Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 66/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 um að samþykkja að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. Júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir einn eigenda Óttarsstaða, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 að samþykkja að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. júlí 2022.
Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni í Hafnarfirði lá fyrir 21. desember 2021. Með umsókn til Hafnarfjarðarkaupstaðar hinn 18. febrúar 2022 sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi fyrir tvöföldun á um 5,6 km kafla Reykjanesbrautar sem nær frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur ásamt tengdum framkvæmdum. Umsóknin var lögð fram og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022. Skipulagsfulltrúa var falið að gefa út framkvæmdaleyfi og málinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 9. mars 2022 var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs samþykkt. Skipulagsfulltrúi gaf út leyfi vegna framkvæmdanna 24. maí s.á. og var auglýsing þar um birt í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu 1. júní 2022.
Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 52. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 14. september 2022 gerðist að bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, samþykkti afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs frá 8. s.m. þar sem lögð var fram tillaga um að fella niður framkvæmdaleyfi Vegagerðarinnar vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar sem samþykkt hafði verið á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022, og staðfest í bæjarstjórn 9. s.m. Fram kemur að ástæða þessa hafi verið sú að greinargerð skv. 14. gr. skipulagslaga hefði ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins.
Með þessu er ekki lengur í máli þessu til að dreifa gildri stjórnvaldsákvörðun sveitarstjórnar sem skjóta má til úrskurðarnefndarinnar. Verður málinu því vísað frá nefndinni. Er um leið ekki tilefni til að reifa sjónarmið kæranda eða þeirra stjórnvalda sem að málinu koma.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.