Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

171/2016 Þeistareykjavirkjun

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 171/2016, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða við Þeistareykjavirkjun að fjárhæð kr. 1.693.311.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landsvirkjun, Háaleitisbraut 48, Reykjavík, álagningu skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða kæranda við Þeistareykjavirkjun að fjárhæð kr. 1.693.311 samkvæmt álagningarseðli með gjalddaga 1. desember 2016. Gerir kærandi þá kröfu að álagningin verði felld úr gildi.

Málavextir: Með bréfi til sveitarstjórnar Þingeyjasveitar, dags. 28. febrúar 2012, óskaði kærandi eftir stöðuleyfi fyrir vinnubúðir verkeftirlits Þeistareykja ehf. vegna virkjunarframkvæmda að Þeistareykjum á vinnubúðareit L-07 og L-08, sem ráðagerð var um í deiliskipulagi svæðisins er þá var í vinnslu. Sveitarfélagið gerði hins vegar kröfu um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir vinnubúðunum. Var það gert með bréfi, dags. 12. apríl 2012. Í erindinu kom fram að gert væri ráð fyrir svefnaðstöðu fyrir 39 starfsmenn í 28 herbergjum og 11 íbúðum auk skrifstofuaðstöðu. Þar kom og fram að vinnubúðirnar hefðu áður verið notaðar á framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar og að einingar þær sem fyrirhugað væri að nota í þessu skyni hefðu verið byggðar árið 2004. Sótt var um tímabundið starfsleyfi fyrir vinnubúðunum til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra með bréfi, dags. 28. mars s.á., og var það samþykkt 13. apríl 2012. Kærandi hefur umrætt landsvæði til afnota samkvæmt lóðarleigusamningi, dags. 27. desember 2011.

Með beiðni til Þjóðskrár Íslands, dags. 14. nóvember 2014, óskaði kærandi eftir fyrsta brunabótamati vegna starfsmannahúsa við Þeistareykjavirkjun og var kæranda tilkynnt um fasteignamat og brunabótamat matshlutanna með bréfi, dags. 14. desember 2014. Barst kæranda síðan reikningur vegna álagðs skipulagsgjalds vegna vinnubúða III, IV og V með gjalddaga 1. desember 2016 að fjárhæð kr. 1.693.311.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að umræddar vinnubúðir séu ekki nýbyggingar eða nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald. Umræddar vinnubúðir að Þeistareykjum hafi verið fluttar þangað annars vegar frá fyrrum framkvæmdasvæði kæranda við Kárahnjúka og hins vegar frá framkvæmdasvæði við Búðarhálsvirkjun. Hluti vinnubúðanna hafi verið keyptur á árunum 2003-2004 en aðrir hlutar þeirra séu mun eldri, eða allt að 30 ára. Geti vinnubúðirnar því ekki talist nýbyggingar eða nýreistar og megi í því sambandi vísa til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þar sem reynt hafi á túlkun 17. gr. skipulagslaga, áður 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Auk þess geti vinnubúðirnar ekki talist fasteign í skilningi laga heldur sé um að ræða lausafé. Í gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé hugtakið starfsmannabúðir skilgreint með svofelldum hætti í 78 lið nefnds reglugerðarákvæðis: „Starfsmannabúðir. Færanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi.“ Búðirnar séu því fluttar á framkvæmdasvæði en brott að framkvæmdum loknum vegna annarra verkefna eða á geymslusvæði. Því sé ekki um að ræða fasteign eða byggingar sem séu varanlega skeyttar við jörðu, heldur lausafé. Starfsmannabúðir og húsvagnar, sem ætlaðir séu til dvalar lengur en fjóra mánuði á sama stað, teljist mannvirki skv. 51. tl. gr. 1.2.1. byggingareglugerðar en samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 séu mannvirki byggingarleyfisskyld. Þar af leiði að starfsmannabúðir og húsvagnar séu ekki háð byggingarleyfi ef notkun þeirra sé til skemmri tíma en fjóra mánuði. Sú staðreynd að starfsmannabúðir geti verið háðar byggingarleyfi, leiði ekki sjálfkrafa til þess að um sé að ræða nýbyggingu eða fasteign samkvæmt 17. gr. skipulagslaga. Áskilnaður um byggingarleyfi fyrir vinnubúðum snúi eingöngu að afnotum á slíku lausafé til lengri tíma til að tryggja að skilyrði laga um aðbúnað, hollustuhætti, brunaöryggismál og fleira sé fyrir hendi.

Veiting byggingarleyfis leiði ekki til þess að vinnubúðir falli undir lög um skráningu og mat fasteigna. Væri svo yrði að skrá og meta vinnubúðir við hvern flutning og jafnvel á fjögurra mánaða fresti og greiða skipulagsgjald í hvert sinn sem þær væru fluttar á nýjan stað. Slík framkvæmd væri hvorki í anda þeirra laga né í samræmi við lögskýringargögn. Á því sé byggt að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til þess að meta vinnubúðir til brunabóta, sem sé forsenda fyrir álagningu skipulagsgjalds skv. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga, og álitamál hvort heimilt sé að skrá og meta vinnubúðir til fasteignamats í fasteignaskrá Þjóðskrár. Með setningu laga um mannvirki hafi fyrst verið innleidd regla um byggingarleyfisskyldu vinnubúða og húsvagna vegna notkunar um lengri tíma en fjóra mánuði. Áður hafi slík mannvirki verið háð stöðuleyfi. Ekki sé fordæmi fyrir því að skipulagsgjald hafi verið lagt á vinnubúðir eða þær metnar fasteignamati. Samhliða gildistöku laga um mannvirki hafi hvorki verið gerðar breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, lögum um brunatryggingu nr. 48/1994 né reglugerð um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000 í þá veru að lausafé, svo sem byggingarleyfisskyldar vinnubúðir eða húsvagnar, skyldu skráð eða metin fasteigna- og brunabótamati. Vísað sé til þess að í 1. gr. nefndrar reglugerðar sé skýrt tekið fram að skylda til brunatryggingar nái einungis til húseigna sem séu varanlega skeyttar við land og í 4.-6. gr. reglugerðarinnar komi fram að einungis húseignir skuli metnar brunabótamati. Vinnubúðir geti ekki fallið undir hugtakið húseign í nefndum ákvæðum enda séu þær ekki varanlega skeyttar við land og geti eftir atvikum verið á hjólum.

Málsrök Þjóðskrár Íslands:
Stofnunin vísar til þess að kærandi hafi með bréfi, dags. 14. nóvember 2014, sett fram beiðni um fyrsta brunabótamat vegna brunatryggingar starfsmannahúsa, skrifstofa og geymslu við Þeistareykjavirkjun. Hafi kæranda verið tilkynnt um fasteignamat og brunabótamat nefndra eigna með tilkynningu Þjóðskrár, dags. 12. desember s.á. Í tilkynningunni hafi verið vakin athygli á að unnt væri að óska rökstuðnings fyrir ákvörðuninni, óska endurupptöku hennar og að unnt væri að kæra ákvörðunina til yfirfasteignamatsnefndar.

Samkvæmt 1. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994 sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Skuli húseignin metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir byggingu hennar eða eftir að hún sé tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á að óska eftir brunabótamati.

Þjóðskrá Íslands annist virðingu húseignar til brunabóta og sé markmið brunabótamats að finna vátryggingarverðmæti húseignar þegar virðing fari fram, að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem kveðið sé á um að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hennar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Ekki verði séð af gögnum málsins að umræddar vinnubúðir hafi áður verið skráðar og virtar til brunabóta. Í beiðni kæranda um brunabótamat frá 14. nóvember 2014 komi fram að um sé að ræða fyrsta mat á starfsmannahúsum, skrifstofum og geymslu. Hafi því borið að virða vinnubúðirnar til brunabóta og leggja á þær skipulagsgjald sem nýbyggingar án tillits til þess tíma sem liðinn hafi verið frá byggingu húsanna. Skipulagsgjald verði fyrst lagt á og innheimt þegar brunabótamat liggi fyrir.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 skuli Fasteignamat ríkisins (Þjóðskrá Íslands) tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverð þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veita nauðsynlegar upplýsingar til innheimtu gjaldsins, þ. á m. um skráða eigendur húseigna samkvæmt fasteignaskrá. Í kjölfar þess falli skipulagsgjaldið í gjalddaga skv. 4. gr. reglugerðarinnar.

Hugtakið fasteign sé almennt í lögum skilgreint sem afmarkaður hluti lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og mannvirkjum sem varanlega séu við landið skeytt. Ekki sé hægt að fallast á að umrædd mannvirki séu ekki varanlega skeytt við land. Tengsl húsanna við land séu ekki svo losaraleg að um sé að ræða lausafé. Ekki hafi þýðingu í þessu sambandi þótt húsunum hafi aðeins verið ætlað að standa á meðan framkvæmdir stæðu yfir á svæðinu. Hvort fasteign sé ætlað að standa til lengri eða skemmri tíma hafi ekki áhrif á það hvort greiða skuli af henni tilskilin gjöld eða ekki. Húsin séu allt að einu varanlega skeytt við land þótt þau hafi verið reist í afmörkuðum tilgangi og teljist því fasteignir í skilningi laga. Slík túlkun hafi t.a.m. verið staðfest af Hæstarétti og yfirfasteignamatsnefnd. Þjóðskrá hafi metið fasteignirnar að Þeistareykjum brunabótamati í samræmi við lög um brunatryggingar og reglugerð um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða sem fluttar voru á vinnusvæði við Þeistareykjavirkjun vegna yfirstandandi framkvæmda.

Skipulagsgjald var fyrst lögfest með lögum nr. 64/1938, sem fólu m.a. í sér breytingu á 14. gr. laga nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Þar var kveðið á um að greiða skyldi allt að 0,3‰ gjald í ríkissjóð af hverri nýbyggingu sem reist væri eftir gildistöku laganna í þeim bæjum þar sem skipulagsuppdráttur hefði verið staðfestur eða vinna að skipulagi væri hafin. Í 35. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 var kveðið á um innheimtu skipulagsgjalds sem nema mætti allt að 0,3% af brunabótaverði hverrar nýbyggingar sem reist yrði á skipulagsskyldum stað. Þá var gert ráð fyrir því í 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að af nýbyggingum sem virtar væru til brunabóta skyldi greiða skipulagsgjald í eitt skipti sem næmi 0,3% af brunabótamati húseignar. Nýbygging teldist hvert nýreist hús sem virt væri til brunabóta en mannvirki sem ekki væru háð byggingarleyfi samkvæmt 43. gr. laganna væru undanþegin gjaldinu nema stofnkerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta utan þéttbýlis. Hefur gjaldstofn skipulagsgjalds vegna húsbygginga því frá upphafi miðast við nýbyggingar og allt frá gildistöku skipulagslaga nr. 19/1964 hefur gjaldstofninn miðast við brunabótamat þeirra.

Núgildandi heimild fyrir álagningu skipulagsgjalds er í 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta í eitt skipti sem nemur 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Þar er og tekið fram að nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Í athugasemdum með 2. mgr. 17. gr. frumvarps til nefndra skipulagslaga kemur eftirfarandi fram: „Lagt er til í 2. mgr. að greitt skuli skipulagsgjald af nýbyggingum eins og verið hefur, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna. Sú breyting er hins vegar lögð til að fallið verði frá skyldu til greiðslu skipulagsgjalds af þeim mannvirkjum sem ekki eru virt til brunabóta og er það í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur af greiðslu skipulagsgjalda. Mun því þessi breyting ekki leiða til lækkunar á innheimtu skipulagsgjalda miðað við það sem verið hefur. Ástæðan er sú að ekki hefur reynst framkvæmanlegt að greiða skipulagsgjald af öðrum mannvirkjum en nýbyggingum sem metnar eru til brunabóta þar sem önnur mannvirki hafa ekki verið metin til brunabóta og stofnverð þeirra hefur ekki verið skilgreint sem gjaldstofn hjá Fasteignamati ríkisins.“ Samkvæmt þessu er gjaldstofn skipulagsgjalds í núgildandi lögum í samræmi við þá lagaframkvæmd sem verið hafði í tíð eldri laga. Í 3. mgr. 17. gr. skipulagslaga er svo kveðið á um að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hefur farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, tilkynnt hana til innheimtumanns ríkisins. Tilgangur gjaldtökunnar er að standa straum af kostnaði við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu, gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana, þróunarverkefna og rannsókna á sviði skipulagsmála.

Fyrir liggur að starfsmannabúðir kæranda voru fluttar og þeim komið fyrir á vinnusvæði við Þeistareykjavirkjun til tímabundinna nota vegna framkvæmda þar. Hafði húseiningunum áður verið komið fyrir og þær notaðar á framkvæmdasvæðum við Kárahnjúkavirkjun og Búðarhálsvirkjun vegna framkvæmda á vegum kæranda. Hluti húseininganna mun hafa verið keyptur á árunum 2003-2004 og að sögn kæranda eru aðrir hlutar búðanna mun eldri, eða allt að 30 ára. Gátu húseiningarnar því ekki talist nýbyggingar eða nýreist hús þegar hin kærða álagning fór fram, en ekki liggur fyrir að þær starfsmannabúðir sem hér um ræðir hafi á liðnum áratugum taldar mynda gjaldstofn skipulagsgjalds. Hafa slíkar lausar byggingar ekki talist til mannvirkja fyrr en við gildistöku byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en skv. 51. tl. gr. 1.2.1. teljast starfsmannabúðir til mannvirkja, séu þær notaðar til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað. Af þeim sökum var sótt um byggingarleyfi fyrir notkun umræddra starfsmannabúða kæranda við Þeistareykjavirkjun. Eðli máls samkvæmt verða færanlegar starfsmannabúðir, sem ætlaðar eru til nota í takmarkaðan tíma á hverjum stað á meðan framkvæmdir standa yfir, ekki hluti af skipulagðri byggð.

Samkvæmt 1. gr. laga um brunatryggingar nr. 48/1994 er húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir og er þar átt við hvers konar byggingar sem ætlaðar eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota. Í 1. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000, sem sett er með stoð í nefndum lögum, er húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir sem eru varanlega skeyttar við land og til sömu afnota og greinir í 1. gr. laganna. Hugtakið „starfsmannabúðir“ er skilgreint í 78. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 á þá leið að um sé að ræða færanlegt húsnæði sem ætlað sé til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi. Eðli máls samkvæmt eru slíkar húseiningar ekki jarðfastar eða varanlega skeyttar við jörð og geta ekki fallið undir fyrrgreind ákvæði laga um brunatryggingar og reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna. Var af þeim sökum ekki skylt að meta umræddar starfsmannabúðir til brunabóta skv. 2. gr. laga um brunatryggingar.

Samkvæmt framangreindu verða fyrrgreindar starfsmannabúðir kæranda ekki taldar nýbyggingar eða nýreist hús, sem virða skal til brunabóta í skilningi 17. gr. skipulagslaga. Skortir hina kærðu álagningu skipulagsgjalds því lagastoð, en slík álagning gjalda og skatta þarf að styðjast við ótvíræða lagaheimild, sbr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Verður álagningin því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds vegna starfsmannabúða kæranda við Þeistareykjavirkjun að fjárhæð kr. 1.693.311 samkvæmt álagningarseðli með gjalddaga 1. desember 2016.

___________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

110/2016 Laugavegur

Með

Árið 2018, föstudaginn 27. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2016, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 á umsókn um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála á 2. hæð og breytingu á innra skipulagi þar, gera nýjan flóttastiga innanhúss og færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., Laugavegi 59, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála á 2. hæð og breytingu á innra skipulagi þar, gera nýjan flóttastiga innanhúss og færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. október 2016.

Málavextir: Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulag sem samþykkt var í borgarráði 26. október 1999. Á árinu 2015 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi reitsins vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg. Var hún samþykkt og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2016. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að reisa inndregna þakhæð ofan á núverandi hús og breyta 3. og 4. hæð í íbúðir.

Hinn 12. apríl 2016 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála veitingahúss í flokki II á 2. hæð og breyta innra skipulagi þar, gerð nýs flóttastiga innanhúss og til að færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. apríl 2016 var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. maí s.á. var málinu frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 29. apríl 2016. Kom þar fram að athugasemdir væru gerðar við hringstiga og aðgengi að honum á jarðhæð, við stækkun glerskála á 2. hæð samræmdist ekki deiliskipulagi, að ekki væri tekið jákvætt í að fella niður verslunarrými á 2. hæð og að svalir á bakhlið 2. hæðar samræmdust ekki deiliskipulagi.

Kærandi gerði athugasemdir við umsögn skipulagsfulltrúa á fundi með verkefnisstjóra 10. maí 2016 og í kjölfarið voru gerðar breytingar á teikningum. Var umsóknin, svo sem henni hafði verið breytt, þá tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. s.m. Var málinu frestað og vísað á ný til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. maí 2016 var málinu vísað til verkefnisstjóra. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. júní s.á. var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem á fundi sínum 6. júlí s.á. samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. júní 2016. Í þeirri umsögn var því hafnað að fyrri umsögn skipulagsfulltrúa yrði endurskoðuð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2016 var, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. júní s.á., synjað umsókn kæranda um leyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála veitingahúss í flokki II á 2. hæð og breyttu innra skipulagi þar, gerð nýs flóttastiga innanhúss og fyrir því að færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Með bréfi, dags. 15. ágúst s.á., var synjunin kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er hún til úrlausnar í þessu máli.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst 2016 var samþykkt ný umsókn kæranda um leyfi til að byggja inndregna 5. hæð, breyta inn- og útgöngum, koma fyrir hringstiga að veitingastað á 2. hæð og innrétta ellefu íbúðir á 3., 4. og 5. hæð hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars 2017 var enn fremur samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að breyta veitingastað úr flokki II í flokk III fyrir 105 gesti í íbúðar- og atvinnuhúsnæði á lóðinni nr. 59 við Laugaveg.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að málsmeðferð borgaryfirvalda við meðferð málsins hafi ekki verið að öllu leyti í samræmi við lög. Með hinni kærðu ákvörðun hafi umsókn kæranda um byggingarleyfi verið synjað. Meðferð umsókna um byggingarleyfi fari að lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Segi þar í 1. mgr. 10. gr. að umsókn um byggingarleyfi skuli send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun ásamt áskildum gögnum og í 2. mgr. 10. gr. segi að sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Ráðist það af mati byggingarfulltrúa hvort þörf sé á slíkri aðkomu.

Af áritun starfsmanns byggingarfulltrúa á gátlista vegna aðaluppdrátta sem gerð hafi verið 18. apríl 2016 verði rakið að umsókn kæranda hafi aðeins verið vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa vegna stækkunar 2. hæðar, sem starfsmaðurinn hafi talið að vafi léki á að samræmdist deiliskipulagi. Erindi þetta hafi skipulagsfulltrúi afgreitt með umsögn, dags. 29. apríl 2016, þar sem því hafi verið slegið föstu að stækkun glerskála á 2. hæð samræmdist ekki deiliskipulagi en jafnframt hafi verið gerðar athugasemdir við önnur tilgreind atriði. Telji kærandi að skipulagsfulltrúi hafi bæði rangtúlkað heimildir gildandi skipulags og farið út fyrir verksvið sitt, en hlutverk skipulagsfulltrúa hafi verið að láta byggingarfulltrúa í té umsögn um það álitaefni sem óskað hafi verið eftir og þá aðeins um það hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Hafi ólögmætar athugasemdir skipulagsfulltrúa leitt til þess að umsókninni hafi verið hafnað. Þessar athugasemdir komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa frá 29. apríl 2016.

Í umsögninni hafi verið gerð sú athugasemd að stækkun glerskála samræmdist ekki deiliskipulagi. Kærandi telji það ekki hafið yfir vafa. Fyrir séu svalir við báða enda glerskálans sem kærandi hugðist loka. Komið yrði fyrir léttri lokun þannig að rými innan hennar myndi ekki falla í lokunarflokk A og þyrfti því ekki að vera heimild fyrir henni í skipulagi og hefði hún ekki heldur þurft að koma til umsagnar skipulagsfulltrúa, enda um óverulega breytingu að ræða, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Séu þess fjölmörg dæmi að byggingarfulltrúi hafi samþykkt léttar svalalokanir á húsum án þess að fyrir því hafi verið sérstök heimild í deiliskipulagi og án þess að leitað hafi verið umsagnar skipulagsfulltrúa. Hafi byggingarfulltrúa borið að gæta meðalhófs og leiðbeiningarskyldu sinnar auk þess að gæta að rannsóknarreglu með því að kanna til hlítar um hvers konar lokun væri að ræða í stað þess að vísa erindi kæranda til umsagnar skipulagsfulltrúa vegna þeirrar stækkunar á 2. hæð sem starfsmaður hans virðist hafa talið að leiddi af lokun umræddra svala.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt aðalskipulagi sé lóðin nr. 59 við Laugaveg á miðborgarsvæði M1a. Á svæðinu sé lögð áhersla á að styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda, en um leið að efla verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Í gildi sé deiliskipulag reits 1.173.0, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 26. október 1999 með breytingum sem samþykktar hafi verið í borgarráði 10. desember 2015. Með þeirri breytingu hafi verið heimilað að byggja inndregna hæð ofan á fjórðu hæð hússins.

Hvað varði þá málsástæðu að umsókn um leyfi fyrir stækkun glerskála hafi verið í samræmi við deiliskipulag, þá skuli á það bent að óskað hafi verið eftir að breyta glerskálanum og stækka hann, en engar heimildir séu í deiliskipulagi fyrir slíkri breytingu. Glerskálinn hafi verið samþykktur árið 1996 og hafi þá verið gert ráð fyrir svölum sitt hvoru megin við hann. Hafi hann og verið byggður þannig. Samkvæmt umsókninni hefði glerskálinn orðið hærri næst Laugavegi og hefði breytingin breytt ásýnd hússins töluvert. Á grunnmynd 2. hæðar sjáist að glerskálinn sé orðinn hluti af heildarrými veitingastaðarins, þ.e. hann sé ekki sýndur sem glerskáli heldur sé veitingastaðurinn einfaldlega stækkaður sem glerskálanum nemi. Hafi skipulagsfulltrúi talið í umsögn sinni að betur færi á að vera með halla á þaki skálans eins og nú sé og gluggar hans þeim mun minni. Ljóst sé að ekki sé um hefðbundna svalalokun að ræða eins og haldið sé fram í kæru. Ásýnd framhliðar myndi breytast verulega auk þess sem af uppdráttum verði ekki annað ráðið en að innanrýmið sé nýtt undir veitingastað. Sé því hér um stækkun og lokun að ræða á rýminu sem myndi reiknast til nýtingarhlutfalls. Svalir sitt hvoru megin við glerskálann tengi 2. hæðina betur við göturými Laugavegar og gefi byggingunni léttara yfirbragð. Sé ekkert sem bendi til þess að þessi þáttur málsins hafi ekki verið ígrundaður með nægjanlegum hætti af hálfu Reykjavíkurborgar og athugasemdir skipulagsfulltrúa hvað þetta atriði varði séu byggðar á málefnalegum grunni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu þá sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæði sínu á lóð nr. 59 við Laugaveg. Þeirri umsókn var hafnað af byggingarfulltrúa 12. júlí 2016 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 29. apríl s.á. Í kjölfar þess sótti kærandi um byggingarleyfi að nýju með breytingum í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst s.á. Með bréfi, dags. 15. s.m., kærði kærandi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Með bréfi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2018, var lögmanni kæranda gefinn kostur á því að koma að skýringum fyrir hönd umbjóðanda síns um það hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni hann teldi sig enn hafa af úrlausn málsins. Einkum og sér í lagi hvaða réttarverkan það gæti haft að felld yrði úr gildi synjun fyrri leyfisumsóknarinnar, svo sem kröfugerð umbjóðanda hans lyti að, eftir samþykkt á síðari og efnislega áþekkri byggingarleyfisumsókn. Svar barst 20. s.m. þar sem fram kom að kærandi teldi verulegan mun á því leyfi sem synjað hefði verið og kært væri í málinu og því leyfi sem síðar hefði verið sótt um og samþykkt. Var ekki tilgreint nánar í hverju sá munur fælist en tekið fram að kærandi hefði ríka og lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í málinu, enda væri þá með úrskurði nefndarinnar skorið úr ágreiningi sem varðaði heimildir kæranda til notkunar og hagnýtingar eignar sinnar og til framkvæmda við hana.

Í máli þessu háttar svo til að ný umsókn kæranda hefur verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Sú ákvörðun tók til alls hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg, enda voru með henni samþykktir nýir aðaluppdrættir. Verður ekki séð að úrskurður um gildi hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa bein áhrif á einstaka lögvarða hagsmuni kæranda þar sem hin nýja ákvörðun myndi standa óbreytt í kjölfar þess úrskurðar, hver svo sem niðurstaða hans yrði. Þyrfti kærandi eftir sem áður að sækja um byggingarleyfi að nýju, fyrir þeim breytingum sem ekki fengust samþykktar með upphaflegri umsókn hans og vilji hans stendur enn til. Yrði ný ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykkt eða synjun þeirrar umsóknar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Réttaröryggi kæranda er því ekki fyrir borð borið.

Með vísan til alls framangreinds verður að telja, þrátt fyrir umbeðinn frekari rökstuðning frá lögmanni kæranda, að úrlausn kærumálsins hafi ekki þá þýðingu fyrir stöðu kæranda að lögum að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi eldri ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 12. júlí 2016 um synjun leyfisumsóknar kæranda. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                         Þorsteinn Þorsteinsson

169/2016 Sólheimar

Með

Árið 2018, föstudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 169/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 um að veita samþykki fyrir áður gerðri íbúð þar sem áður var tannlæknastofa á jarðhæð fjöleignarhússins að Sólheimum 42.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 15. desember 2016, er barst nefndinni 16. s.m., kærir eigandi tveggja eignarhluta í fjöleignarhúsinu við Sólheima 42, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 að samþykkja breytta hagnýtingu á séreign á jarðhæð fjöleignarhússins að Sólheimum 42. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. janúar 2017.

Málavextir: Hinn 30. ágúst 2016 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn um að breyta tannlæknastofu í íbúð í fjöleignarhúsi að Sólheimum 42. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. september s.á. var bókun erindisins leiðrétt á þann hátt að sótt væri um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í nefndu húsi.

Málsrök kæranda:
Kærandi bendir á að fram til ársins 2010 hafi umrætt rými verið nýtt undir tannlæknastofu. Þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt breytingu á notkun rýmisins 30. ágúst 2016 hafi hvorki legið fyrir samþykki kæranda né annarra eigenda líkt og krafa sé gerð um í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Telji kærandi að hvort sem litið sé svo á að umrædd breyting sé veruleg eða ekki hefði þurft að afla samþykkis allra eða einfalds meirihluta samkvæmt 1. og 3. mgr. nefnds ákvæðis. Þá hefði alltaf þurft samþykki kæranda sem eiganda tveggja eignarhluta af fjórum í húsinu sem jafngildi 73% eignarhluta.

Umrædd breyting á nýtingu eignarhlutans hafi haft í för með sér óþægindi fyrir aðra íbúa hússins vegna aukins hávaða frá gleðskap, aukinnar umgengni um sameign, reykinga íbúa utan við húsið og reyks sem berist inn um glugga og vegna beiðna um að fá afnot af sameign hússins undir geymslusvæði.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld benda á að umrædd breyting á eignarhlutanum sé í samræmi við skipulag svæðisins og þá hagnýtingu og notkun sem ríkjandi sé í fjölbýlinu. Samkvæmt 26. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé eiganda séreignar almennt heimilt að ráðstafa og hagnýta eign sína á hvern þann hátt sem hann kjósi innan þess ramma sem vísað sé til í ákvæðinu. Sú breyting á hagnýtingu sem hér um ræði sé ekki þess háttar breyting að afla hefði þurft samþykkis annarra eigenda húseignarinnar skv. 27. gr. laganna, en þegar litið sé til þess sem fram komi í greinargerð með ákvæðinu megi telja að með því sé stefnt á takmörkun á atvinnustarfsemi í húsnæði sem ætlað sé til íbúðar, sbr. álit kærunefndar húsamála nr. 19/2012 og 34/2014.

Athugasemdir leyfishafa: Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumálsins en engar athugasemdir hafa borist nefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 30. ágúst 2016 að leyfa breytingu á nýtingu séreignar í fjöleignarhúsi að Sólheimum 42 úr tannlæknastofu í íbúð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. september s.á. var fyrri bókun hans frá afgreiðslufundi 30. ágúst leiðrétt, en efni ákvörðunarinnar stóð óbreytt. Á árinu 2016 grennslaðist kærandi ítrekað fyrir um notkun þess húsnæðis sem um ræðir og fékk þær upplýsingar fyrst á haustmánuðum að notkuninni hefði verið breytt. Benti kærandi á að breytt notkun hefði í för með sér óþægindi og truflun og að samþykkis síns hefði ekki verið leitað. Var erindi hans þar um svarað með tölvupósti byggingarfulltrúa frá 18. nóvember 2016 og var þar leiðbeint um kæruleið og kærufrest. Barst kæra í málinu 16. desember s.á.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 10. gr. laganna er gerð krafa um að með byggingarleyfisumsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Í 1. mgr. 26. gr. fjöleigarhúsalaganna kemur fram að einungis eigandi hafi rétt til umráða og hagnýtingar á séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greini í lögum þessum eða öðrum lögum sem leiði af óskráðum grenndarreglum eða eðli máls eða byggi á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélagsins. Í 27. gr. laganna er kveðið á um takmörkun á rétti eiganda til breytingar á hagnýtingu séreignar. Í 1. mgr. segir að breyting á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gengur og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að ef breytt hagnýting sé ekki veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meiri hluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir íbúðarbyggð (ÍB). Þess háttar svæði er lýst í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna) á eftirfarandi hátt: „Svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins.“ Í skipulagi fyrir svæðið frá árinu 1956 er ekki kveðið frekar á um notkun þess.

Fasteignaeigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags og þurfa að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, að uppfylltum skilyrðum laga og reglna. Húseignin Sólheimar 42 er á skipulagssvæði fyrir íbúðarbyggð og samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands stendur húsið á íbúðarhúsalóð og er með fjórum eignarhlutum. Ekki verður séð að breytt hagnýting séreignarinnar hafi í för með sér ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur hússins umfram það sem gengur og gerist í sambærilegum húsum. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi eigi íhlutunarrétt vegna hinnar breyttu notkunar leyfishafa á séreign sinni skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaganna og var heimilt að breyta hagnýtingu umræddrar séreignar án samþykkis sameigenda, sbr. 2. mgr. nefndrar lagagreinar.

Svo sem að framan greinir verður talið að ekki hafi þurft samþykki annarra eigenda fjöleignarhússins að Sólheimum 42 til að breyta umræddri séreign í íbúð, en auk þess verður ekki séð að meðferð málsins hafi verið áfátt í neinu. Verður kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 30. ágúst 2016 um að veita samþykki fyrir áður gerðri íbúð þar sem áður var tannlæknastofa á jarðhæð fjöleignarhússins að Sólheimum 42.

__________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                        _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

68/2016 Frakkastígur

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús að Frakkastíg 26A, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Frakkastíg 26B, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi við Frakkastíg 26A, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig eru kærð „öll önnur brot Reykjavíkurborgar á [kæranda] er varða veitingahúsið Frakkastíg 26A“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 22. júlí 2016 og í júní 2018.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur, en 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi vegna hússins á lóðinni Frakkastíg 26A. Var m.a. samþykkt breytt notkun hússins úr íbúðarhúsi í veitingahús í flokki II. Að auki voru samþykktar breytingar á húsinu að innan og utan. Skaut kærandi máls þessa nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði 3. mars 2016 felldi hana úr gildi að því er laut að stækkun bíslags til norðurs og gerð skjólveggja og grindverks. Í kjölfarið var samþykkt breyting á deiliskipulagi svæðisins, sem kærandi hefur einnig kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 134/2016.

Umsókn um starfsleyfi fyrir veitingahús í flokki II að Frakkastíg 26A var móttekin hjá Reykjavíkurborg 9. desember 2015. Eftirlitsferð á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fór fram 13. maí 2016 og er skýrsla vegna þessa dagsett sama dag. Var þar tekið fram að gestafjöldi sé 65, að sjá sé húsnæðið í samræmi við samþykktar teikningar og að samkvæmt teikningu séu útiveitingar á fimm borðum. Þá var fjallað um búnað í eldhúsi, hvaða matseld færi fram, reglur um óþol og ofnæmisvalda, ræstingu og þrif, meðferð matvæla og innra eftirlit. Á afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 17. s.m. var starfsleyfisumsóknin tekin fyrir og var samþykkt að veita leyfi til 12 ára með starfsleyfisskilyrðum fyrir samkomuhús og fyrirvara um rekstrarleyfi sýslumanns. Sett var og skilyrði um að rekstraraðili gerði allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Gaf framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins út starfsleyfið sama dag. Er starfsleyfið sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Starfsemi og rekstur veitingastaða eru einnig háð rekstrarleyfi. Á nefndum afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 17. maí 2016 var enn fremur lagt fram bréf Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. apríl s.á., þar sem óskað var umsagnar heilbrigðiseftirlitsins fyrir veitingastað í flokki II, ásamt útiveitingum til kl. 21:00. Var samþykkt að veita jákvæða umsögn, tekið fram að gestafjöldi væri 65 og sett skilyrði um að rekstraraðili gerði allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og reglugerðar nr. 941/2002. Veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík einnig umsögn og óskaði þess að rekstrarleyfi yrði veitt til bráðabirgða til 12 mánaða þar sem unnið væri að deiliskipulagsbreytingu á svæðinu. Mun rekstrarleyfið hafa verið gefið út 25. maí 2016 til eins árs, frá 25. júní s.á. að telja. Skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem 14. nóvember 2017 felldi leyfið úr gildi. Taldi ráðuneytið m.a. að um slíka annmarka hefði verið að ræða að nauðsynlegt hefði verið að hafna útgáfu leyfis þar til niðurstaða hefði legið fyrir vegna deiliskipulagsbreytingarinnar, enda hefði ekki verið á færi umsækjanda að tryggja þá breytingu. Hinn 16. ágúst 2017 samþykkti sýslumaður nýtt rekstrarleyfi vegna Frakkastígs 26A. Hefur kærandi komið að kæru vegna þess til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en því máli mun ekki vera lokið hjá ráðuneytinu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að leyfisveiting hafi farið fram á röngum forsendum þar sem aðrir uppdrættir hafi fylgt umsókn en samþykktir hafi verið. Brjóti húsnæðið í bága við skilmála deiliskipulags, byggingarleyfis og samþykkta aðaluppdrætti. Uppfylli veitingahúsið ekki grunnskilyrði þess að fá útgefið leyfi í flokki II, en ónæði af starfseminni sé töluvert meira en rúmist innan þess ramma sem settur sé í deiliskipulagi og í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fyrirkomulag á lóð og útisvæði sé ekki í eðlilegu samhengi við starfsemi veitingahússins á þessum stað eða í næsta nágrenni. Á gildandi aðaluppdrætti segi að innandyra séu sæti fyrir 49 manns. Samkvæmt rekstrarleyfi megi vera 38 sæti innandyra á 1. hæð, 12 sæti á 2. hæð og 15 sæti utandyra eða samtals 65 sæti.

Engin raunveruleg eða fagleg mæling hafi verið gerð á hljóðvist eða lyktarmengun á milli húsa. Þess utan virðist sem engin hljóðvistarhönnun hafi verið gerð fyrir veitingahúsið og bresti því lagaheimild til að heimila rekstur veitingastaðarins, sbr. gr. 4.3.9. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vítavert sé að heimila rekstur veitingastaðar í húsi sem uppfylli ekki lögbundnar kröfur til eldvarna og eldhætta sé mikil. Sérstaklega þar sem fjarlægð milli veitingastaðarins og íbúðarhúsa sé undir 4 m. Ekki hafi verið haft samband við nágranna til að kynna þeim málið. Um óviðunandi lyktar- og hljóðmengun sé að ræða frá veitingahúsinu. Útisvæði þess sé mikið notað og ónæðið afar mikið. Sífelldur og hávær hvinur sé frá blásara á þaki bíslagsins/eldhússins. Umferðarréttur kæranda að lóð hans sé ekki virtur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Engir form- eða efnisannmarkar séu á starfsleyfinu og því engar forsendur til að fella það úr gildi. Umrætt starfsleyfi hafi verið gefið út eftir að uppfyllt hafi verið ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim. Heilbrigðisfulltrúi hafi gert úttekt á húsnæðinu og aðstöðunni þar í samræmi við reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004. Við eftirlit hafi ekkert komið fram sem gefið hafi tilefni til að hafna umsókn um starfsleyfi eða fresta útgáfu þess. Heilbrigðisnefnd sé jafnframt umsagnaraðili til sýslumanns vegna útgáfu rekstrarleyfisins varðandi grenndaráhrif. Hafi jákvæð umsögn verið send sýslumanni 17. maí 2016 og sýslumaður gefið út rekstrarleyfi 25. s.m. Hafi þá starfsleyfið endanlega tekið gildi.

——-

Kærandi hefur í kjölfar kæru komið fjölda skjala að í málinu þar sem hann rekur með ítarlegum hætti forsögu málsins til nokkurra áratuga, sem og samskipti sín við stjórnvöld vegna málsins. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér skjölin en ekki er þörf á að reifa efni þeirra frekar hér.

Niðurstaða: Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Rísi ágreiningur um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar í samræmi við 65. gr. laganna, áður 31. gr. þeirra. Nánar er kveðið á um málsmeðferð og kæruaðild í 4. gr. laga nr. 130/2011, en þar kemur t.a.m. fram í 1. mgr. ákvæðisins að fram þurfi að koma í kæru hvaða ákvörðun er kærð. Í kæru kemur fram krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi að Frakkastíg 26A og er það kæranleg ákvörðun. Kærandi kærir einnig „öll önnur brot Reykjavíkurborgar“ án nánari tilgreiningar. Svo sem áður er komið fram hefur úrskurðarnefndin kynnt sér fjölda skjala sem kærandi hefur komið að í málinu. Af þeim er ljóst að kærandi er afar ósáttur við framgöngu borgaryfirvalda vegna leyfisveitinga þeirra varðandi Frakkastíg 26A. Hins vegar verður ekki séð að við móttöku kærunnar hafi nokkur annar sá ágreiningur verið til staðar sem borinn verður undir úrskurðarnefndina. Þá gefa viðbótarathugasemdir kæranda í málinu ekki heldur tilefni til að álykta að nýtt kæruefni hafi komið fram þótt kærandi sé ósáttur við starfsemi þá sem fram fer í skjóli hinnar kærðu leyfisveitingar heldur benda gögn málsins til þess að ágreiningur aðila í máli þessu eigi rætur sínar að rekja til hins kærða starfsleyfis. Að öllu þessu virtu tekur úrskurðarnefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu þess.

Í máli þessu er því deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi í flokki II að Frakkastíg 26A, sem gefið var út af framkvæmdastjóra eftirlitsins í samræmi við viðauka 2.2. við samþykkt nr. 715/2013 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, með síðari breytingum. Fjallar viðaukinn um embættisafgreiðslur framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur án staðfestingar heilbrigðisnefndar.

Til veitingastaða í flokki II teljast umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23:00 og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem í gildi var við veitingu starfsleyfisins. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 7/1998 skyldu fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin eru upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd og fellur starfsemin að Frakkastíg 26A undir þá skyldu. Sambærilegt ákvæði er að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í 8. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um hvaða gögn skuli fylgja með umsókn um starfsleyfi og er þar m.a. áskilið að uppdrættir af staðsetningu fylgi umsókn. Þá skal húsnæðið hafa hlotið samþykkt byggingarnefndar, sbr. þágildandi ákvæði 14. gr. reglugerðarinnar sem við á í máli þessu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrædd lóð á íbúðarsvæði ÍB11. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin var Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Um íbúðarsvæði sagði svo í aðalskipulaginu að þar væri almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og gætu veitingastaðir í flokki I og eftir atvikum í flokki II fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða væri mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi enda væri um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki ylli ónæði. Meðfram aðalgötum væri heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum gæti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skyldi takmarkast við kl. 23:00. Að framangreindu virtu fer heimiluð starfsemi að Frakkastíg 26A ekki í bága við gildandi skipulagsáætlun sem gerir beinlínis ráð fyrir því að starfsemi sú sem heimiluð er með hinu kærða starfsleyfi sé samrýmanleg búsetu á sama svæði. Það leysir heilbrigðisyfirvöld borgarinnar þó ekki undan þeirri skyldu að meta hverju sinni hvort starfsemi sú sem sótt er um leyfi fyrir valdi slíku óhagræði fyrir nágranna að rétt sé að leyfa hana ekki. Þannig er t.a.m. tekið fram í gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að gæta skuli þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis. Þá er það meðal hlutverka heilbrigðisnefnda að hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Hið kærða starfsleyfi er bundið ákveðnum skilyrðum sem miða að því að koma til móts við kvartanir nágranna um aðkomu og lóð, mengun og hávaða. Er og sérstaklega tekið fram í tilkynningu til leyfishafa um starfsleyfið, dags. 17. maí 2016, að skilyrt sé að rekstraraðili geri allt sem í hans valdi standi til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og reglugerðar nr. 941/2002. Verður að telja með tilliti til þessa að skyldubundið mat Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, m.a. á grenndarhagsmunum kæranda, hafi farið fram með fullnægjandi hætti áður en starfsleyfið var gefið út. Hefur þá einnig verið höfð hliðsjón af því að um eitthvað ónæði er ávallt að ræða í þéttbýli og að um mörk miðborgarkjarna, blandaðrar miðborgarbyggðar og íbúðarbyggðar og hreinnar íbúðarbyggðar sé að ræða.

Hinn 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi til að breyta notkun á Frakkastíg 26A úr íbúðarhúsnæði í veitingastað í flokki II, auk breytinga á húsinu að innan sem utan. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðunina úr gildi að hluta, þ.e. vegna stækkunar bíslags fast upp að mörkum lóðar kæranda og vegna skjólveggja og grindverks á lóðarmörkum kæranda og leyfishafa, en að öðru leyti var ekki hróflað við gildi ákvörðunarinnar. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var því til staðar gild samþykkt byggingarfulltrúa, m.a. um breytta notkun hússins. Var byggingarleyfi svo samþykkt að nýju 22. nóvember 2016 að undangenginni deiliskipulagsbreytingu, sem einnig hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir. Þá lá fyrir við meðferð máls þessa jákvæð umsögn byggingarfulltrúa frá 4. maí 2016 fyrir veitingahúsi í flokki II að Frakkastíg 26A. Var í umsögninni vísað til yfirferðar á samþykktum aðaluppdráttum, til laga nr. 85/2007 og tilgreindra reglugerða, sem og til byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hinn 13. maí 2016 fór fram skoðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á húsnæðinu og er tekið fram í eftirlitsskýrslu að húsnæðið sé að sjá í samræmi við samþykktar teikningar. Einnig er tekið fram að gestafjöldi sé 65. Í byggingarlýsingu byggingarleyfis sem þá var í gildi kom fram að sæti fyrir gesti yrðu á báðum hæðum hússins, alls 49 talsins, en á samþykktum aðaluppdráttum eru þau sögð 48. Hins vegar er einnig tekið fram í eftirlitsskýrslu að veitingaborð utanhúss séu fimm talsins og verður að líta svo á að það skýri með fullnægjandi hætti misræmi í tilgreindum gestafjölda. Gerir síðar útgefið byggingarleyfi frá 22. nóvember 2016 ráð fyrir 50 sætum innandyra og 15 sætum utandyra, eða alls 65 sætum.

Að öllu framangreindu virtu voru skilyrði laga til útgáfu hins kærða starfsleyfis uppfyllt og verða ekki taldir þeir annmarkar á málsmeðferð og efni þess sem raskað geta gildi leyfisins. Við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar var gerður fyrirvari um rekstrarleyfi sýslumanns. Fram hefur komið að ákvörðun sýslumanns frá 25. maí 2016 um að samþykkja rekstrarleyfi var ógilt með úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 14. nóvember 2017. Áður, eða 16. ágúst 2017, hafði sýslumaður samþykkt nýtt rekstrarleyfi og sætir það nú einnig kæru til ráðuneytisins. Hefur því ekki verið hnekkt og hefur niðurfelling eldra rekstrarleyfis ekki áhrif á gildi hins kærða starfsleyfis. Verður kröfu kæranda um ógildingu starfsleyfisins því hafnað.

Ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrir veitingastarfsemi þá sem um er deilt í máli þessu var tekin af Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins með heimild í lögum nr. 85/2007. Við málsmeðferð umsókna um slík rekstrarleyfi skal sýslumaður leita tilgreindra umsagna áður en umsókn er afgreidd, sbr. 10. gr. nefndra laga. Slíkar umsagnir hafa verið veittar af heilbrigðiseftirlitinu, hvort tveggja vegna þess rekstrarleyfis er síðar var fellt úr gildi 14. nóvember 2017, sem og vegna rekstrarleyfis frá 16. ágúst s.á. Getur hin síðar veitta umsögn eftir atvikum komið til skoðunar við lögmætisathugun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en verður ekki borin undir úrskurðarnefndina, þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Loks skal á það bent að í 60. gr. reglugerðar nr. 941/2002 er tekið fram að eftirlit heilbrigðiseftirlits felist m.a. í því að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa, sem heilbrigðisnefnd sé falið. Séu vanhöld á því að skilyrðum starfsleyfisins sé fylgt eða þeim framfylgt getur eftirlitsaðili í þeim tilvikum beitt ákveðnum úrræðum, svo sem gert kröfu um úrbætur eða stöðvað starfsemi þar til úr hefur verið bætt, sbr. XVIII. kafla reglugerðarinnar þar um. Einnig er skv. 10. gr. reglugerðarinnar heimilt að endurskoða starfsleyfið að jafnaði á fjögurra ára fresti sé það gefið út til lengri tíma en fjögurra ára. Telji kærandi enn á sér brotið vegna áframhaldandi starfsemi getur hann beint því til borgaryfirvalda að sinna eftirliti sínu, en af gögnum málsins verður ráðið að það hafi hann gert og að við því hafi verið brugðist, m.a. með eftirliti í október 2017, löngu eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hefur haft ýmislegt við það eftirlit að athuga, s.s. fram kemur í athugasemdum hans til úrskurðarnefndarinnar. Það verður þó ekki séð hvort eða með hvaða hætti hann hefur komið þeirri skoðun sinni á framfæri við heilbrigðisyfirvöld borgarinnar. Telji hann svo vera og að við því hafi ekki verið brugðist getur kærandi eftir atvikum komið að kæru til nefndarinnar vegna dráttar á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála, m.a. þessa, sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús að Frakkastíg 26A, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

134/2016 Frakkastígur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Frakkastíg 26 (26B), Reykjavík, „alla stjórnsýslu Reykjavíkurborgar“. Með bréfi til kæranda, dags. 3. október s.á., óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvert kæruefnið væri. Jafnframt var tekið fram að ef ekki væri um að ræða nýja kæru yrði litið svo á að um væri að ræða frekari gögn og rök kæranda í kærumáli nr. 68/2016, er varðaði kæru hans á starfsleyfi fyrir veitingastað við Frakkastíg 26A. Í kjölfarið, eða 14. október 2016, barst nefndinni sameiginleg kæra eigenda, Frakkastíg 24A, á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg. Er gerð krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. nóvember 2016.

Málavextir: Frakkastígur 26A er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Kárastígsreits austur, staðgreinireitur 1.182.3, frá árinu 2008. Samkvæmt skilmálum þess er umrædd lóð fullbyggð og nýtingarhlutfall hennar 0,8 en í almennum skilmálum deiliskipulagsins eru veittar ákveðnar byggingarheimildir fyrir allar lóðir þar sem aðstæður leyfa og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hinn 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi fyrir breyttri notkun húss á umræddri lóð, úr íbúðarhúsi í veitingahús í flokki II. Að auki voru samþykktar breytingar á húsinu að innan og utan, svo sem stækkun kvista og bygging bíslags til norðurs. Var ákvörðunin kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði 3. mars 2016 í kærumáli nr. 99/2015 felldi ákvörðunina úr gildi að þeim hluta er varðaði stækkun bíslagsins og gerð skjólveggja og grindverks, þar sem ekki hefði legið fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða fyrir þessum framkvæmdum, svo sem áskilið væri í deiliskipulagi.

Hinn 22. apríl 2016 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa samþykkt að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. maí s.á. var sú samþykkt afturkölluð og ákveðið að grenndarkynna nýja tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Frakkastíg 24A, 24B, 26 og 26B. Tók sú tillaga til lóðanna Frakkastígs 26 og 26A en aðeins var gert ráð fyrir breyttum skilmálum lóðarinnar nr. 26A. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum máls þessa og var þeim vísað til umsagnaraðila. Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. júlí 2016 og því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem tók það fyrir 17. ágúst s.á. Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2016. Birtist auglýsing um samþykktina í B-deild Stjórnartíðinda 15. september 2016. Í breytingunni felst m.a. að heimilt er að stækka húsið að Frakkastíg 26A sem nemur 5,3 m², ásamt því að byggja svalir og kvisti. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að vera með veitingastað í flokki II í húsinu. Einnig séu færðar inn réttar lóðarstærðir fyrir báðar lóðirnar samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015. Loks er tilgreint að skerpt sé á skilyrðum um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að starfsemi veitingahúss á lóðinni fylgi gríðarlegt ónæði sem skerði lífsgæði þeirra verulega. Sé hagsmunum þeirra verulega raskað vegna hávaða, lyktarmengunar, skuggavarps og umgangs gesta á svæðinu. Freklega sé gengið á rétt nágranna og rétt þeirra til friðhelgi einkalífs og hefðbundins útsýnis frá húsum þeirra. Hafi kærendur ekki veitt samþykki sitt fyrir umræddum breytingum. Taka hafi þurft tillit til þess hve fjarlægð milli húsa á viðkomandi lóðum sé lítil og því séu áhrifin mun meiri.

Hljóð- og lyktarmengun frá umræddu húsi sé óviðunandi. Ekkert tillit hafi verið tekið til þessara þátta við meðferð málsins eða málið verið rannsakað. Hafi sveitarfélagið með því brotið gegn ákvæðum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Séu dyr á eldhúsi er snúi að lóð Frakkastígs 26 oft opnar og aðföng og hráefni geymt utandyra. Mikill hávaði sé frá loftblásara á bíslagi hússins, en einnig sé mikið ónæði vegna gesta á svölum og í garði veitingahússins. Umferðarréttur að húsi annars kærenda sé ekki virtur. Því sé harðlega mótmælt að samþykkja eigi nú breytingar sem felldar hafi verið úr gildi.

Ekkert mat á skuggavarpi hafi verið unnið við meðferð málsins en það hafi aukist mikið á lóðum kærenda, m.a. vegna bíslagsins. Hafi hvorki verið tekið tillit til þessa atriðis né síðari tillagna kærenda um meðalhóf sem fælust í annarri útfærslu á bíslaginu. Af þessu sökum hafi skuggavarp orðið meira en réttmætt sé. Lögboðið bil milli húsa sé ekki virt og engar eðlilegar ástæður gefnar fyrir því. Notagildi lóða kærenda hafi verði skert og verðgildi fasteigna þeirra rýrt verulega. Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við brunavarnir og aðkomu slökkviliðs og sé bent á gr. 9.8.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 í því sambandi. Gaflar hússins, hliðar þess og þak hafi verið hækkuð og kvistur á bakhlið hússins sé stærri en samþykktar teikningar segi til um. Kvistir séu staðsettir alveg að þakbrún, en ekki í 0,5 m fjarlægð eins og áskilið sé varðandi bakhlið hússins. Viðbygging við bíslag sé alveg á lóðamörkum og þykk einangrun og múrhúð stytti enn frekar bilið milli þeirra húsa sem um ræði. Klæðningin sé eldmatur. Viðbyggingin sé ekki í samræmi við deiliskipulag frá árinu 2008. Breyting á hámarksnýtingarhlutfalli lóðarinnar geti ekki farið gegn viðmiðum skipulags án samþykkis eigenda nærliggjandi lóða. Skerði breyting á nýtingarhlutfalli rétt kærenda. Fyrir hendi sé leyfi lóðarhafa Frakkastígs 24A til að byggja forstofu út í garðinn en verði bíslagið stækkað verði 1 m á milli húsanna. Túlka beri heimildir aðalskipulagsins um starfsemi veitingastaða við aðalgötu í íbúðarbyggð þröngt. Þá sé nauðsynlegt að halda skika þeim sem reisa eigi viðbygginguna á óbyggðum m.a. vegna þess hversu stutt sé á milli húsa og vegna útsýnis út á götu.

Sérstakar athugasemdir séu gerðar við umsögn skipulagsfulltrúa, en þar sé að finna nokkrar rangfærslur. Þar sé því haldið fram að um umfangslitla starfsemi sé að ræða, en ónæðið sem fylgi starfseminni sé langt umfram það. Veitingahúsið sé við hliðina á stóru hóteli og við einn fjölfarnasta ferðamannastað í borginni og sé umgangur og aðsókn ferðamanna á veitingastaðinn afar mikil. Um skert útsýni sé að ræða úr stofuglugga en ekki um eldhúsglugga líkt og segi í umsögn. Talað sé um eina lóð þegar um tvær sé að ræða. Ekki sé útskýrt hvers vegna ekki sé lengur þörf á samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Hafi aðeins hluti athugasemda verið settur fram á afgreiðslufundi umhverfis- og skipulagsráðs og fundarmenn blekktir. Þá sé búið að rifta samkomulagi milli eigenda Frakkastígs 26 og 26A vegna vanefnda eiganda að Frakkastíg 26A.

Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu. Stjórnsýsla borgarinnar hafi verið óvönduð, bréfum ekki verið svarað og skort hafi á upplýsingar. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Hagsmunir annarra hafi verið settir í forgang. Uppdráttur deiliskipulagsins sé ekki réttur og nýtingarhlutfall lóðarinnar rangt skráð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málið sé ekki þannig vaxið að ógildingu varði. Ekkert hafi komið fram í málinu er leitt geti til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Ekki sé fallist á að umrædd breyting hafi stórkostleg neikvæð áhrif á hagsmuni eigenda aðliggjandi lóða. Standi húsið að Frakkastíg 26A við skilgreinda aðalgötu samkvæmt aðalskipulagi og gildi því rýmri landnotkunarheimildir, en heimilt sé að vera með veitingastað í flokki II á lóðinni. Í 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald séu veitingahús í flokki II skilgreindir sem umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin sé ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist. Afgreiðslutími sé ekki lengri en til kl. 23:00 og kalli ekki á mikið eftirlit eða löggæslu. Sé núverandi kvöð á lóðinni um umferð að Frakkastíg 26 óbreytt.

Útsýnisskerðing sé ekki umfram það sem íbúar í þéttri byggð megi búast við, enda geti menn ekki vænst þess að aðstæður og byggingar á lóðum verði óbreyttar um aldur og ævi. Athugasemdir varðandi stærð hússins, hvort framkvæmt hafi verið í ósamræmi við samþykkta uppdrætti, hvort óeðlilegur hávaði sé frá blásara og hvort umferðarréttur sé nýttur undir aðföng hafi ekki áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá sé bent á að með samkomulagi milli eigenda Frakkastígs 26A og Frakkastígs 26 hafi annar kærenda samþykkt tilteknar breytingar sem hann geri nú athugasemdir við. Liggi ekkert fyrir í málinu um að sá samningur sé ekki í gildi milli aðila.

Athugasemdir lóðarhafa Frakkastígs 26A:
Lóðarhafi krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi í hvívetna verið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Athugasemdum kærenda hafi verið skilmerkilega svarað af hálfu skipulagsfulltrúa og sé tekið undir sjónarmið hans. Standi tilvísun umsagnarinnar til samkomulags annars kærenda og lóðarhafa frá 16. mars 2016, enda sé það enn í fullu gildi og „riftunaryfirlýsing“ að engu hafandi. Því sé mótmælt að lóðarhafi hafi vanefnt samkomulagið. Umrætt samkomulag hafi verið forsenda þess að gerð hafi verið breyting á deiliskipulagi svæðisins. Því hafi fylgt teikning af veitingastaðnum sem fallist hafi verið á. Fyrir liggi samþykki nágranna að Frakkastíg 24 og Skólavörðustíg 45 fyrir stækkun bíslags, byggingu geymsluskúra og skúra undir ruslatunnur. Nefnt bíslag hafi verið samþykkt í fyrrgreindu samkomulagi. Sé því hafnað að það valdi meira skuggavarpi en almennt gerist í þéttri byggð, skerði útsýni og notagildi lóða kærenda eða rýri verðgildi fasteigna þeirra. Víðast hvar í miðborg Reykjavíkur sé fjarlægð milli húsa ekki mikil. Hafi slíkt ekki áhrif á þær heimildir sem lóðarhafi hafi að lögum og samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi sé samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða aðeins nauðsynlegt þegar byggt sé utan skilgreinds byggingarreits og nær lóðamörkum en 3 m en svo hátti ekki hér. Þurfi breyting á nýtingarhlutfalli ekki samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Að Frakkastíg 26A sé starfræktur hófstilltur veitingastaður í flokki II og bendi ekkert til þess að hljóð- og lyktarmengun frá honum sé meiri en gangi og gerist um slíka veitingastaði. Gert sé ráð fyrir svölum á húsinu og útisvæði í samkomulagi aðila og sé ekkert óeðlilegt við þau svæði. Fullkomið brunavarnarkerfi sé inni á veitingastaðnum og aðkoma að húsinu eftir aðalgötu mjög góð. Því sé andmælt að eldhúsdyr séu oft opnar og að aðföng og hráefni séu oft geymd utandyra. Jafnframt sé því mótmælt að loftblásari á húsinu sé mjög hávær eða að ónæði sé vegna ferðamanna. Því sé hafnað að húsið sé í ósamræmi við teikningar. Sé gerður fyrirvari við þær mælingar á vegalengd á milli húsa sem greini í kæru, en við mælingu borgarinnar hafi engar athugasemdir verið gerðar. Sé einhver munur á milli teikninga og þess sem sé í raun sé hann mjög óverulegur. Geti fyrrgreind atriði ekki haft áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá snúi dyr á eldhúsi inn á lóð nr. 26A, en ekki að lóðinni nr. 26. Loks sé bent á að ekki hafi borist neinar kvartanir vegna starfsemi veitingastaðarins frá hóteli sem sé til húsa að Skólavörðustíg 45, en herbergi hótelgesta snúi að porti og svölum veitingastaðarins.

——-

Annar kærenda hefur í kjölfar kæru komið fjölda skjala að í málinu þar sem hann rekur með ítarlegum hætti forsögu þess til nokkurra áratuga, sem og samskipti sín við borgaryfirvöld. Jafnframt færir hann fram frekari sjónarmið máli sínu til stuðnings. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér skjölin en ekki er þörf á að reifa efni þeirra frekar hér.

——-

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti 20. júlí 2018.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg. Svo sem áður er rakið kærði annar kærenda í upphafi „alla stjórnsýslu Reykjavíkurborgar“, en í kjölfar fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar um kæruefni barst ný kæra sem lýtur að nefndri deiliskipulagsbreytingu. Sætir aðeins hin kærða breyting lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar en ekki fyrrnefnt deiliskipulag sem tók gildi á árinu 2008. Sætti það raunar kæru að hluta af hálfu annars kærenda, en hafnað var kröfu hans um ógildingu með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 15. desember 2010 í kærumáli nr. 120/2008.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Ekki er áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeiganda vegna skipulagsákvarðana sem varða eignir þeirra, s.s. annar kærenda heldur fram, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Sem endranær verða þó að liggja málefnalegar forsendur að baki slíkum ákvörðunum. Verður að telja að svo hátti til hér, en fyrir liggur að ástæða þess að deiliskipulagsbreytingin tók einnig til lóðar annars kæranda var sú að í deiliskipulagi frá 2008 mun ranglega hafa verið talið að um eina lóð væri að ræða, en með breytingunni voru færðar inn lóðarstærðir fyrir báðar lóðir samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015.

Við beitingu skipulagsvalds ber þess að gæta að breytingar á deiliskipulagi rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin að Frakkastíg 26A á íbúðarsvæði, ÍB 11. Við meðferð og gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Gerði aðalskipulagið ráð fyrir að á þeim svæðum væri almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og gætu veitingastaðir í flokki I, og eftir atvikum í flokki II, fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða væri mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda væri um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki ylli ónæði. Meðfram aðalgötum væri heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum gæti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skyldi takmarkast við kl. 23:00. Eins og fyrr greinir er starfræktur veitingastaður í flokki II að Frakkastíg 26A og er tiltekið í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að heimilt sé að vera með veitingastað í þeim flokki í húsinu. Að framangreindu virtu var áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana fullnægt.

Tillaga að hinni umdeildu breytingu var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5. 8. 2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Í gildandi deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, segir að lóðin sé fullbyggð og nýtingarhlutfall hennar 0,8. Með hinni kærðu ákvörðun er m.a. heimilað að stækka húsið við Frakkastíg 26A sem nemur 5,3 m² og er hámarksnýtingarhlutfall A-, B- og C-rýma 0,97. Samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins má byggja kvisti á risþök og skal fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Með breytingunni er heimilað að vera með einn kvist á hvorri hlið og skal hann vera miðjusettur á framhlið hússins en staðsetning á bakhlið skal vera a.m.k. 0,5 m frá enda. Þá er ekki gerður áskilnaður um að svalir séu með gleri líkt og er í almennum skilmálum deiliskipulagsins. Heimilt er að vera með torfþak og hækka þakið sem því nemur og að vera með veitingastað í flokki II í húsinu, eins og áður greinir. Þá segir í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni að færðar séu inn réttar stærðir fyrir lóðirnar Frakkastíg 26 og 26A samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015. Loks er skerpt á skilyrðum um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða í gildandi deiliskipulagi, en það sé aðeins nauðsynlegt ef byggt sé utan skilgreinds byggingarreits og nær lóðamörkum en 3 m. Núverandi kvöð um umferð að Frakkastíg 26 er óbreytt.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja skipulagsbreytinguna óverulega breytingu í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þrátt fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar hækki nokkuð, en þær skýringar eru gefnar í greinargerð með skipulagsbreytingunni að við uppmælingu á húsinu óbreyttu hafi komið í ljós að nýtingarhlutfallið væri 0,92 en ekki 0,8. Einnig er tiltekið að heimilt sé að hækka nýtingarhlutfall A-rýmis í 0,94 með viðbyggingunni og með svölum, A- og C-rými, verði nýtingarhlutfall 0,97. Er og til þess að líta að samkvæmt gildandi deiliskipulagi er meðalnýtingarhlutfall á svæðinu 1,36 og er það mjög mismunandi eftir lóðum, var því ekki um fordæmisgefandi breytingu að ræða. Þá er notkun í samræmi við heimildir aðalskipulags, svo sem áður hefur komið fram, og ekki verður séð að stækkun byggingarreits um 5,3 m² og bygging viðbyggingar með hámarkshæð 2,95 m víki svo nokkru nemi frá útliti og formi viðkomandi svæðis.

Íbúðarbyggð er skilgreind á þann veg í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð að um sé að ræða svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins. Skal gæta þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum, m.a. vegna hávaða, ljósanotkunar og annars ónæðis, sbr. gr. 5.3.2.8. skipulagsreglugerðar. Fyrir liggur að kærendur telja að verulegt ónæði sé af starfseminni og að gengið sé gegn grenndarhagsmunum þeirra. Kærendur telja enn fremur að umsögn skipulagsfulltrúa, vegna athugasemda þeirra hafi ekki gefið rétta mynd af alvarleika málsins, en að auki hafi ýmsum athugasemdum kærenda ekki verið svarað. Komu kærendur að fjölmörgum athugasemdum, m.a. að nýtingarhlutfall lóðarinnar væri rangt og uppdráttur deiliskipulagsins væri villandi, auk þess sem því var mótmælt að byggt yrði á þeim skika sem gert væri ráð fyrir að reisa viðbygginguna, þar eð skuggavarp myndi aukast og útsýni minnka. Jafnframt var tekið fram að heimild sú sem veitt væri í aðalskipulagi um starfsemi veitingastaðar í íbúðarbyggð væri undantekning sem túlka bæri þröngt og íbúum í hag.

Eins og áður hefur verið rakið samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík breytta notkun hússins að Frakkastíg 26A árið 2015 og stóð sú ákvörðun óhögguð í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í mars 2016. Gáfu athugasemdir um breytta notkun umrædds húss því ekki tilefni til ítarlegri svara af hálfu borgaryfirvalda. Hvað athugasemdir um áhrif þess að byggja á skika þeim sem áður var ónýttur lutu svör borgarinnar fyrst og fremst að útsýnisskerðingu, en ekki var vikið sérstaklega að skuggavarpi. Fallast má á að aukið skuggavarp geti orðið vegna heimilaðrar viðbyggingar, en ekki verður séð að það hafi verið kannað sérstaklega við vinnslu og meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Æskilegt hefði verið að kanna þau grenndaráhrif nánar og taka afstöðu til þeirra athugasemda kærenda þar að lútandi. Þegar litið er til stærðar viðbyggingarinnar og þess sem þegar hefur verið heimilað með fyrri ákvörðunum, og ekki sætir endurskoðun hér, verður þó ekki talið að um ógildingarannmarka sé að ræða, en greinargerð um skuggavarp mun hafa verið meðal fylgiskjala við gerð gildandi deiliskipulags frá árinu 2008.

