Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2015 Suður Mjódd

Árið 2017, miðvikudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 94/2015, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2015 um að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Suður- Mjódd.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Réttarbakka 1, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2015 að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Suður- Mjódd. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2016, er barst 20. s.m., gerir sami aðili þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem heimild til framkvæmda felst ekki í skipulagi þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.
 
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. desember 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 15. apríl 2015 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Suður-Mjódd. Í tillögunni fólst heildarendurskoðun á eldra deiliskipulagi, m.a. uppbygging á frjálsíþróttavelli, íbúðum og stofnunum, ásamt auknu byggingarmagni. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 29. maí s.á. með athugasemdarfresti til 10. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. september 2015 og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst s.á, þar sem athugasemdum var svarað. Var afgreiðslan staðfest af borgarráði 17. s.m. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 12. október s.á., voru gerðar athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var bréf Skipulagsstofnunar lagt fram auk umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 2. s.m., og uppdrátta, dags. 12. mars s.á., sem uppfærðir voru 2. nóvember s.á. Í umsögninni kom fram að greinargerð og uppdrættir hefðu verið lagfærðir í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar og lagðir fyrir umhverfis- og skipulagsráð og borgarráð til samþykktar. Var umsögnin samþykkt á greindum fundi umhverfis- og skipulagsráðs og sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarrráðs 12. nóvember 2015. Deiliskipulagstillagan tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um 17. desember s.á.

Kærandi skírskotar til þess að á svæði ÍR sé gert ráð fyrir 250 bílastæðum, en áhorfendasvæði í fjölnota íþróttahúsi sé fyrir 1500 manns og sami fjöldi sé skráður í áhorfendastúku. Hafi ekki verið gefin haldbær rök fyrir svona fáum stæðum. aðeins sé talað um lágmarkskröfur á fjölda bílastæða, en raunin sé oft að það þurfi fleiri bílastæði en lágmarkskröfur geri ráð fyrir.  Jafnframt sé það fásinna að segja að Breiðholtsbraut sé utan skipulagssvæðis þar sem aukið byggingarmagn og starfsemi muni hafa mikil áhrif á umferð um Breiðholtsbraut og nærliggjandi götur. Þá sé stækkun elliheimilis vanhugsuð þar sem ekki verði hægt að uppfylla hljóðvist þar sem byggingin liggi með fram Breiðholtsbraut. Ekki sé getið um hvernig eigi að leysa hljóðvistarmál, enda segi ekkert um hver umferðarþunginn verði eða sé. Þá sé ekkert tillit tekið til tengingar Álfabakka við Hlíðardalsveg í Kópavogi.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að gerðar verði ráðstafanir vegna hljóðvistar til að uppfylla reglugerðarákvæði um hljóðvist innanhúss. Geri megi ráð fyrir einhverri aukningu á umferð vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en erfitt sé að áætla umferð. Hvað varði bílastæði þá sé almennt lögð áhersla á samlegðaráhrif bílastæða á íþróttasvæðum og svæðum fyrir verslun og þjónustu. Sé því hægt að nýta bílastæði í Norður-Mjódd og á öðrum svæðum í göngufjarlægð frá íþróttasvæðinu. Tenging Álfabakka til Kópavogs sé óbreytt samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Að lokum sé á það bent að skipulagsvald sé hjá sveitarfélögum. Ekkert hafi komið fram í kæru sem bendi til þess að ekki hafi verið heimilt að skipuleggja svæðið með þessum hætti og sé vandséð hvaða hagsmuni sé verið að skerða með henni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni.

Í kæru eru gerðar athugasemdir sem virðast að megni til byggja á gæslu almannahagsmuna, s.s. skorti á bílastæðum við íþróttasvæði og hljóðvist í fyrirhuguðum byggingum, svo og stækkun á byggingu fyrir þjónustuíbúðir aldraðra, sem kærandi telur að sé vanhugsuð. Jafnframt telur kærandi að umræddar breytingar muni hafa í för með sér aukna umferð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands á kærandi lögheimili að Réttarbakka 1 í Reykjavík, sem staðsett  er norðan Breiðholtsbrautar. Hin kærða ákvörðun tekur hins vegar til svæðis sunnan við greinda umferðargötu og er í kæru ekki getið um nein þau mögulegu grenndaráhrif sem framkvæmd hinnar kærðu ákvörðunar gæti haft í för með sér á fasteign kæranda. Þá verður ekki séð að aukning umferðar í þéttbýli um fjölfarna umferðargötu geti haft í för með sér þau áhrif á kæranda umfram aðra íbúa Breiðholts að hann geti talist eiga beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsákvörðun snerti þá lögvörðu hagsmuni kæranda að skapi honum kæruaðild. Þá eiga undantekningartilvik nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 ekki við í málinu. Þar sem ekki þykir sýnt fram á kæruaðild í málinu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir