Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2000 Vesturvör

Ár 2001, miðvikudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2000; kæra Desember ehf. á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 15. mars 2000 um að setja skilyrði um lyftu í nýbyggingu að Vesturvör 30 B í Kópavogi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2000, sem barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, óskar Sigurður Gunnarsson framkvæmdastjóri, f.h. Desember ehf., eftir úrskurði nefndarinnar um kröfu byggingarnefndar Kópavogs um að settar skuli lyftur milli neðri og efri hæðar iðnaðarhúsa að Vesturvör 30 A og 30 B.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. mars 2000.

Málsatvik:  Kærandi var rétthafi að lóðunum nr. 30 A og 30 B við Vesturvör í Kópavogi.  Hugðist hann hefjast handa um byggingu iðnaðarhúsnæðis á lóðunum og lagði fram umsókn um byggingarleyfi.  Við afgreiðslu umsóknar kæranda kom upp ágreiningur milli kæranda og byggingarnefndar Kópavogs um túlkun á ákvæði greinar 201.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Gerði byggingarnefnd, með vísun til umrædds ákvæðis, kröfu til þess að gert yrði ráð fyrir lyftum milli 1. og 2. hæðar húsanna en kærandi taldi þá kröfu ekki réttmæta.  Leitaði kærandi m.a. álits Skipulagsstofnunar um ágreininginn og kemur fram í áliti stofnunarinnar, dags. 3. febrúar 2000, að hún telji umrætt ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 ekki eiga við um iðnaðarhúsnæði.  Þrátt fyrir þetta álit synjaði byggingarnefnd Kópavogs umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir húsi að Vesturvör 30 B á fundi sínum hinn 15. mars 2000, þar sem lyftu vantaði í húsið.

Eftir að kærandi hafði vísað framangreindum ágreiningi til úrskurðarnefndarinnar komu álitaefni um lyftur í umræddum húsum til frekari skoðunar byggingarnefndar.  Hinn 15. maí 2000 var samþykkt í byggingarnefnd breyting á teikningu af húsinu nr. 30 A við Vesturvör og var lyfta, sem sýnd hafði verið á teikningu þess húss, felld út.  Jafnframt munu endanlegar teikningar að Vesturvör 30 B hafa verði samþykktar án þess að krafa væri gerð um lyftu í því húsi.

Úrskurðarnefndinni barst vitneskja um breytta afstöðu byggingarnefndar í málinu og var þess vænst að kærandi myndi afturkalla kæru sína þar sem komið hafði verið til móts við sjónarmið hans í málinu.  Var frekari meðferð málsins frestað af þessum sökum.

Þar sem afturköllun barst ekki leitaði úrskurðarnefndin, seint í deember 2000, skriflegrar staðfestingar byggingarfulltrúans í Kópavogi þess efnis að fallið hefði verið frá kröfum um lyftur í umræddum húsum.  Barst umbeðin staðfesting hinn 29. desember 2000.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs verið afturkölluð og eru réttaráhrif hennar fallin niður.  Þykir kærandi eftir það ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunarinnar.  Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Desember ehf. á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 15. mars 2000, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir iðnaðarhúsi að Vesturvör 30 B í Kópavogi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.