Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/1998 Þórsgata

Ár 1998, þriðjudaginn 12. maí kl. 12:00 kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður ad hoc, Þorsteinn Þorsteinsson verkfræðingur, aðalmaður í nefndinni og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl, varamaður Hólmfríðar Snæbjörnsdóttur lögfræðings, sem vikið hefur sæti í máli þessu.

Fyrir var tekið mál nr. 10/1998:

Kæra eigenda húsnæðis að Óðinsgötu 7 og 9 vegna byggingarleyfis að Þórsgötu 2.
 
Fyrir er tekin krafa kærenda um stöðvun framkvæmda og er nú um þann þátt málsins kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru dags. 06.04. kæra sex eigendur húsnæðis að Óðinsgötu 7 og 9 í Reykjavík  útgáfu og staðfestingu byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Þórsgötu 2, Reykjavík en byggingarleyfið var afgreitt á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 26.03. 1998 og staðfest í borgarstjórn 02. 04. sl.

Af hálfu kærenda er þess eindregið krafist, að úrskurðarnefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda af hálfu byggingarleyfishafa. Framkvæmdir hafi verið komnar nokkuð á veg þegar úrskurður Umhverfisráðuneytisins hafi verið kveðinn upp um niðurfellingu þágildandi byggingarleyfis og að þær hafi þegar verið hafnar aftur samkvæmt því leyfi, sem staðfest var í borgarstjórn þann 02.04. 1998.

Í bréfi lögmanns kærenda, er barst nefndinni á símbréfi hinn 11. maí 1998 kl. 17:30,  eru sjónarmið þeirra reifuð nánar.  Að því er varðar kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda er vitnað til þeirrar afstöðu, sem fram kemur í úrskurði Umhverfisráðuneytisins frá 20.11. 1997, “að nýbygging sú sem byggingarleyfið var veitt fyrir, sé stærri og meiri og skerði hagsmuni kærenda í ríkara mæli en þeir hefðu mátt ætla með tilliti til aðalskipulags Reykjavíkur 1990 – 2010 og greinargerðar með því.”  Þá er vísað til 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Telja kærendur hinar umdeildu framkvæmdir ekki samrýmast þeim skipulagsreglum sem fram koma ’ nefndu ákvæði.  Stjórnvöld, þ. m. t. sveitarstjórn, og eigendur fasteigna séu bundnir af þeirri áætlun sem fram komi í skipulagi um það hvernig nýta megi fasteignir á ákveðnu svæði.  Nýting einnar fasteignar geti haft afgerandi áhrif á hagnýtingu nágrannaeigna.  Það mál, sem hér sé til meðferðar, sé dæmigert fyrir þær aðstæður að frávik einnar byggingar frá því skipulagi sem fyrir sé hafi veigamikil áhrif á nýtingu annarra eigna á sama svæði og skerði hagsmuni eigenda þeirra.

Framkvæmdum við bygginguna vindi hratt fram. Nái framkvæmdir á það stig að miklir fjárhagslegir hagsmunir fari forgörðum við niðurrif mannvirkisins kunni úrskurður úrskurðarnefndar um að fella byggingarleyfið úr gildi að vera haldlaus. Byggingarleyfishafi kunni að ávinna sér rétt með byggingarframkvæmdum á grundvelli byggingarleyfis sem síðar kunni að verða fellt úr gildi.  Þannig sé einungis hægt að tryggja hagsmuni kærenda svo viðunandi sé með því að stöðva framkvæmdir til bráðabirgða meðan beðið sé endanlegrar afgreiðslu málsins.  Önnur úrræði séu óviðunandi og hagsmunir byggingarleyfishafa ekki eins ríkir og hagsmunir kærenda.  Breyti þar engu um sjónarmið byggingarleyfishafa sem fram komi í athugasemdum hans dags. 27. apríl 1998.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfunni um bráðabirgðabann við framkvæmdum harðlega mótmælt. Hann hafi þegar orðið fyrir miklu tjóni vegna mótmæla kærenda, sem hafi m.a. leitt til tafa á byggingaframkvæmdum. Nú séu þenslutímar á sviði byggingariðnaðarins og stöðvun framkvæmda nú myndi leiða til þess, að hann myndi missa frá sér þann mannskap, sem hann hefði ráðið til starfa. Starfsmenn færu annað og allt væri í óvissu með hvernig til tækist að ráða nýja menn. Yrðu framkvæmdir stöðvaðar við þessar aðstæður væri hætta á enn stórfelldara tjóni byggingaraðilans en þegar væri orðið.

Það sé viðurkennd grundvallarregla í lögfræðinni, að minni hagsmunir skuli víkja fyrir meiri hagsmunum. Hagsmunir byggingaraðilans af því að fá að halda framkvæmdum óhindrað áfram séu tvímælalaust mun ríkari heldur en hagsmunir kærenda af hinu gagnstæða. Mjög óráðlegt sé því að úrskurða um bráðabirgðastöðvun á framkvæmdum í þessu máli, þar sem slíkur úrskurður hljóti að útheimta rækilega könnun á efnisatriðum þessa máls, rétt eins og endanleg efnisniðurstaða málsins.

Mál þetta var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 06.04. 1998. Á fundi nefndarinnar þann 15.04. 1998 ákvað formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson hrl., að lýsa sig vanhæfan til setu í henni vegna þessa tiltekna máls og tók þá sæti hans Ásgeir Magnússon hrl., sem ráðherra skipaði ad hoc sem formann nefndarinnar vegna þessa.
Með bréfi dagsettu þann sama dag var byggingaraðila gefinn frestur til 28.04. 1998 til að tjá sig um kæruna og gera athugasemdir ef um þær væri að ræða. Þær athugasemdir bárust með bréfi Magnúsar Thoroddsen hrl. ds. 27.04. 1998.
Þann sama dag var síðan kærendum sent bréf þar sem þeim var gefinn kostur á að koma að sínum athugasemdum við röksemdir byggingaraðila. Úrskurðarnefndin gekk á vettvang með málsaðilum 08.05. 1998.

Krafa kærenda um stöðvun framkvæmda er sett fram með heimild í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar segir að komi fram í ágreiningsmáli krafa um stöðvun framkvæmda skuli úrskurðarnefnd þegar í stað kveða upp úrskurð um það atriði.

Úrskurðarnefndin lítur svo á, að skýra verði fyrrgreint orðalag nefndrar 8. gr. með hliðsjón af málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og slíkur bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda verði vart kveðinn upp nema að málsaðilum hafi áður gefist kostur á að skýra sjónarmið sín með fullnægjandi hætti.  Þá verði við úrlausn þessa þáttar málsins að líta til þeirra sjónarmiða er liggja til grundvallar ákvæðis 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að fengnum umsögnum byggingarnefndar Reykjavíkur og Skipulags-stofnunar, og að virtum framlögðum gögnum og þeim sjónarmiðum og lagarökum sem fram hafa komið hjá málsaðilum, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki séu efni til að verða við kröfu kærenda um stöðvun byggingarframkvæmda á lóðinni að Þórsgötu 2, Reykjavík, á meðan beðið er úrskurðar nefndarinnar um hvort fellt skuli úr gildi hið umdeilda byggingarleyfi, sem samþykkt var af byggingarnefnd Reykjavíkur 26.03. 1998 og staðfest í borgarstjórn 02.04. 1998.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að allar byggingarframkvæmdir á lóðinni að Þórsgötu 2, Reykjavík, séu stöðvaðar á meðan niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar er beðið um hvort fellt skuli úr gildi byggingarleyfi vegna lóðarinnar til handa Kristjáni G. Tryggvasyni, sem samþykkt var í byggingarnefnd Reykjavíkur 26. 03. 1998 og staðfest í borgarstjórn 02.04. 1998.