Árið 2020, miðvikudaginn 30. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 84/2020, kæra vegna heimilaðrar viðbyggingar að Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Sæbraut 8, Seltjarnarnesi, „málsmeðferð vegna viðbyggingar við Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.“ Verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 21. ágúst 2019 um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 6 og ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. júní 2020 um að samþykkja byggingaráform um viðbyggingu við húsið að Sæbraut 6 og að krafist sé ógildingar nefndra ákvarðana.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 27. október 2020.
Málavextir: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness 3. júlí 2019 var tekin fyrir umsókn um stækkun bílskúrs við húsið að Sæbraut 6 og var kynning eigenda fyrir nágrönnum lögð fram á fundinum. Var málið afgreitt með svofelldum hætti: „Grenndarkynning fór fram og bárust engar athugasemdir. Nefndin samþykkir að vísa málinu til byggingarfulltrúa sem auglýsir deiliskipulagsbreytinguna sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.” Var ákvörðunin staðfest í bæjarráði 11. júlí 2019 og í bæjarstjórn 21. ágúst s.á.
Samkvæmt gögnum máls fékk tillagan hins vegar málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Auglýsing til kynningar á tillögu um breytingu á deiliskipulagi svæðisins vegna Sæbrautar 6 var birt á vef Seltjarnarnesbæjar og í Lögbirtingablaðinu 2. ágúst 2019 og í Fréttablaðinu 3. s.m. Var tekið fram að hún væri aðgengileg á bæjarskrifstofu sem og á vef sveitarfélagsins og fæli í sér stækkun byggingarreits á lóðinni Sæbraut 6 og hækkun nýtingarhlutfalls. Frestur til að gera athugasemdir var frá 3. ágúst til 3. september 2019 en engar athugasemdir bárust. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020.
Hinn 5. júní 2020 samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu hússins að Sæbraut 6 í samræmi við umsókn eigenda. Var heimilað að byggja við núverandi bílskúr suðvestan megin við húsið og útisturtu/gufu á baklóð. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,25 í 0,29 og stærð húss úr 214 m² í 244 m².
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að grenndarkynning vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi ekki farið fram skv. skipulagslögum nr. 123/2010 heldur hafi eigandi Sæbrautar 6 sjálfur séð um að ganga í hús og safna undirskriftum. Gögnin sem hann hafi lagt fram hafi verið ófullnægjandi og ekki kynnt fyrir öllum eigendum Sæbrautar 8. Enginn af eigendum þess húss hafi ritað samþykki sitt á þennan uppdrátt en skipulags- og umferðarnefnd hafi ekki kannað hverju það sætti við samþykkt málsins. Við nánari skoðun sé ekki um að ræða stækkun á bílageymslu eins og kynnt hafi verið, heldur stækkun á íbúðarrými. Kærendur séu ósammála því að þetta sé óveruleg breyting sem snerti eingöngu hagsmuni bæjarins og eiganda Sæbrautar 6. Í bréfi til bæjarstjóra Seltjarnarness, dags. 21. júlí 2020, hafi verið óskað eftir því að inngangur í viðbygginguna yrði færður þar sem hann myndi valda ónæði gagnvart fasteign kærenda, en því erindi hafi ekki verið svarað.
Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að kærunni beri að vísa frá sökum þess að kærufrestir séu liðnir. Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um kærufrest fari samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kæran snúi að því að tillaga um breytingu á deiliskipulagi hafi ekki verið réttilega kynnt kærendum. Í síðasta lagi við birtingu deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar 2020 hafi kærendum verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um kæruefnið. Kæran sé dagsett 14. september s.á. Á þeim tímapunkti hafi eins mánaðar kærufrestur verið löngu liðinn.
Verði talið að kæran lúti að einhverju leyti að afgreiðslu byggingarfulltrúa vegna samþykktra byggingaráforma hafi kærufrestir allt að einu verið liðnir þegar kæra í máli þessu hafi komið fram. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt aðaluppdrætti að breytingunum 5. júní 2020 en kæran sé sem fyrr segi dagsett 14. september s.á. Eins mánaðar kærufrestur vegna stjórnvaldsákvarðana á grundvelli mannvirkjalaga hafi því einnig verið löngu liðinn þegar kæran hafi komið fram.
Engir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð sveitarfélagsins sem kærendur haldi fram. Um breytingu á deiliskipulagi sé fjallað í 43. gr. skipulagslaga þar sem komi fram að verulegar breytingar séu auglýstar skv. 1. mgr. ákvæðisins en óverulegar breytingar megi grenndarkynna skv. 2. mgr. þess. Ekki sé um það deilt að breytingingarnar hafi ekki verið verulegar. Sé í því samhengi bent á að samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni nemi stækkun til vesturs (breikkun) 80 cm út fyrir núverandi byggingarreit. Stækkun til suðurs, í átt að gangstétt, nemi frá 0-200 cm út fyrir samþykktan byggingarreit. Mörg dæmi væru í næsta nágrenni um að byggingarhlutar húsa næðu út fyrir byggingarreit og væru dæmi um að byggingarhlutar næðu allt að lóðarmörkum. Sú tillaga sem lögð hafi verið fram um breytingu á deiliskipulagi vegna Sæbrautar 6 hafi þar að auki verið kynnt af hálfu húseigenda. Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum við auglýsingu tillögunnar. Það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar, þegar framkvæmdir hafi verið hafnar, sem slíkar athugasemdir hafi borist.
Í kynningu hafi komið fram að óskað hafi verið eftir „að byggja við núverandi bílskúr suð-vestanmegin við hús og útisturtu/gufu á baklóð.“ Engin þörf hafi verið á því að taka sérstaklega fram hver nýting eldri byggingar yrði í kjölfar breytingarinnar. Sé nýtingin enda innan gildandi skipulags og engin þörf sé á að grenndarkynna slíka nýtingu. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 sé gert ráð fyrir að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi að hún valdi ekki verulegum óþægindum, nánar tiltekið að starfsemin fari fram innan hefðbundins dagvinnutíma, starfsemi hvers rekstraraðila valdi ekki ónæði og að notkun gangi ekki verulega á afnot íbúa í nálægum húsum af sameiginlegum bílastæðum. Í gildandi deiliskipulagi sé vísað til gildandi aðalskipulags varðandi landnotkun. Það megi því ljóst vera að engin þörf hafi verið á breyttri landnotkun vegna þeirrar nýtingar sem tilgreind sé á aðaluppdrætti.
Óljóst sé hvort því sé haldið fram í kæru að grenndarkynna hafi átt staðsetningu aukainngangs. Staðsetning hans á baklóð sé hefðbundin, krefjist ekki mikillar uppbyggingar fyrir aðgengi og ekki verði séð að rask geti orðið af honum. Hafi inngangurinn óveruleg grenndaráhrif og ekki meiri en almennt megi búast við í þéttbýli.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum með nefndri grein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu til að víkja frá kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Í þeim tilfellum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.
Auglýsing um gildistöku umdeildrar deiliskipulagsbreytingar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020 að undangenginni almennri auglýsingu skipulagstillögunnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga sem felur í sér meginreglu um málsmeðferð breytinga á deiliskipulagi. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar eða hinn 15. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 17. september 2020 eða rúmum sjö mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður ekki talið að nefndur dráttur geti talist afsakanlegur eða önnur atvik séu fyrir hendi í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga svo að málið verði tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Fyrir liggur að kærendum var kunnugt um hið kærða byggingarleyfi seinni hluta júlímánaðar 2020, sbr. fyrirliggjandi tölvubréf frá þeim til yfirvalda Seltjarnarnesbæjar frá 22. júlí s.á. Þar var og tekið fram að tveir kærenda hafi átt fund með sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs bæjarins um málið hinn 25. júní 2020. Voru framkvæmdir að Sæbraut 6 þá þegar hafnar. Var eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar því liðinn þegar kæra í málinu barst. Verður með hliðsjón af framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga einnig að vísa þessum hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.