Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2011 Vatnsendi

Árið 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2011, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 15. nóvember 2011 um að synja umsókn um að stofnuð verði ný byggingarlóð nr. 25a við Vatnsendablett úr landi Vatnsenda. Afgreiðsla skipulagsnefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 22. nóvember 2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2011, er barst nefndinni 6. s.m., kærir Sigurbjörn Þorbergsson hrl., f.h. Þ, Vatnsenda í Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 15. nóvember 2011 að synja umsókn um að stofnuð verði ný byggingarlóð nr. 25a við Vatnsendablett úr landi Vatnsenda. Er þess krafist að ákvörðun skipulagsnefndar um að hafna að færa spildu við Vatnsendablett 25a inn á skipulag verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að með bréfi til Kópavogsbæjar, dags. 28. mars 2008, er þar farið fram á það ,,að setja spilduna inn á skipulag svo unnt sé að fá landnúmer á hana og stofna hana í þinglýsingabókum“. Með úrskurði í máli nr. 42/2008, uppkveðnum 6. júlí 2010, vísaði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála frá kærumáli vegna synjunar skipulagsnefndar Kópavogs á fyrrgreindu erindi, þar sem það væri eingöngu á færi sveitarstjórnar að taka slíka ákvörðun.

Samkvæmt deiliskipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní 2001, liggur umrædd spilda á milli lóðanna Vatnsendabletts 23 og Vatnsendabletts 27. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru nefndar lóðir nú merktar nr. 4 og 6 við Fornahvarf.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. nóvember 2011 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Ítrekaði nefndin fyrri afgreiðslu sína frá árinu 2008, þar sem hafnað hefði verið að færa spildu milli Fornahvarfs 4 og 6 inn á deiliskipulag Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, frá árinu 2001. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu skipulagsnefndar, eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að á fundi skipulagsnefndar 23. ágúst 2011 hafi verið samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna Vatnsendabletts 134 í samræmi við 43. gr. skipulagslaga 123/2010. Af því tilefni hafi meirihluti nefndarinnar látið bóka að tillagan væri lögð fram til að efna eignarnámssátt við kæranda frá árinu 2007 sem fyrri meirihluti hefði gert. Jafnframt hafi verið tekið fram að tillagan væri í mikilli andstöðu við stefnu núverandi meirihluta og með óbragð í munni vísuðu þeir allri ábyrgð þess gjörnings á fyrri meirihluta og vildu leggja áherslu á að tryggt yrði aðgengi að opnu svæði fyrir almenning eins og getið væri um í aðalskipulagi. Vegna nefndrar bókunar megi kærandi með réttu draga óhlutdrægni núverandi meirihluta skipulagsnefndar í efa þar sem framangreint orðfæri gefi til kynna neikvætt viðhorf í hans garð. Greindur meirihluti hafi því verið vanhæfur til að taka hina kærðu ákvörðun í máli þessu af ástæðum sem falli undir 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hvíli ekki skylda á kæranda til að kosta útivistarsvæði fyrir almenning á bújörð sinni.

Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins fyrir svæðið frá árinu 2001 skuli að jafnaði vera 50 m breitt belti meðfram Elliðavatni en slíkt stefnumið sé ekki án undantekninga, sem þýði að íbúðarhús geti legið nær vatni en 50 m. Engin lagastoð sé fyrir þeirri ákvörðun að banna lóðir innan 50 m frá bakka vatnsins á deiliskipulögðu svæði, en ákvæði 2. mgr. gr. 4.15.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 kveði einungis á um að gætt sé að því að ekki sé byggt nær vötnum utan þéttbýlis en 50 m. Þá vísi kærandi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem báðum megin lóðar kæranda séu byggingarreitir nær vatni en 50 m. Með greindu deiliskipulagi hafi Vatnsendablettur 27 orðið að byggingarlóð u.þ.b. 10 m frá vatnsbakka á sama tíma og reglan um 50 m hafi verið sett fram. Megi ráða að orðalagið „að jafnaði“ sé sett inn vegna fyrrnefndrar lóðar en hún sé við hlið þeirrar lóðar sem hin kærða synjun taki til. Árið 2004 hafi svo verið veitt leyfi fyrir nýbyggingu á Vatnsendabletti 27. Engin málefnaleg rök séu fyrir því að synja um skipulag á lóð kæranda í ljósi þessa augljósa fordæmis. Þá vísi kærandi til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar sem áherslu verði að leggja á orðin „að jafnaði“, en ekki liggi annað fyrir en að bygging á fyrirhugaðri lóð nr. 25 við Vatnsendablett geti verið staðsett þannig að gegn fyrrgreindum skilmálum verði ekki brotið. Þá hafi rannsókn málsins verið áfátt og hafi skipulagsnefnd við afgreiðslu málsins látið ómálefnanleg sjónarmið ráða ferð.

————————————-

Bæjaryfirvöldum Kópavogs var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna kærumáls þessa en þær hafa ekki borist úrskurðarnefndinni. Í fyrirliggjandi bókun skipulagsnefndar frá 15. nóvember 2011, er bæjarstjórn staðfesti hinn 22. s.m., eru þau rök færð fyrir hinni kærðu ákvörðun að umrædd spila sé skilgreind í aðalskipulagi sem opið óbyggt svæði og sé innan 50 m helgunarsvæðis Elliðavatns. Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé miðað við að ekki verði heimilaðar nýjar lóðir sem séu að jafnaði nær vatnsbakka Elliðavatns en 50 m.

Niðurstaða: Í hinni kærðu ákvörðun fólst synjun á umsókn kæranda um stofnun lóðar með breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga. Hið sama á við um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skipulagsnefndir fara með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga.

Í samræmi við greind ákvæði skipulagslaga staðfesti bæjarstjórn hina kærðu afgreiðslu skipulagsnefndar og getur meint vanhæfi nefndarmanna í skipulagsnefnd vegna bókunar á fundi hinn 23. ágúst 2011 ekki haft áhrif á gildi ákvörðunar bæjarstjórnar, sem var lokaákvörðun í málinu.

Í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga er tekið fram að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi. Svæðisskipulag sé rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Þá segir í 5. mgr. 32. gr. nefndra laga að stefna aðalskipulags sé bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa. Kemur fram í 2. mgr. 28. gr. laganna að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, er hin umdeilda spilda á skilgreindu óbyggðu svæði en beggja vegna hennar eru lóðir á merktu íbúðarsvæði. Samkvæmt gr. 4.13.1 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er með óbyggðum svæðum átt við opin svæði til almennrar útiveru eða takmarkaðrar umferðar fólks og þar sem ekki sé gert ráð fyrir mannvirkjagerð, þ.m.t. skógræktarsvæði önnur en nytjaskógrækt á bújörðum og landgræðslusvæði. Umrædd beiðni kæranda um stofnun lóðar á greindri spildu fól því í sér ósk um breytingu á landnotkun. Það var því ekki á færi bæjarstjórnar að verða við erindi kæranda án undangenginnar breytingar á aðalskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar Kópavogs frá 15. nóvember 2011, sem bæjarstjórn staðfesti 22. s.m, um að synja umsókn um að stofnuð verði ný byggingarlóð nr. 25a við Vatnsendablett úr landi Vatnsenda.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson