Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2000 Garðsstaðir

Ár 2001, miðvikudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2000; kæra eigenda og íbúa húsanna nr. 42, 44, 46 og 48 við Garðsstaði í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til að byggja skjólvegg við suðvesturhorn lóðarinnar nr. 56 við Garðsstaði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. október 2000, sem barst nefndinni hinn 20 sama mánaðar, kæra eigendur og íbúar húsanna nr. 42, 44, 46 og 48 við Garðsstaði í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til að byggja skjólvegg umhverfis suðvesturhorn lóðarinnar nr. 56 við Garðsstaði.  Krefjast þeir þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við byggingu veggjarins verði stöðvaðar. 

Byggingarfulltrúanum í Reykjavík var þegar í stað gert viðvart um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Við athugun hans á vettvangi kom í ljós að framkvæmdir voru ekki í samræmi við samþykktar teikningar og stöðvaði hann því framkvæmdir við verkið.  Við nánari athugun kom ennfremur í ljós að fyrirhugaður veggur samræmdist ekki skipulagsskilmálum fyrir Staðahverfi.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 7. nóvember 2000 voru lagðir fram nýir uppdrættir ásamt umsókn um breytingu á hæðarkóta hússins að Garðsstöðum 56 og um leyfi til að breyta girðingu á suðurhluta lóðarinnar.  Var umsókn þessi samþykkt á fundinum en jafnframt voru eldri uppdrættir felldir úr gildi.  Kærendum var gert kunnugt um þessi málalok.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík verið afturkölluð og eru réttaráhrif hennar fallin niður.  Þykja kærendur eftir það ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunarinnar.  Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru eigenda og íbúa húsanna nr. 42, 44, 46 og 48 við Garðsstaði í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000, um að veita leyfi til að byggja skjólvegg við suðvesturhorn lóðarinnar nr. 56 við Garðsstaði, er vísað frá úrskurðarnefndinni.