Árið 2022, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 76/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2022 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað í flokki II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 20. júlí 2022, kærir Húsfélagið Laugavegi 49A þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. s.m. að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað í flokki II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærendur gera jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. ágúst 2022.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 12. október 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu á austurhlið hússins að Frakkastíg 9, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og þar með auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Á samþykktum uppdráttum var gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni sunnan megin við húsið. Með úrskurði nr. 44/2022, uppkveðnum 24. júní 2022, felldi úrskurðarnefndin ákvörðunina úr gildi þar sem staðsetning bílastæðanna taldist skerða óbeinan eignarrétt eiganda lóðar Laugavegar 47 sem staðfestur hafði verið með dómi Hæstaréttar 5. febrúar 2015 í máli nr. 76/2015.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 5. júlí 2022 var samþykkt að nýju umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað í flokki II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.
Málsrök kæranda: Vísað er til þess að heimiluð viðbygging fari út fyrir byggingarreit og brjóti gegn 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt teikningu standi brunastigi langt út fyrir byggingarreit og alveg að lóðamörkum. Teikningar sýni ekki brunamótstöðu vegna útveggja viðbyggingarinnar en samkvæmt mælingum verði viðbyggingin 2,6 m frá lóðamörkum. Ákvæði gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð um lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum séu ekki uppfyllt m.t.t. brunavarna.
Hávaðamengun og almenn truflun muni verða af þeirri starfsemi sem muni fara fram í húsnæðinu með tilkomu útisvala með veitingasölu sem snúi að fasteign kæranda að Laugavegi 49A. Það sé mat fasteignasala að umdeild viðbygging muni hafa neikvæð áhrif á verðgildi fasteignar kæranda, sérstaklega m.t.t. þeirrar starfsemi sem þar muni fara fram. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg muni einungis viðbyggingin uppfylla lágmarks hljóðvistarkröfur, en að húsið sjálft sé ekki hljóðeinangrað og standist ekki hljóðvistarkröfur miðað við þá starfsemi sem leyfð sé í húsinu. Hljóðeinangra þurfi alla fasteignina samkvæmt gæðaflokki C í staðlinum ÍST45:2016.
Hæð viðbyggingarinnar og nálægð við lóðamörk muni skyggja á sól og útsýni úr garði Laugavegs 49A og hafa áhrif á notagildi lóðarinnar. Eldri byggingarnefndarteikning sem hafi verið samþykkt fyrir viðbyggingu á Frakkastíg 9 hafi verið í samræmi við gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð enda hafi þar verið um óverulega breytingu á húsinu að ræða. Fasteignakaupendur eigi að geta treyst því að borgaryfirvöld og byggingarfulltrúi fari að lögum og að samþykktar teikningar í skipulögðu hverfi geti ekki tekið stórtækum breytingum, sérstaklega þegar það hafi áhrif á verð, notagildi og friðhelgi.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að í gildi sé deiliskipulag fyrir reit 1.173.0 þar sem gefnar séu upp í töflu heimildir fyrir hvert húsnúmer. Á lóðinni Frakkastíg 9 gildi verndun byggðamynsturs en heimilt sé að byggja útbyggingu innan byggingarreits og sé heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,7. Með hinni umþrættu viðbyggingu verði nýtingarhlutfall hússins 0,67 og þannig innan heimilda deiliskipulags. Því hafi ekki borið að grenndarkynna framkvæmdina.
Byggingarleyfisumsókninni hafi fylgt hljóðvistarskýrsla þar sem fram komi að viðbyggingin muni uppfylla lágmarkskröfur byggingarreglugerðar hvað varði hljóðvist. Byggingin sé öll í einu brunahólfi og uppfylli brunavarnakröfur, enda hafi teikningar verið yfirfarnar af forvarnadeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins án athugasemda. Viðbyggingin sé innan byggingarreits en brunastiginn sé utan hans. Um gamalt deiliskipulag sé að ræða og byggingarreiturinn ekki málsettur á skipulagsuppdrættinum. Brunastiginn sé tímabundin flóttaleið á meðan núverandi rekstur verði í húsinu og ekki ætlaður til annarrar notkunar. Stiginn skerði þannig hagsmuni kæranda ekki að neinu leyti.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar viðbyggingu húss sem stendur á lóðinni Frakkastíg 9 í Reykjavík. Á svæði því sem lóðin tilheyrir er í gildi deiliskipulag fyrir reit 1.173.0. Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram að ekki sé óheimilt að breyta þeim húsum sem falli undir vernd byggðarmynsturs. Breytingarnar verði þó að vera í samræmi við skilmála deiliskipulagsins er gilda um hvert hús og taka mið af yfirbragði byggðarinnar í heild, mælikvarða og hlutföllum húsa. Í skilmálum um lóðina Frakkastíg 9 segir enn fremur að heimilt nýtingarhlutfall sé 0,7 og að útbygging sé heimil innan byggingarreits. Liggur ekki annað fyrir en að samþykkt viðbygging sé í samræmi við gildandi deiliskipulag.
Á samþykktum uppdráttum er gert ráð fyrir útihringstiga sem stendur út fyrir byggingarreit á lóðinni Frakkastíg 9 en innan lóðarmarka. Er stiginn ætlaður sem tímabundin lausn á meðan núverandi rekstur er í húsinu og verður einungis notaður sem flóttaleið. Í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að staðsetja skuli byggingu innan byggingarreits. Í 2. mgr. gr. 6.2.1. er svo fjallað um viðmiðunarreglur vegna útskagandi byggingarhluta, meðal annars þegar byggingarhluti er útskagandi á lóðamörkum við umferðarleiðir. Er samkvæmt þessu gert ráð fyrir að hlutar byggingar geti skagað út fyrir byggingareit og jafnvel lóðamörk. Verður því að telja að heimilt sé að stiginn skagi út fyrir byggingarreit lóðarinnar.
Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lá fyrir hljóðvistargreinagerð þar sem fram kemur að kröfur til hljóðvistar samkvæmt gæðaflokki C í staðlinum ÍST45:2016, Hljóðvist – Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, verði uppfylltar í heimilaðri viðbyggingu við Frakkastíg 9 og liggur ekki annað fyrir en að umrætt húsnæði muni uppfylla kröfur reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. júlí 2022 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað í flokki II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.