Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2008 Reynisvatnsheiði

Ár 2008, fimmtudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2008, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. nóvember 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna miðlunargeyma Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði er fól í sér stækkun lóðar undir miðlunargeyma og manar auk færslu og stækkunar byggingarreita. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. febrúar 2008, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, eiganda landspildu í landi Reynisvatns, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. nóvember 2007 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna miðlunargeyma Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði er fól í sér stækkun lóðar undir miðlunargeyma og manar auk færslu og stækkunar byggingarreita.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Umrætt svæði Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Á árinu 2003 tók gildi deiliskipulag er tekur til svæðisins.  Þar var athafnasvæði Orkuveitunnar skipt upp í tvær lóðir, byggingarreitir markaðir og heimiluð bygging sex miðlunargeyma, til viðbótar þeim tveimur sem fyrir voru, og bygging 600 fermetra dæluhúss. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 11. júlí 2007 var tekin fyrir umsókn Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 5. júlí 2007, um breytingu á deiliskipulagi vegna miðlunargeyma fyrirtækisins á Reynisvatnsheiði skv. fyrirliggjandi uppdrætti, dags. 5. júlí 2007.  Óskað var eftir heimild til að stækka lóð undir miðlunargeyma, stækka mögulega mön og færa og bæta við byggingarreiti á lóð.  Samþykkti ráðið að auglýsa framlagða tillögu og vísaði málinu til borgarráðs er staðfesti afgreiðsluna hinn 12. sama mánaðar. 

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 21. nóvember 2007 þar sem fyrir lágu athugasemdir frá kæranda við deiliskipulagstillöguna, sem borist höfðu á kynningartíma hennar, ásamt umsögn umhverfisstjóra skipulags- og byggingarsviðs, dags. 15. nóv. 2007, vegna athugasemdanna.  Samþykkti skipulagsráð skipulagstillöguna með vísan til áðurgreindrar umsagnar og staðfesti borgarráð þá samþykkt á fundi sínum hinn 29. nóvember 2007.  Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2008.  Hefur kærandi skotið þessari skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir, að því er umrætt svæði varði, séu ekki í innbyrðis samræmi og í andstöðu við 9. gr. skipulags- og byggingarlaga. Á landspildu kæranda hafi verið stundaður landbúnaður, þ.e. kartöfluframleiðsla, garðyrkja og skógrækt, og sé kæranda ekki kunnugt um að hún hafi verið tekin úr þeim notum.  Ekki hafi verið haft samráð við landeigendur við skipulagsgerð.  Telja verði það andstætt lögum að hægt sé að taka lóðarspildu við hliðina á landi kæranda undir dæluhús eftirá og breyta landnotkun.  Hætta stafi frá miðlunargeymunum, valdi óhapp eða bilun rofi á þeim með tilheyrandi flaumi heits vatns niður að landi kæranda.  Ítrasta öryggis sé ekki gætt, svo sem með malbikun svæðisins, niðurföllum og öryggismön umhverfis vatnstankana við upphaf framkvæmda, en slys af þeim toga sem hér um ræði hefði í för með sér tilfinnanlegt tjón fyrir kæranda.  Telji kærandi sig hafa orðið fyrir tjóni þar sem framtíðarmöguleikar, fyrirhuguð þróun og uppbygging á landspildu hans sé skert.  Þá hafi að mati kæranda átt að fara með umdeilda skipulagstillögu skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Auglýsing og samþykkt borgarráðs á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé ólögmæt.  Fyrri deiliskipulagsákvörðun, sem nú sé verið að breyta, hafi verið andstæð lögum þar sem ekki hafi verið fylgt lögformlegu ferli við meðferð hennar.  Borgarráð hafi hinn 14. janúar 2003 einungis verið að samþykkja að auglýsa tillöguna, en ekki tillöguna sjálfa.  Þetta eigi að leiða til þess að fella beri úr gildi deiliskipulagið sem hér sé til umfjöllunar.  Þar að auki hafi deiliskipulagstillagan verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda án þess að geta þeirra breytinga sem samþykktar voru 8. nóvember 2007 eða eftir kynningu hennar.  Tillagan hafi ekki verið kynnt í samræmi við 2. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem tekið hafi verið fram í hinni auglýstu tillögu.  Kærandi hafi skilað inn athugasemdum sínum en honum sé ekki ljóst hvað samþykkt hafi verið og hvort tillit hafi verið tekið til umsagnar umhverfisstjóra frá 15. nóvember 2007. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að í gildi sé Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðsherra árið 2003.  Hin samþykkta deiliskipulagstillaga byggi á nefndu aðalskipulagi og sé í samræmi við það.  Um sé að ræða opið svæði til sérstakra nota en þar sé heimilt að vera m.a. með orkumannvirki samkvæmt aðalskipulaginu.  Umrædd stækkun sé alfarið á landi í umsjá og eigu Reykjavíkurborgar burt séð frá staðgreini einstakra landspilda.  Því sé ekki hægt að fallast á þá fullyrðingu að tillagan samræmist ekki lögum. 

Umdeild breyting feli aðeins í sér að áður samþykkt dæluhús á lóðinni sé fært til en ekki sé verið að breyta deiliskipulagi til þess að koma fyrir nýju dæluhúsi, eins og ráða megi af málatilbúnaði kæranda.  Ekki verði séð að þessi breyting rýri notagildi og verðgildi spildu kæranda enda hafi engin rök verið færð fram fyrir þeim fullyrðingum.  Þá sé rétt að árétta að þrátt fyrir að komist væri að þeirri niðurstöðu að breyting á skipulagi hefði í för með sér bótaskylt tjón leiði það eitt og sér ekki til ógildingar skipulagsins. 

Samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda falli framkvæmdin, sem hin kærða deiliskipulagsbreyting heimili, ekki undir þau sbr. ákvæði 1. og 2. viðauka laganna. 

Hvað varði þá málsástæðu kæranda, að ógilda beri hina samþykktu deiliskipulagsbreytingu þar sem fyrri deiliskipulagstillaga hafi verið ólögmæt, sé tekið fram að sú tillaga hafi verið auglýst með samþykki borgarráðs, dags. 21. janúar 2003, en engar athugasemdir hafi borist innan athugasemdafrests.  Hafi tillagan því ekki þurft að fara aftur fyrir borgarráð skv. heimild í b. lið 2. gr. viðauka 2.4 um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa.  Meðferð fyrri deiliskipulagstillögu hafi því verið fullkomlega lögmæt. 

Deiliskipulagsbreyting sú sem hér sé til umfjöllunar sé að efni til og hvað málsmeðferð varði í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsráð hafi samþykkt að auglýsa tillöguna hinn 11. júlí 2007 í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og hafi tillagan verið til kynningar frá 27. júní til 8. ágúst 2007.  Ekki sé gert ráð fyrir því í lögunum að kynna þurfi tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á annan hátt. 

Tekið hafi verið tillit til framkominna athugasemda kæranda við meðferð deiliskipulagstillögunnar og samþykkt að sett yrði í skilmála skipulagsins að óheimilt sé að nota lóðina sem geymslusvæði eða ráðstafa hlutum hennar til annarra nota en fyrir miðlunargeyma og tengd mannvirki.  Einnig hafi í deiliskipulaginu verið gert ráð fyrir „mögulegri mön“ umhverfis umrædda vatnsmiðlunartanka.  Tillaga umhverfisstjóra þess efnis, að gerð verði krafa um að mönin verði skilyrt í deiliskipulaginu og að ráðist verði í framkvæmd hennar eða hluta hennar samhliða annarri uppbyggingu á lóðinni, hafi verið samþykkt.  Telja verði að þær ráðstafanir muni draga verulega úr því ónæði sem sumarhúsaeigendur á svæðinu kunni að verða fyrir vegna framkvæmda.  Þannig verði gert ráð fyrir að sá hluti jarðvegsmanarinnar sem snúi að sumarhúsunum komi samhliða uppbyggingu á dæluhúsi á reit E. 

Niðurstaða:  Deiliskipulag umrædds svæðis frá árinu 2003 tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. maí það ár.  Lögmæti þess skipulags kemur ekki til skoðunar í máli þessu sökum þess að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er löngu liðinn vegna þeirrar skipulagsákvörðunar.  Umrætt deiliskipulag frá árinu 2003 verður því lagt til grundvallar í máli þessu um önnur atriði en felast í hinni kærðu skipulagsbreytingu. 

Deiliskipulagsbreyting sú sem er til umfjöllunar í máli þessu felur fyrst og fremst í sér færslu á byggingarreit dæluhúss til norðvesturs og lengingu lóðar undir miðlunargeyma um 30 metra til norðvesturs en lóð kæranda er í nokkurri fjarlægð í suðvesturátt frá umræddum mannvirkjum.  Að lokinni kynningu breytingartillögunnar skv. 25. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 mun hafa verið gerð breyting á skipulagsskilmálum vegna framkominna athugasemda kæranda.  Laut breytingin að því að gerð skuli öryggismön umhverfis miðlunargeyma samhliða uppbyggingu lóðarinnar og að óheimilt sé að nota svæðið sem geymslusvæði eða ráðstafa því eða hlutum þess til annarra nota en fyrir miðlunargeyma og tengd mannvirki.  Þegar þetta er virt verður ekki séð að deiliskipulagsbreytingin raski grenndarhagsmunum kæranda sérstaklega þegar haft er í huga að fyrrgreint dæluhús færist fjær landi kæranda og mun standa lægra vegna landhalla en fyrir breytinguna, auk þess sem komið var til móts við athugasemdir hans varðandi öryggismön og notkun svæðisins. 

Hin kærða deiliskipulagsbreyting fer ekki í bága við landnotkun umrædds svæðis svo sem hún er skilgreind í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Samkvæmt gr. 3.1.9.1 í kafla greinargerðar aðalskipulagsins um opin svæði til sérstakra nota er tekið fram að þar megi gera ráð fyrir veitumannvirkjum, s.s. dælu-, fráveitu-, og spennistöðvum, sem afmörkuð verði í deiliskipulagi umrædds svæðis.  Þá verður sá annmarki á kynningaruppdrætti hins kærða deiliskipulags, að í texta er að finna tilvísun í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga um málsmeðferð tillögunnar, ekki talin hrófla við gildi umræddrar skipulagsbreytingar.  Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar var samkvæmt 25. gr. laganna, eins og áður er að vikið, og kemur það fram á staðfestum skipulagsuppdrætti.  Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eiga við um leyfi til einstakra framkvæmda en taka ekki til skipulagsákvarðana, enda felur skipulag almennt aðeins í sér heimildir til einstakra framkvæmda sem ekki verður ráðist í nema að veittum framkvæmda- eða byggingarleyfum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem eftir atvikum verða ekki gefin út nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. 

Að framangreindu virtu verður ekki talið að form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geti til ógildingar hennar og verður kröfu kæranda í þá veru hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. nóvember 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna miðlunargeyma Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði. 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________             ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson