Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2012 Úlfarsfell

Árið 2012, mánudaginn 10. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. maí 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir tækjaskýli úr timbri og tveimur 10 m tréstaurum til fjarskiptareksturs á toppi Úlfarsfells í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra I, Urðarbrunni 14, Þ og H, Iðunnarbrunni 5, K, f.h. Íbúasamtaka Úlfarsárdals, Urðarbrunni 14, G, f.h. Landverndar, Skúlatúni 6 Reykjavík, og A, f.h. Geislabjargar, Krókamýri 6, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. maí 2012 að veita byggingarleyfi fyrir tækjaskýli úr timbri og tveimur 10 m tréstaurum til fjarskiptareksturs á toppi Úlfarsfells. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að mannvirki sem byggð séu á grundvelli hennar verði fjarlægð ásamt öðru raski sem fylgi framkvæmdunum.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik:  Forsaga þessa máls er sú að fyrirtækið Fjarskipti ehf. sótti um leyfi borgaryfirvalda til uppsetningar fjarskiptabúnaðar á Úlfarsfelli með bréfi, dags. 27. maí 2011.  Veitt var framkvæmdaleyfi fyrir lagningu rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp á koll Úlfarsfells hinn 1. desember 2011.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði, uppkveðnum 5. júní 2012,  með þeim rökum að hin kærða ákvörðun snerti ekki lögvarða hagsmuni kærenda og ættu þeir því ekki kæruaðild í málinu. 

Hinn 22. maí 2012 gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út byggingarleyfi fyrir hinum umdeildu mannvirkjum og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að þeir eigi kæruaðild í máli þessu á grundvelli lögvarinna hagsmuna eða samkvæmt heimild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og hafi kæra í máli þessu borist innan kærufrests. 

Þrír kærenda búi í suðurhlíðum Úlfarsfells í um tveggja kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðum mannvirkjum og noti þeir svæðið til útivistar og hafi útsýni til fellsins.  Þá séu það hagsmunir íbúasamtaka Úlfarsárdals sem hagsmunasamtaka íbúa á svæðinu auk fyrrgreindra kærenda, að svæðið byggist upp í samræmi við tímaáætlanir og gildandi ramma-, aðal- og deiliskipulag.  Hröð uppbygging íbúðarhverfisins leiði til þess að margvísleg þjónusta við íbúa komist á legg en væntingar um þá uppbyggingu haft áhrif á ákvörðun um fjárfestingu íbúa í lóðum á svæðinu.  Telji kærendur að umdeild mannvirki og áhrif þeirra á umhverfið muni draga úr áhuga á búsetu á svæðinu og seinka uppbyggingu þess og með því valda verðrýrnun lóða.  Hagsmunir íbúasamtakanna séu á sömu nótum og þeirra íbúa sem standi að kæru í máli þessu.  Landvernd eigi einnig hagsmuna að gæta í ljósi þess hlutverks síns að standa vörð um íslenska náttúru og að vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og ákvarðanatöku í umhverfismálum.  Falli samtökin undir 4. gr. laga nr. 130/2011 ásamt félaginu Geislabjörgu, félagi fólks um frelsi frá rafmengun, en fyrirhuguð mannvirki og möstur muni hýsa fjarskiptabúnað sem gefi frá sér ójónandi geislun sem geti snert heilsufar íbúa á svæðinu.  Íbúar og hagsmunasamtök þau sem að málinu standi eigi hagsmuna tengda því að öll mannvirki og notkun þeirra séu í samræmi við gildandi skipulag og eigi þau lögbundinn ábendingar-, athugasemda- og umsagnarrétt við skipulagsgerð. 

Auk framangreindra atriða, sem til þess séu fallin að skerða hagsmuni kærenda, verði að telja umdeild mannvirki í andstöðu við ákvæði og markmið gildandi skipulag  svæðisins og ákvæði skipulagsreglugerðar.  Um sé að ræða óbyggt svæði til útivistar þar sem ekki megi vænta að slík mannvirki sem hér um ræði rísi með tilheyrandi skerðingu á möguleikum til útivistar, útsýnisskerðingu, sjónmengun og áhrifum vegna geislunar.  Að mati kærenda þurfi að gera grein fyrir staðsetningu fjarskiptamannvirkja í deiliskipulagi sem stoð eigi í aðalskipulagi, að undangengnum nauðsynlegum athugunum og rannsóknum og aðkomu almennings.  Hefði með því verið gætt rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýslulaga og réttar almennings til aðkomu að skipulagsgerð samkvæmt skipulagslögum.  Hið kærða byggingarleyfi fari gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og markmiðum skipulagslaga og ekki sé til að dreifa réttarvenju eða tiltækum lögskýringarleiðum sem réttlætt gætu veitingu leyfisins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur eigi enga lögvarða hagsmuni tengda útgáfu byggingarleyfisins, en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á.  Auk tiltekinna íbúa á svæðinu standi þrenn samtök að kærumáli þessu og þar af einungis ein samtök sem tengja megi við Úlfarsárhverfi á beinan hátt, þ.e. íbúasamtök Úlfarsárdals. 

Ljóst sé að mörg mannvirki sjáist frá heimilum íbúa í Úlfarsárdal sem sum séu, í minna en tveggja km fjarlægð frá heimilum þeirra og önnur fjær.  Telja verði það verulega langsótt að íbúar í tveggja km fjarlægð frá mannvirki, eins og hér eigi við, eigi lögvarða hagsmuni af því að það rísi ekki.  Einnig sé erfitt að sjá að 15 m2 tækjaskýli ásamt tveimur 10 m háum tréstaurum takmarki svo útivistarmöguleika kærenda að þeir skerðist verulega vegna þessara framkvæmda, en fyrir séu á fellinu fjarskiptamannvirki.  Hafa beri í huga að Úlfarsfell standi í útjaðri sjálfs höfuðborgarsvæðisins og sé hvergi meiri þörf fyrir góð fjarskipti en þar.  Gildi það sérstaklega um höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess vegna þéttbýlis og verði þeir sem velji sér búsetu á því svæði að sætta sig við að slíkur búnaður geti reynst nauðsynlegur í ýmsum tilvikum þótt aldrei sé hann til sérstakrar prýði.  Reyndar sé búnaður sem þessi algengur um allt land á fjallstindum.  Verulega hæpið verði að teljast að fólk búsett í 2 km fjarlægð teljist svo tengt málinu að það geti umfram aðra kært slíkar framkvæmdir til æðra stjórnvalds.  Samtökin þrenn, þ.e. íbúasamtök Úlfarsárdals, Landvernd og Geislabjörg, teljist ekki eiga lögvarða hagsmuni í þessu máli.  Landvernd og Geislabjörg eigi enga sérstaka lögvarða hagsmuni af því hvort fjarskiptamastur sé sett upp á kolli Úlfarsfells eða ekki og hafi hingað til ekki skipt sér af uppsetningu fjarskiptamastra á Íslandi, svo vitað sé.  Nefnd samtök geti því ekki verið aðilar að kærumáli þessu. 

Hin kærða ákvörðun sé studd þeim rökum að umrædd fjarskiptamannvirki verði nýtt af fleirum en leyfishafa, sem sé í góðu samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur, þar sem tekið sé fram að leitast skuli við að fjarskiptafyrirtæki samnýti fjarskiptamannvirki, sbr. 25. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.  Almenn þörf sé á því að byggja upp góðan og varanlegan fjarskiptastað fyrir höfuðborgarsvæðið en fyrri fjarskiptamiðstöð á Rjúpnahæð í Kópavogi hafi verið lögð niður vegna byggingar nýrra hverfa.  Staðsetning fjarskiptamannvirkja á Úlfarsfelli sé talin heppileg með tilliti til dreifigetu, en brýn þörf sé á að finna mannvirkjum stað á höfuðborgarsvæðinu fyrir útvarpssendingar og fjarskiptaþjónustu.  Ekki verði séð að uppsetning fjarskiptabúnaðarins muni hindra umferð eða útivist nema þá á umræddum eystri kolli fellsins og útsýni frá öðrum hlutum fjallsbungunnar sé ekki síðra eða jafnvel betra.  Um styrk rafsegulsviðs segi í umsókninni að í mastrinu verði sendiloftnet vegna FM-útvarpssendinga, sjónvarpssendinga og annarra þeirra fjarskipta sem hentugt kunni að þykja að koma fyrir á þessum stað.  Útreikningar sýni að sviðsstyrkur dofni síðan hratt með aukinni fjarlægð frá mastrinu.  Ekkert bendi til þess að heilsuspillandi rafmengun verði á svæðinu og stefnt verði að því að geislun frá væntanlegum fjarskiptabúnaði verði innan þeirra viðmiða sem alþjóðaráð um varnir gegn ójónandi geislun setji.  Enginn af umsagnaraðilum hafi lagst gegn framkvæmdinni. 

Borgaryfirvöld geti ekki fallist á skoðun Skipulagstofnunar um að vinna þurfi deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæðið.  Það verði að teljast fátítt að nauðsyn beri til að deiliskipuleggja fjallasvæði eins og Úlfarsfell vegna uppsetningar hefðbundinna fjarskiptamannvirkja.  Í svæðisskipulaginu sé umræddur kollur Úlfarsfells skilgreindur sem „Opið óbyggt svæði“ og í aðalskipulaginu sem „Óbyggð svæði“.  Þótt litlu fjarskiptamastri sé komið fyrir á fjallstindi teljist svæðið eftir sem áður vera „óbyggt svæði“ og slíkt sé ekki í andstöðu við ofangreindar skipulagsáætlanir, enda hafi verið talið heimilt að reisa einstök mannvirki á slíkum svæðum, s.s. vegi, slóða og veitumannvirki eins og háspennulínur.  Af þessu megi ráða að stefna aðalskipulags útiloki ekki einstök minni háttar mannvirki, eins og hér um ræði, á slíkum svæðum.  Með hliðsjón af staðháttum hafi ekki verið tilefni til að grenndarkynna fyrirhuguð mannvirki enda óljóst að hverjum sú grenndarkynning ætti að beinast.  Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felist grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynni þeim nágrönnum leyfisumsókn sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta.  Sé vandséð hvernig velja hefði átt slíka nágranna í þessu tilviki. 

Því sé eindregið mótmælt að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega af borgarinnar hálfu.  Í fyrsta lagi hafi umsókn um byggingarleyfið verið mjög vel rökstudd.  Í öðru lagi hafi skipulags- og byggingarsvið leitað umsagna sjö aðila um málið og fengið þær umsagnir í hendur áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Útgáfa byggingarleyfis fyrir fjarskiptabúnaði á Úlfarsfelli byggi á III. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010 og hafi á engan hátt gengið í berhögg við lög eða lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. 

——————————-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum að í málinu en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í málinu hefur verið gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærendur eigi ekki kæruaðild.  Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Sú undantekning er gerð á fyrrgreindri meginreglu um kæruaðild í nefndu ákvæði að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta kært tilteknar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni enda samrýmist það tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er þar í fyrsta lagi um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, í öðru lagi ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og í þriðja lagi ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera. 

Að kærumáli þessu standa m.a. Íbúasamtök Úlfarsárdals, Landvernd og Geislabjörg.  Verða þessir kærendur, sem lögpersónur, ekki taldir eiga þeirra hagsmuna að gæta að það veiti þeim kæruaðild í málinu.  Þá fellur hin kærða ákvörðun ekki undir  upptalningu ákvarðana í áðurgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en þar er tilteknum hagsmunasamtökum játuð kæruaðild án þess að þau hafi sýnt fram á lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra lýtur að.  Verður kærumálinu því vísað frá að því er þessa kærendur varðar. 

Þeir einstaklingar sem standa að kærumálinu búa í nokkurri fjarlægð frá þeim stað sem leyft var að reisa umdeild mannvirki, en í ljósi staðsetningar mannvirkjanna á toppi Úlfarsfells geta þau snert grenndarhagsmuni þeirra.  Þykja þeir kærendur eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og verður kæru þeirra af þeim sökum ekki vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú eina undantekning er gerð í lögunum frá deiliskipulagsskyldu vegna leyfisskyldra mannvirkja í dreifbýli og á óbyggðum svæðum að unnt er að veita byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 1. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna.  Áður en ákvörðun var tekin um að veita hið kærða byggingaleyfi var umrætt svæði hvorki deiliskipulagt né hafði verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir leyfisveitingunni.  Þessi annmarki á undirbúningi ákvörðunarinnar er verulegur og veldur því að ógilda ber hina kærðu ákvörðun. 

Úrskurðarorð: 

Kæru íbúasamtaka Úlfarsárdals, Landverndar og Geislabjargar er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. maí 2012, um að veita byggingarleyfi fyrir tækjaskýli úr timbri og tveimur 10 m tréstaurum til fjarskiptareksturs á toppi Úlfarsfells, er felld úr gildi. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson