Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2022 Hlíðarendi reitir G H og I

Árið 2022, þriðjudaginn 2. ágúst, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 78/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. febrúar 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júlí 2022, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur íbúða í Haukahlíð 5, Smyrilshlíð 2-10, Fálkahlíð 6 og Hlíðarfæti 11-17, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. febrúar 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Með umsókn dags. 1. júlí 2021 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda, reita G og H. Umsóknin fól m.a. í sér að atvinnulóðum yrði breytt í íbúðalóðir, fjölga íbúðum og breyta bílastæðakröfum til samræmis við bíla- og hjólreiðastefnu Reykjavíkurborgar. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 9. júlí 2021 og var vísað til meðferðar verkefnisstjóra. Erindið var tekið fyrir að nýju 22. september s.á. og var vísað til skipulags- og samgönguráðs. Ráðið tók málið fyrir á fundi 6. október s.á. og samþykkti að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum að einnig ætti að breyta opnu svæði til bráðabirgða á reit I í íbúðalóð. Tillagan var auglýst til kynningar frá 1. desember 2021 til og með 12. janúar 2022. Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 14. s.m. og var vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Málið var síðan á dagskrá á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 21. s.m. og var vísað til skipulags- og samgönguráðs. Hluti kærenda sendi inn athugasemdir á kynningartíma og var þeim svarað með bréfi skipulagsfulltrúa dags. 21. janúar 2022 þar sem lagt var til að lóð fyrir spennistöð yrði komið fyrir á borgarlandi austan við núverandi reit G og að skuggavarp yrði unnið sem fylgigagn deiliskipulagsbreytingarinnar. Skipulags- og samgönguráð tók erindið fyrir á fundi 9. febrúar s.á. og samþykkti deiliskipulagsbreytinguna með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu á fundi 24. febrúar 2022.

Af hálfu kærenda er bent á að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér fækkun bílastæða, aukið skuggavarp, skert útsýni og aukningu umferðar. Málið hafi ekki verið fyllilega rannsakað áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, t.a.m. hafi skuggavarpsgreiningar, hávaða- og vindmælingar ekki legið fyrir. Þá hafi ekki verið leitað eftir sjónarmiðum íbúa í samræmi við lög. Engin heimild hafi verið til að bæta I reit við hina innsendu deiliskipulagstillögu.

Borgaryfirvöld benda á að mál þetta snúist um deiliskipulagsákvörðun sem veiti ekki sjálfstæðan rétt til að hefja framkvæmdir, heldur þurfi frekari leyfi til. Sé því ekki tilefni til að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé til að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.