Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/1998 Síðumúli

Ár 1998, fimmtudaginn 7. maí kl. 11.30, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/1998; 98030004

Kæra íbúðareiganda að Háaleitsbraut 117 í Reykjavík vegna útgáfu byggingarleyfis  til að reisa fjarskiptamastur á lóðinnni nr. 28 við Síðumúla í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. mars 1998, kærir A, Háaleitisbraut 117, Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18.12. 1997 um að leyfa Mótás ehf. að byggja 30 metra hátt fjarskiptamastur úr stáli með tilheyrandi búnaði  á suðurmörkum lóðarinnar nr. 28 við Síðumúla í Reykjavík.

Þess er krafist að framangreind ákvörðun byggingarnefndar verði felld úr gildi. Um kæruheimild er vísað til skipulags- byggingarlaga nr. 73/1997.

Með bréfum nefndarinnar, dags. 11. mars 1998, var framangreint kærubréf kynnt byggingarnefnd Reykjavíkur og óskað umsagnar og byggingarleyfishafa gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Jafnframt var sama dag óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar skv. e-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Umsögn byggingarnefndar barst nefndinni með bréfi byggingarfulltrúa dags. 30. mars 1998  og umsögn Skipulagsstofnunar í bréfi dags. 31. mars 1998. Athugasemdir byggingarleyfishafa bárust í bréfi í bréfi dags. 27. apríl 1998. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um framkomnar umsagnir og athugasemdir með bréfi  dags.30. apríl 1998 og veittur frestur til þess til 6. þessa mánaðar.  Engin andsvör hafa borist frá kæranda vegna þessa bréfs.

Málsatvik:  Hinn 22. október 1997 sótti Mótás ehf., vegna Íslenska farsímafélagsins ehf., um leyfi til að  reisa 25 metra  hátt grindarmastur  í norð-vesturhorni lóðarinnar nr. 28 við Síðumúla, samkvæmt teikningu Teiknistofunnar Ármúla 6. Samkvæmt teikningunum var fjarlægð í húshorn á Háaleitisbraut 117  67 metrar. Með umsókninni fylgdi umsögn um erindið frá fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 13. sama mánaðar þar sem fallist er á erindið en lögð áhersla á að ekki verði leyfðar auglýsingar á mastrið. Byggingarnefnd frestaði erindinu og samþykkti að senda það í grenndarkynningu, sbr. 2. mgr. gr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992.

Umsóknin var lögð fram í byggingarnefnd að nýju þann 27. nóvember 1997 en þá lágu fyrir athugasemdir nágranna. Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað á fundinum og byggingarfulltrúa falið að taka málið til frekari skoðunar. Fulltrúar umsækjanda gerðu grein fyrir umókninni og svöruðu fyrirspurnum á kynningarfundi sem byggingarfulltrúi og Borgarskipulag héldu með nágrönnum þann 15. desember 1997. Með hliðsjón af ábendingum og athugasemdum sem komu fram á fundinum lét Íslenska farsímafélagið ehf. vinna  nýja tillögu að staðsetningu mastursins og útfærslu þess og voru helstu breytingar þessar: Í stað grindarmastur er mastrið lokað rör um 1 metri í þvermál við jörð en 0,5 m í toppi. Mastrið er flutt úr norð- vestur horni lóðarinnar að suðurmörkum hennar þannig að það rís upp úr húsaþyrpingunni á lóðunum Síðumúla 28 og 30. Fjarlægð í húshorn á Háaleitisbraut 117 verður 112 m  í stað 67 m. Mastrið er hækkað í 30 metra en vegna breyttrar staðsetningar hækkar topppunktur þess þó aðeins um 1,65 metra. Tækjabúnaður verður utan við vesturlóðarmörk Síðumúla 28, á opnu svæði milli lóðar og gangstígs á 18 fermetra reit sem umgirtur er 2ja metra hárri trégirðingu. Umsóknin var þannig samþykkt á fundi byggingarnefndar þann 18. desember 1997. Á þeim fundi lágu m.a. fyrir ljósmyndir teknar úr íbúð á 3. hæð fjölbýlishússins nr. 117 við Háaleitisbraut, sem fyrirhugað mastur hafði verið teiknað inn á bæði samkvæmt fyrri og endanlegri tillögu. Einnig lá fyrir bréf frá Geislavörnum ríkisins, dags. 15. desember 1997, þar sem fram kemur að miðað við hæð mastursins og fjarlægð þess frá íbúðarhúsum og þær upplýsingar sem liggi fyrir um  staðsetningu og afl farsímasendanna og þá geislun sem um sé að ræða sé það mat Geislavarna ríksins að íbúum í Háaleitishverfi stafi ekki heilsufarsleg hætta af mastrinu.  Mastrið hefur nú verið reist og hafa nefndarmenn skoðað útlit þess og afstöðu til nærliggjandi húsa en ekki þótti þörf formlegrar vettvangsgöngu í málinu.

Röstuðningur kæranda, byggingarleyfishafa og byggingarnefndar:  Kæran í máli þessu lýtur einungis að byggingu sjálfs fjarskiptamastursins en ekki að frágangi búnaðar á áðurnefndu svæði utan vesturlóðarmarka Síðumúla 28.  Kærandi telur sjónmengun vera af mastrinu enda blasi það við frá stofu- og eldhúsglugga íbúðar sinnar og telur það geta rýrt verðgildi hennar.  Þá lýsir kærandi áhyggjum af aukinni geislun með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heilsufar sitt.  Ekki hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum auk þess sem mastrið sé ekki inni á skipulagi svæðisins.

Í athugasemdum byggingarleyfishafa segir að staðið hafi verið rétt að öllum undirbúningi mastursbyggingarinnar.  Umsókn um leyfi til byggingar þess hafi fengið ítarlega umfjöllun í nefndum Reykjavíkurborgar. Staðsetningu og gerð mastursins hafi verið breytt vegna athugasemda frá íbúum í nágrenninu. Byggingar á lóðinni hafi fremur bætt ásýnd hennar en spillt henni. Að lokum megi benda á að fordæmi séu fyrir fjarskiptabúnaði við byggingar í nágrenninu, því að á þaki Landsímahússins við Ármúla 25 sé  allmikill fjarskiptabúnaður.
 
Í umsögn byggingarnefndar er lagst gegn því að krafa kæranda verði tekin til greina. Ekki verði séð að bygging mastursins í meira en 110 metra fjarlægt hafi nein áhrif á útsýni úr gluggum íbúðar kæranda eða geti lækkað sölverð íbúðarinnar í framtíðinni. Hinsvegar megi leiða líkur að því að uppbygging og frágangur þess svæðis sem áður hýsti fangelsisbyggingu með ófrágenginni lóð muni verða til þess að auka verðgildi íbúða í næsta nágrenni.

Niðurstaða:  Uppsetning fjarskiptamasturs á lóðinni nr. 28 við Síðumúla brýtur ekki í bága við skipulag. Umsókn um leyfi fyrir byggingu þess var kynnt nágrönnum með lögformlegum hætti og komið til móts við sjónarmið þeirra. Ekki verður á það fallist með kæranda að mastrið í rúmlega 110 metra fjarlægð frá íbúð hennar valdi verulegri sjónmengun eða komi til með að lækka söluverð íbúðarinnar í framtíðinni. Að mati Geislavarna ríkisins er íbúum í Háaleitishverfi ekki heilsufarsleg hætta búin vegna geislunar frá mastrinu. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum eru byggingar fjarskiptamastra ekki matsskyldar framkvæmdir. Með vísun til framanritaðs eru ekki efni til að verða við kröfum kæranda.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. desember 1997 um að veita Mótási ehf. v. Íslenska farsímafélagsins ehf. leyfi til að reisa 30 metra hátt fjarskiptamastur úr stáli á suðurmörkum lóðarinnar nr. 28 við Síðumúla ásamt tilheyrandi búnaði við vesturmörk lóðarinnar skal standa óbreytt.