Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2011 Austurvegur

Árið 2012, miðvikudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2011, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá  17. febrúar 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi á lóð nr. 11d við Austurveg í Vík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. ágúst 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir J, eigandi Kirkjuvegar 3 í Vík, ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 17. febrúar 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi á lóð nr. 11d við Austurveg í Vík.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Kirkjuvegi 3 í Vík.  Vestanmegin við lóð hans er lóðin Austurvegur 11c en norðanmegin er lóðin Austurvegur 11d.  Milli lóðar kæranda og lóðarinnar Austurvegar 11c mun hafa verið 90 cm breiður göngustígur er lá að Austurvegi 11d.  Að þeirri lóð liggur hins vegar engin innkeyrsla fyrir bifreiðar.  Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir hverfið, Hjallahverfi, þar sem fasteignir þessar eru staðsettar. 

Á árinu 2009 var eiganda lóðarinnar nr. 11d við Austurveg veitt leyfi til að byggja hús á lóðinni.  Jafnframt var samþykkt breytt aðkoma að henni.  Ákvörðunum þessum skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar og krafðist ógildingar þeirra.  Með úrskurði 4. ágúst 2011 vísaði úrskurðarnefndin kærunni frá að því er byggingarleyfið varðaði með þeim rökum að samþykkt sveitarstjórnar um leyfið væru fallin úr gildi vegna lögbundins tímafrests.  Þá felldi nefndin úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar um breytta aðkomu að Austurvegi 11d.

Stuttu eftir að úrskurður gekk í málinu bárust úrskurðarnefndinni upplýsingar um að sveitarstjórn hefði endurnýjað umdeilt byggingarleyfi innan tímafrests, fyrst með ákvörðun 27. janúar 2010 og síðan með ákvörðun 17. febrúar 2011.  Í kjölfar þeirra upplýsinga vísaði kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 18. ágúst 2011, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi tekur fram að honum hafi ekki verið tilkynnt um ákvarðanir sveitarstjórnar um endurnýjun hins umdeilda byggingarleyfis og hafi honum ekki verið kunnugt um þær fyrr en eftir að úrskurður hafi gengið í fyrra máli hinn 4. ágúst 2011.  Þar hafi verið fallist á rök hans um að óheimilt væri að skerða lóð hans svo sem gert hafi verið þegar aðkomu að lóðinni Austurvegi 11d hafi verið breytt.  Því sé ljóst að sveitarfélagið þurfi að gera nýjar tillögur að aðgengi fyrirhugaðrar fasteignar að Austurvegi 11d, enda geti aðgengið aldrei verið vestan megin við lóð kæranda.

Ætli lóðarhafi Austurvegar 11d að reisa hús á lóðinni þurfi hann að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Að mati kæranda séu skilyrði reglugerðarinnar um aðgengi að lóðinni með engu móti uppfyllt, en í henni sé m.a. áskilið að greið aðkoma sé að lóðum, m.a. fyrir sjúkra- og slökkvibíla og til almennra flutninga.  Þar sem Mýrdalshreppur hafi hvorki gert tillögur að nýju aðgengi að lóðinni né grenndarkynnt slíkar tillögur sé ljóst að núgildandi byggingarleyfi fari í bága við ákvæði byggingarreglugerðar.

Þá hafi í ýmsum efnum skort á að gætt væri ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð málsins og eigi þeir ágallar sem séu á efni og undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að leiða til ógildingar hennar.

Málsrök Mýrdalshrepps:  Af hálfu Mýrdalshrepps er því hafnað að skort hafi á að sveitarstjórn upplýsti um afgreiðslur á erindum byggingarleyfishafa um endurnýjun leyfis.  Hefði sveitarstjórn hins vegar hafnað því að framlengja umrætt leyfi og þannig breytt um afstöðu til þess máls sem verið hafi til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni hefði þurft að gera öllum hlutaðeigandi grein fyrir þeirri breyttu afstöðu.  Rétt sé að fram komi að ekki hafi verið ágreiningur um hvort byggja ætti á umræddri lóð heldur hafi ágreiningurinn lotið að þeirri ákvörðun sveitarstjórnar að breyta mörkum lóðar kæranda til að auðvelda aðkomu að Austurvegi 11d.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Sjónarmið byggingarleyfishafa liggja fyrir í samantekt hans í fyrra máli.  Er þar rakinn aðdragandi málsins og kemur þar fram að bætt aðkoma að lóð byggingaleyfishafa ráði miklu um byggingaráform hans.  Það sé einlæg von hans að sátt geti skapast um að gera umhverfið þarna fallegra en það hafi verið í mörg ár. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið endurnýjaði sveitarstjórn tvisvar ákvörðun sína um byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Austurvegi 11d meðan mál um gildi upphaflegs byggingarleyfis var til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Er hin síðari endurnýjun frá 17. febrúar 2011 sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  Er hún enn í gildi en líta verður svo að í henni felist samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, en slík samþykkt gildir í tvö ár frá útgáfu, sbr. 4. mgr. gr. 2.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Var þetta gert án þess að kæranda eða úrskurðanefndinni væri gert kunnugt um þessar ráðstafanir.  Mátti sveitarstjórn þó vera ljóst að þessar ákvarðanir skiptu kæranda máli og gátu haft þýðingu við úrlausn málsins fyrir úrskurðarnefndinni.  Bar sveitarstjórn því, með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að gefa kæranda kost á að tjá sig um fyrirhugaðar endurnýjanir umdeilds byggingarleyfis og jafnframt að upplýsa úrskurðanefndina um þær, enda lá fyrir sveitarstjórn beiðni nefndarinnar um gögn og upplýsingar varðandi málið.  Þá liggur fyrir að eftir að úrskurðarnefndin felldi úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar um að breikka aðkomu að lóð byggingarleyfishafa, færa umrætt hús og breyta mörkum lóða verður ekki stuðst við áður útgefið byggingarleyfi, enda þarf að gera grein fyrir hvernig aðkomu að húsinu verður háttað, en aðkoma að lóð er meðal þess sem gera skal grein fyrir á aðaluppdráttum mannvirkis, sbr. þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr. 18.14.  Er hin kærða ákvörðun þannig haldin slíkum annmörkum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 17. febrúar 2011, um að veita byggingarleyfi fyrir húsi að Austurvegi 11d, er felld úr gildi.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________      _____________________________
Ásgeir Magnússon                               Þorsteinn Þorsteinsson