Fyrir var tekið mál nr. 94/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 15. febrúar 2016 um að gefa út starfsleyfi til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2016, er barst nefndinni 11. s.m., kæra Geiteyri ehf., Síðumúla 34, Reykjavík og Akurholt ehf., Aratúni 9, Garðabæ, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 15. febrúar 2016 að gefa út starfsleyfi til handa Arnarlaxi hf. til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum starfsleyfisins verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.
Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 15. júlí 2016.
Málsatvik og rök: Umhverfisstofnun auglýsti 11. nóvember 2015 tillögu að starfsleyfi til handa Arnarlaxi hf. Var frestur veittur til athugasemda til 4. janúar 2016. Fyrirtækið hafði þegar leyfi til framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði. Frestur til að koma að athugasemdum var framlengdur til 18. janúar 2016 í kjölfar beiðna þess efnis. Bárust athugasemdir á auglýsingatíma, m.a. frá kærendum. Stofnunin gaf út starfsleyfi 15. febrúar 2016 til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í sjókvíum í Arnarfirði og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars s.á.
Kærendur taka fram að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal og eigi mikilla hagsmuna að gæta um að ekki sé stefnt í hættu lífríki árinnar og villtum lax- og silungsstofnum hennar, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Þeir hafi fyrst fengið vitneskju um útgáfu starfsleyfisins þegar þeir af tilviljun hafi hinn 9. júní 2016 fengið í hendur afrit af bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 7. s.m. Kærufrest beri að telja frá þeirri dagsetningu, en ekki birtingu starfsleyfis í B-deild Stjórnartíðinda. Umhverfisstofnun hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti áður en hún hafi gefið út starfsleyfið í kyrrþey. Ekki dugi að fullyrða um málsatriði í greinargerð vegna athugasemda á auglýsingatíma. Rannsaka verði málið og greinargerð verði að bera það með sér að svo hafi verið gert.
Umhverfisstofnun vísar til þess að útgáfa starfsleyfisins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars 2016 í samræmi við 5. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Auk þess hafi það verið auglýst á heimasíðu stofnunarinnar ásamt greinargerð 11. mars 2016. Hafi kærufrestur því verið liðinn þegar kæra hafi borist frá kærendum. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti verða kunnugt um ákvörðun. Þá segi einnig að sé um að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.
Leyfishafi vísar til þess að kæran hafi ekki borist innan lögmælts kærufrests og því beri að vísa henni frá, skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 8. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Lögum samkvæmt sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að gefa út starfsleyfi til framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í Arnarfirði.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar- útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, en kærendur eru ekki slík samtök.
Í kæru vísa kærendur til þess að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal á Snæfellsnesi. Um er að ræða laxveiðiá sem rennur til sjávar á sunnanverðu nesinu. Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Arnarfirði á Vestfjörðum, fjarri nefndri á. Verður ekki séð með vísan til þessa að kærendur hafi hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna má telja. Slíkir hagsmunir nægja ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni, svo sem áður hefur komið fram. Þá leiðir það ekki til kæruaðildar að komið hafi verið á framfæri athugasemdum við lögbundna meðferð málsins fyrir Umhverfisstofnun.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ómar Stefánsson Aðalheiður Jóhannsdóttir