Gert er ráð fyrir svölum á suðurhlið hússins Frakkastígs 26A. Þrátt fyrir að lóðir kærenda séu norðan og austan við umrædda lóð er ljóst að opnar svalir með aðgengi frá veitingastað eru til þess fallnar að valda nágrönnum ónæði umfram það sem almennt má búast við í íbúðarbyggð. Til þess er þó að líta að lóðin Frakkastígur 26A er í íbúðarbyggð við mörk miðborgarkjarna og blandaðrar miðborgarbyggðar og íbúðarbyggðar. Verður og ekki fram hjá því litið að sveitarstjórnir hafa að lögum víðtækt skipulagsvald. Gildi deiliskipulagsbreytingarinnar verður því ekki raskað þótt hún hafi ótvíræð áhrif á grenndarhagsmuni kærenda, en rétt þykir að benda á að geti þeir sem eiga hagsmuna að gæta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi þá geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina. Þá verður ekki talið að heimilaðar breytingar muni að marki raska grenndarhagsmunum kærenda að öðru leyti, svo sem vegna skerðingar á útsýni, auk þess sem kvöð um umferð að lóð hans er óbreytt.

Loks eru þær breytingar sem heimilaðar voru með skipulagsákvörðuninni ekki þess eðlis að þær hafi áhrif á aðkomu slökkviliðs frá því sem áður var. Heimiluð viðbygging verður á lóðamörkum, rétt eins og bíslag það sem fyrir var, og því vart um minna bil að ræða milli húsa nema á þeim skika sem nú er heimilt að nýta. Nýti kærendur sér byggingarheimildar sínar samkvæmt skipulagi verður vissulega minna bil milli þeirra bygginga og viðbyggingarinnar, en til þess er að líta að ekki er til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa. Þó er í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 vísað til þess sem meginreglu að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið svo ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra, en að öðru leyti eru settar viðmiðunarreglur um lágmarksfjarlægð miðað við brunaálag og brunavarnir. Koma þessar reglur fyrst og fremst til skoðunar við veitingu byggingarleyfis, en í gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð er einnig kveðið á um að við gerð deiliskipulags skuli þess gætt að unnt sé að framfylgja sérstökum kröfum sem gerðar séu í öðrum lögum og reglugerðum, s.s. kröfum um heilsu og öryggi, og skal samráð haft við umsagnaraðila og fagstofnanir til að tryggja framfylgd þeirra krafna. Kemur og fram í gögnum málsins að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi haft aðkomu að málinu vegna leyfisveitinga og úttekta á húsnæðinu Frakkastíg 26A áður en til hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar kom. Þrátt fyrir athugasemdir slökkviliðsins um frágang veggjar á lóðamörkum verður ekki talið að nauðsyn hafi borið til um frekara samráð á því stigi málsins, en eftir atvikum gátu athugasemdirnar gefið tilefni til nánari athugunar og eftirlits af hálfu byggingarfulltrúa.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Það athugist að lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar einskorðast við hina kærðu ákvörðun, en svo sem áður er fram komið hafa kærendur einnig gert ýmsar athugasemdir við hinar umdeildu framkvæmdir, svo sem um brunavarnir og óleyfisframkvæmdir sem alla jafna lúta eftirliti byggingarfulltrúa. Að áliti nefndarinnar er þar ekki um að ræða sjálfstæð kæruefni, enda verður af gögnum málsins, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, ekki ráðið að fyrir liggi kæranleg ákvörðun, s.s. synjun um að beita þvingunarúrræðum. Verður ekki heldur séð að umkvartanir kærenda þess efnis hafi ratað í slíkan farveg hjá borginni eða verið settar fram með þeim hætti að það hefði verið eðlilegt að telja að um væri að ræða beiðni um beitingu þvingunarúrræða til að knýja fram úrbætur. Kærendur geta komið slíkri beiðni á framfæri við borgaryfirvöld, en telji þeir sig hafa óafgreitt erindi þess efnis nú þegar, sem úrskurðarnefndin fær ekki staðreynt af gögnum málsins, geta kærendur komið að kæru til nefndarinnar vegna dráttar á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rétt að taka fram að meðal þeirra fjölda athugasemda sem borist hafa í málinu af hálfu annars kæranda er mappa er barst nefndinni 1. júní 2017. Þar er vikið að því að endurtaka þurfi alla meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga og raunar þurfi að endurupptaka allt málið hvað varðar veitingastaðinn Frakkastíg 26A frá upphafi þess árið 2015. Er og vikið að því að slík krafa hafi margoft verið sett fram. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var byggingarleyfi frá 12. maí 2015 vegna nefnds húss fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndarinnar kveðnum upp 3. mars 2016. Nefndinni bárust ekki gögn frá kæranda frá þeim tíma þar til kæra barst 22. júní 2016 í kærumáli nr. 68/2016 er varðar starfsleyfi veitingastaðar í húsinu að Frakkastíg 26A. Verður ekki séð að í gögnum þess kærumáls sem hér er til meðferðar eða gögnum kærumáls nr. 68/2016 hafi komið fram athugasemd sem túlka mætti sem beiðni um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar fyrr en 1. júní 2017, en þá var meira en ár liðið frá uppkvaðningu úrskurðarins. Verður ekki heldur séð af gögnunum að slík beiðni hafi verið tekin til meðferðar hjá Reykjavíkurborg. Úrskurðarnefndin leitaði eigi að síður eftir afstöðu Reykjavíkurborgar og lóðarhafa Frakkastígs 26A til athugasemda kæranda um endurupptöku og bárust nefndinni þau svör frá Reykjavíkurborg að þeir sem aðilar kærumáls nr. 99/2015 samþykktu ekki endurupptöku þess. Eru því ekki lagaskilyrði til frekari umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar þar um, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála, m.a. þessa, sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson

18/2017 Flugvellir

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2017, kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2017, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Bílrúðuþjónustan ehf., Grófinni 15c, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Þess er krafist að deiliskipulagið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 10. mars 2017.

Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar Iðavalla 5b, Reykjanesbæ samkvæmt afsali, dagsettu 3. desember 2015. Stærð lóðar fasteignarinnar samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi, dags. 8. febrúar 1980, er 2.310 m2. Fyrrum eigendur Flugvalla og Iðavalla 5b skrifuðu undir samkomulag, dags. 10. september 2008, þar sem kveðið var á um breytingu á lóðamörkum, þannig að þau yrðu 15 m frá vesturgafli hússins á lóð nr. 5b við Iðavelli. Lóðin Flugvellir 6 minnkaði við þá breytingu um 350 m2 og lóðin Iðavellir 5b stækkaði að sama skapi. Framangreindu samkomulagi var ekki þinglýst og ákvæðum lóðarleigusamnings ekki breytt í samræmi við samkomulagið. Þáverandi eigandi Iðavalla 5b, sem gerði áðurnefnt samkomulag, seldi fasteignina ásamt lóðarréttindum með afsali, dags. 14. október 2009. Í afsalinu er skráð stærð lóðar 2.310 m2. Eigninni var afsalað til Landsbanka Íslands með afsali, dags. 8. október 2015, þar sem vísað var til lóðarleigusamnings og var eigninni síðan afsalað til kæranda eins og fyrr greinir. Samkomulags um lóðabreytinguna var ekki getið í nefndum afsölum.

Áður en kærandi gekk frá afsali vegna kaupa á Iðavöllum 5b hafði hann samband við skipulags- og byggingaryfirvöld í Reykjanesbæ til að fá staðfestingu á stærð lóðarinnar. Byggingarfulltrúinn staðfesti með tölvupósti, dags. 23. nóvember 2015, að lóðamörk væru í samræmi við framangreint samkomulag og fylgdi lóðarblað af Iðavöllum 5, sem uppfært var 20. nóvember 2015. Var nýtingarhlutfall lóðarinnar skráð á lóðarblaðið og stærð hennar talin 5.220 m2.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 8. desember 2015 var tekin fyrir beiðni um stækkun lóðar Flugvalla 6, þar sem bókað var að ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag um svæðið en stefnt væri að því að ljúka því á næsta ári. Breytingar á svæðinu yrðu ekki leyfðar fram að því. Tillaga að deiliskipulagi fyrir Flugvelli var auglýst til kynningar 12. apríl 2016 og gerði kærandi athugasemdir við tillöguna og fór m.a. fram á að lóðamörk milli Iðavalla 5b og Flugvalla 6 yrðu áfram í samræmi við áðurgreint samkomulag. Bæjaryfirvöld svöruðu athugasemdum kæranda með bréfi dags. 27. júní 2016 og kváðust tilbúin til færa lóðamörkin úr 3,15 m í 10 m frá vesturgafli húss hans. Var jafnframt tekið fram að bæjarráð hefði samþykkt bókun um að samkomulagið frá 10. september 2008 væri ógilt þar sem einungis annar eigenda Iðavalla 5b hefði skrifað undir það. 

Reykjanesbær sendi Skipulagsstofnun deiliskipulag Flugvalla til yfirferðar 24. júní 2016 og gerði stofnunin athugasemdir við það með bréfi, dags. 11. júlí 2016. Var m.a. gerð athugasemd við að ekki væri tekin afstaða til allra efnisatriða athugasemda lóðareigenda Iðavalla 5b. Deiliskipulagsuppdrætti og skipulagsskilmálum var í kjölfarið breytt með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar og tillagan svo breytt auglýst til kynningar að nýju frá 18. ágúst 2016 til 29. september s.á. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti deiliskipulagið á fundi 1. nóvember 2016 og tilkynnti Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 17. nóvember s.á., að ekki væri gerð athugasemd við að hið nýja deiliskipulag Flugvalla yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. janúar 2017.

Málsrök kæranda: Byggir kærandi kröfu sína á því að réttaröryggi hans hafi ekki verið tryggt við meðferð málsins og því fari deiliskipulagið m.a. gegn 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi málsmeðferðin farið gegn stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar. Reykjanesbær hafi ekki breytt afmörkun lóðanna í þinglýstum gögnum þrátt fyrir undirritun yfirlýsingar þess efnis, en það hafi verið í höndum sveitarfélagsins, sbr. 48. gr. skipulagslaga. Reykjanesbæ hafi borið að leiðbeina kæranda um stöðu mála, þ.e. að framangreindu samkomulagi hefði ekki verið þinglýst, og hafi þannig brotið gegn 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því sé mótmælt að samkomulagið frá 10. september 2008 sé ógilt, enda hafi sveitarfélaginu borið að leiðbeina aðilum máls svo að rétt væri staðið að undirritun skjalsins. Þá hafi sveitarfélagið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að leggja til lóðamörk í deiliskipulagstillögu, þvert gegn undirrituðum gögnum og betri vitund.

Málsrök Reykjanesbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að umrætt deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og þinglesnar heimildir og ekki haldið neinum efnisannmörkum. Gætt hafi verið viðeigandi ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 við gerð og undirbúning þess. Benda bæjaryfirvöld á að yfirlýsing, dags. 21. júlí 2008,  um stækkun lóðar Flugvalla 6 úr 6.076 m2 í 6.426 m2, hafi verið aflýst af sýslumanni fyrir mistök, en þau mistök hafi nú verið leiðrétt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Er ágreiningur um stærð lóðanna Flugvalla 6 og Iðavalla 5b og hvernig mörkum þeirra skuli hagað.

Umrædd skipulagstillaga var auglýst til kynningar með almennum hætti í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að lokinni kynningu var framkomnum athugasemdum svarað. Tillagan var send Skipulagsstofnun til yfirferðar í samræmi við 42. gr. laganna og í kjölfar athugasemda stofnunarinnar var tillögunni breytt og hún auglýst að nýju. Bæjarstjórn samþykkti hina breyttu skipulagstillögu og var hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar að nýju og var ekki gerð athugasemd af hálfu stofnunarinnar við að deiliskipulagið öðlaðist gildi með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því í samræmi við  ákvæði skipulagslaga. Samkvæmt þinglýstum gögnum er lóðin Iðavellir 5b 2.310 m2 að stærð en lóðin Flugvellir 6 er 6.426 m2. Eru stærðir lóða í hinu kærða deiliskipulagi í samræmi við þinglýstar heimildir sem ekki hefur verið hnekkt.

Í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda frá 25. janúar 2017 kemur fram að málsmeðferð skipulagstillögunnar hafi verið samkvæmt 44. gr. laganna sem fjallar um grenndarkynningu. Þessi rangfærsla raskar þó ekki gildi ákvörðunarinnar enda liggur fyrir að meðferð málsins var í samræmi við 41. gr. skipulagslaga.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Er það því ekki á færi nefndarinnar að taka til úrlausnar álitamál er snúa að beinum eða óbeinum eignarréttindum og gildi þinglýstra heimilda í því sambandi. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið og með hliðsjón af því að deiliskipulag getur ekki ráðstafað eignaréttindum með bindandi hætti liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2017 um að samþykkja deiliskipulag Flugvalla í Reykjanesbæ. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

69,70,71/2018 Dunhagi

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun hússins að Dunhaga 18-22, Reykjavík, um eina hæð, reisa viðbyggingu o.fl.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. maí 2018, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi, Hjarðarhaga 44, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. mars 2018 að veita byggingarleyfi m.a. fyrir viðbyggingu og hækkun hússins að Dunhaga 18-20 í Reykjavík um eina hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. og 8. maí 2018, er móttekin voru 7. og 8. s.m., kæra sjö íbúar og eigendur fasteigna að Hjarðarhaga 27 og sjö íbúar og eigendur fasteigna að Tómasarhaga 32 áðurnefnda ákvörðun byggingarfulltrúa og krefjast ógildingar hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða greind kærumál, sem eru nr. 70/2018 og 71/2018, sameinuð máli þessu.

Í málinu er jafnframt gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. maí 2018.

Málavextir: Að undangenginni grenndarkynningu umsóknar um byggingarleyfi samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn á afgreiðslufundi sínum 9. janúar 2018. Fól ákvörðun byggingarfulltrúa í sér leyfi til að byggja inndregna hæð ofan á núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á því og sorpgerði fyrir verslunarrými inni í rými 0106. Var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 11. janúar 2018. Kærendur í máli þessu kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. mars 2018 þar sem komið hafði í ljós að mistök höfðu orðið við fyrri afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar. Var umsóknin vegna Dunhaga 18-20, samþykkt að nýju með óbreyttu efni. Sú afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 22. s.m. Kærendum var tilkynnt um þær málalyktir með bréfi, dags. 10. apríl 2018, og kærðu þeir hina nýju ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. Kærumáli vegna fyrri samþykktar byggingarleyfisins var vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði uppkveðnum 16. maí 2018 með vísan til þess að ný ákvörðun lægi fyrir í málinu og því hefði fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa ekki réttarverkan að lögum.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hið kærða byggingarleyfi ekki vera í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Aðalskipulagið geri ekki ráð fyrir þéttingu byggðar á þéttbyggðum og gamalgrónum svæðum. Engin þörf sé að þétta byggð á svæðinu frekar, þar sem þéttleiki byggðar á höfuðborgarsvæðinu sé hvað mestur í vesturbæ Reykjavíkur. Byggingarfulltrúi geri ekki greinarmun á æskilegri þéttingu byggðar á viðeigandi svæðum og óeðlilegri röskun á gamalgrónum svæðum með breytingum á byggingum sem eigi sér enga samsvörun í næsta nágrenni. Byggingarfulltrúa hafi borið að taka tillit til þessa sjónarmiðs við veitingu byggingarleyfisins. Ákvörðunin sé því bæði ólögmæt vegna ósamræmis við aðalskipulag og þar sem ekki hafi verið tekið tillit til lögmætra og málefnalegra sjónarmiða um þéttleika byggðar.

Skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um grenndarkynningu hafi ekki verið uppfyllt. Sú grenndarkynning sem hafi verið undanfari umdeildrar ákvörðunar hafi verið ólögmæt þar sem hún hafi eingöngu náð til íbúa sunnan Hjarðarhaga. Ekki hafi verið tekið tillit til þess að úr íbúðum norðan götunnar sé útsýni til Reykjaness sem muni skerðast með tilheyrandi rýrnum lífsgæða íbúa og verðgildis íbúðanna. Vísað sé til leiðbeiningablaðs Skipulagsstofnunar nr. 8b um grenndarkynningar, þar sem komi m.a. fram að kynna skuli hækkun þaks fyrir næstu nágrönnum og öðrum þeim sem geti orðið fyrir áhrifum af henni, t.d. vegna útsýnis eða skuggavarps. Skipulagsfulltrúi hafi ekki fjallað um þessi atriði í umsögn sinni hvað varðar fyrrnefndar byggingar norðan Hjarðarhaga og þannig brotið gegn málsmeðferðarreglum skipulagslaga, rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og andmælarétti íbúa á efstu hæðum fjölbýlishúsanna norðan Hjarðarhaga. Því hafi verið óheimilt að gefa út umrætt byggingarleyfi, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. 

Ekki sé fyrir hendi heimild í skipulagslögum eða aðalskipulagi Reykjavíkur til þess að fara með byggingarleyfisumsókn þá sem hér um ræði í grenndarkynningu. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga sé kveðið á um skyldu til að gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Hin kærða ákvörðun feli í sér verulegar breytingar á byggðamynstri reitsins og hverfisins. Grenndarkynning sé undantekning frá meginreglunni og því hafi heimildir sveitarfélaga til að veita byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði á grundvelli grenndarkynningar ávallt verið túlkaðar þröngt, m.a. í dómum Hæstaréttar og úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Heimiluð framkvæmd sé ekki í samræmi við skilgreinda landnotkun eða byggðamynstur umrædds svæðis og hún gangi lengra en aðalskipulag geri ráð fyrir varðandi þéttleika byggðar. Umferð muni aukast til muna með fjölgun íbúða og komu stórmarkaðs og bæta á þann skort á bílastæðum sem þegar sé til staðar. Þá sé ljóst að stækkun kjallara verði erfið framkvæmd, þar sem húsin séu byggð á klöpp og mögulega þurfi að sprengja fyrir stækkuninni, en íbúðarhús standi í 15 m fjarlægð og bílskúrar á Tómasarhaga 32 í 8 m fjarlægð. Tjón geti því orðið óbætanlegt. Ekki megi leyfa framkvæmdir sem mögulega geti valdið slíku tjóni.

Telja kærendur málsmeðferð Reykjavíkurborgar ekki hafa verið í samræmi við lög og reglur. Þeim hafi ekki borist neinar formlegar upplýsingar af gangi máls eða gögn eftir að þeir skiluðu skriflegum athugasemdum vegna grenndarkynningar málsins fyrr en eftir að umhverfis- og skipulagsráð hafði samþykkt byggingarleyfisumsóknina 10. janúar 2018. Kærendur hafi ítrekað verið í samskiptum við Reykjavíkurborg vegna málsins. Borgaryfirvöld hafi sent kærendum umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember 2017, með bréfi, dags. 29. janúar 2018, en þá hafi byggingarleyfisumsóknin þegar verið samþykkt. Þar hafi umsögnum þeirra og annarra hagsmunaaðila verið svarað að einhverju leyti auk þess sem lagðar hafi verið til breytingar á teikningum. Með þessu hafi verið brotið gegn andmælarétti kærenda, þar sem málsaðilar stjórnsýslumála eigi rétt á að tjá sig um breytingar á umsóknum áður en endanleg ákvörðun sé tekin. Borgaryfirvöld hafi að auki ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni og vinnubrögð við afgreiðslu andmælabréfs og gerð umsagnar hafi verið afar óvönduð. Samkvæmt skipulagslögum og jafnræðisreglu eigi kærendur heimtingu á því að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið þar sem nánar verði kveðið á um skipulag reitsins og m.a. útfært nánar hvað megi byggja og hvaða starfsemi megi fara fram á reitnum.

Málsástæður Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis hafi verið í samræmi við ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Byggingarleyfisumsóknin hafi verið grenndarkynnt og athugasemdum svarað þegar sveitarstjórn hafði tekið ákvörðun.

Dunhagi 18-20 tilheyri skilgreindum nærþjónustukjarna íbúðasvæðis. Byggingarleyfisumsóknin falli að markmiðum og ákvæðum aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og því hafi verið heimilt að grenndarkynna hana. Í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að borgin þéttist innan núverandi marka. Viðmið um þéttni sé 60 íbúðir á hektara og Dunhagi 18-20 og nágrenni verði innan þeirra marka eftir breytingar. Viðmið skipulagsfulltrúa um fjölbreytni íbúðagerða eigi við um fjölda herbergja en ekki fermetrafjölda. Framkvæmdin sé því í samræmi við byggðamynstur. Hvorki sé gert ráð fyrir að umferð né álag á stofnanir aukist að ráði við fjölgun íbúða. Þá séu breytingar á skuggavarpi óverulegar. Það aukist örlítið um kl. 15 á jafndægri við Hjarðarhaga 27 en kl. 16 sé skuggi kominn framhjá vesturhlið hússins. Ekki séu áhrif af skuggavarpi á lóðina á öðrum árstímum eða öðrum tímum sólarhrings. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að krafa kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um veitingu byggingarleyfis frá 20. mars 2018 verði vísað frá.

Byggir leyfishafi frávísunarkröfu á því að allir kærufrestir séu liðnir. Þá sé málatilbúnaður kærenda stórlega vanreifaður. Krafa sé svo óskýr að ekki sé unnt að verða við henni. Ekki sé gerð grein fyrir því hvernig þau atriði sem talin séu upp geti leitt til ógildingar byggingarleyfisins. Þá hafi krafa kærenda ekki verið tengd ákveðinni ákvörðun, heldur ýmsar stjórnsýsluathafnir nefndar sem kærendur telji ólögmætar. Ekki sé ljóst hvort krafa kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar leiði af ógildingu sérstakrar stjórnvaldsákvörðunar og þá hverrar, eða hvort þess sé óskað að úrskurðarnefnd taki frumkvæðisákvörðun um að fella úr gildi byggingarleyfi. Leyfishafi hafi mikilla hagsmuna að gæta af því að byggingarframkvæmdir raskist ekki og þess verði því ekki krafist að honum verði gert að verjast því að byggingarleyfi hans verði fellt úr gildi á ótilteknum málsgrundvelli og án þess að vísað sé til þess að ákveðin stjórnsýsluathöfn sé til skoðunar frekar en önnur.

Niðurstaða: Fyrir liggur að kærendum var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 10. apríl 2018, og bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni 7. og 8. maí s.á. Bárust kærurnar því innan eins mánaðar kærufrests sem kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja að veita byggingarleyfi til að byggja eina hæð ofan á og viðbyggingu við núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, Reykjavík, ásamt fleiru. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna, en í ákvæðinu segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt greindri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir mikilli þéttingu byggðar, þannig að 90% allra nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu komi til með að rísa innan núverandi þéttbýlismarka. Lóðin nr. 18-20 við Dunhaga í Reykjavík er á svæði ÍB3 í aðalskipulaginu. Um svæðið segir að það hafi verið fullbyggt um 1970 og að byggð þar sé fastmótuð. Samkvæmt því megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Er Dunhagi 18-20 skilgreindur sem nærþjónustukjarni, þar sem heimilt er að vera með minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfa. Er sérstaklega tekið fram að íbúðir geti verið á efri hæðum viðkomandi bygginga. Hverfið er þó ekki skilgreint sem sérstakt þéttingarsvæði samkvæmt aðalskipulagi.

Eins og fyrr greinir var með hinni kærðu ákvörðun heimiluð hækkun hússins að Dunhaga 18-20 um eina hæð auk viðbyggingar við húsið og íbúðum í húsinu fjölgað úr 8 í 20. Fyrir heimilaða stækkun var nýtingarhlutfall nefndrar lóðar 0,78 en verður eftir umdeilda breytingu 1,38 sem felur í sér 77% aukningu nýtingarhlutfalls. Meðalnýtingarhlutfall lóða götureits þess sem Dunhagi 18-20 tilheyrir er 0,65 og verður umrædd bygging hærri en aðrar byggingar í nágrenninu. Verður með hliðsjón af þessu að telja að hin kærða ákvörðun feli í sér umtalsvert frávik frá þéttleika byggðar og byggðamynstri umrædds svæðis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var ekki unnt að veita hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt undantekningarreglu 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, sem ber að túlka þröngt, heldur hafi umdeild breyting þurft að eiga stoð í deiliskipulagi. Styðst sú ályktun einnig við orðalag í gildandi aðalskipulagi að í gera megi ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum á umræddu svæði eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi.

 Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. mars 2018 um að samþykkja byggingarleyfi m.a. fyrir viðbyggingu og hækkun hússins að Dunhaga 18-20 í Reykjavík um eina hæð. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

87/2017 Lyklafellslína

Með

Árið 2018, föstudaginn 13. júlí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 87/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. mars 2017 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. mars 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:
Árið 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Tekur matið m.a. til lagningar Lyklafellslínu 1. Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 22. mars 2017 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt og var leyfið gefið út 3. júlí s.á. Var veiting framkvæmdaleyfisins kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita hið kærða framkvæmdaleyfi þar sem undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið ábótavant, m.a. í ljósi dómafordæma Hæstaréttar og úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í sambærilegum málum.

Bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar vísa til þess að undirbúningur og taka hinnar kærðu ákvörðunar hafi í engu verið áfátt.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Þar er og tekið fram að rétt sé að afturkalla framkvæmdaleyfið og senda inn umsókn um leyfi að nýju þegar unnt verður að hefja framkvæmdir. Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum 12. júlí 2018 afgreiðslu skipulagsnefndar frá 6. s.m. um afturköllun framkvæmdaleyfis Lyklafellslínu 1 sem gefið var út 3. júlí 2017. Það leyfi hafði þá þegar fallið niður skv. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem framkvæmdir hófust ekki innan árs frá samþykkt bæjarstjórnar frá 22. mars 2017 fyrir leyfisveitingunni

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Byggja kærendur aðild sína í máli þessu á greindri lagaheimild um aðild tiltekinna hagsmunasamtaka.

Eftir afturköllun hins útgefna framkvæmdaleyfis og samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga hefur leyfið ekki lengur réttarverkan að lögum og verður ekki gefið út nýtt leyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfisins þar sem meira en 12 mánuðir eru liðnir frá  samþykkt bæjarstjórnar um veitingu þess, sbr. 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

78/2018 Reykjarhvoll

Með

Árið 2018, föstudaginn 13. júlí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 78/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september og 4. desember 2017 um að veita byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2018, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Vígmundur Pálmarsson, lóðarhafi Reykjahvols 25, Mosfellsbæ, ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september 2017, að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 2. júlí 2018.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 1. september 2017 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Var fært til bókar að nefndin gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis þegar fullnægjandi gögn hefðu borist byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. september 2017 var fyrrnefnd umsókn samþykkt. Málið var á dagskrá fundar skipulagsnefndar 13. október s.á. þar sem bókað var að ekki væru gerðar athugasemdir við stærð hússins, en deiliskipulag svæðisins heimilaði ekki aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Á afgreiðslufundi 4. desember 2017 samþykkti byggingarfulltrú umsókn um leyfi til að breyta staðsetningu og fyrirkomulagi innanhúss áður samþykkts einbýlishúss á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Byggingarfulltrú gaf út byggingarleyfi 17. maí 2018, til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á umræddri lóð.

Kærandi bendir á að samkvæmt teikningum verði húsið 6 m2 stærra en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagi. Hæð hússins verði 7,49 m en deiliskipulag kveði á um 6 m hámarkshæð frá inngangskóta, auk þess sem neðri hæðin sé 2,70 m á hæð og ekki tekin inn í hæð hússins. Þá komi fram aukaíbúð á samþykktum teikningum en óheimilt sé samkvæmt deiliskipulagi að gera aukaíbúðir í einbýlishúsum við F-götu. Fyrirhugað hús verði mun hærra en hús kæranda og muni rýra notagildi lóðar hans vegna skuggavarps og skerðingar á útsýni auk þess sem húsið sé  í miklu ósamræmi við hús hans vegna hæðar og stærðar.

Af hálfu bæjaryfirvalda er meðal annars bent á að kallað hafi verið eftir leiðréttum hönnunargögnum, að beiðni um leiðrétt byggingarleyfi hafi verið send byggingarfulltrúa og að leiðrétt byggingarleyfi verði gefið út innan skamms.

Niðurstaða: Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ á byggingarleyfi vegna Reykjahvols 23a sætti málið frekari málsmeðferð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. júní 2018 lagði leyfishafi fram aðaluppdrátt með leiðréttri byggingarlýsingu og var hann samþykktur. Liggur því fyrir að ný byggingaráform hafa verið samþykkt fyrir lóðina Reykjahvol 23a.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti aðaluppdrátt með leiðréttri byggingarlýsingu 22. júní 2018 hafa hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 15. september og 4. desember 2017 ekki réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra enda stæði hin nýja ákvörðun allt að einu óhögguð. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

67/2017 Fornubúðir

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 um breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júní 2017, er barst nefndinni 20. s.m., kæra A og B, Suðurgötu 70, Hafnarfirði þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. maí 2018, er barst nefndinni 2. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 27. mars s.á. um að veita leyfi fyrir viðbyggingu að Fornubúðum 5. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 68/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðabæ 2. ágúst 2017 og 17. maí 2018.

Málavextir: Hinn 13. apríl 2016 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Flensborgarhafnar. Lóðin Fornubúðir 5 er innan þess svæðis sem lýsingin tók til. Samkvæmt lýsingunni voru lágreistar byggingar sem féllu vel að aðliggjandi byggð meðal markmiða nýs skipulags. Málið var til umfjöllunar í nefndum bæjarins á árunum 2016 og 2017 án þess að tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir svæðið hafi verið lögð fram. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 23. ágúst 2016 var síðan lagt fram erindi frá lóðarhafa Fornubúða 5 þar sem kynnt voru áform um viðbyggingu við fasteign á lóðinni. Var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 1. febrúar 2017. Sendu kærendur inn athugasemdir við tillöguna. Breyting á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúða 5 var svo samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 27. apríl 2017. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí s.á. Breytingin felur í sér að heimilt er að reisa skrifstofu- og þjónustuhús á lóðinni, breyta hámarkshæð bygginga og húsagerð, stækka byggingarreit, auka nýtingarhlutfall lóðarinnar auk heimildar til að byggja bílakjallara. Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Fornubúðum 5 var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. mars 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst þegar hin kærða skipulagsákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig hafi nauðsynleg gögn ekki legið fyrir, þar sem skipulagslýsing fyrir Flensborgarhöfn hafi ekki verið meðal gagna málsins, auk þess sem ekki hafi verið gerðar nauðsynlegar athuganir á því hvaða áhrif aukið byggingarmagn og umfangsmeiri starfsemi myndu hafa á umferð á svæðinu. Þá telja kærendur að ekki hafi verið farið að ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 við meðferð málsins. Þannig hafi ekki verið tekin afstaða til allra athugasemda kærenda í samræmi við 3. mgr. 41. gr. laganna. Það að deiliskipuleggja einstakar lóðir sérstaklega sé almennt ekki í samræmi við skipulagslög, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna, auk þess sem skortur hafi verið á samráði við íbúa þar sem ákveðið hafi verið að hverfa frá því sem lagt hafi verið upp með í skipulagslýsingu fyrir svæðið. Einnig hafi tillaga að breyttu deiliskipulagi verið auglýst með vísan til 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga en hún hefði átt að vera auglýst með vísan til 1. mgr. 43. laganna. Jafnframt hafi tillagan tekið breytingum frá auglýsingu en bætt hafi verið við 8.000 m2 bílakjallara og nýtingarhlutfall fært úr 1,36 í 1,9. Því hafi borið að auglýsa tillöguna að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin sé í ósamræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þar sem fyrirhuguð starfsemi á lóðinni sé ekki í samræmi við landnotkunarflokk aðalskipulagsins. Ríkisstofnanir falli undir landnotkunarflokkinn samfélagsþjónusta en samkvæmt aðalskipulaginu sé um að ræða hafnarsvæði en auk þess sé leyfilegt að staðsetja á hafnarsvæðinu verslanir og þjónustustarfsemi tengdri höfninni samkvæmt skilmálum fyrir Flensborgarhöfn, en ríkisstofnun falli ekki undir þann flokk. Einnig byggja kærendur á því að byggingin, sem deiliskipulagið heimilar að byggð verði, stingi í stúf við aðrar byggingar á svæðinu og nágrenni þess, en hún sé tvöfalt hærri en aðrar byggingar á svæðinu auk þess að vera í ósamræmi við byggðamynstur samkvæmt skipulagslýsingu fyrir Flensborgarhöfn. Þá skerði fyrirhuguð bygging útsýni frá fasteign kærenda og rýri verðmæti hennar. Byggingarmagn sé einnig allt of mikið miðað við umferðaræðar að og frá svæðinu og bílastæði í næsta nágrenni. Skipulagsbreytingin sé auk þess í miklu ósamræmi við gildandi skipulag og skipulagslýsingu. Kærendur taka fram að þeim hafi ekki orðið kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins fyrr en fyrsta lagi 9. apríl 2018 og því hafi kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar ekki verið liðinn þegar kæran var send úrskurðarnefndinni.

Málsrök Hafnafjarðarbæjar:
Af hálfu bæjaryfirvalda er því hafnað að sú hugmyndavinna sem fram hafi farið vegna Flensborgarhafnar sé bindandi fyrir þær hugmyndir sem síðar komu fram um uppbyggingu að Fornubúðum 5. Um sé að ræða tvö aðskilin mál og því hafi skipulagslýsingin ekki þurft að liggja fyrir þegar breytt deiliskipulag vegna Fornubúða 5 hafi verið afgreitt. Þegar um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi sé heimilt að taka einstakar lóðir út og deiliskipuleggja þær sérstaklega, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi ekki orðið breyting frá auglýstri tillögu að deiliskipulagi þótt tilkynning á heimasíðu Hafnafjarðarbæjar hafi gefið slíkt til kynna. Jafnframt er því hafnað að breytt deiliskipulag vegna Fornubúða 5 sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025. Í því sambandi er vísað til þess sem segi í aðalskipulaginu varðandi svæðið Flensborgarhöfn (H2) en auk þess séu mörg fordæmi fyrir því að ríkisstofnanir eða fyrirtæki á vegum eða í eigu þess nýti mannvirki sem eru á lóðum sem samkvæmt landnotkunarflokki er annað en „samfélagsþjónusta“. Kærendur hafi ekki rökstutt þá fullyrðingu sína að hæð mannvirkja og byggingarmagn verði of mikið. Ljóst sé að umferð muni aukast um þær umferðaræðar sem liggi að núverandi hafnarsvæði en erfitt sé að fullyrða hver sú aukning verði. Þá sé ekki fallist á að útsýni sé lögvarið og því óljóst hverjir séu hinir lögvörðu hagsmunir kærenda í málinu.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins en hann hefur ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Hin kærða ákvörðun varðandi byggingarleyfið var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. mars 2018. Kærendur hafa fært fyrir því rök að þeim hafi ekki orðið kunnugt um ákvörðunina fyrr en einhverjum dögum síðar, en þeim var ekki tilkynnt um veitingu leyfisins. Verður því við það að miða að upphaf kærufrests vegna samþykktar hins kærða byggingarleyfis hafi ekki verið fyrr en fyrstu dagana í apríl 2018 og var kærufrestur því ekki liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 2. maí s.á. og verður málinu því ekki vísað frá af þeim sökum. Þá er ekki útilokað, með hliðsjón af staðháttum og hæð fyrirhugaðrar byggingar, sem heimiluð er með umdeildri skipulagsbreytingu, að hún muni hafa áhrif á útsýni frá fasteign kærenda. Teljast kærendur því eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna lóðarinnar Fornubúða 5 og samþykki byggingaráforma á grundvelli þeirrar breytingar, þar sem gert er ráð fyrir byggingu skrifstofu- og þjónustuhúss fyrir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar. Hafrannsóknarstofnun er ríkisstofnun sem annast rannsóknir og ráðgjöf á sviði hafs og vatna, sbr. lög um Hafrannsóknarstofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna nr. 112/2015.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Lóðin Fornubúðir 5, sem umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til, tilheyrir svæðinu Suðurhöfn og er staðsett á hafnarsvæði H1 samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, en ekki á hafnarsvæði H2 þar sem verslunar- og þjónustustarfsemi er heimiluð auk hafnarstarfsemi. Í grein 6.2 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er að finna skilgreiningu á landnotkunarflokkum aðalskipulags. Þar er flokkurinn „hafnir (H)“ skilgreindur sem „Svæði fyrir hafnir og hafnarmannvirki þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, losunar og lestunnar þeirra.

Í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar segir svo um hafnarsvæði: „Á hafnarsvæðum tengist landnotkun fyrst og fremst hafnsækinni starfsemi, s.s. mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, lestunar og losunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru, móttöku og brottfarar farþega, fiskvinnslu og starfsemi tengdri sjóflutningum og skipasmíði eða viðgerðum. Íbúðir eru ekki heimilar á hafnarsvæðum. Þó er í undantekningartilvikum unnt að gera ráð fyrir húsvarðaríbúðum. Hafnarsvæðin heyra undir stjórn hafnarstjórnar.“ Um Suðurhöfn segir sérstaklega: „Miðað er við að Suðurhöfn (H1) verði áfram megin fiskihöfn höfuðborgarsvæðisins, vöruflutningahöfn og miðstöð skipasmíða og viðhaldsþjónustu við skipaflotann. Megin markmið í skipulagi hafnarsvæðisins eru að skapa skilyrði og bestu aðstæður til öflugrar þróunar fyrir hafnsækna starfsemi og að skapa aðstöðu fyrir uppbyggingu skipaviðhaldsiðnaðar. Gera þarf ráð fyrir að hægt verði að taka á móti og þjónusta farþegaskip í Suðurhöfninni. Miklir þróunarmöguleikar eru í Suðurhöfn sem verður miðstöð útgerðar, vöruflutninga og skipaviðgerða. Suðurhöfnin hefur verið stækkuð með landfyllingu og útbúið stórt athafnasvæði og aðastaða fyrir útgerð, fiskmarkað og flutningafyrirtæki. Einnig er þar olíubryggja og olíugeymar, sem fjallað er um í áhættumati Höfuðborgarsvæðisins og í umhverfismati aðalskipulagsins. Með nýjum ákvæðum um hafnarvernd er sá hluti hafnarsvæðanna sem vöruflutningar fara um lokaður fyrir allri almennri umferð.“

Samkvæmt umræddri deiliskipulagsbreytingu er heimilt að reisa á fyrrgreindri lóð skrifstofu- og þjónustuhús og fram kemur í hinu kærða byggingarleyfi að húsnæðið sé ætlað undir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar. Sú notkun getur ekki fallið undir landnotkunarflokk hafna eins og hann er skilgreindur í skipulagsreglugerð eða fyrrgreinda skilmála aðalskipulags. Í kafla skipulagsreglugerðar um landnotkun er gert ráð fyrir að þjónustustofnanir falli undir landnotkunarflokkinn samfélagsþjónusta (S) eða eftir atvikun miðsvæði (M) skv. grein 6.2 skipulagsreglugerðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur fyrir að hin kærða deiliskipulagsbreyting er hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skilmála Aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025. Verður því ekki hjá því komist að ógilda deiliskipulagsbreytinguna með hliðsjón af kröfu 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og verður það því fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 27. apríl 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúða 5 er felld úr gildi.

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 27. mars 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu skrifstofu- og rannsóknarhúss fyrir starfsemi Hafrannsóknarstofnunar á lóð nr. 5 við Fornubúðir er felld úr gildi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson