Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2013 Hrímland

Árið 2015, fimmtudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2013, kæra á þeirri afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúans Akureyrar frá 8. júlí 2013 að synja um útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna frístundahúsa við Hrímland 1, 3 og 5 á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir SS Byggir ehf. afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 8. júlí 2013 um að synja útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna frístundahúsa við Hrímland 1, 3 og 5 á Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að gefa út nefnt vottorð.

Gögn málsins bárust frá Akureyrarbæ 28. ágúst 2013 og í september og október 2015.

Málavextir: Á árinu 2012 voru samþykkt byggingaráform vegna byggingar frístundahúsa að Hrímlandi 1, 3 og 5 á Akureyri. Breytingar á aðaluppdráttunum voru samþykktar 30. janúar 2013 og 12. febrúar s.á. var gerð lokaúttekt á nefndum húsum. Við þá skoðun komu fram athugasemdir er lutu m.a. að því að loftræsing úr eldhúsi væri ekki í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar þar um, svo sem nánar var greint frá í tölvupósti sveitarfélagsins til verkefnastjóra framkvæmdanna 7. mars s.á. Með tölvupósti til sveitarfélagsins 25. júní s.á. fór kærandi fram á að framkvæmd yrði lokaúttekt á nefndum húsum þar eð sveitarfélagið hefði ekki sýnt fram á að nefnd loftræsing stæðist ekki kröfur byggingarreglugerðar. Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar, dags. 8. júlí 2013, var þeirri beiðni hafnað, með vísan til þess að ekki væri hægt að gefa út lokaúttektarvottorð fyrr en úrbætur hefðu verið gerðar.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að höfnun sveitarfélagsins byggi á huglægu mati skipulags- og byggingarfulltrúa. Ekki hafi verið sýnt fram á að loftræsing úr eldhúsi standist ekki þar til gerðar kröfur í byggingarreglugerð. Kærandi hafi leitað til sérfræðings í loftræsingum er unnið hafi skýrslu, svonefnda stilliskýrslu, sem sýni fram á að loftskipti umræddra húsa uppfylli ákvæði nefndrar reglugerðar og hafi þeirri skýrslu ekki verið hnekkt af hálfu bæjarins. Þá hafi byggingarmálasvið Akureyrarbæjar sett fram þá kröfu að gerð yrði loftræstirist, hátt á vegg milli baðherbergis og eldhúss, en við það vilji kærandi ekki una.

Málsrök Akureyrarbæjar:
Sveitarfélagið tekur fram að synjun þess sé á því byggð að kröfur um loftræsingu úr eldhúsi samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum, dags. 30. janúar 2013, og ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, hafi ekki verið uppfylltar. Samkvæmt 5. mgr. gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð megi ekki vera ófullgerðir verkþættir sem snerti öryggis- eða heilbrigðiskröfu við lokaúttekt og því sé ekki hægt að gefa út lokaúttektarvottorð nema atriði er varði hollustu séu uppfyllt. Skírskoti sveitarfélagið m.a. til gr. 10.2.5. í reglugerðinni og telji að þar sé gerð sú krafa að lámarksútsog úr eldhúsi, baðherbergi, þvottaherbergi, rými með heitum potti og geymslu/inntaksrými sé samtals 100 l/s. Jafnframt segi í sömu grein að aðstreymi lofts að eldhúsi, baðherbergi og þvottahúsi skuli koma um op sem séu að flatarmáli minnst 100 sm² fyrir hvert rými. Það loft megi, þegar þau liggi ekki að útvegg, koma frá aðliggjandi rýmum með minna mengunar- eða rakaálagi. Þegar þau liggi að útvegg skuli ferskt loft koma að utan, um glugga eða sérstök loftræstiop. Samkvæmt byggingarreglugerð sé því gert ráð fyrir vélrænu útsogi eða sjálfsogandi útsogi upp úr þaki frá þessum rýmum, hverju fyrir sig. Opnanlegir gluggar séu aðeins ætlaðir fyrir ferskt inniloft. Ákvæði nefndrar greinar gildi einnig um frístundahús, sbr. 1. mgr. gr. 6.11.1. í byggingarreglugerð.

Húsbyggjandi geri ráð fyrir að inntaksloftið komi um loftunarristar í stofu og fari í gegnum eldhús, undir hurð inn í pottarými og í þvottahúsi, með rennihurð inn í baðherbergi og loftræsi þannig eldhúsið um leið. Í eldhúsi og stofu, sem sé eitt og sama rýmið, sé hæð frá hurð að lofti minnst 70 cm og upp í 160 cm. Þar geti safnast saman hiti, raki og lykt frá eldhúsi þar sem ekki sé útsog beint frá því rými. Frá inntaki lofts að hurð í pottasal sé stysta leiðin 5 m. Verði inntaksloftið eingöngu tekið inn með útsogi undir og með hurðum muni því ferska kalda loftið verða dregið niður undir gólf til að fara undir hurðina og lítil sem engin hreyfing verði á heita og raka rýminu upp við loft í eldhúsi og stofu. Sé tilgangur loftræsingar sá að soga burtu raka og lykt vegna eldunar og því eðlilegt að slíkt útsog sé staðsett upp við loft.

Álit Mannvirkjastofnunar: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leitaði álits Mannvirkjastofnunar á hinni kærðu afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa, sem sérfróðs aðila á því sviði sem kæran beinist að, en skv. 18. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki getur stofnunin tekið til athugunar hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Umsögn stofnunarinnar barst úrskurðarnefndinni hinn 4. júlí 2014 og var umboðsmanni kæranda send umsögnin og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna þessa.

Að mati Mannvirkjastofnunar uppfyllir greint fyrirkomulag loftræsingar í nefndum frístundahúsum ekki ákvæði gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð, þar sem ekki sé sérstakt útsog frá eldhúsi. Í álitinu er m.a. tekið fram að fullnægjandi loftræsing sé ein þeirra hollustukrafna sem gerðar séu til mannvirkja skv. byggingarreglugerð og sé byggingarfulltrúa heimilt lögum samkvæmt að hafna útgáfu vottorðs um lokaúttekt mannvirkis sé ekki að fullu sýnt fram á að kröfur reglugerðarinnar þess efnis séu uppfylltar. Vísar stofnunin m.a. til c-liðar 2. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð þar sem fram komi að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli vera að lágmarki 30 l/s. Er það álit stofnunarinnar að sérstakt útsog skuli vera úr því rými og felist það að mati stofnunarinnar m.a. í merkingu orðsins útsog, þ.e. að loftið skuli dregið út, án viðkomu í öðrum rýmum íbúðarinnar. Útsog í öðru rými, sem dragi loft úr eldhúsi um önnur rými íbúðarinnar, teljist ekki útsog úr eldhúsi. Vísar stofnunin varðandi þá túlkun m.a. til ákvæðis 2. mgr. í gr. 10.2.2. Ástæður þess að krafist sé útsogs úr tilteknum rýmum íbúða í gr. 10.2.5. séu þær að ekki sé talið ásættanlegt, með tilliti til þæginda og heilbrigðis íbúa, að draga lykt og raka úr þessum rýmum yfir í önnur rými íbúða. Jafnframt þessu skírskotar stofnunin til 4. mgr. gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð þar sem fram komi að nota skuli staðbundið útsog þar sem mengandi vinnsla fari fram. Telur Mannvirkjastofnun að sameiginlegt markmið þessara ákvæða sé að mengun, lykt, raka og öðru sem valdi óæskilegum loftgæðum sé ekki dreift að óþörfu um íverurými fólks, heldur ræst út sem næst upptökunum með útsogi. Þá sé tekið fram að öll ákvæði 10. hluta byggingarreglugerðar séu ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram, sbr. gr. 10.1.3. í reglugerðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar að synja um útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna byggingar húsanna nr. 1, 3 og 5 við Hrímland.

Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að sé mannvirki háð byggingarleyfi skv. 9. gr. laganna samþykki byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, byggingaráform eftir að hafa farið yfir byggingarleyfisumsókn og m.a. gengið úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið á grundvelli þeirra. Samkvæmt nefndu lagaákvæði er umsækjanda tilkynnt um samþykkt byggingaráforma, en sú tilkynning veitir umsækjanda þó ekki heimild til að hefja byggingarframkvæmdir heldur þarf til að koma útgáfa byggingarleyfis skv. 13. gr. laganna. Eitt þeirra skilyrða sem sett eru þar fyrir útgáfu leyfisins er að aðal- og séruppdrættir hafi verið yfirfarnir og að leyfisveitandi hafi áritað þá til staðfestingar á samþykki.

Eins og fram kemur í málavöxtum samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi aðaluppdrætti að þeim húsum sem hér um ræðir á árinu 2012, en á þeim var ekki getið um loftræsingu. Hinn 30. janúar 2013 voru samþykktar breytingar á aðaluppdráttum og var þá m.a. tekið fram í byggingarlýsingu að eldhús yrði loftræst vélrænt um þak. Séruppdrættir af loftræsikerfi húsanna munu hafa verið mótteknir 21. febrúar s.á. en ekki samþykktir á þeim forsendum að loftræsing úr eldhúsi væri ekki í samræmi við kröfur þar um í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í málinu liggur fyrir eftirfarandi lýsing lagnahönnuðar umræddra húsa á loftræsingu þeirra: „Við hönnun frístundahússins er miðað við að loftræsing sé blanda af vélrænni og náttúrulegri loftræsingu. Vélrænt útsog er frá lokuðum og gluggalausum rýmum, þ.e. þvottahúsi (20 l/s), baðherbergi (15 l/s) og geymslu (15 l/s). Enn fremur er vélræn loftræsing frá rými með heitum potti auk þess sem þar er bæði opnanlegur gluggi og rennihurð sem er hugsuð sem aðal loftræsing rýmisins þegar potturinn er í gangi. Viðmiðunar loftmagnstölur fyrir vélræna loftræsingu eru fengnar úr byggingarreglugerð, grein 10.2.5. Í svefnherbergjum, stofu og eldhúsi er loftræsing um opnanlega glugga og hurðar. Auk þess eru ristar ofan við glugga í stofu sem nýtast sem loftinntak fyrir loft til móts við vélrænt útsog í húsinu. Þetta loft nýtist jafnframt til loftræsingar á stofu og eldhúsi áður en það er dregið að vélrænt loftræstum rýmum. Vélrænt útsog frá þvottahúsi, baðherbergi og heitum potti er samtals 50 l/s. Þetta loftmagn samsvarar 0,88 loftskiptum í öðrum rýmum hússins.“ Er jafnframt tekið fram að skv. gr. 10.2.5. megi loftræsa með náttúrulegri eða vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja og að tryggja beri að loftskipti séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar. Er niðurstaða hönnuðarins sú að „…loftræsting annarra rýma sé tryggð með náttúrulegri loftræstingu með opnanlegum gluggum og hurðum og þannig séu kröfur byggingarreglugerðar um möguleg loftskipti uppfyllt að fullu“. Samkvæmt framangreindri lýsingu er loftræsing úr eldhúsi, einkum um opnanlega glugga og dyr en ekki vélræn um þak, eins og fram kemur á samþykktum aðaluppdráttum frá 30. janúar 2013.

Kveðið er á um almennar kröfur til loftræsibúnaðar í gr. 14.9.1. í byggingarreglugerð og er þar tekið fram að um kröfur til gæða innilofts gildi ákvæði kafla 10.2. og 10.3. Jafnframt kemur fram að við hönnun, uppsetningu og frágang loftræsikerfa beri ávallt að velja lausnir sem taki tillit til þeirra þátta sem áhrif hafi á inniloft rýmisins sem eigi að loftræsa, þannig að þar séu fullnægjandi loftgæði. Sé loftræsikerfi ætlað að þjóna mismunandi rýmum og sé hætta á gufum, miklum loftraka eða ögnum í loft, s.s. vegna reyks, matarlyktar o.þ.h., skuli valin lausn sem taki tillit til allra aðstæðna og tryggi fullnægjandi loftgæði hvers einstaks rýmis. Í 10. hluta byggingarreglugerðar er fjallað um hollustu, heilsu og umhverfi. Kemur fram í gr. 10.2.1. að loftgæði innan mannvirkja skuli vera fullnægjandi og í samræmi við notkun þeirra og tryggt að loft innan mannvirkis innihaldi ekki mengandi efni sem valdið geti tjóni eða óþægindum. Samkvæmt gr. 10.2.2. skal loftræsa allar byggingar og getur loftræsing verið vélræn, náttúruleg eða blanda af hvoru tveggja. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að við ákvörðun loftræsingar beri t.d. að taka mið af tegund og gerð rýmis og hita- og rakamyndun. Kveður gr. 10.2.5. á um loftræsingu íbúða og tengdra rýma og eru þar settar fram lágmarkskröfur um útsog frá nánar tilgreindum rýmum, en tryggja skal samkvæmt greininni að þau loftskipti séu möguleg óháð gerð loftræsingar. Er tiltekið í c-lið greinarinnar að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli ekki vera minna en 30 l/s. Framangreind ákvæði eiga einnig við um frístundahús skv. 1. mgr. gr. 6.11.1. í byggingarreglugerð, en þar segir að almennar hollustuháttakröfur íbúða gildi um frístundahús.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð skv. 16. gr. mannvirkjalaga. Skal þá, skv. 3. mgr. 36. gr. tilvitnaðra laga, gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæða laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr. Skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert, sbr. 5. mgr. 36. gr. laganna, sbr. og 5. mgr. í gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð.

Ljóst er af því sem áður er rakið að loftræsing úr eldhúsi þeirra húsa sem hér um ræðir er ekki í samræmi við byggingarlýsingu á endanlegum aðaluppdráttum og þar með ekki í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá bendir úrskurðarnefndin á mat Mannvirkjastofnunar, sem er sérfróður aðili á þessu sviði, þess efnis að loftræsingin uppfylli ekki ákvæði gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð, einkum c-liðar 2. mgr. ákvæðisins, þar sem fram komi að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli vera að lágmarki 30 l/s. Með vísan til framangreinds var skipulags- og byggingarfulltrúa rétt að synja um útgáfu lokaúttektarvottorðs, enda uppfylltu nefnd hús ekki ákvæði byggingarreglugerðar um hollustukröfur mannvirkja, auk þess sem þau voru ekki byggð í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 8. júlí 2013 um að synja um útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna húsanna nr. 1, 3 og 5 við Hrímland á Akureyri.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson