Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2011 Baughóll

Árið 2012, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 67/2011, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 10. ágúst 2011 um að veita leyfi til að byggja garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól, Húsavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. september 2011, er barst nefndinni 14. s.m., kærir O, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 10. ágúst 2011 að veita leyfi til að byggja garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól.  Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings hinn 8. júní 2011 var tekið fyrir erindi lóðarhafa Baughóls 33 frá 20. maí s.á. þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 7,2 m2 garðhýsi á lóðinni.  Fyrir lá útlits-  grunn og afstöðumynd af garðhýsinu.  Enn fremur lá fyrir samþykki allra nágranna nema lóðarhafa Baughóls 31C.  Var niðurstaða fundarins sú að nefndin fól byggingarfulltrúa að grenndarkynna erindið íbúum að Baughóli 31C.  Með bréfi, dags. 14. júní 2011, var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við fyrirhugaða framkvæmd, sem þeir og gerðu með bréfi, dags. 12. júlí s.á., þar sem lagst var gegn leyfi fyrir garðhýsinu.  Málið var síðan tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 10. ágúst 2011 þar sem fallist var á byggingu garðhýsisins, enda yrði það að lágmarki 3 m frá lóðarmörkum gagnvart Baughóli 31C og gólfhæð þess að hámarki 15 cm yfir núverandi meðalyfirborðshæð jarðvegs á grunnstæði garðhýsisins.  Bæjarráð Norðurþings staðfesti þá afgreiðslu í umboði bæjarstjórnar hinn 11. s.m. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að garðhýsi það sem leyfishafi hafi sett upp í garði sínum hindri útsýni frá húsi kæranda og skerði þannig lífsgæði hans, sem hann hafi notið frá því hús hans hafi verið reist.  Hafi leyfishafi rætt við kæranda um fyrirhugaða byggingu umdeilds garðhýsis í nokkur ár og hafi kærandi boðið leyfishafa að setja upp grind með útlínum garðhýsisins þannig að hægt væri að sjá stærð og hæð hússins frá sjónarhóli kæranda.  Kærandi hafi talið að staðsetning og hæð hússins myndi hindra verulega sýn úr eldhúsi hans og að lækka þyrfti húsið um einn metra.  Leyfishafi hafi ekki tekið undir þá tillögu.  Hafi kærandi því lagst gegn fyrirhugaðri byggingu garðhýsisins. 

Málsrök Norðurþings:  Af hálfu Norðurþings er vísað til þess að þær óformlegu vinnureglur hafi verið viðhafðar í Norðurþingi til fjölda ára að líta ekki á garðhýsi undir 9 m2 sem byggingarleyfisskyld mannvirki enda séu þau sett niður í sátt við nágranna.  Slík hús hafi heldur ekki verið skráð í fasteignaskrá og ekki hafi verið krafist faggiltra teikninga vegna þeirra.  Mikið hafi verið reist af slíkum mannvirkjum á Húsavík á undanförnum árum og fæst þeirra hafi komið til umfjöllunar hjá sveitarfélaginu.  Garðhýsið sem hér um ræði standi á ódeiliskipulögðu svæði og hafi leyfishafi nú þegar reist umdeilt garðhýsi.  Þar sem ljóst hafi verið að ekki yrði sátt um bygginguna af hálfu nágranna hafi erindi leyfishafa verið tekið til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hinn 8. júní 2011 og ákveðið að grenndarkynna umsóknina fyrir íbúum að Baughóli 31C. 

Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið að um væri að ræða 7,2 m2 lágreist garðhýsi en mesta hæð þess væri 2,7 m og að eðlilegt væri að lóðarhafi fengi leyfi til að byggja á sinni lóð ef það skerti ekki hagsmuni nágranna umtalsvert.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi skoðað aðstæður á byggingarstað og talið að húsið skerti aðeins óverulega útsýni af lóð kæranda enda húsið lágreist og lóðin að Baughóli 33 um einum metra lægri í landi en lóð kæranda auk þess sem gólfhæð húss kæranda væri um 40 cm yfir lóðarhæð.  Það útsýni sem kærendur missi sé fyrst og fremst útsýni yfir  gróður garða nágranna sinna. 

Andmæli leyfishafa:  Af hálfu leyfishafa er farið fram á að leyfið haldi gildi sínu.  Umrætt garðhýsi standi 3 m frá lóðamörkum.  Garðhýsið skerði ekkert útsýni yfir flóann né niður í bæ heldur einungis lítilsháttar á lóðir tveggja húsa handan götunnar.  Þá sé lóð leyfishafa u.þ.b. einum metra lægri en lóð kæranda auk þess sem gólfhæð húss kæranda sé um 40 cm yfir lóðarhæð. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um leyfi fyrir 7,2 m2 garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól.  Garðhýsið er lítið og lágreist og er staðsett um þrjá metra frá mörkum lóða kæranda og leyfishafa.  Verður að telja að garðhýsið hafi það óveruleg grenndaráhrif gagnvart kæranda að ekki komi til álita að hnekkja hinni kærðu ákvörðun af þeim sökum en aðrar ástæður liggja ekki fyrir í máli þessu sem leitt geti til ógildingar hennar.  

Þykir hér rétt að geta þess að í g-lið gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem tók gildi 8. febrúar 2012, eru tiltekin smáhýsi á lóðum, að hámarki tíu fermetrar að stærð, undanþegin byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Norðurþings frá 10. ágúst 2011 um að leyfa garðhýsi á lóðinni nr. 33 við Baughól, Húsavík. 

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson