Árið 2022, þriðjudaginn 26. júlí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:
Mál nr. 71/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 20222 um að breyta deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll, frístundasvæði, vegna lóðar nr. 8.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar nr. 7 við Stafafellsfjöll, Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 2022 að breyta deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll, frístundasvæði, vegna lóðar nr. 8. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 20. júlí 2022.
Málsatvik og rök: Hinn 16. ágúst 2021 fékk byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar ábendingu um að framkvæmdir hefðu hafist við byggingu húss á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum. Í kjölfarið stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdirnar á grundvelli heimilda í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Hornafjarðar 1. september 2021 var tekin fyrir beiðni eiganda lóðarinnar Stafafellsfjalla 8 um heimild til að vikið yrði frá kröfu um breytingu deiliskipulags Stafafellsfjalla, frístundasvæðis, frá árinu 2014 vegna byggingar frístundahúss á lóðinni hvað varðaði skilmála deiliskipulags um stærð aukahúss og mænisstefnu. Var samþykkt að fela starfsmanni að vinna málið áfram. Hinn 2. september 2021 sendi byggingarfulltrúi tölvupóst á lóðarhafa aðliggjandi lóða þar sem óskað var eftir afstöðu þeirra til framkvæmdanna. Kærandi skilaði inn athugasemd þar sem lagst var gegn fyrirhugaðri stefnu aðalmænis og hæð hússins. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 5. október s.á. var bókað að nefndarmönnum yrði falið að skoða aðstæður á lóðinni. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar 3. nóvember s.á. þar sem samþykkt var að heimild yrði veitt til að víkja frá kröfu um breytingu á skipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á grundvelli 3. mgr. sama ákvæðis. Var jafnframt bókað um að heimuð breyting væri ekki líkleg til að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Var sú afgreiðsla samþykkt af bæjarstjórn sveitarfélagsins á fundi hennar 11. s.m. Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi hina kærðu ákvörðun úr gildi með úrskurði uppkveðnum 18. febrúar 2022 í máli nr. 176/2021, m.a. með vísan til þess að ákvörðun sveitarstjórnar myndi hafa áhrif á hagsmuni kæranda hvað útsýni varðar.
Umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins samþykkti á fundi sínum 3. mars 2022 að unnin yrði óveruleg breyting skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga á deiliskipulagi frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum. Breytingin er efnislega samhljóða fyrri deiliskipulagsbreytingu sem felld var úr gildi með úrskurði nr. 176/2021. Breytingin var grenndarkynnt frá 15. mars 2022 til 10. maí s.á. Þrjár athugasemdir bárust við grenndarkynningu. Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 19. s.m., með þeirri breytingu að gert er ráð fyrir gróðursvæði á milli húsanna á lóðum nr. 7 og 8 í þeim tilgangi að takmarka innsýn á milli húsanna. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.
Hvað stöðvun framkvæmda varðar er af hálfu kæranda vísað til þess að framkvæmdir séu þegar hafnar án þess að tilskilin leyfi séu til staðar. Af hálfu Sveitarfélagsins Hornafjarðar er bent á að engir þeir form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem réttlæti ógildingu hennar.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.
Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Í ljósi þess að kærandi ber því við að umdeildar framkvæmdir séu hafnar er rétt að benda á að unnt er að leita til byggingarfulltrúa af slíku tilefni sem getur stöðvað framkvæmdir sem hafnar eru án byggingarleyfis skv. 55. gr. laga nr. 160/2010.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.