Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2002 Úrskurður vegna erindis IP-studium Reykjavík ehf., varðandi ágreining þess og Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar um túlkun og framkvæmd laga nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004 mánudaginn 24. maí, kom nefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Lára G. Hansdóttir, Gísli Gíslason og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Gísli Gíslason tekur sæti Gunnars Eydals í máli þessu á hendur Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2002, kæra IP-studium Reykjavík ehf., hér eftir nefndur kærandi, vegna ágreinings þess og Umhverfis- og heilbrigðisstofu, hér eftir nefnd kærði, um túlkun og framkvæmd laga nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit.

Kæra dags. 16. desember 2002 barst úrskurðarnefnd í desember 2002. Kærunni fylgdu eftirtalin fylgiskjöl:

1. Afrit leigusamnings.

2. Afrit bréfs kærða, dags. 15. júlí 2002.

3. Afrit bréfs kærða, dags. 2. september 2002.

4. Afrit bréfs lögmanns kæranda, dags. 20. september, 2002.

5. Afrit bréfs kærða, dags. 2. október, 2002.

6. Afrit bréfs lögmanns kæranda dags. 4. október, 2002.

7. Afrit bréfs kærða, dags. 24. október 2002.

8. Afrit bréfs lögmanns kæranda dags. 31. október 2002.

9. Afrit bréfs kærða, dags. 23. nóvember 2002.

Afrit kærunnar ásamt ljósriti af fylgiskjölum var sent kærða, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar. Skilaði kærði greinargerð dags. 27. febrúar 2003. Greinargerð sú var send kæranda með bréfi dags. 22. apríl 2003 og barst svarbréf lögmanns kæranda með bréfi dags. 8. maí 2003.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.

Kæra er dagsett 16. desember 2002. Lýsir lögmaður kæranda málavöxtum þannig að með bréfi Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs dags. 15 júlí 2002 hafi kæranda verið tilkynnt að kærða hafi borist kvörtun um rottugang í Traðarkotssundi í Reykjavík og skemmdar frárennslislagnir því tengdu. Kveður lögmaður kæranda að fram hafi komið í bréfinu að við eftirlit ýmissa aðila á vegum Reykjavíkurborgar hafi kvörtunin verið staðfest og að frárennslislagnir væru í ólagi í Traðarkotssundi við austurvegg fasteignar kæranda að Hverfisgötu 18. Ennfremur komi fram í bréfinu að ekki hafi tekist að staðsetja nákvæmlega hvar umrædd skemmd sé en líkur séu á því að hún sé tengd frárennslislögn sem liggi frá Hverfisgötu 18 út í aðallögn í Traðarkotssundi. Þá segir í bréfi lögmanns kæranda að komið hafi fram í bréfinu að húseigendur sem ættu umrædda lögn væru ábyrgir fyrir því að lagfæringar færu fram á henni. Vísað hafi verið til ákvæða reglugerðar nr. 798/1999 um mengunarvarnir. Hafi kærði farið fram á lagfæringar á skemmdri skólplögn og ennfremur að yrði ekki farið að tilvitnuðum kröfum myndi kærði láta fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Þá kemur fram í kæru að með bréfi Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs, dags. 2. september 2002 hafi kæranda borist tilkynning um væntanlegar lagfæringar á skemmdum frárennslislögnum við Hverfisgötu 18 á kostnað eiganda. Kröfum kærða var hafnað og bent á að fasteignin væri í leigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og að leigutaki hafi ráðist í margvíslegar framkvæmdir án heimildar leigusala. Af þeim ástæðum hafi frárennslislagnir hússins skemmst og því væru skemmdir á ábyrgð kærða. Kærði svaraði bréfi kæranda með bréfi dags. 2. október 2002. Hafi þar komið fram túlkun á ýmsum ákvæðum reglugerðar nr. 786/1999 og kröfur um lagfæringu ítrekaðar. Lögmaður kæranda mótmælti túlkun kærða og krafðist þess að allir starfsmenn umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar vikju sæti þar sem málið varðaði Reykjavíkurborg sem leigutaka umrædds húsnæðis. Kröfunni um að víkja sæti hafi verið hafnað af kærða. Hafi komið fram í bréfum kærða að stjórnunarleg tengsl kærða og Borgarstjórnar Reykjavíkur séu ekki fyrir hendi og er um þetta vikið að 15. gr. laga nr. 7/1998, svo og 1. mgr. 32. gr. laganna. Voru áður gerðar kröfur ítrekaðar af hálfu kærða. Enn á ný svaraði lögmaður kæranda og ítrekaði vanhæfni starfsmanna. Að nýju var krafist úrbóta á lögnum og vanhæfni mótmælt af hálfu kærða.

II.

Málsástæður lögmanns kæranda eru að starfsmenn kærða séu vanhæfir til að taka bindandi ákvarðanir sem varða leigutaka Hverfisgötu 18 í Reykjavík. Eins og fram er komið áður, er Reykjavíkurborg leigutaki kv. leigusamningi um fasteignina að Hverfisgötu 18 í Reykjavík. Vísar lögmaður kæranda varðandi vanhæfni til skyldu Reykjavíkurborgar að starfrækja heilbrigðiseftirlit og bera kostnað af rekstri þess. Ennfremur er vísað til kosningar heilbrigðiseftirlits af hlutaðeigandi sveitarstjórn og þess að heilbrigðisnefnd beri að sjá um að framfylgja m.a. samþykktum borgarinnar. Þá kemur fram að heilbrigðisfulltrúi sé ráðinn af heilbrigðisnefnd. Með tilvísan til framangreinds er þess krafist að allir starfsmenn embættisins víki sæti við meðferð málsins og málið verði á ný tekið til umfjöllunar.

Þá vísar lögmaður kæranda og til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi að áður en tilkynning um að gert verði við lagnir fasteignar kæranda á hans kostnað sé send, hvíli rannsóknarskylda á kærða. Beri kærða að rannsaka mál nægilega áður en farið yrði í slíkar íþyngjandi aðgerðir. Er ennfremur vísað til þess að ekki virðist liggja fyrir að frárennslislögn, sem talin sé þarfnast viðgerðar og staðsett sé í Traðarkotssundi, stafi frá fasteign kæranda að Hverfisgötu 18. Telur lögmaður kæranda að þar sem ekki hafi tekist að staðsetja nákvæmlega hvar umrædd frárennslislögn liggi, geti kærði ekki tekið ákvörðun um að láta kæranda gera við frárennslislagnir.

Ennfremur rökstyður kærandi kröfur sínar með því að á vegum leigutaka hafi verið farið í margvíslegar framkvæmdir á umræddu húsnæði. Hafi við framkvæmdina orðið mistök í vinnu við frárennslislagnir þar sem þær hafi verið tengdar með röngum og óforsvaranlegum hætti. Því séu allar skemmdir á ábyrgð leigutaka.

Jafnframt bendir lögmaður kæranda á að hvernig sem á mál þetta sé litið megi ljóst vera að leigutaki og rekstraraðili Hverfisgötu 18 sé ábyrgur fyrir skemmdum á umræddum lögnum og sé því kröfum ranglega beint að kæranda.

Um lagarök vísar lögmaður kæranda til II. kafla stjórnsýslulaga og um skyldu húseigenda og rekstraraðila til að gera við lagnir til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr.786/1999.

Kæranda barst afrit greinargerðar kærða og sendi athugasemdir sínar vegna þessa.

1 Lögmaður kæranda ítrekar vanhæfi starfsmanna kærða og vísar til yfirstjórnar Reykjavíkurborgar á málum þeim sem umhverfis- og heilbrigðisstofa annast. Telur lögmaður kæranda að vart geti vanhæfi orðið mikið skýrara þegar um sé að ræða ákvarðanatöku lægra setts stjórnvalds sem lúti málefnum hins æðra setta stjórnvalds.

2 Varðandi rannsóknarskyldu kærða bendir lögmaður kæranda enn á vægari leiðir til að staðsetja skemmd en að grafa upp lagnir, t.d. mætti mynda lagnirnar. Ítrekar lögmaður kæranda sjónarmið um vanrækslu á rannsóknarskyldu.

3 Um hvert kærði skuli beina aðgerðum sínum vísar kæranda til reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr. 786/1999. Telur lögmaður kæranda að mengun sem um ræði og felist í skemmdum lögnum stafi ekki af atvinnurekstri leigusala, heldur beinlínis af athöfnum leigutaka.

4 Að öðru leyti ítrekar lögmaður kæranda gerðar kröfur og leggur málið í úrskurð.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 27. febrúar 2003. Greinargerðinni fylgdi skipurit Reykjavíkurborgar.

Rökstuðningur kærða er eftirfarandi :

1. Kærði gerir athugasemd við kæruna þar sem sífellt sé vitnað til bréfa Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs í kærunni. Bendir kærði á að stofnun sú sem bréfin riti heiti Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur svo sem skýrt komi fram af bréfum stofunnar og öðrum gögnum.

2. Kærði gerir ekki athugasemdir við málavaxtalýsingu kæranda.

3. Kröfu kæranda um að beina hefði átt kröfum kærða til Reykjavíkurborgar sem leigutaka hússins nr. 18 við Hverfisgötu svarar kærði með tilvísun í afrit leigusamnings m.a. 7.gr., þar sem fjallað sé um viðhald hins leigða. Komi þar fram að leigjandi annist á sinn kostnað allt viðhald innandyra sem utan, nema um sé að ræða viðhald á burðarvirki, klæðningu eða stofnlögnum. Ljóst sé því með tilvísan til þessa ákvæðis að umrædd lögn skuli falla undir skyldu leigusala til viðhalds. Þá ítrekar kærði það sem fram komi í bréfum kærða frá 2. október og 24. október 2002 þar sem m.a. komi fram : „Í því máli sem hér er til umfjöllunar, beinir Umhverfis- og heilbrigðisstofa aðgerðum sínum að eiganda húsnæðisins. Eigandi hússins rekur húsnæðið þ.m.t. annast útleigu þess. Sú starfsemi telst vera rekstur fasteigna. Aðgerðir Umhverfis- og heilbrigðisstofu beinast ekki að starfsemi leigutaka, heldur að almennum og venjulegum rekstri húsnæðis. Telji umbjóðandi yðar að hann eigi ekki að bera kostnað af aðgerðum heldur leigutaki ber umbjóðanda yðar að sjálfsögðu að snúa sér til hans og innheimta kostnað allt í samræmi við samning þeirra aðila.“ Vísar kærði ennfremur til þess að framangreind aðferðarfræði byggi á áratuga venju Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem nú falli undir Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, enda hafi eftirlitsaðili engin tök á að beina aðgerðum sínum að leigutökum skv. leigusamningum.

4. Staðhæfingu kæranda um að rannsóknarskyldu sé ekki fullnægt svarar kærði því að kannað hafi verið með öllum tiltækum ráðum hvar umrædd skemmd sé og hafi verið beitt til þess öllum öðrum aðferðum en að grafa lögnina upp á einkalóð eiganda hennar. Öll gögn hafi bent til þess að rottugangur stafaði af skemmdri lögn við Hverfisgötu 18. Telur kærði að með yfirlýsingu kæranda í gögnum um að leigutaki hafi ráðist í margvíslegar framkvæmdir á hinu leigða hafi kærandi staðfest þessa niðurstöðu um staðsetningu skemmdar.

5. Vanhæfiskröfu kæranda hafnar stefndi og vísar til þess að sjálfstæði heilbrigðisnefnda gagnvart sveitarstjórn komi glögglega fram í 1. mgr. 32. gr. laganna um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar komi fram að rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laga þessara skuli vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra.

IV.

Ágreiningur sá sem lagður er fyrir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir skv. 1. gr. laga nr. 7/1998 snýst um viðgerð á skolplögnum vegna fasteignar að Hverfisgötu 18 í Reykjavík.

Lögmaður kæranda krefst þess að allir starfsmenn kærða víki sæti þar sem þeir séu vanhæfir vegna aðildar Borgarsjóðs Reykjavíkur sem leigutaka fasteignarinnar.

Í 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að ágreiningi milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laganna skuli vísað til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Með vísan til þess og ákvæða stjórnsýslulaga um vanhæfi verður ekki fallist á það með kæranda að starfsmenn kærða séu vanhæfir í máli þessu.

Eins og fram kemur í gr. 5.1 í reglugerð nr. 798/1999 hefur heilbrigðisnefnd eftirlit með fráveitum. Í 29. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit kemur fram að sinni aðili ekki fyrirmælum innan tilskilins frests eða séu fyrirmæli um framkvæmd vanrækt geti heilbrigðisnefnd ákveðið dagsektir þar til úr sé bætt eða látið vinna verk á kostnað eiganda. Með vísan til þessa er lagaskylda kærða ljós en kærði hefur með höndum eftirlitsskyldu og heimildir til að knýja fram aðgerðir. Jafnframt er ljóst að húseigendur bera ábyrgð á lagfæringum og viðhaldi á frárennslislögnum sem liggja frá fasteignum þeirra. Með vísan til þessa er lagaskylda kærða til athafna ljós. Verður því ekki fallist á málsástæður lögmanns kæranda um að kærði hafi ekki heimildir til aðgerða í máli þessu gagnvart kærða. Krafa kæranda á hendur leigutaka vegna bótaskylds atburðar er ekki úrlausnarefni úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð :

Kröfum kæranda um að starfsmenn kærða víki sæti vegna vanhæfis í máli þessu er hafnað. Ekki er fallist á að kröfum kærða sé ranglega beint að kæranda.

Lára G. Hansdóttir

Gísli Gíslason                               Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/1/04

Mál 2/2003 Austurkot á Vatnsleysuströnd

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003 föstudaginn 25. júlí, kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu Gunnars Eydal í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr 2/2003 kæra Stefáns Árnasonar, Austurkoti, Vatnsleysuströnd gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður.

I.

Stjórnsýslukæra kæranda, barst nefndinni með bréfi umhverfisráðuneytis dags. 27. mars, 2003.  Kærunni fylgdu afrit bréfa lögmanns kæranda til kærða dags. 10. júlí, 2002, 30. júlí 2002 og 15. ágúst 2002 svo og afrit af bréfum kærða til lögmannsins dags. 24. júlí, 2002 og 27. ágúst 2002.  Með bréfi dags. 11. júní s.l. var óskað eftir greinargerð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, sem barst með bréfi lögmanns þeirra dags. 27. júní, s.l.

II.

Í ódagsettu erindi kæranda, sem litið er á sem stjórnsýslukæru, er óskað úrskurðar vegna töku tveggja bifreiða í eigu kæranda af landi hans Austurkoti á Vantsleysuströnd.  Samkvæmt upplýsingum í bréfum lögmanns voru bifreiðar kæranda af gerðinni Scania 141 og Nissan Doublecap fjarlægðar hinn 29. júní, 2002.  Í bréfum lögmannsins til kærða kemur fram að kærendur telji að um ágang hafi verið að ræða og er gerð sú krafa að bifreiðunum verði skilað.

III.

Í greinargerð kærða, dags. 27. júní, 2003, er aðallega gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd sem of seint fram kominni kæru.  Er á því byggt að ódagsett erindi kærða hafi verið sent frá umhverfisráðuneyti með bréfi dags. 27. mars s.l. eða hálfu ári eftir að kærufrestur hafi runnið út.  Þá gerir lögmaður kærða grein fyrir málinu efnislega að öðru leyti og rekur aðgerðir kærða og bréfaskriftir við lögmann kæranda.

IV.

Svo sem fram er komið barst kæra úrskurðarnefnd með bréfi umhverfisráðuneytis dags. 27. mars s.l.  Í 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að kæru skuli bera fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli fyrir á annan hátt.  Svo er ekki í máli þessu.  Stjórnsýslukæra kæranda er því of seint komin fram og verður því málinu vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð :

Með vísan til framkominna málavaxta og með tilvísan til 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er máli þessu vísað frá nefndinni.

Lára G. Hansdóttir

 Gunnar Eydal                         Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 9/9/03

Mál 5/2002 Reykjanesbær endurupptökubeiðni

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003,  sunnudaginn 7. september,  kom nefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7,  Reykjavík. Mætt voru Lára G. Hansdóttir, Gísli Gíslason og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Gunnar Eydal vék sæti vegna fyrri aðkomu að málinu.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2002,  erindi Sigurjóns  Kjartanssonar um endurupptöku á  úrskurði nefndarinnar nr. 2/2000 frá 30. mars 2001, um álagningu gjalds vegna fráveituframkvæmda.  Kærandi kvartaði til Umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að úrskurður nefndarinnar frá 30. mars 2001 hafi ekki verið í samræmi við lög og beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka málið til meðferðar að nýju kæmi ósk um það frá kæranda.  Er sú ósk fram komin og þess nú krafist að staðfesting gjaldskrár nr. 184/1997 dags. 10. mars 1997 verði afturkölluð og að Reykjanesbæ verði gert að endurgreiða alla upphæðina með vöxtum, vegna þess gjalds sem bærinn innheimti til að standa straum af kostnaði við byggingu mannvirkja til hreinsunar fráveituvatns.  Er því málið að nýju tekið fyrir í úrskurðarnefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.

Málavextir eru þeir  að nefndinni barst upphaflega bréf dags. 30. nóvember 2000 frá umhverfisráðuneyti en þangað hafði kærandi upphaflega sent erindi sitt. Nefndin bar sjónarmið kæranda undir Reykjanesbæ og bárust svör bæjarins með bréfi dags. 16. janúar 2001. Bréfinu fylgdu gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ, samþykkt af umhverfisráðuneyti þann 10. mars 1997, yfirlit bæjarverkfræðings yfir framgang útboða vegna framkvæmda og yfirlit fjármálastjóra Reykjanesbæjar um innheimtu gjalda árin 1997 – 2000. Framangreind gögn voru borin undir kæranda sem gerði athugasemdir vegna þeirra með bréfi dagsettu 1. febrúar 2001. Ástæða þótti að gefa Reykjanesbæ kost á andsvörum og bárust þau nefndinni með bréfi dags. 12. mars 2001.

Í bréfi kæranda dags. 29. nóvember 2000 til úrskurðarnefndar er kvað upp fyrri úrskurð sagði kærandi: ,,Undanfarin ár hefur Reykjanesbær innheimt gjald sem ýmist er kallað ,,Gjald vegna fráveituframkvæmda “ eða ”Gjald vegna hreinsunar á fráveituvatni“. Og er þetta gjald 6000 kr. á ári á hvert fasteignanúmer.  Í Reykjanesbæ á sér ekki stað nein hreinsun á fráveituvatni og engar eru fráveituframkvæmdirnar. Ég held að þessi gjaldtaka sé ekki lögleg.  Reykjanesbær á ekki að geta rukkað íbúana um annað en lögboðna skatta og greiðslur fyrir veitta þjónustu. Þetta gjald fellur undir hvorugt. Gjaldið miðast ekki við verðmæti eignar eða tekjur manna og leggst því á fólk með öðrum hætti en ef holræsagjald eða útsvar hefði verið notað til framkvæmdanna. Ef þessar framkvæmdir eru lögboðnar þá ber að greiða þær af útsvari. Það getur ekki gengið að bæjarfélög innheimti skatta og bæti síðan aukagjöldum ofan á þá til að fjármagna framkvæmdir eins og þessa eða skóla, áhaldahús, íþróttahús o.s.frv. til hvers eru þá skattarnir?“

Í andsvari kæranda við sjónarmiðum Reykjanesbæjar segir m.a.: ,,Í bréfi til mín dags. 22. janúar 2001 biðjið þér um viðhorf mitt til gagna sem með því fylgdu. Mitt viðhorf er það að hér sé um skattheimtu að ræða en ekki þjónustugjald. Og þar sem engin lög heimila þessa skattheimtu þá sé hún ólögleg. Skatta má ekki leggja á nema lög

kveði svo um. Reglugerðir og heimildir ráðuneyta duga ekki til.

Skattar fara t.d. í að byggja skóla, sorpeyðingarstöðvar og sjúkrahús, síðan eru innheimt þjónustugjöld fyrir þjónustuna. Þess eru að ég held hvergi dæmi að byggingin sjálf flokkist undir þjónustu. Heldur aðeins sú starfsemi sem þar fer fram. Þjónustugjöld mega ekki vera hærri en kostnaðurinn við þjónustuna. Skattar eru ekki bundnir af þessu ákvæði og því geta t.d. fasteignagjöld (sem eru skattar með stoð í lögum) verið töluvert hærri en kostnaður þeirrar þjónustu sem veitt er. Þegar skolphreinsunarstöðin fer að starfa er Reykjanesbæ stætt á því að innheimta þjónustugjöld en ekki fyrr.“

Síðan vitnar kærandi til l. nr. 53/1998 um framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum og vísar til 12. og 25. gr. l. nr. 7/1998.

Í niðurlagi andsvarsins segir síðan: ,,Hvergi gat ég fundið lagastoð fyrir þessari gjaldtöku. Ég tel því að umhverfisráðuneytinu beri að afturkalla staðfestingu á gjaldskrá dags. 10. mars 1997. Og að Reykjanesbæ beri að endurgreiða alla upphæðina með vöxtum.“

Í bréfi Reykjanesbæjar frá 16. janúar 2001 segir m.a.: ,,Innheimta á gjaldi vegna fráveituframkvæmda byggir á ,,Gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ“ sem samþykkt var í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 4. febrúar 1997 og staðfest af umhverfisráðuneytinu þann 10. mars 1997. Gjaldið rennur í sérstakan sjóð skv. 2. gr. gjaldskrárinnar og er ekki notað til annarra hluta en fráveituframkvæmda. Gert er ráð fyrir að gjaldið falli niður þegar framkvæmd lýkur.

Þá fylgir yfirlit yfir meðferð fjármuna til framkvæmda frá bæjarverkfræðingi Reykjanesbæjar, þar kemur fram að framkvæmdir eru í fullum gangi. Nú hefur verið framkvæmt eða samið um fyrir kr. 272.000.000,-,  Heildarkostnaðaráætlun er kr. 1.150.000.000,-.  Innheimt hefur verið samtals á árunum 1997-2000 kr. 100.000.720,- sbr. bréf fjármálastjóra Reykjanesbæjar.“  Í fylgigögnum staðfestir bæjarverkfræðingur Reykjanesbæjar annars vegar kostnaðaráætlun og hins vegar staðfestir fjármálastjóri Reykjanesbæjar þegar innheimt gjöld og sundurgreinir fjárhæðir eftir árlegri innheimtu vegna áranna 1997–2000. Í lokasvari Reykjanesbæjar segir: ,,Eins og fram kom í bréfi voru og gögnum sem dagsett er 16. janúar 2001, er gjaldið til greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja. Þegar stofnkostnaður er að fullu greiddur fellur gjaldið niður. Frá þeim tíma, þegar rekstur hefst er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði greiddur af álögðu holræsagjaldi.

Allur undirbúningur og meðferð málsins var samkvæmt samþykkt frá heilbrigðis-nefnd Suðurnesja og einnig umhverfisráðuneytinu, farið var eftir ráðgjöf lögmanna í hvívetna. Reykjanesbær telur sig hafa uppfyllt allar þær lagaskyldur sem fyrir voru lagðar af hálfu yfirstjórnar málaflokksins.“

II.

Úrskurðarnefndin tók málið til efnislegrar meðferðar og rökstuddi þá mál sitt með eftirgreindum hætti:

Í 7. gr. l. nr. 45/1998 segir m.a.: ,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin að lögum.“   Síðan segir: ,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.“

Í 9. gr. s.l. segir m.a.: ,, Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.“

Í 2. gr. l. nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir: ,,Auk tekna skv. 1. gr. (þ.e. fasteignaskatta, framlaga úr jöfnunarsjóði og útsvars) hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl. allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.“

Í 25. gr. l. nr. 7/1998 segir ennfremur að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur sem fram koma í þeim og er heimilt m.a. að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og sorps svo og gjaldtökuleyfi, leigu eða veitta þjónustu. Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda en þau gjöld mega ekki vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.

18. gr. l. nr. 81/1988 sem gilti um hluta þessa tímabils sem mál þetta snýst um er eins að mestu leyti en þó var skylt skv. því ákvæði að leita samþykktar ráðherra á gjaldskrá og var það gert en sú samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem var grundvöllur gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ var staðfest af umhverfisráðherra þann 10. mars 1997.

Ekki er um það deilt að eitt af verkefnum hvers sveitarfélags er að annast skólp- og fráveitur sbr. t.d. X kafla l. nr. 15/1923 og l. nr. 53/1995. Í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 sem sett er með stoð í l. nr. 81/1988 (nú l. nr. 7/1998) er einnig að finna ýmis ákvæði sem leggja ríkar skyldur á sveitarfélög um meðferð skólps og annars úrgangs og m.a. með tilliti til krafna skv. reglugerðinni mun Reykjanesbær hafa ákveðið að endurnýja fráveitur bæjarins eða eins og segir í 2 gr. þeirrar gjaldskrár sem staðfest var 10. mars 1997: ,,Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.“

Skv. framanrituðum lagatilvitnunum var það álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að Reykjanesbær hafi haft lagaheimildir til að haga gjaldtöku eins og gert er í samræmi við staðfesta gjaldskrá frá 10. mars 1997 og engin þau atriði hafi komið fram sem benda til að ekki hafi verið gætt réttra sjónarmiða og aðferða við setningu gjaldskrárinnar.

Úrskurðarnefndin hafnaði á framangreindum forsendum kröfum kæranda.

III.

Í framhaldi af úrskurðinum kvartaði kærandi til Umboðsmann Alþingis, sem tók málið til efnislegrar meðferðar og komst að þeirri niðurstöðu að úrskurður úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 nr. 2/2001 hafi ekki verið í samræmi við lög.  Í reifun Umboðsmanns Alþingis um málið kemur eftirfarandi fram:

”Umboðsmaður tók fram að holræsa- og fráveitumál væru meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Benti hann á að í ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og ákvæðum 1. og 2. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, birtist sú meginregla að tekjuöflun sveitarfélaga yrði að byggjast á heimild í lögum óháð því hvort um væri að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu sem látin væri í té. Umboðsmaður rakti X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 og benti á að Reykjanesbær hefði nýtt sér heimild 87. gr. laganna um töku gjalds vegna holræsa. Þá rakti hann ákvæði 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem var í gildi þegar gjaldskrá nr. 184/1997 var staðfest, og 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem leysti fyrrnefnt ákvæði af hólmi, um heimild fyrir sveitarfélög að setja sérstakar heilbrigðissamþykktir umfram það sem leiddi af ákvæðum landsreglugerðar og til gjaldtöku fyrir veitta þjónustu. Jafnframt rakti hann ákvæði gjaldskrár nr. 184/1997 en í 2. gr. hennar kemur fram að gjald það sem gjaldskráin hljóðar um rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.

Umboðsmaður tók fram að í máli þessu reyndi á hvort ákvæði 18. gr. laga nr. 81/1988, nú 25. gr. laga nr. 7/1998, um að sveitarfélögin geti sett sér eigin samþykktir og gert þar ítarlegri kröfur, og um gjaldtöku fyrir veitta þjónustu, heimili að innheimt sé sérstakt gjald af húsum og húshlutum í sveitarfélaginu til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva fyrir fráveituvatn. Taldi hann að skýra yrði framangreinda heimild sveitarfélaga þannig að þar yrði að vera um að ræða viðfangsefni og kröfur sem rúmast innan efnisákvæða laganna. Benti umboðsmaður á að ákvæði laganna hefðu ekki að geyma efnisreglur um hvernig sveitarfélögum bæri að standa að byggingu þessara mannvirkja. Væri hins vegar ljóst að í samræmi við almenn ákvæði laganna þyrftu sveitarfélög að haga uppbyggingu þeirra þannig að gætt væri þeirra krafna sem lög og reglugerðir setja um verndun umhverfis. Af því leiddi hins vegar ekki að sveitarfélög gætu án sérstakrar lagaheimildar lagt gjald á t.d. eigendur fasteigna til að standa straum af kostnaði við að mæta þessum auknu kröfum. Umboðsmaður benti á að gjaldskrá nr. 184/1997 mælti ekki fyrir um innheimtu gjalds fyrir viðtöku á fráveituvatni til að mæta hreinsun þess heldur væri um að ræða sjálfstæða gjaldtöku til að standa straum af kostnaði við byggingu mannvirkja sem síðar ættu að nýtast til hreinsunar fráveituvatns. Gjaldið væri ákveðið sem föst krónutala án tillits til stærðar, verðmætis og notkunar eignar. Gjaldtakan væri þannig ekki framkvæmd á grundvelli raunverulegrar notkunar eða veittrar þjónustu. Taldi umboðsmaður að á skorti að bein tengsl stæðu á milli skyldu til að greiða umrætt gjald og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu sem veitt væri og kynni að verða veitt af hálfu sveitarfélagsins við hreinsun fráveituvatns. Gæti sú skipan sem kveðið var á um í gjaldskránni ekki staðist án viðhlítandi lagaheimildar sem fullnægði kröfum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Umboðsmaður ítrekaði að með 87. gr. vatnalaga hefði löggjafinn tekið afstöðu til þess hvaða heimild sveitarfélag hefði til að innheimta sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði við byggingu og lagningu holræsa og þar með hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva. Taldi hann að þessi aðstaða leiddi jafnframt til þess að skýra yrði aðrar lagaheimildir til töku gjalda fyrir þjónustu sem sveitarfélög veita á þessu sviði til samræmis. Þannig væri það hverju sinni háð túlkun á lagaheimild til töku þjónustugjalda hvort og þá í hvaða mæli heimilt væri að taka tillit til kostnaðar við byggingu mannvirkja sem nýtt væru til að veita þjónustuna þegar fjárhæð þjónustugjalds er ákveðin. Í því efni nægði ekki lagaheimild eins og var í 18. gr. laga nr. 81/1988 enda gæti svo víðtæk almenn heimild ein og sér og án stuðnings í efnisreglum viðkomandi laga ekki fullnægt þeim kröfum sem gera yrði samkvæmt lögmætisreglunni til gjaldtökuheimildar. Var það niðurstaða umboðsmanns að án sérstakrar og skýrrar lagaheimildar gæti sveitarfélag ekki á grundvelli þjónustugjaldaheimildar í 25. gr. laga nr. 7/1998, áður 18. gr. laga nr. 81/1988, ákveðið að innheimta fasta fjárhæð af öllum húsum og húshlutum, sem virt eru fasteignamati, án tillits til umfangs og eðlis fráveituvatns frá eigninni til að standa eingöngu straum af kostnaði við byggingu mannvirkja fyrir útrásir og dælu- og hreinsistöðva fráveituvatns.

Var það niðurstaða umboðsmanns að Reykjanesbæ hefði ekki verið heimilt að krefja A um gjald vegna hreinsunar fráveituvatns með þeim hætti sem gert var á grundvelli gjaldskrár nr. 184/1997. Hefði úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli A því ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar á ný kæmi fram ósk um það frá honum og að afgreiðslu á málinu yrði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu”

IV.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 tók málið til meðferðar að kröfu kæranda og fenginni niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis.  Þar sem um er að ræða endurskoðun á fyrri úrskurði nefndarinnar skv. áður framlögðum gögnum, þótti ekki ástæða til að kalla eftir frekari greinargerðum aðila áður en úrskurðað væri.

Kröfur kæranda eru þær að nefndin ”afturkalli staðfestingu á gjaldskrá dags. 10. mars 1997 og að Reykjanesbær endurgreiði alla upphæðina með vöxtum”. Úrskurðarnefnd, sem starfar samkvæmt lögum 7/1998 lítur svo á að undir nefndina heyri að taka á því álitaefni hvort gjaldskrá sem sett er með stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998, sé lögmæt eða ekki.  Það er hins vegar mat nefndarinnar að það heyri ekki undir nefndina að afturkalla gjaldskrá sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra eða að úrskurða um endurgreiðslur meintra oftekinna gjalda. Nefndinni er samkvæmt lögunum ætlað að taka á ágreiningi er rísi um framkvæmd laganna. Þrátt fyrir kröfugerð kæranda lítur nefndin svo á að beiðni kærandi lúti að því að fá úr því skorið hvort umþrætt gjaldskrá sé lögmæt, enda verður ekki annað séð en að gjaldskrá Reykjanesbæjar sé sett með stoð í  25. gr. laga nr. 7/1998, sbr. áður 18. gr. laga nr. 81/1988. Úrskurðarnefnd tekur mál þetta til endurupptöku með vísan til 31.gr. laga nr. 7/1988.

Gjaldskráin var samþykkt af hálfu bæjarins 1997 í tíð eldri laga nr. 81/1988.  Í  18.gr. þágildandi laga nr. 81/1988 var mælt fyrir um skyldu til að leita samþykktar  ráðherra á gjaldskrá og var það gert og er því sú samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem var grundvöllur gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ staðfest af umhverfisráðherra hinn 10. mars 1997. Ekki er formskilyrði í núgildandi lögum að leita skuli staðfestingar ráðherra á gjaldskrá sveitarfélags, sem sett er með heimild í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1988.

Ekki er um það deilt að sveitarfélög hafi það lögboðna verkefni að annast holræsa- og fráveitumál  sbr. 7. gr. laga nr. 45/1998.   Jafnframt segir í ákvæðinu að sveitarfélög hafi sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði eigin fyrirtækja og stofnana til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.   Í 9. gr. s.l. segir að sveitarstjórn hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.

Í 2. gr. l. nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir:” ….hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum, sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o fl. Enn fremur aðrar tekjur af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o fl. allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.”

Sveitarfélagi er heimilt á grundvelli 25. gr. að setja gjaldskrá að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar um gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu  Gjöld mega þó aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Reykjanesbær innheimti umþrætt gjald, sem látið var renna í sjóð til greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja.  25. gr. verður ekki skýrð með þeim hætti að sveitarfélögum sé heimilt með stoð í ákvæðinu að innheimta gjald af íbúum sveitarfélagsins, sem ekki tengist veittri þjónustu. Það er skýrt tekið fram að gjaldið vegna leyfis, leigu eða veittrar þjónustu má aldrei vera hærra en sem nemur rökstuddum kostnaði við þá þjónustu. Gjaldtaka af því tagi sem hér um ræðir, að eigendum fasteigna sé gert að greiða ákveðna fjárhæð í sjóð, sem tengist í engu veittri þjónustu fær því ekki stoð í ákvæðinu.  Heimild sveitarfélaga til gjaldtöku á grundvelli 25. gr. laga nr.7/1998  byggir á því að gjaldtakan sé vegna afhendingar á tiltekinni afmarkaðri þjónustu sem sveitarfélagið er að veita hverju sinni.  Með tilvísan til framangreinds er fallist á kröfu kæranda um að gjaldtaka Reykjanesbæjar vegna kostnaðar við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva hafi verið ólögmæt.

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu kæranda að Reykjanesbæ hafi ekki verið heimilt að innheimta gjald til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ á grundvelli 25. gr. laga nr. 7/1998 sbr. 18. gr. laga nr. 81/1988.

Lára G. Hansdóttir

 Gísli Gíslason                            Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

Date: 9/11/03

3/2003. Úrskurður vegna erindis Jónasar Helga Ólafssonar vegna ágreinings um töku bifreiðar sem ekki er á númerum og stendur inni á einkalóð kæranda.

Með

Grein

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, miðvikudaginn 19. maí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2003 Jónas Helgi Ólafsson, Tjarnargötu 20, 190 Vogum gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja vegna ágreinings um heimild til töku bifreiðar.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Erindi Jónasar Helga Ólafssonar, hér eftir nefndur kærandi, barst nefndinni með bréfi dags. 10. apríl 2003. Litið var á erindið sem stjórnsýslukæru. Er gerð sú krafa að úrskurðarnefnd skeri úr ágreiningi um töku bifreiðar sem ekki er á númerum og stendur inni á einkalóð kæranda. Meðfylgjandi erindi kæranda var mynd af umræddri bifreið inni á lóð hans svo og afrit af bréfi heilbrigðisfulltrúa Suðurnesja. Var Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, hér eftir nefnt kærði, sent afrit af gögnum kæranda og óskað svara. Í svarbréfi kom fram að engar aðgerðir hefðu átt sér stað og því ekki séð af gögnum máls hvaða ágreiningur eða stjórnvaldsákvörðun er tilefni kæru.

II.

Í erindi kæranda kemur fram að ágreiningur sé kominn upp milli hans og umhverfisfulltrúa Suðurnesja. Snúist ágreiningurinn um bifreið sem ekki sé á númerum, en standi inni á einkalóð kæranda. Að sögn kæranda er bifreiðin óskemmd en númer látin liggja inni vegna tryggingariðgjalda. Telur kærandi ámælisvert að starfsmaður geti leyft sér að fara inn á einkalóðir og í krafti embættis síns krafist þess að kærandi fjarlægi eitthvað af einkalóð sinni og geti jafnframt hótað því að fjarlægja hlutinn á kostnað kæranda sjálfs. Telur hann þetta brjóta í bág við mörg lög bæði um einkalóðir og ennfremur friðhelgi heimilisins. Kveður kærandi að fulltrúi taki engum rökum og þegar hann hafi óskað eftir hver lagaheimild væri, hafi hann fengið sent afrit af bréfi um verklagsreglur kærða. Kærandi sendi ennfremur með erindinu myndir af bifreiðum sem ekki hafa verið fjarlægðar í Vogum. Telur kærandi að um yfirgang starfsmanns sé að ræða og krefst þess að nefndin áminni hann.

III.

Fram er komið að engar aðgerðir hafa átt sér stað af hálfu kærða. Skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 er heimilt að vísa máli til úrskurðarnefndar rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda. Engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin og því ekki forsendur til staðar til þess að leggja málið fyrir úrskurðarnefndina. Málinu er því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Málinu er vísað frá.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 5/27/04

1/2000 Sólheimar, Gríms – og Grafningshreppi

Með

Nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998.

Ár 2000 þriðjudaginn 27. júní kom nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

 Fyrir var tekið mál nr. 1/2000 kæra Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi, vegna álagninar Grímsnes- og Grafningshrepps á sorphirðugjöldum fyrir árið 1997.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

I.

Aðdragandi máls þessa er að þann 11. febrúar árið 2000 barst nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 erindi frá Sjálfseignarstofnuninni Sólheimum og Styrktarsjóði Sólheima, Grímsnesi og tekið fram að framangreindir aðilar „vilji með erindi þessu vísa til úrskurðar nefndarinnar ákvörðun Grímsneshrepps (nú Grímsnes- og Grafningshrepps) um álagningu sorphirðugjalds fyrir árið 1997“

Með bréfi nefndarinnar til Grímsnes- og Grafningshrepps dags. 24.2.2000 var hreppnum gefinn kostur á andsvörum og bárust þau nefndini með bréfi dags. 27.3.2000.  Svör hreppsins voru send til Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima sem gerði athugasemdir við andsvör hreppsins með bréfi dags. 18. apríl 2000.

Ekki þótti ástæða til að kalla eftir frekari andsvörum frá Grímsnes- og Grafningshreppi og var erindi Sólheima og Styrktarsjóðsins tekið til úrskurðar.

Uppkvaðning úrskurðar hefur hins vegar dregist vegna mikilla anna nefndarmanna.

II.

Í erindi Sólheima og Stryktarsjóðsins frá 11. febrúar 2000 segir: „Sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps hefur ítrekað skuldfært Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima vegna sorphirðugjalda fyrir árið 1997 með því að draga sorphirðugjöld fyrir umrætt ár frá óskildum fjárveitingum ríkisins og sveitarfélagsins til Sólheima.“

Síðan er rakið að þann 15. maí 1997 hafi borist innheimtuseðlar frá Landsbanka Íslands vegna fasteignagjalda 1997 og í innheimtufjárhæð hafi fylgt gjald vegna sorphirðu og hafi það verið í fyrsta sinn sem slíkt gjald var til innheimtu.  Fasteignagjöld hafi verið greidd skilvíslega en greiðslu vegna sorphirðu hafi verið hafnað.  Þá hafi verið spurst fyrir með bréfi dags. 12. júní 1997 um hvenær gjaldskrá vegna sorphirðu hafi verið staðfest af umhverfisráðuneyti og sú

fyrirspurn ítrekuð með bréfi dagsettu 14. nóvember 1997 og aftur 20. júní 1998, en svör loks borist þann 20. júlí 1998.

Þá segir í erindinu: „Sólheimar og Styrktarsjóður Sólheima líta svo á að gjaldtaka sem þessi geti ekki verið afturvirk og sveitarstjórn hafi því verið óheimilt að leggja sérstakt sorphirðugjald á fasteignir Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima með fasteignagjöldum fyrir árið 1997.  Hafa ber í huga að hér var um nýja og áður óþekkta gjaldtöku að ræða að hálfu sveitarfélagsins, sem samkvæmt eðlilegum stjórnsýsluháttum og venjum ber að tilkynna gjaldendum með eðlilegum fyrirvara.“

Í niðurlagi erindisins er síðan beðist velvirðingar á því hve seint erindið er á ferðinni en vísað til þess að sorphirðugjaldið fyrir árið 1997 hafi verið dregið frá styrk vegna fráveitukerfis þann 29. desember 1999.  Erindinu fylgdu afrit þeirra bréfa sem gengið hafa á milli aðila þessa máls.

III.

Í svari Grímsnes- og Grafningshrepps frá 27. mars 2000 er aðdragandi álagningar sorphirðugjalds fyrir 1997 rakinn og honum lýst svo: „Á fundi Grímsneshrepps, þann 10. desember 1996, voru sorpgjöld fyrir árið 1997 samþykkt  (sjá fskj. nr. 1).  Í bréfi hreppsins til Umhverfisráðuneytisins dags. 7. mars 1997 er óskað eftir staðfestingu á áður samþykktri gjaldskrá (sjá fskj. nr. 2).  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 4. júní 1997 kemur fram að það geti ekki samþykkt gjaldskrána þar sem að ekki liggi fyrir nægileg rök fyrir upphæð gjalda í þeirri gjaldskrá sem lögð hefur verið fram.  Einnig telur ráðuneytið að frekari útfærslu vanti hvernig gjald vegna akstur og að upphæð vegna þess verði að koma fram í erindinu (sjá fskj. nr. 3).  Skv. bréfi Grímsneshrepps dags. 16. september 1997 er lögð endurbætt gjaldskrá (sjá fskj. nr. 4) skv. óskum ráðuneytisins (sjá fskj. nr. 3).  Rétt er að benda á að þau gjöld sem um er rætt hefur ekkert verið breytt frá samþykki fundar hreppsnefndar dags. 10. desember 1996 til bréfs dags. 16. september 1997.  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 29. september 1997 er gjaldskráin staðfest (sjá fskj. 5) og send samdægurs til Stjórnartíðinda til auglýsingar í B-deild (sjá fskj. nr. 6).

Eins og fram kemur í bréfi dags. 4. júní 1997 (sjá fskj. nr. 3) hefur þetta verið þrautarganga að fá gjaldskrána samþykkta enda var um að ræða álagningu sorpgjalda í fyrsta sinn hjá hreppnum.  Formgallar og ákveðnar kröfur ráðuneytisins gerðu það að verkum að gjaldskráin fékkst ekki samþykkt fyrr.  Í þessu bréfi verður ekki rætt um þá skýringu hversvegna farið var að leggja á sorphirðugjöld sérstaklega.

Skv. bréfi Grímsnes og Grafningshrepps dags. 29. desember 1999 (sjá fskj. nr. 7) var gerð leiðrétting á þessum gjöldum.  Fram til þessa hafa erindi ávallt borist í nafni Sólheima en ekki gerður greinarmunur á m.a. Styrktarsjóð Sólheima eða Sjálfseignarstofnun Sólheima.  Þess vegna er eðlilegt að Grímsneshreppur (hér áður) og Grímsnes og Grafningshreppur (í dag) hafi ávallt svarað erindum til Sólheima, eins og um eina stofnunin sé að ræða.“

Þau gögn sem fylgdu svari hreppsins eru m.a. endurrit hreppsnefndarfundar þann 10. desember 1996 þar sem samþykkt er tillaga um sorphirðugjald.  Bréf umhverfis-ráðuneytis frá 4. júlí 1997 þar sem ráðuneytið tilkynnir um endursendingu (synjun innsk. nefndar) gjaldskrárinnar.  Bréf hreppsins 16. september 1997 þar sem fram kemur að þann 9. sama mánaðar hafi hreppsnefnd samþykkt gjaldskrá vegna sorphirðu og loks bréf ráðuneytisins þar sem gjaldskráin er samþykkt þann 29. september 1997 og mun gjaldskráin síðan hafa verið birt í því hefti Stjórnartíðinda sem kom út 10. október 1997.

IV.

Í 18 gr. l. 81/1988 (nú 25 gr. l. 7/1998) segir að sveitarfélög geti sett sér sínar eigin heilbrigðissamþykktir og m.a. má setja í slíkar samþykktir ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu.  Skv. 3 mgr. 18 gr. l. 81/1988 skal upphæð gjalda ákveðin í sérstakri gjaldskrá, sem ráðherra staðfestir og í 4 mgr. segir efnislega að sveitarstjórnir skuli senda slíkar gjaldskrár til ráðherra í formi samþykktar.

Synji ráðherra staðfestingu endursendir hann samþykktina með leiðbeiningum um hvað þurfi til staðfestingar henni.

Um sumarið 1997 þegar Grímsnes- og Grafningshreppur krefur Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima um sorphirðugjald vegna ársins 1997 hafði ráðherra synjað um staðfestingu gjaldskrárinnar og hún því ekki í því formi sem lög krefjast.  Hvort síðar tilkomin staðfesting ráðherra á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Grímsneshreppi þann 29. september 1997 réttlæti álagningu og innheimtu sorphirðugjalds fyrir það ár er álitamál, sem nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 mun ekki taka afstöðu til.  Hér stendur svo á að skv. 27 gr. l. 37/1997 er kærufrestur þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnavaldsákvörðun og skv. 28 gr. s.l. skal kærum ekki sinnt, ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Því verður að vísa frá kæru Sjálfseignarstofnunar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kæru Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Stryktarsjóðs Sólheima

 Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal, skrifstofustjóri                           Óðinn Elísson hdl.

Date: 6/27/00

Mál 3/2002 Hótel Egilsbúð

Með

Úrskurður vegna kæruTrölla ehf., Hafnarbraut 50, 740 Fjarðarbyggð gegn heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð frá 2. júlí 2003.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003 miðvikudaginn 2. júlí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2002 kæra Trölla ehf., Hafnarbraut 50, 740 Fjarðarbyggð gegn heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður 

I.
Kæra lögmanns kæranda, ásamt meðfylgjandi gögnum barst nefndinni í september 2002.  Með kærunni fylgdi : 1)       yfirlit yfir leyfi heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna hvers konar gistingar á Neskaupstað,

2)       bréf kæranda til kærða, heilbrigðiseftirlits Austurlands,

3)       svarbréf síðarnefnda til kæranda.

Þá barst ennfremur svar kærða til umhverfisráðuneytis, ásamt ljósriti af starfsleyfum og umsóknum um starfsleyfi, en ráðuneytið hafði óskað greinargerðar heilbrigðiseftirlitsins vegna málsins.

Með bréfi úrskurðarnefndar dags. 8. apríl s.l. var óskað skilgreiningar á því hvers konar leyfi kærði var að veita með starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð svo og var óskað svara við eftirfarandi spurningum :

Hver var fyrirhuguð notkun starfsmannabústaða þegar ákvörðun kærða um starfsleyfi var tekin og hvaða notkun hafi verið á húsnæðinu á þeim tíma sem fyrirspurn var send.  Svar barst frá framkvæmdastjóra kærða með bréfi dags. 14. apríl, 2003, ásamt viðbótargögnum um mismunandi flokka gististaða.  Svarbréf það var sent lögmanni kæranda til umsagnar og barst bréf hans 25. júní s.l.

II.

Í kæru kemur fram að kærð sé sú ákvörðun kærða frá 21. maí, 2001 að veita B.G. Brosi ehf. starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð að Egilsbraut 1, Neskaupstað og ennfremur sú ákvörðun að veita  sama aðila starfsleyfi fyrir starfsmannabústað að Hafnarbraut 8, Neskaupstað hinn 12. janúar 2002.   Gerir lögmaður kærandi þá kröfu að starfsleyfi Hótels Egilsbúðar verði breytt þannig að það beri titilinn gistiheimilið Egilsbúð og ennfremur er þess krafist að starfsleyfi fyrir starfsmannabústaði verði fellt úr gildi.  Þá er gerð sú krafa að ólögmæt afnot af starfsmannabústað að Hafnarbraut 8 í Neskaupstað verði bönnuð.

Lögmaður kæranda rekur málsatvik sem hann kveður þau að kærandi reki hótel og gistiþjónustustarfsemi í Neskaupstað.  Hann hafi sem slíkur orðið að hlíta mjög ströngu eftirliti kærða og þeim reglum sem þeir setji.  Skjóti því skökku við að kærði hafi veitt gistiheimili B.G. Bross ehf. starfsleyfi fyrir hóteli þar sem í reynd sé um að ræða gistiheimili og beri  að sæta reglum um gistiheimili.   Rekur lögmaður kæranda samskipti sín við heilbrigðiseftirlitið og greinir frá að kröfum sínum um leiðréttingu hafi verið hafnað af kærða.   Því leiti hann með málið til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Lögmaður kæranda byggir kröfur sínar á því að í lögum nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði komi skýrt fram að enginn megi stunda slíka starfsemi  nema hafa til þess leyfi.

Í 8. gr laganna komi fram að gististöðum sé skipt upp í   4 flokka ; hótel, gistiheimili, gistiskála og gistingu á einkaheimilum og mismunandi skilyrði séu fyrir leyfi hvers flokks fyrir sig.  Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar   nr. 288/1987 um veitinga- og gististaði komi fram að óheimilt sé að nota á veitinga- eða gististað nafn, sem gefi til kynna annan rekstur en leyfi sé veitt til.    Lögmaður kæranda vísar til þess að kærði sé einn eftirlitsaðila þessara reglna.  Ennfremur vísar hann til þess að við veitingu leyfis í maí 2001 hafi átt að fara fram sjálfstæð könnun á vegum kærða á því hvort skilyrðum fyrir útgáfu leyfis væri fullnægt.  Telur lögmaður kæranda að með veitingu starfsleyfis fyrir Hótel Egilsbúð sé um brot á fyrrgreindu lagaákvæði að ræða. Þá vísar lögmaðurinn ennfremur til jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga.  Kröfu sína um niðurfellingu eða afturköllun á starfsleyfi fyrir starfsmannabústað að Hafnarbraut 8 í Neskaupstað byggir lögmaðurinn á því að notkun kærða á húsnæðinu hafi farið í bág við það leyfi sem út var gefið.  Í athugasemdum sínum dags. 20. júní s.l. ítrekar lögmaðurinn kröfuna um starfsleyfið og telur að viðurkennt sé í gögnum kærða að um brot á lögum  nr. 67/1985 og rgl nr. 288/1987 sé að ræða.

Varðandi notkun húsnæðis að Hafnarbraut 8, bendir lögmaður kæranda á að starfsleyfi hafi verið breytt og sé nú um að ræða starfsleyfi fyrir gistiskála, en ekki starfsmannabústaða.  Breytir lögmaður kæranda kröfugerð sinni með tilvísan til þessa.

III.

Framkvæmdastjóri kærða  gerir grein fyrir leyfisveitingum til B.G. Bross ehf. í bréfi til umhverfisráðuneytis dags. 24. ágúst. s.l. .  Kemur fram í gögnum  að starfsleyfi fyrir Hótel Egilsbúð sé fyrir veitingastað með veitingasal fyrir allt að 40 gesti svo og veislusal fyrir allt að 400 gesti.  Þá er vísað  til þess að miðað sé við starfsreglur fyrir veitingastaði og gistiheimili. Það sama kemur fram í afriti af starfsleyfi sem veitt hefur verið B.G. Brosi ehf. v. Hótels Egilsbúðar og fylgdi með í gögnum heilbrigðiseftirlits.  Varðandi starfsmannabústaði að Hafnarbraut 8, Neskaupstað gerir framkvæmdastjóri grein fyrir veitingu leyfisins.  Í ljós kemur í gögnum málsins að sótt hefur verið um leyfi fyrir gistiheimili, en húsnæðið uppfyllti ekki kröfur sem gerðar eru til þess.

Í svarbréfi framkvæmdastjóra kærða dags. 14. apríl s.l. staðfestir hún að starfsleyfi Hótels Egilsbúðar sé vegna gistiheimils.  Framkvæmdastjórinn svarar  hins vegar ekki fyrirspurn um hvaða notkun hafi verið fyrirhuguð á húsnæðinu né heldur hvaða upplýsingar hafi legið fyrir um notkun þegar leyfi var veitt.  Framkvæmdastjórinn upplýsir að nú hafi verið gefið út leyfi fyrir gistiskála í margumræddu húsnæði að Hafnarbraut 8.  Skilyrði leyfis sé að húsið skuli leigt út til hóps eða einstaklinga í einu lagi, ekki sé heimilt að leigja stök herbergi út úr íbúðinni nema kröfur um næturvörslur séu uppfylltar.

IV.

Fram er komið í gögnum málsins að starfsleyfi það sem veitt var BG. Brosi ehf. v. Hótels Egilsbúðar var starfsleyfi gistiheimilis. Í gögnum framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Austurlands og starfsleyfinu sjálfu kemur fram að farið skuli eftir starfsreglum heilbrigðiseftirlits Austurlands fyrir veitingahús og gistiheimili.  Með tilvísan til laga nr. 67/1985 og reglugerðar nr. 288/1987, er ljóst að starfsleyfi til handa B.G. Brosi ehf. brýtur í bága við þær réttarheimildir.  Starfsleyfið er villandi fyrir starfsemi sem þar er rekin.

Hvað snertir notkun á gistiskála að Hafnarbraut 8 á Neskaupstað er bent á að heilbrigðiseftirlit Austurlands er eftirlitsaðili með skálanum og ber því að gæta að því að notkun húsnæðisins sé í samræmi við útgefið leyfi og að skilyrði það sem leyfinu fylgir sé uppfyllt.  Að öðrum kosti ber að fella leyfið úr gildi.

Ekki er á valdsviði úrskurðarnefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að banna notkun húsnæðis eins og lögmaður kæranda gerir kröfu um.  Þeirri kröfu er því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir heilbrigðiseftirlit Austurlands að gefa að nýju út starfsleyfi til B.G. Bross ehf. fyrir gistiheimili.

 Lára G. Hansdóttir
Gunnar Eydal hrl.              Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.

Date: 7/7/03

Mál 10/2002 Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003, miðvikudaginn 2. júlí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr.  10/2002 kæra Danielle Palade Somers, Ólafs Jónssonar  og Henri Palade Ólafssonar,  vegna töku Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á hundum í eigu þeirra.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Kæra Daniellu Palade Somers, Ólafs Jónssonar og Henri Palade Ólafssonar, hér eftir nefnd kærendur, ásamt meðfylgjandi gögnum barst nefndinni frá umhverfisráðuneyti með bréfi ráðuneytisins dags. 16.  desember 2002.  Með kærunni fylgdu 20 fylgiskjöl sem varða samskipti kærenda, dýraeftirlits umhverfisdeildar Akureyrar, heilbrigðisfulltrúa Norðurlands eystra, yfirlýsingar sýslumanns og vörslumanna dýra, afrit bréfa frá dýralækni og líffræðingi og frekari gögn.

Afrit af kæru og öðrum gögnum kærenda voru send kærða, heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, í maí sl.  Kærði  sendi greinargerð  til nefndarinnar ásamt 41 fylgiskjali sem eru afrit bréfa sem sýna samskipti kærenda og kærða vegna máls þessa, auk afrita af bréfum kærða til kærenda svo og ljósrit mynda af hundum, afrit af úrskurði um húsleitarheimild, tilkynningum um kvartanir og fleira.  Afrit greinargerðar kærða  og annarra gagna sem með fylgdu voru send kærendum og þeim gefinn kostur á að senda athugasemdir sínar við greinargerð og fram komin gögn.  Kærendur ítrekuð kröfur sínar munnlega við formann nefndarinnar og ítrekuðu enn á ný að málinu yrði hraðað.  Kærendur sendu ennfremur framhaldskæru til nefndarinnar 23. júní s.l. vegna húsleitarheimildar og töku hundanna 5. júní 2003 ásamt ljósritum af gögnum sem málið varða.  Ennfremur barst nefndinni viðauki við framhaldskæru vegna máls þessa 30. júní, dags. 24. s.m. og fylgdu með ýmiss konar viðbótargögn ljósrit af áður komnum gögnum svo og ljósrit úr dagblöðum v. málsins og fleira.   Óskað var eftir að nefndin fjallaði um húsleit sem framkvæmd var.

II.

Málavextir eru þeir að allt frá því á árinu 2001 hefur kærði sent kærendum bréf varðandi lóðahreinsun og hundahald. Með bréfi dags. 1. júlí 2002 tilkynnti kærði kærendum að fyrirhuguð væri taka hunda af heimili þeirra.  Vísar kærði til stuðnings aðgerðum sínum til samþykktar um hundahald á Akureyri, þess að ekki eru leyfi fyrir hundum kærenda svo og þess að hundar hafa ekki verið færðir til hreinsunar.  Með bréfi sýslumannsins á Akureyri dags. 28. ágúst 2002, var gerð krafa um húsleit hjá kærendum og heimild til  töku á hundum sem séu án leyfis í vörslu kærenda.  Úrskurður héraðsdóms var dagsettur sama dag og heimilaði hann húsleit og töku hundanna.  Voru hundarnir teknir úr vörslu kærenda með valdi 29. ágúst 2002 og fluttir að Leirum á Kjalarnesi.  Hinn 30. ágúst 2002 sóttu kærendur um leyfi til dýrahalds í atvinnuskyni til lögreglustjórans á Akureyri sem framsent var heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra.  Beiðninni var hafnað með bréfi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra dags. 9. september 2002 og vísað til þess að um væri að ræða óásættanlega atvinnustarfsemi inni í íbúðabyggð og ennfremur að kærendur hefðu ekki leyfi Akureyrarbæjar til hundahalds.  Með yfirlýsingu dagsettri 16. september 2002 var kærendum heimilað að fá í vörslu sína þá 16 hunda sem af þeim höfðu verið teknir, enda hafi kærendur komið hundunum í vörslu til Birnu Björnsdóttur og Hólmgeirs Valdimarssonar. Í yfirlýsingu sýslumanns dags. 16. September 2002, kemur fram að kærendum sé óheimilt að hafa hundana á Akureyri.  Með bréfi kærða dags. 6. janúar 2003 var kærendum send aðvörun vegna hundahalds.  Var kærendum gefinn kostur á að hætta dýrahaldi og eða fara með hundana frá Akureyri innan 10 daga frá móttöku bréfsins.  Með bréfi dags. 25. febrúar 2003 sendu kærði og bæjarlögmaður Akureyrarbæjar bréf til sýslumannsins á Akureyri þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu til húsleitar.

Úrskurður um húsleit var að nýju kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra og hundarnir aftur teknir úr vörslum kærenda 5 júní 2003 og eru nú að Leirum á Kjalarnesi.

III.

Kæra kærenda er ódagsett en barst úrskurðarnefnd frá umhverfisráðneyti með bréfi dags. 10. desember 2002.  Kærðar eru aðgerðir, ákvarðanir og framkvæmdir stjórnvalda gagnvart kærendum og gæludýraeign þeirra í ágúst og september s.l. svo og með framhaldskæru aðgerðir í júní 2003.  Í greinargerð og gögnum kærenda kemur fram að þau telja sig hafa sætt einelti af hálfu stjórnvalda og að réttur sé brotinn bæði á þeim og 16 chihuahua hundum þeirra.  Lýsa kærendur að ýmis brot hafi verið framin við töku dýranna  og að kærendur hafi sætt harðræði.  Kærendur halda því fram að ekki sé um að ræða kvartanir á hundahaldi frá nágrönnum og að um sé að ræða aðgerðir kærða án nokkurra utanaðkomandi kvartana.

Með framhaldskæru sem barst formanni úrskurðarnefndar 23. júní s.l. eru síðustu aðgerðir heilbrigðiseftirlits kærðar en hundar kærenda voru teknir að nýju úr vörslum þeirra hinn 5. júní s.l.og að nýju fluttir að Leirum á Kjalarnesi.  Lýsa kærendur því að þeir hafi nú sótt um leyfi til hundahalds 16 chihuahua hunda sinna. Kærendur óska þess sérstaklega að málinu verði flýtt.  Telja kærendur að taka hundanna sé lögbrot,  brot á dýraverndarlögum, jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga og almennum mannréttindum sínum.  Hafi kærendur fengið að vera í friði með hunda sína um nokkurra ára bil, þar til á árinu 2001 þegar upp hafi hafist miklar aðgerðir gegn þeim.  Hafi þá bæði verið krafist lóðahreinsunar og lögð hafi verið fram kæra á hendur kæranda Ólafi fyrir að stunda hundarækt.  Síðan þá hafi aðgerðir yfirvalda á hendur þeim verið linnulítið í gangi og hafi nú endað með  töku dýranna.  Í viðauka við framhaldskæru er þess óskað að úrskurðarnefnd fjalli um húsleit þá sem fram hafi farið hinn 5. júní s.l. og ítrekað að um sé að ræða mannréttindabrot og valdníðslu stjórnvalda.

IV.

Í umsögn kærða er krafist frávísunar á stjórnsýslukærunni í heild eða að hluta vegna aðildarskorts þar sem kæruefni beinist að fleiri aðilum en kærða.  Þá er ennfremur krafist frávísunar vegna vanreifunar kröfunnar þar sem kæruatriði séu mjög óljós og vanreifuð.

Í umsögn sinni reifar kærði  kvartanir sem borist hafa og vísar til meðfylgjandi gagna auk þess sem kærði greinir frá málinu á sama máta og kærendur og má ljóst vera að ekki er deilt um málavexti.  Greinir heilbrigðiseftirlitið frá bréfum til kæranda Ólafs vegna lóðahreinsunar svo og til kæru og bréfa sendum kærendum vegna hundahalds á heimili og lóð sinni.  Þann 14. nóvember 2001 kveður heilbrigðiseftirlitið að kærða Ólafi hafi verið veitt áminning vegna brota á samþykktum Akureyrarbæjar um hundahald.  Lýst er kvörtunum vegna hunda á árinu 2002 svo og ítrekunum um lóðahreinsun. Eins og fyrr er greint frá voru hundar kærenda teknir úr vörslum þeirra í ágúst 2002 og aftur nú í júní 2003.

Heilbrigðiseftirlit lýsir málsástæðum svo að allt frá árinu 2001 hafi verið reynt að fá kærendur til að verða við tilmælum um lóðahreinsun, sækja um hundaleyfi greiða hundaleyfisgjald, en án árangurs.  Bendir kærði á að ekki hafi verið brotinn réttur á kærendum.  Sendar hafi verið viðvaranir vegna hundanna  og margoft skorað á kærendur að hreinsa lóð sína. Telur kærði sig hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni svo og farið eftir meðalhófs- og andmælareglu við gang málsins. Þá er því lýst yfir að kærandi telji sig framfylgja jafnræðisreglu með því að gera kröfu til kærenda um að fara að lögum og reglum eins og aðrir hundaeigendur verði að gera.

V.

Svo sem fram er komið greinir aðila á um töku hunda úr vörslu eigenda í tvígang og meðferð málsins hjá stjórnvöldum.

Kærði gerir þær kröfur að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd vegna aðildarskorts og vanreifunar.  Enda þótt kærðar séu aðgerðir ýmissa aðila í máli þessu kemur skýrt fram að kæran beinist gegn kærða.   Ekki verður því fallist á að um aðildarskort sé að ræða.  Ekki verður heldur fallist á að kröfur kærenda séu vanreifaðar  enda verður að telja  að málavextir séu nægilega skýrt fram komnir með framlagningu gagna beggja aðila.

Valdsvið úrskurðarnefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 nær einungis til aðgerða heilbrigðiseftirlits hvort farið hafi verið að settum reglum við aðgerðir þeirra.  Aðrar kröfur eiga ekki undir nefndina og verða því ekki teknar til umfjöllunar. Svo sem fram er komið í gögnum málsins og aðilar eru sammála um hafa aðgerðir heilbrigðiseftirlits staðið lengi.  Hefur kærði sent kærendum erindi bréflega svo sem aðvaranir vegna hundahalds án leyfis og áskoranir um lóðahreinsun.  Var kærendum veittur möguleiki á því að lagfæra lóð sína svo sem þeir og gerðu og var því fallið frá frekari kröfum á hendur þeim vegna lóðahreinsunar.  Hins vegar brugðust kærendur ekki við aðvörunum kærða vegna hundahalds.  Hefur því kærði sinnt andmælarétti og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og gætir jafnframt að jafnræðisreglu með því að framfylgja þeirri samþykkt sem gildir fyrir hundaeigendur í umdæmi heilbrigðiseftirlisins.  Samkvæmt samþykkt um hundahald á Akureyri nr. 360/2001, má  veita leyfi til hundahalds að uppfylltum ákveðnum skilyrðum svo sem þeim að greiða beri leyfisgjald og færa skuli hunda til hreinsunar.  Einnig er ákvæði í samþykktinni um  að óleyfilega hunda og hunda sem ganga lausir skuli eftirlitsmaður handsama og færa í sérstaka hundageymslu

Ekki er um það deilt í máli þessu að kærendur hafa ekki leyfi til hundahalds.  Þau hafa áður sótt um leyfi til hundahalds í atvinnuskyni en þeirri umsókn var hafnað.  Þau hafa nú sótt um leyfi fyrir 16 hundum,  en svar hefur ekki borist frá yfirvöldum.

Miðað við málavexti eins og þeir nú  liggja fyrir nú er ljóst að heilbrigðiseftirliti ber að fylgjast með því að reglum um hundahald sé fylgt. Þar sem ekki er leyfi fyrir hundum kærenda er ljóst að Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra er heimilt  og ber raunar að taka leyfislausa hunda í sína vörslu.  Ekki verður talið að kærði hafi farið offari í aðgerðum sínum.

Um lagarök vísast til laga nr. 7/1998 og samþykktar um hundahald á Akureyri nr. 360/2001.

Úrskurðarorð :

Með tilvísan til framangreinds verður ekki fallist á að aðgerðir kærða, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, við töku hunda úr vörslu kærenda hafi verið ólögmætar.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal hrl.                                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.

Date: 7/7/03

3/2000 Bessastaðahreppur hundahald

Með

Nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998.

Ár 2001 fimmtudaginn 1. febrúar kom nefnd  skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, hrl. og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2000, kæra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar, Sjávargötu 11, Bessastaðahreppi, kæra Ingrid Kuhlman, Sjávargötu 29, Bessastaðahreppi og kæra Elínar Vigdísar Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssonar vegna afgreiðslu Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þann 11.12.2000 á kröfu þeirra um aflífun hunds, skráðan eign Þorgerðar Nielsen, Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður

I.

Upphaf máls þessa er að með bréfi dagsettu 20. september 2000 til formanns nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lýstu þau Aðalheiður Ester Gunnarsdóttir og Guðjón Birkir Helgason því að sonur þeirra, Aron Ragúel, 10 ára, hafi verið bitinn af hundi, sem og annað barn í nágrenninu, og hafi bitið verið kært til lögreglu og þar sett fram krafa um aflífun hundsins.  Í bréfinu kom einnig fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi hafnað því að hundurinn yrði aflífaður og var þeirri málsmeðferð mótmælt.

Með bréfi dags. 2. október 2000 til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs-svæðis fór nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 fram á gögn og viðhorf eftirlitsins vegna framangreindrar kvörtunar.  Svar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis barst nefndinni daginn eftir og fylgdu ýmis gögn bréfinu m.a. lögregluskýrslur, bréf lögmanns hundeigandans, bréf Ástu Dóru Ingadóttur hundaþjálfara og ýmis bréf (vottorð) nágranna um hegðun þeirra barna sem koma hér við sögu.

Í framangreindum gögnum kom fram að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hafi gefið eiganda hundsins tækifæri til að „endurþjálfa“ hundinn og myndi síðar leggja málið fyrir heilbrigðisnefnd sömu svæða til endanlegrar ákvörðunar um afdrif hundsins og þá eftir mat á því hvernig til hefði tekist um þjálfunina.  Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 ákvað að bíða með afgreiðslu kvörtunar þeirra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar þar til endanleg ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis lægi fyrir og var þeim tilkynnt sú ákvörðun.

Heilbrigðisnefndin kom saman til fundar þann 11. desmber 2000 og er niðurstaða nefndarinnar að hundurinn skuli ekki aflífaður.

Afgreiðsla heilbrigðisnefndarinnar barst nefndinni með bréfi dags. 13. desember 2000 og fylgdu ýmis gögn m.a. bréf sem gengið hafa milli aðila málsins svo og álit skólaráðs Hundaskóla Hundaræktarfélags Íslands, en ekki verður ráðið af gögnum hver leitaði þess álits.

Með bréfi dags. 15. desember 2000 ítreka Aðalheiður Ester Gunnarsdóttir og Guðjón Birkir Helgason mótmæli sín vegna afgreiðslu heilbrigðiseftirlitsins og gera kröfu um að hundurinn verði aflífaður en til vara að hann verði látinn fara úr sveitarfélaginu.  Með bréfi dagsettu sama dag sendi Ingrid Kuhlman, Sjávargötu 29, Bessastaðahreppi, nefndinni sömuleiðis kröfu um að úrskurði heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði hafnað og gripið verði til viðeigandi ráðstafana skv. 14. gr. samþykkta um hundahald nr. 154/2000.

Að lokum barst nefndinni bréf dagsett 21. desember 2000 frá Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssyni, Sjávargötu 27, Bessastaðahreppi sem einnig gera kröfu um að ákvörðun Heilbrigðiseftirlits (nefndar) Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis verði felld úr gildi og hundinum lógað.

Með bréfi dags. 3.1.2001 til aðila málsins taldi nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 öll sjónarmið vera komin fram og tilkynnti að málið yrði tekið til úrskurðar.

II. 

Í bréfi kæranda, þeirra Aðalheiðar Esterar og Guðjóns Birkis, er lýst aðdraganda og afleiðingum þess er hundurinn Nói beit son þeirra Aron Ragúel þann 14. ágúst 2000.  Afleiðingar bitsins voru þær að sauma þurfti 7 til 8 spor í andlit drengsins en sárin voru tvö á efri vör og nasavæng sem rifnaði frá og svo á neðri vör, en ljósmyndir fylgdu af áverkunum.  Lýtalæknir mun síðan hafa stundað drenginn og lagfært bitsárin eins og hægt er.

Í bréfinu kom einnig fram að sami hundur hafi bitið 6 ára stúlku í nef og hvirfil skömmu áður.  Mál það var ekki kært þá að beiðni eiganda hundsins, en við síðara bitið hafi foreldrar þess barns ákveðið að setja fram kæru.

Í lögregluskýrslu kemur fram að stúlkan, Íris Anita, hafði verið bitin þann 29. júlí 2000 og foreldrar hennar þau Eyþór Eðvarðsson og Ingrid Kuhlman gerðu þá kröfu hjá lögreglu að hundurinn yrði aflífaður.  Í öðrum skýrslum kemur fram að Ágúst Böðvarsson faðir hundaeigandans hafi ætlað að svæfa hundinn þann 17. ágúst 2000 og einnig kom fram hjá móður eiganda hundsins að hann hafi glefsað í eigendur sína en sú fullyrðing var síðan dregin til baka af lögmanni þeirra.

Við meðferð málsins hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis var orðið við óskum eiganda hundsins um tækifæri til „endurþjálfunar“ hans en til öryggis krafðist heilbrigðiseftirlitið þess að hundurinn færi af heimili sínu meðan á þjálfun stæði og gefinn var tveggja mánaða frestur en þá skyldi málið metið að nýju.

Í bréfi lögmanns eiganda hundsins, dags. 4. september 2000, kemur fram að eigendur höfðu ráðfært sig við Ástu Dóru Ingadóttur hundaþjálfara hjá firmanu Gallerí Voff og beðið var um samþykki fyrir því að álits áðurgreinds hundaþjálfara væri leitað.  Í bréfinu er einnig lýst aðstæðum þegar hundurinn beit börnin og þau raunar sökuð um að hafa æst hundinn sérstaklega upp.  Eru þær staðhæfingar m.a. studdar ýmsum yfirlýsingum m.a. frá eigendum hundsins og öðrum í nágrenninu.

Ásta Dóra Ingadóttir, hundaþjálfari, skilar áliti í bréfi sem dagett er 8. september 2000.  Í álitinu er lýst hegðun hundsins og aðstæðum hans í Sjávargötu 23.  Tekið er fram að hundurinn sé á „félagsþroskatímabili“ sem hundar noti til að finna sinn stað í virðingarstiga heimilisins.  Síðan er því lýst að endurmóta þurfi viðhorf hundsins gagnvart fólki.

Í framhaldi þessa álits er í bréfi lögmannsins beðið um að hundurinn „fái tækifæri til að læra góða siði og fái að njóta einkaþjálfunar Ástu Dóru, sem síðan myndi meta hann að þeirri þjálfun lokinni“.  Í niðurlagi bréfs lögmannsins er því heitið að ef álit þjálfarans verði neikvætt muni hundurinn verða aflífaður og lokaorð bréfsins eru:“Með einlægri bón um að lífi Nóa litla (hundsins innsk. nefndar) verði þyrmt nú um hríð og að hann fái tækifæri til að læra að umgangast mannfólkið hjá góðum og viðurkenndum hundaþjálfara.“

Nefndinni þótti ástæða til að beina þeim spurningum til heilbrigðiseftirlitsins í fyrsta lagi hvernig staðið hafi verið að vali Ástu D. Ingadóttir til að þjálfa hundinn, í öðru lagi hvort hæfni hennar til þjálfunar hafi verið könnuð á einhvern hátt og að lokum hvernig heilbrigðiseftirlitið muni staðreyna árangur þeirrar þjálfunar sem eftirlitið sjálft hafi ráðgert.  Heilbrigðiseftirlitið svaraði og kom fram að val hundaþjálfarans hafi alfarið verið á vegum eiganda hundsins og starfsemi þjálfarans hafi verið kunn eftirlitinu.  Að lokum var svarað að mat á þjálfun hundsins eigi að koma fram í skýrslu hundaþjálfarans.

Í ódagsettri greinargerð hundaþjálfarans sem skilað var til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis er m.a. fullyrt að miklar breytingar hafi orðið á viðhorfi hundsins til manna og þetta sé góður hundur með trausta skapgerð og sýni ekki nokkrum manni óvild.  Síðan er sagt: ,,Það eina sem eftir situr er að hann ofles hormónaboð frá tíkum, hann fékk hormónasprautur til að minnka kynkvötina en það virðist ekki duga alltof vel og þá geti gelding verið næsta skerfið.“

Í framhaldi þessa álits fóru framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri heilbrigðiseftirlitsins á heimili hundsins þann 24. nóvember 2000 og skoðuðu aðstæður.  Niðurstaða þeirrar heimsóknar var að gefa það mat að hundurinn gæti verið áfram á heimili sínu.

Þann 11. desember 2000 er málið síðan tekið fyrir í heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, forsaga málsins rakin og er úrskurðarorð nefndarinnar svohljóðandi:

„Ekki er gerð krafa um að hundurinn Nói að Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi verði aflífaður enda verði hann ekki hafður utan dyra án gæslu fullorðinna“.

III.

Þessi niðurstaða er kærð til nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 fyrst með bréfi foreldra Arons Ragúels, þeirra Aðalheiðar Esterar Gunnarsdóttur og Guðjóns Birkis Helgasonar, dags. 15. desember 2000, og er gerð krafa um að hundurinn verði svæfður og til vara að hann verði látinn fara úr sveitarfélaginu.  Sama dag barst nefndinni einnig kæra Ingrid Kuhlman, móður Írisar Anitu sem hundurinn hafði bitið í júlí 2000.  Í kæru Ingrid eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og segir m.a. í kærunni „Í fyrsta lagi verður að telja undarlegt að sami aðili sem valinn er til að þjálfa hundinn gegn borgun skuli líka vera valinn til að leggja mat á hann.  Hér er ekki hægt að segja að um hlutlausan aðila sé að ræða.  Umræddur hundaþjálfari er enn í viðskiptum við eiganda hundsins, sem greiðir honum laun.“

Síðar segir: „Í öðru lagi dreg ég í efa fagleg vinnubrögð hundaþjálfara og undrast að heilbrigðisnefnd skuli velja ófaglærða manneskju til að leggja mat á það hvort að hundinum sé treystandi.  Í greinargerðinni má lesa eftirfarandi álit:

„Í eðli sínu er Nói góður hundur, með trausta skapgerð og ég hef aldrei séð hann sýna nokkrum manni óvild né heldur áhuga yfir höfuð, hann fer ekki að fólki að fyrra bragði“.

Hvernig má það vera að hundur, sem með skömmu millibili ræðst án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu á tvö börn og bítur þau í andlitið svo harkalega að þau þurfa að leita læknis, fái þetta mat „sérfræðingsins“.

Það  hlýtur að verða að gera greinarmun á þeirri hlýðniþjálfun sem hundaþjálfari beitir og faglegu mati á því hvort að dýrið sé líklegt að ráðast á önnur börn í þriðja, fjórða og fimmta skiptið.  Það að hundurinn hlýði eiganda sínum þýðir ekki sjálfkrafa að hann sé ekki hættulegur.  Af hverju var t.d. ekki lagt fyrir viðurkennt skapgerðar-mat sem Hundaræktarfélag Íslands notar og viðurkenndur atferlisfræðingur framkvæmir?

Í þriðja lagi tel ég að heilbrigðisnefndin hafi ekki sinnt skyldu sinni við að láta lóga hundinum.  Til grundvallar ákvörðuninni voru notaðar vægast sagt undarlegar sögusagnir nágranna sem vitað er að ekki voru viðstaddir þegar árás hundarins átti sér stað, hvorki þegar hann réðst á

dóttur mína né Aron.  Hvernig geta þær frásagnir nágranna á nokkurn hátt verið trúverðugar?  Sonur minn 7 ára varð vitni að árásinni á systur sína ásamt einu 5 ára barni.

Það er umhugsunarefni hvað raunverulega þurfi til að fá hund eins og Nóa aflífaðan?

Einnig finnst mér undarleg ályktun Guðmundar H. Einarssonar framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins í bréfi sínu til Sigurmars K. Albertssonar dagsett 13.12.2000.  Þar segir á blaðsíðu 2:

„Hvorugt hundsbitið telst brot á ofangreindri samþykkt (nr. 154/2000) þar

sem hundurinn var á heimili sínu þegar atvikin áttu sér stað.“

Hvernig getur það verið að hundsbit teljist ekki brot þegar hundurinn er á heimilinu sínu, er þá allt í lagi að hann bíti börn heima hjá sér en ekki úti?  Hvergi í samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi kemur fram að hundar hafi leyfi til að ráðast á börn eða að heimilið sé verndaður vettvangur fyrir árásir af þessum toga“.

Loks barst nefndinni kæra frá Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur og Gísla I. Þorsteinssyni sem setja fram þá kröfu að hundurinn verði aflífaður og lýsa þeim áhyggjum sínum að hundurinn komi til með að bíta fleiri börn í nágrenninu.

IV.

Sérstök samþykkt hefur verið gerð um hundahald fyrir Bessastaðahrepp, Garðabæ, Hafnarfjörð og Kópavog nr. 154/2000.

Í 1. gr. samþykktarinnar er sagt að hundahald sé takmarkað í áðurgreindum lögsagnarumdæmum og í 2 gr. er staðfest sú skipun að heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu.

Í 11 gr. samþykktarinnar segir: „Hafi eigandi ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns.  Hafi hundur bitið mann og/eða er hættulegur getur eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður.  Óski hundeigandi þess skal leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis viðurkenna áður en ákvörðun um aflífun er tekin.“

Í 14 gr. samþykktarinnar sem er undir kaflaheitinu „Valdsvið og þvingunarúrræði“ segir: “ Sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykkt þessari að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds getur heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila eða látið fjarlægja hundinn.“

V.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis féllst á að gefa eiganda hundsins tækifæri til að koma honum í svonefnda endurþjálfun og valdi eigandi hundsins til þess tiltekinn hundaþjálfara.  Það er álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að sá aðili hafi ekki verið til þess bær að gefa heilbrigðiseftirlitinu álit skv. 11. gr. samþykktanna um hundahald að þeirri þjálfun lokinni, en í raun er hundaþjálfarinn að meta eigin verk og árangur og augljóst að hlutlaus aðili hefði verið betur fallinn til þess verks.

Auk þess telur nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að álit hundaþjálfarans sé ekki trúverðugt og stutt skoðunarferð starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins á heimili hundsins styrki ekki álit hundaþjálfarans.

Í afgreiðslu heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 13. desember 2000 eru hagsmunir hundeigandans einir látnir ráða niðurstöðum en ekki horft til hagsmuna umhverfisins sem er barnmargt íbúðarhverfi.  Það er álit nefndarinnar að hvað sem líður þjálfun hundsins og fullyrðingum um að hann hafi verið vaninn af þeim göllum sem hann var haldinn muni börnum í nágrenni hans alltaf stafa af honum ógn sem ekki verði við unað og því verði að fjarlægja hundinn af heimili hans og koma honum fyrir á öðrum stað í samræmi við 14 gr. samþykktar um hundahald sem gildir í Bessastaðahreppi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi afgreiðsla heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og lagt fyrir heilbrigðiseftirlit sama svæðis að fjarlægja hundinn af Sjávargötu 23, Bessastaðahreppi í samræmi við ákvæði 14 gr. samþykktar um hundahald nr. 154/2000.

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal hrl.                                           Óðinn Elísson hdl.

Date: 2/1/01

2/2000 Akranesbær sorphirðugjald

Með

Nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998

Lágmúla 7

108 Reykjavík

Ár 2000 miðvikudaginn 25. október kom nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2000, kæra Óskars H. Ólafssonar, Sævangi 22, Hafnarfirði, vegna álagningar Akranessbæjar á sorphirðugjaldi fyrir árið 2000 fyrir fasteignirnar 01-02-01, 02-01-03 og 04-01-01 Vesturgötu 119, Akranesi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður

I.

Forsaga máls þessa er að þann 28. febrúar 2000 fór Óskar H. Ólafsson f.h. einkahlutafélagsins Óskars og Kjartans fram á það við bæjarráð Akranesskaupstaðar að kaupstaðurinn felldi niður álagningu sorphirðugjalds á þremur tilgreindum  eignarhlutum í fasteigninni nr. 119 við Vesturgötu á Akranesi.

Með bréfi dagsettu þann 2. mars 2000 hafnaði Akranesbær erindinu og í framhaldi sendi Óskar H. Ólafsson erindi dagsett þann 19. apríl 2000 til umhverfisráðuneytisins og óskaði eftir úrskurði þess.  Þann 31. maí framsendi ráðuneytið erindi Óskars H. Ólafssonar til nefndar skv. 31 gr. l. 7/1998.

Nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 óskaði þann 27. júní 2000 eftir athugasemdum Akranesskaupstaðar vegna erindisins og bárust athugasemdir kaupstaðarins til nefndarinnar 18. júlí.  Nefndinni þótti ástæða til að gefa Óskari H. Ólafssyni kost á andsvörum og bárust þau nefndinni þann 8. ágúst 2000.  Vegna ýmissa atriða í svarbréfi Óskars H. Ólafssonar þótti ástæða til að afla frekari gagna frá Akranesskaupstað og bárust þau þann 17. ágúst 2000.

II.

Sjónarmið kæranda koma fram í bréfi hans til bæjarráðs Akranesskaupstaðar þann 28. febrúar 2000 en þar segir m.a.: „Undirritaður f.h. hlutafélagsins Óskars og Kjartans ehf kt. 480399-3319, Sævangi 22, 220 Hafnarfirði, eigendur að neðangreindum eignarhlutum fasteignarinnar að Vesturgötu 119, Akranesi, nánar tiltekið eignarhlutum, 210-115, 2233-9631 og 223-9633, förum fram á niðurfellingu sorphirðugjalds.  Umræddir eignarhlutar eru í dag langt frá því að vera komnir í fullbúið ástand sbr. hér að neðan og ennfremur fer engin starfsemi fram í umræddum eignarhlutum“.  Síðar í bréfinu segir: “ Af framangreindu má ljóst vera að umræddir eignarhlutar eru einungis rúmlega fokheldir og langt í að einhver starfsemi verði í eignarhlutunum.  Því er farið fram á að Akranesskaupstaður felli niður álagningu sorphirðugjalds þar til eignarhlutarnir eru komnir í fullbúið ástand og starfsemi hafin í þeim.  Undirritaður skuldbindur sig til að láta Akranesskaupstað strax vita þegar starfsemi hefst í einhverjum þessara eignarhluta.“

Í andsvari við rökum Akranesskaupstaðar segir m.a.: „Forsaga þessa máls og samskipti mín við Akranesbæ voru í stuttu máli þau að ég kvartaði yfir reikningi sem mér var sendur vegna sorphirðugjalda sem eru innheimt með fasteignagjöldum bæjarins og óskaði eftir að hann yrði niðurfelldur þar sem engin starfsemi væri í mínum hluta hússins við Vesturgötu 119.  Lét ég þess getið að ekki væru neinar sorptunnur við húseign mína.   Daginn eftir voru settar 3 sorptunnur við húsið (hafa þær fokið tómar til og frá um lóðina í vetur).  Ég ræddi símleiðis við bæjarritara og í samtali okkar kom aðeins fram að þetta væru reglur Akranesbæjar og reikningurinn fengist ekki niður felldur.“

„Í 4. málsgrein fjallar J.P.P. um að: „..timbri, járni og spillefnum sé komið til Sorpu í Reykjavík til frekari vinnslu“.  Ég óska eftir að taka fram að eftir að framkvæmdum við útlitsbreytingar og viðhald húseignar að utan lauk, greiddu húseigendur móttökustöð sérstaklega fyrir urðun á grófúrgangi er til féll og sáu sjálfir um flutning þess, sé ég ekki hvað það kemur þessu máli við þar sem húseigendum er gert að greiða sérstaklega fyrir það eftir vigt.

Í 5. málsgrein bréfs Jóns Pálma segir ennfremur: „..reglur settar á árinu 1997 og staðfestar af umhverfisráðherra þann 18. desember það ár.“  Í framhaldi af þessu svari hlýt ég að spyrja hvaða þýðingu það hefur fyrir mál mitt ef rétt er.

Í 6. málsgrein sama bréfs er tíundaður samingur Akraneskaupstaðar vegna sorphirðu bæjarins.  Ég get ekki séð að það hafi neitt með mín mál að gera þó Akranesbær eigi í erfiðleikum með að greiða fyrir sorphirðu eða geri óhagstæða samninga við verktaka sína.

Í áðursendu bréfi mínu frá 28. febrúar útskýrði ég ástæður mínar fyrir ósk um niðurfellingu sorphirðugjalds v/húseignar minnar, þar sem enn fer engin starfsemi fram og er hún á sama byggingarstigi og áður var lýst.

Ég tel það réttlætismál að mér sé ekki gert að greiða fyrir þjónustu sem ég þarf ekki á að halda þó um verulegar upphæðir sé ekki að ræða í þessu tilviki.  Óska ég því eftir að nefnd sú sem alþingi hefur falið að úrskurða um þessi mál taki mál mitt til úrskurðar.“

III.

Í rökum Akranesskaupstaðar segir m.a. „Akraneskaupstaður hefur með höndum sorphirðu fyrir Akranes og rekur til þess móttökustöð þar sem sorpi frá einstaklingum og fyrirtækjum er veitt móttaka.  Sorpinu er síðan ekið til Fíflholta á Mýrum til urðunar.  Einnig er timbri, járni og spillefnum komið til Sorpu í Reykjavík til frekari vinnslu.  Grófúrgangi, þ.e. jarðefnum og þ.h. er komið fyrir í grófurðunargryfju nálægt sorpmóttökustöð Akraness.

Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt reglur sem unnið er eftir varðandi fyrirkomulag á hirðingu og innheimtu gjalda, þær reglur voru settar á árinu 1997 og staðfestar af umhverfisráðherra þann 18. desember það ár.  Á grundvelli þeirra samþykkta hefur bæjarstjórn síðan gefið út gjaldskrá sem unnið hefur verið eftir, nú síðast sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 7. desember 1999 og gildir fyrir árið 2000.

Á árinu 2000 er reiknað með að sorphirðan kosti Akraneskaupstað um 5 milljónir króna (nettó), en þá hefur verið tekið tillit til innheimtra sorpgjalda bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, en þá er ekki reiknað inn í þá tölu afskriftir af stofnkostnaði sem var um 50 millj. króna á árinu 1997, eða fjármagnskostnaður af þeirri upphæð.

Fyrirkomulag sorpmála er með þeim hætti að lagt er sorpgjald á allar fasteignir (matseiningar) og er í gjaldskránni ákvæði um lágmarkseiningu sem nemur lágmarksgjaldi, en slíkt var talið nauðsynlegt með hliðsjón af jafnræði.  Þetta gjald hefur verið innheimt á alla aðila sem eiga fasteignir óháð því hversu mikið sorp fellur til hjá viðkomandi.  Sorplosun er síðan á 14 daga fresti.  Sé þörf á tíðari losunum verða viðkomandi aðilar að annast slíkar losanir sjálfir eða semja um slíkt við verktaka.

Það hefur verið skoðun bæjaryfirvalda á Akranesi að sú beiðni sem fram kemur frá Óskari um niðurfellingu sorpgjalda falli ekki innan núverandi samþykkta um sorphreinsun á Akranesi eða undir gildandi gjaldskrá, af þeim orsökum var ekki hægt að verða við beiðni hans.

Það er einnig skoðun bæjaryfirvalda að illmögulegt sé að taka tillit til slíkrar beiðni þar sem bæði skipulag og kostnaður vegna sorpmála geri ráð fyrir verulegum föstum kostnaði í þessum málaflokki sem fellur ekki niður þótt einstaklingar eða fyrirtæki nýti ekki sorphirðuna með fullum hætti einhvern hluta ársins.

Þess utan að talið hefur verið ómögulegt að halda þannig utan um sorpmálin að eingöngu sé miðað við magn þess sorps sem kemur frá þeim aðilum sem skila frá sér sorpi, sorpmálin á Íslandi bjóða einfaldlega ekki enn þann möguleika að innheimt sé eftir vigt frá hverjum og einum sem þurfa að koma frá sér sorpi, þótt slíkt kunni að vera eðlilegt til framtíðar litið.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að fasteignagjöld, holræsagjöld og vatnsskattur hefur verið lagður á fasteignir óháð því hvort eignirnar séu nýttar í starfsemi eða til íbúðar, eingöngu hefur verið horft til þess hvort viðkomandi eign sé komin í fasteignamat eða ekki og þar af leiðandi hafa þau gjöld ekki verið felld niður hafi viðkomandi fasteignir ekki verið nýttar allt árið, það sama hlýtur að gilda varðandi álagningu lágmarksgjalda vegna hirðingu(sic) og eyðingu(sic) sorps í sveitarfélögum, ekki er hægt að sjá hvernig annað fyrirkomulag geti í raun gengið upp án verulegs kostnaðarauka fyrir þá sem þjónustuna nota.“

IV.

Samþykkt um sorphreinsun á Akranesi var afgreidd í bæjarstjórn Akraness þann 9. desember 1997 og síðar birt í Stjórnartíðindum 30. desember 1997.  Í samræmi við samþykktina var síðan samin og samþykkt gjaldskrá fyrir hirðingu og eyðingu sorps á Akranesi þann 7.12.1999 og gildir sú gjaldskrá um sorphirðugjöld þau sem deilt er um í máli þessu.

V.

Í 9 gr. l. 45/1998 segir að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast að svo miklu leyti sem ekki eru um það settar reglur í löggjöf.  Í 44 gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 segir að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæðum og í 38 gr. 3. tl. mengunarvarnar-

reglugerðar nr. 48/1994 er sagt að sveitarstjórn skuli sjá um að tæma sorpílát og flytja sorpið brott sé það ekki falið öðrum með samningi.

Í 25 gr. l. 7/1998 segir m. a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðan segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu, en gjöld megi ekki vera hærri en nema kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.  Um það atriði er ekki deilt í máli þessu.

Eftir framangreindum reglum setti Akranesskaupstaður sér gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps þann 7.12.1999.

Í gögnum kemur fram að kærandi telur ekki grundvöll fyrir sorphirðugjaldi þar sem fasteignir þær sem mynda gjaldstofninn séu ekki komnar í fullbúið ástand og engin starfsemi sé í eignunum, en tekið fram að kaupstaðnum verði gert viðvart strax og svo verði.  Hvorki í samþykktum um sorphreinsun á Akranesi né í gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps á Akranesi er gert ráð fyrir undantekningum frá gjaldskyldu af ástæðum samsvarandi þeim er fram koma í sjónarmiðum kæranda og ekki kemur heldur fram í gögnum hvort aðstæður kæranda verði bornar saman við aðstæður annarra gjaldenda á Akranesi og honum mismunað að því leyti.

Nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 lítur svo á að Akranesskaupstaður hafi samkvæmt framansögðu lagalegar heimildir til að haga gjaldtöku vegna sorphirðu á þann hátt sem fram kemur í ákvæðum gjaldskrár frá 9. desember 1999 og almennt verði sorphirðugjöld ekki ákveðin nema sem jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign, en lög og reglur standi ekki til þess að reiknaður sé kostnaður sem fellur til vegna hvers og eins gjaldanda.

Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á niðurfellingu sorphirðugjalda vegna Vesturgötu 119, Akranesi fyrir eignarhluta nr. 01-02-01, 02-01-03 og 04-01-01.

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal                                                    Óðinn Elísson hdl.

Date: 10/25/00

Mál 3/1999 Eyrargata 12, Suðureyri, Ísafjarðarbæ

Með

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998.

Ár 2000 mánudaginn 29. maí kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 3/1999, kæra Sveinbjargar Hermannsdóttur, Flókagötu 6, Hafnarfirði, vegna álagningar Ísafjarðarbæjar á sorphirðugjöldum 1997 og 1998 fyrir fasteignina Eyrargötu 12, Suðureyri, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR:

I.

Forsaga máls þessa er að í febrúar 1997 mótmælti Sveinbjörg Hermannsdóttir, kærandi mál þessa, sorphirðugjaldi sem lagt var á hana vegna fasteignar hennar að Eyrargötu 12, Suðureyri, Ísafjarðarbæ, fyrir árið 1997 og fór fram á endurskoðun þess til lækkunar.  Gjaldið var ákvarðað í gjaldskrá sem umhverfisráðuneytið staðfesti í byrjun árs 1997.

Í febrúar 1998 mótmælir lögmaður kæranda, Hlöðver Kjartansson hdl., síðan álagningu holræsa-, sorphirðu- og fasteignagjalda vegna ársins 1998 og krafðist þess m.a. að sorphirðugjald, sem úrskurðarmál þetta fjallar um, yrði tekið til endurskoðunar og lækkað.

Í mars 1998 svarar Ísafjarðarbær erindinu og er öllum kröfum hafnað.  Í apríl 1998 kærði lögmaður kæranda þá niðurstöðu til félagsmálaráðuneytisins og krafðist þess að ákvörðunum Ísafjarðarbæjar yrði breytt og kröfur hennar teknar til greina.  Ráðuneytið tók til meðferðar þann þátt er laut að holræsa- og fasteignagjöldum en vísaði þeim þætti sem snéri að sorphirðugjaldi til umhverfisráðuneytis með tilvísun til l. nr. 7/1998.

Í maí 1998 svaraði umhverfisráðuneytið lögmanni kæranda og skýrði tildrög að staðfestingu ráðuneytisins á gjaldskrá Ísafjarðarbæjar fyrir sorphirðu vegna ársins 1998.  Í niðurlagi svarsins var einnig vísað til þess að hægt væri að snúa sér til sveitastjórnar og óska eftir leiðréttingu og ef ekki yrði sátt um upphæð sorphirðugjaldsins væri hægt að kæra til nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998.

Þrátt fyrir framangreinda ábendingu kaus lögmaður kæranda að bera fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis í maí 1998 vegna álagningar sorphirðugjalda fyrir árin 1997 og 1998 á húseignina Eyrargötu 12, Suðureyri.  Umboðsmaður Alþingis tók kvörtun kæranda til meðferðar og komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 1999 að ágreiningur skyldi borinn undir úrskurðarnefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 og beindi þeim tilmælum til umhverfisráðuneytisins að að það framsendi erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar.

Nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 barst síðan erindið frá umhverfisráðuneyti þann 11. nóvember 1999.  Nefndin skrifaði lögmanni kæranda þann 24.11.1999 og var hann beðinn um upplýsingar um hvort vilji væri til þess að nefndin tæki ágreining kæranda og Ísafjarðarbæjar til meðferðar.  Því bréfi var svarað 2.12.1999 þar sem óskað var eftir meðferð nefndarinnar og tekið fram að ekki þyrfti frekari athugasemdir fram að færa um málefnið og var vísað til þeirra gagna sem þegar væru komin fram.  Ísafjarðarbæ var framsent bréf lögmanns kæranda frá 2.12.1999 og í svarbréfi bæjarins dags. 16.12.1999 kom fram að af hálfu bæjarins væru öll gögn þegar komin til nefndarinnar.

Nefndinni barst síðan bréf frá lögmanni Ísafjarðarbæjar 13.1.2000 þar sem óskað var eftir fresti til að koma að sjónarmiðum og beðið um þau gögn, sem nefndinni höfðu þá borist.  Fallist var á beiðni lögmannsins og barst greinargerð hans síðan til nefndarinnar 31.1.2000.  Lögmanni kæranda var gefinn kostur á andsvörum og bárust þau 28.2.2000.  Ástæða þótti til að gefa lögmanni Ísafjarðarbæjar enn kost á athugasemdum og bárust þær 11.3.2000.  Með bréfi til nefndarinnar dags. 27.3.2000 taldi lögmaður kæranda ekki þörf frekari gagna í málið.

Vegna páskaleyfa og anna nefndarmanna hefur dregist að kveða upp úrskurð en aðilum málsins var gert viðvart um þær tafir.

II.

Sjónarmið kæranda birtast m.a. í kæru lögmanns hans til Ísafjarðarbæjar frá febrúar 1998.  Þar segir m.a. „Gjaldi vegna sorphirðu (sorphreinsunar og sorpeyðingar) er ætlað að standa straum af raunverulegum kostnaði við þá þjónustu og skal gjaldið vegna einstakra fasteigna samkvæmt því taka mið af kostnaði við þann flokk fasteigna, sem fasteignin fellur í.  Þannig  er gjald þetta almennt mismunandi eins og fram kemur í eftirgreindum reglugerðum eftir því hvort um er að ræða sveitabýli, sumarhús, íbúðir eða fyrirtæki.  Með hliðsjón af þeim reglugerðum verður að telja sorphirðugjald að upphæð kr. 7.750 á allar íbúðir eða íbúðarhúsnæði í Ísafjarðarbæ mun hærra en nauðsyn krefur til að standa straum af kostnaði við þessa þjónustu og skylt að veita afslátt vegna einstakra íbúða, svo sem með tilliti til íbúafjölda í einstökum íbúðum eða takmarkaðrar notkunar íbúðar, þar sem enginn hefur lögheimili, eins og á við um húseignina að Eyrargötu 12, en þar hefur sorpílátið t.d. staðið inni frá því í september og kemur til með að vera þar fram í maí eða júni, eins og verið hefur frá því Sveinbjörg eignaðist húseignina, nema til dvalar í húsinu um páskana komi, sem verður reyndar nema óviðráðanleg atvik hamli.

Samkvæmt þessu verður að telja, að sorphirðugjald að upphæð kr. 7.750 sé mun hærra en réttlætanlegt er til að bera uppi kostnað við þessa þjónustu fyrir húseignina, enda enginn kostnaður við hana, og þær aðrar í sveitarfélaginu, sem eins er ástatt um, og fjórðungur þeirrar fjárhæðar, eða kr. 1.938, væri fullnægjandi til að standa undir þeim kostnaði t.a.m. með hliðsjón af neðangreindum reglugerðum, ella sé hér um að ræða beina skattlagningu, sem ekki sé lagaheimild til.  Gerð er krafa til að gjaldið verði lækkað eða afsláttur veittur niður í þá fjárhæð eða gjaldið fellt niður með öllu leggi sveitarfélagið gjald þetta ekki á sumarhús, sem vísbending er fyrir, enda er ekkert ákveðið í reglugerðinni varðandi sorphirðugjald af slíkum eignum.“

Í framhaldi eru síðan nefnd dæmi um ýmsa gjaldlagningu vegna sorphirðu hjá allmörgum sveitarfélögum.

Í stjórnsýslukæru til félagsmálaráðuneytis frá 17.4.1998 eru framangreind sjónarmið endurtekin og áréttuð.  Í kvörtun til umboðsmanns Alþingis segir m.a. „Kvörtun umbjóðanda míns lýtur að því, að 1) ekki hafi verið gætt lögmætra sjónarmiða við ákvörðun sorphirðugjaldsins í A-lið 1. mgr. 2. gr. gjaldskránna, 2) ákvörðun gjaldsins byggist ekki á viðhlítandi undirbúningi og útreikningi kostnaðar við þessa þjónustu sveitarfélagsins í heild, á Suðureyri sérstaklega, og við einstakar íbúðir eða íbúðaflokka, 3) ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis við ákvörðun þess og niðurjöfnun og 4) gjaldtakan sé andstæð lögum eða skorti lagastoð.  Þá er kvartað yfir því, að setning gjaldskránna, er staðfest af Magnúsi Jóhannessyni ráðuneytisstjóra og undirmönnum hans í umhverfisráðuneytinu, sem Magnús er vanhæfur til vegna skyldleika við Þorstein Jóhannesson, sem lengst af var ýmist forseti bæjarstjórnar eða formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á síðasta kjörtímabili, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þeir Magnús og Þorsteinn eru bræður.“

Í andsvari við rökum lögmanns Ísafjarðarbæjar segir m.a.:

„2.  Ágreiningur málsaðila, sem til úrlausnar er fyrir úrskurðarnefndinni, varðar álagningu sorphirðugjalds bæði árin 1997 og 1998, sbr. inngangsorð í IV. kafla álits umboðsmanns Alþingis.  Mótmælum umbj.m. varðandi bæði árin var hafnað af Ísafjarðarbæ.  Sá ágreiningur hefur ekki sætt úrlausn æðra stjórnvalds.  Eins og málið er vaxið og hefur rekist verður því að líta á kvörtun mína til umboðsmanns Alþingis 28. maí 1998, þar sem kvartað er vegna álagningar beggja áranna, sem hluta af kæruefninu til æðra stjórnvalds, úrskurðarnefndarinnar, enda liggur málið nú þannig fyrir til úrlausnar.  Á það er bent að einungis vegna ákvæða 2. mgr. 6. gr. laga um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997 vísaði hann frá sér að leysa úr ágreiningi aðila varðandi árið 1997.  Það bindur ekki úrskurðarnefndina á nokkurn hátt.

5.  Bréf umhverfisráðuneytisins til mín í tilefni af stjórnsýslukæru umbj.m. er dagsett 13. maí 1998.  Af hálfu umbj.m. hefur aldrei verið fallist á að þær upplýsingar sem þar koma fram um kostnað vegna reksturs sorpbrennslustöðvarinnar Funa og urðun ásorpi séu réttar eða fullnægjandi grundvöllur fyrir staðfestingu gjaldskránna eða gagnvart gjaldtökunni af umbj.m.   Sama á við um svokallaða umsögn fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar í bréfi, dags. 31. janúar 2000.  Er þessu öllu vísað á bug sem þýðingarlausu fyrir réttlætingu Ísafjarðarbæjar á gildi samningar og samþykktar bæjarstjórnar á gjaldskránum á sínum tíma.  Hvað sem þessu líður skiptir hér hins vegar meginmáli sem segir í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998: „Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.“  Af þessu og reyndar almennum reglum stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld er augljóst að miða ber gjaldið við að mæta kostnaði af þjónustunni í einstökum tilvikum.  Verður því að gera kröfu um að fyrir liggi, er gjaldskrá er samin af sveitarfélagi og staðfest af ráðherra, útreikningur sorphirðukostnaðar vegna einstakra húseigna eða flokka húseigna í Ísafjarðarbæ við ákvörðun sorphirðugjalds, þar sem gjaldið má aldrei vera hærra en nemur veittri þjónustu við viðkomandi gjaldanda eða flokk gjaldenda.  Ekki nægir að vísa til þess að álagt sorphirðugjald alls í sveitarfélagi sé lægra en heildarkostnaður af þjónustunni.  Þar sem enginn útreikningur í þessa veru lá fyrir við samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á gjaldskránum og staðfestingu umhverfisráðherra á þeim eru bæði staðfestingar þeirra og álagningarnar á

umbj.m. samkvæmt þeim ólögmætar.  Sjónarmið stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar um jafnræði gjaldenda leiða til sömu niðurstöðu.

6.      Því er eindregið mótmælt að nokkurri venju sé til að dreifa um gjaldtöku

sorphirðu frá íbúðarhúsnæði miðað við fast gjald.  Slík gjaldtaka er ólögmæt, ómálefnaleg og ósamrýmanleg almennum lögskýringarsjónarmiðum um réttmæti þjónustugjalda.  Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur ekki verið sýnt fram á að myndast hafi bindandi stjórnsýslu- eða stjórnskipunarvenja sem helgi hið gagnstæða.  Engum ómöguleika- eða neyðarréttarsjónarmiðum er til að dreifa sem Ísafjarðarbær getur borið fyrir sig til að réttlæta hina ólögmætu gjaldtöku.  Það er vissulega einfalt og þægilegt fyrir Ísafjarðarbæ að leggja á jafnaðargjald.  Þeim sem þar ráða verður hins vegar að skiljast að með því næst ekki lögboðið samræmi og jafnræði og ekki einu sinni nálgun að því lögboðna marki.  Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur það ekki heldur reynt.   Af hálfu Ísafjarðarbæjar hafa engin rök, hvað þá sterk rök, verið færð fyrir því að bæjarfélaginu sé rétt að leggja á jafnaðargjald og sneiða með því hjá þessum mikilvægu reglum stjórnsýsluréttar og almennum reglum um ákvörðun þjónustugjölda miðað t.d. stærð einstakra eigna eða flokks eigna,  íbúafjölda í þeim eða notkun þeirra á þjónustunni.  Slíkt er einfaldlega framkvæmt eins og sést af fyrirliggjandi gjaldskrám tiltekinna sveitarfélaga.  Það verður að teljast hægur vandi að haga gjaldskrá með þeim hætti að ekki sé lagður skattur í formi þjónustugjalds vegna sorphirðu frá eignum eins og umbj.m.  Það stoðar ekki Ísafjarðarbæ að bera fyrir sig að íbúaskráning kunni að vera röng eða sniðgengin.  T.d. fer kosningaréttur eftir slíkum opinberum skrám.  Hví má ákvörðun sorphirðugjalds þá ekki taka mið af þeim?“

III.

Í svarbréfi Ísafjarðarbæjar frá 10.3.1998 segir m.a.:  „Sorphirðugjaldi í Ísafjarðarbæ er ætlað að standa undir kostnaði sveitarfélagsins af sorphirðu.  Gjaldinu er skipt í tvo megin flokka, annars vegar gjald á íbúðir og íbúðarhúsnæði, hins vegar á fyrirtæki, félög og stofnanir.  Ljóst er að kostnaður sveitarfélagsins af sorphirðu og sorpeyðingu skv. reikningum sveitarfélagsins er umfram tekjur og verður gjaldtökunni því ekki hnekkt af þeim sökum.  Telja verður fullnægjandi að lagt sé jafnaðargjald á hverja einingu íbúðarhúsnæðis.  Óhjákvæmilegt er að taka tillit til meðaltals-sjónarmiða en útilokað er að magntaka sorp einstakra íbúðareigenda auk þess sem magn sorps getur verið mismunandi frá einum tíma til annars.  Með sorphirðugjaldinu er íbúðareiganda tryggður sorpflutningur ef hann kýs að nýta sér hann.  Fyrir þá aðstöðu ber að greiða.  Ekki er fallist á þau rök, að sorphirðugjald geti miðast við fjölda heimilismanna á hverjum tíma, eða hvort og hverjir hafi þar lögheimili.  Ekki er heldur fallist á að eignin Eyrargata 12 teljist vera sumarbústaður enda er eignin ekki á slíku svæði skv. skipulagi.  Kröfu um breytingu eða niðurfellingu sorphirðugjalds er því hafnað.

Í ljósi ofangreinds föllumst við ekki á breytingu á álagningu fasteignagjalda á fasteignina Eyrargötu 12, Suðureyri.“

Í bréfi umhverfisráðuneytisins frá apríl 1998 til lögmanns kæranda segir m.a. vegna staðfestingar ráðuneytisins á gjaldskrá nr. 28/1998 fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ.

„Samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fram af Ísafjarðarbæ þegar óskað var staðfestingar gjaldskrár í upphafi þessa árs kemur fram að á árinu 1997 var kostnaður vegna reksturs sorpbrennslustöðvarinnar Funa og urðunar á sorpi áætlaður kr. 62.457.000.  Á sama tíma voru álögð sorphirðugjöld og þjónustutekjur

kr. 34.139.000.  Kostnaður umfram tekjur var því áætlaður kr. 28.318.000.  Í drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 1998 er gert ráð fyrir tekjum sem nema kr. 37.500.000 og  útgjöldum sem nema kr. 63.900.000.  Útgjöld umfram tekjur eru því áætluð

kr. 28.400.000.  Afborganir áhvílandi lána eru ekki með í þessum útreikningum.  Ráðuneytið telur sorphirðugjald kr. 7.750 á ári á íbúð ekki óeðlilegt miðað við framangreindar forsendur.  Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að hnekkja gildandi gjaldskrá.  Þegar upphæð sorphirðugjalda á íbúðarhúsnæði er ákveðin er venjan sú að sveitarfélög ákveða jafnaðargjald á hverja íbúð.  Þó hafa nokkur sveitarfélög tilgreint í gjaldskrá lægra gjald ef t.d. um er að ræða lítið sorpmagn eða fáa í heimili.  Gjald sem fram kemur í gjaldskrá er hámarksgjald.  Sveitarstjórn getur tekið ákvörðun um að innheimta lægra gjald.“

Í bréfi lögmanns Ísafjarðarbæjar frá 31.1.2000 segir m.a.:

I.

„Af hálfu Ísafjarðarbæjar er litið svo á, að kæruefnið taki eingöngu til álagningar sorphirðugjalds skv. gjaldskrá nr. 28/1998, en ekki til álagningar skv. gjaldskrá

nr. 37/1997, en í kvörtun sinni til Ísafjarðarbæjar, hinn 10. febrúar 1998, sem kærð var til félagsmálaráðuneytisins hinn 17. apríl 1998, var eingögnu vikið að álagningu skv. gjaldskrá nr. 28/1998, þ.e. vegna ársins 1998.

III.

Gjaldskrá sú fyrir sorphirðu, sem kæran lýtur að, er nr. 28/1998.  Gjaldskráin er sett með heimild í 18. gr. laga nr. 81/1988, sbr. 6. gr. l. nr. 70/1995.  Í 3. tl. gr. 18.2 var kveðið á um að í gjaldskrá sem sveitarfélög setja sér mætti kveða á um gjaldtöku m.a. vegna veittrar þjónustu.

Í gjaldskránni er mælt fyrir um árlegt sorphirðugjald á íbúðarhúsnæði skyldi vera

kr. 7.750, þ.e. á íbúð, eða kr. 645,83 á mánuði.  Fyrir þetta gjald er látin í té sorphirða, þ.e. kannað er með reglubundnum hæti hvort sorp hafi verið sett í tunnuna og hún þá tæmd, sbr. 44. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, sbr. síðar.  Tíðni sorphirðu er miðuð við að fyllsta hreinlætis sé gætt og að sorp safnist ekki upp.  Er hverrar eignar vitjað að þessu leyti.

IV.

Samkvæmt 44. gr. heilbrigðisreglugerðar, nr. 149/1990, er sveitarfélag ábyrgt fyrir „reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæði.“  Löng venja hefur skapast um gjaldtöku fyrir sorphirðu, sem byggir á föstu gjaldi, þ.e. fyrir þá aðstöðu, að láta hirða frá sér sorp sem til fellur, hvort sem sorpið er meira eða minna í hverju tilfelli.

Almennt er því viðurkennt að ákveðið sé jafnaðargjald á hverja íbúðareiningu.  Kemur þar til að miðað við núverandi aðstæður er almennt ekki framkvæmanlegt, a.m.k. ekki hjá Ísafjarðarbæ, að vigta eða ummálsmæla sorp frá einstökum íbúðum, eða að flokka sorpið eftir því, hversu mikill kostnaður er fólginn í flutningi þess og förgun í hverju tilfelli.  Mikill kostnaður og mikil fyrirhöfn fylgir því að kanna nákvæmlega og rannska sorp hvers íbúðareiganda.  Telja verður að svo sterk rök séu fyrir því að greitt sé jafnaðargjald fyrir að njóta þessarar aðstöðu, að ekki verði lögð á sveitarfélög skylda til að rannsaka sorp og krefja íbúðareigendur um gjald miðað við flokkað og mælt sorp, fyrr en frekari reglur og venjur hafa skapast varðandi fokkun sorps og meðhöndlun þess, en ætla má að í framtíðinni verði meðhöndlun úrgangs nækvæmari en nú er.  Slíku var ekki að heilsa 1998.

Í kvörtuninni er vikið að því, að nokkur sveitarfélög hafi sett í gjaldskrár sínar sérákvæði varðandi magntöku sorps og sérákvæði varðandi sumarbústaði.  Rétt er að nokkur smærri sveitarfélög hafa ákveðið, að heimilt sé að veita afslátt, ef magn er innan tiltekinna marka, t.d. þar sem færri en tveir eru í heimili eða þar sem sorpmagn er minna innan ákveðinna marka.  Í stærri sveitarfélögum er hins vegar ýmsum vandkvæðum bundið að viðhafa eftirlit með slíku, svo sem áður var rakið.  Varðandi mismunandi notkun eigna sérstaklega þá er þess að geta, að sveitarfélög hafa ekki möguleika á að fylgjast með því, hvernig háttað er notkun einstakra íbúða, nema þá skv. íbúatali.  Engin takmörk eru hins vegar á því, hvað margir gista eða nota viðkomandi íbúð eða á neyslu þeirra sem þar dvelja, en ljóst er að sorp fer ekki síður eftir neyslu íbúa en fjölda þeirra.“

Í niðurlagi bréfs lögmanns Ísafjarðarbæjar eru síðan sett fram rök gegn því að nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 fjalli um meint vanhæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytis og haldið fram sjónarmiðum um að vanhæfi ráðuneytisstjórans sé sjálfstætt kæruefni og hafi kvörtun vegna þess ekki verið sett fram innan hins almenna þriggja mánaða kærufrests stjórnsýslulaga.  Þá er staðhæft að heimildir 31. gr. l. 7/1998 nái ekki til þess að fjalla um ágreining vegna vanhæfis og að lokum er því mótmælt að atvik og þeir hagsmunir sem hér eiga við, valdi vanhæfi ráðuneytisstjóra umhverfis-ráðuneytisins.

IV.

Eins og lýst var hér að framan var mál þetta sent umboðsmanni Alþingis þann 28.5.1998.  Umboðsmaður Alþingis skilað áliti þann 4.11.1999 og skipta niðurstöður þess álits máli við úrlausn ágreinings kæranda og Ísafjarðarbæjar.

Í IV. kafla álits umboðsmanns Alþingis segir:

„Kvörtun Sveinbjargar Hermannsdóttur frá 28. maí 1998 lýtur að álagningu sorphirðugjalds árin 1997 og 1998 samkvæmt gjaldskrám nr. 37/1997 og 28/1998,fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, á húseign hennar að Eyrargötu 12, Suðureyri í Ísafjarðarbæ, sbr. nú gjaldskrá nr. 25/1999, um sama efni.  Í kvörtuninni eru bornar brigður á lögmæti þessarar gjaldtöku, svo sem að framan er rakið.  Þá er yfir því kvartað að ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu hafi verið vanhæfur til að annast um staðfestingu gjaldskráa nr. 37/1997 og 28/1998 af ástæðum er greinir í kvörtuninni.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur.  Eins og áður er rakið var Sveinbjörgu Hermannsdóttur tilkynnt um álagningu sorphirðugjalds árið 1997 með bréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 3. febrúar 1997.  Af hennar hálfu var álagningunni mótmælt með bréfi hinn 20. febrúar s.á. og með bréfum Ísafjarðarbæjar, dags. 11. mars og 11. apríl s.á., var henni synjað um endurskoðun hins álagða gjalds.  Síðari meðferð málsins varðar álagningu sorphirðugjalds árið 1998, sbr. erindi lögmanns Sveinbjargar til Ísafjarðarbæjar frá 10. febrúar 1998 og erindi hans til félagsmálaráðuneytisins frá 17. apríl s.á.

Samkvæmt þessu eru ekki uppfyllt skilyrði laga til þess að ég fjalli í áliti þessu um álagningu sorphirðugjalds á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur árið 1997, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.  Af sömu ástæðu get ég ekki fjallað um þann þátt kvörtunarinnar er lýtur að staðfestingu gjaldskrár nr. 37/1997, fyrir sorphirðu í Ísafjarðarbæ, en gjaldskráin var staðfest í umhverfisráðuneytinu hinn 13. janúar 1997.

Þá segir áfram í áliti umboðsmanns Alþingis.

„Með 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, er sérstakri úrskurðarnefnd falið að úrskurða í ágreiningsmálum sem rísa á grundvelli laganna, þ.m.t. um framkvæmd heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga, en samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna eru ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustusveitarfélags hluti heilbrigðissamþykktar þess.  Er ljóst af ákvæði 1. mgr. 31. gr. að þar er gengið út frá meginreglu um úrskurðarvald hinnar sérstöku úrskurðarnefndar, en tilgreind tilvik þar sem ráðherra fer með úrskurðarvald samkvæmt lögunum sérstaklega undanþegin, sbr. tilvísun ákvæðisins til 32. og 6. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu tel ég að ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalda sveitarfélags verði borinn undir sérstaka úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. sömu laga, enda er hvergi mælt fyrir um það í lögum nr. 7/1998 að ráðherra skeri úr ágreiningi um það efni.  Í ljósi orðalags 1. mgr. 31. gr. laganna fær að mínum dómi ekki breytt þessari niðurstöðu þótt ráðherra skuli samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga staðfesta gjaldskrá sveitarfélags og þar af leiðandi hafa eftirlit með því að efni gjaldskrárinnar hafi næga lagastoð og sé í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar,?????.

Ágreiningur um lögmæti álagningar sorphirðugjalds á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur árið 1998 hafði ekki verið borinn undir stjórn Hollustuverndar ríkisins né úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þegar lög nr. 7/1998 tóku gildi.  Var henni því unnt að bera ágreininginn undir sérstaka úrskurðarnefnd samkvæmt hinum síðarnefndu lögum, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna og ákvæði IV. til bráðabirgða með þeim.  Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.  Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skulu sjálf fá fyrst tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.  (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 2561.)  Þar sem sérstök úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 7/1998 hefur samkvæmt framansögðu ekki leyst úr ágreiningi vegna álagningar sorphirðugjalds á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur árið 1998 er umræddu lagaskilyrði ekki fullnægt í máli því sem hér er til umfjöllunar.

Í niðurlagi álits umboðsmanns Alþingis er síðan fjallað um vanhæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins og sagt:  „Af þessu tilefni skal tekið fram að ég (umboðsmaður Alþingis, innsk. nefndar) tel álitamál hvort úrskurðarvald úrskurðarnefndar þeirrar, sem starfar á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, nái til ágreinings um formlegt gildi staðfestingar ráðherra á gjaldskrá sveitarfélags skv. 2. mgr. 25. gr. þeirra laga.“

Með framangreindum forsendum er niðurstaða umboðsmanns Alþingis því að skv. 2. mgr. 7. gr. l. nr. 37/1998 hafi umhverfisráðuneytinu borið að senda erindi Sveinbjargar Hermannsdóttur til nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 og ekki hafi verið nægilegt að láta fylgja ábendingu um kæruleið, eins og gert var í bréfi ráðuneytisins frá apríl 1998.

V.

1.  Ágreiningur máls þessa er margþættur.  Af hálfu kæranda er krafist endurskoðunar álagningar sorphirðugjalda vegna áranna 1997, sbr. gjaldskrá nr. 37/1997, og 1998, sbr. gjaldskrá nr. 28/1998, og þess krafist að gjöldin verði felld niður.  Af hálfu Ísafjarðarbæjar er því haldið fram að kæruefnið nái einvörðungu til ársins 1998.

Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram sú afstaða að 2. mgr. 6. gr. l. nr. 85/1997 standi því í vegi að hann geti fjallað um álagningu á húseign Sveinbjargar Hermannsdóttur fyrir árið 1997 þar sem kvörtun hafi ekki verið borin fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá sem um ræðir var til lykta leiddur.

Á sama hátt lítur nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 svo á að frestur sá sem nefndur er í

1. mgr. 27. gr. l. 37/1993 hafi einnig verið liðinn þegar kvörtun til umboðsmanns Alþingis var borin upp í maí 1998 en hvorki í „kæru“ til Ísafjarðarbæjar í febrúar 1998 né í „stjórnsýslukæru“ til félagsmálaráðuneytis í apríl 1998 eru álögð sorphirðugjöld 1997 gerð að ágreiningsefni.  Það er einnig álit nefndarinnar að 28. gr. l. 37/1992 eigi hér við og mun nefndin því ekki fjalla um ágreining vegna sorphirðugjalda 1997.

2.  Skv. 9. gr. l. nr. 8/1986 sem í gildi voru í byrjun árs 1998 segir að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.  Orðalag l. nr. 45/1985 sem tóku við af l. nr. 8/1986 er óbreytt að þessu leyti.  Í 44. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 segir að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæðum og í 38. gr. 3. tl. mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994 er sagt að sveitarstjórn skuli sjá um að tæma sorpílát og flytja sorpið brott sé það ekki falið öðrum með samningi.

Í 18. gr. l. 81/1988 sagði m.a. að sveitarfélag geti sett sér eigin heilbrigðissamþykktir um þætti sem ekki er fjallað um í heilbrigðisreglugerð og mengunarreglugerð eða til að gera um einstök atriði ítarlegri kröfur en þar er gert og síðan sagði áfram að heimilt sé að setja m.a. inn í slíkar samþykktir ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu og að upphæð gjalda skuli ákveðin í sérstakri gjaldskrá sem ráðherra staðfesti.  Í 25. gr. l. 7/1998, sem leysti 18. gr. l. 81/1988 af hólmi, er orðalag hið sama en því bætt við að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nema rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum og má ætla að regla þessi hafi gilt fyrir lögfestingu l. nr. 7/1998 en ekki er ágreiningur með aðilum þessa mál um það atriði.  Eftir framangreindum reglum setti Ísafjarðarbær sér gjaldskrá fyrir sorphirðu og er hún nr. 28/1998 og staðfest af umhverfisráðuneyti þann 9.1.1998.  Gjöldum er skipt í tvo liði A og B og á A ? liður við íbúðarhúsnæði en B ? liður um félög, stofnanir og aðrar lögpersónur.  Í 4. gr. gjaldskrárinnar er þeim sem fá álögur í B-lið gefinn kostur á athugasemdum og óskum um breytingar og er bæjarstjórn heimilt að breyta gjaldtöku með tilliti til réttmæti framsettra athugasemda.  Samsvarandi ákvæði eru ekki vegna íbúðarhúsnæðis eða A-liðar gjaldskrárinnar.

Fyrir staðfestingu gjaldskrárinnar kom fram að útgjöld vegna sorphirðu í Ísafjarðarbæ eru hærri en sorphirðugjöld og aðrar tekjur vegna sorphirðu og er ekki ástæða til að véfengja þá fullyrðingu.

Í kærugögnum kemur fram að kærandi á lögheimili í öðru sveitarfélagi og að enginn sé skráður með lögheimili á Eyrargötu 12, Suðureyri, og fasteignin sé einungis notuð að sumri og e.t.v. um páska en að öðru leyti er óljóst um notkun eignarinnar og þá á sama hátt um þann kostnað sem sveitarfélagið hefur af sorphirðu vegna hennar.  Ekki kemur heldur fram í gögnum hvort aðstæður kæranda verði bornar saman við aðstæður annarra gjaldenda í Ísafjarðarbæ og honum mismunað að því leyti.  Hægt er að líta svo á að álagning sorphirðugjalda geti að nokkru verið ósanngjörn í tilviki kæranda og heppilegra sé að veita gjaldendum í A-lið gjaldskrárinnar svipaða möguleika og gjaldendum í lið B, sbr. 4. gr. gjaldskrár nr. 28/1998.  Engu að síður lítur nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 svo á að sveitarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi samkvæmt framansögðu lagalegar heimildir til að haga gjaldskrárgerð vegna sorphirðu á þann hátt sem gert var með setningu gjaldskrár nr. 28/1998, og almennt verði sorphirðugjöld ekki ákveðin nema sem jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign og þess eigi að gæta að heildartekjur sveitarfélaga af sorphirðugjöldum séu ekki hærri en nemur heildarkostnaði við sorphirðu í sveitarfélaginu þ.e. lög og reglur standi ekki til þess að reikna út kostnað sem fellur til af hverjum gjaldanda.

3.      Það er álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að henni beri almennt að gæta að

hæfisreglum sbr. II. kafla l. 37/1993.  Í máli þessu er gerð krafa um að nefndin fjalli um hæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins.  Skv. 14. gr. l. 33/1944 bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og eru þannig æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins.  Skv. 10. gr. l. nr. 73/1969 stýra ráðuneytisstjórar ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra og koma  í þeirra stað við stjórnarathafnir.  Í tilviki því sem hér skiptir máli undirritaði ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins gjaldskrá nr. 28/1998 fyrir hönd ráðherra og í hans umboði.

Í greinargerð með 31. gr. l. nr. 7/1998 segir m.a.: „Lagt er til að í þeim tilvikum þar sem ráðherra fer með afgreiðslu mála verði þeim afgreiðslum ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar enda kemur úrskurðarnefndin í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og getur ekki úrskurðað í málum sem ráðherra fer með ákvörðunarvald eða úrskurðarvald í.  Er þetta gert til að taka af allan vafa um hvernig túlka beri greinina.“

Af framangreindum ástæðum telur nefnd skv. 31. gr. l. 7/1998 að hún geti ekki kveðið á um réttmæti ákvarðana og um hæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins í máli þessu.

Úrskurðarorð:

1.      Vísað er frá kæru Sveinbjargar Hermannsdóttur vegna álagningar sorphirðugjalda fyrir árið 1997.

2.      Ekki er fallist á kröfur Sveinbjargar Hermannsdóttur um endurskoðun og niðurfellingu sorphirðugjalds fyrir árið 1998.

3.      Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 telur sig ekki hafa úrskurðarvald um hæfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytis.

 

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal, skrifstofustjóri                     Óðinn Elísson hdl.

Date: 10/29/02