Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2004 Úrskurður vegna kæru Ólínu Birgisdóttur gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, þriðjudaginn 25. janúar,  kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2004.  Ólína Birgisdóttir gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Erindi  Ólínu Birgisdóttur, hér eftir nefnd kærandi, Klettahrauni 10, 221 Hafnarfirði er dags. 21. júní 2004.   Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru.  Afrit af kæru var sent Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefndur kærði, með bréfi dags. 19. júlí 2004.  Greinargerð kærða er dags. 28. júlí, 2004.  Fyrirliggjandi gögn með greinargerð kærða eru :

1)      Afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til Ólínu Birgisdóttur, dags. 7. apríl 2004.

2)      Afrit af tölvuskeyti kæranda til kærða frá 7. apríl, 2004.

3)      Afrit af skráningarskírteini fyrir hund kæranda frá 7. október 1999.

4)      Afrit af umsókn kæranda dags. 30. ágúst 1999 um leyfi fyrir hund í Hafnarfirði.

5)      Afrit af viðurkenningu um að Páll og hundurinn Lotta hafi lokið námskeið 1995.

6)      Afrit af viðurkenningu um að Páll og hundurinn Lotta hafi lokið unghundanámskeið 1995.

7)      Dreifibréf til allra eigenda skráðra hunda í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi dags. 29.mars, 2000.

8)      Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 04.05.2000.

9)      Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 26.02.2001

10)  Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 01.03.2002.

11)  Útskrift úr banka um að kærandi hafi greitt eftirlitsgjald 04.03.2003.

12)  Gjaldskrá nr. 162/2000 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

13)  Gjaldskrá nr. 933/2000 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

14)  Gjaldskrá nr. 919/2001 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

15)  Gjaldskrá nr. 847/2002 fyrir hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

16)  Skilyrði heilbrigðiseftirlitsins til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi sbr. 6. gr. gjaldskrár nr. 182/2000.

17)  Skilyrði heilbrigðiseftirlitsins til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi sbr. gildandi gjaldskrá fyrir hundahald á höfuðborgarsvæðinu nr. 8. mars, 2004.

Afrit gagna kærða voru send kæranda og ítrekað að athugasemdir yrðu sendar, en ekki hafa borist  nein svör eða athugasemdir.

II.

Með tilvísun til erindis kæranda er krafa kæranda sú að hún fái endurgreiddan  hluta hundaeftirlitsgjalda sem henni hefur verið gert að greiða.  Lýsir kærandi því svo að henni hafi verið gert að greiða hundagjald sem við á þegar hundur hefur ekki farið á námskeið, en slíkt eigi ekki við um hund hennar Lottu nr. 471.  Kveður kærandi að fallist hafi verið á að hún greiddi lægra gjald fyrir árið 2004 þar eð öll gögn um hundanámskeið liggi fyrir hjá umræddri stofnun.  Kveður kærandi að hundurinn hafi flutt til Íslands aftur frá Evrópu á árinu 1999 og hafi þá verið skráður að nýju.  Á árinu 2000 hafi kærandi fengið upplýsingar um að unnt væri að greiða lægra gjald ef hundurinn hefði farið á viðurkennd námskeið og voru þá öll gögn send til kærða og þar með talið ljósrit af staðfestingu um að hundurinn hafi farið á námskeið á vegum Hundaræktarfélags Íslands.  Hafi því kærandi verið í góðri trú um að hún væri að greiða lægra gjaldið þar til annað kom í ljós og hún hafi uppgötvað að svo hafi ekki verið.  Hafi þá kærandi haft samband við skrifstofu kærða og hafi svörin sem hún fékk verið þau að ekki væri unnt að endurgreiða mismun hundagjaldsins aftur í tímann þar sem ekki væri skráð hjá stofnuninni hvenær gögn hafi borist.  Vísar kærandi til þess að skv. stjórnsýslulögum skuli ætíð skrá hvernær innsend gögn berist.  Telur kærandi að vafi í máli þessu sé túlkaður stofnuninni í hag sem hún geti ekki fallist á og vísi því málinu til nefndarinnar.

III.

Greinargerð kærða er dags. 28. júlí 2004.  Málavextir kærða eru þeir að með símtali og síðan tölvuskeyti 7. apríl 2004 hafi kærandi farið fram á leiðréttingu á eftirlitsgjaldi 2004 vegna hunds hennar Lottu.  Fallist hafi verið á þann þátt erindisins þar sem öll gögn vegna hundahalds hafi verið í lagi frá skráningu hundsins í september 1999 s.s. ormahreinsunarvottorð, greiðsla eftirlitsgjalda og jafnframt hafi heilbrigðiseftirlitið  ekki þurft að hafa afskipti vegna hundahaldsins á þeim tíma.  Jafnframt hafi kærandi fengið sent eintak af gildandi heilbrigðissamþykkt um hundahald nr. 154/2000 sbr. bréf kærða frá 7. apríl 2004.  Hafnað hafi verið því að lækka eftirlitsgjöld aftur í tímann.  Ósk um að metið yrði hvort fullnægt hafi verið skilyrðum um lækkun eftirlitsgjalda hafði ekki borist áður.

Fram kemur í greinargerð kærða að í umsókn um leyfi til hundahalds sem dags. er 30. ágúst 1999, sé  hundurinn Lotta sögð fædd 02.09. 1994.  Hafi umsókn og gögn verið móttekin á skrifstofu kærða og er móttaka skráð 6. september, 1999. Skráningarskírteini fyrir hund í Hafnarfirði skv. samþykkt um hundahald nr. 515/1991 hafi síðan verið útgefið 7. október 1999.  Eftirlitsgjald 2000 vegna hundahalds hafi verið greitt í banka 4. maí 2000.  Eftirlitsgjald vegna 2001 hafi verið greitt í banka 26.02. 2001, eftirlitsgjald vegna 2002 hafi verið greitt í banka 01.03. 2002 og eftirlitsgjald vegna 2003 hafi verið greitt í banka 04.03.2003.

Kveður kærði að breyting hafi verið gerð á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000 með setningu heilbrigðissamþykktar nr. 154/2000. Gjaldskrá stjtíð. B, nr. 162/2000 hafi verið sett í kjölfarið. Í 6. gr. gjaldskrárinnar hafi heilbrigðisnefnd verið í fyrsta sinn veitt heimild til lækkunar eftirlitsgjalds í Hafnarfirði, enda mæli ekki önnur atriði á móti því sbr. samþykkt um hundahald nr. 154/2000.  Sams konar heimild hafi síðan verið í gjaldskrám vegna hundahalds.  Í maí 2000 hafi skilyrði kærða til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi verið kynnt forsvarsmönnum hundaskóla. Hafi svipaðar reglur verið í gildi í Kópavogi frá 1997 og þá hafi starfsemi hundaskóla verið tekin út. Við sameiningu heilbrigðisnefnda á svæðinu eftir lagabreytingu 1998 hafi reglur verið samræmdar og reglur um hundahald færðar í átt til þess sem gilt hafði í Kópavogi.  Þeim sem vildu njóta lækkunar eftirlitsgjalda hafi verið gert að sækja um þá lækkun en málefnaleg rök hafi þótt fyrir því að þeir sem þegar höfðu fengið samþykkta lækkun í Kópavogi hafi ekki þurft að sækja um afslátt að nýju.  Nýverið hafi skilyrði til að öðlast viðurkenningu á grunnnámskeiði í hundauppeldi verið endurskoðuð og samræmd fyrir höfuðborgarsvæðið.  Sé þar áhersla lögð á að kennt verði um samþykktir um hundahald, ábyrgð hundeigenda, dýravernd og að eigandi hundsins sæki námskeið með hann.

Kærði kveður að ítarleg kynning hafi farið fram vegna breytinga á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000, m.a. með dreifibréfi til allra skráðra eigenda hunda.  Hafi starfsmaður kærða síðan kynnt tilgang þennan fyrir hundeigendum þegar hundur er skráður eða aflað er upplýsinga um framkvæmd hundahaldsins.  Afsláttur sé þá veittur frá þeim tíma sem gögnum sé skilað.  Fyrir árið 2000 hafi hundeigendur í Hafnarfirði, Garðabæ og Bessastaðahreppi ekki verið hvattir til að skila inn gögnum um að þeir hefðu sótt námskeið með hund sinn.  Kærði kveður að skráður eigandi hunds hafi undantekningarlaust þurft að óska eftir lækkun gjaldsins og hafi honum um leið verið kynntar reglur um hundahald og áréttað að afslátturinn tengist kröfum um að reglum um hundahald sé fylgt í hvívetna.  Kveður kærði að framkvæmd þessa ákvæði sé með þeim hætti að eigandi óski eftir lækkun og sé þá kannað hvernig skráning hundsins hafi gengið fyrir sig og hvort þurft hafi að hafa sérstök afskipti af hundahaldinu, s.s. með því að ganga eftir skráningu, greiðslu gjalda eða vegna kvartana undanliðin ár.  Áréttað sé að afslátturinn sé heimilaður sem viðleitni stjórnvalda til að draga úr umfangi og kostnaði við eftirlit með hundahaldi.  Ekki hafi verið fallist á að endurgreiða eftirlitsgjöld aftur í tímann með vísun í umrætt ákvæði.  Kveður kærði að í máli þessu sé ágreiningur um hvort hundeigandi eigi rétt á afslætti eftirlitsgjalda frá setningu gjaldskrár 162/2000 þar sem gögn höfðu fylgt umsókn 1999, um að “Páll” hafi með “Lottu” lokið tveim námskeiðum í Hundaskóla hundaræktarfélags Íslands á árinu 1995.  Gögn um eldri skráningu hundsins í Hafnarfirði frá 1994 sem getið er um í stjórnsýslukærunni fundust ekki.

IV.

Svo sem fram er komið snýst mál þetta um endurgreiðslu eftirlitsgjalda v. hundahalds fyrir árin 2000-2003.  Í greinargerð kærða kemur fram að breyting hafi orðið á framkvæmd eftirlits með hundahaldi í byrjun árs 2000 með setningu heilbrigðissamþykktar nr. 154/2000.  Gjaldskrá nr. 162/2000 var sett í kjölfarið.  Í 6. gr. gjaldskrárinnar var heilbrigðisnefnd í fyrsta sinn veitt heimild til lækkunar eftirlitsgjalds í Hafnarfirði, enda mæli ekki önnur atriði á móti því.  Hundurinn Lotta var skráð í Hafnarfirði árið 1999.  Skráningarskírteini fyrir hundinn er dags. 7. október, 1999.  Fram kemur í gögnum kærða að gögn um hundaskóla liggi fyrir hjá sér frá og með þeim tíma.  Eins og fyrr getur var það á árinu 2000 sem heimildarákvæði um lækkun eftirlitsgjald kom fram.  Þar sem um er að ræða heimildarákvæði ber að sækja sérstaklega um lækkun.  Kærði sendi sérstakt dreifibréf út á árinu 2000, þar sem kynntar voru nýjar reglur og með dreifibréfinu  var send út viðeigandi gjaldskrá. Benda má á að breytingu þá sem varð á eftirlitsgjaldi hefði mátt kynna betur  en ekki verður talið að skortur á því sé nægjanlegur til þess að samþykkja endurgreiðslu. Með tilvísan til framangreinds og þess að kærandi gerði ekki gangskör að umsókn um lækkun fyrr en á árinu 2004 verður að fallast á með kæranda að ekki séu rök til lækkunar hundaeftirlitsgjalds áranna 2000-2003.  Verður því ekki fallist á kröfur kæranda um lækkun eftirlitsgjalda áranna 2000-2003.  Ákvörðun kærða um neitun á niðurfellingu er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfur kæranda um lækkun eftirlitsgjalda.  Ákvörðun kærða þar að lútandi er staðfest.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 2/2/05

2/2005 Úrskurður vegna kæru Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf. gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005,  fimmtudaginn 17. mars,  kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2005  Ölgerðin Egill Skallagrímsson gegn Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.   

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra  Erlendar Gíslasonar hrl. f.h. Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf, hér eftir nefndur kærandi er dags. 11. janúar, 2005  og var móttekin samdægurs.  Kærð er ákvörðun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, hér eftir nefnd kærði, um að stöðva drefingu tveggja bragðtegunda drykkja kæranda svo og synjun um að afturkalla dreifingarbannið. Gögn sem kærunni fylgdu eru:

1)      Afrit af bréfi kærða til kæranda um stöðvun dreifingar á Kristal plús dags. 4. janúar, 2005.

2)      Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 6. janúar, 2005.

3)      Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 7. janúar, 2005.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða sem skilaði greinargerð dags. 17.

janúar, 2005.  Afrit greinargerðar kærða var send lögmanni kæranda sem skilaði

greinargerð dags. 26. janúar, 2005.

II.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun kærða dags. 4. janúar 2005 um að stöðva dreifingu tveggja bragðtegunda af drykknum Kristal plús og synjun á kröfu kæranda frá 6. janúar s.l. um að afturkalla dreifingarbannið.

Kærandi kveður málavexti þá að með bréfi kærða dags. 4. janúar s.l hafi kæranda verið tilkynnt að kærði krefðist stöðvunar á dreifingu tveggja bragðtegunda af drykknum Kristal plús.  Átti slík stöðvun á dreifingu að gilda þar til niðurstaða umsóknar skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum lægi fyrir.  Kærandi óskaði eftir því með bréfi dags. 6. janúar s.l að kærði afturkallaði kröfur sínar um að dreifing yrði stöðvuð.  Kærði hafnaði því með bréfi dags. 7. janúar s.l.  Kærandi byggir kröfur sínar á því að í ákvörðun kærða komi hvergi fram á hvaða lagagrundvelli ákvörðun kærða sé byggð.  Eina lagagreinin sem kærði vísi til sé 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum. Í þeirri grein komi fram að þar til rgl. “um íblöndun bætiefna í matvæli” hafi verið sett geti Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, veitt leyfi til notkunar bætiefna.  Í 4. gr. sömu rgl. komi þó fram að vítamín og steinefni(bætiefni) notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á næringargildi matvæla, séu ekki aukaefni í skilningi reglugerðarinnar.  Réttarástandið sé því þannig að sækja þurfi um leyfi til Umhverfisstofnunar til notkunar bætiefna við framleiðslu matvæla, á grundvelli reglugerðar um aukaefni, sem taki ekki yfir bætiefni.  Kærða hafi ekki verið falið að veita leyfi til notkunar bætiefna, né að grípa til aðgerða, sé ekki sótt um slíkt leyfi.  Þegar löggjafinn hafi mælt fyrir um að fleiri en eitt stjórnvald skuli gegna hlutverki við töku ákvarðana í stjórnsýslu leiði það af aðgreiningarreglum stjórnsýsluréttar að hvert þeirra geti aðeins fjallað um það réttaratriði sem því sé sérstaklega falið með lögum.

Það sé því mat kæranda að tilvísun til 19. gr. rgl. nr. 285/2002 um aukaefni í matvælum, sýni að kærði sé að grípa til íþyngjandi ráðstafana á sviði sem falli utan valds stofnunarinnar og það sé ekki hennar hlutverk að grípa til ráðstafana þegar í gangi sé, eins og stofnuninni sé kunnugt, umsóknarferli fyrir íblöndun bætiefna í matvæli.  Því uppfylli ákvörðun kærða ekki lögmætisreglu stjórnsýslunnar.

Lögmaður kæranda bendir á að í 29. gr. laga nr. 93/1995 komi fram að eftirlitsaðila sé heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur sé um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Að mati kæranda er þetta ákvæðið sem kærði hefði átt að byggja á og vísa til í máli þessu.

Lögmaður kæranda bendir á að eins og sé með aðrar lögbundnar íþyngjandi stjórnvaldsheimildir, beri að túlka þetta ákvæði þröngt.  Að mati kæranda sé alls ekki um að ræða rökstuddan grun um að drykkurinn uppfylli ekki ákvæði matvælalaga, eða reglugerða sem á þeim eru byggðar.  Þvert á móti, enda hafi kærði aldrei haldið því fram að sú sé raunin.

Þá ræðir lögmaður kæranda í greinargerð inni um úttekt kæranda á drykkjarvörum sem innihaldi sömu og í mörgum tilvikum miklu fleiri bætiefni en umræddir drykkir kæranda.  Ekki verði séð að neinn þeirra drykkja hafi fengið útgefið leyfi á grundvelli 19. gr. rgl. nr. 285/2002 né að þeir hafi þurft að sæta dreifingarstöðvun.

Þá vísar lögmaður kæranda til viðtals við deildarstjóra hjá kæranda en í því hafi komið fram að þar sem frjálst flæði vitamínbættra vara sé innan Evrópska efnahagssvæðisins sé ekki skoðað hvort þær erlendu uppfylli allar íslenskar reglur áður en þær fari á markað.  Ennfremur að munur á innfluttum drykkjum og drykkjum kæranda sé sá að flestir þeir erlendu hafi fengið leyfi erlendra stjórnvalda.  Lögmaður kæranda bendir á að ekki sé kunnugt hvernig kærði hafi gengið úr skugga um hvort svo sé, en vill benda á að könnun kæranda hafi leitt í ljós að ekki hafi þurft leyfi stjórnvalda til markaðssetningar sambærilegs drykkjar og Kristals plús í sjö löndum þar sem kærandi hafi kannað stöðuna.  Dregur lögmaður þá ályktun af framangreindu að dreifingarstöðvun sé bara beitt gegn innlendri framleiðslu en ekki innfluttum vörum.  Í slíkri mismunun sé um að ræða brot á ákvæðum stjórnarskrár um að allir séu jafnir fyrir lögum.  Ennfremur sé um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem geri þá kröfu að sambærileg tilvik skuli afgreidd með sambærilegum hætti. Þá bendir lögmaður kæranda á að erfitt sé að sjá hvernig ákvæðum 12 gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf sé gætt í kærðri ákvörðun.  Markmið dreifingarbannsins hljóti að vera að koma í veg fyrir að almannaheilbrigði sé stefnt í hættu enda komi slík sjónarmið fram í lögum nr. 93/1995 um matvæli.  Kærandi sé á þeirri skoðun að Kristal plús sé fjarri því að skapa neina hættu, enda sambærilegir drykkir á markaði víðsvegar í Evrópu án inngrips þarlendra stjórnvalda.  Mat íslenskra stjórnvalda hljóti líka að vera að sambærilegir innfluttir drykkir séu hættulausir enda markaðssetning þeirra látin átölulaus.  Dreifingarbannið sé því kæranda algerlega óskiljanlegt og nauðsyn þess í ljósi aðstæðna á huldu.  Ákvörðun sem ekki sé í samræmi við þau markmið sem að sé stefnt og ekki nauðsynleg til að ná gefnu markmiði, uppfylli ekki grunnkröfur meðalhófsreglu.

Þá gerir lögmaður kæranda grein fyrir því að kæran sé öðrum þræði reist á því að brot á jafnræðis- og meðalhófsreglu eigi jafnframt að leiða til þess að hin kærða ákvörðun sé úr gildi felld.

Að lokum vekur lögmaður kæranda athygli á því að aðgerðir kærða kunni, nái þær fram að ganga, að valda kæranda fjárhagslegu tjóni.  Því áskilji kærandi sér allan rétt til að krefja Reykjavíkurborg um skaðabætur.  Þá er þess óskað að málinu verði hraðað í ljósi hagsmuna kæranda.

Lögmaður kæranda sendi athugasemdir sínar eftir að hafa fengið greinargerð kærða í hendur.  Gerir hann athugasemdir við lýsingu kærða á því að kærandi hafi vísvitandi ekki sótt um leyfi, hafi sætt sig við reglur og að um ásetningsbrot á reglum sé að ræða.  Hafnar lögmaður kæranda þessum ályktunum kærða og lýsir furðu á því að kærði leyfi sér að draga slíkar ályktanir.

Þá kveður lögmaður kæranda, kæranda ennfremur hafna því sem fram komi í greinargerð kærða að “skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 sé markaðssetning óheimil nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.”  Lögmaður kæranda kveður kæranda enga stoð finna þessari ályktun kærða í greininni, en ályktun þessi sé síendurtekin í greinargerð kærða og byggt á henni.  Rétt sé að í greininni sem sé bráðabirgðaákvæði komi fram að Umhverfisstofnun geti veitt leyfi til íblöndunar bætiefna í matvæli.  Umsókn skuli skilað til þeirrar stofnunar ásamt leyfisgjaldi.  Rétt sé einnig að geta þess að ekkert leyfi þurfi til markaðssetningar vöru sem innihaldi aukefni þau sem heimiluð og tiltekin séu í margtilvitnaðri rgl. sem að frátöldu nefndu bráðabirgðaákvæði fjalli einungis um aukefni.

Lögmaður kæranda bendir á að kærði vísi til 16. gr. rgl. nr. 285/2002 til útskýringar á valdheimildum sínum.  Þau ákvæði vísi til XI. kafla laga nr. 93/1995 um matvæli.  Í þeim kafla sé að finna 29. gr. laganna sem kærði byggi á,  ásamt 19. gr. rgl. nr. 285/2002.  Kveður lögmaðurinn það í fyrsta lagi hljóti að teljast verulegur ágalli á íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að geta ekki um á hvaða lagagrundvelli hún sé byggð fyrr en á þessu stigi.  Í öðru lagi kveður lögmaðurinn kæranda vilja benda á að ekki sé hægt að álykta svo að viðbrögð við því að ekki sé sótt um leyfi til íblöndunar bætiefnis til Umhverfisstofnunar geri það að verkum að 16. gr. reglugerðar nr. 285/2002 verði virk, en í henni kemur fram valdsvið og þvingunarúrræði varðandi aukefni í matvælum, sem sé efni reglugerðarinnar.  Ekkert sé minnst á 19. gr. eða íblöndun bætiefna í 16. gr. rgl. nr. 285/2002  og telur lögmaður kæranda kærða enn á ný á villigötum hvað varðar lagagrundvöll fyrir aðgerðum sínum.

Lögmaður kæranda lýsir því að greinargerð kærða hafi síður en svo varpað ljósi á lagaheimildir og forsendur fyrir dreifingarbanninu.  Ákveðin atriði séu að koma hér fram í fyrsta sinn, svo sem tilvísun til 29. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 og 16. gr. rgl nr. 285/2002.  Kærandi haldi því enn fram að kærði hafi ekki lögbundið hlutverk þegar komi að leyfisveitingu fyrir íblöndun bætiefna né hafi honum verið falið að grípa til aðgerða, sé ekki sótt um slíkt leyfi.  Lögmaður kæranda ítrekar tilvísun til jafnræðisreglna og meðalhófs.  Fulljóst hljóti að vera miðað við lýsingar kærða að innlendir framleiðendur búi við mun ríkara eftirlit og harðari viðbrögð en innflytjendur, sérstaklega í ljósi þess sem fram sé komið að kærði telji að í 19. gr. rgl. nr. 285/2002 sé falið bann við markaðssetningu.  Þá vísar lögmaður til þess að vægari úrræðum hefði verið unnt að beita, eða áminningu.

III.

Greinargerð lögmanns kærða er dags. 17. janúar, 2005 og barst 19. janúar.  Kemur fram í greinargerð að kærði telji þurfa að bæta við málavaxtalýsingu kæranda sem taki einvörðungu til afskipta kærða frá og með 4. janúar, 2005.  Kærði lýsir því að kærandi hafi sett vöru sína, tvær bragðtegundir af Egils kristal, bættar með B-vítamíni á markað skömmu fyrir áramót 2004-2005.  Hafi kærandi vísvitandi ekki sótt um leyfi Umhverfisstofnunar fyrir markaðssetningu drykkjanna, þrátt fyrir að honum væri fullkunnugt um að óheimilt væri að setja vöruna á markað án leyfis.  Hafi kærandi haft reynslu af því banni þar sem hann hafi fyrr á árinu 2004 sótt um leyfi fyrir kalkbætingu sömu drykkjarvara og þá sótt um leyfi Umhverfisstofnunar til markaðssetningar en fengið synjun.  Kæranda hafi því verið fullkunnugt um að leyfi þyrfti til markaðssetningar vítamínbættra drykkja á Íslandi og hafi greinilega ætlað sér að fara að reglum í fyrra skiptið og sætt sig við reglurnar þá þar sem hann hafi hætt við markaðssetningu drykkjarins að fenginni synjun. Því hafi seinni markaðssetning drykkjarins af hálfu kæranda verið ásetningsbrot á reglum sem hann vissi um og þekkti og hafði áður virt.

Kærði lýsir því að vitneskja hafi borist um markaðssetningu drykkjarins með vítamínbætingu með ábendingum neytenda og fréttatilkynningu.  Ekki hafi orðið hjá því komist þegar markaðssetning kæranda á drykknum hófst að kanna hvort varan uppfyllti skilyrði laga og reglugerða.  Þegar í ljós hafi komið að ekki hafði verið aflað leyfis Umhverfisstofnunar til að markaðssetja vítamínbættan Egils kristal hafi verið sett dreifingarbann á vöruna.  Kærði vísar til þess að kærandi haldi því fram að ekki sé að finna lagaheimild fyrir dreifingarbanni kærða.  Bendir hann á að svo sem skýrt komi fram í bréfi kærða dags. 4. janúar s.l. byggist dreifingarbann stofunnar á því að ekki hafði verið aflað tilskilins leyfis fyrir markaðssetningu.  Vísar kærði til 19. gr. rgl. nr. 285/2002 og bendir á að markaðssetning sé óheimil nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.  Í  sömu reglugerð sé að finna ákvæði um hvernig bregðast skuli við brotum á henni.  Tekur lögmaður kærða upp orðrétt ákvæði 16. og 19. gr. reglugerðarinnar og vísar til þess að kærði byggi ákvörðun sína á 19. gr. tilgreindrar reglugerðar og 29. gr. hennar ekki 28. gr.

Kærði vísar til þess að ekki sé að svo stöddu lagt mat á hvort hætta sé á að umrædd vara geti valdið heilsutjóni eða ekki, enda sé það ekki aðalatriði máls.  Brot kæranda sé alfarið gegn 19. gr. rgl. 285/2002 og öðrum ástæðum hafi ekki verið haldið fram af kærða.  Ekki þurfi rökstuddan grun til stuðnings þeirri skoðun, þegar brotið liggur fyrir, viðurkennt af kæranda, sem hafi beðist afsökunar á broti sínu, sbr. bréf kæranda til kærða dags. 6. janúar 2005.  Í sama bréfi viðurkenni  kærandi í raun að leyfisveiting sé forsenda fyrir markaðssetningu vöru sinnar og tilkynni kærða að hann hafi sótt um leyfi fyrir vörunni.

Kærði kveðst ekki fara út fyrir valdheimildir sínar í máli þessu eins og kærandi haldi fram.  Þvert á móti sinni stofan skyldu sinni skv. l. nr. 7/1998 með síðari breytingum og l. nr. 93/1995 og tekur upp 1. mgr. 22. gr. :”Heilbrigðisnefnd hefur undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar  opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum Umhverfisstofnun skráir nauðsynlegar upplýsingar um framleiðslu og dreifingu matvæla vegna matvælaeftirlits.  Þá er ráðherra, að höfðu samráði við svæðisnefndir á heilbrigðiseftirlitssvæðum heimilt að fela stofnuninni eftirlit með afmörkuðum þáttum“. Kveður kærði að þarna komi fram skýr verkaskipting stjórnvalda við matvælaeftirlit hér á landi sem ekki hafi verið véfengd til þessa.  Matvælaeftirlit starfi í umboði heilbrigðisnefndar sbr. 15. gr. l. nr. 7/1998.  Aðgreiningarregla stjórnsýsluréttar á þessu sviði hafi þannig verið skilgreind af löggjafarvaldinu sem skýr verkaskipting milli stjórnsýsluaðila.  Kærði  vísar til yfirlýsingar kæranda um 43 innfluttar bætiefnabættar drykkjarvörur sem séu fáanlegar með sömu innihaldsefnum og e.t.v. fleirum og drykkur kæranda.  Kærði hafi farið yfir lista og falli 14 drykkjanna undir sérreglugerðir, 5 séu í dreifingarbanni og fleiri skýringar eru hjá kærða í greinargerð.  Kærði bendir á að ekki hafi verið settar samræmdar reglur um bætiefnabætingu matvæla á Evrópska efnahagssvæðinu og flæði vörur frjálst milli landa á svæðinu sem og frá öðrum innflutningslöndum.  Innflutt matvæli séu því ekki alla jafna skoðuð af yfirvöldum áður en þau séu sett á markað og það sé ávallt á ábyrgð viðkomandi innflytjanda eða innlends framleiðanda að matvæli sem sett séu hér á markað uppfylli ákvæði þeirra laga og reglugerða sem um þær gildi.  Því verði kærði að stöðva vöru sem ekki uppfylli íslenskar reglur eftir að hún sé komin á markað.  Þeirri fullyrðingu kæranda að kærði beini aðgerðum sínum eingöngu gegn innlendum framleiðendum en ekki innfluttum vörum svarar kærði því að hann kanni allan markaðinn án tillits til upprunalands vöru eða framleiðanda.  Bendir hann á að stofan hafi stöðvað dreifingu á átta matvælategundum frá áramótum.  Því sé vandséð hvernig kærandi geti haldið þvi fram að kærði geri upp á milli innlendra og erlendra framleiðenda.  Þá vísar kærði til yfirlýsingar kæranda um brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Bendir hann á að úrræði stofunnar sé í 29. gr. laganna þar sem fram komi að stöðva megi eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur sé um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna.  Því hafi kærði einmitt sinnt reglum um meðalhóf með því að velja vægustu aðferðir þ.e. að stöðva dreifingu hennar.  Vægari úrræði sé ekki að finna. Áskilnaði kæranda um kröfu um skaðabætur hafnar kærði alfarið og krefst þess að ákvörðun kærða um dreifingarbann verði staðfest.

IV.

Deilt er um dreifingarbann sem kærði setti á vítamínbætta drykki kæranda.  Lögmaður kærða kærir ákvörðun og telur að hana beri að ógilda enda hafi hún ekki lagastoð og sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga.  Lögmaður kærða krefst staðfestingar á ákvörðun um dreifingarbann og vísar til 19. gr. rgl. nr. 285/2000 og 29. gr. l. nr. 93/1995.  Í 19. gr. tilgreindrar rgl.  kemur fram í ákvæði til bráðabirgða að þar til reglugerð um íblöndum bætiefna í matvæli hafi verið sett geti Hollustuvernd ríkisins veitt leyfi til notkunar bætiefna.  Um er að ræða heimildarákvæði. Umsóknir um leyfi skal senda Umhverfisstofnun sem  getur veitt slíkt leyfi.  Eigi verður séð að refsingar og viðurlög í reglugerð um aukefni í matvælum nr. 285/2000 með stoð í lögum um matvæli  11. kafla laga nr. 93/1995, eigi við um úrræði stjórnvalda um bætiefni í matvælum. Greinargerðin fjallar um aukefni og einvörðungu er í henni bráðabirgðaákvæði um bætiefni og umsóknir vegna þeirra.  Ekkert er frekar í lögum um matvæli sem styður aðgerðir kærða.  Verður því að fallast á það með kæranda að ekki hafi verið heimilt að setja dreifingarbann á vöruna Kristal plús.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfur kæranda um að óheimilt hafi verið að setja dreifingarbann á vöru kæranda.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                       Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 3/21/05

3/2004 Úrskurður vegna kæru Gunnar Jóhannsdóttur og Stefáns Finnbogasonar gegn Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, föstudaginn 22. október, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2004  Gunnur Jóhannsdóttir og Stefán Finnbogason, Hlíðarvegi 29, Kópavogi gegn Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Gunnar A. Jóhannsdóttur og Stefáns Gísla Finnbogasonar hér eftir nefnd kærendur er dags. 6. apríl, 2004. Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit bréfs til heilbrigðisnefndar Kópavogs dags. 4.02. 2004.

2)      Afrit bréfs kærenda til heilbrigðisnefndar Kópavogs dags. 04.02.2004.

3)      Afrit bréfs íbúa Hlíðarvegs 29 og 29a dags. 03.05.2004 til bæjarráðs Kópavogs.

4)      Afrit bréfa Guðmundar Þórðarsonar hdl. f.h. eigenda að Hlíðarvegi 29 og svarbréf lögmanns Kópavogskaupstaðar.

5)      Afrit rannsóknarskýrslu rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins v. hávaðatruflunar.

6)      Afrit svarbréfs Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis dags 17. mars, 2004.

7)      Svarbréf kærenda eftir að gögn kærða voru birt þeim.

Afrit af gögnum kærenda var sent Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefndur kærði og  er greinargerð þess dags. 02.06. 2004.  Greinargerð fylgdu eftirfarandi gögn :

1)      Ljósmynd sem lýsir ytri aðstæðum.

2)      Afrit af teikningum af Hlíðarvegi 29 þar sem staðsetning kælitækja er merkt inn.

3)      Afrit af tilkynningu rekstraraðila söluturns til eftirlitsins.

4)      Afrit af erindi kærenda dags. 04.02.2004.

5)      Afrit af eftirlitsskýrslu til rekstraraðila söluturns dags. 30.01.2004.

6)      Afrit af erindi rekstraraðila söluturns dags. 24.02.2004.

7)      Afrit af erindi kærða til kærenda dags. 17.03.2004.

8)      Afrit af erindi kærenda til heilbrigðisnefndar dags.22.03.2004.

9)      Skrá yfir skráðar kvartanir hjá heilbrigðiseftirliti frá 01.01.2003 vegna reksturs söluturns.

10)  Minnisblað kærða frá 26. 03. 2004.

11)  Afrit af erindi heilbrigðisnefndar til kærenda dags. 30.  mars, 2004.

Úrskurðarnefnd sendi Heilbrigðiseftirliti  á ný bréf dags. 5. september s.l. og óskaði eftir frekari mælingum.  Var óskað eftir því að sérstaklega yrði kannaður hávaði af skellum frá útidyrahurð og hávaði af völdum kælipressu.  Sendi Heilbrigðiseftirlit nefndinni bréf og greindi frá ferð tveggja heilbrigðisfulltrúa á staðinn og ennfremur þess að lengri tíma tæki að skoða málið betur.  Framkvæmdar voru nýjar mælingar aðfararnótt 7. október s.l.  Heilbrigðiseftirlitið sendi nefndinni niðurstöður þeirra mælinga með bréfi dags. 14. október s.l.

II.

Kærendur kæra aðgerðaleysi kærða vegna hávaða frá söluturni á jarðhæð Hlíðarvegar 29 í Kópavogi.  Benda kærendur á að ítrekað hafi verið kvartað yfir hávaða frá umræddum söluturni án árangurs.  Ástandinu lýsa kærendur svo í bréfi til heilbrigðisnefndar dags. 4. febrúar 2002 að stanslaus niður og hávaði sé til staðar dag og nótt og svo virðist sem kælipressa gangi oft og óreglulega.  Stundum kveiki hún og slökkvi á sér í sífellu.  Telja kærendur að það bendi til þess að eitthvað sé að kælikerfinu.  Ávallt sé einhver niður heyranlegur.  Þessi hávaði ásamt ónýtri eða bilaðri hurðarpumpu á útidyrahurð valdi kærendum hvað mestu ónæði.  Hurð skelli með miklum hávaða í hurðarkarm.  Kveða kærendur að áður en nýr eigandi hafi tekið við rekstri hafi umrædd vandamál ekki verið til staðar. Lýsa kærendur því yfir að þeir hafi ítrekað farið til núverandi rekstraraðila til að ræða við hann og hann  sagt sjálfsagt að lagfæra, en ekkert hafi verið aðhafst.   Telja kærendur úrræðaleysi kærða einkenna mál þetta.  Kærendur kveða ekki hafa verið unnt að ná fullum nætursvefni undanliðið ár vegna ónæðis frá söluturninum.  Ekki sé hægt að selja fasteignina vegna ástandsins og teljist það vart viðunandi.

Í bréfi kærenda dags. 22. mars s.l. til heilbrigðisnefndar Kópavogs vegna máls þessa, mótmæla kærendur bréfi kærða þar sem fram komi að allt sé í stakasta lagi í umræddum söluturni.  Mótmæla kærendur því að ástandið hafi batnað og staðhæfa að fullyrðingar rekstaraðila söluturnsins um úrbætur séu rangar.  Vísað er til hávaðamælinga og yfirlýsinga mælingamanns um að aðstæður séu ekki nægilega góðar til mælinga þar sem hávaðasöm vinnuvél var að störfum fyrir utan húsið. Krefjast kærendur að mælt verði að nýju hvort hávaði fari yfir leyfileg mörk.  Ítreka kærendur mótmæli sín við  aðgerðaleysi kærða.

Máli sínu til stuðnings leggja kærendur fram gögn vegna fyrri aðgerða.  Fyrstu gögnin eru frá lögmanni fyrri eigenda.  Elsta bréf kærenda er til bæjarráðs Kópavogs dags. 3. maí 2001 þar sem kvartað er undan hávaða vegna drukkinna unglinga og umgangs þeirra. Í bréfinu er gerð sú kæra að rekstrarleyfi verði endurskoðað verði ekki úr málinu bætt.

Í svarbréfi kærenda vegna greinargerðar kærða ítreka þeir kröfur sínar og mótmæli.  Benda þeir á að úrbætur sem sinna þurfi séu að setja gúmmílista á hurðarkarm þar sem útihurð skelli í og að slökkva þurfi á kælipressu. Benda kærendur ennfremur á að hávaði sem kvartað er yfir sé fyrst og fremst til ama á kvöldin og nóttunni.  Verði því að sinna hávaðamælingu aftur.  Fáist engar úrbætur telja kærendur sig verða að hafa vottorð frá úrskurðarnefnd um að ekkert sé að þegar kvartað verði yfir leyndum galla við sölu íbúðarinnar.

III.

Í greinargerð kærða kemur  fram að mál kærenda hafi verið til meðferðar á fundi heilbrigðisnefndar hinn 29. mars, 2004.  Hafi þá verið lögð fram erindi kærenda þar sem kvartað sé yfir ónæði frá rekstri söluturns í sama húsi og aðkomu kærða við afgreiðslu kvartananna.  Heilbrigðisnefnd taldi að umkvörtunarefnið yrði ekki leyst með vísan til reglugerðar um hollustuhætti og vísaði erindum frá.  Afstaða nefndarinnar byggðist á því að um löglega atvinnustarfsemi væri að ræða og starfsmenn kærða höfðu ekki getað staðfest, við ítrekaðar heimsóknir, að hávaði bærist frá búnaði söluturns til íbúðar.  Fram kemur í greinargerð kærða að neðri hæð hússins hafi verið samþykkt af byggingaryfirvöldum sem verslunarhúsnæði 1968 og íbúðarhúsnæði sé samþykkt á efri hæðinni.  Ljóst sé að umferð um lóð og umgangur um neðri hæð sé meiri heldur en væri eingöngu um íbúðarhúsnæði að ræða.  Hefur heilbrigðisnefnd ekki litið á það sem sitt hlutverk að stöðva rekstur söluturns og videóleigu í húsnæðinu.  Þannig geti nefndin ekki fyrirskipað að slökkt verði á kælum eða öðrum búnað sem sé eðlilegur hluti rekstrar nema ljóst sé að frá honum stafi það ónæði sem undan er kvartað. Reynt hafi verið að finna út hvort einstök tæki gætu valdið umræddum óþægindum.  Hafi aðkoma kærða að málinu verið með vísan til 16. gr. rgl.nr. 941/2002 um hollustuhætti. Samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar sé ónæði “veruleg og ítrekuð truflun eða áreiti sem tiheyrir ekki því umhverfi sem um ræðir s.s. vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar eða varmaflæðis”  Hafi starfsmenn kærða farið ítrekað á staðinn án þess að geta sannreynt kvörtunarefnið.  Heilbrigðisfulltrúi hafi farið á staðinn þann 19. nóvember s.l. áður en nokkur starfsemi hafi hafist þann dag í söluturninum.  Hafi þá jafngildishljóðstig mælst vel undir 30dB.  Kærendur hafi í framhaldi af þessu verið beðnir um að koma kvörtunum sínum skriflega á framfæri til að auðvelda greiningu vandans og hafi það verið gert með erindi dags. 4. febrúar 2004.  Hafi þá verið unnt að kynna kvartanir formlega fyrir rekstraraðila.  Andmæli rekstraraðila komi fram í erindi hans dags. 24. febrúar 2004.  Kærði kveður tvo fulltrúa hafa farið á vettvang 13. febrúar s.l. og hafi þeir ekki getað greint hljóð upp á efri hæð frá rekstrinum.  Sú niðurstaða kærða hafi verið kynnt kærendum með bréfi dags. 17. mars .sl.  Í síðastgreindu bréfi kom m.a. fram að eftirlitsaðilar hafi aldrei orðið þess áskynja að eitthvert ákveðið tæki væri háværara en annað eða að einhver slökkvi- eða kveikihljóð heyrðust í kælum eða pressum.  Eigandi hafi alltaf kvaðst reiðubúinn til þess að finna ástæðu og gera ráðstafanir ef með þyrfti.  Fulltrúi kærða hafi ekki getað staðfest að pumpa á hurð væri í ólagi, eftir lagfæringu á henni fyrri hluta ársins.  Hávaðamælingar hafi ekki sýnt fram á óvenjulega háværa kæla.  Hafi heilbrigðisfulltrúi farið í íbúð á efri hæðinni og ætlað að gera hljóðmælingar en enginn hávaði hafi borist upp sem greinanlegur hafi verið á hljóðmæli.

Kærendur hafi komið fram mótmælum sínum í fyrrgreindu bréfi dags. 22. mars, 2004.  Ítreka þeir að slökkt verði á kælum,  lýsa samskiptum við rekstraraðila og gera athugasemdir við vinnubrögð kærða.

Í svarbréfi kærða dags. 30. mars, 2004, komi fram að niðurstaða heilbrigðisnefndar sé sú að umkvörunarefnið verði ekki leyst með vísun til reglugerðar um hollustuhætti og geti kærði ekki komið frekar að lausn málsins.  Afstaða nefndarinnar byggist á því að rannsókn hafi leitt í ljós að ekki væri hægt að sannreyna kvörtunina.  Þrír starfsmenn kærða hafi komið á vettvang á mismunandi tímum vegna þessa.

Kærði telur að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til að taka málið til meðferðar að nýju.  Rétt sé sem fram komi í erindi kærenda að ýmis gögn frá fyrri tíð sé unnt að nálgast hjá kærða.

Eins og áður er komið fram voru framkvæmdar viðbótar mælingar að næturlagi í október.  Í svarbréfi kærða v. þessa, dags. 14. október, kemur fram að niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins sé sú að frekari aðkoma eða framkvæmd úrbóta í fjöleignahúsinu verði ekki á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Í niðurstöðu skýrslu vegna nýju mælinganna kemur fram að greina hafi mátt lágværan niðu í íbúðinni.  Ennfremur að mælingar gefi til kynna að talsvert sé af lágtíðnihljóðum í húsinu.  Þá segir í niðurstöðu:” Aðkoma heilbrigðiseftirlits takmarkast við ákvæði reglugerða eins og þær eru hverju sinni.  Í gildi er reglugerð um hávaða nr.933/1999 með síðari breytingum.  Mældur hávaði í íbúðinni er innan þeirra hávaðamarka sem reglugerðin telur að fólk verði að una við.  Munur á styrk lágtíðnihljóða í íbúðinni og styrk alls heyranlega hljóðsviðsins var einnig innan þeirra marka sem norrænar leiðbeiningar heimili að grípa megi til fráviksreglna í útreikningi til verndar íbúum.  Í raun gildir það sama þó svo gripið yrði til fráviksreglunnar og hljóðmælingar leiðréttar með tilliti til lágtíðnihljóðs, hávaðinn yrði sem fyrr innan þeirra marka sem reglugerð kveður á um. “

IV.

Mál þetta snýst um hávaða og hávaðamælingu.  Hlutverk úrskurðarnefndar er að ganga úr skugga um að kærði hafi unnið í samræmi við þau lög og reglugerðir sem við eiga í málinu. Í 16. gr. rgl. nr. 941/2002 um hollustuhætti er ónæði “veruleg og ítrekuð truflun eða áreiti sem tilheyrir ekki því umhverfi sem um ræðir s.s. vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar eða varmaflæðis”.  Í mælingum þeim sem kærði hefur unnið vegna kvartana kærenda hefur ekki mælst hávaði yfir viðmiðunarmörkum.  Í niðurstöðu vegna prófana sem framkvæmdar voru að næturlagi nú í október kemur fram að mældur hávaði í íbúðinni sé innan þeirra hávaðamarka sem reglugerðin telur að fólk verði að una við.  Sama gildir þó unnið yrði eftir fráviksreglum í útreikningi til verndar íbúum. Með tilvísan til framangreinds er ekki  unnt að fallast á kröfur kærenda í málinu. Ekki er í verkahring úrskurðarnefndar að gefa út vottorð sem kærendur gera kröfu um.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfu kærenda um aðgerðarleysi kærða.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/2/04

4/2004 Úrskurður vegna kæru Raimunds Bernhard Brockmeyer-Urbschat gegn Blönduósbæ.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, þriðjudaginn 18. janúar, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2004  Raimund Bernhard Brockmeyer-Urbschat gegn Blönduósbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Raimunds Bernhard Brockmeyer-Urbschat,  Litla- Búrfelli, Svínavatnshreppi, hér eftir nefndur kærandi, er dags. 30. júní, 2004 og barst nefndinni í byrjun júlí.   Kærð er álagning Blönduóssbæjar á sorphirðugjaldi á íbúð kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Blönduósbær er hér eftir nefndur kærði.  Gerir kærandi þá kröfu að Blönduóssbæ verði gert að leiðretta álagningarreglur sínar og að sorphirðugjald á íbúð hans verði fellt niður.  Ennfremur kærir kærandi uppgjör vegna endurgreiðslu sorphirðugjalds fyrir árin 2002 og 2003.  Kæranda var sent afrit af svarbréfi kærða og svaraði hann með greinargerð dags.5. nóvember s.l.   Kæra ásamt meðfylgjandi gögnum var send kærða sem svaraði með bréfi dags. 30. ágúst s.l.  Kærði hafnar kröfu kæranda um breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds og vísar til gjaldskrár sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneyti.  Áður hafði kærði sent nefndinni svarbréf í kjölfar þess að umhverfisráðuneyti sendi kærða afrit af kæru.  Þá sendi kærði afrit af gjaldskrá kærða um álagningu gjalds fyrir sorphirðu.

II.

Í kæru er kærð álagning kærða á sorphirðugjaldi á íbúð kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Um málavexti vísar kærandi til málavaxta í stjórnsýslukæru dags. 9 júní, 2002 en afrit kæru fylgir með. Kemur þar fram  að kærði hafi á undanförnum árum fellt niður sorphirðugjlad fyrir íbúð kærða að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Enginn hafi verið þar skráður með lögheimili undanfarin 7 ár og enginn hafi búið í íbúðinni.   Um lagarök vísar kærandi til :

1)      25. gr. l. nr. 7/1998 :  Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um

innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi

heilbrigðisnefndar.  Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum

kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Vísar kærandi til þess að þar sem enginn búi eða hafi búið íbúð hans á

Blönduósi falli ekki til kostnaður vegna sorphirðu og því óheimilt að

innheimta sorphirðugjald frá honum.

2)      11. gr. l.nr 805/1999 : “Gjald um meðhöndlun úrgangs.  Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.”

Vísar kærandi til þess að í húsinu nr. 4 við Hnjúkabyggð á Blönduósi séu 4 íbúðir þar af hafi 2 ekki verið í notkun í meira en 10 ár, hinar 2 heldur ekki í stöðugri notkun.  Fjöldi sorpíláta hafi í gegnum árin verið eitt stundum ekkert.  Þjónustustig sé því ekki mjög hátt við þetta heimilisfang og geti kærandi fullyrt að fyrir hans íbúð hafi hvorki verið til sorpílát né þjónusta í meira en 10 ár.  Telur hann því að óheimilt ætti að vera að innheimta sorphirðugjald frá honum.

3)      11. gr. rgl. nr. 805/1999 :” Sveitarstjórn er ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs frá öllum íbúum á viðkomandi svæðum”

Telur kærandi að kærði hafi notfært sér þetta í málarekstri 2002 með því að segja að álagt sorpgjald sé lagt á allar íbúðir.  Telur kærandi að þessi”jafna” gangi ekki upp, íbúi og íbúð sé ekki það sama og verði ekki, sama hvernig kærði reyni að snúa málinu kæranda í óhag.Vísar kærandi til þess að það séu ekki íbúðir sem framleiði sorp heldur íbúar þeirra, ef einhverjir séu.  Kærandi ítrekar kröfur sínar um endurgreiðslu á sorphirðugjaldi ársins 2004 alls kr. 4.250,-.  Vísar kærandi til þess að fjárhæð kröfu sé ekki aðalatriði kæru heldur sú staðreynd að mati kæranda að kærði hafi ekki lagaheimild að leggja sorphirðugjald á hverja íbúð óháð því, hvort hún sé í notkun eða árum saman ekki í notkun.

III.

Í greinargerð kærða dags. 30. ágúst, 2004 kemur fram að með vísan í kæru dags. 30.júní ítreki kærði það sem fram komi í svarbréfi dags. 22. júlí s.l., þess efnis að kærða sé heimilt að leggja á sérstakt sorphirðugjald á hverja íbúð sbr. 2. gr. meðfylgjandi gjaldskrár.  Gjaldskrá hafi verið staðfest af umhverisráðuneyti 27. febrúar s.l  Hafnar kærði því breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds.  Um frekari rökstuðning vísar kærði á fyrrum úrskurði úrskurðarnefndar skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í áþekkum málum.  Í tilvitnuðu bréfi kærða dags. 22. júlí 2004, tilkynnir kærði að í janúar 2004 hafi gjaldskrá fyrir hirðingu og eyðingu sorps verið breyttt og fylgi hún með. Jafnframt getur kærði um það að uppgjör vegna máls 1/2002 hafi löngu farið fram

IV.

Í 9. gr. l. nr. 45/1998 kemur fram að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélags og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélag annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.  Í 11. gr. rgl. um úrgang nr. 805/1999 kemur fram að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs á viðkomandi svæðum.  Í 25. gr. l.nr.7/1998 segir m.a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðar segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, legu eða veittrar þjónustu en gjöld megi ekki vera hærri en nemur kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Í samræmi við framangreint setti Blönduósbær sér gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps í Blönduósbæ dags. í janúar 2004.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telur ekki grundvöll fyrir álagningu sorphirðugjalds nú frekar en fyrr þar sem enginn búi eða hafi búið í íbúðinni að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi og því falli ekkert sorp þar til.  Grundvöllur sorphirðugjalds skv. gjaldskrá Blönduóssbæjar sé að þjónusta sé veitt.

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lítur svo á að sorphirðugjald sé bundið veittri þjónustu, þó ekki komi það fram í gjaldskrá kærða um sorphirðugjalds.  Ekki er ágreiningur milli aðila um að ekkert sorp falli til frá fasteign kæranda að Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi.  Ágreiningslaust er ennfremur að hvorki hefur neinn búið í íbúð kæranda né heldur verið þar með lögheimili á undanliðnum árum.

Hvað varðar kröfu kæranda um uppgjör vegna sorphirðugjalda áranna 2002 og 2003 er það ekki á verksviði nefndarinnar að fjalla um það.  Þeirri kröfu er því vísað frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu sorphirðugjalds fyrir Hnjúkabyggð 4 á Blönduósi fyrstu sex mánuði ársins 2004, enda mega gjöld sveitarfélags ekki vera hærri en þjónusta sú sem veitt er hverju sinni.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                           Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 2/2/05

5/2004 Úrskurður vegna kæru Impregilo S.p.A. gegn Heilbrigðiseftirliti Auslurlands.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005 þriðjudaginn 25. janúar, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2004  Impregilo S.p.A gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Þórarins V. Þórarinssonar hdl. fyrir hönd Impregilo S.p.A., hér eftir nefnt kærandi,  er dags. 22. september 2004, en barst úrskurðarnefnd í byrjun október  2004.  Krefst lögmaðurinn þess f.h. kæranda að ákvörðun kærða frá 16. ágúst s.l. um álagningu dagsekta og áminningu verði felld úr gildi. Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)           Afrit af starfsleyfi til handa Impregilo S.p.A. fyrir starfsmannabúðir á Laugarási, Main Camp, við Kárahnjúka á Norður-Héraði.

2)           Afrit af starfsleyfi til handa Impregilo S.p.A. fyrir starfsmannabúðir og mötuneyti við Tungu, Adit 3, Norður-Héraði.

3)           Afrit af leiðbeinandi reglum fyrir starfsmannabúðir.

4)           Afrit af fundargerð 49/18 fundar heilbrigðisnefndar Austurlands 13. ág. 2004.

5)           Afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits Austurlands dags. 16. ágúst, 2004 til kæranda, áminning og frestur og tilkynning um dagsektir ef ekki verði úrbætur.

6)           Yfirlit yfir vaska  og uppsetningu þeirra.

7)           Afrit innheimtubréfs Lögheimtunnar  vegna álagðra dagsekta.

Afrit af gögnum kæranda var sent Heilbrigðiseftirliti Austurlands,  hér eftir nefnt kærði,  sem skilaði greinargerð dags. 7. nóvember 2004.  Gögn sem greinargerðinni fylgdu eru :

1)      Fskj. 1. Samskipti kærða og kæranda sem varða ræstiaðstöðu og ræstilaugar.

2)      Fskj 2.  Bókanir heilbrigðisnefndar vegna starfsemi kæranda á virkjanasvæði.

3)      Fskj. 3.  Starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits fyrir starfsmannabúðir.

4)      Viðauki 1.  Bréf dagsett og afhent þann 5. ágúst 2004, varðandi ræstiaðstöðu í svefnskálum í aðalbúðum kæranda á Laugarási við Kárahnjúka og á Adit 3, Tungu, hvort tveggja í Norður-Héraði.

5)      Viðauki 2.   Bréf dags 16. ágúst, 2004. Áminning og frestur sem og tilkynning um dagsektir ef ekki verður bætt úr hvað varðar ræstiaðstöðu í svefnskálum starfsmannabúða kæranda á Laugarási og Tungu.

6)      Sýnishorn af teikningum af svefnskálum sem um ræðir.

Afrit greinargerðar og gagna frá kærða var sent lögmanni kæranda sem ritaði greinargerð dags. 24. nóvember 2004.

II.

Eins og fram er komið eru kröfur kæranda að ákvörðun kærða dags. 16. ágúst 2004 um álagningu dagsekta og áminningu með vísan til 26. gr. l. um hollustuhætti nr. 7/1998 með síðari breytingum og 70. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, verði felld úr gildi.  Kærandi greinir frá málavöxtum sem séu þeir að kærandi annist umfangsmikla verktöku fyrir Landsvirkjun við Kárahnjúka á Austurlandi.  Þær starfsmannabúðir sem málið varði hafi verið pantaðar, samsettar og byggðar árið 2003, miðað við þær kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda sem þá voru í gildi, sbr. leiðbeinandi reglur um starfsmannabúðir dags. janúar 2002, útg. af kærða.  Frágangi hafi endanlega verið lokið í ársbyrjun 2004.  Kveður kærandi að hann hafi fengið útgefið starfsleyfi til reksturs starfsmannabúða við Kárahnjúka í aðalbúðum I á Laugarási og í Tungu við aðkomugöng 3.  Um sé að ræða svefnskála fyrir allt að 724 manns í 30 svefnskálum auk íbúðarhúsa að Laugarási annars vegar og hins vegar svefnskálar fyrir allt að 150 manns í 6 skálum og tveim húsum, mötuneyti fyrir íbúa, vatnsveitur og fráveitu sem þjóni aðstöðunni í aðkomu 3 í Tungu. Kærandi kveður að í starfsleyfi kærða fyrir starfsmannabúðir á Laugarási, sem gefið hafi verið út 3. janúar 2004, sé getið um skilyrði er varði kröfu um að ræstiaðstöðu og forstofu verði komið í rétt horf sbr. ákvæði í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 hið fyrsta og ekki seinna en 1. apríl 2004.  Ekki er frekari tilvísun til annarra skilyrða.  Starfsleyfi fyrir Tungu var gefið út 1. febrúar 2004.  Í því er tilgreint að farið skuli eftir starfsreglum fyrir starfsmannabúðir og mötuneyti frá kærða og á hér hið sama við og fyrr, að hvergi er vikið orði að nauðsyn þess að hafa sérstaka ræstilaug í hverjum skála.

Kveður kærandi að byggð hafi verið upp starfsmannaaðstaða fyrir framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun í samræmi við kröfur íslenskra laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla. Hafi starfsleyfi verið útgefið með tilteknum skilyrðum skv. almennum útgefnum reglum og hafi verið farið að þeim.  Þannig séu allir skálarnir útbúnir með sérstakri geymslu fyrir ræstiáhöld, efnavörur og rekstrarvörur sem þarf fyrir slíka skála.  Því telur hann ótvírætt að búðirnar hafi fullnægt lögmæltum kröfum þegar starfsleyfi hafi verið gefin út í upphafi árs 2004.  Hafi það því komið kæranda á óvart þegar fulltrúi kærða ámálgaði að settar yrðu upp sérstakar ræstilaugar í öllum húsunum.  Þar eð kærandi hefur viljað kosta kapps um að hafa gott samstarf við íslensk yfirvöld var leitað leiða til að verða við þessum kröfum og fannst ásættanleg aðferð sem fulltrúi kærða virtist sætta sig við.   Vísar lögmaður kæranda til þess að með þann stutta framkvæmdatíma sem á hálendinu sé, verði  mikið álag að nýta þann tíma sem best.  Þá hafi ennfremur verið í gangi umfangsmikil endurnýjun á búðunum m.a. tvöföldun á þaki flestra svefnskála til að vinna á lekavandamáli sem gert hafði vart við sig áður.  Þá höfðu hafist framkvæmdir við breytingar á ræstiaðstöðu til samræmis við óskir kærða og það eins þótt þær kröfur væru ekki í samræmi við skilmála fyrir útgefnum starfsleyfum s.s. áður hafi komið fram.  Vísar lögmaður kæranda til þess að í ljósi framangreinds hafi það komið forráðamönnum kæranda mikið á óvart þegar þeim var kynnt að í fundargerð 49/18 fundar heilbrigðisnefndar Austurlands þann 13.ágúst 2004 væri þess getið að nefndin veiti kæranda skriflega áminningu og einnar viku frest til að uppfylla ákvæði hollustuháttareglugerðar og starfsleyfisskilyrða með vísan til 26. gr. l. um hollustuhætti og 70. gr. hollustuháttareglugerðar.  Ennfremur komi fram í fundargerð að verði úrbótum ekki lokið fyrir 20. ágúst muni verða lagðar á dagsektir sem nemi kr. 1000,- pr. dag pr. svefnskála þar til allir svefnskálar verði komnir með ræstiaðstöðu, annars vegar í starfsmannabúðum á Laugarási og hins vegar í Tungu.  Ákvörðun kærða var tilkynnt kæranda með bréfi dags. 16. ágúst 2004 og veittur einnar viku frestur til að uppfylla skilyrði.  Kærði bendir á að raunverulegur frestur hafi einungis verið 4 dagar, því bréf kærða hafi verið afhent 16. ágúst og frestur veittur til 20. ágúst.  Innheimtubréf hafi borist kæranda dags. 1. september, þar sem vísað hafi verið til kröfu vegna dagsekta fyrir tímabilið 21. ágúst –30. ágúst 2004 að báðum dögum meðtöldum.

Kærandi vísar til þess um málsástæður að í rgl. 941/2002 í 7. mgr. 14. gr. sé getið um að sérstakt loftræst rými skuli vera fyrir ræstiáhöld og ræstilaug, þar sem það á við.  Nánari tilgreining á því hvers konar rými skuli vera eða hvar það skuli vera sé þar ekki að finna.  Þannig verði ekki séð að endilega sé skylt að hafa slíka aðstöðu í hverjum skála í bráðabirgðabústöðum af þessum toga, heldur geti fleiri en einn skáli samnýtt slíka aðstöðu þar sem hún sé fyrir hendi.  Lykilatriðið hér sé að það sé lagt á vald viðkomandi heilbrigðisnefndar að meta hvort nauðsynlegt sé að gera kröfu um sérstakt loftræst rými með ræstilaug í hverjum skála.  Lögmaður kæranda vísar og til þess að í leiðbeinandi reglum kærða fyrir starfsmannabúðir dags. í janúar 2002, sé þess einungis getið að sérstakt geymslurými skuli vera fyrir ræstingaráhöld og efnavörur, en hvergi sé minnst á sérstaka ræstilaug og telur því kærandi að búðirnar hafi uppfyllt kröfur að þessu leyti við útgáfu starfsleyfis.  Kærandi vísar til þess að í starfsleyfi fyrir starfsmannabúðir á Laugarási sé skilyrði starfsleyfis lýst sem svo að ræstiaðstöðu verði komið í rétt horf og vísað til meðfylgjandi starfsreglna fyrir starfsmannabúðir kærða.  Telur því kærandi að ekki verði betur séð en að krafan lúti eingöngu að því að geymslurými sé í búðunum fyrir efnavörur og ræstingaáhöld.  Þrátt fyrir að þetta hafi verið til staðar hafi kærði tekið þá ákvörðun að sekta fyrir vöntun á ræstilaug í þeim skálum sem slík laug hafi ekki verið fyrir hendi í ræstingageymslum skálanna í búðunum í Tungu.  Telji kærandi því að forsendur bresti fyrir slíkri ákvörðun með hliðsjón af því að búðirnar hafi tvímælalaust uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir þær þegar þær voru reistar.  Kærandi bendir á að eftir útgáfu starfsleyfa fyrir starfsmannabúðir í Laugarási og Tungu hafi tekist samkomulag með kæranda og kærða um að kærandi léti setja upp ræstilaug í hverjum skála í búðunum.  Unnið hafi verið að þeim uppsetningum í ágúst og september 2004.  Lögmaður kæranda vísar til þess að við beitingu þvingunarúrræða hollustulaga verði stjórnvöld að byggja slíkar ákvarðanir á lögmætum forsendum og af meðalhófi. Vísað er ennfremur til þess að kærði hafi tekið ákvörðun um að sekta fyrir vöntun á ræstilaugum í þeim skálum þar sem slík laug hafi ekki verið fyrir hendi í ræstingarrými í báðum búðum.  Telur kærandi enn á ný að séu skilyrði þau skoðuð sem til staðar voru þegar búðirnar voru byggðar verði ekki séð að ákvörðun kærða hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum.

Enn er á það bent af kæranda að ákvörðun kærða um álagningu dagsekta fjórum dögum eftir að bréfleg tilkynning hafi verið send, hafi haft í för með sér grundvallarbreytingar á um fjórða tug salernisklefa þar sem salerni skyldu fjarlægð og sérstakur ræstivaskur settur upp í staðinn. Þetta sé verulegt verkefni sem kalli bæði á aðföng og mannskap.  Því hafi verið fyrirsjáanlega ógerlegt að ljúka verkinu fyrir tilskilinn frest og að ákvörðunin hafi því ekki haft þann lögmæta tilgang að ýta með hóflegum hætti á eftir tiltekinni framkvæmd heldur hafi hún falið í sér ákvörðun um tekjuöflun handa kæranda með þessum hætti.  Vísar kærandi til þess að mjög sérstakt og umdeilanlegt sé hvað lögmæti varði að stjórnvald fái aukið tekjur sínar með álagningu sekta eða annarra refsikenndra viðurlaga s.s. gildi um kærða.  Verði við þær aðstæður a.m.k. að vera hafið yfir allan vafa að þolandi dagsekta eigi raunverulegan kost á að komast hjá sektum með því að fara að vilja og lögmætum fyrirmælum yfirvalds.  Sé frestur settur svo naumur að ekki verði með sanngirni ætlast til að kröfur verði uppfylltar á þeim tíma, jafngildi það álagningu og innheimtu gjalds til handa kærða, gjalds sem kærandi telur ekki lögmætar forsendur fyrir.  Kærandi árettar að hann telji að refsikennd sektarákvörðun heilbrigðisnefndar eigi sér ekki stoð í tilvitnuðum ákvæðum reglugerðar og leiðbeinandi reglna og starfsleyfa fyrir umræddar búðir.  Sérstaklega mótmælir kærandi innheimtuaðferðum kærða og þeim kostnaði sem þeim fylgir.  Þá er innheimtukostnaði mótmælt sérstaklega.

Í umsögn kæranda um greinargerð kærða dags. 24. nóvember, 2004 ítrekar lögmaður kæranda að kæruefnið lúti að ákvörðun kærða frá 16. ágúst, 2004 um álagningu dagsekta og áminningar varðandi starfsmannabúðir í aðalbúðum og í Tungu við Kárahnjúka.  Ekki sé kæruefni annað en þetta og mótmælir því kærandi framlögðum gögnum kærða þar sem umfjöllun  sé um aðra starfsemi kæranda.  Kærandi vísar til þess að grunnkröfum laga um ræstiaðstöðu í starfsmannabúðum sé ekki til að dreifa.  Ákvæði reglugerðar nr. 941/2002 sé ónákvæmt og nánari tilgreiningu á því hverskonar rými skuli vera fyrir hendi í starfsmannabúðum eða hvar sé ekki þar að finna.  Matið skv. tilgreindu ákvæði sé lagt í hendur viðkomandi heilbrigðisnefndar.  Kærði hafi gefið út leiðbeiningar árið 2002 um starfsmannabúðir sem hafðar hafi verið til hliðsjónar við byggingu búðanna árið 2003.  Í þeim komi ekkert fram um ræstilaug.  Mótmælir lögmaður kæranda því sérstaklega að hlutir sem séu varanlega skeyttir við fasteign s.s. vaskar geti flokkast sem “áhöld”

Lögmaður kæranda vísar til þess að í starfsleyfi fyrir starfsmannabúðir á Laugarási, aðalbúðir hafi sérstaklega verið vísað til leiðbeinandi reglna frá 2002.  Þegar starfsleyfi hafi verið gefið út fyrir starfsmannabúðir við Tungu, Adit 3 hafi verið vísað til samræmdra starfsleyfisskilyrða sem hafi stuttu áður verið samþykktar.  Þar komi fram að aðgangur skuli vera að ræstiaðstöðu og skolvaski.  Orðalag þetta sé ekki krafa um að ræstiaðstaðan sé í sama húsnæði og hver skáli.  Óumdeilt sé að aðgangur sé tryggður að sérstakri ræstiaðstöðu og skolvaski innan búðanna að Tungu.  Vísar lögmaður kæranda til þess að almennt hafi verið talið að stjórnvaldi sé óheimilt að setja frekari og meira íþyngjandi skilyrði fyrir starfsleyfi en lög og reglugerðir kveði á um.  Kröfur þær sem settar hafi verið fram í samræmi við útgefnar leiðbeinandi reglur hafi verið uppfylltar af kæranda.  Kærandi ítrekar enn á ný að hann telji að kærði hafi brotið á sér grundvallarreglur stjórnsýslulaga með því að ákveða honum dagsektir með einungis fjögurra daga fyrirvara frá því ákvörðun hafi verið tekin þar til sektir skyldu falla á, þegar ljóst var að ekki yrði unnt að verða við kröfunum innan þeirra tímamarka.  Hann telur því að kærði hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með þessari ákvörðun, ekki síst í ljósi þess að kærði hafi vitað að umbeðnar endurbætur væru þegar hafnar.

III.

Eins og fyrr er getið er greinargerð kærða dags. 7. nóvember, 2004.  Kemur fram í upphafi greinargerðar að mat kærða sé að efnislega gangi kæra út á eftirfarandi :

1)        Dregið sé í efa að ræstivaskur flokkist sem ræstiáhald.

2)        Hvort réttmætt sé og lagastoð fyrir því að gera kröfu um ræstiaðstöðu í svefnskálum í starfsmannabúðum

3)        Hvort kærði hafi komið því nægilega skýrt á framfæri við kæranda að kærði gerði slíka kröfu.

Gerir kærði fyrst grein fyrir þessum efnisatriðum og fjallar síðan um kærubréf kæranda.

1)      Kærði vísar til þess að vatn sé nauðsynlegt til þrifa á húsnæði .  Umsagnir um nýbyggingar fari alla jafna í gegnum byggingarnefndir sveitarfélaga og í byggingarreglugerð segi um ræstiklefa í öðrum húsum en þeim sem séu til íbúðar, að þar  skuli vera fullnægjandi loftræstir ræstiklefar er rúmi ræstivask og ræstibúnað.  Kærði vill taka fram að starfsmannabúðir flokkist ekki sem íbúð enda ekki um varanlegt húsnæði að ræða og starfsemin líkari atvinnuhúsnæði.en heimili.  Vísar svo kærði til þess að mannvirki á Kárahnjúkasvæði hafi ekki farið í hefðbundið umsagnarferli en ljóst sé að gert sé ráð fyrir því að svo sé sbr. 14. gr. rgl.   Telur því kærði ljóst að í umræddri setningu úr starfsreglum kærða fyrir starfsmannabúðir frá 2002 sé gert ráð fyrir þeim skilningi á orðinu ræstigeymsla sem getið sé um í 14.gr.  Hafi orðalag því verið fært inn í samræmdar starfsreglur Umhverfisstofnunar og kærða fyrir starfsmannabúðir frá janúar 2004 en þar komi fram að aðgangur skuli vera að sérstakri loftræstri ræstiaðstöðu og skolvaski o.sv. frv.

2)      Kærði telur augljóst að þar sem 17-20 manns af ólíkum uppruna sofi í sama húsi og samnýti alla hreinlætisaðstöðu þurfi að vanda þrif og búa þá aðstöðu að unnt sé að þrífa almennilega.  Ekki sé ásættanlegt að ætla ræstitæknum að bera vatn, efni og áhöld milli húsa við þær aðstæður sem fyrir hendi séu á Íslandi.  Vísar kærði til þess að mat kærða sé einnig í samræmi við hollustuháttareglugerð, byggingarreglugerð, starfsreglur og það sem fram kemur hér að ofan að nauðsynlegt sé að hafa í hverjum svefnskála innangengi að ræstigeymslu með ræstivaski og rými til að geyma ræstiefni og áhöld.  Í tilgreindri rgl. 941/2002 sé lagt í hendur heilbrigðisnefndar að meta hvenær sé réttmætt að gera kröfu um þessa aðstöðu og í starfsleyfisskilyrðum Umhverfisstofnunar og kærða fyrir starfsmannabúðir frá 2004 sé þetta skýrt tekið fram.  Kærði bendir á að kærandi hafi ekki andmælt kröfu um eða neytt andmælaréttar þegar kröfur hafa verið gerðar um úrbætur vegna skorts á ræstiaðstöðu með ræstilaug.

3)      Kærði telur að óyggjandi sé að upplýsingum um kröfur um fullbúna ræstiaðstöðu hafi oftar en einu sinni verið komið á framfæri við kæranda og einnig hafi kærandi aldrei mótmælt kröfu þessari eða neytt andmælaréttar þegar kröfur um úrbætur á þessu sviði hafi verið settar fram.  Vísar kærði til þess að kærandi hafi frekar komið fram með upplýsingar um að búið sé að kaupa ræstivaska og stutt sé í að þeir verði settir upp.  Tekur kærði máli sínu til stuðnings tvö dæmi annað úr fundargerð samráðsfundar frá 20. Október 2003 og hitt úr eftirlitsskýrslu fyrir Main Camp dags. 31.01.2004.

Í greinargerð sinni setur kærði fram athugasemdir við fullyrðingar kærða í

stjórnsýslukæru.

Fullyrðingu kæranda um að starfsmannabúðirnar hafi verið samsettar og byggðar miðað við kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda svarar kærði því að byggingaryfirvöld hafi ekki aðkomu að mannvirkjagerð og málefnum á virkjanasvæði aðra en skipulagslega.   Því sé umsagnarferli um teikningar og starfsleyfisvinnslu óvenjulegt og verkefnum að hluta til varpað til kærða án þess að nokkur úrræði fylgi.  Kærði vísar um þetta enn á ný til 14. gr. rgl. nr. 941/2002 um að sérstakt loftræst rými skuli vera fyrir ræstiáhöld og ræstilaug þar sem það eigi við.   Kveður kærði koma fram í texta úttektarskýrslna og bréfa fyrir Adit 3 og aðalbúðir kæranda að krafa var strax gerð um ræstilaugar í ræstikompur, enda þá þegar unnið í samræmi við það en kærandi hafi ekki nýtt sér andmælarétt varðandi þetta.

Yfirlýsingu lögmanns kæranda um  að í starfsleyfi kæranda fyrir

starfsmannabúðir á Laugarási sem gefið hafi verið út 3. janúar 2004 sé getið um skilyrði varðandi kröfu um að ræstiaðstöðu og forstofu verði komið í rétt horf og að  ekki séu frekari tilvísanir til annarra starfsleyfisskilyrða, svarar kærði með því að vísa í eftirlitskýrslu sem fylgdi starfsleyfi aðalbúðanna.  Þar  komi fram að innrétta þurfi hillur og ræstivaska eins og búið sé að gera í vinnubúðunum á Teigsbjargi og Axará.  Svar kærða við því að í starfsleyfi fyrir Tungu sé hvergi vikið orði að nauðsyn þess að hafa sérstaka ræstilaug í hverjum skála svarar kærði því að í eftirlitsskýrslu vegna starfsleyfisvinnslu komi þetta skýrt fram, þar sé haft eftir starfsmanni kæranda að ræstilaugar séu ekki komnar.

Öðrum fullyrðingum kæranda um ræstilaugar svarar kærði með sömu

rökum og vísar til vinnslugagna.   Kærði ítrekar að kæranda hafi verið afhent

bréf 5. ágúst 2004 sem hafi verið tilkynning um fyrirhugaða áminningu og dagsektir þar til bætt hafi verið úr að fullu og jafnframt hafi kæranda gefist kostur á andmælum sem skila hafi átt fyrir 12. ágúst 2004.

Hvað varðar gagnrýni kæranda á gefinn frest svarar kærði því til að af texta í bókun heilbrigðisnefndar sé ljóst að frestur hafi í raun verið til 26. ágúst, en þá fyrst hafi átt að innheimta dagsektir.  Hefði verkum verið lokið þann dag hefði ekki komið til innheimtu dagsekta eins og reyndar sé raunin í aðalbúðunum.  Í Ad 3 hafi hins vegar ekki verið hafin vinna við uppsetningu ræstilauga fyrr en í september og hafi því verið sendir út reikningar vegna dagsekta frá 21. ágúst til 30. ágúst.  Velvilji kærða í garð kæranda hafi endurspeglast í því að ákveðið hafi verið að innheimta ekki dagsektir í aðalbúðum, þó farið væri 4 daga fram yfir þann frest.  Í Ad. 3 hafi hins vegar ekki einu sinni verið hafin vinna við uppsetningu ræstilauga í lok mánaðarins og því hafi kærði ekki komist hjá því að beita þeim úrræðum sem hann hefur.  Kærði mótmælir því að samkomulag hafi tekist um uppsetningu ræstilauga.  Kærði minnir á að í Ad 1 og 3 hafi verið löngu búið að setja upp ræstivaska í samræmi við umsagnir um teikningar.    Kærði mótmælir því að nauðsynlegt hafi verið að breyta salernisklefum, leysa hafi mátt kröfu um ræstiaðstöðu á annan máta og eina krafan hafi verið að settir yrðu upp ræstivaskar.  Kærði mótmælir því að ekki hafi verið mögulegt að ljúka verkinu fyrir gefinn frest.  Bendir kærði á að í gögnum málsins hafi komið fram að skv. upplýsingum starfsmanna kæranda í janúar 2004 hafi verið búið að panta ræstilaugar fyrir Ad 3,  og ennfremur að skv. mati fyrirtækisins í október 2003, hafi einungis þurft um tvær vikur til að ljúka uppsetningu þeirra í aðalbúðunum.  Frestur til framkvæmda hafi verið yfrið nógur að mati kærða.  Kærði mótmælir harðlega fullyrðingum um að kærandi vilji nota kærða sem féþúfu, enda sé fjárhæð dagsekta stillt mjög í hóf og tilgangur einungis sá að tryggja að þrif og aðstaða til þrifa séu fullnægjandi.  Athugsemd kæranda um að það þurfi að vera hafið yfir allan vafa að þolandi dagsekta eigi raunverulegan kost á að komast hjá sektum með því að fara að vilja og lögmætum fyrirmælum, svarar kærandi þannig að ávallt sé hægt að komast hjá dagsektum með því að fara að lögum og lögmætum fyrirmælum.  Telji eftirlitsþegi að fyrirmæli stjórnvalds séu ekki lögmæt á hann þess ætíð kost að nýta sér andmælarétt skv. stjórnsýslulögum.  Kærði telur að þegar fyrirtæki sinni hvorki fyrirmælum, áminningum, gefnum frestum né heldur andmæli stjórnvaldsfyrirmælum eða geri athugasemdir vegna þeirra eigi heilbrigðisnefnd sem stjórnvald fárra kosta völ annarra en þeirra þvingunarúrræða sem l.nr. 7/1998 leggi henni í hendur.  Mat heilbrigðisnefndar hafi verið að dagsektir hafi verið vægasta tækið sem lög leggi henni í hendur til að ná fram tilskyldum úrbótum.  Búið hafi verið að áminna, veita fresti og hafi valið staðið á milli dagsekta og lokunar eða takmörkunar á starfsemi.  Hafi því sektir verið tvímælalaust vægari kosturinn.

Til viðbótar greinargerð leggur kærði fram nokkur fylgiskjöl.  Eitt þeirra er um samskipti kærða og kæranda vegna ræstiaðstöðu og ræstilaugar í svefnskálum allra starfsmannabúða á vegum kæranda.  Um er að ræða fjórar búðir, Adit 1, Adit 2, Adit 3 og aðalbúðir.  Vísar kærandi til þess að þótt Adit 1 og Adit 2 séu ekki efni framlagðrar kæru þá gildi umsagnir um teikningar af þeim skálum einnig fyrir Adit 3 og aðalbúðirnar, enda vísað til þessa í umsóknum um starfsleyfi.

IV.

Kærandi krefst ógildingar á áminningu og ákvörðun kærða um dagsektir.  Kærði krefst þess að aðgerðir sínar verði staðfestar. Málavextir og málsástæður eru raktar í löngu máli bæði frá kæranda og kærða.  Líta verður svo á að álagning dagsekta hafi verið réttmæt miðað við forsögu málsins, en horfa verður til þess að of skammur frestur leið frá því ákvörðun um dagsektir var tekin þar til þeim var beitt.  Þá var frestur til andmæla ekki liðinn.  Þá er og rétt að benda á að  formleg áminning og dagsektir eru tilkynntar í sama bréfi, en með áminningu hlýtur að eiga að veita eðlilegan frest til úrbóta, áður en til beitingar dagsekta kemur.  Þá verður ennfremur að líta til þess að ákvörðun um dagsektir sem þvingunarúrræði hafði náð tilgangi sínum með úrbótum sem lokið var 9. september s.l.   Fallast má því á með kæranda að ákvörðun um beitingu dagsekta með fjögurra daga fyrirvara sé of skammur tími.

Nefndin tekur ekki afstöðu til réttmætis kærða til að krefjast umræddra úrbóta á ræstiaðstöðu, enda lítur nefndin svo á að eingöngu sé verið að kæra álagningu dagsekta og áminningu.  Ljóst er og af gögnum málsins að kærði hefur ekki nýtt sér andmælarétt sinn í máli þessu varðandi tilmæli kærða um úrbætur.  Nefndin telur að áminning geti staðið óhögguð, enda ekki um íþyngjandi ákvörðun stjórnvalda að ræða og kynnt með hæfilegum fyrirvara.

ÚRSKURÐARORÐ:

Álagning dagsekta  er felld úr gildi.  Áminning kærða stendur óhögguð.

 Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 2/2/05

4/2003 Úrskurður vegna kæru Einars Jóhannesar Einarssonar gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, föstudaginn 22. október, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2003  Einar Jóhannes Einarsson gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður 

I.

Stjórnsýslukæra Einars J. Einarssonar, Breiðvangi 38 Hafnarfirði, hér eftir nefndur kærandi, er dags. 2. september, 2003.  Kærð er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefndur kærði.  Ákvörðun kærða,  að synja kæranda um að halda hund á heimili sínu er dags. 11. júlí 2003.  Er gerð krafa um að ákvörðun kærða verði hrundið og kæranda verði veitt leyfi til hundahalds.  Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit mynda af inngangi í húsnæði.

2)      Afrit stjórnsýslukæru lögmanns kæranda dags. 7. júlí, 2003.

3)      Afrit synjunarbréfs kærða dags. 24. júní, 2003.

Afrit af kæru og gögnum kæranda voru send kærða sem sendi greinargerð  dags. 17.október, 2003 ásamt eftirfarandi gögnum :

1)      Umsókn um skráningu á hundi dags. 23.júní, 2003.

2)      Teikningar af Breiðvangi 38.

3)      Myndir af Breiðvangi 38.

4)      Afrit af bréfi kærða dags. 24. júní, 2003.

5)      Afrit af bréfi, fyrirspurn um leyfi til hundahalds frá eigendum og íbúum neðri hæðar að Breiðvangi 38, dags. 19 ágúst, 2003.

6)      Svar kærða við fyrirspurn um leyfi til hundahalds, dags. 26. ágúst, 2003.

 II.

Í erindi lögmanns kæranda dags. 2. september, 2003, er kærð  ákvörðun kærða dags. 11. júlí 2003 að synja kæranda um leyfi til hundahalds. Er krafa lögmanns kæranda sú að ákvörðun kærða verði hrundið og umrætt leyfi til hundahalds verði veitt án frekari tafa.  Í erindinu mótmælir lögmaður kæranda rökstuðningi kærða sem fráleitum að til rýmis skv. ákvæðum 13. tl. A-liðar í 1. mgr. 41. gr. l. nr. 26/1994 um fjöleignarhús teljist a) gangstéttin heim að húsinu, b) tröppur og pallur við útihurðir, c) skyggni yfir útidyrum, d) pallur milli útihurða e) lóð og f) sorpgeymsla.  Vísar lögmaður kæranda til þess að við túlkun hugtaksins húsými beri að líta til þeirrar skilgreiningar sem finna megi í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. l.nr. 26/1994 um fjöleignarhús en þar sé húsrými skilgreint sem gangar, stigar, geymslur, kyndiklefar, þvottahús, þurrkherbergi, kæliklefar, tómstundaherbergi, vagna- og hjólageymslur, háaloft, risloft o.sv.frv. án tillits til legu, nýtingarmöguleika og nýtingarþarfa einstakra eigenda í bráð og lengd.  Eina sameiginlega rými eigenda húsnæðisins að Breiðvangi 38 í Hafnarfirði sé sorptunnugeymsla.  Lögmaður kæranda sendir með stjórnsýslukæru þar sem mótmælt er ákvörðun kærða og rökstuðningi í bréfi dags. 11. júlí, 2003.  Lögmaður kæranda bendir á að fasteignin að Breiðvangi 38 skiptist í 2 aðgreinda hluta og ekki sé um að ræða neitt sameiginlegt rými.  Telur lögmaðurinn að sameiginlegur garður falli ekki undir skilgreininguna rými í skilningi laga um fjöleignarhús og tilvísun kærða í tröppur og gangstéttir sé með öllu óskiljanleg í þessu samhengi.  Þá telur lögmaður kæranda að ekki sé rétt með farið í bréfi kærða þegar sagt sé að eftirlitinu sé heimilt að falla frá kröfu um samþykki allra meðeigenda þegar fullnægt sé ákvæðum 13. tl. 1. mgr. 41. gr. nr. 26/1994. Rétt sé að starfsmönnum kærða sé það beinlínis skylt.  Umrætt ákvæði beri að túlka rúmt en ekki þröngt og ákvæði reglugerða og samþykkta bæjarins verði að byggja á lagaákvæðinu með heimild í lögunum sjálfum og megi ekki fela í sér frekari takmarkanir en ákvæðið sjálft bjóði upp á.   Vísar lögmaður kæranda og til takmarkana á persónufrelsi en allar takmarkanir verði að vera skýrt tilgreindar í lögum.  Vísar lögmaður til ákvæðis stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs.  Telur lögmaður kæranda ljóst vera að íbúð kæranda hafi séringang og að hann og fjölskylda hans deili engu sameiginlegu rými með nágrönnum og sé því samþykki nágranna ónauðsynlegt.

III.

Í  greinargerð kærða dags. 17. október 2003 kemur fram að tilgangur sveitarfélagsins með samþykkt um hundahald sé að vinna að því að slíkt  gæludýrahald valdi sem minnstu ónæði fyrir aðra íbúa og skapa þannig sátt milli þeirra sem halda vilja hunda og þeirra sem séu á móti hundahaldi.  Kemur og fram að lengi vel hafi hundahald verið bannað í Hafnarfirði, en þegar ákveðið hafi verið að leyfa það með takmörkunum hafi heilbrigðisnefnd krafist, vegna hollustuhátta sjónarmiða, samþykkis meðeigenda í fjöleignahúsum nema það sé augljóslega óþarft.  Bendir kærði á að hundahaldi geti fylgt óþægindi vegna óþrifa og ónæðis og hundar geti valdið hræðslu.  Hafi því helbrigðisnefnd litið svo á að það sé fullgilt hollustuháttasjónarmið sem gildi fyrir alla, að geta gengið inn og út úr híbýlum sínum og hafst við á sinni lóð.  Því séu fullgild málefnaleg sjónarmið fyrir því að krefjast samþykkis meðeigenda þegar aðstæður séu þannig.  Það að krefja um samþykki meðeigenda byggi því á þeirri skyldu umsækjanda að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar.  Vísar kærði til þess að þessi afstaða nefndarinnar sé í fullu samræmi við ákvæði 13. og 35. gr. fjöleignahúsalaga nr. 26/1994.  Kærði tekur fram að heilbrigðisnefnd hafi ekki haldið því fram að gangstétt heim að húsinu, tröppur og pallur við útihurðir, skyggni yfirútidyrum, pallur milli utihurða eða lóð teldust til húsrýmis skv. ákvæðum 13. tl. A í 1. mgr.41. gr. laga nr. 26/1994.  Leggi heilbrigðisnefnd áherslu á að aðstæður varðandi þetta rými utandyra séu sambærilegar við sameiginlegt rými innan dyra.  Ástæða sé til að vekja athygli á að sorpgeymsla sé í sérstöku sameiginlegu húsrými og að þessu húsrými verði að fara um umræddan pall við útihurðir og sameiginlega gangstétt þegar farið sé í sorpgeymslu.  Ekki hafi því verið haldið fram að hundurinn hafi hafst þar við.  Þá upplýsir kærði að frá því synjað hafi verið um leyfi til hundahalds hafi borist ein kvörtun vegna hundahaldsins.

Í svarbréfi kærða dags. 24. júní, 2004 til kæranda komi fram að kærði telur liggja ljóst fyrir að afla beri samþykkis meðeigenda í húsinu. Vísar kærði til ákvæða í 4. gr. samþykktar um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 þar sem áskilið sé samþykki allra meðeigenda fjöleignahúss ef við eigi.  Kemur ennfremur fram að kærða sé heimilt að falla frá kröfu um samþykki allra meðeigenda þegar fullnægt sé ákvæðum 41. gr. l. nr.26/1994.

IV.

Deilt er í máli þessu um hvort samþykki sameigenda fjöleignahúss þurfi til útgáfu leyfis um hundahald.  Í 1. gr. samþykktar um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi kemur fram að hundahald á svæðinu sé takmarkað með skilyrðum skv. samþykktinni.  Í 5. gr. samþykktarinnar segir  að um hundahald í fjöleignahúsi gildi ákvæði laga nr. 26/1994 með síðari breytingum.  Ákvæði  13. tl. 41. gr. l.nr. 26/1994 hljóðar svo :”Um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.”
Með tilvísan til þessa ákvæðis og aðstæðna við fasteign er ljóst að samþykki meðeigenda fasteignarinnar að Breiðvangi 38 í Hafnarfirði þarf til útgáfu leyfis til hundahalds.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu lögmanns kæranda um að ákvörðun kærða verði hrundið og umrætt leyfi til hundahalds verði veitt, er hafnað.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/2/04

3/2003 Úrskurður vegna kæru er varðar fjórar númerslausar bifreiðar á einkalóð.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, miðvikudaginn 30. júní, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2003  Össur Kristinsson og Björg Rafnar Sæbólsbraut 42 í Kópavogi  gegn Heilbirgðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 I.

Stjórnsýslukæra  Péturs Guðmundarsonar hrl. f.h. Össurar Kristinssonar og Bjargar Rafnar, eigenda Sæbólsbrautar 42 í Kópavogi hér eftir nefnd kærendur, barst nefndinni m. bréfi dags. 1. júlí, 2003.  Gögn sem með fylgdu eru :

1)      Litmyndir af bifreiðum.

Afrit af gögnum var sent Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefnt kærði og  er greinargerð dags. 10. september, 2003.

 II.

Stjórnsýslukæran snýst um fjórar númerslausar bifreiðar sem staðsettar eru á ófrágengnu svæði á einkalóð Sæbólsbrautar 40 í Kópavogi.  Í stjórnsýslukæru er gerð sú krafa að úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun heilbrigðisnefndar í málinu verði ógilt, en ákvörðun kærða var að ástand bifreiða, staðsetning og framkvæmdir á lóðinni að Sæbólsbraut 40 í Kópavogi  gæfu ekki tilefni til frekari afskipta.  Jafnframt er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir heilbrigðisnefnd að annast um að fjarlægja bílhræin og að beitt verði að öðru leyti þeim viðurlögum sem fyrir hendi eru á grundvelli 10. gr. heilbrigðissamþykktar nr. 251/2000.

Til skýringar sendi lögmaður kærenda myndir sem teknar hafa verið af umdeildum bifreiðum.   Bendir lögmaður kærenda á að steyptur veggur afmarki lóðir umbjóðenda sinna og eiganda Sæbólsbrautar 40.  Hafi veggurinn verið byggður í samræmi við útgefið leyfi bæjaryfirvalda í Kópavogi.  Eftir að veggur hafi verið reistur hafi eigandi Sæbólsbrautar 40 lagt umræddum “bílhræjum” í skurðinn.  Þetta valdi því að ekki hafi tekist að ganga frá framkvæmdum og byggingu veggjarins að Sæbólsbraut 42, þó leyfi hafi verið veitt fyrir þeim framkvæmdum.  Þá telur lögmaður kærenda að staðsetning bifreiðanna gangi gegn ákvæðum samþykktar um umgengni og þrifnað utanhúss í umdæmi kærða.  Sérstaka athygli vekja kærendur á því að bifreiðarnar séu skráningarskyld ökutæki og skv. því skuli bifreiðar sem geymdar eru, vera  á þar til gerðum stæðum sem samþykkt hafi verið af byggingaryfirvöldum.  Skurður þessi sé ekki samþykktur sem bílastæði og því hafi kærði brotið gegn samþykktinni að þessu leyti.

Lögmanni kærenda var sent bréf og greinargerð kærða.  Ekki taldi hann ástæðu

til frekari umfjöllunar um málið.

III.

Stjórnsýslukæra var send kærða.  Greinargerð kærða ásamt meðfylgjandi gögnum er dagsett 10. september 2003.  Greinir kærði frá því að lögmaður kærenda hafi óskað skriflegra svara um hvort kærði léti óátalið að umrædd bílhræ, eins og það sé orðaði í erindinu, standi í óvarinni holu á lóðarmörkum og hafi verið vísað til ákvæða heilbrigðissamþykktar nr. 251/2000.   Hafi jafnframt verið bent á að lóðarmörkin væru ófrágengin vegna framkvæmda eigenda Sæbólsbrautar 42 í samræmi við útgefið byggingaleyfi Kópavogsbæjar og hafi ekki tekist að ljúka framkvæmdum vegna afstöðu eigenda lóðarinnar að Sæbólsbraut 40.  Kveður kærði að í svarbréfi sínu sem sent hafi verið sem símbréf sama dag og erindi barst, hafi verið gerð grein fyrir fyrr aðkomu kærða að málinu og hvers vegna kærði myndi ekki skipta sér af umræddum bifreiðum á grundvelli tilgreindrar heilbrigðissamþykktar.  Um rök fyrir höfnun afskipta af málinu vísar kærði til efnisreglna vegna afskipa af íbúðalóðum.  Er í greinargerð kærða bent á að þegar heilbrigðiseftirlit í umboði heilbrigðisnefndar hafi afskipti af númerslausum bifreiðum eða öðrum hlutum á íbúðalóðum séu eftirfarandi efnisreglur hafðar að leiðarljósi:

1)      Eignarréttur sé verndaður af stjórnarskrá, hann sé friðhelgur og engan megi  skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, til þess þurfi lagafyrirmæli.

2)      Heimilt hafi þó verið að setja í lög reglur þar sem eigendum fasteigna sé gert að þola eignarskerðingar af hollustuhátta og mengunarvarnaaástæðum.  Þetta nái þó ekki til óvenjulegra aðgerða og gæti valdið því að stjórnvald verði skaðabótaskylt.

3)      Þau lagaákvæði sem komi til skoðunar séu lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998  og reglugerðir og heilbrigðissamþykktir.  Aðallega reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002, heilbrigðissamþykkt nr. 251/2000. Þá beri og að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

4)      Vísar kærði til 20. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, þar sem fram komi að bannað sé að skilja eftir flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið gæti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu.  Ekki séu í ákvæðinu nein fyrirmæli um númerslausar bifreiðar en um þær sé fjallað sérstaklega í 21. gr. þar sem fjallað sé um heimild til að fjarlægja hluti sem séu á almannafæri.

5)      Í 6.gr reglugerðar um úrgang nr. 805/1999 komi fram að bannað sé að skilja eftir, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið gæti skaða, mengun eða lýtum á umhverfi.  Þetta gildi jafnt um smærri sem stærri hluti og þá sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun t.d. með álímingarmiða.  Í reglulgerðinni sé úrgangur skilgreindur “ hvers kyns efni eða hlutir sbr. 1. viðauka með reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt”.

6)      Kærði vísar til álits umboðsmanns Alþingis 1994:93 sem fjalli um samsvarandi ákvæði eldri heilbrigðisreglugerðar.  Komi þar fram sú skoðun að heilbrigðiseftirliti sé ekki heimilt að fjarlægja númerslausar bifreiðar nema af þeim sé lýti eða að þær geti valdið skaða eða mengun í umhverfinu.

7)      Kærði getur þess að skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 sé sveitarfélögum heimilt að setja samþykktir þar sem gerðar eru ítarlegri kröfur um einstök atriði enda falli þau atriði undir lögin. Slíkt hafi verið gert með samþykkt nr. 251/2000.

8)      Kærði vísar og til þess að geymsla og notkun bifreiða og annarra skráningarskyldra ökutækja geti valdið ýmsum óþægindum s.s. hávaða, loftmengun, óþrifnaði og óprýði.  Ákvæði 4. gr. samþykktar nr. 251/2000 sé túlkuð út frá skilgreiningum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir út frá þessum atriðum.  Bílhræ séu sjaldnast skráningarskyld og séu metin út frá reglugerð um úrgang og 20. gr. reglugerðar um hollustuhætti.

Kærði vísar til þess að lóðin við Sæbólsbraut 40 í Kópavogi sé einbýlishúsalóð.  Íbúðarhús á lóðinni hafi verið byggt áður en Kópavogur hafi orðið sérstakt sveitarfélag skv. upplýsingum sem kærði hafi aflað sér.  Ekki liggi fyrir samþykktar teikningar af byggingayfirvöldum um skipulag lóðarinnar.  Á samþykktri afstöðumynd fyrir íbúðarhúsið að Sæbólsbraut 42 sé aðkoma og hluti bifreiðastæða fyrir Sæbólsbraut 40 sýnd nálægt lóðarmörkum umræddra húsa.  Kærði telur að við skoðun á umræddum fjórum bifreiðum sem staðsettar hafi verið á lóðinni hafi komið í ljós að þær hafi ekki litið illa út .  Hafi því verið mat kærða að af þessum bifreiðum stafaði hvorki sú mengunarhætta né hlytust af þeim þau lýti að það réttlætti afskipti heilbrigðiseftirlitsins.  Kærði bendir á að ekki hafi verið haft samband við eiganda húss og lóðar að Sæbólsbraut 40, þar sem það hafi verið talið augljóslega óþarft.  Vekur kærði athygli á þessu þar eð úrskurðarnefnd hafi ákveðið að taka kæruna til meðferðar.

Kærði vísar enn á ný til þess að mat kærða hafi verið að ekki væru ástæður til að aðhafast frekar í málinu.

IV.

Með vísan til stjórnsýslulaga var eiganda lóðarinnar að Sæbólsbraut 40 gefinn kostur á að skila athugasemdum vegna málsins.  Skilaði hann inn bréfi þar sem vísað var til greinargerðar og gagna kærða í málinu.

V.

Í máli þessu snýst deilan um töku bifreiða sem standa á lóð að Sæbólsbraut 40 í Kópavogi.  Krafa kærenda er að sú ákvörðun kærða, að hafa ekki afskipti af umdeildum bifreiðum verði ógilt og jafnframt að úrskurðarnefnd leggi fyrir kærða að fjarlægja “bílhræin”.  Þá gerir lögmaður kærenda athugasemd vegna þess að ekki sé unnt að ganga frá framkvæmdum við vegg milli húsanna. Hvað varðar síðastgreinda málsástæðu  er hún ekki viðfangsefni nefndarinnar.  Svo sem fram er komið, er heimild í 20. gr. rgl. nr. 941 um hollustuhætti um að bannað sé að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfi.  Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.  Í 21. gr. sömu rgl. er heimild til töku númerslausra bifreiða bílflaka og sambærilegra hluta á almannafæri. Í samþykkt nr. 251/2000 um umgengni og þrifnað utan húss í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, kemur fram hliðstætt ákvæði og er í 20 gr. rgl. nr. 941/2002 og ennfremur í 3. gr. samþykktanna að óheimilt sé að geyma hvers kyns drasl, bílhræ og þess háttar á lóðum þannig að það snúi að almannafæri.

Með tilvísan til framangreinds verður að telja að efnisleg skilyrði til töku bifreiða séu þau að þær geti valdið skaða, mengun eða lýtum á umhverfi sínu.  Mat kærða í málinu er það að ekki sé efnislegum skilyrðum til að dreifa til töku bifreiðanna.  Fallist er á það mat.

Varðandi tilvísan kærenda til 4. gr. fyrrgreindra samþykktar um umgengni og þess að bifreiðar verði að standa á þar til gerðum stæðum sem samþykkt hafa verið af byggingaryfirvöldum er vísað til greinargerðar kærða.  Þar kemur fram að íbúðarhúsið við Sæbólsbraut 40 var byggt áður en Kópavogur varð sérstakt sveitarfélag.  Því liggja ekki fyrir samþykktar teikningar af byggingayfirvöldum um skipulag lóðarinnar, en hluti bifreiðastæða fyrir fasteignina er sýndur nálægt lóðarmörkum umræddra húsa.  Verður því ekki fallist á kröfu kærenda varðandi þetta.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfur kærenda um töku bifreiða.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 8/10/04

2/2004 Úrskurður vegna kæru húsfélagsins Miðhrauni 22, Garðabæ gegn Garðabæ.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, miðvikudaginn 27. október, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2004  Húsfélagið Miðhrauni 22 í Garðabæ, gegn Garðabæ.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra  Ragnars H. Hall f.h. húsfélagsins að Miðhrauni 22 í Garðabæ hér eftir nefndur kærandi er dags. 30. mars s.l. en barst nefndinni 6. apríl.  Gögn sem með fylgdu eru :

1)      Bréf lögmanns kæranda til bæjarstjóra Garðabæjar 24. október 2001 ásamt ljósriti lóðarleigusamnings og fylgiskjals.

2)      Bréf bæjarstjóra Garðabæjar til lögmanns kæranda dags. 13. nóvember 2001.

3)      Bréf lögmanns til bæjarstjóra Garðabæjar 15. janúar 2002.

4)      Bréf Vega ehf. til Hollustuverndar ríkisins 22. janúar 2002.

5)      Bréf bæjarritara Garðabæjar til lögmanns kæranda 23.janúar, 2002.

6)      Bréf lögmanns kæranda til bæjarritara Garðabæjar 27. mars, 2002.

7)      Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til Rafal ehf. 24. maí 2002.

8)      Bréf byggingarfulltrúa Garðabæjar til Rafal ehf. 11. nóvember 2002.

9)      Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til Rafal ehf. 3. febrúar 2003.

10)  Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til Vega ehf. 3. febrúar 2003.

11)  Bréf kæranda til bæjarstjórnar Garðabæjar 26. febrúar 2003.

12)  Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til kæranda 27. mars, 2003.

13)  Bréf Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til Kjarnavara ehf. 29. október, 2003.

14)  Samþykkt nr. 329/1991 um notkun og hreinsun rotþróa í Garðabæ, útg. af umhverfisráðuneytinu 19. júní, 1991.

15)  Leiðbeiningar UST-09/01 um rotþrær og siturlagnir, útg. í febrúar 2003.

Afrit af gögnum lögmanns kæranda var sent Garðabæ, hér eftir nefndur kærði, með bréfi dags. 28. apríl s.l. Ítrekun var send 25. maí s.l.    Svarbréf kærða dags 7. júní barst nefndinni  og var í því bréfi óskað eftir ótilgreindum fresti meðan unnið yrði að sáttum í málinu.  Bréf var sent kærða að nýju þar sem fram var tekið að ekki væri unnt að veita ótilgreindan frest.  Afrit af bréfi kærða var sent lögmanni kæranda sem greindi frá símtali frá kærða en að ekkert frekar hefði gerst í málinu.  Ítrekaði lögmaður kröfu um úrskurð. Þrátt fyrir ítrekaðar bréfaskriftir til kærða hafa engin gögn borist frá honum.  Með bréfi dags. 14. október, var enn á ný ítrekað við kærða að skila gögnum og honum gerð grein fyrir því að málið yrði ella úrskurðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

II.

Krafa kæranda er að því verði slegið föstu með úrskurði nefndarinnar að fráveitukerfi fyrir Molduhraun í Garðabæ sé ósamþýðanlegt ákvæðum reglugerðar nr. 798/1999 og að bæjaryfirvöldum í Garðabæ sé skylt að koma þar upp sameiginlegu fráveitukerfi án ástæðulausrar tafar.

Kveður lögmaður kæranda grunnleigusamning hafa verið gerðan milli kæranda og byggingarfyrirtækis sem hafði fengið útlhlutað lóðinni nr. 22 við Miðhraun í Garðabæ, en umrædd lóð sé í svokölluðu Molduhverfi þar í bæ.  Í 7. gr. samningsins sé svohljóðandi ákvæði :

“Hin leigða lóð er í iðnaðarhverfi og er sem slík eingöngu ætlað fyrir iðnaðar- og þjónustustarfsemi.  Aðrar kvaðir :  Kvöð er um rotþró þar til holræsakerfi kemur í hverfið, einnig er kvöð um trjágróður og lagnir eins og sýnt er á viðfestum uppdrætti”

Kveður lögmaður kæranda byggingarfélagið hafa komið fyrir rotþró samkvæmt teikningum og tengt frárennslislagnir frá húsinu við hana.  Siðan hafi félagið selt einstaka húshluta .  Núverandi eigendur húshlutanna hafi stofnað með sér húsfélag sem fram komi fyrir þeirra hönd í máli þessu, en þessir eigendur hafi allir fengið lóðarréttindi sín framseld um leið og þeir festu kaup á eignarhlutum í húsinu.

Lögmaður kæranda kveður að þegar liðið hafi á árið 2001 og komið hafi verið í ljós að rotþróarkerfið í hverfinu hafi hvergi nærri annað hlutverki sínu, hafi bæjarstjóra Garðabæjar verið ritað bréf og bent á að búið væri að leggja holræsakerfi í hverfið í Molduhraun, en frárennsli frá Miðhrauni 22 hafi þó ekki verið tengt við það.  Óskað hafi verið eftir svörum um það hvernig bæjaryfirvöld hygðust standa að tengingu hússins við holræsakerfið og hvenær þess mætti vænta að því lyki.

Lögmaður kæranda bendir á að allnokkrar bréfaskriftir hafi orðið milli einstakra eigenda eignarhluta í Miðhrauni 22 og kærða og fylgi nokkur skjöl erindi þessu til að varpa ljósi á hvað farið hafi milli aðila og hvernig haldið hafi verið á málinu af hálfu kærða.  Vísar lögmaður til bréfs bæjarverkfræðings kærða til Rafals ehf. í Kópavogi 24. maí 2002, ( fylgiskjal nr. 7) en þar komi t.d. fram : að vegna kvartana um “tregðu hraunsins við að taka við frárennsli frá rotþróm” hafi bæjaryfirvöld ákveðið að fá óháðan aðila til að gera úttekt á stöðu “þessara mála” í hverfinu.  Verkfræðistofan Línuhönnun hafi verið fengin til þessa verkefnis.  Niðurstöður þeirrar athugunar séu ekki einhlítar, en þó sé ljóst að víðar séu vandamál með frárennsli en frá því eina húsi, sem hafi verið tilefni athugunarinnar.  Síðan komi fram :” Með hliðsjón af framangreindri skýrslu og því ástandi sem hún lýsir hyggjast bæjaryfirvöld bregðast við á þann hátt að flýta undirbúningi byggingar dælustöðvar fyrir hverfið og tengingar skolplagnakerfisins við Hafnarfjörð í samræmi við samning við Hafnarfjarðarbæ þar um “.

Lögmaður kæranda greinir frá því að bæjarverkfræðingur kærða hafi svo ritað eigendum eignarhluta í Miðhrauni 22 bréf 3. febrúar 2003 og kveði þar við nýjan tón.  Komi þar fram að í kjölfar bréfs sem ritað hafi verið 11. nóvember 2002 hafi heilbrigðiseftirlit og þjónustumiðstöð kærða látið gera lauslega úttekt á frárennsliskerfi hússins að Miðhrauni 22.  Niðurstaða þeirrar athugunar hafi verið sú að frárennsliskerfið sé “ í megnasta ólagi og hefur væntanlega aldrei verið lagt í samræmi við reglur þar um.”.  Kveður lögmaður kæranda að í bréfinu séu tiltekin ýmis atriði sem talin séu vera í ólagi og því síðan slegið fram að öll ábyrgð á þessu ástandi sé á ábyrgð kæranda og að þeim beri skylda til að hlutast til um að fundin verði lausn á því sem í ólagi sé.  Meðan ástand rotþróar sé með þessum hætti geti bæjarfélagið ekki réttlætt kostnað við hreinsun rotþróar umfram það sem venjulegt geti talist eða u.þ.b. einu sinni á ári.

Kveður lögmaður kæranda að fulltrúar kæranda hafi eftir þetta beint skriflegum fyrirspurnum til kærða um hvernig stjórnendur kærða skýri ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp nr. 798/1999 sem virðist eiga við í þessu mál.  Kærendur hafi ekki fengið viðhlítandi svör við þeim spurningum.

Það er skoðun eigenda Miðhrauns 22 að svör kærða við erindum þeirra um þetta mál einkennist af staðföstum ásetningi bæjaryfirvalda um að hundsa ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og hafa að engu fyrirmæli áðurnefndrar reglugerðar, sem sett sé með stoð í þeim reglum .  Hafi þetta valdið eigendum fasteignarinnar umtalsverðum kostnaði og rýri stórlega möguleika þeirra á nýtingu eignarinnar og þar með verðgildi hennar.  Telur kærandi að fullreynt sé að hægt sé að ná nokkru samkomulagi við kærða um lausn á málinu, en fram sé komið að kærði hafi engin áform um aðgerðir í fráveitumálium í fyrirsjáanlegri framtíð, sem leyst geti það vandamál sem þarna sé til staðar.

Um lagarök vísar lögmaður kæranda til reglugerðar nr. 798/1999 sem sett sé skv. heimild í 5. gr. l. nr. 7/1998.  Telji lögmaður kæranda að eftirtalin ákvæði rgl. komi hér einkum til skoðunar :

1)      Skilgreiningar í 3. grein :

2)      3.10 Fráveita er leiðslukerfi þ..m.t. safnræsi , og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps.

3)      3.16  Iðnaðarskólp er skólp annað en húsaskólp og ofanvatn sem losað er frá húsnæði eða annarri aðstöðu sem notuð ser til atvinnurekstrar.

4)      3.25  Rotþró er tankur til botnfellingar og hreinsunar á föstu sviflægu efni úr skólpi.

5)      Í grein 13.1 er sett sú meginregla, að á öllum þéttbýlisstöðum, þéttbýilissvæðum og eftir atvikum þyrpingu frístundahúsa, skóla og ferðaþjónustumiðstöðva, skuli vera fráveita.  Frá þeirri reglu séu síðan í sömu grein nokkur undantekningarákvæði þar sem hiemilað sé að notast við rotþró og siturleiðslur.  Dæmi um slíkt séu íbúðarhús lögbýla, frístundahús og fjallaskálar.  Ljóst megi vera að stórhýsi í sérstökum iðnaðar- og atinnuhverfjum í stærstu sveitarfélögum landsins falli ekki undir slíkar undantekningar.

6)      Lögmaður kæranda bendir á að ákvæði um fráveitur séu í V. kafla reglugerðarinnar.  Þar komi fram í 16.1:

7)      “Í hverfi íbúðarhúsa, frístundahúsa, atvinnuhúsnæðis og þar sem fram fer umfangsmikið tómstundastarf skal komið á sameiginlegu fráveitukerfi, sbr. þó 3. mgr. 18. gr.  Þar sem skólpi frá einstökum húsum verður ekki veitt í sameiginlega fráveitu skuli veita því eftir vatnsheldum lögnum í rotþrær og siturlög eða sansíu eða annan sambærilegan búnað.  “

III.

Í máli þessu gerir lögmaður kæranda þær kröfur að úrskurðað verði að fráveitukerfi fyrir Molduhraun í Garðabæ sé ósamþýðanlegt ákvæðum reglugerðar nr. 789/1999 og kærða sé skylt að koma þar upp sameiginlegu fráveitukerfi án ástæðulausrar tafar.  Eins og áður er fram komið hefur kærði engum gögnum skilað þrátt fyrir ítrekanir.

Af gögnum málsins er ljóst að ástand fráveitukerfis í Molduhrauni í Garðabæ er

ekki viðunandi.  Kemur m.a. fram í bréfi kærða dags. 24. maí, 2004 að ljóst sé að víðar séu vandamál með frárennsli en í því eina húsi sem verið hafi tilefni til athugunarinnar.  Þá er greint frá því að við hönnun rotþróa hafi ekki alltaf verið tekið tillit til nauðsynlegrar stærðar miðað við þá starfsemi sem síðar hafi orðið í húsunum, þannig séu siturbeð líklega of stutt og ekki hafi verið losað um hraunklöppina undir siturbeðunum í því skyni að auka lekt hraunsins.

Sú krafa er sett fram í reglugerð nr. 798/1999 að á öllum þéttbýlisstöðum, þéttbýlissvæðum og eftir atvikum þyrpingu frístundahúsa, skóla og ferðaþjónustumiðstöðva skuli vera fráveita.  Í sömu reglugerð kemur fram að þar sem skólpi verði ekki veitt í sameiginlega fráveitu skuli veita því í rotþrær.  Í samþykkt nr. 329/1991 um notkun og hreinsun rotþróa í Garðabæ kemur fram skylda bæjarins til þess að hreinsa og tæma rotþrær. Ennfremur kemur þar fram heimild kærða til þess að innheimta viðbótargjald fyrir óvenjumikinn kostnað við hreinsun og tæmingu.  Af framansögðu er ljóst að kærði ber ábyrgð á hreinsun rotþróa.   Með vísun til framangreinds er fallist á þá kröfu kæranda að fráveitukerfi og hreinsun rotþróa við Molduhraun í Garðabæ sé ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999.  Vísað er frá kröfu kæranda um að kærða sé skylt að koma upp sameiginlegu fráveitukerfi.  Ekki er á verksviði nefndarinnar að kveða á um slíkt.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um að fráveitukerfi við Molduhraun í Garðabæ sé ekki í samræmi við ákvæði rgl. nr. 798/1999.  Kröfu kæranda um að kærða sé skylt að koma upp sameiginlegu fráveitukerfi er vísað frá.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/2/04

5/2002. Úrskurður vegna erindis Faxa ehf. gegn Bæjarveitum Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæ vegna ágreinings um álagningu sorpeyðingargjalda.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004 miðvikudaginn 19. maí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2002 Faxi ehf. gegn Bæjarveitum Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Erindi lögmanns Faxa ehf., hér eftir nefndur kærandi barst nefndinni m. bréfi dags. 16. september, 2002. Gögn sem með fylgdu eru :

1) Afrit af bréfi Faxa ehf. dags. 07.07.2000.

2) Afrit af svarbréfi Bæjarveitna dags. 12.07.2000.

3) Afrit af bréfi Geisla dags. 24.07.2000.

4) Afrit bréf Bæjarveitna dags. 31.07.2000..

5) Afrit af bréfi Geisla dags. 09.08.2000.

6) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 22.01.2001.

7) Afrit af bréfi Bæjarveitna dags. 29.01.2001.

8) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 20.06.2001.

9) Afrit af bréfi Bæjarveitna dags. 27.06.2001.

10) Afrit af bréfi lögmanns félags kaupsýslumanna dags. 01.08.2001.

11) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 02.08.2001.

12) Afrit af bréfi Bæjarveitna dags. 15.09.2001.

13) Afrit af bréfi lögmanns dags. 26. 10.2001.

14) Afrit tölvupósts frá bæjarstjóra og stjórnarformanni bæjarveitna dags. 01.02.2002.

15) Afrit af bréfi lögmanns Faxa ehf. dags. 03.06.2002.

Afrit gagna þessara voru send Bæjarveitum Vestmannaeyja til umsagnar með bréfi dags. 1. febrúar 2003. Greinargerð Bæjarveitna, hér eftir nefndur kærði, er dags. 31. október 2003. Greinargerð sú var send lögmanni kæranda sem svaraði með greinargerð dags. 24. 11. 2003.

II.

Í erindi lögmanns kæranda sem tekið var sem stjórnsýslukæra, er óskað úrskurðar um ágreining aðila um álagningu sorpeyðingargjalda. Kveður lögmaður kæranda að breytingar hafi orðið á álagningu sorpeyðingargjalda á árinu 2000 á grundvelli nýrrar gjaldskrár Bæjarveitna Vestmannaeyja sem byggst hafi á rúmmálsmagni sorps. Lögmaður kveður kæranda hafa mótmælt gjaldinu með bréfi sínu dags. 7. júlí, 2000, en þá hafi og verið óskað endurgreiðslu á 2/3 hlutum sorpeyðingargjalds. Hafið gjaldið hækkað úr kr. 56.025,- í kr. 203.289,- fyrir árið 2000, en starfsemi kæranda hafi lítið eða ekkert breyst. Erindi kæranda hafi verið svarað með því að greiðsluseðill væri í fullu samræmi við það sorpmagn sem borist hafi árið 1999 og yrði fjárhæð því ekki leiðrétt. Í framhaldinu hafi kærandi óskað upplýsinga um hvaða starfsmenn hafi komið með sorp og hvenær og jafnframt var óskað eftir kvittunum fyrir móttöku sorps. Í svarbréfi kærða kom fram að um væri að ræða aðferð sem bæjaryfirvöld hefðu komið sér upp til að skipta kostnaði við sorpeyðingu sem réttast milli þeirra aðila sem greiða eigi fyrir þjónustu. Ennfremur fylgdi með tafla yfir sorp sem Geisli fyrirtæki kæranda átti að hafa skilað af sér á árinu 1999. Í bréfi lögmanns kæranda frá 22. janúar 2001 er greint frá því að ágreiningurinn í málinu snúist um magn sorps sem metið væri frá kæranda til grundvallar álagningu sorpeyðingargjaldsins. Óskað var eftir upplýsingum um aðferðir við mælinguna, og kröfur um aðferðir. Ennfremur var óskað eftir rökstuðningi um hvernig sorpmagn sé fundið út og á hvaða forsendum mæling hafi farið fram, þar sem ágreiningur snúist um þá framkvæmd. Í svarbréfi kærða kemur fram að gjald fyrirtækja standi aðeins undir 80% þess kostnaðar sem af sorpeyðingu fyrirtækja hljótist. Gjaldinu sé skipt á fyrirtæki eftir skráningu sem framkvæmd sé, en slíkt verði að teljast mun nákvæmari aðferð en sú áætlun sem áður hafi verið notuð og hafi byggt á huglægu mati þeirra sem gjaldið hafi ákveðið. Kemur fram að ekki sé tekið gjald umfram kostnað og gjaldinu skipt réttlátlega milli aðila eftir hlutfalli af heildarmagni sorps sem tekið hafi verið á móti. Enn á ný ritaði lögmaður kæranda bréf nú fyrir hönd annarra hagsmunaaðila í Vestmannaeyjum. Í bréfi kærða kemur fram að mat á magni sorps frá hverju fyrirtæki fyrir sig sé sjónrænt mat og vegna gagnrýni á matsaðferðir verði komið upp vikt til þess að um nákvæmari aðferðir verði að ræða við ákvörðun magns sorps.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 31. október 2003. Gerir kærði þá kröfu að erindi kæranda verði vísað frá nefndinni. Telur kærði að hvorki verði með góðu móti ráðið hvaða ágreiningi sé skotið til nefndarinnar né hvers sé krafist. Fari lögmaður kæranda fram á að álagning sorpeyðingargjalda verði skoðuð þar sem brotinn hafi verið réttur á kæranda með álagningu gjaldanna og að slík álagning sé óréttmæt og órökstudd. Telur kærði óljóst til hvaða ára kæra lögmannsins taki og hver raunveruleg afmörkun kæruefnisins sé. Vísar kærði til þess að álíta megi að farið sé fram á úttekt nefndarinnar á sorpeyðingarmálum Vestmanneyinga. Þá gerir kærði þá kröfu að erindi verði vísað frá nefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn.

Kærði kveður að í stuttu máli megi segja að sorpeyðingargjald í Vestmannaeyjum byggist á gjaldskrá sem kveði á um að notendur sorpeyðingarstöðvarinnar í Vestmannaeyjum skuli greiða fyrir þá þjónustu sem þeir nota. Til að finna út álagningu hvers notanda fari fram skráning á magni þess sorps sem notendur komi með til eyðingar og hvernig það sé meðhöndlað. Hafnar því kærði alfarið að álagning gjaldanna sé órökstudd, sem og að álagning byggist á áætlun kærða. Kærði kveður að allt frá árinu 1993 hafi sorpeyðingargjöld verið lögð á alla atvinnustarfsemi í Vestmannaeyjum. Hafi gjaldið í upphafi verið miðað við áætlað sorpmagn frá hverjum og einum greiðanda og eyðingargjald innheimt samkvæmt því. Álagning hafi því alfarið verið byggð á huglægu mati. Vegna óánægju greiðenda og ónákvæmni í slíkri gjaldtöku hafi verið leitað nýrra leiða við að ákvarða álagningu sorpeyðingargjalds í Vestmannaeyjum. Hafi gjaldskráin fyrst í stað verið ákvörðuð með þeim hætti að gjaldskrárstofn ársins hafi verið ákveðinn skv. fjárhagsáætlun sorpeyðingarstöðvarinnar og hafi fyrirtæki stofnanir og lögaðilar í Vestmannaeyjum verið látin greiða 55% af kostnaði, en 45 % hafi fallið á hinn almenna íbúa Vestmannaeyjabæjar og sé sá hluti innheimtur í gegnum fasteignagjaldstofn hvers árs. Kostnaðarsamsetning hafi verið fundin út af ráðgjafarfyrirtæki. Þá kemur ennfremur fram í greinargerð kærða að til þess að koma í veg fyrir að álagning vegna sorpeyðingar yrði ákveðin með huglægu mati starfsmanna bæjarveitna hafi verið ákveðið að starfsmenn í mótttökusal sorpeyðingarstöðvarinnar hæfust handa við að skrá magn þess sorps er komið væri með til eyðingar. Jafnframt hafi fjöldi losana verið skráður sem og hvort þurft hafi að meðhöndla sorpið með einhvejrum hætti. Þessi skráning hafi alla tíð síðan verið höfð til hliðsjónar þegar álagning sorpeyðingargjalda sé ákvörðuð ár hvert. Á grundvelli þessarar skráningar hafi verið hægt að ákvarða álagningu hvers og eins notanda með meiri nákvæmni en áður en jafnframt hafi það gerst að kostnaður hafi verið lagður meira á notendur frekar en að bæjarsjóður tæki á sig beinan kostnað við rekstur stöðvarinnar. Vegna þessa hafi sorpeyðingargjald hækkað hjá ákveðnum fyrirtækjum stofnunum og lögaðilum v. ársins 2000. Sú hækkun hafi hins vegar alfarið verið byggð á þessum skráningum.

Kærði bendir á að öllum fyrirtækjum stofnunum og lögaðilum hafi verið send auglýsing árið 1999 þar sem fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá hafi verið kynntar. Ennfremur að í dag sé í gildi gjaldskrá fyrir sorphirðu í Vestmannaeyjum nr. 352/2001 sem byggi á þeim grunni sem lýst hafi verið í þessari greinargerð.

Kærði vísar í greinargerðinni til þess sem fram komi í erindi lögmanns kæranda að sorpeyðing sé meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga og sé sveitarfélögum heimilt að leggja þjónustugjald á fyrirtæki og íbúa þess vegna veittrar þjónustu. Þau gjöld megi þó aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við slíka þjónustu. Bendir kærði ennfremur á að sveitarfélögum sé veitt heimild til tekjuöflunar með innheimtu þjónustugjalda fyrir þjónustu sem þau veiti. Þessi gjöld sé heimilt að innheimta hjá tilteknum hópum einstaklinga eða lögaðila fyrir sérgreint endurgjald sem látið sé í té af sveitarfélögum og sé greiðslunni ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við endurgjaldið sbr. 25. gr. l nr. 7/1998.

Kærði kveður að sé litið til markmiða með gjaldskrám vegna sorpeyðingargjalda í Vestmannaeyjum hafi ávallt verið leitast við að hafa gjaldskrá sanngjarna þannig að kostnaði við sorpeyðingu sé réttilega skipt niður á fyrirtæki, stofnanir og lögaðila eftir umfangi þess sorps sem frá þeim stafar. Hafi bæjaryfirvöld sett sér þá stefnu að tekjur af sorpeyðingargjöldum lögaðila stæðu undir a.m.k. 80% af raunkostnaði við eyðingu á sorpi. Til þess að ná fram þessum markmiðum hafi álagning sorpeyðingargjalda verið byggð á skráningu á því sorpmagni sem borist hafi frá hverju og einu fyrirtæki, stofnunum, lögaðilum eða einstaklingum sem stundi atvinnurekstur og hvernig sorpið hafi verið meðhöndlað. Þessar tölur séu síðan árlega notaðar við ákvörðun álagningar sorpeyðingargjalda fyrir hvern og einn greiðanda.

Kærði telur mikilvægt að gera því góð skil hvernig gjaldskrá fyrir sorphirðu í Vestmannaeyjum sé byggð upp, og vísar til þess að í 3. gr. gjaldskrárinnar segi að sorpeyðingargjald fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök miðist við magn úrgangs, en upphæð magngjaldsins fari eftir heildar sorpmagni sem til eyðingarstöðvar berst ár hvert. Því séu gjaldendur í reynd að greiða fyrir hlutdeild í sorpeyðingu á heildar sorpmagni sem stöðinni berst.

Kærði getur þess sérstaklega að gámaþjónustan í Vestmannaeyjum sem sjái um skráninguna hafi enga beina hagsmuni af skráningunni þar sem greiðsla til fyrirtækisins sé ekki háð því magni sem til eyðingar berist. Vísað er til langrar starfsreynslu starfsmanna fyrirtækisins og því lýst yfir að fjarri lagi sé að skráningin byggist alfarið á huglægu mati starfsmanna heldur byggist hún á athugun starfsmanna á magni þess sorps sem aðilar koma með til eyðingar og meðhöndlun þess sorps.

Í niðurlagi greinargerðar sinnar segir kærði að rétt sé að halda því til haga að tilgangur gjaldskrár og áðurlýsts fyrirkomulags sé einfaldlega að koma sorpmálum í Vestmannaeyjum í sem best horf þannig að þeir aðilar sem nýti sér þjónustu sorpeyðingarstöðvarinnar greiði fyrir notkun sína. Notkun sé fundin út með einfaldri skráningu við komu aðila með sorp til stöðvarinnar enda hafi ekki verið sýnt fram á að slík skráning sé röng eða ólögleg, þvert á móti verður að telja að hér sé notaður mælikvarði sem byggir á raunverulegri notkun hvers notanda og hann sé til þess fallinn að koma á sem réttlátastri skiptingu milli notenda í raunkostnaði við sorpeyðingu í Vestmannaeyjum.

IV.

Kröfugerð kæranda í kæru er ekki nægilega ljós. Fram kemur þó í svarbréfi lögmanns kæranda dags. 24.11.2003 að kvörtunin lúti að því að ekki sé lagagrundvöllur fyrir álagningu sorpeyðingagjalds án raunverulegrar magnmælingar. Kæran eða erindið snúi því að sjálfsögðu að því hvort slíkt sé heimilt eða ekki og taki til gjalda sem lögð voru á, á grundvelli nýrrar gjaldskrár, fyrst vegna gjalda sem innheimt voru árið 2000.

Kærði krefst þess að málinu verði vísað frá nefndinni þar sem ágreiningur eða kröfugerð séu ekki skýr og ennfremur að kærufrestur hafi verið liðinn þegar erindi kæranda kom fram. Ekki þykja vera þeir anmarkar á kröfugerðinni að málið sé ekki tækt til úrlausnar hjá nefndinni. Ekki er heldur fallist á að kærufrestur hafi verið liðinn. Kröfum um frávísun er því hafnað.

Í 25. gr l. nr. 7/1998 segir að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrár um innheimtu gjalda að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefnda. Gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Í gjaldskrá fyrir sorphirðu í Vestmananeyjum nr. 352/2001 miðast sorpeyðingargjald fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök við magn úrgangs. Magngjald (hámark) sé kr. 15.000,- fyrir hverja 10m3 (10.000 lítra) sorps. Upphæð magngjaldsins fari eftir heildarsorpmagni sem til stöðvarinnar berist. Þá er greint frá meðhöndlunargjaldi.

Gjöld vegna veittrar þjónustu sveitarfélaga mega ekki vera umfram veitta þjónustu. Fram kemur í lýsingu kærða að sú aðferð sem viðhöfð er við ákvörðun gjaldsins „að sorpeyðingagjald fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök miðist við magn úrgangs, en upphæð magngjaldsins fari eftir heildarsorpmagni sem til eyðingastöðvar berst hvert ár. Því séu gjaldendur í reynd að greiða fyrir hlutdeild í sorpeyðingu á heildar sorpmagni sem stöðinni berast“. Gjaldtaka af því tagi sem hér um ræðir, að fyrirtækjum, stofnunum og félagsamtökum sé gert að greiða fyrir þjónustu sveitarfélagsins á grundvelli áætlaðrar hlutdeildar í veittri þjónustu sveitarfélagsins, fær ekki stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998. Heimildin til gjaldtöku á grundvelli lagaákvæðisins byggir á því að gjaldtakan sé ákvörðuð vegna tiltekinnar, afmarkaðrar þjónustu sem sveitarfélagið er að veita hverju sinni. Fallast verður á það með kæranda að raunveruleg magnmæling sorps sé nauðsynleg til þess að skilyrði laganna um þetta atriði verði haldin. Með vísan til þess er fallist á kröfu kæranda um að raunveruleg magnmæling sorps verði að liggja til grundvallar gjaldi fyrir sorpeyðingu.

Úrskurðarorð:

Fallist er á það með kæranda að heimild sveitarfélaga til gjaldtöku á grundvelli 25.gr. laga nr. 7/1998 skuli byggja á því að verið sé að veita tiltekna, afmarkaða þjónustu hverju sinni. Raunveruleg magnmæling verði því að liggja til grundvallar gjaldi fyrir sorpeyðingu.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 5/27/04

8/2002 Úrskurður vegna erindis IP-studium Reykjavík ehf., varðandi ágreining þess og Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar um túlkun og framkvæmd laga nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004 mánudaginn 24. maí, kom nefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Lára G. Hansdóttir, Gísli Gíslason og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Gísli Gíslason tekur sæti Gunnars Eydals í máli þessu á hendur Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2002, kæra IP-studium Reykjavík ehf., hér eftir nefndur kærandi, vegna ágreinings þess og Umhverfis- og heilbrigðisstofu, hér eftir nefnd kærði, um túlkun og framkvæmd laga nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit.

Kæra dags. 16. desember 2002 barst úrskurðarnefnd í desember 2002. Kærunni fylgdu eftirtalin fylgiskjöl:

1. Afrit leigusamnings.

2. Afrit bréfs kærða, dags. 15. júlí 2002.

3. Afrit bréfs kærða, dags. 2. september 2002.

4. Afrit bréfs lögmanns kæranda, dags. 20. september, 2002.

5. Afrit bréfs kærða, dags. 2. október, 2002.

6. Afrit bréfs lögmanns kæranda dags. 4. október, 2002.

7. Afrit bréfs kærða, dags. 24. október 2002.

8. Afrit bréfs lögmanns kæranda dags. 31. október 2002.

9. Afrit bréfs kærða, dags. 23. nóvember 2002.

Afrit kærunnar ásamt ljósriti af fylgiskjölum var sent kærða, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar. Skilaði kærði greinargerð dags. 27. febrúar 2003. Greinargerð sú var send kæranda með bréfi dags. 22. apríl 2003 og barst svarbréf lögmanns kæranda með bréfi dags. 8. maí 2003.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.

Kæra er dagsett 16. desember 2002. Lýsir lögmaður kæranda málavöxtum þannig að með bréfi Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs dags. 15 júlí 2002 hafi kæranda verið tilkynnt að kærða hafi borist kvörtun um rottugang í Traðarkotssundi í Reykjavík og skemmdar frárennslislagnir því tengdu. Kveður lögmaður kæranda að fram hafi komið í bréfinu að við eftirlit ýmissa aðila á vegum Reykjavíkurborgar hafi kvörtunin verið staðfest og að frárennslislagnir væru í ólagi í Traðarkotssundi við austurvegg fasteignar kæranda að Hverfisgötu 18. Ennfremur komi fram í bréfinu að ekki hafi tekist að staðsetja nákvæmlega hvar umrædd skemmd sé en líkur séu á því að hún sé tengd frárennslislögn sem liggi frá Hverfisgötu 18 út í aðallögn í Traðarkotssundi. Þá segir í bréfi lögmanns kæranda að komið hafi fram í bréfinu að húseigendur sem ættu umrædda lögn væru ábyrgir fyrir því að lagfæringar færu fram á henni. Vísað hafi verið til ákvæða reglugerðar nr. 798/1999 um mengunarvarnir. Hafi kærði farið fram á lagfæringar á skemmdri skólplögn og ennfremur að yrði ekki farið að tilvitnuðum kröfum myndi kærði láta fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Þá kemur fram í kæru að með bréfi Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs, dags. 2. september 2002 hafi kæranda borist tilkynning um væntanlegar lagfæringar á skemmdum frárennslislögnum við Hverfisgötu 18 á kostnað eiganda. Kröfum kærða var hafnað og bent á að fasteignin væri í leigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og að leigutaki hafi ráðist í margvíslegar framkvæmdir án heimildar leigusala. Af þeim ástæðum hafi frárennslislagnir hússins skemmst og því væru skemmdir á ábyrgð kærða. Kærði svaraði bréfi kæranda með bréfi dags. 2. október 2002. Hafi þar komið fram túlkun á ýmsum ákvæðum reglugerðar nr. 786/1999 og kröfur um lagfæringu ítrekaðar. Lögmaður kæranda mótmælti túlkun kærða og krafðist þess að allir starfsmenn umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar vikju sæti þar sem málið varðaði Reykjavíkurborg sem leigutaka umrædds húsnæðis. Kröfunni um að víkja sæti hafi verið hafnað af kærða. Hafi komið fram í bréfum kærða að stjórnunarleg tengsl kærða og Borgarstjórnar Reykjavíkur séu ekki fyrir hendi og er um þetta vikið að 15. gr. laga nr. 7/1998, svo og 1. mgr. 32. gr. laganna. Voru áður gerðar kröfur ítrekaðar af hálfu kærða. Enn á ný svaraði lögmaður kæranda og ítrekaði vanhæfni starfsmanna. Að nýju var krafist úrbóta á lögnum og vanhæfni mótmælt af hálfu kærða.

II.

Málsástæður lögmanns kæranda eru að starfsmenn kærða séu vanhæfir til að taka bindandi ákvarðanir sem varða leigutaka Hverfisgötu 18 í Reykjavík. Eins og fram er komið áður, er Reykjavíkurborg leigutaki kv. leigusamningi um fasteignina að Hverfisgötu 18 í Reykjavík. Vísar lögmaður kæranda varðandi vanhæfni til skyldu Reykjavíkurborgar að starfrækja heilbrigðiseftirlit og bera kostnað af rekstri þess. Ennfremur er vísað til kosningar heilbrigðiseftirlits af hlutaðeigandi sveitarstjórn og þess að heilbrigðisnefnd beri að sjá um að framfylgja m.a. samþykktum borgarinnar. Þá kemur fram að heilbrigðisfulltrúi sé ráðinn af heilbrigðisnefnd. Með tilvísan til framangreinds er þess krafist að allir starfsmenn embættisins víki sæti við meðferð málsins og málið verði á ný tekið til umfjöllunar.

Þá vísar lögmaður kæranda og til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi að áður en tilkynning um að gert verði við lagnir fasteignar kæranda á hans kostnað sé send, hvíli rannsóknarskylda á kærða. Beri kærða að rannsaka mál nægilega áður en farið yrði í slíkar íþyngjandi aðgerðir. Er ennfremur vísað til þess að ekki virðist liggja fyrir að frárennslislögn, sem talin sé þarfnast viðgerðar og staðsett sé í Traðarkotssundi, stafi frá fasteign kæranda að Hverfisgötu 18. Telur lögmaður kæranda að þar sem ekki hafi tekist að staðsetja nákvæmlega hvar umrædd frárennslislögn liggi, geti kærði ekki tekið ákvörðun um að láta kæranda gera við frárennslislagnir.

Ennfremur rökstyður kærandi kröfur sínar með því að á vegum leigutaka hafi verið farið í margvíslegar framkvæmdir á umræddu húsnæði. Hafi við framkvæmdina orðið mistök í vinnu við frárennslislagnir þar sem þær hafi verið tengdar með röngum og óforsvaranlegum hætti. Því séu allar skemmdir á ábyrgð leigutaka.

Jafnframt bendir lögmaður kæranda á að hvernig sem á mál þetta sé litið megi ljóst vera að leigutaki og rekstraraðili Hverfisgötu 18 sé ábyrgur fyrir skemmdum á umræddum lögnum og sé því kröfum ranglega beint að kæranda.

Um lagarök vísar lögmaður kæranda til II. kafla stjórnsýslulaga og um skyldu húseigenda og rekstraraðila til að gera við lagnir til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr.786/1999.

Kæranda barst afrit greinargerðar kærða og sendi athugasemdir sínar vegna þessa.

1 Lögmaður kæranda ítrekar vanhæfi starfsmanna kærða og vísar til yfirstjórnar Reykjavíkurborgar á málum þeim sem umhverfis- og heilbrigðisstofa annast. Telur lögmaður kæranda að vart geti vanhæfi orðið mikið skýrara þegar um sé að ræða ákvarðanatöku lægra setts stjórnvalds sem lúti málefnum hins æðra setta stjórnvalds.

2 Varðandi rannsóknarskyldu kærða bendir lögmaður kæranda enn á vægari leiðir til að staðsetja skemmd en að grafa upp lagnir, t.d. mætti mynda lagnirnar. Ítrekar lögmaður kæranda sjónarmið um vanrækslu á rannsóknarskyldu.

3 Um hvert kærði skuli beina aðgerðum sínum vísar kæranda til reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr. 786/1999. Telur lögmaður kæranda að mengun sem um ræði og felist í skemmdum lögnum stafi ekki af atvinnurekstri leigusala, heldur beinlínis af athöfnum leigutaka.

4 Að öðru leyti ítrekar lögmaður kæranda gerðar kröfur og leggur málið í úrskurð.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 27. febrúar 2003. Greinargerðinni fylgdi skipurit Reykjavíkurborgar.

Rökstuðningur kærða er eftirfarandi :

1. Kærði gerir athugasemd við kæruna þar sem sífellt sé vitnað til bréfa Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs í kærunni. Bendir kærði á að stofnun sú sem bréfin riti heiti Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur svo sem skýrt komi fram af bréfum stofunnar og öðrum gögnum.

2. Kærði gerir ekki athugasemdir við málavaxtalýsingu kæranda.

3. Kröfu kæranda um að beina hefði átt kröfum kærða til Reykjavíkurborgar sem leigutaka hússins nr. 18 við Hverfisgötu svarar kærði með tilvísun í afrit leigusamnings m.a. 7.gr., þar sem fjallað sé um viðhald hins leigða. Komi þar fram að leigjandi annist á sinn kostnað allt viðhald innandyra sem utan, nema um sé að ræða viðhald á burðarvirki, klæðningu eða stofnlögnum. Ljóst sé því með tilvísan til þessa ákvæðis að umrædd lögn skuli falla undir skyldu leigusala til viðhalds. Þá ítrekar kærði það sem fram komi í bréfum kærða frá 2. október og 24. október 2002 þar sem m.a. komi fram : „Í því máli sem hér er til umfjöllunar, beinir Umhverfis- og heilbrigðisstofa aðgerðum sínum að eiganda húsnæðisins. Eigandi hússins rekur húsnæðið þ.m.t. annast útleigu þess. Sú starfsemi telst vera rekstur fasteigna. Aðgerðir Umhverfis- og heilbrigðisstofu beinast ekki að starfsemi leigutaka, heldur að almennum og venjulegum rekstri húsnæðis. Telji umbjóðandi yðar að hann eigi ekki að bera kostnað af aðgerðum heldur leigutaki ber umbjóðanda yðar að sjálfsögðu að snúa sér til hans og innheimta kostnað allt í samræmi við samning þeirra aðila.“ Vísar kærði ennfremur til þess að framangreind aðferðarfræði byggi á áratuga venju Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem nú falli undir Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, enda hafi eftirlitsaðili engin tök á að beina aðgerðum sínum að leigutökum skv. leigusamningum.

4. Staðhæfingu kæranda um að rannsóknarskyldu sé ekki fullnægt svarar kærði því að kannað hafi verið með öllum tiltækum ráðum hvar umrædd skemmd sé og hafi verið beitt til þess öllum öðrum aðferðum en að grafa lögnina upp á einkalóð eiganda hennar. Öll gögn hafi bent til þess að rottugangur stafaði af skemmdri lögn við Hverfisgötu 18. Telur kærði að með yfirlýsingu kæranda í gögnum um að leigutaki hafi ráðist í margvíslegar framkvæmdir á hinu leigða hafi kærandi staðfest þessa niðurstöðu um staðsetningu skemmdar.

5. Vanhæfiskröfu kæranda hafnar stefndi og vísar til þess að sjálfstæði heilbrigðisnefnda gagnvart sveitarstjórn komi glögglega fram í 1. mgr. 32. gr. laganna um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar komi fram að rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laga þessara skuli vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra.

IV.

Ágreiningur sá sem lagður er fyrir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir skv. 1. gr. laga nr. 7/1998 snýst um viðgerð á skolplögnum vegna fasteignar að Hverfisgötu 18 í Reykjavík.

Lögmaður kæranda krefst þess að allir starfsmenn kærða víki sæti þar sem þeir séu vanhæfir vegna aðildar Borgarsjóðs Reykjavíkur sem leigutaka fasteignarinnar.

Í 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að ágreiningi milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laganna skuli vísað til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Með vísan til þess og ákvæða stjórnsýslulaga um vanhæfi verður ekki fallist á það með kæranda að starfsmenn kærða séu vanhæfir í máli þessu.

Eins og fram kemur í gr. 5.1 í reglugerð nr. 798/1999 hefur heilbrigðisnefnd eftirlit með fráveitum. Í 29. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit kemur fram að sinni aðili ekki fyrirmælum innan tilskilins frests eða séu fyrirmæli um framkvæmd vanrækt geti heilbrigðisnefnd ákveðið dagsektir þar til úr sé bætt eða látið vinna verk á kostnað eiganda. Með vísan til þessa er lagaskylda kærða ljós en kærði hefur með höndum eftirlitsskyldu og heimildir til að knýja fram aðgerðir. Jafnframt er ljóst að húseigendur bera ábyrgð á lagfæringum og viðhaldi á frárennslislögnum sem liggja frá fasteignum þeirra. Með vísan til þessa er lagaskylda kærða til athafna ljós. Verður því ekki fallist á málsástæður lögmanns kæranda um að kærði hafi ekki heimildir til aðgerða í máli þessu gagnvart kærða. Krafa kæranda á hendur leigutaka vegna bótaskylds atburðar er ekki úrlausnarefni úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð :

Kröfum kæranda um að starfsmenn kærða víki sæti vegna vanhæfis í máli þessu er hafnað. Ekki er fallist á að kröfum kærða sé ranglega beint að kæranda.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                               Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/1/04