Árið 2013, föstudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 95/2012, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. september 2012 um að allt að 800 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa, Helgafellssveit, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. október 2012, er barst nefndinni 3. s.m., kærir J, Hrísakoti, Helgafellssveit, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. september 2012 að allt að 800 kW virkjun í ánni Svelgsá í landi Hrísa í Helgafellssveit skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Með bréfi, dags. 5. október 2012, er barst nefndinni 8. s.m., kæra J og V, Svelgsá, Helgafellssveit, jafnframt fyrrgreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar með kröfu um ógildingu. Verður það kærumál, sem er númer 97/2012, sameinað kærumáli þessu, enda standa hagsmunir kærenda í nefndum málum því ekki í vegi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun hinn 25. október 2012.
Málavextir: Jarðirnar Svelgsá og Hrísar eiga lönd saman og segir í landamerkjalýsingu frá 16. júlí 1884 að Svelgsá ráði merkjum milli jarðanna frá ósi og upp að Hrauni, en síðan ráði hraunið til fjalls. Er jörðin Svelgsá vestan árinnar en Hrísar að austanverðu. Austan Hrísa er jörðin Hrísakot og segir í sömu landamerkjalýsingu að milli þeirra jarða skilji Þórsá upp að sýsluvegi. Svo ráði gamalt garðlag upp í Hrísakotsbrunn og þaðan bein sjónhending í Sjónarhól á Hrísfelli.
Hinn 29. maí 2009 staðfesti umhverfisráðuneytið ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. janúar 2008 þess efnis að allt að 655 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Eftir þá niðurstöðu var unnið að gerð deiliskipulagstillögu fyrir vatnsaflsvirkjunina sem sveitarstjórn Helgafellssveitar samþykkti ásamt umhverfisskýrslu að lokinni málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar 2011.
Vegna breytinga á virkjunaráformum tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða allt að 800 kW virkjun í Svelgsá í ágústmánuði 2012 og óskaði ákvörðunar stofnunarinnar um matsskyldu framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningu framkvæmdaraðila kom m.a. fram að fyrir lægi samþykkt deiliskipulag fyrir virkjun með nokkuð annarri tilhögun en nú væri tilkynnt. Væri ný tilhögun betri en sú fyrri með tilliti til umhverfisáhrifa og hagkvæmni. Um rennslisvirkjun væri að ræða með nær engri miðlun. Yrði vatni úr fjórum kvíslum Svelgsár veitt saman með því að stífla kvíslarnar og veita vatninu um niðurgrafnar veitupípur að inntaksstíflu en þaðan lægi fallpípa niður að stöðvarhúsi. Stuttur frárennslisskurður yrði þaðan út í Svelgsá. Vegslóði frá þjóðvegi að vatnsbóli Stykkishólmsbæjar yrði lagfærður og framlengdur að stöðvarhúsi og þar gert lítið bílaplan. Framhjá stöðvarhúsi og meðfram þrýstipípu myndi liggja slóði sem gerður yrði samhliða lagningu pípunnar upp að inntaksstíflu og þaðan slóði að öllum veitustíflum meðfram veitupípunni. Tenging virkjunarinnar við dreifikerfi RARIK yrði um niðurgrafinn háspennustreng í kanti vegslóða niður að loftlínu við þjóðveg. Hæð allra stífla yrði um 3 m og yrði áætlað flatarmál allra inntakslóna innan við 3.000 m². Færu lónin fáeina metra út fyrir núverandi farveg árinnar og kvíslanna. Þá væru umhverfisáhrif talin lítil.
Lögbundin ákvörðun Skipulagsstofnunar um matið lá fyrir hinn 5. september 2012. Var þar m.a. tilgreint að í umsögnum Helgafellssveitar, Fiskistofu, Fornleifaverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar kæmi fram að ekki væri ástæða til að framkvæmdirnar skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að á grundvelli þeirra gagna sem lögð voru fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu, auk umsagna og viðbragða framkvæmdaraðila við þeim, væri ekki líklegt að virkjun í Svelgsá hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir.
Málsrök kærenda: Tekið er fram af hálfu kærenda að mati á áhrifum framkvæmdanna sé verulega ábótavant. Rask af völdum vegagerðar og lagningar fall- og veitupípa sé mjög vanmetið og sjónræn áhrif framkvæmdanna til langframa verði mun umfangsmeiri en Skipulagsstofnun telji. Framkvæmdir muni blasa við frá þjóðvegi 54 og spilla útsýni frá vinsælum ferðamanna- og áfangastöðum í nágrenninu eins og Helgafelli og Drápuhlíðarfjalli. Umrætt landsvæði sé þakið viðkvæmum mosagróðri og muni taka marga áratugi eða jafnvel árhundruð að græða landið eftir svo mikið umrót. Ámælisvert sé að ekki hafi verið leitað umsagna fleiri aðila sem málið varði, s.s. aðila í ferðaþjónustu, en mikil verðmæti séu fólgin í óspjölluðu umhverfi og skaði allt rask framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar verið tekin á grundvelli of takmarkaðra gagna.
Eigandi Hrísakots bendir enn fremur á að ákvörðunin snerti verulega hagsmuni hans því meginhluti þess fjalls þar sem áformað sé að virkja með tilheyrandi röskun sé í eigu hans og maka hans. Umtalsverðar framkvæmdir verði á yfir 600 m kafla í fjallshlíðinni í um 230 m hæð yfir sjávarmáli, nánast við landamerki Hrísakots.
Gert sé ráð fyrir lagningu vega að fjórum stíflum en í ákvörðun Skipulagsstofnunar séu þessir vegir kynntir sem slóðar. Þurfi 1.000 m³ af efni í slóðagerðina, 2.300 m³ af sandi meðfram pípum og heildarmagn steypu verði 200 m³. Vafasamt sé að efnislitlir slóðar dugi fyrir þennan flutning í hallandi fjallshlíð. Einnig hafi komið fram að slóði þurfi að víkja frá pípuleið vegna mikils bratta. Að framkvæmdum loknum muni vera til staðar allmikið vegakerfi í hlíðum Hrísafells og umtalsvert sár eftir lagningu pípa. Megi einnig gera ráð fyrir talsverðri umferð á greindum fjallvegum vegna hreinsunar á stíflum úr inntaki, en oft frjósi í inntökum þakrennuvirkjana. Heildstæð og óspjölluð ásýnd Snæfellsnesfjallgarðar að norðanverðu muni verða rofin því nú fyrirfinnist ekki vegir eða vegslóðar á fjalllendinu allt frá Kerlingarskarði og austur í botn Álftafjarðar. Þá hafi verið vanrækt að taka tillit til „landslagsheilda“ við mat Skipulagsstofnunar.
Þá byggi hin kærða ákvörðun á of takmörkuðum gögnum um lífríki á fyrirhuguðu virkjanasvæði. Byggt sé á skýrslu vistfræðings sem hafi framkvæmt vettvangskönnun á fuglalífi og gróðurfari vegna fyrri virkjunar, en sú virkjun hafi verið með talsvert ólíka staðbundna útfærslu. Lífríki hafi hvorki verið kannað með tilliti til fyrirhugaðrar vegagerðar í hlíðum Hrísafells né hafi það verið kannað í þremur af þeim giljum þar sem nú sé fyrirhugað að virkja. Þá liggi ekki fyrir gögn um smádýralíf á fyrirhuguðu virkjanasvæði og í vegstæði virkjanavega.
Eigendur jarðarinnar Svelgsár, sem á land að ánni, telja að ekki sé gætt að hagsmunum þeirra sem eigi lönd er liggi að virkjunarsvæðinu. Mikil óþægindi muni fylgja aukinni umferð og öðru álagi þar sem allir aðdrættir til virkjunarinnar muni fara eftir þjóðvegi 54, sem liggi nálægt húsi kærenda. Þá skorti á að leitað hafi verið umsagna fleiri aðila, s.s. eigenda aðliggjandi lands og Stykkishólmsbæjar, vegna vatnsveitu sveitarfélagsins. Umdeildar framkvæmdir snerti einnig hagsmuni ferðaþjónustu á svæðinu en austurhluti Helgafellssveitar sé aðalsögusvið Eyrbyggju. Sé með fyrirhugaðri virkjun verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.
Loks sé á það bent að fjall það sem virkjunin verði staðsett á sé hluti af virkri eldstöð. Sé þar mikið gosefni, sem sé laust í sér. Í maí 2007 hafi orðið töluvert framhlaup úr fjallinu sem hafi farið í Svelgsána. Með fyrirhuguðum framkvæmdum geti slíkt endurtekið sig með afdrifaríkum afleiðingum fyrir allt nágrenni árinnar og þar með talið vatnsból Stykkishólms. Þá geri kærendur þá lágmarkskröfu að fyrir liggi niðurstaða úr skráningu á vistgerðum milli fjalls og fjöru áður en ákvörðun um að ekki þurfi umhverfismat vegna virkjunarinnar verði endanlega tekin.
Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagstofnun bendir á að ákvörðun hennar hafi byggst á framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum lögbundinna umsagnaraðila um umhverfisáhrif áformaðrar virkjunar. Sjónræn áhrif verði mest á framkvæmdatíma en þegar frá líði aðlagist vegslóðar umhverfi sínu og hið raskaða svæði muni gróa upp með tíð og tíma. Helgafell sé í meira en fimm kílómetra fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu og Drápuhlíðarfjall í um þriggja kílómetra fjarlægð. Vegna þessarar fjarlægðar sé ekki ástæða til að ætla að sjónræn áhrif virkjunarinnar verði það mikil að spilli sýn frá fyrrgreindum stöðum.
Við ákvörðun um matsskyldu sé metið hverju sinni hversu ítarlegar upplýsingar séu nauðsynlegar til að unnt sé að taka ákvörðun og séu gerðar kröfur um ítarlegri upplýsingar á svæðum þar sem ætla megi að sé að finna lífríki sem hafi nokkuð verndargildi. Í ljósi staðsetningar og eðlis framkvæmdar hafi ekki verið talin nauðsyn á að fyrir lægju gögn um smádýralíf.
Vegna athugasemda um vatnsból Stykkishólmsbæjar sé rétt að benda á að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi í umsögn sinni gert kröfur um aðbúnað og umgengni í námunda við vatnsból og hafi stofnunin gert þær að sínum með ábendingu um að Helgafellssveit bindi væntanlegt framkvæmdaleyfi skilyrðum til að uppfylla þær kröfur. Við ákvörðun um matsskyldu verkefna eins og hér um ræði sé ávallt leitað til lögbundinna umsagnaraðila sem jafnframt séu eftirlitsaðilar og/eða leyfisveitendur vegna vatnsbóla. Ekki sé venjan að óska umsagna rekstraraðila eða stærstu notenda. Aldrei sé leitað umsagna hjá landeigendum vegna könnunar á matsskyldu eða mats á umhverfisáhrifum. Hins vegar hafi landeigendur og nágrannar framkvæmdasvæðisins möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar skipulagsáætlanir sveitarfélagsins séu kynntar. Leggi Skipulagsstofnun eingöngu mat á líkur á umtalsverðum umhverfisáhrifum en skoði ekki eignarréttarlega stöðu landeigenda eða önnur möguleg áhrif sem ekki séu tilgreind sérstaklega í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. Þá sé tekið fram að aldrei sé leitað umsagna hjá frjálsum félagasamtökum eða fyrirtækjum þegar matsskylda framkvæmda sé til skoðunar hjá Skipulagsstofnun.
Engin heimild sé til þess í lögum að neita að taka mál til afgreiðslu vegna þess að verið sé að afla gagna um náttúrufar á landsvísu. Hafi það verið mat Skipulagsstofnunar að framlögð gögn væru fullnægjandi til að unnt væri að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmdanna og hafi ekki verið gerð athugasemd við gögnin hjá þeim umsagnaraðilum sem stofnunin hafi leitað til.
Þá sé bent á að ekki komi fram í kæru hvort einhverjir sögulegir staðir séu á framkvæmdasvæðinu eða hvort þeir muni fara forgörðum vegna framkvæmdanna og geti Skipulagsstofnun því ekki tekið afstöðu til réttmætis þessarar athugasemdar. Hvað varði þá staðhæfingu að umferð um vegslóða verði meiri en ætla megi af ákvörðun Skipulagsstofnunar þá hafi stofnunin þar byggt á upplýsingum úr greinargerð framkvæmdaraðila og ekki haft tilefni til að efast um réttmæti þeirra.
Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili mótmælir því að sjónmengun af fyrirhugaðri virkjun verði veruleg og tekur m.a. fram að slóði handan stöðvarhúss muni fyrst sjást frá þjóðveginum í yfir tveggja kílómetra fjarlægð. Slóðinn sé í um 9,5 km fjarlægð frá Helgafelli og megi efast um að hægt sé að greina hann úr slíkri fjarlægð. Fullyrðingar um áhrif vegagerðar á útsýni frá einum helsta ferðamannstað Helgafellssveitar eigi ekki við rök að styðjast og sama eigi við um fullyrðingu kærenda um að enginn vegslóði sé á fjalllendinu milli Kerlingarskarðs og botns Álftafjarðar. Einnig sé bent á að ekki sé langt í aðra landnotkun, svo sem skógrækt, tún og íbúðarhús, sem áhrif hafi á útsýni. Í vettvangsskoðun hafi verið sérstaklega kannað að hve miklu leyti stífluveggir muni sjást. Hafi niðurstaðan orðið sú að þeir muni víðast hvar ekki sjást vegna þess hve lágir þeir séu og staðsettir ofan í gilskorningum, ólíkt fyrri áformum um stíflu. Samkvæmt mælingu af korti sé bein loftlína milli íbúðarhússins á Svelgsá og stífluveggjanna yfir 3,7 km. Samkvæmt hæðarlínukorti eigi stöðvarhús ekki að vera sýnilegt frá Svelgsá. Muni slóði frá stöðvarhúsi upp að stíflum fylgja mörkum í landslaginu og verða nær ekkert uppbyggður. Þar sem umferð um hann verði afar lítil muni hann gróa á fáum árum og verða lítt sýnilegur en aðrir hlutar virkjunarinnar verði niðurgrafnir. Þá sé tekið fram að verði fjarlægð gróðurþekja nýtt í frágang hins raskaða yfirborðs verði jarðvegur fljótur að ná sér eftir rask.
Ekkert rask verði í landi Hrísakots vegna framkvæmdanna og geti eigendur þeirrar jarðar ekki haft verulegra hagsmuna að gæta í máli þessu. Kærendur dragi upp ýkta mynd af umfangi fyrirhugaðs slóða milli stöðvarhúss og stíflanna, en auk vegar frá þjóðvegi að stöðvarhúsi verði í raun aðeins um einn slóða að ræða frá stöðvarhúsi að efsta stífluvegg. Þegar gerð sé grein fyrir umfangi efnisflutninga í mati á umhverfisáhrifum sé leitast við að meta hver efnisþörfin geti orðið mest og sé hún metin allt að 1.000 m³. Slóðinn verði um 2.400 m langur, svo efnisnotkun verði í mesta lagi að jafnaði aðeins 0,4 m³ á hvern lengdarmetra slóða. Á löngum köflum verði ekki þörf fyrir neitt efni þar sem undirlag hafi góðan burð. Hafi framkvæmdaraðili engan hag af því að gera umfangsmeiri slóða en nægi til að geta farið um á dráttarvél eða sambærilegu tæki.
Mjög sjaldan frjósi við inntök þegar lindarþáttur í vatnsföllum sé eins mikill og í Svelgsá. Virkjunin verði stöðvuð valdi mikill skafrenningur krapa í vatninu. Þá verði hæð stífluveggjanna nægjanleg svo vatnsborð yfir pípuopinu geti lagt án þess að truflun hljótist af. Helst verði farið upp að inntaki til að skola áfram seti sem setjist fyrir í inntakslónunum og verði slíkt framkvæmt að sumri til.
Virkjunin hafi verið færð um 500 m ofar í fjallið frá fyrri tilhögun en ætla verði að litlar líkur séu á því að lífríki þar sé mjög frábrugðið því sem fram hafi komið í niðurstöðu vistfræðings vegna fyrri virkjunar. Áhrifin verði afar lítil og afturkræf. Byggður verði veggur fyrir gilið og vatni safnað í mjög lítið lón. Nái árfarvegurinn neðan stíflunnar ekki að þorna alveg nema á mjög stuttum kafla. Þá muni gerð slóða, lagning pípu og bygging stífluveggjanna engin áhrif geta haft á smádýralíf.
Því sé mótmælt að mikil óþægindi verði af aukinni umferð nærri íbúðarhúsinu á Svelgsá, en umferð vegna framkvæmdanna verði mjög lítil í samanburði við aðra umferð. Jafnframt sé langsótt að sakast við framkvæmdaraðila vegna nálægðar þjóðvegs 54 við íbúðarhúsið á Svelgsá. Þá skuli á það bent að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi gert þá kröfu að sett verði upp læst hlið á veginn að stöðvarhúsinu vegna vatnsbólsins til að tryggja að umferð aukist ekki á svæðinu.
Bent sé á að framkvæmdaraðili hafi upplýst landeigendur á svæðinu í hverju fyrirhugaðar framkvæmdir fælust og óskað eftir athugsemdum. Gerð hafi verið grein fyrir svörum landeigenda í greinargerð til Skipulagsstofnunar og jafnframt hafi verið leitað umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur, sem ekki hafi gert athugasemd við framkvæmdina.
Framkvæmdaraðili sé ósammála því að hætta sé á rofi á lausum jarðvegi vegna framkvæmdanna. Allt aðrar jarðvegsaðstæður séu þar sem virkjunin sé fyrirhuguð en þar sem skriða hafi fallið fyrir nokkrum árum. Engin hætta sé talin á rofi á lausum jarðvegi vegna virkjunarinnar þar sem áin og allar kvíslar hennar verði áfram í sínum náttúrulega farvegi við mikið rennsli. Þá séu engin vatnsból í ánni heldur í uppsprettu við hraunin og sé ótti við aurflóð á vatnsbólið því ástæðulaus. Breytt tilhögun virkjunarinnar með notkun steyptra veggja í stað jarðvegsstíflu sé m.a. tilkomin vegna hættu á flóðum sem þessum, en steyptir veggir muni standast öll þau flóð sem orðið geti í ánni. Hins vegar sé hætta á að jarðvegstíflur geti rofnað í flóðum sem séu stærri en gert hafi verið ráð fyrir við hönnun.
Svæðið hafi verið skoðað með tilliti til gróðurfars og áhrifa framkvæmdanna á það og ekki sé raunhæft að ætlast til að beðið sé með framkvæmdir meðan unnið sé að skráningu vistgerða. Þá bendi ekkert til þess að ferðafólk missi áhuga á landsvæðum þótt þar sjáist ummerki um landnotkun sem þessa. Bent sé á að aukið afl virkjunarinnar frá fyrri tilhögun komi til vegna meiri fallhæðar en ekki vegna aukins umfangs virkjunarinnar. Hafi umfangið á vissan hátt minnkað vegna þess að horfið hafi verið frá því að reisa háa, langa og mun sýnilegri jarðvegsstíflu fyrir miðlunarlón.
Niðurstaða: Með ákvörðun hinn 11. janúar 2008 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að allt að 655 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa í Helgafellssveit væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var þeirri niðurstöðu skotið til umhverfisráðuneytisins, m.a. af hálfu eigenda jarðarinnar Svelgsár, sem standa að kærumáli þessu. Staðfesti ráðuneytið niðurstöðu Skipulagsstofnunar með úrskurði hinn 29. maí 2009. Að fenginni þeirri niðurstöðu var ráðist í gerð deiliskipulags fyrir umrædda virkjun og var auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2011 og var ákvörðun sveitarstjórnar um deiliskipulagið ekki borin undir æðra stjórnvald. Verður því lagt til grundvallar í máli þessu að í gildi sé deiliskipulag fyrir 655 kW virkjun í Svelgsá og að fyrir liggi endanleg niðurstaða um að sú framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Með hliðsjón af framansögðu er í máli þessu í raun aðeins til úrlausnar hvort sú breyting, sem gerð var á fyrri áformum um virkjun í Svelgsá, leiði til þess að framkvæmdin sé líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því sæta mati á umhverfisáhrifum. Fyrirhuguð framkvæmd fellur að miklu leyti saman við það deiliskipulag sem gert hefur verið að svæðinu, og áður er getið, og á það m.a. við um legu vegar og háspennustrengs frá stöðvarhúsi að þjóðvegi 54 og raflínu skammt sunnan vegarins. Sú breyting sem áformuð er felst aðallega í því að farið er hærra upp með inntaksmannvirki og fallhæð þannig aukin. Liggja fyrir í málinu umsagnir sérfróðra aðila og er niðurstaða Skipulagsstofnunar m.a. byggð á þessum umsögnum. Telur úrskurðarnefndin ekki efni til að hnekkja þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að sú breytta framkvæmd sem um ræðir sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Auk þess að vísa til umhverfisáhrifa umdeildrar framkvæmdar telja kærendur að meðferð málsins hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið leitað afstöðu þeirra sem landeigenda og hagmunaaðila við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Þá hefði átt að leita umsagnar fleiri aðila en gert hafi verið. Skipulagsstofnun hefur andmælt þessum sjónarmiðum kærenda og bendir á að stofnunin sé eingöngu að leggja mat á umtalsverð umhverfisáhrif án þess að skoða eignarréttarlega stöðu landeigenda eða önnur möguleg áhrif sem ekki séu tilgreind sérstaklega í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. Sé aldrei leitað umsagna hjá landeigendum vegna könnunar á matsskyldu eða mats á umhverfisáhrifum, en þeir hafi hins vegar möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar skipulagsáætlanir sveitarfélags séu kynntar.
Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu er stjórnvaldsákvörðun. Verður að ætla landeigendum andmælarétt við undirbúning slíkra ákvarðana, enda getur niðurstaða um matsskyldu framkvæmda ráðið miklu, bæði um það hvort af framkvæmdum verði og um útfærslu þeirra og mögulegar mótvægisaðgerðir. Þegar um ráðstöfun vatnsréttinda til orkunýtingar er að ræða leiðir auk þess af 49. gr. vatnalaga nr. 15/1923 að gæta þarf alveg sérstaklega að hagsmunum annarra sem vatnsréttindi eiga í sama vatnsfalli. Eru það ekki haldbær rök gegn andmælarétti við matsskylduákvörðun að landeigendur geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri þegar skipulagsáætlanir sveitarfélags séu kynntar, enda má allt eins gera ráð fyrir að þegar hafi verið tekin afstaða til framkvæmdar í skipulagi þegar að því kemur að tilkynna Skipulagsstofnun um hana skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Í máli þessu liggur fyrir að sjónarmið kærenda hafi komið fram, bæði við meðferð fyrra kærumáls um matsskyldu 655 kW virkjunar í Svelgsá og við gerð deiliskipulags þeirrar virkjunar, auk þess sem fram kemur í tilkynningu framkvæmdaraðila um breytta tilhögun að hún hafi verið kynnt landeigendum og er í tilkynningunni gerð grein fyrir afstöðu þeirra í málinu. Þá verður ráðið af málsgögnum að eigendum jarðarinnar Svelgsár séu ekki með virkjuninni bakaðir óhæfilegir örðugleikar um notkun vatns í skilningi 49. gr. vatnalaga, enda er öllu vatni sem um virkjunina fer veitt aftur í farveg árinnar, ofan við þann stað þar sem áin tekur að skilja milli jarðanna Hrísa og Svelgsár. Verður samkvæmt framansögðu að telja að afstaða kærenda og rök fyrir henni hafi legið fyrir í gögnum málsins við töku hinnar kærðu ákvörðunar og því hafi ekki verið skylt, eins og hér stóð á, að gefa kærendum kost á að neyta andmælaréttar í málinu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður hvorki fallist á að Skipulagsstofnun hafi borið að leita frekari umsagna en gert var né að á málsmeðferð hafi verið aðrir þeir annmarkar er ógildingu varði.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 5. september 2012 um að allt að 800 kW virkjun í Svelgsá í landi Hrísa í Helgafellssveit, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _________________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson