Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2010 Kópavogsbakki

Árið 2013, mánudaginn 6. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2010, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 16. nóvember 2010 um að hafna umsókn kærenda um frágang á lóðamörkum og um stoðvegg á lóð Kópavogsbakka 4 í Kópavogi, svo og kæra á samþykkt byggingarnefndar frá 14. desember 2010 um frágang lóða.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2010, sem barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. E og G, Kópavogsbakka 4, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 16. nóvember 2010 að hafna umsókn þeirra um frágang á lóðamörkum og um stoðvegg á lóð Kópavogsbakka 4.  Gera þau þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarnefnd að samþykkja umsókn kærenda.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2011, er barst úrskurðarnefndinni 11. sama mánaðar, kæra sömu aðilar samþykkt sem byggingarnefnd Kópavogs gerði á fundi 14. desember 2010 um lóðafrágang Kópavogsbakka 4 og 6.  Þau krefjast úrskurðar þess efnis að byggingarnefnd Kópavogs hafi borið að samþykkja framangreinda umsókn þeirra, sem tekin hafi verið fyrir 16. nóvember 2010. Verður síðara kærumálið, nr. 5/2011, sameinað hinu fyrra máli, sem er nr. 80/2010, þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi og málatilbúnaðurinn varðar sama álitaefni.

Með bréfum, dags. 29. desember 2010 og 17. janúar 2011, voru Kópavogsbæ send afrit kæranna en engin gögn hafa borist frá bænum.

Málsatvik og rök:  Deiliskipulag fyrir Kópavogstún var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs á árinu 2005. Breyting var gerð á deiliskipulaginu árið 2006 og gatan Kópavogsbakki færð um tvo metra til suðurs. Lóðirnar neðan götu hliðruðust til suðvesturs, voru stækkaðar og breikkaðar. Landið hallar niður að sjónum. Kærendur sóttu um byggingarleyfi fyrir húsinu á Kópavogsbakka 4 í febrúar 2007. Húsið er byggt á háum sökkulveggjum eins og hús nr. 2, ólíkt húsum nr. 6, 8 og 10, sem eru byggð á jarðvegspúða.  Suðurhluti lóða nr. 2 og 4 er lægri en lóðar nr. 6 og er verulegur hæðarmunur milli lóða nr. 4 og 6.  Árið 2008 sóttu kærendur um leyfi til að nýta gluggalaust rými undir húsi sínu og var umsóknin samþykkt.

Ágreiningur varð á milli kærenda og lóðarhafa Kópavogsbakka 6 um frágang á lóðamörkum.  Niðurstaða byggingarnefndar Kópavogs 18. ágúst 2009 var að frágangur lóðamarka milli Kópavogsbakka 4 og 6 skyldi vera eins og fram kemur í skipulagsskilmálum fyrir lóðirnar og á teikningu af austurhlið Kópavogsbakka 4.
Umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir breytingu á lóð þeirra var síðar synjað. Loks var kærendum settur frestur til 1. febrúar 2010 til að ljúka jöfnun lóðarinnar. Lóðarhafar kærðu þessar þrjár ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar og voru þær felldar úr gildi með úrskurði 1. mars 2010, í máli nr. 63/2009.

Fram kemur í fundargerð byggingarnefndar 16. mars 2010 að lóðarhafi Kópavogsbakka 4 sæki um leyfi til að breyta hæðarlegu lóðarinnar og að málinu sé frestað.  Í fundargerð nefndarinnar frá 29. júní 2010 kemur fram að hún samþykki að skipulags- og umhverfissvið hlutist til um að ráða landslagsarkitekta til að gera tillögu að frágangi lóðamarka Kópvogsbakka 4 og 6 og skuli taka mið af hagsmunum beggja aðila, með hliðsjón af ákvæðum skipulagsins.  Þá segir í fundargerð byggingarnefndar 19. október 2010 að haldinn hafi verið fundur með lögmönnum lóðarhafa Kópavogsbakka 4 og 6 og hugmynd að mögulegri sátt hafi komið fram.  Á fundi nefndarinnar 16. nóvember s. á. var málið enn tekið fyrir.  Bókað er um tvær fyrirtökur á málinu á þeim fundi.  Í fyrri bókuninni segir að umsókn um byggingarleyfi sé synjað þar sem leyfið samræmdist ekki deiliskipulagi.  Í minnisblaði sem vísað er til í þessari bókun segir að komið hafi til skoðunar að afturkalla byggingarleyfi fyrir kjallara þar sem óheimilt væri að hafa kjallara í húsinu.  Ef fallist yrði á umsókn um breytingu á lóð væri verið að samþykkja að húsið yrði tveggja hæða og því væri lagt til að umsókninni yrði synjað. Aftar í fundargerð byggingarnefndar 16. nóvember 2010 segir að málið sé tekið fyrir.  Rakið er það sem bókað hafði verið um efnið á fyrri fundum nefndarinnar.  Svo segir að byggingarnefnd fresti málinu og muni kynna sér framkvæmdir á vettvangi.  

Málið var næst tekið fyrir í byggingarnefnd 14. desember 2010. Í fundargerð þess fundar kemur fram að nefndin samþykki að frágangur lóða við Kópavogsbakka 4 og 6 skuli vera með tilteknum hætti sem lýst er í bókun nefndarinnar.  Í lokalið bókunarinnar segir að samþykktin gildi, nema lóðarhafar Kópavogsbakka 4 og 6 komist að samkomulagi um annan frágang lóða sinna. Verði samkomulag með lóðarhöfum um frágang á lóðamörkum fyrir 31. mars 2011 skuli það lagt fyrir bæjaryfirvöld til afgreiðslu.  Bæjarráð staðfesti afgreiðslu byggingarnefndar 16. desember 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu bæjarráðs 21. desember s.á.

Eigendur Kópavogsbakka 4 og Kópavogsbakka 6 gerðu með sér samkomulag um frágang á mörkum lóða sinna hinn 15. febrúar 2011.  Þar segir að hæðarmunur milli lóðanna skuli jafnaður með jöfnum fláa, og ganga skuli frá lóðamörkum í samræmi við uppdrætti sem festir séu við samkomulagið. Á uppdráttunum sést að lóðin Kópavogsbakki 6 er hærri en lóð nr. 4 og er brattur flái á milli lóðanna.  Getið er um þetta samkomulag lóðarhafanna í fundargerð skipulagsnefndar þennan sama dag þar sem fjallað var um breytt deiliskipulag varðandi lóðirnar nr. 2 og 4 við Kópavogsbakka, þannig að húsin á lóðunum yrðu skilgreind sem ein hæð með kjallara.  Einnig er þessa samkomulags getið í bókun bæjarstjórnar Kópavogs 24. maí 2011 þar sem til afgreiðslu var umrædd tillaga að  breyttu deiliskipulagi.

Í málinu er krafist ógildingar á synjun Kópavogs frá 16. nóvember 2010, en kærendum virðist hafa verið tilkynnt um synjunina en ekki um frestun málsins síðar á fundinum. Jafnframt lítur kæran að samþykkt byggingarnefndar 14. desember 2010.  Kemur þar fram að kærendum sé ekki ljóst hvaða umsókn hafi verið til meðferðar þegar samþykktin hafi verið gerð.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið frestaði byggingarnefnd umfjöllun sinni um umsókn kærenda á fundi sínum hinn 16. nóvember 2010, þrátt fyrir að hafa fyrr á fundinum synjað umsókninni.  Liggur fyrir að efnisleg ákvörðun í málinu var tekin síðar.  Samkvæmt því verður ekki séð að hin kærða synjun hafi bundið endi á meðferð málsins.  Var synjunin því ekki kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og verður þessum kærulið því vísað frá nefndinni.  

Byggingarnefnd samþykkti á fundi sínum hinn 14. desember 2010 fyrirmæli um frágang á lóðamörkum Kópavogsbakka 4 og 6.  Í lokalið samþykktarinnar segir að hún gildi nema lóðarhafar komist að samkomulagi um annan frágang lóða sinna en samþykkt nefndarinnar mæli fyrir um. Takist samkomulag lóðarhafanna um frágang á lóðamörkum fyrir 31. mars 2011 skuli það lagt fyrir bæjaryfirvöld til afgreiðslu.

Fyrir liggur að samkomulag varð með lóðarhöfum hinn 15. febrúar 2011 og var það lagt fyrir bæjaryfirvöld.  Var með því fullnægt skilyrðum þeim sem fram komu í umræddri samþykkt byggingarnefndar og hefur samþykkt nefndarinnar ekki lengur neina þýðingu að lögum.  Breytir engu um þá niðurstöðu þótt svo virðist sem bæjaryfirvöld hafi ekki tekið umrætt samkomulag til formlegrar afgreiðslu, enda verður ráðið af bókun skipulagsnefndar 15. febrúar 2011 að samkomulagið hafi beinlínis verið lagt til grundvallar við ákvörðun nefndarinnar um að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Þá liggur og fyrir að samkomulag þetta var lagt fram á fundi bæjarstjórnar 24. maí 2011 án þess að nokkrar athugasemdir kæmu þá fram um efni þess.  Miðað við þessa niðurstöðu eiga kærendur ekki lengur þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem eru skilyrði kæruaðildar, sbr. þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og verður þessum kærulið því einnig vísað frá.

Samkvæmt framansögðu verður máli þessu vísað í heild sinni frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson