Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

93/2005 Vesturgata

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að veita leyfi til að rífa norðvesturálmu bakhúss og byggja í hennar stað tveggja hæða byggingu á kjallara á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík, hækka veggi annarra hluta hússins um 75 cm, bæta kvistum á þakið og breyta innra fyrirkomulagi allra hæða.  Enn fremur að heimila að byggja göngubrú yfir Fischersund, svo og að heimila að starfrækt verði hótel í húsinu.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Minjavernd hf. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að veita leyfi til að rífa norðvesturálmu bakhúss og byggja í hennar stað tveggja hæða byggingu á kjallara á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík, hækka veggi annarra hluta hússins um 75 cm, bæta kvistum á þakið og breyta innra fyrirkomulagi allra hæða.  Enn fremur að heimila að byggja göngubrú yfir Fischersund, svo og að starfrækt verði hótel í húsinu.
 
Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 7. júlí 2005.  Skriflegt byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 var gefið út hinn 23. september 2005.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærumáls þessa, dags. 8. desember 2005, barst úrskurðarnefndinni hinn 9. sama mánaðar ásamt fylgiskjölum.  Þá hefur byggingarleyfishafi andmælt kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.   Er málið nú tekið til úrlausnar um þá kröfu.

Málsatvik og málsrök aðila:  Í árbyrjun 2004 kom fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Grjótaþorps varðandi lóðina nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík.  Borgaryfirvöld tóku vel í tillöguna og var hún tekin til meðferðar skipulagsyfirvalda. All langur tími leið þar til málið þótti komið á það stig að hægt væri að taka tillöguna til afgreiðslu en hinn 25. febrúar 2005 var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Fischersundi 3 og 3a, Vesturgötu 5 og 5a og Aðalstræti 2.  Tillagan var grenndarkynnt frá 3. mars til 1. apríl 2005.  Athugasemdir bárust frá tveimur einstaklingum auk Minjaverndar hf., kæranda í máli þessu.

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs þann 4. maí 2005.  Urðu nokkrar umræður um tillöguna en hún var síðan samþykkt á fundinum.  Málinu var eftir þetta vísað til borgarráðs sem staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum þann 12. maí 2005.  Skipulagsstofnun staðfesti í bréfi sínu, dags. 27. maí 2005, að framlögð gögn hefðu verið yfirfarin og að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um skipulagstillöguna yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar hinn 8. júní 2005.

Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní 2005, var þess farið á leit „…að gildistöku breytts skipulags skv. samþykkt skipulagsráðs frá 4. maí sl. verði frestað og að allar fyrirliggjandi tillögur verði auglýstar.“  Kærandi gerði síðar í tölvupósti og með bréfi, dags. 14. júlí 2005, grein fyrir aðild sinni að málinu sem eiganda að húseignum að Aðalstræti 2.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 31. maí 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að rífa norðvesturálmu bakhúss og byggja í hennar stað tveggja hæða byggingu á kjallara á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu.  Jafnframt var sótt um leyfi til að hækka veggi annarra hluta hússins um 75 cm og bæta kvistum á þakið og breyta innra fyrirkomulagi allra hæða.  Enn fremur var sótt um leyfi til að byggja göngubrú yfir Fischersund og breyta notkun húss þannig að þar mætti starfrækja hótel.  Málinu var vísað til yfirferðar skipulagsfulltrúa sem afgreiddi erindið til byggingarfulltrúa á fundi sínum þann 3. júní 2005 með bókun um að ekki væri gerð athugasemd við erindið sem samræmdist deiliskipulagi.
 
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 5. júlí 2005 var byggingarleyfisumsóknin tekin fyrir að nýju og samþykkt.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum þann 7. júlí 2005.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að breyting sú á  deiliskipulagi, sem verið hafi undanfari hinna umdeildu framkvæmda, hafi verið meiri en heimilt sé að gera með grenndarkynningu með stoð í undantekningarákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Breytingin sé umfangsmeiri en þörf hafi verið á og ekki hafi verið gætt sjónarmiða um verndun húsa og verslunarports á svæðinu.  Fleiri rök eru færð fram sem ekki verða tíunduð í bráðabirgðaúrskurði þessum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er kröfum kæranda mótmælt.  Til þess er vísað að sambærilegar breytingar á deiliskipulagi Grjótaþorps hafi áður verið gerðar með grenndarkynningum án athugasemda af hálfu kæranda.  Við gerð skipulagsbreytingarinnar hafi verið vandað til alls undirbúnings og leitað hafi verið umsagnar húsafriðunarnefndar ríkisins og Minjasafns Reykjavíkur um breytingarnar og allra lagaskilyrða gætt.  Frekari rök eru tíunduð af hálfu borgaryfirvalda sem ekki þykir þurfa að rekja í úrskurði þessum.

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um sjónarmið Reykjavíkurborgar um stöðvunarkröfuna en ekki hefur borist formlegt erindi frá honum af  því tilefni. 

Af hálfu byggingarleyfishafa hefur kröfum kæranda verið mótmælt og vísar hann til sömu sjónarmiða og borgaryfirvöld í málinu.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um hvort heimilt hafi verið að breyta deiliskipulagi lóðarinnar að Vesturgötu 3 með grenndarkynningu svo sem gert var og jafnframt hvort gætt hafi verið lagaskilyrða þegar hinar umdeildu ákvarðanir um skipulag og byggingarleyfi voru teknar.  Við mat á því hvort heimilt hafi verið að grenndarkynna umdeilda skipulagsbreytingu þykir rétt að líta til þess að um er að ræða atvinnulóðir á miðborgarsvæði þar sem nýtingarhlutfall er hátt og margvísleg starfsemi rekin.  Leiðir af þessum aðstæðum að umræddar breytingar verða varla taldar þess eðlis að ástæða hafi verið til að auglýsa skipulagsbreytinguna í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Er og til þess líta að Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við meðferð málins að þessu leyti.

Ekki hefur verið sýnt fram á að líklegt sé að efnisannmarkar séu á hinum umdeildu ákvörðunum er ógildingu varði. 

Samkvæmt framansögðu verður kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir samkvæmt leyfi byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2005 um að heimila tilgreindar breytingar mannvirkja á lóðinni nr. 3 við Vesturgötu í Reykjavík ásamt gerð gögnubrúar yfir Fischersund verði stöðvaðar.

 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson                      

 

_____________________________       ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ásgeir Magnússon