Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2015 Brekkuskógur

Árið 2017, miðvikudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kæra ábúendur og eigendur jarðarinnar Brekku í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að fyrirhuguð framkvæmd á grundvelli umræddrar deiliskipulagsbreytingar yrði stöðvuð til bráðabirgða. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 3. nóvember 2015 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 20. október 2015. 

Málavextir: Hinn 17. ágúst 2006 tók gildi deiliskipulag fyrir orlofssvæði BHM í Brekkuskógi, sem er á útskiptu landi úr jörðinni Brekku í Biskupstungum. Gert var ráð fyrir að á skipulagssvæðinu yrðu alls 43 frístundahús auk þjónustumiðstöðvar, baðhúss og húss með aðstöðu fyrir tjaldsvæði.

Í byrjun árs 2014 var grenndarkynnt tillaga að breytingu á nefndu deiliskipulagi þar sem markaður var byggingarreitur fyrir allt að 250 m² áhaldahús, rétt austan við bifreiðastæði gegnt núverandi þjónustumiðstöð. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 20. febrúar 2014 og tekið fram að þrjú athugasemdabréf hefðu borist en jafnframt lægi fyrir bréf skipulagshöfundar um framkomnar athugasemdir. Var afgreiðslu málsins frestað og skipulagsfulltrúa falið að óska eftir nánari upplýsingum frá skipulagshöfundi. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 30. apríl s.á. Fært var til bókar að fyrir lægi ný greinargerð frá skipulagshöfundi þar sem gerð væri tillaga um að fyrrnefnt áhaldahús yrði allt að 200 m² og hæst 3,4 m. Kom og fram að eigendur jarðarinnar Brekku teldu að upplýsingar í greinargerð skipulagshöfundar væru ekki réttar. Var afgreiðslu málsins frestað og samþykkt að rætt yrði við umsækjendur um aðra staðsetningu hússins.

Á fundi sveitarstjórnar 5. mars 2015 var lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi. Fól hún í sér að umrætt áhaldahús yrði á sama stað og áður hafði verið ráðgert en minna, eða að hámarki 120 m². Hámarkshæð hússins yrði 3,8 m. Færði sveitarstjórn til bókar að komið hefði verið til móts við athugasemdir sem borist hefðu við fyrri tillögu. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna svo breytta og bárust athugasemdir frá kærendum á kynningartíma. Voru þær til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 22. apríl 2015 en ekki var fallist á framkomnar röksemdir kærenda. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti breytinguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og fæli skipulagsfulltrúa að svara innkominni athugasemd. Á fundi sveitarstjórnar 7. maí 2015 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. Í kjölfarið leitaði sveitarstjóri álits lögmanns á nefndri breytingu og á fundi sveitarstjórnar 3. september s.á. var málið á ný til umræðu. Samþykkti sveitarstjórn að fyrri afgreiðsla hennar frá 7. maí s.á. stæði. Var skipulagsfulltrúa falið að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist hún gildi með birtingu auglýsingar þar um 9. september s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur benda á að umrætt svæði sé í deiliskipulagi skilgreint sem frístundabyggð. Mikilvægt sé að byggingar sem þar rísi falli að þeirri skilgreiningu. Af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um frístundabyggð megi ráða að á lóðum undir frístundahús geti verið smærri mannvirki sem tilheyri viðkomandi húsi. Séu í því sambandi sérstaklega nefndar geymslur, gestahús og bátaskýli, sbr. gr. 5.3.2.12. í reglugerðinni. Hér sé hins vegar gert ráð fyrir byggingu af allt annarri stærðargráðu, þar sem um sé að ræða vélageymslu eða áhaldahús.

Umrædd breyting sé veruleg og hafi borið að fara með hana eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða. Ekki hafi verið heimilt að fara með breytinguna sem óverulega í skilningi undanþáguákvæðis 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem skýra beri þröngt. Sé í þessu sambandi jafnframt vísað til gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð. Með greindri breytingu sé vikið frá notkun og útliti viðkomandi svæðis. Um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða en erfitt yrði í kjölfar þessa að neita öðrum sumarhúsaeigendum að byggja vélageymslur eða sérstök áhaldahús við sumarhús sín. Í því felist mikið frávik frá þeim byggingum sem nú séu til staðar eða fyrirhugaðar séu á svæðinu.

Fyrrgreind bygging eigi ekki heima í skipulagðri frístundabyggð, heldur á skipulagðri iðnaðarlóð. Um viðkvæmt svæði sé að ræða en starfsemi vinnuvéla fylgi jafnan talsverð eldhætta og hætta á olíumengun. Eðlilegra sé að hafa vélageymslu í næsta nágrenni við þjónustumiðstöð BHM en ekki upp við lóðir kærenda. Muni breytingin hafa mikil áhrif á verðgildi og nýtingu á lóðum kærenda, sem skipulagðar séu undir frístundabyggð.  

Málsrök Bláskógabyggðar: Úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir frá sveitarfélaginu í tilefni af kærumáli þessu en í minnisblaði lögmanns, er unnið var fyrir sveitarfélagið, er m.a. bent á að sveitarstjórn fari með skipulagsvald í lögsagnarumdæmi sveitarfélagsins og ekki verði séð að umrætt hús sé óhóflegt að stærð miðað við aðstæður á svæðinu. Áhaldahúsið verði fellt að umhverfi staðarins og muni þar af leiðandi bera minna á því. Nauðsynlegt sé vegna þjónustu við orlofssvæðið að hafa slíkt hús. Þá sé sérstaklega gert ráð fyrir geymslum á frístundasvæði skv. gr. 5.2.3.12 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Um minniháttar breytingu sé að ræða frá gildandi deiliskipulagi. Ekki verði séð að hún raski grenndarhagsmunum kærenda eða leiði til rýrnunar á verðmæti annars frístundalands í eigu þeirra. Geti eigendur fasteigna ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér einhverja skerðingu eða breytingu á hagsmunum þeirra.

Málsrök lóðarhafa: Af hálfu lóðarhafa er á það bent að þegar litið sé til staðhátta á skipulagssvæðinu sé umrædd breyting minniháttar. Ekki standi annað til en að reisa áhaldahús sem nýtast myndi sem aðstaða fyrir umsjónarmann til að sinna minniháttar viðhaldi og geyma mætti þar t.a.m. eina bifreið, fjórhjól og smátæki. Fyrirhuguð bygging falli vel að þeirri byggð sem fyrir sé með tilliti til stærðar og staðsetningar. Samþykkt breyting sé því í fullu samræmi við ákvæði gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Hvorki sé vikið frá svipmóti þeirrar byggðar sem fyrir sé né notkun svæðisins, sbr. gr. 5.3.2.12. í reglugerðinni. Breytingin sé í raun nauðsynleg svo unnt sé að veita þá þjónustu sem eðlileg geti talist á orlofshúsasvæðinu.

Nýr byggingarreitur sé ekki ætlaður undir vélageymslu enda sé snjómokstur á svæðinu ekki meðal verkefna umsjónarmanna eða á hendi lóðarhafa. Staðhæfingum um að byggingin muni valda umhverfisspjöllum sé hafnað sem röngum og ósönnuðum. Ekki verði séð hvernig nefnd bygging geti valdið meiri óþægindum en það bílastæði sem þar sé fyrir. Byggingin sé í sömu hæð og greint bílastæði, eða 50 cm neðar en gólfkóti þjónustuhúss. Dyr hússins muni snúa að bílaplani og að Brekkuþingi en ekki að landi kærenda. Vegur ofan áhaldahúss eða milli þess og lands kærenda sé nokkru hærri en bílaplanið. Því sé ljóst að húsið falli vel að staðháttum og muni vart sjást frá lóðum þeim sem kærendur vísi til.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr., skuli fara fram grenndarkynning. Skuli við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Var málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar skv. áðurnefndri 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Árið 2006 tók gildi deiliskipulag er tekur til orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi, sem samkvæmt skipulaginu er um 25,6 ha að stærð. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að orlofssvæðið hafi verið að byggjast upp allt frá árinu 1976 og hafi þjónustumiðstöð verið byggð, komið fyrir leiksvæðum og leiktækjum, boltavelli og mínígolfi. Í skipulaginu er gert ráð fyrir tjaldsvæði með salernis- og þvottaaðstöðu og að 43 sumarhús verði á deiliskipulagssvæðinu. Með hinni kærðu ákvörðun er markaður byggingarreitur undir allt að 120 m2 einnar hæðar áhaldahús fyrir geymslu tækja og áhalda er tengist rekstri svæðisins. Hámarkshæð hússins miðað við gólfkóta verður 3,8 m og húsið staðsett við bílastæði þjónustumiðstöðvarinnar. Vegna landhalla mun hlið hússins sem snýr að landi kærenda rísa um 1,2 m yfir jarðvegsyfirborð.

Í gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð er gert ráð fyrir að í frístundabyggð undir orlofsbústaði félagasamtaka geti verið svæði sem þjóni sameiginlegum hagsmunum þeirrar byggðar. Telja verður að geymsla fyrir vélar og áhöld sé eðlilegur þáttur í þjónustu við slíka orlofshúsabyggð og fari því ekki gegn gildandi landnotkun svæðisins. Með hliðsjón af stærð umrædds svæðis, þeirri starfsemi sem þar er heimiluð í gildandi skipulagi og stærð og staðsetningu heimilaðs húss á þjónustusvæði sumarhúsabyggðarinnar, verður umrædd deiliskipulagsbreyting talin óveruleg. Var því heimilt að fara með hana samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að umræddur byggingarreitur sé í a.m.k. 15 m fjarlægð frá mörkum skipulagssvæðisins. Verður ekki séð að bygging heimilaðs húss hafi að marki grenndaráhrif gagnvart landi kærenda, eins og aðstæðum er háttað. Þess ber að geta að við veitingu byggingarleyfis skal þess gætt að byggingin uppfylli öryggiskröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012, m.a. um brunavarnir og loftgæði.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson