Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2020 Hagasel

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Heiðarseli 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. júlí 2020.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag miðsvæðis Seljahverfis, sem samþykkt var í borgarráði 9. ágúst 1988, en upphaflegir skipulagsskilmálar fyrir Seljahverfi eru frá marsmánuði 1973. Hinn 19. desember 2018 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Hagasel. Í tillögunni fólst m.a. hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar úr 0,32 í 0,42 með heimilaðri byggingu á 600 m² íbúðakjarna á tveimur hæðum með átta íbúðum, ætluðum sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2019. Hinn 4. febrúar 2020 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn Félagsbústaða um byggingu tveggja hæða fjölbýlishúss með átta íbúðum á lóðinni Hagaseli 23 sem ætlað væri sem búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkur­borgar og Félagsbústaða. Á árituðum aðaluppdráttum sem fylgdu hinu kærða byggingarleyfi var brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall lóðar­innar þar með 0,44.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 85/2019, uppkveðnum 27. febrúar 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að þar sem stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni nr. 23. við Hagasel væri ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, væri óhjákvæmilegt að fella byggingarleyfið úr gildi. Hins vegar var hafnað kröfu um ógildingu ákvörðunar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi að því er varðaði lóðina að Hagaseli 23.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. mars 2020 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða, átta íbúða fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs og Félagsbústaða á lóð nr. 23 við Hagasel. Fyrirhugað hús yrði 580,2 m² (A-rými) og 48,9 m² rými undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða samtals 629,2 m². Það gæfi nýtingarhlutfallið 0,44. Var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars s.á., var vísað til þess að óskað væri eftir skipulagslegri afstöðu til aukningar á byggingarmagni B-rýma um 29,2 m². Heildaraukningin væri því 29,2 m². Breytingin væri talin óveruleg, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segi að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis gæti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndar­kynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðaði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Var því ekki gerð skipulagsleg athugasemd við erindið. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. mars 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt deiliskipulagi megi húsið á lóðinni nr. 23 við Hagasel vera 600 m² og nýtingarhlutfall 0,42. Lóðin sé 1.435 m². Byggingarleyfisumsókn sýni 580,2 m² hús (A-rými) og 48,9 m² undir svölum og svalagöngum (B-rými), eða skráða A+B fermetra 629,2 m². Það gefi nýtingarhlutfallið 0,438 (0,44). Munurinn sé 29,2 m² yfir leyfilegu nýtingarhlutfalli sem sé ekki í samræmi við heimildir deiliskipulags. Samkvæmt skilgreiningu á nýtingarhlutfalli, sbr. byggingarreglugerð nr. 112/2012, sé verið að samþykkja meira byggingarmagn en heimilt sé og sé því farið fram á ógildingu á ákvörðun byggingar­fulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 12. mars 2020, en þar komi fram að um óverulega breytingu (stækkun) sé að ræða samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé heimilt við útgáfu byggingarleyfis að víkja frá kröfum um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu. Ljóst sé að umræddir fermetrar hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem 600 m2 hús hefði mögulega haft, en form, staðsetning og hæð byggingarinnar sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og verði grenndaráhrif hennar því þau sömu og vænta mátti. Hafi kærendur ekki gert tilraun til að sýna fram á með hvaða hætti stækkunin hafi áhrif á hagsmuni þeirra.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að það verði að teljast undarleg vinnubrögð þegar skipulagsyfirvöld geri sérstaka deiliskipulagsbreytingu á reitnum með því að auka byggingarmagn í 600 m² en ákveða síðan að samþykkja 30 m² stærri byggingu en heimildir segi til um í deiliskipulagi. Fram komi í greinargerð borgaryfirvalda að um sé að ræða óverulega stækkun sem nemi tæpum 30 m² umfram heimildir í deiliskipulagi eða tæp 5%. Skilgreining á nýtingarhlutfalli eigi bæði við um A- og B rými og sé því ljóst að gera þurfi deiliskipulags­breytingu og grenndarkynna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 eða minnka húsið um áðurnefnda umframfermetra.

Stækkun hússins geti með engum hætti flokkast sem óverulegt frávik í ljósi þess að um 5% viðbótarstækkun sé að ræða sem laumað hafi verið í gegnum stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og hafi aldrei verið kynnt íbúum svæðisins. Viðbótarstækkanir af þessari stærðargráðu umfram heimildir í deiliskipulagi séu afar sjaldan samþykktar innan stjórnsýslu Reykjavíkur, enda sé hugsunin á bak við beitingu þessa ákvæðis sú að einungis skuli það gert í sérstökum tilfellum sem ekki eigi við í þessu tilviki þar sem hægt sé að fara aðrar leiðir. Því sé mótmælt að hagsmunir skerðist ekki við þessa umframfermetra, því aukningin hafi áhrif á útsýni vegna stærri byggingar og hafi auk þess bein áhrif á nýtingu reitsins.

Niðurstaða: Fyrir liggur að á árituðum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er brúttóflatarmál A- og B-rýma samkvæmt skráningartöflu 629,1 m² og nýtingarhlutfall um­ræddrar lóðar þar með 0,44. Heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt deiliskipulagi er 0,42, sem heimilar allt að 602,7 m² byggingu. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis er því samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Reykjavíkurborg telur hins vegar að frávik frá deiliskipulagi rúmist innan heimildarákvæðis 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga getur sveitarstjórn heimilað að gefið sé út byggingar­leyfi sem víki óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Ljóst er að um undanþáguákvæði er að ræða sem túlka ber þröngt. Stærð fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni við Hagasel 23 er 26,4 m² umfram leyfilegt hámarksflatarmál húss samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins. Lóðin er staðsett í grónu hverfi og ekki unnt að útiloka að umdeild frávik frá gildandi deiliskipulagi hafi grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem verið hefði samkvæmt heimildum deili­skipulags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið voru þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga fyrir því að vikið sé frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. mars 2020 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús undir búsetuúrræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félags­bústaða hf. á lóðinni nr. 23 við Hagasel.