Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

169/2007 Einholt-Þverholt

Ár 2011, fimmtudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 169/2007, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. maí 2007 um deiliskipulag Einholts-Þverholts, eða svæðis er afmarkast af götunum Þverholti, Háteigsvegi, Einholti og Stórholti í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. desember 2007, er barst nefndinni 28. s.m., kæra A, Meðalholti 5 og S, Meðalholti 13, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. maí 2007 um deiliskipulag Einholts-Þverholts, eða svæðis er afmarkast af götunum Þverholti, Háteigsvegi, Einholti og Stórholti í Reykjavík. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gild. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs 1. júní 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi svæðis er afmarkast af Þverholti að vestan, Háteigsvegi að sunnan, Einholti að austan og Stórholti að norðan.  Fól tillagan í sér heimild til niðurrifs húsa á svæðinu og að þar yrði heimiluð mun þéttari byggð.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum og bárust fjölmargar athugasemdir.  Á fundi skipulagsráðs 30. nóvember 2005 voru athugasemdir þessar lagðar fram, samantekt skipulagsfulltrúa um þær sem og minnispunktar frá kynningarfundi með íbúum sem haldinn var 21. september s.á.  Þá var og lögð fram ný tillaga að deiliskipulagi svæðisins og var samþykkt að auglýsa hana.  Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 17. maí 2006 og var eftirfarandi fært til bókar:  „Auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa og með vísan til hennar.  Vísað til borgarráðs.“  Á fundi skipulagsráðs 9. ágúst 2006 var lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 21. júní 2006, um samþykkt borgarstjórnar frá 20. s.m. um að vísa málinu að nýju til skipulagsráðs.  Á fundi skipulagsráðs 13. desember 2006 var ákveðið að auglýsa að nýju tillögu að deiliskiplagi svæðisins.  Fól tillagan í sér niðurrif húsa á svæðinu og að rísa myndi mun þéttari byggð þar sem á öllum lóðum yrðu íbúðir, verslun og þjónusta.  Að Þverholti 11 og 13 var lagt til að rísa myndi sex hæða bygging, með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara.  Að Einholti 2 og 4 var lagt til að rísa myndi fimm hæða bygging, með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara.  Að Þverholti 15-19 var lagt til að rísa myndi sex hæða bygging, með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara á tveimur hæðum.  Að Einholti 6-8 var lagt til að rísa myndi fimm til sex hæða bygging með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara á þremur hæðum.  Að Þverholti 21 var lagt til að rísa myndi fimm til sex hæða bygging, með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara á tveimur hæðum.  Að Háteigsvegi 7 var lagt til að rísa myndi fjögurra til fimm hæða bygging, með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara á þremur hæðum. 

Á fundi skipulagsráðs 2. maí 2007 voru lagðar fram fjölmargar athugasemdir er borist höfðu ásamt umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. apríl 2007.  Þar sagði m.a. eftirfarandi:  „Niðurstaða: að lokinni auglýsingu deiliskipulagstillögunnar og móttöku athugasemda stóðu skipulagsyfirvöld í Reykjavík fyrir samráðsfundum með lóðarhöfum, hönnuðum og að lokum fulltrúum íbúa en áður hafði verið haldinn opinn kynningarfundur með þeim.  Í þeim umræðum voru m.a. lagðar fram athugasemdir … Með vísan til ofangreinds liggur nú fyrir breytt tillaga að deiliskipulagi dags. 20. apríl 2007 og er lagt til að skipulagsráð samþykki hana og leggi fyrir borgarráð til staðfestingar.  Ekki er talið að auglýsa þurfi tillöguna að nýju í ljós þess að í henni hefur verið komið til móts við athugasemdir aðila með því að færa til sama byggingarmagn og í auglýstri tillögu en lækka fyrirhugaða byggingu að Einholti 6 úr 6 hæðum í 5 með inndreginni fimmtu hæðinni.  Byggingar að Þverholti 15 og 15a hækka aftur á móti í annars vegar 8 hæðir og hins vegar í 7 hæðir.  Sú hækkun hefur ekki áhrif á þá aðila sem gerðu athugasemdir við tillöguna, enda eru áhrif hækkunarinnar bundin við lóðarhafa.“  Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og henni vísað til borgarráðs sem á fundi sínum 10. maí s.á. samþykkti hana. 

Með bréfi Skipulagsstofnunar til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 22. júní 2007, var gerð athugasemd við að samþykkt borgarráðs frá 10. maí s.á. yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda og sagði m.a. eftirfarandi í bréfinu:  „Stofnunin telur að sú breyting sem gerð var eftir auglýsingu tillögunnar og fólst í að hækka hús við Þverholt, sé þess eðlis að hana þurfi að kynna með formlegum hætti.  Ekki kemur fram hver er hámarksfjöldi íbúða á hverri lóð utan lóðar með námsmannaíbúðum.  Að mati stofnunarinnar þarf að ákveða slíkt í deiliskipulagi, með hliðsjón af stefnumörkum aðalskipulags.  Einnig þarf að vera ljóst að ákvæði um „námsmannaherbergi“ og heildarfjöldi íbúða samræmist ákvæðum aðalskipulagsins.  Svör við athugasemdum eru ekki fullnægjandi … Jafnframt er bent á eftirfarandi:  Gera þarf grein fyrir hljóðvist íbúða á svæðinu. … Gæta þarf þess að fullt samræmi sé á milli allra upplýsinga um hæðafjölda, milli uppdrátta og töflu … Tilgreina þarf í greinargerð deiliskipulagsins hvaða breytingar eru gerðar á tillögunni að síðari afgreiðslu sveitarstjórnar.“ 

Með bréfi Skipulagsstofnunar til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 8. október 2007, sagði m.a. eftirfarandi:  „Skipulagsstofnun hefur 25. september 2007 borist deiliskipulagsuppdráttur, dags. 8. desember 2006, breytt 21. september 2007 af deiliskipulagi Einholts-Þverholt, Reykjavík, þar sem fram kemur:  „21/09/07 Deiliskipulagi breytt í samræmi við bréf Skipulagsstofnunar frá 22. júní á þann átt að Þverholt 15 og Þverholt 15a eru lækkuð í 6 hæðir og byggingarmagn lóðarinnar lækkað í samræmi við það.“  Ekki kemur fram að borgaryfirvöld hafi samþykkt breytinguna. … Skipulagsstofnun tekur ekki afstöðu til deiliskipulagsins fyrr en brugðist hefur verið við athugasemdum þeim sem fram komu í áðurnefndu afgreiðslubréfí stofnunarinnar, dags. 22. júní 2007.“ 

Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 26. nóvember 2007, sagði m.a. eftirfarandi:  „Í bréfi Reykjavíkurborgar dags. 9. nóvember 2007 er athugasemdum Skipulagsstofnunar svarað og vísað til minnisblaðs um jarðvinnu vegna húsbygginga í Reykjvík dags. 19. september 2005 eftir Magnús Sædal Svavarsson byggingarfulltrúa, álitsgerðar vegna umferðar eftir Stefán Agnar Finnsson, yfirverkfræðing dags. 12. september 2005, hljóðvistgreiningar Línuhönnunar dags. 23. október 2007 og umsögn umhverfissviðs Reykjavíkurborgar varðandi hljóðvist dags. 6. nóvember 2007.  Þessi gögn fylgdu öll.  Í nýjum gögnum liggur jafnframt fyrir túlkun á því hvernig námsmannaherbergi reiknast sem íbúðir.  Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og ítrekar að það að fækka hæðum og lækka nýtingahlutfall á lóðum nr. 15-19 geti ekki flokkast sem lagfæring á gögnum.  Líta verður á slíkt sem breytingu sem borgaryfirvöld þurfi að fjalla um og samþykkja.  … Jafnframt er bent á eftirfarandi:  Ósamræmi er á milli töflu og greinargerðar hvað varðar leyfilegan hæðafjölda á lóð nr. 21 við Þverholt.  Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur, breyting staðfest 15. maí 2006, er gert ráð fyrir 240 nýjum íbúðum á svæðinu en í deiliskipulagsgreinargerðinni er sagt að á reitnum megi vera 250 nýjar íbúðir.  Í greinargerð deiliskipulagsins þarf að gera grein fyrir hljóðvist og heimild umhverfissviðs til beitingar fráviks II.  Skipulagsstofnun mun afgreiða málið endanlega þegar samþykki borgaryfirvalda fyrir umræddum breytingum liggja fyrir og stofnuninni hefur borist leiðréttur og undirritaður uppdráttur með upplýsingum um nýjar samþykktir.“ 

Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2007. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 30. nóvember 2007 var lagt fram  áðurnefnt bréf Skipulagsstofnunar, dags. 26. s.m.  Á fundi skipulagsráðs 12. desember s.á. var á ný fjallað um málið og lagt fram m.a. minnisblað verkfræðistofunnar Línuhönnunar um hljóðvist, dags. 23. október 2007, og umsögn umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, dags. 6. nóvember s.á., um heimild til að beita fráviki II úr viðauka hávaðareglugerðar nr. 933/1999 varðandi hljóðvist.  Einnig voru lagðir fram endanlegir uppdrættir að deiliskipulagi svæðisins, dags. 8. desember 2006, síðast uppfærðir 26. nóvember 2007.  Var eftirfarandi bókað:  „Endanlegir uppdrættir samþykktir. Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð samþykkti afgreiðslu skipulagsráðs í málinu á fundi sínum 20. desember 2007. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að borgaryfirvöldum hafi borið að fara eftir ákvæði 3. mgr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er varði rétt einstaklinga.  Kærendur telji að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar og sé sérstaklega bent á breytingar sem gerðar hafi verið á deiliskipulaginu eftir auglýsingu og ekki hafi verið kynntar með formlegum hætti.  Þá sé því og haldið fram að íbúum svæðisins hafi ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir þeim áhrifum sem framfylgd deiliskipulagsins kynni að hafa.  Ennfremur telji kærendur að brotið hafi verið gegn ákvæði gr. 3.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og 37. gr. reglugerðar um sprengiefni nr. 684/1999. 

Í kæru er vísað til athugasemda annars kæranda sem komið hafi verið á framfæri við borgaryfirvöld er tillaga að hinu kærða deiliskipulagi hafi verið auglýst 9. apríl 2007, en þar hafi verið gerð athugasemd við hæð fyrirhugaðra bygginga á svæðinu.  Framlagðar teikningar um skuggavarp gefi hvorki rétta mynd af né lýsi til fullnustu þeirri birtuskerðingu sem verði af byggingunum.  Skipulagið hrifsi til sín þau birtuskilyrði sem íbúar hverfisins hafi búið við sem leiði til verðlækkunar íbúðarhúsnæðis á svæðinu.  Gerð sé athugasemd við stærð og lögun fyrirhugaðra bygginga og því haldið fram að heildarmynd hverfisins muni aflagast verulega verði af byggingu margra hæða fjölbýlishúsa.  Öðru máli gegndi ef hæð fyrirhugaðra bygginga yrði í samræmi við önnur hús í hverfinu.  Engin húsakönnun hafi verið gerð, líkt og skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir, og ekkert jafnræði sé í deiliskipulaginu eða samræmi milli eldri og nýrri byggðar.  Nýtingarhlutfall, sem sé 2,83 samkvæmt deiliskipulaginu, sé í hrópandi ósamræmi við núverandi nýtingarhlutfall íbúðarhúsnæðis á svæðinu, en það sé 1,0-1,6.  Fjölgun íbúa á svæðinu muni hafa í för með sér stóraukna umferð um götur hverfisins sem nú þegar séu oft erfiðar yfirferðar og þá muni bílastæðavandi aukast enn frekar frá því sem nú sé. 

Gerðar séu athugasemdir við að ekki sé gert ráð fyrir því að framkvæmd verði ástandskönnun á húsum og veitukerfum á svæðinu áður en framkvæmdir hefjist.  Þá sé og gerð athugasemd varðandi fyrirkomulag byggingarframkvæmda á svæðinu og að hvorki hafi legið fyrir kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðra bygginga né áætlun um framkvæmdatímann.  Að lokum sé gerð athugasemd við kynningar- og samráðsferlið í heild sinni og að ekkert hafi verið hlustað á raddir íbúa í hverfinu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að öll meðferð málsins hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög og ákvæði skipulagsreglugerðar og því ekki ljóst hvað kærendur eigi við með tilvísun þeirra til 1. mgr. 3. gr. laganna.  Lögð hafi verið áhersla á víðtækt samráð við hagsmunaaðila í nágrenninu, fjölmargir kynningarfundir hafi verið haldnir, langt umfram lagaskyldu, auk þess sem deiliskipulagstillagan sem upphaflega hafi verið auglýst hafi á seinni stigum tekið róttækum breytingum að því er varði hæðir húsa, umfang og innihald.  Í allri meðferð málsins hafi ítrekað komið fram hjá hagsmunaaðilum og íbúum í nágrenninu að uppbygging á þessu svæði væri sjálfsögð svo fremi að ekki yrði gengið á umhverfi og lífsgæða þeirra.    

Í erindum hagsmunaaðila hafi komið fram áhyggjur og mótmæli við ýmsum þáttum er varðað hafi framkvæmd á svæðinu og rask af þeim sökum.  Slíkt geti ekki talist vera hluti af deiliskipulagsferlinu og komi því ekki til umfjöllunar í máli þessu heldur þegar sótt verði um byggingarleyfi.  Það sé skoðun skipulagsyfirvalda að samráð við hagsmunaaðila sé nauðsynlegt þegar um sé að ræða svo viðamikla framkvæmd í gróinni íbúðarbyggð. 

Í deiliskipulagsvinnu sem fram hafi farið á árinu 2003 hafi verið gert ráð fyrir því að á svæðinu myndi rísa hús á fjórum hæðum þar sem efsta hæðin yrði inndregin.  Skipulagsyfirvöld hafi þó fljótlega tekið undir álit lóðarhafa um að dýrar eignir og lóðir, niðurrif og síðan uppbygging, krefðist þéttari byggðar en fyrirhugað hafi verið í fyrstu svo unnt yrði að breyta iðnaðarsvæðinu í íbúðarbyggð.  Í fyrstu tillögum að deiliskipulagi, sem kynntar hafi verið á árinu 2005, hafi verið gert ráð fyrir mun hærri byggingum og meira byggingarmagni en gert hafi verið í hinni kærðu samþykkt, en með vísan til fjölda athugasemda og ábendinga frá hagsmunaðilum, breytinga á eignarhaldi lóða á svæðinu og afstöðu skipulagsyfirvalda hafi verið dregið úr byggingarmagni.  Samfelldar húsaraðir meðfram götum hafi verið brotnar upp og aðkoma í inngarð opnuð. 

Ekki sé dregið í efa að skuggavarp aukist vegna fyrirhugaðra nýbygginga.  Morgunsól skerðist að hluta í íbúðum að Egilsborgum, vestan Þverholts, sem og síðdegissól í görðum austan Einholts.  Með því að draga úr hæð fyrirhugaðra húsa og með því að draga inn efstu hæð hafi verið sýnt fram á að skuggavarp á eldri byggð yrði ásættanlegt að mati skipulagsyfirvalda, enda mætti ætíð vænta breytinga í þéttri borgarbyggð.  Fjarlægð á milli húsa við Einholt yrði ásættanleg, eða um 27 metrar.  Ekki hafi verið fallist á að um óásættanlega birtuskerðingu væri að ræða auk þess sem rétt til óbreytts útsýnis væri ekki hægt að verja í þéttri miðborgarbyggð. 

Í aðalskipulagi Reykjavíkur sé ekki lengur kveðið á um nýtingahlutfall á hverjum stað fyrir sig, enda sé í skipulagsreglugerð gert ráð fyrir að í deiliskipulagi sé nýtingarhlutfall eitt þeirra atriða sem notað sé til að stýra og takmarka byggingarheimildir innan lóða eða reita.  Heimilað nýtingahlutfall á svæðinu sé sambærilegt við nýtingarhlutfall í sambærilegum áætlunum sem samþykktar hafi verið.  Þá hafi aðstæður innan reitsins verið með þeim hætti að unnt hafi verið að ákvarða hærra nýtingarhlutfall í ljósi stærðar svæðisins, með vísan til legu þess gagnvart eldri byggð og annarra atriða sem máli hafi skipt.  Hvergi sé kveðið á um það í skipulags- og byggingarlögum að nýtingarhlutfall skuli vera það sama á öllum lóðum þegar deiliskipulagt sé í eldri byggð, þar sem möguleiki sé á að endurbyggja hluta svæðisins á annan hátt.  Slíkt væri óeðlilegt og ekki í takt við almenna stefnumörkun um þéttingu byggðar.  Ætíð þurfi að meta hvert svæði fyrir sig þegar nýtingarhlutfall sé ákveðið.  Sé því vísað á bug að gengið sé á jafnræði borgaranna með því að ákvarða hærra nýtingarhlutfall á nýbyggingarreit en í eldri byggð. 

Ljóst sé að umferð muni breytast á einhvern hátt með hinni kærðu samþykkt.  Umferð vegna iðnaðar og annarrar atvinnustarfsemi muni minnka, þar með talin umferð stórra ökutækja, en í stað þungaumferðar muni bætast við umferð vegna fjölgunar íbúa á svæðinu.  Umferðin muni að öllum líkindum vaxa og ferðum fjölga án þess þó að aukningin hafi þau áhrif að grípa þurfi til sérstakra lausna umfram það sem felist í hinni kærðu samþykkt.  Umferð íbúa muni ekki breyta umferðarmynstri á neinn þann hátt sem talinn sé hafa áhrif á nágrennið.  Umferð á svæðinu sé í ákveðnum vanda, m.a. á Háteigsvegi, en ekki verði séð að unnt verði að leysa þann vanda í tengslum við hið kærða deiliskipulag enda sé það hluti af stærra umferðartæknilegu máli.  Ekki verði séð að deiliskipulagið hafi í för með sér umferðaraukningu um Meðalholt eða Einholt. 

Hið kærða deiliskipulag fullnægi öllum kröfum er varði bílastæði og sé í algeru samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda um framboð bílastæða í miðborginni.  Á það sé bent að í umsögn skipulagsstjóra vegna málsins hafi verið tekið undir athugasemdir hagsmunaaðila um bílastæðavanda í hverfinu, eins og alls staðar í miðborginni og á jaðri hennar.  Meðal ástæðna fyrir þessum vanda sé að bílaeign sé ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar hafi verið þegar eldri hverfi borgarinnar byggðust upp.  Deiliskipulagið geri ráð fyrir því að bílastæðakröfum nýrra bygginga sé fullnægt innan reitsins sjálfs.  Í deiliskipulaginu sé að lágmarki gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð og séu námsmannaíbúðir meðtaldar í þeirri kröfu.  Auk þess sé gert ráð fyrir hálfu bílastæði á hvert námsmannaherbergi í bílageymslukjallara.  Það sé álit skipulagsyfirvalda að með þessu sé verið að bæta fyrirkomulag bílastæðamála í hverfinu, sér í lagi í ljósi þess að skipulag hverfisins geri ekki ráð fyrir almennri bílaeign.  Umræddar bílastæðakröfur séu í samræmi við ákvæði Þróunaráætlunar miðborgarsvæðisins vegna umferðarskipulags á miðborgarsvæðinu að teknu tilliti til þéttingar byggðar í miðborginni og nálægð við mikið framboð almenningsvagna.  Þá sé gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja 50 m2 atvinnuhúsnæðis. 
 
Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir 334 einstaklingsherbergjum og 94 námsmannaíbúðum á sameinaðri lóð Þverholts 15, 15A, 17-19 og að Einholti 6 og 8 og allt að 70 almennum íbúðum að Þverholti 21 og Háteigsvegi 7. 

Viðurkennt sé að háar byggingar geti valdið einhverjum veðurfarsbreytingum á jörðu niðri.  Aftur á móti sé því vísað á bug að þær byggingar sem hér um ræði séu það háar að þær geti haft nokkur áhrif á vindafar á svæðinu.  Ekki hafi verið unnar sérstakar athuganir á mögulegum breytingum á vindafari vegna samþykktarinnar enda ekki talin ástæða til slíkra rannsókna nema um sé að ræða byggingu háhýsa. 

Kærendur hafi ekki gert tilraunir til að renna stoðum undir þá fullyrðingu að fasteignir á svæðinu muni rýrna í verði vegna hinnar kærðu samþykktar.  Því sé þvert á móti haldið fram af hálfu skipulagsyfirvalda að með samþykkt deiliskipulagsins verði töluverð verðmætaaukning á svæðinu og nærliggjandi fasteignum. 

Ekki hafi verið talið að auglýsa þyrfti að nýju tillögu að deiliskipualgi reitsins, dags. 8. desember 2006.  Í henni hafi verið komið til móts við athugasemdir aðila með því að færa til sama byggingarmagn og í auglýstri tillögu en lækka fyrirhugaða byggingu að Einholti 6, úr sex hæðum í fimm með inndreginni fimmtu hæðinni.  Byggingar að Þverholti 15 og 15A hafi aftur á móti hækkað í annars vegar í átta hæðir og hins vegar í sjö hæðir.  Sú hækkun muni ekki hafa nein áhrif á þá aðila sem gert hafi athugasemdir við tillöguna, enda verði áhrif hækkunarinnar bundin við lóðarhafa. 

Hvað varði þá málsástæðu kærenda að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar varðandi gildistökuauglýsingar deiliskipulagsins sé bent á að það hafi verið mat Reykjavíkurborgar að breytingarnar væru þess eðlis að ekki væri ástæða til að leggja hina lagfærðu tillögu fram til samþykktar á fundi borgarráðs, enda einungis um lagfæringar að ræða sem ekki hafi haft áhrif á innihald tillögunnar.

—————–

Lóðarhafa Einholts 6-8 og Þverholts 15-21 var tilkynnt um kæruna en hefur ekki komið að sérstökum athugasemdum til úrskurðarnefndarinnar. 

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Einholts-Þverholts, eða svæðis er afmarkast af götunum Þverholti, Háteigsvegi, Einholti og Stórholti í Reykjavík, og samþykkt var í borgarráði 10. maí 2007.  Samkvæmt landnotkun Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 er suðurhluti svæðis þess er hér um ræðir merktur sem íbúðarbyggð en norðurhluti þess er merktur sem miðsvæði. 

Í gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, svo sem verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Í gr. 4.4.1 reglugerðarinnar segir að á miðsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði.  Þar sem aðstæður leyfi megi á miðsvæðum gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga. 

Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er heimilað að á öllum lóðum á svæðinu verði blönduð byggð, þ.e. verslun, þjónusta og íbúðir án þess að greint sé frá því hvernig skiptingunni sé háttað að öðru leyti en því að á hinum áritaða uppdrætti segir að hámarksfjöldi íbúða verði 240.  Verður að telja að framsetning deiliskipulags með þeim hætti sem að framan er lýst sé í ósamræmi við aðalskipulag Reykjavíkur hvað landnotkun varðar á suðurhluta svæðisins, sem er íbúðarsvæði samkvæmt gildandi uppdrætti aðalskipulags.  Er hin kærða ákvörðun því í andstöðu við 7. mgr. 9. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kvað á um innbyrðis samræmi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsuppdrátta. 

Eins og að framan er rakið átti hin kærða deiliskipulagssamþykkt sér nokkurn aðdraganda en áður höfðu komið til umfjöllunar borgaryfirvalda hugmyndir að deiliskipulagi svæðisins er náðu þó ekki fram að ganga.  Í desember 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi er fól í sér heimild til niðurrifs húsa á svæðinu og uppbyggingu nýrra.  Fól tillagan m.a. í sér að á lóðinni að Þverholti 15-19 myndi rísa sex hæða bygging, með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara á tveimur hæðum, og að á lóðinni Einholti 6-8 myndi rísa fimm til sex hæða bygging, með inndreginni efstu hæð, ásamt kjallara á þremur hæðum.  Fengu borgaryfirvöld margar athugasemdir vegna tillögunnar og á fundi skipulagsráðs 2. maí 2007 voru þær lagðar fram ásamt umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. apríl s.á.  Í umsögninni var lagt til að fyrirhuguð bygging að Einholti 6 yrði lækkuð úr sex hæðum í fimm, og að efsta hæðin yrði inndregin, og að byggingar að Þverholti 15 og 15A yrðu hækkaðar í sjö og átta hæðir.  Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og henni vísað til borgarráðs, sem á fundi sínum 10. maí s.á. samþykkti hana.  Birtist auglýsing um gildistöku samþykktarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2007.  Á staðfestum og árituðum uppdrætti kemur aftur á móti fram að á lóðunum Einholti 6-8 og Þverholti 15 og 15A sé leyfilegt að byggja fimm til sex hæða hús þar sem efsta hæðin verði inndregin og er því misræmi á milli þess sem samþykkt var í borgrráði 10. maí 2007 og áritaðs uppdráttar.  Virðist þó sem borgarráð hafi ætlað sér að samþykkja innihald deiliskipulagsins eins og það birtist á uppdrættinum en það var hins vegar ekki gert fyrr en á fundi ráðsins 20. desember 2007, þremur vikum eftir auglýsingu samþykktarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Var meðferð málsins þá lokið og verður að líta svo á að samþykkt borgarráðs frá 20. desember 2007 hafi enga þýðingu í máli þessu enda hafði ekki komið til endurupptöku þess.  Þegar litið er til framangreindrar meðferðar málsins, og þess misræmis sem var á milli þess sem borgarráð samþykkti 10. maí 2007 og þess sem hinn áritaði uppdráttur ber með sér, verður að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar, sem og tafa við gagnaöflun, en  greinargerð Reykjavíkurborgar í málinu er dagsett 2. nóvember 2010.  Í henni er tekið fram að sá dráttur sem orðið hafi á að skila gögnum til úrskurðarnefndarinnar hafi einkum stafað af því að beðið hafi verið eftir ítarlegri útfærslu á kæru eins og kærendur hafi boðað. 

Úrskurðarorð: 

Samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. maí 2007, um deiliskipulag Einholts–Þverholts, eða svæðis er afmarkast af götunum Þverholti, Háteigsvegi, Einholti og Stórholti í Reykjavík, er felld úr gildi. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________  ___________________________
Ásgeir Magnússon                               Þorsteinn Þorsteinsson