Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2014 Brekkugata

Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. maí 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2014, er barst nefndinni 29. s.m., kærir E, Brekkugötu 13, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars. Er gerð sú krafa að gerð verði deiliskipulagsbreyting á umræddu svæði þannig að lóðin Brekkugata 13 verði stækkuð til suðurs. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfirði 20. ágúst 2014 og 4. ágúst 2016.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 5. mars 2013 var samþykkt deiliskipulagslýsing fyrir óskipulagt svæði í Suðurbæ Hafnarfjarðar. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 13. s.m. Hinn 27. september s.á. var á fundi skipulags- og byggingarráðs samþykkt að halda kynningarfund fyrir íbúa. Var hann haldinn 22. október s.á. og íbúum gefinn kostur á að skila inn athugasemdum til 20. nóvember s.á. Bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 11. mars 2014 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Suðurbæjar með áorðnum breytingum og var afgreiðslan staðfest af bæjarstjórn 19. s.m. Var skipulagstillagan auglýst í fjölmiðlum 27. s.m. með athugasemdafresti til 10. maí s.á. Barst ein athugasemd á kynningartíma og var hún frá kæranda. Henni var svarað með bréfi, dags. 22. maí 2014. Nýtt deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars var svo samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 23. maí 2014 og staðfest af bæjarstjórn 28. s.m. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. júlí 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að það svæði sem hið kærða deiliskipulag taki til nái að hluta inn á lóð í hans eigu. Hann hafi komið á framfæri athugasemdum við tillöguna, en ekki hafi verið komið til móts við þær með fullnægjandi hætti.

Deiliskipulagið geri ráð fyrir breyttum mörkum lóðar kæranda, án þess að leitað hafi verið samráðs eða samþykkis hans. Hafi hann með bréfi, dags. 18. nóvember 2013, mótmælt áformum um skipulagið, sem kynnt hafi verið á kynningarfundi, og lýst sig til viðræðu um breytingu á lóðarmörkum með þeim hætti að lóðin yrði stækkuð til suðurs í þeim tilgangi að að koma þar fyrir bílskúr. Deiliskipulagið hafi hins vegar verið auglýst óbreytt þrátt fyrir andmælin. Lóð kæranda sé skert til austurs og þær viðbætur sem skipulagið geri ráð fyrir hafi áður verið hluti af lóðinni. Kærandi hafi fyrir löngu hefðað afnotarétt til þess svæðis og röng skráning eða afstöðumynd breyti því ekki. Sé því ekki hægt að telja það svæði til stækkunar á móti þeirri skerðingu sem skipulagið geri ráð fyrir.

Skerðing á fasteignaréttindum geti haft veruleg áhrif á afnotamöguleika og verðmæti fasteigna. Þurfi stjórnvöld að gæta hófs við slíkar aðgerðir og alls ekki ráðast í slíkar skerðingar nema á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða. Engin lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi verið færð fyrir umræddri skerðingu eða gerð grein fyrir því hvaða almannahagsmunir búi henni að baki. Sé slík skerðing í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Jafnframt hafi verulega skort á samráð við kæranda við gerð skipulagstillögunar, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, auk þess sem athugasemdum kæranda hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt.

Rannsókn málsins hafi verið ábótavant, en bygging bílskúrs innan lóðar kæranda sé útilokuð. Til þess þyrfti að rjúfa stoðvegg á lóðarmörkunum sem sé mjög afgerandi hluti hönnunar hússins, lóðarinnar og heildarmyndar eignarinnar. Auk þess sé lóðin mjög brött á umræddum stað. Þá myndi götumynd svæðisins gerbreytast. Minnt sé á að samkvæmt deiliskipulaginu sé Brekkugata á svæði í flokki I samkvæmt stefnumörkun um húsvernd og sé í skipulaginu jafnframt að finna ráðagerð um friðun húss kæranda.

Málsrök Hafnarfjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að því sé ranglega haldið fram að lóðin Brekkugata 13 minnki samkvæmt hinu kærða skipulagi. Hið rétta sé að lóðin muni stækka um u.þ.b. 9 m2. Samkvæmt nýju skipulagi sé heimilt að byggja bílskúr innan núverandi lóðarmarka og sé það tæknilega mögulegt. Götumynd svæðisins gerbreytist ekki við þá ráðstöfun. Um augljósa villu sé að ræða í greinargerð deiliskipulagsins þar sem fram komi að hús kæranda sé í „sveitserstíl“. Sá stíll eigi eingöngu við um timburhús. Hús á aðliggjandi lóð sé í þeim stíl og sé átt við það í greinargerðinni.

Því sé hafnað að skort hafi á samráð við kæranda, en honum hafi verið kynnt öll gögn er málið varði. Jafnframt eigi kærandi engan sérstakan lögboðinn rétt til lóðarstækkunar þótt heimilt sé að sækja um slíkt. Fari það eftir mati sveitarstjórnar á hverjum tíma hvort fallist sé á slíka stækkun. Byggingarreitur fyrir bílskúr sé inni á lóð kæranda samkvæmt hinu kærða skipulagi og því sé ekki sérstök þörf á lóðarstækkun.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við framangreint tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að kveða á um að gerð skuli tiltekin breyting á hinu kærða deiliskipulagi.

Sveitarstjórnir annast deiliskipulagsgerð og bera ábyrgð á henni skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag. Þó ber sveitarstjórnum m.a. að fylgja þeim markmiðum greindra laga sem eru tíunduð í 1. gr. þeirra. Þar er m.a. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna nema að undangengnu samkomulagi eða eftir atvikum eignarnámi, séu skilyrði fyrir hendi. Gildistaka skipulagsáætlana getur hins vegar í einhverjum tilvikum haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum og kveða lögin á um rétt til bóta að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ágreiningsefnið í máli þessu lýtur að breytingu á mörkum lóðar kæranda, sem hann telur skerða eignarrétt sinn, en úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum fyrir dómstólum.

Í almennum skilmálum deiliskipulagsins segir að markmið þess sé að stuðla að heildstæðu byggða- og götumynstri í grónu hverfi og tryggja að nýbyggingar og viðbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir er. Áhersla sé lögð á heildarmynd og mælikvarða hins byggða umhverfis. Jafnframt segir að við gerð deiliskipulagsins hafi verið farið yfir lóðarsamninga á svæðinu og tillögur gerðar að breytingum á lóðarmörkum þar sem það þyki til bóta eða sé í samræmi við núverandi notkun. Einnig hafi stærðir lóða verið leiðréttar þar sem nú sé unnt að gera nákvæmari mælingar en áður. Breyting á stærðum lóða á deiliskipulagssvæðinu kemur fram í töflu í greinargerð skipulagsins. Fjöldi lóða eru stækkaðar, oft allnokkuð. Það verður þó ekki annað séð af gögnum málsins en að málefnaleg rök hafi búið þar að baki. Skal og á það bent að kærandi á ekki lögvarinn rétt til stækkunar lóðar sinnar og fyrir liggur að eftir sem áður er lóð hans ein af stærstu lóðunum á deiliskipulagssvæðinu.

Umrætt svæði, Suðurbær sunnan Hamars, er í hinu umdeilda deiliskipulagi skilgreint sem íbúðarsvæði, að undaskildum þremur lóðum sem tilheyra þjónustustofnunum, og samrýmist það landnotkun svo sem hún er ákveðin í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025. Verður ekki annað séð en að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við markmið og stefnu þágildandi aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Loks var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Gerð var deiliskipulagslýsing og haldinn íbúafundur til að kynna forsendur hennar. Deiliskipulagstillagan var síðan auglýst, athugasemdum kæranda svarað, samþykkt tillaga send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Í athugasemdum kæranda kom fram að vilji hans stæði til þess að fá landspildu sunnan við lóð sína undir bílskúr. Í svari sveitarstjórnar við þeim athugasemdum er tekið fram að nýtt deiliskipulag gerði ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr innan núverandi lóðar og þætti ekki ástæða til að minnka opið svæði til hliðar við hana. Auk þessa voru settar fram ábendingar um núverandi lóðarmörk og tekið fram að deiliskipulagið gerði ráð fyrir breyttum lóðarmörkum, en jafnframt að lóðarleigusamningi yrði ekki breytt nema kærandi óskaði þess. Þá hafði kærandi komið að athugasemdum í framhaldi af íbúafundi og bærinn átt við hann tölvupóstsamskipti í kjölfarið. Samkvæmt framangreindu verður að telja að fullnægjandi samráð hafi verið haft við kæranda þótt ekki hafi verið fallist á kröfur hans. Ekki verður heldur fallist á að svörum til hans hafi verið ábótavant eða að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Halli á lóð kæranda kemur ekki í veg fyrir að hann geti nýtt sér heimild til að byggja þar bílskúr og hefur sveitarstjórn með deiliskipulagsgerðinni tekið afstöðu til þess að yfirbragði götumyndarinnar verði ekki raskað til muna með þeirri breytingu.

Í greinargerð sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar, eins og rakið er í málsrökum, kemur fram að augljós villa sé í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi þar sem húsnúmer hafi víxlast. Þykja þessi mistök ekki þess eðlis að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geti til ógildingar hennar. Er kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. maí 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson