Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2002 Kirkjuvegur

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2002, kæra eigenda Kirkjuvegar 15, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002 um útgáfu byggingarleyfis að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2002, sem barst nefndinni hinn 12. júní s.á., kæra A og Ó, bæði til heimilis að Kirkjuvegi 15, Hafnarfirði ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði ásamt leyfi fyrir byggingu geymsluskúrs á lóðinni. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 14. maí 2002.  

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 21. febrúar 2002 óskaði byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði eftir umsögn skipulagsdeildar bæjarins um umsókn eiganda hússins að Kirkjuvegi 9 þar í bæ um leyfi til að stækka einbýlishús á lóðinni ásamt því að byggja þar geymsluskúr.  Húsið var áður á einni hæð, en eftir breytingar ein hæð og ris með kvisti og viðbyggingu upp á efri hæð.  Við þetta hækkaði þak hússins um 1,5 metra svo unnt væri að nýta ris hússins til íbúðar og forstofan lengd um 1,1 metra í vestur.  Með breytingunni stækkaði húsið um 72,6 m²; úr 124 m² í 196 m². 

Hverfið sem húsið stendur í er ekki deiliskipulagt og þar eru húsgerðir mjög blandaðar eða allt frá því að vera „…lítil kot á einni hæð yfir í tveggja hæða reisuleg hús“, eins og fram kemur í samantekt/umsögn bæjarskipulags Hafnarfjarðar, dags. 5. mars 2002.   

Skipulags- og umferðarnefnd fjallaði um erindi byggingarfulltrúa á fundi nefndarinnar hinn 12. mars 2002 og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og umferðarnefnd er jákvæð gagnvart erindinu og felur bæjarskipulagi að láta fara fram grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.“   Erindið var grenndarkynnt eigendum aðliggjandi fasteigna en fasteign kærenda liggur ekki að fasteign byggingarleyfishafans og voru því kærendum ekki grenndarkynntar fyrirhugaðar breytingar.  Grenndarkynningin stóð yfir frá 14. mars 2002 til 15. apríl s.á. og bárust engar athugasemdir við hana. 

Byggingarnefnd ákvað á fundi hinn 8. maí 2002 „…að heimila byggingarfulltrúa að afgreiða erindið að uppfylltum atriðum um frágang teikninga.“ 

Um mánaðarmótin maí – júní árið 2002 urðu kærendur, sem eru eigendur fasteignarinnar að Kirkjuvegi 15, varir við að framkvæmdir væru hafnar við fasteignina að Kirkjuvegi 9.  Eigendur þeirrar fasteignar höfðu í upphafi árs 2002 kynnt kærendum fyrirhugaðar breytingar á fasteigninni og voru viðbrögð þeirra neikvæð því þær væru þess eðlis að þær myndu breyta útsýni og rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Ákvörðun byggingarnefndar frá 8. maí 2002 hafa kærendur kært til úrskurðarnefndar eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og halda því fram að breytingar á húsinu nr. 9 við Kirkjuveg séu þess eðlis að þeim hafi átt að vera grenndarkynnt áformin.  Fyrir liggi að framkvæmdin breyti útsýni sem þau hafi haft og rýri því verðgildi fasteignar þeirra.  Ef tekið sé mið af sjónarhorni þeirra fyrir og eftir breytingar fasteignarinnar nr. 9 við Kirkjuveg sé augljóst að talsverðir hagsmunir séu í húfi.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafanum var gefinn kostur á að koma að andmælum og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2003, rekja eigendur fasteignarinnar að þeir hafi farið með teikningar að breytingunum til allra „…nágrannanna í kring…“ og fengið samþykki þeirra til breytinganna. 

Málsrök byggingarnefndar:  Byggingarnefnd Hafnarfjarðarbæjar var gefinn kostur á að skýra viðhorf sitt til kærunnar.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags.18. september 2002, er greint frá bókun skipulags- og byggingarráðs frá 10. s.m. og segir þar eftirfarandi:  „Skipulags- og byggingarráð vísar til afgreiðslu byggingarnefndar, dags. 8. maí 2002, og skipulags- og umferðarnefndar og stendur við fyrri afgreiðslu málsins.“

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin hefur óformlega kynnt sér staðhætti við Kirkjuveg vegna undirbúnings úrskurðar þessa.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun veitti heimild til talsverðrar stækkunar hússins nr. 9 við Kirkjuveg í Hafnarfirði.  Á svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag er það meginregla, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að gera skuli deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins er gerð sú undantekning að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð, að undangenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Í grenndarkynningu felst að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, er kynnt málið og þeim gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. 

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu fór fram grenndarkynning vegna breytinga á fasteigninni en kærendunum voru ekki kynntar þær heldur aðeins eigendum aðliggjandi fasteigna, en fasteign kærenda liggur ekki að fasteign byggingarleyfishafans heldur stendur gegnt henni með lóðir á milli.  Kærendum var kunnugt um fyrirhugaðar framkvæmdir áður en til grenndarkynningarinnar var efnt og höfðu þá þegar lýst því yfir að þær myndu hafa neikvæð áhrif á hagsmuni þeirra.

Að mati úrskurðarnefndarinnar snerti byggingarleyfið hagsmuni kærenda þar sem heimilaðar breytingar samkvæmt því hafa áhrif á útsýni frá húsi þeirra.  Því bar skipulags- og umferðarnefnd, samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að grenndarkynna kærendum byggingarleyfisumsóknina svo andmæli og sjónarmið þeirra kæmust að í málinu áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Á hinn bóginn verður ekki fallist á að hagsmunaröskun kærenda sé svo veruleg að hún leiði til ógildingar byggingarleyfisins, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í lögum að íbúar í þéttbýli verði að þola að nágrannar þeirra nýti lögvarinn rétt sinn til hagnýtingar eigna sinna, þar með talinn rétt til viðbyggingar.  Verði aftur á móti gengið verulega gegn hagsmunum manna með þess háttar ákvörðunum kann slíkt að leiða til bótaréttar við sérstakar aðstæður, en um það álitaefni fjallar úrskurðarnefndin ekki.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002, sem staðfest var af bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 14. maí sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði, er staðfest.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir