Fyrir var tekið mál nr. 78/2015, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar um álagningu rafveitueftirlitsgjalds.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Íslensk orkuvirkjun Seyðisfirði ehf. ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 9. júní 2015 um að innheimta rafveitueftirlitsgjald vegna ársins 2014, með gjalddaga 1. júlí 2015.
Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 15. október 2015.
Málavextir: Með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 26. mars 2015, var kæranda tilkynnt um skyldu rafveitna til greiðslu rafveitueftirlitsgjalds til stofnunarinnar skv. 9. gr. reglugerðar nr. 678/2009 um raforkuvirki. Skyldi gjaldið reiknast af heildartekjum af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Skyldi gjaldið vera 0,8%. Var óskað eftir gjaldskyldum sölutölum áranna 2011-2014 og greiðslu rafveitueftirlitsgjalds fyrir sömu ár.
Með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 9. júní 2015, var kæranda tilkynnt að honum bæri að standa skil á rafveitueftirlitsgjaldi, en komið hefði í ljós að aðeins hluti rafveitna sem stunduðu raforkusölu hefðu staðið skil á umræddu gjaldi, sem væri lagt á samkvæmt heimild í 1. og 4. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996, sbr. og 9. gr. reglugerðar nr. 678/2009 um raforkuvirki. Þar sem mörgum rafveitum, sem nýlega hefðu hafið rekstur, virtist ekki hafa verið kunnugt um greiðsluskylduna hefði Mannvirkjastofnun ákveðið að afla einungis upplýsinga um sölutölur árið 2014 og takmarka innheimtu gjaldsins við það ár hjá þeim sem ekki hefðu staðið skil á því áður. Jafnframt var athygli vakin á skyldum til upplýsingagjafar til stofnunarinnar og greiðslu gjaldsins fyrir árið 2015 og til framtíðar.
Með bréfi til Mannvirkjastofnunar, dags. 8. september 2015, gerði kærandi athugasemdir við álagningu rafveitueftirlitsgjaldsins. Lýsti hann því yfir að gjaldið yrði greitt með fyrirvara fyrir árið 2014. Samkvæmt útfylltri greiðsluskýrslu kæranda var gjaldstofn álagningar gjaldsins fyrir árið 2014 kr. 253.593.967, en 0,8% af þeirri upphæð kr. 2.028.752. Kærandi kærði álagninguna til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 15. s.m., eins og áður sagði.
Málsrök kæranda: Kærandi telur álagningu rafveitueftirlitsgjaldsins ósanngjarna, ásamt því að undanþága vegna sölu til ákveðinna fyrirtækja standist varla lög og reglur um jafnræði í stjórnsýslunni. Í gr. 9.1 í reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki séu talin upp fyrirtæki sem undanþegin séu gjaldinu. Þar á meðal séu Íslenska járnblendifélagið og Íslenska álfélagið, ásamt öðrum iðjuverum sem undanþegin kunni að vera með lögum. Gjaldið sé lagt á framleiðendur og seljendur rafmagns og sé ætlað til þess að standa undir yfireftirliti Mannvirkjastofnunar með framleiðendum, landsneti og dreifiveitum.
Kostnaður við að hafa eftirlit með kerfinu sé ákveðinn og fastur á hverju ári. Hann breytist ekki við það að ákveðnir aðilar séu undanþegnir greiðslu. Með því að veita undanþágu til fyrirtækja sem nýti um 80% af allri raforku í landinu sé ljóst að gjaldið sem aðrir þurfi að greiða sé fimmfalt það sem það annars væri. Þeir sem eftir standi þurfi því í raun að greiða fyrir hina. Sé það vilji löggjafans að stórnotendur séu undanþegnir eftirlitsgjaldi þyrfti ríkið sjálft að greiða til Mannvirkjastofnunar eftirlitsgjald þessara fyrirtækja þannig að upphæð gjaldsins miðaðist við að allir notendur væru að greiða. Með því móti væri gjaldið líklega um 0,16% af veltu en ekki 0,8%, sem sé verulega íþyngjandi fyrir rekstur sem þennan.
Kærandi selji alla sína framleiðslu til HS Orku hf. Það félag sé einnig í orkuframleiðslu og selji orku bæði til þeirra sem séu undanþegnir gjaldinu og svo inn á almennan markað. Þar af leiðandi geti fyrirtækið skilgreint orku sem það framleiði sjálft sem undanþegna orku en orku sem það kaupi af öðrum sem orku til almennra nota, sem þegar sé búið að greiða af. Í þessu felist veruleg ósanngirni þar sem gjaldið leggist mjög misþungt á framleiðendur.
Vart verði séð að gjaldið standist jafnréttissjónarmið. Þótt heimilt sé samkvæmt lögum að veita undanþágur frá sköttum í fjárfestingasamningum við stærri fyrirtæki verði ekki séð hvernig undanþága frá rafveitueftirlitsgjaldi standist skoðun, þegar veiting hennar verði til þess að aðrir aðilar kerfisins þurfi að standa straum af undanþágunni en ekki ríkið.
Þess sé krafist að gjaldið verði fellt niður, íslenska ríkinu gert að greiða hlutdeild stórnotenda eða að undanþága til stórnotenda verði felld úr gildi.
Málsrök Mannvirkjastofnunar: Stofnunin kveður umrædda innheimtu rafveitueftirlitsgjalds byggja á ákvæðum laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, og ákvæðum reglugerðar nr. 678/2009 um raforkuvirki. Sé Mannvirkjastofnun ætlað að annast innheimtu þess. Meginhluti kærunnar varði gagnrýni á það að stórnotendur skuli undanþegnir gjaldtökunni en skýrt sé kveðið á um þá undanþáguheimild í 1. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996. Stofnunin telji það ekki vera hlutverk sitt að taka afstöðu til réttmætis slíkrar undanþágu, sem byggi á skýrum ákvæðum laga.
Samkvæmt skilgreiningu í 3. gr. laga nr. 146/1996 sé rafveita fyrirtæki sem framleiði, flytji, dreifi og/eða selji rafmagn. Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga og reglugerðar sé ákveðið prósentugjald lagt á heildartekjur af raforkusölu og/eða raforkuframleiðslu rafveitna, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Innheimta rafveitueftirlitsgjalds skv. lögum nr. 146/1996 snúi bæði að framleiðendum og seljendum raforku og takmarkist ekki við þá sem hafi leyfi til að stunda raforkuviðskipti samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003.
Gjaldskyldur aðili skuli ótilkvaddur mánaðarlega skila skýrslu til Mannvirkjastofnunar ásamt greiðslu skv. gr. 9.5 í reglugerð nr. 678/2009. Í skýrslunni komi fram fjárhæð raforkukaupa og raforkusölu í síðasta almanaksmánuði, allir gjalda- og skattstofnar, svo og gjald það sem inna beri af hendi. Skili gjaldskyldur aðili ekki skýrslu á réttum tíma skuli stofnunin áætla orkusölu þess aðila á grundvelli raforkusölu síðustu 12 mánaða og annarra atriða er máli skipti.
Við athugun hjá Mannvirkjastofnun hafi komið í ljós að einungis hluti rafveitna sem stundi raforkusölu/framleiðslu hafi staðið skil á umræddu gjaldi. Hafi stofnunin ákveðið að afla einungis upplýsinga um sölutölur árið 2014 og takmarka innheimtu gjaldsins við það ár, hjá þeim sem ekki hafi staðið skil á því áður, en jafnframt vekja athygli rafveitnanna á skyldum þeirra til upplýsingagjafar og greiðslu gjaldsins fyrir árið 2015 og til framtíðar.
Niðurstaða: Samkvæmt gögnum málsins voru greiðendur hins umdeilda rafveitueftirlitsgjalds, þ. á m. kærandi, áminntir um skyldu til greiðslu gjaldsins með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 26. mars 2015. Í bréfinu var beðið um gjaldskyldar sölutölur áranna 2011-2014 og upplýsingar um greiðslu eftirlitsgjaldsins fyrir sömu ár. Með bréfi, dags. 9. júní s.á., var greiðendum tilkynnt um að ákveðið hefði verið að takmarka innheimtu við árið 2014 hjá þeim sem ekki hefðu staðið skil á gjaldinu áður og var gjalddagi ákveðinn 1. júlí 2015. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu, en kæra barst 15. september s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Til þess ber þó að líta að engar leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufrest var að finna í áðurnefndu bréfi Mannvirkjastofnunar og sama máli gegnir um eyðublað stofnunarinnar fyrir skýrslu um rafveitueftirlitsgjald. Með vísan til þessa verður það talið afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að fresti liðnum og verður málið tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærandi krefst þess að hið kærða gjald verði fellt niður, íslenska ríkinu gert að greiða hlutdeild stórnotenda eða að undanþága til stórnotenda verði felld úr gildi. Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, sem felst í kröfu um niðurfellingu gjaldsins, en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.
Heimild til álagningar hins umdeilda rafveitueftirlitsgjalds er að finna í 1. og 4. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Í lögunum er gjaldið tilgreint í tvennu lagi, en samanlagt er það 0,8%. Annars vegar er um að ræða gjald skv. 1. tölul. vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar með rafveitum og skal það gjald nema allt að 0,2% af heildartekjum rafveitu af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti. Hins vegar er í nefndum 4. tölul. kveðið á um heimild til innheimtu á gjaldi vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin láti framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri og þrátt fyrir ákvæði annarra laga um rafveitur skuli það gjald nema allt að 0,6% af heildartekjum rafveitna af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti.
Í reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki er fjallað um eftirlitsgjöld í 9. gr. og í gr. 9.1 er rafveitueftirlitsgjald skilgreint sem gjald vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar með rafveitum og neysluveitum og þeirra úrtaksskoðana sem stofnunin láti framkvæma á nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri. Alls skuli gjaldið vera 0,8% af heildartekjum rafveitna af raforkusölu og leigu mælitækja, að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti, sbr. heimildir í áður tilvitnuðum lagaákvæðum.
Bæði í tilvitnuðum lagaákvæðum og reglugerðarákvæði er kveðið á um að undanþegin gjaldinu sé raforkusala til Íslenska álfélagsins hf. og Íslenska járnblendifélagsins hf., svo og til annarra iðjuvera sem undanþegin kunni að vera með lögum. Í 3. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996 segir hinsvegar að vegna yfireftirlits Mannvirkjastofnunar og úrtaksskoðana sem stofnunin láti framkvæma á búnaði stóriðjuvera sem kaupi eða framleiði raforku sem undanskilin sé gjaldtöku skv. 1. tölul. skuli eigendur þeirra greiða skoðunarkostnað. Sambærilegt ákvæði er í gr. 9.3 í reglugerð nr. 678/2009.
Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið leikur enginn vafi á lagaheimild hins álagða rafveitueftirlitsgjalds, hver stofn til gjaldtöku er og hversu há prósenta hans gjaldið skuli vera. Þá hefur löggjafinn ákveðið hvernig gjaldtökunni skuli háttað, þ. á m. að tiltekin fyrirtæki skuli undanþegin greiðslu þess eftirlitsgjalds sem kveðið er á um í 1. og 4. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996. Það er ekki á valdi úrskurðarnefndarinnar að hrófla við þeirri skipan, sem fastákveðin er með lögum, og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Mannvirkjastofnunar um álagningu rafveitueftirlitsgjalds.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Ásgeir Magnússon