Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2002 Garðastræti

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2002, kæra íbúa að Garðastræti 43, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Garðastræti 41.

Í málinu er nú kveðin upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2002, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Á, U, D og K, eigendur og leigjendur fasteignarinnar að Garðastræti 43, Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti . 

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í borgarráði hinn 29. október 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 3. september 2002, óskaði Andrúm arkitektar ehf., f.h. kínverska sendiráðsins á Íslandi, eftir því við skipulags- og byggingaryfirvöld Reykjavíkur að deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti yrði breytt, þannig að heimilað yrði að byggja bílskúr á lóðinni.

Beiðnin var grenndarkynnt frá 9. september 2002 til 7. október s.á. og gerðu kærendur athugasemdir við framkomna tillögu er lutu að því að húsið væri á svæði þar sem húsum, samkvæmt skipulagi, skyldi raskað sem minnst og þá sérstaklega gagnvart götumynd. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. október 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið samþykkta deiliskipulag sé andstætt lögvörðum hagsmunum þeirra. 

Kærendur halda því fram að húsaröðin við Garðastræti njóti svæðisbundinnar verndar sem takmarki mjög heimildir til breytinga á þeim hluta lóðanna er að götu snúi.  Breytingin á skipulaginu sé óþörf þar sem unnt sé að koma bílskúrnum fyrir á norðurhluta lóðarinnar.  Byggt sé að lóðarmörkum og þrengt að nágrönnum, þar sem örmjó ræma verði eftir að spennistöð Orkuveitu Reykjavíkur, sem standi nærri lóðarmörkum.

Málsrök húseiganda að Garðastræti 41:  Húseigandi krefst frávísunar málsins og bendir á að breyting deiliskipulagsins sé alfarið á svæði sem sé innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína sem sé hluti sendiráðs Kína.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæðið friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki.  Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og í framhaldi af því um leyfi til byggingar umræddrar bílgeymslu.  Með vísan til þessa hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem handhafi framkvæmdarvalds ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína, þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttar um stjórnmálasamband. 

Auk framanritaðs er frávísunarkrafan studd þeim rökum að kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að því.  Deiliskipulagið feli í sér heimild til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.  Ekki verði séð að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 43 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda því þær lúti aðallega að því að breytingin sé óæskileg og í ósamræmi við skipulag, auk þess sem bílaumferð sunnan við húsið valdi óþarfa truflun.  Þessum fullyrðingum sé hafnað sem órökstuddum, enda sé það í samræmi við skipulag hverfisins að heimila byggingu bílgeymslu og veita eiganda lóðarinnar þannig möguleika á þeirri nýtingu hennar sem samræmist nútíma kröfum. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda deiliskipulag varðar lóðina að Garðastræti 41, en fasteignin er í eigu kínverska sendiráðsins á Íslandi og er Viðskiptaskrifstofa sendiráðsins þar til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir því að breyting yrði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti og var fallist á það af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Máli þessu er því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir