum sem hafi verið til meðferðar og sem nú séu til meðferðar fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ástæða sé til að ætla að umræddir tölvupóstar geti varpað frekara ljósi á málið og haft áhrif á úrlausn þess.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að kæra í málinu sé óskýr og sé framsetning hennar með þeim hætti að óljóst sé hvaða gögn það séu nákvæmlega sem kærandi krefjist afhendingar á sem ekki hafi verið afhent honum nú þegar. Vísað sé til erinda sem enn hafi ekki verið svarað af hálfu sveitarfélagsins og liggi því ekki fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun þar um. Kærandi hafi sent sveitarfélaginu fjölda bréfa í gegnum tíðina, en tilefni þeirra hafi verið misjafnt. Kærandi skýri það ekki frekar og því geti úrskurðarnefndin varla tekið afstöðu til þess á hvaða grundvelli sé verið að krefjast gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá málið tekið fyrir hjá nefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kæranda hafi með bréfi sveitarstjóra, dags. 13. desember 2016, verið leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hann hafi ekki sinnt því heldur kvartað til byggðarráðs sveitarfélagsins og síðar umboðsmanns Alþingis. Afstaða sveitarfélagsins hafi verið óbreytt allt frá 13. desember 2016. Hafi því verið liðið meira en ár frá því að kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna kröfu hans um aðgang að gögnum þar til kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. Sé því dregið í efa að kæran hafi komið fram innan lögákveðinna tímamarka.

Athygli úrskurðanefndarinnar sé jafnframt vakin á því að kærandi hafi sent samhljóða kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en sveitarfélagið telji kæranda ekki geta lögum samkvæmt verið með sama ágreiningsefnið til úrlausnar fyrir tveimur kærunefndum í einu.

Hvað efni málsins varði ítreki sveitarfélagið að synjað hafi verið um afhendingu gagna er vörðuðu samskipti þess við forráðamenn gistiheimilis á næstu lóð við kæranda. Hefði það verið gert með vísan til 9. og 15. gr. upplýsingalaga, en þar sé annars vegar vísað til takmörkunar á rétti til upplýsinga vegna einkahagsmuna einstaklinga og hins vegar ef umfang umbeðinna gagna sé slíkt að ekki teljist fært af þeim sökum að verða við beiðninni. Heimfæra megi þessi sjónarmið undir ákvæði stjórnsýslulaga telji úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að sér beri að afgreiða kærumálið. Sé vísað til sömu lagaákvæða vegna synjunar sveitarfélagsins á beiðni kæranda um afhendingu gagna varðandi samskipti og samninga þess við tilgreinda lögmannsstofu.

Niðurstaða: Af gögnum málsins verður ráðið að í máli þessu sé deilt um synjun á afhendingu gagna sem varða samskipti Borgarbyggðar við aðila í næsta húsi við kæranda. Í því húsi er nú rekið gistiheimili og hefur kærandi átt aðild að þremur málum fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitinga tengdu því, svo sem nánar kemur fram í málavaxtalýsingu. Heldur kærandi því fram að sem aðila máls beri að afhenda honum gögnin á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af hálfu sveitarfélagsins hefur honum verið leiðbeint um að upplýsingalög nr. 140/2012 gildi þar um.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Er tekið fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum að regla þessi sé forsenda þess að málsaðili geti tjáð sig um málefni svo fullt gagn sé að. Í almennum athugasemdum í nefndu frumvarpi er tekið fram: „Hugtakið „aðili máls“ kemur fyrir á nokkrum stöðum í frumvarpinu og ber að skýra það rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli, svo sem umsækjendur um byggingarleyfi eða opinbert starf, heldur geti einnig fallið undir það þeir sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar eða meðumsækjendur um starf. Ómögulegt er hins vegar að gefa ítarlegar leiðbeiningar um það hvenær maður telst aðili máls og hvenær ekki, heldur ræðst það af málsatvikum hverju sinni. Það sem ræður úrslitum í því efni er það hvort maður teljist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, en það ræðst m.a. af því um hvaða svið stjórnsýslunnar er að ræða.“

Ákvarðanir þær sem kærandi hefur kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eru til komnar vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á umsóknum um byggingarleyfi vegna húss á næstu lóð við kæranda. Þegar sótt er um byggingarleyfi til sveitarfélags er almennt sá einn aðili málsins sem sækir um leyfið. Hins vegar er ljóst að veiting byggingarleyfis getur snert lögvarða hagsmuni annarra aðila, einkum nágranna, og hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli að málum fyrir úrskurðarnefndinni vegna ákvarðana um slíkar leyfisveitingar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í nefndri lagagrein er kæruréttur til úrskurðarnefndarinnar bundinn við lögvarða hagsmuni rétt eins og almennt er gerð krafa um í stjórnsýslurétti og vísað er til í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja kæranda einnig aðila máls á sveitarstjórnarstigi í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga og á hann þar með rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða þær þrjár afgreiðslur sem síðar var skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Af gögnum málsins er ljóst að upphafleg krafa kæranda um gögn var afgreidd á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, en hann gerði aftur kröfu um afhendingu gagna á grundvelli stjórnsýslulaga í bréfi sínu 6. nóvember 2016. Þeirri kröfu var synjað af sveitarstjóra með bréfi, dags. 13. desember s.á., og var enn vísað til upplýsingalaga. Því mótmælti kærandi með bréfi, dags. 11. janúar 2017, og var því svarað af formanni byggðaráðs með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, þar sem tekið var undir sjónarmið sveitarstjóra. Verður að líta svo á að í bréfi kæranda hafi falist endurupptökubeiðni samkvæmt yfirskrift þess og að henni hafi verið hafnað með bréfi formannsins. Þegar kæra barst til úrskurðarnefndarinnar 28. desember 2017 var kærufrestur bæði vegna efnislegrar afgreiðslu sveitarstjórans og synjunar formanns byggðaráðs á endurupptöku málsins löngu liðinn, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Eðli máls samkvæmt hlýtur það stjórnvald sem er bært til að leysa úr máli og hefur umráð skjals almennt að vera það stjórnvald sem ákveður hvort veita eigi aðgang að upplýsingum. Í þeim málum sem kærandi hefur átt aðild að fyrir úrskurðarnefndinni hefur verið um að ræða leyfi sem byggingarfulltrúi veitir. Af svari sveitarstjóra frá 13. desember 2016 verður hins vegar ekki annað ráðið en að hann hafi haft umráð þeirra upplýsinga sem efnislegt svar hans laut að. Bar kæranda þá þegar, eða í öllu falli þegar endurupptökubeiðni hans var synjað, að hefjast handa við kæru án ástæðulauss dráttar. Þess í stað kaus hann að ítreka endurtekið erindi sem þegar hafði fengið efnislega afgreiðslu aðila sem ekki verður annað séð en að hafi verið til þess bær. Verður þessum hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 28. gr. stjórnsýslulaga.

Hins vegar fór kærandi að nýju fram á með bréfi, dags. 10. október 2017, að fá afrit allra bréfa og tölvupósta, sem og upplýsingar um önnur samskipti sveitarfélagsins við eigendur gistihússins að Egilsgötu 6. Á þeim tíma var hann aðili að kærumáli nr. 93/2017 fyrir úrskurðarnefndinni, sem varðar sama mál og upplýsingabeiðni hans varðaði að hluta eða í heild. Réttur aðila máls til upplýsinga er nátengdur andmælarétti hans í málinu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en ljóst er að honum getur einnig borið nauðsyn til að fá aðgang að málsgögnum að því loknu, t.d. í því skyni að meta réttarstöðu sína. Þessu erindi kæranda hefur ekki verið svarað, en í bréfi sveitarstjóra frá 4. desember s.á. var áréttuð afgreiðsla fyrri erinda kæranda án þess að þess væri getið að fram hefði komið ný beiðni dags. 10. október s.á.

Mál þetta á sér töluverðan aðdraganda svo sem að framan greinir. Nú eru liðnir um 11 mánuðir frá því að kærandi lagði fram áðurnefnda beiðni um gögn með bréfi, dags. 10. október 2017, sem ekki hefur verið svarað af hálfu bæjaryfirvalda. Að svo komnu verður að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Verður því lagt fyrir sveitarfélagið að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa. Skal í því sambandi áréttað að úrskurðarnefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga njóti kærandi stöðu aðila á sveitarstjórnarstigi að þeim málum sem hann hefur skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Borgarbyggð að taka beiðni kæranda frá 10. október 2017 um aðgang að gögnum  til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

63/2017 Arnarstekkur

Með

Árið 2018, föstudaginn 21. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. mars 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Stekkjarlund úr landi Miðfells í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóða við Arnarstekk 2-10 í landi Stekkjarlundar, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. mars 2017 að samþykkja deiliskipulag fyrir Stekkjarlund úr landi Miðfells í Bláskógabyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 12. júlí 2017.

Málavextir: Árið 2005 eignuðust kærendur sumarbústaðalóðir við Arnarstekk 2-10 í landi Stekkjarlundar, en á þeim tíma var svæðið ódeiliskipulagt. Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2006 tók gildi Aðalskipulag Bláskógabyggðar fyrir Þingvallasveit 2004-2016. Í aðalskipulaginu var meðal annars mælt fyrir um stefnu fyrir frístundabyggð á láglendi. Þar kom fram að fjórum árum eftir gildistöku aðalskipulagsins yrðu ekki veitt byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki lægi fyrir deiliskipulag.

Hinn 7. apríl 2016 lagði Félag bústaðaeigenda í Stekkjarlundi úr landi Miðfells fram tillögu að deiliskipulagi á svæðinu hjá skipulagsnefnd Bláskógabyggðar, en svæðið var ódeiliskipulagt fyrir gildistöku núgildandi deiliskipulags. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar, dags. 25. maí 2016, var tillagan send lóðarhöfum til kynningar. Í tillögunum var gert ráð fyrir byggingarreitum á lóðum kærenda við Arnarstekk. Gerðar voru breytingar á skipulagstillögunni 11. júlí 2016 af hálfu sveitarfélagsins þar sem byggingarreitir sem nær voru þjóðvegi en 100 m á lóðum við Arnarstekk voru teknir út. Hinn 25. ágúst s.á. mótmæltu kærendur þeirri breytingu með bréfi til skipulagsnefndar Bláskógabyggðar. Á fundi nefndarinnar 8. september 2016 var bókað að nefndin mælti með að sveitarstjórn samþykkti deiliskipulastillöguna með fyrrgreindri breytingu. Var og gert ráð fyrir að farið yrði með málefni lóða nær þjóðvegi en 100 m í sérstaka breytingu á deiliskipulagi þar sem sótt yrði um undanþágu frá ákvæði gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um fjarlægðir mannvirkja frá stofn- og tengivegum. Samþykkti sveitarstjórn þá afgreiðslu skipulagsnefndar 6. október 2016. Að loknum breytingum á deiliskipulagstillögunni sem gerðar voru vegna athugasemda Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2017 var hún samþykkt á fundi sveitarstjórnar 2. mars s.á. og tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí 2017.

Samhliða deiliskipulagsferli fyrir Stekkjarlund var lögð fram sambærileg tillaga að deiliskipulagi fyrir Veiðilund, aðliggjandi frístundabyggð við Stekkjarlund. Var hún einnig samþykkt á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 2. mars 2017 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí 2017.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfugerð sína á því að eignarlóðir þeirra hafi frá upphafi verið fullgildar sumarhúsalóðir með fullgildum byggingarrétti og því feli umræddar breytingar á upphaflegri deiliskipulagstillögu í sér grundvallarbreytingu á nýtingarmöguleikum lóðanna og um leið verðmæti þeirra. Kærendur telja að eignar- og nýtingarréttur þeirra á lóðinni njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og að hann verði ekki skertur nema á grundvelli lögmætra sjónarmiða sem gangi jafnt yfir alla. Með hinu kærða deiliskipulagi sé brotið gegn jafnræðisreglum en samþykkt deiliskipulag teljist stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar og ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 11. gr. laganna skuli við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Fyrir liggi að hvoru tveggja í tillögum að deiliskipulagi fyrir Stekkjarlund og Veiðilund hafi verið lagt til að fjölmargar lóðir sem standi nær þjóðvegi en 100 m verði með byggingarrétti fyrir sumarhús. Sé þetta skýrt þannig að um sé að ræða undanþágu frá gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem að byggingarnar séu frá gamalli tíð. Norðan við lóðir kærenda séu fimm lóðir sem allar séu tilgreindar með byggingarrétti og liggi allar nær eða í sömu fjarlægð frá þjóðvegi og lóðir kærenda sem hafi verið skilgreindar sem sumarhúsalóðir í tugi ára. Sé því óskiljanlegt hvers vegna aðrar reglur eigi að gilda um byggingarrétt á þeim en nálægum sambærilegum lóðum. Óljóst sé á hvaða forsendum ákveðið hafi verið að svipta þá byggingarrétti á lóðum sínum en um leið heimila öðrum lóðareigendum sambærilegra lóða, bæði óbyggðra og byggðra, að byggja á sínum. Slík mismunun brjóti gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, einkum jafnræðisreglu þeirra, auk reglna um að ákvörðun skuli vera tekin á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða.

Það sé viðurkennd aðferð við deiliskipulagsgerð að taka tillit til eldra fyrirkomulags, bæði hvað varði legu lóða og byggingarrétt, þrátt fyrir að umræddir þættir samrýmist hugsanlega ekki reglum um skipulag á nýjum lóðum og byggingareitum. Samkvæmt 4. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé heimilt við gerð deiliskipulags að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar séu til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð byggðarinnar auk almennra rammaskilmála. Sé því ljóst að Bláskógarbyggð sé heimilt að taka tillit til eldra fyrirkomulags, þ.m.t. lóðaskiptingar og byggingarréttar við gerð deiliskipulagsins, eins og gert hafi verið í skipulagstillögunum um allar þær lóðir sem liggi að þjóðvegi nema lóðum kærenda. Í aðalskipulagi Bláskógabyggðar sé að finna þau sjónarmið að við deiliskipulag svæða sem þegar séu risin beri fyrst og fremst að líta til markmiða um að draga úr umhverfisáhrifum. Ekki verði annað lesið úr skipulaginu en að heimilt sé að veita undanþágu frá ýmsum kröfum sem gerðar séu til nýrra svæða þegar um sé að ræða eldri byggð. Hvorki í ákvæðum skipulagslaga né aðalskipulagi sé gerður greinarmunur á byggðum og óbyggðum lóðum.

Samkvæmt framangreindu sé ekkert því til fyrirstöðu að veita kærendum undanþágu frá ákvæðum gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð og skilgreina byggingarreiti á lóðum þeirra. Ákvörðun sveitarfélagsins um hið gagnstæða sé aftur á móti ólögmæt líkt og að framan sé rakið.

Fyrir liggi að í upphaflegum tillögum að deiliskipulagi hafi verið skilgreindir byggingarreitir á lóðum kærenda. Umræddir byggingarreitir hafi aftur á móti verið fjarlægðir úr deiliskipulagstillögunum við meðferð skipulagsnefndar Bláskógabyggðar án þess að haft væri samráð við kærendur eða þeim gefinn kostur á að andmæla. Nauðsynlegt hefði verið að upplýsa kærendur um forsendur breytinganna þannig að þeir gætu tekið afstöðu til þeirra samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Þá hafi kærendum ekki verið tilkynnt bréflega um auglýsingu hins nýja deiliskipulags fyrir Stekkjarlund þrátt fyrir að slíkt hefði verið nauðsynlegt til að tryggja möguleika þeirra á að andmæla tillögunum. Af þessum sökum teljist umrædd ákvörðun ólögmæt.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í Aðalskipulagi Bláskógabyggðar fyrir Þingvallasveit 2004-2016, sem hafi tekið gildi um mitt ár 2006, komi meðal annars fram að liðnum fjórum árum frá gildistöku aðalskipulagsins verði ekki veitt byggingarleyfi nema á grundvelli deiliskipulags. Því hafi verið gert ráð fyrir að eftir mitt ár 2010 mætti ekki veita byggingarleyfi á svæðum þar sem deiliskipulag væri ekki í gildi. Því megi segja að frá miðju ári 2010 hafi ekki verið til staðar byggingarréttur á lóðum innan svæðisins og því sé ekki rétt hjá kærendum að sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafi fellt byggingarréttina niður með samþykkt sinni á deiliskipulaginu. Benda megi á að fyrir liggi túlkun á ákvæðum aðalskipulagsins, sbr. úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011.

Til að gæta jafnræðis hafi við endanlega afgreiðslu málsins hjá sveitarstjórn verið samþykkt að ekki yrði skilgreindur byggingarreitur á neinni lóð sem sé innan 100 m fjarlægð frá aðliggjandi þjóðvegi. Eigi það bæði við um deiliskipulag Stekkjarlundar og Veiðilundar. Jafnframt hafi verið samþykkt að taka málefni allra lóða fyrir sem sérstakt mál um leið og deiliskipulag svæðanna taki gildi. Verði þá farið með málið sem breytingu á deiliskipulagi þar sem sótt verði formlega um undanþágu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar sem varði fjarlægð mannvirkja frá stofn- og tengivegum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að breyta upphaflegri deiliskipulagstillögu með því að afmá byggingareiti af lóðum kærenda vegna ákvæðis d-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um að ekki skuli staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m.

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag innan marka sveitarfélags en við beitingu þess valds ber þeim þó að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað en ekki verður talið að hann eigi lögvarða kröfu til þess að knýja á um breytingu.

Í greinargerð Aðalskipulags Bláskógabyggðar fyrir Þingvallasveit 2004-2016, sem tók gildi um mitt ár 2006, er sett fram stefna um uppbyggingu sumarhúsasvæða almennt í Þingvallasveit. Tekur hún til „núverandi byggðar, varðandi endurbyggingar sumarhúsa, viðbyggingar og viðhald húsa og til nýbygginga innan núverandi svæða og á svæðum sem bætast við“. Í almennum markmiðum aðalskipulagsins kemur fram að unnið verði lögformlegt deiliskipulag fyrir öll eldri sumarhúsasvæði í Þingvallasveit. Skuli sveitarstjórn hafa forgöngu um að landeigendur, lóðarhafar og sumarhúsafélög láti vinna deiliskipulag á viðkomandi svæði innan fjögurra ára frá gildistöku aðalskipulagsins. Jafnframt er tekið fram að ekki verði gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggi fyrir deiliskipulag að liðnum þessum fjórum árum. Með hliðsjón af því fól hið kærða deiliskipulag ekki í sér grundvallarbreytingu á nýtingarmöguleikum lóða kærenda, enda gátu þeir ekki fengið byggingarleyfi fyrr en umrætt svæði yrði deiliskipulagt. Var Bláskógabyggð því heimilt í skjóli skipulagsvalds að gera fyrrgreinda breytingu á kynntri deiliskipulagstillögu. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að við þá ákvörðun bókaði sveitarfélagið jafnframt að gert yrði ráð fyrir að farið yrði með málefni lóða nær þjóðvegi en 100 m sem sérstaka breytingu á deiliskipulagi.

Hvorki skipulagsuppdráttur deiliskipulags Stekkjarlundar né Veiðilundar ber með sér að óbyggðar lóðir innan við 100 m frá þjóðvegi séu með byggingarreiti. Verður því ekki fallist á að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með hinni kærðu ákvörðun.

Kærendur telja að breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulaginu eftir að það var fyrst kynnt hefði þurft að gera í samráði við þá. Fallast má á að skortur á sérstöku samráði, sbr. gr. 5.2.1. í fyrrnefndri skipulagsreglugerð, sé ágalli á meðferð málsins, en þegar litið er til þess að kærendur komu að athugasemdum vegna fyrrgreindra breytinga verður sá annmarki ekki talinn þess eðlis að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda verður ekki séð að kærendur hafi orðið fyrir réttarspjöllum af þeim sökum.

Telji kærendur að umþrætt deiliskipulag hafi valdið þeim fjártjóni geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum samkvæmt. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. mars 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Stekkjarlund úr landi Miðfells í Bláskógabyggð.

65/2017 Fjarðagata

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2017 um að synja beiðni um endurupptöku ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis frá 12. ágúst 2015 vegna Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2017, er barst nefndinni 19. s.m., kærir húsfélagið Fjarðargötu 19, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2017 að synja beiðni um endurupptöku á ákvörðun um veitingu byggingarleyfis er samþykkt var 12. ágúst 2015 vegna breyttrar notkunar rýmis í húsinu að Fjarðargötu 19. Er þess krafist að synjunin verði ógilt og jafnframt að byggingarleyfið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 19. júlí 2017.

Málavextir: Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er fjöleignarhúsið að Fjarðargötu 19 í Hafnarfirði á íbúðar- og atvinnulóð. Umrætt hús var reist árið 1999 og er þriggja hæða. Á jarðhæð þess eru verslunar- og þjónusturými en á efri hæðum íbúðir. Í október 2013 samþykkti kærandi fyrir sitt leyti erindi eiganda rýmis 0102 um að skipta umræddu rými upp í tvo hluta, þannig að í stað banka yrði gert ráð fyrir skrifstofum í rými 0102 og í rými 0104 yrði sölustaður veitingakeðjunnar Subway. Veitti kærandi samþykki sitt með ákveðnum skilyrðum. Voru byggingaráformin samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa. Á árinu 2014 var rými 0102 skipt upp að nýju, þ.e. í rými 0102, 0106 og 0107. Féllst kærandi á þá breytingu með vissum áskilnaði.

Hinn 12. ágúst 2015 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107. Í breytingunni fólst að skrifstofurými yrði breytt í veitingastað. Við meðferð málsins var óskað umsagnar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og sendar teikningar og greinargerð vegna þess. Í greinargerðinni, dags. 17. júlí 2015, kom fram að um væri að ræða tælenskan veitingastað í flokki II, fyrir 34 gesti og opnunarleyfi til kl. 23.00. Jafnframt var tekið fram að loftræsing úr sal og salernum yrði um kerfi sem þegar væri í rýminu og væri leitt upp á þak innbyggt í útvegg. Loftræsing frá eldhúsi væri í sérlögn sem færi um eldvarinn stokk í gegnum veitingastaðinn Subway og samhliða útsogi þess staðar upp á þak. Í loftunum yrði hljóðdempandi kerfisloft. Veitti heilbrigðiseftirlitið jákvæða umsögn 21. júlí 2015 með fyrirvara um að ásættanleg lausn fyndist á úrgangsmálum.
Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 4. september 2015. Mótmælti kærandi ákvörðuninni með bréfi, dags. 28. s.m., og taldi að um ólögmæta ákvörðun væri að ræða þar sem ekki hefði m.a. legið fyrir samþykki húsfundar fyrir breytingunni. Skaut kærandi greindri ákvörðun jafnframt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Kærumálið var nr. 88/2015 og kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í því 9. febrúar 2017 og vísaði málinu frá nefndinni. Var sú niðurstaða á því reist að fyrrnefnd andmæli kæranda til sveitarfélagsins, dags. 28. september 2015, hefðu falið í sér beiðni um endurupptöku málsins, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hefði verið tekin afstaða til þeirrar beiðni en mál yrði ekki endurskoðað samtímis af kærustjórnvaldi og því stjórnvaldi sem ákvörðunina tók. Í kjölfar þessa fór kærandi fram á það við sveitarfélagið að tekin yrði til afgreiðslu beiðni húsfélagsins um endurupptöku málsins. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. maí 2017 og beiðni um endurupptöku synjað. Jafnframt var eftirfarandi fært til bókar: „Að mati nefndarmanna þurfti ekki samþykki húsfélags fyrir þessum gjörningi samanber fjöleignarhúsalög nr. 26/1994 auk þess sem aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 kveður á um að fyrst og fremst skal gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi s.s. veitinga- og gistihúsum á þessum reit.“ Var kæranda tilkynnt um greinda afgreiðslu með bréfi, dags. 23. maí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að samþykki húsfélagsins fyrir breyttri hagnýtingu rýma árið 2013 hafi verið bundið ákveðnum skilyrðum. Það er að eingöngu yrði sótt um leyfi til að hafa sölustað Subway á staðnum og að ef skipta ætti um rekstraraðila þá yrði það gert í samráði við eigendur í húsinu. Einnig hafi verið tilgreint í umsókn um byggingarleyfi að ekkert hrátt kjöt eða hrá fiskvara yrði matreidd á staðnum og því engin steikingarlykt. Hafi greind lýsing á starfseminni verið forsenda fyrir samþykki húsfélagsins. Árið 2014 hafi húsfélagið fallist á að rými 0102 yrði skipt upp með þeim áskilnaði að leitað yrði umsagnar og samþykkis kæranda áður en erindi um hagnýtingu rýmanna yrðu afgreidd. Milliveggir sem aðskilji rýmin hafi verið settir upp og hurðaropin gerð. Rými 0102 hafi verið í notkun en rými 0106 og 0107 staðið auð. Þau rými hafi síðan verið sameinuð án heimildar og komið hafi í ljós að búið væri að leigja rýmið út og að þar ætti að vera tælenskur veitingastaður.

Útloftunarkerfi frá eldhúsi hafi átt að vera samhliða útloftunarkerfi sölustaðar Subway, en gerð hafi verið breyting á því þannig að það sé út um eldhúsglugga á götuhlið hússins. Hafi breytingin ekki verið borin undir kæranda. Sé fnykur frá eldhúsi staðarins svo óbærilegur að ekki sé mögulegt að hafa opna glugga á íbúðum efri hæðar þegar starfsemin sé í gangi. Rýri þetta gæði íbúðanna og verðgildi þeirra. Ekki sé sama hvaða rekstur sé í húsinu þótt á miðbæjarsvæði sé.

Forsenda kæranda fyrir því að samþykkja starfsemi sölustaðar Subway í húsinu hafi verið virt að engu. Ákvæðum 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 hafi ekki verið fylgt við meðferð málsins og samþykki meðeigenda fyrir umræddum breytingum ekki legið fyrir. Sé mælt fyrir um í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að téð samþykki skuli fylgja umsókn um byggingarleyfi. Þá sé skylda til að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra eigenda við hagnýtingu séreignar skv. 13. gr. fjöleignarhúsalaga.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til bókunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. maí 2017 varðandi beiðni kæranda um endurupptöku. Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 sé umrætt hús á svokölluðu miðbæjarsvæði. Skuli á miðsvæðum „fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi […], s..s. hreinlegum skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum“. Varðandi útsog þá sé notað Óson útsog sem sé lykt- og fitueyðandi, en ekki hafi verið beitt þeirri aðferð að leiða útsog í gegnum útblástur sem tíðkist hjá Subway en húsfélagið hafi samþykkt á sínum tíma að yrði aðeins notað ef Subway yrði þar til húsa. Frá háfi sé útsogsstokkur sem liggi að efri glugga í eldhúsi á vesturhlið hússins. Þá sé bent á að kæra á synjun um endurupptöku geti ekki leitt til þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis frá 12. ágúst 2015 þar sem samþykkt var breyting á hagnýtingu séreignar á jarðhæð Fjarðargötu 19, sem og um lögmæti þeirrar ákvörðunar Hafnarfjarðarbæjar að synja beiðni kæranda um endurupptöku þess leyfis. Teflir kærandi m.a. fram þeim rökum að ekki hafi verið heimilt að veita byggingarleyfið án samþykkis annarra eigenda séreignahluta í viðkomandi húsi.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. ákvæðisins, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tl. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi hafði upplýst sveitarfélagið um afstöðu sína til hagnýtingar rýma á jarðhæð áður en tekin var ákvörðun um samþykkt fyrrgreinds byggingarleyfis. Þannig segir eftirfarandi í bréfi kæranda til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2015, vegna bókunar sveitarfélagsins við meðferð umsóknar um umrætt byggingarleyfi: „Skilyrði húsfélagsins fyrir samþykki á breyttri hagnýtingu rýmisins var, eins og fram kemur í umsókn eiganda, dags. 10. september 2013, að eingöngu er sótt um leyfi til að hafa Subway á staðnum og ef skipta á um rekstraraðila skal það gert í samráði við eigendur í húsinu. Jafnframt viljum við benda sérstaklega á lýsingu á rekstri, sem fram kemur í umsókninni og var forsenda fyrir okkar samþykki.“ Enn fremur hafði kærandi gefið samþykki sitt fyrir breyttri hagnýtingu rýma á jarðhæð árið 2013 og 2014 að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem áður er rakið.

Fyrir liggur því að þegar tekin var ákvörðun um að samþykkja hið umdeilda byggingarleyfi var leyfisveitanda kunnugt um að meðeigendur leyfishafa teldu að ákvörðun um slíkt leyfi væri háð samþykki þeirra. Það voru því hvorki fyrir hendi ófullnægjandi né rangar upplýsingar um málsatvik hvað þetta varðar er málið kom til endanlegrar afgreiðslu á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa heldur var uppi í málinu réttarágreiningur. Verður endurupptökuheimildum 24. gr. stjórnsýslulaga ekki beitt til þess að fá fram nýja ákvörðun stjórnvalds vegna þess eins að deilt hafi verið um lagatúlkun og beitingu réttarheimilda um ágreiningsefni sem fyrir lá þegar ákvörðun var tekin. Þá verður ekki séð að ákvæði 2. tl. 1. mgr. 24. gr. komi til álita í máli þessu. Skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga til endurupptöku í hinu umdeilda tilviki voru þannig ekki fyrir hendi og var því rétt að synja beiðni um endurupptöku.

Í kæru er jafnframt gerð sú krafa að byggingarleyfið sjálft verði fellt úr gildi. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæranda var tilkynnt um veitingu byggingarleyfisins með bréfi, dags. 4. september 2015, og var tilgreint hver kærufrestur væri. Svo sem frá er greint í málavaxtalýsingu var það álit úrskurðarnefndarinnar að andmæli kæranda til sveitarfélagsins, dags. 28. s.m., eða um þremur vikum síðar, hefðu falið í sér beiðni um endurupptöku málsins og við það hefði rofnað kærufrestur. Var tekið fram í úrskurði úrskurðarnefndarinnar 9. febrúar 2017 að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga rofnaði kærufrestur þegar aðili óskaði eftir endurupptöku máls innan kærufrests og byrjaði hann ekki að líða að nýju nema endurupptöku yrði synjað. Yrði mál hins vegar tekið upp að nýju byrjaði kærufrestur að líða frá töku nýrrar ákvörðunar. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 23. maí 2017, að beiðni hans um endurupptöku hefði verið synjað 10. s.m. Kæra í máli þessu barst ekki fyrr en 19 júní s.á., eða um þremur vikum frá téðri tilkynningu, en frá þeim tíma hélt kærufrestur áfram að líða. Barst kæra í málinu því um tveimur vikum eftir lok lögbundins eins mánaðar kærufrests að því er byggingarleyfið varðar. Er ekki unnt að telja afsakanlegt að kæra hafi borist of seint í málinu, enda hafði kærandi, sem naut aðstoðar lögmanns, upplýsingar um kærufrest, rof hans og hvenær fresturinn tæki að líða að nýju samkvæmt því sem rakið hefur verið. Verður þeim hluta kæru er lýtur að byggingarleyfinu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli þar um í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2017 um að synja beiðni um endurupptöku ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis frá 12. ágúst 2015 vegna Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um ógildingu á tilgreindu byggingarleyfi.

93/2017 Egilsgata

Með

Árið 2018, föstudaginn 21. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 2. október 2017.

Málsatvik og rök: Með úrskurði í máli nr. 57/2013, uppkveðnum 24. september 2015, felldi úrskurðarnefndin úr gildi byggingarleyfi fyrir Egilsgötu 6. Fól byggingarleyfið í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með bréfi, dags. 28. september 2015, sótti leyfishafi að nýju um framangreindar breytingar. Á fundi sveitarstjórnar 8. október s.á. var samþykkt að fram færi grenndarkynning vegna umsóknarinnar. Fór hún fram og á fundi sveitarstjórnar 9. júní 2016 voru lögð fram og samþykkt drög að svörum við athugasemdum sem bárust. Var skipulags- og byggingarfulltrúa jafnframt falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og var byggingarleyfi gefið út 21. s.m.

Kærandi bendir á að bókanir nefnda sveitarfélagsins og sveitarstjórnar séu ekki í samræmi við kröfur 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 eða leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarfélaga, sem settar séu með stoð í nefndu ákvæði. Í fundargerð umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar frá 6. júní 2016 sé ekki skráð dagsetning máls eða gagna sem til umfjöllunar hafi verið. Þá vanti einnig upplýsingar um aðila máls og meginefni máls og hvaða atriði máls séu til umfjöllunar. Einnig séu gerðar aðrar alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð sveitarfélagsins við samþykkt á umsókn um hið kærða byggingarleyfi.

Af hálfu Borgarbyggðar er tekið fram að sveitarfélagið mótmæli öllu því sem fram komi í kæru hvað varði það að málsmeðferð skipulags- og byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar eða sveitarstjórnar hafi verið ábótavant við meðferð umsóknar um og afgreiðslu á hinu kærða byggingarleyfi. Umsókn leyfishafa hafi fengið þá afgreiðslu í stjórnsýslu sveitarfélagsins sem áskilin sé í skipulagslögum, mannvirkjalögum og skipulags- og byggingarreglugerðum. Þannig hafi umsókn verið grenndarkynnt, sveitarfélagið hafi tekið afstöðu til þeirra atriða sem fram hafi komið í athugasemdum hagsmunaaðila og kæranda verið greint skriflega frá. Umsóknin hafi svo verið samþykkt af byggingarfulltrúa, umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd og sveitarstjórn.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt, hafi byggingar- eða framkvæmdarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. Eins og rakið var í málavöxtum þá voru á sveitarstjórnarfundi 9. júní 2016 samþykkt svör við þeim athugasemdum er bárust við grenndarkynningu og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. ágúst 2017 var umsóknin tekin fyrir og samþykkt. Var þá liðið rúmt ár frá afgreiðslu sveitarstjórnar. Hefði því þurft að láta fara fram grenndarkynningu að nýju áður en byggingarleyfi var samþykkt og gefið út.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 3. ágúst 2017 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð Egilsgötu 6 og breyta annarri hæð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

91/2017 Hólmaþing

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðanna Hólmaþings 5 og 5b, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Gulaþings 60, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna Hólmaþings 5 og 5b. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 18. september 2017.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 16. janúar 2017 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings. Í breytingunni fólst að lóðinni Hólmaþingi 5 yrði skipt í tvær lóðir, Hólmaþing 5 og 5b. Hólmaþing 5 yrði 2.020 m2 með óbreyttum byggingarrétti en aðkoma myndi færast frá Hólmaþingi að Gulaþingi. Lóðin Hólmaþing 5b yrði 1.145 m2 þar sem gert yrði ráð fyrir einbýlishúsi á einni hæð auk kjallara en aðkoma yrði óbreytt samkvæmt þágildandi deiliskipulagi, þ.e. á milli Hólmaþings 3 og 7. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og vísa henni til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundum bæjarráðs 19. janúar 2017 og bæjarstjórnar 24. s.m. var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda.

Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 29. maí 2017 ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar sveitarfélagsins um athugasemdir og ábendingar. Samþykkti skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með vísan til niðurstöðu fyrrgreindrar umsagnar og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 13. júní 2017. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir í fyrsta lagi á að með breyttu deiliskipulagi sé verið að auka verulega við íbúðarhúsnæði í „bakgarðinum“. Í öðru lagi hafi skýringarmynd sem fylgt hafi dreifibréfi vegna deiliskipulagsbreytingarinnar ekki sýnt hvaða áhrif breytingin hefði á útsýni frá Gulaþingi 60. Í þriðja lagi hafi breytingin í för með sér óþægindi fyrir kæranda vegna breyttrar aðkomu að Hólmaþingi 5, sem leiði til aukinnar umferðar um götuna, en ekki komi nákvæmlega fram á skýringarmynd hvernig aðkomunni verði háttað. Í fjórða lagi muni notkunarmöguleikar og gæði fasteignar hans breytast verulega þar sem innkeyrsla Hólmaþings 5 verði rétt við lóðarmörk og svefnherbergisálmu Gulaþings 60. Útsýni úr stofuglugga sé beint á bílastæði Hólmaþings. Muni breytingin rýra verulega verðmæti fasteignar hans.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld taka fram að fyrir lóðina Hólmaþing 5 sé í gildi deiliskipulagið Vatnsendi – Þing frá árinu 2005. Á svæðinu sé fyrirhuguð blönduð íbúðabyggð þar sem aðallega sé gert ráð fyrir einnar til tveggja hæða sérbýli. Þá sé gert ráð fyrir að meðalnýtingarhlutfall fyrir einbýlishúsalóðir verði 0,3. Fyrir umrædda skipulagsbreytingu hafi lóðin Hólmaþing 5 verið töluvert stærri en aðrar lóðir á svæðinu, eða um 3.165 m2, og hafi nýtingarhlutfall miðað við byggingarrétt samkvæmt gildandi deiliskipulagi verið 0,12. Eftir breytingu sé nýtingarhlutfallið 0,19 fyrir lóðina Hólmaþing 5 og 0,23 fyrir lóðina Hólmaþing 5b. Það sé vel undir meðalnýtingarhlutfalli svæðisins. Að gera ráð fyrir einbýlishúsum á lóðunum sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting feli aðeins í sér að bætt sé við einu einbýlishúsi á einni hæð sem staðsett verði neðar í landi en lóð kæranda. Verði ekki séð að fyrirhuguð mannvirki muni skerða útsýni kæranda verulega. Þá sé á það bent að réttur til útsýnis sé ekki lögbundinn. Íbúar í þéttbýli geti átt von á breytingu á sínu nánasta umhverfi, ekki síst þar sem gert sé ráð fyrir þéttingu byggðar í markmiðum Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024. Deiliskipulagsbreytingin muni ekki hafa í för með sér aukna umferð vegna eins einbýlishúss. Grenndaráhrif umræddrar deiliskipulagsbreytingar séu óveruleg og raski ekki gildi ákvörðunarinnar sem hafi sætt málsmeðferð í samræmi við ákvæði laga og reglna.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til umsagnar Kópavogsbæjar í máli þessu en á það bent að varla sé hægt að sjá á milli lóðanna Gulaþings 60 annars vegar og Hólmaþings 5 og 5b hins vegar þar sem á milli sé þéttur trjáveggur, aðallega hávaxið greni.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að lóðinni Hólmaþingi 5 er skipt upp í tvær lóðir, nr. 5 og 5b, og verður aðkoma að Hólmaþingi 5b frá Gulaþingi. Kærandi er lóðarhafi Gulaþings 60, sem liggur að lóðarmörkum Hólmaþings 5 að vestanverðu.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. laganna. Þar að auki var nágrönnum Hólmaþings 5, m.a. kæranda, sent dreifibréf þar sem athygli var vakin á því að skipulagsráð hefði samþykkt að auglýsa breytt deiliskipulag fyrir Hólmaþing 5. Deiliskipulagstillagan var svo afgreidd í skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum kæranda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Að lokum var breytingin samþykkt í bæjarráði Kópavogsbæjar lögum samkvæmt.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er lóðin Hólmaþing 5 á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB-5. Þar er svæðinu lýst sem blandaðri byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Í aðalskipulaginu kemur fram varðandi markmið byggðar að horft sé í ríkari mæli til þéttingar hennar. Er því skipting lóðarinnar samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu í samræmi við aðalskipulag, svo sem áskilið er í fyrrnefndri 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir hina kærðu breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Verður ekki ráðið að skipulagsbreytingin raski grenndarhagsmunum kæranda að marki, en allnokkur fjarlægð er á milli húss kæranda og hinu nýja húsi auk þess sem hið nýja hús er staðsett neðar í landi en hús kæranda. Þrátt fyrir að ný aðkoma að Hólmaþingi 5 feli í sér aukna umferð í nágrenni við hús kæranda er um óverulega breytingu að ræða í ljósi þess að sú aukning er einungis vegna einbýlishússins að Hólmaþingi 5.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðanna Hólmaþings 5 og 5b í Kópavogi.

110/2017 Hverfisgata

Með

Árið 2018, föstudaginn 14. september tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á hagnýtingu sameignar fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 23. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hverfisgötu 98 Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á sameign fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. október 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 29. ágúst 2017 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn um byggingarleyfi fyrir innréttingu kaffihúss í flokki I á jarðhæð fjöleignarhússins Hverfisgötu 98. Í verklýsingu á samþykktum teikningum kom m.a. fram að „Loftræsting frá matseld er leyst í gegnum aðliggjandi skorstein, lögn frá rými tengd við skorstein, í lögn verður komið fyrir brunaloku þar sem lögn tengist skorstein til að viðhalda brunaskilum. Komið verður fyrir útsogsblásara ofan á skorstein sem dregur loft frá rými“.

Kærandi bendir á að í verklýsingu samþykktri af byggingarfulltrúa komi fram að framkvæmdaraðili hafi í hyggju að sölsa undir sig skorstein hússins til lagningar loftræsistokks og að staðsetja eigi útsogsblásara ofan á skorsteininum. Með þessum framkvæmdum sé gengið freklega á hagsmuni annarra eigenda hússins auk þess sem óvíst sé með hljóðvist og lyktarmengun sem kunni að stafa frá blásara í þaki. Ekki hafi verið leitað samþykkis sameigenda fyrir þessum framkvæmdum líkt og gerð sé krafa um í 35. og 36. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús auk c- og d-liðar gr. 2.4.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi enga hagsmuni af því að fá skorið úr kærumálinu. Breyting hafi verið gerð á áður samþykktu byggingarleyfi á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Með þeirri breytingu hafi loftræsing fyrir kaffihúsið verið tekin úr sameign og engar framkvæmdir því fyrirhugaðar lengur á sameign fjöleignarhússins.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð breyting á nýtingu skorsteins fjöleignarhússins að Hverfisgötu 98 sem er í sameign eigenda hússins. Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var umsókn um breytingu á byggingarleyfinu samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017. Fólst breytingin í því að fallið var frá loftræsingu um skorstein hússins og hvorki yrðu gerðar breytingar á ytra útliti hússins né sameign.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Með samþykkt hins nýja byggingarleyfis hinn 10. október 2017 féll hin kærða ákvörðun úr gildi og hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur því enga þýðingu að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kæranda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

105/2017 Vatnsstígur

Með

Árið 2018, föstudaginn 14. september tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 105/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2017 á beiðni kæranda um að skráðar yrðu með formlegum hætti þrjár íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 23. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Jökulgrunni 23, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2017 að synja beiðni kæranda um að skráðar yrðu með formlegum hætti þrjár íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. desember 2017.

Málsatvik og rök: Kærandi sendi byggingarfulltrúanum í Reykjavík ódagsett erindi þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um „hvort leyft yrði eða samþykktar yrðu þrjár íbúðir, ein á hæð“ í húsinu að Vatnsstíg 9a. Hinn 7. júní 2016 var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og ákveðið að vísa því til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. júlí s.á. kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið en tekið fram að íbúðir þyrftu að uppfylla skilmála byggingarreglugerðar fyrir íbúðarhúsnæði. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. júlí 2016 var erindið afgreitt með vísan til athugasemda á fyrirspurnablaði og umsagnar skipulagsfulltrúa. Hinn 25. ágúst 2017 fékk kærandi tölvupóst frá byggingarfulltrúa þar sem tekið var fram að samkvæmt Þjóðskrá Íslands væri húsið Vatnsstígur 9a skráð sem ein eign með einu fastanúmeri. Til þess að mögulegt væri að samþykkja íbúðir í þegar byggðum húsum þyrftu þær að standast ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðir. Hvorki ris hússins að Vatnsstíg 9a né kjallari stæðust ákvæði byggingarreglugerðar, t.a.m. hvað varðaði lofthæðir og niðurgröft kjallara, sbr. gr. 6.7.2. og 6.7.4 byggingarreglugerðar. Því væri ekki mögulegt samkvæmt gildandi byggingarreglugerð, að samþykkja nýjar sjálfstæðar íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a.

Af hálfu kæranda er á því byggt að krafa um samræmi við gildandi byggingarreglugerð eigi ekki við í því tilviki sem hér um ræði þar sem húsið hafi lengi verið notað sem þriggja íbúða hús og byggingarreglugerðin gildi ekki afturvirkt að þessu leyti. Í húsinu við hliðin á Vatnsstíg 11, hafi verið gefið leyfi til að innrétta 25 litlar íbúðir og því sé eðlilegt að veita leyfi fyrir skráningu þriggja íbúða í húsinu að Vatnsstíg 9a með tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Reykjavíkurborg krefst frávísunar málsins frá úrskurðarnefndinni. Kærandi hafi leitað eftir skoðun stjórnvaldsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar hann hafi sent byggingarfulltrúa fyrirspurn og óskað eftir upplýsingum um hvort fjölga mætti íbúðum í greindu hús. Hins vegar hafi ekki verið send inn byggingarleyfisumsókn í samræmi við gr. 2.4.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. 9. og 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í afgreiðslu byggingarfulltrúa hafi því ekki falist stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga sem kæranleg hafi verið til úrskurðarnefndarinnar. Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segi síðan að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð. Kæra í máli þessu verði því ekki borin undir úrskurðarnefndina. Breyti þar engu þótt byggingarfulltrúa hafi verið sendur tölvupóstur þar sem óskað var eftir skýringum þar sem málinu hafi aldrei verið til lykta leitt með þeim hætti.

Niðurstaða: Breytingar á húsi, svo sem fjölgun íbúða, eru háðar byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Erindi kæranda til byggingarfulltrúa sem hér er til umfjöllunar var sett fram á eyðublaði fyrir byggingarleyfisumsókn. Strikað var yfir titilinn „Byggingarleyfisumsókn“ en ritað á blaðið „Fyrirspurn“. Þá bendir orðalag erindisins ótvírætt til þess að um fyrirspurn var að ræða þar sem óskað var upplýsinga um hvort heimilaðar yrðu þrjár íbúðir í húsinu að Vatnsstíg 9a. Ekki fylgdu erindinu tilskilin gögn sem fylgja þurfa byggingarleyfisumsókn skv. 1. mgr. 10. gr. fyrrgreindra laga, svo sem aðaluppdrættir og skráningartafla. Var erindi kæranda meðhöndlað af borgaryfirvöldum sem fyrirspurn og henni svarað en ekki afgreitt með ákvörðun.

Liggur því ekki fyrir í máli þessu stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

108/2018 Krókatún

Með

Árið 2018, mánudaginn 10. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 108/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 12. júlí 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 10. ágúst 2018, er barst nefndinni 12. ágúst s.á., kæra eigendur Krókatúni 18 og Krókatúni 20, Akranesi, þá ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 13. júlí 2018. Kæran verður skilin á þann hátt að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með tölvupósti 22. ágúst gerðu kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 13. júlí 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæðis vegna Krókatúns 22-24. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda felur breytingin í sér að „byggingarreitur á lóðinni verður stækkaður til norðausturs, þannig að byggingarreitslína færist til norðausturs um 5 metra. Húsagerð og skilmálar haldast óbreyttir að öðru leyti en því að byggt verður efnisskýli til norðausturs sem samsvarar færslu byggingarreits“. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 28. ágúst 2018 fyrir jarðvegsframkvæmdum og sökklum fyrir opnu efnisskýli.

Af hálfu kæranda er á því byggt að ekki hafi nægt að láta fara fram grenndarkynningu um breytinguna, líkt og gert var, heldur hefði breytingin átt að fara í opinbera auglýsingu, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagsbreytingin sé veruleg og framkvæmdir sem henni tengist muni hafa mikil og neikvæð áhrif á nærliggjandi svæði. Áætluð stækkun, sem sé upp á 300 m² að grunnfleti og 6,5 m á hæð, sé stærri að grunnfleti en samanlagður grunnflötur fasteigna kærenda og í örfárra metra fjarlægð frá næstu húsum. Þá hafi deiliskipulagið verið illa unnið og sumum athugasemdum kærenda verið svarað í bréfi frá sviðsstjóra umhverfissviðs Akraness með rangfærslum eða án rökstuðnings.

Akraneskaupstaður mótmælir kröfur um stöðvun framkvæmda og telur að vísa beri henni frá úrskurðarnefndinni. Kærendur hafi í raun ekki fært fram neinar málsástæður fyrir kröfu um stöðvun. Engin þörf sé á að stöðva framkvæmdir en einungis hafi verið gefið út byggingarleyfi fyrir takmörkuðum framkvæmdum við jarðvegsframkvæmdir og sökkla sem muni vera lokið samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa.

Meginregla stjórnsýsluréttar sé að kæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Stöðvun framkvæmda sé því undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beita eigi í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Réttaráhrif stöðvunar séu jafn afdrifarík og sambærileg áhrif lögbanns sem fjallað sé um í 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Hins vegar sé ekki krafist tryggingar vegna tjóns sem orðið getur við beitingu stöðvunar líkt og við beitingu lögbanns, sem er þó settar frekar þröngar skorður. Því þurfi að túlka heimildina til beitingu stöðvunar mjög þröngt og enn þrengra en heimild til lögbanns.

Kærendur hafi ekki fært fram neinar málsástæður eða rök fyrir að slíkar aðstæður séu upp í máli þessu sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis. Augljóst sé að ef framkvæmdir verði stöðvaðar, þó ekki væri nema í stuttan tíma, muni það hafa í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa. Engar forsendur séu því til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna stöðvunarkröfunnar, en engar athugasemdir hafa borist nefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfu byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14 og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna slíkra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestun réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til eðlis þeirra ákvarðana og fyrrgreindra lagaákvæða verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er hafnað.