Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 7/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu dæluhúss Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. janúar 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Tryggvi Þórhallsson hdl., f.h. G, Vesturbergi 199, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. september 2007 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingu á dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús. Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 20. september 2007.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni og var fallist á þá stöðvunarkröfu með úrskurði uppkveðnum hinn 11. mars 2008.
Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að kærandi fékk á árinu 1990 leyfi til að byggja yfir svalir hússins að Vesturbergi 199 með gluggum til suðurs í átt að dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur að Vesturbergi 195. Í yfirlýsingu sem gerð var af því tilefni, dags. 19. janúar 1990, segir m.a: „Engar athugasemdir eru gerðar af hálfu Hitaveitunnar við fyrirhugaðar framkvæmdir, enda ekki fyrirhuguð viðbygging við dælustöðina.“ Þar sagði enn fremur að Hitaveitan samþykkti að yfirlýsingunni yrði þinglýst sem kvöð á lóð Hitaveitunnar. Síðar var dælustöðin aflögð og fasteignin seld.
Hinn 21. október 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195, sem fól m.a. í sér heimild til viðbyggingar við hús það sem stendur á lóðinni. Var deiliskipulagsbreytingin kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi skipulagsbreytinguna úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 30. ágúst 2006, m.a. með þeim rökum að bil milli heimilaðrar viðbyggingar og hússins að Vesturbergi 199 uppfyllti ekki þágildandi skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar um.
Ný tillaga að deiliskipulagsbreytingu varðandi lóðina að Vesturbergi 195 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. október 2006 og málinu vísað til skipulagsráðs, sem samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum hinn 11. október og vísaði málinu til borgarráðs.
Fól tillagan í sér heimild til að byggja þriggja íbúða raðhús á þremur hæðum að Vesturbergi 195, byggingarreitur var stækkaður og byggingarmagn aukið úr 213,5 fermetrum í 465 fermetra. Leyft var að grafa frá bakhlið húss til þess að skapa möguleika á gluggum á bakhlið og göflum kjallara. Samkvæmt tillögunni fór nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,6 og var heimilað að reisa fyrirhugað hús í sex metra fjarlægð frá lóðarmörkum kæranda að Vesturbergi 199.
Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 10. janúar 2007, þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir, m.a. frá kæranda, ásamt umsögn framkvæmdasviðs, dags. 22. desember 2006, og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. janúar 2007. Var deiliskipulagstillagan samþykkt með svofelldri bókun: „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa og Framkvæmdasviðs. Vísað til borgarráðs.“ Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 18. janúar 2007. Skipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. maí 2007. Skaut kærandi deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar þar sem krafist var ógildingar hennar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum hinn 11. mars 2008.
Hinn 18. september 2007 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við dælustöðina að Vesturbergi 195 og að breyta henni í þriggja íbúða raðhús í kjölfar fyrrgreindrar skipulagsbreytingar. Hefur kærandi nú skotið veitingu þessa byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Eftir að kæra barst í máli þessu, eða hinn 1. apríl 2008, samþykkti byggingarfulltrúi umsókn byggingarleyfishafa að Vesturbergi 195 um leyfi til að setja eldvarnargler í glugga á norðurhlið fyrirhugaðs raðhúss á lóðinni, er snýr að húsi kæranda að Vesturbergi 199. Þá barst úrskurðarnefndinni mat VSI öryggishönnunar og ráðgjafar á brunaöryggi með tilliti til sambrunahættu milli umræddra húsa, dags. 19. júní 2008, þar sem ekki var talin þörf á sérstökum aðgerðum vegna brunaöryggis, svo sem eldvarnargleri í gluggum á norðurgafli Vesturbergs 195.
Hinn 20. júní 2008 leitaði úrskurðarnefndin álits Brunamálastofnunar á því hvort kröfum um brunaöryggi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og byggingarreglugerð væri fullnægt samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. Í áliti stofnunarinnar, dags. sama dag, kemur m.a. fram að fjarlægð milli húsa að Vesturbergi 195 og 199 þurfi að vera 7 metrar samkvæmt gr. 75.2 í byggingarreglugerð miðað við þær forsendur að brunamótstaða aðlægra veggja sé REI60 og REI30. Setja þurfi eldvarnargler E60 í glugga á norðurhlið Vesturbergs 195 og hafa þá óopnanlega til þess að fjarlægð milli húsanna geti farið niður í sex metra.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er skírskotað til röksemda sem settar séu fram í kæru hans á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar að Vesturbergi 195 sem hafi verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Þá sé byggt á því að útgáfa hins kærða byggingarleyfis standist ekki gagnvart þeirri meginreglu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. laganna. Kærandi telji ekki heimilt að veita byggingarleyfi sem stoð eigi í deiliskipulagsbreytingu sem sé til efnismeðferðar hjá þar til bæru stjórnvaldi.
Lögð sé áhersla á að í fyrirliggjandi áliti Brunamálastofnunar komi skýrt fram að gera þurfi sérstaklega ráð fyrir því í hönnunarforsendum fyrir hið nýja hús að öryggisfjarlægð milli þess og hússins nr. 199 sé of lítil miðað við kröfur 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þar komi fram að þessi fjarlægð eigi að vera a.m.k. sjö metrar og sé sú niðurstaða studd m.a. útreikningum skv. bandarískum staðli og því að eldvörnum sé háttað eins og best gerist. Telji kærandi að leggja beri umrætt álit til grundvallar við úrlausn málsins, með þeim fyrirvara þó að hitageislunarþol steniklæðningar á húsinu nr. 199 sé óþekkt og því ekki vitað hvort klæðningin standist viðmiðunargeislunina 12,5 kW/m² eins og gengið sé út frá.
Fyrir liggi að hin kærða ákvörðun Reykjavíkurborgar byggist á því að fjarlægð milli húsanna tveggja sé einungis sex metrar. Af þeirri ástæðu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda standist það ekki gagnvart varúðarreglu og öryggissjónarmiðum að veita afslátt af kröfum sem gerðar séu í fyrirmælum og öðrum viðmiðunum útgefnum af stjórnvöldum. Vísað sé til lögmætis- og réttmætisreglna íslensks stjórnsýsluréttar þessu til stuðnings. Af eðli máls leiði síðan að lóðarhafi Vesturbergs 195 verði nú að hefjast handa að nýju við hönnun hússins þannig að öryggisfjarlægð milli húsanna sé í samræmi við opinber fyrirmæli og að lágmarki sjö metrar. Eigandi húss á aðliggjandi lóð eigi ekki að þurfa að sæta því að þessi öryggisfjarlægð sé skert og þar með mikilsverðir lögvarðir hagsmunir hans.
Verði svo litið á að gera megi bragarbót á hinni kærðu ákvörðun þannig að ekki þurfi að fella hana úr gildi, sé á því byggt að efnisleg ákvörðun um byggingarleyfi að Vesturbergi 195 verði að lágmarki að vera í samræmi við niðurstöðu Brunamálastofnunar, þ.e. að gluggar sem hin kærða ákvörðun geri ráð fyrir á norðurvegg Vesturbergs 195 verði að vera með eldþolnu gleri E60 og óopnanlegir. Megi raunar halda því fram með gildum rökum að á grundvelli öryggissjónarmiða beri að taka af alla glugga á norðurvegg Vesturbergs 195.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.
Í gildi sé deiliskipulag Breiðholts III, er taki til Vesturbergs 195. Sú staðreynd að breyting á deiliskipulagi skuli vera til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála komi ekki í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis með stoð í þeirri breytingu enda hafi henni ekki verið hnekkt.
Kærandi hafi ekki bent á neina ágallar á málsmeðferð þess. Séu því ekki rök fyrir ógildingarkröfu kæranda.
Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi var veitt á grundvelli deiliskipulagsbreytingar þeirrar er borgarráð samþykkti hinn 18. janúar 2007 og kærandi máls þessa skaut til úrskurðarnefndarinnar. Eins og fyrr er rakið var kveðinn upp úrskurður í því kærumáli hinn 11. mars 2008 þar sem kröfu kæranda um ógildingu skipulagsbreytingarinnar var hafnað og í þeim úrskurði er tekin afstaða til málsástæðna kæranda er teflt var fram gegn skipulagsbreytingunni. Verður deiliskipulag umrædds svæðis svo breytt því lagt til grundvallar í máli þessu, m.a. hvað varðar heimilaða fjarlægð viðbyggingar á lóðinni að Vesturbergi 195 frá lóðarmörkum Vesturbergs 199.
Það verður að telja meginreglu í stjórnarfarsrétti að ákvarðanir sem teknar eru af þar til bærum stjórnvöldum hafi réttarverkan og haldi gildi sínu þar til þeim er hnekkt með lögboðnum hætti, eða þær afturkallaðar, nema sérstaklega sé kveðið á um annað í lögum, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er að finna ákvæði í skipulags- og byggingarlögum þess efnis að kæra á stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar fresti réttaráhrifum hennar og verður því ekki fallist á að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að veita hið kærða byggingarleyfi þótt skipulagsbreyting sú sem það byggðist á hafi þá verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.
Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti hinn 1. apríl 2008 umsókn um breytta útfærslu glers í gluggum norðurgafls húsbyggingar að Vesturbergi 195 uppfyllir hið kærða byggingarleyfi þá kvöð í fyrrnefndri deiliskipulagsbreytingu að mögulegir gluggar á þeim gafli skuli vera með öryggisgleri. Að þessu virtu verður hið kærða byggingarleyfi talið í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.
Kemur þá til skoðunar hvort hönnun og útfærsla heimilaðrar byggingar standist brunaöryggiskröfur byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Í 75. gr. byggingarreglugerðar er kveðið á um að bil milli húsa þurfi að vera nægjanlegt til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra, sbr. gr. 75.1. Sé ekki sýnt fram á annað, svo sem með brunahönnun skv. gr. 141.2 reglugerðarinnar, skal miða við töflu í gr. 75.2 er tilgreinir fjarlægðir milli bygginga miðað við gefinn brunamótstöðustuðul.
Fyrir liggur í málinu álit Brunamálastofnunar þar sem fram kemur að sex metra fjarlægð milli umræddra húsa teljist nægjanleg að gættum öryggissjónarmiðum gr. 75.1 ef gler í gluggum norðurgafls húss að Vesturbergi 195 sé eldvarnargler með E60 brunamótstöðu og að gluggarnir séu óopnanlegir.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykir hafa verið sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að unnt sé, með viðeigandi brunahönnun, að víkja frá viðmiðunarreglum gr. 75.2 í byggingarreglugerð um lágmarksfjarlægðir milli húsa og að bil milli umræddra húsa geti því verið 6 metrar eins og skipulag gerir ráð fyrir og hin kærða ákvörðun felur í sér.
Samkvæmt framansögðu er fullnægt meginreglu gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og þar sem ekki liggur fyrir að umdeild ákvörðun sé haldin öðrum þeim annmörkum er ráðið geti úrslitum um gildi hennar verður ógildingarkröfu kæranda hafnað. Jafnframt falla úr gildi réttaráhrif úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 11. mars 2008 um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis frá 18. september 2007 fyrir viðbyggingu og breytingu á dæluhúsi Hitaveitu Reykjavíkur á lóðinni að Vesturbergi 195 í Reykjavík í þriggja íbúða raðhús.
_____________________________
Hjalti Steinþórsson
_______________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson