Árið 2014, þriðjudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 93/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs um að synja um stöðuleyfi og afgreiðslu bæjaryfirvalda á erindi kæranda varðandi viðbyggingu við klúbbhús hans á Sandskeiði, um gerð deiliskipulags og um heimild fyrir flutningi á þremur færanlegum skúrum á svæði kæranda á Sandskeiði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2013, sem barst nefndinni sama dag, kærir K, f.h. Svifflugfélags Íslands, ákvarðanir bæjaryfirvalda Kópavogs um að hafna erindum kæranda um heimild til flutnings og um stöðuleyfi fyrir þremur færanlegum skúrum á svæði félagsins á Sandskeiði, um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við klúbbhús félagsins á svæðinu og um að hafna beiðni um gerð deiliskipulags. Þess er krafist að greindar ákvarðanir verði felldar úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 21. maí 2014.
Málavextir: Með bréfi til Kópavogsbæjar, dags. 27. maí 2013, sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir þremur lausum skúrum til 12 mánaða á starfssvæði kæranda á Sandskeiði. Sú umsókn var ítrekuð í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 21. júní s.á. Sama dag var með bréfi til skipulagsstjóra bæjarins jafnframt óskað eftir að skipulagsyfirvöld leituðu eftir heimild Skipulagsstofnunar fyrir stækkun á húsi kæranda á Sandskeiði þar sem umrætt svæði væri óskipulagt. Jafnframt var farið fram á það að lokið yrði við gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Hinn 2. júlí s.á. tók byggingarfulltrúinn í Kópavogi fyrir umsókn kæranda um stöðuleyfi. Var erindinu hafnað með þeim rökum að umræddir skúrar féllu ekki undir skilgreiningu gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og var kæranda send tilkynning þess efnis sama dag. Hinn 9. s.m. beindi kærandi umsókn sinni um stöðuleyfi til bæjarráðs. Var erindið tekið fyrir á fundi ráðsins 25. júlí 2013 og því hafnað með vísan til fyrrgreindrar afgreiðslu byggingarfulltrúa. Hinn 27. ágúst s.á. tók skipulagsnefnd bæjarins fyrir erindi kæranda, dags. 21. júní 2013, varðandi stækkun húss hans á Sandskeiði. Var erindinu hafnað en nefndin samþykkti fyrir sitt leyti að veitt yrði stöðuleyfi til eins árs fyrir þremur færanlegum kennslustofum á umræddu starfssvæði kæranda. Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Hinn 5. september 2013 hafnaði bæjarráð erindi kæranda um stækkun umrædds húss og vísaði málinu til bæjarstjórnar, sem afgreiddi málið hinn 10. s.m. með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn staðfestir höfnun skipulagsnefndar varðandi stækkun á klúbbhúsi Svifflugfélags Íslands á Sandskeiði […]. Bæjarstjórn hafnar afgreiðslu skipulagsnefndar um að félaginu sé gefin heimild til að flytja þrjár færanlegar kennslustofur á athafnasvæði félagsins áður en deiliskipulag af svæðinu liggur fyrir […].“
Hinn 12. september s.á. lagði kærandi fram beiðni til Kópavogsbæjar um rökstuðning fyrir greindum ákvörðunum og barst hann kæranda 24. október s.á.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að Kópavogsbæ sé lagalega skylt að afgreiða umsóknir kæranda með jákvæðum hætti nema málefnaleg rök mæli gegn því. Hafi slík rök ekki borist kæranda. Heimilt sé að veita umbeðið stöðuleyfi skv. 9. lið 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og veita megi byggingarleyfi fyrir stækkun á klúbbhúsi kæranda á grundvelli fyrsta bráðabirgðarákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi telji kröfu Kópavogsbæjar um að samþykkja þurfi deiliskipulag til að hægt sé veita stöðu- eða byggingarleyfi bæði óframkvæmanlega og óásættanlega vegna ágreinings um lögsögu á svæðinu sem ekki verði leystur í fyrirsjáanlegri framtíð. Sveitarfélagið virðist gera þá kröfu að fyrir liggi deiliskipulag svo afgreiða megi umsóknir kæranda á sama tíma og beiðni hans um gerð deiliskipulags sé ekki tekin til greina. Telja verði að bæjaryfirvöldum sé skylt að lögum að taka beiðni kæranda um gerð deiliskipulags til afgreiðslu.
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að umsókn kæranda um stöðuleyfi hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa 2. júlí 2013 með þeim rökum að umræddir skúrar féllu ekki undir skilgreiningu gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu sé að finna tæmandi talningu á þeim lausafjármunum sem heimilt sé að veita stöðuleyfi fyrir. Sé fjallað um minni háttar atriði, svo sem sumarhús í smíðum sem ætlað sé til flutnings, en ekki sé í ákvæðinu fjallað um heilu húsin. Að auki hafi verið fjallað um beiðni kæranda um stöðuleyfi á fundi bæjarstjórnar 10. september s.á. þar sem henni var hafnað þar sem ekkert deiliskipulag lægi fyrir. Ekki sé unnt að hefja gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði á Sandskeiði þar sem ágreiningur sé um staðarmörk sveitarfélaga og sé það ekki hægt fyrr en úrlausn liggi fyrir í því máli. Að auki telji sveitarfélagið ekki unnt að fallast á flutning viðbyggingar sem hugsuð sé til þess að skeyta við núverandi byggingar á svæðinu þar sem slíkar breytingar myndu krefjast útgáfu byggingarleyfis. Að lokum bendi sveitarfélagið á að umræddar kennslustofur hafi brunnið í lok apríl 2014.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar byggingarfulltrúa frá 2. júlí 2013 á umsókn kæranda um heimild til flutnings og um stöðuleyfi fyrir þremur færanlegum skúrum á athafnarsvæði kæranda á Sandskeiði og afgreiðslu skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. ágúst og 5. og 10. september 2013 á beiðni kæranda um að aflað yrði meðmæla Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010 vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við klúbbhús kæranda á Sandskeiði. Þá er kærð afgreiðslu bæjaryfirvalda á beiðni kæranda um gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði.
Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur þó ekki ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið veittur aðila máls að beiðni hans, að því gefnu að beiðnin hafi borist innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 3. mgr. 21. gr. laganna. Umsókn kæranda um stöðuleyfi var synjað af byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 2. júlí 2013 og óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hinn 12. september s.á., eða rúmum tíu vikum eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina. Verður því litið svo á að kærufrestur hinnar kærðu ákvörðunar hafi byrjað að líða þegar kæranda var tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 2. júlí 2013. Kæra barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 1. október s.á., eða tæpum þremur mánuðum eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa lá fyrir. Er því kæran of seint fram komin hvað varðar greinda ákvörðun og verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá kemur afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi stöðuleyfi hinn 27. ágúst 2013, sem synjað var af bæjarráði 5. september s.á. og af bæjarstjórn 10. s.m., ekki til skoðunar þar sem það er á verkssviði byggingarfulltrúa að veita stöðuleyfi skv. 1. mgr. gr. 2.6.1., sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, og hafði hann þá þegar tekið afstöðu til beiðni kæranda, eins og áður er lýst.
Samkvæmt þágildandi 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010 gat sveitarstjórn, án þess að fyrir lægi staðfest aðalskipulag eða svæðisskipulag eða deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, leyft einstakar framkvæmdir sem um kynni að verða sótt. Fyrir liggur í málinu að engin lögformleg umsókn lá fyrir bæjarstjórn þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Af orðalagi ákvæðisins verður ráðið að umsókn fyrir framkvæmdum þurfi að liggja fyrir auk þess sem afla þarf meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir leyfisveitingunni. Engin slík umsókn lá fyrir bæjarstjórninni við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Lá því ekki fyrir endanleg ákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður þar af leiðandi ekki borin undir úrskurðarnefndina.
Að lokum er kærð afgreiðsla Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um að lokið yrði við gerð deiliskipulags fyrir athafnasvæði kæranda. Lagði kærandi fram greinda beiðni hinn 21. júní 2013. Verður ekki séð af orðalagi í bókunum þeirra bæjaryfirvalda sem tóku umsókn kæranda til afgreiðslu að tekin hafi verið lokaákvörðun er varðar þá beiðni. Þá liggja ekki fyrir frekari gögn í málinu sem benda til þess að umrætt erindi hafi fengið formlega afgreiðslu. Þar sem erindið er óafgreitt er ekki til staðar nein sú ákvörðun sem bindur enda á mál og þar með ekki hægt að beina kæru þar um til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Hvað varðar synjun bæjarstjórnar á flutningi þriggja færanlegra skúra þá verður ekki séð að hún hafi verið til þess bær að taka þá ákvörðun og heyrir það því ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar að taka hana til skoðunar, enda fer um flutning þeirra eftir ákvæðum reglugerðar nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja, sbr. 75. og 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Meðferð málsins hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson