Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2002 Höfði

Ár 2004, fimmtudaginn 8. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2002, kæra eiganda landspildu í Skammadal í landi Reykja, Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 5. nóvember 2002 þess efnis að viðbygging við eldra hús skuli fjarlægð. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. desember 2002, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir G, Bergstaðarstræti 52, Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 5. nóvember 2002 þess efnis að viðbygging við eldra hús skyldi fjarlægð. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 13. nóvember 2002.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að landspildu í Skammadal í landi Reykja, Mosfellsbæ, en þar stendur húsið Höfði sem reist var á árunum 1936 – 1938 af Starfsmannafélagi Sambands íslenskra samvinnufélaga.  Síðar eignaðist kærandi fasteignina og árið 1998 óskaði hann eftir heimild byggingarnefndar Mosfellsbæjar til að setja niður sumarbústað til bráðabirgða á landinu og gaf nefndin út stöðuleyfi til eins árs.  Stöðuleyfi þetta var tvívegis framlengt og í bæði skiptin til eins árs, fyrst hinn 22. nóvember 1999 og síðar hinn 5. september 2000.  Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi innréttað sumarbústaðinn og tengt hann eldra húsinu sem fyrir stóð á landspildunni.  Í júlí árið 1999 var kæranda veittur réttur til heilsársbúsetu í húsinu. 

Eins og fyrr segir veittu byggingaryfirvöld kæranda stöðuleyfi fyrir sumarbústaðnum en beiðni hans um að viðbyggingin fengi að standa til frambúðar var hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 16. desember 1999.  Kærandi ritaði bæjarrráði bréf, dags. 12. mars 2000, þar sem hann fór fram á hið sama, en á fundi skipulagsnefndar hinn 18. apríl sama ár var erindinu synjað og fór nefndin fram á að viðbyggingin yrði fjarlægð.  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi hinn 26. apríl 2000. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. september 2002 var tekið til afgreiðslu erindi kæranda þar sem hann óskaði eftir heimild til stækkunar hússins og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Erindi frá Guðmundi Lárussyni, dags. 01.09.2002, þar sem óskað er eftir heimild til stækkunar á húsnæði.  Heildarstærð hússins eftir stækkun er 120m².  Um er að ræða leyfi fyrir húsnæði sem fékk tímabundið stöðuleyfi til eins árs og rann sá frestur út á árinu 2000.  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er sumarhúsið á svæði sem skilgreint er sem almennt útivistarsvæði, þar sem ekki er gert ráð fyrir sumarhúsi eða heilsárshúsi.  Málinu frestað og vísað til umhverfisdeildar til frekari skoðunar í samræmi við umræður á fundinum.“ 

Hinn 5. nóvember 2002 er erindi kæranda tekið til afgreiðslu á ný og er eftirfarandi fært til bókar:  „Erindi frá Guðmundi Lárussyni, dags. 29.08.2002.  Framhaldsumræða.  Símbréf, dags. 4.11.2002, þar sem óskað er eftir frestun á erindi hans.  Umræðu um framtíðar landnotkun er frestað.  Nefndin ítrekar fyrri samþykktir nefndarinnar um að viðbygging við eldra hús skuli fjarlægð, en framlenging stöðuleyfis hennar rann út 05. september 2001.  Nefndin felur umhverfisdeild að vinna að því að viðbyggingin verði fjarlægð.“  Bæjarstjórn staðfesti framangreinda bókun á fundi hinn 13. nóvember 2002.

Í kjölfar bókunar skipulags- og byggingarnefndar sendi byggingarfulltrúi kæranda máls þessa bréf þar sem segir m.a. eftirfarandi:  „Þann 14. nóvember 2002 var þér tilkynnt bréflega um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar vegna framtíðarnotkunar á landi þínu ásamt ítrekun á fyrri samþykktum nefndarinnar um að fjarlægja skuli sumarbústaðinn.  Í bréfinu var bent á málskotsrétt samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og reglugerðar nr. 621/1997.  Hér með tilkynnist að í framhaldi af samþykkt skipulags- og byggingarnefndar þann 05.11.2002 er þess krafist að þú fjarlægir sumarbústaðinn fyrir 6. janúar 2003.  Hafi bústaðurinn ekki verið fjarlægður þá verður farið með málið í samræmi við ákvæði 56. og 57. greinar skipulags- og byggingarlaga og dagsektarákvæðum beitt, þar til úr hefur verið bætt. Þetta erindi verður kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar þann 3. desember 2002.  Að öðru leiti skal bent á meðfylgjandi ákvæði 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga um þvingunarúrræði og viðurlög“. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 var bréf byggingarfulltrúa, dags. 28. nóvember 2002, kynnt nefndinni og bókaði nefndin eftirfarandi:  „Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að verði umrædd bygging ekki fjarlægð fyrir tilskilinn tíma þá samþykki bæjarstjórn að beita dagsektum og ákveða upphæð þeirra“  Bæjarstjórn staðfesti framangreint á fundi hinn 18. sama mánaðar.

Kærandi máls þessa er ósáttur við framgöngu skipulags- og byggingaryfirvalda í Mosfellsbæ og hefur kært meðferð málsins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan er rakið. 

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að viðbyggingin hafi verið tengd eldra húsinu án nokkurra athugasemda bæjaryfirvalda enda forsendur leyfisins þær að fjölskylda hans gæti búið í húsinu sem heilsárshúsnæði.  Á sama tíma hafi staðið fyrir dyrum framkvæmdir við einbýlishús í hans eigu annars staðar í sveitarfélaginu. 

Kærandi bendir á að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt á fundi hinn 30. apríl 2002 að auglýsa deiliskipulag á landi Höfða, sem sýni húsbyggingu á lóðinni eins og hún sé í dag.  Engar athugasemdir hafi borist við tillögu þessari en bæjaryfirvöld hafi ákveðið að fresta afgreiðslu hennar þar til nýtt aðalskipulag hafi verið afgreitt. 

Kærandi nefnir einnig að landeigendur austan Reykjalundar, þ.m.t. kærandi, hafi óskað eftir því við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að landnotkun lóða yrði breytt í íbúðarsvæði. 

 Kærandi vísar til þess að húsnæði hans að Höfða hafi verið byggt á árunum 1936 – 1938 og þá sem heilsársbústaður en ekki sem sumarhús, enda hafi hann árið 1999 fengið heilsársbúseturétt í húsinu.  Meginhluti húsnæðisins að Höfða hafi fullt leyfi byggingaryfirvalda og bæjarstjórnar en viðbyggingin hafi verið samþykkt með svokölluðu stöðuleyfi. 

Kærandi heldur því fram að ákvörðun bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ um að fjarlægja viðbygginguna sé órökstudd og ómálefnaleg.  Enginn rök hafi verið sett fram um nauðsyn þess að viðbyggingin víki.  Stjórnvöldum, þ.m.t. bæjarstjórn Mosfellsbæjar, beri við ákvarðanatöku að gæta meðalhófs og grípa ekki til harðari aðgerða gegn þegnunum en nauðsynlegt sé.  Því sé ekki fyrir að fara í máli þessu.  Kærandi fullyrðir að hann hafi mun meiri hagsmuni af því að viðbyggingin fái að standa en bærinn af því að hún eigi að víkja.  Ákvörðun bæjarins um að veita stöðuleyfi fyrir byggingunni sýni að bærinn hafi metið hana nauðsynlega fyrir kæranda.  Verði viðbyggingin fjarlægð standi meirihluti hússins samt sem áður áfram með fullu leyfi og búseturétti.  Bæjaryfirvöld verði að sýna fram á hvaða hagsmunir búi að baki kröfunni um brottflutning en kærandi meti hagsmuni bæjarins enga. 
Kærandi bendir á mikilvægi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og heldur því fram að bæjaryfirvöld hafi samþykkt fjölda viðbygginga við þegar byggð hús og engin lög eða reglugerðir banni bæjaryfirvöldum að samþykkja viðbyggingu við húsið Höfða. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Mosfellsbær vísar á bug fullyrðingum kæranda um að ákvörðun bæjarins sé órökstudd og ómálefnaleg.  Mál þetta hafi verið til umræðu hjá skipulags- og byggingarnefnd bæjarins frá árinu 1998.  Á þeim tíma hafi kærandi ítrekað sent inn beiðnir um leyfisveitingar og/eða frestun málsins.  Öllum erindum kæranda hafi verið svarað og hafi verið fjallað um mál hans á meira en 15 fundum hjá skipulags- og byggingarnefnd, umhverfisdeild bæjarverkfræðings, bæjarráði og bæjarstjórn.  Á þessum fundum hafi ávallt verið ítrekað við kæranda að hann hefði einungis bráðabirgðaleyfi fyrir viðbyggingunni.  Einnig hafi margoft verið ítrekað við kæranda að honum bæri að fjarlægja viðbygginguna. 

Mosfellsbær bendir á að í upphaflegri umsókn kæranda um leyfi fyrir viðbyggingunni, dags. 10. desember 1998, komi fram að sótt hafi verið um tímbundið leyfi fyrir geymslu.  Kærandi hafi tekið fram að síðan ætti að flytja geymsluna norður í Eyjafjörð.  Kærandi hafi fengið stöðuleyfi til eins árs fyrir geymslunni, sbr. bréf byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar til kæranda, dags. 11. desember 1998.  Síðar hafi kærandi fengið ársframlengingu með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. nóvember 1999.  Kærandi hafi á ný sent beiðni um leyfi fyrir viðbyggingunni með bréfi, dags. 8. desember 1999.  Þá hafi geymslan verið orðin að íbúðarhúsi.  Byggingarnefnd hafi synjað þeirri beiðni á fundi nefndarinnar hinn 16. desember 1999, og ítrekaði að einungis hafi verið um bráðabirgðastöðuleyfi að ræða.  Kærandi hafi sent inn erindi með bréfi til bæjarráðs, dags. 12. mars 2000, og hafi það verið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 18. apríl sama ár og hafnað.  Erindið hafi einnig verið tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 26. apríl 2000, og þar hafi höfnun á beiðni um viðbyggingu verið staðfest.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi veitt kæranda 12 mánaða framlengingu á stöðuleyfinu hinn 7. september 2000 og sérstaklega tekið fram að ekki yrði um frekari framlengingu að ræða.  Kæranda hafi því ávallt mátt vera ljóst að hann fengi ekki varanlegt leyfi fyrir viðbyggingunni, enda væri slíkt í andstöðu við gildandi aðalskipulag.

Mosfellsbær hafnar því sömuleiðis að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin á kæranda.  Mosfellsbær hafi veitt kæranda ítrekuð tækifæri til að fjarlægja viðbygginguna sjálfur.  Það sé ljóst að Mosfellsbæ beri lögum samkvæmt að láta fjarlægja viðbygginguna, þar sem ekki sé lengur leyfi fyrir henni.  Mosfellsbær hafi ekki enn gert það að teknu tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og fjölskylduhaga kæranda.  Eðlilegast sé því að kærandi fjarlægi viðbygginguna sjálfur. 

Mosfellsbær mótmælir einnig skilningi kæranda þess efnis að jafnræðisregla hafi verið brotin á honum.  Aldrei hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir hús eða viðbyggingar sem þegar hafi verið reist í óleyfi, enda slíkt í beinni andstöðu við lög nr. 73/1997.

Andsvör kæranda við málsrökum Mosfellsbæjar:  Kærandi vísar til þess að nýsamþykkt Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 beri með sér að gert sé ráð fyrir því að lóð hans verði breytt úr grænu svæði í íbúðarsvæði.  Sú breyting sé gerð í fullu samráði við hann og með hans samþykki.

Kærandi bendir einnig á að fyrir nokkru hafi skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar auglýst deiliskipulag af umræddu landi sínu.  Þar hafi lóð hans verið sýnd sem stofnanasvæði í samráði við stjórnendur Reykjalundar, sem land eigi að landi kæranda.  Á deiliskipulagsuppdrættinum sé hús kæranda, Höfði, sýnt nákvæmlega eins og það sé nú, þ.e. eldra hús ásamt viðbyggingu.  Engar athugasemdir hafi borist við deiliskipulagstillöguna er hún hafi verið auglýst.  Tillagan hafi verið unnin í fullu samráði kæranda og bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ.  Síðar hafi verið ákveðið að hverfa frá þessari landnotkun og breyta lóð kæranda og lóðum fleiri landeigenda á svæðinu í íbúðarsvæði og sé full sátt um það meðal þessara aðila og bæjaryfirvalda.

Með áðurgreindu breyttu aðalskipulagi telji kærandi enn síður nokkur rök standa til þess að honum verði gert að fjarlægja umrædda viðbyggingu við Höfða. 

Þá ítreki kærandi að engar athugasemdir hafi borist frá aðilum, sem hagsmuni kynnu að eiga vegna viðbyggingarinnar að Höfða, enda raski hún ekki hagsmunum nokkurs aðila.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér að kæranda var gert skylt að fjarlægja viðbyggingu við húsið Höfða, Skammadal í Mosfellsbæ.

Af málsgögnum verður ráðið að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um að gera kæranda skylt að fjarlægja viðbygginguna hafi verið tekin í tilefni af beiðni hans um að umrædd bygging fengi að standa til frambúðar, þ.e. að veitt yrði byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni.  Af sömu gögnum verður aftur á móti hvergi séð að kæranda hafi gefist kostur á að tjá sig um þá ætlan skipulags- og byggingarnefndarinnar að krefjast þess að viðbyggingin yrði fjarlægð með vísan til 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Ljóst er að hin kærða ákvörðun er töluvert íþyngjandi fyrir kæranda, og mun m.a. hafa talsverða fjárhagslega þýðingu fyrir hann.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar hafi ekki verið heimilt að taka slíka ákvörðun án þess að gætt væri ákvæðis 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt kæranda. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 5. nóvember 2002 er felld úr gildi.

______________________
Ásgeir Magnússon

_______________________        ____________________
Þorsteinn Þorsteinsson                   Ingibjörg Ingvadóttir