Mál nr. 87/2015, kæra á ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Svínhaga SH-17.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Atli Már Ingólfsson hdl., f.h. tilgreindra eigenda Selsunds, landnr. 164552, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að þær framkvæmdir sem þegar séu hafnar á svæðinu verði stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.
Málsatvik og rök: Hinn 14. október 2014 tók gildi deiliskipulag fyrir lóðirnar SH-17 og SH-21, þar sem veitt er heimild til að byggja íbúðarhús og gestahús á hvorri lóð. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 8. júní 2015 var samþykkt að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar SH-17. Í tillögunni fólst breyting á fjarlægð íbúðarhúss frá Selsundslæk og fjölgun byggingareita í tvo. Afgreiðsla skipulagsnefndar var staðfest af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. s.m. Tillagan var auglýst í Dagskránni 18. s.m. með athugasemdafresti til 30. júlí s.á. og bárust athugasemdir frá kærendum. Hinn 17. ágúst 2015 var því hafnað á fundi skipulagsnefndar að tillagan væri í andstöðu við aðalskipulag og lagt til að tillagan yrði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu og staðfesti byggðaráð þá afgreiðslu 19. ágúst s.á. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. október 2015.
Kærendur skírskota til þess að lóð sú sem hin kærða skipulagsbreyting taki til liggi nær öll innan marka lands þeirra. Deiliskipulag svæðisins hafi aldrei hlotið löglega afgreiðslu þar sem ekki hafi verið aflað samþykkis kærenda á sínum tíma eins og skipulagsnefnd hafi sett fyrirvara um. Deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við Aðalskipulag Rangárþings ytra enda sé umrædd lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði en verið sé að taka land undir frístundalóðir og sé samþykkis ráðherra áskilið skv. jarðalögum fyrir þeirri breytingu. Framkvæmdir séu hafnar á fyrrgreindri lóð sem liggi að veiðivatni og skorti á að aflað hafi verið leyfis Fiskistofu skv. lax- og silungsveiðilögum.
Af hálfu sveitarfélagsins sé á það bent að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Umsókn um byggingarleyfi hafi verið lögð fram og verði hún afgreidd í samræmi við ákvæði laga þar um, en ekki sé skilyrði til að taka til greina stöðvunarkröfu kærenda, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í sambærilegum málum.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar að uppfylltum skilyrðum 4. gr. laga nr. 130/2011, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna nefndra ákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. nefndri 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði að ekki er tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.
Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.
Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.
Nanna Magnadóttir