Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2023 Alifuglabúið Brautarholti

Árið 2023, fimmtudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 44/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, um að hafna kröfu kæranda um að fella úr gildi starfsleyfi alifuglabúsins að Brautarholti 5, Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. apríl 2023, er barst nefndinni 5. s.m., kærir  eigandi og ábúandi jarðarinnar Brautarholts 1, á Kjalar-nesi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, að hafna kröfu hans um að fella úr gildi starfsleyfi alifuglabús að Brautarholti 5, Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli niður starfsleyfið.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 3. maí 2023.

Málavextir: Í Brautarholti á Kjalarnesi er starfrækt þauleldi alifugla og svína. Annars vegar í 2.575 m2 eldishúsi fyrir alifugla sem er í um 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda og hins vegar 5.100 m2 svínahúsi sem er í um 100 m fjarlægð frá alifuglahúsinu og í 325 m fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda. Í alifuglahúsinu var svínaeldi fram til ársins 2010. Árið 2016 var húsið tekið að nýju til notkunar og þá sem eldishús fyrir alifugla. Samkvæmt starfsleyfi, dags. 11. apríl 2016, er heimild fyrir 35.550 eldisstæðum alifugla í húsinu. Svínahúsið hefur heimild fyrir eldi á 4.000 grísum.

Hinn 25. mars 2021 óskaði kærandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að skipaðir yrðu matsmenn til að leggja mat á ýmis atriði varðandi stöðu mengunarmála og annarra atriða sem hann taldi að væri ábótavant á svæðinu vegna starfsemi eldisbúanna. Fyrir liggur skýrsla matsmanna, dags. 3. júní 2022. Kærandi krafðist þess 2. ágúst s.á., að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur afturkallaði starfsleyfi alifuglabúsins vegna mengunar. Þeirri kröfu var hafnað 29. september s.á. Krafan var ítrekuð gagnvart Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 25. janúar 2023. Var þeirri beiðni hafnað af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 8. mars s.á. og er það sú afgreiðsla stjórnvalds sem borin er undir nefndina í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að forsendur fyrir útgáfu starfsleyfis alifuglabúsins á Brautarholti 5, á Kjalarnesi séu brostnar. Mörg skilyrði starfsleyfisins séu ekki og hafi aldrei verið uppfyllt. Einnig samræmist starfsemi og staðsetning alifuglabúsins ekki lögum og reglu-gerðum. Byggi þetta meðal annars á niðurstöðum dómskvaddra matsmanna frá 3. júní 2022, en þar komi fram að í starfsleyfinu sé kveðið á um að starfsemin þurfi að uppfylla skilyrði bestu aðgengilegu tækni samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna þétt-bærs eldis alifugla eða svína, sem innleidd hafi verið með reglugerð nr. 935/2018. Ákvæði nr. 11, 13, 23 og 26 sem eigi við um starfsemina séu meðal annars ekki uppfyllt, en staðfest hafi verið rykmengun frá útblástursstút á þaki hússins, enginn búnaður sé í húsinu til lyktareyðingar og ekki sé til staðar umhverfisstjórnunarkerfi.

Í matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur komi fram að 12. mars 2015 hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sent umsögn til umhverfisráðuneytisins varðandi beiðni þáverandi rekstraraðila alifuglahússins um undanþágu frá fjarlægðarmörkum skv. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. heimild í 74. gr. þeirrar reglugerðar. Þar hafi verið komið inn á nauðsyn mengunarvarna og tekið fram að setja þyrfti viðeigandi mengunarvarnarbúnað til að lágmarka óþægindi af völdum starfseminnar. Tekið hafi verið fram að kröfur um slíkan búnað yrðu settar í starfsleyfi búsins og yrði hann að vera til staðar áður en rekstur hæfist. Hafi þar einnig komið fram að lyktarmengun vegna stórra alifuglabúa geti verið vandamál sem valdi skaða á heilsu manna sé hún viðvarandi auk þess að hún rýri lífsgæði. Útblæstrinum geti einnig fylgt möguleg smithætta.

Fjarlægðarmörk í reglugerðinni séu tilkomin til að vernda heilsu nágranna og takmarka ónæði. Með reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína hafi verið settar reglur um slík eldishús, m.a. um fjarlægð frá þeirra frá nýframkvæmdum og meiri háttar breytingum á húsnæði. Þar sé engin heimild til að veita undantekningar frá fjarlægðarreglum. Þrátt fyrir þetta hafi árið 2016 verið samþykkt undantekning frá fjarlægðarreglum fyrir alifuglabúið í Brautar-holti. Með matsgerð dómkvaddra matsmanna sé nú sannað að forsendur fyrir þeirri undanþágu hafi verið ólögmætar. Þá séu brostnar þær forsendur sem þá hafi verið miðað við, en ýmis skilyrði í starfsleyfinu sem kveði á um viðeigandi mengunarbúnað hafi aldrei verið uppfyllt.

Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna komi fram að fjarlægðin milli svínabúsins og alifuglabúsins í Brautarholti sé aðeins 100 m. Sú fjarlægð uppfylli ekki skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015, en þar komi fram að lágmarksfjarlægð milli húsanna skuli vera 300 metrar. Í matsgerðinni komi fram að ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingar á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi fari gegn fjarlægðarmörkum a. og b. liðar 2. mgr. 4. gr. reglugerðar 520/2015, þar sem um matvæla-fyrirtæki sé að ræða. Þá eigi fjarlægðarmörk 6. gr. reglugerðarinnar við þegar um sé að ræða meiriháttar breytingar á eldri mannvirkjum. Sé það staðfest í matsgerðinni að breytingar á Brautarholti 5 árið 2016, þegar fasteigninni var breytt vegna fyrirhugaðs alifuglaeldis, hafi verið meiriháttar og því eigi framangreind 300 m fjarlægðarmörk við í öllum tilvikum.

Við mat á fjölda lyktareininga hafi hinir dómkvöddu matsmenn gefið sér tvenns konar forsendur varðandi samsetningu dýra og komist að þeirri niðurstöðu að fjöldi lyktareininga á svæðinu umhverfis svína og alifuglahúsin væri á bilinu 97.000–156.000 OUE. Sé miðað við leyfilegt hámark skv. reglugerð nr. 520/2015 væri hámark lyktareininga fyrir sama svæði 80.000 OUE, þar af væru 42.000 OUE frá alifuglabúinu. Framangreind niðurstaða matsmanna á fjölda lyktareininga á svæðinu staðfesti að sá fjöldi lyktareininga sem heilbrigðiseftirlitið hafi miðað við á sínum tíma sé rangur. Þar með væru brostnar þær forsendur heilbrigðiseftirlitsins fyrir veitingu leyfisins að fjöldi lyktareininga í alifuglahúsinu yrði minni heldur en þegar þar hafi verið svínabú. Eigi það einnig við um forsendur fyrir veittri undanþágu frá skilyrðum reglugerðar nr. 520/2015.

Hinar röngu forsendur heilbrigðiseftirlitsins hafi á sínum tíma byggst á neðri mörkum í einni danskri handvalinni tilraun og hafi verið ályktað á grundvelli hennar að fjöldi lyktareininga í fyrirhuguðu alifuglabúi yrði ekki meiri en 8–10.000 OUE. Með því að velja neðri mörkin hafi heilbrigðiseftirlitið talið sig getað sýnt fram á að um minniháttar breytingar væri að ræða sem ekki hefðu í för með sér aukin óþægindi í skilningi 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015. Með þessu hafi undanþága verið réttlætt á þeirri forsendu að um væri að ræða framhald af eldri rekstri sem hefði mengað meira en hinn fyrirhugaði rekstur alifuglabúsins. Hefði heilbrigðiseftirlitið reiknað rétt á sínum tíma og í samræmi við niðurstöðu í matsskýrslu hefði leyfið aldrei verið veitt.

Samkvæmt gr. 1.1. í núgildandi starfsleyfisskilyrðum gildi það fyrir eggjaframleiðslu, eldi á allt að 15.000 hænuungum og 20.550 varphænum, alls séu þetta 35.550 eldisstæði. Heilbrigðiseftirlitið hafi hins vegar upplýst að raunveruleikinn væri allt annar því við yfirfærslu leyfisins til nýs rekstraraðila, Stjörnueggja ehf., hafi verið heimilað að hafa í húsinu 28.000 varphænur og enga unga. Þessar breytingar hafi ekki verið færðar í gildandi starfsleyfi sem sé opinbert og endurspegli því ekki raunveruleikann. Sé þetta mjög einkennileg stjórnsýsla sem uppfylli ekki formkröfur. Í þessu samhengi sé vísað til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 þar sem fram komi að við endurskoðun eða breytingu starfsleyfa skuli stofnunin auglýsa drög að slíkri breytingu í að lágmarki í fjórar vikur.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 163/2016 uppkveðnum 12. júní 2017, hafi nefndin hafnað mótmælum kæranda við útgáfu starfsleyfis fyrir alifuglabúið. Aðstæður séu gjörbreyttar frá þeim tíma. Starfsleyfisskilyrði hafi ekki verið uppfyllt og uppfylli starfsemin ekki laga- og reglugerðarákvæði. Til viðbótar telji heilbrigðiseftirlitið sig hafa breytt starfs-leyfinu munnlega.

Árið 2016, þegar heilbrigðiseftirlitið gaf undanþágu frá fjarlægðarmörkum hafi ekki verið horft til þess að um væri að ræða: a) hús sem hafði staðið tómt í sex ár, b) að skipt hafi verið um dýrategund, c) að um meiriháttar breytingar á húsnæðinu væri að ræða sem kallaði á breytingar á deiliskipulagi, d) um hafi verið að ræða nýjan starfsleyfishafa, e) útreikningar á mengun hafi komið frá starfsleyfishafa sjálfum, en heilbrigðiseftirlitið hafi ekki framkvæmt sjálfstætt mat og f) að í 100 m fjarlægð var eitt stærsta svínabú landsins og að allt of stutt væri milli húsanna samkvæmt fortakslausum skilyrðum í reglugerð nr. 520/2015 sem var í gildi á þeim tíma.

Við mat á niðurfellingu starfsleyfis fyrir alifuglabúið telur kærandi að heilbrigðiseftirlitinu hefði borið að horfa til þess að viðurkennt sé að útblástursmengun frá stórum hænsnabúum sé hættuleg heilsu manna. Að auki sé eitt stærsta svínabú landsins í innan við 100 m frá alifugla-búinu.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Vísað er til máls nr. 163/2016 fyrir úrskurðar-nefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem nefndin hafnaði kröfu kæranda um ógildingu um-þrætts starfsleyfis fyrir alifuglabúið sem gefið var út 8. nóvember 2016. Áður hafi úrskurðar-nefndin einnig hafnað kröfu kæranda um ógildingu á breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi, vegna lóðarinnar nr. 5 í Brautarholti, þar sem starfsemi alifuglabús var heimiluð. Allir kærufrestir vegna starfsleyfisins séu löngu liðnir og geti kærandi ekki öðlast nýjan kærufrest með því einu að krefjast á ný afturköllunar starfsleyfisins fyrir úrskurðar-nefndinni. Sé það mat heilbrigðiseftirlitsins að engri kæranlegri ákvörðun sé að dreifa í málinu og beri því að vísa kærunni frá af þeim sökum.

Í svarbréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 29. september 2022, hafi verið tekið fram að reglubundið eftirlit með starfseminni hafi ekki gefið tilefni til að endurskoða eða afturkalla starfsleyfið. Þar að auki sé það mat heilbrigðiseftirlitsins að tilvitnuð matsgerð frá 3. júní 2022 hafi ekki leitt í ljós annmarka sem gæfu tilefni til niðurfellingar starfsleyfisins. Kærandi hafi ekki fært fram nein rök eða gögn máli sínu til stuðning önnur en framangreinda matsgerð. Hafi umrædd matsgerð ekkert gildi í máli þessu þar sem henni hafi verið einhliða aflað af hálfu kæranda og sé hluti gagna í dómsmáli sem rekið sé af hálfu kæranda gegn Reykjavíkurborg fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Reykjavíkurborg hafi gert margvíslegar athugasemdir við mats-gerðina og verði tekist á um sönnunargildi hennar fyrir dómi.

Þess er krafist að vísað verði frá kröfu um að lagt verði fyrir heilbrigðiseftirlitið að sjá til þess að starfsleyfi alifuglabúsins verði fellt niður og búinu lokað, enda ekki á valdsviði nefndarinnar að mæla fyrir um tilteknar athafnir stjórnvalda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi hafnar því alfarið að grundvöllur sé fyrir því að vísa málinu frá. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 njóti það stjórnvald sem gefi út leyfi heimildir til þess að afturkalla það. Í bréfi til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 komi skýrt fram að óskað sé eftir skriflegri ákvörðun stjórnvalds. Í 2. mgr. 1. gr. stjórn-sýslulaga komi fram að lögin gildi þegar ákvarðanir séu teknar um rétt eða skyldu manna. Í þessu máli hafi kærandi orðið fyrir ólögmætri mengun og ákvæði reglugerða og starfsleyfa vegna reksturs alifuglabúsins séu ekki uppfyllt.

Kærandi hefur fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins, en lét ekki málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að fella úr gildi starfsleyfi alifuglabúsins að Brautarholti 5, Kjalarnesi. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir heilbrigðiseftirlitið að uppfylla lagaskyldur sínar skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og sjá til þess að starfsleyfið verði fellt úr gildi og búinu lokað. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli niður téð starfsleyfi. Með þessu er bæði gerð krafa um afturköllun starfsleyfisins, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og kvartað yfir meintu aðgerðarleysi heilbrigðiseftirlitsins við eftirlit með starfsemi alifuglabúsins.

Með úrskurði í máli nr. 163/2016, uppkveðnum 12. júní 2017, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kæranda um ógildingu starfsleyfis til alifuglabúsins, m.a. með vísan til þess að á svæðinu sem um ræði væri þegar staðsett hús til þauleldis svína og að áður hafi verið starfrækt svínaeldi í Brautarholti 5. Í ljósi þess yrði að telja ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins og með því breytingu á notkun hússins óverulega en ekki meiri háttar og því félli hún ekki undir fjarlægðarreglu 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína.

Því stjórnvaldi sem tók stjórnvaldsákvörðun sem haldin er verulegum annmarka er almennt heimilt að afturkalla hana ef veigamiklar ástæður mæla ekki gegn því, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga. Geta sjónarmið um meðalhóf og réttmætar væntingar talist til þeirra sjónar-miða sem mæla gegn því að stjórnvaldsákvörðun sé felld úr gildi þrátt fyrir verulegan ann-marka. Kærandi hefur í máli þessu fært fram sjónarmið um að umhverfisáhrif alifuglabúsins séu umtalsvert meiri en gert hafi verið ráð fyrir við útgáfu starfsleyfisins. Hefur hann aflað álits dómkvaddra matsmanna sem hafa fært fram rökstuðning þar að lútandi. Beiðni hans um aftur-köllun leyfisins hefur á hinn bóginn ekki hlotið efnislega umfjöllun af hálfu heilbrigðis-eftirlitsins. Engum rökstuðningi leyfisveitanda er því til að dreifa um hvort skilyrði séu til afturköllunar skv. 25. gr. stjórnsýslulaga. Var þó fullt tilefni til slíkrar umfjöllunar. Með vísan til þessa verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til heilbrigðiseftirlitsins að nýju til frekari meðferðar.

Í 60. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, starfsleyfum eða samþykktum sveitarfélaga sé heilbrigðisnefnd heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skuli veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Um nánari heimildir til að beita þvingunarúrræðum vísast til ákvæða 61–64. gr. laganna, einkum fyrirmæla 63. gr., þar sem heilbrigðisnefnd er heimilt að stöðva starfsemi eða takmarka hana til bráðabirgða sé um alvarlegt tilvik eða ítrekað brot að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests.

Fjallað er um skyldur rekstraraðila í XI. kafla laga nr. 7/1998. Skulu rekstraraðilar skv. 40. gr. laganna, sbr. viðauka I-IV, tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, starfsleyfisskilyrði og almennar kröfur, sbr. 8. gr. Er og mælt fyrir um eftirlit með atvinnurekstri í XIV. kafla laga nr. 7/1998. Skal skv. 54. gr. laganna vera eftirlit með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV með lögunum, sem taki til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipti, sem og hollustuhátta. Fellur eldi alifugla með færri en 40.000 stæði fyrir alifugla undir viðauka IV með lögunum og þar með undir eftirlit heilbrigðisnefndar, sem jafnframt gefur út leyfi fyrir starfseminni, sbr. og X. viðauka reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Mælt er fyrir um í 57. gr. reglugerðarinnar að heilbrigðisnefndir skuli annast eftirlit með atvinnu-rekstri skv. X. viðauka reglugerðarinnar.

Eftirlitsaðili skal hafa eftirlit með atvinnurekstri til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir starfsemina, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 7/1998, og verði frávik skal krefja rekstraraðila um að gera hverjar þær viðeigandi viðbótarráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar til að koma reglufylgni á aftur, sbr. 2. mgr. Ákvarðanir samkvæmt XI. kafla laga nr. 7/1998 verða bornar undir úrskurðarnefndina til úrskurðar, sbr. 1. mgr. 65. gr. laganna. Getur það eftir atvikum einnig gilt um athafnir sem fela í sér ákvörðun um að grípa ekki til ráðstafana samkvæmt XI. kafla laganna.

Í 1. gr. viðauka 2.2 í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 er kveðið á um að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé m.a. heimilt að taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem talinn er í IV. viðauka við lög nr. 7/1998, í stað heilbrigðisnefndar, sbr. einnig heimild í 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 2. mgr. 48. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Þá er mælt fyrir um í 2. mgr. 2. gr. samþykktar fyrir Heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar frá 20. september 2022 að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar annist framkvæmd stefnu og verkefna heilbrigðisnefndar.

Af málsgögnum má ráða að kærandi hefur átt nokkur samskipti við heilbrigðiseftirlitið vegna starfsemi leyfishafa sem varðað hafa m.a. forsendur leyfisveitingar, skort á eftirliti o.fl. Eins og áður er rakið hefur kærandi aflað álits dómkvaddra matsmanna um starfsemi alifuglabúsins. Í því eru gerðar fjölmargar athugasemdir, m.a. um að BAT-skilyrði sem þurfi að uppfylla samkvæmt starfsleyfinu sem varði rykmengun séu ekki uppfyllt og að ekki sé búnaður til lyktareyðingar. Þá sé ekki starfrækt umhverfisstjórnarkerfi. Eins hafi verið heimiluð breyting á starfseminni við yfirfærslu hennar til nýs rekstraraðila, sem hafi falið í sér breytta notkun, sem geti valdið óþægindum umfram það sem fyrir var, í bága við fyrirmæli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015. Hafi sú breyting ekki verið auglýst sem fari í bága við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Í álitinu er lagt mat á fjölda lyktareininga í tengslum við samanlagðan rekstur svínabús og alifuglabús í Brautarholti og er hann álitinn umfram heimildir samkvæmt reglugerð nr. 520/2015.

Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins frá 8. mars 2023 var brugðist við kröfum um afturköllun starfs-leyfis og athugasemdum um brot á starfsleyfisskilyrðum sem fram höfðu komið með bréfi kæranda, dags. 2. ágúst 2022. Þar er fjallað um undirbúning leyfisins á sínum tíma, en um eftir-lit með starfseminni er aðeins vísað til bréfs heilbrigðiseftirlitsins til kæranda frá 29. september s.á. Í því bréfi segir, án nokkurs frekari rökstuðnings, að reglubundið eftirlit heilbrigðis-eftirlitsins og skoðunarferðir þess vegna kvartana kæranda um lykt hafi ekki gefið tilefni til að endurskoða eða afturkalla starfsleyfi alifuglabúsins. Þá hafi matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem vísað hafi verið til í bréfinu frá 2. ágúst 2022, ekki gefið tilefni til niðurfellingar starfsleyfisins að mati heilbrigðiseftirlitsins.

Með hliðsjón af þeim skyldum sem á stjórnvöldum hvíla við framkvæmd laga nr. 7/1998 og þeirra sjónarmiða sem kærandi hefur fært fram um brot á starfsleyfisskilyrðum og mat á lyktarmengun, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að greint bréf frá 2. ágúst 2022 hefði átt að vera ítarlegra og fela í sér efnisleg andsvör við framkomnum athugasemdum. Við með-ferð þessa máls hefur heilbrigðiseftirlitið ekki gert nokkurn reka að því að færa fram slík svör eða veita nánari upplýsingar um starfsemi alifuglabúsins, þ.m.t. hvort til sé að dreifa brotum á starfsleyfisskilyrðum og þá hvernig eða hvort brugðist hafi verið þeim. Í þessu felst slíkt athafnaleysi að tilefni er til að vísa meðferð málsins að þessu leyti til heilbrigðiseftirlitsins til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, um að hafna kröfu um að starfsleyfi alifuglabús að Brautarholti 5, Kjalarnesi verði fellt úr gildi og er málinu vísað til heilbrigðiseftirlitsins að nýju til frekari meðferðar.