Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2020 Fitjar

Árið 2020, fimmtudaginn 15. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 8. júlí 2020 um að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Fitja í Skorradalshreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 23. október 2019 að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skorradalshrepp að samþykkja umsóknina. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir hreppinn að samþykkja umsóknina með þeim formerkjum að hreppurinn deiliskipuleggi lóðirnar eða að umsækjendur geri það með atbeina og á kostnað hreppsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 3. september 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 3. júlí 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Var málinu frestað þar sem að mati nefndarinnar lægi ekki fyrir fullnægjandi gögn, sbr. c-lið 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Fært var til bókar að kærendur þyrftu að leggja fram hnitsettan uppdrátt sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum um afgreiðslu nefndarinnar.

Hinn 20. febrúar 2019 sendi annar kærenda erindi til skipulags- og byggingarnefndar og óskaði eftir því að umsókn kærenda yrði tekin til afgreiðslu en með erindinu fylgdi umsóknareyðublað ásamt hnitsettum uppdráttum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. mars s.á. var erindinu frestað að nýju þar sem hnitsettur uppdráttur sem staðfestur hefði verið af skipulagsyfirvöldum hafi ekki enn verið lagður fram. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar sama dag en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í úrskurði uppkveðnum 27. september 2019, í kærumáli nr. 21/2019, var lagt fyrir hreppsnefnd Skorradalshrepps að taka umsókn kærenda til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar. Í kjölfarið var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 1. október 2019 og lagt til við hreppsnefnd að hafna umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag umræddra lóða. Staðfesti hreppsnefnd þá afgreiðslu á fundi sínum 23. s.m. en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2020 í kærumáli nr. 118/2019. Var hreppsnefndinni ekki talið stætt á að synja umsókn kærenda einvörðungu með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag enda væri ljóst að 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæli fyrir um heimild sveitarstjórnar til að skipta lóðum og ákveða lóðamörk án deiliskipulagsgerðar. Var jafnframt vísað til þess að ekki lægi fyrir hvers vegna hreppsnefndin taldi sér ekki fært að afgreiða umsóknina á grundvelli þeirrar lagaheimildar.

Hinn 8. júní 2020 óskuðu kærendur eftir fundi með fulltrúum hreppsins til þess að ljúka afgreiðslu málsins efnislega. Með vísan til þess að fyrri afgreiðsla hreppsnefndar hafði verið felld úr gildi var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. júlí s.á. og henni hafnað, m.a. með vísan til markmiða og stefnu gildandi aðalskipulags. Hreppsnefnd staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 8. júlí 2020 og var kærendum tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 9. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé byggð á sömu rökum og fyrri ákvörðun sem felld hafi verið úr gildi. Sú staðreynd að misræmi sé á milli raunstærða lóða og skráðra stærða sé fremur röksemd gegn gerð deiliskipulags en með. Mikill kostnaður felist í kröfu hreppsins um að jörðin verði deiliskipulögð „heildstætt“. Þá væri opnuð ormagryfja deilna um nákvæma staðsetningu lóðarmarka. Einnig þyrfti undanþágur fyrir flestar leigðar og byggðar lóðir vegna helgunarsvæða eða nálægðar við veg og vatn.

Reglan um skyldubundið mat sé brotin þar sem ekki sé fortakslaus lagaáskilnaður um deili­skipulag til þess að skipta megi lóðum eða breyta lóðamörkum. Þvert á skýra heimild 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé allt mat afnumið með vísan til þeirrar stefnu eða markmiðs hreppsins um að deiliskipuleggja eigi allar jarðir „heildstætt“. Meðalhófsregla sé einnig brotin með kröfu um heildstætt deiliskipulag. Markmiði um skiptingu lóðar megi ná með öðru og vægara móti. Grenndarkynning væri kostnaðarlítil fyrir alla aðila, en þess megi geta að fáar grenndarkynningar hafi verið í hreppnum undanfarin ár. Ráða megi óbeint af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli nr. 118/2019 að slík stefnumörkun sé ómálefnalegt sjónarmið, sbr. 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga. Sú afstaða að samþykkja ekki sameiningar lóða utan deiliskipulagðra svæða sé ómálefnaleg þar sem heimild til þess sé að finna í 48. gr. skipulagslaga. Minna megi á að ábyrgð á gerð deiliskipulags liggi hjá hreppnum og skuli kostnaður við það greiðast úr sveitarsjóði samkvæmt sömu lögum.

Það sé ekki rétt sem fram komi í bókun skipulags- og byggingarnefndar að markmið um heildstætt deiliskipulag eigi aðeins við um „hverja jörð sem frístundabyggð stendur á.“ Í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 segi um byggðaþróun að „heildstætt deiliskipulag verði unnið fyrir hverja „jörð“ (skilgr. laga 81/2004)“. Áætlun um heildardeiliskipulag jarða sé ekki að finna í aðalskipulaginu. Hins vegar sé sett fram „sú meginregla að heildstætt deiliskipulag sé unnið af jörð þegar þrír eða fleiri afmarkaðir deiliskipulagsreitir hafa verið samþykktir á viðkomandi jörð.“ Þessir reitir séu ekki bundnir við frístundasvæði. Afgreiðsla umsóknarinnar á grundvelli 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga gangi í engu gegn markmiðinu og meginreglunni um heildstætt deiliskipulag jarða. Þá myndi samþykkt umsóknar kærenda samræmast stefnu aðalskipulagsins um að stækka lágmarksstærðir frístundalóða úr 0,33 ha að flatarmáli í 0,5 ha, sbr. áætlun um frístundabyggð í V. kafla aðalskipulagsins. Það gangi beinlínis gegn stefnu sveitarfélagsins að hafna stækkun lóða á frístundasvæðum.

Einnig sé um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að ræða. Vegna mistaka í kjölfar óleyfisframkvæmda vinni hreppurinn nú að deiliskipulagningu lóða nr. 47-62 við Fitjahlíð. Það sýni að hreppurinn telji sér fært að deiliskipuleggja þegar aðstæður krefjist. Fitjahlíð sé svæði sumarhúsa sem hafi risið löngu fyrir tíð skipulagsáætlana. Margt mæli gegn því að skipuleggja frístundabyggð þar, a.m.k. á stórum hluta svæðisins. Í tölvupósti frá Skipulagsstofnun 3. apríl 2020 segi að ljóst sé að „ef um er að ræða nýjar lóðir í deiliskipulagi þá þurfa þær að uppfylla ákvæði skipulagsreglugerðar.“ Skipulags- og byggingarnefnd deiliskipuleggi nú Fitjahlíð 47-62 en í þeirri vinnu hafi komið í ljós að sækja þurfi um margar undanþágur til ráðuneytis. Fyrir utan þessi tæknilegu og erfiðu atriði sé þegar orðið ljóst að það sé tímafrekt og kostnaðarsamt að fella gamla byggð að nútíma kröfum deiliskipulags. Einnig megi líka spyrja hver sé hin krefjandi þörf. Svæðið sé skilgreint sem frístundabyggð í aðalskipulagi og ef óskað sé breytinga á húsum í þegar byggðu hverfi geti hreppurinn farið með beiðnina skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Árið 2014 hafi þáverandi skipulagsfulltrúi verið spurður hvort grenndarkynning væri notað í eldri byggðum og svarað því á eftirfarandi hátt: „[V]ið höfum nýtt okkur grenndarkynningarákvæðið á nokkrum eldri svæðum þar sem ekkert deiliskipulag er í gildi.“

Stefna sveitarfélagsins sé til tjóns fyrir kærendur og takmarki eignarréttindi þeirra og atvinnu­frelsi m.t.t. útleigu lóða. Því sé brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar, 75. gr. um atvinnufrelsi og 77. gr. um álögur á borgarana. Sú röksemd í fyrra máli að kærendur geti deiliskipulagt lóðina á eigin kostnað hafi ekki staðist kröfur og stefna eða markmið þar um geri það enn síður. Þá hafi andmælaréttur einnig verið brotinn á kærendum.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð sú krafa að kröfum kærenda verði hafnað. Ákvörðun um að synja beiðni þeirra hafi verið rökstudd með vísan til þess að í aðalskipulagi sveitarfélagsins hafi verið mörkuð sú skipulagsstefna að heildstætt deiliskipulag skuli sett um hverja jörð innan sveitarfélagsins, þ.e. hverja jörð sem frístundabyggð standi á. Sameiningar lóða innan hreppsins hafi um langa hríð ekki verið samþykktar á svæðum þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag. Þá kalli ósamræmi á milli raunstærða lóða í landi Fitjahlíðar og skráðra stærða á gerð deiliskipulags.

Í samræmi við skyldu sveitarfélaga til að setja stefnu og markmið varðandi skipulagsmál í aðalskipulagsáætlunum sínum, sbr. 12. og 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sé gerð grein fyrir því í formála Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 að í því sé mótuð stefna og settar reglur um deiliskipulag á jörðum eða jarðarhlutum sem taka þurfi mið af. Þá komi fram í kafla um leiðarljós að eitt helsta stefnumið þess varðandi byggðaþróun í hreppnum sé að heildstætt deiliskipulag verði unnið um hverja „jörð“, skv. skilgreiningu jarðalaga nr. 81/2004. Í lögunum sé jörð skilgreind sem „land með ákveðnum landamerkjum eða með ákveðnum tún- og engjamerkjum ef um er að ræða jörð eða hjáleigu sem hefur sameiginlegt beitiland með annarri jörð eða jörðum. Það gildir þó ekki um lóðir undir sumarbústaði án tillits til þess hvort þær eru í skipulögðu sumarbústaðahverfi og heldur ekki landspildur á svæðum sem skipulögð hafa verið fyrir aðra starfsemi en landbúnað.“ Samkvæmt því falli jarðir sem leigi sumarbústaðalóðir út úr jörðinni ekki undir lögin. Hins vegar hafi hreppsnefnd um langa hríð litið svo á að framangreind skilgreining samræmist ekki nútíma búrekstri og að heimila eigi eigendum að leigja sumarhúsalóðir frá jörðinni án þess að þurfa að taka hana úr landbúnaðarnotum. Hvað felist í hugtakinu „landbúnaður“ hafi breyst mikið síðustu áratugi og því sé eðlilegt í dag að líta svo á að ábúandi jarðar sem lóðir eru leigðar frá sé í búrekstri. Þetta sjónarmið komi víða fram í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þannig segi t.a.m. á bls. 80 að þar sé sú meginstefna mörkuð að landnotkun á skipulagssvæðinu verði fyrst og fremst til landbúnaður en að skilgreining á því hugtaki hafi breyst í áranna rás og þannig sé t.d. nú viðurkennt að skógrækt sé landbúnaður. Með sama hætti telji hreppurinn réttmætt að skilgreina leigu á lóðum undir frístundahús sem landbúnað, enda fari þá fram nýting auðlinda þess lands til atvinnu- og verðmætasköpunar viðkomandi jarðar.

Því sé ljóst að sú skipulagsstefna hafi verið mörkuð fyrir sveitarfélagið að gerð yrði heildstæð deiliskipulagsáætlun fyrir hverja jörð, þ. á m. fyrir jarðir eigenda sem leigi utanaðkomandi einstaklingum lóðir undir sumarhús. Í því felist að aðalskipulag hreppsins kveði á um skýr markmið um gerð heildstæðs deiliskipulags frístundasvæða sem séu innan jarða sem enn séu skráðar undir landbúnaðarnotum, en jörðin Fitjar sé einmitt slík jörð. Beiting undan­þáguheimildar 48. gr. skipulagslaga um skiptingu lóða bryti gegn þeirri stefnu sem skipulags­yfirvöld hafi sett í aðalskipulagi um heildstæðar deiliskipulagsáætlanir fyrir allar jarðir. Jákvæð afgreiðsla erindis kærenda hefði fordæmisgildi ef önnur samskonar umsókn bærist sveitarfélaginu. Því hafi hreppnum verið bæði heimilt og nauðsynlegt að setja sér margumrædda stefnu í aðalskipulagi.

Vísað sé til álits umboðsmanns Alþingis nr. 2556/1998, en þar segi m.a: „Sú hætta fylgir, þegar veitt er eitt byggingarleyfi í einu, án þess að fyrir liggi deiliskipulag, að tvö eða fleiri byggingarleyfi á reit hafi í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri reitsins enda þótt hvert byggingarleyfi eitt og sér hafi ekki slík áhrif. Þegar svo stendur á þróast byggð ekki í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags, […].“ Þó fjallað hafi verið um útgáfu byggingarleyfis í gildistíð eldri laga telur hreppurinn að sömu grundvallarsjónarmið eigi við í þessu máli.

Fyrir liggur að sveitarfélagið hafi markað sér þá stefnu að hafna umsóknum á borð við þá sem lögð var fram af hálfu kærenda um sameiningu lóða. Staðfesti annar kærandi þetta í athugasemdum við hina kærðu ákvörðun, en þar komi fram að fyrri umsóknum um sambærilegar afgreiðslur hafi verið hafnað. Hvergi komi fram að sveitarfélagið hafi einhverju sinni afgreitt sambærilegt erindi með jákvæðum hætti. Ástæða stefnunnar sé sú að ef sameiningar lóða utan deiliskipulagðra svæðis væru heimilaðar þá væri um leið verið að rýra gildi deiliskipulagsáætlana sem stjórntækis við þróun byggðar innan sveitarfélagsins, þ. á m. hvað varðar byggðamynstur, lóðir, þéttleika byggðar, nýtingarhlutfall o.fl.

Við skoðun fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar þar sem synjanir sveitarfélaga um sameiningu lóða hafi verið til umfjöllunar hafi nefndin staðfest slíkar synjanir með vísan til þess að viðkomandi sveitarfélög hafi getað fært málefnaleg rök fyrir þeim, sbr. t.d. kærumál nr. 16/2014 og 136/2017. Í umræddum úrskurðum sé vísað til þess að samkvæmt skipulagslögum sé skipulagsvald innan marka sveitarfélaga í höndum sveitarstjórna. Í umræddri 48. gr. laganna felist að lóðir verði ekki sameinaðar eða mörkum þeirra breytt án samþykkis sveitarstjórnar sem nefndin túlki svo að einstaklingar eigi ekki lögvarða kröfu um sameiningu lóða í þeirra eigu. Í áðurnefndum úrskurðum komi fram að viðkomandi sveitarfélög hafi mótað sér stefnu í skipulagsmálum þess efnis að draga skuli úr sameiningu lóða í frístundahúsahverfum af skipulagslegum ástæðum. Í fyrirliggjandi máli sé sveitarfélaginu því fært að vísa til fyrrnefndrar stefnu sem rökstuðnings fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Í skilmálum aðalskipulags um frístundabyggð séu settar fram hámarksviðmiðunarstærðir varðandi nýtingarhlutfall lóða, stærðir húsa, fjölda húsa á lóð o.fl. Í greinargerðinni segi m.a: „Vegna deiliskipulagsbreytinga þar sem stærðarskilmálar eru óljósir skal skipulags- og byggingarnefnd taka mið af nálægri byggð við endanlega ákvörðun um stærðir.“ Sveitarfélagið líti svo á að sameining lóða geti leitt til þess að ásýnd nánasta umhverfis breytist. Ekki sé fyrir hendi deiliskipulag sem skilgreini stærðir einstakra lóða en töluverð óvissa sé um stærðir lóða. Með setningu skilmála í aðalskipulagi um nýtingarhlutfall í frístundabyggðum hafi sveitarfélagið verið að nýta sér lagaheimildir til að setja fram viðmið um þéttleika frístundabyggðar og þar með stýra byggðamynstri umræddra svæða. Vegna óvissu um stærðir lóða sé ógerningur að reikna út nýtingarhlutfall og stýra byggðamynstri. Í því ljósi hafi sveitarfélaginu verið skylt að kalla eftir gerð deiliskipulags þar sem fram kæmu upplýsingar um lóðarstærðir og lóðamörk.

Í skipulagslögum sé hvergi að finna undanþáguákvæði frá skipulagsskyldu. Sveitarfélagið telji þess vegna að sér beri skylda til að deiliskipuleggja þau svæði innan marka sinna sem standi til að framkvæma á og þau svæði sem þegar hafi verið byggð, sbr. 12., 37. og 38. gr. skipulagslaga. Því eigi þau sjónarmið kærenda um fyrirsjáanlega erfiðleika við gerð deiliskipulags fyrir svæðið ekki við í málinu. Þá hafi kærendur árið 2007 látið vinna deiliskipulagsuppdrátt fyrir svæðið sem bendi til þess að gerð deiliskipulags sé umtalsvert minna mál en lýst sé í kæru. Það deiliskipulag hafi verið dregið til baka af kærendum en ljóst sé að grunnvinna sem unnin hafi verið á sínum tíma myndi nú nýtast við gerð deiliskipulagsáætlunar.

Kveðið sé á um það markmið í aðalskipulagi að gert verði heildstætt deiliskipulag um allar jarðir innan marka sveitarfélagsins, þ. á m. jarðir sem frístundabyggðir standi á. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þessa markmiðs á þann máta að skammstöfunin þ.e. hafi komið í stað skammstöfunarinnar þ. á m. Það sé vissulega óheppilegt og skiljanlegt að þetta hafi valdið misskilningi. Hins vegar geti ekki falist í þessu brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem umræddur texti sé tilvísun til fyrirliggjandi aðalskipulags sem leggi alla jarðareigendur að jöfnu.

Sveitarfélagið hafni því að um brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar sé að ræða. Löggjafinn hafi sett margvíslegar takmarkanir í tengslum við eignarréttindi manna en svigrúm til slíks sé sérstaklega ríkt þegar almannahagsmunir krefjist þess. Þær takmarkanir á eignarrétti sem kveðið sé á um í skipulagslögum falli undir framangreint viðmið. Sama gildi um ætluð brot á 75. gr. stjórnarskrárinnar um takmarkanir á atvinnurekstri. Þá verði ekki séð að í ákvörðun sveitar­félagsins felist álögur af hálfu hreppsins á kærendur og því ekki um brot á 77. gr. stjórnar­skrárinnar að ræða.

Sjónarmiði kærenda um brot á andmælarétti sé mótmælt. Öll rök og sjónarmið kærenda vegna málsins hafi legið fyrir við afgreiðsluna auk þess sem rökstuðningur ákvörðunarinnar hafi hvorki verið byggður á nýjum gögnum eða upplýsingum sem kærendum hafi verið ókunnugt um né á matskenndum atriðum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur mótmæla því að beiting lagaheimildar 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 feli í sér undanþágu. Þá sé fordæmisgildi slíkrar samþykktar takmarkað. Fordæmi eigi aðeins við ef um sambærilegar eða sams konar aðstæður sé að ræða. Úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem sveitarfélagið vísi til varði ekki sambærilega aðstöðu. Í kærumáli nr. 136/2017 hafi lóðir ekki legið saman og í kærumáli nr. 16/2014 hafi synjun verið byggð á formlegri stefnu í aðalskipulagi um tiltekinn brúttóþéttleika.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Verður því ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að umsókn þeirra verði samþykkt eða að lagt verði fyrir sveitarstjórn að samþykkja umsókn kærenda.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Var ákvörðunin rökstudd með vísan til þess að í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 komi fram það markmið sveitarfélagsins að heildstætt deiliskipulag verði unnið um hverja jörð, að sameining lóða utan deiliskipulagðra svæða hafi ekki verið samþykkt hjá sveitarfélaginu um langa hríð og að misræmi sé á milli raunstærða og skráðra stærða lóðanna.

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitar­félags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Að sama skapi ber sveitarstjórnum að afgreiða umsóknir um skiptingu jarða, landa eða lóða eða breyta landamerkjum og lóðamörkum skv. 48. gr. laganna. Einstakir aðilar eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn hins vegar að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Jafnframt skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 er lóðin Fitjahlíð 30 á svæði fyrir frístundabyggð. Í kafla aðalskipulagsins um meginmarkmið hreppsnefndar kemur fram um stefnumið byggðaþróunar að „heildstætt deiliskipulag verði unnið fyrir hverja „jörð“ (skilgr. laga 81/2004)“. Í kafla 5.1 í aðalskipulaginu er rakið að skv. 5. gr. jarðalaga nr. 81/2004 nái landbúnaðarsvæði yfir allt land jarða eða lögbýla sem ekki hafi verið tekið úr landbúnaðarnotum. Einnig segir að Skorradalshreppur telji réttmætt að skilgreina leigu á lóðum undir frístundahús sem landbúnað enda fari þá fram nýting auðlinda viðkomandi jarða til atvinnu- og verðmætasköpunar.

Svo sem fyrr er rakið færði hreppsnefnd m.a. fram þau rök fyrir hinni kærðu ákvörðun að með því að samþykkja umsókn kærenda á grundvelli 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga væri farið gegn þeirri stefnu aðalskipulags að heildstætt deiliskipulag verði unnið um hverja jörð. Telja verður að með samþykki umsóknar kærenda hefði ekki verið farið gegn umræddri stefnu enda ljóst að þar með hefði ekki verið girt fyrir að heildstætt deiliskipulag yrði síðar unnið fyrir jörðina. Aftur á móti verður að telja það sjónarmið hreppsnefndar að vilja ekki sameina lóðir utan deiliskipulagðra svæða vera málefnalegt og í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að ákvarðanir um skipulagsforsendur séu teknar í deiliskipulagi, sbr. 37. gr. laganna. Jafnframt færði hreppsnefndin þau rök fyrir ákvörðuninni að misræmi væri á milli raunstærða og skráðra stærða lóðanna. Bjuggu því bæði skipulags- og efnisrök að baki hinni kærðu ákvörðun en hafa þarf hliðsjón af því að vald til að skipuleggja land inna marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Þá verður ekki talið að við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið farið á svig við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga eða andmælarétt skv. 13. gr. laganna brotinn enda lágu öll nauðsynleg gögn og sjónarmið kærenda fyrir við afgreiðslu málsins.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 8. júlí 2020 um að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.