Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2011 Túngötureitur

Árið 2015, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. nóvember 2011, er barst nefndinni 3. desember s.á., kæra G, Hávallagötu 53, og H, Hávallagötu 48, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. janúar 2014.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 12. desember 2007 var samþykkt að kynna forsögn að deiliskipulagi Túngötureits fyrir hagsmunaaðilum á reitnum. Forkynning fór fram frá 17. desember 2007 til 8. janúar 2008 og bárust athugasemdir. Ný tillaga að deiliskipulagi Túngötureits, dags. 25. maí 2009, var lögð fram á fundi skipulagsráðs 27. s.m. og var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á reitnum og hverfisráði Vesturbæjar. Tillagan var kynnt frá 5. til og með 22. júní 2009. Athugasemdir bárust.

Á fundi skipulagsráðs 27. apríl 2011 var lögð fram endurskoðuð tillaga skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur að deiliskipulagi Túngötureits, dags. 8. apríl 2011. Samþykkt var að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á reitnum, sem og þeim sem höfðu gert athugasemdir við fyrri hagsmunaaðilakynningar, auk hverfisráðs Vesturbæjar. Tillagan var kynnt frá 6. til 27. maí 2011 og bárust athugasemdir.

Hinn 22. júní 2011 var tillagan lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs ásamt umsögn skipulags- og byggingarsviðs, dags. 21. júní 2011, um athugasemdir sem komu fram við hagsmunaaðilakynningu. Samþykkt var að auglýsa tillöguna og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 30. júní 2011. Tillagan var auglýst frá 6. júlí til og með 17. ágúst 2011. Athugasemdir bárust. Á fundi skipulagsráðs 12. október 2011 var tillagan tekin fyrir á ný og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 3. október 2011, um innsendar athugasemdir. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 3. nóvember 2011. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember 2011.

Túngötureitur afmarkast af Túngötu, Bræðraborgarstíg, Hávallagötu og Hofsvallagötu. Um er að ræða gróna byggð en á reitnum standa 22 hús sem öll voru byggð á árunum 1934-1939, að undanskildu húsinu að Bræðraborgarstíg 31, sem er eldra. Með hinu kærða deiliskipulagi var meðal annars tekin afstaða til verndunar húsa, garðveggja og trjágróðurs, auk þess sem lagt var til að reiturinn nyti svæðisbundinnar verndunar. Skilgreindar voru heimildir til að byggja eða stækka bílskúra og breytingar voru gerðar á lóðinni nr. 31 við Bræðraborgarstíg, sem meðal annars fólu í sér að ekki var lengur gert ráð fyrir almennum bílastæðum á lóðinni.

Málsrök kæranda:
Kærendur skírskota til þess að borgarráð hafi samþykkt hina kærðu deiliskipulagstillögu rúmum 11 vikum eftir að frestur til athugasemda hafi runnið út. Það samræmist ekki 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kveði á um að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan átta vikna frá því að athugasemdafrestur hafi runnið út.

Tillagan geri meðal annars ráð fyrir verulegri fækkun bílastæða á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu en mikill skortur sé á bílastæðum á þessu svæði. Fækkun bílastæða við Hávallagötu varði hagsmuni allra íbúa við götuna en þrátt fyrir það hafi tillagan aðeins verið kynnt fyrir íbúum öðrum megin götunnar, þ.e. íbúum á Hávallagötu 30-48, með bréfi skipulagsstjóra Reykjavíkur, dags. 4. maí 2011. Hún hafi hins vegar ekki verið kynnt fyrir íbúum sunnan megin götunnar, við Hávallagötu nr. 35-55, þótt þeir hafi sömu eða jafnvel meiri hagsmuna að gæta varðandi fækkun bílastæða. Íbúum við Bræðraborgarstíg vestanverðan hafi ekki heldur verið kynnt tillagan og hið sama megi segja um íbúa við Sólvallagötu 28-55 og við norðanverða Túngötu.

Að lokum benda kærendur á að framkvæmdir hafi hafist á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu áður en deiliskipulagstillagan hafi verið samþykkt. Kantsteinn hafi verið hækkaður svo ekki væri lengur mögulegt að aka inn á bílastæðin með góðu móti. Hafi þær framkvæmdir verið um garð gengnar þegar skipulagsráð og borgarráð hafi tekið athugasemdir íbúa til umfjöllunar og afgreiðslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að ekkert í skipulagslögum nr. 123/2010 leiði til þess að deiliskipulag verði ógilt þótt frestur samkvæmt 42. gr. laganna sé ekki virtur. Borgaryfirvöld hafi veitt Skipulagsstofnun skýringar á ástæðum þess að dregist hafi að senda tillöguna til umfjöllunar og Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við tillöguna að þessu leyti. Þessi óverulegi ágalli á málsmeðferðinni valdi ekki ógildi deiliskipulagsins, enda verði ekki séð að neinir hagsmunir hafi farið forgörðum þrátt fyrir hann.

Ekki sé heldur fallist á að skort hafi á kynningu á deiliskipulagstillögunni en bent sé á að bréf, sem kærendur vísi til, hafi falið í sér hagsmunaaðilakynningu en ekki grenndarkynningu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Kynningin hafi eðli máls samkvæmt eingöngu náð til þeirra hagsmunaaðila sem átt hafi eignir á reitnum. Afar vandlega hafi verið staðið að kynningu deiliskipulagsins. Tillagan hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði skipulagslaga og allir þeir sem hafi talið sig eiga hagsmuna að gæta hafi getað komið að athugasemdum.

Umfjöllun um mögulega uppbyggingu á lóð nr. 31 við Bræðraborgarstíg hafi staðið yfir í nokkur ár og ýmsar breytingar verið gerðar, m.a. vegna ítrekaðra athugasemda hagsmunaaðila. Í stað þess að heimila nýtt hús á lóðinni sé nú gert ráð fyrir að gamla húsið standi áfram en heimilt verði að byggja við það. Þá hafi verið horfið frá hugmyndum um skiptingu lóðarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög og kappkostað hafi verið að halda íbúum upplýstum um efni og innihald tillögunnar.

Lóðin númer 31 við Bræðraborgarstíg sé í einkaeigu samkvæmt þinglýsingabókum. Þótt íbúar í nágrenninu hafi lagt bílum sínum inni á lóðinni í einhvern tíma skapi það þeim engan rétt. Þá hvíli engin skylda á Reykjavíkurborg til að láta útbúa þar almenningsstæði til frambúðar. 

Niðurstaða: Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skyldi senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hafði verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan átta vikna frá því að frestur til athugasemda rann út. Frestur til athugasemda við hina kærðu skipulagsákvörðun rann út hinn 17. ágúst 2011. Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun eftir fyrrgreindan átta vikna frest, eða 10. nóvember 2011. Þessi annmarki, er lýtur að hraða og samfellu í meðferð máls, verður ekki talinn þess eðlis að hann hafi haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar eða réttarstöðu kærenda og verður ekki talinn geta ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar.

Kærendur gera jafnframt athugasemd við það að deiliskipulagið hafi eingöngu verið kynnt fyrir íbúum innan skipulagsreitsins en ekki íbúum við jaðar hans. Er þar vísað til hagsmunaaðilakynningar sem fram fór í maí 2011. Fallast má á það með kærendum að íbúar við jaðar skipulagsreitsins kunni að hafa átt hagsmuna að gæta vegna hins kærða deiliskipulags. Með vísan til þess að deiliskipulagstillagan var auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, sbr. 31. gr. laganna, verður þó ekki talið að skort hafi á kynningu skipulagsins með þeim hætti að haft hafi áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar, enda gafst kærendum sem og öðrum kostur á að koma athugasemdum sínum við deiliskipulagstillöguna á framfæri áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Kærendur gera athugasemd við verulega fækkun bílastæða á horni Bræðraborgarstígs og Hávallagötu. Með makaskiptasamningi milli bæjarstjórnar Reykjavíkur og eigenda Bræðraborgarstígs 31, dags. 25. júlí 1951, voru gerðar breytingar á lóðarmörkum Bræðraborgarstígs 31, en lóðin er eignarlóð. Kvað samningurinn meðal annars á um að bæjarstjórn Reykjavíkur seldi eigendum Bræðraborgarstígs 31 spilduna þar sem bílastæðin voru staðsett og var hún sameinuð lóðinni. Bæjarstjórnin hefði þó endurgjaldslausan afnotarétt af spildunni þar til húsið Bræðraborgarstígur 31 yrði endurbyggt, nýtt hús reist á lóðinni og Bræðraborgarstígur breikkaður. Umræddur makaskiptasamningur er einkaréttarlegur samningur á milli Reykjavíkurborgar og fyrri eigenda lóðarinnar, sem núverandi eigandi leiðir rétt sinn af, og geta aðrir ekki byggt rétt á honum. Er Reykjavíkurborg jafnframt heimilt að afsala sér afnotarétti af spildunni sem er innan lóðarmarka Bræðraborgarstígs 31. Fækkun bílastæðanna átti sér því eðlilegar skýringar og til þess ber einnig að líta að ekki er að finna í lögum eða reglugerðum fyrirmæli um lágmarksfjölda bílastæða til almenningsnota á íbúðarsvæðum.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða deiliskipulag ekki haldið þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. nóvember 2011 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir Túngötureit.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson