Árið 2018, fimmtudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 93/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Áshamars 48, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni nr. 32 við Áshamar í Vestmannaeyjabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 12. júlí 2018.
Málavextir: Hinn 20. febrúar 2017 tók umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fyrir umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Áshamri 32, sem er á ódeiliskipulögðu svæði. Ráðið samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36 og 50 og Búhamri 13, 29, 35 og 39 með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var kynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, og var gefinn fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að skila inn athugasemdum. Engar athugasemdir bárust innan frestsins og var byggingarleyfi gefið út hinn 31. ágúst s.á. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í febrúar 2018 og hafði kærandi af því tilefni samband við byggingarfulltrúa 7. mars s.á. Síðar sama dag sendi byggingarfulltrúi kæranda með tölvupósti þær upplýsingar sem sendar voru með grenndarkynningunni. Samþykkt byggingarleyfisins var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi leyfisveitinguna úr gildi með úrskurði nr. 60/2018 þar sem grenndarkynningin náði ekki til kæranda.
Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin grenndarkynnt á ný með bréfi, dags. 9. maí 2018, og var gefinn var fjögurra vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hennar. Kærandi sendi athugasemdir með bréfi, dags. 6. júní 2018.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018, var erindið tekið fyrir að nýju, það samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar. Var bókað í fundargerð að ráðið hafnaði athugasemdum lóðarhafa að Áshamri 48. Jafnframt var bókað að skráð nýtingarhlutfall fyrir íbúðarhúsabyggð ÍB-4 væri 0,15 en ekki fyrir einstaka byggingarlóðir líkt og fram kæmi í innsendu bréfi. Heimilt væri að víkja frá deiliskipulagsskyldu vegna stakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, viki fyrirhuguð framkvæmd ekki í verulegum atriðum frá notkun, nýtingarhlutfalli eða yfirbragði hverfisins. Ekki væri hægt að fallast á rök er vörðuðu útsýnisskerðingu og væri bent á að engin leið væri til að tryggja öllum íbúum bæjarins útsýni sem ávallt væri huglægt hverjum og einum. Á lóðinni hefði áður staðið íbúðarhús sem hefði verið rifið eftir bruna og alltaf hafi verið fyrirhugað að nýta lóðina áfram fyrir íbúðarhúsnæði. Ráðið teldi fyrirhugaða nýbyggingu falla vel að yfirbragði hverfisins hvað varðaði nýtingu, útlit og form. Benti ráðið á að ekki hefðu komið fram nein rök sem styddu að verðgildi húsnæðis í nágrenninu myndi skerðast við uppbyggingu á lóð Áshamars 32. Uppbyggingu hverfisins yrði að meta heildstætt og mætti þá einnig draga fram að uppbygging gæti haft jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn í nágrenninu.
Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 21. júní 2018.
Málsrök kæranda: Kærandi telur hina umdeildu framkvæmd ekki vera í samræmi við landnotkun, en ákvæði 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki feli í sér það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé heildarnýtingarhlutfall lóða á umræddu svæði 0,15. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar samkvæmt fyrirliggjandi teikningum verði 0,20, en þar sé miðað við að stærð lóðar sé 923 m2. Stærð lóðarinnar í fasteignaskrá sé hins vegar 767 m2 og samkvæmt því sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,24. Ekkert hafi verið bókað um þetta misræmi á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018. Þegar kærandi hafi innt eftir svörum hafi hann fengið þær upplýsingar að nýr lóðarleigusamningur hefði verið undirritaður milli aðila 29. maí 2018. Megi leiða líkum að því að hinn nýi lóðarleigusamningur hafi verið gerður í þeim tilgangi að lækka nýtingarhlutfall lóðarinnar svo það kæmist nær nýtingarhlutfalli nálægra lóða. Framangreind aukning á nýtingarhlutfalli lóðar sé svo veruleg breyting að grenndarkynning skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 dugi ekki til.
Framkvæmdin sé ekki heldur í samræmi við byggðamynstur. Fyrirhuguð hæð hússins samkvæmt teikningum sé 4,92 m, en hæsti punktur annarra húsa í götunni sé 4,35 m. Breidd hæstu þekju samkvæmt teikningum sé 10,1 m að viðbættum 12 m. Breidd samkvæmt hæstu þekju annarra húsa í götunni sé 6,80 m. Þá snúi þak á 12 m viðbótinni í norður-suður, en þak annarra húsa í götunni snúi í austur-vestur. Þetta leiði til verulegrar útsýnisskerðingar fyrir kæranda og sé breytingin í andstöðu við lögmætar væntingar kæranda um framtíðarskipulag þegar hann hafi fjárfest og flutt á svæðið.
Málsmeðferð og afgreiðsla málsins beri með sér að hagsmunir kæranda hafi verið algerlega fyrir borð bornir. Framkvæmdir hafi verið hafnar án þess að kærandi hafi fengið að koma að athugasemdum og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda hans við grenndarkynningu. Leiða megi líkum að því að síðari grenndarkynningin hafi aðeins þjónað þeim tilgangi að bæta úr formgalla. Rökstuðningi og upplýsingum sem fylgt hafi niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið verulega ábótavant. Ekkert komi fram þar um nýjan lóðarleigusamning við leyfishafa, sem sé í samræmi við teikningar hans sem gerðar hafi verið í ársbyrjun 2017. Þá hafi engin gögn verið lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að húsið sem áður hafi staðið á lóðinni hafi verið í líkingu við önnur hús í botnlanganum.
Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Bæjaryfirvöld telja engin rök hníga að því að verða við kröfum kæranda. Framkvæmdin sé í fullu samræmi við eðlilega landnotkun og byggðamynstur. Rök kæranda um skerðingu á útsýni hafi ekki verið þess eðlis að byggingarleyfi yrði ekki gefið út og réttlæti alls ekki stöðvun framkvæmda. Útgáfa byggingarleyfis að undangenginni grenndarkynningu hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Fyrirhugað hús falli vel að byggðamynstri og götumynd, enda hafi það verið ein forsendna fyrir útgáfu byggingarleyfisins. Þekja íbúðarhluta hússins sé í austur-vestur, líkt og á öðrum húsum. Þekja bílskúrs muni snúa þvert á þak íbúðarhúss og það sé í fullu samræmi við þegar samþykktar framkvæmdir við götuna, þ.e. hús nr. 24 og 34 við Áshamar.
Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé eðlilegt miðað við svæðið og nágrenni þess. Nýtingarhlutfallið 0,15, sem fram komi í aðalskipulagi, eigi við um svæði ÍB-4 í heild sinni, en ekki einstakar lóðir. Umhverfis- og skipulagsráð hafi bent á þetta í niðurstöðu sinni 12. júní 2018, sem kærandi hafi vísað til í kæru. Fullyrðing kæranda um að nýtingarhlutfallið 0,20 sé mun hærra en nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða standist ekki skoðun. Nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 34 við Áshamar sé samtals 0,24 og nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 36 sé 0,21. Kæranda geti ekki dulist að nýtingarhlutfall lóðanna á svæðinu sé ekki 0,15 þar sem nýtingarhlutfall lóðar hans sé það hæsta á svæðinu, eða 0,29. Tekið sé undir að kærandi hafi átt að vera aðili að upphaflegri grenndarkynningu. Úr því hafi verið bætt og kæranda verið gefið færi á að koma með athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd. Hann hafi því getað gætt réttar síns lögum samkvæmt. Athugasemdir hans hafi ekki þótt gefa tilefni til þess að hafa áhrif á útgáfu byggingarleyfis. Nýtingarhlutfallið 0,20 sé mjög hóflegt og skeri sig að engu leyti frá nærliggjandi húsum. Án stækkunar lóðarinnar hefði nýtingarhlutfall verið 0,24 sem bæjaryfirvöld telji í góðu samræmi við þær samþykktir sem gerðar hafi verið fyrir svæðið.
Ekki sé gerð athugasemd við staðhæfingu kæranda um hæð fyrirhugaðs húss miðað við önnur hús í götunni, en bent sé á að átt sé við hæð frá botnplötu. Önnur hús við götuna hafi verið byggð í tíð eldri byggingarreglugerða og óheimilt væri að byggja þau samkvæmt núgildandi lögum og byggingarreglugerð, t.d. vegna breyttra krafna um lofthæð og einangrun í þaki. Gólfkóti fyrirhugaðs húss sé 26,20, sá sami og eldra hússins. Á lóðinni nr. 34 sé hann 27,30 og 29,00 á lóð kæranda. Hann sé því lægri en annarra húsa við götuna og mun lægri en fasteignar kæranda. Við framkvæmdina sé núgildandi lögum og reglum fylgt. Kærandi geti ekki ætlast til þess að fyrirhugað hús verði eins og fyrra hús að öllu leyti þegar slík bygging samræmist ekki núgildandi lögum og reglum.
Í þéttbýli sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að útsýni skerðist ekki vegna bygginga. Líta verði til þess hvaða væntingar fasteignaeigendur geti almennt haft á grundvelli málefna- og lagalegraforsendna. Kærandi hafi sjálfur fengið byggingarleyfi fyrir bílgeymslu þrátt fyrir athugasemdir um útsýnisskerðingu sem fram hafi komið við grenndarkynningu. Umsókn hans hafi fengið sömu meðferð og umsókn vegna hins kærða leyfis. Fullyrðing kæranda um verðrýrnun eignar vegna útsýnisskerðingar sé ekki studd neinum rökum og huglæg sjónarmið hans og væntingar geti ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að vegna strangra krafna núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hafi ekki fengist leyfi til að nota þann grunn sem fyrir hafi verið á lóðinni. Þetta geri að verkum að húsið verði 20 cm hærra en það hús sem áður hafi staðið þar. Reglur um einangrun innanhúss hafi jafnframt áhrif á hæð hússins.
Lóðarstærð sem fram komi á fyrstu teikningum sem lagðar hafi verið inn 14. febrúar 2017 sé sú stærð sem gefin hafi verið í upphafi. Leyfishafi geti ekki útskýrt hvers vegna lóðin hafi verið skráð minni í fasteignaskrá.
Íbúðarhúsið sé af hóflegri stærð, 145 m2, auk 40 m2 bílskúrs. Fyrirhugað hús sé sláandi líkt öðrum húsum í götunni, eins og lagt hafi verið upp með. Ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram séu villandi og beinlínis teknar með þeim hætti að villa um fyrir þeim sem um þetta mál muni fjalla. Eðlilegra hefði verið að taka myndir út um þann glugga sem kærandi telji útsýni sitt skerðast, ekki við lóðamörk eða af lóðum nágranna.
Þá hafi lóðarúthlutunin verið samþykkt af tveimur byggingarnefndum og tveimur bæjarstjórnum með öllum greiddum atkvæðum.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að hið fyrirhugaða hús muni gjörbreyta götumynd og skerða útsýni kæranda verulega. Vísað sé til álits löggilds fasteignasala, sem m.a. segi að útsýni vegi þyngra í verðmæti fasteigna úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu og að ekki leiki vafi á því að fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir muni valda verulegri verðrýrnun á fasteign kæranda, auk þess að minnka sölumöguleika.
Stærð fyrirhugaðs húss m.t.t. annarra húsa í götunni byggi ekki á neinni þörf, hvorki almennings né annarra. Nýtingarhlutfallið rúmlega tvöfaldist. Það hafi mikil áhrif á skipulag lóðarinnar sem og næstu lóðir, auk þess að fela í sér inngrip í götumynd götunnar sem húsið standi við. Húsið verði mun hærra en önnur hús og breidd hæstu þekju mun meiri en annarra húsa í götunni. Þá sé hæð og hæsta þekja þeirra húsa sem byggt hafi verið við í götunni í samræmi við götumynd.
Skipulagsgögn þau sem umhverfis- og skipulagsráð byggi niðurstöðu sína á uppfylli ekki skilyrði skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Ekki liggi fyrir afstöðumynd eða þrívíddarmynd af byggingunni sem stjórnvaldið geti byggt ákvörðun sína á m.t.t. útlits, forms og áhrifa byggingarinnar á hagsmuni kæranda. Því hafi rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið fullnægt. Vísi kærandi einnig til gr. 2.4. í skipulagsreglugerð hvað varði hlutverk skipulagsfulltrúa.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ, en slík samþykkt er skilyrði útgáfu byggingarleyfis, skv. 2. gr. samþykktar nr. 991/2012 um afgreiðslur byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar, sbr. og 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Upphaflega láðist að grenndarkynna fyrir kæranda en úr því var bætt og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem hann skilaði þann 6. júní 2018. Var hið kærða byggingarleyfi því veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt greindri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.
Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2005, er lóðin nr. 32 við Áshamar á svæði merktu ÍB-4. Um svæðið segir m.a. að fullbyggt sé það 60.200 m2, að nýtingarhlutfall sé 0,15, að um blandaða byggð sé að ræða og að einbýlishús skuli vera á einni hæð. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér gögn varðandi svæðið, m.a. úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, og hefur staðreynt að það er langt frá því að vera fullbyggt miðað við aðalskipulag.
Húsin á lóðunum við Áshamar 2-60, slétt númer, eru við þrjár botngötur. Við Áshamar 22-40, sem er ein botngatnanna, standa hús sem öll voru byggð samkvæmt sömu grunnteikningum í kjölfar gosloka. Slíkt hús var einnig að Áshamri 32, en það mun hafa brunnið árið 1999. Byggt hefur verið við tvö hús í götunni, nr. 34 og 36. Lóðir við nefnda botngötu eru 750 m² að stærð, nema lóðirnar í botni götunnar, þ.e. nr. 30 og 32, sem voru 767 m². Lóðin Áshamar 32 hefur verið stækkuð úr 767 m2 í 923 m2, sbr. lóðarleigusamning, dags. 28. maí 2018, og meðfylgjandi samþykkt lóðarblað, dags. 5. október 2016. Skráning stærðar lóðarinnar er nú hin sama í fasteignaskrá. Húsið að Áshamri 32 mun verða einlyft einbýlishús, auk bílskúrs, og að lögum verður það svipað þeim húsum, breyttum sem óbreyttum, sem fyrir eru í botngötunni. Birt flatarmál hússins verður 185,5 m² og nýtingarhlutfall verður 0,20, en hefði að óbreyttri lóðarstærð verið 0,24. Nýtingarhlutfall lóða við nefnda botngötu er 0,13 nema á lóðunum nr. 34 og 36, þar sem byggt hefur verið við húsin. Er nýtingarhlutfall þar nú annars vegar 0,13 og hins vegar 0,21. Meðalnýtingarhlutfall í botngötu Áshamars nr. 2-20 er 0,23 og í botngötu kæranda, Áshamri nr. 42-60, er hlutfallið 0,26. Meðalstærð húsa í þeim botngötum er á bilinu 180 m2 til 190 m2. Götumynd í botngötu Áshamars nr. 22-40 er nokkuð heildstæð, þrátt fyrir að byggt hafi verið við tvö hús þar, en botngöturnar sín hvoru megin eru frábrugðnar hvað varðar stærð og lögun húsanna. Við mat á því hvort framkvæmd falli að byggðamynstri ber einkum að líta til hverfis í heild sinni, fremur en á einstakar götur innan þess, enda er m.a. tekið fram um 44. gr. í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynna skuli umsóknir um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir. Þykir hin leyfða byggingarframkvæmd hvorki víkja frá götumynd botngötunnar þar sem húsið mun standa né frá byggðamynstri hverfisins.
Verður samkvæmt framangreindu talið að hin leyfða byggingarframkvæmd hafi verið í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu umsókn.
Hið umdeilda hús verður staðsett á sama stað á lóðinni og húsið sem þar áður stóð. Hæð þess verður 4,92 m, en hæð annarra húsa við Áshamar nr. 22-40 er 4,35 m. Mismunurinn nemur því 0,57 m. Af hálfu leyfishafa og Vestmannaeyjabæjar hefur verið bent á að þennan mismun megi m.a. rekja til þess að núgildandi lög og byggingarreglugerð geri ríkari kröfur sem lúta að lofthæð og einangrun þaks. Verður ekki talið að fyrirhuguð mænishæð teljist óhófleg samkvæmt framangreindu, þrátt fyrir grenndaráhrif gagnvart kæranda. Þá verður einnig að líta til þess að umrædd botngata liggur í nokkrum halla og er lóð leyfishafa neðst í götunni. Miðast hæð húsanna við gólfkóta, en líkt og áður greinir er kótinn 26,20 á lóð leyfishafa en 29,00 á lóð kæranda. Verða áhrif hæðarmismunarins því minni en ella. Þá voru á lóð nr. 32 skýr ummerki um hið fyrra hús þegar kærandi keypti eign sína árið 2006. Lóðin er á skilgreindu íbúðasvæði í gildandi aðalskipulagi, sem tekið hafði gildi við kaup kæranda á sinni eign, og var lóðin enn fremur sýnd sem laus íbúðarhúsalóð í skipulaginu. Mátti kæranda því hafa verið ljóst að á lóðinni nr. 32 við Áshamar yrði eftir atvikum byggt aftur.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er hinni kærðu ákvörðun hvorki áfátt að formi né efni og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar.
Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar, Vestmannaeyjabæ.
Nanna Magnadóttir
______________________________ ________________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson