Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2005 Tangagata

Ár 2005, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2005, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2005 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 2. desember s.á., kærir R, Sundstræti 41, Ísafirði ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2005 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hinn 3. nóvember 2005.

Skilja verður erindi kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu bílskúrsins þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í málinu.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar var byggingarfulltrúa gerð grein fyrir framkominni kæru og kröfu um stöðvun framkvæmda og þess jafnframt óskað að hann kynnti byggingarleyfishafa kæruna og kröfur kæranda.  Hefur byggingarfulltrúi sent úrskurðarnefndinni gögn er málið varða og jafnframt upplýst um afstöðu byggingarleyfishafa, sem hefur að sögn í hyggju að ljúka gerð sökkla og plötu í vetur eftir því sem tíðarfar leyfi.  Þykir málið nú nægilega upplýst til þess að úrskurðað verði til bráðabirgða um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á svæðinu þar sem umdeildur bílskúr á að rísa er í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina á Ísafirði frá árinu 1997.  Fyrir liggja gögn um að kynnt hafi verið tillaga að breytingu á umræddu skipulagi á árinu 2000 þar sem gert hafi verið ráð fyrir að leyft yrði að byggja bílskúr á lóðinni nr. 26 við Tangagötu, fast að lóðamörkum við Sundstræti.  Mun umrædd breyting á skipulagi hins vegar hvorki hafa verið send Skipulagsstofnun til afgreiðslu né auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og tók breytingin því aldrei gildi.

Í bréfi byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. desember 2005, er málsatvikum lýst og segir þar að upphaf málsins megi rekja aftur til ársins 2000.  Þá hafi eigandi Tangagötu 26 sótt um, í einu erindi, byggingarleyfi til breytinga á íbúðarhúsi og byggingar bílskúrs á eignarlóð sinni.  Erindið hafi verið grenndarkynnt og hafi kynningunni lokið án athugasemda.  Framkvæmdir hafi eftir þetta verið hafnar við breytingar á íbúðarhúsinu en ekki við bílskúrinn.  Vorið 2005 hafi eigandinn hafist handa við bílskúrsbygginguna.  Grafið hafi verið fyrir sökklum, skipt um jarðveg og lagðar lagnir að grunninum.

Kærandi, sem sé eigandi að Sundstræti 41, hafi orðið var við framkvæmdirnar og skrifað bréf, dags. 9. júní 2005, til nefndarmanna í umhverfisnefnd.  Eigandi Tangagötu 26 hafi síðan sótt um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir bílskúrnum með bréfi, dags. 22. júlí 2005.  Það erindi hafi verið tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar 27. júlí 2005 og hafi tæknideild þá verið falið að grenndarkynna umsóknina. Það hafi verið gert með bréfum, dags. 29. júlí og 11. ágúst 2005.  Seinna bréfið hafi verið sent vegna formgalla á fyrra bréfi og hafi upphaf og lok grenndarkynningarinnar miðast við dagsetningu seinna bréfsins.

 Ein athugasemd hafi borist eftir grenndarkynninguna, frá kæranda í bréfum dags. 12. ágúst og 5. september 2005, sem séu endurtekningar þess sem fram komi í bréfinu frá 9. júní 2005.  Kannað hafi verið með skuggamyndun á lóðinni að Sundstræti 41 vegna bílskúrsins og í ljósi þeirrar niðurstöðu hafi umhverfisnefnd lagt til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt.  Bæjarstjórn hafi vísað tillögunni aftur til umhverfisnefndar. Umsóknin hafi aftur verið tekin fyrir í umhverfisnefnd 12. október 2005 og hafi byggingarfulltrúa þá verið falið að ræða við umsækjanda.  Niðurstaða viðræðna við hann hafi orðið sú að hann hafi fallist á að gera þær breytingar á bílskúrnum að hann yrði færður 1,3 metra frá lóð kæranda að Sundstræti, en þess í stað yrði skúrinn breikkaður úr fjórum metrum í fimm.  Umhverfisnefnd hafi metið það svo að með þessari breytingu á upphaflegri umsókn hafi verið komið til móts við athugasemd kæranda um nálægð bílskúrsins við lóðamörk og fjarlægð milli húsa.  Umhverfisnefnd hafi því lagt til við bæjarstjórn að umsóknin um byggingarleyfið, svo breytt, yrði samþykkt.  Tillaga umhverfisnefndar hafi síðan verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 3. nóvember 2005.

Aðilum hafi verið kynnt þessi niðurstaða bæjarstjórnar.  Gögn varðandi grenndarkynninguna hafi verið send til Skipulagsstofnunar en gildistaka breytingarinnar á deiliskipulaginu hafi ekki enn verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi telur að umdeild bygging hafi veruleg grenndaráhrif.  Ekki verði fallist á að komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda með þeirri breytingu sem gerð hafi verið frá upphaflegri umsókn, enda hafi breikkun bílskúrsins í för með sér að hann stækki um 7 fermetra.  Ekki hafi verið nægilega ljóst hvað fælist í skipulagsbreytingu þeirri sem kynnt hafi verið og telji kærandi að heimild fyrir umdeildri byggingu hafi verið „smyglað“ inn í skipulagið.  Skúrinn hafi mikil neikvæð áhrif á umhverfið og skapi slæmt fordæmi.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar hefur kröfu um stöðvun framkvæmda verið mótmælt.  Ítarleg grenndarkynning hafi átt sér stað á fyrirhuguðum bílskúr og komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda í málinu með því að færa skúrinn frá lóðamörkum.

Byggingarfulltrúi hefur kynnt byggingarleyfishafa efni kærunnar og kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Hefur byggingarfulltrúi lýst áformum hans um framkvæmdir en ekki hefur borist skriflegt erindi frá byggingarleyfishafa vegna málsins.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir virðist byggingarleyfi það sem um er deilt í málinu ekki hafa verið í samræmi við gildandi deiliskipulag þegar það var gefið út og staðfest í bæjarstjórn hinn 3. nóvember 2005.  Sýnast framkvæmdir samkvæmt leyfinu því vera andstæðar ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þykir þegar af þessari ástæðu rétt að fallast á kröfu kæranda um að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við byggingu bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði, samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
      Hjalti Steinþórsson           

 

 
_____________________________       ____________________________   
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ásgeir Magnússon