Ár 2011, miðvikudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 82/2010, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg í Mosfellsdal.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2010, er barst nefndinni 22. s.m., kærir M, Hraðastaðavegi 3, Mosfellsdal, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg. Gerir kærandi þá kröfu að afgreiðsla nefndarinnar verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. desember 2010 var tekin fyrir umsókn kæranda, dags. 2. nóvember s.á., um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg og var hún afgreidd með svohljóðandi hætti: „Skipulags- og byggingarnefnd er neikvæð fyrir erindinu þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir samræmast ekki gildandi aðal- og deiliskipulagi svæðisins.“ Þá kom fram að afgreiðsla nefndarinnar væri gerð með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og að kæranda yrði gert viðvart yrði afgreiðsla erindisins á annan veg í bæjarstjórn. Jafnframt var vísað til þess að unnt væri að kæra ofangreinda samþykkt til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Kærandi vísar m.a. til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni að Hraðastaðavegi 3a séu hvorki í andstöðu við aðalskipulag né deiliskipulag svæðisins sem geri ráð fyrir landbúnaðarbyggingu á lóðinni. Auk þess sé að finna fjölda fordæma í nágrenninu.
Af hálfu bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi ekki verið lokaákvörðun í málinu. Bent sé á að umsóknargögnum, sem lögð hafi verið inn hjá embætti byggingarfulltrúa, hafi í ýmsu verið ábótavant með tilliti til gildandi deiliskipulags og hafi kæranda verið gerð grein fyrir því. Jafnframt sé vísað til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. janúar 2011, þar sem veittur hafi verið frestur til að bæta úr og undirstriki það að stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tekin í málinu.
Niðurstaða: Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs skipulagsfulltrúans í Mosfellsbæ, dags. 7. desember 2010, þar sem gerð var grein fyrir afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg, Mosfellsdal. Samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar greinda afgreiðslu á fundi hinn 15. desember s.á. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. mars 2011 samþykkt umsókn kæranda, dags. 4. mars s.á., um byggingu fjölnotahús á umræddri lóð. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 16. mars s.á.
Miðað við framanritað verður að fallast á að hin kærða ákvörðun hafi ekki bundið endi á meðferð málsins og hafi því ekki verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga 37/1993. Þá liggur fyrir að umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss hefur nú verið samþykkt af hálfu bæjaryfirvalda og verður því að telja að kærandi eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti fyrrgreindrar afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 7. desember 2010. Leiðir þetta hvort tveggja til frávísunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson